Færslur

Krýsuvík

Í Krýsuvík eru alsnægtir jarðfræðiáhugafólks – jarðhiti, ísaldarmyndun fjalla, jökulsorf og bergmyndanir í ólíklegasta formi, Má þar nefna bólstraberg, móberg og hnyðlinga, að ónefndum einsökum bergmyndunum í norðanverðu Bæjarfelli.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Einhverju sinni skrifaði spakmælt dóttir föður sínum, eftir að hún hafði farið til framhaldsmenntunar í fjarlægðri heimsálfu, eftirfarandi: “Sæll pabbi minn, fór í heimsókn og bar úr bítum lús. Tók eftir því er ég lagðist í rúmið mitt um kvöldið. Segja má því að nú sé ég loksins komin í skóla lífins”. Það má sama hæti segja að enginn jarfræðingur eða áhugamaður/-kona um jarðfræði hafi numið í skóla lífsins fyrr en hann/hún hafi skoðað og gaumgæft Krýsuvíkursvæðið.
Jarðfræðiskóli lífsins er því í Krýsuvík. Þar má sjá með eigin augum ferðalög efnis og áfangastaði þess um allnokkurn tíma, afleiðingar jarðskjálfta og eldsumbrota og þar má auðveldlega geta sér til um hvert framhaldið kann að verða.

Krýsuvík

Grænavatn í Krýsuvík.

Í Krýsuvík er ágætt dæmi um ker, þ.e. sprengigíg með lágum gígrima og þar sem nær eingöngu koma upp gosgufur. Oft er og stöðuvatn í slíkum gígum. Ker þetta er Grænavatn.
Ker, sem á vísindamáli kallast maar, verða til við gufusprengingar á sívalri gosrás þegar eingöngu gýs gosgufum og bergmylsnu sem rifnað hefur úr gosrásinni. Oft er sprengikrafturinn svo mikill að upphleðslan verður lítil sem engin á börmunum. Kerin eru yfirleitt svo djúp að þau ná niður fyrir grunnvatnsborð og vatn safnast því fyrir í gígnum að gosi loknu.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Strangt tiltekið fellur líklega enginn íslenskur sprengigígur undir þessa skilgreiningu því þeir hafa flestir gosið gjósku eða hraunspýjum úr ferskri kviku. Grænavatn í Krýsuvík kemst því líklega næst því að kallast ker. Í þennan flokk er einnig venja að flokka gígvötnin í Veiðivötnum, Ljótapoll og Hnausahyl. Heiti sitt dregur þessi gerð eldfjalla af Kerinu í Tjarnarhólum í Grímsnesi sem lengi vel var líka talið til þeirra þó síðar hafi komið í ljós að það er venjulegur gjall- og klepragígur sem hraun hefur runnið frá.
Grænavatn er einnig ágætt dæmi um svonefnd gígvötn.

Hnyðlingur

Hnyðlingur.

Hnyðlingar eru brot úr framandbergi sem berst upp með kvikunni og því ekki eiginleg gosefni. Brotin eru líklegast úr gígrásinni eða úr þaki kvikuþróarinnar. Oft eru slík brot úr grófkornóttu djúpbergi og skera sig því greinilega úr fín- eða dulkornóttum bergmassa hraunsins eins og til dæmis í hrauninu í Hrólfsvík austan Grindavíkur. Hnyðlingarnir þeytast oft hátt upp úr gígnum og lenda síðan hjúpaðir storku kvikunnar. Slíkir hnyðlingar eru algengir umhverfis sprengigíginn Grænavatn við sunnanvert Kleifarvatn í Krýsuvík.
Þekktur fundarstaður gabbróhnyðlinga á Íslandi eru t.d. við Grænavatn í Krýsuvík og Miðfell og Mælifell við Þingvallavatn. Greina má ólivín (grænt) og plagíoklas (grár) í hnyðlingnum á myndinni auk þess sem greinilega má sjá næstum hvítan hvarfarima á milli hnyðlings og grannbergs. Riminn er svo til eingöngu úr plagíóklas sem hefur vaxið hornrétt á hyðlingana.

Krýsuvík

Hraunmyndun.

Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Seltún

Seltún.

Hverasvæðin í Krýsuvík hafa um aldir haft mikið aðdráttarafl. Stærsti leirhver landsins er í Krýsuvík og þar má reyndar finna flest allt er prýtt getur slík svæði. Fjölbreytnin er ótrúlega mikil. Brennisteinn var m.a. unninn á svæðinu á 19 öld. Hverasvæðunum er gerð skil í annarri umfjöllun á vefsíðunni.
Helstu skjálftasvæðin á Íslandi eru tvö. Á Suðurlandi er jarðskjálftasvæði sem nær eftir Reykjanesskaga um Ölfus og

Krýsuvík

Krýsuvík – Hetta og Hattur.

Suðurlandsundirlendið austur að Heklu. Úti fyrir Norðurlandi er annað skjálftasvæði. Það nær frá mynni Skagafjarðar og austur að Melrakkasléttu. Á báðum þessum svæðum eru þverbrotabelti með þvergengjum á Atlantshafshryggnum. Á Suðurlandi er vinstra sniðgengi en hægra sniðgengi úti fyrir Norðurlandi.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð..

Vegna ármilljóna langrar sögu af jarðskjálftum og jarðummyndunum á svæðum sem Reykjanesinu þarf enginn í raun að hafa áhyggjur. Ef eithvað áhugavet gerist verður að án efa einhverjum, og jafnvel fleirum, til framdráttar. Eldgos hér á landi hafa ávallt orðið til að auka við landið, sem náttúruöflin hafa reynt að brjóta niður með einum eða öðum hætti. Sjórinn nagar strandirnar, jöklar, vindur og vatn sverfa fjöll og hlíðar og ár og lækir reyna að fletja út bakka og fjallshlíðar.
Lúsin kemur og hverfur. Það gera fjöllin einnig – jafnvel þótt þau virðist tilkomumikil um stund.

Austurengjar

Austurengjalækur.

Grindavík

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallaði í Náttúrufræðingnum 1974 um “Sundhnúkahraun við Grindavík”:

Eldgos

Litli-Hrútur við Fagradalsfjall; eldgos 2023.

Á Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka. Hraunin hafa orðið til á alllöngum tíma. Elst eru dyngjurnar, s.s. Sandfellshæð, Lágafell, Vatnsheiði, Lyngfell og Fagradalsfjall. Yngri eru úr stökum gígum, s.s. sunnan Þórðafells og Kálffell og loks eru þau yngstu úr gígaröðunum, s.s. Eldvarparhraunin, Illahraun og Sundhnúkahraun, sem margar hafa kaffært þau eldri. Hraunmyndanir þessar hafa orðið til í áralöngum goshrinatímabilum í gegnum aldirnar. T.d. er saga Grindavíkur gloppótt á 12. og 13. öld þegar ein goshrinan réð þar ríkjum.
Enn, nú á 21. öld, er ummyndun hraunanna í gangi ofan Grindavíkur, í og við Fagradalsfjall, sbr. rangnefnið Fagradalshraun.

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkahraun

Grindavík ofanverð.

Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun.

Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar. Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrzta hluta þessarar hrauntungu.
Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunfióð það, er til suðurs rann, komið.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun.

Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin.

Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra-Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).

Sundhnúkur

Skúti við Sundhnúk.

Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra-Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra-Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð.

Kálffell

Í Kálffelli.

Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.
Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun.

Eldri gígaröð

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir.
Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan.

Rauðhóll

Rauðhóll í Sundhnúkahrauni.

Gígur [Rauðhóll] þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er
getið.

Hvenœr rann hraunið?

Melhóll

Hrauntröð suðvestan Hagafells.

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.

Ummyndun og jarðhiti

Svartsengi

Svartsengi.

Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0° C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 3.-4. tbl. 01.02.1974, Sundhnúkahraun við Grindavík, Jón Jónsson, bls. 145-153.

Grindavík

Gengið um Grindavík og nágrenni – í Sundvörðuhrauni.

Litluborgir

Gengið var frá Kaldárbotnum áleiðis að Valabóli.

Valahnúkar

Gengið á Valhnúka.

Tröllin á austanverðum Valahnúkum teygðu sig upp í loftið svona til að gefa til kynna að ekki mætti ganga framhjá þeim í þetta skiptið. Þegar komið var á milli Valahnúkanna að vestanverðu mátti sjá hrafnslaup austan í vestanverðum hnúkunum. Laupurinn er á fallegum stað og aðgengilegum til skoðunar. Horft var yfir Valabólasvæðið og yfir að Búrfelli áður en gengið var uppá austanverða hnúkana, til móts við tröllin. Þau eru þarna ýmist þrjú eða fjögur, eftir hvernig á þau er litið. Um er að ræða berggang í gegnum hnúkana og mynda tröllinn efsta hluta þeirra, þ.e. þann er vindar, veður og regn hefur ekki tekist að vinna á, enn a.m.k.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Þegar komið var niður af hnúkunum að suðaustanverðu mátti sjá þar hluta misgengisins, sem liggur í gegnum sunnanverð Helgafellið. Haldið var suður fyrir fjallið og stefnan tekin á hraunsvæði Tvíbollahrauns þar sem fyrir eru nokkurs konar Minni-Dimmuborgir, hraunsúlur og þak yfir. Margir skútar og kytrur standa á súlum í hrauninu. Tveir hellar eru þarna, annar sæmilegur með fallegum hraunsúlum inni í, en auk þess fannst op á öðrum. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi komið þangað inn.
Eftir að hafa fjarlægt nokkra steina frá opinu sást hvar göng lágu niður á við og inn undir hraunið. Þar sem ekki var ljós meðferðist að þessu sinni bíða þessi göng nánari skoðunnar síðar. Gæti orðið áhugavert að kíkja þar inn. Opið er í jarðri svæðisins.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Þessar fallegu hraunmyndanir virðast hafa orðið til er hraunið rann þarna niður eftir og í vatns, sem þá hefur verið þarna aflokað sunnan Helgafells. Sömu myndanir má sjá í hrauninu skammt norðaustar, en bara í minna mæli. Þá eru þarna nokkrir gervigígar, sem einmitt hafa myndast við sömu aðstæður. Þetta er mjög fallegt hraunsvæði, sem ástæða er til að ganga varfærnislega um því mosinn þarna þolir varla mikinn umgang. Hann er órjúfanlegur hluti af heildarmynd svæðisins.

Burnirót

Burnirót.

Nokkrar blómtegundir eru að reyna að festa rætur nálægt opunum, s.s. burnirót, steinbrjótur, blágresi og fleiri tegundir. Svipuð jarðfræðifyrirbæri eru t.d. í Katlahrauni við Selatanga og Hraunsnesi austan Ísólfsskála. Þar hefur hraunið runnið í sjó fram og þá myndast hraunstöplar og holrúm á milli uns þakið féll niður og lægðir og hraunbollar mynduðust.
Á svæðinu eru nokkur hraun og er þetta hluti af eldra helluhrauni, því sama og liggur að Helgafelli. Gæti verið Tvíbollahraun, sem fyrr er nefnt eða hluti af Hellnahrauninu. Skammt ofan við svæðið er úfið aðpalhraun, Húsfellsbruni.

Helgafell

Helgafell – steinbogi.

Gengið var vestur með Helgafelli, hlustað á smyril smella í hlíðum þess, sjá steinbogann efst í fjallinu og síðan gegnið áleiðis yfir Riddarann. Þá var þar fyrir fallegur gráleitur spörfugl á stærð við skógarþröst með gula bringu. Varðaði hann nálæga fugla við af ákafa. Ágætt útsýni er af Riddaranum yfir að Gvendarselsgígum undir Gvendarselshæðum.
Gengið var eftir sléttu helluhrauninu neðan Helgafells að austustu gígunum í gígaröðinni og þeir skoðaðir.
Fallegt veður – stilla og hlýindi. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Litluborgir

Gengið var frá Kaldárseli upp með Kaldárhnjúkum vestari og inn með gígaröðinni sunnan Gvendarselshæða og stefnan síðan tekin á Skúlatún, gróðurvin í hrauninu vestan Dauðadala. Engin sýnileg ummerki eru eftir minjar á Skúlatúni. Þaðan var gengið til baka að Gullkistugjá og gjánni fylgt til austurs að suðurhorni Helgafells.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Komið var við í “Minni Dimmuborgum” (stundum nefnt Hraungerði eða Litluborgir) í hrauninu sunnan vegarins og gengið þaðan í vesturenda Neðri-Strandartorfa. Borgirnar eru á tiltölulega afmörkuðu svæði og erfitt að finna þær. Hraunið virðist hafa storknað þarna í vatni eða vatnskenndum jarðvegi með þeim áhrifum að hellar og hraunsúlur hafa myndast hingað og þangað. Hægt er að þræða hellana, sem eru opnir og með mjög fallegum hraunmyndunum. Mosinn þarna er mjög viðkvæmur fyrir átroðningi, en hingað til hefur svæðið fengið að vera að mestu í friði fyrir forvitningum og því fengið að vera ósnortið. Hins vegar munaði litlu að línuvegurinn væri lagður yfir svæðið á sínum tíma, en góðum mönnum tókst að afstýra því í tíma, þökk sé þeim Magnúsi og Ingvari.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Svipuð jarðfræðifyrirbæri eru í Dimmuborgum í Mývatnssveit, Katlahrauni við Selatanga og víðar.
Gengið var upp klapparhæðina og síðan austur yfir að Efri-Strandartorfum. Leitað var fjárhelli í Kaplatór þar norður af, en hann fannst ekki. Eftir að hafa gengið yfir hraunið í norður var komið við í Mygludölum og síðan gengið áfram niður að Valabóli þar sem komið var við í Músarhelli.
Veður var frábært, sól og hiti. Haldið var yfir skarðið á Valahnjúkum og síðan veginn niður að Kaldárseli.
Gangan tók um 2 og ½ klst.
Frábært veður.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Hverasvæði

Farið var í ferð um Reykjanesið frá Njarðvíkum til Grindavíkur undir leiðsögn Þorvaldar Arnar Árnasonar og Ægis Sigurðssonar. Ferðin var liður í námi leiðsögumannsefna um Reykjanesið.

Keflavík

Grófin – Skessuhellir.

Byrjað var í Grófinni í Keflavík. Undir berginu að norðanverðu útskýrði Ægir bergið og myndun þess. Það er að mestu blágrýti og grágrýti. Þétt setlög liggja ofan á berginu. Þarna er myndarlegur fyrrum sjávarskúti til skjóls. Þorvaldur útskýrði og kynnti m.a. fjörukál, þúfusteinbrjót og geldingarhnapp til sögunnar. Sú litadýrð virðist meiri en ella á annars gróðursnauðum sæbörðum bergveggjum Reykjanessins en víðast hvar annars staðar á landinu.
Haldið var yfir í Helguvík. Þar má sjá í útsprengdum hömrum þykk hraun- og berglögin og sumsstaðar rauðleitan bruna á milli þeirra, eingum að norðanverðu.
Ægir útskýrði þunn jarðlögin undir jarðveginum á svæðinu, t.d. í kringum Rósarselsvötn. Þau eru lek, en hafa þéttst með tímanum þannig að vatnið helst þar á yfirborðinu, a.m.k. á vatnasvæðinu.

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Á Pattersonsvæðinu var leitað að “lífstöðugrjóti”. Í því eru skeljar er gos undir jökli fyrir u.þ.b. 2500 árum hafði tekið með sér af sjávarbotni og má finna þær í hörðum setlögunum, sem þarna eru. Nokkur falleg sýni fundust.
Þorvaldur benti á að víða væri víðir að koma upp á skaganum, en það bendir til þess að hann hafi verið þar allvíða áður en gróðureyðingin varð.
Í Höfnum var farið niður á gamla hafnargarðinn og fuglalífið skoðað. Mátti m.a. berja augum fargestina tildru og rauðbristing, kríu, skarf, æðarfugl, auk fagurlitaða gula fléttu (fuglaglæðu) á steinum, að ekki sé talað um þang og þara.
Reykjanesið sjálft utan Hafna er sandorpið dyngjuhraun. Hraunreipi, sem einhvern tímann hefur einkennt yfirborðið er nú afsorfið. Annars gefur gróðurleysið svæðinu hið fallegasta yfirbragð.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Stóra-Sandvíkin er melgresisparadís. Melgresið hefur bundið sandinn og myndað háa skjólgóða sandhóla næst sjónum og ofan hans. Þarna munu hafa verið upptök þess sands, sem kom af sjó og fyrrum fauk um Hafnaheiðina og lagðist síðan yfir Hafnir. Það var því góð hugmynd að byrja á því að hefta sandfokið í “uppsprettunni” að mati Þorvaldar. Í Sandvíkurfjörunni mátti m.a. sjá hornsvamp, fjöruarfa, blálilju, klóþang (með einni bólu), bóluþang (með tveimur samhliða bólum og svolítið þynnra), söl og þangskegg, auk skelja og kuðunga. “Dýnamatiskt umhverfi” að mati Þorvaldar.

Reykjanes

Frá Reykjanesi.

Í Stömpum var gengið upp í einn þeirra. Skoðað var hvaða gróðurtegundir gígurinn hafði að bjóða upp á. Reyndust þar vera um 20 talsins, svona fljótt á litið. Í jaðri gígsins er lítið op og má finna uppstreymið út úr því. Innan við opið er fallegur dropasteinn. Með skóflu væri eflaust hægt, þó ekki væri annað, að kíkja innfyrir og sjá hvar þar kann að leynast. Stamparnir eru taldir hafa myndast um 1211 sem uppkoma á hrauni, sem síðan rann frá gígunum eftir hrauntröðum og loks um “víðan völl”. (Norðan undir Stömpum er skráðar heimildir um sel, sem á eftir að staðsetja, en það getur reynst erfitt sökum sandfoksins. Selsins er getið í fornleifaskráningu svæðisins). Stamparanir eru gjall- og klepragígar og því háir, brattir og lausir í sér, sem er einkennandi fyrir slíka gíga. Eldra-Stampahraunið er um 1500 ára gamalt, en Yngra-Stampahraunið er talið vera frá 1211.

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll.

Haldið var framhjá Forsetahól á leið út að Reykjanesvita. Ægir sagði frá tilvist nafnsins (til í tveimur útgáfum), sagði frá myndun Bæjarfells og Vatnsfells (vatnið, sem fellið dregur nafn sitt af er hægra megin við veginn áður en beygt er áleiðis að fellunum), en þau munu vera úr bólstrabergi eins og Forsetahóll (Litlafell).
Niður við sjávarkambinn norðan Valahnjúka útskýrði Ægir bergmyndanirnar. Undir kambinum mátti sjá lögin “ljóslifandi”. Undir er sandlag. Efsta lag þess hefur hitnað er nýtt hraun lagðist yfir og soðnað þannig að það varð hart. Ofan á hraunlaginu er síðan nýrra hraunlag.

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Þessa skiptingu mátti ljóslega sjá í Valahnjúkum og Börnunum beint framundan kambinum. Neðst (þ.e. það sem sjáanlegt er) er hart setlag, þá grágrýti og loks sundurlausari hraunlög, sem sjórinn á tiltöllega auðvelt með að mala niður. Karlinn er utar, harður eins og steinn, en Kerlingin er horfin í hafið. Valhnúkur er úr móbergi, en allráðandi er brotaberg, bólstraverg og grágrýtisinnskot.
Fyrsti viti landsins var byggður á honum árið 1878, en sjórinn er nú búinn að brjóta hnúkinn þar sem vitastæðið var. Undir kambinum að austanverðu má sjá fallega hlaðna aðdráttargötuna.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Við Gunnuhver voru jarðhitaeinkennin útskýrð. Tíminn var einnig notaður til að skoða grunninn undan húsi Höyers, sem þar bjó um tíma, tóftir útihúsa hans og garðhleðslur. Við Gunnuhver vex m.a. Njaðurtunga.
Þegar haldið var frá Gunnuhver mátti sjá Sýrfell á vinstri hönd. Vestan þess er fallegur hraungígur á öxl. Nefnist hann Hreiður. Yngra Sýrfellshraunið (1500 ára gamalt) er talið hafa komið úr gígnum. Löng hrauntröð er út frá því til suðurs, vnstra megin þjóðvegarins. Skálafell og Háleyjabunga eru á hægri hönd. Í hinu fyrrnefnda er gígur og gosrás til hliðar við hann (Skálabarmshellir) og í hinu síðarnefnda er fallegur og stór sprengigígur.

Reykjanesviti

Gata að grjótnámunni við Reykjanesvita.

Á leiðinni til Grindavíkur er ekið yfir Skálafellshraunið á “smábleðli”. Þá tekur Klofningshraunið við, en það mun hafa komið úr Eldvörpum (Eldvarparhraun – H15). Það er helluhraun, tiltölulega slétt, en margbrotið.
Brimketillinn er þarna á leiðinni, á sjávarbakkanum, öðru nafni Oddnýjarlaug. Um er að ræða fallegt náttúrfyrirbæri.
Sandgellshæðin er um 13000-14000 ára. Ú þeirri dyngju er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum.
Staðnæmst var við Grænubergsgjá og lýsti Ægir tilkomu hennar (vesturausturstefnan) á sprungusvæðinu. Í gjánni er ferskvatn og hefur hann séð ála í henni, sem hann taldi hafa verið “handfærða” þangað. Álar “stofnuðu” ekki heimili á Íslandi, heldur langt suður í höfum.

Þorbjörn

Þorbjörn.

Þorbjörn er talinn hafa myndast seint á síðasta ísaldarskeiði, en hann er sennilega eldri að stofni til, eða frá næst síðasta ísaldarskeiði. Í honum eru tvö misgengi eða gjár og hefur toppur hans sigið á milli þeirra. Sprungurnar liggja til norðurs eða þvert á brotabeltið (rekabeltið). Fjallið er hlðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Utan á fajallinu er kápa úr jökulbergi.
Norðan Lágafells (vestan Þorbjörns) er Illahraun og Illahraunsgíga. Talið er að hraunið hafi runnið á tímabilinu frá 1211 til 1226. Hraunið hefur runnið úr a.m.k. 5 gígum. Nyrsti gígurinn er sýnum stærstur.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Bent var á “undirlendi” Svartsengisfjalls sem ágætt dæmi um vallendismyndun. Vatn og lækir bera jarðveg úr hlíðum fjallsins niður á láglendið þar sem það myndar flatir er gróa síðan upp, sbr. einnig Höskuldarvelli, Sóleyjarkrika, Selsvelli og Baðsvelli.

Ekið var um Sundhnúkahraun og um Arnarseturshraun. Hið síðarnefnda er hellaríkt. Þar hafa fundist allnokkrir hellar, s.s. Dollan, Hnappurinn (Geirdalur) og Kubbur) og fleiri eiga eflaust eftir að finnast. Hellar myndast yfirleitt í þunnfljótandi hraunum.

Hnappur

Í Hnappnum.

Arnarseturshraun er talið vera frá 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 metra langri gígröð um 500 m austan við Grindavíkurveginn.
Þegar komið er að sigdalnum við Seltjörn eftir að Arnarseturshrauni sleppir er farið yfir tvö hraunlög; fyrst smábleðil af Sandfellshæðarhrauni og síðan grágrýtissvæði frá Grímsholti. Misgengisstapar eru beggja vegna; á aðra hönd bjallarnir (Háibjalli, Kálfgarðsbjalli o.fl.) og á hina misgengin í heiðinni (Nýjaselsbjalli, Huldugjá, Aragjá o.fl.).
Þegar nálgast tók Njarðvík lýsti Þorvaldur uppgræðslutilraunum norðan Reykjanesbrautar og einkennum mólendissvæðisins þar. Lauk lýsingum þeirra svo með vangaveltum um hið vanþróaða umræðustig um vægi náttúruverndar á svæðinu.
Frábært veður.

Reykjanes

Sjávarhellir á Reykjanesi.

Litluborgir

Hér á eftir eru nokkur atriði varðandi jarðmyndanir, hraun og jarðsyrpur á Reykjanesi.

-Jarðmyndanir:

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræði

Eldstöðvarkerfin á Reykjanesi eru fimm talsins og liggja frá norðaustri til suðvesturs. Á þeim hafa myndast gossprungur og gos hraun komið upp á nútíma (frá því fyrir 12-13 þús. árum). Áður var til grágrýtismyndunin úr fornum dyngjum, sem Rosmhvalanesið, Njarðvík, Stapinn, Löngubrekkur og Fagradalsfjall hvíla á.

-Jarðsyrpur:
Rosmhvalanesið er dæmi um fornar dyngjur á Reykjanesinu (eldri en 120 þús ára). Jökullinn hefur hefur sorfið klappir og mótað landið. Hann hopaði fyrir 12-13 þús. árum á Reykjanesi. Sjá má merki þess einnig á Lönguhlíðum, á Krýsurvíkurheiði í Fagradalsfjalli og ofan við Húsatóftir.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Helstu fjöll og fjallgarðar verða til á síðasta jökulskeiði, áður en jökullinn hopaði, s.s. Austurháls (Sveifluháls), Vesturháls (Núpshlíðarháls), Keilir, Trölladyngja, hluti Fagradalsfjalls, Þorbjörn, Lágafell, Þórðarfell, Stapafell og Súlur.
Nútímahraun renna eftir að ís leysti. Verða þá sprungugos (apal- og helluhraun) þar sem má þekkja eldri og grónari hraunin, s.s. Katlahraun, Skógfelllahraun, Sundhnúkahraun, Hvassahraun, Helluhraunið eldra, Dyngnahraun, Stampahraunið eldra, Eldvarpahraunin eldri o.fl.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Meginhluti skagans er þakin nútímahraunum, þ.e. hraunum er runnu eftir að jökul leysti (12-13 þúsund ára).
Nokkrar litlar dyngjur hafa gosið eftir síðasta kuldaskeið, s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðagígar, Lágafell og Hraunsfell-Vatnsfell (pikrít).
Þrjár til fjórar stórar dyngjur hafa einnig gosið á nútíma, s.s. Sandfellshæð, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja. Þá má nefna heiðina há og Strandarheiði. Mikil gos er skilað hafa miklu hraunmagni. Þessi hraun, auk sprunguhraunanna, hafa fyllt duglega inn á milli móbergssfjallanna og myndað skagann smám saman.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort.

Sprunguhraun héldu áfram að renna á sögulegum tíma (um og í kringum 1000 (Kristnitökuhraun), 1151 (Ögmundarhraun), 1188 (Afstapahraun) og 1226 (Stampahraun yngra). Þetta voru aðallega apalhraun, en þó einnig helluhraun (Arnarseturshraun).
Gjár og sprungur (NA-SV) einkenna Reykjanesskaga. Misgengi má sjá víða, s.s. við Snorrastaðatjarnir. Einnig þversprungur og misgengi (NS), s.s. í Þorbirni.
Víða má sjá einstakar og fallegar hraunmyndanir, s.s. gjall- og klepragíga, dyngjur og móbergs- og bólstramyndanir.

Jarðfræði, jarðasaga, jarðlagagerð og nokkur örnefni:

Jarðfræði

Jarðfræðikort.

Reykjanes-Langjökulssvæðið varð virkt fyrir um 7 milljónum ára þegar suðurhluti rekhryggjarins er lá um Snæfellsnesið dó út. Eldvirknin byrjaði nyrst en færði sig smám saman til suðurs og hlóð upp skagann.
Yfirborðbergið er grágrýti (dyngjuhraun), móberg og bólstraberg (Stapafell, Keilir) og nútímahraun, bæði frá því er ísa leysti fyrir 12-14 þús. árum (dyngjuhraun og sprunguhraun) og hraun frá sögulegum tíma. Forsögulegu hraunin eru runninn á nútíma, áður en landnáms hefst, en sögulegu hraunin eftir landnám. Stóru dyngjurnar eru Sandfellshæðin, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja (og jafnvel Strandarhæð), en auk þeirra eru nokkrar minni og eldri (pikrít-dyngjur), s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðargígar, Hraunsfells-Vatnsfell og Lágafell.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti (jarðfræðikort Ísor).

Frá ísaldarlokum hafa komið upp um 42 km3 af hraunum að flatarmáli um 1100 km2 frá yfir 200 eldstöðvum í 4 (5 eða 6) eldstöðvakerfum. Megineldstöð er aðeins að finna í Henglinum.
Jarðskjálftarenna liggur eftir miðjum skaganum og markar líklega mót plantnanna. Þar sem hún sker eldstöðvakerfin eru háhitasvæðin.
Síðasta kuldaskeið (ísöld) hófst fyrir um 120.000 árum þegar um 20.000 ára hlýskeiði lauk. Móbergsstapar gefa þykkt jökulsins til kynna, þ.e.a.s. hæð hraunhettu þeirra yfir umhverfið.
Grindavíkurfjöllin hafa þau sérkenni að berg þeirra hefur öfuga segulstefnu miðað við þá sem er í dag. Aldur þeirra er um 40.000 ár (sjá Siglubergsháls hér á eftir).

Hraunakort

Útbreiðsla hrauna frá 8. og 9. öld á Reykjanesskaga. Einnig eru sýnd hraun frá sögulegum
tíma (heimild: Kristján Sæmundsson o. fl. 2010).

Gosbeltin, sem marka skilin á milli skorpuflekanna eru 24-50 km breið. Eldvirknin innan þeirra er ekki jafn dreifð heldur raðast gosstöðvar og sprungur á nokkrar vel afmarkaðar reinar með mestri virkni um miðbikið. Eldstöðvakerfi skagans hliðrast til austurs. Stefna þeirra er NA-SV, en gosbeltið stefnir lítið eitt norðan við austur.
Margt bendir til að eldgos á Reykjanesskaga verði í hrinum eða lotum á um það vil 1000 ára fresti. Gos á sögulegum tíma urðu t.d. árið 1000 (Hellnahraun), 1151 (Ögmundarhraun, Astapahraun), 1188 (Mávahlíðarhraun), 1211 (Yngra Stampahraun) og 1226 (gígar utan við Reykjanesið).

-Einstök fjöll, fjallshryggir, gígar og hraun:

Valahnúkur

Valahnúkur.

Grágrýtismyndunin á Rosmhvalanesi og Stapanum svo og upp af Krýsuvíkurbjargi er 120-220 þúsund ára.
Valahnjúkur er úr móbergi, en alláberandi er brotaberg, bólstraberg og grágrýtisinnskot.
Bæjarfell/Vatnsfell eru úr bólstrabergi eins og Litlafell. Mynduð á svipuðum tíma og Valahnúkur.
Sýrfell er ú móbergstúffi og móbergsbrotabergi.
Miðaldarlagið (aska frá 1126) er leiðarlag á Reykjanesskaga upp í Hvalfjörð, Þingvallasveit og Ölfus. Kom líklega úr tveimur gígum, 2-3 km SV af Reykjanesi, sem náða hafa upp úr sjó og gosið surtseysku gosi. Nú eru þar 40-60 m háir hólar á um 20 m dýpi á sjávarhrygg.

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Eldra Stampahraunið er rúmlega 1500 ára. Gígaröðin er um 5 km að lengd og samanstendur af nokkrum allstórum gjallgígum og ótalsmáum kleprahrúgöldum. Einn gíganna ber þess glögg merki að hafa gosið í fjöruborði og þá hlaðist upp öskukeila en gosið breyst í hraungos líkt og með með mörg sprunguhraunanna á Reykjanesi.
Yngra Stampahraunið er frá 1211 og fyrsta gosið í Reykjaneseldum. Gígaröðin er um 4 km að lengd og endar í tveimur klepra- og gjallgígum, sem rísa um 20 m upp úr hrauninu. Gígar þessir nefnast Stampar og tekur hraunið nafn af þeim.
Haugshraun er kennt við gíginn Haug, sem stendur á vesturbarmi sigdals, sem nefnist Haugsvörðugjá. Prestastígurinn liggur m.a. um dalverpið.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Skálafell og Háleyjabunga eru gamlar dyngjur (pikrít), eð aum 14.000 ára. Háleyjabungan er eldri en Skálafellið. Í toppi hennar er hringlaga, skjólgóður og snotur gígur.
Sandfellshæðin er dyngja. Úr henni er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum. Yngri hraunin hafa runnið yfir stóra hluta hennar. Gígurinn er um 450 m að þvermáli og rúmlega 20 m djúpur.
Klofningshraun og Berghraun eru frá um 1211. Komin að mestu leyti úr Rauðhól, sem er nyrst í hrauninu.

Eldvarpahraun

Eldvarpahraun – Blettahraun.

Eldvarpahraun er hluti Reykjaneseldanna. Aðal gígaröðin er um 8,5 km að lengd, en þó ekki samfelld. Í henni eru allstórir gjall- og klepragígir, oftast nokkrir saman, sem tengjast næstu fylkingu með röð smágíga. Sundvörðuhraun nefnist austasti hluti þess, eftir hraunstrýtu sem notuð var sem siglingamerki.

Eldvörp

Eldvarpahraun.

Lambagjárhraun er smá hraunbleðlar í Eldvarpahrauni. Í því eru allmörg misgengi.
Eldvarpahraun eldra er um 2200 ára. Upptökin eru ókunn, en þó líklega í grennd við Eldvörpin.
Sundhnúkahraun er um 2400 ára. Norðaustur af Hagafelli er áberandi hnúkur, sem heitir Sundhnúkur (innsiglingamerki) og þaðan er nafnið komið af reyndar röð lítilla gíga. Skógfellavegurinn liggur meðfram hluta eldvarpanna. Hraunin eru dreifð víða um Grindavíkursvæðið og m.a. byggt upp Þórkötlustaðanesið og myndað þannig brimbrjót fyrir Grindavík.

Skipsstígur

Gengið um Rauðamel. Varða við Skipsstíg.

Hrólfsvíkurhraun er pikrít-hraun og líklega frá Vatnsheiði.
Húsafell og Fiskidalsfjall eru móbergsstapar, sem líklegast eru frá síðari hluta síðasta jökulsskeiðs. Undir þeim að sunnan eru miklar öskjudyngjur, sem gosið hafa á grunnsævi.
Rauðimelur er setmyndun, úr sandi og möl, sem teygir sig 2.5 km norðaustur frá Stapafelli. Setmyndun þessi er víða vel lagskipt og er 6-7 m þykk. Myndunin hvílir á jökulbergslagi,sem liggur ofan á grágrýti en um miðbik melsins kemur um 2 m þykkt jökulbergslag. Myndunin er að öllum líkindum sjávargrandi sem myndast hefur við rof á Stapafelli og Súlum. Grandinn er eldri en 40.000 ára og eftir því hvernig myndun jökulbergsins er túlkuð, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði. Stapafellið er mun eldri en grandinn, senniega frá næstsíðasta eða snemma á síðasta jökulskeiði.

Þórðarfell

Þórðarfell.

Stapafellið og Súlur eru að mestu byggt upp úr bólstrabergi og öskulögum, en berglag, stuðlað og án bólstramyndana, finnst líka. Lag þetta má túlka sem innskot eða jafnvel hraunlag.
Þórðarfell er úr bólstrabergi, en gæti verið yngra en Stapafellið.
Lágafell er hæðarbunga úr móbergi. Gígurinn bendir til þess að jökull hafi gengið yfir það.

Þorbjörn

Þorbjörn.

Þorbjörn er hlaðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Í toppi fjallsins er mikill sigdalur og er vestari stallurinn (Þjófagjá) tugir metra á hæð. Utan á fjallinu er kápa úr jökulbergi og bendir hún ásamt misgengjunum til nokkurs aldurs, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði.
Selháls, Hagafell og Svartengisfjall eru aðallega úr bólstrabergi, sem sést vel í Gálgaklettum. Þar er misgengisstallur sem klýfur fellið.
Stóra-Skógfell er úr bólstrabergi sf svipaðri gerð og Sandfell.

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Lágafell er eldra en Sandfellshæð. Það er lítil og nett pikrít dyngja. Klifgjá, 6-8 m hátt misgengi, sem gengur upp í Þórðarfell, sker dyngjuna um þvert og þar sjást hraunlög hennar ágætlega og hversu ólívínríkt bergið er.
Vatnsheiði myndaðist snemma á nútíma. Þrjár samvaxnar pikrít-dyngjur eða pikrítdyngja með þrjá samvaxna gíga (svæðisgos). Nyrsti gígurinn er stærstur og hæstur og nær hringlaga, líklega um 200 m að þvermáli.
Illahraun rann um 1226. Það hefur runnið úr fimm gígum á um 200 m gígaröð. Nyrsti gígurinn er stærstur og í rauninni tvöfaldur. Fyrst hefur myndast allstór gígur, en þegar virknin minnkaði hefur myndast nýr gígur á vesturbarmi þess eldri.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Arnarseturshraun rann um 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 m langri gígaröð um 500 m austan við grindavíkurveginn. Nyrstu og syðstu gígarnir hafa aðallega gosið hrauni, en á milli þeirra hlóðust upp gjallgígar, sem risið hafa um 25 m yfir hraunið, en nú hafa þeir verið að mestu brottnumdir. Hraunið er helluhraun næst gígunum, en frauðkennt og blöðrótt og brotnar gjarnan undan fæti. Í hrauninu er nokkrir allstóri hellar, s.s. Kubbur, Hnappur og Hestshellir.

Skála-Mælifell

Skála-Mælifell.

Dalhraun er allgamallt og hugsanlega úr gíg er stendur upp úr Sundhnúkahrauni.
Hrafnshlíð/Siglubergsháls er móbergsstapi, bólstraberg, móbergsþurs og túff, þakið grágrýti, sem komið er úr Bleikhól, áberandi gíg nyrst í fjallinu. Grágrýti þetta er öfugt segulmagnað og runnið á segulmund sem kennd er við Laschamp í Frakklandi. Fleiri slíkar basalthettur er á þessum slóðum, t.d. á Skála-Mælifelli, Hraunsels-Vatnsfellum og Bratthálsi. Aldur bergsins er um 42.000 ár. Fyrir rúmum 40.000 árum lá þunnur jökull yfir Grindavíkurfjöllunum sem teygði sig um 4 km vestur og norður frá norðurhorni Fagradalsfjalls.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Festarfjall og Lyngfell eru stapar sem rof sjávar hafa klofið í herðar niður og myndað hæstu sjávarhamra á Rekjanesi. Einnig sjást innviðir þess, m.a. berggangur.
Fagradalsfjall er dæmi um móbergsstapa á utanverðum skaganum. Neðst er bólstraberg, síðan túff og brotaberg og efst er myndarleg hraunhetta, sem komin er frá dyngjugíg nyrst í fjallinu.

Slaga

Slaga – berggangur.

Slaga er mynduð úr bólstrum og bólstrabrotum svo og hraunklessum og upp í þessar myndanir liggur gangur. Neðar við þær tekur við jökulriðið grágrýtislag, sem einnig nær undur Langahrygg og Fagradalsfjall.
Skála-Mælifell er móbergsfjall með rauðu gjalllagi undir hraunhettu á toppi fellsins.
Núpshlíðarháls er úr móbergi sem hefur myndast undir jökli í mörgum gosum, sem ekki hafa náð upp úr jöklinum. Meginþorri hans er frá síaðsta jökulskeiði, en í grunni hans geta verið eldri myndanir.
Latur, Latstögl og Latfjall eru röð móbergshnúka, aðallega móbergsbrotaberg.

Bólstri

Stærsti bólstri í heimi í Stapafelli.

Méltunnuklif er misgengisstallur rétt austan við Skála-Mælifell. Í klettanefi yst á því lesa upphleðslusögu svæðisins. Neðst er jökulrákað grágrýti, en ofan á það kemur þunnt jökulbergslag, því næst allþykk grágrýtislög (efra lagið er rispað af jökli) og ofan á þau nokkuð þykkt jökulbergslag sem hulið er móbergi.
Borgarhraun gæti hafa komið upp í gígum í sunnanverðu Fagradalsfjalli.
Höfðahraun er m.a. komið úr Höfðagígum og Moshólum, sem vegurinn liggur um. Hefur það runnið í sjó fram og myndað nokkra gervigíga og einnig er forn malarkambur í því rétt austan við Ísólfsskála.

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Misgengið Méltunnuklif nær út í hraunið.
Það nær að Ögmundarhrauni. Þunnfljótandi hraunið hefur runnið út í grunna vík. Í stað hefðbundinna gervigíga úr gjalli mynduðust niðurföll, hraunborgir, hraunrásir, hellar, sappar (hraunsveppir) og holar súlur þegar heitt hraunið snöggkólnaði og breytti vatninu í háþrýsta gufu. Litluborgir, austan Helgafells, og jafnvel Dimmuborgir eru taldar hafa myndast á svipaðan hátt.

Ögmundarhraun rann um 1151. Hraunið rann frá Krýsuvíkureldum (1151-1188). Það þekur botn Móhálsadals sunna Djúpavatns, allt til sjávar. Inni í hrauninu eru Húshólmi og Óbrennishólmi í eldra hrauni, báðir með fornum minjum í frá upphafi landsnáms.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Stóra-Eldborg er formfagur klepragígur, sem rís um 50 metra yfir umhverfið og er um 30 metra djúpur. Hraunin, sem runnu frá honum hafa myndað margar hrauntraðir.
Sveifluháls líkist Núpshlíðarhálsi, en er eldri og myndaður í fjölmörgum gosum, bæði á hlýskeiði- og kuldaskeiði. Upp úr honum ganga margir tindar, s.s. Hellutindar, sem er gosgangur. Sprengigígurinn Arnarvatn er upp á hálsinum þvert upp af Seltúninu, en þar er öflugt háhitasvæði.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Víða í helluhrauum Reykjanesskagans má sjá falleg og ólík hraunreipi.
Þegar yfirborð helluhrauna Hraunreipistorknar getur þunn skánin orðið reipótt eða gárótt á köflum við kælinguna frá andrúmsloftinu. Þessi skán leggst síðan í fellingar þegar bráðin undir rennur fram. Gárurnar nefnast einu nafni hraunreipi.
Í norðvestanverðum Brennisteinsfjöllum (Kistuhrauni) eru t.d. tilkomumikil hraunreipi. Ólík reipi má finna í Stórabollahrauni, Slokahrauni, Eldvörpum og víðar á Skaganum.

Hraunreipi

Hraunreipi.

Reykjanes

Magnús Á. Sigurgeirsson ritaði athyglisverða grein er hann nefnir “Þáttur úr gossögu Reykjaness – Gosskeið fyrir um tvö þúsund árum” í Náttúrufræðinginn (72) árið 2004. Þar fjallar hann aðallega um eldgos á undan síðasta gosskeiði á Reykjanesskaganum fyrir um 2000 árum.

Gossaga

“Gosmenjar sem varðveittar eru frá þessum tíma, veita mikilvægar upplýsingar um goshætti og umfang eldvirkninnar. Þótt enn sé margt á huldu um þetta gosskeið liggur fyrir ýmis vitneskja um það sem vert er að taka saman. Kveikjan að greininni eru athuganir höfundar á gosmenjum á Reykjanesi, suðvestasta hluta Reykjanesskaga, en þar kveður mikið að myndunum frá þessu tímabili.”
Í inngangi segir Magnús að “náttúrufar Reykjanesskaga hefur dregið að sér athygli náttúrufræðinga allt frá 18. öld er Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson stunduðu sínar rannsóknir þar. Hefur athyglin einkum beinst að hraunum og gígum, jarðhita og misgengjum, en allt setur þetta sterkan svip á ásýnd Reykjanesskaga. Allskýr mynd hefur fengist af eldvirkni á skaganum á nútíma, einkum síðustu tvö árþúsundin. Á því tímabili var eldvirknin bundin við tvö gosskeið sem stóðu yfir allt að fjórar aldir hvort. Á báðum gosskeiðunum, sem aðgreinast af um þúsund ára löngu hléi, urðu öll eldstöðvakerfin fjögur á Reykjanesskaga virk. Í ljósi þessarar vitneskju og þess sem vitað er um eldri gos má telja sennilegt að eldvirkni á fyrri hluta nútíma hafi verið með líkum hætti.”
Þá segir: “Síðasta gosskeið á Reykjanesskaga var á tímabilinu 900-1200 og einkenndist af þrennum eldum sem stóðu yfir í nokkra áratugi hver. Á 10. öld runnu hraun á Hellisheiði og að öllum líkindum í Heiðmörk. Einnig var þá gos í sjó undan Reykjanesi. Á 12. öld geisuðu Krýsuvíkureldar og runnu þá Ögmundarhraun og Kapelluhraun (Nýjahraun). Líklegt er að hraun hafi einnig komið upp í Brennisteinsfjöllum um sama leyti. Tvívegis gaus í sjó undan Reykjanesi. Á 13. öld brunnu Reykjaneseldar og runnu þá fjögur hraun á vestanverðum Reyjanesskaga. Á Reykjaneshrygg hafa margsinnis orðið til “gígeyjar” sem fjöldi skerja og boða er til vitnis um. Slíkar eyjar eru berskjaldaðar fyrir rofmætti sjávar og eyðast jafnan hratt. Vel þekkt eru afdrif Nýeyjar sem myndaðist í neðansjávargosi árið 1783 um 55 km undan Reykjanesi. Sú eyja hvarf í hafdjúpið innan árs frá því hún skaut upp kollinum. Langlífari gígeyjar hafa þó einnig orðið, s.s. Eldey og Geirfuglasker.
Kerlingarbás
Ummmerki um allmörg neðansjávargos á Reykjaneshrygg hafa varðveist á landi. Við strönd Kerlingarbáss, þar sem gígaraðir á Reykjanesi liggja að sjó, hafa hvað eftir annað hlaðist upp öskugígar. Þar má nú skoða leifar þriggja slíkra gíga. Neðansjávargos fjær landi hafa skilið eftir sig öskulög á jarðvegi, fundist hafa a.m.k. ellefu slík lög á Reykjanesskaga. Öskulögin veita mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin.”
Í greininni er rakin aldur nokkurra hrauna og gjóskulaga á Reykjanesskaga fyrir um tvö þúsund árum, s.s.:

Hraun: Eldstöðvakerfi: 14C-aldur: Gjóskul.tímat.: ~Áætl. aldur:

Gosslög

Gosslög í jarðvegi.

Eldra Stampahraun Reykjanesi 2155/35 >1400ár >2000 ár ~1900 ára

Tjaldstaðahraun Reykjanesi >1400 ár <2000 ár ~1900 ára

Eldvarpahraun eldra Reykjanesi 2150/65 >1100 ár ~2100 ára

Sundhnúkahraun Reykjanesi 2350/90 >1100 ár <2000 ár ~1900 ára

Óbrinnishólar Trölladyngja 2142/62 >1100 ár <2000 ár ~2000 ára

Eldra Afstapahraun Trölladyngja >1100 ár ~2000 ára?

Hólmshraun Brennisteinsfjöllum >1100 ár ~2000 ára?

Stórabollahraun Brennisteinsfjöllum >1100 ár ~2000 ára

Vörðufellsgígar Brennisteinsfjöllum >1100 ár ~2000 ára

Reykjafellshraun Hengill 1857/87 >1100 ~1900 ára

Eldborg undir Meitlum Hengill 2025/65 >1100 ár ~1900 ára

Nesjahraun Hengill 1880/65 > 1100 ár ~1900 ára

Öskulög
Við aldursákvörðun hrauna hefur verið stuðst við gjóskulgatímatal og 14C-aldursgreiningu á koluðum gróðurleifum sem finnast undir þeim. Þær, sem og aðrar sýnatökur, geta gefið mikilsverðar vísbendingar um aldur hrauna. Taka ber niðurstöðum þó með hæfilegum fyrirvara.

Jarðfræði Gosvirkni á Reykjanesi hefur síðustu 2000 árin einskorðast við vestari gosreinina, en á þeirri eystri hefur ekki gosið síðustu 3000 árin. Komið hefur í ljós skjálftavirkni á Reykjanesi sem einkum er bundin við vestari reinina.

“Vitað hefur verið um nokkurt skeið að hraun runnu víða á Reykjanesskaga fyrir um 2000 árum. Hraun runnu á landi allt frá Reykjanesi í vestri að Nesjavöllum í austri og gjóskugos urðu í sjó undan Reykjanesi og í Þingvallavatni. Vísbendingar hafa komið fram um nokkur gos til viðbótar, einkum í Brennisteinsfjöllum, sem gætu verið frá þessu tímabili.”
Í lokaorðum segir Magnús að “telja verði líklegt að gosskeiðið fyrir 2000 árum hafi einkennst af nokkrum aðgreindum eldum líkt og síðasta gosskeið á Reykjanesskaga. Þá urðu öll eldstöðvakerfin fjögur virk, hraun runnu á að minnsta kosti ellefu stöðum og þeytigos urðu í Þingvallvatni og í sjó undan Reykjanesi. Til að fá úr þessu skorið þyrfti hins vegar mun nákvæmari aldursgreiningar en nú eru fyrir hendi. Tiltæk gögn benda til að gosskeiðið fyrir 2000 árum hafi varað í að minnsta kosti tvær aldir og það síðasta í u.þ.b. þrjár aldir. Mikill fjöldi hrauna hefur runnið á Reykjanesskaga á nútíma.”

Heimild:
-Magnús Á Sigurgeirsson, “Þáttur úr gossögu Reykjaness”, Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags, Náttúrufræðingurinn 72 (1-2), bls. 21.-28, 2004.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Jarðfræði

Meginhálsar Reykjaneskagans eru tveir; Vesturháls og Austurháls, öðrum nöfnum Núpshlíðarháls og Sveifluháls. Báðir eru afurðir gosa á sprungureinum Norður-Atlantshafshryggjarins er ísaldarjökull þakkti landið. Meiri “hryggjarleifar” eru á Reykjanesskaganum eftir gos á sprungureinum undir jökli, s.s. hluti Brennisteinsfjalla (Sandfell og Vörðufell) og Fagradalsfjall (og Vatnsfellin, Litli-Keilir og Keilir).

Sog

Í Sogum.

Hér er ætlunin að gefa svolitla mynd af Núpshlíðarhálsi. Syðsti hluti hans er einstakur hvað varðar gosmyndanir eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Tvær gígaraðir á gossprungum liggja upp eftir honum í NA, allt inn að Djúpavatni austanverðu. Sjá má gígana utan í móbergshlíðunum. Ennþá áhugaverðara er að ganga eftir þeim og berja augum hinar einstöku jarðmyndanir og litbrigði. Gígarnir sunnan Vigdísarvalla eru einstaklega formfagrir, Slaga er austan Vallanna og gígur skammt norðaustar á sprungureininni virðist líkt og teygja sig út úr Fögruflatarhorni. Ketill austan Traðarfjalla og Djúpavatns er hluti af gígaröðinni.
Selsvellirnir vestan við Núpshlíðarháls eru eins og vin í eyðimörk, og þar var og er eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum. Við austanverða og suðvestanverða Vellina eru miklar tóftir frá selstöðunum.
Norðan Selsvalla taka aftur við hraun, mosavaxin víðast hvar, sunnan Einihlíða og Mávahlíða.
Núpshlíðarháls-loftmynd Spölkorn suðvestan við Núpshlíðarháls, úti í hrauninu sunnan við hann, er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann með umferð ökutækja og er það sorglegt dæmi um virðingarleysi í umgengni okkar við náttúruna. Hann er nyrsti gígurinn á gígaröð sem Afstapahraun nýrra er runnið úr. Það rann í norður og í sjó fram í Vatnsleysuvík, hjá Kúagerði, eftir að land byggðist. Úr suðurhluta sprungunnar er Leggjabrjótshraun runnið, sem fyrr er nefnt. Jarðhiti er á svæðinu á milli Sandfells og Oddafells.
Austan í sunnanverðum Núpshlíðarhálsi er gígaröð á sprungurein sem fyrr er lýst. Nær hún langleiðina upp fyrir Djúpavatn austanvert. Syðst er röðin tvískipt. Í henni austanverðri eru einstaklega fallegar gosmyndanir með mikilli litadýrð. Undir einum gíganna er hellir.
Alls hafa fundist tæplega 200 tegundir blómaplantna og byrkninga (burknar, elftingar, jafnar) í Reykjanesfólkvangi. Flestar tegundirnar eru algengar um land allt, en einstaka eru bundnar við Suðurland, t.d. grástör og gullkollur.
Við fyrstu sýn virðist svæðið hrjóstrugt á að líta, en ef betur er að gáð kemur í ljós margbreytilegt gróðurfar. Fyrst ber að nefna mosann sem klæðir hraunin á stórum svæðum eins og t.d. í Ögmundarhrauni og setur hann óneitanlega mikinn svip á landið. Grámosi(gamburmosi) er ríkjandi tegund og ræðst tilvist hans af hinu raka úthafslofti. Annars staðar er gróskumikill lynggróður, t.d. krækilyng, bláberjalyng, aðalbláberjalyng, sortulyng og beitilyng. Lítið er um kjarrlendi í Reykjanesfólkvangi.  Kjarrgróður er einkum norðanmegin á svæðinu, en ljóst er að núverandi kjarr eru leifar víðáttumeira kjarrlendis. Einna vöxtulegastur trjágróður er umhverfis Búrfell og Smyrlabúð. Birki er aðaltrjátegundin sem myndar kjarr, en á stöku stað má sjá allstóra gulvíðirunna. Undirgróðurinn er einkum lyng og grös, s.s. hálíngresi, ilmreyr, bugðupuntur, svo og blómplöntur, t.d. blágresi, brennisóley og hárdepla. Burnirót má finna í hlíðunum.

NúpshlíðarhálsStór hluti fjallgarðsins eru sandberg, bólstraberg, melar og bersvæði. Gróður er mjög strjáll á slíku landi og einungis harðgerðar tegundir þrífast þar, t.d. melskriðublóm, holurt, geldingahnappur og lambagras.
Þéttur valllendisgróður liggur víða undir fjallshlíðum með ríkjandi grastegundum; týtulíngresi, hálíngresi og blávingli. Flest eru valllendin tún fornra bæja eða selja eins og örnefnin gefa til kynna: Selvellir, Seltún og Vigdísarvellir.
Mýrargróður er helst að finna undir austanverðum hlíðunum miðjum, í Krókamýri. Þar vaxa algengar mýrarplöntur eins og mýrarstör, gulstör, klófífa, engjarós, mýrardúnurt og horblaðka.
Eitt af sérkennum í Núpshlíðarhálsi eru jarðhitasvæðin og þar eru nokkrar einkennisplöntur. Fjölskrúðugastur er gróðurinn á jarðhitasvæðinu í Sogunum og Sogadal. Þar vaxa tegundir svo sem laugasef, lindasef og lækjadepla. Einnig er margbreytilegur gróður í volgrunni sem rennur um norðanverða Selsvelli, t.d. sefbrúða og laugabrúða. Af sjaldgæfari tegundum má nefna ýmsar blómplöntur, t.d. fjalldalafífil. skógfjólu, geithvönn og jarðaberjalyng, sem einnig finnast í Geitahlíð.
GrænavatnseggjarFjallgarðurinn er á miðju virka gosbeltinu, sem liggur eftir Reykjanesskaga endilöngum. Gossaga skagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin hefur verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin og virðast koma í hrinum sem koma á um 1000 ára fresti og stendur yfir í u.þ.b 200 ár. Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru Bláfjallaeldar sem hófust árið 930 og stóðu yfir í u.þ.b. 100 ár. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151. Í gosinu opnaðist um 25 km löng sprunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan myndaðist Ögmundarhraun í þessu gosi en að norðan rann Nýjahraun sem flestir nefna Kapelluhraun. Í þriðju goshrinunni urðu Reykjaneseldar sem stóðu yfir frá 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó þar sem Eldey reis upp úr sjónum.

Eldvirkni raðar sér á svokallaðar sprungureinar þar sem eru gosstöðvar og opnar gjár. Oft eru sigdalir eftir endilöngum Hrútaberjalyngsprungureinunum og gígaraðir. Sprungureinarnar eru yfirleitt 25-50 km langar og 5-7 km breiðar. Ein þeirra fer um Hálsana, þ.e Krýsuvíkurrein sem liggur frá suðvestri í norðaustur yfir Reykjanesskagann. Háhitasvæði er á sprungureinuninni, þ.e. í Sogunum og nágrenni við þau.
Jarðlögin í og utan við Núpshlíðarháls eru grágrýtishraun frá síðustu hlýskeiðum ísaldar, móberg og bólsturberg sem hafa myndast undir jöklum síðustu jökulskeiða og hraun runnin eftir að jökull hvarf af svæðinu. Í Núpshlíðarhorni, og þar suður af allt til sjávar, er grágrýti sem jöklar hafa sorfið og skafið. Austar eru væntanlega leifar af fornum dyngjum og hafa líklega myndast á síðasta hlýskeiði sem lauk fyrir 120 þúsund árum. Geitahlíð er t.d. gömul grágrýtisdyngja og grágrýtishella er líka vestan og austan af hálsinum. Sunnan, vestan og norðan Kleifarvatns er móberg og líkt og Núpshlíðarháls er Sveifluháls móbergshryggur sem hafa hlaðist upp undir jökli. Segja má að þessi jarðmyndum sé eitt af sérkennum Íslands. Á Reykjanesskaganum er þessar myndanir hvað mest áberandi, þar sem Norður-Atlantshafshryggurinn “gengur á land”. Landið gliðnar og meginlandsflekarnir, Ameríkuflekinn og Evrópuflekinn, og fjærjaðrarnir færast hægt og rólega frá hvorum öðrum. Á millum þeirra alast upp afkvæmi herra Elds og frú Kviku.

Heimildir m.a.:
-http://www.umhverfisstofa.is/reykjanesfolkvangur/
-http://www.utivist.is/greinar/
-http://www.umhverfisstofa.is/reykjanesfolkvangur/natturuf.htm

Sogin

Latur

Örnefnið “Latur” hefur verið útskýrt á ýmsan máta. Til að fá úr tilurð nafnsins skorið spurðist FERLIR fyrir um nafnið á fyrirspurnarvef Örnefnastofnunar (sjá hér tl hliðar), en þangað er hægt að leita fróðleiks og upplýsinga um hvaðeina er lýtur að örnefnum vítt og breytt um landið, svo framarlega að þau hafi verið skráð, þau hafi skírskotun eða um þau fjallað.

Latur

FERLIRsfélagar á Lat.

Spurningin var þessi: “Hafið þið upplýsingar um tilurð örnefnisins “Latur”? Latur er t.d. hár fjallsendi í Ögmundarhrauni, stórt bjarg í fjörunni (var þar) utan við Þorlákshöfn, klettur niður við strönd á Vestfjörðum og e.t.v. víðar?”
Svavar Sigmundsson svaraði að bragði fyrir hönd Örnefnastofnunar á eftirfarandi hátt: “Líklegt er að örnefnið Latur tengist umferð á sjó. Þannig er um Lat við Þorlákshöfn. Þór Vigfússon segir að hann hafi oft verið notaður sem hraðamælir. “Var talað um að róa Lat fyrir Geitafell og slögin talin í hvert eitt sinn, frá því að Geitafell fór að hverfa bak við Lat þar til það sást allt hinum megin” (Árbók Ferðafélagsins 2003, bls. 91).

Latur

Latur við Þorlákshöfn.

Latur er líka drangur vestur af Faxanefi í Vestmannaeyjum, en sjómönnum hefur þótt hann vera latur við að hverfa fyrir Faxanefið. Klettur á Breiðafirði milli Ólafseyja og lands heitir Latur og talinn draga nafn af því að hann “gengur mjög hægt fyrir Reykjanesið þegar siglt er úr Skarðsstöð fram í Ólafseyjar” (Árbók Ferðafélagsins 1989, bls. 130; Dalasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (2003), bls. 107). Hólmi í Suðurlöndum á Breiðafirði heitir Latur og liggur undir Skarð á Skarðsströnd. Sker á Djúpavogi í S-Múl. nefnist Latur en ekki er vitað um að það hafi verið haft til viðmiðunar (Árbók Ferðafélagsins 2002, bls. 103; Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar (2000), bls. 544). Þetta gildir þó tæpast um Lat (= Siggahól) sem er strýtumyndaður hóll í Brúnunum upp af Vatnsleysuströnd vegna þess hve langt hann er frá sjó. Hann gæti þess vegna verið kenndur við leti (Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í vatnsleysustrandarhreppi, bls. 69).”

Latur

Latur – Þorlákshöfn.

Sesselja bætti síðan eftirfarandi við: “Varðandi Lats umfjöllunina: Í Vatnsleysustrandarheiði er örnefnið Latur yfir hól ofarlega í heiðinni (nefndur hér neðar) og var mér sagt af gömlum bændum að þar hefðu menn fengið sér lúr af einhverjum ástæðum, e.t.v. gildum? Þeir þurftu jú að bíða eftir einhverju og nýttu því tímann.
Við fyrstu skoðun virtist mér sem að í þessu tilviki (í smölun) hafi menn verið tímanlega á staðnum og því e.t.v. getað veitt sér það að vera latir, fá sér lúr. En við nánari skoðun; öllu frekar hitt að eitthvað hafi verið lengi á leiðinni, þ.e. að koma í ljós, verið hraðamælir , eins og Þór Vigfússon nefnir. Slík biðstaða getur auðvitað vel átt við bæði á landi og á sjó, þ.e. að eitthvað var lengur að koma í ljós en menn væntu eða hugðu. Tel ég það gildari skýringu nú á örnefninu Latur þó svo að við fyrstu sýn tengi maður leti við hegðun mannsins en ekki örnefnanna.”

Latur

Latur – upplýsingaskilti.

FERLIR þakkaði báðum greið svör, og bætti við: “Þessi skýring á örnefninu “Latur” kemur vel heim og saman við lýsingu Vigfúsar Einarssonar í Sunnlenskar byggðir II, 1981, bls. 94, þar sem hann lýsir aðstæðum vestan við Þjórsárós, nokkru austan við Loftsstaðasundið. Þar segir m.a.: “Þegar mikið brim er og háflóð, vaða ólögin yfir hraunið og brotna við sandinn og valda mikilli ” lá” svo vont getur verið að halda skipunum. Þurfa skiphaldsmenn að vera stinnir og vel klæddir, klofbundnir. Lendingin er ekki mjög brött og því ekki erfitt að setja skipin. Nokkru fyrir austan Loftsstaðasund hækkar hraunið, og má heita, að það endi í hraunbungu, sem er suður af Loftsstaðabænum; er þar bergstallur við sjó. Á hraunhrygg þessum er stór klettur, sem kallaður er Latur, og urðarbungan Latsgrjót. Auðgert er að miða hann við austurfjöllin.

Latur

Latur.

Þegar róið er til lands undan Loftsstaðasundi í norðanroki, gengur lítið, og fer Latur þá hægt fram austurfjöllin – er latur. Af þessu er nafnið dregið. Oft er það afbakað, hraunbungan kölluð Lagsgrjót og Lagsagrjót…”.
Líklegt má telja að sama skýringin gildi um Lat í Ögmundarhrauni. Hefur hann þá væntanlega verið mið við erfiðan eða “hæggengan” róður að verstöðinni Selatöngum eða nálægum stað/stöðum. Þó er ekki útilokað að nafnið eigi við um “letilegan” dvalarstað á langri leið því við Lat liggur gömul gata og neðan hans er gamalt sæluhús í hraunskjóli.

Kópavogur

Latur á Digraneshálsi.

Segja má að skýringin á örnefninu Latur í Vatnsleysustrandarheiði geti einnig staðist sem slík. Annað dæmi um sambærilega skýringu er nafn á stórum steini í sunnanverðum Digraneshálsi í Kópavogi þar sem gatan liggur nú um Hlíðarhjalla. Um hann segir að þar “Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.”

Og þá liggja fyrir nærtækar skýringar á örnefninu Latur.

-http://www.ornefni.is/
-http://www.ismennt.is/not/ggg/latur.htm

Latur

Latur í Kópavogi.