Krýsuvík

Ólafur Einarsson skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins árið 1986 um síðustu ábúendurna í Krýsuvíkursókn.
Hjónin í Stóra Nýjabæ héldu lengst út og komu öllum sínum seytján börnum til manns:
Storinyja-1
Stytzta og fljótfarnasta leiðin til Krýsuvíkur, að minnsta kosti fyrir þá, sem á höfuðborgar-svæðinu búa, er að aka til Hafnarfjarðar, suður og niður Hvaleyrarholtið og beygja við fyrstu vegamót til vinstri, halda síðan þvert yfir Kapelluhraun, þar til að Snókalöndum kemur. Aka þá til hægri og halda ferðinni áfram upp í Vatnsskarð og enn áfram eins og leið liggur meðfram Kleifarvatni, allt þar til kemur að Krýsuvík. En hún var, eins og mörgum er kunnugt, höfuðból Krýsuvíkursóknar, en fór í eyði um síðustu aldamót. Bærinn stóð undir samnefndu fjalli (Bæjarfelli) stuttan spöl frá Krýsuvíkurkirkju.
Um það bil 10 til 15 mínútna gangur var frá höfuðbólinu til Stóra-Nýjabæjar, sem var austan við Stóra-Kambafell á Austurengjum. Stóri-Nýjibær er þekktastur fyrir, að ábúendur, Guðmundur Jónsson frá Hiíð í Selvogi og kona hans, Kristín Björnsdóttir frá Herdísarvík, bjuggu þar myndarbúi og héldu lengst út við búskapinn allra þeirra, sem í Krýsuvíkursókn bjuggu. Þess ber að geta, að Guðmundur Jónsson frá Selvogi missti föður sinn, þegar hann var á fermingaraldri, með sviplegum hætti. En faðir hans féll niður um ís á Hlíðarvatni og drukknaði. Mikill harmur hefur það verið syninum. Og varð hann að taka að sér forsjá heimilisins strax eftir fermingu. En sú þolraun, sem föðurmissirinn hlýtur að hafa orðið syninum unga, mun óefað hafa mótað hann og hert, enda var Guðmundur alla tíð mikill búforkur, jafnhliða því að vera afbragðs formaður á vetrarvertíðum um áratugi.
Storinyja-2Næsti bær við Hlíð í Selvogi, var Herdísarvík. Það gat því varla hjá því farið, að þau Kristín frá Herdísarvík og Guðmundur frá Hlíð kynntust. Tókust með þeim ástir þegar á unglingsárum. Og voru þau gefin saman í hjónaband í Krýsuvíkurkirkju af séra Eggert Sigfússyni á Vogsósum, þann 8. september 1895. Hún 18, en hann 29 ára að aldri. Eins og fram hefur komið, var Guðmundur í Stóra-Nýjabæ afburða búforkur og jafnhliða því mikill formaður. Gerði út bát frá Herdísarvík árum saman í félagi við Símon á Bjarnastöðum í Ölfusi og var ennfremur formaður í Grindavík í þrjár eða fjórar vertíðir fyrir Júlíus Einarsson, ættaðan þaðan.
Undirritaður ræddi við þau Nýjabæjarsystkini, Hrafnhildi Guðmundsdóttur og Sigurð Guðmundsson. Þau voru sammála um, að ekki hafi verið einmanalegt á heimili þeirra í Nýjabæ. Alltaf nóg að gera, segir Sigurður. Auðvitað gat það verið erfitt á stundum, t.d. var um fimm kílómetra gangur milli að Krýsuvíkurbergi og þangað þurfti oft að fara til fugla- og eggjatöku frá heimili þeirra og austur að Herdísarvík var vegalengdin um það bil 10 kílómetrar. Og sama var að segja um leiðina vestur að Ísólfsskála, hún er svo til jafn löng. Þessi nefndu býli voru næstu nábúar okkar og oft heimsótt, þegar vel stóð á, og veður hamlaði ekki, segir Sigurður að lokum.
Storinyja-3Það voru Nýjabæjarhjónin, frú Kristín Bjarnadóttir, heimasætan frá Herdísarvík og Guðmundur Jónsson frá Hlíð í Selvogi, sem lengst héldu út. Þau hófu búskap að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík árið 1893 og fluttu þaðan alfarin 1933 til Hafnarfjarðar og bjuggu á Jófríðarstöðum 8B, allt til æviloka. Þegar á það er litið að Nýjabæjarhjónin þraukuðu lengst af við búskapinn í Krýsuvíkursókn, á erfiðleikaárum eftir fyrri heimsstyrjöldina, þá lýsir það skapgerð þeirra og dugnaði.
Í viðtali, sem Árni Óla átti við Guðmund árið 1932 segir svo: „Hlunnindi eru lítil, trjáreki er þó nokkur og eggja- og fuglatekja í Krýsuvíkurbjargi, en síga verður eftir hverju eggi og hverjum fugli. Í Geststaðavatni, sem er þar uppi í heiðinni, er dálítil silungsveiði. Var silungur fluttur þangað fyrir mörgum árum, að ráði Bjarna Sæmundssonar, og hefur hann þrifist þar vel. Það hefði einhverntíma verið kallað gott bú hjá bóndanum í Nýjabæ: 3 kýr, 14 hross og rúmlega 400 fjár framgengið. En hvað er gott bú nú?
Ég hefi reynt að halda í horfinu, segir Guðmundur, og búið hefur ekki gengið saman. En nú er svo komið, að það er einskis virði, nema það sem fæst af því til heimilisins. Í haust sem leið fékk ég 200 krónur fyrir jafnmargar kindur og lögðu sig á 1100 krónur á stríðsárunum. Ull og gærur telur maður ekki lengur. Fyrir 10 punda sauðagæru fékk ég t.d. kr. 1,50 í haust sem leið.”
Það var kreppan, sem skapaðist í heiminum eftir fyrri heimsstyrjöldina, sem svarf að Nýjabæjarheimilinu, eins og fleirum. En Guðmundur í Nýjabæ var ekki á þeirri reiminni að gefast upp, eða að óska eftir aðstoð. Ekki sótti hann um lán úr Kreppulánasjóði, og enga aðstoð þáði hann vegna ómegðar.
Þau Nýjabæjarhjónin komu öllum sínum sautján börnum vel til manns. Og öll urðu þau myndar- og dugnaðarfólk. Það verður að teljast þrekvirki.
Sautján afkomendur ög allt dugnaðarfólk. Það er hvorki meira né minna en ein til tvær skipshafnir. Hve mikils virði er það þjóðfélaginu, þegar að hjón frá afskekktu byggðarlagi skila slíku ævistarfi?”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1986, bls. 47.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.