Tag Archive for: Hafnarfjörður

Kaldársel

Gengið var frá Ásvöllum um Grísanes, um Hádegisskarð yfir Dalinn norðan við Hamranes og skoðuð fjárskjól, sem þar hafa verið. Haldið var áfram yfir Hamranesið, um selhraun vestan Hvaleyrarvatns, upp á Selhöfða, niður í Seldal, um Stórhöfða og síðan áfram áleiðis inn í Kaldársel með norðurbrún Stórhöfðahrauns, beygt til norðurs gegnt Langholti og síðan gengið um Fremstahöfða inn í Gjárnar norðan Kaldársels.

Hádegisskarð

Stekkurinn við Hádegisskarð.

Norðvestan við Grísanesið er lítil rétt. Hlaðið mannvirki er skammt sunnar, sennilega leifar af fjárhúsi. Þegar gengið var frá henni austur um norðanvert nesið mátti sjá tvær tóftir á vinstri hönd, gætu verið sauðakofar frá Ási eða jafnvel frá Hvaleyri eða Hjartarkoti, sem var sunnan undir Hvaleyrarholtinu.
Um Hádegisholtið, sem er milli Grísaness og Ásfjallsaxlar, lá gamla leiðin frá Ási um Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg. Gengið var suður Dalinn og litið á fallin fjárskjól í grónum dal í honum innanverðum. Enn sést móta fyrir hleðslum við innganginn, en hraunþakið hefru falli að hluta. Drasl hefur síðan safnast fyrir í jarðfallinu.
Gengið var yfir Hamranesið og áleiðis framhjá Hvaleyrarvatni á leið upp á Selhöfða.

Hvaleyrarvatn

Stekkur í Seldal.

Hvaleyrarvatn er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðin mun hafa verið.
Það er fremur létt að ganga upp á Selhöfðann og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Við vesturenda vatnsins blasir Selhraun við í nokkrum fjarska.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur. Sunnan hans er Stórhöfði. Á Selhöfða eru leifar gamallar fjárborgar, auk annarrar minni skammt austar, en uppi á hálsinum sunnan undir höfðanum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt.

Kaldársel

Hálfhlaðið hús við Fremstahöfða.

Veginum var fylgt framhjá Stórhöfða og síðan stigið út af honum uppi á öxlinni. Gengið var austur með úfnu Stórhöfðahrauninu þangað til komið var á móts við Miðhöfða. Þá var gengið áleiðis að honum, en síðan stefnan sett á Fremstahöfða. Sunnan undir honum er hálfhlaðið fjárhús, sennilega frá Kaldárseli. Þar fyrir austan taka Gjárnar við, merkilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri; hrauntraðir og stöplar. Í þeim má m.a. finna hlaðinn nátthaga þar sem heitir Nátthagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Kapella

Jochum Magnús Eggertsson (9. september 1896 – 23. febrúar 1966) var íslenskur rithöfundur og skáld, alþýðufræðimaður og skógræktarmaður, sem skrifaði jafnan undir höfundarnafninu „Skuggi“.
Skuggi-1Jochum las og rannsakaði allar galdraskræður og fornan fróðleik sem hann kom höndum yfir, og skrifaði meðal annars bókina Galdraskræðu, þar sem hann tók saman ýmsan fróðleik um galdra og galdrastafi. Hann sagðist líka hafa fundið galdrabókina Gullskinnu eða Gullbringu, sem getið er í þjóðsögum, en hún væri í rauninni ekki galdrabók, heldur frumgerð Landnámu og þar væri sögð saga fyrstu alda Íslandsbyggðar eins og hún væri raunverulega. Aldrei vildi Jochum þó sýna neinum Gullskinnu.
Margir telja að Landnáma hafi komið á undan Íslendingabók. Höfundur hennar voru Ari fróði og Kolskeggur hinn vitri.
Samkvæmt kenningum Jochums var Suðurland albyggt þegar landnámsmenn komu og var þar fyrir írskur þjóðflokkur sem naut andlegrar handleiðslu Krýsa (Chrysostomosa eða gullmunna) Skuggi-2og hafi það verið hluti launhelga sem voru til víða um Evrópu og allt suður til Krítar og Egyptalands. Höfuðstöðvar Krýsa voru samkvæmt kenningum Skugga í Krýsuvík. Hann hélt því fram að Krýsar og landnámsmenn hefðu í fyrstu búið saman í friði. Höfuðprestur Krýsa á elleftu öld var Kolskeggur vitri og hafði hann lærisveina sína og ritara á tveimur stöðum, í Krýsuvík, þar sem hann bjó sjálfur, og á Vífilsstöðum undir stjórn Jóns Kjarvalarsonar hins gamla, og voru alls 13 á hvorum stað að meðtöldum lærisveinum. Þeir voru jafnan hvítklæddir.
Þessir fræðimenn sköpuðu menningararf Íslendinga, segir Skuggi. Kolskeggur vitri kenndi Íslendingum að skrifa með latínuletri; hann orti sjálfur Hávamál og skrifaði margar Íslendingasagna, þar á meðal Njálu, Laxdælu, Hrafnkels sögu, Gunnlaugs sögu ormstungu og Bandamanna sögu. En höfðingjum þóttu Krýsar orðnir of voldugir og haustið 1054 söfnuðu þeir miklum her, brenndu Jón Kjarvalarson og menn hans inni á Vífilsstöðum og settust svo um Krýsuvík, sem þeim tókst loksins að vinna þrátt fyrir frækilega vörn. Kolskeggur komst undan á Brimfaxa, arabískum gæðingi, en náðist í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, þar sem hesturinn fótbrotnaði og Kolskeggur var felldur. Eftir þetta var Krýsum útrýmt.
Skuggi-3Mönnum stóð brátt ógn af þeim stað þar sem Kolskeggur hafði fallið og var þar reist kapella og hraunið síðan kallað Kapelluhraun. Hann var sagður galdramaður og djöfull og með tímanum umbreyttist nafn hans í Kölski. Kapellan var reist við fornu reiðgötuna í auðninni þar sem Kolskeggur var veginn; var á miðöldum kölluð „Kölskakapella“ eða „Kölska-kyrkja“. Nýtt hraun hefur runnið á hana og kaffært hana að nokkru leyti, en vegsummerki hennar sjást þó enn greinilega á hraunhryggnum og storkunni, austurgaflinn nokkurnveginn heillegur að innan og innganginn og fyllt hana þeim megin. Hraunið dregur síðan nafn af Kapellunni. Það fylgir fornu sögninni, að bein Kölska hafi verið geymd eða dysjuð þar í Kapellunni.
Fornar fræðibækur Krýsa voru bannaðar og kallaðar galdraskræður. Ari fróði var svo fenginn til að umskrifa söguna og afmá hlut Krýsa, en eftir hvarf þeirra varð nær algjör stöðnun í menningararfi og ritstörfum meðal Íslendinga. Síðustu leifar þessa stórbýlis [Krýsuvíkur] hafa varðveizt á undraverðan hátt, umkringdar og greiptar í hraunstorkuna og bíða þar grasi grónar eins og þær hafa gert síðastliðin 600 ár. Yngsta gólfskánin hefur því tíðindi að segja frá þeim tíma.
Þá má þess geta að í þjóðsögunum segir að Eiríkur galdraprestur í Selvogi hafi áskotnast Gullskinna þessi, en hann ákveðið að urða hana í Kálfsgili í Urðarfelli, enda um að ræða „mestu galdrabók allra tíma“.

Skuggi-4

Jochum var ættaður frá Skógum í Þorskafirði og var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar skálds. Hann sendi frá sér allnokkurn fjölda bóka og ritlinga, bæði stuttar skáldsögur og smásögur, ljóð, þjóðlegan fróðleik og ritgerðir, og þykja mörg ritverk hans nokkuð sérstæð. Hann var einnig góður teiknari og skrautritari og hafði lært það af eldri bróður sínum, Samúel Eggertssyni kortagerðarmanni og skrautskrifara, sem ól hann upp að einhverju leyti. Jochum myndskreytti sumar bækur sínar og handskrifaði aðrar. Á meðal bóka hans má nefna Brísingamen Freyju, Syndir guðanna – þessar pólitísku, Viðskipta- og ástalífið í síldinni og Skammir.
Jochum keypti Skóga í Þorskafirði árið 1951, dvaldist þar meira og minna öll sumur eftir það og stundaði þar allnokkra skógrækt og gerði tilraunir með ræktun ýmissa trjátegunda. Hann var ókvæntur og barnlaus en arfleiddi Baháí-samfélagið á Íslandi að jörðinni eftir sinn dag.

Sjá meira HÉR.
Sjá einnig Brísingamen Freyju.

Heimildir
– (Jochum M. Eggertsson) Skuggi: Brísingamen Freyju: nokkrar greinar. Reykjavík, 1948.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Hvaleyri

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1964 má lesa eftirfarandi um beinafund við Hjörtskot á Hvaleyri undir fyrirsögninni „Lítil saga sunnan af Hvaleyri„:
Hvaleyri - mynd„Nokkru eftir að Pálína gerðist ráðskona hjá Magnúsi í Hjartarkoti, sennilega haustið 1922, fann hún þarna mannabein í rofbakka, höfuðkúpu og hálslið. Tók hún beinin í sínar vörzlur, svo að þau veltust ekki í reiðuleysi í fjörunni. Sjálfsagt hafa henni verið bein þessi hugstæð, enda ekki alsiða, að bústýrur á Íslandi hafi mannabein í fórum sínum. En hvað sem um það er, þá gerðist það þessu næst, að Pálínu birtist sýn í svefni. Þótti henni sem á sinn fund kæmu tveir karlmenn og ein kona og þökkuðu henni varðveizlu beinanna, en báðu hana þó að hlúa betur að þeim. Sungu þau síðan sálm og lauk með því draumnum. Þótti þeim hjónum ráð að grafa beinin sem næst þeim stað, er þau höfðu fundizt á, en þó svo, að þau væru óhult í sjávargangi. Voru þau látin í kistil, sem Magnús gróf í mónum úti á bökkunum, skammt frá fundarstaðnum, þegar klaki var úr jörðu.
En þess var ekki langt að bíða, að meira fyhdist af mannabeinum þarna á Hvaleyrarbökkum. Haustið 1924 veitti Magnús því athygli, að bein voru í fjörunni og fleiri stóðu út úr rofinu. Safnaði hann þeim saman og gróf síðan nokkuð í bakkann fyrir forvitnis sakir. Fann hann þar tvær hauskúpur til viðbótar og mörg bein önnur úr tveim mönnum, ásamt einum hornhnappi.
hvaleyri - tunakort - 1908Nú var fólkinu í Hjartarkoti nóg boðið, er mannabein hlóðust að því með þessum hætti, og varð það fanga ráðið að láta fornminjavörðinn, Matthías Þórðarson, vita um þetta. Skoðaði hann höfuðkúpurnar, sem báðar voru heillegar, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að önnur myndi af manni, sem kominn hefði verið allmjög til aldurs, er hann dó, en hin af miðaldra manni. Tjáði Magnús honum, að glöggt hefði mátt sjá, að eldri maðurinn hefði ekki verið lagður til, því að hann hefði sýnilega verið krepptur í gröf sinni, og öll hefðu beinin verið þétt saman.
Nú leið og beið, því Matthías hafði ekki tök á því að sinni að kanna sjálfur stað þann, er beinin fundust á. Voru beinin því geymd og ráðstöfun þeirra látin bíða betri tíma. Og meðan þess var beðið, að fornminjavörður kæmi á vettvang, skeggræddu menn sín á millí um það, hvernig staðið gæti á þessum beinum í Hvaleyrarbökkum. Það var raunar kunnugt, að á Hvaleyri hafði lengi verið kirkja, sem ekki var tekin af fyrr en árið 1765. Sást þar enn fyrir kirkjugarðinum í túni heimajarðarinnar, og hafði hann ekki verið þar, sem beinin voru. Þá var enn fremur kunnugt, að þýzkir kaupmenn áttu kirkju í Hafnarfirði á 16. öld, og sjálfsagt hafa þeir farmenn þýzkir, er létust í Íslandsferðum, verið grafnir við hana En engin líkindi voru til þess, að hún hefði staðið yzt á sjávarbökkum á Hvaleyri, auk þess sem allt benti til þess, að þeir menn, sem þarna hvíldu, hefðu verið dysjaðir utan garðs, án þess umbúnaðar, er siður var að veita líkum í vígðum reitum. Bar því allt að þeim brunni, að þarna lægju annað tveggja sekir menn eða útlendingar, sem ekki þóttu þess verðir að hvíla meðal annarra kristinna manna, kasaðir af óvinum sínum eða minnsta kosti þeim, er ekki vildu við þá kannast sem bræður í Kristi.
hvaleyri - tunakort 1908 IINú voru uppi ýmsar sagnir um um erjur og bardaga á þessum slóðum, er enskir og þýzkir kaupmenn lögðu hvað mest kapp á að ná hér fótfestu. Þess vegna tóku menn að fletta í gömlum annálum og leita þar frásagna, er gætu leyst þessa gátu.
Biskupaannálar Jóns Egilssonar í Hrepphólum geymdu tvær sögur, sem menn stöldruðu við. Þar var sagt, að ábótinn í Viðey á dögum Magnúsar Eyjólfssonar, sem biskup var í Skálholti 1477-1490, hefði í kringum 1480 ráðizt með liðsafla á Englendinga, er lágu við Fornubúðir í Hafnarfirði, fyrir þær sakir, að þeir höfðu rænt skreið klaustursins. Hefur þessi ábóti verið Steinmóður Bárðarson, harðskeyttur maður og mikill fyrir sér. Hafði hann sigur í orrustunni, en mannfall hefur nokkurt orðið, því að þar lét lífið sonur ábótans, er Snjólfur hét. Í öðru lagi kunni Jón Egilsson að greina frá öðrum bardaga á þessum sömu slóðum milli Englendinga og þýzkra kaupmanna, Hamborgara. Lutu Englendingar í lægra haldi í þeirri viðureign fyrir Þjóðverjum“, sem „rýmdu hinum burt og fluttu sig fram á eyrina og hafa verið þar síðan.“ Þetta gerðist kringum 1518. Leizt mönnum fljótt, að þarna á Hvaleyrarbökkum myndu Englendingar, sem fallið höfðu í öðrum hvorum þessara bardaga, hafa verið heygðir, því að einsýnt var, að bæði íslenzkir menn og þýzkir, er féllu í  þessum bardögum, hefðu verið færðir til kirkju.

Hvaleyri

Hvaleyri – samsett herforingjaráðskort 1903.

Er ekki ólíklegt, að um þetta leyti hafi ýmsum orðið tíðlitið til þeirra staða, þar sem hinir ensku og þýzku kaupmenn höfðu bækistöðvar sínar endur fyrir löngu. Á eyrinni, þar sem nú heitir Skiphóll, voru búðir Hamborgara, en í túnfæti fyrir austan Hjartarkot voru vallgrónar rústir tveggja stórra búða: Fornubúðir, þar „em hinir ófyrirleitnu Englendingar lágu með kaupskip á dögum Steinmóði ábóta. Það mátti að sönnu láta sér til hugar koma, að Jón í Hrepphólum hafi ekki kunnað glögg skil á hinum gömlu erjum í Hafnarfirði — jafnvel, að sitthvað væri missagt í fræðum hans. Hann fæddist sjálfur ekki fyrr en um miðja sextándu öld, svo að margt það, sem um þessi stórtíðindi hafði verið sagt, gat afbakazt, áður en hann nam söguna, einkum hvað varðaði hinn fyrri bardaga, er Viðeyjarábóti átti við Englendinga. En engin ástæða er til þess að rengja það, að þarna hafi mannskæð átök orðið, enda segir Jón Guðmundsson lærði einnig frá því í rtii sínu „um ættir og slekti“, að forfaðir sinn, Magnús Auðunsson hins ríka, hafi fallið á Jófríðarstöðum „í því engelska Hafnarfjarðarstríði fyrir svik landsmanna.“
Bústýran í Hjartarkoti leitaði hófanna um það við sóknarprest sinn, séra Árna Björnsson í Görðum, að hann greftraði beinin, þegar það væri tímabært Hann færðist undan því að jarðsyngja beinin, en Pálína sótti þeim mun fastar á, og þegar hún fékk engu um þokað, sneri hún sér til biskups í þeirri von, að hann vildi taka af skarið. En þegar biskup fékkst ekki til þess að skipa séra Árna að verða við óskum Pálínu, fór málið að vandast.
Þegar hér var komið, mun fólkinu í Hjartarkoti hafa verið orðið mikið kappsmál, að beinin yrðu grafin í kirkjugarði, enda greip það nú til þess ráðs að segja sig úr þjóðkirkjunni og ganga í fríkirkjusöfnuðinn í Hafnarfirði. Séra Ólafur Ólafsson var prestur fríkirkjusafnaðarins, og hann tjáði sig fúsan að jarða beinin með þeim hætti, er Hjartarkotsfólki mátti vel líka. En ekki var það unnt fyrr en Matthías Þórðarson hafði gert þær athuganir, er hann taldi við eiga.
hafnarfjordur 1955Ekki varð úr því fyrr en í ágústmánuði, að Matthías kæmi suður á Hvaleyri til rannsókna. Gróf hann þá í bakkann, þar sem Magnús Benjamínsson hafði fundið beinin úr mönnunum tveimur. Fann hann þar bein úr neðri hluta annars mannsins, sem önnur hauskúpa var úr, svo sem fimmtíu sentímetra undir grassverðinum. Þessi bein voru heilleg, og mældust lærleggirnir fimmtíu sentimetrar á lengd. Hafði hægri handleggur verið sveigður yfir manninn miðjan, og þótti Matthíasi ekki vafi leika á þvi, að þessi maður hefði verið lagður til líkt og venja var á miðöldum.
Þegar hann hafði tekið upp þessi bein, var grafinn upp kistill sá, er í var hauskúpan og beinin, er Pálína í Hjartarkoti fann í öndverðu. Var hún þar í mónum, er Magnús vísaði til, og reyndist kúpan af ungum manni. Þegar Matthías hafði þetta starfað, seldi hann þeim Magnúsi og Pálínu beinin í hendur, kvaddi og hélt á brott.
Nú var það eitt eftir að neyta þess, að séra Ólafur fríkirkjuprestur vildi syngja yfir beinunum. Og það var ekki látið dragast úr hömlu. Þetta var stutt athöfn, og innan lítillar stundar, er henni lokið. Þegar beinakistunni hefur verið sökkt í gröfina í kirkjugarðinum ofan við Jófríðarstaði og séra Ólafur kastað á hana rekunum, tekur Magnús Benjamínsson skóflu og mokar ofan í. Þá er þessu lokið. Beinunum hefur verið sýnt sú tillitssemi, sem er á valdi fólksins í Hjartarkoti, og fólk aftan úr öldum þarf ekki framar að koma til bústýrunnar í draumi til þess að bera henni tilmæli sín.“

 

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 9. ágúst 1964, bls. 724-725 og 247.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

Hvaleyri

Í Lesbók Morgunblaðsins má lesa eftirfarandi um síðasta ábúandann á Hvaleyri árið 1977:
„Nesið sunnan við Hafnarfjörð hefur heitið Hvaleyri frá fornu farí, ef marka má Landnámu. Þar áttu þeir viðdvöl, Hrafna Flóki og hans menn og fundu rekinn hval eftir því sem sagan segir, og nefndu staðinn Hvaleyri. Sé það rétt, mun það örnefni elzt við Faxaflóa. Síðan fer litlum sögum af landnámi og búskap á Hvaleyri. Þar var grösugast við Hafnarfjörð og kotin urðu mörg og smá. Líkt og víðast annarsstaðar suður með sjó, var fátæktin förunautur þeirra sem kusu sér búsetu þar og nábýlið við Bessastaði var búendum ekki fagnaðarefni.
Túnin á Hvaleyri voru grasgefin og þar var þó ólíkt betra undir bú en suður í Hraunum eða á Vatnsleysuströnd.
sveinskot-1Þannig leið tíminn án sjáanlegra stórmerkja, unz þáttaskil urðu fyrir 10 árum, að Golfklúbburinn Keilir fékk túnin til umráða og þar hefur verið golfvöllur síðan. Það voru undarleg ósköp í augum þeirra, sem höfðu erjað þessa jörð og aldrei litið uppúr puðinu. En tímanna tákn var það aungvu að síður.
Nú hafa kotin verið jöfnuð við jörðu. Eftir standa Vesturkot, sem nú er félagsheimili golfklúbbsins Hvaleyrarbærinn, sem senn mun hverfa — og Sveinskot, neðan við veginn, skammt eftir að komið er inn á Hvaleyrina. Það er eini bærinn, sem eftir er og hefur dálítinn afgirtan túnbJett út af fyrir sig, íbúðarhús og útihús. En einnig þar er allt á síðasta snúningi og meðfylgjandi myndir frá í vor voru teknar til að halda á lofti minningunni um síðasta bæinn á Hvaleyri og bóndann þar, Ársæl Grímsson. Húsið ber svipmót kreppuáranna, klætt bárujárni og lítið á mælikvarða nútíðar. En það ber með sér þokka, sem smiðir þessa tíma gátu laðað fram, þó ekki væri úr miklu að spila. Út um víðan völl voru lambærnar að kroppa grængresið, gular á lagði.
Eins og í hverjum öðrum vorönnum, grípur Ársæll í að verka svo sem eina hjólbörufylli af grásleppu og hengir á rár. Það er eins og vant er, að bóndinn sér ekki út úr verkefnunum og hefur hann þó í fleiri horn að líta en þau, sem blasa við augum innan girðingar í Sveinskoti. Frá stofnun golfklúbbsins hefur Ársæll verið ötull og ómissandi starfskraftur og hefur hann bætt við eigin bústörf lengri vinnudegi á golfvellinum en hægt er að ætlast til að einn maður geri, jafnvel þótt hann væri á bezta aldri.
sveinskot-2Það sýnist þó ekki há Ársæli, að hann er nálega jafn gamall öldinni; 76 ára, og mættu ýmsir aldarfjórðungi yngri, öfunda hann af þrekinu. Sjálfum þykir honum ekki svo mikið til þess koma. Hann þekkir ekki annað en vera fílhraustur og hann hefur aðhyllst þá kenningu um dagana, að vinnan sé guðs dýrð, eins og Halldór Laxness segir einhversstaðar, og guðsdýrðin verður aldrei meiri en á vorin, þegar helzt þarf að gera allt í senn: Bera áburð, hengja upp grásleppu, slá brautir og flatir á golfvellinum og sinna lambfé. Á vorin og sumrin er Ársæll kominn til starfa um sexleytið á morgnana og heldur sínu striki frameftir deginum fyrir því.
Eftir tveggja ára búskap á Tóftum við Grindavík fluttist Ársæll með fjölskyldu sína að Sveinskoti á Hvaleyri, sem hefur orðið honum kærastur samastaður; svo samgróinn er hann eyrinni, að hann er líkt og hluti af ásýnd staðarins.
Um það leyti sem þau hjón fluttu þangað inneftir, voru fimm bæir á Hvaleyri: Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyri, Vesturkot og Halldórskot. Nú var mun landþrengra en á Tóftum, en túnið var og er grasgefið og hann gat haft 7 kýr, 40—50 fjár og einn vagnhest. Ekki var þó alveg heyfengur handa þeirri áhöfn, en hér var Ársæll kominn í tölu mjólkurframleiðenda. Mjólkin var sótt til Hafnarfjarðar og fór í samsöluna í Reykjavík. En jafnframt stundaði Ársæll vinnu hjá Olíustöðinni í Hafnarfirði þegar tími gafst til. Það fór vel um þau í Sveinskoti og þau fundu, að þarna áttu þau heima. Þeim Ársæli og Hansínu varð auðið þriggja dætra og tveggja sona. Annar sonanna drukknaði af Grindvíkingi, en Grímur sonur þeirra er einn af grásleppukóngunum svonefndu við Hafnarfjörð.
Þáttaskil urðu í búskap Ársæls í Sveinskoti urðu þegar Golfklúbburinn Keilir fékk Hvaleyrina til umráða.

Hvaleyri

Hvaleyri – túngarður.

Þegar það var á döfinni, kvaðst Ársæll hafa kviðið fyrir þeim umskiptum, sem hlutu að verða, án þess þó að hafa hugmynd um, hvað þar var á ferðinni. Það fór þó svo, að Ársæll varð nánast ómissandi starfskraftur fyrir þennan félagsskap og óhætt að segja, að hann er tengdur honum sterkum böndum. Það var enda að vonum og verðleikum, að Ársæll var sæmdur heiðursmerki Keilis á tíu ára afmæli klúbbsins á þessu ári.
Fyrir tveimur árum urðu enn þáttaskil. Þá fluttust þau hjónin úr gamla húsinu í Sveinskoti í sambýlishús við Suðurgötu í Hafnarfirði. Þau voru heppin með sambýlisfólk, en þetta voru aungvu að síður mikil viðbrigði og Ársæll kveðst ekki beint geta sagt, að hann eigi þar heima. „Ég á fyrst og fremst heima á Hvaleyrinni,“ segir Ársæll, „af þeim stöðum sem ég hef búið á, hef ég kunnað bezt við mig þar“.
Ársæll lést 23. febrúar árið 1998.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 6 nóv. 1977, bls. 8-9 og 16.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

 

Hafnarfjörður

Gísli Sigurðsson fjallar um „Eldstríð Hafnfirðinga“ í Þjóðviljanum árið 1960. Greinin er sú fyrri af tveimur um sama efni:
gisli sigurdsson„Fyrr á tímum háðu Hafnfirðingar baráttu við eldinn, slíka að henni verður ekki betur lýst er með orðum mannsins er bezt hefur kynnt sér það mál: „Það var heimsstríð“. Maður er nefndur Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn í Hafnarfirði. Í tíu ára hefur hann varið hverri frístund til þess að grafa úr gleymsku og forða frá glötun fjölmörgu úr sögu Hafnarfjarðar, sem ella hefði glatazt. Hann segir hér húsmæðrum er nú kveikja ljós og eld með snertingu við rafmagnshnapp (og fá vonandi enn fleiri slíka hnappa og aukna sjálfvirkni í eldhúsin) frá eldstríði formæðra þeirra.
Sögufélag mun ekkert vera til í Hafnarfirði (en örfáir Hafnfirðingar í Sögufélagi Ísfirðinga), en saga Hafnarfjarðar kom út á aldarfjórðungsafmæli Hafnarfjarðar sem kaupstaður árið 1933. Kjartan Ólafsson flutti tillögu í bæjarstjórninni um ritun slíkrar sögu og Sigurður Skúlason magister var ráðinn til verksins og fékk hann ekki nema tvö ár til þessa verks og því ekki að vænta að hann gæti grafið allt upp.
Gísli Sigurðsson lögregluþjónn hefur eytt til þess öllum frístundum sínum í tíu ár að safna til varðveizlu ýmsu er bregður ljósi yfir lífsbaráttu og störf fólksins á þessum stað. Hvort Hafnfirðingar meta þetta starf að verðleikum fyrr en löngu eftir að Gísli er genginn og grafinn skal ósagt látið, en seinni tíma menn verða honum þakklátir. Fyrir tilviljun komst ég á snoðir um þessar rannsóknir Gísla og spurði hann því nánar um málið.
— Ert þú innfæddur Hafnfirðingur, Gísli?
— Nei, ég kom hingað 1911, stráklingur með foreldrum mínum, en fram að þeim tíma voru þau vinnuhjú austur í sveit.
—En samt ert það þú sem reynir að varðveita þætti úr sögu Hafnarfjarðar. Er langt síðan þú byrjaðir á því?
— Það var á miðju sumri 1950 að ég byrjaði á þessu, en síðan hef ég notað allar frístundir í þessu augnamiði.
— Hvernig hefur þú unnið að þessu?
— Ég hef bæði safnað munnlegum heimildum gamals fólks í bænum og einnig farið í gegnum ógrynni af prentuðum heimildum. Ég hef fengið um hálft annað hundrað viðtala við gamla Hafnfirðinga, lýsingu á 50 gömlum húsum og um hundrað gamalla bæja, torfbæja og timburbæja. Ég hef einnig fengið nokkrar lýsingar á lóðum, annars var lóðaskipunin gamla fremur lítið breytt fram til þess að ég kom til Hafnarfjarðar. Nokkuð hef ég fengið af þjóðsögum, en það er ekki mjög mikið af þeim hérna.
moburdur— Hvernig þjóðsögur eru það?
— Huldufólkssögur helzt, en þó eru til nokkurs konar draugasögur, — og nú brosir Gísli kankvíslega um leið og hann heldur áfram: eins og t.d. þegar Ólöf gamla hálfhrakti hann Geira bróður útúr Undirhamarsbænum á gamlárskvöld 1923. Það mun vera ein yngsta fyrirburðasagan hér í bæ. Gamlir menn sögðu mér að þetta hefði ekkert verið og röktu flest slíkt til missýninga. Í þessum viðtölum við gamla Hafnfirðinga hef ég komizt töluvert inn í lífsbaráttu fólksins, t.d. eldiviðaröflun, — það var heimsstríð að hafa í eldinn.
— Já, segðu mér eitthvað frá því stríði.
— Flestir urðu að taka upp mó inni í Hraunsholtsmýri og bera móinn á sjálfum sér suður í Hafnarfjörð. Þar af eru nöfn „Hvíldarklettanna“ við veginn í hrauninu komin. Nú er búið að brjóta þá alla niður í veginn nema einn. Þar settist fólk til að hvíla sig undir mópokunum. Svo var verið að hirða þöngla og allskonar rek í fjörunni. Þá fóru menn líka í hrísmó upp um allt og rifu hrís og mosa svo til landauðnar horfði. En það var líka til fólk sem ekki þurfti að standa í þessu stríði. Kaupmennirnir keyptu t.d. flestir um 40 hesta af mó árlega og létu flytja að sér. Þeir sem áttu skip fóru fyrir Álftanes á haustin og fluttu móinn sjóleiðis. Þeir urðu að velja sér sérstaklega gott veður því bátarnir voru svo hlaðnir. Þeir settu spýtur upp með borðstokkunum og þverslár þar á milli og þannig urðu bátarnir háfermdir. Stundum þurftu þeir því að hleypa upp á Álftanes á heimleiðinni til þess að forða mönnum og bátum frá því að sökkva.
— Var allur mór sóttur í þessa mýri?
— Nei, nokkuð fékkst af mó í Firðinum sjálfum og Hafnfirðingar fóru líka alla leið inn í Nauthólsvík til þess að taka upp mó þar. Á þrem stöðum hér í Hafnarfirði var aðallega hægt að fá mó. Það var í Hamarskotsmýrinni meðfram læknum, Sjávarmýrinni, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn er nú, þar var mórinn 18 stungur. Þegar dráttarbrautin var byggð þar var tveggja mannhæða rof niður á móhellu. Og í mýrinni hjá Brandsbæ var einnig mór, þar var hann 6 stungur. – Í Sjávarmýrinni náði mórinn talsvert niður fyrir sjávarmál og upp í hallann hjá Kaldárstígnum gamla, þar man ég eftir mógröfum.
— Já, Kaldá, það varð nokkur saga af henni.
— Já, gamla Kaldá er löngu horfin, en þar var reist fyrsta gosdrykkjaverksmiðja á Íslandi. Jón Þórarinsson skólastjóri lét byggja hana og hún mun hafa starfað í 20 ár, en þegar hann seldi tók Milljónafélagið við.
— Milljónafélagið sem Thor Jensen tapaði minninu hjá?
— Nei, þetta var annað milljónafélag. Pétur J. Thorsteinsson o.fl. voru með það, en þetta milljónafélag fór einnig á hausinn. Jensen missti minnið svo gersamlega hjá hinu milljónafélaginu að hann gat með engu móti rámað í það að hann hefði átt heima í gamla Sívertsenhúsinu í Hafnarfirði í 1 eða 2 ár!
En svo við höldum áfram að tala um móinn þá fékkst sjávarmór vestur í Skerseyri. Ef fjörumölinni var mokað ofan af mátti ná bar í mó um fjöru. (Enn ein sönnun þess hve Suðurnesin hafa sigið). Og vestur í Víðistöðum var víst einhver móvera, en undir Víðistaðahvosinni er móhella — Víðistaðir eru eyja niðri í hrauninu sem það hefur runnið í kringum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

— Það hefur verið erfitt stríð að halda eldinum lifandi.
— Já, t.d. þegar faðir Jóns Einarssonar verkstjóra fór í róðra kl. 2—3 á næturnar fór kona hans jafnsnemma til að sækja mósa í eldinn suður í Bruna, — það mun vera um 5 km gangur hvora leið. Þær fóru í flokkum kerlingarnar og báru sinn tunnupokann hver af mosa til baka.
Í hrísmó upp í Kaldársel var 7 km leið. Fólk fór það aðallega á næturnar, því eiginlega var það bannað — margbannað. Það var stuldur, en einhverju varð fólkið að brenna.
— Einar minn í Gestshúsum — nú er hann orðinn 90 ára — hefur sagt mér, heldur Gísli áfram, að þegar hann var 8 ára var hann látinn bera út mó úr kesti inni í Hraunholtsmýri á móti mömmu sinni. Þegar litlu fingurnir höfðu ekki lengur afl til að halda um börukjálkana var sett snæri um kjálkana, og aftur yfir háls drengsins, og þannig var hann látinn halda áfram unz síðasti hnausinn var kominn til þerris. Þá andvarpaði móðir hans (sem hafði eldiviðarleysi komandi vetrar í huga): Það vildi ég að kominn væri annar köstur!

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

— En þrátt fyrir þetta er hann nú orðinn níræður, blessaður karlinn. Þeir sem höfðu útgerð létu þurrka hvern hrygg og hvern haus til að hafa í eldinn. Jón Einarsson verkstjóri sagði mér að þegar hann og bræður hans voru strákar voru þeir látnir bera allt slíkt frá útgerð föður síns upp í Einarsgerði (var þar sem Herkastalinn var byggður við Austurgötuna) en þar höfðu verið hlaðnir garðar til að þurrka á. Þorskhausar voru hertir til matar en hausar annarra fiska og hryggir til eldsneytis.
— Og hvernig voru svo eldhúsin sem öllum þessum mó, hnausum, mosa og hrísi var brennt í?
— Hlóðirnar í Hjörtskoti standa enn, en Hjörtskot mun vera eini gamli bærinn sem enn stendur að mestu í svipuðu formi og fyrr, nema sett hefur verið á hann járn. Eldhúsið og hlóðirnar standa enn. Vestur á Skerseyri er enn til gömul eldhústóft. Hún er um 2-1/2×2 álnir að flatarmáli.
—Og bæirnir sjálfir lélegir?
— Já, gömlu bæirnir voru margir af vanefnum byggðir. T. d. var bærinn sem Kristinn Auðunsson (kunnur forfaðir margra ágætismanna) þannig að það kom varla svo dropi úr lofti að ekki hripaði inn í bæinn. Það blæs og hripar gegnum veggi sem hlaðnir eru úr hraungrýti (hraðstorknu gosgrjóti) og því var hafður svelgur í gólfinu í mörgum þeirra bæja sem voru með moldargólfi. Þótt þekjan væri úr tvöfaldri snyddu lak í gegnum hana því grasrót tekin í hrauni er allt annað en mýrartorf. Bæirnir voru viðaðir með skarsúð og þar utanyfir var rennisúð. Sumstaðar voru settir listar á samskeytin og tjargað yfir, en annarstaðár var snyddu hlaðið utaná til skjóls. Bæirnir munu flestir hafa enzt illa. Þórnýjár- og Pétursbær voru t.d. báðir byggðir um 1890 en báðir tæplega mannabústaðir um aldamót. Bæir sem gerðir voru af slíkum vanefnum munu yfirleitt ekki hafa enzt nema í 10 ár.
En hvernig var með vatn – annað en lekann?

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

— Það var líka stríð að hafa neyzluvatn á hraunbæjunum. Allt vatn var sótt í lækinn, hvar sem menn bjuggu í hrauninu. Þar sem Selvogsgatan er nú uppi á Hamrinum var lind, nefnd „Góðhola“ og sóttu Hamarsbúar þangað vatn sitt. Dý var þar sem Kaldá var byggð og þangað sóttu sunnanbyggjar vatn. En allir sem áttu heima fyrir vestan Læk sóttu vatn í Lækinn. María Kristjansdóttir sagði mér frá því að þegar hún var 8 ára, lítið vaxin og pasturslítil, var hún send vestan frá Sveinshúsi (nú Merkurgata 3) suður í Læk með tvær vatnsfötur. Hún fyllti þær í Læknum og rogaðist með þær vestur eftir, en þegar þangað var komið var oft harla lítið eftir í fötunum, því föturnar voru stórar en telpan lítil og var því alla leiðina að reka þær í og hella niður og utaní sjálfa sig. Konur fóru einnig með þvottinn í Lækinn. Læknar sem hingað komu höfðu orð á bví að hér væri þvotturinn hvítari en í Reykjavík, sem mun hafa stafað af því að þegar þvegið var í Laugunum þurfti að bera þvottinn langa leið í bæinn, en hér var hann líka skolaður úr köldu rennandi vatni. — Já, neyzluvatnið var sótt í sama lækinn og þvegið var í.
— Þú segist hafa fengið lýsingu á 100 bæjum, — og þá líka hvar þeir stóðu?
— Já, mér hefur tekizt að fá töluvert af upplýsingum um bæina og byggðahverfin og töluvert um fólkið sem í þeim bjó.
Það segir betur frá því í síðari grein. -J. B.“

Heimild:
-Þjóðviljinn 10. apríl 1960, bls. 6-7 og 10.
stríð

Hafnarfjarðarvegur

Í Vísi 1915 er fjallað um Hafnarfjarðarveginn. Skömmu síðar sama ár skrifar B.B. um veginn. Skrifin eru áhugaverð, einkum í ljósi þess að umræða var þegar orðin um fyrirhugaða sporbraut (járnbraut) milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Byrjað var á járnbrautarsporalagningunni 1918, en frá henni var horfið skömmu síðar, eins og lýst er glögglega annars staðar á vefsíðunni. Hafnarfjarðarvegurinn, einn fjölfarnasti þjóðvegur landsins, hefur sjaldnast fengið að njóta sín af verðleikum. Hann er bæði gömul saga og ný…

Hafnarfjarðarvegur

Vegurinn er merktur inn á kort af Reykjavík frá 1876 ( Benedikt Gröndal). En merktur sem „Gamli vegur“ á korti frá 1887 (Sveinn Sveinsson) en sem Gamli Hafnarfjarðarvegur á korti Benedikts Gröndals frá sama tíma.Vegurinn lá frá Arnarhóli um traðirnar að Traðarkoti og norðan í Skólavörðuholti og í átt að Öskjuhlíð. Vegurinn hefur verið aflagður að mestu árið 1887.Um 1887 er vegurinn merktu inn á kortið frá vegamótum Klapparstígs og Laugavegar, hann er þá aflagður og merktur sem Gamli vegur, hann hefur legið yfir Frakkastíg á milli Laugavegar og Grettisgötu, hefur síðan sveigt yfir Grettisgötu á móts við númer 32, legið síðan í átt að gatnamótum Njálsgötu og Vitastígs, yfir Bergþórugötu við húsnúmer 31 og yfir lóð Austurbæjarskóla og yfir Barónsstíg á móts við Heilsuverndarstöðina. Hann lá svo upp á Öskjuhlíðarveg vestan við Eskihlíð. Greinilegt er að Skólavörðustígur og Öskjuhlíðarvegur hafa leyst þennan veg af hólmi um 1870 en þá var hafist handa við að gera Öskjuhlíðarveg.

„Án efa er þessi vegur einn hinn allra fjölfarnasti vegarspotti á þessu landi. þótt hann sé ef til vill talinn lögum samkvæmt sýsluvegur, þá er hann í reyndinni sannkallaður þjóðvegur og því er það æði einkennilegt, að með fullum sanni má segja, að vegarkafli þessi — milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar — mun vera einn hinn ógreiðfærasti og óhentugasti til umferðar, allra lagðra vega landsins. Í fyrsta lagi, er hann frá upphafi hálfu mjórri en hann ætti og þyrfti að vera, og er það höfuðgalli. Svo mjór er hann víða, að alveg er ógjörningur að koma bifreið fram hjá öðrum vagni, sem hún mætir á veginum og vita allir hér um slóðir hvílík vagnaumferð er á þessari leið og sama máli gegnir um lestir, sem fara mjög um veginn bæði vor og haust.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforingjakorti 1919.

Af því, hve vegurinn er mjór, hafa fyr og síðar hlotist ýms slys og áföll og jafnvel hefir það orðið mönnum að bana. Í öðru lagi er það alveg óskiljanlegt hversu viðhaldið á þessum vegi er bágborið. Um hann allan eru djúpar gjótur og sumstaðar stærðar hnullungssteinar upp úr honum, svo það líkist meira óruddum „fjallabaksvegi“. Ennfremur eru brýrnar, sem bygðar hafa verið yfir lækina á leið þessari, þær ómyndir, að tæpíega er farandi yfir þær með bifreið eða flutningavagn. það eru handónýta fjalir, sem búast má við að hrynji, niður þá og þegar. Þar að auki eru þessar brúarmyndir alt of mjóar og ekki bætir það úr skák, að gleymst hefir að setja handrið fram með þeim eða við endana, svo í nokkru lagi sé.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Fossvogur.

Af þessum ástæðum, sem þegar eru nefndar, þykir það því nær ógerningur að halda uppi bifreiðaferðum um þennan veg. Bæði er það, að þeir, sem málinu eru kunnugir af reynslunni, telja það jafnvel lífshættu að aka bifreiðum um veginn suður í Hafnarfjörð og svo er hitt, að á meðan honum er svo illa haldið við, þá slitna hjólin og vagnarnir svo óbærilega mikið, að úthaldskostnaðurinn fer fram úr öllu hófi. En trúað gætum vér, að mörgum mundi bregða við, ef bifreiðaferðir milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hættu með öllu, því það hefir reynslan sýnt, að þörfin á slíkum flutningatækjum er geysimikil á þessari leið.

Arnarnes

Arnarnes 1903 – herforingjaráðskort.

Vonandi sjá þeir, sem ráðin hafa og völdin í þessu máli, nauðsynina á því, að bæta úr þessum miklu brestum og ætti næsta sumar ekki að líða svo, að veginum verði ekki gjörbreytt og bættur sem þörf krefur. þessa mundi margur óska, því það eru ekki tugir, heldur hundruð, sem um veginn fara marga daga.
Vonandi hætta menn að kýta og metast um það, hverjir eigi að framkvæma verkið, en hefjast heldur handa sem allra fyrst að hægt er og svo að um muni.
Það er ábyrgðarhluti, að bíða eftir slysunum og hálf leiðinlegt að vera orsök í því, að menn þurfi um alla eilífð að ferðast um svo fjölfarinn veg eins og skrælingjar, og enginn búhnykkur er það fyrir þjóðfélagið, að tefja eða hefta för manna að óþörfu.“

Í Vísi í sama mánuði skrifar B.B. um „Veginn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar“:

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

„Um hann var grein í »Vísi« 9. þ. m. Á þeirri tíð, er Gullbringu- og Kjósarsýsla var eitt sýslufélag, mun hafa verið ákveðinn sýsluvegur frá Rvík suður með sjó, og er kaflinn milli landa Ríkur og Hafnarfj. hluti af þeim vegi. Sýslan gerði á sínum tíma vegarspotta þennan akfæran, en bæði var þá afvanefnum að gera og miðað að eins við þörf tímans, sem þá var, og því er vegurinn að gerðinni eins og fyrnefnd grein lýsir honum.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Þegar sýslunni var skift, hlaut hver sýslan þann kafla til viðhalds, sem í henni lá. Kársnes, milli Fossvogs og Kópavogs, er syðsta horn Kjósarsýslu. Yfir það liggur vegur þessi, og hlaut Kjósarsýsla þann klafa. Honum hefir verið sæmilega við haldið, enda gleypti hann mesLalt vegafé sýslunnar árlega, (oftast 300—700 kr.) svo aðra vegi sýslunnar hefir orðið að vanrækja.
Er þessi vegur þó svona út úr sýslunni, og henni ekki fremur að notum, en hann lægi í öðru héraði.

En er umferð Heilsuhælisins og bílanna bættist á þenna mjóa og veikgerða veg, sá sýslunefnd Kjósarsýslu fram á, að henni var ókleift að halda honum í standi, og í eðli sínu óskylt, svo lítið sem sýslurnar nota hann. Var þessi kafli því numinn úr tölu sýsluvega Kjósarsýslu frá nýári 1915. En við hann var svo vel gert síðastl. sumar, að nú er kafli þessi skárstur af Hafnarfjarðarveginum.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Arnarneshæð.

Eitt af listaverkum aukaþingsins í fyrra var breyting á vegalögunum frá 1907, er ákveður að vera skuli flutningabraut frá Rvík til Hafnarfjarðar milli lögsagnarumdæmanna, en þess viðhaldi hennar sé ráðstafað á annan hátt, en lögin 1907 ákveða. Verri grikk var varla unt að gera hinni litlu Kjósarsýslu; því nú eru helst horfur á, að henni verði skipað að halda vegarkafla þessum við sem flutningabraut. En undir það getur hún ekki gengist, Á nýafstöðnum sýslufundi þar var ákveðið, að leita 1000 kr. láns fyrir sýslusjóð, til að bæta bráðustu viðgerðarþörf á sýsluvegum þar, sem legið hafa þar óbættir, af því alt féð lenti í viðhaldi hins óþarfa vegarkafla. Það horfir því til vandræða, ef þvinga ætti sýsluna til að taka á sig í viðbót þenna Kársnesskafla Hafnarfjarðarbrautarinnar, og er vonandi að til þeirra óyndisúrræða verði ekki að taka.

Hafnafjarðarvegur

Gamli Hafnafjarðarvegurinn 1971 – brú í Fossvogi. Fjær er Borgarpítalinn.

Vanhugsað væri að lappa upp á þenna veg til lengdar, eins og hann er. Eigi að fullnægja samgangnaþörfinni þarna, verður að byggja nýjan veg á öðrum stað, og yrði óvíða eða lítil not að þeim vegi, sem nú er, við þá vegargerð. Líklega væri skynsamlegast að leggja þarna sporbraut (járnbraut), og skal eg leyfa mér að láta í ljósi hugmynd mína um legu vegarins (eða sporbrautar), er fullnægja mundi framtíðarþörfinni.

Vegurinn, sem nú er, liggur yfir 6 hæðir (með lægðum á milli) og er víða of brattur. Ætti að leggja framtíðarveg um sama svæði, yrði að sneyða hæðirnar meira og jafnframt beygja inn í dalverpin, og hlyti það að lengja veginn mikið, til að fá hann sæmilega hallalítinn og hægan. Eg hygg því að vegurinn yrði ekki mikið lengri, þó valin væri önnur leið, er nú skal lýst.

Hafnarfjarðarvegurinn

Hafnarfjarðarvegurinn 1947 – malbikið orðið holótt.

Sé um sporbraut að ræða, skal nota hið mælda járnbrautarstæði upp að Blesugróf, ella austur veginn austur á móts við Bústaði, þá járnbrautarleiðina upp fyrir Blesugróf, þá austan við Digranessháls, um Fífuhvamm, Nónskarð, austan Hofstaðaholtið, vestan við Vífilstaði, um Hagakot, og síðan yfir hraunið til Hafnarfjarðar.
Á þessari leið er ein aðal-bugða, en færri lægða- og hæðabeygjur, en ef fara ætti gömlu hálsaleiðina; og heilsuhælið, sem svo mikið notar veginn, fær hann nær sér.
Þetta er a. m. k. þess vert að athuga það.“ – B.B.

Heimildir:
-Vísir, 119. tbl. 09.04.1915, Hafnarfjarðarvegurinn, bls. 1.
-Vísir, 126. tbl. 16.04.1915, Vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar, bls. 2.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn í Hafnarfjarðarhrauni.

Kaldársel

Ætlunin var að ganga á Undirhlíðum til suðvesturs, framhjá Stóra-Skógarhvammi, um Móskarðshnúka, framhjá Markrakagili (Melrakkagili), upp á Háuhnúka (262 m.y.s.) og að Vatnsskarði þar sem gengið verður til baka um Breiðdal og Slysadali að upphafsstað.

Markrakagil

Þegar gengið er frá Bláfjallavegi (sunnan við námuna) er fyrst farið um lága melhæð og lágum hæðum síðan fylgt á ásnum. Gil eru í hlíðinni og verður Stóra-Skógarhvammsgil fyrst áberandi. Í Skógarhvammi er skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Nú eru liðin u.þ.b. hálf öld síðan byrjað var að gróðursetja tré þarna í hlíðunum og hefur af hlotist hinn myndarlegasti skógur, líkt og í Ingvarslundi nokkru norðar með þeim. Utan í gíg neðan og skammt sunnan við Bláfjallaveginn vottar fyrir fornum hleðslum.
Þá var komið að svonefndum Móskarðshúkum. Hauhnukar-2Örnefnið hefur valdið ágreiningi í gegnum tíðina, en hvað sem því líður er þarna um að ræða bæði fallegar og tignarlegar móbergskletta-myndanir, sem verð er að gefa góðan gaum. Myndræn skál er í „Hnúkunum“ og ef gengið er umleikis þá má bæði sjá fallegar myndanir og góð skjól.
Áður en komið var upp á Háuhnúka; efstu hæðir Hlíðarinnar, má sjá steina á stökum móbergsstandi. Þar mun vera um að ræða landamerki Hafnarfjarðar (?) og Krýsuvíkur. Loks var komið á efsta Háahnúkinn. Þar er varða. Staðsetninguna má ráða af hinu fallegasta útsýni í allar áttir; einkum til suðurs og suðvesturs.

Markrakagil

Markrakagil.

Markrakagil er síðan á hægri hönd. Aðrar lýsingar segja Markrakagil og Vatnsskarð vera eitt og hið sama. Landamerki Hafnarfjarðar liggja um gilið og í beina línu í Markraka ofan við Dauðadali suðaustan við Helgafell. Mörkin eru reyndar óviss vegna þessa álitamáls, en samhengi er í nöfnunum á þessum tveimur stöðum. Markraki er eitt af mörgum nafngiftum refsins, melrakkans.
Þá var komið í Vatnsskarð. Ofan við það er varða; líklega hin fornu landamerki, en þarna munu landamerkin hafa legið fyrir aldarmótin 1900 (sjá herforingjakort frá 1919).
VatnsskardOfan í Melkrakagili (Vatnsskarðsgili?) er fallegur berggangur, einn sá fallegasti og aðgengilegasti á Reykjanesskaganum. Hann var barinn augum. Loks var Dalaleiðinni fylgt um Breiðdal og Slysadölum að upphafsstað. 

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1945 lýsir Ólafur Þorvaldsson svonefndri Dalaleið, þ.e. um fyrrnefnda dali að norðanverðu Kleifarvatni: „Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.
Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krísuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.“

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Þegar komið var að endamörkum var rifjuð upp fyrr ferð um svæðið, líkt og sjá má á eftirfarandi texta: Gengið var frá Krýsuvíkurvegi ofan við Vatnsskarð um Breiðdal, Leirdal og Slysadali, haldið yfir á Skúlatún í Skúlatúnshrauni og síðan niður í Kaldársel framhjá Gvendarselshæðargíga og Kaldárhnúka.
Gengið var niður í sunnanverðan Breiðdalinn og áfram til norðausturs vestan Breiðdalshnúks. Norðan hans var beygt upp á holtin og haldið áfram á þeim til norðausturs, yfir í Leirdal. Þar er Leirdalsvatnsstæðið, annað af tveimur. Beygt var frá því og gengið að Leirdalshöfða og með honum niður í Slysadali. Dalirnir eru vel grónir. Í þeim norðanverðum er nokkuð er líkist tóftum, en Breiddalur-2gæti verið hvað sem er. Dalirnir virðast vera einn, en Bláfjallavegurinn sker nú dalina. Landið þarna er að mestu innan hinna fornu Almenningsskóga Álptaneshrepps, en Slysadalir eru innan lögsögu Hafnarfjarðar. Útlendur ferðamaður var að koma frá Krýsuv
ík á 19. öldinni, hafði farið um Hvammahraun og Fagradal að vetrarlagi. Hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur og ekki fyrir hesta. Vilpur voru í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð enginn.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Áður en komið var upp á þjóðveginn var beygt til austurs, yfir nokkrar klettasprungur. Í þeim óx fallegur burkni. Nokkur jarðföll eru þarna á svæðinu og í nokkrum þeirra litlir og lágir skútar.
Skúlatúnið blasti við í austri. Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarssonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Eru munnmæli um að Skúalstaðir hafi verið þar sem Skúlastaðahraun er, sem er norðan við Lönguhlíðarhorn, innan Almenningsskóga Álftaneshrepps.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Gengið var í átt að Skúlatúni. Að sumra áliti gæti þar hafa verið landnámsbær, en þó er það talið ólíklegt. Skúlatún er þúfótt graseyja í Tvíbollahrauni (Skúlatúnshrauni). Ekki skyldi þó efast fullkomlega eða útiloka með öllu að þar undir kynnu að leynast einhverjar minjar. Skúlatúnshraun (stundum einnig nefnt Hellnahraun eldra) er slétt helluhraun og er talið hafa runnið fyrir 2000 árum.
Tvíbollahraun eða Hellnahraun yngra eru frá því um 950. Það kom úr Brennisteinsfjallakerfinu, líklega frá Stórabolla í Grindaskörðum og stíflaði meðal annars Hvaleyrarvatn. Hraunið myndar ströndina milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Gengið var norður hraunið, yfir Gullkistugjá og í beina stefnu að nyrsta hluta Gvendarselshæðargíga. Gígarnir eru tilkomumiklir og er hægt á gönguleiðinni norður með þeim austanverðum að lesa jarðfræði gíganna sem og svæðisins, auk tilkomu hraunsins, nokkuð vel, allt nema kannski aldurinn.
Gengið var niður með Kaldárhnúkum og niður að Kaldá, þar sem gangan endaði.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 3 mín.
breiddalur

Hafnarfjörður

„Kotin og þurrkvíin“ – síðari hluti frásagnar Gísla Sigurðssonar, lögregluþjóns, í Þjóðviljanum árið 1960. „Hér segir Gísli nokkuð frá gömlu hafnfirzku kotunum, byggðahverfunum og gömlum örnefnum. En hann segir líka frá riddaranum og þurrkvínni hans, svo og kóngsins böðli og Bessastaðavaldinu, en fáa staði landsins hefur erlent vald leikið jafn grátt og byggðina á Suðurnesjum, bæði fyrr og síðar, og engir Íslendingar heldur lengur borið menjar erlendrar yfirdrottnunar en fólkið þar.

Gísli sigurðsson

Gísli Sigurðsson fyrir framan lögreglustöðina.

Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði hefur ekki aðeins safnað heimildum er komnar hafa verið að því að glatast, heldur hefur hann einnig grafið upp þræði úr sögu Hafnarfjarðar um hálfa fjórðu öld aftur í tímann. Í fyrri hluta spjallsins við hann vorum við komin að því að ræða um einstaka bæi og örnefni.
— Með fyrstu bæjarnöfnunum sem heimildir eru um hér í Hafnarfirði, segir Gísli, er Brúarhraun. Það var byggt um 1770, en líklega mun hafa verið þar sjóbúðarnefna á 17. öldinni.
Klofi var byggður 1775 og Gestshús um 1790. Fram af Gestshúsum var á sínum tíma byggð fyrsta hafskipabryggja í Hafnarfirði og Bæjarútgerðarhúsin standa á Klofalóðinni. Nýjahraun, (nú 27 við Strandgötu) var byggt 1806.
Garður eða Sigþrúðarbær stóð þar sem byggt var hús Einars Þorgilssonar (nr. 25 við Strandgötu). Markúsarbær (Markús þessi var forfaðir Brynjólf Jóhannessonar leikara) stóð þar sem nú er Sjálfstæðishúsið (nr. 29 við Strandgötu). Fyrsti bær við Lækinn var Weldingshús, byggt um 1784 og kennt við Kristján Welding, steinsmið og assistent við verzlanir hér. Frá honum er mikil ætt komin. Lækjarkotsnafnið kemur fyrst fram um 1830, en það er ekki það Lækjarkot sem síðar var kunnugt móti Dverg.
brandsbaer IIBæirnir voru eins oft kenndir við konur, t.d. Kolfinnubær, — sem einnig var nefndur Tutlukot. Á Hamrinum var Hamarsbærinn, sem Bjarni Oddsson verzlunarmaður hjá Linnet byggði á öldinni sem leið. Sjóbúð var þar nokkru sunnar. Hamarsbæjarnafnið færðist svo yfir á annan bæ, sem nú er Hellubraut 9, en upphaflegi Hamarsbærinn var svo kallaður Bjarnabær, og er nafnið í góðu gildi enn, Hella er byggð um 1870, og heitir þar svo enn. — Þá kemur næst suður í Flensborgar- eða Skuldarhverfið. Þar verður fyrst fyrir Guðrúnarkot. Nafn þetta lifir fram yfir 1860. Þar umhverfis rís svo heil bæjarþyrping, kölluð Skuldarhverfi. Hvernig nafnið er til komið er óvíst, en líklegt má telja að bæirnir hafi verið í skuld við Flensborgarverzlunina; það voru fátæklingar sem þarna bjuggu.
Óseyri verður til 1770-1774 og Ásbúð um svipað leyti og Melurinn. Brandsbær heitir svo eftir fyrsta búanda þar, Guðbrandi að nafni.

Hafnarfjordur 1890

Hafnarfjörður 1890.

Í Vesturbænum var t.d. Skamagerens Hus, er fyrst hét svo, en síðar aldrei kallað annað en Skóbót. Skerseyrar og Bala er beggja getið í jarðabók Árna Magnússonar. Þar vestur frá var líka bær sem kallaður var Sönghóll, og hefur sennilega einhverntíma verið glatt á hjalla þar.
Fyrst framan af virðist Hafnarfjarðarnafnið aðeins hafa náð yfir byggðina norðan Lækjarins. Byggðin í hrauninu skiptist í Lækjarþorpið, það náði frá Gerðinu (hjá Barnaskólanum) og inn að Gunnarssundi. Brúarhraunshverfið náði frá Guðarssundi að Linnetsstíg — og suður að Læk við Ósinn. Frá Linnetsstíg tók við Skemmuþorpið vestur að Reykjavíkurvegi. Stofuþorpið eða Akurgerði var þaðan vestur að Merkúrgötu eða Klofa og Gestshúsum. Frá læknum og suður að Hamri var stundum nefnt Miðfjörður, nokkru seinna er öll byggðin suður að Hamri nefnd Hafnarfjörður. Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær — og var þá konungsjörð. Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.

Sívertsenshús

Sívertsenshús.

— Bjarni riddari var víst einn umsvifamesti Hafnfirðingur, fyrr og síðar.
— Já, og þegar hann fór að stofna til skipasmíða byggði hann m.a. þurrkví fyrir 3 skip við Skipaklett. Hún var til fram að 1882 eða 1884, ég talaði við fólk sem mundi hana þar. Í sóknarlýsingu sr. Árna Helgasonar prófasts í Görðum er ágæt lýsing á henni. Sr. Árni segir þar: „Í Hafnarfirði er grafin gröf inn í malarkambinn í hléi við klettasnös sem gengur fram í fjörðinn til suðurs skammt fyrir vestan það elzta höndlunarhús. Í þessa gröf gengur sjór með hverju aðfalli, en um fjöruna er hún þurr. Fyrir framan er hurð og sterkt plankaverk með grjóthleðslu fyrir innan, nema þar sem hurðin er. Hingað eru á haustin, með stórstraumsflóði, leidd 3 þilskip. Fleiri rúmast þar ekki, en eigi veit ég hvort þetta má heita hróf. Flest þilskip standa allan veturinn í fjörum hinu megin fjarðarins, sunnan til við Óseyrartanga, bæði þau sem hér eiga heima og eins nokkur annarstaðar frá“. Á Skipakletti er nú risin aðalbygging Hraðfrystihúss Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar.

Hafnarfjordur 2008

Lækurinn í Hafnarfirði.

— Voru ekki fleiri „klettarnir“ — og hefur þú ekki safnað örnefnum almennt?
—Jú, ég hef safnað töluverðu. af gömlum örnefnum, bæði eftir munnlegri geymd og skráðum heimildum og reynt að rekja sögu þeirra. „Klettanir“ voru t.d. „Brúarhraunsklettur“, „Fjósaklettur“, „Skipaklettur“ (stundum nefndur jagtaklettur) — hann er sem fyrr segir horfinn undir Bæjarútgerðina, og loks var Fiskalettur“. Hann var þar sem nú er Vesturgata 32; var fjórklofinn. Hann hét svo vegna þess að af þessum kletti var hægt að fiska úr landi áður fyrr. Það var strax dýpi fyrir utan og „þar á leirnum var oft mikill fiskur fyrrum.

Hamarinn

Hamarinn í Hafnarfirði.

Vesturhamarinn gekk líka stundum undir nöfnunum Sjávarhamar og Skiphamar, en Vesturhamarsnafnið hefur alltaf borið sigur af hólmi. Allir þessir „klettar“ eru fyrir löngu horfnir nema eitthvað mun enn sjást af Fiskakletti. Fyrir sunnan fjörðinn var Grandinn með Skiphól, Kringlu og Háagranda. Þar fyrir suunan tekur Hvaleyrin við. Á Hvaleyri hafa sennilega verið einhver reisulegustu bæjarhús á landinu, bæði á 19. og 20. öld. Þorsteinn Jónsson bjó þar á 19. öld og 1850—1870 bjuggu þar Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir. Ég hef lýsingu á bæ þeirra; það var mjög myndarlegur bær. Hjáleigur á Hvaleyri voru allt að því 6, og hétu þær eftir körlunum sem á þeim bjuggu. Sveinskot fær nafn af Sveini Eiríkssyni er býr þar frá 1840—1855. Halldórskot eftir Halldóri búanda þar 1847—1877. Hjartarkot eftir Hirti er bjó þar 1868—1872. Vesturkot mun lengst af hafa verið kallað því nafni af því það var vestast, en það var líka nefnt Drundurinn af því það var yzta totan á eyrinni. Ennfremur voru á Hvaleyri Þórðarkot og Tjarnarkot.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Þegar mest var byggt voru þar sex hjáleigur samtímis, og húsmenn að auki, bæði á aðalbænum og hjáleigunum. Í sambandi við þessa könnun mína á nöfnum hef ég fengið lýsingar af bæjunum í bænum hjá mörgu ágætu fólki og hef getað borið lýsingar þess saman. Þá fór ég einnig að grafa upp hvaðan fólkið var komið, og er langt kominn með það en það er tafsamt verk. Heimildarbækurnar eru orðnar um hundrað, manntöl og kirkjubækur norður til Eyjafjarðar og og austur í Skaftafellssýslu, því fólkið var komið hingað og þangað að. Þá hef ég einnig kannað dómabækur í þessu sambandi.

Árið 1603 býr á Hvaleyri Guðlaugur nokkur Guðlaugsson. Í Alþingisbók frá Kópavogsþingi er hans getið það ár. Þeir voru teknir fjórir saman fyrir þjófnað, en svo virðist sem hann hafi tekið á sig sökina, því Jónar tveir sluppu og einnig Ólafur nokkur Pétursson er var „borgaður út fyrir góðra manna bænarstað og sakir ætternis, og svo vegna „eyðar konu sinnar og barna og erfiðleika í búskap“..

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Ekkert slíkt hlífir Guðlaugi og um hann segir svo: „Um Guðlaug Guðlaugsson þá ályktast svo og fullnaðist að áðurskrifaður Guðlaugur undirbjó og lofaði með fullnaðarhandsölum sjálfviljuglega konunginum og hans umboðsmönnum að þjóna sína lífstíð, og refsa það honum verður skipað eftir lögmáli, það gjöra að því tilskyldu að hann hefði nokkurt auðkenni það hann mætti bera alla sína daga fyrir vondan glæp og tilverknað, og til merkis ef hann kann aftur um að hlaupast, en steli hann aftur eða sýni hann aðra nokkra óhlutverdni, þá sé hann réttfangaður og dræpur“… Hvaleyrarbóndi þessi er þannig brennimerktur og gerist Bessastaðaböðull til þess að bjarga eigin lífi og félaga sinna, annarra en þess sem var „borgaður út fyrir góðra manna bænarstað og sakir ætternis“.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Sonur Guðlaugs, Jón að nafni, bjó í Hamarskoti og giftist dóttur lögréttumanns á Vatnsleysuströnd. Ormur Jónsson býr á Hvaleyri 16S6—1714. Hann var leiguliði konungs. Ábúðarkjör hans eru þessi: „Kvaðir eru; Mannlán um vertíð, tveir hríshestar heim til Bessastaða með skyldu, en margoft þar fyrir utan einn hríshestur, tveir eða þrír á ári fyrir bón, og einu sinni í tíð Heidemanns sjö um árið og tveimur áskyldum. Hér að auki tveir dagslættir árlega heim til Bessastaða og fæði bóndinn verkamennina sjálfur. Ennþá hér á ofan skipaferðir hvenær sem umboðsmaðurinn á Bessastöðum kallar, vetur eða sumar, og er óvíst hve margar verði, fæðir bóndinn mann þann ávallt sjálfur, hvort sem reisan varir lengur eða skemur“. Auk þess þegar upptalda er svo lambsfóður án endurgjalds.

Hvaleyri

Hvaleyri – loftmynd 1954.

Í þessu sambandi er vert að minnast þess að Hvaleyrarbóndinn hafði marga hjáleigubændur og hefur hann vafalaust reynt að koma sem mestu af þessum kvöðum yfir á þá, svo þá sem endranær hafa byrðarnar komið þyngst niður á þeim fátækustu.
Gísli hefur frá mjög mörgu fleiru að segja, en þetta verður að nægja að sinni. Við sleppum því að ræða nú um veru Englendinga og Þjóðverja á Hvaleyri, sem báðir höfðu þar aðsetur og þá sinn hvoru megin við Ósinn, og var ærið róstusamt stundum. Gömlu skipanaustin, sem þó voru enn við lýði fyrir ekki löngu árabili, munu nú horfin.“

Heimild:
-Þjóðviljinn 26. apríl 1960, bls. 6-7 og 10.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum.

Húshellir

Nafnið Fjallið eina hefur löngum vafist fyrir mörgum. Fjallið eina er ekki aðeins nafn á einu fjalli eins og ætla mætti, heldur þremur, ef fjöll skyldi kalla. Þau eru þessi:

Fjallið eina

Fjallið eina – dæmigerður stapi.

1) Móbergshnjúkur (223 m) skammt vestan við Krýsuvíkurveg, norður af Sveifluhálsi fyrir sunnan eða suðvestan Óbrinnishólabruna.
2) Ávöl alda (401 m) í Árnessýslu, austan undir Bláfjöllum í Reykjanesfjallgarði.
3) Lágt fell (210 m) í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu. Því er þannig lýst í örnefnaskrá: “Vestan við Höskuldarvelli er norðurendi á frekar lágu felli, sem er mjög langt og mjótt og liggur til suðurs. Heitir það Oddafell, stundum nefnt Fjallið eina.” (Örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu). Sesselja G. Guðmundsdóttir segir í bók sinni, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, að við vesturjaðar Höskuldarvalla sé “Oddafell sem Þ. Thoroddsen kallar Fjallið Eina og er það eina heimildin um þetta nafn á fellinu. Líklega hefur verið einhver nafnaruglingur hjá Thoroddsen því Fjallið eina er til á þessum slóðum eða nokkrum kílómetrum norðaustan við Dyngjur.”

Hverinn eini

Hverinn eini.

Hér gæti verið komin skýring á staðsetningu útilegumanna á Reykjanesskaganum er kveður á um dvöl þeirra undir Núpshlíðarhálsi sunnan Selsvalla, en þeir færðu sig síðan norður með fjöllunum og fundu sér stað nálægt Hvernum eina. Menn gætu hafa verið að færa fjöllin og jafnvel hverina til eftir því sem þeir best þekktu. Þannig gæti Oddafellið hafa heitið Fjallið eina um stund þar sem Hverinn eini var þar. Menn gætu hafa tengt hann staðsetningu útilegumannanna. Þeir gætu því hafa haldið til í helli við Fjallið eina norðan Hrútargjárdyngju, sem reyndar er ekki svo langt í burtu, en þó í öryggri fjarlægð frá þeim stað, sem vitnaðist um þá við Selsvelli. Í Húshelli við Fjallið eina eru hleðslur og mannvistarleifar. Hellirinn er við gömlu þjóðleiðina upp frá Stórhöfða áleiðis til Krýsuvíkur.
Þetta er einungis hugmynd – og ber að virða hana sem slíka.

Húshellir

Op Húshellis.

Kaldársel

Gengið var frá Kaldárseli eftir Kúastíg, um Kýrskarð og Gvendarselshæðargíga, yfir Undirhlíðar, niður í Kerin og suður með vestanverðum Undirhlíðum. Litið var niður í dýpi Aðalholu og sigið niður í Aukaholu. Um er að ræða gamlar djúpar (17 m og 10 m) sprungugjár, sem nýrra hraun hefur runnið niður í og smurt veggi og lausagrjót, formað súlur og ýmis litbrigði. Bandspotti reyndist nauðsynlegur til að komast upp úr holunni.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum – Helgafell fjær.

Undirhlíðarnar eru framhald af Sveifluhálsinum til norðurs, ef svo má segja. Nyrsti hluti þeirra að austanverðu nefnast Gvendarselshæðir og Gvendarselshæðargígar norðan þeirra. Þeir eru stórbrotnir þar sem þeir liggja á sprungurein austan með hæðinni og út frá henni til norðausturs.
Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta.

Aukahola

Aukahola.

Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar. Nær friðlýsingin einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Vatnsból Hafnfirðinga er nú við Kaldárbotna og er vatnasvæðið girt af þ.á.m. Helgidalur sem var áður vinsæll útivistastaður. Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Ofan við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.

Sprungur

Vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum.

Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Berggrunnurinn er úr hraunum, grágrýti og móbergsmyndunum. Þótt hraunin þeki víðáttumilkil svæði á þessum slóðum liggja þau að mestu yfir grunnvatnsborði. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna.

Aðalhola

Aðalhola.

Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum. Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Einum kílómetra neðar er hún öll horfin til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu. Stærð hans er áætluð 5 – 10 m³/s.
Gengið var frá Kaldárseli frá seltóftunum sunnan undir húsgafli KFUMogK. Kaldá rennur þar um hraunið neðanvert. Sunnan hennar eru áklappaðir letursteinar. Sólin baðaði bakkana og vatnið lét sér við klakana.

Aukahola

Í Aukaholu.

Fylgt var Kúsastígnum að Kaldárhnúkum nyrst á Undirhlíðum og þeim síðan fylgt til suðurs að Kýrskarði um skógræktina til suðurs með vestanverðum hlíðunum. Gengið var upp skarðið og upp að Gvendarselshæð. Gvendarselshæðargígar sáust þar norðar, en haldið var ofan og framhjá einum syðsta gígnum og áfram upp að hinu svonefnda Gvendarseli. Þar eru tóftir selstöðu, en hvort hún hafi verið brúkuð til lengri eða skemmri tíma er erfitt að álykta með því eina að horfa á tóftirnar.
Gengið var niður dal milli Undirhlíða og Gvendarselsgíga og var stefnan tekin að rafmagnsmastri fremst á brún Undirhlíða, að vestanverðu. Þar fyrir neðan eru Kerin, falleg náttúrufyrirbæri, hluti af gígaröð. Hægt er að gagna niður í nyrðri gíginn og um gat upp í þann syðri. Hann er kjörinn áningastaður, enda skjólgóður með afbrigðum. Ofan við barma hans vex ein stærsta villta birkihrísla á Reykjanesskaganum, ca. 5-6 m há. Hið ágætasta útsýni var frá Kerunum suðvestur að Keili og Grænudyngju með Fjallið eina í forgunni. Stighækkandi sólin baðaði hæstu fjallakollana.

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur framundan.

Undirhlíðastígnum var fylgt til suðurs, yfir Bláfjallalveg og inn að Stóra-Skógarhvammi. Þar hefur átt sér stað mikil gróðursetning trjáplatna s.l. 40 ár á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Guðmundur Þórarinsson, kennari, var m.a. einn frumkvöðla þessarar gróðursetningar og er lundurinn í raun lifandi minnisvarði um þann ágæta , annars hlédrægna, heiðursmann.
Undirhlíðar eru hluti af vestra gosbelti landsins, sem liggur eftir endilöngu Reykjanesi noður í Langjökul, oft kallað Reykjanesgosbeltið. Helstu einkenni þess eru móbergshryggir með hraunþekju inn ámilli. Móbergshryggirnir hafa sennilega myndast á síðasta jökulsskeiði, sem stóð yfir í um 100.000 ár og lauk fyrir um 10.000 árum. Þeir hafa myndast við gos undir jöklum, þars em gosefni ná ekki að renna sem hraun heldur hlaðast þau upp nálægt gosstöðvum sem móbergsfjöll eða móbergshryggir, allt eftir lengd gossprungu.

Aðalhola

Í Aðalholu.

Undirhlíðar er dæmigerður móbergshryggur. Á hlýskeiðum renna gosefnin aðallega sem hraun er mynda breiður í dali og lægðir á milli gosbergsmyndana. Harun,s em myndast hafa eftir síðustu ísöld kallast nútímahraun og eru Kapelluhraun (rann 1151) og Skúlatúnshraun dæmi um slík hraun. Skúlatúnshraun er svonefnt dyngjuhraun, en dyngjuhraun eru í raun stafli af mjög þunnum hraunlögum.
Undirhlíðar eru móbergshryggur með bólstrabergskjarna, sem myndast hefur á ísöld, en síðustu ísöld lauk fyrir u.þ.b. 10.000 árum.
Bólstraberg er stundum nefnt kubbaber eða bögglaberg eftir stærð bólstranna.

Gvendarselshæð

Gvendarsel í Gvendarselshæð.

Fornleifakönnun var gerð árið 1998 og Dalaleið, sem liggur ofan Undirhlíða (Gvendarselshæðar) var könnuð árið 2003. Á svæðinu fundust sex fornleifar á þremur stöðum. Þær eru Gvendarsel (sel frá Görðum, fjórar rústir), óþekktar rústir í gíg vestan við Báfjallaveg og Undirhlíðarvegur, gömul þjóðleið, sem lá til Krýsuvíkur. Undirhlíðavegur er þegar spilltur á kafla þar sem Bláfjallavegur fer yfir hann. Dalaleiðin var forn þjóðleið er lá til Krýsuvíkur.
Vestan við Stóra-Skógarhvamm er alllöng sprunga á misgengi. Um er að ræða eldri sprungu í nýrra hrauni. Óbrennisbrunahraunið hefur runnið niður í gömlu gjána og myndað falleg litbrigði sem og formað hinar ýmsustu hraunmyndanir.
Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 metra vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu. Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra gosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín. Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígarnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.

Óbrinnishólar

Í Óbrinnishólahelli.

Eftir að kíkt hafði verið niður í Aðalholu, lítt árennilega, var haldið yfir að Aukaholu skammt sunnar með sprungunni.
Sigið var á böndum niður í hana. Fallegar hraunmyndanir eru niður í sprungunni og enn bættu grýlukertin og klakaseparnir á gólfum um betur. Hellirinn í holunni er á tveimur hæðum. Birta kemur og niður um stórt op sunnan við það sem farið var niður um.
Gengið var til baka um Óbrinnishólabruna með stefnu á Kaldársel. Víða sáust refa- og rjúnaspor, auk þess fjölmargar rjúpur sásust á flugi með hlíðunum.

Kaldársel

Áletrun við Kaldársel.