Tag Archive for: Hafnarfjörður

Ófriðarstaðastígur

Gísli Sigurðsson skráði örnefni fyrir Ófriðarstaði við Hafnarfjörð.

Ófriðarstaðir

Ófriðarstaðir á fyrri hluta 20. aldar.

Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.

Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.

Ófriðarstaðir

Ófriðastaðir um miðja 20. öld.

Ófriðarstaðir var konungsjörð fram til 1804 er Bjarni riddari Sívertsen eignaðist jörðina með það í huga að reisa þar skipasmíðastöð. Bjarni átti jörðina meðan hann lifði en það voru danskir kaupmenn sem keyptu hana þá á uppboði eftir andlát Bjarna og seldu þeir svo jörðina í tvennu lagi. Til aðskilnaðar þá hélt sá hluti jarðarinnar er Árni J. Mathiesen keypti nafninu Ófriðarstaðir/Jófríðarstaðir en hinn hlutinn fékk þá nafnið „Hamar“ii. Eftir það gengu þessir jarðarhlutar kaupum og sölum þar til Hafnarfjaðrarbær eignaðist stóran hlut úr Hamri og Maríuprestaregla heilags Louis Grignion de Montfort, sem þá þjónaði kaþólsku kirkjunni á Íslandi, keypti Jófríðarstaði á árunum 1921 og 1922.

Jósepsspítali

Jósepsspítali.

Regla St. Jósefssystra studdi jarðakaupin strax með því að kaupa tveggja hektara spildu af Montfort-reglunni undir spítala og aðra starfsemi.

Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á. Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.

Ófriðarstaðir, jörð í Garðahreppi, fyrrum í Álftaneshreppi. 1885 var nafninu breytt í Jófríðarstaðir, en eldra nafninu er haldið hér. Ófriðarstaðabær stóð í svolitlum slakka austur af Ófriðarstaðahól. Vestan bæjarins stóð Ófriðarstaðahúsið, eftir að þar var reist, og tvíbýli varð á jörðinni 1885.

Ófriðarstaðir

Ófriðarstaðir um 1855 – tilgáta. Suðurtraðir.

Ófriðarstaðatún var allstórt, umgirt Ófriðarstaðatúngörðum. Austurtúngarður lá suðaustan og austan að túninu, norðurtúngarður bak við bæinn og vestur fyrir hól, en vesturtúngarður ofan frá hól niður að Ófriðarstaðalæk, sem rann með öllu Suðurtúninu. Á Ófriðarstaðahól var mikil huldufólkstrú, og klettum og klöppum kringum hann. Brekkan suður og niður frá hólnum nefndist Kinn, allt niður að Suðurtröðum, sem enn sér merki, því traðargarðana sér enn. Meðfram læknum var Harðhaus. Þá mun þarna í Suðurtúninu hafa verið Þinggerðið.

Ófriðarstaðir

Ófriðarstaðir – landamerki.

Utan austurtúngarðs var ræktun, nefndist Nýjatún. Sagnir voru uppi um, að þar hafi verið kofi, sem Skáld-Rósa átti að hafa búið í, nefndist Rósukofi. Frá bæ norður lágu Norðurtraðir í norðurtraðarhlið. Ásgatan lá frá traðarhliðinu suður með austurgarði að Ási, en frá hliðinu lá Ófriðarstaðastígur niður í kaupstaðinn.
Kvíholt var í norðaustur frá bænum. Þar stendur nú Karmelítaklaustur. Neðan undir því rann Kvíholtslækur. Á fyrstu árum aldarinnar voru nokkrir bæir byggðir rétt við stíginn. Má þar nefna Ívarshús með Ívarsbæjarlóð, Klapparholt með Klapparholtslóð. Bær þessi stendur enn og var venjulega aðeins kallaður Holt.
Á Vesturhamar liggur landamerkjalínan; nefnist hann einnig Sjávarhamar, Skiphamar og Flensborgarhamar.

Steinsstaðir

Steinsstaðir.

Hamar var stór og reisulegur bær á Hamrinum. Í Hamri var bær snemma byggður, og undir aldamótin var bær byggður þar, er nefndist Miðengi. Um Hamarinn, rétt neðan við bæi þessa, lá alfaraleiðin, síðan niður af Hamrinum og eftir fjörunni suður yfir Ásbúðarlæk og áfram. Sunnan við Miðengi var bærinn Hella. Þar suður af var sjóbúðin, sem seinna nefndist Steinsstaðir, og þar sunnar Mýrarhús. Allir þessir bæir áttu sínar lóðir: Hamarslóð, sem einnig nefndist Bjarnabæjarlóð og Bjarnabær bærinn, Miðengislóð, Hamarslóð 2, Hellulóð, Sjóbúðarlóð og síðar Steinsstaðalóð, þá Mýrarhúsalóð.

Kaldadý

Kaldadý (Kaldalind) – loftmynd 1954.

Suður af Mýrarhúsum var Kaldalind [Kaldadý]. Þaðan var fyrst vatni veitt til neyzlu í Firðinum 1905. Einnig var 1891 veitt vatni úr þessari lind að gosdrykkjaverksmiðjunni Kaldá, sem Jón Þórarinsson skólastjóri setti á stofn. Frá Kaldá rann Kaldárlækur. Einnig lá Kaldárstígur frá verksmiðjunni niður að sjó.
Niður undan Hamrinum tók við Ófriðarstaðamöl og Ófriðarstaðafjara. Rétt við Hamarinn var svo Ófriðarstaðavör, og þar hjá Ófriðarstaðasjóbúð. Síðar fékk staður þessi eftirtalin nöfn: Hellumöl, Hellufjara og Hellusjóbúð og fjárhús Hellukofi. Hér í fjörunni stofnaði Júlíus V. J. Nýborg skipasmíðastöð. Hér stendur nú skipasmíðastöðin Dröfn.

Ófriðarstaðir

Hafnarfjörður á árum fyrri heimstyrjaldarinnar, á árunum 1914 til 1918. Myndin er tekin ofan af Ófriðarstöðum, hæst á Ölduslóð. Séð er yfir svæði sem kallaðist Austur- og Vesturhamar en er nú Hlíðarbraut, Suðurgata og Hamarsbraut og Hringbraut. Fjörðurinn og vesturbærinn fyrir miðri mynd.

Ofan við mölina er Sjávarmýrin og efst í henni Briemstún. Gunnlaugur E. Briem ræktaði þarna tún, þegar hann var verzlunarstjóri fyrir Knudtzon. Vestar tók svo við Íshúsfjara og Íshúsmöl eftir að Aug. Flygenring reisti hér íshús.
Í holtinu upp frá Melnum var Miðaftansvarða, eyktamark frá Ófriðarstöðum. Héðan nefndist lækurinn Ófriðarstaðalækur. Vestan hans, upp við traðarhlið, var lambhúsið.
Sunnan lækjarins voru nokkuð börð, þar á meðal Gálga-torfur. Veit þó enginn deili á þeirri nafngift. Þegar kemur upp fyrir túnið, nefnist lækurinn Grænugrófarlækur, enda rennur hann hér ofar um Grænugróf. Þegar sleppir Brandsbæjarholti, tekur við Háaleiti eða Ófriðarstaðaleiti.“

Heimild:
-Örnefnaskrá fyrir Ófriðarstaði – Gísli Sigurðsson.

Ófriðarstaðir

Ófriðarstaðir – loftmynd frá 1937 sett yfir loftmynd frá 2024 – ÓSÁ.

Ásbúð

Gísli Sigurðsson skrifaði um örnefni Ásbúðar við Hafnarfjörð. Öll ummerki um bæinn eru nú horfin.

Ásbúð

Ásbúð.

„Þegar kom vestur fyrir Flensborgarhús, var komið að Ásbúðarlæk, sem hér rann fram í Ásbúðarós, og hér lá yfir Ásbúðarvað. Heyrzt hefur, að lækur þessi væri kallaður Flensborgarlækur.
Sunnan lækjarins og inn með honum var Ásbúð. þar var löngum tvíbýli, þó þurrabúð væri. Hétu bæirnir Sigvaldabær og Halldórsbær. Ásbúðartún og Ásbúðar-Nýjatún lágu hér kringum bæina, girt Ásbúðartúngörðum. Sunnan túnsins var svo Ásbúðardý, vatnsból bæjanna. Um aldamótin byggðist Melshús og ræktaðist Melshústún. Hér upp brekkuna var vegur lagður, Suðurgatan. Sunnan vegarins var Mómýrin eða Raftamýrin, því raftamór kom upp þarna. Gíslatún nefndist hér, eftir að Gísli Gunnarsson ræktaði mýrina nær alla, en Ólafstún var hér ofar í holtinu.

Ásbúð

Horft frá þar sem Ásbúð stóð að Flensborg og yfir fjörðinn. Í forgrunni má sjá garðahleðslur og hrunið hlaðið útihús svo þar sem Brandsbæjarlækur rann út í höfnina, þar var áður uppsátur skipa. Flensborgarskólinn þá skólahúsið nýja reist 1902. Hamarinn ber við himininn.

Niður við Ásbúðarlæk, sunnan Suðurgötu, var byggður bær, nefndist upphaflega Lækjamót, og fylgdi bænum Lækjamótalóð. Nafnið hélzt ekki við, en annað kom í staðinn, Mýrin eða _í Mýrinni“ og Mýrartún. Snemma á öldinni, sem leið, um 1835, var byggður bær hér ofan mýrar. Nefndist Melurinn. Þar var ræktað Melstún. Melsdý voru í mýrinni, litlar lindir, en rennsli frá þeim sameinaðist í Melslæknum. Neðan frá Flensborg, sunnan garða og upp með læknum, lá Melsstígur. Þar sem bærinn var byggður hafði áður verið þurrkvöllur fyrir mó úr mýrinni. Guðbrandur hét sá, er fyrstur bjó hér, því tók bærinn einnig nafn af honum, Brandsbær, Brandsbæjartún og Brandsbæjardý og Brandsbæjarlækur.“

Höfðaskógur

Jófríðastaðasel – tóftir.

Í Örnefnalýsingu Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar fyrir Hafnarfjörð segir: „Ásbúð var upphaflega þurrabúð frá Ási. Þar var tvíbýli.“
Í Jarðabók inni 1703 segir: „Jörðin Ófriðarstaðir átti selstöðu … i heimalandi, eru þar hagar sæmilegir en vatnsskortur mikill, og hefur því til forna bóndinn neyðst til að færa selið að eður i Ássland, og fyrir það halda sumir að Áss hafi skipstöðu eignast í Ófriðarstaðalandi sem áður greinir.“

Ásbúð

Ásbúð – loftmynd 1954.

Ás átti ekki land að sjó. Hins vegar  er líklegt, eins og að framan greinir, að bærinn hafi fengið skipsuppsátur vestast í landi Ófriðarstaða í skiptum fyrir aðgengi að vatni neðan Ófriðarstaðasels norðan Hvaleyrarvatns, reist þar sjóbúð; Ásbúð, og nafnið færst yfir á nýja bæinn þar ofan búðarinnar um og í kringum aldarmótin 1900.

Á loftmynd af Ásbúð, sem tekin var árið 1954, má enn sjá uppistandandi íbúðarhúsið, en á myndinni má jafnframt sjá hversu mikið umhverfinu hefur verið raskað á skömmum tíma.

Heimildir:
-Örnefnaskráning fyrir Ófriðarstaði – Gísli Sigurðsson.
-Örnefnalýsing fyrir Hafnarfjörð, Guðlaugur Rúnar Guðmundsson.
-Jarðabókin 1703.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1902. Ásbúð er nr. 5.

Flensborg

Gísli Sigurðsson skráði eftirfarandi um Óseyri við Hafnarfjörð, sem var einn þeirra mörgu dæmigerðu bæja fjarðarins frá því um aldamótin 1900, sem nú sést hvorki tangur né tetur af. Hafnfirðingar hafa, því miður, verið helst til of latir við að varðveita minjar um uppruna sinn…

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

„Óseyri var upphaflega þurrabúð. En bráðlega var ræktað út Óseyrartún, rúmlega tveggja kýrgrasvöllur. Eftir að Bjarni Sívertsen eignaðist báðar jarðirnar Hvaleyri og Ófriðarstaði var þurrabúð þessari veitt til túnsins sinn hluturinn úr hvorri jörð. Túnið var umgirt Óseyrartúngörðum; Suðurtúngarði og Vesturtúngarði. En með fram Ósnum var Sjávargarðurinn allt austur fyrir Óseyrarbæ sem stóð í austurhluta túnsins en austan hans var Óseyrarhóll. Óseyrarhúsið var reist á gamla bæjarstæðinu. Það var byggt úr viði St. James-Barkinum [Jamestown] sem strandaði suður í Höfnum.

Fyrsta nafn á þessu býli var Ósmynni og einnig var það kallað Timburmannsbær eða Timburmannshús. Munnmæli eru um býli þetta: Óseyri á tún sitt og beit utan túns fyrir hest í hafti og kýr í grind“. Þar sem kotið stoð upphaflega var lágur hóll eða bali, nefndist Kothóll.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1900 – Óseyri og Hvaleyrarlón fjær og Flensborg fremst.

Heiman frá bæ lá Óseyrartraðir út í Óseyrarhliðið á Suðurtúngarðinum. Þaðan lá svo Óseyrargatan suður um Óseyrarbankann eða Bankann en þar var vetrarstaða fiskiskipa og viðgerðarstöð lengi. Frá bænum lá Kotgatan að Óseyrarkoti sem stóð í Vesturtúninu miðju. Í kotinu bjuggu þau Skál-Rósa og Gísli maður hennar fram til 1855. Eftir það fór kotið í eyði og byggðist ekki aftur upp. Sjávargatan lá heiman frá bæ norður í Sjávarhliðið við Óseyrarvörina. Ofan vararinnar var Skiptivöllurinn og Óseyrarbúðin og vestan við vörina Óseyrarhrófið.
Austurvörin var austan í Hólnum en þar voru skipin sett upp þegar lágsjávað var eða þegar straumur var harður út úr Ósnum.

Óseyri

Óseyri – örnefni skv. skráningu Gísla Sigurðssonar.

Óseyrarósinn eða Ósinn var oft mjög straumþungur, sérstaklega var straumurinn þungur út úr Ósnum. Í gamankvæði frá 1910 er ósinn nefndur Flensborgarós. Óseyrartjörnin liggur hér með fram túninu að norðan, allt suður í Hvaleyrartjarnarós gegnt Skiphól. Vestan túnsins var í eina tíð Óseyrarreitur, fiskþurrkunarreitur, en þar vestan var Óseyrarmýri og þar var Óseyrarlindin en þangað var vatnið sótt til neyslu og Lindargata frá lindinni og heim til bæjar. Í Suðurtúngarði var upphaflega fjárhús. Seinna var því breytt og þá reis hér upp Óseyrarkotið, Nýja- eða Bærinn eins og kotið var einnig kallað en þá var húsið komið á Óseyri. Sunnan túngarðsins lá svo Alfaraleiðin.“

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Óseyri – Gísli Sigurðsson.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

Hafnarfjörður

„Kotin og þurrkvíin“ – síðari hluti frásagnar Gísla Sigurðssonar, lögregluþjóns, í Þjóðviljanum árið 1960. „Hér segir Gísli nokkuð frá gömlu hafnfirzku kotunum, byggðahverfunum og gömlum örnefnum. En hann segir líka frá riddaranum og þurrkvínni hans, svo og kóngsins böðli og Bessastaðavaldinu, en fáa staði landsins hefur erlent vald leikið jafn grátt og byggðina á Suðurnesjum, bæði fyrr og síðar, og engir Íslendingar heldur lengur borið menjar erlendrar yfirdrottnunar en fólkið þar.

Gísli sigurðsson

Gísli Sigurðsson fyrir framan lögreglustöðina.

Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði hefur ekki aðeins safnað heimildum er komnar hafa verið að því að glatast, heldur hefur hann einnig grafið upp þræði úr sögu Hafnarfjarðar um hálfa fjórðu öld aftur í tímann. Í fyrri hluta spjallsins við hann vorum við komin að því að ræða um einstaka bæi og örnefni.
— Með fyrstu bæjarnöfnunum sem heimildir eru um hér í Hafnarfirði, segir Gísli, er Brúarhraun. Það var byggt um 1770, en líklega mun hafa verið þar sjóbúðarnefna á 17. öldinni.
Klofi var byggður 1775 og Gestshús um 1790. Fram af Gestshúsum var á sínum tíma byggð fyrsta hafskipabryggja í Hafnarfirði og Bæjarútgerðarhúsin standa á Klofalóðinni. Nýjahraun, (nú 27 við Strandgötu) var byggt 1806.
Garður eða Sigþrúðarbær stóð þar sem byggt var hús Einars Þorgilssonar (nr. 25 við Strandgötu). Markúsarbær (Markús þessi var forfaðir Brynjólf Jóhannessonar leikara) stóð þar sem nú er Sjálfstæðishúsið (nr. 29 við Strandgötu). Fyrsti bær við Lækinn var Weldingshús, byggt um 1784 og kennt við Kristján Welding, steinsmið og assistent við verzlanir hér. Frá honum er mikil ætt komin. Lækjarkotsnafnið kemur fyrst fram um 1830, en það er ekki það Lækjarkot sem síðar var kunnugt móti Dverg.

Brandsbær

Brandsbær lengst t.h.

Bæirnir voru eins oft kenndir við konur, t.d. Kolfinnubær, — sem einnig var nefndur Tutlukot. Á Hamrinum var Hamarsbærinn, sem Bjarni Oddsson verzlunarmaður hjá Linnet byggði á öldinni sem leið. Sjóbúð var þar nokkru sunnar. Hamarsbæjarnafnið færðist svo yfir á annan bæ, sem nú er Hellubraut 9, en upphaflegi Hamarsbærinn var svo kallaður Bjarnabær, og er nafnið í góðu gildi enn, Hella er byggð um 1870, og heitir þar svo enn. — Þá kemur næst suður í Flensborgar- eða Skuldarhverfið. Þar verður fyrst fyrir Guðrúnarkot. Nafn þetta lifir fram yfir 1860. Þar umhverfis rís svo heil bæjarþyrping, kölluð Skuldarhverfi. Hvernig nafnið er til komið er óvíst, en líklegt má telja að bæirnir hafi verið í skuld við Flensborgarverzlunina; það voru fátæklingar sem þarna bjuggu.

Óseyri

Óseyri var upphaflega þurrabúð. En bráðlega var ræktað út Óseyrartún, rúmlega tveggja kýrgrasvöllur. Eftir að Bjarni Sívertsen eignaðist báðar jarðirnar Hvaleyri og Ófriðarstaði var þurrabúð þessi veitt til túnsins, sinn hluturinn úr hvorri jörð. – GS

Óseyri verður til 1770-1774 og Ásbúð um svipað leyti og Melurinn. Brandsbær heitir svo eftir fyrsta búanda þar, Guðbrandi að nafni.

Í Vesturbænum var t.d. Skamagerens Hus, er fyrst hét svo, en síðar aldrei kallað annað en Skóbót. Skerseyrar og Bala er beggja getið í jarðabók Árna Magnússonar. Þar vestur frá var líka bær sem kallaður var Sönghóll, og hefur sennilega einhverntíma verið glatt á hjalla þar.
Fyrst framan af virðist Hafnarfjarðarnafnið aðeins hafa náð yfir byggðina norðan Lækjarins. Byggðin í hrauninu skiptist í Lækjarþorpið, það náði frá Gerðinu (hjá Barnaskólanum) og inn að Gunnarssundi.

Hafnarfjordur 1890

Hafnarfjörður 1890.

Brúarhraunshverfið náði frá Guðarssundi að Linnetsstíg — og suður að Læk við Ósinn. Frá Linnetsstíg tók við Skemmuþorpið vestur að Reykjavíkurvegi. Stofuþorpið eða Akurgerði var þaðan vestur að Merkúrgötu eða Klofa og Gestshúsum. Frá læknum og suður að Hamri var stundum nefnt Miðfjörður, nokkru seinna er öll byggðin suður að Hamri nefnd Hafnarfjörður. Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær — og var þá konungsjörð. Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.

Sívertsenshús

Sívertsenshús.

— Bjarni riddari var víst einn umsvifamesti Hafnfirðingur, fyrr og síðar.
— Já, og þegar hann fór að stofna til skipasmíða byggði hann m.a. þurrkví fyrir 3 skip við Skipaklett. Hún var til fram að 1882 eða 1884, ég talaði við fólk sem mundi hana þar. Í sóknarlýsingu sr. Árna Helgasonar prófasts í Görðum er ágæt lýsing á henni. Sr. Árni segir þar: „Í Hafnarfirði er grafin gröf inn í malarkambinn í hléi við klettasnös sem gengur fram í fjörðinn til suðurs skammt fyrir vestan það elzta höndlunarhús. Í þessa gröf gengur sjór með hverju aðfalli, en um fjöruna er hún þurr. Fyrir framan er hurð og sterkt plankaverk með grjóthleðslu fyrir innan, nema þar sem hurðin er. Hingað eru á haustin, með stórstraumsflóði, leidd 3 þilskip. Fleiri rúmast þar ekki, en eigi veit ég hvort þetta má heita hróf. Flest þilskip standa allan veturinn í fjörum hinu megin fjarðarins, sunnan til við Óseyrartanga, bæði þau sem hér eiga heima og eins nokkur annarstaðar frá“. Á Skipakletti er nú risin aðalbygging Hraðfrystihúss Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Lækurinn.

— Voru ekki fleiri „klettarnir“ — og hefur þú ekki safnað örnefnum almennt?
—Jú, ég hef safnað töluverðu. af gömlum örnefnum, bæði eftir munnlegri geymd og skráðum heimildum og reynt að rekja sögu þeirra. „Klettanir“ voru t.d. „Brúarhraunsklettur“, „Fjósaklettur“, „Skipaklettur“ (stundum nefndur jagtaklettur) — hann er sem fyrr segir horfinn undir Bæjarútgerðina, og loks var Fiskalettur“. Hann var þar sem nú er Vesturgata 32; var fjórklofinn. Hann hét svo vegna þess að af þessum kletti var hægt að fiska úr landi áður fyrr. Það var strax dýpi fyrir utan og „þar á leirnum var oft mikill fiskur fyrrum.

Hamarinn

Hamarinn í Hafnarfirði.

Vesturhamarinn gekk líka stundum undir nöfnunum Sjávarhamar og Skiphamar, en Vesturhamarsnafnið hefur alltaf borið sigur af hólmi. Allir þessir „klettar“ eru fyrir löngu horfnir nema eitthvað mun enn sjást af Fiskakletti. Fyrir sunnan fjörðinn var Grandinn með Skiphól, Kringlu og Háagranda. Þar fyrir suunan tekur Hvaleyrin við. Á Hvaleyri hafa sennilega verið einhver reisulegustu bæjarhús á landinu, bæði á 19. og 20. öld. Þorsteinn Jónsson bjó þar á 19. öld og 1850—1870 bjuggu þar Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir. Ég hef lýsingu á bæ þeirra; það var mjög myndarlegur bær. Hjáleigur á Hvaleyri voru allt að því 6, og hétu þær eftir körlunum sem á þeim bjuggu. Sveinskot fær nafn af Sveini Eiríkssyni er býr þar frá 1840—1855. Halldórskot eftir Halldóri búanda þar 1847—1877. Hjartarkot eftir Hirti er bjó þar 1868—1872. Vesturkot mun lengst af hafa verið kallað því nafni af því það var vestast, en það var líka nefnt Drundurinn af því það var yzta totan á eyrinni. Ennfremur voru á Hvaleyri Þórðarkot og Tjarnarkot.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Þegar mest var byggt voru þar sex hjáleigur samtímis, og húsmenn að auki, bæði á aðalbænum og hjáleigunum. Í sambandi við þessa könnun mína á nöfnum hef ég fengið lýsingar af bæjunum í bænum hjá mörgu ágætu fólki og hef getað borið lýsingar þess saman. Þá fór ég einnig að grafa upp hvaðan fólkið var komið, og er langt kominn með það en það er tafsamt verk. Heimildarbækurnar eru orðnar um hundrað, manntöl og kirkjubækur norður til Eyjafjarðar og og austur í Skaftafellssýslu, því fólkið var komið hingað og þangað að. Þá hef ég einnig kannað dómabækur í þessu sambandi.

Árið 1603 býr á Hvaleyri Guðlaugur nokkur Guðlaugsson. Í Alþingisbók frá Kópavogsþingi er hans getið það ár. Þeir voru teknir fjórir saman fyrir þjófnað, en svo virðist sem hann hafi tekið á sig sökina, því Jónar tveir sluppu og einnig Ólafur nokkur Pétursson er var „borgaður út fyrir góðra manna bænarstað og sakir ætternis, og svo vegna „eyðar konu sinnar og barna og erfiðleika í búskap“..

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Ekkert slíkt hlífir Guðlaugi og um hann segir svo: „Um Guðlaug Guðlaugsson þá ályktast svo og fullnaðist að áðurskrifaður Guðlaugur undirbjó og lofaði með fullnaðarhandsölum sjálfviljuglega konunginum og hans umboðsmönnum að þjóna sína lífstíð, og refsa það honum verður skipað eftir lögmáli, það gjöra að því tilskyldu að hann hefði nokkurt auðkenni það hann mætti bera alla sína daga fyrir vondan glæp og tilverknað, og til merkis ef hann kann aftur um að hlaupast, en steli hann aftur eða sýni hann aðra nokkra óhlutverdni, þá sé hann réttfangaður og dræpur“… Hvaleyrarbóndi þessi er þannig brennimerktur og gerist Bessastaðaböðull til þess að bjarga eigin lífi og félaga sinna, annarra en þess sem var „borgaður út fyrir góðra manna bænarstað og sakir ætternis“.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Sonur Guðlaugs, Jón að nafni, bjó í Hamarskoti og giftist dóttur lögréttumanns á Vatnsleysuströnd. Ormur Jónsson býr á Hvaleyri 16S6—1714. Hann var leiguliði konungs. Ábúðarkjör hans eru þessi: „Kvaðir eru; Mannlán um vertíð, tveir hríshestar heim til Bessastaða með skyldu, en margoft þar fyrir utan einn hríshestur, tveir eða þrír á ári fyrir bón, og einu sinni í tíð Heidemanns sjö um árið og tveimur áskyldum. Hér að auki tveir dagslættir árlega heim til Bessastaða og fæði bóndinn verkamennina sjálfur. Ennþá hér á ofan skipaferðir hvenær sem umboðsmaðurinn á Bessastöðum kallar, vetur eða sumar, og er óvíst hve margar verði, fæðir bóndinn mann þann ávallt sjálfur, hvort sem reisan varir lengur eða skemur“. Auk þess þegar upptalda er svo lambsfóður án endurgjalds.

Hvaleyri

Hvaleyri – loftmynd 1954.

Í þessu sambandi er vert að minnast þess að Hvaleyrarbóndinn hafði marga hjáleigubændur og hefur hann vafalaust reynt að koma sem mestu af þessum kvöðum yfir á þá, svo þá sem endranær hafa byrðarnar komið þyngst niður á þeim fátækustu.
Gísli hefur frá mjög mörgu fleiru að segja, en þetta verður að nægja að sinni. Við sleppum því að ræða nú um veru Englendinga og Þjóðverja á Hvaleyri, sem báðir höfðu þar aðsetur og þá sinn hvoru megin við Ósinn, og var ærið róstusamt stundum. Gömlu skipanaustin, sem þó voru enn við lýði fyrir ekki löngu árabili, munu nú horfin.“

Heimild:
-Þjóðviljinn 26. apríl 1960, bls. 6-7 og 10.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum.

Hafnarförður

Gísli Sigurðsson lýsti „Eldstríði Hafnfirðinga“ í Þjóðviljanum 1960:

Gísli Sigurðsson„Fyrr á tímum háðu Hafnfirðingar baráttu við eldinn, slíka að henni verður ekki betur lýst er með orðum mannsins er bezt hefur kynnt sér það mál: ,,Það var heimsstríð”. Maður er nefndur Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn í Hafnarfirði. Í tíu ár hefur hann varið hverri frístund til þess að grafa úr gleymsku og forða frá glötun fjölmörgu úr sögu Hafnarfjarðar, sem ella heíði glatazt. Hann segir hér húsmæðrum er nú kveikja ljós og eld með snertingu við rafmagnshnapp (og fá vonandi enn fleiri slíka hnappa og aukna sjálfvirkni í eldhúsin) frá eldstríði formæðra þeirra.“

Gísli Sigurðssson„Sögufélag mun ekkert vera til í Hafnarfirði (en örfáir Hafnfirðingar í Sögufélagi Ísfirðinga), en saga Hafnarfjarðar kom út á aldarfjórðungsafmæli Haínarfjarðar sem kaupstaður árið 1933. Kjartan Ólafsson flutti tillögu í bæjarstjórninni um ritun slíkrar sögu og Sigurður Skúlason magister var ráðinn til verksins og fékk hann ekki nema tvö ár til þessa verks og því ekki að vænta að hann gæti grafið allt upp.
Gísli Sigurðsson lögregluþjónn hefur eytt til þess öllum frístundum sínum í tíu ár að safna til varðveizlu ýmsu er bregður ljósi yfir lífsbaráttu og störf fólksins á þessum stað. Hvort Hafnfirðingar meta þetta starf að verðleikum fyrr en löngu eftir að Gísli er genginn og grafinn skal ósagt látið, en seinni tíma menn verða honum þakklátir. Fyrir tilviljun komst ég á snoðir um þessar rannsóknir Gisla og spurði hann því nánar um málið.
Gísli Sigurðsson— Ert þú innfæddur Hafnfirðingur, Gísli?
— Nei, ég kom hingað 1911, stráklingur með foreldrum mínum, en fram að þeim tíma voru þau vinnuhjú austur í sveit.
—En samt ert það þú sem reynir að varðveita þætti úr sögu Hafnarfjarðar. Er langt síðan þú byrjaðir á því?
— Það var á miðju sumri 1950 að ég byrjaði á þessu, en síðan hef ég notað allar frístundir í þessu augnamiði.
— Hvernig hefur þú unnið að þessu?
— Ég hef bæði safnað munnlegum heimildum gamals fólks í bænum og einnig farið í gegnum ógrynni af prentuðum heimildum. Ég hef fengið um hálft annað hundrað viðtala við gamla Hafnfirðinga, lýsingu á 50 gömlum húsum og um hundrað gamalla bæja, torfbæja og timburbæja. Ég hef einnig fengið nokkrar lýsingar á lóðum, annars var lóðaskipunin gamla fremur lítið breytt fram til þess að ég kom til Hafnarfjarðar. Nokkuð hef ég fengið af þjóðsögum, en það er ekki mjög mikið af þeim hérna.
Gísli Sigurðsson— Hvernig þjóðsögur eru það?
— Huldufólkssögur helzt, en þó eru til nokkurs konar draugasögur, — og nú brosir Gísli kankvíslega um leið og hann heldur áfram: eins og t.d. þegar Ólöf gamla hálfhrakti hann Geira bróður útúr Undirhamarsbænum á gamlárskvöld 1926. Það mun vera ein yngsta fyrirburðasagan hér í bæ.
Gamlir menn sögðu mér að þetta hefði – ekkert verið og röktu flest slíkt til missýninga. Í þessum viðtölum við gamla Hafnfirðinga hef ég komizt töluvert inn í lífsbaráttu fólksins, t.d. eldiviðaröflun, — það var heimsstríð að hafa í eldinn.
— Já, segðu mér eitthvað frá því stríði.
— Flestir urðu að taka upp mó inni í Hraunsholtsmýri og bera móinn á sjálfum sér suður í Hafnarfjörð. Þar af eru nöfn „Hvíldarklettanna“ við veginn í hrauninu komin. Nú er búið að brjóta þá alla niður í veginn nema einn. Þar settist fólk til að hvíla sig undir mópokunum.

Rekafjara

Rekafjara.

Svo var verið að hirða þöngla og allskonar rek í fjörunni. Þá fóru menn líka í hrísmó upp um allt og rifu hrís og mosa svo til landauðnar horfði. En það var líka til fólk sem ekki þurfti að standa í þessu stríði. Kaupmennirnir keyptu t.d. flestir um 40 hesta af mó árlega og létu flytja að sér. Þeir sem áttu skip fóru fyrir Álftanes á haustin og fluttu móinn sjóleiðis. Þeir urðu að velja sér sérstaklega gott veður því bátarnir voru svo hlaðnir. Þeir settu spýtur upp með borðstokkunum og þverslár þar á milli og þannig urðu bátarnir háfermdir. Stundum þurftu þeir því að hleypa upp á Álftanes á heimleiðinni til þess að forða mönnum og bátum frá því að sökkva.

Nauthóll

Nauthóll 1903 – túnakort.
Mógrafir norðan við bæinn.

— Var allur mór sóttur í þessa mýri?
— Nei, nokkuð fékkst af mó í Firðinum sjálfum og Hafnfirðingar fóru líka alla leið inn í Nauthólsvík til þess að taka upp mó þar. Á þrem stöðum hér í Hafnarfirði var aðallega hægt að fá mó. Það var í Hamarskotsmýrinni meðfram læknum, Sjávarmýrinni, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn er nú, þar var mórinn 18 stungur. Þegar dráttarbrautin var byggð þar var tveggja mannhæða rof niður á móhellu. Og í mýrinni hjá Brandsbæ var einnig mór, þar var hann 6 stungur. ,— í Sjávarmýrinni náði mórinn talsvert niður fyrir sjávarmál og upp í hallann hjá Kaldárstígnum gamla, þar man ég eftir mógröfum.
— Já, Kaldá, það varð nokkur saga af henni.

Kaldadý

Kaldadý var aftan við þennan skúr við Suðurgötu.

— Já, gamla Kaldá er löngu horfin, en þar var reist fyrsta gosdrykkjaverksmiðja á Íslandi. Jón Þórarinsson skólastjóri lét byggja hana og hún mun hafa starfað í 20 ár, en þegar hann seldi tók Milljónafélagið við.
— Milljónafélagið sem Thor Jensen tapaði minninu hjá?
— Nei, þetta var annað milljónafélag. Pétur J. Thorsteinsson o.fl. voru með það, en þetta milljónafélag fór einnig á hausinn. Jensen missti minnið svo gersamlega hjá hinu milljónafélaginu að hann gat með engu móti rámað í það að hann hefði átt heima í gamla Sivertsenhúsinu í Hafnarfirði í 1 eða 2 ár!

Skerseyri

Sjávargata Skerseyrar að Skerseyrarvör.

En svo við höldum áfram að tala um móinn þá fékkst sjávararmór vestur í Skerseyri. Ef fjörumölinni var mokað ofan af mátti ná bar í mó um fjöru. (Enn ein sönnun þess hve Suðurnesin hafa sigið). Og vestur í Víðistöðum var víst einhver móvera, en undir Viðistaðahvosinni er móhella — Víðistaðir eru eyja niðri í hrauninu sem það hefur runnið í kringum.
— Það hefur verið erfitt stríð að halda eldinum lifandi.
— Já, t.d. þegar faðir Jóns Einarssonar verkstjóra fór í róðra kl. 2—3 á næturnar fór kona hans jafnsnemma til að sækja mosa í eldinn suður í Bruna, — það mun vera um 5 km gangur hvora leið. Þær fóru í flokkum kerlingarnar og báru sinn tunnupokann hver af mosa til baka.

Gjár

Gjár við Kaldársel.

Í hrísmó upp í Kaldársel var 7 km leið. Fólk fór það aðallega á næturnar, því eiginlega var það bannað — margbannað. Það var stuldur, en einhverju varð fólkið að brenna.
Einar minn í Gestshúsum — nú er hann orðinn 90 ára — hefur sagt mér, heldur Gísli áfram, að þegar hann var 8 ára var hann látinn bera út mó úr kesti inni í Hraunholtsmýri á móti mömmu sinni.

Hraunsholt

Hraunsholtsselsstígur.

Þegar litlu fingurnir höfðu ekki lengur afl til að halda um börukjálkana var sett snæri um kjálkana og aftur yfir háls drengsins, og þannig var hann látinn halda áfram unz síðasti hnausinn var kominn til þerris, – Þá andvarpaði móðir hans (sem hafði eldiviðarleysi komandi vetrar í huga); Það vildi ég að kominn væri annar köstur! — En þrátt fyrir þetta er hann nú orðinn níræður, blessaður karlinn. Þeir sem höfðu útgerð létu þurrka hvern hrygg og hvern haus til að hafa í eldinn. Jón Einarsson verkstjóri sagði mér að þegar hann og bræður hans voru strákar voru þeir látnir bera allt slíkt frá útgerð föður síns upp í Einarsgerði (var þar sem Herkastalinn var byggður við Austurgötuna) en þar höfðu verið hlaðnir garðar til að þurrka á.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – málverk JE.

Þorskhausar voru hertir til matar en hausar annarra fiska og hryggir til elds. — Hlóðirnar í Hjörtskoti standa enn, en Hjörtskot mun vera eini gamli bærinn sem enn stendur að mestu í svipuðu formi og fyrr, nema sett sefur verið á hann járn. Eldhúsið og hlóðirnar standa enn.
Vestur a Skerseyri er enn til sundurborin gömul eldhústóft. Hún er um 21,4×2 álnir að flatarmáli.
—Og bæirnir sjálfir lélegir?

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – málverk JÞ.

— Já, gömlu bæirnir voru margir af vanefnum byggðir. T.d. var bærinn sem Kristinn Auðunsson (kunnur forfaðir margra ágætismanna) þannig að það kom varla svo dropi úr lofti að ekki hripaði inn í bæinn. Það blæs og hripar gegnum veggi sem hlaðnir eru úr hraungrýti (hraðstorknu gosgrjóti) og því var hafður svelgur í gólfinu í mörgum þeirra bæja sem voru með moldargólfi. Þótt þekjan væri úr tvöfaldri snyddu lak í gegnum hana því grasrót tekin í hrauni er allt annað en mýrartorf.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – málverk HÁ.

Bæirnir voru viðaðir með skarsúð og þar utanyfir var reiðingssúð. Sumstaðar voru settir listar á samskeytin og tjargað yfir, en annarstaðar var snyddu hlaðið utaná til skjóls.
Bæirnir munu flestir hafa enzt illa. Þórnýjar- og Pétursbær voru t.d. báðir byggðir um 1890 en báðir tæplega mannabústaðir um aldamót. Bæir sem gerðir voru af slíkum vanefnum munu yfirleitt ekki hafa enzt nema í 10 ár.
— En hvernig var með vatnið — annað en lekann?

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Lækurinn.

— Það var líka stríð að hafa neyzluvatn á hraunbæjunum. Allt vatn var sótt í lækinn, hvar sem menn bjuggu í hrauninu. Þar sem Selvogsgatan er nú uppi á Hamrinum var lind, nefnd ,,Góðhola“ og sóttu Hamarsbúar þangað vatn sitt. Dý var þar sem Kaldá var byggð og þangað sóttu sunnanbyggjar vatn. En allir sem áttu heima fyrir vestan Læk sóttu vatn í Lækinn. María Kristjánsdóttis sagði mér frá því að þegar hún var 8 ára, lítið vaxin og pasturslítil, var hún send vestan frá Sveinshúsi (nú Merkurgata 3) suður í Læk með tvær vatnsfötur. Hún fyllti þær í Læknum og rogaðist með þær vestur eftir, en þegar þangað var komið var oft harla lítið eftir í fötunum, því föturnar voru stórar en stelpan lítil og var því alla leiðina að reka þær í og hella niður og utaní sjálfa sig. Konur fóru einnig með þvottinn í Lækinn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Lækurinn.

Læknar sem hingað komu höfðu orð á bví að hér væri þvotturinn hvítari en í Reykjavík, sem mun hafa stafað af því að þegar þvegið var í Laugunum þurfti að bera þvottinn langa leið í bæinn, en hér var hann líka skolaður úr köldu rennandi vatni. — Já, neyzluvatnið var sótt í sama lækinn og þvegið var í.
— Þú segist hafa fengið lýsingu á 100 bæjum, — og þá líka hvar þeir stóðu?
— Já, mér hefur tekizt að fá töluvert af upplýsingum um bæina og byggðahverfin og töluvert um fólkið sem í þeim bjó.“

Heimild:
-Þjóðviljinn, 85. tbl. 10.04.1960, Eldstríð Hafnfirðinga, Gísli Sigurðsson, bls. 6-7 og 10.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Lækurinn.

Langeyri

Eftirfarandi grein Stefáns Júlíussonar undir fyrirsögninni „Gengið vestur með sjó“ birtist í Fjarðarfréttum árið 1984:

Stefán Júlíusson

Stefán Júlíusson (1915 – 2002).

„Fyrir nokkru komu ritstjórar Fjarðarfrétta að máli við mig og spurðu hvort ég vildi ekki taka saman fyrir blaðið pistil sem kallast gæti „Byggðin í hrauninu“. Vísuðu þeir til þess að á námskeiði sem haldið var á síðasta vori um Hafnarfjörð, og raunar var kallað Byggðin í hrauninu, sagði ég frá ýmsum atvikum og staðháttum á bernsku- og æskudögum mínum í vesturbænum og út með sjónum.
Fyrir 12 árum kom út eftir mig bók sem ber heitið Byggðin í hrauninu og eru í henni minningaþættir frá uppvaxtarárum mínum í hraunkotabyggðinni fyrir vestan bæinn. Varð það að samkomulagi milli mín og ritstjóranna að við færum vestur meö sjónum, tækjum nokkrar myndir og síðan tvinnuðum við saman kafla úr bókinni og frásagnir út frá myndunum.

Fjarðarpósturinn

Fjarðarpósturinn – forssíða í des 1984.

Laugardaginn 10. nóvember fórum við svo í myndatökureisu og hér birtist afraksturinn af þessari samvinnu. Við vorum sammála um að styðjast að mestu leyti við lokakaflann í Byggðinni í hrauninu en í honum lýsi ég göngu um fornar slóðir vestur með sjónum.
Á fyrstu tveimur myndunum erum við stödd á Krosseyrarmölum eða rétt vestan við Svendborg. Um þessi örnefni segir svo í Byggðinni: „Margar ferðir átti ég hérna gegnum Svendborg á bernskuárum minum. Þegar ég man fyrst eftir var þetta athafnasvæði Booklessbræðra, hinna bresku togaraeigenda sem höfðu umfangsmikla útgerðarstarfsemi í Hafnarfirði í meira en áratug en urðu gjaldþrotaárið 1922. Sá atvinnurekstur átti ekki hvað minnstan þátt í því að auka aðstreymi fólks til bæjarins á þessum árum. — Enn taka Hafnfirðingar sér í munn nafnið Svendborg þótt fæstir viti nú orðið hvernig nafnið er til komið. En nafngiftin lýsir kímni Hafnfirðinga á þeirri tíð, ef til vill blandaðri ofurlítilli meinfýsi eins og stundum verður vart hjá Íslendingum.

Hafnarfjörður

Svendborg 1912.

Árið 1903 fluttist kaupmaður austan frá Norðfirði til Hafnarfjarðar. Hann hét Sveinn Sigfússon. Hóf hann þegar að reisa verslunar- og útgerðarstöð hjá Fiskakletti við Krosseyrarmalir og var stórhuga í fyrirætlunum. En örendið entist ekki sem hugur og á sama ári selur Sveinn Augusti Flygenring lóðaréttindi og byggingarog flyst til Reykjavíkur. En nafngiftarmennirnir eru komnir til skjalanna: Svendborg skyldi staðurinn heita og auðvitað upp á dönsku! Það er oft furðulegt hvað uppnefni geta orðið að lífseigum örnefnum.
HafnarfjörðurEn Svendborg er stærsta útgerðarstöðin í, Hafnarfirði í hartnær þrjá áratugi og á mikinn þátt í vexti bæjarins. Hún gengur að vísu allmjög kaupum og sölum fram til ársins 1910 en næstu tvo áratugina eru eigendur aðeins tveir, og þeir engir aukvisar, Booklessbræður til ársins 1923 en síðan Hellyersbræður. En árið 1929 líður þessi mikla útgerðarstöð undir lok og síðan hefur tímans tönn verið að naga hin margvíslegu mannvirki á eigninni.

Hafnarfjörður

Sundhöllin og nágrenni.

Nú eru Krosseyrarmalir að mestu horfnar undir Vesturgötu og Herjólfsgötu svo að naumast sést eftir af þeim tangur eða tetur nema í bláfjörunni. Áður var hér annasamt athafnasvæði og á sólrikum sumardögum var jörð öll hvít af saltfiski. Útgerðarstöðvar í Hafnarfirði voru yfirleitt reistar á fjörumölunum en nú eru þær allar horfnar undir götur og byggingar nema Langeyrarmalir að nokkru.

Hafnarfjörður

Bungalwið.

Fátt vitnar nú um athafnasemi hinna ensku útgerðarmanna en þó stendur bungaló Bookless hér ennþá, hábreskt hús sem enn er búið í og sker sig úr öðrum byggingum að stíl og útliti. Lítið eitt ofan við það stendur annað enskbyggt íbúðarhús. Þar bjó Hellyer þegar ég var innan við fermingu. Í því húsi var ráðskona á þeirri tíð ung og glæsileg stúlka, Matthildur Sigurðardóttir að nafni. Um hríð bar ég þangað daglega mjólk utan úr Víðistöðum.

Hafnarfjörður

Skarð í kletta.

Ráðskonan vék þá stundum mjólkurpóstinum unga ávöxtum og öðru fáséðu munngæti og var það vel þegið. Þá gafst tækifæri að gægjast inn fyrir dyrastafinn, inn ( stofur búnar ævintýralegum húsgögnum. Húsgögn sem nú eru nefnd því nafni voru í fáum húsum í Hafnarfirði á bernskudögum mínum. Auðvitað voru þau kölluð mublur, og vafalaust mætti telja á fingrum sér þau hús í Hafnarfirði í þá tíð þar sem eiginlegar mublur voru í stofum. Ein stórkostlegasta breytingin sem orðið hefur á Íslandi á síðustu áratugum er án efa húsgagnaeign landsmanna.

Hafnarfjörður

Járnbrautir voru algengar á fiskreitum Hafnarfjarðar.

Hér er skarð í klettarana sem skar Krosseyrarmalir í sundur og teygir sig langt í sjó fram. Nú er hér breið og slétt gata en þegar ég átti oftast leið hér um var hér lengsta járnbraut bæjarins. Þá voru járnbrautir á öllum fiskverkunarstöðvum og sömuleiðis á hafskipabryggjunni. En járnbrautin í Svendborg var langlengst, áreiðanlega hartnær kílómetri. Hún lá milli fiskhúsanna við höfnina og svokallaðs Verkamannareits á móts við Víðistaði. Þessi fiskreitur fékk nafn sitt af því að VMF Hlíf beitti sér fyrir reitarlagningunni í atvinnubótaskyni á öðrum áratugnum en síðan seldu verkamennirnir útgerðinni reitinn fullbúinn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Vegur var lagður undir járnbrautarteinana milli malar og reits. Var hann að sjálfsögðu örmjór því að ekki var nema 70-80 sentimetrar milli teinanna á þessum brautum en allhár á köflum og halli var talsverður. Reiturinn lá miklu hærra en mölin. Fiskkerrurnar sem gengu á þessum brautum voru ekki ýkjastórar, pallurinn svona einn til tveir metrar á breidd og tveir til þrír metrar á lengd. En þegar þær komu brunandi niður brautina á fleygiferð, hvort sem þær voru hlaðnar þurrfiski eða tómar, var mikil hætta á ferðum og eins gott fyrir vegfarendur að forða sér.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – saltfiskverkun.

Mikill hvinur heyrðist langar leiðir þegar hraði var kominn á kerrurnar hvort sem þær voru fullar eða tómar, svo mjög söng í teinum og hjólum. Hrópað var hástöfum viðvörunarkall uppi á reitnum áður en kerrunum var sleppt. Allmjög dró úr hraðanum þegar kerrurnar komu niður á jafnsléttu en þó entist brunið alla leið inn í hús. Var þetta ódýr kraftur. Hesti var beitt fyrir kerrurnar fullar af blautfiski upp á reitinn og eins fyrir langa lest af tómum kerrum við innkeyrslu.
Gamla Svendborgarjárnbrautin var endurreist á stríðsárunum síðari, þegar hafnargarðurinn vestari var reistur. Þá var brautin notuð til grjótflutninga í garðinn. Nú er hún löngu horfin og breið gata, Flókagata, komin í staðinn.

Hafnarfjörður

Klettar við Krosseyrarmalir.

Þegar ég átti leið hér um á árunum innan við fermingu var á sumrin krökkt af fáklæddum börnum á þessum slóðum. Þá var sund kennt í sjónum við Krosseyrarmalir og klettana fyrir vestan þær. Fyrstu sundkennarar sem ég man eftir voru þeir Jakob Sigurðsson kaupmaður og Grímur Andrésson bílstjóri. Og hérna við klettótta ströndina og í malarvikinu sunnan við Gatklettinn sem þá var byrjaði Hallsteinn Hinriksson að kenna sund eftir að hann fluttist til Hafnarfjarðar árið 1929.

Hafnarfjörður

Sundkennsla neðan við gatklettinn.

Þá skiptu sundnemendur hundruðum og var oft farið í sjóinn tvisvar á dag. Nú er hrunið ofan af Gatkletti, eitt mesta holræsi bæjarins liggur hér út í sjóinn, breið Herjólfsgatan hefur lagt undir sig möl og hraun, og við hana stendur sundhöllin þar sem nú er kennt og synt í upphituðu vatni. — Þróun og sögu má lesa hér við sérhvert fótmál.“
Á þriðju og fjórðu mynd erum við stödd við ströndina í nánd við Sundhöllina og vitnum í bókina: ,,Á þessum slóðum þar sem sundhöllin stendur nú við breiða og slétta Herjólfsgötuna var hraunströndin einna úfnust og stórhrikalegust á bernskudögum mínum.

Hafnarfjörður

Hallsteinn Hinriksson leiðbeinir við sundiðkun.

Hér var Draugaklifið svokallaða. Há strandberg stóðu hér í sjó frammi, þung og staðfestuleg björg, en á milli þeirra skárust dökk og brimhefluð vík inn í hraunstorkuna. Þar súgaði sjór og gnauðaði við minnstu kviku og þegar stórstreymt var gekk hvítt löður yfir kletta og klif og kastaðist upp á gangstíginn. Þá var brautin harla mjó og ógreiðfær, malir, gjótur og klif. Í snjóum á veturna þegar svellalög voru og vestanáhlaup var þetta ekki greiðfarin leið. En í kyrrum og blíðu sumarsins bauð hún fólki heim.
Ekki grunaði okkur hraunbúana á þeirri tíð að svo skammt yrði hér í breiða götu og húsaröð meðfram henni alla leið út á Malir. Nú er ekkert svipað því sem áður var þegar ég geng hér eftir götunni.

Æðakollur

Æðakollur á svamli.

Þarna syndir þó æðarkolla með fjölskyldu sína úti fyrir gamla Gatklettinum og hátignarlegur blikinn setur svip á umhverfið sem fyrr. Fuglalíf var hér fjölskrúðugra áður en ég gleðst þó af að sjá þessa heimakæru fjölskyldu; hún tengir horfna tíð við göngu mína hér í dag.“
Þá erum við komin að Langeyri. Á Langeyri versluðu danir áður fyrr eins og sést á gömlum kortum af Hafnarfirði. Þar mun hafa verið þurrkaður fiskur á eyrinni eða mölinni um aldir.

Hafnarfjörður

Langeyri.

Eins og alkunnugt er voru þessar eyrar eða malir snemma athafnasvæði fiskverkunar, fyrst erlendra kaupmanna og útgerðarmanna og síðan hinna innlendu. Þar risu útgerðarstöðvar enda voru þessar malir kjörnar til að þurrka á saltfiskinn: Hamarskotsmöl, Krosseyrarmalirog Langeyrarmalir.

Hafnarfjörður

Lifrabræðslan á Langeyri.

Byggðin í hrauninu hefur þetta að segja um staðhætti á fimmtu og sjöttu mynd: ,,Ég staðnæmist neðan við Langeyri sem enn stingur í stúf við húsaröðina meðfram götunni, byggingar eru frá fyrri tíð, lóðin miklu stærri, grasblettir, kálgarðar og gróðurreitir, og girðingin umhverfis minnir á handtök fyrir daga skipulags, reglugerða og samþykkta. Á uppvaxtarárum mínum var Langeyri það hraunkotið sem næst var bænum og þótti allnokkur leið hingað út eftir.

Hafnarfjörður

Lifrabræðslan.

Neðan við götuna eru leifar af steyptri þlötu á sjávarbakkanum. Þetta eru menjar lifrarbræðslustöðvar sem hér var reist af Augusti Flygenring um síðustu aldamót þegar hann nam land undir fyrstu fiskverkun sína á Langeyrarmölum. Hér voru talsverðar rústir þegar ég man fyrst eftir þótt lifrarþræðslan væri liðin undir lok, steinsteyptar tóttir og þrær. Sérstaklega er mér þó minnisstæður heljarmikill þottur eða þottker sem trónaði hér í rústunum. Þetta var kjörinn leikstaður, ekki síst í feluleik og ámóta athöfnum og áttum við krakkarnir hér mörg spor, ærsli og óp.“

Hafnarfjörður

Varða við Eyrarhraun.

Um sjöundu mynd mætti margt segja. Herjólfsgatan liggur hér að Mölunum. Brunarústir eru þar sem gamla vaskhúsið stóð. En á öllum fiskverkunarstöðvum fyrr á tímum, þegar lífið var saltfiskur, þurfti vaskhús eða vaskahús þar sem fiskurinn var þveginn, þurrkhús ef sumarveðrið brást og geymsluhús undirsalt, blautfisk og þurran fisk. Oft voru þó blautfiskstaflar úti áður en fiskurinn var þveginn. T.h. á 7. mynd voru þurrkhús og fiskgeymsluhús, þar sem frystihús var seinna reist. T.v. teygir Rauðhúsnef sig út í sjóinn en upp af því var sagt að verið hefði rautt verslunarhús danskra kaupmanna. Þar átti eitthvað voveiflegt að hafa gerst því þar var talið reimt þótt hvergi væri þó annar eins draugagangur og í Svendborg á sinni tíð.

Langeyri

Varða við fyrrverandi Eyrarhraun.

En vitnum nú í Byggðina út frá 7. mynd: ..Langeyrarmalir voru lengstar malanna og þar reisti August Flygenring fiskverkunarstöð um síðustu aldamót þegar hann hafði hætt skipstjórn og gerðist aðsópsmikill athafnamaður í Hafnarfirði. Áður á öldum höfðu danskir kaupmenn haft aðsetur á Langeyri en það var löngu liðin saga þegar hér var komið. August Flygenring átti ekki Malirnar mjög lengi og þegar við fluttumst að Eyrarhrauni voru þær komnar í eigu hlutafélagsins Höfrungs sem gerði út lítinn happatogara, Rán að nafni, og fékk auk aflans að honum dálítið af fiski til verkunar annars staðar að. Malirnar voru ekki stór fiskverkunarstöð á uppvaxtarárum mínum en þó veittu þær töluverða atvinnu. Lá í hlutarins eðli að fólkið í hraunkotunum þarna í kring ynni á Mölunum eftir því sem ástæður leyfðu.

Hafnarfjörður

Eyrarhraun um 1940.

Og við saltfiskþurrkunina á sumrin fengu krakkarnir sína fyrstu atvinnu. Segja má að þau börn og unglingar í Hafnarfirði sem ekki voru svo gæfusöm að komast í sveit á sumrin væru alin upp á fiskreitunum. Við breiðslu og samantekningu saltfisksins fengu allir vinnu sem vettlingi gátu valdið, svo mörg voru handtökin við þessa atvinnugrein. Var algengt að börn frá sjö ára aldri kæmust í breiðslu og fengju kaup fyrir. Þannig komst ég átta ára kettlingur í vinnu á Mölunum þegar þurrkur var og fékk að mig minir 25 aura um tímann. Þóttumst við rollingarnir þá heldur menn með mönnum þegar við vorum teknir í vinnu fyrir kaup.

Hafnarfjörður

Stefán við vörðu Eyrarhrauns.

Starfsræksla mun aldrei hafa stöðvast hér alveg síðan stöðin var reist um aldamótin. Steypta planið milli fiskhúsanna er líkt því sem áður var og hér áttum við kotakrakkarnir mörg spor í skemmtilegum leikjum. Þetta plan var forréttindi okkar og friðland; fáir áttu sér svo kjörinn og afmarkaðan leikvöll á þeirri tíð, sléttan og steyptan, hvort sem var í risaleik, boltaleikjum allskonar, hlaupum eða parís, sem við kölluðum hoppuleik. Oft voru plankar og búkkarskildir eftir einhvers staðar utan dyra við fiskhúsin og þá var auðvelt að bera þá inn á planið til að rambelta á þeim.

Hafnarfjörður

Braggar ofan Langeyrar um 1940.

Þá þekktu Hafnfirðingar ekki annað orð yfir að vega salt en að rambelta. Að vega salt lærðist seinna af bókum. Enn kalla börn í Hafnarfirði leikinn að rambelta og það gleður mig alltaf þegar ég heyri orðið. — Einu sinni ætlaði ég að kalla eina skáldsöguna mína Rambeltu, — mér fannst nafn hæfa efni, — en útgefandi vildi ekki hætta á þetta hafnfirska heiti.
Við hraunkotabörnin sem lékum okkur hérna á planinu á Mölunum vorum oft fram undir tuttugu, auk aðkomu krakka, en aldrei man ég til að neitt væri skemmt hér af ásettu ráði.

Hafnarfjörður

Langeyri.

Fyrir kom að vísu að rúða brotnaði en þá sögðum við ævinlega til þess og Guðmundur verkstjóri Jónasson lét það þá gott heita. Hann var mikill vinur okkar hraunbúanna og amaðist aldrei við leikjum okkar.“
Á áttundu og níundu mynd erum við stödd hjá bernskuheimili mínu Eyrarhrauni sem í raun varð hvati þess að ég skrifaði Byggðina í hrauninu.
Þetta var sérstakt umhverfi og um margt voru þetta heillandi heimkynni á þeirri tíð. Burstin á gamla bænum á Eyrarbraut sést enn t.h. á 8. mynd en annars er allt breytt. Á 9. mynd stend ég fyrir neðan tignarlega vörðu sem steypt var á háum kletti rétt neðan við bæinn á Eyrarhrauni. Fyrir neðan vörðuna var mikill kálgarður sem verkstjórinn á Mölunum nytjaði.

Hafnarfjörður

August Flyering (1865 – 1932).

Önnur álíka varða var steypt á kletti ofan við Rauðhúsnef, við skýli Slysavarnafélagsins. Á þeirri vörðu er stórt A greypt í steypuna en á þeirri á myndinni stendur stórt F. Þannig markaði August Flygenring sitt land af þegar hann settist að á Mölunum með starfrækslu sína upp úr aldamótunum.
Grasskvompurnar milli klettanna á þessum myndum voru allar slegnar á minni tíð þarna enda ræktaðar með ærinni fyrirhöfn af frumbyggjunum á hraunkotunum. Skemmurnar t.v. á 9. mynd voru reistar þegar skreiðarverkunin kom til sögunnar en þær standa á gömlum, lögðum reit frá Mölunum.
En vitnum nú til bókarinnar: „Eyrarhraun stendur í úfnu hrauni, þar sem kraumandi eldkvika og kaldur sjór hafa endur fyrir löngu farið hamförum í tröllslegum leik uns eldur og brim sættust á hina hrikalegu storku. Vatn og veðrun öld fram af öld milduðu svip storkunnar smátt og smátt en þó hefur þetta verið tröllaskeið uns gróðurinn tók að næla sig í sprungur og lesa sig eftir grunnum moldargeirum í lautum og klettum. Þá tók landslagið að mildast og hýrnaði síðan meira og meira við hvert hlýindaskeið. Þetta hraun rann árþúsundum fyrir Íslandsbyggð.
EyrarhraunEins og áður getur, stendur Eyrarhraun rétt ofan við fiskverkunarstöðina Malirnar sem dregur nafn sitt af gerð fjöruborðsins á þessum slóðum eða Langeyrarmölum. Fjaran er þarna á löngum kafla allhár malarkambur, gerður af hnefastórum og þaðan af minni fínsorfnum steinvölum sem vestanbrimið hefur malað, fægt og fágað um aldaraðir. Fjaran á austurströnd Hafnarfjarðar var víðast hvar svona fínsorfin, ljósleit möl, völurnar misstórar og margvíslegar að gerð en yfirborð þeirra slétt og fægt.
Bernskuheimili mitt, Eyrarhraun, stendur enn á sínum gamla stað ofan við Malirnar. En þar er nú allt breytt frá því sem áður var, bæði húsakynni og umhverfi.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Tjörnin fyrir neðan kotið sem áður setti mikinn svip á landslagið er nú uppfyllt að mestu, aðeins smápollur eftir og bílvegur er kominn heim að dyrum. Mörg íbúðarhús, skúrar og skemmur og kumbaldar hafa nú verið reist í nágrenni Eyrarhrauns. Heimahagarnir breytast með hverju ári.
Ég held áfram vestur fjöruna. Mig furðar, hvað hún er orðin óhrein, spýtnabrak og úrgangsreki um alla möl. Áður á tíð var tjáviðurinn kirfilega hirtur í eldinn. Þá þótti dýrt að kaupa eldivið og því var allt notað sem tiltækt varð, hver rekaspýta og jafnvel stundum þangið úr fjörunni. Þangið var einnig notað til áburðar.

Hafnarfjörður

Stefán við garða.

Af þessum sökum voru fjörurnar hreinar á bernskudögum mínum enda mikill ævintýraheimur okkar barnanna. Fjaran er ungum börnum mikið rannsóknarefni. Þar er aldrei kyrrstaða, heldur sífelld breyting og umskipti. Í aðfalli nemur aldan sér æ meira land en í útfallinu stækkar fjöruborðið með hverju sogi. Allt vekur þetta undrun og íhugun. Og í hrauninu ofan við malarkambinn eru tjarnir sem einnig taka sífelldum breytingum. Sumar tæmast alveg við fjöru og þá minna þær á stóra, hola skemmd í jaxli. Brúnn þaragróðurinn og dökkt grjótið stinga í stúf við gras, mosaog fléttur í grónu hrauninu. En þegar að fellur,og vatnið teygir sig upp á grasgeira og blómskreytta kletta, eru þessar tjarnir eins og vökul augu og auka á fegurð hrauns og strandar.

Hafnarfjörður

Við Brúsastaði.

Þegar flóð er í tjörnunum er hér kyrrð og ró og samstilling, eins og land og sjór hafi samið frið um eilífð. En einstaka tjörn er svo djúp að úr henni fellur aldrei. Þar búa kynjaskepnur og furðufiskar að sögn. Því er oft stansað og dokað við á bakkanum ef vera kynni að þessi kynjadýr sýndu sig.“
Víða voru stórar lóðir eða landareignir hraunkotanna afgirtar með hlöðnum grjótgörðum. Þessir löngu og miklu garðar voru talandi tákn um aml og erfiði þess fólks sem fyrst reisti kotin og hafði nógan tíma til að rífa upp grjótið og hlaða garðana á löngum vinnuleysistímabilum árlega.

Hafnarfjörður

Brúsastaðir.

Hér stend ég við eitt garðbrotið á 10. mynd, rétt til að minna á hvað þetta fólk lagði á sig við að koma sér upp sjálfstæðum býlum þarna úti í úfnu hrauninu. Á 11. mynd sést hvernig klettanefin teygja sig út í sjóinn, eins og Rauðhúsnefið, en á milli þeirra voru malir og friðsælar fjörur.
Og á fjórtándu myndinni erum við komin vestur að bæjarmörkum. Myndin er tekin milli Brúsastaða og Skerseyrar og sér vestur til Garðahverfis en Balaklettur skagar í sjó fram. Bæjarmörkin eru nálægt miðri mynd.

Langeyri

Langeyri – vestari varðan, merkt A (Ágústi Flygering).

Þessi fjara fyrir neðan Skerseyri er sem næst því að vera ósnortin og líkist því að mestu þeim fjörum sem voru leikvöllur okkar krakkanna fyrr á tíð. Ofan við þessa fjöru þar sem Skerseyrin stóð áður á Sjóminjasafnið að fá aðsetur í framtíðinni. En gefum nú Byggðinni í hrauninu orðið að lokum og ljúkum þannig þessari gönguferð okkar vestur með sjónum: „Ég held áfram út með sjónum. Byggð er orðin meiri á Brúsastöðum en ströndin fyrir neðan bæinn er sú sama, sæbarin klettabákn og grófgerð fjörumöl til beggja handa. En Skerseyri er löngu komin í eyði, — það hraunkotið sem fjærst var kaupstaðnum, alveg út undir mörkum bæjarlandsins og Garðahverfis.

Hafnarfjörður

Malarbæir vestanverðir.

Fimm voru kotin í byggð í bernsku minni: Langeyri, Eyrarhraun, Litlibær (seinna Fagrihvammur), Brúsastaðir og Skerseyri. Afskekktast var á Skerseyri en útsýni er þar mikið og fagurt, út til hafs og inn til bæjar og vítt til allra átta. Kotið stóð á háum, allstórum bala, en tröllaukið hraun á þrjá vegu og brimsorfinn, stórgrýttur fjörukambur fyrir neðan. Þetta var frumstætt og tignarlegt bæjarstæði. Nú er komið húsakraðak fyrir ofan Skerseyrarland og eykur ekki á fegurð hraunsins. Þessa stórkostlegu hraunspildu þyrfti sannariega að friða.

Hafnarfjörður

Fjaran vestan Skerseyrar.

Rétt ofan og utan við Skerseyri er Hraunhvammur. Hann taldist í rauninni ekki til hinna eiginlegu hraunkota á uppvaxtarárum mínum þótt umhverfið væri hið sama og ástæður landnemans þar væru þær sömu og annarra frumbyggja í hraunbyggðinni. Um tíma var talið álitamál hvort kotið væri innan landamerkja Hafnarfjarðarkaupstaðar eða utan. Sá sem reisti bæinn mun hafa staðið í þeirri meiningu að hann væri að byggja í landi bæjarins. Að minnsta kosti taldi fjölskylda mín sig ekki flytja úr Hafnarfirði þann vetur sem hún átti heima í Hraunhvammi.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða) millum Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

En þegar landamerki voru betur könnuð og gengið til botns í málinu kom í ljós að Hraunhvammur reyndist vera Garðahreppsmegin við mörkin. Kotið var því hálfgerður bastarður í hraunbyggðinni og litum við krakkarnir naumast á það sem ekta hraunkot eftir að það var úrskurðað í Garðahreppi. Hraunkotin skyldu vera skrifuð við Hafnarfjörð á bréfum en við töldum okkkur hreinræktaða Hafnfirðinga. Tókum við það óstinnt upp þegar fólk af ókunnleika vildi koma okkur í bland við Garðhverfinga lengra út með sjónum. Við vildum engir hálfrefir vera í þeim efnum.“

Hraunhvammur

Hraunhvammur.

Brúsastaðir voru næstvestasta hraunkotið. Á tólftu og þrettándu mynd sést hvernig þar er umhorfs núna. Á þrettándu mynd stöndum við Guðmundur Sveinsson ritstjóri hjá gömlum fiskhjalli og garðbroti, talandi táknum gamla tímans. Að baki sér i Hrafnistu þar sem margir gamlir Hafnfirðingar dveljast síðustu æviárin. Mér finnst þeir vart geta kosið sértignarlegra og stórbrotnara umhverfi.
Þegar Ágúst Guðmundsson var að undirbúa gerð kvikmyndar eftir handriti mínu Saga úr stríðinu völdu þeir Snorri Sveinn Friðriksson leiksviðshönnuður Brúsastaði sem heimili drengsins sem söguna segir.“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 2. tbl. 01.12.1984, Stefán Júlíuson, Gengið vestur með sjó, bls. 40-43.

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

Urriðakot

Sólveg Eyjólfsdóttir sagði í grein í Fjarðarfréttum frá „Fjölskyldunni í Urriðakoti“ árið 1984:
„Þegar farið er um svokallaðan Flóttamannaveg sér vel heim að Urriðakoti við Urriðakotsvatn. Bæjarstæðið er uppi í hlíð og fyrir vestan er vatnið spegilslétt. Þarna fléttast saman fegurð landslags og vatns.

Jórunn Guðmundsdóttir

Jórunn Guðmundsdóttir (1917-1995).

Útsýni er frjálst og fagurt mjög, — þaðan sér um allt Garðahverfið, Álftanesið, Bessastaði og alla leið á Snæfellsjökul. Einn fagran dag á liðnu hausti var ég stödd á þessum slóðum og rölti heim að gamla bæjarstæðinu í Urriðakoti. Ég minnist löngu liðinna daga er ég fékk að fara með móður minni í heimsókn til Sigurbjargar frænku, en hún var afasystir mín.
Á leiðinni heim urðu á vegi mínum tveir úr ritstjórn þessa blaðs og barst talið að Urriðakoti og því mannlífi sem þar var fyrr á árum. Niðurstaðan varð sú að gaman væri að fræðast nánar um Urriðakot og fjölskylduna er þar bjó.
Það varð því úr að ég gekk á fund systranna Guðbjargar og Jórunnar Guðmundsdætra frá Urriðakoti, sem fúslega lýstu ýmsu er varðaði daglegt líf þeirra á uppvaxtarárunum.
Í þessum bæ bjuggu hjónin Guðmundur Jónson, fæddur 26. jan. 1866 og Sigurbjörg Jónsdóttir, fædd 26. febrúar 1865. Foreldrar Guðmundar voru Jón Þórðarson og kona hans Jórunn Magnúsdóttir er bjuggu í Urriðakoti og var Guðmundur fæddur þar og uppalinn.
Guðmundur JónssonForeldrar Sigurbjargar voru Jón Guðmundsson og seinni kona hans Vilborg Jónsdóttir, sem búsett voru á Hvaleyri við Hafnarfjörð, en þar fæddist Sigurbjörg. Þegar hún var á öðru ári fluttist fjölskyldan að Setbergi við Hafnarfjörð og þar sleit Sigurbjörg barnsskónum í hópi margra systkina.
Jón og Vilborg á Setbergi sátu jörð sína um allmörg ár með miklum myndarbrag á þeirra tíma mælikvarða. Jón á Setbergi var tvígiftur. Hann missti sína fyrri konu sem hét Guðrún Egilsdóttir. Jón á Setbergi átti 19 börn og eru niðjar hans fjölmargir. Er „Setbergsætt“ þekkt víða um land.
Sigurbjörg og Guðmundur byrjuðu sinn búskap í félagi við foreldra hans. Bústofninn var hálf kýr og 13 ær, sem þætti víst heldur lítið í dag. En þau voru hagsýn og búnaðist vel. Þar kom að kýrnar urðu fjórar og stundum fimm og sauðfé á annað hundraðið auk nokkurra hesta.
Sigurbjörg JónsdóttirUrriðakot var ekki stór jörð, en því betur nýtt. T.d. var fergi, grastegund sem slegin var í vatninu, gefin kúnum, en ekki mátti gefa það hestum. „Það fer í fæturna á þeim,“ var sagt. Við sláttinn í vatninu höfðu menn eins konar þrúgur á fótunum. Svo var einnig heyjað í Dýjamýri, fyrir neðan túnið, en það er eina dýjamýrin á Reykjanesskaga.
Mjólkin var seld til Hafnarfjarðar og flutt á hestvagni. Þegar því varð ekki við komið þá á hestum og alltaf farið heim til hvers kaupanda með mjólkina.
Oft var erfitt með færðina á vetrinum og tók oft langan tíma að komast niður í Fjörð. Leiðin lá suður með Hádegisholti og vestur fyrir Setbergshamar en kom svo á Setbergsveg rétt hjá Baggalá. 1930 kemur svo vegur fyrir vestan vatnið. Þá styttist leiðin um helming. Þá var farið yfir Hrauntangann og yfir Setbergstúnið og fram hjá „Galdraprestaþúfunni.“

Urriðakot

Urriðakotsvegur um Vesturmýri að Setbergi.

Gefum nú Jórunni orðið: „Ég var alltaf myrkfælin hjá „þúfunni“ þegar ég var ein á ferð. Faðir okkar fékk leyfi hjá Jóhannesi Reykdal, bónda á Setbergi, til að leggja veg yfir túnið og lagði faðir okkar veginn sjálfur. Meðal daglegra starfa okkar var að fara upp í Sauðahelli hjá Kol í Víðistaðahlíð. Þar áttum við kindur. Heyið bárum við í pokum á bakinu og gáfum fénu á gaddinn.
Svo var það vatnsburðurinn. Vatnsbólið var fyrir neðan túnið. Allt vatn til heimilisins og einnig handa kúnum bárum við í þar til gerðum fötum og mátti aldrei nota þær til annars. Þetta var oft erfitt verk því allbrött er brekkan frá vatnsbólinu upp að bænum.

Urriðakot

Urriðakot – brunnur.

En 1926 var sett upp dæla og byggður geymir uppi á bænum svo vatnið var sjálfrennandi inn í bæinn og einnig í fjósið. Þetta var mikill Iéttir þrátt fyrir að dælan væri mjög þung, svo helst þurfti tvo til að „drífa“ hana“.
„Jú það var margt sem þurfti að sinna, m.a. um fráfærurnar“ heldur Guðbjörg áfram. „Kvíarnar voru á Hrauntanganum — seinast var fært frá 1918.
Hér fyrrum var allgóð silungsveiði í vatninu, en veiðin hvarf er Jóhannes Reykdal byggði rafstöð (hina fyrstu á landinu) og kom upp stíflu sem varnaði því að silungur kæmist í vatnið.

Urriðavatn

Urriðavatn 2024.

Við hlökkuðum alltaf til berjaferðanna. Aðal berjalandið var í Vífilsstaðahlíð, sem alltaf var mjög berjarík. Á vetrum vorum við systkinin mikið á skíðum og skautum. Skautasvell var og er oft mjög gott á Urriðakotsvatni. Fyrstu skautarnir okkar voru hrossaleggir og fyrstu skíðin tunnustafir og við þetta skemmtum við okkur alveg konunglega. Um alllangt skeið hafði Skautafélag Hafnarfjarðar skautaæfingar á Urriðakotsvatni, þar sem félagsmenn lýstu upp skautasvellið með gaslugtum.

Urriðakot

Urriðakot.

Oft var ferðagrammófónn hafður meðferðis og spilaðir marsar og göngulög og skautað í takt við músíkina. Þetta var ákaflega vinsælt og fjöldinn allur af fólki á öllum aldri lagði leið sína til Urriðakotsvatns kvöld eftir kvöld til að njóta þessarar hollu íþróttar.“
Og við gefum systrunum orðið áfram: „Við minnumst skólaáranna alltaf með mikilli gleði. Eldri systkinin sóttu skóla út á Garðaholt en yngri systkinin í Hafnarfjörð. Alltaf var gengið til og frá skóla. Guðlaugur, bróðir okkar, var síðastur systkinanna fermdur í Görðum. Katrín var fermd í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 1913 og öll yngri systkinin voru einnig fermd í Fríkirkjunni.“

Urriðakot

Urriðakot – letursteinn. Guðmundur faðir Jórunnar hóf búskap í Urriðakoti árið 1887 á móti föður sínum, Jóni Þorvarðssyni, sem hafði búið á jörðinni frá 1846. Guðmundur lét af búskap árið 1942 og skorti því ekki nema fjögur ár í heila öld að jörðin væri setin af þeim feðgum. Áletrunin Jth 1846 vísar væntanlega til Jóns.

Sigurbjörg og Guðmundur eignuðust 12 börn. Misstu þau tvö í frumbernsku en 10 komust upp. Auk sinna eigin barna ólu þau upp að nokkru dótturson sinn Guðmund Björnsson augnlœkni, nú prófessor við Háskóla Íslands. Guðrún dóttir þeirra ólst upp hjá föðursystur sinni, Guðrúnu Jónsdóttur og manni hennar, Þorsteini Guðmundssyni, er seinast bjuggu að Strandgötu 27 í Hafnarfirði. Það mun ekki ofsagt að Sigurbjörg og Guðmundur voru njótendur gæfu og gleði með sinn stóra barnahóp sem öll hlutu farsælar gáfur í vöggugjöf — komust vel til manns og urðu dugandi og velmetnir borgarar.
Það var vinalegt að líta til þessa býlis meðan allt var þar í blóma, allt iðandi af lífi og athafnasemi. Nú má segja að allt sofi þar Þyrnirósasvefni.
Og í dag segi ég: Vakna þú mín Þyrnirós og hvíslaðu í eyra þess er vill heyra: Væri þessi staður ekki ákjósanlegur Fólkvangur fyrir Hafnarfirðinga þeirra?“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 2. tbl. 01.12.1984, Sólveig Eyjólfsdóttir: Fjölskyldan frá Urriðakoti, bls. 24-25.
Urriðakot

Straumur

Í Náttúrufræðingnum 1998 fjallar jarðfræðingurinn Freysteinn Sigurðsson um „Grunnvatnið í Straumsvík„. Þar segir m.a.:

Freysteinn Sigurðsson

Freysteinn Sigurðsson (f. 1941), lauk Diplomprófi í jarðfræði frá Háskólanum í Kiel í Þýskalandi árið 1974. Fresyteinn hefur starfað hjá Orkustofnun æ síðan, einkum við grunnvatnsrannsóknir, neysluvatnsrannsóknir og jarðfræðikortagerð. Hann hefur verið formaður Hins íslenska náttúrufræðfélags frá 1990.

„Gríðarmikil fjöruvötn falla til Straumsvíkur, vestan við álverið og norðan við Keflavíkurveginn. Mikið ber á fjöruvötnum þessum á lágfiri því sjávarföll eru mikil þarna innst í Faxaflóa, eða allt að 4-5 m munur flóðs og fjöru. Hraun eru við víkurbotninn, með rásum og röstum, og eru fjöruvötnin í stœrstu rásunum ár að vexti, upp í nokkra m3/s á stórstraumsútfalli. Svo lek eru hraunin að fjöruvötnin falla sum sem gerðarlegir lœkir í polla bak við hraunkamba og hraunrastir, en útrennsli sést ekki úrpollunum því vatnið rennur skemmstu leið í gegnum hriplek hraunin. Af þessum vatnagangi hefur staðurinn fengið nafnið Straumur og víkin Straumsvík.
Sunnan við þjóðveginn standa nokkrar tjarnir uppi í hraununum og gætir sjávarfalla í þeim, svo verulegan mun sér flóðs og fjöru.
Syðst í tjörnum þessum er Gvendarbrunnur úti í tjörn, hlaðinn í hring úr grjóti, og göngugarður út að honum því brunnurinn fer á kaf þegar sjávarfallaflóð eru mikil. Þarna í Straumsvík er líklega næstmesta útrennsli á einum stað úr grunnvatni til sjávar á landinu, á eftir Lóni í Kelduhverfi.
Þetta mikla útrennsli er afleiðing af jarðfræðilegum og vatnafræðilegum aðstæðum, eins og lög gera ráð fyrir. Menn kunna nokkur deili á þeim aðstæðum því þó nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á grunnvatnsfari á aðrennslissvæði Straumsvíkur og aðliggjandi svæðum.

Gerðistjörn

Gerðistjörn ofan Straums.

Allvíðtæk könnun var gerð á grunnvatni á vatnasviði Straumsvíkur 1975, og var það raunar einhver fyrsta meiriháttar könnun af slíkum toga sem gerð var hérlendis og þar sem beitt var jarðfræði, jarðeðlisfræði, vatnafræði og efnafræði í samþættri rannsókn. Niðurstöður hennar eru enn uppistaðan í þekkingu okkar á grunnvatnsfari svæðisins. Vatnafarskort í mælikvarða 1:25.000 hafa verið gerð af stórum hluta vatnasviðsins á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Á kortum þessum eru jarðlög túlkuð og fiokkuð með tilliti til lektar og annarra vatnafarslegra eiginleika.
StraumurSamkvæmt þessum rannsóknum eru orsakir hins mikla útrennslis í Straumsvík einkum þrjár (2. mynd):
1. Jarðlög á aðrennslissvæðinu (vatnasviðinu) eru mjög lek, svo úrkoman sígur nánast öll í jörðu niður og nær ekkert afrennsli er á yfirborði.
2. Úrkoma á vatnasviðinu er mikil, einkum á fjöllunum þar sem hún fer líklega víða yfir 2.000 mm á ári.
3. Jarðgerð svæðisins beinir grunnvatnsstraumum af stóru svæði til Straumsvíkur.

Vatnshagur vatnasviðsins

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Úrkoman við Straumsvík losar 1.000 mm á ári, eykst upp eftir hraununum og gæti verið komin í um 1.500 mm á ári á Undirhlíðum og nálægt Kaldárbotnum. Þessari úrkomu samsvarar afrennsli sem nemur 30-1001/s á km2 að ársmeðaltali, líklega 55-70 1/s á km2 að meðaltali fyrir svæðið. Ætla má að vatnasviðið sé 150-200 krn2 þegar ráðið er í líkleg mörk þess eftir jarðgerð og vatnafari, líklega þó nær neðri mörkunum. Miðað við það nemur heildarafrennsli til Straumsvíkur 8-14 m3/s. Reynt hefur verið að meta útrennslið við Straumsvík, eða öllu heldur í Hraunavík alla, milli Hvaleyrarhöfða og nessins vestan Straumsvíkur.

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Útrennsli á fjöru fer vaxandi frá Hvaleyrarhöfða til álversins, úr 0,1-1/s í um 1/s á hvern metra fjöru. Á þessu bili falla líklega um eða yfir 2 m3/s til sjávar. Mikið vatn vellur undan álverinu, líklega m3/s eða jafnvel mun meira. Reynt hefur verið að meta vatnsmegin fjöruánna í Straumsvík, en það er torvelt með nákvæmni því fjöruvötnin breyta sér í sífellu, eftir því sem á útfallið líður, og eru að auki stundum ofan jarðar og stundum neðan. Með þeim fyrirvörum var giskað á að útrennsli næmi 3-10 m3/s að meðaltali. Útrennsli til Hraunavíkur er þá 6-15 m3/s, eða svipað og samkvæmt afrennslismati. Meðaltalsgildi væri nærri 10 m3/s. Þetta er í góðu samræmi við niðurstöður líkanreikninga (10-11 m3/s) (Vatnaskil 1991). Má því hafa þetta gildi fyrir satt, þar til annað reynist sannara. Af þessu vatni falla væntanlega um eða yfir 5 m3/s til Straumsvíkur sjálfrar.

Vatnajarðfræðileg gerð svæðisins

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Megindrættir í vatnajarðfræðigerð svæðisins eru þessir:
1. Virka gosbeltið, sem liggur eftir endilöngum Reykjanesskaga, stefnir nærri VSV-ANA. Á því hafa hlaðist upp móbergsfjöll á jökulskeiðum en hraun hafa runnið út frá því í átt til strandar. Jón Jónsson (1978) taldi um 200 þekktar gosstöðvar á skaganum sem virkar höfðu verið eftir ísöld. Sýnir það fjörið í eldvirkninni. Gosberg það sem nú er á yfirborði og nokkuð í jörð niður er lekt og veitir vel vatni.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur í Hrauntungum.

2. Hrauntungur hafa fallið frá gosbeltinu á nútíma, einkum um lægðir og slakka. Ofan Straumsvíkur hefur að öllum líkindum verið dalur nokkur, eða jafnvel fjörður, og ná þykk hraun þaðan til sjávar og veita vatni þangað mjög greiðlega.
3. Sprungusveimar skarast yfir gosbeltið og stefna nærri SV-NA. Á mörgum þeirra eru opnar gjár og sprungur og veita þeir þá vatni greiðlega, þar á meðal ofan í hraunfyllta dalinn ofan Straumsvíkur.
Einkum má nefna sprungusveiminn um Heiðmörk, Hjalla og Kaldársel, en hann er svo opinn og lekur að grunnvatnið rennur frekar eftir honum en skemmstu leið til sjávar og þvert á jafnhæðarlínur grunnvatnsborðsins.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi við Ketilsstíg.

Annar sprungusveimur liggur norður með Sveifluhálsi, en vel má vera að þeir séu báðir hluti af sama sprungukerfi eða sprungurein. Þessir sprungusveimar valda misleitni (anisotropi) í lekt á svæðinu, þannig að hún er miklu meiri í stefnu sprungusveimanna en þvert á þá. Niður í eystri skarann rennur grunnvatn frá Bláfjöllum og vestur til Grindaskarða. Sprungumar beina því suðvestur, en norðvestan við sprungusveiminn tekur við grágrýti og annað enn eldra berg, sem veitir vatni treglega í gegnum sig samanborið við hraunin og sprungurnar. Þarna verður því mikill grunnvatnsstraumur vestur í „Straumsvíkurdalinn“.

Sveifluháls

Sveifluháls – móberg.

Sveifluháls er úr móbergi, víða holufylltu af jarðhitaummyndun, og mun tregara á vatnsrennsli en hraunin. Norðan hans er hæðarbunga og er þar líklega einnig eldra og þéttara berg undir hraununum.
Skammt er þar að líkindum suður til vatnaskila og verður grunnvatnsstraumur þessi því sýnu minni en sá sem kemur austan að.
Báðir flæða þeir út úr sprungusveimunum og ofan eftir hraununum í fyllta dalnum suður frá Straumsvík.
Suðaustur af Straumsvík verður lægð í landið upp undir Undirhlíðar, milli lítt lekra grágrýtisholtanna suður af Hafnarfirði og hraunum þakinnar bungunnar í Almenningum. (3. mynd).
StraumsvíkLægð þessi er þakin hraunum sem fara jafnt og þétt hækkandi upp undir Undirhlíðar, en þó í óljósum þrepum. Hér skína í gegn drættir jarðgerðar og landslags undir hraunþekjunni. Á sínum tíma var reynt að greina hæð grunnvatnsborðs á svæðinu með jarðviðnámsmælingum og virðist það hafa tekist þokkalega, miðað við síðari boranir og líkanreikninga á svæðinu. Við þær mælingar komu líka fram ábendingar um dal, forðum fjörð, upp frá Straumsvík, sem síðar hefur fyllst hraunum. Botn þessa dals nær niður á 30-40 m dýpi undir sjávarmáli, samkvæmt mælingunum, en hraunin á stæði álversins ná 20-25 m niður fyrir sjávarmál. Dalur þessi var fundinn með óbeinum aðferðum og mælingum með tækjum, sem þættu ærið ófullkomin núna. Því var traustið á þessari túlkun ekki meira en svo að vesturhlið dalsins var ekki sýnd sem miður lek jarðlög á vatnafarskorti af svæðinu. Við boranir síðar á svæðinu kom þessi hlíð samt í ljós, og verður því að telja líklegt að túlkunin á tilvist dals þessa sé ekki fjarri sanni (4. mynd).

Ástand grunnvatnsins
StraumsvíkGrunnvatnið rennur ákaflega greitt frarmí þessum hraunfyllta dal. Fyrir vikið er halli grunnvatnsborðs þar lítill, en hæð þess er um 2 m y.s. sunnan vegar hjá álverinu og er komin upp undir 10 m y.s. hjá Hrauntungu. Þaðan af hækkar það hraðar, enda eru hraunin þar að meira eða minna leyti ofan grunnvatnsborðs. Í Undirhlíðum og við Kaldársel er grunnvatnsborðið kontið upp í 70-80 m y.s. Úti undir ströndinni flýtur grunnvatnið ofan á jarðsjó í berginu. Saltsvatns er farið að gæta á 100 m dýpi hjá álverinu, en svo snardýpkar á það inn til landsins. Í sprungusveiminum hjá Kaldárseli er talið að öflugt ferskvatnsrennsli sé a.m.k. niður á 800 m dýpi. Ferskvatnið á svæðinu er efnaríkara (einkum auðugra að steinefnum) undan móbergsfjöllunum en af grágrýtinu og hraununum, þ.e. skammt að runnið vatn. Efnaríkast er vatn í Kleifarvatni og umhverfi þess.
StraumsvíkVatnið í Straumsvík er blanda af öllu svæðinu og sést það vel í efnainnihaldi þess. Reynt hefur verið að meta útrennsli úr Kleifarvatni eftir jarðgerð, vatnafari og líkanreikningum en vatnið er afrennslislaust á yfirborði. Áætlað hefur verið að um m3/s renni norður úr en um 1 m3/s suðaustur úr. Hlutfallið gæti þó verið enn lægra fyrir rennslið norður úr, en einnig gæti útrennslið í heild verið talsvert meira, samkvæmt síðari skoðunum.
Grunnvatn það sem rennur vestan að til Straumsvíkur virðist vera bæði heitara og efnaríkara en meginstraumurinn suðaustan að. Þetta staðfesta hitamælingar úti í Hraunum; þar hækkar vatnshiti í fjörulindum úr 5-5’/2°C við Lónakot upp í 8-8’/2°C vestur undir Hraunsnesi en lækkar svo aftur inn til Vatnsleysuvíkur. Þetta, ásamt fleiri ábendingum, hefur verið túlkað svo að grunnvatnsstraumur komi þarna til sjávar ofan frá jarðhitasvæðinu við Trölladyngju. Vatnshitinn við Straumsvík mældist um og innan við 4°C en um 3°C uppi í Kaldárseli. Má af þessu ráða nokkuð um hlutdeild fjallavatnsins í útrennslinu í Straumsvík (5. mynd).

Grunnvatnsauðlind
Straumsvíik.Á flóði stíflast útrennslið uppi og getur þá sjóblandað vatn þrengt sér inn í jarðlögin við ströndina. Þetta veldur saltblöndun í grunnvatninu og fjörulindunum, yfirleitt því meiri sem útrennslið er minna. Kemur það glöggt fram í fjörulindum austarlega í Hraunavík og út við Lónakot, en svo mikill er flaumurinn í Straumsvík að það finnst ekki á bragði vatnsins, þó að blöndunin komi glöggt fram í efnagreiningum. Saltmengun í vatnsbólum var mikið vandamál víða á Reykjanesskaga áður en farið var að afla neysluvatns inni á skaganum. Ferskt grunnvatnið í Straumsvík er gríðarmikil auðlind, enda er þar vatnsmesta grunnvatnssvæði í nánd við meiriháttar þéttbýli á landinu. Á vatnasviði Straumsvíkur eru vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum (7. mynd).
StraumsvíkÞaðan fellur Kaldá skamman spöl, uns hún hverfur í hraunið, en skilar sér svo aftur í útrennslinu í Straumsvík. Vatnsmegin Kaldár er ærið mismikið, enda er hún eins konar yfirfall úr grunnvatninu og rennsli hennar því háð hæð grunnvatnsborðs. Svæði þetta er tengt vatnasviði grunnvatns þess sem fellur til Elliðavatns og býr ekkert þéttbýlissvæði á landinu við slíka auðgi grunnvatns sem höfuðborgarsvæðið, nema Þorlákshöfn, hinum megin á Reykjanesskaganum. (6. mynd).
Full ástæða er til að hugsa vel um auðlind þessa því í henni geta verið fólgin gífurleg verðmæti, ekki síst vegna landslegu Straumsvíkur, hafnaraðstöðu þar og fleiri þátta. Ýmsum þykir pottur brotinn í umhyggjunni um auðlindina, því alls konar mengunarbær starfsemi hefur verið sett niður á vatnasviði Straumsvíkur. Ofar í straumnum spillist allt neðan mengunarstaðar, þ.e.a.s. meira vatn og á mun stærra svæði.

Straumsvík

Álverið í Straumsvík.

Staðsetning álversins og annarra fyrirtækja úti við ströndina veldur lágmarksspjöllum á vatnasviðinu. Meira orkar tvímælis með stálbræðsluna, sem eitt sinn var sett niður á svæðinu, loðdýrabú, sem þar voru eða áttu að vera, en þó ekki síst kappakstursbraut í Kapelluhrauni og ökuþórakappvöll þann sem valinn hefur verið staður lengst uppi í hrauni. Enn má geta gjalltöku á hraununum og efnistöku víða við Undirhlíðar, en mikilli vélavinnu getur fylgt olíuleki, rétt eins og bílaböðulshættinum.
Skynsamlegra, vatnsvænna, fyrirhyggjumeira og gróðavænlegra, til lengri tíma litið, hefði verið að setja svona starfsemi niður sem næst ströndinni, eða þá alls ekki á þessu auðugusta grunnvatnssvæði við meiriháttar þéttbýli á landinu. Enn eru ekki öll sund lokuð fyrir verndun vatnasviðs Straumsvíkur, en þó verður æ brýnna að koma þar á viðunandi lagi meðan enn er tími til. Grunnvatnið í Straumsvík er einstæð auðlind og raunar ómetanleg.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 67 (3-4), Grunnvatnið í Straumsvík, Freysteinn Sigurðsson, bls. 179-188, 1998.

Straumsvík

Straumsvík.

Hvaleyri

Í „Fornleifaskráningu vegna framkvæmdaleyfis á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði“ árið 2019 segir m.a.:

Saga
HvaleyriElstu heimildir um Hvaleyri er í Hauksbók Landnámu er Hrafna-Flóki Vilgerðarson fann hval rekinn á eyrinni og nefndi hana því Hvaleyri. Í Landnámu er þess einnig getið að Ásbjörn Össurarson bróðursonur Ingólfs Arnarssonar hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, ásamt öllu Álftanesi.
Árið 1395 var Hvaleyri í eigu Viðeyjarklausturs og leigan til klaustursins var 4 hndr. Árið 1448 var getið um kirkju á Hvaleyri svo er lítið um heimildir um Hvaleyri þar til í byrjun 18. aldar. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 var getið um hálfkirkju á Hvaleyri og að þar hafi verið þjónað þrisvar sinnum á ári, kirkjan var á þeim tíma hálfkirkja frá Görðum á Álftanesi og jörðin var konungseign.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem sagt er frá búsetuháttum, landgæðum og hjáleigum. Ábúandi jarðarinnar árið 1703 var Ormur Jónsson, leigukúgildi eru þrjú, landskuld eitt hundrað og heimilismenn eru sex talsins. Túnin spilltust reglulega af sandgangi og engar voru engjar. Vatnsból var ekki gott og gat þrotið hvenær sem var árs. Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og er það sjálfsagt ein aðal ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 er jörðin seld á uppboði og þar með fer hún úr konungseigu, kaupandi var Bjarni Sívertsen. Árið 1834 keypti Jón Illugason snikkari jörðina af dánarbúi Bjarna.
Jón Illugason seldi jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Við andlát Jóns tók ekkja hans Þórunn Sveinsdóttir við Hvaleyri, árið 1868 gaf hún Sigríði Jónsdóttur frændkonu mans síns mestan hluta jarðarinnar. Sigríður giftist síðar Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var seld síra Þórarni Böðvarssyni árið 1870.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Síra Þórarinn og kona hans gáfu hluta af jörðinni til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1887.
Í Jarðabók frá árinu 1803 eru nefndar fjórar hjáleigur á Hvaleyri, það eru; Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir.
Í Sögu Hafnarfjarðar frá árinu 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið en eigi var kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftarkirkja því enn sást fyrir kirkjugarði í túni heimajarðarinnar á Hvaleyri.

Hvaleyri

Hvaleyri 1776.

Hvaleyrarkirkju er fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar á Hvaleyrarkirkju og gripum hennar í þeirri eldri sem er frá árunum 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum sem þýðir að hún var á bilinu 5,7-6,8 m að lengd og 2,85-3,4 m að breidd.
Guðmundur Guðmundsson smiður sem bjó í Vesturkoti á Hvaleyri fann heila mannsbeinagrind með föður sínum er hann var unglingspiltur. Þar fannst einnig krítarpípa, greiðugarður, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru grafin aftur ofar í túninu. Um 1925 fundust aftur mannabein á Hvaleyri af Magnúsi Benjamínssyni bónda í Hjörtskoti á Hvaleyri.

HvaleyriMatthías Þórðarson þjóðminjavörður rannsakaði beinin og taldi sennilegt að þetta væru bein sjórekinna manna sem fundist hefðu á Hvaleyri. Matthías taldi ekki þurft að varðveita beinin á Þjóðminjasafninu, en þau voru grafin í kirkjugarð Hafnarfjarðar.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði, einn þeirra var við Hvaleyrartjörn og hét hann West End. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þessum tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi þeirra var á Hvaleyri.

Hvaleyri

Golfklúbburinn Keilir í Hafnarfirði fagnaði þorranum í nýju félagsheimili í árslok 1992. Á meðan brann gamla félagsheimilið, Vesturkot. Hafnfirskir kylfarar kveiktu sjálfir í húsinu.

Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var það til árisins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekin í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.

Vesturkot
Vesturkot var vestasta hjáleigan á Hvaleyri fyrir norðan Hvaleyrarbæinn. Kotið hefur staðið við endann á Kotagötunni.

Hvaleyri

Hvaleyri – hér sést Vesturkot ofan við Flókastein.

Ekkert er eftir af byggingunum sem þarna stóðu og svæðið hefur verið sléttað. Þegar golfvöllurinn var stofnaður á Hvaleyri árið 1967 var húsinu í Vesturkoti breytt í klúbbhús fyrir Golfklúbbinn Keili. Árið 1992 þegar búið var að reisa nýtt klúbbhús var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsunum er stóðu í Vesturkoti.
Hvaleyrarhöfðinn var nefndur Drundur og Vesturkot bar einnig nafnið Drundur. Á árunum 1781-1800 var Vesturkot nefnt Lásastaðir eftir hjáleigubóndanum, Nikulási Bárðarsyni en eftir 1810 var það nefnt Vesturkot og hefur það haldist síðan.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókasteinn.

Síðasti ábúandi kotsins var Sigurður Gíslason, en faðir hans Gísli Jónsson tók við jörðinni árið 1915 og byggði upp.

Þegar Gísli fluttist að Vesturkoti árið 1915 var bærinn í mikilli niðurníðslu, hann hóf þegar ræktun á túnunum, byggði gripahús og heyhlöðu.
Guðmundur Guðmundsson sem bjó í Vesturkoti og faðir hans fundu hauskúpu og heila beinagrind einnig fannst krítarpípa, greiðugarmur, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru grafin aftur ofar í túninu. Líklega hefur þetta verið rétt fyrir 1900.

Flókasteinn

Hvaleyri

Hvaleyri-Flókaklöpp.

Vestarlega á Hvaleyrinni, rétt vestur af þeim stað er hjáleigan Vesturkot stóð.
Flókasteinn og tveir aðrir flúraðir steinar. Flókasteinn er grágrýtissteinn, hann er um 2,5 m að lengd og breiddin er um 1-2m, hæðin um 0,70 m. Vestan við steininn er upphlaðinn hálfhringlaga grasivaxinn garður sem er um 0,3 m á hæð en lækkar þar sem hann er næst steininum veggjaþykkt garðsins er um 0.3 m.
Rúnaklappir eru grágrýtisklappir. Sérstaklega var einn steinninn mikið markaður. Hann nefndist Flókasteinn. Töldu sumir að Hrafna-Flóki hefði skilið þarna eftir sig nafn sitt.

Flókaklöpp

Flókaklöppin í dag.

Í Árbók fornleifafræðifélagsins er grein sem heitir „Bergristur á Hvaleyri“ eftir Sveinbjörn Rafnsson. Segir þar m.a.: Á Hvaleyrarhöfða sér í jökulsorfnar grágrýtisklappir. Í þessar klappir hafa menn höggvið ýmis teikn og skráði greinarhöfundur og mældi bergristur þessar í júlí 1970. Risturnar hafa verið gerðar í fjórar afmarkaðar klappir eða steina, en klappir eru þarna fleiri þó ekki séu á þeim ristur. Risturnar verða þó ekki greindar til gagns nema á þremur af þessum steinum.
Syðsta klöppin er nú ólæsileg og hrakalega útötuð í steinsteypu eftir stríðsumsvif Breta í heimsstyrjöldinni síðustu. Allt í kringum steinana eru steinsteypt byrgi og byssustæði frá þeim tíma. Steypan í þessi mannvirki hefur verið blönduð og hrærð á syðstu klöppinni, þó má enn greina einstöku höggna rák út undan steypuhúðinni. Elstu ártöl á steinunum eru frá 1653. Jónas Hallgrímsson mun hafa verið sá fyrsti sem rannsakaði steinana fornfræðilega í júní 1841.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

Árni Helgason í Görðum er sá næsti sem getur um Hvaleyrarristurnar í Sóknarlýsingu fyrir Garðaprestakall 1842. Árið 1854 fær Magnús Gíslason styrk til fornfræðiferða um Ísland og skoðar þá steinana. Kristian Kålund getur Hvaleyrar í drögum að staðarlýsingu Íslands, og segir að þar séu á nokkrum klöppum latneskir bókstafir og ártölin 1628 og 1777. Sigurður Skúlason á greinagóða og sígilda lýsingu Hvaleyrar steina í riti sínu Sögu Hafnarfjarðar (frá 1933, bls. 27-28) en hann er sá fyrsti sem segir steina með ristunum vera fjóra talsins.

Minorsteinn
Steininn er grágrýtissteinn rúmlega 2 m langur og breiddin 1- 2 m, og hæðin að sunnan um 0.30 m, en að norðan í sömu hæð og landið í kring.

Hvaleyri

Hvaleyri – áletrun á Minorsteininum.

Þarna er Flókasteinn og annar steinn Minorsteinn, rétt hjá með stöfum og tölum, á honum er ártalið 1777. En það ár var hér Minor sjóliðsforingi norskur og því er steinninn nefndur Minorsteinn.

Þórðarkot
Sunnan við Vesturkotstúngarð var Þórðarkot í Þórðarkotstúni.
Bæjarstæði Þórðarkots hefur verið sléttað. Þórðarkot hefur haft ýmis nöfn í gengum tíðina, eftir því hver hefur búið þar hverju sinni. Á árunum 1805-1835, hét það Einarskot eftir Einari Andréssyni. Þórðarkot frá því að Þórður Jónsson lóðs flutti þangað árið 1832 og hélst nafnið til 1870. Beinteinskot þegar Beinteinn Stefánsson frá Krýsuvík bjó þar 1870-1880, hann var síðastur ábúenda til að búa í kotinu sem fór í eyði eftir hans dag og túnið lagðist fljótlega eftir það undir Halldórskot.

Þórðargerði/ Beinteinsgerði / Zimsensgerði

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Þórðargerði var túnblettur við Þórðarkot.
Þórðarkotstún takmarkaðist af túngörðum sem hlaðnir voru á þrjá vegu, en að norðan náði það niður að Bakkanum og fjörunni. Í Þórðargerði bjó eitt sinn maður að nafni Beinteinn Stefánsson, þá nefndist kotið Beinteinskot og túnbletturinn Beinteinsgerði. Síðar hafði Christian Zimsen verslunarstjóri afnot af gerðinu, á síðasta fjórðung 19. aldar, þá nefndist það Zimsensgerði. Svæðið hefur verið sléttað og ekkert sést af gerðinu lengur.

Halldórskot

Hafnarfjörður

Hvaleyri um 1950.

Í austur frá Þórðarkot, tekur við Halldórskot í Halldórskotstúni.
Þarna hefur verið sléttað, en sést þó fyrir L-laga garði, túngarði sem hefur verið utanum bæjarstæði Halldórskots.
Bindindi var kot á Hvaleyri með Bindindistúni. Nefndist þessu nafni frá 1778-1821, síðan hét það Jónskot, frá 1810-1843 en síðast Halldórskot frá 1847-1944 eftir Halldóri Jónssyni.
Tengdasonur Halldórs, Eyjólfur Eyjólfsson seldi Þorsteini Egilssyni kotið 1883. Síðustu bændur sem byggðu kotið frá 1906-1944 voru Aðalbjörn Bjarnason stýrimaður og Þorgerður Kristín Jónsdóttir kennari, eftir þeirra dag var kotið þurrabúð um tíma þar til það fór í eyði. Aðalbjörn bætti jörðina með ræktun og byggði íbúðarhús úr timbri og steypti fjós og hlöðu.

Skotbyrgi

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Norðvestast á Hvaleyri rétt hjá friðuðum fornleifum. Skotbyrgin eru þrjú eins, þetta er vestasta skotbyrgið.
Veggir skýlisins eru upphlaðnir og steyptir, yfir er braggaþak að hluta, sá hluti er um 3 m x 2 m, að honum er smá gangur sem er um 1m breiður og 3 m langur, og veggjahæð um 1.20 m, þar er inngangur í skýlið. Það er að mestu niðurgrafið, sést aðeins í braggaþakið sem stendur uppúr jörðinni ásamt efsta hluta veggjanna. Á þessu svæði eru þrjú næstum eins skotbyrgi. Skotbyrgin voru reist mjög nálægt friðuðum fornminjum á Hvaleyrarhöfðanum.

Heimild:
-Hafnarfjörður – Hvaleyrarvöllur Hafnarfirði; Fornleifaskráning vegna framkvæmdaleyfis. Heiðrún Eva Konráðsdóttir sagnfræðingur – Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019.

Hvaleyri

Hvaleyri – loftmynd 1954.

Helgafell

Guðmundur Kjartansson fjallar um Búrfellshraun og tilurð Gjánna norðan Kaldársels í Náttúrufræðingnum árið 1973:
Búrfellshraun„Hafnarfjarðarkaupstaður stendur hálfur á jökulsorfinni grágrýtisklöpp, hinn helmingurinn í úfnu hrauni. Lækurinn, sem fyrrum hét fullu nafni Hamarskotslækur, en nú oftast Hafnarfjarðarlækur, fylgir nákvæmlega mörkum þessara jarðmyndana. Að hafnfirskri málvenju er grágrýtissvæðið „fyrir sunnan læk“ en hraunið „fyrir vestan læk“.
Heimamönnum í Hafnarfirði er tamast að kalla hraunið fyrir vestan læk bara Hraunið, aðrir nefna það Hafnarfjarðarhraun. En þetta er aðeins hluti af allvíðáttumiklu hrauni. Aðrir hlutar þess heita hver sínu nafni, t. d. Garðahraun og Gálgahraun norðvestur og norður frá Hafnarfirði, en í gagnstæða átt er Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðarhraun.
BúrfellshraunAllt er þetta eitt og sama hraunflóð að uppruna, og runnið í einu eldgosi úr Búrfellsgíg, 71/2 km suðaustur frá miðbænum í Hafnarfirði. Hér verður það í heild kallað Búrfellshraun. Það er allt innan marka Garðahrepps og Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Heildarnafnið Búrfellshraun, um allt það hraun sem frá Búrfelli er runnið, komst fyrst á prent í ritgerð um jarðfræði þessa svæðis eftir ]ón Jónsson (1965) og öðru sinni í grein eftir Eystein Tryggvason (1968). Þetta nýnefni er vel til fundið og einkar hentugt. En á það ber að líta sem jarðfræðilegt hugtak, og það má með engu móti útrýma gömlum og grónum örnefnum.
Vegna halla landsins hefur hraunið úr Búrfellsgíg sama sem ekkert runnið til norðurs og norðausturs. Það hefur einnig komist mjög skammt suðaustur og suður, í mesta lagi að rótum móbergsfellanna Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka.

Lambagjá

Lambagjá – hleðsla undir vatnsleiðslu.

En á þessa hlið er nokkur óvissa um legu hraunjaðarsins, eins og síðar verður að vikið. Í vestri hverfur Búrfellshraunið undir yngri hraun aðeins 1—2 km frá upptökum, og rennur þar Kaldá á hraunmótunum.

Kaldársel

Borgarstandur – fjárborg.

Hraunin fyrir sunnan Kaldá eru mjög ungleg að sjá. Eitt þeirra, hraun úr Óbrinnishólum, er samkv. C14-aldursgreiningu, sem Jón Jónsson hefur nú fyrir skemmstu fengið gerða á koluðum jurtaleifum undir því, aðeins um 2200 ára. Hið allra yngsta, Kapelluhraun, sem álverið við Straumsvík stendur á, er vafalítið runnið eftir landnám (Guðm. Kj. 1952). Fyrir neðan (vestan) Kaldársel er nokkur brekka fram af Búrfellshrauni niður að ánni. Sú brekka líkist grunsamlega hraunbrún og gefur með því í skyn, að Búrfellshraunið nái ekki að neinu ráði inn undir yngri hraunin, heldur hafi þau staðnæmst þarna við jaðar þess.

Lambagjá

Lambagjá – hleðsla undir vatnsleiðslu.

En þetta er engan veginn einhlítur hraunjaðar. Hitt kemur einnig til mála, að Búrfellshraun nái langar leiðir vestur og síðan norðvestur sunnan við Stórhöfða, Hamranes, Grímsnes og Hvaleyrarholt, og jafnvel allt til sjávar á Hvaleyrarsandi, en sé nú á þessum kafla víðast grafið undir yngri hraununum.

Auk Búrfellsgjár eru talsverðar leifar eftir af annarri hrauntröð í Búrfellshrauni. Sú liggur í hlykkjum með meginstefnu nálægt vestri skammt norðan við Kaldárrétt og Kaldársel.

Kaldársel

Borgarstandur – misgengi.

Hún hefur bersýnilega myndast fyrr í Búrfellsgosinu en Búrfellsgjá, og af þeim sökum eru nú aðeins slitrur eftir af henni. Annars staðar hefur hún fyllst aftur af hrauni síðar í gosinu. Þessi hrauntröð verður víst að teljast nafnlaus, og er það illa farið. Hún hefur stundum — út úr vandræðum, eða af misskilningi — verið nefnd „Gullkistugjá“, en það er gamalt örnefni í nágrenninu og á við raunverulega gjá (sprungu) í allt öðru hrauni, suður frá Helgafelli.

Kaldársel

Fjárskjól.

Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, sem hefur af mikilli natni og kunnleika skráð örnefni á þessum slóðum, kveðst einnig hafa heyrt hrauntröðina hjá Kaldárseli kallaða Lambagjá, en telur það nafn naumast viðurkennt af kunnugum mönnum. En eitthvað verður „gjáin“ að heita, og af framangreindum óviðurkenndum nöfnum er „Lambagjá“ heppilegast.

Um þvera Lambagjá liggur garður einn mikill og vel hlaðinn. Hlutverk hans liggur engan veginn í augum uppi ókunnugum manni. Hann var undirstaða undir vatnsveitu úr Kaldá yfir á vatnasvið Hafnarfjarðarlækjar, en síðarnefnt vatnsfall knúði hreyflana í raforkustöð Hafnarfjarðar á fyrstu áratugum þessarar aldar. Vatninu var veitt í opinni rennu, timburstokk, sem sums staðar varð að hlaða undir en annars staðar að grafa nokkuð niður, svo að alls staðar yrði vatnshalli í rétta átt. Vatninu var sleppt niður í hraunið fjarri upptökum lækjarins, en mun allt hafa skilað sér þangað.

Gjár

Gjár.

Það virðist skilyrði fyrir langlífi hrauntraðar, að hraunáin, sem myndar hana, hverri nokkuð snögglega. En tilefni þess getur verið tvenns konar, annaðhvort það, að hraungosið hættir snögglega, eða hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg.

Gjárnar eru fornt hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.

Gjár

Gjár.

Einsætt virðist, að hraunið sem rann til suðurs frá Búrfellsgíg hafi breiðst fast að rótum móbergshæðanna Valahnúka og Kaldárhnúka, þá verða nú mörk þess ekki rakin þar nákvæmlega svo að víst sé. Svo stendur á því, að vestur með þessum hæðum hefur runnið hraun af þessum uppruna. Það liggur þvert vestur yfir Helgadal og allt til Kaldár og Lambagjár, og hefur átt þátt í að fylla upp þá hrauntröð ofanverða. Þetta er flatt helluhraun og jaðar þess, þar sem það liggur ofan á Búrfellshrauninu, víða mjög hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg.

Gjár

Gjár.

Meðan enn hélst allmikið hraungos og kvikan beljaði út um skarðið í vesturbarm gígsins tif Búrfellsgjár, brast gat á suðurvegg hans niðri við rætur. Hrauntjörnin, sem fram til þessa hafði fyllt gíginn upp á barma, fékk þar nýja útrás, sem var fáeinum tugum metra lægri en hin fyrri. Yfirborð tjarnarinnar lækkaði að sama skapi, og síðan rann aldrei hraun til Búrfellsgjár né annars staðar yfir gígbarminn. Hraunáin var þar með stemmd að ósi. Kvikan, sem þar var fyrir, rann af afli burt undan hallanum, uns „gjáin“ tæmdist smám saman að meira eða minna leyti.

Gjár

Gjár – garður.

Mikið misgengi liggur um austanverðar Gjár. Jón Jónsson (1965) nefnir hana Hjallamisgengið, og er það réttnefni, því að Hjallarnir sunnan og austan við Vífilsstaðahlíð eru sjálfur misgengisstallurinn þar sem hann er hæstur.

Frá suðurenda Vífilsstaðahlíðar heldur Hjallamisgengið áfram með lítið eitt suðlægri stefnu þvert yfir Búrfellshraun og kemur að Kaldá laust vestan við Kaldársel.

Hjallar

Hjallar – misgengi.

Misgengið er glöggt alla þessa leið, en stallurinn er miklu lægri í Búrfellshrauni en í Hjallagrágrýtinu. Í ungu hraununum sunnan við Kaldá vottar ekkert fyrir misgenginu, allt þangað til kemur að Sauðabrekkugjá í Hrútargjárdyngjuhrauni í vestri.

Búrfellshraun rann um tíma í tveimur kvíslum norðvestur yfir misgengisbrúnina, annarri hjá Gjáarrétt og hinni vestur af Kaldárseli. Það er einsætt, að syðri kvíslin, sem hér verður til bráðabirgða kölluð „Kaldárhraun“, rann fyrr í gosinu.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá – hrauntjörn.

Í henni er Lambagjá, leifar hrauntraðar, sem fylltist að mestu er á leið gosið. Ætla má, að sú kvísl hafi lagt leið sína um lægsta skarð, sem þá var í misgengisbrúninni. Þessi hraunálma stefnir litlu vestar en norður á leið sinni milli Fremstahöfða og Miðhöfða að vestan og Sléttuhlíðar að austan, en hverfur þar undir Gráhelluhraun, sem er kvísl úr nyrðri hraunálmunni, runninni síðar í gosinu.“

Kaldá

Kaldá – farvegur árinnar fyrrum, áður en Búrfellshraunin runnu.

Sennilega hefur Kaldá, fyrir Búrfellshraunagosið, fyrrum runnið til norðurs og vesturs millum grágrýtishlíðanna vestan Vífilsstaða, í sjó nálægt Langeyri, en um stutt skeið vegna hraunskriðsins úr austri á gostímabilinu hefur hún runnið þá leið, sem „Kaldárhraun“ rann síðar, og hefur áin þá átt sér farveg ofanjarðar um hraunlausan dal, þar sem nú liggja „Kaldárhraun“ og Gráhelluhraun, eitt affalla Gjánna, alla leið í botn Hafnarfjarðar.
Eftir að gosinu lauk leitaði Kaldá sér nýjan farveg, líkt og ár gera, niður með vesturkanti Búrfellshraunsins (Kaldárshrauns), alla leið til sjávar austan Hvaleyrarhöfða. Seinni tíma hraungos, s.s. í Óbrinnishólum, í Bollum og í Undirhlíðum þrýstu að ánni úr vestri svo hún neyddist til að hörfa af yfirborðinu og leita leiða neðanjarðar milli hraunlaganna, alla leið til sjávar á svæðinu millum Hvaleyrar og Straumsvíkur.

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðahellir.

Árni Hjartarson fjallar um Búrfellshraun og Maríuhella í Náttúrufræðingnum 2009. Hann leggur reyndar of mikla áherslu á hellamyndunina og heiti einstakra hella, sem reyndar er villandi í ljósi sögunnar. En hvað um það; vel má una við hluta umfjöllunarinnar: „Búrfellsgígur og misgengin tilheyra eldstöðvakerfi Trölladyngju á Reykjanes[skaga]i. Gossögunni má skipta í fjóra þætti eða lotur og í hverri hrinu runnu ólíkar hrauntungur frá gígnum.

I. Straumsvíkurlota. Í upphafi goss rann hraunið niður í sigdalinn og eftir honum til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum. Þar hefur það sveigt til vesturs og síðan til norðvesturs hjá Stórhöfða og runnið til sjávar í Straumsvík og þar í grennd. Nær allur sá hraunstraumur er nú hulinn yngri hraunum, en komið hefur í ljós að Búrfellshraun leynist þar undir. Við boranir hjá nýrri skolphreinsistöð við ströndina austur af Álverinu í Straumsvík sást að hraunið er þar að finna. Yfirborð þess er á 15,5 m dýpi í borholunni, eða 8 m undir sjávarmáli.

Lambagjá

Lambagjá.

II. Lambagjárlota. Næsti kafli í gossögunni hófst þegar hraunið hafði hlaðið vel undir sig og komst yfir misgengisþröskuld við Kaldá. Þá gat það farið að renna niður með Ásfjalli og hefur hugsanlega náð til sjávar utan við Hamarinn í Hafnarfirði.
Ystu tungur hraunsins þar eru nú huldar yngri hrauntungum sem runnu í þriðja kafla gossins. Á þessum tíma myndaðist Lambagjá, sem er hrauntröð við Kaldárbotna.

III. Urriðavatnslota. Þegar enn lengra leið á gosið fyllti hraunið sigdalinn neðan við Búrfell og komst yfir misgengisstalla við Smyrlabúð. Þá hætti það að flæða niður með Ásfjalli en rann þess í stað niður með Vífilsstaðahlíð, stíflaði uppi Urriðavatn og náði til sjávar bæði við Hafnarfjörð og í Arnarnesvogi.

Búrfell

Búrfellsgjá.

Þessa leið hefur hraunið runnið alllengi og þá hefur Búrfellsgjáin og hellarnir í tengslum við hana myndast og verið meginfarvegur hraunstraumsins frá gígnum.

IV. Goslok. Við goslok virðist hraunið hafa hætt að flæða um Búrfellsgjána og tekið að streyma um undirgöng til suðurs frá gígnum. Þar urðu til sérkennilegar hrauntjarnir sem tæmdust í goslok og mynduðu Kringlóttugjá.
Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu lengi gosið stóð. Ekkert bendir þó til mikils gosofsa. Það er því líklegt að gosið hafi staðið alllengi, jafnvel í eitt til tvö ár.“

Búrfellshraun

1. Hleinar – Voru friðlýstir 2009. Fjöldi fornra búsetuminja. 2. Gálgahraun – Í friðlýsingarferli vegna jarðmyndana og lífríkis. 3. Stekkjarhraun – Friðlýst til að vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi. Athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. 4. Búrfell, Búrfellsgjá og eystri hluti Selgjár – Verndað vegna jarðmyndana sem hafa vísinda, fræðslu og útivistargildi. Fornminjar má finna á svæðinu. 5. Garðahraun neðra – Í friðlýsingarferli til að stofna fólkvang og útivistarsvæði í þéttbýli þar sem jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningar minjar eru verndaðar. 6. Maríuhellar – Fyrrum fjárhellar og stærstu þekktu hellar innan höfuðborgarsvæðisins. 7. Garðahraun efra, Vífilsstaðahraun – Í friðlýsingarferli til að stofna fólkvang og útivistarsvæði í þéttbýli þar sem gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar eru verndaðar. 8. Kaldárhraun og Gjárnar – Verndaðar vegna helluhraunsmyndana og fagurra klettamyndana í vestari hrauntröðinni frá Búrfelli.

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa eftirfarandi um friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjárnar, þ.m.t. Lambagjá: „Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar.

Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.
Stærð hins friðlýsta svæðis er 208,9 ha.“

Í auglýsingu um „náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar“ – nr. 396/2009 3. apríl 2009, segir: „Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Kaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar.

Kaldársel

Borgarstandur – nátthagi.

Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 hektari.

Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna sem náttúruvættis er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.“

Kaldársel

Borgarstandur – fjárskjól.

Gjárnar eru stórbrotin hrauntjörn, afurð Búrfellshrauns að sunnanverðu um Lambagjá, rúmlega 5000 ára gamalt. Þrátt fyrir að sá hluti hraunsins hafi runnið um forn misgengissvæði með tilheyrandi dölum og lægðum náði það, þrátt fyrir allt, smám saman allt til strandar.
Frá þeim tíma sem hraunið rann fyrir meira en fimm þúsund árum hefur orðið framhald á misgenginu, er gerir heildarsvip þess nær óþekkjanlega miðað við það hvernig það leit út í lok gossins. Bara misgengið í gegnum Búrfellsgjá, sem sker hana í sundur og aðskilur frá Selgjá, útskýrir vel breytingarnar.

Í Gjánum eru minjar. Í fornleifaskráningu fyrir svæðið er meint aðhald norðan undir Nyrstastapa skráð sem stekkur, en við skoðun á vettvangi var augljóslega um náttúrmyndun að ræða. Þarna eru tvær vörður og virðist önnur vísa á þokkalegt hraunskjól, væntanlega fyrir smala.

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Í gjánum norðvestanverðum eru leifar sumarbústaðar og hlaðinn garður honum tengdum þvert yfir djúpan hraunbollar.
Skammt norðaustan við Gjárnar eru Kaldárselsfjárhellar með heykumli og suðaustan þeirra er leiðigarður vestan Borgarstands, skráður stekkur sem reyndar hefur verið notaður sem nátthagi, leifar fjárskjóls og fjárborg efra. Borgirnar voru reyndar tvær fyrrum, en við gerð vatnsleiðslunnar um Lambagjá var grjóið úr eystri borginni notað í hleðsluna.
Um norðanverðar Gjárnar lá hinn forni Kaldárstígur. Enn má sjá hann klappaðan í hraunhelluna á kafla og áfram yfir hraunsprungu suðvestan Borgarstand áleiðis að Kaldárseli.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 4. tbl. 1973, Guðmundur Kjartansson, Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð, bls. 159-183.
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 2009, Búrfellshraun og Maríuhellar, Árni Hjartarson, bls. 93-100.
-Fjarðarpósturinn, 40. tbl. 311.10.2013, Skilti um Búrfellshraun, bls. 4.

Kaldársel

Gjár – minjar.