Færslur

Sogin

Reykjanesfólkvangur hefur verið með kennitöluna 581280-0419 og póstfang að Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík í tæplega hálfa öld. Fulltrúar Reykjavíkur áttu á sínum tíma frumkvæði að stofnun fólkvangsins. Nú virðist ætla að verða breyting þar á.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Þann 19. apríl 2024 birtist frétt í Fjarðarfréttum undir fyrirsögninni; “Sveitarfélög á leið út úr samstarfi um Reykjanesfólkvang“.
Þar segir m.a. að “Stjórn Reykjanesfólkvangs fjallaði á síðasta fundi sínum um stöðuna sem er komin upp við úrsögn Reykjavíkurborgar úr fólkvanginum. Á fundinum kom fram að einnig Reykjanesbær teldi það ekki þjóna tilgangi né hag sveitarfélagsins að vera inni og muni því segja sig úr fólkvanginum. Bæjarráð Voga hefur lagt til við bæjarstjórn að Sveitarfélagið Vogar fari að fordæmi Reykjavíkurborgar og segi sig frá þátttöku í Reykjanesfólkvangi. Þá kom fram að Seltjarnarnes hefði ekki tekið formlega ákvörðun en líklega yrði úrsögn niðurstaðan.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – kort.

Fram kom að Reykjavík stefni á að ganga út 30. júní 2024 og greiða þá hálft gjald fyrir 2024 sem lokagreiðslu. Miðað við núverandi inneign í sjóði, og að Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík haldi áfram og að hin sveitarfélögin greiði að minnsta kosti hálft gjald þá kemur fram að mögulegt væri reka fólkvanginn út árið 2024 með sama hætti og fram að þessu. Einnig að svigrúm gæfist til að ákveða framtíðarfyrirkomulag.
Fyrir liggur að verkefni í Seltúni hafa vaxið mikið og tekið æ meiri tíma landvarðar og þarf að mati stjórnarinnar að taka það upp við Hafnarfjarðarbæ hvernig bregðast ætti við því. Einnig var nefnt að lista þyrfti upp verkefni landvarðar ef til þess kæmi að fela þyrfti nýjum aðila landvörsluna.”

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur.

Eins og margir íbúar Reykjanesskagans vita er “Reykjanesfólkvangur ekki á Reykjanesi.
Fólkvangurinn er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 8 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær. Fólkvangurinn er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Innan fólkvangsins eru þessir helstu staðir Krýsuvík, Seltún, Kleifarvatn, Grænavatn, Krýsuvíkurberg, Vesturháls (Núpshlíðarháls) og Austurháls (Sveifluháls), Búrfell og Búrfellsgjá, Stóra-Eldborg og Brennisteinsfjöll. Upp á hálsunum eru nokkur smá vötn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Arnarvatn og Spákonuvatn. Í Djúpavatni er silungsveiði eins og í Kleifarvatni. Möguleikar til gönguferða í fólkvanginum eru nánast ótakmarkaðar.

Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha., þ.e. er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar hér á landi.

Reykjanesfólkvangur var stofnaður sem fólkvangur með auglýsingu í Stj.tíð. B, nr. 520/1975 sbr. “Auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi“:
Að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Keflavíkur og Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að stofna fólkvang á Reykjanesskaga skv. 26. gr. laga nr. 47/1971.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.

Takmörk svæðisins eru sem hér segir:
Lína dregin frá punkti í Heiðmerkurgirðingu undir Vífilsstaðahlíð (X-hnit 689007.0 m.) í punkt á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkun inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús sem er glöggt og gamalt eyktarmark. Frá Steinshúsi liggur línan beint í norðurhorn Skógræktargirðingarinnar undir Undirhlíðum. Síðan eftir norðvesturhlið girðingarinnar að suðurhorni hennar. Þaðan beint í punkt á mörkum Hafnarfjarðar- og Grindavíkurbæjar undir Markargili með X-hnit 692297.0 m. Síðan eftir mörkum í Markhelluhól.

Markhella

Markhella.

Frá Markhelluhól stefna mörkin til suðurs eftir mörkum Vatnsleysustrandarhrepps eins og þau eru sýnd á korti gefnu út af U.S. Army Corps of Engineers og Landmælingum Íslands (mælikv. 1:50000), í punkt á þeim mörkum sem er suður af Höskuldarvöllum og austur af Oddafelli, X-hnit 701782.0 m og Y-hnit 388243.0 m. Þaðan beina línu undir Núpshlíðarháls í punkt vestan við Núpshlíð, X-hnit 707653.0m, Y-hnit 379312.0m. Frá þeim punkti beint í Dágon sem er klettur á Seltöngum við sjó fram vestan við Krýsuvíkurberg. Að austanverðu fylgja mörkin sýslumörkum úr Seljabót um Sýslustein og þangað norður sem markalína fólkvangsins í Bláfjöllum sker sýslumörk, þaðan norðvestur eftir mörkum þess fólkvangs í horn Heiðmerkurgirðingar við Kolhól og síðan réttsælis eftir Heiðmerkurgirðingunni að upphafspunkti lýsingar þessarar.

Hraunhóll

Hraunhóll – varða á mörkum Reykjanesfólksvangs.

Um fólkvanginn gilda eftirtaldar reglur:
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Á skógræktargirðingu skulu einungis vera stigar.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

2. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi, sbr. þó 29. gr. laga nr. 47/1971. Jafnframt verði ekki haggað þar eðlilegri nýtingu til búrekstrar, réttur til beitar er ekki skertur innan fólkvangsins og áskilinn er í Krýsuvík réttur til starfsemi í almannaþágu (svo sem heilsuhæli, skólar, gistihús o.þ.u.l.).
Skipulegur námurekstur, sem rekinn er innan fólkvangsins þegar auglýsing þessi verður birt í Stjórnartíðindum, má þó haldast, enda sé umgengni í samræmi við 18. gr. laga nr. 47/197.
Tekið er fram af hálfu sveitarfélaganna allra að með stofnun fólkvangsins telja þau ekki á neinn hátt raskað eignarrétti að landi því sem fólkvangurinn tekur til.
Vafi er talinn leika á hver séu mörk Grindavíkurkaupstaðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Þegar úr þessum vafa hefur verið skorið með samkomulagi eða dómi verða mörk fólkvangsins færð til í samræmi við það.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Samvinnunefnd sveitarfélaganna allra fer með stjórn fólkvangsins og er hún skipuð einum fullrúa frá hverjum aðila.
Ráðuneytið er samþykkt stofnun fólkvangsins og tekur stofnun hans gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. – Menntamálaráðuneytið, 1. desember 1975 – Vilhjálmur Hjálmarsson.

Árið 2011 var auglýst breyting á framangreindri auglýsingu:

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á eftir 1. mgr. auglýsingarinnar kemur ný málsgrein sem orðist svo: “Umhverfisráðherra hefur ennfremur að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Reykjanesbæjar og Grindavíkur ákveðið að Sveitarfélagið Vogar verði einnig aðili að stofnun og rekstri fólkvangs á Reykjanesi með þeim skuldbindingum sem í því felast, þ. á m. hafi fulltrúa í samvinnunefnd sveitarfélaganna um stjórn fólkvangsins”. – Umhverfisráðuneytinu, 6. desember 2011 – Svandís Svavarsdóttir.

Sog

Í Sogum.

Reykjanesfólkvangur er:
• Fólkvangur sem samkvæmt samkvæmt náttúruverndarlögum er friðlýst sem útivistarsvæði í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Fólkvangar eru stofnaðir að frumkvæði sveitarfélaga og sjá þau einnig um reksturinn. Tilgangurinn með fólkvöngum er að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.“
• Var stofnaður 1975 – Með undanþágu vegna jarðvarmanýtingar.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

• Fólkvangur í lögsögu Garðabæjar Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Stærsti hluti fólkvangsins er í umdæmi Grindavíkur.
• Samstarf sveitarfélaga, sem nú standa að rekstri hans, eru Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Í fundargerð stjórnar Reykjanesfólksvangs þann 3. feb. 2021 segir:
Fundurinn var fjarfundur kl. 16.00
Mættir: Líf Magneudóttir, formaður, Andri Steinn Hilmarsson, Þorvaldur Örn Árnason, Þórður Ingi Bjarnason, Jóna Sæmundsdóttir, Sigurgestur Guðlaugsson, Guðmundur Grétar Karlsson og
Steinunn Árnadóttir.
Einnig sátu fundinn Óskar Sævarsson, René Biazone og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

“Þetta gerðist:
1. Starfið í fólkvanginum 2020
Rætt um það helsta í starfsemi fólkvangsins á síðasta ári (ÓS). Mikið af Íslendingum á ferðinni. Mikið álag í vor sem var ekki gott fyrir svæðið. Rúturnar vantaði en mikil umferð bílaleigubíla í sumar. Nýtt salernishús sett upp í vor. Vinnuhópur kom í 2 vikur á vegum Umhverfisstofnunar. Unnið var við Eldborg í samvinnu við skipulagssvið Grindavíkur, loka slóða og afmarka bílastæði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Sinna þurfti kvikmyndaverkefni. Í jarðskjálftanum í okt. urðu skemmdir á Djúpavatnsleið. Einnig hrundi fylla úr Krýsuvíkurbjargi og komu sprungur. Sett var bráðabirgðalokun. Bláfjallavegi verið lokað en samt hægt að komast fram hjá. Þarf að klára frágang á bílastæði. Dreift var moltuefni í fólkvanginum sem var plastmengað á vegum Terra í samvinnu við Gróður fyrir fólk. Fara þarf betur yfir.
Skýrsla landvarðar verður lokið fyrir næsta fund.
Fundi slitið 17:20.”

Valahnúkar

Valahnúkar og Helgafell.

Í fundargerð stjórnarinnar 24. apríl 2023 segir:
Mættir: Kristinn Jón Ólafsson, Stella Stefánsdóttir, Ásrún Kristinsdóttir (fyrir Sigurveigu M. Önundardóttur), Sverrir B. Magnússon, Ingimar Ingimarsson.
Einnig sátu fundinn René Biasone UST, Óskar Sævarsson landvörður og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Sveifluháls

Sveifluháls.

“Þetta gerðist:
1. Yfirferð um landvörslu
• Óskar Sævarsson kom á fundinn og kynnti helstu verkefni landvarðar.
• Samningur hefur verið um landvörslu frá 15. apríl til 1. nóv. ár hvert.
• Mikil aukning varð á fjölda ferðamanna 2019 og er ekkert lát á því. Það sést skýrt í talningum Ferðamálastofu sem er með teljara í Seltúni.

Helgadalur

Helgadalur – Rauðshellir.

• Undanfarin ár hefur landvörður þurft að sinna mörgum verkefnum utan hefðbundins tímabils, t.d. kvikmyndaverkefni, viðvarandi ferðamannastraumur, eldgos o.fl., og því hefur verið greidd viðbótargreiðsla.

Seltún

Seltún.

• Landvörður er tilbúinn til að sinna verkefnum áfram á þessu ári.
• Stjórnin samþykkti að gera samning við landvörð á sömu nótum og verið hefur að teknu tilliti til verðlagshækkunar.

2. Aðkoma Umhverfisstofnunar (UST)
• René Biasone fór yfir lagalega umgjörð Reykjanesfólkvangs, aðkomu UST sem m.a. gerir ástandsskoðun á friðlýstum svæðum og tekur saman í skýrslu árlega. Þar kemur m.a. fram slæmt ástand á Djúpavatnsleið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð.

• Samkvæmt náttúruverndarlögum gerir UST stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði, en ekki hefur farið af stað vinna fyrir Reykjanesfólkvang. Stjórnin hefur áður skorað á UST að hefja slíka vinnu og var samþykkt að senda fyrirspurn til UST um
hvenær hægt verði að hefja vinnu við og ljúka stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn.

3. Áform Reykjavíkur
• Kjörnir fulltrúar Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um að skoða grundvöll þess að Reykjavík dragi sig út úr rekstri Reykjanesfólkvangs frá árinu 2024.

Vetrarblóm

Vetrarblóm við Kleifarvatn.

• Rætt var um hvort að fólkvangurinn eða hlutar hans ættu að falla í annan friðlýsingarflokk, jafnvel að verða þjóðgarður eða eitthvað annað fyrirkomulag. Rifjað var upp samtal við Reykjanes Geopark sem laut að því að skoða samstarf á sínum tíma.
• Ákveðið var að stjórnarmenn opnuðu samtal hver í sínu sveitarfélagi um ofangreint og kalla eftir kynningu á Reykjanes Geopark.

Fundi slitið 17:30. Stefnt á að næsti fundur yrði í Grindavík seinni hluta maí.”

Í “Lögum um náttúruvernd” segir m.a. um landverði: “Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.
Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.”

Selatangar

Gengið um Selatanga á afmælishátíð Grindavíkur 2009.

Um Samvinnunefnd um rekstur fólkvangs segir í sömu lögum: “Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, skulu stofna með sér samvinnunefnd sem starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila, sbr. 56. gr.”

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Líklega færi vel á því að þau sveitarfélög, sem eftir verða, þ.e. Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík er munu annast rekstur “Reykjanesskagafólkvangs” skipi nýja samvinnunefnd, skipaða einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi, nefndarmenn verði ólaunaðir en hafi bæði áhuga og sérþekkingu á fólkvanginum sem slíkum. Fjárveitingum og styrkjum verði varið til landvörslu, einstakra uppbyggjandi verkefna og kynningar á gildi svæðisins.

Sjá meira um Reykjanesfólkvang HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Spákonuvatn

Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor í líffræði við Kennaraháskóla Íslands og formaður stjórnar Reykjanesfólkvangs 2002-20, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 2006 undir yfirskriftinni “Reykjanesfólkvangur – Auðlind við bæjarmörkin”:

Hrefna Sigurjónsdóttir

Hrefna Sigurjónsdóttir.

“Reykjanesfólkvangur var auglýstur sem friðland þegar hann var stofnaður fyrir rúmum 30 árum. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að taka frá land þar sem landsmenn, og þá einkum höfuðborgarbúar, gætu notið útivistar á svæði nálægt byggð sem væri lítt snortið og þar sem margt áhugavert væri að sjá. Sveitarfélögin sem stóðu að stofnun fólkvangsins, sem er um 300 ferkílómetrar að stærð, eru Reykjavík, Hafnarfjörður, Grindavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Reykjanesbær. Grindavík og Hafnarfjörður eiga mestallt landið. Fulltrúar meirihlutans í hverju sveitarfélagi mynda stóm og hefur fulltrúi Reykjavíkur alltaf verið formaður. í auglýsingunni er kveðið á um að nýting jarðvarma sé undanþegin friðlýsingu og einnig að eignarréttur ráði þegar um framkvæmdir sé að ræða, en þó með því skilyrði að Náttúruverndarráð (nú Umhverfisstofnun) úrskurði að ekki sé um of mikið jarðrask að ræða.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – loftmynd.

Undirrituð tók við stjórn fólkvangsins seint á árinu 2002 sem fulltrúi R-listans. Þótt ég hafi farið töluvert um Reykjanesið fyrir þann tíma þekkti ég svæðið illa. Ég vissi ekki hver mörk fólkvangsins væru. Ég hafði komið nokkrum sinnum í Krýsuvík og skoðað hverina og kirkjuna og einu sinni keyrt um Vigdísarvelli. Einnig hafði ég komið á Selatanga. Nú, tæpum 4 árum seinna, þekki ég fólkvanginn mun betur og fullyrði að þarna er um að ræða fjársjóð sem við eigum að vernda fyrir komandi kynslóðir sem útivistarsvæði og miðstöð fræðslu.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Mig grunar að flestir höfuðborgarbúar séu í svipuðum sporum og ég var. Þeir þekkja ekki svæðið! Það eru væntanlega ýmsar ástæður fyrir þessari fákunnáttu en í mínum huga hefðu sveitarfélögin getað staðið sig betur í því að vekja athygli á svæðinu og byggja það upp sem útivistarsvæði.

Tíminn hefur verið nægur. Hvað veldur? í skýrslu um fólkvanginn, sem Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur vann fyrir stjórnina, er samankominn mikill fróðleikur. Höfundur bendir m.a. á að fulltrúar í stjórninni hafa svo til aldrei verið áhrifamenn í sveitarfélögunum og að fjárveitingar hafa alltaf verið skammarlega litlar.

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhugaðir borteigar.

Starfsemin hefur verið sú sama ár eftir ár og því miður hefur lítið miðað í að gera átak í málefnum fólkvangsins.

Núverandi stóm hefur hug á að hefja slíkt átak. Haldið var málþing í september 2005 um stöðu og framtíð svæðisins, opnuð var heimasíða og sótt hefur verið um hærri fjárframlög til sveitarfélaganna. Stefnt er að því að ráða landvörð næsta sumar. En hvað framtíðin ber í skauti sér er óljóst því eftir kosningar verður ný stjórn skipuð. Að mínu mati er þetta ekki gott stjórnarfyrirkomulag. Vonandi verður breyting þar á. Ein hugmynd er að stofna einskonar þjóðvang þar sem ríki og sveitarfélög ynnu saman og fagaðilar sætu í stóm. Eitt er víst – þegar á reynir eru völd þessarar stjórnar afar lítil.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Skilningur á gildi svæðisins sem friðlýsts lands virðist vera takmarkaður. Slæm umgengni er til marks um það. Vélhjóla- og jeppamenn sækja stíft inn í fólkvanginn og hafa valdið miklum skemmdum. Þessi ólöglega umferð um allar trissur er orðin gífurlegt vandamál og eykst jafnt og þétt samfara auknum innflutningi slíkra ökutækja. Stórn fólkvangsins hefur verið á einu máli um að akstur slíkra tækja fari ekki saman við það markmið að fólkvangurinn skuli vera griðland fyrir göngufólk og þá sem koma til að njóta kyrrðarinnar og náttúrunnar. Ofbeit hefur lengi verið vandamál og sú aðferð að loka féð innan beitarhólfa í fólkvanginum, sem landeigendur hafa gert í samvinnu við Landgræðsluna, hugnaðist sjórninni ekki. Engu að síður var það framkvæmt. Skort hefur á að gömul mannvirki séu fjarlægð en slíkt er á ábyrgð landeigenda. Skilti freista skyttna og síðastliðið sumar gáfu landeigendur heimsfrægum leikstjóra leyfi til að brenna gróður í einu fallegasta fjallinu. Og svo tekur steininn úr nú þegar fyrirætlanir Hitaveitu Suðurnesja um tilraunaboranir og nýtingu mjög víða um fólkvanginn eru ljósar.

Sogin

Sogadalur – borplan.

Reyndar fengu þeir leyfi árið 2000 til tilraunaborana við Trölladyngju, hafa borað þar eina holu og eru nýbyrjaðir á annarri við Sogin. Markmiðið er að stofna til allt að fjögurra 100 MW virkjana á miðju nesinu til að afla raforku fyrir álver. Enda þótt ákvæði um nýtingu jarðvarma hafi verið sett í friðlýsinguna getur engum heilvita manni að hafa dottið í hug að unnt væri að leggja allt svæðið undir í þeim tilgangi. Þegar ég skoða svona áform þá setur að mér hroll.

Hvernig stendur á því að okkur Íslendingum þykir ekki vænna um landið okkar?

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhuguð háspennulínulega u Sveifluháls.

Vilja menn sjá virkjanir, raflínur og verksmiðjur um allt? Eða eru ráðamenn að taka ákvarðanir sem almenningur er kannski ekki sammála? Sumar skoðanakannanir benda til að svo sé. Það er kominn tími til að fólk láti heyra í sér. Vonandi ber þjóðin gæfu til þess að snúa við blaðinu og átta sig á því að falleg og stórkostleg náttúra er auðlind sem okkur ber að vernda. Um leið þarf að tryggja að fólk hafi tækifæri til að njóta náttúrunnar og fræðast um undur hennar. Ljóst er að ýmis atvinnutækifæri felast í slíkri nýtingu.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 1.-2. Tölublað (2006), Reykjanesfólkvangur – Auðlind við bæjarmörkin, Hrefna Sigurjónsdóttir, bls. 58.

Sog

Í Sogum.

 

Búrfellsgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt: “Hvaðan kemur hraunið sem liggur yfir Hafnarfirði og að hluta til Garðabæ, og kom það allt úr sama gosi?”
Svarið var:

Búrfell

Búrfell.

“Fyrir um 8000 árum varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell fyrir sunnan Hafnarfjörð og þaðan runnu í því gosi hraunin sem sýnd eru á meðfylgjandi korti. Í heild sinni nefnast þau Búrfellshraun, en eins og sést á kortinu bera ýmsir hlutar þess sérstök nöfn, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort.

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur rannsakaði Búrfellshraun (1954) og lét aldursgreina það með geislakoli (1973), en síðan hafa ýmsir fjallað um það, nú síðast Árni Hjartarson 2009, og úr grein hans er kortið. Þar er Búrfell í suðausturhorninu, og frá því sýndir fjórir hraunstraumar sem Árni telur hafa runnið í gosinu í eftirfarandi aldursröð: •Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – hann er nú grafinn undir yngri hraunum (Kapelluhraun) utan smáskækill sem stendur upp úr og nefnist Selhraun. Áætlaðar útlínur þessa hrauntaums eru sýndar með tökkuðum línum á kortinu.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

•Næst rann taumurinn sem merktur er Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði.
•Þá þriðji taumur til sjávar milli Álftaness og Arnarness (Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun).
•Og loks hinn fjórði, smáskækill til suðurs frá Búrfelli.
Á kortinu eru taumarnir fjórir sýndir með misdökkum bleikum lit, Selhraun hið elsta dekkst en yngsti skækillinn ljósastur.

Búrfell

Búrfell – gígurinn.

Samkvæmt aldursgreiningunni rann Búrfellshraun snemma á nútíma, en háan aldur styður það einnig hve haggað hraunið er, skorið misgengjum.”

Heimildir og kort:
-Árni Hjartarson (2009). Búrfellshraun og Maríuhellar. Náttúrufræðingurinn 77 (3-4), bls. 93-100.
-Guðmundur Kjartansson (1954). Hraunin kring um Hafnarfjörð. Þjóðviljinn, jólablað, bls. 10-12.
-Guðmundur Kjartansson (1973). Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42, bls. 159-183.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Helgafell

Eftirfarandi grein birtist í Mbl 4. febrúar árið 2001.
Kaldárbotnar“Helgafell í landi Hafnarfjarðar lætur frekar lítið yfir sér, en upp á það eru nokkrar skemmtilegar gönguleiðir. Útsýnið af því kom einnig Regínu Hreinsdóttur á óvart.
VIÐ hefjum gönguna við vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum. Nokkrar skemmtilegar uppgönguleiðir eru á Helgafellið bæði að sunnan- og norðanverðu. Auðveldast er þó að ganga upp að norðaustanverðu, þar sem brattinn er minnstur og það gerum við í þetta skipti. Fyrir þá sem ekki hyggja á fjallgöngu er einnig vel þess virði að ganga kringum fellið og heilsa upp á riddarann, móbergsstrýtuna sunnan á háfjallinu.
Kynjamyndir í Riddarinnmóbergi Fellið er skriðurunnið þar sem uppgangan hefst en ofar hefur lausagrjótið sópast burt og í ljós koma ýmsar kynjamyndir sem vindurinn hefur verið að dunda sér við að sverfa í móbergið, síðan jökla leysti. Þarna er hægt að gleyma sér lengi dags við að dást að listasmíð náttúrunnar, allskonar öldumynstri, skálum, örþunnum eggjum og andlitsdráttum trölla og álfa ef vel er að gáð. Landslagið er sumstaðar svo framandi að allt í einu læðist kannski að manni að einhvern veginn hafi maður í ógáti lent á tunglinu.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Hraunflæmið sem blasir við allt í kring vekur einnig ósjálfrátt til umhugsunar um hversu kraftmikil öfl eru að verki í náttúrunni. Síðasti hluti leiðarinnar er brattastur og nokkuð skriðurunninn og betra er að hafa varann á sér svo manni skriki ekki fótur í lausagrjótinu.

Músarhellir og farfuglar
TröllAf toppi fellsins sér vel til allra átta. Bláfjöll, Langahlíð, Sveifluhálsinn, Keilir og Búrfellsgjá eru meðal kunnugra kennileita sem standa upp úr hrauninu auk þess sem vel sést yfir höfuðborgarsvæðið.
Þegar við höfum horft nægju okkar að þessu sinni, og skrifað í gestabókina, höldum við aftur sömu leið til baka. Þegar niður er komið er upplagt að koma við í Valabóli norðaustan í Valahnúkum, en þar er skjólsæl vin í eyðimörkinni sem Bandalag íslenskra farfugla hóf að rækta upp 1942.

Valaból

Valaból – Músarhellir.

Innan uppgræðslusvæðisins er hellirinn Músarhellir sem notaður var af gangnamönnum allt til aldamótanna 1900 og þar gerðu farfuglar sér hreiður, ef svo mætti að orði komast og notuðu sem gististað á ferðum
sínum. Þetta er einnig vinsæll áningarstaður þeirra sem ganga Selvogsgötuna.

Kyrrðin áhrifamikil
VeðrunEftir skruðninginn í smásteinum í göngunni á Helgafellið verður kyrrðin sem ríkir í Valabóli enn áhrifameiri. Þar er eins og löngu liðnir atburðir liggi í loftinu og blærinn reyni að hvísla að manni gleymdum sögum. Ef við ákveðum ekki hér og nú að gerast útilegumenn og setjast að í þessum sælureit, skulum við halda förinni áfram meðfram Valahnúkunum. Þá getum við annars vegar valið að fara sömu megin við vatnsbólið og við komum eða tekið stefnuna á Helgadal þar sem við gætum rekist á hraunhella sem gaman er að skoða. Það er svo um að gera að nota heimferðina til að spá í hvaða uppgönguleið ætti að velja á Helgafellið í næsta skipti.”

Heimildir:
-Gönguleiðir á Íslandi, Reykjanesskagi. Einar Þ. Guðjohnsen 1996.
-Árbók 1984, Ferðafélag Íslands.
-Mbl 4. febrúar 2001, blaðsíða 3.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.

Kaldársel

Hafnarfjörður á einkar fallega og fjölbreytilega landskosti.

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg.

Í bænum sjálfum eru bæði sögulegir staðir og minjar, sem varðveittar hafa verið, bæði meðvitað og ómeðvitað. Má í því sambandi nefna letursteinana á Hvaleyrarhöfða, garðana ofan við Langeyri, fiskireitinn uppi á Hrauni, stekkinn í Stekkjarhrauni, fjárskjólið utan í Gráhellu í Gráhelluhrauni og fjárborgina á Höfða við Kaldársel. Hins vegar er fjölmargt, sem ganga þarf í, segja frá á aðgengilegum stað, kortleggja og merkja síðan á vettvangi. Að hluta til hefur það verið gert í Hraununum við Straum, en óvíða annars staðar. Í hrauninu ofan við Hraunbæina eru nokkur sel, s.s. Fornasel, Gjásel, Straumssel, Óttarstaðasel, Lónakotssel og Brennisel með tilheyrandi mannvirkjum, hlöðnum fjárhellum, stekkjum, kvíum, gerðum og nátthögum. Stígar liggja að öllum þessarra mannvirkja og þau eru í mjög stuttu og aðgengilegu göngufæri frá byggð. Þannig er ekki nema u.þ.b. 20 mínútna gangur í Straumssel. Með Óttarstaðaselsstíg eru t.d. nokkur mjög falleg fjárskjól, en öll ómerkt. Við Hvaleyrarvatn er Hvaleyrarsel og í Kaldárseli var Kaldársel. Enn má sjá móta fyrir tóttum selsins.

Stórhöfði

Stórhöfði – fjárskjól.

Mannvirki eru allt í kringum Hvaleyrarvatn og svo er einnig um Kaldársel, s.s. fjárborgin, fjárhellarnir, nátthaginn og gerðin. Gamla vatnsleiðslan er dæmi um mannvirki, sem áhugavert er að skoða.
Þá eru hellarnir nálægt Helgadal ekki síðri, s.s. 90 metra hellirinn, 100 metra hellirinn, Fosshellir og Rauðshellir. Mikið er gengið um svæðið nálægt Valahnjúkum, s.s. í Valaból, og um Helgafell. Á því svæði eru einnig mjög áhugaverðar jarðmyndanir, ekki síst sunnan Helgafells.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Gvendarsel er í Gvendarselshæð, en gígarnir utan í hæðinni eru líklega með áhuguverðustu skoðunarstöðum áhugafólks um jarðfræði. Fallegur fjárhellir er í Óbrennishólum, en hann mun væntanlega fljótlega hverfa undir malarnámið verði ekkert að gert. Mikilvægt er að merkja gömlu Selvogsgötuna frá tilteknum upphafsstað, s.s. í Lækjarbotnum við gömlu stífluna. Svæðið norðan og sunnan Sléttuhlíðar býður upp á mikla möguleika, en þar eru m.a. Kershellir, Hvatshellir, Ketshellir og fjárhellar Setbergssels og Hamarkotssels. Við Krýsuvíkurveginn er stutt í Hrauntunguna, en þar er fallega hlaðið fjárskjól í jarðfalli, og Þorbjarnarstaðafjárborgina. Sveifluhálsinn er útivistarmöguleiki út af fyrir sig, sem ástæða er að mæla með. Margir þekkja möguleikana í kringum Kleifarvatn og Hveradal.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni.

Þar var sel frá Krýsuvík. Þá er orðið aðkallandi að merkja staði í Krýsuvík, s.s gömlu bæina í kringum Bæjarfellið, t.d. Snorrakot, Norðurkot, Læk, Litla-Nýjabæ, Stóra-Nýjabæ, Suðurkot, Arnarfell, og niður við Selöldu. Arngrímshellir er í Krýsuvíkurhrauni, en frá honum er sagt í þjóðsögunni um Grákollu. Þar skammt frá er Bálkahellir og Krýsuvíkurhellir neðar. Dysjar Herdísar og Krýsu eru undir Stóru-Eldborg og dys Ögmundar er í Ögmundarhrauni. Minjarnar í Húshólma og Óbrennishólma eru líklega með þeim merkilegustu hérlendis. Í Húshóma má sjá leifar eftir fornan skála, gömlu Krýsuvíkurkirkju, gamals bæjar, forns garðs, sjóbúð, stekk og gerði, sem hraunið hefur runnið að. Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, líklega með þeim elstu á landinu, auk garðlags, sem hraunið hefur runnið að, og leifar af fornum garði.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Undir Selöldu eru tóttir Krýsuvíkursels og bæjanna Eyri og Fitja. Í Strákum er hlaðið fjárhús. Á Krýsuvíkurheiði er Jónsbúð og fallega hlaðið sæluhús sunnan í henni. Fjárborg er vestan í Borgarholti og Hafliðastekkur utan í Bæjarfelli. Gestsstaðir eru líklega næst elstur bæja í Krýsuvík, utan Kaldrana. Merkja þarf tóttir Gestsstaða, sem eru undir hæðunum sunnan við Krýsuvíkurskóla. Aukþess er forn tótt utan í Sveifluhálsi nokkru sunnar.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Flestir aka framhjá tóttum Kaldrana, án þess að veita þeim gaum, en þær liggja undir hæðinni austan við gatnamótin að Hverahlíð. Fjölmargir stígar og gamlar þjóðleiðir liggja um þetta svæði, s.s. Drumbsdalavegur yfir að Vigdísarvöllum, Sveifluvegur, Hettuvegur og Ketilsstígur, Vatnshlíðarstígur um Hvammahraun og Austurvegur um Deildarháls að Herdísarvík. Þá eru leiðir um Almenninga ekki síðri, auk Markhelluhóls og Búðarvatnsstæðisins. Í Sauðarbrekkum eru mjög fallegir gjallgígar og er einn þeirra holur að innan. Hann hefur að öllum líkindum verið notaður sem íverustaður um tíma. Ofar, á Hrútardyngjusvæðinu, eru á annan tug langra manngengna hraunhella, sem eru sértaklega fallegir, en vandmeðfarnir.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Að sumu þarf að gera gangskör að, s.s. að finna og merkja Góðholu og Kaldadý, vegna upphafs vatnsveituframkvæmda í bænum. Hingað til hefur skógrækt þótt merkisfyrirbæri og óþarfi er að gera lítið úr henni. En hins vegar er mikilvægt að gæta þess að skógræktin skemmi ekki minjar og gönguleiðir, eins og farið er að bera á. Þá þarf að huga að merkilegum svæðum, en sum þeirra hafa verið skemmd að undanförnu. Nýjasta dæmið er Alliansreiturinn við Hrafnistu. Honum var mokað á brott á hluta úr degi fyrir skömmu. Vert er að minnast Hraunsréttarinnar, sem var fjarlægð á svo til einum degi. Svo var einnig með eystri fjárborgina í Kaldárseli. Hrauntungusel er í jaðri iðnaðarsvæðisins við Molduhraun. Búið er að moka hluta að því í burtu, en eftir stendur hluti tóttar utan í Hádegishól.

Alfararleiðin á milli Innesja og Útnesja var með þeim fjölfarnari á öldum áður. Hún er sæmilega vörðuð í dag frá Þorbjarnarstöðum og vestur um Hvassahraun (Rjúpnadalshraun) og ennþá vel greinileg. Hins vegar er með hana eins og svo margt annað. Tiltölulega fáir vita um tilvist hennar. Svo er einnig með veginn undir járnbrautina, sem stóð til að leggja yfir Garðahraun. Gamla þjóðleiðin um Engidal á bak við Fjarðarkaup er einnig að glatast, en hún er enn vel greinileg.
Hafnarfjörður hefur alla burði til að gera sögu sína, minjar og möguleika opinbera bæjarbúum og öðru áhugasömu fólki.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

https://ferlir.is/hafnarfjordur-2/https://ferlir.is/hafnarfjordur-verslun-og-utgerd/

Ás

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður skerst inn úr sunnaverðum Faxaflóa, og eru takmörk fjarðarins Hvaleyrarhöfði að sunnan, en Bali eða Dysjar að norðan. Hafnarfjarðar er fyrst getið í Hauksbókartexta Landnámu, en þar segir svo um brottför Hrafna-Flóka og förunauta hans frá Íslandi:

Setberg

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

“Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og á Herjólf, – hann kom í Herjólfshöfn. Flóki kom í Hafnarfjörð, – þeir fundu hval á eyri einniút frá firðinum og kölluðu þar Hvaleyri – þar fundust þeir Herjólfur.” Menn hafa leitt að því getum, að Herjólfshöfn, sem segir frá í Landnámu, sé Hvaleyrartjörn, en hún var höfnin í Hafnarfirði, sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.
Í landnámu segir, að Hafnarfjörður hafi verið í landnámi Ásbjarnar Özurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarssonar. Ásbjörn nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, allt Álftanes og bjó á Skúlastöðum.

Garðar

Garðar.

Enginn veit lengur, hvar sú jörð var, en giskað hefur verið á, að hún hafi verið, þar sem nú eru Garðar á Álftanesi. Að öðru leyti fer fáum sögum af Hafnarfirði, frá því að land byggðist og allt fram til upphafs 15. aldar. Hans er hvergi geti í fornöld í sambandi við verslun og siglingar, og er sennilegt, að strjálbýlt hafi verið við fjörðinn á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, enda voru fiskveiðar lítið stundaðar hér á landi á því tímabili miðað við það, sem síðar varð. Það er athyglisvert, að Hafnarfjarðar er þá fyrst getið að marki í heimildum, þegar fiskafurðir verða aðalútflutningsvara landsmanna í stað landbúnaðarafurða. Þessi umskipti urðu um 1400. Þá varð skreið eftirsóttasta útflutningsvara Íslendinga í stað vaðmáls.

Herjólfshöfn

Herjólfshöfn í Hafnarfirði.

Sökum legu sinna og ágætra hafnarskilyrða frá náttúrunnar hendi varð Hafnarfjörður ein helsta verslunar- og fiskveiðihöfn landsins laust eftir 1400. Hafnarfjarðar var fyrst getið í sambandi við verslun 1391. Þá kom þangað kaupskip frá Noregi, og þremur árum síðar lagði norskt skip úr höfn í Hafnarfirði. Þeirra eru einu dæmin, sem kunn eru, um siglingar til Hafnarfjarðar á 14. öld. Ljóst er, að Hafnarfjörður var ekki jafnþekkt verslunarhöfn á þessum tíma og síðar varð, enda voru siglingar hingað til lands mjög stopular á 14. öld, og sum árin féll sigling alveg niður.
Í upphafi 15. aldar hófu Englendingar fiskveiðar og verslun hér við land, og þá hófst nýtt tímabil í sögu Hafnarfjarðar. Fyrsta enska kaupskipið, sem sögur fara af, kom til Hafnarfjarðar árið 1413.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Þegar Englendingar hófu siglingar hingað til lands um 1412, varð gjörbreyting til batnaðar á verslunarháttum, og fyrir vikið versluðu Íslendingar mikið við þá, en Danakonugur reyndi hins vegar að halda versluninni við Ísland í sama horfi og áður, þ.e. að einskorða hana við Björgvin í Noregi.
Þegar fram sótti, voru Englendingar ekki sérlega vel þokkaðir meðal Íslendinga, því þeir þóttu yfirgangssamir og áttu það til að ræna skreið landsmanna. Sló í brýnu með Englendingum og Íslendingum á ofanverðir 15. öld, e.t.v. oftar en einu sinni.

Flensborgarhöfn

Flensborgarhöfn – minningaskjöldur við minnismerki um Hansaverslunina.

Í kringum 1468 hófu Hansamenn siglingar til Íslands, Í fyrst komu skip þeirra frá Björgvin, en fljótlega hófust siglingar frá ýmsum þýskum Hansaborgum, svo sem Lýbiku, Hamborg og Brimum. Hörð samkeppni var milli Englendinga og Þjóðverja um bestu verslunarstaðina og þá einkum Hafnarfjörð. Kunn eru átökin þar 1475 og atlagan að Básendum 1490 (sjá Grindavíkurstríðið) eru urðu upphafið að endalokum á verslun Englendinga hér á landi.

Þýskabúð

Þýskabúð við Straumsvík.

Þjóðverjar virðast hafa hrakið Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum um og eftir 1480 og þegar kom fram á fyrri hluta 16. aldar höfðu þeir náð undirtökunum á verslunni hér á landi.
Hafnarfjörður var aðalhöfn Hamborgaramanna hér á landi á ofanverði 15. öld og alla 16. öld, enda engrar íslenskrar hafnar getið jafnoft í verslunarskjölum Hambogarkaupmanna og Hafnarfjarðar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki við Flensborgarhöfn um veru Þjóðverja í Hafnarfirði fyrrum.

Á fyrri hluta 16. aldar færðust þýsku kaupmennirnir í aukana. Þá fóru þeir að hafa vetursetu hér á landi og ráku umfangsmikla útgerð á Suðurnesjum í trássi við bann konungs. Nú hóf konungsvaldið tilraunir til að hnekkja veldi Þjóðverja. Fyrsta skrefið í þá átt var að hirðstjóri konungs, Otti Stígsson, gerði árið 1543 upptæka alla báta þeirra á Suðurnesjum og aðrar eignir. Vorið 1550 handtóku þeir umboðsmann hirðstjórans, Kristján skrifara, en létu hann lausan í Hafnarfirði um sumarið, þegar hirðstjóri kom til landsins.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Reykjanesskaga 1831, önnur útgáfa.

Um þessar mundir fylgdu Danakonungur þeirri stefnu að koma versluninni til Íslands í hendur danskra kaupmanna. Friðrik 2. Tók upp þá nýbreytni að selja einstakar hafnir á leigu. Við þessa ráðstöfun jókst vald konngs yfir versluninni og þetta var undanfari þess, að Danir tækju hana alfarið í sínar hendur. Kristján 4. Danakonungur gaf út tilskipun um einokunarverslun Dana hér á landi árið 1602. Þá varð úr sögunni hið beina verslunarsamband milli Íslands og Þýskalands og um leið Hafnarfjarðar og Hamborgar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – verslun Einar Þorgilssonar.

Verslunarstaðurinn í Hafnarfirði hét Fornubúðir og var á Háagranda, ysta tanga Hvaleyrargranda, gegnt Óseyri. Á fyrri hluta einokunartímabilsins, 1602 – 1787, var Hafnarfjörður helsti verslunarstaður á landinu.

HafnarfjörðurÁ árunum 1684-1732 var í gildi svokölluð umdæmaverslun. Landinu var skipt í mörg verslunarumdæmi, og var landsmönnum bannað að versla utan þess umdæmis, sem þeir voru búsettir í, að viðlögðum algerum eignamissi og þrælkun í járnum á Brimarhólmi. Kaupsvæði Hafnarfjarðar náði yfir Kálfatjarnar-, Garða- og Bessastaðasóknir, og voru íbúar þar árið 1702 samtals 980.
Árið 1774 tók konungur við versluninni, og breytist þá ýmislegt Íslendingum í hag.

-Úr Saga Hafnarfjarðar – Ásgeir Guðmundsson – 1983.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður nútímans.

Hvaleyri

Gengið var um Hvaleyri við Hafnarfjörð, út á Hvaleyrarhöfða og staðnæmst við Flókaklöpp. Þá var gengið að þeim stöðum á höfðanum þar sem gömlu kotin höfðu staðið.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Sveinskot var á túninu ofan við Herjólfshöfn, Halldórskot skammt norðvestar og Vesturkot vestar. Golfklúbburinn Keilir fékk síðasta íbúðarhúsið að Vesturkoti undir golfskálann fyrst eftir að byrjað var á golfvellinum á Hvaleyri 1967. Nokkrir staðir komu til greina sem golfvöllur, en fljótlega fengu menn augastað á Hvaleyrinni. Voru þá enn ábúendur á sumum smájörðunum á Hvaleyri og stóð í talsverðu stímabraki uns allt það land fékkst, sem nú er undir golfvellinum. Efst í túninu stóð bærinn Hvaleyri. Hjartarkot var sunnan undir Hvaleyrarholtinu.

Hvaleyri

Hvaleyri – kort.

Fleiri kot voru við höfðann, en erfitt er að greina staðsetningu þeirra vegna röskunar á svæðinu. Þórðarvík heitir víkin milli Hvaleyrarhöfða og Straumsvíkur. Hraunið hefur jafnan verið nefnt Hvaleyrarhraun vestan og sunnan við holtið, en einnig Hellnahraun yngra og eldra.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

Víkingurinn Hrafna-Flóki kom hér að landi um 860 ásamt Þórólfi og Faxa hinum suðureyska sem Faxaós (Faxaflói) er kenndur við. Þegar Flóki ætlaði að halda aftur til Noregs eftir ársdvöl í Vatnsfirði lentu skip hans í óveðri og náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes.

Flókaklöpp

Flókaklöpp á Hvaleyri.

Herjólfur varð viðskila við félaga sína og tók land í Herjólfshöfn. Óvíst er hvar Herjólfshöfn hefur verið. Flóki og menn hans voru um veturinn í Borgarfirði en freistuðu heimfarar næsta sumar. Komu þeir í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum og kölluðu hana Hvaleyri. Þar fundust þeir Herjólfur. Áður en Flóki Vilgerðarson fór að leita Garðarhólms hlóð hann vörðu við Smjörsund í Noregi og blótaði þrjá hrafna sem áttu að vísa honum veginn yfir hafið. Árið 1997 var samskonar varða hlaðin við Hvaleyri úr grjóti frá Smjörsundi, til að minnast þessa atburðar.

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

Hvaleyri var ein af helstu bújörðum í Hafnarfirði frá fornu fari. Fyrir siðaskiptin átti Viðeyjarklaustur Hvaleyri, sem varð síðan kóngsjörð. Þar stóð hálfkirkja uppi til 1765 sem var í eigu Viðaeyjarklausturs en þjónað frá Görðum. Útræði var frá Hvaleyri fyrr á tímum og margar hjáleigur fylgdu.
Í Íslendingabók segir að Flóki Vilgerðarson hafi verið “víkingr mikill; hann bjósk af Rogalandi at leita Snælands. Þeir lágu í Smjörsundi. Hann fekk at blóti miklu ok blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið visa…. ok sleit frá þeim bátinn, ok þar á Herjólf. Hann tók þar land, sem nú heitir Herjólfshöfn.”

Hafnarfjörður byggir grundvöll sinn á höfninni sem hefur veitt skipum öruggt skjól um aldir. Þegar norður evrópskir sæfarar leituðu á hin gjöfulu fiskimið við Íslandsstrendur í lok miðalda þótti fjörðurinn bera af vegna náttúrlegra hafnarskilyrða. Snemma á 15. öld settu enskir farmenn upp kaupbúðir við fjörðinn og lögðu grunninn að verslunarstaðnum Hafnarfirði.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Alla tíð síðan hefur verslun og sjávarútvegur stýrt vexti og viðgangi Hafnarfjarðar. Þýskir kaupmenn hröktu þá ensku í burtu seint á 15. öld. Hansakaupmenn höfðu mikil umsvif á 16. öld, allt þar til einokunarverslunin danska tók við 1602. Síðan hefur höfnin tekið sífeldum breytingum og er unnið að frekari stækkun hennar út með Hvaleyrinni.
Sumir segja, þ.á.m. Jónas Hallgrímsson, að áhöfn Hrafna Flóka hafi klappað fangamörk sín á Flókaklöppina, en aðrir eru efins. Hvað sem því líður hefur mikið verið klappað á hana í gegnum tíðina og eru áletranirnar greinilega misgamlar.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur ÓSÁ.

Frábært veður. Gangan um Hvaleyrina tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.
-http://www.hafnarfjordur.org/main/view.jsp?branch=2151204

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum.

Jóhannes J. Reykdal

Fyrsta rafstöðin til rafmagnsframleiðslu fyrir bæjarfélag var reist í Hafnarfirði. Í fyrstu var einungis um ljósarafmagn að ræða.

Jóhannes

Jóhannes Reykdal.

Sá, sem stöðina reisti, var Jóhannes Jóhannesson Reykdal og var hún reist við Hörðuvelli í Hafnarfirði. Jóhannes reisti rafstöðina einn og óstuddur og sá um rekstur hennar til ársins 1909 þegar Hafnafjarðarbær keypti rafstöðina og bætti við dísilrafstöð vegna ört vaxandi bæjarfélags. Jóhannes keypti þessa stöð aftur af Hafnafjarðarbæ og starfrækti hana við verksmiðju sína í Setbergslandi allt til ársins 1952.

Jóhannes á að hafa rekið þessi rafstöð sína á frumlegan hátt og þá sérstaklega hvað varðar innheimtu á rafmagnsreikningum. Sú saga er sögð að hann hafi alfarið séð um sölu á ljósaperum til rafmagnsnotenda og selt þær dýrt og þannig náð inn gjöldum vegna rafmagnsnotkunar bæjarbúa. Þar sem margir bæjarbúa voru fátækir og höfðu sumir ekki efni á nema einni ljósaperu, var sú pera nýtt um allt húsið. Það er að segja hún var færð milli herbergja og þar skrúfuð í ljósastæði þar sem þörf var fyrir ljós.

Jóhannes Reykdal.

Jóhannes J. Reykdal á “Reykdalsstíflunni”.

Jóhannes Reykdal fæddist að Vallakoti í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu 18. janúar árið 1874. Tvítugur að aldri hóf hann trésmíðanám hjá Snorra Jónssyni trésmíðameistara á Akureyri og fjórum árum síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar til frekara trésmíðanáms. Eftir þriggja ára dvöl ytra flutti hann heim til Íslands og ætlaði til Akureyrar en hann hitti unga konu, Þórunni Böðvarsdóttur og ástin varð til þess að hann festi rætur sunnan heiða.
Fyrstu árin sinnti Jóhannes húsbyggingum en fannst það ekki nóg. Hann vildi reisa verksmiðju við Lækinn í Hafnarfirði og er það fyrsta stórvirkið sem Jóhannes vann. Trésmiðjan var búin átta fullkomnum trésmíðavélum og staðsetningin var engin tilviljun, því Jóhannes virkjaði lækinn og fékk þar orku til að knýja vélarnar áfram. Elísabet Reykdal, dóttir Jóhannesar, segir þetta fyrsta virkjunarafrek Jóhannesar megi rekja til heimsóknar hans til Margrétar systur hans sem bjó í Noregi. Þar sá hann hvernig Norðmenn nýttu sér vatnsaflið.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes J. Reykdal; upplýsingaskilti við fótstall hans á “Reykdalsstíflunni”.

Alls unnu tíu til tólf menn að jafnaði í þessari fyrstu verksmiðju Jóhannesar.
Jóhannes lét ekki staðar numið þótt hann væri kominn með orku til að knýja vélarnar, hann vildi nýta Lækinn betur og framleiða rafmagn. Árið 1904 fór hann til Noregs og festi kaup á rafal og setti sig í samband við fyrsta íslenska raffræðinginn, Halldór Guðmundsson, sem nýkominn var úr námi í Þýskalandi. Með hjálp Halldórs setti Jóhannes upp rafalinn og einn starfsmanna hans, trésmiðurinn Árni Sigurðsson, lagði raflagnir. Þann 12. desember þetta sama ár urðu þáttaskil í sögu þjóðarinnar. Þá tók virkjunin til starfa og ljós voru kveikt í 15 húsum í Hafnarfirði, auk trésmiðjunnar. Þar á meðal voru tvö stærstu hús bæjarins, barnaskólinn og Góðtemplarahúsið. Einnig voru tendruð fjögur götuljós.

Hafnarfjörður

Vatnsstokkur J.R. frá Reykdalsstíflunni.

Rafvæðing Íslands var hafin. Eins og gefur að skilja varð strax mikil eftirspurn eftir rafmagninu hans Jóhannesar og trésmiðjuvirkjunin annaði engan vegin eftirspurn, jafnvel þótt Jóhannes hafi bætt nýju vatnshjóli við virkjunina.

Reykdal

Reykdalsstíflan – minnismerki um Jóhannes Reykdal.

Jóhannes fór því aftur af stað, fékk vatnsréttindi ofar í læknum og reisti á eigin spýtur nýja rafstöð, á svo kölluðum Hörðuvöllum, sem fyrst um sinn fullnægði allri eftirspurn eftir rafmagni í Hafnarfirði.

Reykdalsvikjun

Reykdalsvirkjun.

Þetta er fyrsta sjálfstæða rafstöðin á Íslandi og hún tók til starfa haustið 1906 og framleiddi 37 kW. Á þessum tíma var ekki hægt að mæla rafmagnsnotkun heimilanna þannig að Jóhannes tók til þess ráðs að selja perur. Hann einn seldi perurnar og þegar pera sprakk þurfti fólk að skila ónýtu perunni til þess að kaupa nýja. Áður en Hörðuvallavirkjunin (Reykdalsvirkjun) kom mátti einungis hafa tvær perur í hverju húsi, þótt perustæðin væru fleiri.
Jóhannes ReykdalJóhannes Reykdal óttaðist ekki breytingar. Árið 1909 seldi hann Hafnarfjarðarbæ virkjanirnar og keypti jörðina Setberg. Hann seldi líka trésmiðjuna en starfsmennirnir tólf ráku hana áfram undir nafninu Trésmiðjan Dvergur. Fyrstu tvö árin hafði Jóhannes ráðsmann sem sá um búreksturinn en árið 1911 tók hann við búskapnum en sá fljótt að hann gat ekki án rafmagns verið. Árið 1917 tók hann sig til og reisti enn eina rafstöðina við Lækinn. Þá þurfti hann að grafa um það bil eins kílómetra aðveituskurð og er það fyrsti aðveituskurðurinn sem grafinn var fyrir vatnsaflsvirkjun á landinu.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes við fyrsta rafalinn á trésmíðaverkstæðinu við Lækinn.

Sem dæmi um framsýni Jóhannesar segir Elísabet að hann hafi fjárfest í fyrstu mjaltavélinni sem kom til landsins og fyrstu dráttarvélinni sem var Countor G, tíu hestafla framdrifin vél sem hægt var að tengja ýmis heyvinnutæki við. Þótt Jóhannes hafi rekið myndarbú á Setbergi, með 20 kýr í fjósi og 200 ær, nægði það framkvæmdamanninum ekki. Hann reisti því timburverslun og trésmiðju við bæinn sem að sjálfsögðu var drifin með afli úr læknum.
Elísabet Reykdal segir að Jóhannes hafi víða séð tækifæri og hafi kunnað að nýta sér þau. Hún nefnir sem dæmi þegar þýska skonnortan Adelheid strandaði í hafnarmynninu í Hafnarfirði og sökk. Skonnortan var full af kolum. Jóhannes keypti skipið fyrir lítið og fékk mannskap með sér í að koma vírum undir það og lyfti því síðan upp með prömmum og lét aðfallsölduna mjaka því smám saman upp á land.

Jóhannes Reykdal

Stytta af Jóhannesi Reykdal við “Reykdalsstífluna”.

Björgunaraðgerðirnar gengu ótrúlega vel, en mesta vesenið var að koma vírunum undir skonnortuna. Jóhannesi leist ekki á hægaganginn hjá köfurunum og brá sér því sjálfur í kafarabúning og bjargaði málunum. Þetta þótti mikil dirfska og kafararnir sem biðu á þurru voru orðnir ansi smeikir, því Jóhannes var mun lengur í kafi en þeir voru vanir. Elísabet segir að Jóhannes hafi haft allar klær úti við að ná sér í timbur. “Hún er fræg sagan af því þegar hann var í timburleiðangri en erfitt var að finna skip til að sigla með timbrið heim. Þá fékk þá hugmynd að gera fleka úr timbrinu og láta dráttarbát draga farminn yfir hafið. Ekki varð úr því, þar sem enginn banki vildi tryggja farminn. Jóhannes gerði sér því lítið fyrir og keypti barkaskip, fyllti það af timbri og lét sigla því heim.”
Það er óvinnandi vegur að gera æfi Jóhannesar Reykdals skil í einni blaðagrein, slík voru afrek hans. En ekki verður hjá því komist að nefna íshúsið sem hann reisti. Húsið framleiddi ís fyrir togara Hafnfirðinga og skilaði um leið miklum auði til bæjarins. Aðrir togarar þurftu að fylla sig af ís eftir söluferðir til útlanda meðan hafnfirsku togararnir lestuðu kol og fluttu heim til Hafnarfjarðar. Því varð aldrei kolaskortur í Hafnarfirði, þökk sé stórhug og framfaraviðleitni Jóhannesar Reykdals.

Sjá meira HÉR.

Heimildir m.a.
-http://www.rafmagn100.is/johannes.htm

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður í dag – athafnasvæði Jóhannesar fyrrum.

Jóhannes Reykdal

Eftirfarandi umfjöllun um brautryðjandann Jóhannes Reykdal er eftir Albert J. Kristinsson:

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal Einarsson, langalangafabarn Jóhannesar Reykdal, og Lovísa Christiansen, dótturdóttir Jóhannesar J Reykdal, afhjúpuðu styttu við “Reykdalsstífluna (25. maí 2018).

“Jóhannes Reykdal varð goðsögn í lifanda lífi. Hann fæddist að Vallakoti í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu 18. janúar árið 1874. Tvítugur að aldri hóf hann trésmíðanám hjá Snorra Jónssyni trésmíðameistara á Akureyri og fjórum árum síðar silgdi hann til Kaupmannahafnar til frekara trésmíðanáms.Eftir þriggja ára dvöl ytra flutti hann heim til Íslands og ætlaði til Akureyrar, en hann hitti unga konu, Þórunni Böðvarsdóttur, og ástin varð til þess að hann festi rætur sunnan heiða.

Fyrstu árin sinnti Jóhannes húsbyggingum en fannst það ekki nóg. Hann vildi reisa verksmiðju við Lækinn í Hafnarfirði og er það fyrsta stórvirkið sem Jóhannes vann.

Reykdal

Jóhannes Reykdal – minningarskjöldur við Reykdalsstíflu.

Trésmiðjan var búin átta fullkomnum trésmíðavélum og staðsetningin var engin tilviljun, því Jóhannes virkjaði lækinn og fékk þar orku til að knýja vélarnar áfram. Elísabet Reykdal, dóttir Jóhannesar, segir þetta fyrsta virkjunarafrek Jóhannesar megi rekja til heimsóknar hans til Margrétar systur hans sem bjó í Noregi. Þar sá hann hvernig Norðmenn nýttu sér vatnsaflið. Alls unnu tíu til tólf menn að jafnaðií þessari fyrstu verksmiðju Jóhannesar.

Upphaf rafvæðingar
Jóhannes ReykdalJóhannes lét ekki staðar numið þótt hann væri kominn með orku til að knýja vélarnar, hann vildi nýta lækinn betur og framleiða rafmagn. Árið 1904 fór hann til Noregs og festi kaup á rafal og setti sig í samband við fyrsta íslenska raffræðinginn, Halldór Guðmundsson, sem nýkominn var úr námi í Þýskalandi. Með hjálp Halldórs setti Jóhannes upp rafalinn og einn starfsmanna hans, trésmiðurinn Árni Sigurðsson, lagði raflagnir. Þann 12. desember þetta sama ár urðu þáttaskil í sögu þjóðarinnar. Þá tók virkjunin til starfa og ljós voru kveikt í 15 húsum í Hafnarfirði, auk trésmiðjunnar. Þar á meðal voru tvö stærstu hús bæjarins, barnaskólinn og Góðtemplarahúsið. Einnig voru tendruð fjögur götuljós.

Rafvæðing Íslands var hafin
Jóhannes ReykdalEins og gefur að skilja varð strax mikil eftirspurn eftir rafmagninu hans Jóhannesar og trésmiðjuvirkjunin annaði engan vegin eftirspurn, jafnvel þótt Jóhannes hafi bætt nýju vatnshjóli við virkjunina.
Jóhannes fór því aftur af stað, fékk vatnsréttindi ofar í læknum og reisti á eigin spýtur nýja rafstöð, á svo kölluðum Hörðuvöllum, sem fyrst um sinn fullnægði allri eftirspurn eftir rafmagni í Hafnarfirði. Þetta er fyrsta sjálfstæða rafstöðin á Íslandi og hún tók til starfa haustið 1906 og framleiddi 37 kW. Á þessum tíma var ekki hægt að mæla rafmagnsnotkun heimilanna þannig að Jóhannes tók til þess ráðs að selja perur. Hann einn seldi perurnar og þegar pera sprakk þurfti fólk að skila ónýtu perunni til þess að kaupa nýja. Áður en Hörðuvallavirkjunin kom mátti einungis hafa tvær perur í hverju húsi, þótt perustæðin væru fleiri.

Bóndinn á Setbergi
Jóhannes ReykdalJóhannes Reykdal óttaðist ekki breytingar. Árið 1909 seldi hann Hafnarfjarðarbæ virkjanirnar og keypti jörðina Setberg. Hann seldi líka trésmiðjunaen starfsmennirnir tólf ráku hana áfram undirnafninu Trésmiðjan Dvergur. Fyrstu tvö árin hafði Jóhannes ráðsmann sems á um búreksturinn en árið 1911 tók hann við búskapnum en sá fljótt að hann gat ekki án rafmagns verið. Árið 1917 tók hann sig til og reisti enn eina rafstöðina við Lækinn. Þá þurfti hann að grafa um það bil eins kílómetra aðveituskurð og er það fyrsti aðveituskurðurinn sem grafinn var fyrir vatnsaflsvirkjun á landinu. Sem dæmi um framsýni Jóhannesar segir Elísabet að hann hafi fjárfest í fyrstu mjaltavélinni sem kom til landsins og fyrstu dráttarvélinni sem var Countor G, tíu hestafla framdrifin vél sem hægt var að tengja ýmis heyvinnutæki við.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Jóhannesson Reykdal; minningaskjöldur við heimagrafhýsi fjölskyldunnar milli Setbergs og Þórsbergs.

Þótt Jóhannes Jóhannesson Reykdal hafi rekið myndarbú á Setbergi, með 20 kýr í fjósi og 200 ær, nægði það framkvæmdamanninum ekki. Hann reisti því timburverslun og trésmiðju við bæinn sem að sjálfsögðu var drifin með afli úr Læknum.

Timbur og skonnorta
Elísabet Reykdal segir að JóhJóhannes Reykdalannes hafi víða séð tækifæri og hafi kunnað að nýta sér þau. Hún nefnir sem dæmi þegar þýska skonnortan Adelheid strandaði í hafnarmynninu í Hafnarfirði og sökk. Skonnortanvar full af kolum. Jóhannes keypti skipið fyrir lítið og fékk mannskap með sér í að koma vírum undir það og lyfti því síðan upp með prömmum og lét aðfallsölduna mjaka því smám saman upp á land.

Hafnarfjörður

Jóhannes Reykdal; stífla.

Björgunaraðgerðirnar gengu ótrúlega vel, en mesta vesenið var að koma vírunum undir skonnortuna. Jóhannesi leist ekki áhægaganginn hjá köfurunum og brá sér því sjálfur í kafarabúning og bjargaði málunum. Þetta þótti mikil dirfska og kafararnir sem biðu á þurru voru orðnir ansi smeikir, því Jóhannes var mun lengur í kafi en þeir voru vanir. Elísabet segir að Jóhannes hafi haft allar klær úti við að ná sér í timbur. “Húne r fræg sagan af því þegar hann var í timburleiðangri en erfitt var að finna skip til að sigla með timbrið heim. Þá fékk þá hugmynd að gera fleka úr timbrinu og láta dráttarbát draga farminn yfir hafið. Ekki varð úr því, þar sem enginn banki vildi tryggja farminn. Jóhannes gerði sér því lítið fyrir og keypti barkaskip, fyllti það af timbri og lét sigla því heim.”

Jóhannes ReykdalÞað er óvinnandi vegur að gera æfi Jóhannesar Reykdals skil í einni blaðagrein, slík voru afrek hans. En ekki verður hjá því komist að nefna íshúsið sem hann reisti. Húsið framleiddi ís fyrir togara Hafnfirðinga og skilaði um leið miklum auði til bæjarins. Aðrir togarar þurftu að fylla sig af ís eftir söluferðir til útlanda meðan hafnfirsku togararnir lestuðu kol og fluttu heim til Hafnarfjarðar. Því varð aldrei kolaskortur í Hafnarfirði, þökk sé stórhug og framfaraviðleitni Jóhannesar Reykdals.”
Sjá meira um Jóhannes HÉR.

Heimild:
-http://www.rafmagn100.is/johannes.htm
-Brautryðjandinn Jóhannes Reykdal – Albert J. Kristinsson.

Jóhannes Reykdal

Stytta af Jóhannesi Reykdal við “Reykdalsstífluna”.

Húsfell

Farin var fjögurra fjalla för ofan Hafnarfjarðar.
Lagt var stað frá Kaldárseli og gengin S-slóðin á Helgafell. Þetta er Hrafnlangeinfaldasta og þægilegasta gönguleiðin á fellið, sem æ fleirum virðist vera orðin kunn.
Haldið var niður að að norðanverðu og gengið að tröllunum þremur á Valahnúk. Þau böðuðu sig í sólinni og ekki var laust við að kerlinginn sæist blikka öðru auga. Kannski var það bara sólargeisli. Undir karlinum kúrði lítill fallegur úlfhundur. Eigandinn var skammt undan.
Gengið var stysta leið af Valahnúkum, með Víghól sunnanverðum og á Húsfell. Í leiðinni var komið við vestan undir fellinu til að líta á hrafnslaup, sem Haukur Ólafsson hafði rekið augun í er hann var þar á göngu nýlega. Hrafnarnir sveimuðu yfir, settust, hoppuðu og krunkuðu. Þeir virtust óánægðir með gestaganginn. Þegar gengið var svo til alveg að laupnum létu þeir enda öllum illum látum svo undirtók í fellinu.

Búrfellsgjá

Í Búrfellsgjá.

Frá Húsfelli var gengið hiklaust norður að Búrfelli, upp á gígbarminn og eftir honum til vesturs. Gígbarmurinn speglaðist fallega í kvöldsólinni.
Gengið var niður um hrauntröðina og síðan Mosana til baka í Kaldársel.

Gangan tók nákvæmlega fjóra stundarfjórðunga. Veður var frábært – sól og logn.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.