Færslur

Hvaleyri

 Í „Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar, 2005“ segir m.a. um sögu Hvaleyrar:

„Hér er stiklað á stóru í sögu Hvaleyrar.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum.

Heimildir um nafnið Hvaleyri er að finna allt frá Hauksbók Landnámu frá því að Hrafna-Flóki fann hval á eyri einni og kallaði það Hvaleyri. Í Landnámu er síðan sagt frá að bróðursonur Ingólfs hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, ásamt öllu Álftanesi (ÍF I, Bls. 39, 394).
Í Jarðtei[k]nabók er Teitur sagður búa á Hvaleyri 1300-1325 (Biskupasögur. 1. Bls. 286).
Árið 1395 er Hvaleyri eign Viðeyjarklausturs og var leiga til klaustursins 4 hndr. (DI III. Bls. 597).

Hvaleyrartjörn

Hvaleyrartjörnin fyrrum.

Þá segir í heimildum frá 1448 að á Hvaleyri hafi verið kirkja (DI IV. Bls. 751).
Í Jarðabók frá 1703 segir að á Hvaleyri sé hálfkirkja og embættað þrisvar á ári (Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók III. Bls. 168-170. Kaupmannahöfn 1923-1924).
Í Sögu Hafnarfjarðar frá 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið, en eigi er kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftrarkirkja, því enn sést fyrir kirkjugarði í tún heimajarðarinnar á Hvaleyri (Sigurður Skúlason 1933. Saga Hafnarfjarðar. Bls. 23, Reykjavík).
Jarðabókin frá 1703 segir m.a. að jörðin sé í konungseign.

Hvaleyri

Hvaleyri á 20. öld.

Þá er þess getið að Hvaleyrarkot sé aftur byggt eftir að ahfa verið í eyði svo lengi sem menn muna. Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem segir frá búsetu, búháttum, landgæðum og hjáleigum. Þar segir m.a.:
Hvaleyri er kirkjustaður með annexíu til Garða á Álftanesi þar er ei nema hálfkirkja og embættar þrisvar á ári. Jarðadýrleiki er óviss því jörðin tíundast engum. Jörðin er í konungseign. Ábúandinn er Ormur Jónsson. Landskuld er eitt hundruð. Greiðist með sex vættum fiska í kaupstað síðan forpachtningin hófst en áður heim til Bessastaða. Áður til forna hefur landskuldin verið greidd í fríðu með einum hundraðasta. Við til húsabótar hafa ábúendur lagt uppbótarlaust yfir sextíu ár. Leigukúgildi eru þrjú. Leigur greiðist í smjöri heim til Bessastaða. Kúgildin uppyngir ábúandinn uppbótarlaust yfir sextíu ár. Kvaðir eru um mannslán um vertíð, að auki tveir hríshesatr heim til bessastaða með skyldu, en margoft þar fyrir utan einn hríshestur, tveir eða þrír eftir þörfum, en í tíð Heidmanns voru þeir sjö um árið að meðtöldum skylduhestum. Hér að auki tveir dagslættir árleg aheim til Bessastaða og fæðir bóndinn verkamennina sjálfur að auki skipsferðir hvenær sem umboðsmaðurinn á Bessastöðum þarf á að halda vetur eða sumar og er hægt að áætla hve margar þær geta verið. Fæðir bóndinn þann mann ávallt sjálfur, hvort sem ferðin er löng eða stutt.
Kvikfénaður eru þrjár kýr, einn kálfur, fjórar ær, þrír sauðir veturgamlir, fjögur lömb, einn hestur, eitt hross með fyli. Fóðrast geta fjórar kýr. Heimilismenn sex. Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Hrísrif nokkurt hefur jörðin í heimalandi og er það að mestu eytt, að öðru leyti hefur hún hrísrif til eldiviðar í almenningum og svo til kolagerðar. LLyngrif og stunga í lakasta mála nærri ónýt. Fjörugrastekja nokkur. Rekavon nokkur. Hrognkelsafjara nægileg til beitu líður ágang af öðrum jörðum.
Heimræði er árið um kring og lending góð og ganga skip ábúenda eftir hentugleikum. Til forna hefur hér oft undir kongsskipa nafni gengið eitt tveggja manna far, en síðan Lauridts Hansson Siefing var á Bessastöðum. Heidemanns vegna hefur það ekki verið.

Hvaleyri

Hvaleyri – túnakort 1908.

Inntökuskip hafa hér stundum gengið ekki stærri en tveggja manna för, og hefur ábúandi þegið undirgift af, mætti og enn vera ef menn vildu.
Túnin spillast af sandágangi. Engjar eru engar. Vatnsból er ekki gott, og þrýtur bæði vetur og sumar.
Hjá kvöðunum var gleymt að skrifa að á umliðnu hausti sendi umboðsmaðurinn Páll Beyer að Hvaleyri lamb í fóður, tók ábúandinn við því á launa, sama gjörði veturinn á undan umboðsmaðurinn sem þá var Jens Jurgensson, og hefur ábúandinn heldur ekki fengið fyrir það laun. Hafa þessar kvaðir aldrei áður verið, að auki var 1701 og nú í sumar heyhestur heimtur fyrir fálkaféð. Þetta hefur ekki fyrr eða síðar gert verið.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókaklöpp og nágrenni.

Hvaleyrarkot er gömul hjáleiga byggð eftir að hafa verið í eyði svo langt sem menn muna sem eru lifandi, og nú aftur komin í eyði fyrir þremur árum. Landskuld var meðan þar var búið 60 álnir og greiddist í fiski til heimabóndans, að auki eitt kúgildi og greiddust leigur í smjöri heim til bóndans. Gæti byggst aftur ef einhver þyrði að vera upp á sjávaraflann kominn, nú hefur heimabóndinn grasnytina þar sem með fylgdi (Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók III. Bls. 168-170, Kaupmannahöfn 1923-1924).
Í Jarðatali Johnsens frá 1847, segir m.a. að Hvaleyri sé í Álftaneshreppi og jarðanúmer 168. Hvaleyri sé í bændaeign, dýrleiki sé 20 hundruð, landskuld sé 0.100, kúgildi séu 2, og eigandinn sé einn. Í skýringum segi rum Hvaleyri að í Jarðabók frá 1803 séu nefndar fjórar byggðar hjáleigur, Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir (J. Johnson, Jarðatal á Íslandi. Bls. 91, Kaupmannahöfn).
Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og má það vera ein ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 kaupir Bjarni Sívertssen jörðina af konungi, og síðan kaupir Jón Illugason snikkari jörðina árið 1834 af dánarbúi Bjarna riddara Sívertssens. Jón Illugason seldi síðan jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Eftir lát Jóns tók ekkja hans , Þórunn Sveinsdóttir, við Hvaleyri, hún gaf síðan Sigríði frændkonu manns síns mestan hluta jarðarinnar 1868. Sigríður giftist síðan Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var síðan seld síra Þórarni Böðvarssyni í Görðum árið 1870. Síra Þórarinn og kona hans gáfu síðan heimajörðina Hvaleyri til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1881 (Sigurður Skúlason 1933. Saga Hafnarfjarðar. Bls. 36-37 og 42-45. Reykjavík).
Elstu heimildir um náttúrfar á Hvaleyri eru frá árinu 1365, en þá er sagt af sandfjúki og sjávargangi á tún á Hvaleyri (Gísli Sigurðsson. Hvaleyri, Hafnarfjörður, Gullbringusýsla. Örnefnastofnun Íslands).

Hvaleyri

Hvaleyri í dag – 2021.

Frá árinu 1703 er sagt frá að hún hafi spillst af sandgangi, og engjar séu engar.
Árið 1730 voru Hvaleyrartún stórskemmd af grasmaðki og einnig herjuðu sandfor og fugl á það. Mikill lausamosi var í túninu. Túnið hélt áfram að skemmast og árið 1751 varð að slá tveimur vættum og einu kúgildi af afgjaldi jarðarinnar hvort sem það hefir eingöngu verið landskemmdum að kenna.
Á árunum 1754-1757 býr enginn á Hvaleyri, og má það vera ástæða þess að bæjarhús og tún spillast.
Á syðsta hluta Hvaleyrarholts mun hafa verið skógarítak Gufuneskirkju.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar, 2005. [Skráningin er að vísu mjög ófullkominn og erfitt að átta sig á staðháttum við lestur hennar.]

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Hafnarfjarðarhöfn

Byggð í Hafnarfirði varð til í kringum sjósókn, verslun og siglingar, enda þótti skipalægi sérlega gott í firðinum alla tíð. Bærinn varð snemma á öldum einn helsti verslunar- og hafnarbær landsins og á tímabili var Hafnarfjörður aðal verslunarhöfn á landinu. Byggðin stóð við sjóinn og mestallt mannlíf í bænum byggðist á virkni í kringum höfnina. Svæðið við Flensborgarhöfn er staðsett í einum elsta hluta hafnar- og athafnasvæðis, í „hjarta“ bæjarins, og á sér því langa og mikilsverða sögu. Tengsl við sögu og arfleifð er þýðingarmikill þáttur í umhverfi fólks og er því mikilvægt að gera sögunni skil þegar hugað er að framtíðarskipulagi á þessum stað. Hér verður skyggnst í það helsta í sögu og þróun gömlu hafnarinnar og svæðisins við Flensborgarhöfn.
Hafnarfjörður hefur lengi verið talinn vera ein besta höfn landsins frá náttúrunnar hendi, enda er heiti fjarðar og byggðar kennt við höfnina. Englendingar gerðu Hafnarfjörð að bækistöð sinni upp úr aldamótunum 1400, en þá byrjuðu þeir að stunda fiskveiðar og verslun við Ísland.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn fyrrum. Hvaleyrarlónið var lengi notað til geymslu á skipum, nú er lónið friðað, meðal annars vegna varpstöðva fugla og fuglalífs og er lítið notað. Talsverðar landfyllingar og uppbygging á Suðurhöfninni hafa breytt landslagi mikið við Hafnarfjarðarhöfn. Auk Suðurhafnar er Straumsvíkurhöfn starfrækt í dag og í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013 – 2025 er svæði vestan Straumsvíkur til skoðunar til framtíðarþróunar fyrir höfnina. Á suðursvæðinu er umfangsmikil löndunar- og flutningsþjónusta, þar eru vörugeymslur fyrir frosnar, þurrar og blautar vörur og einnig viðhaldsþjónusta bæði í flotkví og slipp. Á Suðurhöfninni stendur Fiskmarkaðurinn, sem hefur starfað þar í tæp 30 ár (Már Sveinbjörnsson, viðtal 1, 2014; Hafnarfjarðarbær, 2014a).

Flensborgarhöfn
Flensborgarhöfn er innan jarðarmarka Jófríðarstaða, sem upphaflega hétu Ófriðarstaðir. Með tímanum var Jófríðarstaðalandi skipt upp í nokkur smærri lönd (Katrín Gunnarsdóttir, skv. tölvupósti, 28.3. 2014).
Fyrsti verslunarstaðurinn í firðinum reis á Háagranda, þar sem nú er norðurhorn smábátahafnarinnar við Óseyrarbryggju. Hann hét Fornubúðir og talið er að Englendingar hafi valið verslunarstaðnum þennan stað eftir að þeir fóru að koma til Hafnarfjarðar snemma á 15. öld, því við grandann var gott skipalægi (Ásgeir Guðmundsson, 1983).
Talið er að þýsku Hansakaupmennirnir hafi reist fyrstu lútersku kirkjuna á Íslandi á svipuðum slóðum. Þýska kirkjan er fyrst nefnd í heimildum 1537, þá sennilega nýbyggð. Kirkjan var tekin niður í kjölfar þess að danskri einokunarverslun var komið á. Álitið er að kirkjan hafi staðið við Óseyri (Sigurður Skúlason, 1933).
Þýskir kaupmenn stofnuðu Flensborgarverslun undir lok 18. aldar og reistu verslunarhús við sunnanverðan botn Hafnarfjarðar. Kaupmennirnir voru frá Flensborg í Slésvík og nefndu verslunina eftir heimaborg sinni (Sigurður Skúlason, 1933). Verslunarbyggingin Flensborg stóð á svipuðum slóðum og Íshúsið stendur nú.
Farið var um Illubrekku eða sætt fjöru til að komast fyrir klettinn að Flensborg. Heimild: Byggðasafn Hafnarfjarðar Árið 1877 var gamla verslunarhúsinu breytt í skóla, sem nefndur var Flensborgarskóli. Önnur bygging reis við hliðina á gamla verslunarhúsinu árið 1906 og Flensborgartún var sunnan við húsin. Flensborgarskóli var upphaflega barnaskóli, síðar gagnfræðaskóli og kennaraskóli og einnig var þar heimavist. Gamla verslunarhúsið brann árið 1930, en skólahaldi var haldið áfram í nýrri byggingunni. Flensborgarskóla var fundin ný staðsetning á Hamrinum árið 1937 og lagðist þá skólahald af á þessum stað (Ásgeir Guðmundsson, 1983; Sigurður Skúlason, 1933).

Flensborgarverslun

Flensborgarhöfn

Fyrsta skipsmíðastöð landsins var í Hafnarfirði, athafnamaðurinn Bjarni Sivertsen kom henni upp árið 1805. Talið er að hún hafi verið staðsett á sömu slóðum og slippurinn við Flensborgarhöfn stendur nú. Árið 1918 tók Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar til starfa á sama stað, en flutti sig um set nokkrum árum síðar. Skipasmíðastöðin Dröfn var sett á stofn árið 1941 og hóf upp úr því að byggja skipasmíðastöð og slippinn sem enn stendur við Flensborgarhöfn. Þar fór fram bæði nýsmíði á bátum af ýmsum stærðum og gerðum og einnig bátaviðgerðir (Ásgeir Guðmundsson, 1983; Jón Pálmason, á.á.).

Fyrsti hluti Íshúss Hafnarfjarðar við Flensborgarhöfn reis árið 1918, og byggðist það síðan áfram upp í áföngum. Elsti hlutinn hefur verið rifinn, en núverandi byggingar eru frá því um eða rétt fyrir miðja 20. öld allt fram til 1992, er nýjasta viðbyggingin reis. Upphaflega var þar aðallega fryst beitusíld og geymsla á kjöti. Í gegnum árin hefur ýmis konar starfsemi verið í byggingunum, en lengst af fiskvinnsla (Ásgeir Guðmundsson, 1983; Haraldur Jónsson, viðtal 8, 2014).
Upphaf smábátahafnarinnar má rekja til ársins 1969 þegar flotbryggja var gerð við Óseyri. Óseyrarbryggja var síðan fullgerð árið 1976 og trillubátabryggja, rampi sem hallaði út í sjó, var byggð 1977. Árið 1989 varð mikil breyting á allri aðstöðu í smábátahöfninni þegar ráðist var í umbætur á henni, höfnin var dýpkuð og settar voru upp flotbryggjur fyrir allt að hundrað báta. Þá fékk smábátahöfnin nafnið Flensborgarhöfn og dró nafn sitt af Flensborgarskólanum, sem áður stóð skammt frá flotbryggjunum (Björn Pétursson & Steinunn Þorsteinsdóttir, 2012).

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón – bygð smábátaeigenda.

Löng hefð er fyrir smábátaútgerð í Hafnarfirði og þykir aðstaða trillueigenda mjög góð í Flensborgarhöfn frá því henni var komið upp. Grásleppukarlar voru þarna og seldu afurðir sínar beint til viðskiptavina við höfnina. Þeir áttu margir netaskúra skammt frá flotbryggjum sem voru fjarlægðir (Björn Pétursson & Steinunn Þorsteinsdóttir, 2012), en í þeirra stað risu verbúðir um og upp úr miðjum níunda áratugnum. Verbúðirnar voru ætlaðar smábátaeigendum í útgerð, þar var aðstaða fyrir veiðarfæri, beitningu og fleira (Már Sveinbjörnsson, viðtal 1, 2014). Verbúðirnar eru staðsettar á Flensborgarhöfn og hýsa nú lítil fyrirtæki og starfsemi af ýmsum toga.
Siglingaklúbburinn Þytur fékk lóð sunnan Drafnarslippsins og byggði húsnæði þar, sem var tekið í notkun árið 1999. Þar er bátaskýli, verkstæði og félagsaðstaða klúbbsins (Siglingaklúbburinn Þytur, 2014). Umræða um framtíðaruppbyggingu á Flensborgarhöfn hefur staðið lengi. „Ef vel tekst til getur Flensborgarhöfn orðið perla Hafnarfjarðar“ segir í umfjöllun í Morgunblaðinu árið 1989 og um leið var því sjónarmiði lýst að „Flensborgarhöfn verði staður sem allir Hafnfirðingar og gestir þeirra hafi gaman af að heimsækja“ (Morgunblaðið, 1989). Þetta var um það leyti sem umbætur á smábátahöfninni voru gerðar og hún stækkuð. Síðan hefur umræða haldið áfram og fjöldi frumhugmynda verið unnar fyrir svæðið, ýmist að beiðni bæjaryfirvalda, lóðahafa eða hafnaryfirvalda (Bjarni Reynarsson, 2009;

Heimild:
-https://www.hafnarfjordur.is/media/flensborgarhofn/Soguagrip_Hafnarfj.+Flensborgarhof

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn – í sögulegu samhengi,

Ás - letursteinn

Letursteinn er við bæinn Ás ofan Hafnarfjarðar, fyrrum Garðahreppi. Steinninn er við fyrrum brunninn í bæjarlæknum skammt sunnan við bæjarstæðið. Þar við er nú hlaðin bogadregin steinbrú. Á letursteininn eru höggnar tvær myndir af ásum og sveigður kross ofar. Á tvær hliðar hans er höggvið rúnaletur, óskiljanlengt.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

FERLIR hefur reynt að leita uppruna steinsins. Hann er við göngustíg umhverfis Ástjörn, nálægt tveimur hlöðnum steinbrúm, sem gerðar voru fyrir ca. 40 árum. Rúnaletrið passar ekki við þekkt rúnaletusstafróf.
Ábending fékkst um steininn. Þegar komið var á vettvang þakti snjór svæðið (sem betur fer). Nuddaður var snjót á steininn og þá komu rúnirnar í ljós.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Talið var í fyrstu að þetta vera letustein frá því að Haukur Halldórsson og félagar, heiðingjalistamennirnir, gistu í Straumi. Svipur er með myndunum á steininum og steinmyndum við Fjörukránna.
Hauki var send fyrirspurn um steininn á Facebook. Hann svaraði; sagðist ekki kannast við hann.
Tryggva Hansen, steinlista- og -hleðslumanni var send fyrirspurn. Hann býr upp við Rauðavatn. Tryggvi var mikilvirkur hleðslumaður fyrrum og í góðum tengslum við Hauk og félaga. Ekkert svar hefur borist frá Tryggva.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Þessi steinn hefur verið þarna við „alfaraleiðina frá Ási (Hrauntungu- og Stórhöfðastíginn) “ í a.m.k. nokkra áratugi, en enginn virðist hafa veitt honum hina minnstu eftirtekt, hvað þá að um hann hafi verið fjallað opinberlega.

Ás - brúarsmíði

Ás – brúarsmíði.

Eftirfarandi frétt mátt lesa í Fjarðarpóstinum árið 1997 um brúargerðina nálægt steininum. Í framhaldi af því var póstur sendur á brúarsmiðinn, Guðjón Kristinsson.
Guðjón svaraði: „Sæll ég kannast við andlitin, en man ekki eptir rúnasteininum. Þarf að bregða mjer og líta á þetta.“
Talið er víst að ekkert þýði að senda Minjastofnun fyrirspurn um tilvist steinsins, að teknu tilliti til fyrrum viðbragða stofnunarinnar við öðrum slíkum.
Áletrunin á steininum að Ási gæti verið mun eldri en í fyrstu var ályktað.
Allar ábendingar um tilurð steinsins og/eða sögu hans eru vel þegnar á ferlir@ferlir.is.

Heimildir:
-Fjarðarpósturinn, 15. árg. 1997, Rómversk göngubrú á Áslandi, bls, 6.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Hafnarfjörður

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu árið 1957, fjallar Friðfinnur V. Stefánsson um „Guðlaugs þátt Gjáhúsa“.

Símtal
Friðfinnur V. Stefánsson„Það var kvöld eitt, ekki alls fyrir löngu, að til mín hringir blaðamaður og spyr, hvort ég sé fáanlegur til þess að skrifa smáþátt um minn gamla vin og kunningja, Guðlaug heitinn Gjáhúsa.
Ég tók þessu mjög illa. Taldi ég öll vandkvæði á því. Benti ég á, að frá því ég lauk prófi frá Flensborgarskóla 1911 hefði ég naumast snert penna. Hlutskipti mitt í lífinu hefði verið að handleika handbörukjálka, fisk, kola- og saltpoka, skóflur, hamra, múrskeiðar, beizlistauma og m. fl. Nei, það var svo fráleitt, að ætlast til þess að ég færi að skrifa minningaþátt. Það var jafn fráleitt og farið væri fram á það við mig, að ég reyndi að ná tíkinni margumtöluðu niður úr tunglinu. En blaðamaðurinn var ýtinn. Ég kvaddi hann samt snögglega og lagði símatólið á.
Síðar um kvöldið, þegar ég var háttaður, tókst mér ekki að sofna, hvernig sem ég reyndi. Ég var í huganum aftur og aftur kominn út í gamlan ævintýraheim. Við Guðlaugur vorum komnir á hestbak og þeystum um grænar grundir, fjöll og hálsa. Og þegar við áðum, sagði hann mér sögu eftir sögu af sinni alkunnu snilld. Þetta gekk langt fram á nótt. Loksins sofnaði ég. Daginn eftir, er hlé varð á störfum mínum, leitaði ég uppi blað og penna og byrjaði.

Inngangur

Guðlaugur

Það er orðin næsta algeng venja að tala um, að hún eða hann hafi sett svip sinn á bæinn. Ég ætla nú að fylgja þessari venju og segja, að hafi nokkur maður sett svip sinn á Vesturbæinn í Hafnarfirði, þá var það Guðlaugur heitinn Gjáhúsa.
Guðlaugur var að mörgu leyti merkilegur maður og á ýmsan hátt dálítið sérstæður persónuleiki, sem allir hlutu að taka eftir, sem einhver kynni höfðu af honum. Hann var bæði greindur og minnugur.
En það í fari hans, sem sérstaklega heillaði mann, var hve snarráður, úrræðagóður, ósérhlífinn og fylginn sér hann var. Þó er einn ótalinn eðlisþáttur hans. Hann verður ógleymanlegur öllum þeim, sem kynntust honum. Hann bjó yfír alveg óvenjulega frjórri frásagnargáfu – og gleði. Mun ég nú reyna að lofa lesendum að kynnast henni ofurlítið, með því að endursegja nokkrar sögur og minni atburði, er hann sagði mér.

Uppvaxtarár
Eggert PálssonGuðlaugur var fæddur 26. ágúst 1874 að Vindási í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Ólst hann þar upp við kröpp kjör, eins og hlutskipti margra var í þá daga. Rétt fyrir fermingu, að mig minnir fastlega, missir hann föður sinn úr lungnabólgu og systkini sín þrjú úr barnaveiki, öll í sömu vikunni.
Ekki var þetta nú uppörvandi fyrir umkomulausan fermingardreng að leggja með þetta veganesi út í lífið. Þá var ekki margra kosta völ fyrir þá, sem enga áttu að. Einn og óstuddur varð hann að sjá sér farborða.
Fyrst var hann á bæjum í Fljótshlíðinni t. d. jarðskjálftaárið mikla 1896, þá rúmlega tvítugur að aldri. Hrundu þá bæjardyrnar á bæ þeim, er hann dvaldi á, svo að hann og annað heimilisfólk varð að skríða út um stafngluggann á baðstofunni. Aldrei gat Guðlaugur gleymt þessum atburði. — Þá var Guðlaugur einnig vinnumaður hjá síra Eggerti á Breiðabólsstað. Þann mann dáði Guðlaugur mikið.

Herdísarvík
HerdísarvíkBrátt tók Guðlaugur, eins og fleiri í þá daga, að fara suður til sjóróðra. Reri hann margar vertíðir, oftast í Grindavík. Kem ég betur að því síðar. Þá var alltaf farið um Selvog og Herdísarvík. í einni vertíðarferð kynntist Guðlaugur bóndanum í Herdísarvík, Þórarni Árnasyni, sýslumanns í Krýsuvík. Réðist Guðlaugur til hans og gerðist fjármaður hans, við mikinn og góðan orðstír. Hjá honum var hann í fimm ár. Þroskaðist hann þá mikið. Reyndi þarna oft á þrek hans í vondum veðrum við fjárgæzluna. í Herdísarvík var að mestu byggt á beit, bæði til fjöru og fjalls. Margan, kaldan vetrardaginn, þegar jarðbönn voru, stóð hann myrkranna á milli við ofanafmokstur til þess að féð næði að seðja mesta hungur sitt.
Síðar í þættinum mun ég víkja frekar að veru Guðlaugs, í Herdísarvík.

Ástin vaknar

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Guðlaugur varð, eins og aðrir fjármenn, að fara í útréttir. Haust nokkurt sendi Þórarinn bóndi hann í Gjáarrétt við Hafnarfjörð.
Sá Þórarinn mikið eftir því, að hafa sent Guðlaug í þessa ferð. Hann vildi fyrir hvern mun halda í Guðlaug. En í þessari ferð gisti Guðlaugur á Setbergi. Þar sá hann mjög gjörvulega og myndarlega stúlku, Sigurbjörgu Sigvaldadóttur, sem síðar varð ævilangur förunautur hans. Þegar Guðlaugur kom heim úr réttarferðinni, leið ekki á löngu áður en hann sagði upp vistinni. Hvarf hann frá Herdísarvík, þegar ráðningartími hans var á enda.
Flutti hann þá að Setbergi við Hafnarfjörð og gerðist vinnumaður um skeið hjá Halldóri Halldórssyni, sem síðar var kenndur við Bergen í Hafnarfirði.

Til Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1905.

Flestum lífverum er frelsisþráin meðfædd. Svo er um okkur mennina. Brátt tóku þau Guðlaugur og Sigurbjörg að búa sig undir að verða sjálfstæð. Árið 1905 eða 1906 fluttu þau hjón til Hafnarfjarðar.
Bjuggu þau fyrst á svonefndu Stakkstœði, þar sem Guðmundur á Hól, Eyjólfur frá Dröngum o. fl. bjuggu. Það lýsir Guðlaugi vel að undir eins á fyrsta ári byrjar hann á því að byggja hús þar við Vesturbraut, er hann síðar nefndi Gjáhús. Stendur það enn, sem kunnugt er. Þarna bjuggu þau hjónin alla tíð síðan, með mikilli prýði og myndarskap. Brátt fékk Guðlaugur gott orð á sig sem smiður.
Stundaði hann smíðar um margra ára skeið.

Djöflafélagið

Hafnarfjörður 1912

Hafnarfjörður 1912.

Um þessar mundir var lítið um félagssamtök í Hafnarfirði. Góðtemplarareglan var helzti félagsskapurinn. En um þetta leyti reyndu verkamenn í Hafnarfirði að stofna með sér félag. Guðlaugur tók þátt í því. Mig langar að segja frá smáatviki, sem henti Guðlaug. Lýsir það vel aldarandanum í þá daga. Það var kvöld eitt, að Guðlaugur var á leið heim. Hann hafði verið á verkamannafélagsfundi. Hittist svo á, að atvinnurekandi nokkur og einn af betri borgurum bæjarins stóð á tröppum húss síns. Ávarpaði hann Guðlaug heldur hvatskeytislega með þessum orðum: „Ert þú genginn í þetta Djöflafélag, Guðlaugur?“
„Ef þú átt við verkamannafélagið, þá er ég genginn í það,“ svaraði Guðlaugur jafn snúðugt og hinn spurði. Hélt hann síðan áfram ferð sinni. — Guðlaugur vann hjá þessum manni. Næstu fjóra daga var hann ekki kvaddur til vinnu. En á fimmta degi var sent eftir honum og vinna tekin upp eins og ekkert hefði í skorizt. Svona var nú aldarandinn þá. Stingur þar mjög í stúf við öll elskulegheitin, sem atvinnurekendablöðin sýna launastéttunum nú og jafnvel hálaunastéttunum. En skylt finnst mér að taka fram, að fyrrnefndur atvinnurekandi og hans líkar voru ýmsum kostum búnir líka, þótt þeir væri kaldir og hrjúfir á stundum. Þeir áttu það til að lána fátækum mönnum bæði timbur og járn o. fl. til þess að þeir gætu byggt sér skýli yfir höfuðið, — og ábyrgðar- og rentulaust. Væntanleg vinna, ef heilsa og kraftar leyfðu, var eina tryggingin.

Vindmyllan

Vindmylla

Vindmylla.

Guðlaugur stundaði smíðar, eins og fyrr var sagt, í nokkur ár. Síðan breytti hann til og gerðist verkstjóri hjá Bookless Bros. Í þá daga var notuð vindmylla til þess að dæla sjó í þvottakerin. Skal nú sagt frá atburði, seni sýnir, að Guðlaugur var gæddur óvenjulegu hugrekki, snarræði og þreki, er í þessu tilfelli gekk ofdirfsku næst.
Guðlaugur var hvorki stór maður vexti né kraftalegur, en hann leyndi á sér. Þrekið og áræðið fór þó langt fram úr því, sem útlitið benti til. Það vissu þeir, sem með honum unnu. Andlitsdrættir Guðlaugs voru sterkir og fastmótaðir. Stundum fannst mér gæta nokkurs kulda í svipnum. Má vera, að harðrétti og óblíða unglingsáranna ætti þar nokkurn hlut að.
Það var einhverju sinni, að verið var að dæla sjó með vindmyllunni. Þá rauk hann skyndilega upp á norðan. Hvassviðrið jókst og myllan ærðist, ef svo mætti segja. Stórhætta var á að vængir myllunnar brotnuðu í spón, ef ekki tækist að stöðva hana. Nú voru góð róð dýr. Þarna voru margir karlmenn til staðar, en enginn treysti sér til þess að fara upp og freista þess að stöðva mylluna. Þá bar Guðlaug þarna að. Hann réðst þegar í stað til uppgöngu, en myllan stóð í turni á húsþakinu. Guðlaugur lét þrjá menn fylgja sér. Hann skipaði þeim að taka traustataki um taug, er bundin var í stél myllunnar. Áttu þeir að beina vængjum hennar undan vindi, ef ske kynni að hún hægði nokkuð á sér. Meðan þessu fór fram, tók Guðlaugur sér stöðu, hélt sér föstum með annarri hendi, en hina hafði hann lausa. Hugðist hann grípa með henni um einn vænginn, ef færi gæfist. Allt í einu rak fólkið, sem á horfði, upp skelfingaróp. Guðlaugur hafði gripið um vænginn. Við þetta missti hann fótanna, sveiflaðist nokkra stund í lausu lofti, en hvorugri hendinni sleppti hann. Það gerði gæfumuninn, — og vindmyllan stöðvaðist. Létti mjög yfir áhorfendum, þegar Guðlaugur hafði leyst þessa þrekraun af hendi.

Hlauparinn

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Áður en bílar komu til sögunnar notaði yngra fólkið helzt reiðhjól til þess að ferðast á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Dag nokkurn lagði einn snjall og kappsamur hjólreiðamaður, Ásgeir G. Stefánsson að nafni, á stað til Reykjavíkur. Er hann var kominn rétt upp fyrir bæinn, sér hann gangandi mann á undan sér. Hann þekkti manninn, sem var á leið til Reykjavíkur, kastar á hann kveðju, um leið og hann hjólar fram hjá honum. Heldur Ásgeir síðan áfram með sígandi hraða og horfir fram á veginn. Skömmu síðar verður hann þess var, að maðurinn, sem hann var nýbúinn að kveðja, er kominn á hæla honum og hleypur mjög léttilega. Ásgeir hjólaði alltaf greitt, og fylgdust þessir kappar að alla leið, til Reykjavíkur, þótt ótrúlegt megi virðast. Ekki var hlauparinn mæðnari en það, að þeir héldu uppi eðlilegum samræðum mikið af leiðinni. Nú skyldi margur ætla, að hér væri á ferðinni Olympíufari eða hlaupasnillingur, sem þjálfaður er eftir kerfisbundnum reglum. Nei, þarna var á ferðinni sonur dalanna og íslenzku heiðanna, þjálfaður af nauðsyn í sjálfu lífsstarfinu, smali, nýfluttur til Hafnarfjarðar, Guðlaugur frá Gjáhúsum.
Mér þykir rétt að skjóta því hérna inn í, úr því að ég fór að minnast á hjólreiðamenn, að fleiri voru snjallir og kappsfullir en Ásgeir, t. d. Guðmundur Hróbjartsson, Ólafur Davíðsson, Gunnlaugur Stefánsson og Þorbjörn Klemensson. Einu sinni lenti þeim Gunnlaugi og Þorbirni saman í geysiharðri keppni, og mátti varla milli sjá, hvor þeirra var á undan, þegar hetjurnar, móðar og másandi, náðu Hraunsholtsbeygjunni.
Guðmundur Hró og Ásgeir áttu það stundum til að skreppa austur yfir fjall á hjólum sínum seinni part laugardags, borða lax á Kolviðarhóli (þá voru allar rúður þar vel heilar) á austurleið, koma svo aftur heim til Hafnarfjarðar að sunnudagskveldi. Brást þó aldrei, að þeir voru mættir til vinnu í bítið á mánudagsmorgni. En þetta var nú útúrdúr. —

Nautið
VindásNú bregðum við okkur, lesandi góður, austur á æskustöðvar Guðlaugs.
Það var einn dag um hásumarið í góðu veðri, að Guðlaugur fór fram á heiði til þess að huga að hestum. Þarna var vel grösugt en allstórir steinar á víð og dreif. Allt í einu tekur Guðlaugur eftir því, að heljarmikið naut stendur fyrir framan hann. Hefur það sennilega legið á bak við einn stóra steininn. Nautið rekur upp öskur mikið, tekur undir sig stökk og stefnir beint á Guðlaug. Drengurinn tekur til fótanna, stekkur að stærsta steininum þarna og kemst með naumindum upp á hann. Nautið skellir framfótunum upp á steininn og öskrar ógurlega. Drengurinn getur þó varizt og er hólpinn í bili. Nú var Guðlaugur staddur í ærnum vanda. Aleinn, svangur, hræddur og langt frá mannabyggðum. Við fætur hans stóð dauðinn í nautslíki. Nautið hafði nóg gras að bíta. Það gat því beðið endalaust eftir bráð sinni. En lesandi góður: Eftir nokkra stund var ungi drengurinn búinn að leysa þessa heljarþraut, sloppinn úr allri lífshættu og kominn heim á leið.
Hann hafði stungið hendi í vasa sinn, opnað vasahnífinn, stóð þarna allvígalegur á steininum og engdi nautið óspart, en það teygði fram hausinn og reyndi öskrandi að ná til drengsins. Leiftursnöggt brá litli drengurinn hnífi sínum og rak hann á kaf í annað auga dýrsins. Nautið rak upp feiknarlegt öskur, hentist af stað út í buskann, eins langt og augu drengsins eygðu.
Guðlaugur rölti heim á leið, glaður og hryggur. Góður drengur kennir í brjósti um sært dýr. En þetta var nauðvörn hans. Ekki þorði hann að segja neinum frá þessu, þegar heim kom.
Sumarið leið. í vetrarbyrjun var Guðlaugur sendur á bæ fram í sveit. Það var byrjað að skyggja, þegar hann kom að bænum. Hann sá glitta í ljóstýru í fjósinu. Gengur hann þá inn í fjósið og býður hressilega gott kvöld. Um leið tekur að hrikta í öllu og fjósið að skjálfa. Stórt naut, sem bundið var á utasta bás, slítur sig laust og ryðst út og er horfið á svipstundu.
Heimamaður kvað naut þetta hafa komið eineygt af fjalli um haustið. „Þetta er ekki einleikið. Það er engu líkara en það hafi brjálazt.“ — Guðlaugur mælti fátt, en hugsaði: „Nautgreyið hefur þekkt rödd mína og ekki viljað eiga það á hættu að missa hitt augað líka.“

Blóðblettir

Heykuml

Heykuml – h.m.

Einn vetur, þegar Guðlaugur var á 14. ári, var honum falið að hirða fé á eigin ábyrgð, að öðru leyti en því, að móðir hans kom vikulega til þess að fylgjast með verkum sonar síns. Við fjárhúsið var heykuml. Stóð fjárhúsið nokkuð frá bænum. Svo bar við, að móðirin finnur að því við son sinn, að hann gangi ekki nógu vel um heyið. Segir hún töluverðan slæðing vera á gólfinu og heyið vera illa leyst. Guðlaugi sárnar þetta nokkuð og lofar að gera betur. Gefur hann enga skýringu á þessu og reynir ekki að afsaka sig.
Þegar móðir hans er farin, verður Guðlaugur sér úti um fjóra ljái, brýnir þá allvel. Stingur hann þeim síðan í stálið hér og hvar.
Guðlaugi gengur hálfilla að sofna um kveldið. Næsta morgun er hann snemma á fótum. Hann röltir til fjárhúsanna. Hann opnaði síðan heykumlið, dálítið óstyrkur. Nú var engan slæðing að finna. En þarna á gólfinu mátti sjá annað, sem vissulega kom honum ekki á óvart. Hér og hvar gat að líta blóðbletti.
Þennan sama dag og næstu daga, sást maður nokkur í sveitinni með reifaðar hendur. Ekki þurfti móðir Guðlaugs að vanda um við son sinn vegna slæmrar umgengni í hlöðunni eftir þetta.

Seilin
GrindavíkVið erum stödd um síðustu aldamót niður í fjöru í Grindavík.
Mikið er um að vera. Vel hefur fiskazt þennan dag. Mörg skip hafa orðið að seila. En um aldamótin síðustu var, sem kunnugt er, róið á opnum bátum. Þurfti þá að gæta ýtrustu varfærni við að ofhlaða ekki þessi litlu, opnu skip. Var þá það ráð tekið að seila, sem kallað var. Það var gert á eftirfarandi hátt: Nál úr hvalbeini, með flötum, þunnum oddi og víðu auga var stungið undir kjálkabarð fiskjarins og út um kjaftinn. Bandi var brugðið í augað og fiskarnir þræddir upp á bandið, einn af öðrum. Fiskurinn á bandinu var síðan látinn fljóta aftur með skipinu og dreginn til lands. Þessu má líkja við, þegar kringlur voru dregnar upp á band í gamla daga eða. perlur nú til dags. Þegar komið var með seilar að landi, var þeim stundum fest við steina í fjörunni. Stundum var líka haldið í þær.
Víkjum nú aftur að því, þar sem við stöndum í fjörunni. Guðlaugur er þar að vinna. Hann verður þess var, að ein seilin er að renna út með útsoginu og hverfa. Töluvert hafði brimað. Guðlaugur bregður eldsnöggt við, hleypur á eftir útsoginu, sækir seilina, — en verður of seinn. Kolblá holskeflan skellur yfir hann og han n hverfur um stund. En með einhverjum óskiljanlegum hraða tekst honum að komast í var við stóran, þangivaxinn stein. Greip hann traustataki í þangið. Hélt hann sér þar rígföstum.
Drykklanga stund var Guðlaugur í kafi, en aftur kom útsog, og upp stóð piltur, að vísu dálítið dasaður. Hélt hann um seilina og skilaði henni til lands. Jafnaði hann sig furðufljótt. Varð honum ekki meint af volkinu, en fékk dálítil aukalaun, og aðdáun allra hlaut hann að sjálfsögðu fyrir þetta einstæða afrek sitt.

Vaka við tafl á jólanótt

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjóslhrauni.

Þetta gerðist á aðfangadag jóla, dimmt var í lofti, frost nokkurt og herti það, er á daginn leið. Guðlaugur hafði farið, að venju, í birtingu til fjárins. Hann hafði með sér skóflu, því að snjó hafði hlaðið niður. Hugðist hann létta fénu krafsturinn, með því að moka ofan af. Upp úr hádeginu tók að hvessa og hríða að nýju. Enn herti frostið og loks tók að skafa líka.
Lagði nú Guðlaugur alla áherzlu á að ná fénu saman í skjól. Ekki var það áhlaupaverk. Guðlaugur hafði þann háttinn á við fjárgeymsluna, að halda fénu í smáhópum, dreift um allt beitilandð. Í illviðrum reyndi hann að halda hverjum hópi í sínu skjóli. Vann hann nú dyggilega að því ásamt hundi sínum að koma fénu í afdrep, og gekk það vonum framar. Dagur tók að styttast og alltaf snjóaði meir og meir. Skall nú á iðulaus stórhríð og hörkugaddur. Þá var Guðlaugur staddur í svonefndu Fjárskjólshrauni, langt vestur af Herdísarvík. Þarna barðist Guðlaugur nú upp á líf og dauða í grenjandi stórhríðinni og hafði ekkert nema vindstöðuna að styðjast við. Hinn nístandi sviði í fótunum kvaldi hann mikið. Brátt dró úr sviðanum aftur, en ekki vissi það á gott, eins og síðar kom fram. Verður nú fljótt farið yfir sögu. Guðlaugur náði heim með guðshjálp. Gaddfreðinn, fannbarinn og kalinn á fótum komst hann heim til bæjar að lokum. Var honum vel fagnað, hresstur á volgri nýmjólk, og ekki var seppa heldur gleymt, sem líka var illa á sig kominn. Fötin voru rist utan af Guðlaugi, bali með vatni í settur við rúm hans og ísmolar settir í vatnið. Síðan var Guðlaugi hjálpað við að koma fótunum ofan í balann.
Þannig sat Guðlaugur alla jólalóttina — og langt fram á næsta morgun. — En húsbóndinn, Þórarinn Árnason, vakti með fjármanni sínum og stytti honum stundir með því að tefla við hann allan tímann. En vegna þessarar hörkumeðferðar hélt fjármaðurinn heilum fótum sínum.

Sókrates

Hlín Johnson

Guðlaugur var mikill og góður hestamaður. Sat hann hest sinn vel og bar áseta hans af. Margar ferðir fórum við Guðlaugur saman á hestum austur í Selvog. Fórum við þá oftast um Krýsuvík og Herdísarvík. Eitt sinn sem oftar gistum við í Herdísarvík hjá frú Hlín Johnson. Fengum við frábærar móttökur eins og alltaf áður. Það var á sunnudagsmorgni. Við vorum búin að drekka kaffi og vorum að rabba saman. Um þetta leyti var frú Hlín að koma sér upp fjárstofni í Herdísarvík. Talið barst því að fjárgeymslu. Sneri Hlín sér að Guðlaugi og sagði: „Það ber sannarlega vel í veiði, að þú ert hér staddur, Guðlaugur minn. Þú hefur mann a bezta og mesta þekkingu á öllu því, sem lýtur að sauðfjárækt á jörð eins og Herdísarvík. Blessaður, miðlaðu mér nú af þekkingu þinni og reynslu. Láttu mig nú heyra með nokkrum vel völdum orðum um allt hið mikilvægasta í sambandi við fjárbúskap, miðað við þær sérstöku aðstæður, sem hér eru fyrir hendi í Herdísarvík.“ Guðlaugur brosti lítið eitt, dró alldjúpt andann, reisti höfuðið svolítið og hóf síðan mál sitt. Hann talaði í fullar 20 mínútur samfleytt. Kom hann víða við, en ekki ætla ég mér þá dul að endursegja efni ræðunnar. Ég mun heldur ekki gera tilraun til þess að lýsa því, hvernig Guðlaugi tókst. Þess í stað þykir mér rétt að lofa ykkur að heyra álit dómbærari manns. Held ég, að hann verði vart fundinn. Maður þessi hlustaði ásamt okkur Hlín á ræðu Guðlaugs. Þetta var skáldið og spekingurinn Einar Benediktsson.
Þegar Guðlaugur hafði lokið ræðu sinni, vorum við öll þögul nokkra stund, eins og oft vill verða, þegar men n upplifa eitthvað, sem sker sig úr um það venjulega. En allt í einu lyftir skáldið hendi sinni, leggur hana þéttingsfast á öxl Guðlaugs og segir hægt og skýrt: „Ég þakka þér, Sókrates.“
Hér lýkur svo Guðlaugs þætti Gjáhúsa.
Óska ég svo öllum gleðilegra jóla og góðs nýárs.“ – Friðfinnur V. Stefánsson.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, Friðfinnur V. Stefánsson; Guðlaugs þáttur Gjáhús, jólablað 1957, bls. 17-19.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Gvendarsel

Í „Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði 1998 er m.a. fjallað um gamlar leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur; Vatns- eða Dalaleið, sem voru í raun sitthvor leiðin vestan og austan Kleifarvatns millum Krýsuvíkur og Kaldárssels.

Vatns- eða Dalaleið

Breiðdalur

Breiðdalur.

„Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki farið áður. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara [þessa] leið en áður var. …Það er þá fyrst, að þessi leið er stysta og beinasta lestarleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðastaða og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún er nokkrum annmörkum háð, – og hún gat verið hættuleg. Þessi leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar verið tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrfyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávalt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vega á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

…Á þessari leið gátu ísar verið ótryggir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun vikið að. …Landi því, sem að Kleifarvatni liggur, er þannig háttað í höfuðdráttum: Fyrri suðausturenda vatnsins er móbergshöfði, sem gengur í vatn fram og heitir Geithöfði. Þá nokkru lengra til suðausturs er hæðarbunga, sem Gullbringa heitir. Þá tekur við grámosahraun, sem steypst hefur fram af fjallinu norðan Vörðufells og runnið í mjóu belti í vatn fram og heitir Hvammahraun. Eftir það tekur Vatnshlíðin við, brött og nokkuð grafin af giljum, sem ófær er hestum, og þar með lokast leiðin austan Kleifarvatns, því að vatnið liggur upp að hlíðinni, en stórgrýtt er í henni við landið. Innst í Vatnshlíðinni eru Hrossabrekkur, brattar og giljóttar. Þegar ufir þær er komið, telst, að komið sé inn fyrir Kleifarvatn að austan.

Kleifarvatn

Innri-Stapi.

Vestan Kleifarvatns liggur Sveifluháls, brattur, tildóttur og svipmikill. Tveir stapar skaga austur úr hálsinum út í vatnið og heita Syðri- og Innri-Stapi. Vegurinn liggur upp á stöpunum, em milli þeirra gengur klettarani fram að vatninu, en til þess að menn kæmust leiðar sinnar með vatninu, varð að komast framan undir þessum klettarana, en til þess að hægt væri að komast þar með klyfjahesta, varð vatnið að vera allmikið fjara. – eða lítið vaxið ef í vexti var. Nokkru innar en Innri-Stapi gengur hálsinn eða hamrar úr honum þverhnípt í vatn á litlum spöl. Þarna er hin svonefnda Hella. Þegar hátt er í vatninu, náði það upp í Helluna, er stórgrýtt er í botnin undir hamrinum. Einstigi, aðeins fyrir gangandi menn, lá eftir Hellunni um 10-20 , ofar vatni, en svo var stígur þessi tæpur, að ekki fóru hann nema stöku menn, og það aðeins þegar autt var, og þá sumir á sokkaleistum, og lofthræddir fóru þar alls ekki. Þegar inn fyrir Helluna kom, voru torfærur á Vatnsleiðinni yfirstígnar. Að öðru leyti var þessi leið sem hér segir: Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana. …Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn á Blesaflöt…. Af áður umgetinni hæð innan Blesaflatar liggur gatan inn í Breiðdal, sem sendinn er að sunnanverðu, en að austan og norðan samfelldur, harðvellisgróður og sem tún yfir að líta. Upp úr norðurbotni Breiðadals er farið yfir allbratt malhaft, og þegar norður af því kemur, er komuð í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og svo má heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið. – Slysadal. …Þegar Slysadal sleppur, er komið í Bakhlíðar. Liggur gatan með þeim, um smáhæðir og daladrög, þar til komið er á Gvendarselshæð. Þar var haft í seli á síðustu öld, og sagt hefur verið, að þar hafi svo þykkur rjómi verið á trogum, að haldið uppi vænni silfurskeið, aðrir segja skaflaskeifu. Frá Gvendarseli er stutt, þar til farið er ofan af Undirhlíðum, í Kúadali, og þá komið á Krýsuvíkurleið, aðalleið, skammt sunnan Kaldárssels.“

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, Fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 271-272.
-Ólafur Þorvaldsson; Ábók 1943-48, bls. 91-94.

Vatns- og Dalaleið

Vatns- og Dalaleið.

Hrauntungustígur

Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, Fornleifastofnun Íslands 1998.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

„Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg, var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum (Ófriðarstöðum), um hlaðið í Ási, oft gist þar, ef menn t.d. komu frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðuastur með honum, lagt á hraunið frá suðurhorni hans, fyrst um gamalt klapparhraun, þar til komið var á nýrra brunabelti, sem á sínum tíma hefur runnið ofan á gamla hraunið. Gegnum nýja brunann, liggur stígur eða gata, sem enginn veit, hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum. Í nýja braunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir litlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir.
Hólmar þessir heita Snókalönd. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til, og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóði liggur norður í Snókalönd, nokkru austar en þar, sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. …Gatan út í Snókalöndin bendir á nokkra umferð þangað, og fylgir maður brunanum, þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum, sem farið er þá að nálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs, þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn, og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðarveginn, skammt suður af Sandfellsklofa. Stórhöfðastíginn fóru stunum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við, þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn, því að við það fell [er] mikill krókur, inn með Undirhlíðum um Kaldársel, en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígurinn sé frekar slitróttur, var gott að láta hestinn njóta hægu ferðarinnar, en jafnsnemmt komið til Hafnarfjarðar eða fyrr, þrátt fyrir stirðari veg.“

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

„Þeir, sem ætluðu sér Hrauntungustíg frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, fóru um Jófríðarstaði (Ófriðarstaði) að Ási, þaðan um Skarð vestan Ásfjallsaxlar, yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness, undir vesturenda þess, austur að stórum steini flötum ofan sem er þar stakur á jafnsléttu. Frá honum er farið suður á gamalt helluhraun um 10 mínútur, þá tekur við Nýibruni eða Háibruni, sem runnið hefur ofan á eldra hraunið. Gegnum brunann er, eins og um Stórhöfðastíg, rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðum tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera, veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessar vegabætur, og eru þær sennilega fyrst vegabætur, sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur. Þó kann að vera, að stígurinn gegnum Ögmundarhraun, sé eldri, …og þá sennilega þær fyrstu.
Gegnum Hábrunann er sem næst 20 mín. gangur með lest, og þegar á suðurbrún hans kemur, ganga til beggja handa suður úr brunanum tvær hrauntungur, sem stígurinn liggur greiður á milli, og ná þessar tungur spölkorn suður á svokallaðan Almenning, sem er nú sauðfjárhagar Hraunjarðanna, en hefur fyr á öldum, eins og nafnið bendir til, verið frjáls til nýtingar fæeiri en Hraunabænda, t.d. til kolagerðar, og sjást þar enn allvíða leifar gamalla kolagrafa. Af brunatungum þessum tel ég víst, að stígurinn hafi fengið nafn, Hrauntungustígur. Eftir að suður úr Hrauntungunum kemur, er óglöggt, sums staðar jafnvel engin gata, og verður því sjónhending að ráða, enda torfærulaust yfir kjarrið vaxið lágahraun, en allt á fótinn. Þegar kemur upp á Almenninginn, fer maður nálægt gömlu selstæði, sem Gjásel heitir, og er þar venjulega vatn. …Nokkru austar er annað selstæði, sem Fornasel heitir. Þegar suður á há-Almenning kemur og útsýnið víkkar til suðursm sést hár klettahryggur í suðvestur, og eru það Sauðabrekkur. Norður af þeim er farið yfir síða og djúpa gjá, á jarðabrú, Sauðabrekkugjá, eftir það er komið á svonefnda Mosa, sem er flatt mosahraun, og er gata þar allglögg. Þá er hár brunahryggur, sem liggur frá norðri til suðurs á vinstri hönd, og heitir Hrútagjá, Hrútadalir þar suður af. Þegar Mosunum sleppir, hefur maður Mávahlíðarhnjúk og Mávahlíðar skammt sunnar á hægri hönd. Móti Mávahlíðum syðst er komið í Hrúthólma; er það langur, en fremur þunnur melhryggur, nokkuð gróinn neðan, öllum megin, smávin á þessari brunaeyðimörk. Þegar úr Hrúthólma er farið, taka við sléttar hraunhellur, ágætar yfirferðar. Sunnarlega á þessum hellum er stakt móbergsfell; Hrútafell. Þegar á móts við það kemur, en það er nokkuð til hægri við stíginn, er stutt þar til komið er á sumarveg Krýsuvíkur, skammt norðan Ketilsstígs. Þessi leið, sem hér hefur lýst verið að nokkru, var [að] heita má eingöngu farin af gangandi mönnum og stundum ráku Krýsvíkingar fé til förgunar þess leið.“

Báðar framangreindar leiðir eru bæði vel greini- og aðgengilegar í dag.

Heimild:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, Fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 267-268.
-Ólafur Þorvaldsson; Árbók 1943-48, bls. 98-88.
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, Fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 268-269.
-Ólafur Þorvaldsson; Árbók 1943-48, bls. 89-90.

Stórhöfðastígur - Hrauntungustígur

Stórhöfða- og Hrauntungustígur.

Flókaklöpp

Í „Svæðisskráningu Hafnarfjarðar 1998“ er m.a. fjallað um „Rúnaklappir“ og „Minorstein“ á Hvaleyri.

Rúnaklappir
Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1998.„Heiman frá bæ og niður að sjó lá sjávargatan, sem einnig nefndist Kotgata. Í norður frá bænum var vestasta hjáleigan, vesturkot, og kirngum það Vesturkotstún. Rúnaklappir voru grágrýtisklappir vestan kotsins.“ Sjá meðfylgjandi grein Sveinbjörns Rafnssonar.
„Bandrúnir og flúr var þarna. Sérstaklega var einn steinn mikið markaður. Hann nefndist Flókasteinn. Töldu sumur, að Hrafna-Flóki hefði skilið þarna eftir sig nafnspjaldið sitt.“

Áður en lengra er rakið, þykir mér rétt að minnast á svo nefnda „rúnasteina“, á Hvaleyrarhöfða. Þesir steinar hafa orðið mönnum furðumikið umhgsunarefi. Þeir eru úr grágrýti, fjórir talsins, og standa upp úr nýræktinni á höfðanum (Í Vesturkotslandi). Á hæsta steininum, sem flest táknin eru höggin í, má lesa þessi ártöl á fletinum, sem upp snýr; 1657 (á þrem stöðum), 1673, 1681, 1697 og 1781; auk þess er þar 87, sem á annað hvort að vera 1687 eða 1787. Á norðurhlið sama steins eru þessi ártöl, sem lesin verða með vissu; 1678, 1681, 1707 og 1723, en auk þess er það höggið A 81 (=Anno 1681?), A 91 (=Anno 1691?) og 17C (=1700).

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Á allstórum bungumynduðum grásteini norðvestur af fyrr nefndum steini má á fjórum stöðum lesa ártalið 1777 (risturnar eru þar alls fjórar). Á flötum kletti suður af þeim síðast nefnda eru tvær ristur, en ekkert ártal. En á flötum steini skömmu austar stendur ártalið 1657 og An 57 (=Anno 1657?). Mest af ristum þessum eru fangamörk, en auk þeirra eru bandrúnir. Sums staðar eru upphafsstafirnir inn í hringjum eða ferhyrndum reitum, og á einum stað vottar fyrir rós eða útflúri undir þrem upphafsstöfum, og neðan undir rósinni er áfastur ferhyndur reitur með áratli innan í. Jónas Hallgrímsson skál athugaði þessa steina gaumgæfilega sumarið 1841. … Síra Árni Helgason getur um „rúnasteinana“ á Hvaleyri í sóknarlýsingu sinni. Segist hann hafa skoðað þá og hafa getað lesið þar mörg nöfn. Þetta er því einkennilegar til orða tekið, sem engin nöfn eru þarna, rituð bókstöfum, heldur aðeins upphafsstafir.“

Minorsteinn

Flókasteinn

Flókasteinn og aðrir á Hvaleyri.

„Annar steinn var þarna rétt hjá með stöfum og tölum. Þar var ártalið 1777. En það ár var hér Minor sjóliðsforingi, norskur, og því er steinnin nefndur Minorsteinn.“ Áður en lengra er rakið, þykir mér rétt að minnast á svo nefnda „rúnasteina“ á Hvaleyrarhöfða. Þessir steinar hafa orðið mönnum furðumikið umhusgunarefni. Þeir eru úr grágrýti, fjórir talsins, og standa upp úr nýræktinni á höfðanum (í Vesturkotslandi), Á hæsta steinium, sem flest táknin eru höggin í, má lesa þessi ártöl á fletinum, sem upp snýr; 1657 (á þremur stöum), 1673, 1681, 1697 og 1781; auk þess er þar 87, sem annað hvort á að vera 1687 eða 1787. Á norðurhlið sama steins eru þessi ártöl, sem lesin verða með vissu; 1678, °1681, 1707 og 1723, en auk þess er það höggið A 81 (=Anno 1681?), A 91 (=Anni 1691?) og 17C (=1700). Á allstórum bugumynduðum grásteini norðvestur af fyrr nefndum steini má á fjórum stöðum lesa ártalið 1777 (risturnar eru þar alls fjórar). Á flötum kletti suður af þeim síðast nefnda eru tvær ristur, en ekkert ártal. En á flötum steini skömmu austar stendur ártalið 1657 og An 57 (=1657Ð). Mest af ristum þessum eru fangamörk, en auk þeirra eru bandrúnir. Sums staðar eru upphafsstafirnir inn í hringjum eða ferhyrndum reitum, og á einum stað vottar fyrir rós eða útflúri undir þrem upphafsstöfum, og neðan undir rósinni er áfastur ferhyrndu reitur með ártali innan í. Jónas Hallgrímsson skáld athugaði þessa steina gaumgæfilega sumarið 1841. .. Síra Árni Helgason getur um „rúnasteinana“ á Hvaleyri í sóknarlýsingu sinni. Segist hann hafa skoðað þá og hafa getað lesið þar mörg nöfn. Þetta er því einkennilega til orða tekið, sem engin nöfn er þarna, rituð bókstöfum, heldur aðeins upphafsstafirnir.“

Sjá meira HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning Hafnarfjarðar 1998
-Ö-Hvaleyri B, 2; SS Saga Hafnarfjarðar, 27-28.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Selvogsgata

Í „Svæðisskráningu fyrir Hafnarfjörð 1989“ er m.a. fjallað um Kerlingarskarðsveg, Grindaskarðsveg, tóftina í Helgadal og hellana í Setbergs- og Hamarskotsseli:

Kerlingarskarðsvegur

Kerlingarskarðsvegur

Kerlingarskarðsvegur.

„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindarskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. …Frá Hafnarfirði, upp á móts við Lækjarbotna, er aðalleið Krýsuvíkur farin. Þegar í Lækjarbotna kemur, er farið yfir mjótt hraunhaft, norðvesturtagl Gráhelluhrans. Að því slepptu er komið á moldargötur, með Gráhelluhrauni að norðan, en til vinstri handar fyrst allstórt melholt, sem Svínholt heitir. Milli þess og Setbergshlíðar liggur dalur til norðurs og heitir Oddsmýrardalur, Þegar Setbergshlíðar þrýtur, er farið yfir þar, sem hraunið hefur hellst fram, norðan Klifaholta, og heitir þá Smyrlahraun þar efra. Hraun þessi munu mest úr Búrfelli runnin. Ofarlega í hraunbelti því, sem áður getur og yfir er farið, áður en upp á móts við Klifholt kemur, er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárból frá Setbergi, meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stunduð. Langur gangur er til aðalhellisins og nokkuð niðurgegnt of vildi gólfið blotna, þegar fé kom brynjað inn. Skal nú haldið áfram ferðinni. Þegar upp á hraunbeltið kemur, sem umgetnir hellar eru í, er aftur komið á moldargötur, og er þá Smyrlarbúðarhraun til vinstri, en Klifsholtin, nokkrir smáásar, sem hraunið hefur runnið kringum, á hægri hönd. Fyrst er Sléttuhlíð, þá Smalaskáli ofar og austar. Þegar brunann þrýtur, til vinstri, er hæð eða ás með aflíðandi halla móti vestri; að austan eru brattar skriður en hamrabelti með smápöllum hið efra. Þetta er Smyrlabúð. …Við suðurenda Smyrlabúðar þrýtur Klifsholt og tekur við allgreiðfært klaparhraun, þar til í Helgadal kemur, en það er smádalur með uppssprettuvatni, enda skammt frá upptökum Kaldár. [Þar er Helgadalsrúst.] …Þegar upp úr Helgadal kemur, taka við sléttar melgötur að Valahnjúkum, sem eru tindóttir móbergshnjúkar norðan af Helgafelli. …Þegar Valahnjúkum sleppir, er skammt í Mygludali, Liggja þeir undir suðvesturbrún Húsfellsbruna. Þaðan er skammt til Búrfells, sem fyrr er getið. …Þegar haldið er upp frá Myngludölum, er lagt á hraun, sem nær óslitið upp að fjalli. Eftir um þriggja stundarfjórðunga lestargang, er farið er yfir norðurtögl á tveimur melöldum, sem standa upp úr braunanum, og eru þar Kaplatór.

Selvogsgata

Grindarskarðsgata á Hellum.

…Frá efri Kaplató upp að fjalli liggur vegurinn mestmegnis um sléttar hraunhellur, og er sá kafli hraunsins nefndur Hellur. Má þar víða sjá djúpar götur sorfnar ofan í helluna af aldarumferð. …Upp fjallið liggur vegurinn í krókum og sneiðingum, uns upp er komið á Kerlingarskarð. Allbratt er upp að fara, einkum neðst og efst.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði,

Þegar komið er undir efstu brekkuna er dalverpi lítið í fjallið norðan götu. Þar sést enn kofarúst, leifar af skýli, sem byggt var í tíð brennisteinsvinnslunnar í Brennisteinsfjöllum, og var „sæluhús“ þeirra, sem fluttu brennisteininn á hestum til Hafnarfjarðar. Vegur sá, sem nú um langt árabil hefur verið farinn þarna yfir fjallið, liggur um Kerlingarskarð. Annar slóði er nokkru norðar og var nefndur Grindaskarðsvegur.

Mygludalir

Mygludalir.

Fyrir löngu mun vera hætt að fara þann veg nema helst lausgangandi menn að vetri til, ef harðfenni var mikið í brún Kerlingaskarðs, því að þar eru hærri og skarpari brúnir en á nyrðri slóðinni. …Hæsti hryggur fjallsins er mjór, og fer rétt strax að halla austur af, en ekki er það unfanhald langt, svo sem hálfrar stundar gangur, þar til landið liggur jafnhátt, og nær það að Hvalhnjúk og Ásum. Á háfjallinu norðan vegar er Stórkonugjá. Er það harungjá mikil, sem hraun hefur runnið efir frá gömlum eldgíg þar uppi. Austur af Stórkonugjá, skammt fyrir norðan veginn, er [Kóngsfell]. Þar komu saman lönd Gullbringusýslu og Árnessýslu. Þegar komið er austur að fjallshryggnum er komið að afarstórri hraunbreiðu. Tvær vörður eru þar við götuna, og skiptast þar leiðir, liggur austasta leiðin til Selvogs, miðleiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur, en sú þriða, sem nú er sjaldan farin, liggur til Brennisteinsfjalla, suður með Draugahlíð. …“

Grindaskarðsvegur

Grindarskörð

Grindarskarðsvegur.

„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafni Grindarskarðs- eða Kerlingarskarðsvegur. Frá Hafnarfirfði, upp á móts við Lækjarbotna, er aðalleið Krýsuvíkur farin. Þegar í Lækjarbotna kemur, er farið yfir mjótt hraunhaft, norðvesturtagl Gráhelluhrauns. Að því slepptu er komið á mordargötur, með Gráhelluhrauni að norðan, en til vinstri handar fyrst allstórt melholt, sem Svínholt heitir. Milli þess og Setbergshlíðar liggur dalur til norðurs og heitir Oddsmýrardalur. Þegar Setbergshlíðar þrýtur, er farið yfir þar, sem hraunið hefur hellst fram, norðan Klifholta, og heitir þá Smyrlahraun þar efra. Hraun þessi munu mest úr Búrfelli runnin. Ofarlega í hraunbelti því, sem +áður getur og yfir er farið, áður en upp á móts við Klifholt kemur, er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárbólk frá Setbergi, meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stunduð. Langur gangur er til aðalhellisins og nokkuð niðurgegnt og vildi gólfið blotna, þegar féð kom brynjað niður. Skal nú haldið áfram ferðinni. þegar upp á hraunbeltið kemur, sem umgetnir hellar eru í, er aftur komið á moldargötur, og er þá Smyrlarbúðarhraun til vinstri, en Klifsholtin, nokkrir smáásar, sem hraunið hefur runnið í kringum, á hægri hönd. Fyrst er [Sléttahlíð], þá Smalaskáli ofar og austar. Þegar brunann þrýtur, til vinstri er hæð eða ás með aflíðandi halla móti vestri; að austan eru brattar skriður, en hamrabelti með smápöllum hið efra. Þetta er Smyrlabúð.

Setbergsselshellir

Í Setbergshelli.

…Við suðurenda Smyrlabúðar þrýtur Klifsholt og tekur við allgreiðfært klappahraun, þar til í Helgadal kemur, en það er smádalur með uppsprettuvatni, enda skammt frá upptökum Kaldár. …Þegar upp úr Helgadal kemur, taka við sléttar melgötur að Valahnjúkum, sem eru tindóttir móbergshnjúkar norður af Helgafelli. …Þegar Valahnjúkum sleppir, er skammt í Mygludali. Liggja þeir undir suðvesturbrún Húsfellsbruna. Þaðan er skammt til Búrfells, sem fyrr er getið. …Þegar haldið er upp úr Mygludölum, er lagt á hraun, sem nær óslitið upp að fjalli. Rftir um þriggja stundarfjórðunga lestargang, er farið yfir norðurtögl á tveimur melöldum, sem standa upp úr brunanum, og eru það Kaplatór. …Frá Efri-Kaplató upp að fjalli liggur vegurinn mestmegnis um sléttar hraunhellur, og er sá kafli hraunsins nefndur Hellur. Má þar víða sjá djúpar götur sorfnar ofan í helluna af aldarumferð. …Upp fjallið liggur vegurinn í krókum og sneiðingum, uns upp er komið [norðan Konungsfells. Þaðan er vegurinn varðaður niður að Litla-Kóngsfelli og áfram niður í Strandardal]…

Helgadalur – tóft

Helgadalur

Helgadalstóftin – uppdráttur ÓSÁ.

„Tóft eru í dal sem heitir Helgadalur og er skammt frá Skúlatúni, sjá garð, og liggur Grindarskarðsvegur um dalinn hjá rústinni. Ekki [er] ljóst í landi hvaða jarðar þessi dalur er en þetta er ekki langt frá Hafnarfirði. Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. En hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál. 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhlið suðurtóftarinnar við suðurgaflinn. Á norðurtóftinni [má] sjá ógjörla dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér aðeins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverju frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið.“

Hamarkotssel – Setbergssel – Ketshellir/Kershellir/Kjötshellir

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

„Selstöðu eigna nokkrir jörðinni í Garðakirkjulandi ar nærri sem heitir Sléttahlíð hjá helli nokkrum og skulu þar kallast enn í dag Hamarskotssel.“ „Í Sléttuhlíð var Hamarskotssel hjá helli skammt upp í hrauni, nefnt á hellum.“
„Selstöðu á jörðin [Setberg] þar sem heitir Kietsheller, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema í gjá, sem sólhiti bræðir.“ „Úr Gráhellur liggur línan í Setbergssel. …Landamerkjalínan liggur í Markavörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots. Ketshellirinn liggur örlítið hærra, og er [þar] líka að finna seljarústir og selgerði, og meira er hér um rústir. Ketshellirinn er jarðfall, 20 metra að ummáli, nær hringlaga. Hann er stór og rúmgóður, hátt undir loft. Austur og upp úr honum er afhellir, nefnist hann síðan um 1910 Hvatshellir.“ „Ofarlega í hraunbelti því, sem áður getur og yfir er farið, áður en upp á móts við Klifsholt kemur, er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárskjól frá Setbergi, meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeist mest stunduð…“ „Upp í grasivöxnu holti við jaðar Gráhelluhrauns.“ …þar til kemur að Hánefi, innst í hlíðinni og héðan liggur gatan í selið. Þessi staður er reyndar einnig kallaður Ketshellir, Kershellir og Kjötshellir.“ „Um 20 m langur og 3-4m breiður hellir með bogadregnu þaki. Lofthæð í miðjum helli/göngunum 1.6-2.2m. Í miðjum hellinum hefur verið hlaðið skilrúm. Op er í báðum endum og hefur verið hlaðið upp í þau til að þrengja þau.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Op vesturenda er um 2m breitt að neðan en mjókkar upp í 1.1m að ofan. Hæð er um 2.1-2.2m. Aðdragandinn að inngani er nokkuð brattur. Og austurenda er um 1.3 að neðan en 80cm að ofan. Hæð er 195. Aðdragandi að inngangi er nokkuð brattur. Mikil sauðaskán er á gólfi þó mun meira austan skilrúmsins þar sem hæðarmismunur er um 30cm. Heðsla í A enda er S laga og myndar e.k. göng eða skjólgarð utan við sjálft opið. Hleðslan er um 7m löng. Þar sem nú er hæst er hún 180cm en lækkar í 70cm. Ofan á þessa hleðslu hafa verið lagðar nokkrar stórar hellur sem mynda þak milli hleðslu og hellis. Hleðsla í V enda myndaði um 90° horn, þ.e. að hluta til göng eins í hellinn og að hluta til að loka hellismunnanum. Hæð nú 120[cm] en hæð hellismunnans er 180[cm]. Breidd 290-300cm, lengd (í inngangi) 240 cm. Skilrúm er 370[cm] breitt. Hæð eins og hún er nú austan megin 120cm og niður í 73cm. Grunnur hellisins er örlítið bogadreginn til suðurs. Elísabet Reykdal segir að þessi hellir hafi alltaf verið kallaður Kjetshellir, en Gísli Sigurðsson kallar han Selhelli, en segir Kjetshelli vera helli skammt frá sem Elísabet kveður heita Hvatshelli. Hellinum var skipt milli Setbergs og Hamarskots.“

Sjá meira um hellana HÉR.

Heimild:
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1989, bls. 274-276.
-Árbók 1993-48, 96-99.
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1989, bls. 276-277.
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1989, bls. 278.
-Árbók 1908, 10-11.
-JÁM III, 174-175; Ö-Garðakirkjuland, 5.
-Þjóðminjaskráning í Hafnarfirði, 72.
-Árbók 1943-48, 96.

Grindaskarðsvegur

Grindarskarðs- og Kerlingaskarðsvegir.

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir/Þorláksstaðir var fyrrum bær ofan Hafnarfjarðar, milli Hvaleyrar og Áss. Í dag er fátt, sem minnir á bæinn því bæði hefur verið byggt á gamla bæjarstæðinu og hraðbraut; Reykjanesbrautin, verið lögð í gegnum jörðina. Sorglegt dæmi um hvernig fornleifar hverfa undir framkvæmdir vegna vanskráningar og áhugaleysis hlutaðeigandi aðila. Þó má enn sjá leifar tveggja útihúsa suðaustan mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Strandgötu; austan Ástorgs.

Í Morgunblaðinu sunnud. 7. júlí 1918, má sjá eftirfarandi auglýsingu:
Þorgeirsstaðir„Jarpur hestur , 6 vetra gamall, hefir tapast frá Þorgeirsstöðum við Hafnarfjörð. Mark: blaðstýft aftan hægra, biti fratnan, og blaðstýft framan vinstra. Finnandi beðinn að skila honum til Þorgeirs Þórðarsonar, Þorgeirsstöðum, Hafnarfirði.“

Í Morgunblaðinu föstud. 16. jan. 1920 er jörðin auglýst til sölu:
„Til sölu er býlið »Þorgeirsstaðir« við Hafnarfjörð ásamt meðfylgjandi erfðafestulandi, sem er 13,5 dagsláttur, þar af eru 7 dagsl. ræktaðar í túni sem gefur af sér ca. 100 hesta af töðu.
ÞorgeirsstaðirBýlinu fylgir íveruhús 10×10 1/2 alin, heyhús 10×10 1/1 al. og peningshús með safnþró undir. alt bygt úr hlöðnum grásteini, og áfast hvað öðru. Beitiréttur getur fylgt.
Semja ber við eiganda og ábúanda Þorgeir Þórðarson, Þorgeirsstöðum.“

Í Morgunblaðinu fimmtud. 9. des. 1926 er jörðin enn auglýst til sölu:
„Jörðin Þorgeirsstaðir, við Hafnarfjörð, fæst til kaups og ábúðar í næstu fardögum. — Túnið gefur af sjer um 100 hesta. Jörðinni fylgir íbúðarhús, hlaðið, fjós og safnþró, alt úr steini.
Þorgeirsstaðir—Lysthafendur snúi sjer til eigandans Brynjólfs Pálssonar, Þorgeirsstöðum eða Sigurðar Kristjánssonar, kaupfjelagsstjóra í Hafnarfirði.“

Og í Morgunblaðinu miðvikud. 27. nóv. 1929, birtist enn ein sölutilkynningin:
„Jörð til sölu.
Býlið Þorgeirsstaðir við Hafnarfjörð er til sölu og laust til ábúðar frá næsta vori. Túnið gefur af sjer 100 hesta. — Allar byggingar eru úr steini. Þar á meðal fjós fyrir 5 kýr, haughús og hlaða sem tekur 200 hesta.
ÞorgeirsstaðirAllar nánari upplýsingar viðvikjandi sölunni gefur Björn Jóhanneson.
Vesturbrú 9. Hafnarfirði. Sími 87.“

Í Morgunblaðinu laugard. 12. nóv. 1962, er auglýsing:
„Jörð til sölu.
Jörðin Þorgeirsstaðir við Hafnarfjörð, ásamt íbúðar og peningshúsum úr steini, er til sölu. Túnið gefur af sjer ca. 120 hesta af töðu.
Upplýsingar gefur Sigurður Kristjánsson, Hótel Hafnarfjörður, sími 24.“

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, Jólablaðinu 1965, segir:

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir – kort frá 1908.

„Jófríðarstaðir eru býli á Jófríðarstaðahæð næst fyrir utan Kvíholt. Jörðin hét að fornu Ófriðarstaðir (nafninu breytt 1875), og mun það nafn eiga rætur að rekja til einhvers ófriðar, sem hér geisaði fyrr á öldum, en hér var róstusamt á 15. og 16. öld.
Þá liggur bílabrautin sunnan undir Hvaleyrarholti, en þangað hefur kaupstaðurinn teygt byggð sína á síðustu árum. Sunnan vegar er Ásfjall með mælingavörðu á kolli. Undir því stendur bærinn Ás ofan við Ástjörn. Brautin liggur um tún Þorgeirsstaða sunnan við Hvaleyrarholt. Bærinn hét áður Þorláksstaðir, og fylgir því nafni sú sögn, að þar á holtinu hafi að fornu staðið kapella helguð heilögum Þorláki.“

Í Fornleifakönnun fyrir Reykjanesbraut árið 2001 segir:

Þorgeirsstaðir

Staðsetning Þorgeirsstaða skv. fornleifaskráningu um staðsetninu Reykjanesbrautar.

„Á há-Hvaleyrarholti, austan vegarins, er býlið Þorgeirsstaðir. Í gamla daga var þar nefnt Þorlákstún, gömul móabörð með þýfi og garðlögum.“ „Framan í því var staður nefndur fyrrum Þorláksstaðir. Þar eru sagnir um, að verið hafi kapella. Seinna nefndist hér Þorlákstún og þá Þorgeirstún og nú Þorgeirsstaðir.“ segir í örnefnalýsingu. Þorlákstún er nú klofið af Reykjanesbraut. Þorlákstún var sunnan við vestustu íbúðarhúsin sunnan Reykjanesbrautar. Sjálft býlið hefur horfið vegna íbúðarhúsabyggðar norðan Reykjanesbrautar. Grasi vaxið hraun og enn sjást leifar girðingarinnar sem girti túnið af. Íbúðarhús eru norðan túnsins.
Hættumat: hætta, vegna vegagerðar
Heimildir: Ö-Hvaleyri A, 2; Ö-Hvaleyri B, 4″

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Hvaleyri segir:

Þorgeirsstaðir

Þorgeirsstaðir.

„Á há-Hvaleyrarholti, austan vegarins, er býlið Þorgeirsstaðir (25). Í gamla daga var það nefnt Þorlákstún (26), gömul móabörð með þýfi og garðlögum. Síðan tekur fjallið til og hækkar unz við tekur Ásfjall, er síðar getur (sjá Ás).“

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri segir:
„Suður og upp frá Hvaleyrartúnum liggur Hvaleyrarholt (72). Skammt sunnan við traðarhliðið, uppi í holtinu, var uppspretta, nefnd Heiðarbrunnur (73). Þar var gott vatn, en þraut í þurrkum og frostum. Hér hærra var komið að garðlaginu forna, sem lá ofan úr Hvaleyrarholtsklettum (74) vestur og niður af á sandinn og suður í Gjögur. Í klettunum, undir brúninni, var Hvaleyrarréttin (75), en uppi voru hjallarnir. Þangað var í fyrri daga borinn fiskur, kasaður og síðan þurrkaður. Hér nefndist einnig Hjallarétt (76), og var fé rekið að hér, þegar hin réttin hafði verið lögð niður. Syðst í þessum hluta Hvaleyrarholts var skógarítak Gufuneskirkju. Lægð var hér í holtinu, nefndist Skarðið (77). Þá tók við háholtið. Framan í því var staður nefndum fyrrum Þorláksstaðir (78). Þar eru sagnir um, að verið hafi kapella. Seinna nefndist hér Þorlákstún (79) og þá Þorgeirstún (80) og nú Þorgeirsstaðir (81).“

Heimildir:
-Morgunblaðið sunnud 7. júlí 1918, bls. 4.
-Morgunblaðið föstud. 16. jan. 1920, bls. 3.
-Morgunblaðið fimmtud. 9. des. 1926, bls. 2.
-Morgunblaðið miðvikud. 27. nóv. 1929, bls. 1.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar. Jólablað 1965 (24.12.1965), bls. 16-18.
-Reykjanesbraut 2 – Fornleifakönnun; Reykjanesbraut, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
-Örnefnalýsingi Ara Gíslasonar fyrir Hvaleyri.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri.

Þorgeirsstaðir

Útihús frá Þorgeirsstöðum.

Magnús Jónsson

Í handritaðri bók Magnúsar Jónssonar „Bær í byrjun aldar – Hafnarfjörður“, sem hann gaf út árið 1967 á eigin kostnað, kemur margt fróðlegt fram.

Úr formála fyrstu útgáfu segir:

Magnús Jónsson„Á þessu verki, sem hér kemur fyrir almenningssjónir, eru ýmsir ágallar. Er það fyrst til að taka, að betur hefði verið farið á að miða við aldamótin, heldur en við árslok 1902, sem hér er gert aðallega. Þar er því aðeins til að svara, að fyrsta hvatningin til þess starfs, var athugun á korti af Hafnarfirði frá því ári. Birtist það hér á bls. VI.
Þá er einnig fjölskyldunum sem hér er gerð grein fyrir, gert misjafnlega hátt undir höfði. Er það bæði til að dreifa ónógri þolinmæði við að leita upplýsinga, og að fallið er í þá freistni að skrifa sumt ýtarlegar en samkvæmt meginreglunni. Þessi meginregla er sú, að nefna fæðingarár og -stað húrráðenda, giftingarár o.fl.
Einnig börn og hverjum þau giftust, séu þau fædd fyrir árslok 1902. Síðan ýmist dánarár húsráðenda eða flutningsár burtu úr bænum, t.d. til Reykjavíkur, ef um það er að ræða. Á stöku stað er leiðst út í að láta nokkur hrósyrði eða aðrar athugasemdir falla, en allt slíkt eru vandrataðir vegir, sem ef til vill væru betur ófarnir.

Hafnarfjörður 1902

Hafnarfjörður 1903. Herforingjaráðskortið eins og það birtist í bókinni.

Reynt hefur verið að afla mynda, og hefðu þær orðið skýrari með venjulegri prentun. Myndastærðir eru tvær, annarsvegar húsráðendur og hins vegar gamalmenni, einhleypingar og fólk sem ekki var fyllilega komið út á lífið. Oft er aðeins til mynd af öðru hjónanna.
Ekki þarf orum að því að eyða, að margir hafa verið ónáðaðir með spurningum og fleiru í þessu sambandi. Er hér með beðið afsökunar á því og þökkuð góð fyyrirgreiðsla.
Stundum ber ekki saman kirkjubókum og svo upplýsingum þeirra sem næstir standa. Er hér farið eftir því fyrrnefnda, en ofan og aftan við þau orð eða ártöl er lítið spurningarmerki.“

Um aðra útgáfu segir:
„Um þessa útgáfu er lítið að segja. Hún er svipuð hinni fyrri, sem kom út fyrir jólin 1967 og seldist strax upp. Hér er þó reynt að búa svo um hnútana að myndirnar verði skýrari.“

Hafnarfirði 16.9. 1970
Magnús Jónsson.

Í bókinni eru taldir upp bæirnir í Hafnarfirði um og eftir aldarmótin 1900:

1. Vesturkot
2. Halldórskot
3. Hvaleyri – heimajörðin
4. Tjarnarkot
5. Hjörtskot
6. Óseyri
7. Bær Hannesar Jóhannssonar
8. Ásbúð I (Halldór Helgason)
9. Ásbúð II (Guðm. Sigvaldason
10. Melshús
11. Brandsbær
12. Flensborg
13. Hábær
14. Nýibær
15. Skuld
16. Litla kotið
17. Holt
18. Mýrarhús I (Guðlaug Narfad.)
19. Mýrarhús II (Guðm. Ólafsson)
20. Jófríðarstaðir I (Þorvarður)
21. Jófríðarstaðir II (Hólmfríður o.fl.)
22. Steinar
23. Hella
24. Hamar
25. Bær Sigríðar Ísaksd. (Miðengi)
26. Bjarnabær – á Hamri
27. Gíslashús – Bjarnasonar
28. Hús Ólafs Garða
29. Bær Jóns Vigfússonar
30. Björnshús – Bjarnasonar
31. Hamarskot
32. Stefánshús
33. Á Mölinni
34. Undirhamar
35. Klúbburinn

Hafnarfjörður 1902

Hafnarfjörður 1902.

36. Proppé-bakaríið
37. Barnaskólahúsið
38. Blöndalshús
39. Ögmundarhús
40. Hús Daníels frá Hraunprýði
41. Hús Eyjólfs Illugasonar
42. Hús Jóns Jónssonar Lauga
43. Hús sem Þorv. Erlendsson byggði
44. Hús Sveins Auðunssonar
45. Hús Vigfúsar Gestssonar
46. Dvergasteinn
47. Sýslumannshúsið
48. Brú
49. Kolfinnubær
50. Kofinn – Miðhús
51. Hús Sveins Magnússonar
52. Byggðarendi
53. Lækjarkot I (Ólafur Bjarnason)
54. Lækjarkot II (Anna K. Árnad.)
55. Bossakotshús – Grund
56. Á Hólnum – Balanum
57. Gerðið
58. Bali
59. Hús Kristins Vigfússonar
60. Bær Jóns Á. Mattiesson
61. Bær Einars Þorsteinssonar
62. Helgahús
63. Hús Kristbj. Guðnasonar – Hekla
64. Ragnheiðarhús
65. Hús Guðrúnar Sigvaldad. (Hagakot)
66. Bær Sigurðar lóðs
67. Bær Kristjáns Friðrikssonar
68. Bær Krístínar Þorsteinsdóttur
69. Elentínusarbær (áður Guðnabær)
70. Steinsbær (áður Bened.bær)
71. Þorkelsbær – Snorrasonar
72. Á Snösinni – Hábær
73. Bær Bjarna Markússonar
74. Gunnarsbær
75. Markúsarbær
76. Ingibjargarbær
77. Hús Hans D. Linnet
78. Brúarhraun
79. Jörgínarbær
80. Efra Brúarhraun

Magnús Jónsson

Bæjarlisti bókarinnar I.

81. Arahús
82. Hús Einars Jóhannessonar
83. Hendrikshús
84. Hraunprýði
85. Ólafsbær – Knútsbær
86. Bær Jóns Sigurðs. (Hraungerði)
87. Jörundarhús
88. Hús Hansens kaupmanns
89. Beykishúsið gamla?
90. Theodórshús
91. Filippusarbær
92. Bær Sigríðar Steingrímsd.
93. Bær Jóhanns Björnssonar
94. Stundum nefnt Hansensbær
95. Á Hól
96. Þorklesbær – Jónssonar
97. Þorlákshús – á Stakkstæðinu
98. Finnshús
99. Brekkubær (?) (Þórður Björnsson)
100. Hús Jóns Steingrímssonar
101. Efstakot(ið)
102. Hús Steingríms Jónssonar
103. Klettur (Þorst. Þorsteinssonar)
104. Níelsarhús
105. Bær Ólafs Sigurðssonar
106. Daðakot (Magnús Auðuns.)
107. Hraun
108. Bær Erlendar Marteinssonar
109. Illugahús (síðar Kóngsgerði)
110. Veðrás
111. Sigmundarhús
112. Krókur
113. Oddsbær
114. Hús Jóns Þórðars. frá Hliði
115. Flygeringshús
116. Sívertsenshús
117. Lóðsbær – Gísla
118. Guðnýjarbær
119. Mörk (Sigurgeir Gíslason)
120. Hús þar sem nú er svæðið gegnt Merkugötu 11
121. Hús Guðmundar Helgasonar
122. Bær Kristjáns Auðunssonar
123. „Svartiskóli“ (Hrómundur)
124. Klofi
125. Árnahús

Magnús Jónsson

Bæjarlisti bókarinnar II.

126. Gesthús I (Einar Ólafsson)
127. Gesthús II (Bjarni Ásmunds. o.fl.)
128. Hús Guðm. Halldórss. járnsmiðs
129. Klettur (Ólafur Jónsson)
130. Svendborg
131. Langeyri
132. Brúsastaðir

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Til skaða er hversu meðfylgjandi uppdráttur af herforingjaráðskorti Dana 1902 er óskýr (þess tíma tækni).

Í minningargrein um Magnús 11. febrúar 2000 segir m.a.:
„Magnús Jónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1926. Hann lést á Sjúkrahúsinu Sólvangi 3. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Jón Helgason, f. 27.6. 1895 í Litlabæ, Vatnsleysustrandarhreppi, d. 30.12. 1986, og Halla Kristín Magnúsdóttir, f. 18.2. 1894 í Merkinesi, Akranesi, d. 16.7. 1985. Heimili þeirra var á Hverfisgötu 21b, Hafnarfirði frá 1922-1983. Auk Magnúsar eignuðust þau hjónin dreng árið 1924, sem lést 2ja daga gamall.
Árið 1959 kvæntist Magnús Dagnýju Pedersen, f. 8.10. 1926 í Resen, Skive Landsogn, Danmörku, og lifir hún mann sinn. Foreldrar hennar voru: Anna og Gravers Pedersen. Börn Magnúsar og Dagnýjar eru þrjú: 1) Jón viðskiptafræðingur, f. 7.11. 1960, kvæntur Helen P. Brown, markaðsfræðingi, f. 13.2. 1960. Synir þeirra eru: Stefán Daníel, f. 1988, og Davíð Þór, f. 1991. Þau eru búsett í Garðabæ. 2) Halla, læknaritari, f. 12.12. 1964, gift Þórði Bragasyni skrifstofumanni, f. 23.9. 1965. Börn þeirra eru Magnús, f. 1991, Bragi, f. 1993, og Ingibjörg, f. 1997. Þau eru búsett í Hafnarfirði. 3) Anna tannlæknir, f. 19.5. 1970, gift Guðmundi Jóhannssyni, sagn- og viðskiptafræðingi, f. 10.7. 1963. Sonur þeirra er Helgi, f. 1997. Þau eru búsett í Reykjavík.

Magnús ólst upp í Hafnarfirði. Að loknu skyldunámi hóf hann störf hjá Raftækjaverksmiðjunni Rafha, lærði bókband og lauk sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953. Útskrifaðist frá Kennaraskólanum 1957. Lauk eins árs námskeiði í bókasafnsfræðum í Kaupmannahöfn 1962. Stundaði almenn kennslustörf með hléum til ársins 1980 í Reykjavík, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi og á Vatnsleysuströnd. Starfaði á árunum 1962-1967 í bókasafni Hafnarfjarðar. Loks var Magnús minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar árin 1980-1995. Auk þess starfaði hann nítján sumur í kirkjugarði Hafnarfjarðar. Magnús starfaði mikið af félagsmálum og bar hæst ártuga störf innan Góðtemplarareglunnar og Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar. Magnús var mikill áhugamaður um sögu Hafnarfjarðar og er höfundur bókanna „Bær í byrjun aldar“ og „Hundrað Hafnfirðingar“ I, II og III.

Magnús og Dagný bjuggu allan sinn búskap í Hafnarfirði, lengst af á Skúlaskeiði 6.“

Heimildir:
-Bær í byrjun aldar, Magnús Jónsson – Hafnarfjörður, Skuggsjá, gefið út á kostnað höfundar 1970.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/518317/

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.