Færslur

Seltún

Í Alþýðublaðinu 1935 fjallar Þórður Jónsson frá Eyrarbakka um Krýsuvík:

“Krýsuvík er staður, sem virðist vera að falla í gleymsku, og vegna pess að ég heyri varla þann stað nefndan á nafn, langar mig að minna menn á, að Krýsuvík er þó enn til á landi voru, þó að sé með öðrum hætti en áður var.

Þórður Jónsson

Þórður Jónsson frá Eyrarbakka.

Eflaust eiga einhverjir af núlifandi mönnum minningar frá þeim stað — Krýsuvík — ef til vill þær ljúfustu og beztu, minningar æskuáranna.
Krýsuvík er nú í eyði — eða að mestu leyti. — En fyrir nokkrum tugum ára var þar allblómleg bygð, eins og kunnugt er.
Guðmundur Ísleifsson dvaldi á þessum slóðum — Krýsuvík og Selvogi — til 20 ára aldurs, er hann fluttist til Eyrarbakka. Árið 1861 segir hann þannig högum háttað í Krýsuvík og umhverfi Krýsuvíkur:
Guðmundur fluttist með foreldrum sínum frá Kirkjubæjarklaustri í Skaftafellssýslu árið 1858 að Krýsuvík, þá átta ára. Ísleifur, faðir Guðmundar, varð að víkja frá Kirkjubæjarklaustri fyrir Árna sýslumanni Gíslasyni, sem hafði ráð á þeirri jörð. En rétt er að geta þess einkennilega tilfellis, að nokkrum árum síðar fluttist þessi sami Árni sýslumaður að Krýsuvík.
Búandi Guðmundur Ísleifsson frá Stóru-Háeyri hefir gefið mér dálitlar upplýsingar um Krýsuvík, og fer ég eftir frásögn hans í eftirfarandi línum.
Á heimajörðinni Krýsuvík: Stóra-Nýjabæ, Litla-Nýjabæ, Norðurkoti, Suðurkoti, Arnarfelli og Fitjum. Í Vigdísarvöllum 2 búendur. Þessir bæir allir höfðu svokölluð jarðarafnot. Auk þessara bæja voru tvö tómthúsbýli, er hétu Snorrakot og Hnausar. Ofantaldir bæir voru svo einu nafni kallaðir Krýsuvíkurhverfi.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Allmiklar engjar fylgdu þessum jörðum, og lágu þær umhverfis Kleifarvatn að sunnan og vestan, en Kleifarvatn er allstórt stöðuvatn um klukkustundarferð í norðaustur frá Krýsuvík. Engjarnar skiftust hlutfallslega milli býlanna í „skákar.“
Meirihlutinn af engjunum var mýrkent, og stundum í þurrkatíð — fjaraði svo vatnið, að mikið engi náðist þannig, sem vatnið flóði annars yfir, og var það ágætt starengi.
Bændur í Krýsuvíkurhverfi höfðu 1—4 kýr, og sauðfé eftir efnum, því hagaganga fyrirsauðfé var ótakmörkuð, og sauðfé gekk úti að mestu leyti. Hús voru engin til fyrir féð. Slíkt voru ekki landslög á þeim tíma. Fénu var helzt haldið í hrauninu framan við Geitahlíð, fram undir sjó, þar voru hellar, sem fénu var haldið við í illviðrum á vetrin.
Til hlunninda Krýsuvíkur mátti telja eggja- og fuglatekju, sem var allmikil í Krýsuvíkurbergi. Var sú veiði stunduð af miklum dugnaði, og skiftust þau föng niður á búendur í Krýsuvíkurhverfi eftir því, sem hver hafði kraftinn til við veiðina.

Krýsuvík

Brennisteinsnámurnar ofan Seltúns í Krýsuvík. Kleifarvatn fjær.

Þá er að minnast á hina miklu brennisteinshveri í fjallahálsunum vestan við Kleifarvatn, en á þessum árum, 1858—1861, var það sem Englendingar byggðu þar hús og starfræktu hinar nafnkunnu bnennisteinsnámur í Krýsuvík, ogvar brennisteininn fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, og höfðu pá Krýsuvíkurbúar mikinn hagnað af þessum atvinnurekstri Englendinga við námurnar. En örlög þessa fyrirtækis urðu sem kunnugt er.
KrýsuvíkurkirkjaÍ Krýsuvík var kirkja, og kirkjusóknin Krýsuvíkurhverfi, og messaði Vogsósaprestur þar þriðja hvern sunnudag.
Á þessum tímum var ekki lítil búsæld í Krýsuvík. Atvinnuvegirnir eins og áður er sagt landbúnaður, eggja- og fuglatekja, auk þess sjávarafli nokkur. Þá var útræði á Selatöngum. Gekk þá eitt — áttróið — skip þar úr Krýsuvík, og var á því skipi formaður Einar frá Stóra-Nýjabæ, og mun það síðasta skip, er þaðan hefir gengið, en sú sögn fylgir, að útræði frá Selatöngum hafi lagst niður vegna reimleika.
Fyr á árum var Krýsuvík mikið „ferðamannaland“. Allir, sem fóru til Suðurnesja syðri leiðina austan úr sýslum, fóru um í Krýsuvík, og eins og gefur að skilja gaf það þessum afskekta stað alt annan svip. Af umferðinni leiddi fjölbreyttara líf og meiri gleðibrag í litla þorpinu.

Guðmundur Ísleifsson

Hjónin Guðmundur Ísleifsson, útvegsbóndi og kaupmaður, og Sigríður Þorleifsdóttir, húsfreyja, Stóru-Háeyri á Eyrarbakka, ásamt börnum sínum.

Að líkindum hefir Krýsuvík staðið á hátindi blóma síns þessi ár, sem Englendingar starfræktu brennisteinsnámurnar.
Austan úr sýslum, Árness-, Rangárvalla- og Skaftafellssýsum, var þá kallað að fara suður „innra“, og „syðra“ þeir, sem fóru til Suðurnesja. Innri leiðin var yfir Hellisheiði nálægt þeim stað, sem nú er farið yfir hana, yfir stórárnar Þjórsá og Ölfusá á þessum stöðum: Þjórsá á Egilsstöðum eða Króki, og yfir Ölfusá í Laugardælum. En þeir, sem fóru syðri leiðina, fóru yfir Þjórsá á Sandhólaferju eða Selparti, og Ölfusá í Óseyrarnesi og þá um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík. Sumir fóru hringferð, t.d. „innri“ aðra leiðina og „syðri” hina.
Þarna — syðri leiðina — um Krýsuvík — er ljóst að hefir verið mikil umferð um margra alda skeið. Þess bera ljósan vott hestagötur í hraununum á þeirri leið.

Hellugata

Forn gata um hraunhelluna við Herdísarvík.

Þó eru slíkar götur mest áberandi í Herdísarvíkurhrauni, þar liggur gatan víða á sléttum hraunhellum, og ég — sem þetta rita — fór yfir Herdísarvíkurhraun fyrir nokkrum árum, og mældi ég dýpt götunnar á nokkrum stöðum, og reyndist hún að vera 8—12 cm. á sléttum hraunhellunum, Og þó þetta sé brunahraun, þá sætir það furðu, hvað djúpar þessar götur eru, og sýnilegt, að margir hestafætur hafa orðið að stiga á bergið til að mynda slíka götu, og er næsta fróðlegt að sjá þetta „fornaldarsmíð“, og mikill er sá mismunun á nútímafarartækjum og slíkum, er forfeður okkar áttu við að búa, En skyldu þeir í nokkru hafa verið vansælli, sígandi með hestalestina sína klyfjaða af skreið en við í bílunum okkar og vaggandi í alls konar þægindum? Um slíkt er ekki hægt neitt að fullyrða. En sennilegt er að oft hafi verið glatt á hjalla í þessum ferðum, þó erfiðar væru.

Krýsuvík

Krýsuvík 1923.

En ef nokkrar lifandi verur hefðu ástæðu til að hrósa happi yfir breytingum tímans í þessu efni, þá væru það hestarnir, því þeir hafa oft hlotið að eiga erfiðar stundir í slíkum ferðalögum.
Þó ef til vill sé ekki ástæða til að harma það, að slíkir staðir sem Krýsuvík leggist í eyði, þá er engu síður vert að muna eftir þeim stöðum og sýna þeim rækt og sóma. Þarna á þessum stað — Krýsuvík — hefir fjöldi manna háð sína hörðu lífsbaráttu við blíð náttúruskilyrði öld fram af öld með hreysti og karlmensku, því öllum öðrum en hraustmennum hefir náttúran hlotið að vera þar naumgjöful. Gínandi fuglabjargið og stórhríðarnar á vetrum við fjárgeymsluna hefir ekki verið heiglum hent, og oft hefir hlotið að vera teflt á tæpasta vaðið við slík störf. Þau hreystiverk eru því miður óskráð.

Krýsuvík

Fólk framan við Nýjabæ í Krýsuvík um 1930.

Mér, sem þetta ritar, hefir lengi verið hlýtt til þessa staðar, Krýsuvíkur, af þeirri ástæðu, að aldrei á æfinni hefi ég orðið fegnari að koma til mannabústaða en einmitt að Krýsuvík. Það var veturinn 1896, að ég — þá unglingur var á ferð til Grindavíkur, og vorum við fjórir saman — alt unglingar — og skall á okkur norðan blindhrið þegar við komum í hraunið utan við Herdísarvík, og eftir langa villu hittum við þó Krýsuvík af einhverri tilviljun — um hánótt. Ég hefi aldrei efast um hver örlög okkar, þessara unglinga, hefðu orðið hefðum við ekki hitt Krýsuvík, því þessi blindhríð stóð í tvo daga — og nætur.
Þá bjó í Krýsuvík Árni sýslumaður Gíslason, og á heimili hans, meðan veðrið hélst, í tvo daga, nutum við hinnar mestu gestrisni.
Trúlegt þætti mér að húsaskjól í Krýsuvík hafi oftar verið ferðamönnum kærkomið en í þetta skifti, sem að ofan greinir.
Þegar ég hugsa um Krýsuvík og íhuga það, hvað erfitt hefir verið að búa þar og nota þau gæði, sem þar hafa verið fáanleg, finst mér ómögulegt að þar hafi getað lifað aðrir en afburðamenn að dugnaði. Af þeirri kend verður manni staðurinn hugþekkari. Nútímakynslóðin vill ekki leggja á sig þá erfiðleika, sem útheimtast til að lifa á slíkum stöðum sem Krýsuvík er. Það er hægara og þægilegra að búa í borgum og þorpum og leggja svo slíka staði í eyði, sem Krýsuvík er, og jarðsyngja með því allar búmannsraunir. Því ef í nauðir rekur leggja borgir og bæir fram einhver bjargráð til framdráttar — atvinnubótavinnu eða eitthvað slíkt. En hvort slík bjargleg verða eins haldgóð til að viðhalda karlmensku og hreysti í búskapnum í Krýsuvík, skal ósagt látið.

Krýsuvík

Krýsuvík 1909.

Ég hefi því miður hvergi séð Krýsuvíkur minnst í bókum eða blöðum. Nú er það ætlun mín og von, að einhver, sem er mér fróðari um þennan stað — Krýsuvík — lýsi betur en hér er gert þessum forna mannabústað, sem nútímakynslóðin vill ekkert með hafa, því staðurinn er vel þess verður, og varla má minna vera en Ferðafélag Íslands líti þangað augum sínum í eitt skifti. Því þó Krýsuvík krjúpi í sorg sinni yfir vanþóknun mannanna og ræktarleysi, þá hlýtur umhverfi hennar að vera broshýrt í sólskini sumardaganna.” – Þórður Jónsson.

Heimild:
-Í Alþýðublaðinu 1935 fjallar Þórður Jónsson frá Eyrarbakka um Krýsuvík.
Krýsuvík

Krýsuvíkurvegur

Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:

Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um “Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegir 2021.

“Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Lægsta leiðin

Krýsuvíkurvegir

Krýsuvíkurvegir 1996.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.

Tvær torfærur

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.

Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.

Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.

Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.”

Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.

Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“.

Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni “Vanhugsað fálm“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

“Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar”, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg” — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.

Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa” á grundvelli misskilnings og „rannsóknar”, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels”, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.

Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður” eitt).

Mælifell

Mælifell – gamla þjóðleiðin.

En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.” – Janúar 1941; Þórir

Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.

Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog”, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, “Vanhugsað fálm”, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Krýsuvíkurberg

Bergsendi eða Bergsendar eru algeng örnefni í sjávarbjörgum. Nöfnin skýra sig jafnan sjálf.
Endimörk Krýsuvíkurbergs heita “Bergsendi” eystri og vestari. Frá Bergsenda eystri að Eystri-Læk á Strandarbergi heitir bergið “Krýsuvíkurbjarg”. Vestan Strandarbergs að Bergsenda vestari, stundum nefndir Ytri-Bergsendar, var það nefnd “Krýsuvíkurberg”. “Ytri” og “Innri” voru algeng viðmið á vestanverðum Reykjanesskaga fyrrum. Ytra þýddi nyrðra og Innri syðra.

Bergsendi

Bergsendi – útsýni til vesturs.

Í Örnefnalýsingu sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði um Krýsuvík er m.a. fjallað um örnefni í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg).
“Nöfn í Krýsuvíkurbergi eru þessi: Austast er Strandaberg, þar átti Strandakirkja ítak til eggjatekju og fuglaveiða. Vestan við það er Kotaberg, þar áttu hjábýli Krýsuvíkur rétt á eggjatekju og fugla. Þar næst er Heimaberg, þar átti höfuðbólið fugla- og eggjatekju. Neðan undir Heimabergi er Skriða. Austan við hana er Ræningjastígur.

Bergsendi

Bergsendi vestari.

Vestasta hornið á berginu heitir Bergsendi. Vestan við Bergsenda er Hælsvík. Fyrir Krýsuvíkurlandi eru þessi rekapláss: Skriðurekar, Bergsendarekar og Miðrekar.” Þorsteinn nefnir bergið allt “Krýsivíkurberg”.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, lögregluvarðstjóra í Hafnarfirði, sem Svanur Pálsson afritaði 2004 eftir eintaki, sem varðveitt er á Bókasafni Hafnarfjarðar, er fjallað um Krýsuvíkurberg og Krýsuvíkurbjarg. Aðalheildarmaður Gísla var Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður, synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70. Lýsingin er frá austri til vesturs:

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Heiðnaberg.

“Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Heiðnaberg

Heiðnaberg – loftmynd.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.”

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík er jafnframt getið um Bergsenda:
“Þar sem Krýsuvíkurberg endar, heitir Eystri-Bergsendi og Vestri-Bergsendi. Hluti Krýsuvíkurbergs, vestarlega, heitir Skriða. Mun það vera eini staðurinn í berginu, sem einhvers móbergs gætir, en vestanvert við hæð þessa er basaltlag eitt eða fleiri. Efst í bjargbrúninni skagar basaltið lengra fram en móbergið, svo að loftsig er alla leið í urðina þar fyrir neðan. Austast í berginu er Strandarberg; þar átti Strandarkirkja ítak. Þá er Kotaberg; það áttu til afnota þeir, sem bjuggu í hjáleigunum.

Krýsvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Svo er Heimaberg; þar er Skriðan fyrrnefnda upp af. Rekarnir þar fram af voru svo nefndir Bergsendarekar, Miðrekar og Skriðurekar. Í berginu var hilla sú, sem nefnd er Lundapallur; þar uppi á brún heitir Lundatorfa. Nýipallur er nafn í berginu. Þá er í Kotaberginu Plankanef. Undir berginu eru tvö áberandi lón, er heita Eystra-Selalón og Vestra-Selalón. Framan í Skriðunni er Ræningjastígur. Hans er getið í þjóðsögum. Stígur þessi er gangur einn, sem myndazt hefur í móbergið og liggur skáhallt niður í flæðarmál af brúninni. Var hann fær til skamms tíma, en nú mun hrunið svo úr honum, að hann sé tæplega fær. Við Hælsvíkina er svo Hæll, sem hún dregur nafn af, og Hermannsstígur í bergið.”

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
“Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
“Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”

Ofan við Ræningjastíg, sem sjórinn hefur nú náð að brjóta niður, eru minjar Krýsuvíkursels.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Á Bergsenda vestari.

Niðurganga á Bergsendana hvoru megin er auðveld. Frá þeim, til beggja átta, er ágætt útsýni út og inn með berginu (bjarginu) í góðu veðri.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Bergsendar eru einnig svo nefndir sitt hvoru megin við Staðarberg neðan Staðarhrauns vestan Grindavíkur.
Í Örnefnalýsingu sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Í lýsingunni er getið um “Ræningjasker” og tilnefnd þjóðsaga um Tyrki og komu þeirra að Staðarhverfi. Sagan er ekki ólík þeirri fyrri. Í báðum tilvikum koma prestar að lausn mála.
“Austast á Staðarbergi heitir Bergsendi. Fram af Staðarmölum er Ræningjasker, alltaf upp úr sjó. Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker. Gekk þá Staðarprestur upp í Hæðirnar við Húsatóftir og hlóð þar þrjár vörður og mælti svo um að á meðan í þeim stæði steinn yfir steini, skyldi Grindavík ekki verða rænd. Hefur það orðið að áhrínsorðum, enda standa vörður þessar að nokkru enn. Heita þær Nónvörður og eru eyktarmark frá Húsatóftum.
Áður en Mölunum sleppir er Bergsendasker, klettanibbur, sem skaga úr stórgrýtinu fram í sjóinn.

Hróarsbásar

Í Hróarbásum.

Staðarbergið er álíka langt og Malirnar. Um það farast Geir Bachmann svo orð í sóknarlýsingu sinni: “Það er tæp 1/4 míla á lengd. Lágt er það og að öllu leyti ómerkilegt, því hvorki er í því varp né fuglatekja, og eigi er það svo vel, að undir því geti fest nokkurt tré, þó ekki sé það heldur standberg í sjó.” (Landnám Ingólfs III, bls. 126). – Austast á Bergsendanum er gatklettur mikill, en ekki ber hann sérstakt nafn.

Þá taka við tvö vik inn í bjargið. Nefnast þau Sölvabásar og Hróabásar. (Ath.: Yfirleitt voru nöfnin á básum þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás). Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju.”

Sjá skemmtilegt Youtube-myndband frá Krýsuvíkurbergi HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti  um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Lýsing Gísla Brynjólfssonar fyrir Stað í Grindavík.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus. Hægra megin við lækinn er “Krýsuvíkurbjarg”, en vinstra megin er “Krýsuvíkurberg”.

Lögreglan

Í Fjarðarfréttum 1969 er grein um aðstöðu lögreglunnar í Hafnarfirði undir fyrirsögninni; “105 kallar stöðina“. Greinin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að í yfirlitsritinu “Lögreglan á Íslandi” er lítið sem ekkert fjallað um sögu og aðbúnað lögreglumanna annars staðar en í Reykjavík.

Lögregla
“Það var síðla kvölds í marz, að Fjarðarfréttir lögðu leið sína á lögreglustöðina við Suðurgötu. Erindið var að heilsa upp á lögregluþjónana, sem voru á kvöldvakt þetta kvöld og skyggnast inn í heim þeirra manna, sem eiga að halda uppi lögum og reglu í Hafnarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Það vildi okkur til happs, að lítið hafði rignt um daginn og Suðurgatan því tiltölulega greiðfær. Þegar við komum að lögreglustöðinni var okkur hugsað til þess, að ekki væri gott að vera bláókunnugur maður hér í Hafnarfirði og þurfa á lögregluaðstoð að halda, því einu upplýsingarnar, sem gefnar eru um staðsetningu lögreglustöðvarinnar eru í símaskránni og eru á þá leið að hún sé að Suðurgötu 8.

Varðstofan

Lögregla

Lögreglustöðin við Suðurgötu 8 í byggingu. Sýslumannshúsið h.m. Knattspyrnuleikur milli FH og Hauka á Sýslumannstúninu.

Við göngum inn eftir ganginum og förum inn um dyr til vinstri, inn á sjálfa lögregluvarðstofuna. Þar situr varðstjórinn við borð og er að tala í símann. Hinir lögregluþjónarnir á vaktinni eru í útkalli.
Skyndilega heyrist í talstöðinni:
105 kallar Stöðina. —
— Stöðin svarar —
— Ertu einn? —
— Oh. ah, nei. —
— Jæja, við komum þá inn. —

Lögregla

Knattspyrnuleika FH og Hauka enn í gangi á Sýslumannstúninu. Dvergasteinn lengst t.v., nýja lögreglustöðin og Sýslumannshúsið.

Hvað er að gerast? Það er von að spurt sé. Við erum í þann veginn að kynnast lélegustu aðstæðum, sem lögregla býr við í kaupstöðum landsins.
Samtalið milli lögregluþjónsins og varðstjórans er eitt dæmið um óviðunandi ástand í löggæzlumálum okkar Hafnfirðinga. Húsakynnin eru svo þröng, að allir, sem þurfa að leita til lögreglustöðvarinnar, og þeir eru ófáir, verða um leið áheyrendur, og stundum áhorfendur, að öllu því, sem fram fer. Þau mál, sem lögreglan fjallar um, eru oft þess eðlis, að óverjandi er, að hver og einn geti fylgst með einstökum þáttum þeirra.

Gísli sigurðsson

Gísli Sigurðsson fyrir framan lögreglustöðina.

En nú skulum við líta í kringum okkur. Varðstofan er lítið herbergi, um það bil 15 fermetrar, málning á veggjunum sennilega tíu ára gömul, og á þeim má lesa, sem í bók, sögu þeirra atburða, sem hér hafa gerzt undanfarinn áratug. Þetta herbergi er vinnustaður sextán lögregluþjóna og hérna er unnið allan sólarhringinn. Nokkrir lögregluþjónanna hafa dvalizt hér svo áratugum skiptir. Hérna er svarað í síma, skrifaðar skýrslur, sinnt talstöðvarviðskiptum, veitt úrlausn þeim, sem inn koma, geymsla fyrir óskilamuni, skjalageymsla, skrifuð dagbók um öll verkefni yfir hvern sólarhring, og svona mætti lengi telja. Til skamms tíma var þetta herbergi einnig kaffistofa lögregluþjónanna.

Fangelsi

Lögregla

Sveinn Björnsson, Jóhannes og Eddi í rannsóknarlögreglu Hafnarfjarðar.

Skoðum nú aðrar vistarverur í þessu húsi og lítum á það, sem fyrir augu ber. Í húsinu eru 6 fangaklefar, og auðvitað þarf engan fangavörð. Fangagæzla er eitt af störfum varðstjórans og manna hans. Við skulum ganga inn í einn klefann. Okkur verður þungt fyrir brjósti, loftræsting er engin. Rimlar eru fyrir gluggum, eins og venja er á slíkum stöðum, en svo „haganlega“ fyrir komið, að nær ógerningur er að hreinsa gluggakisturnar. Dyraumbúnaður er þannig, að hurðum er krækt aftur, og getur hvaða smábarn, sem villist inn í þessi húsakynni, opnað dyrnar meðan varðstjórinn sinnir e.t.v. símahringingu á varðstofunni. Fangar og lögreglumenn nota eitt og sama salernið, sem staðsett er í kompu undir stiga og allt hið óvistlegasta. Dæmi eru til þess, að gæzlufangar hafi þurft að dveljast í þessum fangaklefum yfir mánaðartíma. Eitt sinn var hérna fangi, sem var haldinn kynsjúkdómi, og að sjálfsögðu varð hann að nota sama salerni og samfangar hans ásamt lögregluþjónunum. Vonandi er slíkt einsdæmi á Íslandi á tuttugustu öld. Allir veggir hér eins og á varðstofunni bera ljóst vitni um að málning er bannorð, það er eins og veggirnir blygðist sín fyrir útlitið. Okkur léttir, er við yfirgefum fangaklefana.

Kaffistofa

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn, við störf á varðstofunni.

Næst komum við í kaffistofu lögregluþjónanna. Í þessu herbergi, sem er um það bil 7 m2, var rannsóknarlögreglan til húsa. Þegar skrifstofur bæjarfógeta fluttu í hið glæsilega húsnæði sitt, sem gjörbreytt hefur allri starfsaðstöðu embættisins, fékk rannsóknarlögreglan sæmilega aðstöðu annars staðar í húsinu. Rættist þá loksins langþráður draumur lögreglumannanna í Hafnarfirði. Þeir fengu þetta litla herbergi fyrir kaffistofu.
Settur var upp lítill vaskur og skápur, en þeir urðu þó að mála „stofuna“ sjálfir.

Talstöðin

Lögregla

Hér voru gamla Sýslumannshúsið og lögreglustöðin við Suðurgötu 8.

Við heyrum óm af samtali og skundum inn á varðstofuna. Eitt af mikilvægustu tækjum við nútíma löggæzlu er talstöðin, og hún er mikið notuð hér. Umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði nær allt frá Reykjanestá að Botnsá í Hvalfirði.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á stríðsárunum. Sýslumannshúsið í bakgrunni, Drengurinn er Hörður Guðmundsson – Fred Harry Wharton.

Ætla má að lögreglustöðin geti haft samband við lögreglubíl hvar sem er á þessu svæði, en það er nú öðru nær. Dæmi eru til þess að lögreglan hefur orðið að leita til leigubílstjóra til þess að flytja skilaboð til lögreglustöðvarinnar. Þegar komið er suður fyrir Kúagerði má heita að sambandslaust sé við lögreglubíl, sem þar er á ferð. Ef árekstur verður í Mosfellssveit eða á Kjalarnesi rofna tengslin milli lögreglubíls og stöðvarinnar um það leyti sem farið er yfir Elliðaárnar. En leigubílstjórar í Hafnarfirði geta með góðu móti talað við „kollega” sína á Kjalarnesi og í Keflavík. Hvers á Lögregla Hafnarfjarðar og íbúar umdæmisins að gjalda?

500.000 km

Lögreglan

Lögreglubíll lögreglunnar í Hafnarfirði 1972.

Bílar Hafnarfjarðarlögreglunnar eru kafli út af fyrir sig. Þeir eru tveir, annar af árgerð 1966 og í sæmilegu lagi, en hinn af árgerð 1964 og má heita ónýtur, enda hefur honum verið ekið yfir 500.000 km, og það að mestu á götum
Hafnarfjarðar.
Heimsókn okkar er senn lokið. Við ætlum ekki að fara mörgum orðum um atriði eins og þau, að allar skýrslur lögreglunnar eru skrifaðar á aflóga ritvélar frá skrifstofu bæjarfógeta og hvergi fæst aðstaða fyrir lögregluþjóna, til að halda við þeirri líkamlegu þjálfun, sem hverjum lögreglumanni er nauðsynleg.
Eðlilegt er, að fyrir hverja 500 íbúa í þéttbýli starfi einn lögregluþjónn, og ættu samkvæmt því að vera 18 lögregluþjónar í Hafnarfirði einum, fyrir utan þá, sem ráðnir eru á vegum Garðahrepps og sýslunnar. Mikil bót var að stofnun rannsóknarlögregluembættis hér í bæ, og hefur það komið skýrt í ljós, hvað bætt starfsaðstaða má sín mikils, en þó þyrfti að fjölga þar um a. m. k. einn mann, ef vel ætti að vera.

Ný lögreglustöð

Lögregla

Gamla sýslumannshúsið við Suðurgötu.

Hver hugsandi maður, sem kynnir sér starfsaðstöðu lögreglunnar, hlýtur að sjá, að hún er bæjarfélaginu og sýslunni ekki til sæmdar.

Lögregla

Ný lögreglustöð í Hafnarfirði við Flatahraun.

Margt má lagfæra nú þegar, en auðvitað er framtíðarlausn þessara mála aðeins ein, nýtt og veglegt húsnæði fyrir löggæzluna. Nú þegar er tímabært að skipa nefnd til að undirbúa byggingu slíks húss.
Við Hafnfirðingur eigum góðu lögregluliði á að skipa. Starf þeirra er erilsamt og oft hættulegt. Lágmarkskrafa þeirra til bæjarfélagsins er mannsæmandi starfsaðstaða.
Vafalaust mun okkar ágæti bæjarfógeti beita sér fyrir umbótum á þessu sviði, og mun þá væntanlega ekki standa á öðrum, sem til þarf að leita vegna lausnar þessa máls.”

Í Lesbók Morgunblaðsins 1951 segir Árni Óla frá “Fyrsta lögregluþjóninum í Hafnarfirði“:
lögregla“Það eru nú rúm 43 ár síðan (1908) að Hafnfirðingar komu á löggæslu hjá sjer, og fyrsti lögregluþjónninn þar er enn á lífi og við góða heilsu. Hann heitir Jón Einarsson, Hafnfirðingur í húð og hár, fæddur þar og hefur alið þar allan aldur sinn. Mun varla ofmælt að hvert mannsbarn í Hafnarfirði þekki hann, en fæstir munu nú minnast þess að hann var þar eitt sinn vörður laga og rjettar og gekk um göturnar í einkennisbúningi. Hitt er mönnum kunnara, að hann hefur verið verkstjóri í fjölda mörg ár. Hann á heima í „miðbænum” í Hafnarfirði, Strandgötu 19, og hefur lengi átt þar heima. En þegar hann bygði húsið sitt var öðruvísi þar um að litast en nú. Þá sköguðu úfnir hraunklettar fram í dimma götuna, sem í rauninni var ekki, annað en sjávarkambur með möl og skeljasandi, en nú er þetta „fínasta” gatan, sem til er á landinu, öll steinsteypt og uppljómuð af tindrandi „fluoresent” ljósum, svo að þar ber hvergi skugga á og nóttin verður þar svo að segja að björtum degi. Hafnarfjörður hefur tekið stakkaskiftum síðan Jón var þar lögregluþjónn og átti í brösum við ofbeldisseggi og skúmaskotsmenn.

Hafnarfjörður 1910

Lögregluþjónar voru ráðnir í Hafnarfirði áður en staðurinn fengi nokkra lögreglusamþykt. Utanaðkomandi áhrif rjeðu því. Fram að þeim tíma hafði Hafnarfjörður verið friðsældarbær, þar sem menn gengu snemna til náða og fóru snemma á fætur. Reglusemi og nægjusemi mótaði líf manna, og Í bæjarbragur var allur með uðrum hætti en í Reykjavík. Þótt skamt væri á milli og íbúar Hafnarfjarðar orðnir um 1500, drógu þeir ekki dám að stórborginni Reykjavík, þar sem voru þá um 11.000 íbúa. En ástæðan til þess að Hafnfirðingar fengu sjer lögregluþjón var sú, að allmikil breyting hafði orðið þar á árið 1906, eins og nú skal sagt.
Lögregluþjónn var valinn Jón Einarsson, eins og fyr er sagt, en næturvörður Jón Hinriksson, er seinna varð kaupfjelagsstjóri í Vestmannaeyjum. Voru þeir báðir á besta aldri, hin mestu karlmenni og ljetu sjer ekki alt fyrir brjósti brenna. Þeir byrjuðu starf sitt í apríl og var verkum þannig skift með þeim, að annar fór á vörð kl. 9 á morgnana og var á ferli fram til kl. 3. Þá tók hinn við og var einn á verði til kl. 7, en síðan voru þeir báðir á verði á kvöldin og stundum alla nóttina fram til morguns, þegar mest var ónæðið af hinum útlendu sjómönnum.

Ekkert að gera endranær

Hafnarfjörður 1908

Hafnarfjörður 1908.

Jón Hinriksson sagði starfi sínu lausu um haustið og var þá Einar Ólafsson (tengdafaðir sjera Jakobs Jónssonar) ráðinn næturvörður.
“Um vorið var jeg orðinn svo leiður á þessu starfi, sem mjer fanst ekkert starf vera, að jeg fekk mig leyst an frá því. Þetta átti ekki við mig. Þegar ekkert var um að vera í bænum, fanst mjer jeg vera að slæpast og skammaðist mín fyrir þeim sem voru að vinna. Og það var hjer um bil aldrei neitt að gera nema þegar útlendingar voru með óspektir og drykkjulæti. Aðalstarfið á nóttunni var að líta eftir bátum, ef eitthvað var að veðri, líta eftir skepnum að þær flæddi ekki, hafa gætur á hvort nokkurs staðar yrði vart við eld og hafa gát á kolabyngunum, svo að eldsneytislausir menn hnupluðu ekki nokkrum kola molum. Á daginn var bókstaflega ekkert að gera.

Jón bergmann

Jón Sigurður Sigfússon Bergmann (1874-1927).

Jón Bergmann skáld varð lögregluþjónn þegar jeg hætti, en hélst ekki lengi því starfi. Og lögregluþjónar og næturverðir voru að koma og fara. Norðmenn hurfu líka, útgerð Friis féll niður sumarið eftir, og þá urðu aftur rólegir dagar í Hafnarfirði. Það var ekki fyr en eftir 1930 að komið var upp skýli til þess að stinga ölvuðum mönnum inn í.
Nú er orðin mikil breyting á þessu. Nú eru hjer 7 eða 8 lögregluþjónar, varðstöð opin allan sólarhringinn með síma og bílum til skyndiferða. Og nú er hjer komið fangahús og fangavörður. Hefur það verið sniðið svo við vöxt, að það getur oft tekið við mönnum frá Reykjavík, sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar. Þó er þetta fangahús ekki nema fyrir 6—8 menn. Það sýnir að Hafnfirðingar þurfa ekki mikið á því að halda, enda þótt hjer eigi heima rúmlega 5000 manna. Hafnarfjörður er enn friðsæll bær og Hafnfirðingar friðsamir og háttprúðir menn, eins og þeir hafa altaf verið”. – Á.Ó.

Heimildir:
-Fjarðarfréttir, 1. árg. 07.04.1969, !105 kallar stöðina”, bls. 8 og 6.
-Lesbók Morgunblaðsins, 46. tbl. 01.12.1951, Fyrsti lögregluþjónn í Hafnarfirði – Árni Óla, bls. 572-575.

lögregla

Hafnfirskir lögreglumenn í miðbænum 2015.

Setbergssel

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ 2009 er ma.a fjallað um Setberg, sem var fyrrum í Garðabæ:

Setberg

Setberg 1958 – loftmynd. Tóftir gamla bæjarins sjás ofan við fjósið.

1505: “var þad setberg fyrir sunnan land vid hafnarfiord. ok þar med ij. kvgilldi edvr iij huortt ed uæri. iij uættir smiors vr holom. leigur fra haugatungu vppa .iij. ar. var þetta allz .x. vætter. sagdist grimr hafa likt þoruardi adr .xxxiiij. kugilldi. heyrdum vær þa aunguan aaskilnad þessara þratt greindra manna. helldr kom þeim alltt uel samann suo uær heyrdum.” DI VII, 797. 1523: var Tómas Jónsson kvittaður af jörðinni Setbergi af Pétri og Halli Björnssonum. Þá voru landamerkin: “Vr midium kietheller og i stein [þan er stendur i fremsta tiorn ) hollte. vr honum og i Hellv þa er stendur i lambhaga. þadan og i [nedstu jardbru). So epter þui sem lækurinn af skier [j tungards endan. þadan i silungahellu. so þadan og i þufuna sem sudur a holltenu stendur. vr henne og i midian kietheller. hier ad auk a Garda stadur tolf hesta [Reidings ristu ) i setbergs lande. en opt nefnt setbergs budarstödu vid skipaklett i garda lande.” DI IX, 146.

Setberg

Setbergsbærinn 1772 – Joseph Banks.

1658, selur Tómas Björnsson sr. Þorsteini Björnssyni 8 hndr. í Setbergi. 1664 setur Tómar Björnsson fógetanum 8 hndr í Setbergi. 1665 eignast Guðrún Björnsdóttir 8 hndr í Setbergi. Jarðabréf, 15. 16 hndr 1703.
1772 heimsótti Joseph Banks Setbergsbæinn.1912 keypti Hafnarfjörður Setbergsland allt til Lækjarbotna. “Samkvæmt dómi frá 5. des 1924 eru landamerki milli Setbergs og þess hluta Garðakirkjulands, sem með lögum nr. 13, 1912 var selt Hafnarfjarðarkaupsstað, sem hér segir: “Úr neðstu jarðabrú í Kaplakrika eftir Kaplalæk í hraunjaðrinn beint vestur af þeim stað þeim, þar sem Kaplalæk er nú veitt úr eldri farveg sínum, rétt norðan við Baggalágar vestur af Setbergslandi, þaðan beina línu í stíflugarð rafstöðvartjarnarinnar, þá eftir garðinum og úr honum beint í markþúfu suður og uppi á holtinu þaðan í upptök lækjar þess, serm Hafnarfjarðarkaupstaður fær neyzluvatn sitt úr, þá i Gráhellu og þaðan í miðjan Ketshelli. …”

Setberg

Setbergsbærinn í dag – tóftir.

“Lönd jarðanna Þórbergs, Setbergs og Hlébergs, sem eru innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar, mun Hafnarfjarfjarðarbær eignast innan tíu ára, sbr. samning við landeigendur, dagsettan í júlí 1980.” ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 122 1703: “Engjar á jörðin nokkrar þó litlar sjeu.” JÁM III, 176. 1918: Tún 6,5 teigar, nær allt sléttað, garðar 1600 m2.

Setberg

Setberg – túnakort 1918.

Útihús er sýnt á túnakorti við austurjaðar túns, tæplega 170 m norðaustur frá gamla bæjarstæðinu. Rústir þess eru enn sjáanlegar, byggðar utan í túngarðinn að austanverðu. Stór hlaðinn kálgarður er sambyggður útihústóftinni að norðanverðu en mun hann vera síðari tíma verk að sögn Óttars Geirssonar heimildamanns. Þessi hluti túnsins er í landi Garðabæjar.
Tóftin er í jaðri gamla heimatúnsins sem að mestu hefur verið breytt í golfvöll
Eitthvað virðist vera búið að ryðja þessari rúst til og því erfitt er að átta sig á nákvæmri lögun hennar. Hún virðist þó hafa verið um 15 x 15 m að stærð og er hleðsluhæðin mest um 0,5 m.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – minjar.

Hernaðarmannvirki hlaðin úr grjóti, leifar úr Seinni heimsstyrjöld, eru á Flóðahjalla þar sem hann rís hæstur. Flóðahjalli er allhár grágrýtisrani suður af Urriðakotsvatni. Mannvirkin eru um 330 m SA af Flóðahjallavörðu [055] sem er nyrst á Flóðahjallatá. Mannvirkin eru leifar vígis frá Bretum sem ætlað var til varnar mögulegri innrás Þjóðverja um Hafnarfjarðarhöfn (skv. grein í MBL 13.01.2002).
Hernaðarmannvirkin eru hlaðin á og í kring um klöpp og umhverfis er melur. Mannvirkin samanstanda af garðlagi úr grágrýti og grjóthlöðnum tóftum innan þess. Allar hleðslur eru þurrhleðslur úr ótilklöppuðu grjóti. Garðlagið er nokkuð hring- eða sporöskjulaga en óreglulegt, um 45×33 m N-S að utanmáli. Hleðslurnar eru mjög tilgengnar og því víða breiðar og lágar, t.d. allt að 5 m breiðar nyrst.
Um miðbik austurhluta garðlagsins eru hleðslurnar heillegastar, allt að 1,3 m háar, ríflega 1 m breiðar og 5-6 umför. Innan garðlagsins er mikið af lausu grjóti og jarðföstum klöppum. Tóftirnar eru einna syðst innan garðsins. Tvær eru greinilegar, ein ferhyrnd og önnur hringlaga, en einnig eru í kring tilgengnir veggir sem hugsanlega hafa áður verið hluti annarra tófta. Ferhyrndatóftin er syðst fyrir miðbik, örskammt frá suðurvegg garðlagsins. Hún er heillegri en hringlaga tóftin, um 6×6 m að utanmáli (4×4 m að innan) og með dyr til austurs. Veggir tóftarinnar eru hæstir um 1,5 m og 7 umför.
Hringlaga tóftin er skammt VNV af þeirri ferhyrndu. Hún er um 6×6 m í þvermál og afar tilgengin, ekki nema 2 umför og grjótdreif er í kring. Norðan, austan og suðvestan við ferhyrndu tóftina eru tilgengin veggjarbrot sem kunna að vera leifar annarra mannvirkja. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 13.01.2002 færðu Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson rök fyrir því að hringlaga tóftin gæti hafa hýst byssustæði, en sú ferhyrnda gæti hafa verið íverustaður hermanna. Á náttúrulega klöpp innan garðlagsins er klappað ártalið 1940 sem og nafnið J. E. Bolan og fangamarkið D. S. Þar skammt við er svo klappað ártalið 1977 og fangamörkin J. A. og G. H.

Kietsheller

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Elstu heimildina um Kjöthelli (Kietsheller) er að finna í fornbréfasafni (DI IX), en það er landaskiptabréf dagsett 6. júni 1523 og er hellirinn þar suðvestur landamörk Setbergs. “Selstöðu á jörðin þar sem heitri Kietsheller, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema snjór í gjá, sem sólhiti bræðir,” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. “Úr Gráhellu liggur línan í Setbergssel. … Landamerkjalínan liggur í Markvörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots,” segir í örnefnaskrá GS. Kjöthellir er á suðvesturmörkum Setbergs, við stóra og steypta landamerkjavörðu sem þar er, um 3,5 km SA af bæ. Tveir hellar eru við landamörkin á þessum slóðum og er talsverður nafnaruglingur á milli þeirra. Samkvæmt heimildamanni kallast hellirinn sem hér um ræðir Kethellir (Kjöthellir) eða Selhellir, en hinn hellirinn, sem er öllu stærri og er rúmlega 180 m austar, heitir Kershellir og annar lítill hellir inn af honum Hvatshellir.
Í Þjóðminjaskráningu Hafnarfjarðar segir að hellirinn sé: “Upp í grasivöxnu holti við jaðar Gráhelluhrauns,”. Nokkuð mikill snjór var á svæðinu þegar skráning á vettvangi fór fram.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kjöthellir snýr nokkurn veginn norður-suður og er opinn í báða enda. Innangegnt er um bæði op hans. Hann er um 20 m langur, breiðastur um 4 m og mest lofthæð er vel rúmlega 2 m. Um miðbik hellisins er hlaðið skilrúm sem skiptir honum í tvennt og hefur nyrði helmingurinn að líkindum tilheyrt Setbergi. Skilrúmið er hátt í 1,6 m þar sem það er hæst að vestanverðu og 8 – 9 umför, en megin hluti þess er munlægri og hrundari, frá 0,5 – 1,2 m.
Inngangur um syðri hellismunnann er stærri en sá nyrði, mest um 2 m breiður og rúmlega 2 m hár, en hlaðið er að hluta upp í hann með um 1,2 m hárri hleðslu. Inngangur um nyrði hellismunnann, sem er Stbergsmegin, er u.þ.b. 1,5 m breiður og hátt í 2 m hár. Nokkuð meira er lagt í hleðslurnar fyrir honum, en hlaðin, bogadregin göng liggja að munnanum og eru þau að hluta undir hlöðnu þaki. Hleðslan er allt að 7 m löng og er hæst allt að 1,8 m og hlaðið hefur verið þak yfir innganginn að hluta með hraunhellum, þó það sé nú að nokkru leyti hrunið. Umhverfis Kjöthelli er gróið hraun og tvær tóftir eru í næsta nágrenni sem að líkindum tengjast Selstöðunni. Tóft sem er líklega stekkur er um 25 m SV af hellinum og hlaðið aðhald í náttúrulegri lægð er um 70 m til NA.

Markasteinn

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

“Á mörkum Setbergs, Urriðakots og Garðakirkjulands er Markasteinn og átti að búa huldufólk þar,” segir í örnefnaskrá SP. Markasteinn stendur á landamörkum, um 6,3 km SA af bæ 001 og um 1,1 km NA af Kjöthelli.
Markasteinn er afar stórt hraungrýti, um 3 m að flatarmáli og 2,5 m hátt, með gróinni fuglaþúfu á toppnum.
Amma heimildamanns (f. 1864) heyrði sem ung stúlka strokkhljóð berast úr Markasteininum og taldi það til marks um bústörf steinbúa.

Markavarða

Hamarskotssel

Hamarskotssel – markavarðan.

“Landamerkjalínan liggur í Markvörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots. Kethellirinn liggur örlítið hærra.” Markavarðan er á suðvestur mörkum Setbergslands, við Kjöthelli [023]. Varðan er við Kjöthelli, í hálfgrónu hrauni. Varðan er hlaðin úr hraungrýti og steypt er á milli umfara.
Á toppi vörðunnar er stendur stök hraunhella upp á rönd og er henni haldið með steypu. Varðan er rúmlega 2 m há og um 1,5 m að grunnfleti.

Húsatún tóft beitarhús

Setbergssel

Setbergssel.

“En landamerkjalína milli Setbergslands og upplands Garðakirkju lá úr hellunum norðaustur eftir Smyrlabúðarhraunbarmi, norður í Markasteininn á Tjarnarholtinu syðsta. Frá þessu hornmarki liggur línan um Efridal. Síðan um Selhjahlíð og þaðan í Fljóðahjallavörðu. Þegar komið er fyrir Hánef og komið þar upp á holtið, er komið í Húsatún, og þar eru beitarhúsin frá Setbergi,” segir í örnefnaskrá. Húsatún er á vestanverðri Setbergshlíð um 80 m NA af vörðu. Húsatún er um 2,9 km SA af bæ 001 og um 930 m ASA af Gráhellu.
Í kringum beitarhúsið er melur og vex á honum lyng á stangli, en fjær er kjarrgróður. Tóftin er algróin þykkri sinu að innan og einnig er smá grasblettur fast vestan við tóftina, gróinn þykkri sinu. Beitarhúsið er hlaðið úr grágrýti og virðist hleðslan vera nokkuð vönduð þó hún sé nú tilgengin á stórum hluta. Mest hleðsluhæð er um 1,5 m, á norðurvegg einna austast og eru þar 5-6 umför.
Grjótið í hleðslunni er af öllum stærðum, en mest er þó af miðlungs og stóru grjóti. Utan með grjóthleðslunni er sigin torfhleðsla, um 1 m breið og 0,5 m há. Beitarhúsið er um 17 x 11 m að stærð A-V og er innanmál um 14 x 8 m. Vestur hlið tóftarinnar er að mestu opin og hefur þar að líkindum verið timburþil fyrir.

Kershellir

Í Kershelli.

1523 voru landamerkin: “Vr midium kietheller og i stein [þan er stendur i fremsta tiorn ) hollte. vr honum og i Hellv þa er stendur i lambhaga. þadan og i (nedstu jardbru). so epter þui sem lækurinn af skier [j tungards endan. þadan i silungahellu. so þadan og i þufuna sem sudur a holltenu stendur. vr henne og i midian kietheller. hier ad auk a Garda stadur tolf hedta [Reidings ristu ) i setbergs lande. en opt nefnt setbergs budarstödu vid skipaklett i garda lande.”

Hamarskotssel

Hamarskotssel – stekkur.

Í Þjóðminjaskráningu Hafnarfjarðar frá 1988 segir: “Stekkur…Um 40 m Austur af landamerkjavörðu við Kethelli.” Aðhaldið er hátt í 70 m NNA af Markavörðu við Kjöthelli. Aðhaldið er í nokkuð grónu hrauni.
Aðhaldið, sem mögulega er stekkur, er myndað af náttúrulegu, ferköntuðu sigi í hrauninu sem snýr nokkurnveginn NV-SA og hlaðið er fyrir NV og SA enda. Innanmál er um 20×10 m. Hleðslurnar fyrir báðum endum eru um 10 m langar og um 0,5 m háar og sjást 2-3 umför. Norðvestari hleðslan er aðeins tilgengnari og allt að 1 m breið. Langveggir aðhaldsins eru náttúrulegir hraunveggir, allt að 3 m háir og er sigið dýpst fyrir miðju. Botninn er nokkuð ójafn en gróinn. Nálægt miðju norðvestari hleðslunnar er líklegur inngangur, um 1 m breiður, en mögulegt er að einnig sé inngangur vestarlega á suðeystri hleðslunni, heldur þrengri en hinn.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Setberg

Setberg 1958 – loftmynd.

Hafnarfjarðarvegur

Í Vísi 1915 er fjallað um Hafnarfjarðarveginn. Skömmu síðar sama ár skrifar B.B. um veginn. Skrifin eru áhugaverð, einkum í ljósi þess að umræða var þegar orðin um fyrirhugaða sporbraut (járnbraut) milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Byrjað var á járnbrautarsporalagningunni 1918, en frá henni var horfið skömmu síðar, eins og lýst er glögglega annars staðar á vefsíðunni. Hafnarfjarðarvegurinn, einn fjölfarnasti þjóðvegur landsins, hefur sjaldnast fengið að njóta sín af verðleikum. Það er bæði gömul saga og ný…

Hafnarfjarðarvegur

Vegurinn er merktur inn á kort af Reykjavík frá 1876 ( Benedikt Gröndal). En merktur sem “Gamli vegur” á korti frá 1887 (Sveinn Sveinsson) en sem Gamli Hafnarfjarðarvegur á korti Benedikts Gröndals frá sama tíma.Vegurinn lá frá Arnarhóli um traðirnar að Traðarkoti og norðan í Skólavörðuholti og í átt að Öskjuhlíð. Vegurinn hefur verið aflagður að mestu árið 1887.Um 1887 er vegurinn merktu inn á kortið frá vegamótum Klapparstígs og Laugavegar, hann er þá aflagður og merktur sem Gamli vegur, hann hefur legið yfir Frakkastíg á milli Laugavegar og Grettisgötu, hefur síðan sveigt yfir Grettisgötu á móts við númer 32, legið síðan í átt að gatnamótum Njálsgötu og Vitastígs, yfir Bergþórugötu við húsnúmer 31 og yfir lóð Austurbæjarskóla og yfir Barónsstíg á móts við Heilsuverndarstöðina. Hann lá svo upp á Öskjuhlíðarveg vestan við Eskihlíð. Greinilegt er að Skólavörðustígur og Öskjuhlíðarvegur hafa leyst þennan veg af hólmi um 1870 en þá var hafist handa við að gera Öskjuhlíðarveg.

“Án efa er þessi vegur einn hinn allra fjölfarnasti vegarspotti á þessu landi. þótt hann sé ef til vill talinn lögum samkvæmt sýsluvegur, þá er hann í reyndinni sannkallaður þjóðvegur og því er það æði einkennilegt, að með fullum sanni má segja, að vegarkafli þessi — milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar — mun vera einn hinn ógreiðfærasti og óhentugasti til umferðar, allra lagðra vega landsins. Í fyrsta lagi, er hann frá upphafi hálfu mjórri en hann ætti og þyrfti að vera, og er það höfuðgalli. Svo mjór er hann víða, að alveg er ógjörningur að koma bifreið fram hjá öðrum vagni, sem hún mætir á veginum og vita allir hér um slóðir hvílík vagnaumferð er á þessari leið og sama máli gegnir um lestir, sem fara mjög um veginn bæði vor og haust.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforingjakorti 1919.

Af því, hve vegurinn er mjór, hafa fyr og síðar hlotist ýms slys og áföll og jafnvel hefir það orðið mönnum að bana. Í öðru lagi er það alveg óskiljanlegt hversu viðhaldið á þessum vegi er bágborið. Um hann allan eru djúpar gjótur og sumstaðar stærðar hnullungssteinar upp úr honum, svo það líkist meira óruddum „fjallabaksvegi”. Ennfremur eru brýrnar, sem bygðar hafa verið yfir lækina á leið þessari, þær ómyndir, að tæpíega er farandi yfir þær með bifreið eða flutningavagn. það eru handónýta fjalir, sem búast má við að hrynji, niður þá og þegar. Þar að auki eru þessar brúarmyndir alt of mjóar og ekki bætir það úr skák, að gleymst hefir að setja handrið fram með þeim eða við endana, svo í nokkru lagi sé.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Fossvogur.

Af þessum ástæðum, sem þegar eru nefndar, þykir það því nær ógerningur að halda uppi bifreiðaferðum um þennan veg. Bæði er það, að þeir, sem málinu eru kunnugir af reynslunni, telja það jafnvel lífshættu að aka bifreiðum um veginn suður í Hafnarfjörð og svo er hitt, að á meðan honum er svo illa haldið við, þá slitna hjólin og vagnarnir svo óbærilega mikið, að úthaldskostnaðurinn fer fram úr öllu hófi. En trúað gætum vér, að mörgum mundi bregða við, ef bifreiðaferðir milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hættu með öllu, því það hefir reynslan sýnt, að þörfin á slíkum flutningatækjum er geysimikil á þessari leið.
Vonandi sjá þeir, sem ráðin hafa og völdin í þessu máli, nauðsynina á því, að bæta úr þessum miklu brestum og ætti næsta sumar ekki að líða svo, að veginum verði ekki gjörbreytt og bættur sem þörf krefur. þessa mundi margur óska, því það eru ekki tugir, heldur hundruð, sem um veginn fara marga daga.
Vonandi hætta menn að kýta og metast um það, hverjir eigi að framkvæma verkið, en hefjast heldur handa sem allra fyrst að hægt er og svo að um muni.
Það er ábyrgðarhluti, að bíða eftir slysunum og hálf leiðinlegt að vera orsök í því, að menn þurfi um alla eilífð að ferðast um svo fjölfarinn veg eins og skrælingjar, og enginn búhnykkur er það fyrir þjóðfélagið, að tefja eða hefta för manna að óþörfu.”

Í Vísi í sama mánuði skrifar B.B. um “Veginn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar”:

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

“Um hann var grein í »Vísi« 9. þ. m. Á þeirri tíð, er Gullbringu- og Kjósarsýsla var eitt sýslufélag, mun hafa verið ákveðinn sýsluvegur frá Rvík suður með sjó, og er kaflinn milli landa Ríkur og Hafnarfj. hluti af þeim vegi. Sýslan gerði á sínum tíma vegarspotta þennan akfæran, en bæði var þá afvanefnum að gera og miðað að eins við þörf tímans, sem þá var, og því er vegurinn að gerðinni eins og fyrnefnd grein lýsir honum.
Þegar sýslunni var skift, hlaut hver sýslan þann kafla til viðhalds, sem í henni lá. Kársnes, milli Fossvogs og Kópavogs, er syðsta horn Kjósarsýslu. Yfir það liggur vegur þessi, og hlaut Kjósarsýsla þann klafa. Honum hefir verið sæmilega við haldið, enda gleypti hann mesLalt vegafé sýslunnar árlega, (oftast 300—700 kr.) svo aðra vegi sýslunnar hefir orðið að vanrækja.
Er þessi vegur þó svona út úr sýslunni, og henni ekki fremur að notum, en hann lægi í öðru héraði.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Arnarneshæð.

En er umferð Heilsuhælisins og bílanna bættist á þenna mjóa og veikgerða veg, sá sýslunefnd Kjósarsýslu fram á, að henni var ókleift að halda honum í standi, og í eðli sínu óskylt, svo lítið sem sýslurnar nota hann. Var þessi kafli því numinn úr tölu sýsluvega Kjósarsýslu frá nýári 1915. En við hann var svo vel gert síðastl. sumar, að nú er kafli þessi skárstur af Hafnarfjarðarveginum.
Eitt af listaverkum aukaþingsins í fyrra var breyting á vegalögunum frá 1907, er ákveður að vera skuli flutningabraut frá Rvík til Hafnarfjarðar milli lögsagnarumdæmanna, en þess viðhaldi hennar sé ráðstafað á annan hátt, en lögin 1907 ákveða. Verri grikk var varla unt að gera hinni litlu Kjósarsýslu; því nú eru helst horfur á, að henni verði skipað að halda vegarkafla þessum við sem flutningabraut. En undir það getur hún ekki gengist, Á nýafstöðnum sýslufundi þar var ákveðið, að leita 1000 kr. láns fyrir sýslusjóð, til að bæta bráðustu viðgerðarþörf á sýsluvegum þar, sem legið hafa þar óbættir, af því alt féð lenti í viðhaldi hins óþarfa vegarkafla. Það horfir því til vandræða, ef þvinga ætti sýsluna til að taka á sig í viðbót þenna Kársnesskafla Hafnarfjarðarbrautarinnar, og er vonandi að til þeirra óyndisúrræða verði ekki að taka.
Vanhugsað væri að lappa upp á þenna veg til lengdar, eins og hann er. Eigi að fullnægja samgangnaþörfinni þarna, verður að byggja nýjan veg á öðrum stað, og yrði óvíða eða lítil not að þeim vegi, sem nú er, við þá vegargerð. Líklega væri skynsamlegast að leggja þarna sporbraut (járnbraut), og skal eg leyfa mér að láta í ljósi hugmynd mína um legu vegarins (eða sporbrautar), er fullnægja mundi framtíðarþörfinni.

Hafnarfjarðarvegurinn

Hafnarfjarðarvegurinn 1947 – malbikið orðið holótt.

Vegurinn, sem nú er, liggur yfir 6 hæðir (með lægðum á milli) og er víða of brattur. Ætti að leggja framtíðarveg um sama svæði, yrði að sneyða hæðirnar meira og jafnframt beygja inn í dalverpin, og hlyti það að lengja veginn mikið, til að fá hann sæmilega hallalítinn og hægan. Eg hygg því að vegurinn yrði ekki mikið lengri, þó valin væri önnur leið, er nú skal lýst.
Sé um sporbraut að ræða, skal nota hið mælda járnbrautarstæði upp að Blesugróf, ella austur veginn austur á móts við Bústaði, þá járnbrautarleiðina upp fyrir Blesugróf, þá austan við Digranessháls, um Fífuhvamm, Nónskarð, austan Hofstaðaholtið, vestan við Vífilstaði, um Hagakot, og síðan yfir hraunið til Hafnarfjarðar.
Á þessari leið er ein aðal-bugða, en færri lægða- og hæðabeygjur, en ef fara ætti gömlu hálsaleiðina; og heilsuhælið, sem svo mikið notar veginn, fær hann nær sér.
Þetta er a. m. k. þess vert að athuga það.” – B.B.

Heimildir:
-Vísir, 119. tbl. 09.04.1915, Hafnarfjarðarvegurinn, bls. 1.
-Vísir, 126. tbl. 16.04.1915, Vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar, bls. 2.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn í Hafnarfjarðarhrauni.

Krýsuvík

Í Lögbergi 1948 er viðtal við Jens Hólmgeirsson um “Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar”:

Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar

Krýsuvík

Krýsuvíkurbúið fyrrum.

Lokið er byggingu eins íbúðarhúss og hafinn undirbúningur að túnrækt og byggingu gróðurskálans í Krýsuvík á sunnanverðu Reykjanesi var áður allmikil byggð, sem lagðist með öllu niður fyrir nokkru. Þar eru mikil jarðhitasvæði og allgóð aðstaða til ræktunar bæði við jarðhita og án hans. Nú hefir Hafnarfjarðarbær hafið þar landnám að nýju. Er ætlunin að stunda þar bæði nautgriparækt til mjólkurframleiðslu og ræktun matjurta og grænmetis í upphituðum gróðurskálum. Framkvæmdastjóri garðræktarinnar þar hefir verið ráðinn óskar Sveinsson garðyrkjumaður, en Jens Hólmgeirsson mun sjá um stofnun og starfrækslu kúabúsins. Tíðindamaður blaðsins hefir átt tal við Jens Hólmgeirsson um þessi mál.

Heil kirkjusókn í eyði

Krýsuvík 1887

Krýsuvík 1887.

— Var ekki allmikil byggð í Krýsuvík áður fyrr?
— Jú, Krýsuvík var stórbýli fyrr á öldum og höfuðból, og auk þess voru áður í Krýsuvíkurhverfinu 10—12 hjáleigur og smærri býli. Á þeim tíma var þarna allfjölmennt og fram undir 1600 var prestur í Krýsuvík.
Eftir það var Krýsuvíkurkirkja annexía frá Strönd í Selvogi, en síðar var kirkjunni þjónað frá Grindavík. Árið 1928 mun kirkjan hafa verið lögð niður, enda var þá aðeins fátt fólk eftir í sókninni. Munir og gripir kirkjunnar voru þá fluttir í Þjóðminjasafnið, en húsið, stendur ennþá. Árið 1901 eru taldar 42 sálir í Krýsuvíkursókn, og eru þá aðeins fimm bæir í byggð. Árið 1934 mun síðasti bóndinn hafa flutt úr byggðarlaginu. — Bjó hann í Nýjabæ og hafði verið þar bóndi um 40 ára skeið og komið upp 17 mannvænlegum börnum.

Bjó einn í kirkjunni

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson – síðasti ábúandinn í Krýsuvík.

Byggð féll þó eigi niður í Krýsuvík fyrr en árið 1945. Síðasti íbúi Krýsuvíkur var Magnús Ólafsson. Hann kom 18 ára gamall sem vinnumaður til Árna sýslumanns Gíslasonar, sem flutti til Krýsuvíkur nokkru fyrir síðustu aldamót. Magnús ílentist svo í Krýsuvík, tók órjúfandi tryggð við staðinn og undi þar vel hag sínum, þótt aðrir flyttu brott. Síðustu árin bjó hann þar einn síns liðs með kindur sínar. Hafði hann íbúð í kirkjunni eftir að hún var lögð niður. 1945 veiktist Magnús, þá um eða yfir 70 ára að aldri, og var fluttur til Hafnarfjarðar. Með brottför hans var í bili lokið byggð í Krýsuvík.

Allgóðir landkostir og mikill jarðhiti
— En hvernig eru landkostir í Krýsuvík?
— Krýsuvíkurland má heita eina verulega gróðurlendið á Reykjanesskaga vestan línu, sem dregin er frá Hafnarfirði í Selvog. Samkvæmt mælingu Ásgeirs L. Jónssonar, ráðunauts, sem gerði ræktunarmælingar af landinu, er graslendi í Krýsuvík nálega 350 ha. að flatarmáli. Er þá ekki talið með gróðurlendi í hallandi hlíðardrögum, né heldur hálfgrónir melar, en það land skiptir vafalaust hundruðum ha.
Verulegur hluti hins mælda graslendis er mýrar og hálfdeigjur. Sums staðar er undirlagið mókennt, en annars staðar leirblandið. Þá er og jarðhiti allmikill í Krísuvík, þar á meðal stór gufu hver, sem ýmsir telja einn hinn hrikalegasta gufuhver í heimi.

Hafnarfjarðarbær hefur nýtt landnám í Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvik – gróðurhúsin.

Krýsuvíkurland er, sem kunnugt er, eign Hafnarfjarðarbæjar. Hefir stjórnin í huga að hefja þarna nýtt landnám. — Er einkum rætt um tvennt: í fyrsta lagi ræktun alls konar matjurta og grænmetis í gróðurskálum við jarðhita. Í öðru lagi er áform að að stofna þar kúabú til mjólkurframleiðslu fyrir Hafnarfjörð, og hefir í því sambandi einkum verið rætt um framleiðslu barnamjólkur. Fleiri framkvæmdir munu og hafa komið til greina, en hér verður ekki um þær rætt.

Skilyrði til búskapar góð

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík.

— Hvernig telur þú skilyrði til búskapar þar?
— Þau má telja allgóð. Ræktanlegt land ætti að geta framfleytt um 300 kúm, án þess þó að nota að nokkru hugsanlega túnræktarmöguleika á melalandinu. Verulegur hluti af landi því, sem kortlagt hefir verið til ræktunar, verður að teljast fremur gott. Þá eru og sterkar líkur fyrir því, að hægt sé að fá geysimikinn jarðhita í Krýsuvík. Nú þegar mun mega staðhæfa, að hann sé nægur fyrir hendi til stórfelldrar gróðurskálaræktunar, súgþurrkunar á heyi og til hitunar íbúða þeirra, sem byggja verður vegna þeirrar starfsemi, sem að framan hefir verið greint frá.

Miklar framkvæmdir

Krýsuvík

Krýsuvík.

Svo sem áður er sagt, eru ekki til staðar í Krýsuvík eldri mannvirki, sem nothæf eru, hvorki húsakostur né ræktað land. Hér verður því um að ræða hreint landnám frá rótum. Fyrirhugað ar framkvæmdir munu því verða einhver hin stórfelldustu og myndarlegustu átök til nýs landnáms, sem ennþá hafa verið gerð á landi á einum stað og af einum aðila. Verður hér um að ræða algera nýbyggð á landssvæði, sem komið var í fullkomna auðn og var áður heil kirkjusókn að stærð.

Krýsuvík - vinnuskóli

Drengir úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógrækt í Undirhlíðum.

Fyrstu framkvæmdirnar í ræktunarátt hóf Hafnarfjarðarbær fyrir nokkrum árum með því að girða landið. Mun girðingin vera um 27 km. að lengd og landið innan hennar um 2000—2500 ha. að flatarmáli. Var girðingunni lokið 1946. Sama ár var hafizt handa um skurðgröft til þurrkunar á væntanlegu ræktunarlarlandi. Alls hafa nú verið grafnir opnir skurðir, sem eru liðlega 5,3 km. að lengd og eru samtals yfir 23 þús. teningsmetrar að rúmmáli.
Þá hefir og verið hafið nokkuð landbrot. Mun það nema nú nálægt 27 ha. að stærð, og er þar innifalinn meginhluti gömlu túnanna, en um ræktun og gróðurfar eru þau eðlilega litlu betri en úthaginn. Ekkert af þessu landi er þó fullunnið ennþá. Lokið er byggingu eins íbúðarhúss og hafin er bygging gróðurskála.
— En hvað er að segja um byggingarframkvæmdirnar?

Krýsuvík

Krýsuvík – Fjósið – HH.

— Eitt íbúðarhús hefir verið byggt og er það ca. 10×26 metrar að grunnstærð. Stendur það á melöldu norðaustan við Gestsstaðavatn, en þar í grennd hefir gróðurskálunum verið valinn staður. Í húsinu eru tvær rúmgóðar fjölskylduíbúðir auk geymslurúms og einstakra herbergja fyrir starfsfólk. — Húsið er hitað með gufu. Hús þetta er einkum ætlað fyrir væntanlegt starfsfólk gróðurhúsanna. Má að nú heita nær því fullgert. Á s.l. sumri flutti Óskar Sveinsson garðyrkjumaður í húsið með fjölskyldu sína. Munu þá hafa verið liðin tæp tvö ár frá því að Magnús Ólafsson, einbúinn, sem ég minntist á hér að framan, flutti alfarinn úr Krýsuvík.
Af öðrum byggingum má nefna skýli yfir 30 kw. dieselrafstöð, sem sett hefir verið upp.
Einnig 60 rúmmetra steyptan vatnsgeymi og dæluhús við Gestsstaðavatn, en þar er neyzlu vatnið tekið. Þá er hafin bygging tveggja gróðurskála um 600 fermetra að flatarmáli. Er það þriðjungur þeirra gróðurskála sem ráðgert hefir verið að byggja á næstunni. Var að því komið að steypa veggi gróðurhúsanna, þegar frostin hófust í desembermánuði s.l. Þá hefir verið lokið við vatnsleiðslu að íbúðarhúsinu, nokkrir vegarspottar lagðir og fleiri smærri framkvæmdir gerðar.

Framkvæmdir á þessu ári

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið í dag, 2021. Framkvæmdin var pólitískt bitbein Alþýðuflokksmanna og Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði frá upphafi.  Rústirnar eru ágætt dæmi um togstreytu án tilgangs…

Svo sem fyrr getur, hefir lítt eða ekki verið byrjað á þeim byggingum, sem væntanlegu kúabúi eru nauðsynlegar. Má þar til nefna, fjós, hlöðu, vot heysgryfjur og íbúðir starfsfólks o. fl. Að sjálfsögðu er aðkallandi að ljúka verulegum hluta af þessum byggingum á yfirstandandi ári og því næsta. Takist það, má telja nokkra von til að mjólkurframleiðsla geti byrjað í Krýsuvík seint á árinu 1949.
KrýsuvíkEn svo sem kunnugt er, eru slíkar framkvæmdir bundnar fjárveitingarleyfi og allfrekar á erlent byggingarefni, en á því er nú mikill hörgull eins og allir vita. Verið er að vinna að þess um málum nú. En að þessu sinni verður ekkert um það sagt, hvernig afgreiðslu þeirra reiðir af. — Tíminn, 18. marz.

Heimild:
-Lögberg, 21. tbl. 20.05.1948, Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar – viðtal við Jens Hólmgeirsson, framkvæmdarstjóra, bls. 7.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Krýsuvík

Í Þjóðviljanum 1955 skrifar Elías Guðmundsson “Minningar frá Krýsuvík – Skúla Árnasonar, héraðslæknis minnzt”:

Skúli Árnason

“Fyrrverandi héraðslæknis, Skúla Árnasonar, er lézt að heimili dóttur sinnar og tengdasonar hér í bænum 17. sept. sl., var getið í blöðum bæjarins um og eftir útför hans í stuttum eftirmælagreinum, skráðum af menntamönnum er þekktu hann persónulega. Í greinum þessum er Skúla lýst sem lærdómsmanni og lækni, einnig að nokkru sem bónda og dýravini, er fór sömu mjúku líknarhöndunum um manninn og málleysingjann, lá aldrei á liði sínu en gerði ætíð sitt bezta. Af því að svo undarlega vill nú til að engin af þessum Skúlagreinum á neitt skylt við venjulegt líkræðulof né eftirmælaöfgar, eins og öllum kunnugum er ljóst þá hlýtur sú spurning óhjákvæmilega að vakna, hvað þar var, sem gerði Skúla þannig. Svona góðan, svona sannan og raunverulega mikinn mann. Ég fullyrði að það var ekki presturinn sem kenndi honum undir skóla, ekki menntaskólinn hér í Reykjavík né læknaskólinn og ekki heldur sú stofnun er hann hlaut framhaldskennslu í erlendis og hef ég þó ekki neina löngun tii að kasta hinni minnstu rýrð á neinn af þessum fjórum framangreindu aðilum. Heiðurinn og þökkina fyrir það hvernig Skúli var ber engum öðrum en foreldrum hans og heimili þeirra. Þar dvaldi hann öll sín bernsku- og uppvaxtarár. Þarna mótaðist maðurinn.
KrýsuvíkHús og heimili foreldranna voru meðal annars hans búnaðarskóli, eins og verkin sönnuðu síðar meir og sýndu ríkulega ávexti af.
Þegar litið er um öxl 60-80 ár aftur í tímann, til bernsku-, unglings- og námsára Skúla læknis er það tvennt sem ekki verður hjá komizt að athuga, en það er hinn stórfenglegi búferlaflutningur sýslumannsins Árna Gíslasonar, föður Skúla, frá Kirkjubæjarklaustri á Síðu í Skaftafellssýslu, til Krýsuvíkur í Gullbringusýslu, og svo hið dæmafáa illæri, fjárfellir og þar af leiðandi hvers konar hörmungar er þá gengu yfir landið árum saman.

Klofningar

Klofningar í Krýsuvíkurhrauni.

Búferlaflutningur Árna Gíslasonar frá Klaustri að Krýsuvík fór fram á tveim árum, 1879 og 1880. Fyrra vorið, þ.e. 1879, fluttist nokkuð af heimilisfólkinu, aflaði heyja og fleira um sumarið, en svo um haustið var féð rekið, 1265 fjár, á stað að austan en eitthvað týndi það nú tölunni á leiðinni sem von var til, því margar og illar eru torfærur á þeirri löngu leið. Þá voru ekki brýrnar komnar. Næsta vor, þ.e. 1880, fluttist svo það sem eftir var af fólkinu, stórgripir allir og búslóð. Síðastur frá Klaustri og í einskonar sérfylkingu fór sýslumaður sjálfur ásamt þáverandi síðari konu sinni, Elínu Árnadóttur ættaðri frá Dyrhólum í Mýrdal, og þeim tveim börnum þeirra er til fullorðinsára komust, Ragnheiði og Skúla, en þau voru bæði fermd saman í Prestbakkakirkju á Síðu rétt áður en lagt var af stað að austan.

Krýsuvík

Krýsuvík, Arnarfell t.v. og Bæjarfell t.h.

Þáttur nýfermda drengsins, Skúla, í þessu ferðalagi var sá að hann rak stóðhross föður síns, eitthvað innan við tuttugu að tölu, flest ung. Þó voru í þessum hópi tvær nokkuð gamlar hryssur, báðar fylfullar og verður þeirra að nokkru getið síðar. Þrátt fyrir dugnað sinn og kappgirni virðist roskni sýslumaðurinn hafa tekið þetta ferðalag vestur um Suðurlandsundirlendið fremur rólega. Gistingastaði hans alla hirði ég ekki að telja, en skal þó geta þriggja þeirra, en á þeim hverjum um sig sat hann einn dag um kyrt, hvíldi fólk sitt og hesta og gisti tvær nætur.

Geitahlíð

Geitahlíð.

Á vali þessara gististaða má sjá það að hann hefur einkum gist frændur og venzlafólk, en ekki valið sérstaklega úr þá staði er mesta höfðu björg í búi.
Þeir þrír staðir er Árni dvaldi á daglangt á vesturleiðinni voru þessir: Dyrhólar í Mýrdal, æskuheimili frú Elínar, Breiðabólstaður í Fljótshlíð, hjá séra Skúla bróður sínum, en þriðji og síðasti gististaðurinn var kot eitt vestarlega og neðan til í Flóanum, í grennd við Eyrarbakka, nafn á því man ég ekki, en þar bjó frændkona hans fátæk. Í þeim litla flutningi er Árni hafði með sér í þessari ferð, er var lítið annað en nauðsynlegt nesti var kistill einn er hann geymdi í peninga sína. Kistilinn, sem vitanlega var læstur, opnaði hann einu sinni í ferðinni, en það var áður en hann fór úr kotinu frá fátæku frændkonunni. Ekki opnaði hann kistilinn svo mikið að neinn sæi ofan í hann, en þó nógu mikið til þess að hann kom hægri hendi sinni inn undir lokið, en undan lokinu kom svo hnefinn fullur af silfurpeningum, þeim er þá giltu hér sem gjaldmiðill. Þetta lagði hann á borðið hjá fátæku frænkunni að skilnaði, mælt í hnefum en ekki talið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg ofan Klofninga.

Annarri fátækri frændkonu, systurdóttur sinni, þarna í Eyrarbakkanágrenninu, þurfti Árni að líta eftir um leið og hann fór vestur um. Gjafir til hennar veit ég ekki um, en af henni tók hann sex ára gamlan dreng með sér til Krýsuvíkur, ól hann upp og kom til manns. Piltur þessi var Stefán Stefánsson og var á fullorðinsárum oft nefndur túlkur. Á þessari löngu ferð Árna Gíslasonar og fjölskyldu hans, var lokaáfanginn að sjálfsögðu hin 16 km langa bæjarleið, sem er á milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Að sjálfsögðu eru landamerkin milli þessara jarða þarna á milli bæjanna og eru þau um leið sýslumörkin á milli Árnessýslu að austan en Gullbringusýslu að vestan.
Þegar komið er spölkorn vestur fyrir sýslumörkin, þ.e. inn í Krýsuvíkurland, þá er fyrsta verulega gróna landið á þeirri leið svonefndir Klofningar, en þar fækkaði tveimur í hrossarekstrinum hjá Árna. Fylfullu hryssurnar voru orðnar æði þunglamalegar svo hann skildi þær eftir þar í Klofningunum, næsta dag fór hann svo og vitjaði þeirra, var þá sitt folaldið komið hjá hvorri.
Þegar nú að þarna var komið til hins fyrirheitna lands, Krýsuvíkur, virðist svo sem Árni hafi fundið einhverja þörf hjá sér til þess að beina huga konu sinna og barna að öðru en heimilisástæðunum og búskaparafkomunni og er mér sagt að hann hafi þá kastað fram eftirfarandi stöku: Vorið blíða lífgar lýð lengist óðum dagur. Gyllir fríða Geitarhlíð geislinn sólar fagur.
Geitarhlíð heitir fjall eitt fagurt, skammt til austurs frá Krýsuvík, sem hér er um kveðið. Hvort vísan er ort fyrsta kvöld Árna í Krýsuvík, veit ég ekki með vissu, en hitt er víst að hún er ort á vorkvöldi í Krýsuvík og að Árni er höfundurinn.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.
Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð.
Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010.

Árni Gíslason var skemmtilegur tækifærisvísnahöfundur. Stökur hans oft svipmiklar. Kímnigáfu var Árni gæddur og henni góðri. Þann eiginleika tók Skúli í arf. Báðir fóru þeir feðgar vel með skophneigð sína.
Það er hverjum manni auðskilið mál að búferlaflutningur Árna Gíslasonar hlaut óhjákvæmilega að draga á eftir sér marga illa dilka. Fyrst og fremst það að flytja mikinn fjölda sauðfjár úr góðu sauðfjárplássi í annað miklu lakara, en það hefur engum manni tekizt án þess að verða fyrir stórtjóni, þegar svo þar ofan á bætist það ólán að þurfa fyrstu árin að mæta einhverjum þeim verstu harðinda- og fellisvetrum sem komið hafa. Svo var nú bráðapestin á einu leitinu, mjög mögnuð orðin hér um suðurkjálkann þá og hið óhagvana fé að austan mjög næmt fyrir henni. Þá má geta tófubitvargsins er þá var svo magnaður hér um Reykjanesskagann að slíks eru engin dæmi. Fyrsta vorið sem Árni átti fé sitt í Krýsuvík fundust tíu tófugreni í Krýsuvíkurlandareign og er þó ekki trúlegt að öll kurl hafi komið til grafar, svo margar eru holurnar í Krýsuvíkurhraununum…
Þegar við Skúli heitinn læknir ræddum um þessa tíma og þá erfiðleika er við var að stríða, heyrðist mér ævinlega á honum að hann hefði talið tófupláguna versta. Til skilningsauka á þessum málum vil ég greina hér frá tveimur atvikum er Skúli sagði mér frá persónulegum viðskiptum sínum við tófur.

Klofningar

Klofningar – greni.

Þetta umtalaða vor er fjölskyldan flutti til Krýsuvíkur, skeði það að áliðnu vori að Skúli var að smala í áðurnefndum Klofningum, en er leið hans lá yfir laut eina grasigróna verður hann var tófuyrðlinga nokkurra í grasinu þar í lautinni. Það varð fangaráð Skúla að hann fór úr utanyfirbuxunum, batt með snærisspottum utanum skálmarnar neðst, tíndi svo yrðlingana, sem reyndust vera 9 talsins, upp í buxurnar og labbaði svo með feng þennan á bakinu heim að Krýsuvík.
Þegar Skúli kemur í hlaðið mætir hann Guðmundi Hannessyni bónda á Ísólfsskála, er þá var að koma neðan af svokallaðri Skriðu, frá því að vinna gren þar.
Guðmundur þessi var orðlögð ágætisskytta, en er hann hafði heyrt sögu Skúla úr Klofningunum, varð hann æfareiður honum fyrir það að hafa tekið yrðlingana. Taldi Guðmundur það tiltæki Skúla geta valdið því að hann næði ekki tófunni. En hvað um það, þrátt fyrir reiði Guðmundar leggja þeir báðir af stað austur eins og leið liggur, allt þar til er þeir finna hina áður umgetnu laut, þar sem Skúli fann yrðlingana. En er þeir félagar höfðu hreiðrað um sig og legið um klukkutíma í hraungjótu einni að austanverðu við lautina, sjá þeir allt í einu tvær tófur á hraunbrúninni vestan lautarinnar, en þá varð Guðmundi að orði: „Þurftu þær nú að koma báðar í einu, bölvaðar”. Lét hann samt fjúka þarna á þær og báðar lágu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Annað atvik, sem ég vil geta gerðist 6-7 árum síðar; var Skúli þá kominn í Latínuskólann en dvaldi að venju heima í Krýsuvík í jólafríinu.
Var það þá venja hans utan sjálfra hátíðisdaganna, þegar veður leyfði það, að ganga með byssu um Krýsuvíkurland, skjóta rjúpur og eitra fyrir tófuna. Í einum slíkum leiðangri var það eitt sinn að hann rakst á för eftir eina kind rétt hjá Kleifarvatni. Snjóföl var svo að vel sáust förin og rakti Skúli þau vestur með Sveifluhálsinum sunnanverðum, allt vestur í svonefnda Seltóu þar sér hann kindina er reyndist þá vera einn af sauðum föður hans. En þannig var þá ástatt með þennan sauð að tófa ein hafði að miklu leyti hringað sig utan um hálsinn á honum og var að sjúga úr honum blóðið. Að hrista tófuna af sér hafði sauðnum ekki tekizt. Þegar nú að Skúli kemur þarna á vettvang þá verður það úrræði hans að skjóta tófuna þarna á hálsinum á sauðnum og þá auðvitað kindina um leið. Útigenginn, ljónstyggur fjallasauðurinn kunni ekki betra ráð að þýðast.

Krýsuvík 1887

Krýsuvík 1887.

Sumarið 1894 er ég var 10 ára gamall dvaldi ég í Krýsuvík, en þá um vorið lauk Skúli læknanámi og kom vitanlega að þyí loknu heim að Krýsuvík. Dagur einn snemma í ágústmánuði er mér minnisstæður frá því sumri. Það var verið að breiða nokkuð hrakta há á svonefndum Ræningjahóli í sunnanverðu túninu um tíuleytið árdegis, sást þá koma ríðandi maður á rauðum hesti, allmikill í sæti, að austan. Þegar til kom þá reyndist þetta að vera hinn góðkunni myndarbóndi Þórður á Vogsósum og hafði hann með að fara bréf frá Magnúsi Stephensen landshöfðingja, hvar Skúli var beðinn um að taka að sér þjónustu læknisembættis í Grímsneshéraði í Árnessýslu. Við þessari beiðni varð Skúli og lagði af stað austur að tveim dögum liðnum. Ég kann naumast að lýsa því hver áhrif þetta „Skúla-mál” hafði á Krýsuvíkurheimilið. Allir söknuðu Skúla og hryggðust við burtför hans, en glöddust þó af því hve fljótt hann fékk þarna álitlegt embætti. Söknuður þess að missa Skúla var heimilisfólkinu bættur með því að lesa því að minnsta kosti kafla úr bréfum hans, er bárust að austan, ég held með hverri ferð sem féll.
Krýsuvík 1998Þegar þess er gætt að frú Elín Árnadóttir, móðir Skúla, var ein sú allra bezta kona sem ég hefi þekkt, og Árni Gíslason, faðir hans, sá maður sem hann var og ég hefi lítilsháttar reynt að lýsa hér, þegar þess er ennfremur gætt að Skúli erfði í ríkum mæli alla beztu kosti beggja foreldranna, þá hlaut vel að fara.
Ég hefi engan gamlan mann þekkt sem hefur átt kost á að vera umvafinn jafn mörgum og ástríkum kærleiksföðmum og Skúli læknir.” – Elías Guðmundsson.

Í Íslenskum æviskrám segir um Árna Gíslason; sýslumaður í Krýsuvík, 1820–1898, sonur Gísla í Vesturhópshólum og bróðir sr. Skúla á Breiðabólstað. Sýslumaður í Skaftafellssýslum 1852-1879 en bjó síðast í Krýsuvík 1880 til dauðadags. Hafði um tíma hæsta lausafjártíund allra búandi manna á Íslandi. Talinn dugandi embættismaður og vinsæll í héraði, einkennilegur í lund og háttum, gamansamur og hagmæltur.

Heimild:
-Þjóðviljinn, 5. tbl. 08.01.1955, Minningar frá Krýsuvík – Skúla Árnasonar, héraðslæknis minnzt, – Elías Guðmundsson, bls. 7 og 8.
-Ísl. æviskrár I, bls. 44.

Krýsuvík

Krýsuvík 1881.

Helgadalur

Í Norðanfara 1880 er fjallað um stofnun “Hið íslenska fornleifafjelags”:

Norðanfari“Næstliðið sumar stofnuðu nokkrir hinna helztu embættismanna í Reykjavík nýtt fjelag er nefnist «Hið íslenzka fornleifafjelag», og barst oss með síðasta pósti næstl. ár boðsbrjef og lög nefnds fjelags frá formanni þess herra landfógeta Árna Thorsteinsson til birtingar í blaði voru. Vjer þurfum ekki að vera margorðir um fjelag þetta, því vjer vonum og teljum víst, að landar vorir muni jafnt sjá nauðsyn sem nytsemi pess, og ætlum vjer að þeir sem unna frægðarljóma fornaldarinnar og framfór og menntun binnar yfirstandandi og komanda tíðar, muni bezt geta sýnt áhuga sinn með því að ganga í fjelagið senda því forngripi og styrkja pað á annan hátt. Eitst. Boðsbrjef.
Áhugi Íslendinga á að viðhalda fornleifum og safna þeim hefir hingað til eigi verið jafnmikill og kapp það, sem um margar aldir hefir verið lagt á, að varðveita sögur vorar, mál og þjóðerni, og er þó ljóst, að engin skýring yfir fornsögur vorar er betri, en þau þögulu vitni, er felast fá fet undir yfirborði jarðarinnar.

Sel

Heimildir eru um Sel frá 14. öld og var það lengst af kirkjujörð auk þess sem útræði var mikið úr Selsvör, enda upphaflega um sel frá Víkurbænum að ræða. Bærinn var síðar oft nefndur Stóra-Sel. Steinbær var reistur þar árið 1884 sem stendur enn.
Uppdráttur Hoffgards frá árinu 1715 sýnir m.a. Sel enda eitt af höfuðbýlum á þessu svæði og prestsetur. Nýlegar fornleifarannsóknir sýna að undir steinbænum eru leifar af torfbæ. Selsbærinn stóð þar sem í dag er Holtsgata 41b.

Margar af fornleifum vorum hafa lógazt og farið forgörðum. Fjöldi þeirra hefir komizt í hendur útlendra manna, sem eigi hafa skeytt þeim nema til stundargamans, og eigi skilið þýðing þeirra fyrir oss. Það eru að eins sumar þeirra, er hafa lent á útlendum söfnum, en þó hvergi svo margar, að þær geti getið nokkra ljósa eða samfasta hugmyndum menntunarástand lands vors á ýmsum tímum.
Síðan hið íslenzka forngripasafn var stofnað, hefir það að vísu borgið mörgum íslenzkum fornleifum, sem annars hefði glatazt eða tvístrazt, en mikið vantar þó á, að það, einkum sökum fjeskorts geti verndað svo íslenzkar fornleifar sem skyldi, og er því ljóst að brýn þörf er á, að landsmenm leggi sig enn betur fram, en hingað til hefir verið um það að vernda fornleifar vorar, þess vegna hafa nálega 40 menn gengið í fjelag, “sem nefnist hið íslenzka fornleifafjelag, og er það fyrirætlan fjelagsins að starfa að því af öllu megni, að Forngripasafn vort geti auðgast þannig af fornmenjum, að menn með því geti rakið lífsferil þjóðarinnar um hinar liðnu aldir. Einkum mun fjelagið verja kröptum sínum til að leita að fornleifum bæði í jörð og á, vernda þær, lýsa þeim og gjöra þær bæði þjóð vorri og erlendum fræðimönnum sem kunnastar.
Áður hefir það opt borið við að menn hafa grafið eptir feim menjum í gróðahug, en það kemur sjaldan fyrir, að slíkur gröptur svari kostnaði, heldur glatast þá jafnan sá fróðleikur, sem ætla má að fengizt hefði, ef rjett hefði verið farið að. Fjelagið mun því eptir efnum styrkja að því, að við slíkar rannsóknir sje farið eptir vísindalegum reglum, og grafið sje með nægilegu eptirliti, til þess að þjóð vor geti haft nokkra trygging fyrir, að svo rjett sje að farið, sem bezt má verða. Sje því að einhver viti til fornra mannvirkja sem þurfa friðunar, uppgraptar eða vísindalegrar rannsóknar, vonast fjelagið eptir að menn leiti sín, og mun það þá veita fullting sitt. Það er áform fjelagsins að láta rannsaka þingvöll, fyrst og fremst Lögberg, og mun rannsóknum þessum þar eptir verða framhaldið víðar.
Fjelagið leyfir, sjer því, að skora á alla á menn, innlenda og útlenda, er unna hinum fornu fræðum vorum, að ganga í fjelagið, annaðhvort með tveggja króna tillagi á ári hverju, eða 25 króna tillagi í eitt skipti. Svo eru menn og beðnir, að styrkja fjelagið í öllum starfa þess, þar á meðal með því að vísa á fornleifar og menjar frá fyrri öldum, senda þær til ráðstöfunar á forngripasafnið, láta skýrslur í tje um fornleifar, sem enn kunna að vera lítt þekktar, eða um gripi, sem æskilegt er að fá vitneskju um.”
Stjórn fornleifafjelagsins, 27. nóvbr. 1879.
Árni Thorsteinsson, Bergur Thorberg.
formaður. Björn Magnúss. Ólsen.
Jón Árnason. Jón þorkelsson.
Magnús Stephensen, Sigurður Vigfússon,
fjehirðir, varaformaður.
Hins íslenzka fornleifafjelags. – Indriði Einarsson.

Heimild:
-Norðanfari, 11.-12. tbl. 24.02.1880 – Hið íslenska fornleifafjelag, bls, 21.

Helgadalur

Helgadalur – minjar.

Lónakot

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir frá Þorbjarnarstöðum:

Þorbjarnarstaðir
HafnarfjörðurÞorbjarnarstaðir voru ein af svokölluðum Hraunjörðum en það voru þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum.
Elsta heimild um Þorbjarnarstaði var frá 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs en þá var jörðin í eyði, þannig hún hefur verið í byggð eitthvað fyrir þann tíma.9 Næst var sagt frá Þorbjarnarstöðum í fógetareikningum frá 1547-48 en þá var jörðin komin aftur í byggð: „Jtem met Torbernestdom j legeko. Xij for. Landskyldt iiij vetter fiske. ij lege iij vether fiske dt. oc ij landskyld iij vether fiske dt. summa iije tals.“
Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Þorbjarnarstaða hafi verið óviss og jörðin hafi verið í konungseigu. Jörðin var þá með selstöð sem nefndist Gjásel (2679-16) en þar voru hagar góðir en vatns slæmt. Sagt var að túnrista og stunga hafi verið í slakara lagi á Þorbjarnarstöðum og ekki nægileg en fjörugrastekja var góð og nægjanleg fyrir heimilismenn. Heimræði var árið í kring og lending góð en þó mjög erfitt að setja skip upp, þó hafi skip ábúenda siglt eftir hentugleika allt árið í kring.
Í jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 166, dýrleiki hennar var 12 ½ hndr. landskuldin 0.75 kúgildin 2 og ábúandi einn, sem einnig var eigandi.
Árið 1869 fluttist Ólafur Jónsson að Þorbjarnarstöðum og bjó þar til 1881. Valgarður L. Jónsson ritaði grein um Ólaf í Íslendingaþáttum Tímans: „[…] Það mun hafa verið árið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnarstaðir í Straumsvík við Hafnarfjör, þar býr hann í 12 ár, sem leiguliði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Satt best að segja átta ég mig ekki hvernig hægt er að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki að græða upp túnblett úr brunaurðinni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfist túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum rétt ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á það grafnir.“

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1918.

Á túnakorti af Þorbjarnarstöðum frá 1919 var sagt að túnin á Þorbjarnarstöðum hafi verið slétt og holótt 1,4 teigar og kálgarðar um 500m2 en kálgarðar Þorbjarnarstaða eru enn vel greinanlegir í dag.
Byggð virðist hafa verið nokkuð samfelld á Þorbjarnarstöðum frá 1703 til 1920 en samkvæmt manntölum þá bjuggu þar mest 19 manns árið 1709 en minnst bjuggu þar 3 manns árið 1920, að undanskildu árinu 1890 þegar enginn var skráður að Þorbjarnarstöðum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðarker.

Ætla má að þær minjar sem eru hvað mest áberandi á Þorbjarnarstöðum sé komnar frá honum Ólafi en búast má við því að jörðin geymi enn eldri minjar þar sem jörðin hefur verið í byggð í hið minnsta frá 14. öld.
Minjarnar við Þorbjarnarstaði tengjast flestar búskap á svæðinu, þ.e. ýmsar útihúsatóftir, matjurtagarðar, gerði og garðlög. Aðrar minjar sem tengjast Þorbjarnarstöðum er einnig að finna í hrauninu í kringum bæjarstæðið, þar má nefna Þorbjarnarstaðarétt, ýmsar vörður sem eru þá bæði kennimörk og eyktarmörk. Norðaustan við bæjarstæðið er að finna steyptan grunn af sumarbústað sem var rifinn um það leiti sem álverið í Straumsvík var byggt. Finna má tvo aðra grunna til viðbótar fast sunnan við Reykjanesbrautina.

Péturskot

Péturskot – útihús.

Norðan við bæjarstæðið og í landi Þorbjarnarstaða og fast sunnan við Reykjanesbrautina má sjá leifar þurrabúðarinnar Péturskots. Bæjarstæði Péturskots hefur þó orðið fyrir miklu raksi vegna Reykjanesbrautarinnar. Finna má lýsingu á Péturskoti í Örnefnaskrá: „ […] Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var oft í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni.“
Tvö sel frá Þorbjarnarstöðum voru skráð, Fornasel og Gjásel. Sagt var frá þeim í Örnefnaskrá: „ […] Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið.
Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar“. „[…] Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stóð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög.“
Árið 2001 gerði Fornleifafræðistofan fornleifarannsókn á Fornaseli og var markmið rannsóknarinnar að ná viðarkolum eða húsdýrabeinum til geislakols aldursgreinar og til að kanna í hvaða ástandi minjarnar að Fornaseli voru.17 Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að allt benti til þess að haft hafi verið í seli að Fornaseli frá því um 1600 og fram á 19. öld. Rannsóknin gaf einnig í ljós að tóftir (2679-10) og (2679-8) voru mannabústaðir, tóft gæti hafa verið það en rýmið sem var rannsakað í henni var að öllum líkindum búr eða eldhús.

Straumur

Straumur

Straumur – túbakort 1918.

Straumur var einnig ein af Hraunjörðunum, þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.

Jarðarinnar var fyrst getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xiij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Næst var getið um Straum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar var sagt að jarðardýrleikinn hafi verið óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir. Jörðin átti selstöð þar sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og ekki var talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.

Straumssel

Í Straumsseli.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðinni gefið númerið 165, jörðin var þá í bændaeign, dýrleikinn var 12 ½ hndr., landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landamerki fyrir jörðina Straum: „Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Á hliðina milli Straums og Þorbjarnarstaða byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til Krísivíkurland tekur við. (Undirritað í Straumi 31. maí 1890).

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Merkustu minjarnar sem tengdust Straumi voru án efa minjasvæðið við Straumssel. Þar var haft í seli a.m.k. síðan 1703,24 líklega mun fyrr, og svo var byggður þar bær um miðja 19. öldina. Bæði leifar bæjarins og selsins eru mjög heillegar. Í Örnefnaskrá segir: „Þá er skammt í Straumssel, sem er eitt merkasta selið hér um slóðir, því þar var búið 15 til 20 ár um miðja öldina, sem leið. Selstætturnar eru í Straumsselstúni. Þarna stóð bær fram á þessa öld, sem Tjörvi lét reisa, en ekki var þar stöðug búseta, því að bærinn brann.“
Einungis voru skráðir ábúendur í Straumsseli í manntali árið 1860, þá bjuggu þar Sveinn Gíslason og Þórdís

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – eldhús.

Óttarsstaðir töldust einnig til hinna svokölluðu Hraunjarða, þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru svo seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimild um Óttarsstaði er frá árinu 1379 og var vitnisburður Kára Þorgilssonar og tveggja annara manna um máldaga og reka kirkjunnar í Viðey frá Kolbeinsskor og inn að Hraunnessvötnum á milli Hvassahrauns og Óttarstaða: „Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson, jon oddzson oc olafur kodransson, at vier hofvm heyrt lesin maldagann j videy advr en kirkiann brann, oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur, at kirkiann j videy ætti fiordv hvroia vætt vr hval hvar m land kæme fra kolbeinsskor oc in at hravnnes vottvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme æ kalfatiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkeltz oc nyia garda. hier epter villivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini Պ iijc. lxxix ar.“

Einnig var sagt frá Óttarsstöðum í bréfi frá 9. september 1447 en þar var bréf um jarðaskipti Einars Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey fyrir hönd klaustursins. Einar mun hafa keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – túnakort 1919.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1073 var sagt að jarðardýrleiki Óttarsstaða hafi verið óviss og að jörðin hafi verið í konungseign. Landskuldin var 500 álnir sem greiddist með sex vættum og tveimur fjórðungum fiska í kaupstað síðan leiga var hafin en áður greiddist hún til Bessastaða. Ábúandinn, Guðmundur Guðmundsson, lagði við til húsbóta. Kúgildi jarðarinnar voru þrjú og greiddust leigur í smjöri heim til Bessastaða eða með fiski í kaupstað, ábúandinn uppyngdi kúgildin sjálfur. Útigangur var í betra lagi, ef ekki var um hörkuvetur að ræða, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Túnið gat fóðrað fimm kýr en hafði verið í órækt og var úr sér gengið. Heimilsmenn voru átta og sóttu þeir sér skóg til kolagerðar og eldiviðar í almenning greiðslulaust. Lyngrif var nýtanlegt, aðallega til eldkveikju, lítil rekavon, sölvafjaran nægði heimilsfólki og hrognkelstekja í lónum var vel nýtt. Heimræði var á Óttarsstöðum árið um kring og var lendingin í meðallagi. Jörðin átti tvær selstöður, eina í almenningi þar sem hagar voru góðir en það gat orðið vatnslaust á þurrum sumrum, hina í Lónakotslandi á móts við uppsátrið sem Lónakotsmenn fengu að nota í landi Óttarsstaða.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – meintur kirkjugarður fremst.

Búfénaður fórst oft í gjám í hrauninu, sérstaklega á veturna þegar snjór lá yfir hrauninu.
Torfstunga var svo gott sem engin til heyja, þaks og húsa. Tvær hjáleigur voru á Óttarsstöðum, báðar ónafngreindar í Jarðabókinni, önnur um sextíu ára gömul þegar Jarðabókin var skrifuð en hin eldri en elstu menn mundu.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 163 (Óttarsstaðakot 164) og var jörðin í bændaeign. Dýrleikinn var 20 ⅙, landskuldin 1.5, kúgildin 3 og ábúendur voru 1 eigandi og 1 leiguliði.
Þær minjar sem skráðar voru sem helst tengjast Óttarsstöðum voru án efa Óttarsstaðasel og Lónakotssel, en Óttarsstaðir voru með selstöðu í Lónakotslandi á móts við uppsátur sem Lónakot var með í Óttarsstaðalandi og fjallað verður um Lónakotssel í næsta kafla. Í Örnefnaskrá segir: „ […] blasir þá við Óttarsstaðasel. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru.32 Snúa dyr í austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilega ver reft yfir þetta skjól og það þá verið hið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparkler með vatni, á annan metra að dýpt.
Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.
Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt, sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.“

Lónakot

Lónakot

Lónakot – túnakort 1917.

Lónakot var einnig ein af hinum svonefndu Hraunjörðum, þær jarðir sem voru innan bæjarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru svo seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimildin um Lónakot var í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Lonakot en legeko. landskyld iij vetter fiske oc ij lege en vet fiske d.t. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. thet er jc lxxx fiske.“ Lónakot kom fram í öllum fógetareikningum frá 1547-1553.

Lónakot

Lónakot – bærinn.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að dýrleiki Lónakots hafi verið óviss, því jörðin tíundaðist engum, og jörðin var í konungseign. Landskuldin var xl álnir sem voru borgaðar með átta tunnum af kolum heim til Bessastaða allt til þess að Andres Ívarsson varð umboðsmaður á Bessastöðum, þá kvartaði ábúandinn, Sigurður Oddleifsson, um að skógurinn í almenningnum væri svo foreyddur að hann treysti sér ekki til þess að safna kolviði til landskuldargjaldsins. Eftir það var landskuldin greidd með tveim vættum fiska í kaupstað. Kvikfénaður var þá tvær kýr, tvær kvígur mylkar, ein tvívetra, hin þrívetra, tólf ær, fimm sauðir veturgamlir, sjö lömb, einn hestur og eitt hross. Túnin gátu fóðrað þrjár kýr og heimilsmenn voru fimm. Jörðin átti selstöðu í eigin landi, Lónakotssel, og voru hagar þar góðir en stórt mein af vatnsskorti þegar það var þurrkur. Jörðin notaði rifhrís til kolagerðar og eldiviðar og jafnvel til að fóðra nautgripi um vetur, torfrista og stunga var í lakasta lagi og varla nýtanleg, lyngrif var n

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

okkurt og var notað til eldiviðar og stundum til að fóðra sauðfé í heyskorti. Fjörugrastekja var nægileg heimilismönnum, rekavon var lítil, sölvafjaran hjálpleg, hrognkelsfjaran gagnleg en skelfiskfjara naumleg og erfiðsöm til beitu. Ekki var heimræði á Lónakoti því engin almennileg lending var á jörðinni og hafði ábúandinn skipsuppsátur á Óttarsstöðum.

Í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 fékk Lónakot númerið 162 og var í bændaeign. Dýrleiki jarðarinnar var 10, landskuld var 0.4, kúgildið 1 og ábúendur einn eigandi.
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Lónakot þar á meðal.
Helstu minjarnar sem skráðar voru og tengjast Lónakoti voru án efa Lónakotssel. Þar höfðu Óttarsstaðamenn einnig í seli á móts við uppsátur Lónakotsmanna á Óttarsstaðalandi. Í Örnefnaskrá segir: „[…] Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði [innskot: það fannst ekki] í flagi og þraut oftast í þurrkatíð“.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Þorbjarnarstaðir. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-X-Hraunjardir-sunnan-Reykjanesbrautar.pdf

Markhella

Markhella – áletrun.