Hvaleyrarvatn

Svo hefur Gísli Sigurðsson skráð í handriti sínu um “Líf og þjóðhættir í Hafnarfirði frá 14. öld” um nykurinn í Hvaleyrarvatni:

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

“Selstöð átti Hvaleyri við Hvaleyrarvatn og þar höfðu bændurnir í seli frá fornu fari. Sér enn tættur seljanna við sunnanvert vatnið. Þau hjón Jón og Þórunn héldu uppteknum hætti Hvaleyrarbænda og höfðu í seli á sumrum við Hvaleyrarvatn. Höfðu þau þar selstúlku og smala. Annaðist selsstúlkan mjaltir á málum og matargerð úr mjólkinni, auk matargerðar fyrir þau og þjónustubrögð. En smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selsafurða. Nú bar svo til kvöld nokkurt, að er smalinn kemur á stöðul, lætur selsstúlkan ekki sjá sig. Smalinn kvíar því ánum einn. Gengur síðan heim í sel að skyggnast eftir stúlkunni og finnur hana hvergi. Gengur því heiman frá seli og niður að vatni og vestur með því.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Ekki hafði hann lengi gengið, er hann finnur stúlkuna rétt við vatnsbakkann heldur illa útlítandi. Var hún rifin á hol, eins og eftir óargadýr og traðk mikið í kring eftir hringmyndaða hófa stóra. Þóttist smalinn vita hvað valdið hafði dauða selsstúlkunnar, því sögur hafði hann heyrt um að nykur væri í Hvaleyrarvatni og væri annað árið þar og hitt í Urriðakotsvatni. Smalinn varð flemtri sleginn og tók á rás heim til bæjar á Hvaleyri. Var brugðið við skjótt og lík selsstúlkunnar sótt og það jarðsett að Görðum. Upp frá þessu lögðust niður selfarir við Hvaleyrarvatn. En oft mátti sjá grábleikan hest á beit í Seljahrauninu eftir þetta. Þau urðu endalok nykursins, að hann fraus í hel frostaveturinn mikla 1918.”