Hamarinn

Oft hefur verið haft á orði að Hafnarfjörður væri álfabær – og það þrátt fyrir að nánast öngvir íbúanna hafi sannanlega séð álfa. Og hvergi á landinu eru til færri skráðar sögur af álfum en í Hafnarfirði. Þær, sem til eru, tengjast Hamrinum (Hamarkotshamri) og Hellisgerði. Álfaörnefni eru þó til í bænum, s.s. Álfaskeið, Álfaberg og Álfholt, en engin huldufólksörnefni. Munnmælasögur af álfum og huldufólki tengjast oft hólum og klettahæðum. Kona ein í bænum sem taldi sig vita af huldufólki í kletti við hús sitt átti það til að setja út mjólk í könnu á kvöldin að vetrarlagi. Morgun einn var kannan tóm en fagrar skeljar, sem aðeins finnast í fjörum suðlægra landa, höfðu verið skildar eftir að launum fyrir mjólkina.

Álfabærinn Hafnarfjörður? - málverk eftir Svein Björnsson

Álfar eru sagðir búa í hraunhólum við horn Álfaskeiðs og Arnarhrauns. Svæðinu var þyrmt þegar umhverfið var lagt undir byggingar og vegi. Álfaberg var hins vegar undir Setbergstúninu, en eftir að grafið var þar fyrir húsum og klappir við þau urðu berar og aðgengilegar munu álfar hafa tekið sér þar bólfestu í sátt við mennina. Álfarnir í Álfabergi eru vinalegir. Þeir fá af og til ýmislegt lánað hjá mennskum íbúunum – tímabundið. Nú er talið að u.þ.b. helmingur íbúanna við Álfaberg séu álfar. Álfholt var fyrrum berar klappir á Holtinu. Svæði á því var þyrmt þegar myndaðist íbúðabyggð. Þrátt fyrir nafnið fer engum sögum af álfum í holtinu.
Margir Hafnfirðingar, sem annað hvort hafa leikið sér í Hamrinum eða verið þar á ferð, telja sig hafa séð þar hvítklædda veru. Þegar miðillinn Margrét frá Öxnafelli bjó við Tjarnargötuna taldi hún sig sjá huldufólk af konungakyni í Hamrinum.
Útsýni af HamrinumHvítklædda konan í Hamrinum, höll álfanna (huldufólksins) er sögð svipuð ljóma og vera með silfurbelti. Einnig hefur fólk orðið vart við fallegan söng nálægt Hamrinum en hvergi séð lifandi sálu og því aðeins hægt að skýra sönginn á þann hátt að þar hafi álfar komið við sögu.
Eftirfarandi frásögn er byggð á reynslu konu sem bjó lengi í grennd við Hamarinn. Hana dreymdi að henni væri boðið að koma inn í Hamarinn. Leiddi hvítklædd kona hana um glæsileg híbýli hallarinnar. Þegar þær gengu um salarkynnin sá konan margt skringilega klætt fólk. Það var allt í marglitum klæðum og hneigði sig þegar það sá álfkonuna. Þessi draumur hefur rennt stoðum undir þá kenningu að í Hamrinum búi álfar af konungakyni.
Mörg dæmi finnast um það á Íslandi að vegastæðum hafi verið breytt vegna óhappa sem rakin hafa verið til álfa eða huldufólks. Við Merkurgötu í Hafnarfirði þrengist akvegurinn t.d. mjög við álfaklett sem skagar út í götuna.
Innan HellisgerðisTil er huliðsheimakort þar sem byggðir huliðsvætta í Hafnarfirði hafa verið skráðar eftir leiðsögn Erlu Stefánsdóttur sjáanda. Þar segir: “Hafnarfjörður er bær manna og hulduvera. Um leið og hægt er að skynja álfaverur í hverjum húsagarði er hraunið sérlega lifandi, með dvergum, jarðdvergum og allskyns álfaverum”.
Hellisgerði er sagt krökt af álfum, en ekki eru til aðrir sagnir um að fólk hafi séð álfa þar en sú er fyrrverandi bæjarstjóri upplýsti eitt sinn um. Hann var þar á ferð með eiginkonu sinni eitt kvöldið í yndislegu veðri er hann heyrði kallað á hjálp með mjóróma röddu. Eftir að hafa litið í kringum sig sá hann lítinn skrýtinn álf fastan á milli steina. Bæjarstjóri leysti álfinn úr prísundinni og fékk að launum hann eina ósk…
Önnur saga er til er átti sér stað skammt frá Hellisgerði. Guðbergur Jóhannsson, málari, sagði svo frá: “Ég er að nokkru leyti upp vaxinn í Hafnarfirði. Þegar það atvik gerðist, er ég ætla nú að segja frá, átti ég heima í vesturbænum, þar sem nú heitir Kirkjuvegur, á þeim stað, sem hús Sigmundar heitins Jónssonar stóð. Þá er það eitt sinn, þegar ég er vel á legg kominn, að öldruð kona, er ég þekkti, fékk mig til að ganga með sér út í hraun. Ætlaði hún að leita að litunarmosa.
Álfar geta birst í ýmsum myndum - og ekki alltaf í litNú leggjum við af stað, gamla konan og ég, og göngum norður eftir hrauninu, þar til halla tók niður Víðistaðadalinn. Sunnan við hann eru háir klettar. Þegar þar er komið, segir gamla konan: “Hér skulum við setjast niður. Ég ætla að fá mér í nefið”. Eftir stutta stund segir gamal konan: “Langar þig ekki að sjá huldukonuna”. Ég svara eitthvað á þá leið, að það muni vera nógu gaman. Gamla konan segir mér þá að horfa undir handlegg sér á klett einn, sem var þar allnærri. Sé ég þá dyr á klettinum þeim megin, er að okkur vissi, og eftir litla stund opnast hurðin, og út gengur kona ein í svörtu pilsi og treyju, og var hvorttveggja snjáð; köflótta dúksvuntu hafði hún framan á sér.
Þegar hún er nýlega komin út úr klettinum, flettir hún upp svuntunni, tekur bæði hornin saman með vinstri hendi, eins og sveitakonur gerðu, þegar þær tíndu upp tað, og fer að tína mosa á dyrakampinum hjá bústað sínum og lét í svuntu sína. Ég horfði á þetta nokkra stund. Síðan gekk konan inn í klettinn aftur, dyrnar luktust aftur, og allt komst í það horf, sem áður var.”
Talið er að dýr skynji yfirskilningslega verur betur en mennirnir og það þrátt fyrir að þau sjái umhverfi sitt einungis í svart/hvítu.
Ef þú, lesandi góður, lumar á álfa- eða huldufólkssögu úr Hafnarfirði, eða annars staðar á Reykjanesskaganum, væri gaman að fá hana inn á ferlir@ferlir.is.

Heimild m.a.:
-Guðni Jónsson. 1957. Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík. Bls. 54-55.Hamarinn