HAMARINN, öðru nafni Hamarskotshamar, í Hafnarfirði er ekki einungis náttúruvætti – í tvennum skilningi – heldur og stöndug fótfesta bæjarsamfélags við ofannefndan fjörð. Líkt gildir um uppverðaðan bróður hans; Setbergshamar (Þórsbergshamar). Á þeim báðum eru eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda, sem ætlunin er að lýsa hér á eftir, enda setur hann hvað mestan svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Hins vegar hefur lítið verið gert til að auka verðskuldað aðdráttarafl hans eða upplýsa bæjarbúa og gesti þeirra um þau merkilegheit, sem hann hefur að geyma.
Hamarskotshamrinum tengjast t.d. sögur um álfa og huldufólk. Af þeirri ástæðu, vegna eigin reisnar og ummerkja eftir síðasta ísaldarjökul var talin þörf á að friðlýsa hann árið 1984. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn. Um Hamarskot, sem hvorutveggja dregur nafn sitt af, verður fjallað hér á eftir.
Þegar Hamarinn var friðlýstur fylgdi m.a. eftirfarandi rökstuðningur í auglýsingu: “Samkvæmt heimild í 22. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971 hefur [Umhverfisstofnun] að tillögu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkt fyrir sitt leyti að friðlýsa Hamarinn í Hafnarfirði sem náttúruvætti.
Eftirfarandi reglur gilda um svæðið: 1. Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd. Hvers konar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema til komi sérstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd ríkisins], að láta planta trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.
2. Svæðið er einungis opið gangandi fólki og skal það gæta góðrar umgengni. 3. Náttúruverndarnefnd Hafnarfjarðar hefur eftirlit með framkvæmd friðlýsingar í umboði [Umhverfisstofnunar] og bæjarstjórnar. Til undanþágu frá reglum þessum þarf leyfi [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefndar Hafnarfjarðar. Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.” Hafa ber í huga að framangreindar reglur, með vísan til friðlýsingarreglugerðar, er enn í gildi. Það er því von greinarhöfundar, að annaðhvort annist bæjaryfirvöld hreinsun á plastruslinu við hálskraga hamarsins eða geri þá kröfu til íbúanna um að þeir hirði sjálfir eigin rusl eftir sig.
Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar og undirstaðan sem allt annað hvílir á er grágrýti, sem er einkennisbergtegundin í Hamrinum.
Ætla má að bergið geti verið yngra en 0.8 milljón ára. Grágrýtið er grátt eða grásvart að lit. Það myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum. Ekki er vitað úr hvaða eldstöð grágrýtið í Hafnarfirði og umhverfi þess er komið. Grágrýtið er yfirleitt dálítið frauðkennt og tekur í sig mikið vatn og þolir illa veðrun. Jöklar frá jökulskeiðum ísaldar hafa farið yfir grágrýtishraunin og skafið allt gjall ofan af þeim.
Þess vegna má ætla að Hamarinn hafi orðið til skömmu eftir lok þarsíðustu ísaldar því dyngjur verða jafnan til skömmu eftir að ísa leysir, síðan taka gjall- og klepragígar við keflinu.
Ágætt dæmi um þetta er Vatnajökulssvæðið um þessar mundir. Möttulstrókurinn (sá ofurkraftur er heldur landinu uppi (ofan við sjávarmál) býr undir honum um þessar mundir. Nú þegar jökullinn er að minnka, smám saman, áætla jarðfræðingar að hann muni fæða af sér dyngjugos og það jafnvel ekki innan langs tíma – á jarðfræðilegan mælikvarða. Gosið getur varið í nokkur ár og því orðið hið ákjósanlegasta “túrhestagos”.
Flensborgarskólinn stendur á Hamarskotshamrinum. Hamarinn má segja að sé eitt samfellt hvalbak. Hvalbak er jökulsorfin klöpp með ávala slithlið sem snýr að Flensborg en stöllótt varhlið sem snýr að læknum í Hafnarfirði.
Flestar grágrýtisklappir í Hafnarfirði eru rispaðar eftir jökla frá jökulskeiðum ísaldar. Grjót hefur frosið fast í botnlag jökulsins og dregist með honum. Þannig grópar og rispar jökullinn klöppina. Til dæmis má finna skýrar og fallegar jökulrispur uppi á Hamrinum með stefnuna NV-SA. Ásfjall er önnur grágrýtishæð ofan við Ástjörn. Fjallið er víðast hulið lausum jarðlögum. Hæðirnar fyrir ofan Setbergshverfið eru einnig úr grágrýti, það er Setbergshamar, Setbergsholt þar fyrir ofan síðan Fjárhúsholt, austan megin við Flóttamannaveginn er Svínholt og loks hlíðarnar Setbergshlíð og Sléttuhlíð.
Þótt Hafnarfjarðar sé jafnan getið sérstaklega sem álfabæjar fer af honum furðufáum skráðum sögum af álfum. Til að bæta fyrir þetta er rétt að benda á að margir Hafnfirðingar, sem annað hvort hafa leikið sér í Hamrinum eða verið þar á ferð, telja sig hafa séð þar hvítklædda veru. Þegar miðillinn Margrét frá Öxnafelli bjó við Tjarnargötuna taldi hún sig sjá huldufólk af konungakyni í Hamrinum.
Hvítklædda konan í Hamrinum, höll álfanna (huldufólksins), er sögð svipuð ljóma og vera með silfurbelti. Einnig hefur fólk orðið vart við fallegan söng nálægt Hamrinum en hvergi séð lifandi sálu og því aðeins hægt að skýra sönginn á þann hátt að þar hafi álfar komið við sögu.
Eftirfarandi frásögn er byggð á reynslu konu sem bjó lengi í grennd við Hamarinn. Hana dreymdi að henni væri boðið að koma inn í Hamarinn. Leiddi hvítklædd kona hana um glæsileg híbýli hallarinnar. Þegar þær gengu um salarkynnin sá konan margt skringilega klætt fólk. Það var allt í marglitum klæðum og hneigði sig þegar það sá álfkonuna. Þessi draumur hefur rennt stoðum undir þá kenningu að í Hamrinum búi álfar af konungakyni.
Önnur saga, sem FERLIR barst, segir frá því að þrír drengir, sem jafnan léku sér í Hamrinum, hafi verið að hlaða skýli úr grjóti utan í og ofan á norðvestanverðum Hamrinum. Þá hafi einum þeirra verið litið niður fyrir hamravegginn og séð þar hvítklædda veru. Hún hafi ljómað, brosað og liðið um, lyft höndum líkt og í varnaðarskini. Þegar hann hefði snúið sér við og ætlað að vekja félaga sinna á fyrirbærinu hafi veran horfið. Hræðsla hefði gripið drengina og þeir hlaupið skelfdir á brott.
En hvað um sögulegar upplýsingar? Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Hamarskot: “Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum. Eigandinn er Garðakirkju beneficium. Ábúandinn er Jón Arason. Kvaðir eru mannslán um vertíð, betalast eftir samkomulagi með míðum og slíkri þjónustu…, tveir hríshestar, einn dagsláttur, hestlán til alþingis og heyhestur… Kvikfjenaður er ii kýr og i kálfur. Fóðrast kann iii kýr naumlega. Heimilismenn vi. Selstöðu eigna nokkrir jörðinni í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarkotssel. Skóg og hrís til kolagjörðar hefur jörðin lángvarandi brúkað mótmælalaust í almenningum… Heimræði er árið um kring og lending góð. engjar eru öngvar og vatnsból er erfitt um vetur.” Þótt minjar um Hamarskot hafi farið þverrandi við Hamarinn vegna ágangs má enn í dag glögglega sjá leifar nefndrar selstöðu.
Í bókinni “Bær í byrjun aldar” segir Magnús Jónsson frá bæjum, kotum og fólki í Hafnarfirði í byrjun 20. aldar. Um Hamarskotið segir hann: “Nú eru löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð, en það var í slakkanum uppi á Hamrinum. Upphaflega hefur bærinn sjálfsagt dregið nafn sitt af hamrinum, en svo var farið að kenna hamarinn við kotið, og hann nefndur Hamarskotshamar.
Í Hamarskoti var grasnyt, en túnið – sem sýslumaðurinn hafði afnot af – var harðbalakennt. Alloft urðu íbúaskipti í Hamarskoti, og á þessum tíma voru þar hjónin Þorlákur Guðmundsson og Anna Sigríður Davíðsdóttir. Hann var fæddur 1842 í Hlíð í Garðahverfi, en hún 1856 á Bakka í Vatnsdal. Árið 1876 giftust þau, þá að Undirfelli í Vatnsdal og voru fyrst í húsmennsku þar nyrðra. Í Hamarskot fluttust þau um 1897, en höfðu áður verið á þrem stöðum í Hafnarfirði. Þorlákur annaðist m.a. skepnuhirðingu fyrir sýslumanninn. Börn þeirra voru Júlíus, Kristmundur, kvæntist Láru Gísladóttur – þau bjuggu lengi í Stakkavík, Sigurður Gunnlaugur, Una og Jarþrúður, auk þess Agnar, Anna og Sigríður. Þorlákur dó 1926 og Anna 1930.”
Hér að framan er komin tenging við fyrri FERLIRslýsingar um Stakkavík í Selvogi (sjá lýsingu (Eggert) og lýsingu (Þorkell)). Lengi vel mátti, þrátt fyrir framangreint, sjá móta fyrir tóftum og garðlögum Hamarskots á flötinni sunnan við Hamarinn, en hvorutveggja eru nú að mestu afmáð. Þó má, ef vel er að gáð, sjá fyrrum leifar búsetu Hamarkotsbænda, og hjúa, undir ofan til við sunnanverðan hamarinn.
Í Sögu Hafnarfjarðar, 1983, segir m.a. um Hamarkotshamar: “Eftir að gagnfræðaskólinn í Flensborg tók til starfa árið 1882 og aðkomupiltar tóku að sækja hann, mátti segja að allmikið lifnaði yfir firðinum á hverju hausti við komu þeirra… Útiskemmtanir voru helst þessar… Brenna var oftast annað hvort á gamlárskvöld eða á þrettándanum og venjulega álfadans í sambandi við hana. Var þá dansað úti á einhverri tjörninni. Oftast var brennan á Hamarskotshamri, en stöku sinnum á Kvíholtinu norðan Jófríðarstaða, þar sem nú er nunnuklaustur… Heimavist komst aftur á í Flensborg, þegar nýja skólahúsið á Hamrinum vat tekið í notkun haustið 1937… Sama ár fékk Iðnskólinn inni í nýbyggingu Flensborgarskólans á Hamrinum…”
Skammt ofan við Hamarinn eru Öldur. Þær komu við sögu stofnunar Knattspyrnufélagsins Framsókn árið 1919. Gjaldkeri í því var Gísli Sigurðsson (okkar maður í örnefnaskráningum). Vorið 1920 æfði Framsókn á Öldunum, þangað til völlurinn á Hvaleyrarholti var tekinn í notkun í ágústmánuði. Segja má frá því aukreitis að Ölduvöllurinn nýttist vel fjölmörg ár á eftir því þar urðu bæði knattspyrnufélagið Örninn og Fálkinn til á sjöunda áratugnum. Vörðu liðsmenn þeirra löngum stundum á vellinum í harðri baráttu um metnað og sigur. Liðsmennirnir hafa nú dreifst um heima og geima – reynslunni ríkari. Þakka má því ómeðvituðu aðstöðuleysi bæjaryfirvalda eftir að háværum röddum “umrenninganna” sleppti.
“Sundkennsla hófst í Hafnarfirði sumarið 1909. Forgöngu um það hafði Ungmennafélagið 17. júní, sem hafði verið stofnað í bænum árið áður.. Í fyrstu var sundið kennt vestan til við Vesturhamar, út af Hamarkotsmöl, í svokallaðri Hellufjöru…
Þess má geta, að þegar landssjóður seldi Hafnarfjarðarbæ land Garðakirkju árið 1913 skv. lagaheimild frá 1912, var Hamars- og Undirhamarstún undanskilið, þar eð gert var ráð fyir því, að síðar yrði reist þar prestsetur, ef kirkjan yrði flutt frá Görðum til Hafnarfjarðar. (Hafnarfjarðarkirkja var vígð sama ár).
Árið 1951 gekkst Rotaryklúbbur Hafnarfjarðar fyrir því í samvinnu við Fegrunarfélag Hafnarfjarðar, að gróðursett voru fjölmörg barrtré utan í Hamrinum…” Fegrunarfélagið hafði verið stofnað þetta sama ár.
Þeir, sem gengið hafa um Hamrinn, hafa eflaust veitt athygli grjótraski, sem þar hefur orðið í honum sunnanverðum. Í Sögu Hafnarfjarðar segir um þetta: “Félagsmönnum í Húsmæðrafélagi Hafnarfjarðar fjölgaði fljótlega, og voru þeir rúmlega 500 mánuði eftir að félagið hafði verið stornað (1942). Kosin var nefnd til að undirbúa stofnun skólans. Nefndin og stjórn félagsins urðu ásátt um, að heppilegasti staðurinn fyrir skólann væri á HAmrinum, og árið 1946 veitti bæjarstjórn félaginu lóð undir skólann þar. Fullnaðarteikningar af skólahúsinu voru tilbúnar sama ár, og lét embætti húsameistara ríkisins þær í té.
Framkvæmdir hófust 1948, og var þá grafið fyrir grunni skólans. Kostaði það verk um 120.000 kr. Stóð Húsmæðraskólafélagið straum af kostnaði við þessar framkvæmdir. Allt frá stofnun þess gekkst það fyrir fjársöfnun til styrktar hinum væntanlega húsmæðraskóla… Ýmsar ástæður ollu því hins vegar, að ekkert var að því, að reistur yrði húsmæðraskóli í Hafnarfirði. ekki fékkst fjárfestingarleyfi til að hefja smíði hússins, og þar við bættist, að ýmsi félagasamtök lögðust eindregið geng því, að skólanum yrði valinn staður á Hamrinum, þar eð þau töldu, aðþað myndi lýta Hamarinn, ef skólinn yrði reistur þar. Það varð til þess, að starfsemi Húsmæðraskólafélags Hafnarfjarðar lagðist niður 1954…”
“Bæjarstjórn Hafnarfjarðar kaus fyrst náttúruverndarnefnd árið 1966… Stærsta verkefni hennar var eflaust stofnun Reykjaness-fólkvangs árið 1975. Einnig lét nefndin til sín taka.. má þar nefna Hamarkotslæk og næsta nágrenni hans…”
“Þann 1. júni 1983 var sjötugastiog fimmti afmælisdagur Hafnarfjarðarkaupstaðar… Mikið var um hátíðleika… Einn af eftirminnilegstu atburðum hátíðarhaldanna var útidagskrá á Hamrinum fimmtudagskvöldið 2. júní. Fólk safnaðist þar saman, svo þúsundum skipti, í kvöldblíðunni og naut samveru og skemmtunar.”
Eins og sjá má hefur Hamarskotshamarinn verið bæði vettvangur sögulegra og eftirminnilegra atburða í sögu Hafnarfjarðar um langa tíð. Hafa ber það í huga nú þegar bærinn mun halda upp á 100 ára kaupstaðarafmæli sitt árið 2008.
Þegar staðið er uppi á Hamrinum verður Lækurinn fyrsta sjónhendingin. Lækurinn rennur í gegnum Hafnarfjörð og heitir í raun Hamarkotslækur. Hann stækkaði og breikkaði þegar hann var fyrst stíflaður árið 1904 og síðan hefur mannshöndin lagfært hann á ýmsa vegu.
Lækurinn á upptök sín í tveimur kvíslum. Önnur þeirra kallast Stórakrókslækur og rennur úr Urriðakotsvatni um Kaplakrika þar sem hann kallast Kaplakrikalækur. Svo rennur hann fyrir neðan Setbergshverfið þar sem hann kallast Setbergslækur. Hin kvíslin kemur upp í Lækjarbotnum og kallast þar Botnalækur og sameinast hann Setbergslæknum í Þverlæk og eftir það kallast hann Hamarkotslækur. Jóhannes Reykdal trésmiður virkjaði hann til rafmagnsframleiðslu í 15 hús og reisti fyrstu rafstöðina á Íslandi til almenningsnota árið 1904. Árið 1906 var stærri rafstöð byggð til að lýsa upp húsin í bænum. Hún hét Hörðuvallastöðin og er talin elsta sjálfstæða rafmagnsstöðin á landinu. Hún hefur nú verið uppgerð og má sjá eftirmyndarmynd hennar efst í Hamarskotslæknum skammt neðan við Lækjarkinn.
Sjá meira um Hamarinn HÉR.
Heimildir m.a.:
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/index.htm
-Jarðabókin 1703 – Hamarskot.
-Ásgeir Guðmundsson – Saga Hafnarfjarðar – 1983.
-Magnús Jónsson – Bær í byrjun aldar – 1967, bls. 23 og 24.
-Stj.tíð B, nr. 188/1984.