Hamarinn

Á Hamrinum í Hafnarfirði er skilti. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Hamarinn

Hamarinn – mörk friðlýsingar.

“Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984. Á Hamrinum er að finna jökulminjar og setur hann mikinn svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Hamarinn er mótaður af skriðjöklum ísaldar og hefur sérstakt rofform sem kallast hvaldbak. Jökull með skriðstefnu til norðvesturs hefur gengið út á Hamarinn og sorfið breggrunninn í slétta og aflíðandi klöpp og má greinilega sjá jökulrákir sem skriðjökullinn rispaði í bergið. Bratta hlið Hamarsins vissi undan straumi jökulsins, þar sem hann kroppaði úr berginu og myndaði bergstál.

Bergið í Hamrinum er Reykjavíkurgrágrýti (grátt basalt) sem er talið hafa myndast á hlýskeiði ísaldar fyrir um 300-500 þúsund árum. Þykk grágrýtishraunlög mynda berggrunn höfuðborgarsvæðisins en upptök þeirra eru óþekkt.

Hamarinn

Hamarinn – auglýsing um friðlýsingu.

Til er saga um heimsókn bóndans í Hamarskoti til álfa er bjuggu í Hamarskotshamri. Maður þessti hét Gunnar Bjarnason og segir sagan að eitt sinn er hann var á gangi norðan- eða austanmegin í Hamrinum á vetrarkvöldi um jólaleytið hafi hann heyrt söng í honum. Gekk hann þá á hljóðið og kom að opnum dyrum á Hamrinum, sem hann gekk inn um. “Kemur hann inn í mannahýbýli og stendur söngurinn þá sem hæst. Þá var það venja á landi hér, ef að gest bar að garði, meðan á húslestri stóð, þá gekk hann hljóðlega inn, yrti ekki á neinn og heilsaði ekki fyrr en að lestrinum loknum. Þessari venju fylgdi Gunnar. Sat hann hljóður meðan á söngnum stóð og hlustaði með gaumgæfni á lesturinn, sem á eftir fór. Er mælt, að hann hafi kannast við lögin og sálmana en eigi hugvekjuna eða predikunina. Eftir lesturinn var sunginn sálmur og að honum loknum gekk Gunnar úr jafnhljóðlega og þá er hann kom inn.” Þrátt fyrir margar tilraunir Gunnars varð hann aldrei aftur var við álfana í Hamrinum.

Hamarinn

Hamarinn – hvalbök.

Margir Hafnfirðingar sem hafa leikið sér í Hamrinum telja sig hafa séð það hvítklædda veru sem er böðuð ljóma með silfurbelti um sig miðja. Sumir hafa talið sig heyra fagran söng án þess að sjá lifandi sálu.

Í bókinni “Bær í byrjun aldar” segir Magnús Jónsson frá bæjum, kotum og fólki í Hafnarfirði í byrjun 20. aldar. Um Hamarskotið segir hann: “Nú eru löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð, en að það var í slakkanum uppi á Hamrinum. Upphaflega hefur bærinn sjálfsagt dregið nafn sitt af hamrinum, en svo var farið að kenna hamarinn við kotið, og hann nefndur Hamarskotshamar.”

Hamarinn

Hamarinn – friðlýsta svæðið.

Í “Saga Hafnarfjarðar 1908-1983” segir m.a. um Hamarskotshamar: “Eftir að gagnfræðiskólinn í Flensborg tók til starfa árið 1882 og aðkomupiltar tóku að sækja hann, mátti segja að allmikið lifnaði yfir firðinum á hverju hausti við komu þeirra. Brenna var oftast annaðhvort á gamlárskvöld eða á þrettándanum og venjulega var álfadans í sambandi við hana. Var þá dansað úti á einhverri tjörninni. Oftast var brennan á Hamarskotshamri, en stöku sinnum í Kvíholtinu norðan Jófríðarstaða, þar sem nú er nunnuklaustur.”

Stærð náttúruvættisins er 2,1 ha.”

Hamarinn

Hamarinn – jökulsorfin klöpp.

Af framangreindu getur sá er þetta skráir staðfest tilvist hvítklæddu verunnar í Hamrinum norðanverðum því hann sá hana þar með berum augum á unga aldri. Álfabrenna var hins vegar aldrei í Kvíholti eða á þeim stað er klaustrið er nú. Særsta áramótaberannan í Hafnarfirði var um nokkurra ára skeið á sléttu holtinu vestan Keflavíkurvegarins og ofan og austan klaustursgarðsins.

Heimildir m.a.:
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/hamarinn-hafnarfirdi/
-https://ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Fridlyst-svaedi/Auglysingar/hamarinn_188_1984.pdf

Hamarskot

Hamarskot  á Hamarskotshamri – tilgáta.