Krýsuvíkursvæðið er eitt fallegasta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði hér á landi. Margir útlendingar, sem fara þar í gegn á leið úr ferðum sínum á Gullfoss og Geysi, minnast þeirrar ferðar lengur, en flest annað sem bar fyrir augu þeirra um landið. Boðið er upp á sérstakt, tilkomumikið og fjölbreytt landslag, hlaðið sögulegum minjum frá upphafi landnáms. Bæjarfell er nokkurs konar miðdepill þess. Út frá fellinu liggja allar leiðir, enda flestir Krýsuvíkurbæjanna á síðari öldum undir rótum þess. Ákjósanlegt er að staldra við á hæsta tindi fellsins, sem er einkar auðveldur uppgöngu, og virða fyrir sér svæðið allt í kring..
Austan Bæjarfells eru tóttir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Krýsuvíkurbæjarins á hólnum við Krýsuvíkurkirkjuna. Honum var því miður rutt um koll um og eftir 1960. Enn má vel sjá húsaskipan og bæjarlag þeirra þriggja fyrstnefndu. Snorrakot liggur nyrst bæjanna, utan garðs. Heimagarðurinn er beint fyrir framan bæinn og fallegir torfgarðar út frá honum. Inni á túninu er stór tótt Norðurkots og þar hefur einnig verið garður framan við bæinn. Við heimtröðina að norðan er tótt alveg við hana og önnur upp í brekkunni skammt sunnar. Svipað bæjarlag hefur verið á Læk, en þar eru þó enn fleiri tóttir, sem vert er að skoða. Á Vestari-læk, sem liðast til suðurs á milli kirkjunnar og Lækjar var eitt sinn kornmylla. Vestan við lækinn er Ræningjadys við Ræningjahól og ofar á hólnum er gamli bæjarhóll Suðurkots. Þessa kennileita er getið í sögunni af Tyrkjunum og séra Eiríki Vogsósapresti.
Norðan við Snorrakot var Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær þaðan til austurs, handan þjóðvegarins. Enn má sjá bæjarhólinn í túninu. Sunnan undir brekku sunnan Gestsstaðavatns, neðan við Krýsuvíkurskóla, eru tóttir Gestsstaða, næstelsta bæjarins í Krýsuvík. Þær eru tvær. Önnur tóttin virðist hafa verið gripahús, en hin íbúðarhús. Austan utan í Sveifluhúsi skammt suðvestar er enn ein tóttin og virðist hún hafa verið hluti Gestsstaða. Frá hlíðinni ofan við bæjartóttirnar sést til sex vatna; Gestsstaðavatns næst í norðri og Kleifarvatns fjær, Grænavatns í austri, Augnanna sitt hvoru megin við þjóðveginn í suðaustri og Sefsins skammt sunnan af þeim. Tóttir bæjarins Fells er í hvammi í brekkunni sunnan Grænavatns og tóttir elsta bæjarins, Kaldrana er við suðvestanvert Kleifarvatn, rétt austan við þjóðveginn.
Gamla fjósið í Krýsuvík, norðan Grænavatns, stendur nú autt og yfirgefið, en áður var það tengt stórum draumum um mjólkandi rauðar kýr á básum. Bústjórahúsið norðan við Gestsstaðavatn varð síðar vinnustaður Sveins Björnssonar, málara, en er nú Sveinssafn að honum gengnum. Krýsuvíkursamtökin njóta góðs af stærri húsakosti, bæði í gamla húsinu og í því nýja sunnan við vatnið. Vinnuskólinn naut aðstöðu í Krýsuvík á síðari hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda, en þá undu ungir piltar frá Hafnarfirði sér þar vel sumarlangt. Gróðurhúsin vestan við húsin voru þá í notkun og mikið um að vera.
Piltarnir stunduðu vinnu á afkastahvetjandi launakerfi hálfan daginn, en voru í annan tíma við leiki og gönguferðir um nágrennið. Á kvöldin voru haldnar kvöldvökur og kvikmyndasýningar. Vinnan var m.a. fólgin í skúringum, hreingerningum, matargerð, borðlagningu, uppvaski, umhirðu húsa og nágrennis, girðingum, heyskap, rakstri, málningu, gróðursetningu og vegagerð. Nýjar reglugerðir gerðu síðar þessa mannbætandi og uppbyggjandi starfsemi Vinnuskólans því miður ómögulega í framkvæmd.
Í hlíðum sunnanverðs Arnarfells eru tóttir Arnarfellsbæjarins. Suðvestan hennar er Arnarfellsréttin, hlaðin stór rétt í lægð í átt að Selöldu. Sunnan fellsins er Arnarfellsvatnið.
Talið er að Krýsuvíkurbændur hafi haft í seli, bæði til fjalla og fjöru. Krýsuvík hafði í seli um tíma á Vigdísarvöllum og á Seltúni í Hveradal, undir Hatti. Framan við Hveradal er timburþil, einu minjar gamla brennisteinsnámsins. Lækurinn var fyrst stíflaður á nokkrum stöðum í tengslum við brennisteinsnámið og síðar vegna borna og fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir.
Einnig er gamalt sel sunnan undir austanverðri Selöldu. Þar eru líka tóttir bæjarins Eyri, rétt ofan við uppþornaðan lækjarfarveg, og tvö fjárskjól skammt sunnar. Annað er minna og virðist mun eldra en það stærra. Vestar eru svo tóttir bæjarins Fitja. Ofan við þær er heillegar hleðslur fjárhúss undir háum móbergsskletti á Strákum.
Sunnan við Bæjarfell er hlaðin rétt og norðan við fellið er hlaðin stekkur, Hafliðastekkur. Austar í hlíðinni er stór tótt og enn austar gamall stekkur. Varnargarður liggur upp úr engjunum í miðja hlíð fellsins. Hefur hann bæði átt að varna því að fé færi inn á túnin og auk þess stýra vatnsstreyminu um engi og mýrar.
Aðrir varnar- og vörslugarðar liggja frá Bæjarfelli, bæði norðan Norðurkots og beggja megin Lækjar að Arnarfelli. Annar langur garður liggur á milli sunnanverðs Bæjarfells í Arnarfell neðan við bæinn og upp í öxina austan hans. Eldri garður er innan við þann garð og virðist hafa legið á milli Bæjarfells og Arnarfells, skammt ofan við Suðurkot. Í vestanverðu Bæjarfelli er fjárhellir og hlaðið fyrir opið að hluta. Skátar notuðu hellir þennan oft til gistinga áður en skáli þeirra að Skýjaborgum kom til. Austan í Arnarfelli er hlaðinn stekkur og upp í því er Dísuhellir.
Utar á Krýsuvíkurheiði er hlaðið hús, Jónsbúð. Skammt suðaustan þess, þar sem heiðin hallar til suðurs, er annað fallega hlaðið hús. Neðar, skammt ofan við austanvert bjargið er tótt utan í hraunhól í Litlahrauni og skammt sunnan við hann er hlaðið fyrir fjárskjól í skúta. Utan við Bergsenda er Krýsuvíkurhellir. Sést frá honum yfir að Skilaboðavörðu þar sem hún stendur hæst skammt austan og ofan við Keflavík. Endimörk Krýsuvíkurlands í suðaustri er í Seljabót. Í henni er hlaðið gerði.
Uppi í Klofningum er Arngrímshellir, öðru nafni Gvendarhellir. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu og Arngrími bónda. Fyrir framan fjárhellinn er tótt og inni í honum eru hleðslur. Skammt austan við hellinn er Bálkahellir, falleg hraunrás. Efst í jaðri Fjárskjólshrauns, neðan Geitahlíðar, er hlaðið hús, sem sést vel frá þjóðveginum skammt vestan Sýslusteins. Vestar, við gömlu leiðina upp Kerlingadal á leið um Deildarháls ofan Eldborgar, eru dysjar Herdísar og Krýsu, þeirrar er deildu um land og nytjar og getið er um í þjóðsögunni.
Ofar Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu. Neðan Eldborgar, í formfallegri hraunrás, er gamla Krýsuvíkurréttin. Vegghamrar eru upp með vestanverðri Geitahlíð og innan þeirra eru Kálfadalir. Niður í syðri dalinn hefur runnið tilkomumikil hrauná. Norðanverður dalurinn er grasi gróin og svo er einnig nyrðri dalurinn. Norðan við Kálfadali er Gullbringa og gamla þjóðleiðin yfir Hvammahraun upp á Vatnshlíð og niður í Fagradal í Lönguhlíðum.
Í hrauninu eru hellar, sem vert er að skoða.
Mikil hraun hafa runnið um svæðið á sögulegum tíma. Má þar bæði nefna Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun.
Í Ögmundarhrauni er Húshólmi. Í honum eru margar minjar og sumar þeirra mjög gamlar. Þar er t.d. hluti af stekk þegar komið er niður úr Húshólmastígnum og enn vestar er gömul fjárborg. Sunnar er svo vörslugarður og grafreitur, tóttir af sjóbúð eða íveruhúsi og inni í hrauninu eru tóttir gömlu Krýsuvíkurkirkju og Gömlu-Krýsuvíkur. Þar rétt hjá eru leifar skála, sem hraunið hefur runnið allt í kringum. Ekki er óraunhæft að ætla að í Húshólma kunni að leynast minjar frá því fyrir norrænt landnám hér á landi. Austan undir Ögmundarhrauni er gömul rétt utan í hraunkantinum. Gamall stígur liggur suðvestur úr Húshólma, í átt að Brúnavörðum.
Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, önnur stærri og eldri. Þar ofarlega í hólmanum er veggur, sem hraunið, er rann um 1150, hefur runnið að og stöðvast. Neðst í suðaustanverðum hólmanum er nýrri hleðsla í hraunjaðrinum. Enn vestar í hrauninu, sunnan Lats, er fallega hlaðið fyrir skúta, sem líklega hefur verið sæluhús eða skjól vegavinnumanna á sínum tíma. Enn vestar eru svo Selatangar, en mörk Krýsuvíkur teigja sig að Dágon, klettastandi, sem þar er niður við sjó. Fjölbreytni Selatanga og saga eru efni í sjálfstæða frásögn.
Í austurjaðri Ögmundarhrauns, upp undir Mælifelli, er dys Ögmundar er segir frá í sögunni um þursinn er vildi giftast dóttir (Njarðvíkurbónda) Krýsuvíkurbónda. Gamli vegurinn liggur þaðan í gegnum hraunið, yfir að Latfjalli. Norðan þess er Stóri-Hamradalur. Undir vegg hans er gömul rúningsrétt. Í gýgunum, sem Ögmundarhraun rann úr, er falleg hleðsla fyrir fjárhelli og ofar eru Vigdísarvellir undir Bæjarfelli í Núpshlíðarhálsi. Þar voru tveir bæir og má vel sjá tóttir þeirra beggja. Frá Völlunum liggur Hettustígur austur yfir á Sveifluháls þar sem hann mætir Sveifluvegi frá Ketilsstíg og áfram niður að Gestsstöðum í Krýsuvík um Sveiflu. Drumbsdalavegur liggur yfir Bleikingsdal og áfram austur yfir sunnanverðan Sveifluháls við Drumb. Komið er yfir hálsinn skammt sunnan við Skugga, klettaborg austan Sveifluhálsar og síðan fylgt gömlu götunni beggja vegna þjóðvegarins að Bæjarfelli. Gatan sést enn vel, en vörðurnar við hana eru víðast hvar fallnar. Þó sést móta fyrir brú á götunni á einum stað sunnan vegarins. Skammt vestan við Borgarhól er enn ein fjárborgin.
Falleg hverasvæði eru víða í Krýsuvíkurlandi. Má í því sambandi nefna hverasvæðið við Seltún, í Hveradal, upp undir Hettu og einnig svæðið vestan fjallið, á milli þess og Arnarvatns á Sveifluhálsi.
Í austurjarðri Krýsuvíkur er fjölbreytt göngusvæði, s.s. að Austurengjahver, Lambafellin og yfir að Hverahlíð þar sem skáli Hraunbúa er sunnan við Kleifarvatn. Fjölbreytnin á ekki síður við um Sveifluhálsinn, sem er einka fjölbreytilegur. Ef ganga á hann allan frá Einbúa eða Borgarhól að Vatnsskarði tekur það um 6 klst, en það er líka vel þess virði á góðum degi.
Eins og sjá má er Krýsuvíkursvæðið hið fjölbreytilegasta til útivistar. Hægt að er að ganga bæði stuttar og langar leiðir og mjög auðvelt er fyrir alla að finna þar eitthvað við sitt hæfi.