Hraunin

 

Um Hraunin milli gömlu götunnar millum Innnesja og Útnesja, Alfaraleiðar, og strandar virðist hafa legið gata, nefnd Hraunagata og Hraunavegur. Hún er enn greinileg og vörðuð á stuttum köflum, en í heild er gatan torlæs – nema þeim er lesninguna kunna.
GöngusvæðiðVið götuna eru, ef vel er að gáð, mannvistarleifar á báðar hendur. Gatan virðist hafa legið milli Straums/Óttarsstaða og Hvassahrauns, neðan Sjónarhóls, Brunnhóls og Grænhóls. Neðan við götuna er t.d. Hausthellir, “ágætt fjárskjól”, Fjárborgargötuskjól, Jakobsstekkur, refagildrur og aðrar hleðslur og e.t.v. eitthvað fleira, ef miklu betur væri að gáð. Fjárborgsgatan frá Óttarsstöðum sker Hraunagötuna undir Jakobshæð. Þar er t.a.m. “ævaforn stekkur”. Óttarsstaðasels-stígurinn kemur inn á hana nokkur austar og enn vestar má sjá Lónakotsselsstíginn liggja yfir götuna.
HraunagatanEflaust hafa einhverjir reynt að rekja Hraunagötu á síðari tímum, en ekki haft laun fyrir erfiðið. Reynsla FERLIRs var a.m.k. sú að gatan væri langt frá því að vera augljós – þ.e. áður en hún hafði verið rakin með mikilli göngu, þolinmæði, útsjónarsemi og þekkingu á kennileitum.
Að þessu sinni hófst leitin á augljósum kafla götunnar í vestanverðu Lónakotshrauni neðan við Brunnhól. Ofan við hólinn eru leifar af refagildru á gróinni klapparhæð. Neðar er hlaðin varða við götuna. Aðrar slíkar eru bæði vestar og austar. Ætlunin var að rekja Hraunagötuna til vesturs síðar.
StekkurGengið var til austurs og götunni fylgt af áreiðanleika áleiðis að neðanverðu fjárhúsgerði núverandi fjárhúsa ofan við Lónarkot. Þar virtist gatan fylgja neðanverðu gerðinu og síðan áfram til austurs neðan við Sjónarhól og áleiðis að Straumi. Þegar nánar var að gáð reyndist þar vera um fjárgötu að ræða. Þrátt fyrir það var hrunið leitað ofanvert alla leið að Straumi. M.a. var komið við hjá Jakobsvörðu, stekkurinn neðan hennar skoðaður sem og Fjárborgargatan. Þegar henni var fylgt áleiðis að Óttarsstöðum virtist hún bæði augljós og auðvelt eftirfylgju þar sem hún lá áleiðis niður að hárri vörðu á Sjónarhól vestan bæjar, niður undir Miðmundarhæð. Þegar beygt var til norðausturs áleiðis að Straumi var komið að mikilli fyrirhleðslu í litlu jarðfalli, óskráðu skjóli.
VarðaÞegar hér var komið var ekki nema um tvennt að ræða; annars vegar að skoða áður skráðar heimidlir og hins vegar að reyna að rekja götuna til baka áleiðis að Hvassahrauni.
Í örnefnalýsingu fyrir Straum segir m.a.: “”Suðvestan túnsins í Straumi er Gunnarsskarð, sem er raunverulega hæð. Liggja reiðgötur þar um. Þarna rétt hjá er nafnlaust skarð. Norðan við Gunnarsskarð er gömul útgræðsla, Lambhúsgerði. Þess er getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, að þar hafi verið hjáleiga. Gísli Sigurðsson segir, að seinna hafi þetta verið nefnt Markúsargerði, en heimildarmenn sr. Bjarna kölluðu það Markúsarblett.
Nafnið er dregið af því, að Markús Gíslason frá Lambhaga ræktaði þarna þennan blett og flutti heyið í Hafnarfjörð; kunnur Skjólformaður í Hraunum. Gísli Guðjónsson kallar kotið ennþá Lambhúsgerði, svo að það nafn er ekki horfið… Suðvestan við Straumstúnið, upp á Gunnarsskarð, framhjá Lambhúsgerði, vestur um Karstensvörðu, sem var í Óttarsstaðalandi, en hefur nú verið rifin. Hraunagata eða Hraunavegur og Óttarsstaðavegur voru einnig nöfn á þessari leið um Hraun.”
Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir jafnframt: “

Svonefnd Skógargata lá frá Eyðikotshliði upp að Óttarsstaðaseli. Þar sem hún lá yfir hæðirnar, var kallað Kotaklif. Skammt austur af því, á sömu hæðinni, er Eystraklif. Þar lá gatan frá Eyðikotinu upp í hraunið. Önnur gata lá yfir Eystraklifið upp í Nónhóla. Hún lá út af Skógargötunni rétt austan við Hrafnagjá…
VarðaAustur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða. Norðan undir hæðinni var eins og ævagamall stekkur eða rétt. Hæðin er suður af Klofa fyrrnefndum, við götuslóða, sem lá neðan frá Óttarsstöðum upp að fjárborg, sem er þarna miklu ofar…”
Þegar leiðin var gengin til baka var farið nokkru norðar. Þá var komið inn á þokkalega götu er leiddi leitendur inn á hina eðlilegustu götu norðan undir Tindhólum. Þar lá gatan um hófbarið haft. Þaðan í frá virtist hún bæði eðlilegt og auðveld yfirferðar. Ljóst var að gróið hafði yfir hina gömlu Hraunagötu á ekki lengri tíma. Þó mátti sjá vegsummerki eftir hana á köflum, einkum í þrengslum, auk þess sem bæði mosavaxnar vörður og einstakir skófvaxnir steinar á lykilstöðum vörðuðu leiðina. Gatan lá nokkru norðar en hún virðtis hafa legið við fjárhúsin ofan við Lónakot. Norðvestan þeirra mátti vel tengja þessa gömlu leið fyrri athugunum. Norðvestan undir Tindhólum birtist skyndlega hin fallegasta refagildra (sjá síðar).
Þá er bara eftir að endurheimta kaflan frá upphafsreit að Hvassahrauni (sjá HÉR – væntanlegt). Að því loknu má segja að enn ein gömul þjóðleið hafi bæst í safn hinna gömlu þjóðleiða um Reykjanesskagann fyrrum.

Hraunagatan

Svæðið milli Straumsvíkur og Hvassahrauns nefnast einu nafni Hraunin. Þegar talað var um bæina í Hraunum var jafnan átt við Lambahagabæina, Þorbjarnarstaði, Straum, Óttarsstaðabæina, Eyðikot og Lónakot. Hvassahraun virðist hafa verið þar undan skilið, þó eflaust meigi finna fólks, sem fyrrum hefur talið Hraunið hluta af fyrrnefndri heild, enda bæði eðlilegt og sjálfsagt. Ástæða fyrirstöðunnar hefur án efa verið hreppamarkalegs eðlis því síðastnefndi bærinn tilheyrði Vatnsleysustrandar-hreppi, en þeir fyrrnefndu Garðahreppi. Má með sanni segja að þar hafi langsum þverskallast frásögnin af Hólmfasti!
Þegar gengið var um Hraunin ofan við Lónakot og utan og ofan við Óttarsstaði mátti víða sjá mannvistaleifar. Á einum stað, norðavestan undir Tindhólum, skammt frá Lónakotsselsstígnum, var t.d. fallega hlaðin vörðulaga refagildra, ein sú heillagasta af 36 slíkum, sem vitað er um á Reykjanesskaganum. Refagildran hafði op mót austri. Fallhellan lá framan við opið.
Þrátt fyrir að FERLIR hafi marggengið um bæði Lónakotssels-stíginn og svæðið Refagildraneðan við Sjónarhól hafi sjónin aldrei áður fests á refagildru þessari – svo vel fellur hún inn í umhverfið. Má ætla að hið sama gildi um fjölmargar aðrar mannvistarleifar í Hraununum. Því til staðfestu má nefna hlaðið skjól í skúta við Óttarstaðase-lstíginn. Þrátt fyrir margar ferðir fram og aftur um götuna hafði skjólið aldrei opinberast fyrr en einmitt nú. Um er að ræða fallegar hleðslur við niðurgang í náttúrulegt lítið jarðfall, sem án efa hefur verið reft yfir fyrrum. Inn undir því er hið ágætasta skjól. Gæti það hugsanlega hafa verið brúkað af fólki er fara þurfti upp í Óttarsstaðasel – og jafnvel lengra því gatan sú lá einnig sem afleggjari bæði upp á Hrauntungustíg og í Skógarnef og áfram um Mosa að Dyngjum.
LóuhreiðurMargt af því sem birtist hefur þegar verið skráð í örnefnalýsingar. Stundum getur verið erfitt að lesa úr lýsingunum því bæði áttir geta verið misvísandi sem og fjarlægðir. Þannig er oft getið um “vestur af” eða “niður af” og getur þá verið um verulegar fjarlægðir að ræða. Sá, sem heldur á örnefnalýsingu á stað eins og Hraununum, þarf annað hvort að vera mjög kunnugur á svæðinu eða óvenju vel læs á landslag. Hvorutveggju er varla til að dreifa í dag því flestir þeir, sem þekktu til, eru dauðir, og örfáir núleifandi eru læsir á framangreint.
HraunagatanAf öllu þessu má ætla að ekki væri vanþörf á að að senda liðssveit “sérfræðinga” (og er þá ekki átt við háskólamenntaða nema í undantekningartilvikum) á vettvang og “skanna” upp öll örnefni og mannvistarleifar, sem kunna að leynast á svæðum sem þessum. Slík vinna fæli bæði í sér mikla verðmætasköpun til framtíðar og ómetanlegt vermætagildi komandi kynslóðum til handa.
Ferðin þessi var farin með það fyrir augum að reyna að endurheimta hina fyrrum Hraunagötu / Hraunaveg / Óttar-staðaveg. Gatan hefur verið farin af fáum um mannsaldur og því langflestum gleymd. Ef ekki væri fyrir örnefnalýsingu Straums (Gísla Sigurðssonar) hefði verið fátt um fína drætti. Gísli á því mikinn, en vanmetinn, heiður skilinn fyrir áhuga sinn og fórnfýsi við að skrá niður gamlar heimildir, örnefni og minjar hins gamla Íslands.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
Örnefnalýsingar fyrir Straum, Óttarsstaði, Lónakot og Hvassahraun.

Hraunagata