Straumssel

Ratleikur Hafnarfjarðar verður fljótlega lagður út – fjórtánda árið í röð, að undanskyldu árinu 2009. Í ár verður leikurinn helgaður steinhleðslum. Upphafsmaður hans var Pétur Sigurðsson, útivistarkappi. Hann kynntist svipuðum leik á ferð sinni um Noreg. Jónatan Garðarsson, hinn fjölfróði um inn- og uppsveitir Hafnarfjarðar, hefur lagt leikinn undanfarin ár ásamt Guðna Gíslasyni.
Frá upphafi hefur markmiðið með leiknum verið að efla áhuga almennings á útivist og vekja athygli á þeim fjölmörgu náttúruperlum sem bíða handan við bæjardyrnar. Leikurinn hefur verið í stöðugri þróun og nú á 12 ára afmælinu er boðið upp á breytilega styrktarflokka. Það ættu því allir að geta fundið verkefni við sitt hæfi.
Fjárhústóft og gerði við GráhelluNánar verður fjallað um ratleikinn er nær dregur miðjum júní n.k.
Hér á eftir má sjá upplýsingar um einstaka staði er getið var um í ratleiknum 2007, myndir og frekari umfjöllun um þá.

Gráhella

1. Gráhella er klettaborg í austanverðu Gráhelluhrauni. Um hana sunnanverða liggja landamerki Setbergs. Tóft er norðvestan undir hellunni. Friðþófur Einarsson, bóndi á Setbergi, segir líklegt að tóftin hafi fyrrum verið fjárhús að hluta, annað hvort frá Setbergi eða kotbýlunum við Stekkjarhraun. Staðurinn nýtur hverfisverndar. Ekkert rask má eiga sér stað innan 50 metra frá klettinum.

Kershellir

Kershellir

Kershellir.

2. Að sögn Friðþófs á Setbergi er Kershellir nafnið á fyrrum selshelli Setbergsmanna. Afi hans, Jóhannes Reykdal, notaði hellinn sem fjárhús eftir aldarmótin 1900 uns hann byggði fjárhús uppi á Húsatúni þar skammt frá. Þegar hætt var að nota Húsatúnsfjárhúsið var féð fært í nýrra hús í Fjárhúsholti, skammt austan við bæinn á Setbergi. Ofan við Kershelli er Hvatshellir í stóru jarðfalli. Hann opnaðist í jarðskjálfta á 19. öld.
Kershellir, sem er á landamerkjum. Hann er tvískiptur; nyrðri helmingurinn tilheyrði Setbergi og sá syðri Hamarskoti. Hellirinn hefur stundum verið nefndur Ketshellir.
Hellirinn mun fyrst hafa verið skoðaður 1906 af fjórum piltum; Helga Jónassyni, Matthíasi Ólafssyni, Sigurbirni Þorkelssyni og Skafta Davíðssyni, sem allir voru félagar í Ungmennafélaginu Hvöt. Nafnið Kershellir hefur í seinni tíð færst yfir á Hvatshelli.
Klifsholt
Útsýni frá Klifsholti - Búrfell3. Í auglýsingu um Reykjanesfólkvang segir m.a. um mörkin: “Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús, sem er glöggt og gamalt eyktamark.” Frá Klifsholti er einstaklega falleg fjallasýn, allt frá Vífilsfelli í norðaustri og að Fagradalsfjalli í suðvestri.

Steinhús
Steinhús4. Steinhús er náttúrulegt “hús” á landamerkjum. Í eiginhandarbréfi séra Árna Helgasonar í Görðum til sýslumanns, dags. í Görðum 1848, segir m.a.: “Á sydri hraunbrúnina hjá Nordurhellrum og so sudur eptir Smillubúdar hraunsjadri og I midjan Kjötshellir og so hraunid allt fram ad Steinhusinu, og so beint ur steinhusinu og upp sydri Kaldárbotna; þadan, og allt Helgafell, I Markraka, úr Markraka og í Daudadali úr Daudadölum og í Strandartorfu, úr Strandartorfu rettsýnis í Húsfell, so úr Husfelli og I Hnífhól úr Hnífhól og heim í Arnarbæli“.
Steinhús er holur gasuppstreymishóll á hraunrás í Gjáahrauni. Í hraunrásinni má m.a. finna Kaðalhelli.

Ingvarslundur

Ingvarslundur

Minnisvarði í Ingvarslundi.

5. Í Undirhlíðum er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Sumarið 1930 plantaði Ingvar fyrstu barrtrjánum þarna ofarlega í Litla-Skógarhvammi, kjarri vöxnum unaðsreit í Undirhlíðum. Vorið 1934 var hvammurinn girtur og skólabörn og drengir í Vinnuskólanum í Krýsuvík bættust síðar í hóp trjáræktenda. Lundurinn hefur einnig verið nefndur Skólalundur.

Gjár
Hleðsla fyrir helli í Gjánum6. Gjár eru milli Klifsholts og Fremstahöfða. Uppruni hraunsins er í Búrfellsgíg, 1-2 km fjær. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára. Það er bæði innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn; Smyrlabúðahraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og Flatarhraun. Garðabæjarmegin er Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Í Gjáahrauni eru fallegar grónar hrauntraðir og stuttar rásir.

Arnarklettar

Arnarklettar

Arnarklettar.

7. Kapellu- og Óbrinnishólahraun (-bruni) eru með þeim yngstu í Hafnarfirði og skilja sig greinilega frá öðrum þar sem þau eru að miklum hluta úfin kargahraun með samfelldri mosaþembu. Óbrinnishólabruni rann 190 f. Kr. og Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn) rann 1151 e.Kr. Hraunsvæðið suðaustan við Stórhöfða hefur stundum verið nefnt Arnarklettabruni í Stórhöfðahrauni. Upp úr því rísa þrír klettastandar; Arnarklettar.

Selhóll
Selhóll8. Sunnan við Hvaleyrarvatn eru m.a. leifar stekkjar. Skammt sunnan hans er klofið hraunhveli í annars sléttu Hellnahrauninu. Sunnan í hólnum eru tvö op; tófugreni.
Hraunhvel myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku undir. Hólar og hæðir í helluhraunum geta líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins og storkin kvikan sígur.

Litluborgir

Hraunsúlur í Litluborgum

9. Litluborgir eru fallegar hraunborgir austan Helgafells. Þar eru í Tvíbollahrauni tveir gervigígar og aðrar fallegar jarðmyndanir, sem hafa myndast við það að hraun hefur runnið út í stöðuvatn. Svipuð jarðfræðifyrirbæri má þó sjá í Dimmuborgum og í Katlahrauni við Selatanga. Svæðið hefur stundu verið nefnt Minni-Dimmuborgir eða Hraungerði.
Ástæða er til að benda fólki á viðkvæman mosagróðurinn í Litluborgum. Hann er fljótur að sporast út ef illa er um gengið. Ástæða er til að fara hérna með gát og gæta varfarnaðar og tillitsemi í hvívetna.

Dauðadalahellar

Flóki

Í Dauðadalahellum.

10. Tvíbollahrauns og Hellnahraun yngra runnu um 950 e. Kr. Í hraununum norðvestan við Markraka eru Dauðadalahellar, fallegar og jafnvel flóknar hraunrásir. Þarna gætu hafa runnið fyrstu hraunin á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.

Útvörður Helgafells

Helgafell

Riddarinn á Helgafelli.

11. Segja má að móberg sé eitt af aðalsmerkjum íslenskrar jarðfræði. Helgafell er ágætt dæmi um slíka myndun. Móberg myndast þegar eldgos verður undir jökli eða í vatni. Við það að gosefnin komast í snertingu við vatn eða ís kólna þau með slíku offorsi að þau hreinlega splundrast og úr verður fínkorna gjóska. Hraðkæld gjóskan hleðst svo upp í hrauka eða hryggi, eftir því hvort eldgosið er um eitt afmarkað gosop eða sprungu. Móbergið myndast svo þegar gjóskan tekur að ummyndast fyrir tilstuðlan hita. Við ummyndunina límist gjóskan saman og myndar áberandi brúnleitt móberg með ávöl veðrunarform.

Aukahola
Horft niður í Aukaholu

12. Landið stendur á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka, Evrasíuflekans í austri og Ameríkuflekans í vestri. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Ummerki þessa mátti sjá í misgengisgjá, mikilli sprungu vestan Undirhlíða. Þegar gos varð í Óbrinnishólum og í sprungurein undir hlíðunum náði þunnfljótandi kvikan að fylla gjána að mestu. Þó má enn sjá niður í djúpa gjána þar sem Aukahola er (12 m djúp) og Aðalhola (17 m djúp) um 900 m sunnar.
Lesa má meira um Aukaholu og Aðalholu í stórvirkinu “Íslenskir hellar” eftir Björn Hróarsson, bls. 157.

Markhelluhóll
Markhelluhóll13. Á Markastein (Markhelluhól/-Markhellu) eru klappaðir bókstafir;  “ÓTTA” – “STR” – “KRYSU”. Áletrunin á að undirstrika landamerki jarðanna Óttarsstaða, Straums og Krýsuvíkur. Landamerkjabréf milli Óttarstaða og Hvassahrauns, sem var ritað 1890 og undirritað vegna Óttarstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur, kveður hins vegar á um að Markhelluhóll hafi verið rétt suðvestan við Búðarvatnsstæðið, sem er þarna norðvestan við fyrrgreinda Markhellu. Segja má því að áletrunin á Markhellu hafi ekki alltaf verið þrætulaus, ekki frekar en önnur landamerki.

Straumsselshellar syðri
Straumsselshellar syðri14. Í Straums(sels)hellum-syðri er allgott fjárskjól, og hafði Tjörvi, sem um tíma bjó í Straumsseli, þarna fé um sinn. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstrar. Straumselshellar-syðri eru rúmgóður fjárhellir og vel  manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Það var um tíma notað sem rétt. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu. Grjótið var tekið úr réttarveggnum og hlaðið sem skjól um miðja 20. öld.

Straumssel

 

Straumssel

Straumssel.

15. Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið þróaðist síðan í bæ, eitt fárra af u.þ.b. 250 seljum á Reykjanesskaganum, sem þess heiðurs urðu aðnjótandi. Tóftirnar bera þess líka merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á svæðinu. Garðar eru allt í  kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóftirnar. Vatnsstæði er í jarðfalli norðan við þær.
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öld. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.

Sveinshellir
Sveinshellir16. Við Skógargötuna, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Hellirinn er nokkuð rúmgóður, en sést ekki, fyrr en að er komið, því að opin er þröngt og fyrir munnann er vaxin birkihrísla mikil. Hellirinn er hvergi manngengur. Myndarleg varða, sem nefnd er Sveinsvarða, er á klapparbrún yfir hellisopinu.

Brenniselshellrar

Brennisel

Brennisel.

17. Í Brenniselshæðum eru tveir fjárskútar í kvos, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er með mikla fyrirhleðslu og var yfirreftur. Hinn er litlu norðaustar og er hlaðið við opið. Í kvosinni eru hríslur. Undir þeim er tóft; brennisel. Hérna virðist hafa verið aðstaða til kolagerðar. Slík aðstaða hlýtur að hafa verið víða frá Hraunbæjunum því mikil hrístekja og skógarhögg hefur átt sér stað í grónum hraununum og uppi í Almenningum.

Smalaskálaskjól
Smalaskálafjárskjólið18. Norðvestan undir Smalaskálahæð er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Hér má sjá dæmigert fjárskjól í Hraununum; hlaðið fyrir skúta, venjulega í skjóli fyrir austanáttinni, og síðan reft yfir. Nú er þakið fallið, en eftir standa hleðslurnar á skjólgóðum stað.

Réttarklettar

Réttarklettar

Rétt við Réttarkletta.

19. Vestan Lónakot hefur legið vagnfær gata, framhjá Nípu og að Réttarklettum, fallegum stökum klettastrýtum. Milli þeirra eru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól. Fjárskjól eru skammt frá. Talið er að þarna hafi fyrrum verið bær, sem nefndur var Svínakot.

Óttarsstaðarétt

Óttarsstaðaréttin

20. Túnið á Óttarsstöðum var allstórt og var því deilt milli bæjanna í Vesturbæjartún og Austurbæjartún. Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Enn standa margir túngarðar og veggir óhaggaðir í Hraununum. Eru þeir hlaðnir af Guðmundi Sveinssyni frá Óttarsstöðum, sem var mikill hleðslumaður. Við Klofa, suðvestan undir Miðmundarhæð, vestan við Vestari-Óttarsstaði, er Óttarsstaðaréttin, heilleg heimarétt á skjólgóðum stað. Í henni er m.a. með lambakró.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

21. Á austanverðri hraunbrún Kapelluhrauns (Nýjahrauns/Brunans) við Brundtorfur er Fjárborgin, eða Þorbjarnarstaðafjárborgin. Hún stendur enn nokkuð heilleg. Innanmál hennar um 7 m. Fjárborgin var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna um aldamótin 1900. Greinilegt er að borgin hefur átt að verða topphlaðinn líkt og Djúpudalaborgin ofan við Selvog, en Þorkell, bóndi á Þorbjarnastöðum, var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi.

Strýtur

Strýtur í Kapelluhrauni við Stórhöfðastíg

22. Kapelluhraun, eða Nýjahraun, eins og það var nefnt, mun hafa runnið um 1150. Það er mun grónara hraun en Hrútagjárdyngjuhraun vestan þess, sem er um 4000-5000 ára gamalt. Þar sem Stórhöfðastígur liggur til suðausturs upp með hraunskilunum má sjá fallegar hraunmyndanir á vinstri hönd. Ekki mun vera til opinbert nafn á þessum strýtum. Undirliggjandi þrýstingu storknandi hraunkvikunnar hefur reist hér storknaða hraunfleka lóðrétt upp í loftið og standa þeir nú sem eitt helsta kennileitið á þessari fornu þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur.

Háuhnúkar

Háuhnúkar

Háuhnúkar.

23. Háuhnúkar, móbergsstapar, eru hæstu ásar Undirhlíða suðvestan Markrakagils og skammt frá Vatnsskarði, allt að 263 metra háir. Bergtegundir veðrast mjög mishratt. Þegar móbergið sem kemst í snertingu við gufuhvolfið veðrast það auðveldlega. Vindur og vatn eru mikilvægir þættir veðrunar. Glögg ummerki þessa má glögglega sjá hér í Háunúkum.

Óbrinnishólaker

Fjárskjól í Óbrinnishólakeri

24. Óbrinnishólaker er í Óbrinnishólabruna. Hraunið rann um 190 f. Kr. Þar er myndarleg mosavaxin hrauntjörn. Í honum er Óbrinnishólahellir. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu, sunnan syðri Óbrinnishólanna. Hlaðið er gerði fyrir framan munnan, en rásin er opin inn að öðru leyti. Hún er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en innanvert gólfið er nokkuð slétt. Hellirinn rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, sem nýttu sér vetrarbeitina utan í Stak og Undirhlíðum öldum saman.

Smyrlabúð

Smyrlabúð

Smyrlabúð.

25. Hérna var gamla lestamannaleiðin um Selvogsgötu (Suðurferðaveg) um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi. Allnokkru norðar Selvogsgötu rís upp allhár bergkambur sem ber nafnið Smyrlabúðir. Hleðslur má sjá við hraunkantinn að baki Sléttuhlíðar, þar sem gatan liggur þrengst milli hans og hlíðarinnar. Ekki er ólíklegt að Selvogsbúar á leið sinni í Hafnarfjörð hafi staldrað þarna við, slegið upp tjöldum og dvalið yfir nótt til að komast árla í kaupstaðinn. Gerðið gæti hafa verið fyrir hesta eða fé.
Hafa ber í huga að enn er ýmislegt á huldu um tilurð örnefnisins “Smyrlabúðar”.

Garðaflatir
Tóft við Garðaflatir26. Í Gráskinnu er sagt að “Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir sunnan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt þegar hraunið rann. Sagan segir að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.” Tóftir við Garðaflatir eru greinilega mjög gamlar, jafnvel jarðlægar. Þeirra er ekki getið í örnefnaskráningu Garðabæjar.

Fosshellir

Fosshellir

Í Fosshelli.

27. Fosshellir er innan við jarðfall í sömu hraunrás og Rauðshellir og Hundraðmetrahellir milli Helgadals og Búrfellsgýgs, spölkorn ofar (austar). Um tíma var Rauðshellir nefndur Pólverjahellir, að sögn eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Nafnið mun hins vegar vera komið vegna þess að börnin í Pólunum í Reykjavík fóru þangað í sumarferðir og höfðu gaman af.

Gígur

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

28. Úr gíg hér norðaustan Undirhlíða hefur runnið hraun sem Jón Jónsson, jarðfræðingur, nefnir Gvendarselshraun. Í eldgosinu á tólftu öld rann örþunnt hraun úr Gvendarselsgígum að Helgafelli og niður í Kaldárbotna og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir. Gýgur þessi nyrst í 25 km langri gígaröð. Hann stendur stakur og er ákjósanlegur til að sjá og fræðast um tilurð klepramyndunar í dæmigerðum gosgíg.
Sumir vilja hafa einfalt “í” í gígur, en því er til að svara að gígur er og verður alltaf gígur. þ.e. gap. 

Fróðleiksmolarnir eru fengnir víðsvegar af vefsíðunni – www.ferlir.is. Þar er og að finna ýtarlegri fróðleik um staðina.

Horft um gat á gýgnum - Kaldárbotnar fjær - höfundurinn