FERLIR kynnti fyrir nokkru og birti mynd af kirkjulíki með bogadyrum og tveimur turnum, sem byggt hafði verið upp úr gömlum fiskbyrgjum og síðar skjóli sunnan við Straum.
Spurningin var hvort heimild hefði fengist til að nota efnið úr hinum gömlu byrgjum og þá hver hafi gefið þá heimild.
Kannski það væri nú orðin stefna einhvers staðar að nota þann gamla efnivið, sem enn er til í gömlum mannvirkjum og gera úr honum eitthvað alveg nýtt – enda hitt mannvirkið ónýtt. Bent var á að hlaðin mannvirki umhverfis Straum má svo til öll telja til fornminja. Og um þær gilda sérstök lög og sérstakar reglur.
Nú er búið að endurhlaða annað byrgið úr grjóti kirkjunnar og færa það sem eftir var skammt norðar þar sem nú er verið að endurbyggja hana úr “nýju” grjóti. Einhver virðist vera farin að taka hlutverk sitt alvarlegar en áður.
Straumsbærinn gamli stóð á lágum hraunhrygg nokkurn veginn þar sem Straumshúsið stendur nú. Umhverfis hann var einhlaðinn túngarður. Fiskbyrgi voru á hólnum austan vesturgarðs. Þau voru síðar notuð sem skotbyrgi þegar fjárhúsin voru í fjárhússkarðinu þarna neðan við. Skammt austar er Straumsréttin, hlaðin niður við Urtartjörnina/Brunntjörnina. Ef skortur er á grjóti á svæðinu gæti grjótið í henni verið kjörinn efniviður fyrir framtaksama við gerð stærri mannvirkja. Einnig hlaðin rétt/nátthagi í svonefndum Kúadal nokkru sunnar. Þá eru hinir löngu garðar, sem reyndar eru nú orðnir að mestu jarðlægir, kjörinn efniviður til enn stærri verka. En svo er líka hægt að hlaða bara ný mannvirki annars staðar en ofan á þeim gömlu – úr áður ónotuðu grjóti.
Í einum staðarmiðlinum (localmedia) var nýlega sagt frá röskun fornminja suður af Straumsvík: “Undanfarið hefur borið á því að skemmdir hafa verið unnar á fornleifum í landi Hafnarfjarðar. Um er að ræða hlaðna garða, gamlar girðingar og ýmis merki um búsetu í bæjarrústum.
Á svæðinu sunnan við álver Alcan í Straumsvík hefur borið á því að skemmdir hafa verið unnar á fornminjum sem þessum. Hlaðnir garðar hafa verið rofnir til að greiða fyrir umferð ökutækja á svæði þar sem fyrirtæki rekur litboltagarð (Paintball). Einnig hefur fornminjum verið raskað við Listasmiðjuna Straum þar sem röskun varð við sköpun listaverks. Bjarki Jóhannesson er sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar og segir hann að óheimilt með öllu að raska gömlum hlöðnum görðum, vörðum og öðrum fornleifum í landi nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins, samkvæmt 9. og 10. grein þjóðminjalaga. Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, leiki vafi um aldur þeirra skal hafa samband við skipulags- og byggingarsvið Hafnarfjarðar eða Byggðasafn Hafnarfjarðar”. Fréttinni fylgir svo mynd af órsökuðum garði sunnan Óttarsstaða þar sem fyrrum lá leiðin heim að austari bænum skammt vestan Eyðikots.
Satt best að segja, og það með mildilegu orðalagi, er lítið sem ekkert markvisst opinbert eftirlit með fornminjum í umdæmi Hafnarfjarðar. Hið sama gildir um önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Þau fáu skipti, sem einhver æmtir eða bendir á eyðileggingu þeirra, þá er um að ræða rödd áhugafólks um minjar á svæðinu. Opinber stjórnsýsla, hvort sem um er að ræða á ríkis- eða sveitarstjórnarstigi, hefur hingað til haft dregið fyrir þann glugga aðstöðu sinnar er lýtur í átt að fornminjum.
Það þarf ekki annað en mann, sæmilega búinn til fótanna, til að berja nýlegar skemmdir augum. Ekki er langt síðan FERLIR benti á (reyndar með aðstoð MBL) gröfu við mokstur nálægt hinum forna garði í neðstu Tóunni í Afstapahrauni. Skýringin, sem gröfustjórinn gaf, var sú að hann hefði ekki vitað af garðinum. Samt var hann kominn u.þ.b. 200 m út fyrir leyft röskunarsvæði. Annað dæmi er núverandi röskun á síðustu leifum Alfaraleiðarinnar um Hellnahraun vestan golfvallarins.
Flestir geta verið sammála um að handritin okkar séu verðmætir forngripir, jafnvel þótt fæstir geti lesið það sem í þeim stendur. Í rauninni má líkja þessu við það að einhver tæki sig til og krotaði í eitt handritanna. Eflaust yrði allt vitlaust. Minjarnar, jafnvel þær sem hlaðnar eru úr grjóti, eru einnig “handrit – hin áþreifanlegu tengsl okkar við fortíðina – og því verðmæti, engu síður en textarnir á skinnsíðum handritanna. Þeim þarf að forða frá tilviljanakenndri og handahófslegri eyðileggingu.
Á heimasíðu Fornleifastofnunar Íslands á Netinu er m.a. fjallað um fornleifar. Þar segir að “fornleifar séu efnislegar minjar genginna kynslóða. Sjálfar kynslóðirnar hverfa ein af annarri og hugsanir þeirra að mestu leyti með þeim. Fornleifarnar voru hluti af veruleika forfeðranna sem mikilvæg mannvirki, kennileiti eða staðir og þær skiptu þá miklu máli. Gátu þær meira að segja verið þeim lífsnauðsynlegar. Án þessara fornleifa væri sagan harla óáþreifanleg og jafnvel álitamál hvort við værum sjálfstæð þjóð yfirleitt. Er hægt að byggja land og halda uppi menningu án beinna tengsla við söguna?
Íslendingar eru stoltir af sögu sinni. Áþreifanlegar leifar þessarar sögu eru fornleifarnar. Þess vegna eigum við að gera þeim hátt undir höfði, varðveita þær og vernda.
Landslagið er mikilvægur hluti af veruleika manneskjunnar og einn þeirra þátta sem skapa hana. Skilgreiningin á því að vera Vestfirðingur er t. d. að hluta til fólgin í því landslagi sem einkennir Vestfirðina og Vestfirðingar kalla heimaslóðir. Í þessu landslagi eru fornleifarnar mikilvægur þáttur með sínum formum og sögnum og þær eru gjarnan úr sömu efnum og landið sjálft. Það er því mikilvægt að standa vörð um fornleifar landsins, vegna þess að þær útskýra að sumu leyti skilgreiningar okkar á sjálfum okkur.
Þéttbýlissvæði eru mörg hver að vaxa út um landið og sú þróun mun vonandi halda áfram í náinni framtíð. Margar fornleifar verða á veginum, sumar jafnvel alveg óþekktar í dag. Þó að svæði kunni að vera skráð einu sinni og jafnvel tvisvar, er það aldrei trygging fyrir því að ekkert meira kunni að leynast undir yfirborðinu. Því er mikilvægt að fara nákvæmlega yfir þau svæði sem raska á til að minnka hættuna á óvæntum uppákomum fornleifa eins og framast er unnt. Slíkar uppákomur eru yfirleitt dýrar og tímafrekar. Það getur verið þarft að minnast þess að oft finnast skemmtilegustu fornleifarnar við óvæntustu aðstæðurnar.
Saga okkar er að hluta til skráð í umhverfi okkar, umhverfi sem við höfum skapað smátt og smátt í aldanna rás. Sjálf skilgreinum við okkur sem einstaklinga í gegnum umhverfið og þjóðin sem slík skilgreinir sig út frá þessu umhverfi og það sem þar kann að leynast. Við berum öll ábyrgð á sögu okkar og menningu og þar eru fornleifarnar engin undantekning.