Réttarklettar

Skammt austan Réttarkletta ofan við ströndina vestan Lónakots má sjá áberandi strýtulagaðan hraunstand; Nípu. Hraunstandur þessi var bæði kennileiti fyrir gangandi fólk með strandgötunni millum Lónakots og Hvassahrauns, en skyldleikar voru jafnan miklir með fólki á þessum bæjum, sem og var Nípa kennileiti frá sjó, líkt og mörg önnur á ströndinni. Jafnan var þá um að ræða valin mið úti á djúpinu með stefnu á Keili, Trölladyngju eða önnur sambærileg kennileiti ofar í landinu.
Dulaklettar-1Réttarklettar voru einnig slíkt kennileiti, en þeir eru þó minnistæðari sem ágætt skjól fyrir fé og jafnvel sem selstaða undir lok fráfærutímans. Örnefnið Svínakot er til og er talið að það hafi verið um skamman tíma norður undir klettunum þar sem sjá má tóftir.
Dulatjarnir við Dulakletta eru spölkorn vestan við Réttarkletta. Þar eru ferskvatnstjarnir og gætir flóðs og fjöru í þeim sem er einkenni tjarna sömu gerðar í Hraunum. Í seinni tíð hefur grastó á einum klettinum verið nefnd Dula og á að hafa verið sérstakt fiskimið sem sjómenn treystu á er þeir voru á veiðum á Lónakotsdjúpi.
Dulaklettar-2Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot segir m.a. um svæðið vestan Lónakots: “Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti.  Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig.  Vestan var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar. Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól. Héðan frá blöstu við nokkru vestar klettar, nefndust Dulaklettar.
DulatjornÁ einum þeirra var grastó, nefndist Dula.  Um kletta þessa lá sérstakt mið, fiskimið í Lónakotsdjúp[i], en þar var klettur, er nefndist Duli, og var oft fiskisælt kringum hann.  Keilir um Dula nefndist fiskimiðið. Milli Dulakletta voru Dulatjarnir, og gætti þar flóðs og fjöru. Skammt utan og norðan Dulakletta voru Selasteinar og þar utar Markaklettur á innanverðu Hraunsnesi. Af Markakletti lá landamerkjalínan milli Lónakots og Hvassahrauns upp í Skógarhól, þaðan í Stóra-Grænhól. Suður frá Grænhól var svo Grænhólsker, hættulegt fé.  En í austur frá hólnum var Grænhólsskjól.”
Nipa-21Útvegsbændur í Hraunum lýstu Dulaklettum. Þeir sögðu þá vera tvo, austari og vestari, sitthvoru megin við Dulatjörn (e.t.). Báðir klettarnir voru semlíkir, þ.e. báðir grónir í kollinn (með grastór). Voru þeir sitthvort miðið; á inndjúpið og hið grynnra. Á millum þeirra bar Grænhól og var hann mið í Keili. Austan undir Grænhól er Grænhólsskjólið; ágætt fjárskjól.
Ástæðan fyrir nafngiftinni á Dulatjörn og Dulaklettum er sú að við tjörnina hefði fé gjarnan unað sér vel við ferskvatnið, gott gras og ekki síst skjólið, sem hraunið veitir í norðan næðingi. Þegar sækja átti það til nytja veittist hins vegar stundum erfitt að finna það því það vildi dyljast afslappandi í nálægum grónum hraunsprungum.
Fleiri sagnir eru til um Dulakletta, en þær bíða betri tíma.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing GS fyrir Lónakot.
-Munnlegar heimildir úr Hraunum.

Dulatjarnir

Dulatjarnir.