Arnarfell
Gengið var upp bröttustu hlið Arnarfells – svona í æfingarskyni.

Arnarfell

Arnarfell í Krýsuvík.

Arnarfell í Krýsuvík er 198 m yfir sjó (um 100 metra hátt). Bæjarfell, næsta fell að vestan er svolítið hærra, eða 218 m.y.s.
Arnarfellin eru nokkur á landinu öllu. Frægasta Arnarfellið, hingað til a.m.k., er sennilega það, sem stendur við Þingvallarvatn.
Fellið er eitt þeirra er ber dýraheiti, s.s. Geitafell, Grísafell, Hafursfell, Hestfjall, Hrútafjöll, Rjúpnafell og Sauðafell. Vitað er um a.m.k. sjö önnur örnefni á Reykjanesskaganum er borið hafa Arnarnafnið, s.s. Arnarnýpa og Arnarvatn á Sveifluhálsi, Arnarsetrið ofan við Grindavík, Arnarklettur við Snorrastaðatjarnir, Arnarhreiður í Ögmundarhrauni, Arnarklettur í Vatnsleysuvík og Arnstapi í Arnstapahrauni (Afstapahrauni).

Arnarfell

Arnarfell.

Arnarfell er með lögulegri fjöllum eða fellum á skaganum. Eystri nýpan á fellinu, grasi gróin, er fornt arnarhreiður. Vestari nýpan hýsir Eiríksvörðu. Sunnan undir fellinu eru tóftir gamla Arnarfellsbæjarins þar sem m.a. Beinteinn Stefánsson bjó ásamt fjölskyldu sinni. Beinteinn var hagleikssmiður og smíðaði m.a. núverandi Krýsuvíkurkirkju árið 1857, þótt hún hafi nokkrum sinnum verið endurbyggð síðan. Fræg er og sagan af viðureign Beinsteins við Tanga-Tómas, drauginn á Selatöngum. Beinteinn slapp frá honum við illan leik og þurfti að fara fótgangandi berfættur yfir hraunið á leið sinni heim að Arnarfelli. Þar lá hann rúmfastur nokkra dagana á eftir.

Arnarfell

Arnarfell – brunnur.

Auk tófta bæjarins má sjá móta fyrir vörslugarði Krýsuvíkurlandsins austan og sunnan við túngarðinn og nær hann til vesturs upp í hlíðar Bæjarfalls, skammt sunnan við fjárhelli, sem þar er. Hlaðin brú er yfir Vestari-Læk og skammt suðvestar er heilleg Arnarfellsréttin. Vörður liggja frá bænum niður á Trygghólana og þaðan niður að Heiðnabergi, framhjá tóftum hins gamla Krýsuvíkusels og bæjarins Eyri, sem stóð þar á fyrrverandi árbakka Eystri-Lækjar, sem nú hefur breytt um farveg. Tóftir sjö bæja eru á Krýsuvíkurtorfunni auk sjö annarra utan hennar, ásamt tilheyrandi mannvirkjum og minjum.

Arnarfellstjörn

Arnarfellsvatn.

Suðaustan við bæinn er Arnarfellsvatn (Bleiksmýrartjörn). Bleiksmýrin er austan fellsins, en hún var ræst út um miðja 20. öld. Á vatnið sækja allflestir sjófuglarnir í Krýsuvíkurbjargi og má oft sá flokka fugla fljúga fram og til baka milli bergsins og vatnsins. Vatnið er einnig áningarstaður fargesta, s.s. helsingja, á leið til Grænlands og Kanada. Tóftir eru vestan við vatnið, en við það eru grasi grónir balar. Að vatninu liggja gamlar þjóðleiðir yfir Krýsuvíkurheiði, enda var vatnið mikilvægur áningarstaður skreiðarflutningamanna á leið þeirra frá verstöðvunum við Suðurströnd Reykjanessins og sveitanna fyrir austan. Gömul varða er t.d. við eina götuna norðvestan við vatnið, skammt undan fellinu. Hlaðið byrgi, sennilega eftir refaskyttu, er rétt suðvestan við vörðuna.

Arnarfell

Flaggað á Arnarfellsvörðu.

Mikið er af mófugli á heiðinni undan Arnarfelli, auk þess sem hrafninn verpir í norðanverðu fellinu.
Í suðurhlíðum fellsins eru tóftir útihúsanna frá bænum. Sú efsta er ekki langt frá vestari toppi fellsins. Á honum trjónir Eiríksvarða. Hún var hlaðin eftir að séra Eiríkur frá Vogsósum, prestur í Krýsuvík, mætti Tyrkjum þeim, er komið höfðu upp Ræningarstíg í Heiðnabergi um miðjan júnímánuð 1627, vegið að tveimur stúlkum í Krýsuvíkurseli ofan við bergið og haldið síðan hiklaust áfram á eftir smala, sem varð var við þá, áleiðis að bæjunum undir Krýsuvíkurfellunum. Eiríkur mælti svo um að Tyrkirnir skyldu vega hvorn annan og gerðu þeir það. Þeir voru síðan dysjaðir í Ræningjadys undir Ræningjahól, sunnan við kirkjuna. Sagan segir að séra Eiríki hafi haft á orði að ef ekki hefði verið sunnudagur og hann ekki í prestsklæðum hefði hann og mælt svo fyrir að Tyrkirnir ætu hvorn annan lifandi.

Arnarfell

Krýsuvíkurkirkja – horft af Arnarfelli.

Í kirkjugarðinum við Krýsuvíkurkirkju er m.a. grafinn hinn ástsæli málari og lögreglumaður Sveinn Björnsson. Hann var einn þeirra manna í seinni tíð er kunni að meta Krýsuvíkursvæðið að verðleikum, enda birtist það oftlega í myndum hans.
Norðan við Arnarfell er hlaðinn stekkur og nafnfrægur skúti upp í norðausturhlíðum þess. Nú er ætlunin að taka Hollywoodkvikmynd við Arnarfell. Líkja á eftir stríðsátökum á eyjunni Iwo Jima í Kyrrahafi. Grafa á sprengigíga allt að 16 m í þvermál með tilheyrandi raski. Svíða á eina hlið fjallsins svo það virðist rjúkandi rúst á eftir.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er vitað til þess að heilstæð fornleifaskráning hafi farið fram í Krýsuvík. Skráning, sem fram fór árið 1998, verður að teljast ófullnægjandi. Samt virðist Fornleifavernd ríkisins þess umkominn að geta gefið örugga umsögn án tillits til hugsanlegrar minjaeyðingar á svæðinu. Umhverfisstofnun virðist geta gefið heimild til gróðureyðingar og umhverfisröskunar við Arnarfell þrátt fyrir að stofnunina virðist skorta lagaákvæði því til stuðnings. Landgræðsla ríkisins virðist geta af léttúð talið sig geta lagfært hugsanlegar gróðurskemmdir og landsspjöll á a.m.k. 5 árum. Leitað hefur verið að skynsamlegum rökum í umræddum umsögnum, en þær enn ekki fundist.
Bæjarsjóður Hafnarfjarðar fær greiðslu fyrir afnot af svæðinu og umhverfisspjöllin, skv. upplýsingum frá starfsmanni bæjarins. Spurningin er; hvaða áhrif mun það hafa á skynsamlega ákvörðunartöku bæjarfulltrúa?

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Krýsuvík, sem heilstæð eining; umhverfi, náttúra, menning, saga og veðurfar, er í rauninni einstök náttúruperla. Það vita a.m.k. þeir, sem því hafa kynnst. Kyrrsetufólkið, með fullri virðingu fyrir því, kemur aldrei til með að geta kynnst neinu í líkingu við það. Samt virðist það vera fólkið, sem ráðskast á með framtíð þessa dýrmæta svæðis.
Stefán Stefánsson, leiðsögumaður, mælti svo fyrir um að ösku hans skyldi dreift yfir Kleifarvatn að honum látnum. Sú ákvörðun var tekin vegna hrifningar hans á Krýsuvíkursvæðinu. Öskunni var dreift af Ytri-Höfða, sem síðan þá hefur hafnan verið nefndur “Stefánshöfði”.
Gangan tók 12 mín. Frábært veður.

Stefánshöfði

Ytri-Stapi; Stefánshöfði.