Færslur

Krýsuvík
Fyrst voru tóttir Litla-Nýjabæjar skoðaðar vestan við þjóðveginn og síðan haldið að bæjarhól Stóra-Nýjabæjar. Í túnkantinum norðan við hólinn eru upptök Eystrilækjar, sem síðan liðast niður Krýsuvíkurheiðina og steypist fram af Krýsuvíkurbergi austan við vitann. Norðar, utan í hæð sunnan Grænavatns eru tóttir. Talið er að þær geti verið leifar hjáleigu er nefndist Fell. Vestar eru tóttir elsta bæjar í Krýsuvík, að Kaldrana undanskildum, Gestsstaða. Þær eru undir hlíðinni skammt vestan Krýsuvíkurskóla.
Gengið var mógröfunum sunnan við vegamót þjóðvegarins og Ísólfsskálavegar og síðan yfir að Snorrakoti vestan Ísólfsskálavegar, en tóttir bæjarins eru vel greinilegar. Bæjargarðurinn snýr á móti suðri og sést enn vel. Suðvestar, inni á túninu undir Bæjarfelli, er Norðurkot, miklar tóttir og hefur sá bær einnig haft samfastan garð á móti suðri.

Krýsuvík

Lækur í Krýsuvík.

Handan vegarins, sunnan Vestarilækjar, er stórbýlið Lækur, miklar tóttir, garðar og falleg heimtröð. Gengið var frá bænum um hlaðna heimtröðina að Krýsuvíkurbænum, aftur yfir Vestarilæk, upp með tóttunum og að Krýsvíkurkirkju. Krýsvíkurbærinn, sá síðasti, stóð utan í og ofan við tóttirnar (sem munu vera af Hnausum). Hann var jafnaður við jörðu um 1960. Kirkjan, sögufræga, er opinn og öllum aðgengileg. Frá henni var gengið yfir veginn til suðurs og þá komið að Suðurkoti. Tóttir bæjarins er á og sunnan við grashólinn, sem hæst ber. Austan hans er Ræningadysin, sem sagt er frá í sögum af Eiríki á Vogsósum, auk tótta. Þegar komið var að vörslugarðinum, sem liggur á milli fellanna, Bæjarfells og Arnarfells, var beygt til austurs að Arnarfellsbænum. Tóttir bæjarins eru sunnan í grasigróinni hlíð Arnarfells. Þaðan sést til Arnarfellsréttar í suðaustri. Gengið var að henni og hún skoðuð. Um er að ræða hlaðna, stóra og myndarlega, rétt í lægð og er erfitt að koma auga á hana úr fjarlægð.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Stefnan var tekin á austanverða Selöldu. Þegar komið er yfir hálsin blasir við gróin brekka suðvestan undir honum. Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, en þó markar enn fyrir hleðslum neðst í brekkunni er gætu hafa verið mjög gamall stekkur. Einhvern tímann hefur allstór lækur runnið austast vestur með sunnanverðri Selöldunni. Vestar með hlíðunum er grasigróið svæði og tóttir. Hér er talið að Krýsuvíkursel hafi verið. Í Jarðabókinn frá 1703 er sagt að Krýsuvík hafi bæði haft í seli til fjalla og fjöru. Hitt selið var á Seltúni undir Sveifluhálsi. Skammt vestan við tóttirnar er stór steinn. Við hann er talsvert gróið og líklegt er að þar hafi verið stekkur suður undir honum. Ummerki benda til þess.

Eyri og Krýsuvíkursel

Eyri undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt suðvestar við selið eru margar tóttir og sumar heillegar. Hér er talið að bærinn Eyri hafi staðið, rétt ofan við lækjarfarveginn. Bærinn fór í eyði árið 1775. Frá tóttunum ætti að vera best að ganga áfram vestur með Selöldunni, en ef gengið er frá þeim til suðurs kemur nokkuð merkilegt í ljós. Á grashól eru miklar hleðslur, greinileg fjárborg. Hennar er hvergi getið og verður því hér nefnd Neðri-Eyrarborg. Vestan í henni er stekkur eða löng og mjó hústótt. Ofar, til austurs, er önnur fjárborg, svolítið minni. Verður hún nefnd Efri-Eyrarborg.
Vestast í sunnanverðri Selöldunni, á Strákum, eru miklar hleðslur undir móbergskletti. Þetta er fjárhús og eru veggir þess svo til alveg heilir. Suðvestan undir Strákum eru svo heillegar tóttir gamals bæjar, er nefndist Fitjar.
Það merkilega gerðist að þessu sinni, sem og svo oft áður, að þrátt fyrir rigningu allt um kring, lék veðrið við göngufólkið alla leiðina.

Selalda

Selalda – minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Arnarfell

Þegar til stóð að hluti Hollywoodpeningamyndarinnar Flags of our Fathers með frægum leikstjóraframleiðanda yrði tekin hér á landi hlupu einstaklingar, félög og stofnanir hver um annan þveran til greiða fyrir að svo mætti verða. Svo mikill var atgangurinn að allir sem hluta áttu að máli vildu leggja sitt af mörkum – svo þeir mættu uppskera sinn hlut af peningakökunni.
Íslenski fáninn á Eiríksvörðu á ArnarfelliHughrif eins og virðing fyrir landinu og þrautseigri sandgræðslu í Stóru-Sandvík, tillitsemi við viðkvæma náttúru og aðgát gagnvart aldagömlum kirkjustað gleymdust algerlega – því PENINGAR voru í boði. Meira að segja stofnanir eins og Fornleifavernd ríkisins og Landgræðsla ríkisins (fyrrum Sandgræðsla ríkisins) féllu á kné; annars vegar með því að vantelja fjölda fornleifa á svæðinu í og við Arnarfell og hins vegar að gefa viðstöðulaust eftir um aðstöðu á svæðunum – án teljandi skilyrða. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði, sem fékk Krýsuvíkursvæðið til umráða með “fjandsamlegri yfirtöku” úr umdæmi Grindavíkur fyrrum, birtist almenningi með einnar og hálfrar milljóna krónumerki í augum og brosti, auk þess em nefndir og ráð bæjarins settu umsvifalaust já á kjörseðilinn. Gengið var að öllum kröfum leikstjóraframleiðandans – skilyrðislaust.
Sviðsmynd á ArnarfelliÞá kom æmt úr einungis einu horni – FERLIR gerði athugasemdir við fyrirhugaða vegarlagningu og jarðrask, auk þess sem ábendingar voru lagðar fram um að forsendur ákvörðunartöku, sem byggð var á fornleifaskráningu á svæðinu væri ábótavant. Bent var á a.m.k. 12 fornleifar aðrar, sem sérfræðingar Fornleifaverndar ríkisins höfðu bara alls ekki ert ráð fyrir. Í kjölfarið birtist yfirklór forstöðumanns stofnunarinnar, en ekkert málefnalegt. Forn þjóðleið, sem leggja átti t.d. undir plan starfseminnar við Krýsuvíkurveginn, átti að vera uppþornaður lækjarfarvegur, nafnkenndur skúti í fellinu náttúrufyrirbrigði, brunnur gamla Arnarfellsbæjarins léttvægur o.s.frv. Ekki var litið á fornt arnarhreiður á Arnarfelli sem varðveislufyrirbæri og svo mætti lengi telja. Í stað þess að taka öllum Gamla þjóðleiðin og planið við Arnarfellviðbótarábendingum fengins höndum fór stofnunin í algera vörn – og hélt sig þar. Viðbrögðin sýndu ótvírætt viðhorf hennar til áhugafólks þessa lands um minjar og verndun þeirra – sem verður að teljast sérstakt áhyggjuefni. Hafa ber í huga að FERLIR hefur yfir að ráða menntuðu fólki á sviði fornleifafræðinnar sem og fólki með miklu mun meiri reynslu í leit og vettvangskönnun að fornleifum, en Fornleifastofnun ríkisins býr yfir.
Landgræðsla ríkisins, sem væna greiðslu, kom með útspil er virtist vitrænt þá, en sýndarleikur í ljósi nýjustu vitneskju. Gert var að skilyrði að planið fyrrnefnda yrði fjarlægt sem og öll ummerki eftir veg að fellinu. Þá yrði gengið frá öllu jarðvegsraski eftir sprengjugígi og hlíðar, sem til stóða að svíða með gaslogum, myndu verða græddar upp – pasta og punktur. En hver varð raunin tveimur árum síðar?
Til stóð að hindra FERLIRsfélaga að ganga um bæði Arnarfellssvæðið og Stóru-Sandvíkursvæðið á meðan á upptökum stæði. Öryggisverðir voru ráðnir, en allt kom fyrir ekki. FERLIRsfélagar gengu inn og út um svæðin, bæði á meðan á undirbúningi og myndatökum stóð, án þess að nokkuð var við ráðið. Fylgst var alveg sérstaklega með öllum efndum í ljósi gefinna loforða.
Í miðjum kliðum féllust forystumenn fyrirsvarsstofnunnar kvikmyndafélagsins Hollywoodiska á rök FERLIRs, bauð til vettvangsfundar og féllst á að lágmarka mögulegar skemmdir á landi. Í trausti þess að viðkomandi stofnanir myndu standa við sitt voru hin jákvæðu viðbrögð hlutaðeigandi aðila talin ásættanleg. Annað kom hins vegar á daginn.
Enn má sjá skaða á gróðri í hlíðum Arnarfells þar sem hann hafði verið sviðinn með gaslogum. Einnig í Stóru-Sandvík þar sem olía var notið í sama skyni (vegna misstaka að sögn). Vegstæðið að fellinu er enn óraskað sem og hluti plansins svonefnda. Hinn hluti þess er nú ófrágengið bifreiðaplan við Ísólfsskálaveg við austanvert Ögmundarhraun – öllum til ama. Hitt er öllu verra að eftirhreitunum hefur verið sturtað á Krýsuvíkurheiðna ofan við Selöldu – einnig öllum til ama. Jarðvegsdúkur, sem hindra átti skemmdir á ofanáliggandi jarðvegi, stendur upp úr hrúgunum á báðum stöðum sem minnisvarði um loforð, sem ekki stóð til að efna. Dúkurinn umræddi gat hvorki endurheimt hluta hinnar fornu þjóðleiðar né gróðurinn sem þar var. Ummerkin á vettvangi dæma sig sjálf.
“Stórmyndin” Flags of our Fathers hefur litlu áorkað fyrir Hafnarfjörð og Grindavík. Hún varð einungs augnabliks afþreying þeirra sem er hvort er eð sama um allt nema sjálfa sig. Söguleg tengsl hennar við Ísland og sögu þess, arf þjóðarinnar eða menningu hennar er og verður ENGIN – til framtíðar litið. Sár landsins eru og verða þó enn til staðar um ókomin ár.
Malarhrúgurnar ofan við Selöldu sem og ófrágengið bifreiðastæðið við austanvert Ögmundarhraun eru Landgræðslu ríkisins til skammar. Þær eru einnig táknrænar fyrir afstöðu Fornleifarverndar ríkisins Hestshellir– sem og bæjarstjóra og nefnda Hafnarfjarðarbæjar.
Hér, þrátt fyrir bölsýnina, fylgir stutt saga af peningaáhuganum vegna umræddrar stórmyndar; ein senan átti að gerast við hellisop. Hestshellir við Grindavíkurveginn varð fyrir valinu. Leitað var til bæjarstjóra, en hann taldi hellinn í landi Járngerðarstaða. Kvikmyndafólkið hafði upp á einum jarðeigandanna, (Grindvíkingi #1) og hringdu í hann. Sá vissi ekkert um Hesthelli, en þegar hann heyrði upphæðina 50.000 kr. nefnda samþykkti hann viðstöðulaust. Seinna sagði Grindvíkingur #1 frá því að þegar hann heyrði að einhver hefði viljað greiða honum þessa upphæð fyrir eitthvað sem hann vissi ekkert um – hefði hann bara samþykkt það si svona.
Framangreind frásögn endurspeglar bæði viðbrögð einstaklinga og stofnana við alls kyns gylliboðum hverdagsins. Svona virðast hlutirnir ganga á Eyrinni í dag.

Arnarfell
FERLIR átti leið um Krýsuvíkursvæðið eins og svo oft áður. Um var að ræða 900. FERLIRsferðina. Nú átti kvikmyndatöku myndarinnar FooF (Flags of our Fathers) að vera lokið við Arnarfell. Tækifærið var notað til að gaumgæfa svæðið betur og í rólegheitum – og það með nákvæmari rannsóknaraugum en áður hafði gefist tóm til.
Þegar komið var á svæðið birtist vörður, annar enn og aftur, en sennilega í síðasta sinn. Hann gerði komumönnum kunnugt um að ekki mætti ganga um Arnarfellssvæðið og það þótt kvikmyndatökum væri lokið og búið að flytja mest af hafurtaskinu, sem henni fylgdi, á brott. Auk þess væri ekkert merkilegt að sjá á svæðinu. FERLIRsþátttakendum var skemmt, en stóðust ekki mátið, skiptust á lögmætum og réttlátum skoðunum við vörðinn, sem að lokum gafst upp, sneri sér undan, bandaði frá sér með hendinni og sagði: “Farið’i þá að fuckings fjallinu”.
Vörðurinn hafði þá a.m.k. lært eitthvað af útlendingunum, þótt ekki væri nema eitt notadrjúgt orð.
Hinum nýlagða vegslóða var fylgt að Arnarfelli. Í honum er talsvert efni, sem þarf að fjarlægja, sem og í athafnaplaninu við þjóðveginn. Forvitnilegt var að sjá “álagasteininn”, sem minnst hefur verið á áður, er jarðýtan bilaði þegar komið var að honum. Hann stendur upp úr planinu að norðvestanverðu og er hann það eina sem minnnir á, og mun minna á umhverfið, sem þarna var. Munnmæli herma að þarna undir steininum hafi andast vegfarandi er leið átti þar um fyrr á öldum. Auðvitað ber eftirlifendum að sína slíkum stöðum virðingu, og það jafnvel þótt þeir sjái oft sjálfir um að minna á sig þegar ástæða þykir til.
Álagasteinn þessi var við gömlu þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, er tekin var undir planið einhverra hluta vegna því það hefði mátt að ósekju vel vera skammt austar við veginn. Þá hefði þjóðleiðin gamla fengið að halda sér. Eflaust hefur bæjarstjóri Hafnfirðinga gefið henni auga er hann átti erindi í Krýsuvík nýlega.
Þegar komið var á athafnasvæðið kom í ljós að undir það síðasta hafði neðrihluti norðausturhlíðarinnar verið grafin meira og minna út með skotgröfum. Allt gróðurendið var orpið holum og náðu þær upp á fellsöxlina að austanverðu. Gróðurinn hafði verið sviðinn, en þó ekki það mikið að hann gæti náð sér upp að nýju þarna í skjólinu neðst í fellinu, en uppgröfturinn gerir það að verkum að svæðið verður aldrei samt á eftir. Og það jafnvel þótt torfbútar væru til staðar til yfirlagningar. Þarna þarf að slétta út hlíðina að hluta og sá í hana að nýju. Við það mun hún fá annað útlit en verið hefur. Áður hafði FERLIR verið kynnt að ekki yrði grafið með slíkum hætti í umhverfið svo sú yfirlýsing gekk a.m.k. ekki eftir.
Ofar í hlíðinni, þar sem skotbyrgðið var og nú hafði verið fjarlægt, utan steypusletta og -brota hingað og þangað, var mikið traðk á umtalsverðu svæði.

Stígur hafði verið gerður upp fellsöxlina og sumsstaðar höggvið í bergið til að auðvelda gönguna. Efst var mikið traðk, einkum þar sem gróðurinn er viðkvæmastur. Búð var að flytja svolítinn áburð upp á toppinn, en greinilega átti eftir að lagfæra umtalsvert rask á miðju fellinu. Eríksvarðan hafði verið látin í friði – að mestu.
Ljóst er að talsverð vinna verður að koma svæðinu í samt lag á nýjan leik. Hins vegar má segja að raskið hefði getað verið meira og verra í svo umfangsmiklu verki sem kvikmyndatakan var því ef hún hefði átt að endurskapa raunveruleikann væri svæðið í heild alls ekki svipur hjá sjón.
FERLIR tók myndir af Arnarfellssvæðinu áður en kvikmyndatakan hófst. Það eru því til ágætar heimildir um hvernig svæðið leit út áður. Nú voru teknar myndir af svæðunum, sem verst urðu úti – áhorfendum til fróðleiks. Þær má einnig sjá á myndarsíðu vefsíðunnar.
Frábært veður í fögru og sagnaríku umhverfi.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Arnarfell
Í frjálsri ferð FERLIRs um Arnarfellssvæðið á leið um Krýsuvíkurheiði (Arnarfellsrétt) og um Arnarfell varð kvikmyndatökulið hr. Eastwoods, Flags of our Fathers, á vegi gönguhópsins. Við það tækifæri gafst ráðrúm til að skoða bæði sviðsmyndina og verksummerki á og við fellið.

Eftir málamyndaafskipti og tilraun svokallaðra varðmanna að hefta för utan við fellið hélt hópurinn um heiðina, um Ræningjastíg og að Arnarfellsrétt. Stígurinn er vörðum varðaður frá norðri til suðurs – og öfugt. Önnur vörðuð gata er austur yfir heiðina. Hún liggur framhjá svonefndri Jónsbúð, sem þar er.
Frá réttinni var haldið áleiðis upp að Arnarfelli með viðkomu við Arnarfellsvatn (Bleiksmýrartjörn). Manngangur var um fellið, en enginn virtist veita göngufólkinu athygli. Gengið var upp á suðaustanvert fellið og stikum og grannri línu fylgt áleiðis upp á við. Undir norðausturhorni Arnarfells hafði verið komið fyrir ógangfæru beltaökutæki, skammt frá tjaldi. Umhverfis það hafði gróðurinn verið sviðinn máttleysislega á allnokkru svæði. Ekki var farið inn á svæðið, en á eyðingarsvæðinu hafði verið komið fyrir deyjandi lágvöxnum pálmatrjám; ímynd Kyrrahafseyjagróðursins. Niðurstaða allrar þessar fyrirhafnar endurspeglast í orðum eins þeirra eftirlifanda er reistu “myndatökufánan” á tindi fellsins; “þetta varð að einhverju allt öðru, einhverju sem aðrir vildu”. Merkt hafði verið gönguleið upp fjallið, framhjá tilbúnu spýtuskotbyrgi. Út úr því stóð myndarlegt rör, líku klóakröri; táknræn fallbyssa.

Haldið var áfram upp eftir stígnum. Einmana treyjuermi lág við stíginn. Líklega yrði einhver leikaranna sektaður um eina og hálfa milljón króna fyrir að skila henni ekki aftur í leikbúningadeildina. Fimmþúsundkallinn, launatékkinn yfir daginn, hrekkur líklega skammt til að brúa það bil, en ætti að duga til að greiða landafnotaleiguna til handa Hafnarfjarðarbæ.
Arnarhreiðrið virtist óhreyft. Vestan þess tóku við pálmahríslur og rörbútar; líklega hluti af virki Japana á fjallinu Iwo Jima. Þyrla sveimaði utan í Eiríksvörðu skammt vestar. Þar stóðu fimm menn og virtust vera að undirbúa lokamyndatökuna; upprisu hins ameríska fána á fjallsbungunni. Vel mátti ímynda sér hversu mikið hefur verið til haft til lítils í hinni miklu orrustu, a.m.k. þegar mannslífin voru annars vegar.
Milli arnarhreiðursins og Eiríksvörðu var allskonar drasl, rör og fyrirkomnir pálmar, auk greina og steina. Mikið traðk. Táknræn leikmynd. FERLIR fikraði sig áfram að Eiríksvörðu. Hrunið hafði úr fellinu að sunnanverðu. Á Arnarfellinu mátti lesa tálsýn óraunveruleikans annars vegar og staðreyndir lífsbaráttunnar hins vegar; sýndarveruleikann og hina raunverulegu nýtingu forfeðranna á landinu til handa afkomendum þeirra. Sorgleg mynd í annars sagnaríku og tilkomumiklu landslagi. En svona er nú einu sinni mismunandi birtingarmynd manna; að hluta til blekking og að hluta til raunveruleikinn er endurspeglar hið daglega amstur.
Útlendingarnir á og við Arnarfell virtust mjög uppteknir af sögu sinni, sem reynar er glæný miðað við sögu hinnar íslensku þjóðar. Eiríksvarðan var t.d. hlaðin þegar Bandaríkin voru enn ekki til sem slík. Þeir, sem á fellini voru virtust gjörnseyddir allri meðvitund um sögulegar staðreyndir þessa merkilega búsetulandlags, sem þarna er allt um kring.
“Flags of Our Fathers” snýst um orrustuna um Iwo Jima í síðari heimstyrjöldinni árið 1945. Orrustan um Iwo Jima (eldfjallaeyju) var háð á milli Bandaríkjanna og Japana í febrúar og marsmánuði þetta ár. Iwo Jima var hluti heimasvæðis Japana – aðeins um 650 mílur frá Tókyo.
Orrustan, sem var hluti af Kyrrahafsstríði Seinni heimstyrjaldarinnar, var hatrömm því hún var að mati Bandaríkjanna, eindregin atlaga þeirra að hjarta Japana, hisn svarna óvinar. Þessi orrusta varð, vegna mikils mannfellis Bandaríkjanna (7 þúsund móti 20 þúsund Japönum) undanfari á notkun kjarnorkusprengju þeirra. Hin fræga fréttaljósmynd, sem sögð var tekin á toppi Iwo Jima í lok orrustunnar, var í rauninni sviðsett – að því er virtist til að réttlæta hið mikla mannfall Bandaríkjanna í orrustunni.

Orrustan sjálf var bæði ein stórkostulega orrusta og ein sú klaufalegasta, sem Bandaríkjamenn höfðu háð í sögunni.
Sagan lýsir þessari orrustu, sem árás Bandaríkjamanna gegn varnarher Japana, “árás hins mannlega holds gegn hatrammri steinsteypu,” eins og það var orðað til að friðþægja almenning heima fyrir. Þarna var engin framlína. Sjóherinn gat ekki séð óvininn, og Japanir gátu ekki séð sjóherinn fyllilega. Þetta var því blint stríð, sem hvorugur gat séð fyrir hvernig myndi enda. Liðsmunur réð þó úrslitum.
Orrustan var einstök fyrir sitt leyti. Um 100.000 menn háðu hatramma baráttu á þessari litlu eyju, sem var 1/3 af stærð við Manhattan. Í 36 daga, varð Iwo Jima ein þéttbýlasta svæði jarðar. Svæðið varð einnig eitt hið eitt hið skaðvænlegasta. Fleiri landgönguliðar Bandarríkjahers áunnu sér heiðusmerki á Iwo Jima en í nokkurri annarri orrustu hersins í Seinni Heimstyrjöldunni. Bandaríkin heiðruðu aðeins 353 manns í allri styrjöldunni. Af þeim voru 27 heiðraðir fyrir þessa 36 daga orrustu á Iwo Jima.
Kvikmyndagerðafólk við “Flags of Our Fathers” hefur vonað að myndin endurspeglaði sýn vitnanna að orrustunni, sennilega þeirri stærstu í Seinni heimstyrjöldinni. Hún varð hins vegar engin frægarför og réði ekki úrslitum um gang stríðsins. Það var heldur ekki ætlunin að gera þessa mynd að hetjusögu. Clint Eastwood hefur sagt að hann langi ekki til að “geta einhverja aðra John Wayne skítavellu”. Hann langar til að sýna hvernig stríðið raunverulaga var. “Eins og það var og hvers vegna dauðshlutfallið var um 75% – í nánast töpuðu stríði.”
FERLIR, sem jafnan virðir málefnalega og tilfinningalega afstöðu manna til landsins, hélt göngu sinni áfram áleiðis upp að Vegghömrum, sem og segir í fyrri FERLIRslýsingu um þessa ferð.
Rétt er að undirstrika að það var aldrei ætlun FERLIRs að valda töfum eða skemmdum á tökustöðum, einungis vekja athygli á hugsanlegum landsspjöllum við tökur kvikmyndarinnar. Þá gaf hann út að gengið yrði um hin almennu svæði Reykjanesskagans, svo sem honum sýndist, þrátt fyrir kvikmyndatöku hinnar erlendu aðila. Við hvorutveggja hefur verið staðið. Hið ánægjulega er að svo virðist sem reynt hafi verið að taka það tillit til umhverfisins í Krýsuvík svo sem unnt er miðað við umfang verksins. Hvorki hafa verið grafnir sprengjugígar né ekið utan vegslóða.
Þess má geta að bæjarstjóri Hafnarfjarðar reyndi fyrir nokkru að vekja athygli FERLIRs á því að umgengi um beitarhólfið, sem Arnarfell er í, væri bönnuð, en gleymdi því að um það liggur þjóðvegur, öllum ætlaður. Sjá einnig HÉR og HÉR.
Frábært veður.

Arnarfell

FERLIRsfélagr í herbúðunum við Arnarfell.

Arnarfell

Kvikmyndataka “Flags of our fathers” hófst við Arnarfell föstudaginn 25. ágúst (2005). Þá var búið að svíða gróður í norðausturlíð fellsins með samþykki Hafnarfjarðarbæjar og Landgræðslu ríkisins.

Krýsuvík

Frá Krýsuvík.

Ætlunin var m.a. að ganga um svæðið, en auk þess að skoða vörðurnar við Ræningjastíginn, Arnarfellsréttina, Trygghólana, Bleiksmýrartjörnina, Vegghamra, Stórahver, Lambafellin og vestanvert Kleifarvatn að Syðristapa.
Þegar leggja átti af stað við Vestari-Læk sunnan við Ræningjahól kom að maður á bíl, sem kvaðst vera að vakta svæðið vegna kvikmyndatökunnar. Engum væri heimilt að fara um svæðið meðan á tökum stæði. Maðurinn virtist meina það sem hann sagði.
FERLIR kynnti sig til sögunnar. Vörðurinn varð skrítinn í framan og sagði: “Þið megið alls ekki ganga um svæðið”.
“En við munum ganga um svæðið. Hvað ætlar þú að gera í því?”, var svarið.
“Ha, ekkert, held ég,” svaraði vörðurinn. Honum leyst greinilega ekkert á að hindra göngu hópsins.” Hann tók upp síma og hringdi. Félagi hans birtist von bráðar. Saman stóðu þeir og horfðu á eftir hópnum liðast suður heiðina.
Staðnæmst var við vörðu suðaustan við Bæjarfell. Önnur varða var skammt sunnar. Enn önnur varða var allnokkru sunnar. Milli þeirra er Arnarfellsréttin, heilleg að mestu. Réttin var aðalskilaréttin á svæðinu fyrir 1950. Fram að þeim tíma réttuðu t.d. Grindvíkingar þar, en eftirleiðis í Þórkötlustaðarétt. Síðan færðist skilaréttin yfir í Eldborgarrétt skammt austar.
Gengið var niður að Trygghólum og þar vent til austurs og síðan til norðurs. Upp í gegnum heiðina ganga a.m.k. tveir grónir dalir, að hluta. Annar er þó betur gróinn. Hann kemur að sunnanverðri Bleiksmýrartjörn (Arnarfellsvatni). Þarna var fyrrum áningarstaður skreiðarlestarmanna á leið að og úr verum. Enn markar fyrir götum í námunda við vatnið. Þá markar fyrir tóftum vestan við vatnið.

Arnarfell

Varða við þjóðleið skammt frá Arnarfelli.

Þá var gengið til norðurs um austurenda Arnarfells. Þar var greinilega mikið í gangi. Dátar með alvæpni stóðu í litlum hópum, tökulið, aðstoðarlið, þjónustulið og liðamótalið gekk fram og til baka um svæðið. Smíðuð höfðu verið byrgi í fjallið og kaðall stengdur á brúnum. Suðausturhlíð fjallsins hafði verið klaufalega sviðin með gaslampa. Fyrir göngufólkinu virtist fólkið þarna vera sem lítil börn í tilbúnum ímyndunarleik. En mikið virtist til haft og mörgu til tjaldað. Skammt norðar, við þjóðvegsbrúnina, voru ótal hjólhýsi, tjöld og annar búnaður; þ.e. mikið umleikis fyrir lítið og margt af því ómerkilegt í annars merkilegu umhverfinu.
Enginn virtist gefa göngufólkinu gaum, þrátt fyrir yfirlýsta gæslu. Bæði innendir og erlendir urðu á vegi hópsins. (Myndir bíða birtingar). Nýjum bugðóttum vegslóða var fylgt til norðurs, haldið yfir þjóðveginn og áfram áleiðis upp í Vegghamra.
Fallegur rauðamölsgúlpur er ofan vegarins. Rauðamölshólar eru vstan við Vegghamrana. Þegar komið var yfir þá blasti við leikmynd. Þarna var tekin ein af fyrstu íslensku leiknu kvikmyndunum er gerðist á Tunglinu. Umhverfið er einstakt og vonandi verður það aldrei selt til eyðileggingar líkt og hluti Arnarfellsins.

Gullbringa

Gullbringa.

Ofar taka við sanddalir. Vestan þeirra eru Austurengar og Austurnegjahver, stundum nefndur Stórihver. Hann er einn stærsti vatnshver landsins. Stíg var fylgt frá honum áleiðis að Hverahlíð austan Lambafellanna. Frá Hverahlíð, þar sem fyrir er skáli Hraunbúa, var gengið vestur með sunnanverðu Kleifarvatni og síðan norður með því vestanverðu, yfir svonefnt Nýjaland. Áðru hefur verið sagt frá skrímsli við vatnið nálægt Lambatanga. Vestan hans má sjá tóftir Kaldrana, eins elsta bæjar í Krýsuvík. Þar eru nú friðlýstar tóftir.
Strönd vatnsins var fylgt yfir á Syðristapa, þar sem göngunni lauk.
Aðrennsli í vatnið á yfirborði er nokkrir smá lækir að sunnanverðu. Auk þess rennur úr hlíðunum í kring í rigningu og er snjó leysir á vorin. Kleifarvatn er afrennslislaust á yfirborði og gert hefur verið ráð fyrir að vatnsborðið falli saman við grunnvatnsflötinn í umhverfinu og sé háð sömu sveiflum og hann. Kleifarvatn hefur verið notað sem úrkomumælir á Suðvesturlandi.
Kleifarvatn er þekkt fyrir að vaxa og minnka til skiptis og er munur hæsta flóðfars og lægstu vatnshæðar um 4 metrar. Vatnsborðið sveiflast með úrkomu- og þurrkatímabilum en þó hafa orðið sneggri breytingar samhliða jarðskjálftum t.d. 1663 og 2000.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Gullbringa.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja í sprungustefnu landsins NA-SV Við vatnsborðshæð 140 m y.s. er meðaldýpi þess 29,1 m, flatarmál Kleifarvatns 10 km2 og rúmmál þess er 290 Gl. Nú er vatnsborðshæðin 136,3 m y.s., flatarmálið er um 8 km2 og rúmmál þess hefur minnkað niður í um 255 Gl.
Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi,um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins 97m. Fyrir einhverjum árum síðan voru silungsseiði látin í vatnið og dafnar fiskurinn ágætlega í því.
Vatnsbotn Kleifarvatns hefur þéttst í áranna rás með leir og öðru seti. Lekt vatnsbotnsins var því minni en jarðlaganna í kring og því stóð vatnsborðið hærra en grunnvatnið. Þegar sprungur opnast í botni Kleifarvatns þá breytist lekt þ.e. viðnám jarðlaganna og vatnið hripar niður um sprungurnar. Smám saman nær Kleifarvatn á ný jafnvægi við grunnvatnið í kring. Hversu lengi og hversu mikið mun það halda áfram að lækka áður en jafnvægi næst á ný?
Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga. Það hefur ekkert frárennsli. Silungsseiði af bleikjustofni úr Hlíðarvatni í Selvogi voru sett í vatnið á sjötta áratugnum og þau hafa dafnað vel, sem fyrr sagði.

Arnarfell

Arnarfellsrétt.

Gullbringusýsla er fyrst nefnd í skjali frá árinu 1535 og náði hún yfir hluta hins forna Kjalarnesþings. Gullbringa er sýnd á herforingjaráðskortum sem hæðarbunga við suðaustanvert Kleifarvatn (308 m). Stefán Stefánsson sem kallaður var “gæd” (af “guide”) taldi það þó hæpið, þar sem kunnugir menn á þessum slóðum hefðu jafnan kallað lyngbrekku þá sem er vestan í Vatnshlíðinni Gullbringu og nær hún niður undir austurströnd vatnsins.
Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi sagði að grasbrekkur frá Hlíðarhorni vestra og austur að Hvannahrauni væru nefndar Gullbringur (Örnefnaskrá í Örnefnastofnun).
Jón Ólafsson úr Grunnavík taldi að nafnið Gullbringa nærri Geitahlíð væri frá Dönum komið sem hafi talið það fallegt og viðeigandi þar sem staðurinn lá nærri sýslumörkum við Árnessýslu. (Kristian Kålund: Íslenzkir sögustaðir I:51). Álitið er að staðurinn hafi fyrrum verið blómlegri en síðar hefur orðið vegna uppblásturs.
Ekki virðast beinar heimildir um þinghald í eða við Gullbringu og er því margt á huldu um þessa nafngift. Gullbringur eru í Mosfellsheiði, en sýslunafnið getur ekki átt við þær þar sem þær eru ekki í sýslunni. Örnefnið Gullbringa eða -bringur er til víðar á landinu og virðist merkingin vera ‘gróðursælt land’.
Ævintýranleg ferð. Veður var frábært, lygna og sól. (4:04)

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/
-http://www.os.is/vatnam/kleifarvatn/kleifjfi/frame.htm

Arnarfell

Byssubyrgi í Arnarfelli.

Arnarfell

Starfsmaður hjá kvikmyndafyrirtækinu Truenorth, sem þessa dagana er að aðstoða bandaríska aðila við undirbúning á kvikmyndinni Flags of our Fathers, bauðst til að hitta FERLIRsfélaga við Arnarfell, en eins og kunnugt er munu tökur á kvikmyndinni fara fram þar og í Stóru Sandvík við Hafnir.
Starfsmaðurinn kvaðst hafa verið að fylgjast með greinum í blöðum síðustu dagana vegna kvikmyndatökunnar í Arnarfellinu og virtist honum sem þar væri nokkur misskilningur á ferðinni um raunverulegt umfang verksins og þá helst þeim hluta sem fer fram við Arnarfell.
Við Arnarfell var dregin fram loftmynd af svæðinu þar sem fyrirhuguð veglína og athafnasvæði voru merkt inn á. Starfsmaðurinn sagði töluverðar breytingar hafa verið gerðar frá fyrstu áætlunum. Þá hefði verið fyrirhugað að gera veg til austurs með Arnarfelli frá Ísólfsskálavegi, á móts við athafnasvæði skátanna, en þá var yfir nokkrar fornleifar að fara. Nú væri hins vegar ætlunin að gera vegspotta að norðaustanverðu Arnarfelli frá Herdísarvíkurvegi. Hann á að liggja um gróðurlitlar lænur í landslaginu og enda við lítið athafnasvæði við fellið. Jarðvegsdúkur verður settur yfir jarðveginn og á hann lagður sandur. Hvorutveggja væri hægt að fjarlægja að loknum kvikmyndatökum, en ef vilji Hafnarfjarðarbæjar stendur til að hafa veginn áfram sem og athafnasvæðið undir fellinu þá stendur það til boða. Ljóst væri að aðkoma að Arnarfelli verður mun betri á eftir.
Til stóð að grafa sprengigíga við og í fellið, en nú hefur verið horfið frá því. Þeir verða grafnir í Stóru-Sandvík, en alls ekki í þeim stærðarhlutföllum sem lýst hefur verið. Við Arnarfell verður litlum gígum komið fyrir með gervisprengjum. Skotsprengjum verður komið fyrir víða, en þær ættu ekki að skilja eftir sig sár, sem ekki verður hægt að laga. Skotbyrgi úr spónarplötum verða byggð í fjallshlíðina, en þau verða öll fjarlægð. Svíða á gróðurtorfur í hlíðinni með gasloga, en það verður gert eftir leiðbeiningum Landgræðslunnar. Sáð verður í sárin og áburður borinn á. Gróðurinn ætti að geta jafnað sig á nokkrum árum. Reynt verður að valda eins litlu raski og mögulegt er og allt fært í samt lag aftur að athöfnum loknum.
Fáninn frægi (Flags of our Fathers) verður reistur við Eiríksvörðuna, en allur myndbúnaður verður fluttur á fellið með þyrlu. Til stendur að nota eitthvað suðurhlíðina, en þó óverulega.
Breyttar áherslur eru frá því sem var. Stórvirk tól verður ekki ekið um svæðið, heldur munu einhver standa kyrr undir fellinu á meðan á tökum stendur. Umferð starfsfólks (um 500 manns) mun verða takmörkuð við fellið, enda á engin að koma inn á myndasvæðið nema þeir, sem þangað eiga erindi í hvert sinn.
Ljóst er að athafnsvæðið er nú utan seilingar fornleifa, nema kannski gömlu þjóðleiðarinnar, sem farið var yfir með jarðýtu fyrir mistök. Sú fornleif, sem næst er, er skjól undir stórum steini, beint undir Stínuskúta. Hvorutveggja staðurinn ættu að vera utan látamarka.
Upptökur við Arnarfell munu líklega fara fram 24. – 29. ágúst n.k., en mun lengur í Stóru-Sandvík. Á meðan á upptökum stendur mun umferð um svæðið verða takmörkuð. FERLIR verður að sjálfsögðu velkominn í kurteisiheimsókn. Starfsmaðurinn sagðist hafa góðan skilning á mikilvægi þess að rödd almennings heyrðist þegar efasemdir kæmu upp um að rétt væri að málum staðið. Kvikmyndafélaginu væri hins vegar í mun að ganga þannig frá svæðum, sem það notaði, að sómi væri að.
Fram kom að aðallega þrjár ástæður athugasemda vegna kvikmyndatökunnar hafa verið tilgreindar; í fyrsta lagi vegna sögu og arfleiðar svæðisins, í öðru lagi vegna gróðurfars og mögulegra skemmda og í þriðja lagi vegna hugsanlegra röskunar fornleifa, sem tilheyra heildstæðum búsetuminjum Krýsuvíkurbæjanna og fólksins, sem þar bjó um aldir.
Sóknarprestur Hafnfirðinga vísiteraði Krýsuvík meðan á heimsókninni stóð. Var honum greinilega mikið í mun að svæðinu yrði sýnd sú virðing, sem því ber. Áhuga- og afskiptaleysi þeirra, sem ættu bæði að hafa vit og þor, væri í rauninni sorglegur vitnisburður um slæmt viðhorf til arfleifðarinnar. Tilfinningahliðin virðist sýnileg, en sjaldnast tiltekjanleg.
Það kom fram hjá starfsmanni kvikmyndaaðstoðarfyrirtækisins að öryggisverðir hafa verið beðnir um að amast ekki við áhugasömu göngufólki um svæðið. Kamranir munu verða þeirra meginverkefni. Hins vegar mun umferð þess verða takmörkuð á meðan á upptökum stendur, sem fyrr segir.
Þá kom fram í samtalinu að bæjarstjóri Grindvíkinga hafði boðið kvikmyndafyrirtækinu aðstöðu í einhverju Grindavíkurfellinu ef það þyrfti að hverfa frá Arnarfellinu af einhverjum orsökum. Þá er og hugmyndin að nýta Hesthelli við Grindavík, en hann er í óskiptu landi Þórkötlustaðahverfisbæjanna. Landeigendafélagið mun væntanlega skoða það.
Einn FERLIRsfélaganna hefur fengið svar bæjarstjóra Hafnfirðinga vegna athugasemda hans um að rétt hafi verið að málum staðið við afgreiðslu málsins. Í svarinu kemur m.a. fram að “umferð um beitarhólfið er óheimil skv. 1. tl. auglýsingarinnar um fólkvanginn”. Bæjarstjórinn virðist gleyma sér í hinum pólitíska orðaleik í stað þess að útskýra bara hvaða heimildir hann hafði og hvar þær er að finna. Allir aðrir vita að umferð um fólkvanginn og þar með talið beitarhólfið er opin bæði gangandi og akandi umferð. Þjóðvegur liggur um það og á honum er rimlahlið til að auðvelda aðgengið. Þá vita líka margir hvernig bæjarfulltrúi, alþingismaður og ráðherra tiltekins stjórnmálaflokks færði Hafnfirðingum Krýsuvíkursvæðið, sneið úr lögsögu Grindvíkinga, á slilfurfati. Það má heita pólitískur gjörningur, sem enginn myndi komast upp með í dag, um 50 árum síðar. Bæjarfulltrúar Hafnfirðinga ættu að hugsa um það í fullri alvöru hvort þeir ættu ekki að afhenda Grindvíkingum
Krýsuvíkursvæðið á nýjan leik.
Umhverfi Arnarfells er stórbrotið, fyrir þá sem hafa auga fyrir slíku (sjá myndir).
FERLIR þakkar framangreindum starfsmanni Truenorth fyrir upplýsingarnar og kynninguna, en þar eru gleggri en nokkur nefnd eða opinber stofnun hefur látið frá sér fara um málið fram að þessu.
Þá vonar FERLIR þess að leikstjórinn, Eastwood, eigi ánægjulega og eftirminnilega daga á Reykjanesskaganum meðan á upptökum stendur.
Frábært veður.

Arnarfell

Sprengigígur við Arnarfell.

Arnarfell
Í göngu á og við Arnarfell í Krýsuvík voru rifjaðar upp fjórar þjóðsögur er tengjast fellinu. Annars var megintilgangur ferðarinnar að staðsetja nokkrar fornleifar, sem fornleifafræðingar höfðu ekki komið auga á, auk náttúruminja. Þá var svæðið Arnarfell myndað, bæði með upptökuvélum og stafrænum.
Gengið var að hlaðinni brú vestan við Arnarfell. Hún er í skarði á innri heimagarðinum að sunnanverðu. Gamla þjóðleiðin að Krýsuvík að austan lá um brúna, annars vegar til norðausturs að Eystrilæk og hins vegar til vesturs með garðinum utanverðum. Sett var niður prik við brúna.
Þá var gengið að vörðum með gömlu leiðinni til austurs sunnan Arnarfells, utan garðs. Hún lá framhjá brunninum sunnan Arnarfells og skiptist síðan í tvennt; annars vegar til austurs yfir Bleiksmýrina og hins vegar niður að Arnarfellsvatni (Bleiksmýrartjörn). Vestan við tjörnina mótar fyrir rústum. Áningarstaður vermanna í verum á sunnanverðum Reykjanesskaganum og skreiðarflutningamanna var þarna við sunnanverða tjörnina. Þá var jafnan slegið upp tjöldum. Vörðurnar eru fallnar, en vel móta fyrir innleggi þeirra. Annars var óþarfi að hafa vörður við Arnarfell því það var jafnan hið ágætasta kennileiti ferðamanna til og frá Krýsuvík að austan.
Merkt var umhverfis hinar gömlu tóftir Arnarfells vestan bæjarhólsins og síðan haldið upp á fellið. Ofan við syðri útihúsatóftina í fellinu er skúti. Þeir eru reyndar tveir. Annar er ofar og austar. Þar er fjárskjól, en engar hleðslur. Hinn er ofan og sunnan við tóftina. Þar er hleðsla fyrir, gróin. Svo virðist sem tákn séu þar skráð á veggi, en þau gætu eins verið af náttúrlegum ástæðum.
Arnarfell Eiríksvarða var barin augum. Varðan er greinilega gömul að hluta, en verið haldið við með því að bæta í hana. Sagan segir að séra Eiríkur á Vogsósum hafi látið hlaða vörðuna eftir komu Tyrkja til Krýsuvíkur (sjá þjóðsögu síðar) með þeim orðum að á meðan hún stæði óhreyfð væri byggðinni óhætt.
Gengið var niður skarðið og í Stínuskúta. Við hann var settur staur. Skútinn er með þeim fallegri í Krýsuvíkurfellunum.
Staur var sett við hlaðið og gróið skjól norðan undir stórum steini neðan við Stínuskúta. Þar gæti hafa verið kví og tengst stekknum þarna skammt vestar.
Loks var gengið að hinni gömlu þjóðleið milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, er lá um Deildarháls. Þjóðleiðin sést enn mjög vel norðan við Eystrilæk. Þar liggur hún um mela, en því miður… Jarðýtustjóri er nú búinn að ýta duglega yfir hluta leiðarinnar. En verið róleg… Samkvæmt bestu heimildum á að færa allt í samt lag aftur að lokinni kvikmyndatöku, einnig gömlu þjóðleiðina. Fylgst verður gaumgæfulega með hvernig það verður gert.
Hið skemmtilega (eða hið leiðinlega) við þessa þjóðleið er að fulltrúi Fornleifaverndar ríkisins var sérstaklega spurður að því á fundi, sem haldinn var með nefndarfólki og öðrum í Hafnarborg (daginn áður en skipulags og byggingarráð tók ákvörðun sína) hvort hann væri handviss um að þjóðleiðin gamla lægi ekki um þær slóðir sem ætti að raska. Spyrjandi sagðist hafa lesið það í hans gögnum að þetta væri talinn gamall árfarvegur. Fulltrúi Forneifaverndar móðgaðist mjög, sagði að þetta væri örugglega gamall árfarvegur og engin ástæða væri til að efast um þekkingu hans. Þetta væri ekki gömul þjóðleið, en nú er annað komið í ljós. Mjög mikilvægt er að fólk, sem vinnur við mat og skráningu fornleifa skoði svæði sem þetta með opnum hug og nýti sér vel þær upplýsingar, sem fyrir eru, bæði um einstakar minjar sem og sögu svæðisins. Mikið magn upplýsinga er til um Krýsuvík og ábúð það fyrrum.
Verkhús Öryggisverðir reyndu að meina FERLIRsfélögum göngu um svæðið, en eftir að aðkomumenn höfðu rakið fyrir öryggisvörðunum helstu þjóðsögur, sem svæðið hefur að geyma, sagt þeim frá merkum minjum, lýst staðháttum og örnefnum, lagt út af sögu Krýsuvíkur í stuttu máli o.fl. o.fl. sáu þeir auðvitað að þarna fór ekki hættulegt fólk eða fólk, sem væri líklegt til að valda skemmdum á svæðinu. Það gekk því óáreitt á og umhverfis Arnarfell, eins og ætlunin var. Öryggisverðirnir sannfærðust líka um að það getur verið alvarlegt mál að hefta frjálsa för fólks í frjálsu landi, nema hafa til þess mjög ríkar ástæður, sbr. ákvæði hegningarlaga. Þær voru ekki fyrir hendi þarna, enda stafaði göngufólkinu engin hætta af umhverfinu og ekkert var á staðnum sem hægt var að skemma nema tveir kamrar, sem öryggisverðirnir hafa staðið dyggan vörð um og passað vandlega undanfarnar vikur. Þeir voru hins vegar ekki við Arnarfell, heldur við gömlu þjóðleiðina, sem nú var búið að skemma. Það vissu öryggisverðirnir að sjálfsögðu ekki.
Öryggisverðirnir voru beðnir um að fygjast vel mannaferðum um svæði, einkum að kvöld- og næturlagi því skemmdir hafa verið unnar að undanförnu bæði á Krýsuvíkurkirkju og skátaskálanum Skýjaborgum undir Bæjarfelli. Þá væri og gott ef þeir, nærtækir, gættu þess vel að fólk væri ekki að ganga mikið til suðurs að Arnarfelli, því mýmörg hreiður væru enn í móanum milli vegarins og þess. Ljóst er því að heildarhlutverk öryggisvarðanna á svæðinu getur orðið til gangs þegar til alls er litið.
Hið skemmtilega var að annar öryggisvarðanna reyndi að telja FERLIRsfélögum trú um að girðingin um beitarhólfið hafi verið sett upp til að koma í veg fyrir að fólk færi um svæðið. Þá reyndi hann að telja hinum sömu trú um að straumurinn á henni gæti reynst varhugaverður. Hann vissi greinilega ekki við hverja hann var að tala.
Sjóbúð Fyrsta þjóðsagan um Arnarfell segir frá Beinteini, en svo var nefndur maður “suður í Krýsuvík, bjó hann að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði. Eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan. Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan. Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.”
Önnur saga segir að “á Selatöngum var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og görðum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herzlu. Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum höfðu þeir kvörn sína og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv.
Tóftir Reki var mikill á Selatöngum og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum.”
Þriðja sagan segir að “á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur.
Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: “Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.
Arnarhreiður Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann:
“Og hann fylgir staurunum, lagsi”.
Nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu búð sem eftir var þar þá og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttinni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig að Einar svaf við gaflhlaðið en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagzt niður, töluðu þeir saman dálitla stund og segir þá Guðmundur meðal annars:
“Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?”
Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna en er þeir hafa legið litla stund heyra þeir að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna:
“Þarna er hann þá núna”, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra.
 Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.”
SkjólFjórða sagan segir af Tyrkjum er “undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík. Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju.
Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt: ”Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: ”Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu.
Hann mælti til þeirra: ”Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”
Fjórða sagan segir af Arnarfellslabba. “Í Arnarfelli skammt frá Krýsivík var draugur sá er Arnarfellslabbi var nefndur. Var Þjóðleiðhann svo kallaður af því að þeir er skyggnir voru gátu að líta strákhvelping með svartkollótta húfu staglaða með hvítu lopbandi koma ofan úr fellinu og á labbi þar umhverfis til og frá um Krýsivíkurmýrar, en þar var almennur áfangastaður og lágu menn þar með lestir, flestir nálægt Arnarfelli.
Labbi gjörði ferðamönnum þar ýmsar glettingar. Svipti hann stundum tjaldi ofan af mönnum eða hann þeytti farangri þeirra út í allar áttir eða fældi burt hestana úr haganum og helti suma. Fór enginn maður þann veg eða lagðist þar í áfanga svo að hann hefði ekki heyrt Labba getið. Hann hafði og helt og lamað fé og færleika fyrir Krýsivíkingum og þótti þeim hann sér ærið amasamur í nágrenni, en gátu þó ekki að gjört. Smalamaður Krýsivíkurbóndans hafði og orðið bráðdauður og var það eignað Labba.
Samkvæmt konunglegri tilskipun 1772 skar Björn sem aðrir bændur allt sitt sauðfé. Ætlaði hann nú að róa vetrarvertíðina og réði hann sér far suður í Garði. Býst hann nú í ákveðinn tíma með öðrum vermönnum; voru þeir nótt í Krýsivík. Bóndi kenndi Björn þegar því þeir voru kunningjar.
”Mörg ár held ég nú liðin síðan þú hefur róið út Björn minn,” segir bóndi; ”get ég að sauðleysið valdi því að þú ferð nú að róa.”
”Rétt getur þú til,” segir Björn, ”sveltur sauðlaust bú. Ég hef ekki róið síðan ég fór að búa, enda hef ég nú orðið litla lyst til sjóróðra.”
”Kaup vilda ég eiga við þig,” segir bóndi; ”vilda ég biðja þig að fyrirkoma Arnarfellslabba, en ég býst til að taka við færunum þínum og róa þér svo hlut.”
Þeir sömdu nú þetta með sér; reri bóndi honum hlut um vetrinn og fiskaði vel, en Björn varð eftir í Krýsivík. Fer hann nú að hitta Labba og er ekki sagt frá viðskiptum þeirra; hitt er ljóst að Björn kom Labba fyrir og varð aldrei framar vart við hann.”

Heimildir m.a.:
-SIGFÚS IV 39
-RAUÐSKINNA I. 41
-JÓN ÁRNASON I. 562
-JÓN ÁRNASON III 593Arnarfell

Fáni
Gengið var um hinn óaðgengilegustu hluta Krýsuvíkur, skv. fréttalýsingum a.m.k.
Haldið var austur eftir vörslugarðinum við Krýsuvíkurbæina undir Bæjarfelli, framhjá Ræningjahól og tóftum Suðurkots og áleiðis yfir að Arnarfelli.
Fljótlega kom í ljós að starfsmaður Fornleifaverndar ríkisins hafði farið um svæðið og rekið niður áberandi hæla þar sem vænta mátti fornleifa. En alls ekki við þær allar, eins og í ljós kom á göngunni.
Vörslugarðurinn hafði verið markaður sem og hluti af tóftum Arnarfellsbæjarins. Gömlu tóftirnar voru enn óafmarkaðar. Brunnurinn hafði loks fengið náð starfsmannsins og nú loksins komist á blað fornleifaskráningarinnar. Hins vegar voru báðar vörðurnar ómerktar. FERLIR mun á næstunni merkja 9 minjar til viðbótar á svæðinu, sem horft hefur verið framhjá.
Gengið var upp á Arnarfellið að sunnanverðu. Táknrænt mátti þykta að á steini við brún fellsins lá hvítskeljuð hauskúpa kindar. Var eins og hún vildi minna á tilvist sína í þessu táknræna bústetulandslagi langs tíma aftur í aldir. En því miður virðast fáir nútímamenn þess umkomnir að skilja slíkt.
Undir fellsbrúninni voru útihúsatóftir merktar, en helliskúti í fornleifaskránni fékk að vera ómerktur. Í honum eru hellaristur, sem skoða þyrfti nánar. Framan við hann eru hleðslur.
Uppi á Arnarfelli var Eiríksvarðan merkt tveimur stikum, en arnarhreiðrið ekki. Önnur stikan var því færð að hreiðrinu forna – svona til að spara sérfræðingum sporin.
Efst á fellinu var staldrað við og horft yfir sviðið. Jarðýta hafði rutt móann næst þjóðveginum. Þar á víst að reisa hljólhýsabúðir fyrir væntanlega útlendinga. Heyrst hafði í samtali að von væri á þremur fullhlöðnum skipum til landsins með hinn ýmsa búnað, s.s. tæki og tól. FERLIR mun fylgjast með upptökunum.
Þá hvíslaði fugl því að einhverjum að nýlega hefðu komið nýmóðins tæki með flugi til landsins er m.a.s. embættismenn töldu sig þurfa að gæta að. Öllu var komið í “örugga” geymslu á tilteknum stað.
Hvað sem framangreindu líður hafa FERLIRsfélaga einungis áhuga á umhverfinu, minjum og sögu svæðsins. Flaggað var að því tilefni á arnarhreiðrinu á toppi Arnarfells með útsýni yfir Arnarfellsvatnið, er iðaði að fuglalífi þessa kvöldstund. Reyndar eru arnarlauparnir tveir á fellinu.
Haldið var niður Arnarfellið að austanverðu. Þar var kominn kaðall fyrir fótalúna, en vanir gengu niður um “klofið” og beina leið niður í Stínuskúta. Þar er um að ræða fallegt fjárskjól með útsýni yfir suðausturhluta svæðisns. Því hefur verið haldið fram að engar fornleifar væru á því svæði, en það er rangt. Beint þarna neðan af er t.d. gróið hlaðið skjól undir kletti. Skammt vestar er stekkur. Gömul leið lá með lækjarfarvegi austur yfir heiðina. Yfir hana á að leggja veg.
Skoðað var rask jarðýtunnar við þjóðveginn. Það er orðið allnokkurt, en án efa mun það verða fært í samt lag á ný. Gamla þjóðleiðin liggur fast við mörkin, sem nú er verið að raska. Hún var merkt með steinum, svo fornleifafræðingar gætu komið auga á hana.
Gengið var að kömrum, sem öryggisvörður gætti. Hann virtist vakna við vondan draum þegar FERLIRsfélagar buðu gott kvöld að góðra manna sið. Sagðist hann einungis vera að gæta að jarðvegsdúk, sem þarna væri, en kamranir væru opnir öllum, gangandi sem akandi.
Frá vörslustaðnum sást til fólks vera á ganga á Arnarfell, Líklegt er að þannig muni það verða á næstunni – hvað sem kvikmyndatökum áhrærir.
Í viðtali við öryggisvörðin kom í ljós að glussarör í jarðýtunni hafði brostið um morguninn af óskiljanlegum ástæðum. Vildu menn jafnvel rekja það til álagasteins, sem reynt hafði verið að færa úr stað. Hann myndi nú fá að vera í friði. Hvorki virðast menn, skv. þessu, hafa tengt atburðinn grafhelginni í Krýsuvíkurkirkjugarði né Gullskinnu séra Eiríks frá Vogsósum. Líklegt má telja að ýmislegt óvænt, skrýtið og jafnvel óútskýranlegt, muni koma koma upp á á svæðinu á næstu dögum og vikum, en vonandi mun það þó allt ganga óhappalaust fyrir sig.
Öryggisverðinum á 12 tíma vöktum virtist leiðast að þurfa að gæta öryggis jarðvegsdúksins, sem örugglega fáir virðast hafa áhuga á að færa úr stað. Hann virtist hins vegar engan áhuga hafa á ferðum fólks um svæðið, enda óheimilt, skv. fornum, en gildandi, lögum, að meina fólki för um land.
Öryggisvörðurinn hafði á orði að góður peningur hafi fengist fyrir gæsluna. Fyrirtækið geymi sprengiefnið, sem nota á á tilteknum stað, og fengið gæsluna sem ábót. Auðvitað virðist þetta sjálfsögð áhrifavirkun á atvinnumál svæðisins – svona í fljótu bragði. Jafnvel formaður einna ferðamálasamtaka svæðisns varð sleginn blindu þegar einhverjum peningaseðlum var veifað framan í hann á kostnað umhverfisins. Slíkt viðhorf hryggir marga, en eru þó skiljanleg.
Í göngunni var bæði það auglósa og það nærtækasta skoðað. Auk sögulegra minja, jarðfræðiáhugaverðra fyrirbæra og náttúrueinkenna svæðisins var gefinn gaumur af fugla- og dýralífi þess. Víða mátti, með góðri yfirlegu og tíma, sjá fugla á hreiðrum. T.d. var tekið hús að þúfutillingi þar sem hann hafi verpt, sennilega öðru sinni, fimm eggjum undir þúfu. Lóan lá enn á eggjum sínum, en væntanlega munu ungarnir kúra sig um sinn undir börðum og bökkum, þ.e.a.s. ef jarðýtan sér ekki um að allur lífstilbúningurinn hafi verið tilgangslaus. Blindir menn á náttúruna og umhverfið sjá ekki slíka hluti – því miður.
Jarðýtur fóru síðast um þetta svæði árin 1944, þegar vegurinn var ruddur austur að Herdísarvík, og þegar þjóðminjavörður fyrirskipaði að rústir Krýsuvíkurbæjarins skyldu jafnaðar við jörðu. Fáum hefur orðið jafn mikil eftirsjá eftir litlu. Í rauninni er sorglegt til þess að vita hversu nútímamaðurinn, með ásókn sinni í sýndarveruleikann, er orðinn fjarlægur raunveruleikanum. Ástæða er til að hvetja áhugsamt fólk til að nota tækifærið og ganga á Arnarfell á næstunni, skoða minjarnar og virða fyrir sér umhverfið, sem er óvíða fagurrra hér á landi.
Frá fellinu má vel sjá yfir að Eldey, út með Stóru-Eldborg, upp yfir Vegghamra og Geitahlíð, upp yfir Rauðuskriður og í hinar stórbrotnu hraunár vestan við Geitarhlíð. Auk þess má af Arnarfelli, með lítilli fyrirhöfn, virða fyrir sér nær allt nærumhverfi Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Arnarfell

Byssubyrgi í Arnarfelli.

Arnarfell
Gengið var til austurs frá bílastæðinu við skátasvæðið neðan við Skýjaborgir undir Bæjarfelli, suðvestan við Krýsuvíkurkirkju, meðfram Ræningjahjól, um tún Suðurkots og síðan var gamla túngarðinum fylgt sem lá lá í áttina að Arnarfelli.
Ræningjahóll er þar sem hæst ber, en skammt austan undir honum er Ræningjadys eða Ræningjaþúfur. Sagan segir að Tyrkir hafi komið að Heiðnabergi við Hælsvík. Gengu þeir upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.

Arnarfell

Arnarfell – brunnur.

Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
“Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
“Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvísi búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.

Arnarfell

Arnarfell – varða.

Vörslugarðarnir umhverfis Krýsuvíkurbæina eru bæði úr grjóti og úr torfi. Grjóthleðslur eru við endana, þar sem þeir koma að fellunum beggja vegna, en á milli þeirra eru þeir úr torfi. Garðar þessi voru endurhlaðnir á 19. öld. Áður en komið var að Arnarfelli þurfti að fara yfir lítinn læk. Á honum eru leifar að hlaðinni brú þar sem garðurinn hefur legið. Skammt þar norður af, í mýrinni eru leifar húss eða stekks.
Undir suðurhlíð fellsins eru tóftir Arnarfellskotsins. Býlið er á 80x150m stóru svæði innan túngarðsins. Veggir eru úr torfi og grjóti. Sennilega eru 6 hólf í rústinni. Safnþró er framan við hana, líkt og fyrir framan Fitjabæinn undir Selöldu. Traðir eru undir fellinu, í grasi grónum hlíðum þess. Þær eru óljósar, en virðast hafa legið frá suðsuðvesturhorni bæjarins niður hlíðina og stefna síðan að Bæjarfellinu austan við túngarðinn. Beggja vegna traðanna má sjá grilla í lága garða sinn hvoru megin við þær. Traðirnar eru vel grónar. Beinteinn Sveinsson bjó síðastur að Arnarfelli, hagur maður á tré og járn. Hann byggði m.a. Krýsuvíkurkirkju árið 1857, en hún hefur þó síðan nokkrum sinnum gengið í gegnum endurnýjun lífdaga.
Fræg er viðureign Beinsteins við Tanga-Tómas, drauginn á selatöngum. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó Beinteinn á Arnarfelli í Krýsuvík. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans:

Arnarfell

Arnarfell – Í Guðbjargarhelli.

“Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Lá hann rúmfastur næstu daga.
Bæjarbrunnurinn er utan garðs, fallega hlaðinn. Fallin varða er við forna götu skammt frá honum.
Þegar búið var að skoða svæðið innan heimagarðsins, bæjartóftirnar og umhverfi þeirra, var haldið rangsælis umhverfis fellið eftir gamalli götu er lá áfram til austurs, yfir að Jónsbúð, sauðakofa austarlega á Krýsuvíkurheiði. Varða er við götuna ofan við Arnarfellsvatn (Bleiksmýrartjörn). Þaðan var ágætt útsýni yfir Bleiksmýrina, sem ræst var út um miðja 20. öldina. Vestan við vatnið eru gamlar rústir. Sunnan þess var fyrrum áningarstaður skreiðarflutningamanna á leið þeirra frá verstöðvunum við sunnanverðan Reykjanesskaga austur í sveitir. Einnig mátti vel sjá fyrir sér og hugsa til þeirra mörg hundruð vermanna sem tjölduðu í mýrinni á leið sinni til og frá veri. Neðar eru Trygghólar. U.þ.b. miðja vegu milli þeirra og Arnarfells, skammt vestar, er Arnarfellsréttin, nokkuð heilleg fjárrétt í lægð.

Arnarfell

Arnarfell – stekkur norðan fellsins.

Suðaustan við Arnarfell er fyrrum gróðurvana svæði, sem komið er vel á veg að gróa upp. Blóðberg, lambagras, geldingahnappur ásamt lyngi eru nú á góðri leið með að þekja fokjarðveginn.
Við austurhorn Arnarfell er stekkur, á grasi gróinni rein við fjallsræturnar, vestan megin við uppþornaðan lækjarfarveg. Hann er 5x5m. Veggir eru úr grjóti.
Gengið var austur og norður með fellinu. Við norðurhorn þess er stekkur undir steini. Stínuskúti er í fellinu skammt austar og ofar í því. Ekki er vitað um tilurð nafnsins, en þó er ekki ólíklegt að það sé til komið líkt og Guðbjargarhellir á Hrauni við Grindavík, þ.e. tímabundið skjól þeirra, sem það var nefnt eftir, líklega frá amstri dagsins. Um er að ræða mjög fallegan skúta, tvískiptan. Hægt er að ganga inn í hann að austanverðu, en að vestanverðu er líklegt að fé hafi legið. Svo virðist sem skútinn hafi myndast að tilstuðlan vatns, en það er hvergi að finna nú. Því virðist hér um nokkuð merkilegt jarðfræðifyrirbæri að ræða. Falleg, viðkvæm, móbergssúla skilur af hluta skútans.
Arnarfellið er í u.þ.b. 100 m hæð. Sjálft fellið er tæplega 100 metra hátt (93 m). Þegar gengið er upp gróna norðvesturhlíð þess sjást vel útihúsin frá bænum. Þar er rúst, stekkur og skúti ofan hans. Rústin er 4,5x7m. Veggir eru úr torfi og grjóti. Mjög stórir steinar eru í veggjum, sumir jarðfastir. Tvö hólf eru í rústinni og eru dyr á báðum. Stekkurinn er 5x10m. veggir eru úr grjóti og torfi. Tvö hólf eru í stekknum, líkt og almennt gerist með slík mannvirki á Reykjanesskaganum. Dyr eru ábáðum hólfum. Skútinn er 1,5x4m og 1,5m hár. Hann liggur skáhalt inn í áberandi hamar í fjallinu, nánast beint ofan við rústina og stekkinn.

Arnarfell

Arnarfell – Eiríksvarða

Vestan við Arnarfell sést vel yfir að Læk þar sem Arngrímur bjó um tíma fyrir og eftir aldamótin 1700. Þekkt er þjóðsagan af Grákollu er tengdist honum og fjárhelli hans í Klofningum, sem eru í Krýsuvíkurhrauni þarna skammt austar.
Þegar upp á Arnarfell er komið blasir Eiríksvarða við á vestari toppi þess, en hún er kennd við Eirík prest (Magnússon) í Vogsósum sem þekktur er úr þjóðsögum fyrir fjölkyngi sína. Hann dó árið 1716. Hann þótti skrýtinn í ýmsu, eins og segir í örnefnalýsingu. Fellið er tiltölulega auðvelt uppgöngu að vestanverðu og þaðan er útsýni yfir Krýsuvíkurheiði og næsta nágrenni. Ef vel viðrar er hægt að sjá hvar Eldey rís úr hafi við sjóndeildarhring í vestri. Þegar horft er inn til landsins sést hvar Sveifluhálsinn teygir sig einn eftir Reykjanesinu með misháum móbergshnúkum sínum. Til norðurs er horft í áttina að Kleifarvatni og Vatnshlíð, en ofan hennar rísa Brennisteinsfjöll við himinn. Til norðausturs sér til Geitahlíðar og Eldborganna ásamt Selvogsheiðinni enn austar og suðurlands.
Á eystri toppi Arnarfells er fornt arnarsetur, enda dregur fellið nafn sitt af því. Hreiðrið er vel gróið og því ljóst að ernir hafa haft þar hreiðurstæði um langan tíma áður en þeir voru gerðir útlægir af svæðinu, enda þóttur þeir hinir mestu vágestir. Margar sagnir eru til af atferli þeirra, sumar reyndar verulega ýktar. Annað fornt arnarhreiður er þarna skammt frá, í austanverðu Ögmundarhrauni.

Arnarfell

Arnarfellsvatn.

Af fellinu sést vel yfir Arnarfellsvatn í suðaustri og mógrafir Krýsuvíkurbænda í norðri. Grafirnar, sem eru í mýri, eru a.m.k. fjórar talsins og misstórar, 3×4 til 6x8m. Allar eru þær fullar af vatni og hugsanlega eru eldri samanfallnar grafir allt í kring í kvosum og lægðum í næsta nágrenni. Þannig er líklegt að einungis yngstu mógrafirnar sjáist með berum augum, en þær eldri orðnar jarðlægar.
Þegar horft er til norðausturs sjást Vegghamrarnir vel. Ofan þeirra eru Kálfadalirnir. Niður í þann syðri rann hrauná, sem kallast Víti. Stórkostlegt er að standa ofan við strauminn, sjá hvernig hraunið hefur fossað niður hlíðina og storknað þar á leið sinni. Skammt norðar er leiksvið einnar af fyrstu leiknu kvikmyndunum á Íslandi. Hluti hennar átti að hafa gerst á tunglinu og er landlagið ekki ólíkt því sem þar má ímynda sér. Geimfarar þeir, sem fyrstir stigu fæti sínum tunglið, skv. bestu heimildum, komu m.a. þangað til að aðlagast því sem við mátti búast. Svæðið er torfundið, en er ein af mestu náttúrperlum landsins.
Vakin er athygli á því að myndirnar, sem fylgja þessari vefsíðu, eru af minjum, sem hvergi er minnst á í fornleifaskráningu af svæðinu frá árinu 1998 og Fornleifavernd ríkisins hefur stuðst við í umsögn sinni um fyrirhugaða kvikmyndatöku við Arnarfell, en þó er síðasta myndin (af Eiríksvörðu) undanskilin. Þá hefur hvorki Landgræðsla ríkisins né Umhverfisstofnun tekið tillit til Arnarfellsins sjálfs þegar umsögn var gefin, einungis umhverfis þess. Í nefnda skráningu vantar a.m.k. 12 minjar, sem vitað er um á og við fellið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.