Færslur

Kleifarvatn

Svo er talið, að Ögmundarhraun hafi runnið (eða brunnið, eins og Snorri goði mundi hafa orðað það) um miðja 14. öld.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Um stað þann, sem nú er kallaður Húshólmi, þar sem er miklu eldra hraun undir gróðrinum en Ögmundarhraun er, hefur hraunstraumurinn klofnað. Hefur önnur álman runnið fyrir vestan hólma þennan, en hin fyrir austan hann og báðar beint í sæ út. Rétt austan við vestari hrauntunguna eru bæjarrústir nokkrar, og er auðsætt, að eitthvað af húsunum hefur orðið undir hraunstraumnum.

Húshólmi

Vísan á Húshólmastíg.

Er og almennt álitið, að þarna hafi bærinn Krýsuvík upphaflega staðið, enda lítt hugsanlegt, að bænum hafi verið valið víkurnafnið, ef hann hefði frá öndverðu verið þar, sem hann nú er, nálega hálfa fimm kílómetra frá sjó, enda ekki um neina vík neins staðar að ræða. Bæjarrústir þessar eru og enn þann dag í dag jafnan nefndar gamla Krýsuvík eða Krýsuvík hin forna. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og álíta sumir, að einmitt þar hafi víkin sjálf verið, sú er bærinn dró nafn sitt af rétt vestan við Húshólmann við Húshólmafjöruna. Kirkjuflöt heitir og rétt hjá rústunum.

Húshólmi

Húshólmi – minjar.

Ráðleggja mætti þeim, sem skoða vildu tóftarbrot þessi og vinna sé það á sem auðveldastan hátt, að fara í bifreið úr Grindavík austur fyrir Ögmundarhraun, (akstur eins og vegurinn er nú), ganga síðan suður með austurjarðri hraunsins, þar til komið er að stíg þeim, sem liggur yfir eystri hraunálmuna út í Húshólmann, þar til komið er að bæjarrústunum. Mun ganga þessi vara eina klukkustund, þótt ekki sé allrösklega farið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.

Víti

Víti.

Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Nýjaland

Nýjaland.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland – tóft.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði.

Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetrarengi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Á korti herforingjaráðsins er nafnið Ketilstígur sett fram með Sveifluhálsi að norðvestan, en það er ekki nákvæmt, því að Ketilsstígur heitir aðeins sá hluti þeirrar leiðar, sem liggur upp á Sveifluháls að Norðanverðu, og er stígur þessi innan í gömlum gíg, sem kallast Ketill.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Austur og suðaustur af Arnarfelli er mýrarfláki, stór nokkuð, sem kallast Bleiksmýri, og var þar mikill áfangastaður á þeim tímum, sem þeir Árnesingar og Rangæingar fóru skreiðarferðir til verstöðvanna á Reykjanesskaga. Mátti einatt sjá marga tugi eða jafnvel nokkur hundruð hesta á Bleiksmýri í einu og fjöldi tjalda, þegar hæst stóðu lestaferðirnar. Mun og mörgum hestinum hafa þótt gott að koma í Bleiksmýri úr hagleysinu og vatnsskortinum á Reykjanesskaganum. Var og ekki óalgengt að menn lægju þar einn og tvo daga til þess að hestar þeirra fengju sem besta fylli sína, áður en lengra var haldið.

Víða í hraununum á Reykjanesskaga, eins og reyndar víðar á landi hér, getur að líta nokkuð djúpa götutroðninga í hraunhellunum eftir margra alda umferð. Má þar um segja: “Enn þá sjást í hellum hófaförin.”

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Í Ögmundarhrauni mynduðust holur með þröskuldum á milli, og var hver hola um eitt fet í þvermál og hnédjúp hestum, og í rigningatíð stóðu holur þessar fullar af vatni. Fyrir nokkrum áratugum var gerð vegabót nokkur í Ögmundarhrauni, og holur þessar fylltar upp. Í gamalli og alþekktri vísu segir svo:
Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturna
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Fáni

Flaggað við Eiríksvörðu á Arnarfelli.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Þrjá til fjóra kílómetra austur frá bænum í Krýsuvík er Eldborgin, og svipar henni að mörgu leyti til nöfnu sinnar í Hnappadalssýslu – þeirrar, sem Hendersen gerði víðfræga með teikningu sinni. Skarð það, er verður millum Eldborgar og Geitahlíðar, heitir Deildarháls, og liggur alfaravegurinn yfir hann.
Dr. Þorvaldur Thoroddsen taldi gíginn í Eldborg vera 500 fet að ummáli að ofan og 105 á dýpt, en hæð fellsins telur hann 172 fet. Meinaði hann þar eflaust hæð Eldborgarinnar yfir jarðlendinu umhverfis hana, því að á korti herforingjaráðsins er hæð hennar yfir sjávarmáli talin 180 metrar.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Efst í Geitahlíð er og gígur mikill, en hann er eldri en síðasta jökulöld, eins og reyndar hlíðin öll er. Barma gígs þessa ber hærra en aðra hluta Geitahlíðar, er heita Æsubúðir. Niður af Æsubúðum, en sunnan í Geitahlíð, verður hvammur sá, er kallast Hvítskeggshvammur eða Hvítskeifshvammur, og er til prentuð þjóðsaga um þessi örnefni, en eigi er sú sögn allsennileg.
Skammt fyrir austan Deildarháls og hvamm þennan eru Kerlingar (sagan um Krýs og Herdísi), Bálkahellir (lítt eða ekki kannaður), Gvendarhellir (bóndi í Krýsuvíkurhverfinu, Guðmundur að nafni, hýsti fé sitt í þessum helli þá er harðindi gengu, líklega á fyrri hluta 19. aldar), og Kerið á Keflavík (uppi á 6 metra háum hamri ofan við Keflavík er op, Kerið, niður í flæðamál).

Austurengjahver

Austurengjahver.

Leirhverin mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, virðist ekki þurfa að velkja það lengi fyrir sér, að endur fyrir löngu hafi þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist, haustið 1924. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurnegjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.

Arnarfellstjörn

Arnarfellstjörn.

Ekki skal hér rætt um breinnisteininn í Krýsuvík né þann í Brennisteinsfjöllunum, enda eru Brennisteinsfjöllin austan sýslumarkanna og því í Herdísarvíkurlandi.
Þess hefur orðið vart, að sumir menn halda, að örnefnið Víti sé hver, en svo er eigi. Víti er hraunfoss, sem fallið hefur vestur af hálendisbrún þeirri, sem verður norður af Geitahlíð, og er hraunfoss þessi sennilega á svipuðum aldri og Ögmundarhraun. Hann er nú storknaður fyrir löngu og allur gróinn þykkum grámosa.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Eiríksvarða á Arnarfelli er vel þekkt úr þjóðsögum, sem segja, að séra Eríkur Magnússon, hinn fjölkunnugi Vogsósaklerkur, hafi hlaðið hana og mælt svo um, að aldrei skyldu Tyrkir koma í Krýsuvík meðan varðan stæði uppi. Nú er varðan hrunin, næstum í grunn, en Bandaríkjamenn komu í Krýsuvík, þegar seta þeirra í landinu hófst.
Vestan í Geitahlíð og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina sjálfa leggur jafnan á vetrum þykka fönn, langa en ekki breiða. Er fönn þessi sjaldan horfin með öllu fyrr en um Jónsmessu, og dregur hún nafn sitt af því.
Krýsuvík hefu lengi verið talin einhver mesta útigöngujörð fyrir sauðfé á landi hér, einkum þó þeirra jarða, sem ekki hafa fjörubeit, og ekki var það ótítt að sumt féð þar lærði aldrei átið.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.
Mótak er þar sums staðar í mýrunum, en ekki þykir mórinn þar góður til eldsneytis. Er hann allur mjög blandinn hveraleir, svo að af sumum kögglunum leggur brennisteinslyktina, þegar þeim er brennt.
Fremur þykir vera þokusamt í Þrýsuvík og lengi hefu verið við brugðið, hversu myrk þokan geti orðið þar. Er það haft eftir manni nokkrum, að eitt sinn hafi hann verið á ferð um Sveifluháls í svo miklu myrkviðri, að hann hafi séð þokuna sitja í olnbogabótinni á sér. Rigningasamt í meira lagi þykir og vera þar, svo einatt er þurrviðri í næstu byggðarlögum, þótt rigning sé í Krýsuvík.

-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.

Gullbringa

Gullbringa.

Arnarfell

Gengið var að Arnarfellsréttinni, sem er í hvarfi í lægðarrana skammt austan við veginn niður að Selöldu. Hlaðin varða er vestan við réttina. Hún er í línu við vörðu á hæð allnokkru austar og aðra á hæð allnokkru vestar.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Þarna gæti hafa verið gömul leið yfir Krýsuvíkurheiðina sunnan Krýsuvíkurbæjanna, framhjá Arnarfellsvatni og með stefnu á Stóru-Eldborg. Ofan við Arnarfellsréttina sést yfir að Krýsuvíkurréttinni sunnan undir Bæjarfelli. Sú fyrrnefnda hefur verið allstór, með mörgum dilkum og almenningi. Réttin er vel hlaðin og hefur staðist tímans tönn, sennilega vegna þess að hún hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði fyrir ágangi.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Gengið var upp með Vestari-læk, áleiðis að Arnarfelli. Tóft bæjarins sést í gróinni hlíðinni sunnan í fjallinu, innan vörslugarðsins, er umlukti Krýsuvíkurtorfuna. Garðurinn liggur til austurs og vesturs neðan við bæjarstæðið og síðan þvert upp í fjallið austan þess. Þegar komið er inn á túnið vestan við bæjarstæðið má sjá móta fyrir allnokkrum eldri tóftum í hlíðinni. Þarna virðist vera um allnokkurt minjasvæði að ræða, sem fróðlegt væri t.d. að skoða með jarðsjá (viðnámsmælingu).

Arnarfell

Brunnur við Arnarfell.

Sagan segir að Þórir haustmyrkur hafi byggt Selvog og Krýsuvík. Jafnframt að hann hafi búið í Hlíð við Hlíðarvatn. Ekki er þó með öllu útilokað að þarna kunni að leynast bæjarstæði eða tóftir frá löngu fyrrum tíma. Bæjartóft Beinteins undir Arnarfelli, sú “nýjasta” er vel gróin. Beinteinn Stefánsson var hagur maður sem byggði Krýsuvíkurkirkju 1857. Af honum segir og í umfjöllun um viðureign hans og Tanga-Tómasar á Selatöngum. Átökin enduðu með því að Beinteinn þurfti að fara fótgangandi berfættur frá Töngunum og heim að Arnarfelli. Þurfti hann að liggja fyrir næstu daga á eftir.

Arnarfell

Arnarfell – bæjartóftir.

Fimm rými hafa verið í bænum. Burstir virðast hafa verið tvær stærri og tvær minni að framan og baðstofa fyrir innan. Gerði hefur verið bakatil við bæinn. Hola er í jörðinni sunnan undir tóftunum. Ekki er gott að segja til um hvort þar gæti hafa verið brunnur. Stutt er í Vestari-læk frá bænum.
Uppi á vestruöxl Arnerfells eru tvær tóftir, önnur undir klettum. Hún virðist hafa verið sauðakofi með gerði fyrir framan, en ofan við hann er heilleg tóft af útihúsi.
Efst á Arnarfelli er Eiríksvarða, kennd við séra Eirík Magnússon (1638-1716) frá Vogsósum, en fræg er sagan af viðureign hans og Tyrkjanna er komu áleiðis upp að Krýsuvíkurkirkju frá Selöldu á sunnudegi þegar Eiríkur var að messa þar. Eiríkur brá skjótt við og atti þeim saman svo þeir drápu hvorir annan. Eru þeir dysjaðir í Ræningjadys utan í Ræningjahól. Mótar enn fyrir dysinni sunnan við veginn sunnan kirkjunnar. Nýdautt lamb lá skammt vestan við Arnarnesbæinn.

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Gengið var yfir að Arnarfellsvatni. Mikið var í vatninu, en það er allstórt og háir bakkar sumstaðar umhverfis það. Gömul gróin gata liggur niður að því að vestanverðu. Skammt sunnar, vestan við vatnið, mótar fyrir tóft ofan við bakkann og jarðlægri hleðlsu. Þegar staðið er sunnanvert við vatnið er auðvelt að hugsa til vermanna á langri göngu, sem margir máttu gera sér það að góðu að tjalda í mýrinni eða við hana á leið sinni til og frá veri þegar ekki var hægt að hýsa fleiri ferðalanga í Krýsuvíkurkotunum. Enn er vel gróið sunnan við vatnið og vel má sjá hversu gróðuþekjan hefur verið þykk áður en hið mikla jarðvegsrof varð.

Trygghólar

Varða á Trygghólum.

Haldið var áleiðis niður heiðina með stefnu á Trygghóla. Um miðja vegu var komið að mannvistarleifum á hól. Mikil jarðvegseyðing er þarna svo erfitt er að álykta hvað þetta getur hafa verið.
Gömul og heilleg varða er á Mið-Trygghól. Gengið var niður með austurenda Selöldu og síðan til vesturs sunnan hennar. Þá var komið að tóftum er taldar eu hafa verið hið gamla Krýsuvíkursel. Tóftin er mjög gróin. Einungis sést móta fyrir einu húsi, en annað virðist vera sunnar og eitthvert mannvirki, jarðlægt, virðist hafa verið á gróinni hæð skammt austar. Á milli þeirra liggur gömul gata niður að tófum bæjarins Eyri, sem er skammt sunnan við selið. Sagan segir að ræningjarnir hafi komið upp svonefndan Ræningjastíg í Heiðnabergi og gengið upp í selið þar sem tvær selmatsstúlkur hafi verið fyrir. Drápu þeir stúlkurnar, en smali, sem sá til þeirra, hljóp allt hvað af tók upp að Krýsuvíkurbænum þar sem fólkið var við fyrrnefnda messu, og sagði frá. Lok sögunnar er rakin hér að framan þegar ræningjarnir mættu galdraprestinum.

Eyri

Eyri – tóftir.

Eyri er nú á gömlum lækjarbakka, allnokkrar tóftir. Vatnið hefur grafið þarna allnokkurn farveg, en er nú horfið með öllu. Þær líkjast 17. og 18. aldar bæ. Líklegt má telja að bærinn hafi byggst upp úr selstöðunni. Sunnan lækjarfarvegarins eru tvær borgir á hólum. Utan í þeirri vestari er löng tóft, lambakró að því er virðist. Austast í henni hefur verið lítið hús. Utan í borginni að sunnanverðu er hlaðinn garður.

Eyri

Eyri og Krýsuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var niður að Heiðnabergi. Sjór var ládauður og lygnt svo fuglinn hafði tyllt sér á steinana undir bjarginu og þingaði. Enn sést móta fyrir efri hluta Ræningjastígsins í bjarginu, en sjórinn hefur brotið niðri hluta hans svo nú er ekki lengur hægt að komast hann ala leið niður undir bjargið.
Annað nýdautt lamb lá ofan við bjargið. Gengið var að Strákum á Selöldu. Hlaðið fjárhús er þar undir reisilegum kletti og eru veggir þess nokkuð heillegir. Undir hið síðasta mun það hafa verið nýtt sem fjárhús frá Krýsuvík. Fígúrunar á móbergshryggnum á vestanverðri Selöldu gefa ímyndunaraflinu byr undir báða vængi, auk þess sem litadýrðin þar í björtu veðri, eins og nú var, er fáu lík.

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

Skoðaðar voru tóftir bæjarins Fitja sunnan og vestast undir Selöldu. Vestan bæjarhúsanna eru tóftir tveggja útihúsa. Garður er aftan við bæinn og túnin hafa verið þarna allnokkur. Vestan við útihúsin rennur Vestari-lækur. Á gömlum farvegi hans er hlaðin gömul brú. Farvegi lækjarins var fylgt frá brúnni til norðurs. Þá sást vel hversu oft hann hefur skipt um stöðu frá einum tíma til annars. Eystri-lækur rennur nú niður svo til miðja Krýsuvíkurheiði og steypist þar fram af bjargbrúninni, en ekki er ólíklegt að hann hafi áður runnið niður gil það er lækurinn við Eyri hefur myndað á löngum tíma. Vestari-lækur er margbreytilegur og mjög litskrúðugur á köflum.

Selalda

Haliðin brú á Vestari-læk við Fitjar.

Þegar gengið var um Selölduveginn var komið að rústum og undirstöðum bragga eða byggingar, sem þar hefur verið á síðustu öld. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um hvaða tilgangi hann hefur þjónað á þessu svæði.
Frábært veður – bjart, hlýtt og stillt. Gangan tók 4 klst og 12 mín.
Tækifærið var notað og Arnarfellstóftirnar rissaðar upp.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

Seltúnssel

Gengið var frá Seltúni að tóftum bæjarins Fells skammt sunnan Grænavatns.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Nafnið Seltún bendir til selstöðu frá einhverjum Krýsuvíkurbæjanna, en hvergi er hægt að greina ummerki eftir það svo glögglega megi teljast. Lítil tóft er á gróinni skák nálægt hverasvæðinu, en hún gæti einnig hafa verið eftir námumenn, sem unnu brennistein á svæðinu á 19. öld. Ágætt handunnið kort er til af námusvæðinu, sem reyndar voru þrjú, þ.e. upp í Baðstofu undir Hettu, utan í Hnakk og ofan við Seltún. Á síðastnefna svæðinu munu umsvifin hafa verið mest. Til eru ljósmyndir Englendinga er sýna háa brennisteinshrauka þar sem nú er bílastæði. Lækurinn var stíflaður með tréþiljum á nokkrum stöðum til að mynda þvottaþrær og má enn sjá leifar þeirrar neðstu austan þjóðvegarins. Frá Seltúni liggur Ketilsstígurinn upp á Austurháls.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Reyndar segir einnig af skrímsli í Kleifarvatni. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Arnarfell

Arnarfell – bæjartóftir.

1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

Krýsuvík

Fell í Krýsuvík.

Litið var á tóftir Fells, sem er í gróinni hvylft vestan í melhæð norðan Stóra-Nýjabæjar. Fáar sagnir eru til af bæ þessum, en hann mun hafa verið einn af fjórtán hjáleigum frá Krýsuvík. Aðrar má t.d. telja Eyri og Fitjar við Selöldu. Vigdísarvelli, Snorrakot, Suðurkot, Norðurkot, Læk, Litla-Nýjabæ og Hnausa. Gestsstaðir suðvestan Gestsstaðavatns og Kaldrani suðvestan Kleifarvatns eru með elstu minjum bæja á svæðinu.
Litið var á Augun, tvo gíga er þjóðvegurinn liggur millum, Sefið er tengist sögunni af barnsmorði ólánskonu frá Stóra-Nýjabæ, brunn við Litla-Nýjabæ og strikið síðan tekið að Grjóthólsrétt utan í Gráhól. Því miður hafa bæjarstæði fyrrnefndu bæjanna verið afmáð og sama gildir um réttina. Þegar þjóðvegurinn var lagður var hún tekin í undirlagið. Norðan við hólinn má sjá gamla veginn áleiðis til Krýsuvíkur og enn móta þar fyrir steinbrú, sem á honum hefur verið.

Stínuskúti

Stínuskúti.

Gengið var yfir Vestari-læk, um bæjartóftir Lækjar og stefnan tekin á Arnarfell. Norðan við fellið er hlaðinn stekkur og upp í fellinu að norðauatsnverðu er lítill skúti er jafnan hefur verið nefndur Stínuskúti. Frá Norðuröxl Arnarfells sést vel yfir Krýsuvíkurtorfuna. Suðvestan við kirkjuna er áberandi hóll og tóft austan í honum. Hóllinn heitir Ræningjahóll og tóftin Ræningjadys.
Svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsivíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Gengið var um tóftir bæjarins undir Arnarfelli. Beinteinn var maður nefndur er bjó að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan.

Krýsuvík

Arnarfell fjær.

Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.
Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.
Litið var á Arnarfellsrétt suðvestan undan fellinu. Um er að ræða fallega hlaðna rétt og er hún enn nokkuð heilleg.
Í bakaleiðinni var komið við í Krýsuvíkurétt, Krýsuvíkurkirkju og skoðaðar tóftir bæjanna að Hnausum, Norðurkoti og Snorrakoti, auk þess sem komið var í hinum fornu tóftum að Gestsstöðum, gengið með börmum Gestsstaðavatns og yfir á Seltún. Síðastnefndu stöðunum er lýst í annarri FERLIRslýsingu (sjá HÉR).

Seltúnssel

Seltúnsselið.

 

Krýsuvík

Gengið var upp á Bæjarfell og skoðaðar einstakar jarðmyndanir, en í viðræðum við Jón Jónsson, jarðfræðing, á heimili hans fyrir skömmu sýndi hann hvar þær var að finna. Norðan undir Bæjarfelli, skammt vestan varnargarðs, má sjá tótt af húsi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjárskjól í Bæjarfelli.

Komið var við í fjárhellinum sunnan í fellinu og gengið eftir garðinum að Arnarfelli. Skoðaður var Arnarfellsbærinn og haldið umhverfis fellið. Norðan þess var gengið fram á stekk, sem ekki var vitað um.
Þá var haldið til Grindavíkur og leitað að Dýrfinnuhelli. Hann fannst vestan Skipsstígs norðvestan Lágafells. Um er að ræða fallegan, stóran, rúmgóðan skúta, en lágan.

Skipsstígur

Skúti vegagerðarmanna við Skipsstíg.

Skammt frá er hellisskúti þar sem hlaðið hefur verið fyrir vestara opið. Greinilegt er að vegagerðarmenn hafa notað skútann eftir að Dýrfinna hafði flúið í hraunið undan Tyrkjunum á sínum tíma. Skipsstígurinn hefur einhverra hluta vegna verið uppgerður sem vagnfær á u.þ.b. 300 metra kafla, einmitt á þessum stað. Hann hefur verið breikkaður og hlaðinn upp eins og honum hafi þá verið eitthvert ákveðið framtíðarhlutverk í samgöngusögunni. Grindjánar geta aðspurðir ekki útskýrt þessar framkvæmdir. Líklegt má telja að vegaframkvæmdin hafi verið í tengslum við atvinnubótavinnuna skömmu eftir aldamótin 1900.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gígæð.

Þá hafi Grindvíkingar viljað sníða samgöngukerfið að hestvagninum eða jafnvel tilkomu sjálfrennireiðarinnar, en verið horfið frá því einhverra hluta vegna. Kannski vegna fjárframlags ríksins, sem kom til nýja (Gamla) vegarins árið 1913 og síðan var lagður frá Stapanum til Grindavíkur á árunum 1914 til 1918.

Haldið var inn í hraunið og svo merkilega vildi til að  þá fannst eftirfarandi, sem ekki var vitað að væri til á svæðinu; hátt upphlaðið skjól eða aðhald.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól gegnt Svartsengi.

Á öðrum stað hlaðið hús undir kletti og á fjórða staðnum hlaðnir skjólgarðar. Líklega tengist þetta hlöðnu húsunum, sem fundust fyrir skömmu, en þau eru á milli annarra mannvirkja, sem fundist hafa að undanförnu. Frá því fyrsta til þess síðasta, eru um 5-6 km. Ákveðið hefur verið að fara skoða svæðið kerfisbundið á næstunni þegar frost er í jörðu, en þá er auðveldast að ganga um mosahraunin. Leita þarf nánari fróðleiks um hugsanleg mannvirki á þessu svæði. (Um var að ræða upphafið að leitinni að vegavinnubyrgjunum við Gamla Grindavíkurveginn, sem lagður var á árunum 1914-1918).
Frábært útivistarveður, logn, sól og hlýindi.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Krýsuvík
Fyrst voru tóttir Litla-Nýjabæjar skoðaðar vestan við þjóðveginn og síðan haldið að bæjarhól Stóra-Nýjabæjar. Í túnkantinum norðan við hólinn eru upptök Eystrilækjar, sem síðan liðast niður Krýsuvíkurheiðina og steypist fram af Krýsuvíkurbergi austan við vitann. Norðar, utan í hæð sunnan Grænavatns eru tóttir. Talið er að þær geti verið leifar hjáleigu er nefndist Fell. Vestar eru tóttir elsta bæjar í Krýsuvík, að Kaldrana undanskildum, Gestsstaða. Þær eru undir hlíðinni skammt vestan Krýsuvíkurskóla.
Gengið var mógröfunum sunnan við vegamót þjóðvegarins og Ísólfsskálavegar og síðan yfir að Snorrakoti vestan Ísólfsskálavegar, en tóttir bæjarins eru vel greinilegar. Bæjargarðurinn snýr á móti suðri og sést enn vel. Suðvestar, inni á túninu undir Bæjarfelli, er Norðurkot, miklar tóttir og hefur sá bær einnig haft samfastan garð á móti suðri.

Krýsuvík

Lækur í Krýsuvík.

Handan vegarins, sunnan Vestarilækjar, er stórbýlið Lækur, miklar tóttir, garðar og falleg heimtröð. Gengið var frá bænum um hlaðna heimtröðina að Krýsuvíkurbænum, aftur yfir Vestarilæk, upp með tóttunum og að Krýsvíkurkirkju. Krýsvíkurbærinn, sá síðasti, stóð utan í og ofan við tóttirnar (sem munu vera af Hnausum). Hann var jafnaður við jörðu um 1960. Kirkjan, sögufræga, er opinn og öllum aðgengileg. Frá henni var gengið yfir veginn til suðurs og þá komið að Suðurkoti. Tóttir bæjarins er á og sunnan við grashólinn, sem hæst ber. Austan hans er Ræningadysin, sem sagt er frá í sögum af Eiríki á Vogsósum, auk tótta. Þegar komið var að vörslugarðinum, sem liggur á milli fellanna, Bæjarfells og Arnarfells, var beygt til austurs að Arnarfellsbænum. Tóttir bæjarins eru sunnan í grasigróinni hlíð Arnarfells. Þaðan sést til Arnarfellsréttar í suðaustri. Gengið var að henni og hún skoðuð. Um er að ræða hlaðna, stóra og myndarlega, rétt í lægð og er erfitt að koma auga á hana úr fjarlægð.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Stefnan var tekin á austanverða Selöldu. Þegar komið er yfir hálsin blasir við gróin brekka suðvestan undir honum. Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, en þó markar enn fyrir hleðslum neðst í brekkunni er gætu hafa verið mjög gamall stekkur. Einhvern tímann hefur allstór lækur runnið austast vestur með sunnanverðri Selöldunni. Vestar með hlíðunum er grasigróið svæði og tóttir. Hér er talið að Krýsuvíkursel hafi verið. Í Jarðabókinn frá 1703 er sagt að Krýsuvík hafi bæði haft í seli til fjalla og fjöru. Hitt selið var á Seltúni undir Sveifluhálsi. Skammt vestan við tóttirnar er stór steinn. Við hann er talsvert gróið og líklegt er að þar hafi verið stekkur suður undir honum. Ummerki benda til þess.

Eyri og Krýsuvíkursel

Eyri undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt suðvestar við selið eru margar tóttir og sumar heillegar. Hér er talið að bærinn Eyri hafi staðið, rétt ofan við lækjarfarveginn. Bærinn fór í eyði árið 1775. Frá tóttunum ætti að vera best að ganga áfram vestur með Selöldunni, en ef gengið er frá þeim til suðurs kemur nokkuð merkilegt í ljós. Á grashól eru miklar hleðslur, greinileg fjárborg. Hennar er hvergi getið og verður því hér nefnd Neðri-Eyrarborg. Vestan í henni er stekkur eða löng og mjó hústótt. Ofar, til austurs, er önnur fjárborg, svolítið minni. Verður hún nefnd Efri-Eyrarborg.
Vestast í sunnanverðri Selöldunni, á Strákum, eru miklar hleðslur undir móbergskletti. Þetta er fjárhús og eru veggir þess svo til alveg heilir. Suðvestan undir Strákum eru svo heillegar tóttir gamals bæjar, er nefndist Fitjar.
Það merkilega gerðist að þessu sinni, sem og svo oft áður, að þrátt fyrir rigningu allt um kring, lék veðrið við göngufólkið alla leiðina.

Selalda

Selalda – minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Arnarfell

Gengið var um Litlahraun sunnan undir Eldborgum sunnan við Geitahlíð. Í hrauninu eru m.a. minjar fjárbúskapar, s.s. yfirsetustaða, rétt, fjárskjól og rúst. Auk minjanna hefur þess sérstaklega verið getið að örn hafi verpt í hrauninu og lengur ofan við Herdísarvík. Tvö önnur forn arnarsetur eru í grennd; arnarhreiður á Arnarfelli að vestan og þekktur staður norð-austan við Hlíðarvatn að austan. Þá er arnarhreiður á Arnarþúfu í Ögmundarhrauni.

Örn

Örn.

Á göngunni var m.a. rifjuð upp umsögn Náttúrfræðistofnunar Íslands um Suðurstrandarveg frá 12. desember 2003. Í henni koma m.a. fram athugasemdir og ábendingar um mat á umhverfisárhifum.
Í umsögninni er m.a. fjallað um arnarvörp á Reykjanesi.
“Vegurinn mun að mestu leyti liggja um óbyggt svæði sem ekki hefur verið raskað með mannvirkjum. Hér er um að ræða afar viðamikla framkvæmd sem óhjákvæmlega mun setja mikið mark á umhverfi sitt. Á svæðinu, sem vegurinn fer yfir, eru m.a. tíu eða tólf hraun frá nútíma. Mikilvægt, er því í ljósi þeirra náttúrverndarhagsmuna sem í húfi eru, að vanda vel til verksins.

Arnarþúfa

Arnarþúfa á Arnarhól í Ögmundarhrauni.

Þremur af níu fornum arnarsetrum á sunnaverðum Reykjanesskaga er ógnað með framkvæmdinni; þegar hefur fjórum að auki verið raskað annarsstaðar á skaganum. Forsendur sem lagðar eru upp varðandi „ferðamannaveg“ falla um sjálfar sig ef vegurinn verður ekki felldur betur að landi og náttúruminjum en ráð er fyrir gert. Tillagan gerir ráð fyrir vegi milli tveggja óbrinnishólma í Ögmundarhrauni; Húshólma og Óbrennishólma. Hún sker þessa sérstöku landslagsheild í sundur, auk þess sem hætt er við að aukin umferð í Húshólma valdi spjöllum ef ekkert er að gert til að undirbúa aukinn ágang. Húsatóttir þar eru sennilega meðal merkilegustu fornminja á Reykjanesi. Athuga þarf betur hvar nýr vegur á að liggja yfir hrauntraðir sunnan við Eldborgir undir Geitahlíðum til að vernda þær sjaldséðu jarðminjar. Slíkar jarðminjar eru ekki algengar í Evrópu og eru sennilega ekki til utan Íslands og Ítalíu. Þótt hrauntraðir séu til á mörgum stöðum á landinu eru þær flestar fjær vegi en hér.

Örn

Örn.

Fram kemur í skýrslunni að tvö forn arnarsetur eru í grennd við fyrirhugaðan veg; óþekktur staður í Ögmundarhrauni og þekktur staður í Litla-Hrauni skammt sunnan Eldborga. Vegurinn mun liggja aðeins 275 m frá síðarnefnda setrinu. Þess má geta að viðmið varðandi umferð í grennd við arnarsetur er 500 m. Auk þess munu framkvæmdir hafa áhrif á þriðja arnarsetrið á þessum slóðum, norð-austan við Hlíðarvatn. Þar er gert ráð fyrir umfangsmiklum námagreftri í gamalli námu beint fyrir neðan fornan arnvarvarpstað.

Arnarfell

Arnarhreiður á Arnarfelli í Krýsuvík.

Ernir urpu á umræddum stöðum fram undir aldamótin 1900 (í Ögmundarhrauni og við Krýsuvík) og við Hlíðarvatn fram undir 1910. Þá var þeim útrýmt í þessum landshluta og hafa þeir ekki orpið á Reykjanesskaga síðan. Á Reykjanesskaga eru þekkt níu forn arnarsetur en meirihluta þeirra hefur verið raskað með framkvæmdum, einkum vegagerð og námavinnslu. Hér má nefna Arnarklett við Njarðvík, Gálga hjá Stafnesi, Stampa við Reykjanes og Arnarsetur við Grindavík. Þá má nefna Arnarfell í Krýsuvík og Arnargnýpu á Sveifluhálsi. Lagning Suðurstandarvegar og efnistaka í tengslum við þá framkvæmd gæti í einu vetfangi raskað þremur arnarsetrum til viðbótar. Það eru því eindregin tilmæli Náttúrufræðistofnunar Íslands að þeim verði þyrmt við röskun; einkum setrunum í Litla-Hrauni og við Hlíðarvatn.

Arnarnýpa

Arnarnýpa á Sveifluhálsi.

Arnarstofninn hefur smám saman verið að rétta úr kútnum á undanförunum árum og því má búast við að þeir setjist að í öðrum landshlutum er fram líða stundir. Í fyrra (2002) urpu ernir t.d. í fyrsta sinn í meira en 100 ár á Norðurlandi og þá á gömlu þekktu arnarsetri. Reynslan sýnir að ernir taka sér fyrst og fremst bólfestu á fornum varpsetrum. Það er því mikilvægt að tryggja vernd slíkra staða. Þess má geta að undanfarið ár hefur örn haldið til í Selvogi og m.a. sést í grennd við gamla setrið við Hlíðarvatn. Það er því einungis tímaspursmál hvenær ernir setjast aftur að á þessum slóðum, svo fremi þeir fái frið til þess.”

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Örn

Örn.

Arnarfell

Gengið var umhverfis Arnarfell í Krýsuvík. Skoðaðar voru tóftir Arnarfellsbæjarins sunnan undir fellinu, útihúsatóftir í fellinu miðju, litið á Arnarfellsvatnið suðaustan við fellið og síðan skúta og stekk norðan við það. Að Arnarfelli að vestanverðu liggja miklir garðar er tengast Suðurkoti og Læk. Frægastur ábúanda á Arnarfelli var Beinteinn Stefánsson, sá er byggði Krýsuvíkurkirkju þá er nú stendur, 1857.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – tóftir gamla bæjarins framar.

Þegar gengið er frá kirkjunni er fyrst fyrir Ræningjahóll sunnan henar, handan þjóðvegarins. Hóllinn, sem og gróinn hóll austan hans, Ræningjadys, tengjast sögnum af Tyrkjunum er komu upp Ræningjastíg á Krýsuvíkurbergi og áleiðis að kirkjunni þegar þeir mættu séra Eiríki á Vogsósum, sem hafði verið þar við messu. Ræningjunum var komið fyrir í dysinni eftir að þeir höfðu vegið hvorn annan að áhrínan séra Eiríks.
Syðri vörslugarðinum, sem nær milli Bæjarfells og Arnarfells, var fylgt áleiðis yfir að síðarnefnda fellinu. Sunnan undir fellinu eru tóftir bæjarins.
Beinteinn var maður nefndur suður í Krýsuvík, bjó hann að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Sagan segir að eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan. Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.

Selatangar

Tanga-Tómas á Selatöngum með FERLIRsfélögum.

Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Sagan af viðureign Beinteins og Tanga-Tómasar á Selatöngu er mörgum kunn. Í Rauðskinnu, sem gefin var út 1929, var sagan eftirfarandi [með innskotum vegna mismunar í öðrum frásögnum af sama atburði]:
“Á Selatöngum, miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og göðrum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herslu.

Selatangar

Sögunarkór í Katlahrauni.

Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs, og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum þeirra höfðu þeir kvörn sína, og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir, og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum, og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum. Á Selatöngum mun ort hafa verið margt um manninn, eins og ráða má af vísu þessari um sjómenn þar:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Árna, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein,
Einara tvo, Ingimund, Rafn,
Vilhjálmur Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn;
sjálfur guð annist þá.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

[Hér er um að ræða stytt afbökun á vísunni. Hún mun vera til í nokkrum útgáfum]. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar Sæmundsson hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mælt, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur.

Arnarfell

Tóftir Arnarfellsbæjarins.

Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið, að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: “Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeita. var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt, er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefnið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki, fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini, að hann hélst loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina.

Arnarfellsvatn

Arnarfellsvatn.

[Í annarri sögu af sama atviki kemur fram að þegar Beinteinn hafi ætlað að ganga til náða, gert krossmark fyrir dyrum, lagt hurðina aftur og stein fyrir svo Tanga-Tómas héldist úti, hafi draugsi rumskað, séð að hann hafði verið lokaður inni, ráðist á Beintein og þeir slegist úti sem inni. Hafi Beinteinn komist berfættur og við illan leik heim að Arnarfelli og þurft að liggja þar næstu daga til að jafna sig]. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi, og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.

[Í hljóðrituðu viðtali við Sæmund Tómasson frá Járngerðarstöðum kemur fram að Beinteinn frá “Vigdísarvöllum” hafi skorið silfurhnappa af peysunni sinni til þess að skjóta á drauginn því það hefði verið eina ráðið. Í enn annarri frásögn kemur hins vegar fram að silfurhnappar hefðu ekki dugað á Tanga-Tómas, einungis lambaspörð].

Arnarfell

Tóft í Arnarfelli.

Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: “Og hann fylgir staurunum, lagsi”.
Nokkuru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæu ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu verbúð, sem eftir var þar þá, og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttunni, en fara á fætur með birtu og ganga þá fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum, og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig, að Einar svaf við gaflhlaðið, en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagst niður, töluðu þeir saman dálitla stund, og segir þá Guðmundur meðal annars: “Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar”? Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna, en er þeir hafa legið litla stund, þá heyra þeir, að ofan af ytra bálkanum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað, Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir, er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna: “Þarna er hann þá núna”, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli, sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, einn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekar til sín heyra.

Arnarfell

Arnarfellsrétt.

Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafst þar við síðan.”
Ofar í Arnarfelli eru tóftir útihúsa. Efst á því er Eiríksvarða, sögð hlaðin af séra Eiríki með þeim orðum að á meðan hún stendur munu Tyrkir ekki koma í Krýsuvík. Suðaustan við Arnarfell er Arnarfellsvatn. Vel gróið er við það sunnanvert. Þar munu hestalestarnar á leið austur yfir hafa áð fyrrum. Enn mótar fyrir tóftum við vestanvert vatnið. Nokkru suðvestar er Arnarfellsréttin.
Gengið var norður fyrir Arnarfell. Uppi í því norðaustanverðu er nafngreindur skúti, fremur lítill þó, kenndur við kvenmann frá bænum. Norðan fellsins er hlaðinn stekkur utan í grettistaki. Skammt vestar er hlaðinn garður er nær áleiðis að bænum Læk, austan á austanverðri Krýsuvíkurtorfunni. Honum var fylgt þangað og á leiðinni voru rifjaðar upp sagnir af Arngrími frá Læk og veru hans með fé sitt í fjárhellinum í Klofningum (sjá aðrar FERLIRslýsingar).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

Arnarfell

Þegar til stóð að hluti Hollywoodpeningamyndarinnar Flags of our Fathers með frægum leikstjóraframleiðanda yrði tekin hér á landi hlupu einstaklingar, félög og stofnanir hver um annan þveran til greiða fyrir að svo mætti verða. Svo mikill var atgangurinn að allir sem hluta áttu að máli vildu leggja sitt af mörkum – svo þeir mættu uppskera sinn hlut af peningakökunni.
Íslenski fáninn á Eiríksvörðu á ArnarfelliHughrif eins og virðing fyrir landinu og þrautseigri sandgræðslu í Stóru-Sandvík, tillitsemi við viðkvæma náttúru og aðgát gagnvart aldagömlum kirkjustað gleymdust algerlega – því PENINGAR voru í boði. Meira að segja stofnanir eins og Fornleifavernd ríkisins og Landgræðsla ríkisins (fyrrum Sandgræðsla ríkisins) féllu á kné; annars vegar með því að vantelja fjölda fornleifa á svæðinu í og við Arnarfell og hins vegar að gefa viðstöðulaust eftir um aðstöðu á svæðunum – án teljandi skilyrða. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði, sem fékk Krýsuvíkursvæðið til umráða með “fjandsamlegri yfirtöku” úr umdæmi Grindavíkur fyrrum, birtist almenningi með einnar og hálfrar milljóna krónumerki í augum og brosti, auk þess em nefndir og ráð bæjarins settu umsvifalaust já á kjörseðilinn. Gengið var að öllum kröfum leikstjóraframleiðandans – skilyrðislaust.
Sviðsmynd á ArnarfelliÞá kom æmt úr einungis einu horni – FERLIR gerði athugasemdir við fyrirhugaða vegarlagningu og jarðrask, auk þess sem ábendingar voru lagðar fram um að forsendur ákvörðunartöku, sem byggð var á fornleifaskráningu á svæðinu væri ábótavant. Bent var á a.m.k. 12 fornleifar aðrar, sem sérfræðingar Fornleifaverndar ríkisins höfðu bara alls ekki ert ráð fyrir. Í kjölfarið birtist yfirklór forstöðumanns stofnunarinnar, en ekkert málefnalegt. Forn þjóðleið, sem leggja átti t.d. undir plan starfseminnar við Krýsuvíkurveginn, átti að vera uppþornaður lækjarfarvegur, nafnkenndur skúti í fellinu náttúrufyrirbrigði, brunnur gamla Arnarfellsbæjarins léttvægur o.s.frv. Ekki var litið á fornt arnarhreiður á Arnarfelli sem varðveislufyrirbæri og svo mætti lengi telja. Í stað þess að taka öllum Gamla þjóðleiðin og planið við Arnarfellviðbótarábendingum fengins höndum fór stofnunin í algera vörn – og hélt sig þar. Viðbrögðin sýndu ótvírætt viðhorf hennar til áhugafólks þessa lands um minjar og verndun þeirra – sem verður að teljast sérstakt áhyggjuefni. Hafa ber í huga að FERLIR hefur yfir að ráða menntuðu fólki á sviði fornleifafræðinnar sem og fólki með miklu mun meiri reynslu í leit og vettvangskönnun að fornleifum, en Fornleifastofnun ríkisins býr yfir.
Landgræðsla ríkisins, sem væna greiðslu, kom með útspil er virtist vitrænt þá, en sýndarleikur í ljósi nýjustu vitneskju. Gert var að skilyrði að planið fyrrnefnda yrði fjarlægt sem og öll ummerki eftir veg að fellinu. Þá yrði gengið frá öllu jarðvegsraski eftir sprengjugígi og hlíðar, sem til stóða að svíða með gaslogum, myndu verða græddar upp – pasta og punktur. En hver varð raunin tveimur árum síðar?
Til stóð að hindra FERLIRsfélaga að ganga um bæði Arnarfellssvæðið og Stóru-Sandvíkursvæðið á meðan á upptökum stæði. Öryggisverðir voru ráðnir, en allt kom fyrir ekki. FERLIRsfélagar gengu inn og út um svæðin, bæði á meðan á undirbúningi og myndatökum stóð, án þess að nokkuð var við ráðið. Fylgst var alveg sérstaklega með öllum efndum í ljósi gefinna loforða.
Í miðjum kliðum féllust forystumenn fyrirsvarsstofnunnar kvikmyndafélagsins Hollywoodiska á rök FERLIRs, bauð til vettvangsfundar og féllst á að lágmarka mögulegar skemmdir á landi. Í trausti þess að viðkomandi stofnanir myndu standa við sitt voru hin jákvæðu viðbrögð hlutaðeigandi aðila talin ásættanleg. Annað kom hins vegar á daginn.
Enn má sjá skaða á gróðri í hlíðum Arnarfells þar sem hann hafði verið sviðinn með gaslogum. Einnig í Stóru-Sandvík þar sem olía var notið í sama skyni (vegna misstaka að sögn). Vegstæðið að fellinu er enn óraskað sem og hluti plansins svonefnda. Hinn hluti þess er nú ófrágengið bifreiðaplan við Ísólfsskálaveg við austanvert Ögmundarhraun – öllum til ama. Hitt er öllu verra að eftirhreitunum hefur verið sturtað á Krýsuvíkurheiðna ofan við Selöldu – einnig öllum til ama. Jarðvegsdúkur, sem hindra átti skemmdir á ofanáliggandi jarðvegi, stendur upp úr hrúgunum á báðum stöðum sem minnisvarði um loforð, sem ekki stóð til að efna. Dúkurinn umræddi gat hvorki endurheimt hluta hinnar fornu þjóðleiðar né gróðurinn sem þar var. Ummerkin á vettvangi dæma sig sjálf.
“Stórmyndin” Flags of our Fathers hefur litlu áorkað fyrir Hafnarfjörð og Grindavík. Hún varð einungs augnabliks afþreying þeirra sem er hvort er eð sama um allt nema sjálfa sig. Söguleg tengsl hennar við Ísland og sögu þess, arf þjóðarinnar eða menningu hennar er og verður ENGIN – til framtíðar litið. Sár landsins eru og verða þó enn til staðar um ókomin ár.
Malarhrúgurnar ofan við Selöldu sem og ófrágengið bifreiðastæðið við austanvert Ögmundarhraun eru Landgræðslu ríkisins til skammar. Þær eru einnig táknrænar fyrir afstöðu Fornleifarverndar ríkisins Hestshellir– sem og bæjarstjóra og nefnda Hafnarfjarðarbæjar.
Hér, þrátt fyrir bölsýnina, fylgir stutt saga af peningaáhuganum vegna umræddrar stórmyndar; ein senan átti að gerast við hellisop. Hestshellir við Grindavíkurveginn varð fyrir valinu. Leitað var til bæjarstjóra, en hann taldi hellinn í landi Járngerðarstaða. Kvikmyndafólkið hafði upp á einum jarðeigandanna, (Grindvíkingi #1) og hringdu í hann. Sá vissi ekkert um Hesthelli, en þegar hann heyrði upphæðina 50.000 kr. nefnda samþykkti hann viðstöðulaust. Seinna sagði Grindvíkingur #1 frá því að þegar hann heyrði að einhver hefði viljað greiða honum þessa upphæð fyrir eitthvað sem hann vissi ekkert um – hefði hann bara samþykkt það si svona.
Framangreind frásögn endurspeglar bæði viðbrögð einstaklinga og stofnana við alls kyns gylliboðum hverdagsins. Svona virðast hlutirnir ganga á Eyrinni í dag.

Stríðsfáni

Stríðsfáni reistur á Arnarfelli.

Arnarfell
FERLIR átti leið um Krýsuvíkursvæðið eins og svo oft áður. Um var að ræða 900. FERLIRsferðina. Nú átti kvikmyndatöku myndarinnar FooF (Flags of our Fathers) að vera lokið við Arnarfell. Tækifærið var notað til að gaumgæfa svæðið betur og í rólegheitum – og það með nákvæmari rannsóknaraugum en áður hafði gefist tóm til.
Þegar komið var á svæðið birtist vörður, annar enn og aftur, en sennilega í síðasta sinn. Hann gerði komumönnum kunnugt um að ekki mætti ganga um Arnarfellssvæðið og það þótt kvikmyndatökum væri lokið og búið að flytja mest af hafurtaskinu, sem henni fylgdi, á brott. Auk þess væri ekkert merkilegt að sjá á svæðinu. FERLIRsþátttakendum var skemmt, en stóðust ekki mátið, skiptust á lögmætum og réttlátum skoðunum við vörðinn, sem að lokum gafst upp, sneri sér undan, bandaði frá sér með hendinni og sagði: “Farið’i þá að fuckings fjallinu”.

Arnarfell

Búðir við Arnarfell.

Vörðurinn hafði þá a.m.k. lært eitthvað af útlendingunum, þótt ekki væri nema eitt notadrjúgt orð.
Hinum nýlagða vegslóða var fylgt að Arnarfelli. Í honum er talsvert efni, sem þarf að fjarlægja, sem og í athafnaplaninu við þjóðveginn. Forvitnilegt var að sjá “álagasteininn”, sem minnst hefur verið á áður, er jarðýtan bilaði þegar komið var að honum. Hann stendur upp úr planinu að norðvestanverðu og er hann það eina sem minnnir á, og mun minna á umhverfið, sem þarna var. Munnmæli herma að þarna undir steininum hafi andast vegfarandi er leið átti þar um fyrr á öldum. Auðvitað ber eftirlifendum að sína slíkum stöðum virðingu, og það jafnvel þótt þeir sjái oft sjálfir um að minna á sig þegar ástæða þykir til.
Álagasteinn þessi var við gömlu þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, er tekin var undir planið einhverra hluta vegna því það hefði mátt að ósekju vel vera skammt austar við veginn. Þá hefði þjóðleiðin gamla fengið að halda sér. Eflaust hefur bæjarstjóri Hafnfirðinga gefið henni auga er hann átti erindi í Krýsuvík nýlega.
Þegar komið var á athafnasvæðið kom í ljós að undir það síðasta hafði neðrihluti norðausturhlíðarinnar verið grafin meira og minna út með skotgröfum. Allt gróðurendið var orpið holum og náðu þær upp á fellsöxlina að austanverðu. Gróðurinn hafði verið sviðinn, en þó ekki það mikið að hann gæti náð sér upp að nýju þarna í skjólinu neðst í fellinu, en uppgröfturinn gerir það að verkum að svæðið verður aldrei samt á eftir. Og það jafnvel þótt torfbútar væru til staðar til yfirlagningar. Þarna þarf að slétta út hlíðina að hluta og sá í hana að nýju. Við það mun hún fá annað útlit en verið hefur. Áður hafði FERLIR verið kynnt að ekki yrði grafið með slíkum hætti í umhverfið svo sú yfirlýsing gekk a.m.k. ekki eftir.
Ofar í hlíðinni, þar sem skotbyrgðið var og nú hafði verið fjarlægt, utan steypusletta og -brota hingað og þangað, var mikið traðk á umtalsverðu svæði.

Stígur hafði verið gerður upp fellsöxlina og sumsstaðar höggvið í bergið til að auðvelda gönguna. Efst var mikið traðk, einkum þar sem gróðurinn er viðkvæmastur. Búð var að flytja svolítinn áburð upp á toppinn, en greinilega átti eftir að lagfæra umtalsvert rask á miðju fellinu. Eríksvarðan hafði verið látin í friði – að mestu.
Ljóst er að talsverð vinna verður að koma svæðinu í samt lag á nýjan leik. Hins vegar má segja að raskið hefði getað verið meira og verra í svo umfangsmiklu verki sem kvikmyndatakan var því ef hún hefði átt að endurskapa raunveruleikann væri svæðið í heild alls ekki svipur hjá sjón.
FERLIR tók myndir af Arnarfellssvæðinu áður en kvikmyndatakan hófst. Það eru því til ágætar heimildir um hvernig svæðið leit út áður. Nú voru teknar myndir af svæðunum, sem verst urðu úti – áhorfendum til fróðleiks. Þær má einnig sjá á myndarsíðu vefsíðunnar.
Frábært veður í fögru og sagnaríku umhverfi.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.