Arnarfell
Í frjálsri ferð FERLIRs um Arnarfellssvæðið á leið um Krýsuvíkurheiði (Arnarfellsrétt) og um Arnarfell varð kvikmyndatökulið hr. Eastwoods, Flags of our Fathers, á vegi gönguhópsins. Við það tækifæri gafst ráðrúm til að skoða bæði sviðsmyndina og verksummerki á og við fellið.

Arnarfell

Eftir málamyndaafskipti og tilraun svokallaðra varðmanna að hefta för utan við fellið hélt hópurinn um heiðina, um Ræningjastíg og að Arnarfellsrétt. Stígurinn er vörðum varðaður frá norðri til suðurs – og öfugt. Önnur vörðuð gata er austur yfir heiðina. Hún liggur framhjá svonefndri Jónsbúð, sem þar er.
Frá réttinni var haldið áleiðis upp að Arnarfelli með viðkomu við Arnarfellsvatn (Bleiksmýrartjörn). Manngangur var um fellið, en enginn virtist veita göngufólkinu athygli. Gengið var upp á suðaustanvert fellið og stikum og grannri línu fylgt áleiðis upp á við. Undir norðausturhorni Arnarfells hafði verið komið fyrir ógangfæru beltaökutæki, skammt frá tjaldi. Umhverfis það hafði gróðurinn verið sviðinn máttleysislega á allnokkru svæði. Ekki var farið inn á svæðið, en á eyðingarsvæðinu hafði verið komið fyrir deyjandi lágvöxnum pálmatrjám; ímynd Kyrrahafseyjagróðursins. Niðurstaða allrar þessar fyrirhafnar endurspeglast í orðum eins þeirra eftirlifanda er reistu “myndatökufánan” á tindi fellsins; “þetta varð að einhverju allt öðru, einhverju sem aðrir vildu”. Merkt hafði verið gönguleið upp fjallið, framhjá tilbúnu spýtuskotbyrgi. Út úr því stóð myndarlegt rör, líku klóakröri; táknræn fallbyssa.

Arnarfell

Haldið var áfram upp eftir stígnum. Einmana treyjuermi lág við stíginn. Líklega yrði einhver leikaranna sektaður um eina og hálfa milljón króna fyrir að skila henni ekki aftur í leikbúningadeildina. Fimmþúsundkallinn, launatékkinn yfir daginn, hrekkur líklega skammt til að brúa það bil, en ætti að duga til að greiða landafnotaleiguna til handa Hafnarfjarðarbæ.
Arnarhreiðrið virtist óhreyft. Vestan þess tóku við pálmahríslur og rörbútar; líklega hluti af virki Japana á fjallinu Iwo Jima. Þyrla sveimaði utan í Eiríksvörðu skammt vestar. Þar stóðu fimm menn og virtust vera að undirbúa lokamyndatökuna; upprisu hins ameríska fána á fjallsbungunni. Vel mátti ímynda sér hversu mikið hefur verið til haft til lítils í hinni miklu orrustu, a.m.k. þegar mannslífin voru annars vegar.
Milli arnarhreiðursins og Eiríksvörðu var allskonar drasl, rör og fyrirkomnir pálmar, auk greina og steina. Mikið traðk. Táknræn leikmynd. FERLIR fikraði sig áfram að Eiríksvörðu. Hrunið hafði úr fellinu að sunnanverðu. Á Arnarfellinu mátti lesa tálsýn óraunveruleikans annars vegar og staðreyndir lífsbaráttunnar hins vegar; sýndarveruleikann og hina raunverulegu nýtingu forfeðranna á landinu til handa afkomendum þeirra. Sorgleg mynd í annars sagnaríku og tilkomumiklu landslagi. En svona er nú einu sinni mismunandi birtingarmynd manna; að hluta til blekking og að hluta til raunveruleikinn er endurspeglar hið daglega amstur.
ArnarfellÚtlendingarnir á og við Arnarfell virtust mjög uppteknir af sögu sinni, sem reynar er glæný miðað við sögu hinnar íslensku þjóðar. Eiríksvarðan var t.d. hlaðin þegar Bandaríkin voru enn ekki til sem slík. Þeir, sem á fellini voru virtust gjörnseyddir allri meðvitund um sögulegar staðreyndir þessa merkilega búsetulandlags, sem þarna er allt um kring.
“Flags of Our Fathers” snýst um orrustuna um Iwo Jima í síðari heimstyrjöldinni árið 1945. Orrustan um Iwo Jima (eldfjallaeyju) var háð á milli Bandaríkjanna og Japana í febrúar og marsmánuði þetta ár. Iwo Jima var hluti heimasvæðis Japana – aðeins um 650 mílur frá Tókyo.
Orrustan, sem var hluti af Kyrrahafsstríði Seinni heimstyrjaldarinnar, var hatrömm því hún var að mati Bandaríkjanna, eindregin atlaga þeirra að hjarta Japana, hisn svarna óvinar. Þessi orrusta varð, vegna mikils mannfellis Bandaríkjanna (7 þúsund móti 20 þúsund Japönum) undanfari á notkun kjarnorkusprengju þeirra. Hin fræga fréttaljósmynd, sem sögð var tekin á toppi Iwo Jima í lok orrustunnar, var í rauninni sviðsett – að því er virtist til að réttlæta hið mikla mannfall Bandaríkjanna í orrustunni.

Arnarfell

Orrustan sjálf var bæði ein stórkostulega orrusta og ein sú klaufalegasta, sem Bandaríkjamenn höfðu háð í sögunni.
Sagan lýsir þessari orrustu, sem árás Bandaríkjamanna gegn varnarher Japana, “árás hins mannlega holds gegn hatrammri steinsteypu,” eins og það var orðað til að friðþægja almenning heima fyrir. Þarna var engin framlína. Sjóherinn gat ekki séð óvininn, og Japanir gátu ekki séð sjóherinn fyllilega. Þetta var því blint stríð, sem hvorugur gat séð fyrir hvernig myndi enda. Liðsmunur réð þó úrslitum.
Orrustan var einstök fyrir sitt leyti. Um 100.000 menn háðu hatramma baráttu á þessari litlu eyju, sem var 1/3 af stærð við Manhattan. Í 36 daga, varð Iwo Jima ein þéttbýlasta svæði jarðar. Svæðið varð einnig eitt hið eitt hið skaðvænlegasta. Fleiri landgönguliðar Bandarríkjahers áunnu sér heiðusmerki á Iwo Jima en í nokkurri annarri orrustu hersins í Seinni Heimstyrjöldunni. Bandaríkin heiðruðu aðeins 353 manns í allri styrjöldunni. Af þeim voru 27 heiðraðir fyrir þessa 36 daga orrustu á Iwo Jima.
Kvikmyndagerðafólk við “Flags of Our Fathers” hefur vonað að myndin endurspeglaði sýn vitnanna að orrustunni, sennilega þeirri stærstu í Seinni heimstyrjöldinni. Hún varð hins vegar engin frægarför og réði ekki úrslitum um gang stríðsins. Það var heldur ekki ætlunin að gera þessa mynd að hetjusögu. Clint Eastwood hefur sagt að hann langi ekki til að “geta einhverja aðra John Wayne skítavellu”. Hann langar til að sýna hvernig stríðið raunverulaga var. “Eins og það var og hvers vegna dauðshlutfallið var um 75% – í nánast töpuðu stríði.”
ArnarfellFERLIR, sem jafnan virðir málefnalega og tilfinningalega afstöðu manna til landsins, hélt göngu sinni áfram áleiðis upp að Vegghömrum, sem og segir í fyrri FERLIRslýsingu um þessa ferð.
Rétt er að undirstrika að það var aldrei ætlun FERLIRs að valda töfum eða skemmdum á tökustöðum, einungis vekja athygli á hugsanlegum landsspjöllum við tökur kvikmyndarinnar. Þá gaf hann út að gengið yrði um hin almennu svæði Reykjanesskagans, svo sem honum sýndist, þrátt fyrir kvikmyndatöku hinnar erlendu aðila. Við hvorutveggja hefur verið staðið. Hið ánægjulega er að svo virðist sem reynt hafi verið að taka það tillit til umhverfisins í Krýsuvík svo sem unnt er miðað við umfang verksins. Hvorki hafa verið grafnir sprengjugígar né ekið utan vegslóða.
Þess má geta að bæjarstjóri Hafnarfjarðar reyndi fyrir nokkru að vekja athygli FERLIRs á því að umgengi um beitarhólfið, sem Arnarfell er í, væri bönnuð, en gleymdi því að um það liggur þjóðvegur, öllum ætlaður. Sjá einnig HÉR og HÉR.
Frábært veður.

Arnarfell

FERLIRsfélagr í herbúðunum við Arnarfell.