Þegar til stóð að hluti Hollywoodpeningamyndarinnar “Flags of our Fathers” með frægum leikstjóraframleiðanda yrði tekin hér á landi hlupu einstaklingar, félög og stofnanir hver um annan þveran til greiða fyrir að svo mætti verða. Svo mikill var atgangurinn að allir sem hluta áttu að máli vildu leggja sitt af mörkum – svo þeir mættu uppskera sinn hlut af peningakökunni.
Hughrif eins og virðing fyrir landinu og þrautseigri sandgræðslu í Stóru-Sandvík, tillitsemi við viðkvæma náttúru og aðgát gagnvart aldagömlum kirkjustað gleymdust algerlega – því PENINGAR voru í boði. Meira að segja stofnanir eins og Fornleifavernd ríkisins og Landgræðsla ríkisins (fyrrum Sandgræðsla ríkisins) féllu á kné; annars vegar með því að vantelja fjölda fornleifa á svæðinu í og við Arnarfell og hins vegar að gefa viðstöðulaust eftir um aðstöðu á svæðunum – án teljandi skilyrða. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði, sem fékk Krýsuvíkursvæðið til umráða með “fjandsamlegri yfirtöku” úr umdæmi Grindavíkur fyrrum, birtist almenningi með einnar og hálfrar milljóna krónumerki í augum og brosti, auk þess em nefndir og ráð bæjarins settu umsvifalaust já á kjörseðilinn. Gengið var að öllum kröfum leikstjóraframleiðandans – skilyrðislaust.
Þá kom æmt úr einungis einu horni – FERLIR gerði athugasemdir við fyrirhugaða vegarlagningu og jarðrask, auk þess sem ábendingar voru lagðar fram um að forsendur ákvörðunartöku, sem byggð var á fornleifaskráningu á svæðinu væri ábótavant. Bent var á a.m.k. 12 fornleifar aðrar, sem sérfræðingar Fornleifaverndar ríkisins höfðu bara alls ekki ert ráð fyrir. Í kjölfarið birtist yfirklór forstöðumanns stofnunarinnar, en ekkert málefnalegt. Forn þjóðleið, sem leggja átti t.d. undir plan starfseminnar við Krýsuvíkurveginn, átti að vera uppþornaður lækjarfarvegur, nafnkenndur skúti í fellinu náttúrufyrirbrigði, brunnur gamla Arnarfellsbæjarins léttvægur o.s.frv. Ekki var litið á fornt arnarhreiður á Arnarfelli sem varðveislufyrirbæri og svo mætti lengi telja. Í stað þess að taka öllum viðbótarábendingum fengins höndum fór stofnunin í algera vörn – og hélt sig þar. Viðbrögðin sýndu ótvírætt viðhorf hennar til áhugafólks þessa lands um minjar og verndun þeirra – sem verður að teljast sérstakt áhyggjuefni. Hafa ber í huga að FERLIR hefur yfir að ráða menntuðu fólki á sviði fornleifafræðinnar sem og fólki með miklu mun meiri reynslu í leit og vettvangskönnun að fornleifum, en Fornleifastofnun ríkisins býr yfir.
Landgræðsla ríkisins, sem væna greiðslu, kom með útspil er virtist vitrænt þá, en sýndarleikur í ljósi nýjustu vitneskju. Gert var að skilyrði að planið fyrrnefnda yrði fjarlægt sem og öll ummerki eftir veg að fellinu. Þá yrði gengið frá öllu jarðvegsraski eftir sprengjugígi og hlíðar, sem til stóða að svíða með gaslogum, myndu verða græddar upp – pasta og punktur. En hver varð raunin tveimur árum síðar?
Til stóð að hindra FERLIRsfélaga að ganga um bæði Arnarfellssvæðið og Stóru-Sandvíkursvæðið á meðan á upptökum stæði. Öryggisverðir voru ráðnir, en allt kom fyrir ekki. FERLIRsfélagar gengu inn og út um svæðin, bæði á meðan á undirbúningi og myndatökum stóð, án þess að nokkuð var við ráðið. Fylgst var alveg sérstaklega með öllum efndum í ljósi gefinna loforða.
Í miðjum kliðum féllust forystumenn fyrirsvarsstofnunnar kvikmyndafélagsins Hollywoodiska á rök FERLIRs, bauð til vettvangsfundar og féllst á að lágmarka mögulegar skemmdir á landi. Í trausti þess að viðkomandi stofnanir myndu standa við sitt voru hin jákvæðu viðbrögð hlutaðeigandi aðila talin ásættanleg. Annað kom hins vegar á daginn.
Enn má sjá skaða á gróðri í hlíðum Arnarfells þar sem hann hafði verið sviðinn með gaslogum. Einnig í Stóru-Sandvík þar sem olía var notið í sama skyni (vegna misstaka að sögn). Vegstæðið að fellinu er enn óraskað sem og hluti plansins svonefnda. Hinn hluti þess er nú ófrágengið bifreiðaplan við Ísólfsskálaveg við austanvert Ögmundarhraun – öllum til ama. Hitt er öllu verra að eftirhreitunum hefur verið sturtað á Krýsuvíkurheiðna ofan við Selöldu – einnig öllum til ama. Jarðvegsdúkur, sem hindra átti skemmdir á ofanáliggandi jarðvegi, stendur upp úr hrúgunum á báðum stöðum sem minnisvarði um loforð, sem ekki stóð til að efna. Dúkurinn umræddi gat hvorki endurheimt hluta hinnar fornu þjóðleiðar né gróðurinn sem þar var. Ummerkin á vettvangi dæma sig sjálf.
“Stórmyndin” Flags of our Fathers hefur litlu áorkað fyrir Hafnarfjörð og Grindavík. Hún varð einungs augnabliks afþreying þeirra sem er hvort er eð sama um allt nema sjálfa sig. Söguleg tengsl hennar við Ísland og sögu þess, arf þjóðarinnar eða menningu hennar er og verður ENGIN – til framtíðar litið. Sár landsins eru og verða þó enn til staðar um ókomin ár.
Malarhrúgurnar ofan við Selöldu sem og ófrágengið bifreiðastæðið við austanvert Ögmundarhraun eru Landgræðslu ríkisins til skammar. Þær eru einnig táknrænar fyrir afstöðu Fornleifarverndar ríkisins – sem og bæjarstjóra og nefnda Hafnarfjarðarbæjar.
Hér, þrátt fyrir bölsýnina, fylgir stutt saga af peningaáhuganum vegna umræddrar stórmyndar; ein senan átti að gerast við hellisop. Hestshellir við Grindavíkurveginn varð fyrir valinu. Leitað var til bæjarstjóra, en hann taldi hellinn í landi Járngerðarstaða. Kvikmyndafólkið hafði upp á einum jarðeigandanna, (Grindvíkingi #1) og hringdu í hann. Sá vissi ekkert um Hesthelli, en þegar hann heyrði upphæðina 50.000 kr. nefnda samþykkti hann viðstöðulaust. Seinna sagði Grindvíkingur #1 frá því að þegar hann heyrði að einhver hefði viljað greiða honum þessa upphæð fyrir eitthvað sem hann vissi ekkert um – hefði hann bara samþykkt það si svona.
Framangreind frásögn endurspeglar bæði viðbrögð einstaklinga og stofnana við alls kyns gylliboðum hverdagsins. Svona virðast hlutirnir ganga á Eyrinni í dag.