Haldið var niður í Krýsuvíkurhraun. Ætlunin var að skoða ströndina vestan Seljabótar, en hún er ein sú fáfarnasta á landinu, þrátt fyrir nálægðina við höfðuborgarsvæðið.
Þegar gangan var farin voru samningar lögreglumanna lausir og lítið dregið saman með aðilum. Umhverfið minnti þátttakendur á launasamninganefnd ríkisins og fulltrúa Landssambandsins. Hafið, óráðið og óendanlegt, ólagandi og óviðræðuhæft annars vegar og stórbrotnir klettarnir með ströndinni hins vegar, standandi vörð um landið, óhagganlegir, áreiðanlegir, en vanmetnir.
Ströndin er fjölbreytileg og útsýni með henni víða mjög fagurt. Sjá mátti berar hraunæðar, sem sjórinn hafði sorfið, djúpa svelgi og mikla hraunhella inn undir bjargið. Hrauná rann fram af því á einum stað og annars staðar mátti sjá skrautlegt hraungrýti sem myndi sóma sér vel sem stáss í hvaða stofu sem er.
Veður var með ágætum þrátt fyrir þungan himninn með fjöllunum. Leiðin niður að ströndinni er 2.2 km um rollulaust hraunið, sem allt er að koma til eftir ofbeit liðinna ára.