Færslur

Vestari-Lækur

Í Krýsuvík eru tvær lækir; Vestari-Lækur (Vesturlækur/Krýsuvíkurlækur vestri/Fitjalækur) og Eystri-Lækur (Nýjabæjarlækur/Krýsuvíkurlækur/Eystrilækur). Sá fyrrnefndi á uppruna sinn í mýrinni sunnan við Gestsstaðavatn og sá síðarnefndi í Dýjakrókum ofan bæjarstæðis Stóra-Nýjabæjar. Krýsuvíkurtorfan hefur stundum verið nefnd “byggðin milli lækja”, en það getur ekki verið alls kostar rétt því sjálfur Krýsuvíkurbærinn, auk Suðurbæjar, Norðurbæjar og Snorrakots, eru vestan Vestari-Lækjar.

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn í “eðlilegu” ástandi.

Báðir lækirnir steypast fram af Krýsuvíkurbergi, sá eystri austan Bergsenda eystri og sá vestari neðan Fitja undir Selöldu. Vestari-Lækur hefur náð að grafa sig niður í móbergið áður en hann fellur niður í fjöruna, en Eystri-Lækur hefur þurft að sætta sig við ýmist að falla ofan af skarpri hárri hraunbrúninni eða falla niður í sprungur ofan brúnarinnar, allt eftir því hvernig hún hefur þróast af sjóbarningnum neðanverðum eða áhrifum jarðskjálfta hverju sinni.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – nafnlausi fossinn.

Eystri fossinn hafði ekki nafn fyrrum, en í seinni tíð hafa einstaka ferðamenn reynt að nefna hann “Krýsuvíkurfoss”, sem varla getur talist frumlegt örnefni. Lækurinn ofan bjargbrúnarinnar var áður einnig nefndur “Lækur á Bergi”. Vestari fossinn heitir Mígandi í örnefnaskrám.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir m.a. um lækina: “Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn í víkina [Hælsvík] vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.
Vestur frá Litlahrauni [austan Bergsenda eystri] tekur við allmikil mýri, sem heitir Bleiksmýri. Um hana rennur Eystri-Lækur og rennur í sjó á austanverðu berginu.”

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn þegar hann fellur niður um ofanverðar sprungumyndanir.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) segir m.a. um lækina og fossana í Krýsuvík: “Að austan var Nýjabæjarlækur. Hann átti upptök sín spölkorn fyrir ofan túnið í Dýjakrókum. Þegar nokkuð var komið frá Nýjabæjartúni, nefndist Nýjabæjarlækur, Krýsuvíkurlækur eystri eða Eystrilækur. Nokkuð niður með honum er Austurlækjarvað, liggur þar gata yfir um lítið holt er nefnist Reiðholt, en gatan lá heim milli garða heim til Krýsuvíkurbæjar. Svæðið sunnan Vesturlækjar og Austurlækjar mætti með réttu nefnast Milli lækja.

Vestari-Lækur

Vestari-Lækur, ónefndur foss ofan Míganda. Fallegur berggangur í rauðamölskriðunni.

Hér vestur undan fellinu [Bæjarfelli] er svo nefnd Krýsuvíkurheiði eða Vesturheiði. Takmarkast að norðan af Hálsinum, en að sunnan af Krýsuvíkurlæk vestri eða Vesturlæk. Vesturlækur á uppruna sinn í mýrinni neðan undir Gestsstaðavatni. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist þá Fitjalækur.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Þegar haldið var vestur Bergið þá varð fyrst fyrir í sjónum Selasker og ofan við það Selalón. Vestar var komið að allmiklu viki eða vík, Keflavík. Þar var Keflavíkurkampur stórgrýttur, og þar voru Keflavíkurrekar. Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – hér fellur Mígandi fram af berginu í skoruna nær.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er er undir Hei[ð]nabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri.”

Mígandagróf

Mígandagróf.

Nafngiftin “Mígandi” er einnig til á litlum fossi í Hvalfirði, háum fossi norður af Dalvík, myndarlegum fossi í Vatnsdal Austur-Húnavatnssýslu (einnig nefndur Hjallafoss), á fossi austur af Bjarnanúp á Vestfjörðum og auk þess má finna örnefnið Mígandagróf ofan Lönguhlíða á Reykjanesskaganum.

Sjá myndband um austanvert Krýsuvíkurberg HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn nafnlausi á góðum degi.

Reykjanesskaginn

Í Faxa árið 1998 fjalla nemendur FS á Suðurnesjum um “Áhugaverða staði í Reykjanesfólkvangi“. Frásögnin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að nemendurnir hafa að öllum líkindum lítið kynnt sér vettvangsaðstæður sem og hina fjölmörgu möguleika, sem Reykjanesskaginn hefur upp á bjóða innan fólkvangsins, en taka þarf viljan fyrir verkið því það er jú niðurstaðan hverju sinni er mestu máli skiptir þegar upp er staðið.

Faxi“Náttúran á Reykjanesi er frekar rýr ef bera á hana saman við náttúru annars staðar á landinu vegna þess að svæðinu hefur einfaldlega verið misboðið í svo langan tíma. Þó svo að ekki hafi alltaf verið farið vel með svæðið þá er ýmislegt að sjá ef áhuginn er fyrir hendi. Of margir Suðurnesjabúar og íbúar á höfuðborgarsvæðinu leita oft langt yfir skammt þegar njóta á íslenskrar náttúru. Vill það gleymast að Reykjanesið er spennandi svæði að ferðast um og kynnast. Það er öðruvísi en margir staðir á landinu vegna þess að þar er hægt að sjá mjög greinilega hvernig Reykjaneshryggurin kemur inn í landið. Allt umhverfi okkar er mótað vegna Reykjaneshryggsins því þar hafa orðið mörg eldgos fyrr á tímum og enn í dag er þar mikil eldvirkni í jörðu þó svo ekki hafi gosið á þessu svæði í nokkurn tíma.

Gróður á Reykjanesi er í slæmu ásigkomulagi samanborið við það sem hann var fyrir landnám og þeir sem vilja sjá mikinn gróður fara því á aðra staði á landinu. Allir verða að kynnast auðninni til þess að geta gert sér það ljóst að ekki má halda áfram eins og fram horfir án þess að illa geti farið. Það vekur kannski ekki áhuga margra að ferðast um Reykjanesið en ef vel er að gáð má þó finna eitthvað fyrir alla. Skemmtilegar gönguleiðir eru víðsvegar um svæðið, hraunmyndanir og háhitasvæði eru víðsvegar og reyndar er hægt að finna þar mikinn gróður þó á takmörkuðum svæðum sé. Fuglabjörg eru einnig á svæðinu og einnig er hægt að komast í silungsveiði með alla fjölskylduna. Þegar fólk ætlar að njóta náttúrunnar er oftast farið á þá staði sem eru meira þekktir og þykja merkilegir s.s Þingvelli, Gullfoss og Geysi eða önnur þekkt svæði. Hér á eftir verður fjallað um þau svæði sem okkur þykja merkilegust í Reykjanesfólkvangi.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Þegar Reykjanesbrautin er ekin blasir Keilir við á hægri hönd ef komið er frá Keflavík. Ef beygt er til hægri og ekið sem leið liggur frá Kúagerði og upp að fjöllunum þá er þar komið að mikilli grassléttu. Þessi grasslétta heitir Höskuldarvellir og eru þeir stærsta samfellda graslendið í Gullbringusýslu eða um 100 ha.

Sogalækur

Sogalækur.

Í leysingum liggur lækur úr Sogunum fyrir sunnan Trölladyngju og er talið að lækurinn hafi smám saman borið jarðveg niður á sléttlendið. Frá Höskuldarvöllum eru margar skemmtilegar gönguleiðir t.d á frægasta fjall Suðurnesja, Keili. Einnig er hægt að ganga á Mávahlíðar en það er mjór hryggur sem er brattur á báða vegu og sést hann því vel í næsta umhverfi. Þegar komið er á staðinn er best að velja gönguleiðir um svæðið eftir áhuga og getu hvers og eins.
Mjög fallegt er í kringum Höskuldarvelli á sumrin þegar allt er í blóma en þó er ekki síðra þar á veturna þegar snjór liggur yfir öllu svæðinu.

Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Trölladyngja er ekki langt frá Höskuldarvöllum og er því alveg tilvalið að ganga þangað og skilja bílinn eftir undir fjallshlíðinni við Höskuldavelli. Trölladyngja er móbergsfjall í Reykjanesfjallgarði norður af Núpshlíðum eða Vesturfjalli. Á Trölladyngju eru tveir móbergshnjúkar. Austan við Trölladyngju er annað móbergsfjall, Grænadyngja. Nefnast þær saman Dyngjunnar. Í dyngjunum eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Norðan og sunnan við dyngjurnar eru gígar og gígaraðir.

Sogin

Sogin.

Norður af Trölladyngju eru síðan gufuhverir sem vert er að skoða. Jarðhiti er mikill í Trölladyngju. Sunnan hennar er litskrúðugur skorningur, svokallað Sog. Gaman er að ganga um svæðið og virða fyrir sér þá sérkennilegu liti sem em í dyngjunum. Þar eru mörg litaafbrigði og eru þau breytileg eftir því hvernig veður- og birtuskilyrði eru. Lítill lækjarfarvegur liggur í gegnum dyngjurnar og hefur hann í tímans rás grafið sig sífellt neðar. Dýptin er sumstaðar komin yfir tvær mannhæðir.
Stórkostlegt er að litast þarna um og njóta þeirrar fjölbreytni sem náttúran hefur upp á að bjóða í litavali.
Slæmur vegur liggur áleiðis að Trölladyngju frá Höskuldarvöllum. Frá Trölladyngju er síðan hægt að aka að Grænavatni og Djúpavatni.
Víðsvegar á þessu svæði er jörðin illa farin eftir umferð og nýjar slóðir eru sífellt að myndast og jörðin er á mörgum stöðum uppspóluð. Þetta er til skammar fyrir Reykjanesið og þeir sem aka utanvega ættu að skammast sín fyrir að eyðileggja marga fallegustu staði á Suðurnesjum sem seinna meir gætu orðið ferðamannastaðir sem myndu skapa miklar tekjur fyrir Suðurnesjabúa. Best er að ferðast um svæðið gangandi þegar á það er komið því þannig fæst best yfirlit yfir svæðið, við það skemmist það ekki og einnig er ganga heilsusamleg og nauðsynleg.

Spákonuvatn

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Mjög skemmtileg gönguleið er eftir Vesturhálsi þegar gengið er til suðurs frá Sogunum. Þá er komið að vatni uppá fjallinu og heitir það Spákonuvatn. Vatnið hefur myndast við það að hraun hefur lokað dalverpi og það hefur orðið til þess að vatn safnaðist þar fyrir. Það er mjög sérkennilegt að sjá það með eigin augum hvernig hraunið hefur runnið þannig að dalurinn hefur lokast og vatnið myndast. Ekki er fiskur í Spákonuvatni.

Grænavatn

Grænavatn

Grænavatn.

Vegurinn sem liggur frá Trölladyngju að Grænavatni er aðeins fyrir jeppa því hann er erfiður yfirferðar. Grænavatn er í dalverpi sunnan við Trölladyngju. Það er frekar grunnt og lítið vatn en þó er einhver veiði í því. Umhverfið er allsérstætt og fallegt vegna þess hversu stórgrýttar hlíðarnar eru.

Djúpavatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Djúpavatn er sprengigígur sem hefur fyllst af vatni. Við Djúpavatn er skáli sem hægt er að gista í ef veiðileyfi er keypt. Þó nokkur veiði er í vatninu og hafa þar veiðst ágætlega vænir silungar. Það er því alveg þess virði að kaupa veiðileyfi í vatnið og fara með fjölskylduna og reyna að krækja í þann stóra. Ekki er síðra að dorga á veturna þegar ís er á vatninu. Vatnið er mjög djúpt og af því er nafnið dregið.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Vigdísarvellir er dálítil grasslétta austan undir Núpshlíðarhálsi. Þar er oftast skjól af fjöllunum í nágrenninu. Á Vigdísarvöllum var byggður bær árið 1830 og búið þar fram til ársins 1905 en þá hrundu húsin í jarðskjálfta.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Bæjarrústirnar eru þó nokkuð stórar og þar sést einnig móta fyrir gömlum garði sem hefur verið hlaðinn til að halda skepnunum á sínum stað.
Það er athyglisvert að nokkur hafi lagt það á sig að búa svona langt frá byggð því að lífið hefur sjálfsagt verið erfitt þama eins og annarsstaðar á landinu á þessum tíma. Þó svo að þetta svæði sé langt upp í fjöllum þá er þar ótrúlega mikill gróður á þessu svæði og því er það kannski ástæðan fyrir því að menn vildu búa þarna.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Hentugasta leiðin að Krísuvfkurbergi frá Vigdísarvöllum liggur meðfram Núpshlíðarhálsi. Þaðan er beygl til austurs eftir þjóðveginum og síðan er beygt til sjávar eftir auðsjáanlegum slóða. Krýsuvíkurberg er mesta fuglabjargið á svæðinu. Það er um 7 km langt og 40 – 50 metra hátt.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Áhugavert er að ganga um svæðið, einkum á vorin og snemma sumars þegar fuglalífið er áberandi mest. Hverjum manni væri það gagnlegt að sjá fuglana í sínu náttúrulega umhveifi og geta virt þá fyrir sér í ungauppeldinu og baráttunni við náttúrulega óvini. Tveir lækir falla til sjávar fram af berginu, Eystrilækur og Vesturlækur. Eystrilækur myndar háan foss sem steypist fram af berginu. Í berginu verpa um 57 þúsund sjófuglapör en það er um 65% allra bjargfugla á svæðinu.

Eldborgir

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Eftir að Krýsuvíkurberg hefur verið skoðað liggur leiðin að Eldborgum. Eldborgir eru undir Geitahlíð austan Krýsuvíkur. Þær eru tvær og heita Stóra og Litla Eldborg. Þjóðvegurinn liggur á milli þeirra.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Stóra Eldborg er einn allra fallegasti gígur á Suðvesturlandi, um 50 metra hár, hlaðinn úr hraunskánum og gjalli. Frá Stóru Eldborg liggur hrauntröð þar sem hraunið hefur runnið til sjávar. Vesturlækur fellur til sjávar í Hælsvík og myndar einnig fallegan foss.
Gróðureyðing fyrir ofan Krýsuvíkurberg er óvíða ljótari á Skaganum. Þar skiptast á blásnir melar og rofabörð.
Gróðurfar á þessu svæði er mjög slæmt vegna ofbeitar. Litla Eldborg er austar en hin og öllu fyrirferðanninni, Hún er hluti af stuttri gígaröð eins og Stóra Eldborg. Hraunið frá Litlu Eldborg hefur lagst yfir hraunið frá Stóru Eldborg að hluta og er gaman að virða þetta fyrir sér á góðvirðisdegi. Jarðvegur á þessu svæði er frekar rýr og er mosaþemba aðal gróðurinn á svæðinu.

Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Hverasvæðin á Krísuvíkursvæðinu eru mjög fallegur ferðamannastaður en því miður eru það fáir sem leggja leið sína um svæðið en þangað er fólksbílafært og ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu. Krísuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufuhverum og leirhverum. Á svæðinu eru tvö gígvötn, Grænavatn og Geststaðavatn, sitt hvoru megin við veginn. Vötnin eru merkileg fyrir þær sakir að þau eru gamlar eldstöðvar sem hafa fyllst af vatni í tímans rás. Grænavatn hefur mjög sérkennilegan lit vegna þess hversu mikill þörungagróður er í vatninu.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir

Bæli í Gullbringuhelli.

Fyrir þá sem þora er gaman að fara í hellaskoðun. Þægilegasta leiðin að hellinum er frá þjóðvegi 42 sem er vegurinn sem við förum á leið okkar austur með Kleifarvatni og þarf að ganga síðasta spölinn að hellinum. Gullbringuhellir er eini hellirinn sem er þekktur í hrauninu við Kleifarvatn. Hann er norðaustan við fjallið Gullbringu. Hellirinn er um 170 metra langur en frá opinu liggur hann í tvær áttir. Mjög athyglisvert er að skoða hellinn því að í honum eru hraunstrá og þar er vítt til veggja og hátt til lofts og því þægilegt að ferðast um hann. Þessi hellir er aðgengilegur og því ætti fólk á öllum aldri að geta skoðað hann.

Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatnið á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt dýpsta stöðuvatnið á Íslandi um 97 metrar að dýpt. Það er á miðjum skaganum inn í Reykjanesfólkvangi. Kleifarvatn hefur írennsli en ekkert sýnilegt frárennsli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Vatnsmagnið í Kleifarvatni er breytilegt og breytist mest vegna úrkomu. Jarðhiti er syðst í vatninu og er stundum hægt að sjá hverina ofan af Vatnshlíð. Þeir eru öðruvísi á litinn og skera sig því út úr. Á veturna sér maður vakir vegna hitamismunar en annars staðar er vatnið ísi lagt. Silungsveiði er talsverð í vatninu og er gaman að fara með fjölskylduna að veiða í Kleifarvatni vegna þess hversu stutt er að fara úr amstri hófuðborgarinnar og einnig vegna þess að svæðið er öðruvísi en menn eiga að venjast. Það má kannski geta þess að einn af síðustu stórbændunum í Krýsuvík tók silung úr Elliðavatni og flutti yfir í Kleifarvatn svo að hann á heiðurinn af því að þarna er hægt að veiða silung. Við vatnið er fallegt útsýni en þar er mikið af sérkennilegum klettamyndunum.

Hellirinn eini

Maístjarnan

Í Hellinum eina.

Eftir að hafa skoðað Kleifarvatn höldum við áfram eftir þjóðveginum og stoppum hjá Fjallinu eina. Í næsta nágrenni við það eru tveir hellar, annar þeirra heitir Hellirinn eini og hinn heitir Híðið. Hellirinn eini er um 170 metra langur, hann er víða lágur til lofts en víðast hvar er hann þó manngengur. Það eru dropasteinar og hraunstrá í hellinum. Miklar sprungur skerast þvert á hellinn og mynda litla afhella. Jarðfræðilega séð telst þessi hraunrásarhellir merkilegur fyrir það að hann er skorinn af þessum mörgu og stóru sprungum. Mikil litadýrð er í hellinum sem gerir hann áhugaverðari fyrir vikið.

Híðið

Híðið

Í Híðinu.

Híðið er um 500 metra frá Hellinum eina og því getur verið gaman fyrir þá allra hörðustu að skoða hann líka. Híðið er um 155 metra langur hellir og þröngur, hæstur er hellirinn um 2 metrar að hæð en víðast hvar töluvert minni. Erfitt er að fara um hellinn því sums staðar þarf að leggjast niður og skríða. Mikið er um fallega dropasteina og hraunstrá í hellinum, dropasteinarnir eru nokkur hundruð og hraunstráin talsvert fleiri. Híðið er alveg ósnortið vegna þess að hingað til hafa aðallega hellaáhugamenn farið þangað. En það vill oft fara þannig að vinsælir ferðamannastaðir fara illa út úr mikilli umferð ferðafólks sem því miður gengur oft ekki nógu vel um fallega og athyglisverða staði.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fornar leiðir.

Þetta er síðasti viðkomustaður okkar á þessu skemmtilega ferðalagi um Reykjanesfólkvang og héðan er ekki löng keyrsla upp á Reykjanesbrautina aftur en þaðan ættu allir að rata heim til sín á ný. Þessi upptalning er ekki tæmandi fyrir allt það sem hægt er að skoða á svæðinu en við vonum að við lestur þessarar ritgerðar geti lesandi gert sér það ljóst að á heimaslóðunum leynist ýmislegt skoðunarvert í náttúrunni.
Sá misskilningur virðist vera allsráðandi að það þurfi að aka mörg hundruð kílómetra út fyrir höfuðborgina til að komast í spennandi landslag og fallega náttúru. Þetta svæði hefur upp á allt að bjóða sem íslensk náttúra getur á annað borð boðið upp á. Ef fólk gefur sér tíma til að skoða sitt nánasta umhverfi verður það alveg örugglega hissa á því að sjá hversu margt er í boði. Þarna má sjá bæði spillta og óspillta náttúru, gróðumikil svæði og auðnir, háhitasvæði, fuglavarp, hraunhella og vötn. Til þess að skoða svæðið þarf að vera með opinn huga því að mörgum finnst það í rauninni ekki vera neitt ferðalag að fara svona stutt frá heimahögunum. En eins og áður sagði vill það gerast með Íslendinga að þeir leiti langt yfir skammt.
Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, kannski verður það þannig að landinn taki við sér og sjái alla fegurðina sem er við bæjardyr höfuðborgarbúa. Kannski verður það þannig að innan fárra ára verði Reykjanesið eitt mest sótta ferðamannasvæði landsins.”

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 1998, Áhugaverðir staðir í Reykjanesfólkvangi, bls. 28-30.

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Selalda

Í Gráskinnu segir af “Tyrkjum á leið vestur með landi, utarlega á móts við Krýsuvíkurberg, í svonefndri Hælsvík. Þar upp af er stígur, nefndur Ræningjastígur, en nokkru vestar eru seltættur gamlar”.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Tyrkir lágu í logni á víkinni. Þrír af þeim drápu tvo kvenmenn, er þeir gengu á land, en þær voru í selinu. En á meðan þetta gerðist kom smali frá Krýsuvík með féð og tóku þá þrír af Tyrkjunum á rás á eftir honum og eltu hann heim á tún í Krýsuvík, en þegar þangað kom, komu heimamenn á móts við smalann og drápu Tyrkjana þrjá við svonefndan Ræningjahól í Krýsuvíkurtúni, sem hefur nafn sitt af þessu. Þrjár þúfur austanvert við hólinn í túninu er kallaður Ræningjaleiði og eru Tyrkir þar heygðir. Af Hælisvík fóru Tyrkir til Grindavíkur, samanber Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá. Öll sjást örnefnin enn í dag”. Frásögn þessari tengjast síðan frásagnir af Séra Eiríki og viðureign hans við Tyrkina umrætt sinn þar sem hann atti þeim hverjum gegn öðrum uns þeir lágu dauðir eftir.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

Byrjað var á því að skoða selið ofan við Krýsuvíkurbjarg austast í Selöldu, skammt frá tóftum bæjarins Eyri. Enn má sjá tóftir þess norðan og austan við bæjartóftirnar. Ræningjastígurinn upp bergið var fær þangað til fyrir skömmu að brotnaði neðst úr honum. Gengið var upp heiðina með viðkomu í Arnarfellsréttinni. Dysjarnar sjást utan í nefndum hól sunnan Krýsuvíkurkirkju. Sunnan við hann eru tóftir Suðurkots.
Gangan tók 2 klst og 12 mín í frábæru veðri.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Krýsuvíkurbjarg

“Hvernig þætti þér að taka heilt fuglabjarg á leigu? Ekki svo galið kannski, ef þú hefðir eitthvað við það að gera.. . og værir hvergi banginn við að síga í bjargið.
Þetta gera þeir björgunarsveitarmenn í björgunarsveit Fiskakletts í Hafnarfirði. Þeir félagar hafa síðustu fimm ár verið með Krýsuvíkurbjarg á leigu. Þangað fara þeir á hverju vori til eggjatöku, selja síðan eggin og ágóðinn rennur til endurnýjunar og viðhalds tækja björgunarsveitarinnar.
Fyrir skemmstu fóru björgunarsveitarmenn í leiðangur út í Krýsuvíkurbjarg. Við slógumst í för með þeim og fylgdumst með í ærandi fuglagargi.. .

Sigið í bjargið.

Þrjú til fjögur þúsund egg eftir vorið

Í björgunarsveit Fiskakletts eru 25 menn. Eggjatakan í Krýsuvíkurbjargi er orðin árviss viðburður, svo árviss að sumum finnst vorið og sumarið ekki komið fyrr en búið er að síga í bjargið.
„Við förum alltaf annað slagið hingað út þegar fer að vora, svona til að fylgjast með að
allt sé í lagi,” segir einn björgunar- sveitarmanna, Einar Ólafsson. ,,En aðaleggjatakan fer fram um mánaðamótin maí-júní. Venjulega höfum við þetta þrjú til fjögur þúsund egg upp úr krafsinu og þau seljum við í verslanir í Hafnarfirði. En eggjatakan er ein fjáröflunarleiða björgunarsveitarinnar.”
— Þið leigið bjargið segirðu, hver á það?
„Það er í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Við hirðum líka reka undir bjarginu en það fylgir þeim hlunnindum sem bærinn á. Þar er þó ekkert timbur, aðeins einstaka netabelgir.”
Þótt björgunarsveitarmenn séu 25 síga þeir ekki allir í bjargið. Það sér þriggja til fjögurra manna hópur einkum um. Hver þeirra á „sinn sigstað”, ef svo má að orði komast. Það er að segja, hann sígur nánast alltaf á sömu stöðum í bjargið. Þannig þekkir hann bjargið og um leið eykst öryggið. Það eru bílar björgunarsveitarinnar sem draga sigmennina og þeir eru í talstöðvarsambandi við viðkomandi bíl og gefa þannig fyrirskipanir um hvort eigi að slaka á eða draga.

Lipurð og hugrekki er það sem þarf

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

— En er þetta ekki stórhættulegt þrátt f yrir allt öryggið?
„Ja, er ekki allt hættulegt? Ef varlega er farið gengur þetta slysalaust og það hefur það gert hjá okkur fram að þessu. Allur öryggisbúnaður hjá okkur er í mjög góöu lagi, svo í raun er ekkert að óttast. Það sem þarf hjá sigmönnunum er lipurð og hugrekki og það hafa þeir. Við höfum á að skipa mjög reyndum sigmanni, Bjarna Björnssyni, sem er ótrúlega fljótur og snar í snúningum þegar í bjargið er komið. Hann hefur sigið víða, meðal annars í Látrabjargi, svo hann er öllum hnútum kunnugur. Hann hefur líka verið að segja yngri mönnunum til og þeir eru smám saman að taka við af honum. Einn þeirra er sonur hans, allt efnilegir sigmenn. Það er viss sjarmi yfir þessu bjargsigi á vorin. Þetta er eiginlega fyrsta útiveran á árinu. Við liggjum gjarnan í tjöldum og erum þarna í nokkra daga. Og við borðum auðvitað egg, ýmist soðin eða étum þau hrá.”
Krýsuvíkurbjarg er nokkuð gróið, það gerir fugladritið. Þar verpir svartfugl, fýll og rita. Uppi á bjarginu er virkur gasviti enda eru fengsæl fiskimið fyrir utan og mikið af bátum.

Eggjaþjófar
„Við verðum töluvert fyrir ágangi þarna,” segir Einar. „Ku það einkum menn sem vilja síga í bjargið og gera þeir það i óleyfi og í okkar óþökk. Það hefur gengið svo langt, að við höfum þurft að kæra menn fyrir vikið. Það hefur meira að segja verið reynt að komast sjóleiðina í bjargið enda til töluverðs að vinna því eggin eru eftirsótt vara.”
— Takið þið hvaða egg sem er?
“Nei.við tökum svartfuglsegg eingöngu. Við hirðum hvorki fýls- né rituegg. Þau síðarnefndu eru til dæmis svo viðkvæm að það væri varla hægt að koma þeim upp. Þau þola ekkert hnjask.”
— Þú talar um eftirsótta vöru. Hvað fáið þið fyrir eggið?
„Í vor seldum við stykkið á 14 krónur í verslanir. Þetta er því töluverð fjáröflunarleið hjá okkur þó ekki sé hún stærst. Það er kannski ekki aðalatriðið heldur hitt hversu gaman við höfum af þessum vorferðum í Krýsuvikurbjarg,” sagði Einar Ólafsson. -KÞ.

Heimild:
-DV – laugardagur 18. júní 1983, bls. 12-13.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg.

Krýsuvíkurbjarg

Myndina [s/h] hér að neðan tók sænskur ljósmyndari, þá konunglegur hirðljósmyndari. Hann sagði, að stórfenglegri sýn hefði aldrei borið fyrir auga myndavélar sinnar, og svo áfjáður var hann í myndir, að fylgdarmenn hans urðu að halda í fæturna á honum, svo að hann steypti sér ekki fram af bjargbrúninni í algleymi sínu við myndatökuna.

Krýsuvíkurberg 1972

Krýsuvíkurberg 1972.

“Krýsuvíkurberg er undraheimur — dásamlegur staður öllum, sem ekki eru sneyddir öllu náttúruskyni. Það er að vísu hvergi sérlega hátt, en það er fimmtán kílómetrar á lengd, og það er kvikt af fugli. Þar eru svartfuglar milljónum saman, og þar  má oft sjá súlur i hundraðatali, komnar úr mestu súlnabyggð heims. Eldey. Það er svipmikil sjón að sjá þær steypa sér úr háalofti þráðbeint i sjó niður af svo miklu afli, að strókarnir standa upp úr sjónum, þar sem þær hafna, eins og þar sé allt i einu kominn gosbrunnur við gosbrunn.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg v.m. við fossinn í Eystri-Læk. Hægra meginn við hann er Krýsuvíkurbjarg.

Fuglar hafa að miklu leyti átt griðland í Krýsuvíkurbergi í meira en hálfa öld. Bjargið hefur ekki verið nytjað að neinu ráði síðan 1916. Þá bjó í Krýsuvík Jón Magnússon, faðir Sigurðar endurskoðanda og Magnúsar frönskukennara. Hann hafði árum saman sérstakan bjargmann, kynjaðan austan úr Mýrdal, og var hann reiddur fram á bergið á morgnana um bjargtímann, og var hann þar síðan einn á daginn við fuglaveiðar og eggjatekju. Hann handstyrkti sig á vað með þeim hætti, að hann hringaði endann um steina og bar á grjót, og siðan rakti hann sig á vaðnum niður í bjargið og hafði af honum stuðning á göngu sinni um syllurnar. Enn þann dag i dag má sjá uppi á bjargbrúninni steinahrúgur, sem þessi maður og aðrir á undan honum, notuðu i bjargferðum sínum.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Kvöld hvert var svo bjargmaðurinn sóttur og dagsaflinn reiddur heim, bæði fugl og egg. Þessar bjargafurðir voru síðan fluttar á klökkum inn i Hafnarfjörð og Reykjavik, þar sem verðið á bjargfuglseggjunum var fjórir aurar fyrir heimsstyrjöldina fyrri. Það var í samræmi við annað verðlag þá, en þótt tuttugu og fimm egg þyrfti í hverja krónu voru það ótrúlega miklar tekjur, sem bjargið gaf af sér — mörg þúsund krónur árlega, jafnvel allt að tíu þúsund krónur að meðaltali, að blaðinu hefur verið tjáð.
Fiskimið voru fast upp að berginu, og var oft fjöldi skipa skammt undan landi, einkum skútur á skútuöldinni, þeirra á meðal Færeyingar. Vestan við bergið eru Selatangar, þar sem fyrrum var útræði. Þar sjást enn leifar sjóbúðanna gömlu, þar sem vermennirnir höfðust við.

Bergsendi eystri

Krýsuvíkurberg. Horft til vesturs á Bergsendum eystri.

Frá fjárréttinni sunnan við Eldborg við Krýsuvíkurveg er í mesta lagi fjörutíu mínútna gangur fram á bjarg, og er þar haldið ofurlítið til austurs. Þar [á Bergsenda eystri] má komast niður að sjó, og opnast allt austurbergið sjónum manna.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus. Ofar nefnist “bergið” -bjarg, en – berg að neðan (á myndinni).

Flestum verður ógleymanlegt að koma á þennan stað um varptímann, í maí og júní. Innlendir menn og erlendir gleyma sér bókstaflega, þegar þeir sjá hið iðandi líf, sem þrífst þarna á klettasyllunum.
Þegar þessi stutti spölur hefur verið ruddur og gerður bílfær, til dæmis fyrir forgöngu Ferðafélags Íslands, munu menn undrast, hversu lengi sú framkvæmd hefur dregizt.
En eins þarf jafnframt að gæta. Bjargið verður að alfriða og hafa þar vörzlu um varptímann og fram eftir sumri, unz ungar eru komnir á sjóinn, svo að griðníðingar og skemmdarvargar fái sér ekki við komið í þessum véum bjargfuglsins.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg).

Það er svo mikilfengleg sjón og lífsunaður að kynnast þessum stað, að hann ætti að vera einn þeirra, er hvað mest laðaði að sér fólk hér í nágrenni Reykjavikur. En allir, sem þangað kæmu yrðu að sjálfsögðu að hlíta ströngum reglum, svo að mannaferðir styggðu ekki fuglinn eða trufluðu hann við búskapinn, grjótkast allt að vera stranglega bannað, sem og hróp og köll til þess að styggja hann, svo að ekki sé nefnt óhæfa eins og byssuskot.
Krýsuvíkurberg er ein af perlum landsins, og þá perlu ber okkur að vernda og varðveita af umhyggju og ástúð og varfærni. Ef það er gert, getum við átt hana og notið hennar um langa framtíð, okkur sjálfum og ófæddum kynslóðum til sálubótar i skarkala hversdagslífsins”. JH

Heimild:
-Tíminn, föstudagur 21. júli 1972, bls. 8.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg.

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var niður í Seljabót frá Sýslusteini. Girðing er þar á mörkum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, en þau eru jafnframt sýslumörk Árnessýslu og Gullbringusýslu.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Við girðinguna eru einnig endamörk Grindavíkurumdæmis að austanverðu. Reyndar mætti deila um staðsetningu markanna, en venjulegast er miðað við línu milli Seljabótanefs og Sýslusteins og þaðan í Kóngsfell (Konungsfell), öðru nafni Stóra Bolla. Eldri girðing liggur á ská til norðausturs í gegnum Herdísarvíkurhraun og í Fálkagilsskarð (Fálkageirsskarð) í Herdísarvíkurfjalli. Austan við girðinguna nefnist hraunið (sem reyndar eru nokkur) Herdísarvíkurhraun, en vestan við hana Krýsuvíkurhraun. Sum vestari hraunanna eru komin úr Edborgum (Litlu og Stóru) undir Geitahlíð, en einnig úr fallegum gígum ofan Geitahlíðar, sbr. hraunið er rann niður Slátturdal, oft nefnt Fjárskjólshraun.
Skömmu áður en komið er niður í Seljabót, suður undir syðstu hraunbrúninni, er Herdísarvíkursel, nokkrar tóftir og stekkur. Nokkur austar með ströndinni má enn sjá móta fyrir a.m.k. einni hlaðinni refagildru, sem minnst hefur verið á í gömlum lýsingum af þessu svæði. Sjórinn er búinn að brjóta aðrar undir sig.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Í Seljabót er hlaðið gerði. Ofan þess er gróinn hóll uppi í brunahrauninu, að hluta til manngerður. Girðingin svo að segja frá honum í beina línu til norðurs, að Sýslusteini. Seljabótanefið er fremst en frá því er fallegt útsýni austur eftir Háabergi, stundum nefnt Herdísarvíkurberg.
Haldið var til vesturs með ströndinni. vel má sjá lagskiptinguna á hinum ýmsu hraunum sem og tegundum hrauna, er runnið hafa þarna í sjó fram. Neðst og næst sjónum eru fallegar hraunæðar og rásir, sem sjórinn hefur hreinsað allt laust ofan af. Ofar er gjallmulningur og ofan á því grágrýti og hraungrýti. Allt myndar þetta hina fallegustu hraun- og litasamsetningu þarna á mörkum lands og sjávar.

Herdísarvíkurbjarg

Á Herdísarvíkurbjargi.

Á einum stað, á örlitlu svæði, eru hraunlistaverk, sem myndu sóma sér vel í hvaða stofu sem væri. Fallegust er þau þarna ofan strandarinnar – þar sem þau urðu til er herra Ægir og frú Hraun runnu saman í eitt.
Víða eru mjóar víkur eða básar inn í ströndina og oftlega opnast fallegt útsýni yfir hluta strandarinnar. Vel grói er ofan strandarinnar. Svo til miðja vegu milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur er hóll er ber hæst í landslagið, sama úr hvorri áttinni er komið. Á hólnum er hlaðin beinakerlning eða skilaboðavarða.
Stórir sjávarhellar eru sums staðar inn undir bergið og gatklettar eru nokkrir. Þrír eru þó tilkomumestir. Skammt vestan og neðanundir beinakerlingunni er feiknafallegur og mikill svelgur, opinn með stórri steinbrú til hafs, ótrúleg náttúrusmíð. Ekki er gott fyrir lofthrædda að standa of nærri brúninni. Skammt vestar er fallegt útsýni vestur með berginu, m.a. gatkletti skammt austan Kefavíkur.

Keflavík

Keflavík.

Vestar er Keflavík. Víkin ber nafn með réttu; stórum keflum hefur skolað þar á land. Stígur liggurniður í víkina, sem er gróinn næst berginu, en utar eru stórt ávalt fjörugrjótið. Vestan við Keflavík má slá leifar af gamla berginu. Ofan á því standa nokkrir gulskófnir steinar (fuglaglæða/húsglæða). Nefnast þeir Geldingar. Af grashól vestan við keflavík, austan Geldinga, er fallegt útsýni austur eftir berginu, m.a. að gatklettinum fyrrnefnda.
Haldið var áfram yfir apalhraunið neðan Klofninga. Ofar í þeim er Arngrímshellir, stundum nefndur Gvendarhellir.

Keflavík

Keflavík – gatklettur.

Gengið var niður undir gamla bergið neðan Krýsuvíkurhellis. Þar sést vel hvernig hraunið hefur runnið niður af berginu og fram af því, en skilið hluta þess eftir sem fagurt sýnishorn af því sem var.
Skammt vestar eru Bergsendar, grasi grónir. Af þeim er einn fallegasti útsýnisstaðurinn vestur eftir Krýsuvíkurbjargi, háu og tilkomumiklu. Gengið var upp eftir fjárhólfsgirðingunni ofan Bergsenda og að réttinni undir Stóru Eldborg.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krýsuvíkurbjarg

Á Krýsuvíkurbjargi.

Krýsuvíkurberg

Farið var niður að Selöldu ofan Krýsuvíkurbergs. Bæjarstæðið sem og nálægar útihúsatóftir voru skoðaðar. Bærinn fór í eyði 1876 eftir hafa verið tiltölulega stutt í ábúð.

Selalda

Fitjar og Fitjatúnin undir Selöldu.

Ari Gíslason skrifaði örnefnalýsingu um svæðið eftir Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti. Þar segir m.a.: “Sunnan Arnarfells tekur við Krýsuvíkurheiði og austarlega á henni eru tveir hólar, Trygghólar, en sunnan þeirra Trygghólamýri.

Selalda

Selalda – Strákar.

Suðvestur af Trygghólum er önnur hæð heldur hærri og nær sjó, upp af Hælsvíkinni fyrrnefndu, og heitir hún Selalda. Vestan í henni eru steinstrókar, sem heita Strákar. Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn og í víkina vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.”

Selalda

Fitjar – bæjartóftir.

Fitja er ekki minnst í jarðabókinni 1703. Ekki heldur í manntalinu 1816 eða í sóknarlýsingu 1847. Svo virðist sem bærinn hafi einungis verið í byggð í 15-20 ár.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a.: “Arnarfelli hefur að nokkru verið lýst. Undir nyrðra horni þess hafði í fyrri tíð verið mikill áningarstaður skreiðarferðamanna. Þar er Áningarflöt, tjaldstæðið. Sunnan fellsins er Bleiksmýri og hlutar Austurlækurinn hana sundur.

Selalda

Jónsvarðan eystri.

Alllangt neðan við Arnarfellstjörn eru Trygghólar tveir, fram á Heiðinni. Trygghóll efri, og Trygghóll fremri. Framundan þeim er Trygghólsmýri. Þarna eru og Jónsvörður, Jónsvarðan vestri og Jónsvarðan eystri.
Hér framundan til vesturs er tvær öldur að sjá. Sú nyrðri heitir Selalda. Á henni er Selölduvarða. Fram undan Selöldu er Seljadalur. Vestur eftir honum er farvegur Seljalækur. Beggja megin lækjarfarvegsins eru nokkrar tættur Seljanna.” Hér ruglar Gísli saman annars vegar selstöðunni, sem honum virðist vera ókunnug, og bæjartóftum Eyrar, sem eru beggja vegna uppþornaðs árfarvegar.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

“En hér var haft í seli frá Krýsuvíkurbæjunum á fyrri tíð. Krýsuvíkursel voru það kölluð. Vestur af Selöldu eru móbergstindar, nefnast Strákar. Vestarlega í þeim hefur verið skúti, nefndist Strákahellir. Þarna hefur verið hlaðið myndarlegt fjárskýli og hefur í eina tíð verið reft yfir það og nefndist þá Strákafjárhús. Vestan við er melholt og niður undan því er einn Krýsuvíkurbærinn og nefndist Fitjar.

Selalda

Selalda – berggangur.

Kringum bæinn er Fitjatún og nyrst í því Fitjafjárhús. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar. Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar. Seljabrekka blasir hér við upp undir Seljum. En Seljalækurinn hefur grafið sér farveg allt fram á berg. Fitjagata lá austur og inn um lægð norðan undir Strákum og er komið var að Selöldu, þá lá hún upp í Heiðina upp á fyrr nefndan Húsmel. Vestan við Fitjalækinn liggur nú Bílaslóðin allt niður á berg og vestur að hraunbrúninni. Austan og sunnan Austurlækjar er Bleiksmýrin. Fram af henni niður og austur allt að hrauninu liggur svo Krýsuvíkuheiðin eystri eða Austurheiðin. Fátt er hér örnefna.
Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.”

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Eyri fór í eyði 1775. Bærinn hefur að öllum líkindum verið í ábúð stuttan tíma. Um hefur verið að ræða kotbúskap, sennilega byggðan upp úr Krýsuvíkurselinu þar skammt ofar. Tóftir selsins eru greinilega mjög gamlar, líklega frá því frá miðöldum og fyrr. Stekkur selsins er uppi í hlíðinni norðan þess. Hann finnst ekki í fornleifaskráningum. Augljóst er að svæðið hefur verið miklu mun grónara fyrrum en nú má sjá. Gata liggur upp frá Eyri til austurs, framhjá selinu og með Trygghólum áleiðis til Krýsuvíkur. Bærinn Eyri var byggður á lækjarbakka. Mjög líklega hefur Vestur- eða Austur-Lækur runnið fyrrum niður með Trygghólum, beygt þar til vesturs sunnan Selöldu og síðan til suðurs um Seldal niður á bergið. Augljóst er lækurinn sá hefur breytt um farveg, jafnvel oftar en tvisvar, því Fitjatúnið sem og allt undirlendi Selöldu er að þakka fyrrum árburði hans um aldir. Trúlega er þarna um Vestur-Læk að ræða.
Tækifærið var notað til að rissa upp bæjartóftirnar og meðfylgjandi mannvirki á Eyri sem og selstöðuna ofan hennar.

Fitjar

Fitjar.

Í “Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII – Krýsuvík, 2021, segir m.a: “Lítið er vitað um ábúð á Fitjum og mjög fáar heimildir til sem segja frá jörðinni, sem var
hjáleiga frá Krýsuvík. Árið 1867 var samt jörðin farin í eyði en í Þjóðólfi 27. febrúar 1867 var getið um dómsmál fyrir yfirdóminum þar sem þrír ábúendur í Krýsuvík sóttu gegn Gísla Jónssyni bónda á Býaskerjum árið 1866. Gísli á að hafa beitt fé sínu við Fitjar í óþökk ábúenda Krýsuvíkur og þar er ljóst að ekki var búið á Fitjum það árið. Eina manntalið þar sem Fitjar eru nefndar var gert árið 1850 og þá voru skráðir 7 þar til heimilis.”

Fitjar

Fitjar (Neðri-Fitjar) – útihús.

Þá segir í skráningunni: “Sömu sögu er að segja um tóftirnar við Neðri Fitjar, ekki er til mikið af heimildum um þann bæ. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar var sagt: „Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar.

Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar.“ Hér er um mislestur að ræða. Bærinn “Neðri-Fitjar” hafa aldrei verið til. Fitjatúnið var nefnt Efri-Fitjar heima við bæ og Neðri-Fitjar nær berginu. Þar eru leifar útihúss við lækinn miðsvæðis.

Fitjar

Brú að Fitjum á Vestari-Læk.

Bjarni F. Einarsson leiddi að því líkum í skráningu hans, “Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi 1998“, að tóftir [austan Selöldu] séu leifar bæjarins Eyri en í örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti sagði að Eyri hafi verið innan við Hafnarberg og farið í eyði 1775. Þá hafa mögulegar seljarústir sem eru um 50m norðvestan við tóftirnar líklega verið einhverskonar forveri býlisins og gætu þær verið mjög gamlar, enda eru þær mjög fornlegar að sjá. Minjarnar við Eyri eru í stórhættu vegna landeyðingar en þær standa við uppþornaðan árfarveg og hressilega er farið að blása uppúr rofabörðunum, t.a.m. er eitt hólf horfið af aðaltóftinni í bæjarstæðinu.” Reyndar eru tóftirnar í mjög lítilli hættu; bæði er svæðið að gróa upp auk þess sem nefndur lækjarfarvegur eru uppþornaður fyrir löngu.

Selalda

Strákar – fjárhús frá Fitjum.

Í “Fornleifaskráning í Grindavík, 2004” segir um minjar á Fitjum: “Fitjatún hefur fyrr verið nefnt, vestur við lækinn, vestur af Selöldu. Þar eru stæðilegar bæjartóttir, mikið túnstæði, og þar voru leifar eftir safngryfju, sem er óvanalegt á þeim árum.” segir í örnefnaskrá. Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Bæjartóftirnar eru austast í túninu, fast vestan við veginn. Túnið er ekki stórt en gróið og slétt. Umhverfis það eru blásnir, ógrónir melar. Austan við túnið rís Selaldan, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs. Svæðið allt er um 30X70 m að stærð og eru þar þrjár tóftir og túngarður.

Fitjar

Fitjar – útihús.

Þegar veginum er fylgt þar sem hann sveigir austur um túnið er fyrst komið að tveimur samliggjandi útihúsatóftum í norðausturhorni túnsins. Sú vestri er stæðilegri, um 6X5 m að stærð úr torfi og grjóti. Eystri tóftin er mjög sigin en mikið grjót er í henni. Hún er 8X4,5 m að stærð. Báðar hafa op á suðurvegg. Hleðsluhæð er um 0,6 m í vestari tóftinni en um 0,3 m í þeirri eystri.

Fitjar

Fitjar – bæjartóftir.

Um 50 m fyrir sunnan útihúsatóftirnar eru bæjartóftirnar, fast vestan vegarins. Þær eru mjög stæðilegar, allar hlaðnar úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1 m og umför grjóts allt að fimm. Tóftirnar snúa mót vestri og eru þrjú op á þeirri hlið. Þær eru um 11X13 m og greinast í fimm hólf. Fast sunnan þeirra er gróin dæld, e.t.v. safngryfjan sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Úr norðaustur- og suðausturhorni tóftanna liggja garðbrot til austurs, en rofna af veginum sem þarna liggur til suðurs. Hugsanlega hafa þau myndað hólf eða garð austan við bæinn. Siginn og gróinn grjóthlaðinn túngarður liggur frá bæjartóftunum norður að útihúsunum, um 50 m.”

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel.

Um tóftirnar við Selhól austan Selöldur segir [Jarðabókin 1703]: “Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi”, segir í Jarðabók Árna og Páls.
Í örnefnaskrá er staðnum lýst svona: “[Strákar] eru vestast á Selöldu, en á Selöldu austarlega er Selhóll, og austastir eru Trygghólarnir.” Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Austan við túnið rís Selalda, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs að Trygghólum, tveimur ógrónum melhólum.

Selalda

Selalda – Strákar.

Vestast á Selöldu eru Strákar, dökkir og úfnir hraundrangar sem sjást bera við himin frá Grindavíkurvegi. Sunnan við Selöldu er annar malarás nefndur Skriða og á milli þeirra er gróið lægðardrag. Í lægðardraginu, sunnan undir Selöldunni austanverðri, þar sem landið hækkar til austurs, eru seltóftir í þýfðu lægðardragi sem hækkar til austurs.” Tóftirnar eru ógreinilegar, en þó mótar fyrir meginhúsi vestast, stakri tóft austar og annarri suðvestast.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Í örnefnalýsingunni er seltóftunum og bæjartóftum Eyrar ruglað saman. Þar segir. “Tóftirnar eru fjórar og sést á milli þeirra allra. Sú nyrsta er alveg í rótum Selöldu, fast austan við stakan móbergsklett í hlíð hennar. Tóftin (A) er mjög gróin og sigin og er ekkert grjót í henni. Hún er um 5X3 m að stærð, og snýr í austur vestur. Op er á vesturvegg hennar.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Um 80 m sunnan við tóftina er önnur tóft (B), bæjartóft og mun greinilegri. Hún er á norðurbarmi grjótgjár sem liggur í austur vestur og er líklega uppþornaður árfarvegur. Tóftin er um 10X7 m á stærð, snýr mót suðri og eru tvö op á þeirri hlið. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og greinist í þrjú hólf. Hleðslur eru signar og er hæð þeirra mest um 0,5 m. Um 8 m austan við tóftina er lítil hringlaga tóft eða dæld. Hún er um 2,5 m í þvermál og aðeins einn steinn sýnilegur í henni. Sumir vilja meina að þetta séu tóftir bæjar sem þarna var og nefndist Eyri.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Um 50 m sunnan við tóft (B), á dálitlum hól sunnan við grjótgjánna er enn ein tóft (C). Hún er hringlaga um 4 m í þvermál, líklega fjárborg. Tóftin hefur verið grjóthlaðin en hleðslur eru nú alveg fallnar. Op hefur líklega verið til vesturs. Um 80 m suðvestan við tóft (C) er síðan tóftaþyrping (D). Tóftirnar eru þrjár og eru á háum hól og sjást því greinilega. Allar eru úr torfi og grjóti, signar og grónar, hleðsluhæð mest um 0,5 m. Sú nyrsta er tvískipt, um 8X5,5 m að stærð og snýr í norður suður. Op er á norðurhlið. Um 1 m fyrir sunnan tóftina er dæld, sem virðist vera manngerð.
Hún er um 9 m löng frá norðri til suðurs og um 0,6 m á dýpt. Eitthvað er af grjóti í börmum hennar, en engar greinilegar hleðslur. Um 1 m sunnan við dældina er síðan sporöskjulaga tóft, um 5X7 m að stærð. Op er á suðurvegg.”

Selalda

Selalda – berggangur.

Krýsuvíkurbjarg (-berg) er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára. Vestari hluti Selöldu er móbergsmyndun, líkt og eystri hlutinn. Grágrýtisberggangar liggja um ölduna alla; dæmigerðir fyrir gos undir jökli.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 10 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík (Þorsteinn Bjarnason frá Háholti).
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII, Krýsuvík – 2021.
-Fornleifaskráning í Grindavík, 3. áfangi – 2004.
-Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi, Bjarni F. Einarsson, 1998.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg). Þar sem Eystri-Lækur rennur fram af berginu (bjarginu) skiptir bjargið (bergið) um nafn skv. örnefnalýsingum. Austan lækjarins heitir bergið “Krýsuvíkurbjarg”, en vestan hans heitir bjargið “Krýsuvíkurberg”.  Fossinn er nafnlaus, en mætti gjarnan heita “Skiptifoss” eða “”Skiftifoss”.

Selalda

Farið var að Selöldu. Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Strákar

Fjárskjól undir Strák.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Fitjar fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Ofar og litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar, nú nánast jarðlægar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var í Sogagíg um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni, Kringlymýri, Selgili og í. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir og gróinn garður. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur eða útihús frá Eyri og au þess hliðsett hús. Allt er þetta búsetulandslag einstaklega áhugavert, ekki bara vegna þess að saga þess hefur ekki verið skráð, heldur má úr því lesa nýtingu svæðisins í gegnum aldrinar. Bæði eðlilegt og sjálfsagt væri að rannsaka svæðið sem heild.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg – horft frá Skriðunni til vesturs.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir fjárhúss og sauðakofa og vestan þeirra er enn heilleg og falleg steinbrú yfir Vestarilæk, sem ástæða er að reyna að varðveita.
Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp ag hraunlögum, grágrýti, en gjalllög ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (vikri og ösku) og hraunlögum. Strákar er ung móbergsmyndun vestan í Selöldu. Bergið er um 45-45 h hátt. Hugsanlega eru hraunin komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.

Fitjar-221

Tóftir Fitja.

Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.
Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt. Ekki er því ólíklegt að í Krýsuvíkurselinu megi finna nytjastað frá fyrri tíð.

Fitjar

Fitjar – stekkur.

Neðan og austan við Fitjar má m.a. sjá leifar af a.k. tveimur hlöðnum refagildrum. Skammt ofan við þær, á eldri lækjarfarvegi Vestari-lækjar eru minjar stekks, gerðis og hugsanlegar kvíar.
Gengið var um Fitjar, upp að Strákum og yfir að Eyri þar sem minjarnar voru skoðaðar. Þá var haldið út á Heiðnaberg, en svo skemmtilega vildi til að björgunarsveitin Þorbjörn var þá einmitt með æfingu á og undir bjarginu. Fylgst var með æfingunni áður en gengið var til baka.
Frábært veður – sól og lygna.

Eyri

Tóftir Eyrar undir Selöldu.

 

Krýsuvíkurbjarg

Haldið var niður í Krýsuvíkurhraun. Ætlunin var að skoða ströndina vestan Seljabótar, en hún er ein sú fáfarnasta á landinu, þrátt fyrir nálægðina við höfðuborgarsvæðið.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg).

Þegar gangan var farin voru samningar lögreglumanna lausir og lítið dregið saman með aðilum. Umhverfið minnti þátttakendur á launasamninganefnd ríkisins og fulltrúa Landssambandsins. Hafið, óráðið og óendanlegt, ólagandi og óviðræðuhæft annars vegar og stórbrotnir klettarnir með ströndinni hins vegar, standandi vörð um landið, óhagganlegir, áreiðanlegir, en vanmetnir.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg (-bjarg).

Ströndin er fjölbreytileg og útsýni með henni víða mjög fagurt. Sjá mátti berar hraunæðar, sem sjórinn hafði sorfið, djúpa svelgi og mikla hraunhella inn undir bjargið. Hrauná rann fram af því á einum stað og annars staðar mátti sjá skrautlegt hraungrýti sem myndi sóma sér vel sem stáss í hvaða stofu sem er.
Veður var með ágætum þrátt fyrir þungan himninn með fjöllunum. Leiðin niður að ströndinni er 2.2 km um rollulaust hraunið, sem allt er að koma til eftir ofbeit liðinna ára.

Krysuvikurbjarg-802

Krýsuvíkurbjarg.

Heiðnaberg

Gengið var frá Ræningjastíg í Heiðnabergi við Hælsvík á Krýsuvíkurbjargi undir Skriðu upp að Krýsuvíkurseli ofan við tóftir bæjarins Eyri í austanverðri Selöldu og áfram upp að Krýsuvíkurkirkju þar sem staðnæmst var við svonefnda Ræningjadys eða Ræningjaþúfur undir Ræningjahól.

Eyri

Eyri – tóft,

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
“Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”

Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
“Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg (-bjarg).

Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”
Fagurt útsýni var af Heiðnabergi. Sjórinn var ládauður, enda hreyfði ekki vind. Þyrsklingasteinn sást vel utan við vesturendar bjargsins. Litið var eftir Ræningjastígnum. Sjórinn hefur nú brotið af neðri hluta hans í móberginu, en enn má sjá móta fyrir efri hlutanum. Haldið var upp með vestanverðri Skriðu og þá komið að tóftum bæjarins Eyri. Við tóftirnar, sem eru ofan við gamlan lækjarfarveg (hugsanlega fyrri farvegur Eystri-lækjar) má sjá móta fyrir garði og tveimur fjárborgum. Vestan við vestari fjárborgina er tóft, sem gæti annað hvort verið gamalt fjárhús með hlöðu eða heykumli í austurenda eða hreinlega enn eldri tóft. Hún hefur svipaða lögun og ein hinna fornu tófta í Húshólma. Ofan við bæjarstæðið eru sagðar vera rústir gamallar selstöðu frá Krýsuvík, en svo virðist sem réttsköpun sels skorti.

Eyri

Eyri – tóft.

Þær eru nú orðnar að mestu jarðlægar, en þó má sjá móta fyrir þeim, einkum á vorin þegar grasið byrjar að grænka, en þá grænkar það fyrst á tóftunum. Hins vegar er ekki útilokað að bærinn hafi vaxið upp úr hinu gamla seli. Útihús er beggja vegna tóftanna, eitt að vestanverðu og tvö að austanverðu. Bæjartóftirnar sjálfar bera keim af selstöðu, þ.e. þrjú rými og gengið inn í tvö þeirra um sama inngang, eins og svo algengt er í seljum á Reykjanesskaganum. Þar gætu hafa verið svefnaðstaða og búr. Þriðja rýmið hefur sérinngang og gæti það hafa verið eldhúsið.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Haldið var upp eftir heiðinni austan við Selöldu og stefnan tekin á Krýsuvíkurkirkju með viðkomu í Arnarfellsréttinni. Hún er enn nokkuð heilleg og má vel sjá skipan hennar og fyrirkomulag. Ræningjahóll blasti við. Gömul gróin varða er á hól á leiðinni. Staðnæmst var við dys ræningjanna svo vel mætti gera sér grein fyrir hvernig atlagan hafi verið þarna undir hólnum eftir að hafa mætt þar séra Eiríki, hinum göldrótta presti Krýsvíkinga.
Í lokin var stuttur fyrirlestur í Krýsuvíkurkirkju um Tyrkjaránið.
Spjöll höfðu verið unnin á kirkjunni líkt og heiðnir Tyrkir hefðu verið þar á ferð.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Jón Árnason I 562.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.