Farið var að Selöldu. Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.
Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Fitjar fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Ofar og litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar, nú nánast jarðlægar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var í Sogagíg um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni, Kringlymýri, Selgili og í. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir og gróinn garður. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur eða útihús frá Eyri og au þess hliðsett hús. Allt er þetta búsetulandslag einstaklega áhugavert, ekki bara vegna þess að saga þess hefur ekki verið skráð, heldur má úr því lesa nýtingu svæðisins í gegnum aldrinar. Bæði eðlilegt og sjálfsagt væri að rannsaka svæðið sem heild.
Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir fjárhúss og sauðakofa og vestan þeirra er enn heilleg og falleg steinbrú yfir Vestarilæk, sem ástæða er að reyna að varðveita.
Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp ag hraunlögum, grágrýti, en gjalllög ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (vikri og ösku) og hraunlögum. Strákar er ung móbergsmyndun vestan í Selöldu. Bergið er um 45-45 h hátt. Hugsanlega eru hraunin komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.
Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.
Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt. Ekki er því ólíklegt að í Krýsuvíkurselinu megi finna nytjastað frá fyrri tíð.
Neðan og austan við Fitjar má m.a. sjá leifar af a.k. tveimur hlöðnum refagildrum. Skammt ofan við þær, á eldri lækjarfarvegi Vestari-lækjar eru minjar stekks, gerðis og hugsanlegar kvíar.
Gengið var um Fitjar, upp að Strákum og yfir að Eyri þar sem minjarnar voru skoðaðar. Þá var haldið út á Heiðnaberg, en svo skemmtilega vildi til að björgunarsveitin Þorbjörn var þá einmitt með æfingu á og undir bjarginu. Fylgst var með æfingunni áður en gengið var til baka.
Frábært veður – sól og lygna.