Færslur

Álftanes

Breiðabólsstaðir voru meðal jarða sem Þorvarður Erlendsson hafði til kaups við brúðkaup þeirra Kristínar Gottskálksdóttur og eru nefndir í kaupmálabréfi hjónanna árið 1508:. “voru þessar jarder til greindar j þennan sama kavpmala. […] Breidabolstadir fyrir. xl.c.“

Breiðabólsstaður

Steinhúsið að Breiðabólsstað.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var jörðin hins vegar komin í konungseign árið 1703, þá kölluð hálfbýli og hafði „ekki fyrirsvar nema að helmíngi.“ Jarðardýrleiki var óviss og þrönglent á sumrin. Mikill ágangur og landbrot var af sjónum og sjávarsandur olli túnunum skaða. Eins og fleiri jarðir á Álftanesi höfðu Breiðabólsstaðir selstöðu í Norðurhellrum í Heiðmörk og sölvafjöru á Lönguskerjum í Skerfjafirði. Ábúandi var Guðlaugur Grímsson og voru 11 manns í heimili.3 Ekki virðist því hafa verið tvíbýli eins og síðar á Breiðabólsstöðum. Þegar manntal var tekið árið 1801 skiptist jörðin þó milli tveggja ábúenda. En árið 1847 voru Breiðabólsstaðir komnir í bændaeign og einungis var einn eigandi og ábúandi. Jarðardýrleiki var 20 5/6 hundruð. Samkvæmt Erlendi Björnssyni voru bæirnir síðan tveir þegar foreldrar hans, Björn Björnsson (1814-1879) og Oddný Hjörleifsdóttir (1838-1901), bjuggu á Breiðabólsstöðum á síðari hluta 19. aldar. Á móti þeim Bjuggu Erlendur Erlendsson hreppstjóri og Þuríður Jónsdóttir. Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 náðu tún jarðarinnar yfir þrjá teiga og voru sléttuð að mestu. Kálgarðar voru samtals 1792 m2 þannig að töluvert hefur verið ræktað af kartöflum og öðru grænmeti.

Álftanes

Breiðabólsstaður.

Land Breiðabólsstaða er flatlent og gróið. Skammt norðan bæjarins er sjávarkamburinn og var sjórinn stundaður af kappi. Austan bæjastæðisins er Breiðabólsstaðatjörn og enn austar Kálfskinn en svo nefnist norðuranginn af Bessastaðatjörn. Austast breiðir Eyrin úr sér, grasi gróin og flöt. Sunnan bæjarins eru þurrar grundir og enn þá sunnar Stekkjarmýrin niður að Bessastaðatjörn. Grund hét áður hjáleiga Breiðabólsstaða norðaustur upp af Kálfskinni. Nú er Grund hins vegar húsið sem er áfast gamla bænum eða steinhúsinu á Breiðabólsstöðum. Önnur nýbýli á jörðinni eru Hvoll suður af bænum og Jörfi suðvestur af honum, nær Kálfskinni. Breiðabólsstaðir voru teknir eignarnámi í stríðinu og var reistur kampur á svæðinu þar sem Jörfi er nú.

Álftanes - kort 1870

Álftanes – kort 1870.

Á túnakorti frá 1917 má sjá að steinhúsið sem byggt var á Breiðabólsstöðum árið 1884 hefur verið staðsett nokkru norðar á bæjastæðinu en hin húsin. Eftir að það var byggt fluttu ábúendur sig þangað og enn þá er búið í þessu húsi. Nú hefur íbúðarhús nýbýlisins Grundar auk þess verið byggt við gamla steinhúsið. Þar eð löngum var tvíbýli á Breiðabólsstöðum hefur þó væntanlega líka verið búið í einhverjum þeirra húsa sem voru í húsaröð suðaustan við steinhúsið.
Bæjastæðið er slétt frá náttúrunnar hendi, þurrt og gróið. Breiðabólsstaðatjörn er austan bæjar og sjórinn norðan við. Eiginlegur bæjarhóll sést ekki en örlítill aflíðandi halli er þó frá gamla steinhúsinu og nýbýlinu Grund niður að tjörninni. Ætla má að núverandi byggingar standi á hinu forna bæjastæði Breiðabólsstaða og að þarna hafi bæirnir staðið um aldir. Ef bæjahóll hefur náð að safnast upp á þessum stað hefur alveg verið sléttað úr honum við byggingu nýrra húsa.

Jón Thorarensen

Sjósókn – Jón Thorarensen. Endurminningar Erlends Björnssonar.

Í endurminningum Erlends Björnssonar frá Breiðabólsstöðum, Sjósókn, segir eftirfarandi: Erlendur Erlendsson hreppstjóri „bjó í stóru steinhúsi sem hann byggði árið 1884. Það er fjórtán álnir á lengd, en níu álnir á breidd með kjallara og portbyggt. Á vertíðum voru fjörutíu manns í húsi þessu. Húsið er byggt úr klofnu og höggnu grjóti, sem tekið var víðsvegar í landareigninni. Grjótið var klofið þar, sem það var, og allt borið heim á tveggja og fjögurra manna börum, en höggvið og lagað betur heima. Veggirnir voru tvöfaldir og loft á milli, og yfir gluggum og dyrum voru drangar svo langir, að þeir náðu alveg yfir. Er hús þetta að öllu leyti ágætt enn í dag. Timbur allt og þak í húsi Erlends var komið úr gríðarstóru salthúsi og fiskhúsi, er stóð fyrrum á Eyrinni niðri við Seyluna í landareign Breiðabólsstaða […] Í kjallaranum í húsi Erlends voru þrjú herbergi, búr, eldhús og sjómannaskáli, sem var helmingur kjallarans. Voru þar tuttugu manns. Á hæðinni fyrir ofan voru þrjú herbergi, stofa fyrir gesti kvennaherbergi, – voru þar átta konur, – svo var helmingurinn af hæðinni kallaður baðstofa, og voru þar húsbændur og heimafólk, fjórtán manns. Var þar unnin ullarvinna og hampvinna á vetrum. Þar var líka vefstóll […] Uppi á loftinu var geymsla.“

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir á Álftanesi.

Steinhúsið á Breiðabólsstöðum var friðlýst af forsætisráðherra 14. júní 2016 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til ytra borðs hússins: „Gamla steinhúsið að Breiðabólsstöðum, Álftanesi var byggt […] úr klofnum og tilhöggnum grásteini sem límdur var saman með kalksandi. Húsið er einlyft með kjallara og portbyggðu risi. Veggir þess eru tvöfaldir með loftbili á milli og yfir dyrum og gluggum eru heilir steinar sem ná alla leið yfir opið. […] Viðir voru fengnir úr gömlu salt- og fiskhúsi Siemsensverslunar sem stóð á Eyrinni niður við Seyluna. Erlendur Erlendsson útvegsbóndi byggði húsið en seldi það síðar nafna sínum Björnssyni.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir – endurgerðir.

Breiðabólsstaðahúsið er vel varðveitt og er verið að gera það upp á vandaðan hátt. Það er fágætur vitnisburður um stórt útgerðarheimili frá seinni hluta 19. aldar þegar umfangsmikil sjósókn var stunduð frá Álftanesi og öðrum sjávarbyggðum við innanverðan Faxaflóa. Að öllum líkindum er það eina heillega húsið frá 19. öld sem enn stendur í sveitarfélaginu. Byggingarlag hússins er athyglisvert og óvenju vandað.“

Á túnakorti frá 1917 er sýnd húsaröð sunnan og suðaustan við steinhúsið. Austast var fjórskipt bygging sem virðist vera úr torfi eða steini.

Breiðabólsstaður

Breiðabólsstaður – kort.

Samkvæmt örnefnaskrá voru Breiðabólsstaðabæirnir „norðarlega í túninu, spölkorn frá sjávarkampinum. Þar var löngum tvíbýli og er enn“, Austurbær og Vesturbær sem „stóðu saman með sameiginlega stétt og hlið og húsagarð […]“. Ef til vill hafi bæirnir tveir upprunalega staðið hlið við hlið í húsaröðinni, annar vestar en hinn austar. Þar eð farið var að búa í steinhúsinu þegar árið 1884 má hins vegar ætla að þá hafi það verið kallað Vesturbær. Eitthvert húsanna í húsalengjunni hefur þá kannski verið Austurbærinn, mögulega það austasta sem stendur suðaustan við steinhúsið á kortinu. Þarna gætu þó líka hafa verið útihús.
Byggingin í miðri húsaröðinni skiptist í þrjú hólf eða sambyggð hús sem af túnakortinu að dæma hafa verið úr steini eða timbri. Langveggirnir í austasta hólfinu eru þó teiknaðir eins og þeir séu úr þykkara efni eins og torfi.11 Mögulega hefur þessi miðjubygging í húsaröðinni verið upprunalegi Vesturbærinn, þ.e. frá því áður en steinhúsið var byggt. Hún gæti þó einnig hafa nýst sem útihús.

Álftanes

Álftanes – minjar við Jörfa.

Vestast í röðinni er svo stakt ferhyrningslaga hús úr timbri eða steini. Erlendur Björnsson segir í endurminningum sínum að heima við bæ nafna hans Erlendssonar sé „stór fiskhjallur með lofti, er var læst, en rimlaveggi á hliðum“. Ekki er greint nánar frá staðsetningu hjallsins en hann var stór og stóð við bæinn og gæti því vel hafa verið vestasta húsið í húsaröðinni.
Engar minjar sjást lengur um húsaröðina sem er sýnd á túnakortinu því nú hefur ný húsalengja verið byggð á grunni þeirrar gömlu. Í nýju húsalengjunni eru bæði uppgerðar íbúðareiningar og útihús. Í stæði austustu byggingarinnar sem sést á túnakortinu er nú hesthús og malarborið hestagerði og er hesthúsið austast í núverandi húsaröð. Miðhúsið á túnakortinu hefur staðið undir miðhluta núverandi húsaraðar og vestasta húsið eða fiskhjallurinn undir vestasta hlutanum. Engar menjar sjást lengur um gömlu húsin.

Breiðabólstaðir

Breiðabólsstaðir – endurgerðir.

Í Jarðabókinni segir um Breiðabólsstaði árið 1703 að „vatn þrýtur í stórum frostavetrum og verður þá á aðra bæi vatn að sækja.“ Þó er vitað um að minnsta kosti tvo brunna á bænum gegnum tíðina. Á túnakortinu árið 1917 er brunnur merktur inn þar sem Breiðabólsstaðatún mætir Akrakotstúni, nokkru norðvestan við steinhúsið en suðaustan Akrakots. Brunnur er enn þá varðveittur á þessum stað, þ.e. á hlaðinu vestan við steinhúsið og nýbygginguna Grund. Hlaðið er malarborið og brunnstæðið vel greinilegt en keyrt er í kringum brunninn. Honum hefur þó verið breytt í áranna rás. Dæla hefur verið sett í hann, að líkindum fyrir stríð, og hann var notaður fram á 7. áratug 20. aldar þar til vatnsveita kom í hreppinn. Brunnurinn hefur verið hlaðinn upp og steinsteyptur og er því talsvert breyttur frá því sem áður var.

Álftanes

Álftanes – minjar á Norðurnesi.

Samkvæmt örnefnalýsingu var brunnur hins vegar einnig staðsettur suðvestan við steinhúsið: „Brunnur var í túninu, suðvestur frá bænum. Hann var á mörkum milli Breiðabólsstaða og Akrakots – þó Breiðabólsstaðamegin við merkin. Brunngata lá frá honum til bæjar. Nú er komin vatnsveita og Brunnurinn aflagður.“ Suðvestur frá steinhúsinu má sjá leifar gamals brunns á svipuðum slóðum. Hann er að vísu Akrakotsmegin við hina gömlu merkjalínu bæjatúnanna en þar eð örnefnalýsingar eru ekki alltaf nákvæmar getur þetta þó engu að síður verið sami brunnur. Varðveist hefur hleðsla sokkin á kaf í sinu og þýfi. Hún er hlaðin úr talsvert stórum steinum, ferköntuð, 1,5 m á kant og 0,3 m á hæð, innanmálið um 1 x 0,5 m. Þessi hleðsla minnir mjög á brunn. Um 3 m austan við hana er breiður skurður og byggingaframkvæmdir hafa farið fram austan hans og um 15 m suðaustan hleðslunnar. Þótt örnefnalýsingin staðsetji vatnsbólið vestan megin við mörkin getur þetta þó vel verið sá brunnur sem þar er sagt frá.

Alftanes

Borgarhóll.

Samkvæmt túnakorti er stórt útihús sem virðist vera úr torfi norðaustur af húsaröðinni en austur af steinhúsinu. Það stendur austan megin í kálgarði við bakka Breiðabólsstaðatjarnar og hefur stefnuna norðvestur – suðaustur. Það hefur staðið á mörkum hestagerðis sem er þarna núna og sléttaðs svæðis gamla kálgarðsins. „Heima var fjós og heyhlaða“ segir Erlendur Björnsson í umfjöllun um Breiðabólsstaði en ekki kemur fram nákvæmlega hvort þau hafi staðið þarna eða annars staðar. Ekki sést til fornleifa.

Álftanes

Álftanes – kort.

Stór tóft er varðveitt á Eyrinni niðri við Seyluna, norðvestur frá Kálfskinni. Hún stendur á sendnum sjávarkambi með melgresi og eru seinni tíma sjóbúðir og naust í kring. Tóftin virðist hafa afmyndast talsvert af sandburði og auk þess hefur verið keyrt yfir hana. Hún er þó um 14 x 10 m að utanmáli með stefnuna norðaustur – suðvestur og er stórt op á langveggnum sjávarmegin.
Á þessum slóðum var áður salthús og fiskhús, byggt á seinni hluta 19. aldar og nefndist Eyrarhús eftir Eyrinni. Í örnefnalýsingu segir: „Eyrarhús var við Seyluna, rétt fyrir sunnan Rastartanga. Það var fisktökuhús. Eyrarhús var rifið um 1884 og viðirnir notaðir í steinhúsið á Breiðabólsstöðum. Tóftir Eyrarhúss sjást enn.“

Álftanes

Á 19. öld hafði engu verið raskað við Bessastaðatjörn né Dugguós. Í ósnum var mikil kolaveiði og hún talin mikil hlunnindi fyrir Bessa- og Breiðabólsstaði. Það er athyglisvert hvað Erlendur Björnsson, fæddur 1865, segir um þróun kolaveiðinnar. „Árið eftir að fyrstu togararnir komu hér í Faxaflóa, hurfu þessi dýrmætu hlunnindi frá þessum tveim jörðum og verður sá skaði alltaf ómetanlegur“.
Ein af frásögnum Erlends er með ólíkindum. Þar segir frá róðri sem hann fór í árið 1890 á sexæringi við þriðja mann í blíðskaparveðri vestur á Svið, nánar til tekið í Fláskarðið vestur af Marflónni. Þar lögðust þeir félagar við stjóra. Eftir að hafa dregið sjóðvitlausan þyrskling þar til beituna þvarr urðu góð ráð dýr. Enn var stafalogn, heiðríkja og skammt liðið dags.
Erlendur gerði þá leit í bátnum og fann stóran öngul með blýsíld á leggnum.
Hann flakaði þyrskling og „beitti sig niður“ til að reyna við lúðu. Að „beita sig niður“ fólst í því að sitja sem lægst í bátnum og láta hægri handlegginn (væri viðkomandi rétthendur) liggja út fyrir borðstokkinn og hafa færið kyrrt í hendinni.
Skemmst er frá því að segja að Erlendur dró tuttugu og tvær „flakandi lúður“ (á bilinu 50 – 155 kg) þennan dag. Aðeins liðu fjórtán klukkutímar frá því þeir héldu í róðurinn og þar til þeir komu að. Ástæða þess að þeir héldu til lands var ekki sú að tekið hefði undan. Síður en svo, lúðan virtist jafnör og í upphafi, en það var komin lognhleðsla á bátinn.
Í lok kaflans þar sem þessum róðri er lýst er haft eftir Erlendi: „Þessi róður minn út á Sviðið….er gott dæmi þess hvílík gullkista það var, áður en botnvörpuveiðar og lúðuskip frá Ameríku hófu rányrkju sína hér í flóanum”.

Erlendur Björnsson segir einnig frá Eyrarhúsi og steinhúsi Erlends Erlendssonar á Breiðabólsstöðum: „Timbur allt og þak í húsi Erlends var komið úr gríðarstóru salthúsi og fiskhúsi, er stóð fyrrum á Eyrinni niðri við Seyluna í landareign Breiðabólsstaða. Siemsensverzlun átti þetta hús fyrst. Á vorin kom skip inn á Seyluna með salt, er skipað var upp í þetta hús, en seinni part sumars seldu bændur verkaðan og þurrkaðan saltfisk kaupmanni þeim, er átti þetta hús, og fluttu fiskinn í það. Kaupmaður sá, er verzlaði þarna síðast, hét G. E. Unbehagen, og átti hann þetta gríðarmikla hús.
Á haustin kom svo skip til þess að sækja fiskinn. Þessi Unbehagen kaupmaður, sem var þýzkur, seldi svo Erlendi þetta hús fyrir fjögur hundruð krónur. Salthús þetta var að minnsta kosti tuttugu álnir á lengd og tólf álnir á breidd, allt byggt úr framúrskarandi góðu timbri með timburþaki og allt lagt með hellu. Var timbrið og hellan notað í hús Erlends.“
Miðað við frásögn Erlends var Eyrarhús eingöngu úr timbri og ekki er minnst á hlaðna veggi. Með hliðsjón af mögulegri lengd álnar á 19. öld hefur það verið um 12,5 x 7,5 m eða enn þá stærra. Utanmál tóftarinnar sem varðveitt er á staðnum er nokkuð meira þannig að það munar 1,5-2,5 m. Það er þó ekki að marka vegna þess hve hún er útflött og því er vel hugsanlegt að þarna séu leifar af grunni undan timburhúsinu. Þessar minjar eru í hættu vegna þess að keyrt er yfir þær.

Á túnakorti 1917 eru umgirtir kálgarðar við bæjarhúsin á Breiðabólsstöðum, norðan og sunnan við húsaröðina, en austan og suðaustan við steinhúsið. Garðarnir eru umgirtir veggjum hlöðnum úr grjóti eða torfi að sunnan, vestan og austan. Austast fellur veggurinn á nyrðri garðinum saman við túngarðinn.

Álftanes

Álftanes – minjar við Jörfa.

Samkvæmt örnefnalýsingu var Heimagarður austan steinhússins: „Kálgarðar voru heima við húsið, Heimagarður austan þess og Hróbjartsgarður vestan þess. Hann var kenndur við Hróbjart Sigurðsson, bónda á Breiðabólsstöðum.“ Kálgarðurinn sem er á milli steinhússins og Breiðabólsstaðatjarnar á túnakortinu en norðan við húsaröðina gæti verið Heimagarður. Enn þá er grjóthleðsla austan við steinhúsið, á þeim slóðum sem vesturhlið kálgarðsins var samkvæmt túnakortinu. Hún er um 12 m löng, 0,5 m breið og 0,3 m há, farin að renna í sundur en sjást þó 3 umför af grjóti í henni. Líklegt er þó að garðurinn hafi verið endurhlaðinn í tímans rás þannig að þetta þarf ekki að vera sami garður og sýndur er á túnakortinu. Engar menjar eru um kálgarðinn sem á túnakortinu er sunnan við bæjarröðina og ekki heldur um Hróbjartsgarð sem á að hafa verið vestan við steinhúsið.

Álftanes

Borgarhóll – Í örnefnalýsingum segir: „Borgarhólar: Svo heita hólar syðst í Stekkjarmýrinni.“ „Sunnan við Stekkjarmýrina er hár hóll, alltaf nefndur Borgarhóll. Hann er nú kominn í tún, en heldur alveg lögun sinni. Í honum á að vera grafin gullkista. Björn [Erlendsson] heyjaði Borgarhól í rúm 40 ár og hraktist aldrei tugga á honum.“ Borgarhólar eru syðst í landi Breiðabólsstaða, um 400 m suðsuðaustur frá gamla steinhúsinu [781]. Þeir gnæfa grasi grónir yfir flatlendið í kring og Stekkjarmýrin er í raun suðaustan þeirra, suðvestur frá þeim gengur nesið Langi út í Bessastaðatjörn og vestan megin er tún. Sérstaklega er einn hóllinn áberandi og tengjast sagnirnar um fjársjóðinn honum samkvæmt ábúendum í Jörfa. Það að hóllinn skuli vera kenndur við borg gæti auk þess bent til að þarna hafi verið fjárborg. Hólinn er um 13 x 13 m á stærð, hringlaga og siginn í miðjunni. Líklegt er að þetta séu leifar fjárborgar úr torfi.

Í örnefnalýsingum segir: „Borgarhólar: Svo heita hólar syðst í Stekkjarmýrinni.“ „Sunnan við Stekkjarmýrina er hár hóll, alltaf nefndur Borgarhóll. Hann er nú kominn í tún, en heldur alveg lögun sinni. Í honum á að vera grafin gullkista. Björn [Erlendsson] heyjaði Borgarhól í rúm 40 ár og hraktist aldrei tugga á honum.“ Borgarhólar eru syðst í landi Breiðabólsstaða. Þeir gnæfa grasi grónir yfir flatlendið í kring og Stekkjarmýrin er í raun suðaustan þeirra, suðvestur frá þeim gengur nesið Langi út í Bessastaðatjörn og vestan megin er tún. Sérstaklega er einn hóllinn áberandi og tengjast sagnirnar um fjársjóðinn honum samkvæmt ábúendum í Jörfa. Það að hóllinn skuli vera kenndur við borg gæti auk þess bent til að þarna hafi verið fjárborg. Hólinn er um 13 x 13 m á stærð, hringlaga og siginn í miðjunni. Líklegt er að þetta séu leifar fjárborgar úr torfi.

Breiðabólsstaðatúngarður landamerkjagarður garðlög Minnst er á túngarðsbrot við Breiðabólsstaði þegar í Landamerkjaskrá árið 1887: „að vestanverðu er grjótgarðsbrot sem skilur Akrakotstúnið frá Breiðabólsstaðatúninu þessi grjótgarður liggur frá brunninum (vatnsbólinu) og suður í túngarð […]“.

Borgarhóll

Borgarhóll – Bessastaðir að baki.

Á túnakorti 1917 er mestallt túnið umgirt garði hlöðnum úr grjóti eða torfi. Í örnefnaskrá 1964 segir: „Garður af grjóti, aðallega að norðan, eins milli Breiðabólsstaða og Akrakots.“ Örnefnalýsingu 1977 ber saman við landamerkjaskrána og bætir við: „Túnið var stórt og var allt í kringum bæinn. Um það mest allt var hlaðinn túngarður, alltaf nefndur Breiðabólsstaðatúngarður afbæjar. Nú er búið að rífa þennan garð. Grjótið úr honum var notað til varnar sjávargangi og svo er um grjót úr flestum túngörðum hér á nesinu.“

Álftanes

Stríðsminjar við Jörfa.

Túnin við Breiðabólsstaði og Akrakot eru slétt af náttúrunnar hendi, smáþýfð og gróin, og er svæðið nú notað fyrir hesta. Túngarðurinn er enn þá varðveittur á kafla norðaustan við bæinn á Breiðabólsstöðum, vestan Breiðabólsstaðatjarnar. Deiglent er austan garðsins, við tjörnina, en þurrar grundir vestan hans. Garðurinn er grjóthlaðinn en hleðslurnar runnar í sundur. Hann er siginn og yfirgróinn og hverfur sums staðar í mosa og sinu. Hæðin er mest um 0,4 m en breiddin allt að 1 m. Þessi varðveitti hluti af gamla hlaðna túngarðinum er samtals um 61 m langur og liggur nálega norðvestur – suðaustur. Á þeim slóðum sem mörkin lágu áður milli bæjatúnanna samkvæmt túnakortinu má hins vegar sjá um 80 m langt garðlag og eru þar sennilega leifar landamerkjagarðs milli Breiðabólsstaða og Akrakots. Erfitt er að greina þetta á vettvangi en garðlagið sést vel á loftmynd.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir.

Í Jarðabók árið 1703 segir um Breiðabólsstaði: ,,Heimræði er þar árið um kríng og lendíng góð.“ Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Breiðabólsstaðavör: „Hún lá í sjó fram norður af Traðarhliðinu.“38 Í örnefnalýsingu 1977 segir: „Heimavör var einum 100-150 m norðan við Akrakotsvör. Í henni lentu Breiðabólsstaðamenn hér áður og einnig eftir að sjóvarnargarður hafði verið hlaðinn með ströndinni, en þá lokaðist leiðin beint niður að Akrakotsvör. […] Lönd heita beggja megin Traðanna – Efri-Lönd sunnan þeirra og Neðri Lönd að norðan. Fiskur var áður borinn upp á Efri-Löndin og gert að honum þar. (Ath. Sveinn [Erlendsson] telur nafnið dregið af því, sbr. að landa).“
Sandfjara er norðan bæjarhúsa en mikið land hefur brotnað á þessum slóðum og er umhverfið við sjóinn að líkindum talsvert breytt. Nú er þykkur vélhlaðinn sjóvarnargarður á sjávarkambinum við Breiðabólsstaði. Þó er rof í honum fyrir norðurenda sjávargötunnar frá bænum og þar fyrir neðan hefur vörin verið.

Álftanes

Camp Brighton – varðskýli.

Nokkru vestar eru stríðsminjar frá hverfinu Brighton meðfram akvegi. Á korti Erlends Björnssonar af byggð Álftaness um 1870 er Grund merkt inn norðaustan Breiðabólsstaðatjarnar og norðvestur upp af Kálfskinni. Þetta virðist í samræmi við upplýsingar úr örnefnalýsingum: Grund var „þurrabúð frá Breiðabólsstöðum […] austan bæjar […] innan við Kasttanga […] norður á Nesinu.“ Útihúsin frá Grund stóðu fast norðan Breiðabólsstaðatjarnar og fast austan við þau „stóð áður þurrabúðarbýlið Grund. Þar kom Sveinn [Erlendsson ábúandi á Grund] ofan á öskulag þegar hann fór að rækta.“

Álftanes

Álftanes – Eyri; tóft.

Tóft er á Eyrinni vestan við malarveg við sjóinn rétt áður en hann liggur út á Eyrarodda milli Seylu og Kálfskinns. Þetta er skammt austan við ristusvæði og smátjörn á norðausturbakka Kálfskinns. Þurrt er á tóftarstæðinu en deiglendi í kring og tjarnirnar nálægar. Tóftin stendur á svolítilli hæð sem er heldur grónari eða grænni en umhverfið. Hún hefur hlaupið í þúfur og sést ekki grjót í henni. Stærðin er um 7,6 x 6,8 m og veggjahæð 0,4 m. Tóftin virðist vera einföld því hólf eru ekki sýnileg en op er ef til vill inn í hana norðvestan megin.

Um Akrakot segir í Jarðbókinni árið 1703: ,,hálflenda so kölluð, því hún hefur ekki nema helmíngs fyrirsvar á móts við lögbýlissjarðir, hefur í manna minni, innan 60 ára, bygð verið úr Bárhaukseyrar landi á fornum tóftum, sem sumir hyggja fyr hafi bygðar verið og kallað Akrar. Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn kóngl. Majestat.“

Álftanes

Álftanes – brunnur í Camp Brighton við Jörfa.

Við Jarðatal Johnsens árið 1847 var Akrakot komið í bændaeign og eigandinn bjó sjálfur á jörðinni sem metin var á 12 hundruð. ,,Túnið fordjarfast af sands og sjáfar ágángi“ segir í Jarðabókinni en samkvæmt túnakorti voru Akrakotstúnin árið 1917 sléttuð að mestu og náðu yfir samtals 2,2 teiga heima við bæinn og við Breiðabólsstaði. Matjurtagarðar voru alls 380 m2. Sölvafjara var nægileg og var þangbrennsluverksmiðja rekin í Akrakoti í nokkur ár í byrjun 20. aldar. Samkvæmt Erlendi Björnssyni voru tveir ábúendur á Akrakoti og virðist því hafa verið tvíbýli þar á síðari hluta 19. aldar.

Álftanes

Akrakot – túnakort 1911.

Á túnakorti árið 1917 er teiknað stakt hús innan kálgarðs og þar hjá ritað „gömlu bæir“ innan sviga. Væntanlega hefur gamli Akrakotsbærinn því staðið þarna rétt sunnan við stærri byggingu, hús þangbrennsluverksmiðju frá því um 1900 sem er sýnt á kortinu og stendur enn á sama stað, nú sem íbúðarhúsið í Akrakoti eða við Blikastíg 16. Lóðin umhverfis íbúðarhúsið er fremur slétt eins og grundirnar víða á Álftanesi en ójöfnur eru í henni þar sem gamli bærinn hefur staðið miðað við túnakortið. Engar leifar frá honum eru þó sýnilegar á yfirborði.
Útihús heimild Á túnakortinu má sjá útihús við suðausturhorn kálgarðs. Þar sem útihúsið og kálgarðurinn voru er nú malarborin heimreið að Blikastíg 16 og steinsteyptur bílskúr. Ekki sést til fornleifa.

Álftanes

Stríðsminjar við Jörfa.

Virki rista og mógrafir heimild Í Jarðabókinni segir um Akrakot árið 1703: “Torfrista og stúnga og móskurður hjálplegt.“ Ekki kemur fram hvar mórinn var tekinn en líklega hafa bæði Akrakot og Breiðabólsstaðir stundað mótekju á sama stað og síðar: „Mýri, sem liggur milli Akrakots og Landakots, heitir Virki“ segir í örnefnaskrá. Mýrin er merkt inn á örnefnakort Álftaness sunnan við Kasthústjörn beggja megin lækjar sem rann úr henni í Bessastaðatjörn og skildi milli landa Akrakots og Landakots. „Mikil mótekja var í Virkjum.“ Til marks um það er meðal annars talið að þegar Tyrkir lágu með annað skip sitt á Lönguskerjum á Skerjafirði árið 1627 voru svo „margir móhraukar í mýrinni“ að þeim sýndist „þar fara vopnaður her og lögðu þeir á flótta strax og skipið flaut. Draga Virki ef til vill nafn sitt af þessum atburði.“

Álftanes

Álftanes – stríðsminjar í Camp Brighton við Jörfa.

Í örnefnalýsingu kemur líka fram að áður hafi verið „svolítil þúst niður við Kasthúsatjörn, Akrakotsmegin“ og taldi Björn Erlendsson á Breiðabólsstöðum „ekki ólíklegt að þar hafi verið leifar af einhverju virki“. Hvað sem þessari örnefnaskýringu líður var að minnsta kosti mór í mýrinni og varnir voru í Skansinum við Bessastaði. Nú hefur túnið verið sléttað og ekki sjást mógrafir á Virkinu.
Akrakotstúngarður heimild Miðað við túnakortið hefur legið girðing eða garður meðfram sjónum um 50 m norðan Akrakots. Í örnefnaskrá segir: ,,Akrakotstúngarður: Garður af grjóti á sjávarkampinum. Akrakotstúngarðshlið: Það var á garðinum út frá bænum.“ Umhverfið er mjög breytt norðan við Akrakot. Sjórinn hefur brotið mikið land og gríðarmikill vélhlaðinn sjóvarnargarður er nú á kambinum. Engar leifar sjást af Akrakotstúngarði.

Álftanes

Álftanes – Akrasteinn.

Í örnefnalýsingum segir frá álagasteini í Akrakotstúni: ,,Akrasteinn: Stór steinn suður á túninu. Álagasteinn.“ Honum fylgja þau ummæli, að hann megi ekki hreyfa. „Steinn þessi er nyrzt í svonefndu Torfholti, grýttu og þýfðu.“ Akrasteinn er um 185 m suðvestur frá Akrakoti. Í túninu er að finna einn stakan stein og síðan rétt sunnan við hann eru nokkrir steinar saman. Sennilega er þessi staki steinn Akrasteinn. Túnið í kringum hann er nú þýft og gróið og svæðið notað fyrir hrossabeit.
Rétt norðan bæjarins er á túnakortinu sýndur kálgarður og er gamla þangbrennsluhúsið á milli hans og bæjarins. Garðurinn liggur samhliða þangbrennsluhúsinu, vestur – austur, og er ekki mikið stærri en það. Girðing virðist vera í kringum hann. Þarna er nú malarborin heimreið að íbúðarhúsinu við Blikastíg 16. Engar menjar sjást lengur um þennan kálgarð.
Á túnakortinu gengur kálgarður suður út frá gamla bænum og virðist hlaðinn garður liggja utan um hann mestallan. Nú nær lóðin við Blikastíg 16 yfir svæði þessa garðs. Ekkert sést lengur til hans.

Álftanes

Álftanes – varir.

Á túnakorti Akrakots má sjá hús þangbrennsluverksmiðjunnar um 10 m norðan gamla bæjarins. Húsið var byggt rétt eftir aldamótin 1900 og stendur enn þá í nokkuð breyttri mynd, nú sem íbúðarhúsið við Blikastíg 16. Austasti hluti hússins er að stofni til gamla þangbrennsluverksmiðjan sem var starfrækt á árunum 1904-1908: „Til vinnslunnar voru reist talsvert umfangsmikil mannvirki. Á víð og dreif um túnin voru settir staurar og vírar strengdir á milli og var þarinn lagður á þá til þurrkunar […] Byggt var stórt steinhús í Akrakoti til þess að brenna þarann í. Eftir endilöngu var steyptur ofn. Fjögur steypt hólf voru til að brenna þarann í og tvö þar sem kol voru brennd.“

Álftanes

Breiðabólstaður – túnakort.

Áberandi strompur stóð lengi við austurgafl hússins og minnti á upphaflegt hlutverk þess en hann hefur nú verið rifinn frá húsinu. Það var breskt félag sem stundaði þarabrennslu á Akrakoti og var hann fluttur út til Skotlands til joðframleiðslu.67Á síðustu áratugum hefur húsið svo verið stækkað örlítið og byggður bílskúr norðan við gamla bæjarstæðið.
Í Jarðabók árið 1703 segir um Akrakot: ,,Heimræði er árið um kríng og lendíng sæmileg.“ Í örnefnalýsingum segir nánar frá lendingu við Akrakot og Breiðabólsstaði: „Akrakotsvör: Hún var vestast í fjörunni í Breiðabólsstaðafjöru.“ Vörin er beint niður af bænum [á Breiðabólsstöðum] og lágu Traðir frá íbúðarhúsinu niður í hana. Réttu nafni hét hún Akrakotsvör, þótt hún væri í landi Breiðabólsstaða. Breiðabólsstaðamenn lentu alltaf í þessari vör þegar þeir bræður [Sveinn og Björn Erlendssynir á Breiðabólsstöðum] mundu eftir, enda ekkert útræði þá frá Akrakoti. En þarna átti Akrakot áður uppsátur fyrir allan sinn skipastól endurgjaldslaust.“ Fiskurinn var borinn upp á svokölluð Efri-Lönd, völlinn sunnan við traðirnar og gert að honum þar. Lendingin hefur verið um 140 metra norðvestur frá Akrakoti. Hennar sjást engin merki nú við fjöruna en á loftmynd má greina hvar vörin hefur verið. Mikið landbrot er á þessum slóðum og hefur nú verið reistur mikill sjóvarnargarður. Sandfjara er við sjóvarnargarðinn norðan og norðvestan Akrakots.

Varðturn er hlaðinn úr ávölu sjávargrjóti og steinsteypt á milli. Hann er um 1,5 m að innanmáli og stendur vel undir þaki. Hann er sexhyrndur, með glugga á fimm hliðum en dyr á þeirri sjöttu. Lítið kringlótt op er þar sem tvær hliðarnar mætast gegnt suðri. Varðturninn er farin að láta á sjá og þarfnast viðgerðar. Mikilvægt er að eitthvað verði gert til að reyna varðveita þetta hús.

Álftanes

Varðskýlið við Jörfa.

Um 150 vestur af strompinum við samkomubragga hermannanna var loftskeytastöð, sérstætt mannvirki sem stendur enn þá. Stöðin er steinsteypt, um 10 x 4 m að utanmáli, og eru tvær skábrautir á henni með dekkjabreidd á milli, líklega til að hægt hafi verið að keyra upp á hana. Við enda skábrautanna er kantaður pallur með gat í miðju.

Samkomusalur var miðju braggahverfinu, suðaustan við Jörfabæ, er hár strompur á hól. Strompurinn stóð í norðausturenda stórs bragga sem var samkomusalur hermanna og var meðal annars notaður sem bíósalur. Hóllinn suðvestan við strompinn er um 22 x 15 m stór, og gefur stærðin vísbendingu um stærð braggans. Strompurinn er eins og varðturninn [812] byggður úr ávölu sjávargrjóti sem er steypt saman. Hann er 2 x 1 m að grunnmáli og 3-4 m hár. Neðst á honum var múrsteinshlaðinn arinn og sér enn glitta í efri hluta arinopsins í hólnum. Strompurinn hefur þó sigið í hólinn og hlaðist að honum sina og jarðvegur. Þessi stóri braggi var lengi notaður undir dansleiki á Álftanesi.

Á tjarnarbakkanum í austurjaðri túnsins við Jörfa, um 40 m norðaustur frá braggagrunnunum eru leifar af steinsteyptu salerni frá setuliðinu. Það er um 7×2,3 m á stærð og snýr norður – suður. Salernið skiptist í stærra hólf í nyrðri hlutanum sem er um 5×2 m á stærð með steinsteyptri gólfplötu og minna hólf, um 2×1 m, þar sem ekki er nein gólfplata. Rennur eru á veggjaleifum sem eru eftir.

Álftanes

Álftanes – Camp Brighton.

Á tjarnarbakkanum rétt suðaustan við salernið eru leifar af óþekktu mannvirki. Ekki verður greint úr frá tætingslegum brotunum til hvers það hefur verið notað.
Verkstæði hermannanna var í bragga um 80 m vestur frá varðskála. Þar sem hann stóð má enn greina steinsteyptan grunn og tvo samsíða garða eða braggabrúnir. Um 6 m bil er á milli þeirra og hefur það verið breidd braggans. Hann hefur snúið norðnorðaustur – suðsuðvestur. Verkstæðið hefur verið talsvert langt frá öðrum byggingum hersins.
Á tjarnarbakkanum um 10 m austan við salernið er tóft frá einhverju óþekktu mannvirki. Hún er um 4×4 m á stærð og 0,5 m á hæð. Grjóthleðsla er utan með henni og auk þess hefur hún verið fyllt af grjóti sem nú er vaxið mosa. Trúlega hefur þarna verið enn eitt húsið frá setuliðinu, mögulega í sambandi við salernið eða þá skotbyrgi.
Brunnur er í túninu vestan við Jörfa frá hernámstímanum. Vatnsskortur var á svæðinu og var vatn flutt inn með tankbílum. Brunnurinn er 4×1,6 m að utanmáli en inni í honum er ferhyrninglaga niðurgröftur, 1,8×1,8 m.

Álftanes

Herforingjakortið af Álftanesi 1908.

Þar sem íbúðarhúsið Seyla stendur nokkru austan við Jörfabæ voru áður vatnstankar setuliðsins í þremur stærðum. Á áratugunum eftir stríð voru þeir notaðir sem rotþrær frá Jörfa. Vatn var flutt inn frá Reykjavík með tannbílum en vatnsból Álftnesinga dugðu heimamönnum varla í þurrkatíð.

Álftanes

Álftanes – Baðhús og samkomuhús Camp Brighton við Jörfa.

Um 25 m austur frá íbúðarhúsi Seylu var baðhús hermannanna sem voru í Brighton kampi. Það stendur enn undir þaki og nota ábúendur það sem geymsluskúr. Húsið er um 10×5 m á stærð og snýr suðvestur – norðaustur. Gengið er inn um bíslag á langvegg suðaustan megin. Rennur eru í steinsteyptu gólfinu.

Á svæðinu voru skráðar 77 fornleifar sem tengjast annars vegar sjósókn, fiskvinnslu og öðrum búskap frá bæjunum Breiðabólsstöðum, Akrakoti og Grund en hins vegar veru hersins á Álftanesi á stríðsárunum.

Álftanes

Stríðsminjar; samkomusalur, við Jörfa.

Á Breiðabólsstöðum er ekki mikið eftir af sýnilegum minjum. Eldri mannvirki hafa horfið undir nýrri byggð en gera má ráð fyrir að byggt hafi verið á svipuðum slóðum öldum saman. Leifar bæja geta því leynst í jörðu. Gamli bærinn sem nú er búið í er steinhús frá 1884 sem vafalítið er elsta húsið í Garðabæ. Hann hefur því mikilvægt sögulegt gildi fyrir bæjarfélagið. Á hlaðinu við bæinn hefur jafnframt varðveist gamall brunnur sem að nokkru leyti hefur verið gerður upp og leifar frá öðrum brunni finnast nokkru sunnar. Þá eru þarna hleðslur sem legið hafa kringum matjurtagarða, hluti af gamla Breiðabólsstaðatúngarðinum og landamerkjagarði milli Breiðabólsstaða og Akrakots. Gömlu traðirnar eru enn þá sýnilegar á kafla og sjávargata liggur niður að sjó þangað sem lendingin var í Breiðabólsstaðavör. Hún er að vísu horfin í sjóinn en Akrakotsvör sem með tímanum var einnig nýtt frá Breiðabólsstöðum er enn þá greinanleg. Suður frá Breiðabólsstöðum er þústin Meyjarhóll sem virðist vera manngerð og sunnan við nýbýlið Hvol hefur varðveist tóft. Eftirtektarverður er einnig Borgarhóll.
Fornleifaskráning Norðurnes á Álftanesi við Stekkjarmýri en þar virðast vera leifar fjárborgar. Engar menjar sjást hins vegar um stekkinn sem mýrin hefur verið kennd við.

Álftanes

Álftanes – stríðsminjar.

Fyrir utan Akrakotsvör eru engar sýnilegar minjar við Akrakot nema svokallaður Akrasteinn sem á að hafa verið álagasteinn. Gömlu bæjarhúsin eru horfin en hér gildir þó sem annars staðar að eldri bæjarleifar geta leynst undir sverði. Hafi Akrakot verið byggt á fornum tóftum eins og sagt var gæti þar líka hafa verið byggð í mörg hundruð ár. Loks er sjálft íbúðarhúsið við Blikastíg 16 merkilegt fyrir að hafa áður hýst gömlu þarabrennsluna á Akrakoti. Þótt það hafi verið aðlagað breyttu hlutverki í nútímanum er það minnisvarði um forna atvinnuhætti og fyrstu og einu verksmiðjuna fyrir þangbrennslu í Garðabæ. Þessi bygging er ekki miklu yngri en steinhúsið á Breiðabólsstöðum þannig að á þessu svæði eru varðveitt tvö sérstæð gömul hús sem njóta friðunar. Steinhúsið er sérstaklega friðlýst.
Ýmsar áhugaverðar minjar leynast einnig í landslaginu á Eyrinni. Norður upp af Kálfskinni eru minjasvæði sem líkur eru á að tengist þurrabúðarbýlinu Grund. Þar eru sýnilegar tóftir sem gætu verið frá bænum og ójöfnur í sverði benda til þess að leifar gamla bæjarstæðisins séu þar undir. Aðrar tóftir nokkru vestar eru þá trúlega frá útihúsum Grundar. Tóftir sem fundust lengra úti á Eyrinni við fornleifaskráningu árið 2004 eru hins vegar horfnar. Þessar tóftir voru einnig taldar tengjast Grund en þrátt fyrir nákvæma skráningu hefur verið sléttað úr þeim án frekari rannsóknar og er það miður.

Álftanes

Álftanes – stríðsminjar.

Við Seyluna er annað minjasvæði tengt útgerð og fiskvinnslu. Þar er grunnurinn frá Eyrarhúsi, stóru salthúsi og fisktökuhúsi, og mögulega leifar frá íshúsi. Örlítið sunnar, nær Kálfskinni eru fleiri tóftir sem gætu verið frá sjóbúðum og annarri starfsemi tengdri fiskveiðum. Á þessu svæði virðast einnig vera menjar um forna beðasléttun, mógrafir og torfristu.
Einstakt er svo minjasvæðið í kringum nýbýlið Jörfa í landi Breiðabólsstaða. Þarna var á stríðsárunum svokallaður Brighton kampur og hafa ábúendur á Breiðabólsstöðum og Jörfa lagt sig fram um að hrófla ekki við minjunum. Á kampinum voru fjölbreytt mannvirki sem tengdust veru setuliðslins á Álftanesi, heilu braggahverfin með varðskála, setuliðshúsi, baðhúsi, fjarskiptastöð og loftvarnarbyrgi o.fl. Þótt braggarnir hafi verið rifnir eftir stríð sjást grunnarnir enn þá vel og sumar af hinum byggingunum hafa varðveist að hluta eða í heild. Varðturn og strompur við samkomusal standa enn þá og gefa landslaginu sterkan svip. Þetta er óvenjulega heillegt stríðsminjasvæði og er mikilsvert að það skuli hafa varðveist sem heild. Brighton kampur hefur tvímælalaust mikið varðveislu- og fræðslugildi og væri tilvalið að setja upp fræðsluskilti við minjarnar sem gætu gagnast bæði skólahópum og öllum almenningi.

Álftanes

Jörfi – Camp Brighton; skilti.

Herminjar eru ekki sjálfkrafa verndaðar af þjóðminjalögum þar eð þær eru ekki orðnar hundrað ára gamlar. Í lögunum er þó heimild til þess að friðlýsa yngri minjar en um þau efni hefur hvorki skapast hefð né heldur hefur opinber stefna verið mörkuð. Gefur engu að síður auga leið að þessar minjar frá stríðsárunum á Norðurnesi eru þýðingarmikil heimild um hlutdeild Íslands fyrrum.

Heimild:
-Nordurnes_skyrsla_skra_kort_2019_utgafa_2

Álftanes

Álftanes – Örnefnakort – ÓSÁ.

Selalda

Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Eyri

Eyri – tóftir.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Eyri fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur og jafnvel hús. Litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var á Selsvöllum um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni og í Húshólma.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Af því segir þjóðsagan af ræningjunum, selsstúlkunum og smalanum er flúði upp að Krýsuvíkurbæjunum, kom að kirkjunni þar sem séra Eiríkur var við messu og móttökum hans við ræningjana. Enduðu þau með því að ræningjarnir drápu hvern annan að áeggjan séra Eiríks, sem sagði það guðsmildi að ekki væri sunnudagur því annars hefði hann mælt svo um að þeir ekki bara dræpu hvern annan, heldur og ætu. Ræningjadys sunnan Krýsuvíkurkirju er til marks um atburðinn.

Selalda

Selalda – fjárhús.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir tveggja fjárhúsa og vestan þeirra er enn heilleg steinbrú yfir Vestarilæk.
Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.

Fitjar-21

Fitjar.

Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt.

-ÓSÁ tók saman.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu. Uppdráttur ÓSÁ.

Gömlu-Hafnir

Í “Fornleifakönnun á framkvæmdarsvæði Magnesíumverksmiðju 2.-3. nóvember 1996“, framkvæmd af Fornleifadeild Þjóðminjasafnins sama ár má lesa neðangreint um minjar á svæði Gömlu-Hafna, vestan Drauga að Hafnarbergi. Fornleifakönnunin var gerð vegna fyrirhugðrar magnesíumverksmiðju sunnan við Hafnir á Reykjanesi, sem síðan ekkert varð úr – sem betur fer.

Aðdragandi

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir. Horft til vesturs. Austast er bæjarhóll Kirkjuhafnar, vestar eru bæjarhólar Stóru- og Litlu-Sandhafnar og loks leifar bæjarhóls Eyrarhafnar.

Þann 31. október hafði Hallgerður Hreggviðsdóttir hjá Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar samband við Þjóðminjasafn Íslands. Óskaði hún eftir því að safnið tæki að sér fornleifakönnun á svæði sunnan við Hafnir þar sem fyrirhugað er að reisa magnesíumverksmiðju. Áhersla var lögð á að verkið þyrfti að vinna sem allra fyrst.

Gömlu-Hafnir

Hafnarsandur – Herforingjaráðskort 1903.

Svæðið tilheyrir Hafnahreppi og er samkvæmt herforingjaráðskorti frá árinu 1910 í mælikvarða 1:50.000 í Hafnarbergi. Á staðfræðikorti Landmælinga Íslands frá 1989 í mælikvarða 1:25.000 er svæðið nefnt Hafnasandur.
Framkvæmdasvæðið afmarkast í vestur af Eyrarbæ norðan Hafnabjargs að Kirkjuhöfn til austurs. Þrjú gömul eyðibýli eru merkt á landakort á þessu svæði. Vestast er Eyrarbær sem sagður er hafa farið í eyði um 1770 og eru bæjarrústir hans sýndar á korti norðan við Hafnarberg. Annað eyðibýlið Sandhöfn, sem fór í eyði um 1600, skiptist í Litlu og Stóru Sandhöfn. Þar var talin vera besta höfnin. Þriðja eyðibýlið er Kirkjuhöfn sem fór í eyði litlu fyrr en Sandhöfn. Munnmæli herma að þar hafi verið kirkja sem aflögð var á 14. öld. Í Prestatali og prófasta er hins vegar ekki getið um kirkju á þessum stað.
Svonefndar Hafnir í Hafnahreppi voru við Kirkjuhöfn og Sandhöfn.

Vettvangskönnun

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; örnefni (LMÍ).

Vettvangskönnunin var gerð dagana 2. – 3. nóvember. Hún fór þannig fram að skýrsluhöfundar gengu skipulega um svæðið og merktu öll mannvirki sem fundust inn á skannaða loftmynd. Mælikvarði loftmyndarinnar er óviss en mun sennilega vera um 1:1500 – 4500. Um leið og gengið var fram á minjarnar var lausleg lýsing af þeim töluð inn á diktafón. Einnig voru flestar minjarnar ljósmyndaðar. Gert hafði verið ráð fyrir að ljúka vettvangskönnuninni á einum degi, en þar eð mun fleiri minjar komu í ljós en gert hafði verið ráð fyrir tók verkið alls tvo daga. Veður var bjart báða dagana og 4 – 5 stiga frost. Allhvasst var fyrri daginn en logn þann síðari.
Unnið var við vettvangskönnun laugardaginn 2. nóvember og sunnudaginn 3. nóvember.
Hér á eftir er lýsing á hverju mannvirki fyrir sig. Númerin vísa í samsvarandi númer á yfirlitskortum aftast í skýrslunni þar sem lega minjanna er sýnd. Kortin eru teiknuð eftir loftmynd af svæðinu.

Mannvirki 1 (fjárétt?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárrétt?

Grjóthlaðin ferhyrnd rétt um 13 x 15 m að innanmáli. Hún stendur fremst fram á sjávarbakka. Veggjahæðin er allt að 80 cm og veggjaþykkt er um 80 cm. Ofan á vegginn hefur verið settur gaddavír. Innan í réttinni er yfirborðið mjög mishæðótt og hefur hún að hluta fyllst af sandi. Inngangur er við SA hornið. Við austurgaflinn, sem snýr út að sjónum, er yfirborðið allt að 1,5 m hærra en í suðuvesturhelmingi réttarinnar. Að utanverðu er um tveggja metra fall frá gaflinum niður í grýtta fjörnuna. Í NVhorni réttarinnar er lítið byrgi og er SA hlið þess opin. Austurhlið byrgisins er flutningabretti úr tré. Byrgið er jafnhátt og réttarveggirnir og á því er flatt torfþak.
Af hleðslunum að dæma virðist þetta ekki vera mjög gamalt mannvirki. Þær eru í allgóðu ásigkomulagi og virðist hafa verið haldið við. Byrjað að hrynja smávegis úr hleðslunni í suðurveggnum.

Mannvirki 2 (garðbrot)
Þetta eru leifar af garði eða garðbroti sem að mestu er sokkinn í sand. Steinaröð stendur upp úr sandinum á stöku stað og sýnir hvar garðurinn hefur legið. Hann er um 50 m að lengd og liggur í suðvestur úr víkinni austan við mannvirki 1. Breiddin er um 60 – 80 cm.

Eyrarbær

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Samkvæmt merkingu á landakortum ættu rústir Eyrarbæjar að vera um 50 m suður af mannvirki 1. Við gátum ekki séð merki um rústir á þeim stað. Annaðhvort hefur bærinn sokkið í sand, orðið uppblæstri að bráð eða hann hefur ekki verið rétt staðsettur á kortinu. Hugsanlegt er t.d. að mannvirki hafi t.d. verið reist ofan á bæjarrústirnar.

Hafnarbjarg
Gengið var meðfram ströndinni hjá Hafnarbjargi til að kanna hvort þar væru sýnilegar minjar um varir, bátalægi, uppsátur eða fiskgarða. Fjaran er mjög stórgrýtt og brött og ekki varð vart við nein mannvirki á norðvesturhluta Hafnarbjargs.

Mannvirki 3 (túngarður)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Garðhleðsla, hugsanlega túngarður. Garðurinn liggur frá Hafnabergi til austurs og markar sennilega tún eða landamerki Eyrarbæjar og Sandhafnar til suðurs. Vestasti hluti garðsins er sokkinn í sand og að miklu leyti hruninn. Grjótdreif úr hleðslunni er á um 3 m breiðu svæði. Um 50 m frá ströndinni er um 2,5 m breitt rof í garðinn fyrir vegarslóða. Þaðan liggur hleðslan áfram til austurs. Sandur hefur lagst upp að henni beggja vegna þannig að hún er að mestu í kafi. Víða er nokkur grjótdreif og hrun úr hleðslunni, einkum að norðanverðu. Í rofabarði við vegarslóðann virtist veggjaþykktin geta hafa verið um 1 m að breidd, en þar sem sandurinn hefur safnast upp að hleðslunni hefur einfaldri og um 0,3 m breiðri steinhleðslu verið bætt ofan á vegginn. Hæð hleðslunnar ofan sands er allt að 0,5 m.

Mannvirki 4 (tóft?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; refagildra.

Hugsanlegt mannvirki á lágum hól. Að norðanverðu virðist mega greina leifar af einfaldri hruninni grjóthleðslu um 0,2 m breið og um 8 m löng. Innanmálið hefur sennilega verið um 2 m, en ekkert er eftir af suðurhlið og vesturhlið. Hugsanlega eru nokkrir steinar hluti af austurhliðinni. Erfitt var að finna þetta mannvirki á loftmynd og er staðsetning þess e.t.v ekki alveg nákvæm á kortinu.

Mannvirki 5 (garður)
Þetta er garður sem liggur í einfaldri röð. Hlaðinn úr misstórum steinum frá 0,4 – 0,5 m í þvermál niður í 0,05 – 0,1 m í þvermál. Garðurinn liggur í norðvestur-suðaustur.
Austast beygir hann til norðurs? Hann er horfinn á köflum og ekki er alls staðar hægt að sjá hann en til vesturs nær hann alveg niður að sjó. Garðurinn endar við hraunás þar sem mannvirki 6 – 8 eru til staðar.

Mannvirki 6 (byrgi?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Grjóthlaðinn ferhyrningur hlaðinn úr einfaldri steinaröð, í allt að 0,6 m hæð. Hann er um 1,5 x 2 m að utanmáli og grasi vaxinn að innan. Steinarnir eru um 0,2 – 0,3 m í þvermál. Undirstöðurnar eru alls staðar sýnilegar. Suðurhliðin er sennilega verst farin. Mannvirkið stendur uppi á hæð við austurenda garðs nr. 5

Mannvirki 7 (byrgi)
Grjóthlaðið byrgi norðaustan undir klettunum þar sem garður 5 endar. Hleðslan er einföld steinaröð sem er að mestu horfin í sand eða hrunin. Hún er um 4 m að lengd og 1,4 m að breidd um miðjuna og aðeins mjórri við suðurgaflinn. Þar er byrgið aðeins um 1 m að breidd.

Mannvirki 8 (byrgi?)
Um 5 – 10 m austan við mannvirki 7 er um 9 m löng og 4 m breið þúst og allt að 0,4-0,5 m há. Þar virðist vera svipað mannvirki og mannvirki 7, sem er nánast alveg sokkið á kaf í sand. Steinaröð sést á þriggja metra löngum kafla að sunnan eða vestanverðu.

Mannvirki 9 (varða?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða (leifar fiskbyrgis).

Grjóthlaðið mannvirki. Tvær hliðar eru hlaðnar í horn um 1,2 x 1,2 m hvor hlið. Hleðslan virðist vera allt að 0,6 cm há og hlaðin úr 0,3 – 0,4 m stórum steinum sem raðað er saman. Hugsanlega er þetta leifar af vörðu.

Mannvirki 10 (fiskbyrgi?)
Mannvirki 10, 11 og 12 eru leifar af þremur litlum byrgjum, sennilega fiskbyrgjum.
Mannvirki 10 er hlaðið úr einfaldri steinaröð og virðist nánast hafa verið ferkantað. Það er 2 x 3 m að utanmáli og er vestasta hliðin allt að 0,5 m há. Byrgið er talsvert hrunið og á norðurhliðnni stendur aðeins neðsta steinaröðin eftir. Enginn inngangur er sýnilegur. Að innan er byrgið grasivaxið og mosagróið.

Mannvirki 11 (fiskbyrgi?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Grjóthlaðið byrgi um 1,5 x 2 m að innanmáli. Virðist vera hringlaga að utan, að minnsta kosti 1,5 m að hæð. Hleðslan er einföld steinaröð, með 0,3 m breiðum og um 0,4 – 0,5 m háum inngangi á austurhlið. Hleðslan virðast vera tiltölulega nýlega hlaðin eða lagfærð. Tóftin er hálffull af sandi.

Mannvirki 12 (fiskbyrgi)
Sennilega leifar af fiskbyrgi. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr einfaldri steinaröð.
Tóftin, sem er hrunin, er um 3 x 3,5 m að utanmáli. Ekki verður séð af yfirborði hvort hún hefur verið hringlaga eða ferningslaga. Undirstöður virðast þó fremur hafa verið ferningslaga. Hún er allt að 0,5 m að hæð þar sem hún er hæst.

Mannvirki 13 (vegarslóði)

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir. Um svæðið er markaður göngustígur með grjóti og viðardrumbum.

Traðir sem liggja meðfram ströndinni yst frá Eyrarbæ að Sandhöfn. Þetta er um 1,5 m breiður slóði sem varðaður er einfaldri steinaröð beggja vegna. Steinarnir eru að jafnaði um 0,1 – 0,2 m stórir. Sums staðar hafa rekaviðardrumbar verið lagðir í stað steina til að afmarka vegarslóðann. Þetta virðist ekki vera ýkja gömul hleðsla. Hugsanlega er þetta nýleg gönguleið sem gerð hefur verið að hömrunum við Hafnaberg.

Mannvirki 14 (rétt?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; rétt?

Stór tvískipt grjóthlaðin tóft upp á og utan í dálítilli hæð. Veggirnir að mestu hrundir.
Nú eru þeir ekki nema um 0,2 – 0,3 m háir. Upphaflega virðast þeir hafa verið allt að 0,8 m breiðir. Hugsanlega er þetta leifar af rétt eða fiskreit. Minni reiturinn hallar til norðurs. Hann er 15 x 13 m að innanmáli.
Stærri reiturinn er grjóthlaðinn um 45 x 25 m að innanmáli. Hleðslan er að mestu horfin í sand. Einföld steinaröð stendur upp úr sandinum, allt að 0,5 m há.

Mannvirki 15 (lendingarstaður?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; sjóbúð?

Hér hefur líklega verið lendingarstaður, uppsátur eða vör. Hér er sendin skor þar sem gott hefur verið að draga upp báta. Fyrir ofan lendinguna er grasi vaxinn hóll þar sem hugsanlega eru einhverjar rústir án þess að hægt sé að segja það með vissu. Á hólnum austanverðum er eins og 90° horn sem bendir til þess að þar sé um hleðslur að ræða.

Mannvirki 16 (bæjarhóll, Litla Sandhöfn?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; mannvirki sunnan Stóru-Sandhafnar.

Um 5-6 m hár grasi gróinn hóll sem virðist vera gamall bæjarhóll. Hér og hvar glyttir á hleðslur í hólnum. Hugsanlega eru þetta leifar eyðibýlisins Litlu-Sandhafnar.

Mannvirki 17 (bæjarhóll, Stóra Sandhöfn?)
Mikill og grasivaxinn bæjarhóll, um 30 – 40 m langur og 4 – 5 m hár. Uppi á hólnum sést víða í hleðslur upp úr grasinu. Sunnan undir hólnum er um 10-15 m grjóthlaðið gerði. Hugsanlega er hóllinn leifar eyðibýlisins Stóru-Sandhafnar.

Mannvirki 18 (rústahóll?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; sjóbúð?

Grasi vaxinn hóll norð norðaustur af hól 16. Hóllinn er alveg niður við fjöruna og virðist sjórinn vera búinn að brjóta stórann hluta af honum. Þetta eru sennilega leifar af rústahól þó nú sjáist ekki móta fyrir rústum á yfirborði hans.

Mannvirki 3 (landamerkjagarður?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; tveir varnargarðar.

Garðurinn beygir og klofnar í tvær áttir skammt suður af mannvirki 17. Annar hluti hans heldur áfram til suðausturs en hinn beygir niður að sjónum til austurs.

Mannvirki 19 (varða)
Varða hlaðin úr grjóti upp á um tveggja metra háum hraunkolli. Varðan er ekki alveg ferningslaga að flatarmáli heldur nokkuð óregluleg. Hún er um 1-1,5 m í þvermál og um 1 m á hæð. Steinarnir eru þaktir stórum skófum sem bendir til þess að varðan sé gömul. Hún er um 100 metrum suðvestur af bæjarhól nr 17. Erfiðlega gekk að finna staðinn á loftmyndinni og er staðsetningin hugsanlega ónákvæm á korti.

Mannvirki 20 (bæjarhóll?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða ofan fiskbyrgja.

Grösugur sandhóll ósléttur að ofan. Hann er sennilega um 5 – 6 m hár og um 20 – 30 m í þvermál. Gæti verið gamall bæjarhóll þó ekki sjáist lengur móta fyrir minjum á yfirborði. Þær gætu verið komnar á kaf í sand. Hugsanlega er þetta leifar eyðibýlisins Kirkjuhafnar.

Mannvirki 21 (Garðar og reitir)
Niður við ströndina eru leifar af grjóthleðslum fremst á klettunum norðan við hólinn. Þær eru að minnsta kosti 5 m langar og allt að tveggja metra breiðar. Þetta er hluti af lengri hleðslu sem liggur í sjó fram. Fleiri garðar eða reitir eru í framhaldi af henni þarna fremst á bakkanum. Einn er um 8 m langur og annar garður um 4 m breiður. Þetta eru allt hleðslur sem standa fremst á bakkanum.

Mannvirki 22 (tóft og garður)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Grjóthlaðið mannvirkið fremst á sjávarbrún. Veggirnir eru allt að 1,2 m að hæð.
Hleðslurnar eru nokkuð hrundar og engin hvilft er í mannvirkið að ofan. Það er um 8 m að lengd og 3 m að breidd. Grjóthleðslan heldur áfram um 20 metra inn í landið og er á kafi í sandi og grasi. Sunnan við 22 eru garðbrot sem liggja í allar áttir. Ekki verður því lýst nánar að sinni en æskilegt væri að mæla þetta svæði betur upp.

Mannvirki 23 (fiskreitur?)
Þetta er grjóthleðsla sem hefur þrjár hliðar sýnilegar. Lengd og breidd þessa reits var ekki mæld en hleðslan er tvöföld, allt að 0,6 m breið, að mestu leyti hlaðin úr allt að 0,6 m stórum steinum og púkkað upp á milli með smágrýti.

Mannvirki 24 (rétt?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; Kirkjuhöfn efst t.h. Framar er meintur grafreitur og kirkja, Ofar er hringlaga gerði.

Grjóthlaðin ferköntuð rétt innan í reit nr. 23. Steinarnir í hleðslunni eru minni en í mannvirki 23. Hleðslan er einföld steinaröð allt að 0,8 m há. Réttin er full að innan af sandi. Enginn inngangur í hana er sýnilegur. Þvermál hennar er 15 x 11 m að utanmáli.
Í framhaldi af reit 23 eru fleiri samsíða reitir til austurs.

Mannvirki 25 (fiskreitur?)
Mannvirkið er um 16 m langur reitur, sennilega fiskreitur, sem er í framhaldi af reit 23. Hann er um 4 m norðan vegarslóða og liggur niður að sjó. Umhverfis reitinn er hlaðinn garður úr lábörðu grjóti. Hleðslan er um 0,5 – 0,6 m breið og er allt að 0,5-0,6 m há. Flestir steinarnir eru um 0,2 – 0,3 m í þvermál. Garðurinn hefur þrjár hliðar, vestur-, suður- og austurhlið. Fjaran afmarkar hann að norðanverðu. Reiturinn sem garðurinn afmarkar er um 40 m langur og um 40 m breiður. Á suðurhliðinni er um 50x60x20 cm stór steinn sem stendur upp á endann. Austan við hann er um 1 m breitt rof eða op í garðhleðsluna. Líklega hefur þetta verið inngangur inn í reitinn.
Suðurhliðin nær ekki alveg að næsta reit og endar hleðslan um 15 m áður en komið er að mannvirki 26.

Garðar 23-28

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður ofan Kirkjuhafnar.

Garðarnir 23 – 28 eru framan við hól 20 ofarlega til vinstri. Til hægri í baksýn eru Sandvík og Eyrarvík. Horft til vesturs.
Mannvirki 26, 27 og 28 eru þrír samsíða reitir sem girtir eru af með grjóthleðslum og skipt er niður með einföldum steinaröðum. Þessir reitir eru nánast fullir af sandi og grónir. Innan reitanna eru sums staðar dreifðar grjóthrúgur en ógerlegt er að sjá hvort þær séu leifar frekari mannvirkja. Hugsanlega eru þetta steinar sem brimið hefur kastað upp á land.

Mannvirki 26 (fiskreitur?)
Ferhyrndur reitur, hlaðinn úr hraungrýti með hvössum brúnum. Hann er um 13 m breiður og 15 m langur, 0,6 m hár og víða hruninn. Hann nær ekki niður að fjöru.

Mannvirki 27 (fiskreitur?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Ferhyrndur reitur svipaður að stærð og reitur 26 og samhliða honum. Vesturhlið reits 27 er er einföld steinaröð sem jafnframt er austurhlið 26.

Mannvirki 28 (fiskreitur?)
Reitur sem er um 13 m að lengd og 12 m að breidd, austan við reit 27. Grjóthleðslan umhverfis er fremur sporöskjulaga en ferhyrningslaga.

Mannvirki 29 (bæjarhóll?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; bæjarhóll Kirkjuhafnar.

Um 5 – 6 m hár grasi gróinn hóll sem er um 15 m í þvermál. Á yfirborði eru engar hleðslur sýnilegar. Í hjólförum sem liggja upp hólinn sér hins vegar í grjót sem virðist hafa spólast upp og gæti það bent til að þar séu grjóthleðslur undir. Þar sem hóllinn stendur einn og sér er mjög líklegt að þetta sé rústahóll. Hugsanlega eru þetta einhverjar leifar af eyðibýlinu Kirkjuhöfn?
Í fjörunni norður af hól nr 29 er vík. Þar gæti hafa verið lendingarstaður eða vör.

Mannvirki 30 (varða)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; meint dys við Kirkjuhöfn.

Varða sem er um 1 x 1,5 m í þvermál og allt að 0,8 m há er upp á háum hraunhól sunnan vegarins. Á steinunum eru allmiklar skófir sem bendir til þess að hún sé gömul. Hún er í suðaustur af hól nr 29.

Mannvirki 31 (fiskbyrgi?)
Grjóthlaðið byrgi upp á litlum klettahól, um 10 m austan og neðan við vörðu nr. 30. Utanmál byrgisins eru um 2 x 2 m. Þetta er einföld grjóthleðsla sem er allt að 1 m há. Sandur hefur safnast í byrgið innanvert svo að þar er veggurinn aðeins um 0,5 m hár. Hún virðist hafa verið ferköntuð og inngangur gæti hafa verið á suðurhlið. Steinarnir eru nokkuð stórir að jafnaði, um 0,3 – 0,4 m í þvermál.

Mannvirki 32 (fiskreitir?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; garðar austan Kirkjuhafnar.

Samliggjandi garðar eða fiskreitir. Þeir eru a.m.k. sex talsins en voru nú skráðir á eitt númer. Reiturinn sem er næst veginum er um 15×12 m að innanmáli. Hleðslan er úr hraungrýti og lögð ofan á mjög óslétt landslag. Sandhæðir eru í norður og norðausturhluta reitsins. Þær eru 2-3 metrum hærri en yfirborð í suðurhluta reitsins. Hleðslan er um 0,6 m breið og allt að 1 m há þar sem hún er hæst. Víða er hún hrunin. Reitirnir eru beint upp af eða suður af víkinni sem virðist hafa verið góð til lendingar og nefnd var hér að framan. Svo virðist sem reitasvæðið afmarkist að sunnanverðu og norðanverðu af stökum garðhleðslum sem liggja frá veginum alveg niður að sjó.

Mannvirki 33 (varða)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða við gömlu þjóðleiðina. Junkaragerði framundan.

Varða um 1 x 1,5 m að breidd. Hún er ferstrend og dregst að sér og um 2 m há. Hún er ekki gömul og gæti hugsanlega verið merkjavarða. Steinarnir í vörðunni eru nokkuð misstórir. Þeir minnstu eru um 0,15 – 0,2 m í en flestir eru um 0,3- 0,4 m í þvermál.

Mannvirki 34 (varða?)
Varða eða mælipunktur sem hlaðin er þannig að tveir stórir steinar, um 0,4 – 0,5 m í þvermál eru lagðir með um 0,4 m millibili og stór steinn lagður ofan á. Þar ofan á eru lagðir nokkrir fleiri steinar. Þeir mynda þannig strýtulaga vörðu með gati neðst í gegn. Hún er um 1,3 m að breidd og um 0,4 m breið. Hæðin er um 0,8 m. Þetta virðist ekki vera gamalt mannvirki.
Á hrauntoppunum hér í kring eru ýmsar smávörður sem verða ekki skráðar hér.

Mannvirki 35 (gerði eða reitur?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárborg.

Leifar af grunnu gerði eða reit, um 8 m að innanmáli. Erfitt er að sjá hvernig gerðið hefur verið í laginu. Að innanverðu er það er á kafi í sandi. Norðvesturhliðin er bein en suðurhlutinn er bogadreginn. Hæð hleðslunnar, sem er mikið hrunin, er um 0,4-0,5 m að utanverðu. Gerðið er rétt sunnan við vörðu nr. 34. Þetta gæti verið mjög gamalt mannvirki.

Mannvirki 36 (byrgi?)

Grjóthleðsla upp á litlum hraunkletti. Hleðslan er um 2 x 2 m í þvermál. Hugsanlega eru hér leifar af borghlöðnu byrgi sem hefur fallið saman. Þar sem hleðslan er hæst er hún allt að 1 m að hæð en að jafnaði er hæð hennar um 0,5 m. Stórar skófir hafa víða náð að myndast á steinunum sem bendir til að mannvirkið sé mjög gamalt. Þetta er um 50 m norðan við hitt.

Mannvirki 37 (garður)

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Stúlknavarða. Varðan er nú fallin.

Grjótgarður, sums staðar sokkinn á kaf í sand. Hann liggur meðfram fjörunni, til suðvesturs frá Kalmansvör. Við endann á afleggjara frá gamla vegarslóðanum beygir garðurinn til norðausturs og er þar sennilega um 150 m að lengd. Hann hverfur á kafla undir vegarslóða og liggur í nokkrum boga austan við veginn. Suðaustur hornið er bogadregið og þaðan stefnir garðurinn til norðausturs niður að afleggjara heim að fiskeldishúsi. Þar hverfur garðurinn undir veg en heldur áfram norðan vegarins til norðausturs eins langt og augað eygir. Honum var ekki fylgt frekar eftir. Aðeins efsti hluti garðsins stendur upp úr sandinum og er þar allt að 0,4 m að hæð. Hann er um 0,6 m breiður og víðast hlaðinn úr 0,2 – 0,3 m stórum steinum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárborg.

Hlaðið mannvirki úr grjóti innan garðs nr. 37. Það er fimmhyrnt og um 26 m langt. Suðurhluti þess er um 9 m breiður og um 13 m langur. Þar breikkar norðurhlutinn um tvo metra til vesturs. Veggjahleðslan er um 0,5 – 0,6 m breið og allt að 0,7 m há þar sem hún er hæst. Sandur hefur lagst upp að hleðslunni bæði að utan og innan. Suðausturhornið er alveg fullt af sandi upp á veggjabrún. Inni í tóftinni, aðeins norðan við miðbik hennar er grjóthrúga sem virðist vera leifar af grjóthleðslu sem er að mestu horfin í sand. Þar sést í einfalda steinaröð sem liggur í um 2 m langt horn. Ekki er hægt að sjá neinn inngang í þetta mannvirki, þó sums staðar sé veggurinn hruninn. Garðurinn er einföld röð af steinum sem stundum liggja langsum og stundum þversum í hleðslunni. Steinaröðin er efsti hluti af grjótgarði sem sokkinn er í sand. Sums staðar sjást tvö steinalög, en sandurinn hefur lagst upp að garðinum báðum megin. Suðurendi garðsins endar um 10 – 15 m austan við suðurhorn garðs nr. 37 og
liggur síðaan eins langt og augað eygir til aust-norðausturs. Sennilega er þetta gömul hleðsla.

Niðurstöður

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Mun fleiri minjar reyndust vera á svæðinu en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta eru minjar sem tengjast gömlu eyðibýlunum Eyrarbæ, Sandhöfn og Kirkjuhöfn. Greinilegt er að þarna hefur verið útgerð og að flestar minjar á svæðinu tengjast þannig starfsemi, s.s. fiskkarðar, fiskreitir og fiskbyrgi. Einnig eru þarna nokkrir sandhólar. Hleðsluleifar og fl. bendir til þess að hólarnir séu gamlir rústahólar og má ætla að þeir geymi leifar eyðibýlanna Sandhafnar og Kirkjuhafnar. Leifar Eyrarbæjar fundust ekki.
Merkustu minjarnar eru bæjarhólarnir. Sjálfsagt er að varðveita þá, en æskilegast er að varðveita minjasvæðin umhverfis bæina sem heildir.

Umsögn um staðsetningu verksmiðju
Fyrirhugaðri magnesíumverksmiðju er ætlaður staður suður og upp af Sandvík.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; loftmynd.

Afstöðumynd sýnir að verksmiðjan mun fara yfir hluta af tún- eða landamerkjagarði sem merktur er sem mannvirki nr. 3 í þessari skýrslu. Einnig liggur verksmiðjusvæðið alveg upp að hól nr. 17 og virðist honum því stafa nokkur hætta af fyrirhuguðum framkvæmdum. Eins og fram hefur komið teljum við að að hóllinn sé gamall bæjarhóll og geymi leifar eyðibýlisins Stóra-Sandhöfn. Samkvæmt gögnum úr svæðisskipulagi fyrir Suðurnes 1987-2007 mun Sandhöfn hafa farið í eyði um 1600. Túngarðurinn er sennilega frá sama tíma og bærinn. Hér eru því að öllum líkindum minjar sem eru a.m.k. orðnar 400 ára gamlar og þar með verndaður samkvæmt þjóðminjalögum nr 88. frá 1989. Því má bæta við að bæjarhólar hlaðast upp á löngum tíma. Miðað við umfang bæjarhólanna á þessu svæði má gera ráð fyrir byggingarskeiðum sem ná yfir margar aldir, hugsanlega allt frá upphafi landnáms.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; hringlaga gerði við Kirkjuhöfn.

Verði verksmiðja reist á þessum stað er ljóst að garðhleðslurnar munu hverfa á stórum kafla. Þær eru hins vegar ekki einstakar í sinni röð og ætti fornleifakönnunin sem gerð var að vera nægileg skráning á þeim. Bæjarhóllinn er hins vegar miklu merkilegri og við honum má ekki hrófla nema að undangenginni rannsókn. Fornleifarannsókn á hólnum mundi sennilega taka um 2 – 5 ár og kostnaður við hana gæti numið um 5 – 10 milljónum króna á ári.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; meint kirkja og bæjarhóll Kirkjuhafnar.

Ef framkvæmdaaðilar vilja komast hjá þeim kostnaði sem fornleifarannsókn hefur í för með sér þarf að hliðra verksmiðjunni til þannig að svæðið sem þarf að raska vegna verksmiðjunnar sé vel utan ystu marka bæjarhólsins. Best væri að afmarka verndarsvæðið þannig að vinnuvélar fari ekki of nálægt því. Að þessum skilyrðum uppfylltum telur Þjóðminjasafn Íslands ekki ástæðu til að standa í vegi fyrir framkvæmdum á svæðinu, enda séu aðrar minjar en hér hefur verið rætt um ekki í hættu.” – Reykjavík 19. nóvember 1996, Guðmundur Ólafsson Sigurður Bergsteinsson, deildarstjóri fornleifadeildar fornleifafræðingur. Heimildir:
Sveinn Níelsson (1950). Prestatal og prófasta. Reykjavík.

Heimild:
-Rannsóknarskýrslur Fornleifadeildar Þóðminjasafnsins 1996 XIV – Fornleifakönnun á framkvæmdarsvæði Magnesíumverksmiðju 2.-3. nóvember, Fornleifadeild Þjóðminjasafnins – Reykjavík 1996/2008.
-https://www.thjodminjasafn.is/media/rannsoknir/1996-14-Magnesium-verksmidja-fornleifakonnun.pdf

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; kort í skýrslu um Fornleifakönnun 1996. Númerin eru vísun í framanskráðan texta.

Krýsuvíkurberg

Farið var niður að Selöldu ofan Krýsuvíkurbergs. Bæjarstæðið sem og nálægar útihúsatóftir voru skoðaðar. Bærinn fór í eyði 1876 eftir hafa verið tiltölulega stutt í ábúð.

Selalda

Fitjar og Fitjatúnin undir Selöldu.

Ari Gíslason skrifaði örnefnalýsingu um svæðið eftir Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti. Þar segir m.a.: “Sunnan Arnarfells tekur við Krýsuvíkurheiði og austarlega á henni eru tveir hólar, Trygghólar, en sunnan þeirra Trygghólamýri.

Selalda

Selalda – Strákar.

Suðvestur af Trygghólum er önnur hæð heldur hærri og nær sjó, upp af Hælsvíkinni fyrrnefndu, og heitir hún Selalda. Vestan í henni eru steinstrókar, sem heita Strákar. Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn og í víkina vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.”

Selalda

Fitjar – bæjartóftir.

Fitja er ekki minnst í jarðabókinni 1703. Ekki heldur í manntalinu 1816 eða í sóknarlýsingu 1847. Svo virðist sem bærinn hafi einungis verið í byggð í 15-20 ár.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a.: “Arnarfelli hefur að nokkru verið lýst. Undir nyrðra horni þess hafði í fyrri tíð verið mikill áningarstaður skreiðarferðamanna. Þar er Áningarflöt, tjaldstæðið. Sunnan fellsins er Bleiksmýri og hlutar Austurlækurinn hana sundur.

Selalda

Jónsvarðan eystri.

Alllangt neðan við Arnarfellstjörn eru Trygghólar tveir, fram á Heiðinni. Trygghóll efri, og Trygghóll fremri. Framundan þeim er Trygghólsmýri. Þarna eru og Jónsvörður, Jónsvarðan vestri og Jónsvarðan eystri.
Hér framundan til vesturs er tvær öldur að sjá. Sú nyrðri heitir Selalda. Á henni er Selölduvarða. Fram undan Selöldu er Seljadalur. Vestur eftir honum er farvegur Seljalækur. Beggja megin lækjarfarvegsins eru nokkrar tættur Seljanna.” Hér ruglar Gísli saman annars vegar selstöðunni, sem honum virðist vera ókunnug, og bæjartóftum Eyrar, sem eru beggja vegna uppþornaðs árfarvegar.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

“En hér var haft í seli frá Krýsuvíkurbæjunum á fyrri tíð. Krýsuvíkursel voru það kölluð. Vestur af Selöldu eru móbergstindar, nefnast Strákar. Vestarlega í þeim hefur verið skúti, nefndist Strákahellir. Þarna hefur verið hlaðið myndarlegt fjárskýli og hefur í eina tíð verið reft yfir það og nefndist þá Strákafjárhús. Vestan við er melholt og niður undan því er einn Krýsuvíkurbærinn og nefndist Fitjar.

Selalda

Selalda – berggangur.

Kringum bæinn er Fitjatún og nyrst í því Fitjafjárhús. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar. Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar. Seljabrekka blasir hér við upp undir Seljum. En Seljalækurinn hefur grafið sér farveg allt fram á berg. Fitjagata lá austur og inn um lægð norðan undir Strákum og er komið var að Selöldu, þá lá hún upp í Heiðina upp á fyrr nefndan Húsmel. Vestan við Fitjalækinn liggur nú Bílaslóðin allt niður á berg og vestur að hraunbrúninni. Austan og sunnan Austurlækjar er Bleiksmýrin. Fram af henni niður og austur allt að hrauninu liggur svo Krýsuvíkuheiðin eystri eða Austurheiðin. Fátt er hér örnefna.
Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.”

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Eyri fór í eyði 1775. Bærinn hefur að öllum líkindum verið í ábúð stuttan tíma. Um hefur verið að ræða kotbúskap, sennilega byggðan upp úr Krýsuvíkurselinu þar skammt ofar. Tóftir selsins eru greinilega mjög gamlar, líklega frá því frá miðöldum og fyrr. Stekkur selsins er uppi í hlíðinni norðan þess. Hann finnst ekki í fornleifaskráningum. Augljóst er að svæðið hefur verið miklu mun grónara fyrrum en nú má sjá. Gata liggur upp frá Eyri til austurs, framhjá selinu og með Trygghólum áleiðis til Krýsuvíkur. Bærinn Eyri var byggður á lækjarbakka. Mjög líklega hefur Vestur- eða Austur-Lækur runnið fyrrum niður með Trygghólum, beygt þar til vesturs sunnan Selöldu og síðan til suðurs um Seldal niður á bergið. Augljóst er lækurinn sá hefur breytt um farveg, jafnvel oftar en tvisvar, því Fitjatúnið sem og allt undirlendi Selöldu er að þakka fyrrum árburði hans um aldir. Trúlega er þarna um Vestur-Læk að ræða.
Tækifærið var notað til að rissa upp bæjartóftirnar og meðfylgjandi mannvirki á Eyri sem og selstöðuna ofan hennar.

Fitjar

Fitjar.

Í “Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII – Krýsuvík, 2021, segir m.a: “Lítið er vitað um ábúð á Fitjum og mjög fáar heimildir til sem segja frá jörðinni, sem var
hjáleiga frá Krýsuvík. Árið 1867 var samt jörðin farin í eyði en í Þjóðólfi 27. febrúar 1867 var getið um dómsmál fyrir yfirdóminum þar sem þrír ábúendur í Krýsuvík sóttu gegn Gísla Jónssyni bónda á Býaskerjum árið 1866. Gísli á að hafa beitt fé sínu við Fitjar í óþökk ábúenda Krýsuvíkur og þar er ljóst að ekki var búið á Fitjum það árið. Eina manntalið þar sem Fitjar eru nefndar var gert árið 1850 og þá voru skráðir 7 þar til heimilis.”

Fitjar

Fitjar (Neðri-Fitjar) – útihús.

Þá segir í skráningunni: “Sömu sögu er að segja um tóftirnar við Neðri Fitjar, ekki er til mikið af heimildum um þann bæ. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar var sagt: „Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist Fitjalækur. Rennur meðfram túninu og niður um Efri-Fitjar.

Austur af læknum eru Fitjamóar og þar lengra austur Neðri-Fitjar.“ Hér er um mislestur að ræða. Bærinn “Neðri-Fitjar” hafa aldrei verið til. Fitjatúnið var nefnt Efri-Fitjar heima við bæ og Neðri-Fitjar nær berginu. Þar eru leifar útihúss við lækinn miðsvæðis.

Fitjar

Brú að Fitjum á Vestari-Læk.

Bjarni F. Einarsson leiddi að því líkum í skráningu hans, “Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi 1998“, að tóftir [austan Selöldu] séu leifar bæjarins Eyri en í örnefnaskrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti sagði að Eyri hafi verið innan við Hafnarberg og farið í eyði 1775. Þá hafa mögulegar seljarústir sem eru um 50m norðvestan við tóftirnar líklega verið einhverskonar forveri býlisins og gætu þær verið mjög gamlar, enda eru þær mjög fornlegar að sjá. Minjarnar við Eyri eru í stórhættu vegna landeyðingar en þær standa við uppþornaðan árfarveg og hressilega er farið að blása uppúr rofabörðunum, t.a.m. er eitt hólf horfið af aðaltóftinni í bæjarstæðinu.” Reyndar eru tóftirnar í mjög lítilli hættu; bæði er svæðið að gróa upp auk þess sem nefndur lækjarfarvegur eru uppþornaður fyrir löngu.

Selalda

Strákar – fjárhús frá Fitjum.

Í “Fornleifaskráning í Grindavík, 2004” segir um minjar á Fitjum: “Fitjatún hefur fyrr verið nefnt, vestur við lækinn, vestur af Selöldu. Þar eru stæðilegar bæjartóttir, mikið túnstæði, og þar voru leifar eftir safngryfju, sem er óvanalegt á þeim árum.” segir í örnefnaskrá. Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Bæjartóftirnar eru austast í túninu, fast vestan við veginn. Túnið er ekki stórt en gróið og slétt. Umhverfis það eru blásnir, ógrónir melar. Austan við túnið rís Selaldan, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs. Svæðið allt er um 30X70 m að stærð og eru þar þrjár tóftir og túngarður.

Fitjar

Fitjar – útihús.

Þegar veginum er fylgt þar sem hann sveigir austur um túnið er fyrst komið að tveimur samliggjandi útihúsatóftum í norðausturhorni túnsins. Sú vestri er stæðilegri, um 6X5 m að stærð úr torfi og grjóti. Eystri tóftin er mjög sigin en mikið grjót er í henni. Hún er 8X4,5 m að stærð. Báðar hafa op á suðurvegg. Hleðsluhæð er um 0,6 m í vestari tóftinni en um 0,3 m í þeirri eystri.

Fitjar

Fitjar – bæjartóftir.

Um 50 m fyrir sunnan útihúsatóftirnar eru bæjartóftirnar, fast vestan vegarins. Þær eru mjög stæðilegar, allar hlaðnar úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1 m og umför grjóts allt að fimm. Tóftirnar snúa mót vestri og eru þrjú op á þeirri hlið. Þær eru um 11X13 m og greinast í fimm hólf. Fast sunnan þeirra er gróin dæld, e.t.v. safngryfjan sem nefnd er í örnefnalýsingunni. Úr norðaustur- og suðausturhorni tóftanna liggja garðbrot til austurs, en rofna af veginum sem þarna liggur til suðurs. Hugsanlega hafa þau myndað hólf eða garð austan við bæinn. Siginn og gróinn grjóthlaðinn túngarður liggur frá bæjartóftunum norður að útihúsunum, um 50 m.”

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel.

Um tóftirnar við Selhól austan Selöldur segir [Jarðabókin 1703]: “Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi”, segir í Jarðabók Árna og Páls.
Í örnefnaskrá er staðnum lýst svona: “[Strákar] eru vestast á Selöldu, en á Selöldu austarlega er Selhóll, og austastir eru Trygghólarnir.” Fitjatún er syðst við veginn sem liggur af Grindavíkurvegi að Krýsuvíkurbergi. Vegurinn sveigir þar til austurs yfir Vestri lækinn og liggur austur um túnið. Austan við túnið rís Selalda, hálfgróinn malarás, sem teygir sig til austurs að Trygghólum, tveimur ógrónum melhólum.

Selalda

Selalda – Strákar.

Vestast á Selöldu eru Strákar, dökkir og úfnir hraundrangar sem sjást bera við himin frá Grindavíkurvegi. Sunnan við Selöldu er annar malarás nefndur Skriða og á milli þeirra er gróið lægðardrag. Í lægðardraginu, sunnan undir Selöldunni austanverðri, þar sem landið hækkar til austurs, eru seltóftir í þýfðu lægðardragi sem hækkar til austurs.” Tóftirnar eru ógreinilegar, en þó mótar fyrir meginhúsi vestast, stakri tóft austar og annarri suðvestast.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Í örnefnalýsingunni er seltóftunum og bæjartóftum Eyrar ruglað saman. Þar segir. “Tóftirnar eru fjórar og sést á milli þeirra allra. Sú nyrsta er alveg í rótum Selöldu, fast austan við stakan móbergsklett í hlíð hennar. Tóftin (A) er mjög gróin og sigin og er ekkert grjót í henni. Hún er um 5X3 m að stærð, og snýr í austur vestur. Op er á vesturvegg hennar.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Um 80 m sunnan við tóftina er önnur tóft (B), bæjartóft og mun greinilegri. Hún er á norðurbarmi grjótgjár sem liggur í austur vestur og er líklega uppþornaður árfarvegur. Tóftin er um 10X7 m á stærð, snýr mót suðri og eru tvö op á þeirri hlið. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og greinist í þrjú hólf. Hleðslur eru signar og er hæð þeirra mest um 0,5 m. Um 8 m austan við tóftina er lítil hringlaga tóft eða dæld. Hún er um 2,5 m í þvermál og aðeins einn steinn sýnilegur í henni. Sumir vilja meina að þetta séu tóftir bæjar sem þarna var og nefndist Eyri.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Um 50 m sunnan við tóft (B), á dálitlum hól sunnan við grjótgjánna er enn ein tóft (C). Hún er hringlaga um 4 m í þvermál, líklega fjárborg. Tóftin hefur verið grjóthlaðin en hleðslur eru nú alveg fallnar. Op hefur líklega verið til vesturs. Um 80 m suðvestan við tóft (C) er síðan tóftaþyrping (D). Tóftirnar eru þrjár og eru á háum hól og sjást því greinilega. Allar eru úr torfi og grjóti, signar og grónar, hleðsluhæð mest um 0,5 m. Sú nyrsta er tvískipt, um 8X5,5 m að stærð og snýr í norður suður. Op er á norðurhlið. Um 1 m fyrir sunnan tóftina er dæld, sem virðist vera manngerð.
Hún er um 9 m löng frá norðri til suðurs og um 0,6 m á dýpt. Eitthvað er af grjóti í börmum hennar, en engar greinilegar hleðslur. Um 1 m sunnan við dældina er síðan sporöskjulaga tóft, um 5X7 m að stærð. Op er á suðurvegg.”

Selalda

Selalda – berggangur.

Krýsuvíkurbjarg (-berg) er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára. Vestari hluti Selöldu er móbergsmyndun, líkt og eystri hlutinn. Grágrýtisberggangar liggja um ölduna alla; dæmigerðir fyrir gos undir jökli.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 10 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík (Þorsteinn Bjarnason frá Háholti).
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XII, Krýsuvík – 2021.
-Fornleifaskráning í Grindavík, 3. áfangi – 2004.
-Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi, Bjarni F. Einarsson, 1998.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg). Þar sem Eystri-Lækur rennur fram af berginu (bjarginu) skiptir bjargið (bergið) um nafn skv. örnefnalýsingum. Austan lækjarins heitir bergið “Krýsuvíkurbjarg”, en vestan hans heitir bjargið “Krýsuvíkurberg”.  Fossinn er nafnlaus, en mætti gjarnan heita “Skiptifoss” eða “”Skiftifoss”.

Arnarfell

Gengið var að Arnarfellsréttinni, sem er í hvarfi í lægðarrana skammt austan við veginn niður að Selöldu. Hlaðin varða er vestan við réttina. Hún er í línu við vörðu á hæð allnokkru austar og aðra á hæð allnokkru vestar.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Þarna gæti hafa verið gömul leið yfir Krýsuvíkurheiðina sunnan Krýsuvíkurbæjanna, framhjá Arnarfellsvatni og með stefnu á Stóru-Eldborg. Ofan við Arnarfellsréttina sést yfir að Krýsuvíkurréttinni sunnan undir Bæjarfelli. Sú fyrrnefnda hefur verið allstór, með mörgum dilkum og almenningi. Réttin er vel hlaðin og hefur staðist tímans tönn, sennilega vegna þess að hún hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði fyrir ágangi.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Gengið var upp með Vestari-læk, áleiðis að Arnarfelli. Tóft bæjarins sést í gróinni hlíðinni sunnan í fjallinu, innan vörslugarðsins, er umlukti Krýsuvíkurtorfuna. Garðurinn liggur til austurs og vesturs neðan við bæjarstæðið og síðan þvert upp í fjallið austan þess. Þegar komið er inn á túnið vestan við bæjarstæðið má sjá móta fyrir allnokkrum eldri tóftum í hlíðinni. Þarna virðist vera um allnokkurt minjasvæði að ræða, sem fróðlegt væri t.d. að skoða með jarðsjá (viðnámsmælingu).

Arnarfell

Brunnur við Arnarfell.

Sagan segir að Þórir haustmyrkur hafi byggt Selvog og Krýsuvík. Jafnframt að hann hafi búið í Hlíð við Hlíðarvatn. Ekki er þó með öllu útilokað að þarna kunni að leynast bæjarstæði eða tóftir frá löngu fyrrum tíma. Bæjartóft Beinteins undir Arnarfelli, sú “nýjasta” er vel gróin. Beinteinn Stefánsson var hagur maður sem byggði Krýsuvíkurkirkju 1857. Af honum segir og í umfjöllun um viðureign hans og Tanga-Tómasar á Selatöngum. Átökin enduðu með því að Beinteinn þurfti að fara fótgangandi berfættur frá Töngunum og heim að Arnarfelli. Þurfti hann að liggja fyrir næstu daga á eftir.

Arnarfell

Arnarfell – bæjartóftir.

Fimm rými hafa verið í bænum. Burstir virðast hafa verið tvær stærri og tvær minni að framan og baðstofa fyrir innan. Gerði hefur verið bakatil við bæinn. Hola er í jörðinni sunnan undir tóftunum. Ekki er gott að segja til um hvort þar gæti hafa verið brunnur. Stutt er í Vestari-læk frá bænum.
Uppi á vestruöxl Arnerfells eru tvær tóftir, önnur undir klettum. Hún virðist hafa verið sauðakofi með gerði fyrir framan, en ofan við hann er heilleg tóft af útihúsi.
Efst á Arnarfelli er Eiríksvarða, kennd við séra Eirík Magnússon (1638-1716) frá Vogsósum, en fræg er sagan af viðureign hans og Tyrkjanna er komu áleiðis upp að Krýsuvíkurkirkju frá Selöldu á sunnudegi þegar Eiríkur var að messa þar. Eiríkur brá skjótt við og atti þeim saman svo þeir drápu hvorir annan. Eru þeir dysjaðir í Ræningjadys utan í Ræningjahól. Mótar enn fyrir dysinni sunnan við veginn sunnan kirkjunnar. Nýdautt lamb lá skammt vestan við Arnarnesbæinn.

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Gengið var yfir að Arnarfellsvatni. Mikið var í vatninu, en það er allstórt og háir bakkar sumstaðar umhverfis það. Gömul gróin gata liggur niður að því að vestanverðu. Skammt sunnar, vestan við vatnið, mótar fyrir tóft ofan við bakkann og jarðlægri hleðlsu. Þegar staðið er sunnanvert við vatnið er auðvelt að hugsa til vermanna á langri göngu, sem margir máttu gera sér það að góðu að tjalda í mýrinni eða við hana á leið sinni til og frá veri þegar ekki var hægt að hýsa fleiri ferðalanga í Krýsuvíkurkotunum. Enn er vel gróið sunnan við vatnið og vel má sjá hversu gróðuþekjan hefur verið þykk áður en hið mikla jarðvegsrof varð.

Trygghólar

Varða á Trygghólum.

Haldið var áleiðis niður heiðina með stefnu á Trygghóla. Um miðja vegu var komið að mannvistarleifum á hól. Mikil jarðvegseyðing er þarna svo erfitt er að álykta hvað þetta getur hafa verið.
Gömul og heilleg varða er á Mið-Trygghól. Gengið var niður með austurenda Selöldu og síðan til vesturs sunnan hennar. Þá var komið að tóftum er taldar eu hafa verið hið gamla Krýsuvíkursel. Tóftin er mjög gróin. Einungis sést móta fyrir einu húsi, en annað virðist vera sunnar og eitthvert mannvirki, jarðlægt, virðist hafa verið á gróinni hæð skammt austar. Á milli þeirra liggur gömul gata niður að tófum bæjarins Eyri, sem er skammt sunnan við selið. Sagan segir að ræningjarnir hafi komið upp svonefndan Ræningjastíg í Heiðnabergi og gengið upp í selið þar sem tvær selmatsstúlkur hafi verið fyrir. Drápu þeir stúlkurnar, en smali, sem sá til þeirra, hljóp allt hvað af tók upp að Krýsuvíkurbænum þar sem fólkið var við fyrrnefnda messu, og sagði frá. Lok sögunnar er rakin hér að framan þegar ræningjarnir mættu galdraprestinum.

Eyri

Eyri – tóftir.

Eyri er nú á gömlum lækjarbakka, allnokkrar tóftir. Vatnið hefur grafið þarna allnokkurn farveg, en er nú horfið með öllu. Þær líkjast 17. og 18. aldar bæ. Líklegt má telja að bærinn hafi byggst upp úr selstöðunni. Sunnan lækjarfarvegarins eru tvær borgir á hólum. Utan í þeirri vestari er löng tóft, lambakró að því er virðist. Austast í henni hefur verið lítið hús. Utan í borginni að sunnanverðu er hlaðinn garður.

Eyri

Eyri og Krýsuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var niður að Heiðnabergi. Sjór var ládauður og lygnt svo fuglinn hafði tyllt sér á steinana undir bjarginu og þingaði. Enn sést móta fyrir efri hluta Ræningjastígsins í bjarginu, en sjórinn hefur brotið niðri hluta hans svo nú er ekki lengur hægt að komast hann ala leið niður undir bjargið.
Annað nýdautt lamb lá ofan við bjargið. Gengið var að Strákum á Selöldu. Hlaðið fjárhús er þar undir reisilegum kletti og eru veggir þess nokkuð heillegir. Undir hið síðasta mun það hafa verið nýtt sem fjárhús frá Krýsuvík. Fígúrunar á móbergshryggnum á vestanverðri Selöldu gefa ímyndunaraflinu byr undir báða vængi, auk þess sem litadýrðin þar í björtu veðri, eins og nú var, er fáu lík.

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

Skoðaðar voru tóftir bæjarins Fitja sunnan og vestast undir Selöldu. Vestan bæjarhúsanna eru tóftir tveggja útihúsa. Garður er aftan við bæinn og túnin hafa verið þarna allnokkur. Vestan við útihúsin rennur Vestari-lækur. Á gömlum farvegi hans er hlaðin gömul brú. Farvegi lækjarins var fylgt frá brúnni til norðurs. Þá sást vel hversu oft hann hefur skipt um stöðu frá einum tíma til annars. Eystri-lækur rennur nú niður svo til miðja Krýsuvíkurheiði og steypist þar fram af bjargbrúninni, en ekki er ólíklegt að hann hafi áður runnið niður gil það er lækurinn við Eyri hefur myndað á löngum tíma. Vestari-lækur er margbreytilegur og mjög litskrúðugur á köflum.

Selalda

Haliðin brú á Vestari-læk við Fitjar.

Þegar gengið var um Selölduveginn var komið að rústum og undirstöðum bragga eða byggingar, sem þar hefur verið á síðustu öld. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um hvaða tilgangi hann hefur þjónað á þessu svæði.
Frábært veður – bjart, hlýtt og stillt. Gangan tók 4 klst og 12 mín.
Tækifærið var notað og Arnarfellstóftirnar rissaðar upp.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurheiði

Við vegamót Ísólfsskálavegar og Selölduvegar slógust nokkrir áhugasamir Grindvíkingar í hópinn.

Eyri

Eyri.

Gengið var niður að Selöldu. Við slóðann mótar fyrir undirstöðum bragga. Ólafur Kr. Guðmundsson, fyrrv. aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, var þar á ferð á hestum með föður sínum og bróður árið 1942. Komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvíkurkirkju, sem benti þeim á fimm Ameríkana er höfðust við í bragga ofan við Selöldu. Höfðu þeir þann starfa að fylgjast með skipaferðum með ströndinni.

Selalda

Steinbrú ofan Fitja.

Staðnæmst var við gamla steinbrú yfir Vestari-læk, við tóttir bæjarins Fitja og við fallega hlaðið fjárhús undir Strákum. Þá var gengið niður að Hælsvík og rifjuð upp sagan af komu Tyrkjanna upp Ræningjastíg. Í framhaldi af því var gengið í slóð Tyrkjanna upp að Krýsuvíkurseli þar sem þeir áttu að hafa ráðist að selsstúlkum. Smali var þess var og hljóp upp að Krýsuvíkurbæjunum, með Tyrkina á hælunum. Séra Eiríkur á Vogsósum var þá við messu í kirkjunni. Hann lagði þegar á Tyrkina að þeir myndu snúast gegn sjálfum sér, sem og þeir gerðu. Eru þeir dysjaður í Ræningjadys á Ræningjahól, sem er við Suðurkot. Litið var á tvær fjárborgir og tóttir bæjarsins Eyri áður en komi var í selið. Selstóttirnar, sem eru þar skammt austar, eru greinilega mjög gamlar.

Selalda

Fitjar.

Eftir skoðunina undir Selöldu var haldið að Trygghólum, sem eru þarna nokkru austar. Frá þeim er víðsýnt um Krýsuvíkurheiðina. Sést þaðan vel yfir Grindavíkurlandið austan Hafnarfjarðarlandsins ofan við Hælsvík. Sást meira að segja alla leið til hellamanna vera að snuðra í kringum Litlu-Eldborg í fjarska. Samviskan hefur nagað Grindvíkinga eftir langa áþján landsins og hafa þeir verið að reyna að græða upp landið að hluta fyrir Hafnfirðingana. Ef einhver töggur væri í Grindvíkingum myndu þeir ná þessum hluta Krýsuvíkurlandsins til sín aftur með hurðum og gluggum, enda Hafnfirðingar lítt hafa kunnað að meta þetta landssvæði hingað til. En þetta var nú smá útidúr.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Frá Trygghólum var gengið í átt að Arnarfelli og komið við í Arnarfellsréttinni, heillegri hlaðinni fjárrétt í lægð nokkru sunnan við fellið. Þetta var nú smá útidúr.
Vegna þess hversu veðrið var gott var ákveðið að kíkja á Ögmundardys við Ögmundarstíg og Smíðahellinn í Katlahrauni áður en göngunni lyki. Í leiðinni var Lestargatan vestari (Skeiðargatan) gengin, litið á hlaðnar refagildrur og Sögunarkórinn.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Selalda

Farið var að Selöldu. Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Strákar

Fjárskjól undir Strák.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Fitjar fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Ofar og litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar, nú nánast jarðlægar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var í Sogagíg um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni, Kringlymýri, Selgili og í. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir og gróinn garður. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur eða útihús frá Eyri og au þess hliðsett hús. Allt er þetta búsetulandslag einstaklega áhugavert, ekki bara vegna þess að saga þess hefur ekki verið skráð, heldur má úr því lesa nýtingu svæðisins í gegnum aldrinar. Bæði eðlilegt og sjálfsagt væri að rannsaka svæðið sem heild.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg – horft frá Skriðunni til vesturs.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir fjárhúss og sauðakofa og vestan þeirra er enn heilleg og falleg steinbrú yfir Vestarilæk, sem ástæða er að reyna að varðveita.
Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp ag hraunlögum, grágrýti, en gjalllög ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (vikri og ösku) og hraunlögum. Strákar er ung móbergsmyndun vestan í Selöldu. Bergið er um 45-45 h hátt. Hugsanlega eru hraunin komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.

Fitjar-221

Tóftir Fitja.

Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.
Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt. Ekki er því ólíklegt að í Krýsuvíkurselinu megi finna nytjastað frá fyrri tíð.

Fitjar

Fitjar – stekkur.

Neðan og austan við Fitjar má m.a. sjá leifar af a.k. tveimur hlöðnum refagildrum. Skammt ofan við þær, á eldri lækjarfarvegi Vestari-lækjar eru minjar stekks, gerðis og hugsanlegar kvíar.
Gengið var um Fitjar, upp að Strákum og yfir að Eyri þar sem minjarnar voru skoðaðar. Þá var haldið út á Heiðnaberg, en svo skemmtilega vildi til að björgunarsveitin Þorbjörn var þá einmitt með æfingu á og undir bjarginu. Fylgst var með æfingunni áður en gengið var til baka.
Frábært veður – sól og lygna.

Eyri

Tóftir Eyrar undir Selöldu.

 

Selalda

Gengið var frá Krýsuvíkurréttinni eftir vegslóðanum niður að Selöldu. Um er að ræða greiðfæra og ákjósanlega leið fyrir alla aldurshópa. Framundan horfið Selaldan við, móbergshryggur sem vatn og vindar hafa sorfið til að ofanverðu og myndað þar alls kyns fígúrur. Rjúpa situr efst á steini, steinrunnin, fálki steypir sér niður og tröll horfa hreyfingarlaus á.

Selalda

Selalda – berggangur.

Vestarilækur rennur þarna niður með vestanverðri Selöldu, liðast um tún bæjarins Fitja og steypist síðan fram af Krýsuvíkurbergi vestan Heiðnabergs. Vestan við túnkantinn, yfir lækinn, er gömul hlaðin brú. Garðar eru með túnunum að norðanverðu og tóftir bæjarins eru bæði miklar og heillagar. Saga Fitja er rakin í annarri FERLIRslýsingu.
Gengið var upp að Strákum, stórum klettum á vestanverðri Selöldu. Undir þeim er fallega hlaðið og heillegt fjárhús. Frá því er ágætt útsýni eftir Selöldunni til austurs og neðanmóa. Haldið var á ný niður á slóðann og hann rakin niður á bjargbrúnina. Heiðnabergið gefur Vestfjarðarbjörgunum lítið eftir í góðu veðri. Í því austanverðu sést enn hluti Ræningastígsins, en stutt er síðan að sjórinn braut af neðsta hluta hans.

Selalda

Selalda – Strákar.

Áður var hægt að ganga þarna niður og undir bjargið. Líklegt er að stígnum hafi að nokkru verið haldið við þegar búið var ofan við bjargið svo hægt væri að komast niður og sækja reka, sem þar lendir, og önnur hlunnindi.

Eyri

Krýsuvíkursel við Eyri undir Selöldu.

Annars dregur stígurinn nafn sitt af Tyrkjunum, sem eiga að hafa komið að bjarginu, haldið upp stíginn og komið að selsmatsstúlkum í Krýsuvíkurseli þar fyrir ofan. Smali sá til þeirra og flúðu heim að Krýsuvíkurkirkju þar sem séra Eiríkur í Vogsósum á að hafa verið við messugjörð. Hann afgreiddi síðan ræningjana er þá bar að garði og eiga þeir að hafa verið dysjaðir í Ræningjadys í Ræningjahól vestan við kirkjuna.

Eyri

Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var upp að tóftum bæjarins Eyri, þær skoðaðar sem og fjárborgirnar tvær sunnan þeirra og loks haldið upp að tóftum Krýsuvíkursels austast í Selöldunni, áður en gengið var upp heiðina með viðkomu í Arnarfellsrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Fitjar

Fitjar.

Selalda
Stefnan var tekin á austanverða Selöldu. Þegar komið er yfir hálsinn blasir við gróin brekka suðvestan undir honum. Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, en þó markar enn fyrir hleðslum neðst í brekkunni er gætu hafa verið mjög gamall stekkur.
Selalda

Selalda – uppdráttur ÓSÁ.

Einhvern tímann hefur allstór lækur runnið austast vestur með sunnanverðri Selöldunni. Vestar með hlíðunum er grasigróið svæði og tóttir. Hér er  að Krýsuvíkursel hafi verið. Í Jarðabókinn frá 1703 er sagt að Krýsuvík hafi bæði haft í seli til fjalla og fjöru. Hitt selið var á Seltúni undir Sveifluhálsi. Skammt vestan við tóftirnar er stór steinn. Við hann er talsvert gróið og líklegt er að þar hafi verið stekkur suður undir honum. Ummerki benda til þess.
Skammt suðvestar við selið eru margar tóftir og sumar heillegar. Hér er talið að bærinn Eyri hafi staðið, rétt ofan við lækjarfarveginn. Bærinn fór í eyði árið 1775.

Eyri

Eyri.

Frá tóftunum ætti að vera best að ganga áfram vestur með Selöldunni, en ef gengið er frá þeim til suðurs kemur nokkuð merkilegt í ljós. Á grashól eru miklar hleðslur, greinileg fjárborg. Hennar er hvergi getið og verður því hér nefnd Neðri-Eyrarborg. Vestan í henni er stekkur eða löng og mjó hústótt. Ofar, til austurs, er önnur fjárborg, svolítið minni. Verður hún nefnd Efri-Eyrarborg.
Vestast í sunnanverðri Selöldunni, á Strákum, eru miklar hleðslur undir móbergskletti. Þetta er fjárhús og eru veggir þess svo til alveg heilir. Suðvestan undir Strákum eru svo heillegar tóttir gamals bæjar, er nefndist Fitjar.
Frábært veður.

Eyri og Krýsuvíkursel

Eyri undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík
Fyrst voru tóttir Litla-Nýjabæjar skoðaðar vestan við þjóðveginn og síðan haldið að bæjarhól Stóra-Nýjabæjar.
Í túnkantinum norðan við hólinn eru upptök Eystrilækjar, sem síðan liðast niður Krýsuvíkurheiðina og steypist fram af Krýsuvíkurbergi austan við vitann.

Krýsuvík

Krýsuvík – mógrafir.

Norðar, utan í hæð sunnan Grænavatns eru tóttir. Talið er að þær geti verið leifar hjáleigu er nefndist Fell. Vestar eru tóttir elsta bæjar í Krýsuvík, að Kaldrana undanskildum, Gestsstaða. Þær eru undir hlíðinni skammt vestan Krýsuvíkurskóla.
Gengið var mógröfunum sunnan við vegamót þjóðvegarins og Ísólfsskálavegar og síðan yfir að Snorrakoti vestan Ísólfsskálavegar, en tóttir bæjarins eru vel greinilegar. Bæjargarðurinn snýr á móti suðri og sést enn vel. Suðvestar, inni á túninu undir Bæjarfelli, er Norðurkot, miklar tóttir og hefur sá bær einnig haft samfastan garð á móti suðri.

Krýsuvík

Lækur í Krýsuvík.

Handan vegarins, sunnan Vestarilækjar, er stórbýlið Lækur, miklar tóttir, garðar og falleg heimtröð. Gengið var frá bænum um hlaðna heimtröðina að Krýsuvíkurbænum, aftur yfir Vestarilæk, upp með tóttunum og að Krýsvíkurkirkju. Krýsvíkurbærinn, sá síðasti, stóð utan í og ofan við tóttirnar (sem munu vera af Hnausum). Hann var jafnaður við jörðu um 1960. Kirkjan, sögufræga, er opinn og öllum aðgengileg. Frá henni var gengið yfir veginn til suðurs og þá komið að Suðurkoti. Tóttir bæjarins er á og sunnan við grashólinn, sem hæst ber. Austan hans er Ræningadysin, sem sagt er frá í sögum af Eiríki á Vogsósum, auk tótta.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789.

Þegar komið var að vörslugarðinum, sem liggur á milli fellanna, Bæjarfells og Arnarfells, var beygt til austurs að Arnarfellsbænum. Tóttir bæjarins eru sunnan í grasigróinni hlíð Arnarfells. Þaðan sést til Arnarfellsréttar í suðaustri. Gengið var að henni og hún skoðuð. Um er að ræða hlaðna, stóra og myndarlega, rétt í lægð og er erfitt að koma auga á hana úr fjarlægð.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Stefnan var tekin á austanverða Selöldu. Þegar komið er yfir hálsin blasir við gróin brekka suðvestan undir honum. Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, en þó markar enn fyrir hleðslum neðst í brekkunni er gætu hafa verið mjög gamall stekkur. Einhvern tímann hefur allstór lækur runnið austast vestur með sunnanverðri Selöldunni.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789. Norðurkot er neðst t.v.

Vestar með hlíðunum er grasigróið svæði og tóttir. Hér er talið að Krýsuvíkursel hafi verið. Í Jarðabókinn frá 1703 er sagt að Krýsuvík hafi bæði haft í seli til fjalla og fjöru. “Hitt selið var á Seltúni undir Sveifluhálsi. Skammt vestan við tóttirnar er stór steinn. Við hann er talsvert gróið og líklegt er að þar hafi verið stekkur suður undir honum. Ummerki benda til þess”. Stekkurinn er reyndar skammt austan við Seltúnið. Þar er og hringlaga nátthagi. Sjálft selið var í austanverðu túninu, en hefur nú verið jafnað við jörðu í þá fyrirhugaðrar ræktunar á svæðinu.

Eyri og Krýsuvíkursel

Eyri undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt suðvestar við selið eru margar tóttir og sumar heillegar. Hér er talið að bærinn Eyri hafi staðið, rétt ofan við lækjarfarveginn. Bærinn fór í eyði árið 1775. Frá tóttunum ætti að vera best að ganga áfram vestur með Selöldunni, en ef gengið er frá þeim til suðurs kemur nokkuð merkilegt í ljós. Á grashól eru miklar hleðslur, greinileg fjárborg. Hennar er hvergi getið og verður því hér nefnd Neðri-Eyrarborg. Vestan í henni er stekkur eða löng og mjó hústótt. Ofar, til austurs, er önnur fjárborg, svolítið minni. Verður hún nefnd Efri-Eyrarborg.
Vestast í sunnanverðri Selöldunni, á Strákum, eru miklar hleðslur undir móbergskletti. Þetta er fjárhús og eru veggir þess svo til alveg heilir. Suðvestan undir Strákum eru svo heillegar tóttir gamals bæjar, er nefndist Fitjar.
Það merkilega gerðist að þessu sinni, sem og svo oft áður, að þrátt fyrir rigningu allt um kring, lék veðrið við göngufólkið alla leiðina.

Selalda

Selalda – minjar – uppdráttur ÓSÁ.