Í “Fornleifakönnun á framkvæmdarsvæði Magnesíumverksmiðju 2.-3. nóvember 1996“, framkvæmd af Fornleifadeild Þjóðminjasafnins sama ár má lesa neðangreint um minjar á svæði Gömlu-Hafna, vestan Drauga að Hafnarbergi. Fornleifakönnunin var gerð vegna fyrirhugðrar magnesíumverksmiðju sunnan við Hafnir á Reykjanesi, sem síðan ekkert varð úr – sem betur fer.
Aðdragandi
Þann 31. október hafði Hallgerður Hreggviðsdóttir hjá Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar samband við Þjóðminjasafn Íslands. Óskaði hún eftir því að safnið tæki að sér fornleifakönnun á svæði sunnan við Hafnir þar sem fyrirhugað er að reisa magnesíumverksmiðju. Áhersla var lögð á að verkið þyrfti að vinna sem allra fyrst.
Svæðið tilheyrir Hafnahreppi og er samkvæmt herforingjaráðskorti frá árinu 1910 í mælikvarða 1:50.000 í Hafnarbergi. Á staðfræðikorti Landmælinga Íslands frá 1989 í mælikvarða 1:25.000 er svæðið nefnt Hafnasandur.
Framkvæmdasvæðið afmarkast í vestur af Eyrarbæ norðan Hafnabjargs að Kirkjuhöfn til austurs. Þrjú gömul eyðibýli eru merkt á landakort á þessu svæði. Vestast er Eyrarbær sem sagður er hafa farið í eyði um 1770 og eru bæjarrústir hans sýndar á korti norðan við Hafnarberg. Annað eyðibýlið Sandhöfn, sem fór í eyði um 1600, skiptist í Litlu og Stóru Sandhöfn. Þar var talin vera besta höfnin. Þriðja eyðibýlið er Kirkjuhöfn sem fór í eyði litlu fyrr en Sandhöfn. Munnmæli herma að þar hafi verið kirkja sem aflögð var á 14. öld. Í Prestatali og prófasta er hins vegar ekki getið um kirkju á þessum stað.
Svonefndar Hafnir í Hafnahreppi voru við Kirkjuhöfn og Sandhöfn.
Vettvangskönnun
Vettvangskönnunin var gerð dagana 2. – 3. nóvember. Hún fór þannig fram að skýrsluhöfundar gengu skipulega um svæðið og merktu öll mannvirki sem fundust inn á skannaða loftmynd. Mælikvarði loftmyndarinnar er óviss en mun sennilega vera um 1:1500 – 4500. Um leið og gengið var fram á minjarnar var lausleg lýsing af þeim töluð inn á diktafón. Einnig voru flestar minjarnar ljósmyndaðar. Gert hafði verið ráð fyrir að ljúka vettvangskönnuninni á einum degi, en þar eð mun fleiri minjar komu í ljós en gert hafði verið ráð fyrir tók verkið alls tvo daga. Veður var bjart báða dagana og 4 – 5 stiga frost. Allhvasst var fyrri daginn en logn þann síðari.
Unnið var við vettvangskönnun laugardaginn 2. nóvember og sunnudaginn 3. nóvember.
Hér á eftir er lýsing á hverju mannvirki fyrir sig. Númerin vísa í samsvarandi númer á yfirlitskortum aftast í skýrslunni þar sem lega minjanna er sýnd. Kortin eru teiknuð eftir loftmynd af svæðinu.
Mannvirki 1 (fjárétt?)
Grjóthlaðin ferhyrnd rétt um 13 x 15 m að innanmáli. Hún stendur fremst fram á sjávarbakka. Veggjahæðin er allt að 80 cm og veggjaþykkt er um 80 cm. Ofan á vegginn hefur verið settur gaddavír. Innan í réttinni er yfirborðið mjög mishæðótt og hefur hún að hluta fyllst af sandi. Inngangur er við SA hornið. Við austurgaflinn, sem snýr út að sjónum, er yfirborðið allt að 1,5 m hærra en í suðuvesturhelmingi réttarinnar. Að utanverðu er um tveggja metra fall frá gaflinum niður í grýtta fjörnuna. Í NVhorni réttarinnar er lítið byrgi og er SA hlið þess opin. Austurhlið byrgisins er flutningabretti úr tré. Byrgið er jafnhátt og réttarveggirnir og á því er flatt torfþak.
Af hleðslunum að dæma virðist þetta ekki vera mjög gamalt mannvirki. Þær eru í allgóðu ásigkomulagi og virðist hafa verið haldið við. Byrjað að hrynja smávegis úr hleðslunni í suðurveggnum.
Mannvirki 2 (garðbrot)
Þetta eru leifar af garði eða garðbroti sem að mestu er sokkinn í sand. Steinaröð stendur upp úr sandinum á stöku stað og sýnir hvar garðurinn hefur legið. Hann er um 50 m að lengd og liggur í suðvestur úr víkinni austan við mannvirki 1. Breiddin er um 60 – 80 cm.
Eyrarbær
Samkvæmt merkingu á landakortum ættu rústir Eyrarbæjar að vera um 50 m suður af mannvirki 1. Við gátum ekki séð merki um rústir á þeim stað. Annaðhvort hefur bærinn sokkið í sand, orðið uppblæstri að bráð eða hann hefur ekki verið rétt staðsettur á kortinu. Hugsanlegt er t.d. að mannvirki hafi t.d. verið reist ofan á bæjarrústirnar.
Hafnarbjarg
Gengið var meðfram ströndinni hjá Hafnarbjargi til að kanna hvort þar væru sýnilegar minjar um varir, bátalægi, uppsátur eða fiskgarða. Fjaran er mjög stórgrýtt og brött og ekki varð vart við nein mannvirki á norðvesturhluta Hafnarbjargs.
Mannvirki 3 (túngarður)
Garðhleðsla, hugsanlega túngarður. Garðurinn liggur frá Hafnabergi til austurs og markar sennilega tún eða landamerki Eyrarbæjar og Sandhafnar til suðurs. Vestasti hluti garðsins er sokkinn í sand og að miklu leyti hruninn. Grjótdreif úr hleðslunni er á um 3 m breiðu svæði. Um 50 m frá ströndinni er um 2,5 m breitt rof í garðinn fyrir vegarslóða. Þaðan liggur hleðslan áfram til austurs. Sandur hefur lagst upp að henni beggja vegna þannig að hún er að mestu í kafi. Víða er nokkur grjótdreif og hrun úr hleðslunni, einkum að norðanverðu. Í rofabarði við vegarslóðann virtist veggjaþykktin geta hafa verið um 1 m að breidd, en þar sem sandurinn hefur safnast upp að hleðslunni hefur einfaldri og um 0,3 m breiðri steinhleðslu verið bætt ofan á vegginn. Hæð hleðslunnar ofan sands er allt að 0,5 m.
Mannvirki 4 (tóft?)
Hugsanlegt mannvirki á lágum hól. Að norðanverðu virðist mega greina leifar af einfaldri hruninni grjóthleðslu um 0,2 m breið og um 8 m löng. Innanmálið hefur sennilega verið um 2 m, en ekkert er eftir af suðurhlið og vesturhlið. Hugsanlega eru nokkrir steinar hluti af austurhliðinni. Erfitt var að finna þetta mannvirki á loftmynd og er staðsetning þess e.t.v ekki alveg nákvæm á kortinu.
Mannvirki 5 (garður)
Þetta er garður sem liggur í einfaldri röð. Hlaðinn úr misstórum steinum frá 0,4 – 0,5 m í þvermál niður í 0,05 – 0,1 m í þvermál. Garðurinn liggur í norðvestur-suðaustur.
Austast beygir hann til norðurs? Hann er horfinn á köflum og ekki er alls staðar hægt að sjá hann en til vesturs nær hann alveg niður að sjó. Garðurinn endar við hraunás þar sem mannvirki 6 – 8 eru til staðar.
Mannvirki 6 (byrgi?)
Grjóthlaðinn ferhyrningur hlaðinn úr einfaldri steinaröð, í allt að 0,6 m hæð. Hann er um 1,5 x 2 m að utanmáli og grasi vaxinn að innan. Steinarnir eru um 0,2 – 0,3 m í þvermál. Undirstöðurnar eru alls staðar sýnilegar. Suðurhliðin er sennilega verst farin. Mannvirkið stendur uppi á hæð við austurenda garðs nr. 5
Mannvirki 7 (byrgi)
Grjóthlaðið byrgi norðaustan undir klettunum þar sem garður 5 endar. Hleðslan er einföld steinaröð sem er að mestu horfin í sand eða hrunin. Hún er um 4 m að lengd og 1,4 m að breidd um miðjuna og aðeins mjórri við suðurgaflinn. Þar er byrgið aðeins um 1 m að breidd.
Mannvirki 8 (byrgi?)
Um 5 – 10 m austan við mannvirki 7 er um 9 m löng og 4 m breið þúst og allt að 0,4-0,5 m há. Þar virðist vera svipað mannvirki og mannvirki 7, sem er nánast alveg sokkið á kaf í sand. Steinaröð sést á þriggja metra löngum kafla að sunnan eða vestanverðu.
Mannvirki 9 (varða?)
Grjóthlaðið mannvirki. Tvær hliðar eru hlaðnar í horn um 1,2 x 1,2 m hvor hlið. Hleðslan virðist vera allt að 0,6 cm há og hlaðin úr 0,3 – 0,4 m stórum steinum sem raðað er saman. Hugsanlega er þetta leifar af vörðu.
Mannvirki 10 (fiskbyrgi?)
Mannvirki 10, 11 og 12 eru leifar af þremur litlum byrgjum, sennilega fiskbyrgjum.
Mannvirki 10 er hlaðið úr einfaldri steinaröð og virðist nánast hafa verið ferkantað. Það er 2 x 3 m að utanmáli og er vestasta hliðin allt að 0,5 m há. Byrgið er talsvert hrunið og á norðurhliðnni stendur aðeins neðsta steinaröðin eftir. Enginn inngangur er sýnilegur. Að innan er byrgið grasivaxið og mosagróið.
Mannvirki 11 (fiskbyrgi?)
Grjóthlaðið byrgi um 1,5 x 2 m að innanmáli. Virðist vera hringlaga að utan, að minnsta kosti 1,5 m að hæð. Hleðslan er einföld steinaröð, með 0,3 m breiðum og um 0,4 – 0,5 m háum inngangi á austurhlið. Hleðslan virðast vera tiltölulega nýlega hlaðin eða lagfærð. Tóftin er hálffull af sandi.
Mannvirki 12 (fiskbyrgi)
Sennilega leifar af fiskbyrgi. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr einfaldri steinaröð.
Tóftin, sem er hrunin, er um 3 x 3,5 m að utanmáli. Ekki verður séð af yfirborði hvort hún hefur verið hringlaga eða ferningslaga. Undirstöður virðast þó fremur hafa verið ferningslaga. Hún er allt að 0,5 m að hæð þar sem hún er hæst.
Mannvirki 13 (vegarslóði)
Traðir sem liggja meðfram ströndinni yst frá Eyrarbæ að Sandhöfn. Þetta er um 1,5 m breiður slóði sem varðaður er einfaldri steinaröð beggja vegna. Steinarnir eru að jafnaði um 0,1 – 0,2 m stórir. Sums staðar hafa rekaviðardrumbar verið lagðir í stað steina til að afmarka vegarslóðann. Þetta virðist ekki vera ýkja gömul hleðsla. Hugsanlega er þetta nýleg gönguleið sem gerð hefur verið að hömrunum við Hafnaberg.
Mannvirki 14 (rétt?)
Stór tvískipt grjóthlaðin tóft upp á og utan í dálítilli hæð. Veggirnir að mestu hrundir.
Nú eru þeir ekki nema um 0,2 – 0,3 m háir. Upphaflega virðast þeir hafa verið allt að 0,8 m breiðir. Hugsanlega er þetta leifar af rétt eða fiskreit. Minni reiturinn hallar til norðurs. Hann er 15 x 13 m að innanmáli.
Stærri reiturinn er grjóthlaðinn um 45 x 25 m að innanmáli. Hleðslan er að mestu horfin í sand. Einföld steinaröð stendur upp úr sandinum, allt að 0,5 m há.
Mannvirki 15 (lendingarstaður?)
Hér hefur líklega verið lendingarstaður, uppsátur eða vör. Hér er sendin skor þar sem gott hefur verið að draga upp báta. Fyrir ofan lendinguna er grasi vaxinn hóll þar sem hugsanlega eru einhverjar rústir án þess að hægt sé að segja það með vissu. Á hólnum austanverðum er eins og 90° horn sem bendir til þess að þar sé um hleðslur að ræða.
Mannvirki 16 (bæjarhóll, Litla Sandhöfn?)
Um 5-6 m hár grasi gróinn hóll sem virðist vera gamall bæjarhóll. Hér og hvar glyttir á hleðslur í hólnum. Hugsanlega eru þetta leifar eyðibýlisins Litlu-Sandhafnar.
Mannvirki 17 (bæjarhóll, Stóra Sandhöfn?)
Mikill og grasivaxinn bæjarhóll, um 30 – 40 m langur og 4 – 5 m hár. Uppi á hólnum sést víða í hleðslur upp úr grasinu. Sunnan undir hólnum er um 10-15 m grjóthlaðið gerði. Hugsanlega er hóllinn leifar eyðibýlisins Stóru-Sandhafnar.
Mannvirki 18 (rústahóll?)
Grasi vaxinn hóll norð norðaustur af hól 16. Hóllinn er alveg niður við fjöruna og virðist sjórinn vera búinn að brjóta stórann hluta af honum. Þetta eru sennilega leifar af rústahól þó nú sjáist ekki móta fyrir rústum á yfirborði hans.
Mannvirki 3 (landamerkjagarður?)
Garðurinn beygir og klofnar í tvær áttir skammt suður af mannvirki 17. Annar hluti hans heldur áfram til suðausturs en hinn beygir niður að sjónum til austurs.
Mannvirki 19 (varða)
Varða hlaðin úr grjóti upp á um tveggja metra háum hraunkolli. Varðan er ekki alveg ferningslaga að flatarmáli heldur nokkuð óregluleg. Hún er um 1-1,5 m í þvermál og um 1 m á hæð. Steinarnir eru þaktir stórum skófum sem bendir til þess að varðan sé gömul. Hún er um 100 metrum suðvestur af bæjarhól nr 17. Erfiðlega gekk að finna staðinn á loftmyndinni og er staðsetningin hugsanlega ónákvæm á korti.
Mannvirki 20 (bæjarhóll?)
Grösugur sandhóll ósléttur að ofan. Hann er sennilega um 5 – 6 m hár og um 20 – 30 m í þvermál. Gæti verið gamall bæjarhóll þó ekki sjáist lengur móta fyrir minjum á yfirborði. Þær gætu verið komnar á kaf í sand. Hugsanlega er þetta leifar eyðibýlisins Kirkjuhafnar.
Mannvirki 21 (Garðar og reitir)
Niður við ströndina eru leifar af grjóthleðslum fremst á klettunum norðan við hólinn. Þær eru að minnsta kosti 5 m langar og allt að tveggja metra breiðar. Þetta er hluti af lengri hleðslu sem liggur í sjó fram. Fleiri garðar eða reitir eru í framhaldi af henni þarna fremst á bakkanum. Einn er um 8 m langur og annar garður um 4 m breiður. Þetta eru allt hleðslur sem standa fremst á bakkanum.
Mannvirki 22 (tóft og garður)
Grjóthlaðið mannvirkið fremst á sjávarbrún. Veggirnir eru allt að 1,2 m að hæð.
Hleðslurnar eru nokkuð hrundar og engin hvilft er í mannvirkið að ofan. Það er um 8 m að lengd og 3 m að breidd. Grjóthleðslan heldur áfram um 20 metra inn í landið og er á kafi í sandi og grasi. Sunnan við 22 eru garðbrot sem liggja í allar áttir. Ekki verður því lýst nánar að sinni en æskilegt væri að mæla þetta svæði betur upp.
Mannvirki 23 (fiskreitur?)
Þetta er grjóthleðsla sem hefur þrjár hliðar sýnilegar. Lengd og breidd þessa reits var ekki mæld en hleðslan er tvöföld, allt að 0,6 m breið, að mestu leyti hlaðin úr allt að 0,6 m stórum steinum og púkkað upp á milli með smágrýti.
Mannvirki 24 (rétt?)
Grjóthlaðin ferköntuð rétt innan í reit nr. 23. Steinarnir í hleðslunni eru minni en í mannvirki 23. Hleðslan er einföld steinaröð allt að 0,8 m há. Réttin er full að innan af sandi. Enginn inngangur í hana er sýnilegur. Þvermál hennar er 15 x 11 m að utanmáli.
Í framhaldi af reit 23 eru fleiri samsíða reitir til austurs.
Mannvirki 25 (fiskreitur?)
Mannvirkið er um 16 m langur reitur, sennilega fiskreitur, sem er í framhaldi af reit 23. Hann er um 4 m norðan vegarslóða og liggur niður að sjó. Umhverfis reitinn er hlaðinn garður úr lábörðu grjóti. Hleðslan er um 0,5 – 0,6 m breið og er allt að 0,5-0,6 m há. Flestir steinarnir eru um 0,2 – 0,3 m í þvermál. Garðurinn hefur þrjár hliðar, vestur-, suður- og austurhlið. Fjaran afmarkar hann að norðanverðu. Reiturinn sem garðurinn afmarkar er um 40 m langur og um 40 m breiður. Á suðurhliðinni er um 50x60x20 cm stór steinn sem stendur upp á endann. Austan við hann er um 1 m breitt rof eða op í garðhleðsluna. Líklega hefur þetta verið inngangur inn í reitinn.
Suðurhliðin nær ekki alveg að næsta reit og endar hleðslan um 15 m áður en komið er að mannvirki 26.
Garðar 23-28
Garðarnir 23 – 28 eru framan við hól 20 ofarlega til vinstri. Til hægri í baksýn eru Sandvík og Eyrarvík. Horft til vesturs.
Mannvirki 26, 27 og 28 eru þrír samsíða reitir sem girtir eru af með grjóthleðslum og skipt er niður með einföldum steinaröðum. Þessir reitir eru nánast fullir af sandi og grónir. Innan reitanna eru sums staðar dreifðar grjóthrúgur en ógerlegt er að sjá hvort þær séu leifar frekari mannvirkja. Hugsanlega eru þetta steinar sem brimið hefur kastað upp á land.
Mannvirki 26 (fiskreitur?)
Ferhyrndur reitur, hlaðinn úr hraungrýti með hvössum brúnum. Hann er um 13 m breiður og 15 m langur, 0,6 m hár og víða hruninn. Hann nær ekki niður að fjöru.
Mannvirki 27 (fiskreitur?)
Ferhyrndur reitur svipaður að stærð og reitur 26 og samhliða honum. Vesturhlið reits 27 er er einföld steinaröð sem jafnframt er austurhlið 26.
Mannvirki 28 (fiskreitur?)
Reitur sem er um 13 m að lengd og 12 m að breidd, austan við reit 27. Grjóthleðslan umhverfis er fremur sporöskjulaga en ferhyrningslaga.
Mannvirki 29 (bæjarhóll?)
Um 5 – 6 m hár grasi gróinn hóll sem er um 15 m í þvermál. Á yfirborði eru engar hleðslur sýnilegar. Í hjólförum sem liggja upp hólinn sér hins vegar í grjót sem virðist hafa spólast upp og gæti það bent til að þar séu grjóthleðslur undir. Þar sem hóllinn stendur einn og sér er mjög líklegt að þetta sé rústahóll. Hugsanlega eru þetta einhverjar leifar af eyðibýlinu Kirkjuhöfn?
Í fjörunni norður af hól nr 29 er vík. Þar gæti hafa verið lendingarstaður eða vör.
Mannvirki 30 (varða)
Varða sem er um 1 x 1,5 m í þvermál og allt að 0,8 m há er upp á háum hraunhól sunnan vegarins. Á steinunum eru allmiklar skófir sem bendir til þess að hún sé gömul. Hún er í suðaustur af hól nr 29.
Mannvirki 31 (fiskbyrgi?)
Grjóthlaðið byrgi upp á litlum klettahól, um 10 m austan og neðan við vörðu nr. 30. Utanmál byrgisins eru um 2 x 2 m. Þetta er einföld grjóthleðsla sem er allt að 1 m há. Sandur hefur safnast í byrgið innanvert svo að þar er veggurinn aðeins um 0,5 m hár. Hún virðist hafa verið ferköntuð og inngangur gæti hafa verið á suðurhlið. Steinarnir eru nokkuð stórir að jafnaði, um 0,3 – 0,4 m í þvermál.
Mannvirki 32 (fiskreitir?)
Samliggjandi garðar eða fiskreitir. Þeir eru a.m.k. sex talsins en voru nú skráðir á eitt númer. Reiturinn sem er næst veginum er um 15×12 m að innanmáli. Hleðslan er úr hraungrýti og lögð ofan á mjög óslétt landslag. Sandhæðir eru í norður og norðausturhluta reitsins. Þær eru 2-3 metrum hærri en yfirborð í suðurhluta reitsins. Hleðslan er um 0,6 m breið og allt að 1 m há þar sem hún er hæst. Víða er hún hrunin. Reitirnir eru beint upp af eða suður af víkinni sem virðist hafa verið góð til lendingar og nefnd var hér að framan. Svo virðist sem reitasvæðið afmarkist að sunnanverðu og norðanverðu af stökum garðhleðslum sem liggja frá veginum alveg niður að sjó.
Mannvirki 33 (varða)
Varða um 1 x 1,5 m að breidd. Hún er ferstrend og dregst að sér og um 2 m há. Hún er ekki gömul og gæti hugsanlega verið merkjavarða. Steinarnir í vörðunni eru nokkuð misstórir. Þeir minnstu eru um 0,15 – 0,2 m í en flestir eru um 0,3- 0,4 m í þvermál.
Mannvirki 34 (varða?)
Varða eða mælipunktur sem hlaðin er þannig að tveir stórir steinar, um 0,4 – 0,5 m í þvermál eru lagðir með um 0,4 m millibili og stór steinn lagður ofan á. Þar ofan á eru lagðir nokkrir fleiri steinar. Þeir mynda þannig strýtulaga vörðu með gati neðst í gegn. Hún er um 1,3 m að breidd og um 0,4 m breið. Hæðin er um 0,8 m. Þetta virðist ekki vera gamalt mannvirki.
Á hrauntoppunum hér í kring eru ýmsar smávörður sem verða ekki skráðar hér.
Mannvirki 35 (gerði eða reitur?)
Leifar af grunnu gerði eða reit, um 8 m að innanmáli. Erfitt er að sjá hvernig gerðið hefur verið í laginu. Að innanverðu er það er á kafi í sandi. Norðvesturhliðin er bein en suðurhlutinn er bogadreginn. Hæð hleðslunnar, sem er mikið hrunin, er um 0,4-0,5 m að utanverðu. Gerðið er rétt sunnan við vörðu nr. 34. Þetta gæti verið mjög gamalt mannvirki.
Mannvirki 36 (byrgi?)
Grjóthleðsla upp á litlum hraunkletti. Hleðslan er um 2 x 2 m í þvermál. Hugsanlega eru hér leifar af borghlöðnu byrgi sem hefur fallið saman. Þar sem hleðslan er hæst er hún allt að 1 m að hæð en að jafnaði er hæð hennar um 0,5 m. Stórar skófir hafa víða náð að myndast á steinunum sem bendir til að mannvirkið sé mjög gamalt. Þetta er um 50 m norðan við hitt.
Mannvirki 37 (garður)
Grjótgarður, sums staðar sokkinn á kaf í sand. Hann liggur meðfram fjörunni, til suðvesturs frá Kalmansvör. Við endann á afleggjara frá gamla vegarslóðanum beygir garðurinn til norðausturs og er þar sennilega um 150 m að lengd. Hann hverfur á kafla undir vegarslóða og liggur í nokkrum boga austan við veginn. Suðaustur hornið er bogadregið og þaðan stefnir garðurinn til norðausturs niður að afleggjara heim að fiskeldishúsi. Þar hverfur garðurinn undir veg en heldur áfram norðan vegarins til norðausturs eins langt og augað eygir. Honum var ekki fylgt frekar eftir. Aðeins efsti hluti garðsins stendur upp úr sandinum og er þar allt að 0,4 m að hæð. Hann er um 0,6 m breiður og víðast hlaðinn úr 0,2 – 0,3 m stórum steinum.
Hlaðið mannvirki úr grjóti innan garðs nr. 37. Það er fimmhyrnt og um 26 m langt. Suðurhluti þess er um 9 m breiður og um 13 m langur. Þar breikkar norðurhlutinn um tvo metra til vesturs. Veggjahleðslan er um 0,5 – 0,6 m breið og allt að 0,7 m há þar sem hún er hæst. Sandur hefur lagst upp að hleðslunni bæði að utan og innan. Suðausturhornið er alveg fullt af sandi upp á veggjabrún. Inni í tóftinni, aðeins norðan við miðbik hennar er grjóthrúga sem virðist vera leifar af grjóthleðslu sem er að mestu horfin í sand. Þar sést í einfalda steinaröð sem liggur í um 2 m langt horn. Ekki er hægt að sjá neinn inngang í þetta mannvirki, þó sums staðar sé veggurinn hruninn. Garðurinn er einföld röð af steinum sem stundum liggja langsum og stundum þversum í hleðslunni. Steinaröðin er efsti hluti af grjótgarði sem sokkinn er í sand. Sums staðar sjást tvö steinalög, en sandurinn hefur lagst upp að garðinum báðum megin. Suðurendi garðsins endar um 10 – 15 m austan við suðurhorn garðs nr. 37 og
liggur síðaan eins langt og augað eygir til aust-norðausturs. Sennilega er þetta gömul hleðsla.
Niðurstöður
Mun fleiri minjar reyndust vera á svæðinu en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta eru minjar sem tengjast gömlu eyðibýlunum Eyrarbæ, Sandhöfn og Kirkjuhöfn. Greinilegt er að þarna hefur verið útgerð og að flestar minjar á svæðinu tengjast þannig starfsemi, s.s. fiskkarðar, fiskreitir og fiskbyrgi. Einnig eru þarna nokkrir sandhólar. Hleðsluleifar og fl. bendir til þess að hólarnir séu gamlir rústahólar og má ætla að þeir geymi leifar eyðibýlanna Sandhafnar og Kirkjuhafnar. Leifar Eyrarbæjar fundust ekki.
Merkustu minjarnar eru bæjarhólarnir. Sjálfsagt er að varðveita þá, en æskilegast er að varðveita minjasvæðin umhverfis bæina sem heildir.
Umsögn um staðsetningu verksmiðju
Fyrirhugaðri magnesíumverksmiðju er ætlaður staður suður og upp af Sandvík.
Afstöðumynd sýnir að verksmiðjan mun fara yfir hluta af tún- eða landamerkjagarði sem merktur er sem mannvirki nr. 3 í þessari skýrslu. Einnig liggur verksmiðjusvæðið alveg upp að hól nr. 17 og virðist honum því stafa nokkur hætta af fyrirhuguðum framkvæmdum. Eins og fram hefur komið teljum við að að hóllinn sé gamall bæjarhóll og geymi leifar eyðibýlisins Stóra-Sandhöfn. Samkvæmt gögnum úr svæðisskipulagi fyrir Suðurnes 1987-2007 mun Sandhöfn hafa farið í eyði um 1600. Túngarðurinn er sennilega frá sama tíma og bærinn. Hér eru því að öllum líkindum minjar sem eru a.m.k. orðnar 400 ára gamlar og þar með verndaður samkvæmt þjóðminjalögum nr 88. frá 1989. Því má bæta við að bæjarhólar hlaðast upp á löngum tíma. Miðað við umfang bæjarhólanna á þessu svæði má gera ráð fyrir byggingarskeiðum sem ná yfir margar aldir, hugsanlega allt frá upphafi landnáms.
Verði verksmiðja reist á þessum stað er ljóst að garðhleðslurnar munu hverfa á stórum kafla. Þær eru hins vegar ekki einstakar í sinni röð og ætti fornleifakönnunin sem gerð var að vera nægileg skráning á þeim. Bæjarhóllinn er hins vegar miklu merkilegri og við honum má ekki hrófla nema að undangenginni rannsókn. Fornleifarannsókn á hólnum mundi sennilega taka um 2 – 5 ár og kostnaður við hana gæti numið um 5 – 10 milljónum króna á ári.
Ef framkvæmdaaðilar vilja komast hjá þeim kostnaði sem fornleifarannsókn hefur í för með sér þarf að hliðra verksmiðjunni til þannig að svæðið sem þarf að raska vegna verksmiðjunnar sé vel utan ystu marka bæjarhólsins. Best væri að afmarka verndarsvæðið þannig að vinnuvélar fari ekki of nálægt því. Að þessum skilyrðum uppfylltum telur Þjóðminjasafn Íslands ekki ástæðu til að standa í vegi fyrir framkvæmdum á svæðinu, enda séu aðrar minjar en hér hefur verið rætt um ekki í hættu.” – Reykjavík 19. nóvember 1996, Guðmundur Ólafsson Sigurður Bergsteinsson, deildarstjóri fornleifadeildar fornleifafræðingur. Heimildir:
Sveinn Níelsson (1950). Prestatal og prófasta. Reykjavík.
Heimild:
-Rannsóknarskýrslur Fornleifadeildar Þóðminjasafnsins 1996 XIV – Fornleifakönnun á framkvæmdarsvæði Magnesíumverksmiðju 2.-3. nóvember, Fornleifadeild Þjóðminjasafnins – Reykjavík 1996/2008.
-https://www.thjodminjasafn.is/media/rannsoknir/1996-14-Magnesium-verksmidja-fornleifakonnun.pdf