Færslur

Ósabotnar

Í Faxa 1984 fjallar Jón Thorarenssen um „Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi“.

„Árbók Ferðafélags Íslands 1984 er helguð Reykjanesskaganum vestan Selvogsgötu og mun þá átt við Selvogsgötu í Hafnarfirði.
ÓsabotnarÁður fyrr höfðu Selvogsbúar mikil verslunarviðskipti í Hafnarfirði og munu hafa komið af Selvogsheiði niður á þessa Hafnarfjarðargötu er þeir fóru í kaupstað og ber hún síðan nafn þeirra.
Öll er Árbók þessi hin vandaðasta að efni og útliti og hin forvitnilegasta fyrir okkur Suðurnesjamenn. Höfundar eru fjórir, þeir séra Gísli Brynjólfsson, vel þekktur hér á Suðurnesjum, hann skrifar um byggðir Suðurnesja. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifar kaflann „Um heiðar og hraun“. Hann er mjög kunnur jarðfræði Skagans hefur lengi stundað þar rannsóknir. Þá skrifa náttúrufræðingarnir Hörður Kristinsson og Arnþór Garðarsson í ritið. Hörður um gróðurskilyrði en Arnþór um björgin og fuglalíf, sem er fjölskrúðugra hér en víðast hvar annarsstaðar á landinu. Ég hvet Suðurnesjabúa til að eignast og lesa þessa ágætu Árbók.
Við sem búum norðanverðu á Skaganum erum flestir kunnugir þeim miklu athöfnum og jarðarbótum sem Hestamannafélagið Máni hefur unnið að. Iðgræn tún hylja nú stór landssvæði, sem áður voru fokmelar vegna hrjúfra handa er þar höfðu um gengið. Svipað má segja um Leiruna þar sem Golfklúbbur Suðurnesja hefur gert stórvirki í fegrun og ræktun lands sem bændur höfðu yfirgefið þar sem aðal afkomuleið Leirubúa, fiskveiðar, var brostin en landkostir rýrir.
Ég vona að séra Gísli Brynjólfsson bregðist ekki illa við þó að ég taki hér upp eftir honum þar sem frásögn hans um Leiru hefst.
„Miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála liggur við sjávarsíðuna Leiran, sem er eitthvert það besta fiskiver, með því að þar má sækja sjó á báðar hendur“ segir í sóknarlýsingu 1839. En nú mun langt síðan nokkurri fleytu hefur verið róið til fiskjar úr Leirunni enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn nú hina síðari áratugi. En fyrst nokkur orð um byggðaþróun í Leirunni samanborið við næsta nágrennið, Keflavík. Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík.
Árið 1880 voru nákvæmlega jafnmargir íbúar í Keflavík og Leiru eða 154. Nú búa 2 menn í Leirunni en í Keflavík eru íbúar 6747.“
Þessi stutta tilvitnun í Árbókina sýnir okkur glöggt hve sveiflurnar í tilverunni eru hraðar. Það sem var brúnn melur í gær getur verið iðgrænt engi á morgun og sjórinn sem var fullur af lífsbjörg á báðar hendur fyrir fáum árum er sem dauðahaf í dag. Allt er þetta athöfnun okkar mannanna að þakka eða kenna. Hugsum því fyrir morgundeginum.“ – J.T.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726.

„Skúli Magnússon, landfógeti, segir í sýslulýsingu sinni um Básenda: „Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum á milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í véstanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farist þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á þessa höfn um hríð. Höfnin er því eigi örugg, nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum, og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrrnefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 faður í hinu síðarnefnda. Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet, þegar stórstreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi. Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar“.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Nokkru sunnar er Þórshöfn. Þar er hin forna höfn verzlunarskipa á síðari hluta 19. aldar. Samkvæmt lýsingu Skúla fógeta, er leiðin 170 faðmar inn, en breidd 51 faðmur, ef skip rista 6 fet. Þessi höfn var notuð er Hansakaupmenn og Þjóðverjar ráku verzlun hér, en árið 1601 var síðasta verzlunarár brim væri, því að skerjagarður að þeirra þar. Flest gátu 5 skonnortur legið þar í einu, allar bundnar. Þarna í Þórshöfn gerðist sá atburður á árunum 1890-1895, að útvegsbændur á Suðurnesjum komu þar saman til þess að ræða fiskverð. Segja má að hér hafi verið eins konar upphaf íslenzkrar kjarabaráttu sjómanna um fiskverð. Þarna var mættur Ketill dbrm. í Kotvogi með sonum sínum og Salómon Björnsson frá Kirkjuvogi, Einar Sveinbjörnsson í Sandgerði, Jón Sveinbjörnsson frá Húsatóftum, Magnús Bergmann í Fuglavík, og úr Grindavík Sæmundur Jónsson og Tómas Guðmundsson.
Rétt austan við Þórshöfn er Hvalvík og Hvalvíkurhólmi þar ytra. Nokkru austar og innar er komið að hinum gamalkunna og merka stað Bárðarvör (sjá Útnesjamenn), sem áður var stundum kölluð Prestatorfa, þegar Hvalsnessprestar þjónuðu Kirkjuvogssókn, en Hvalsnes var lagt niður sem prestsetur árið 1811.
Fram til þess tíma var Bárðarvör ferjustaður Hvalsnesspresta yfir Ósana í Kirkjuvogsvör, og þessa leið notaði síra Hallgrímur Pétursson stöðugt á árunum 1644-1651, þegar hann þjónaði Kirkjuvogskirkju frá Hvalsnesi. Eftir það var Bárðarvör kölluð Grímsvör um tíma, en það nafn hvarf fljótt og frá síðustu aldamótum er óhætt að segja, að vörin hafi aldrei verið kölluð annað en Bárðarvör. Bárðarvör er smá vík, er skerst inn norðan við Einbúa, sem er hár hringmyndaður grashóll, og sést víða að, bæði á landi og af sjó, og er því mikið kennimerki sjósóknarmanna.
Fyrir utan Bárðarvör er Hestaklettur (sjá Útnesjamenn), stór og mikil klettaborg. Við austurhorn Hestakletts var ætíð farið, þegar ferjað var yfir Ósa. Á austurhorni Hestakletta sitja ætíð dílaskarfar og blaka vængjum til að þurrka sig.

Vörðuhólmi

Einbúi og Vörðuhólmi.

Nokkuð austur af Hestakletti er Selsker, hættulegt sker. Það er alltaf talið hættulegt að fara nærri því. Þar drukknaði síra Árni Hallvarðsson og sjö manns með honum 31 . marz 1748.
Einbúi er eins konar löng eyja frá norðri til suðurs og umflotin sjó, en á f jörum má víða vaða yfir rásina, sem umlykur hann, en strax með aðfalli er það ekki hægt. Suðurendinn heitir Vörðuhólmi. Við suðurenda hans fellur sjór með útfallinu frá þessari löngu eyju, en skammt frá er Runkhólmi, svo þrengslin verða mikil með útfirinu í þessum þrönga ósi, og beljandinn ofsalegur, en stórsteinar, strýtumyndaðir, hér og þar í botninum, svo að þetta ér stórhættulegur staður fyrir báta. Einu sinni fór ég niður þennan ós, einn á tveggja manna fari. Ég var að grafa sandmaðk og mig langaði að fara niður beljandann. Ég hef líklega verið 16 ára, sterkur og liðugur þá, og mér fannst ég geta allt. Þar hallaði niður í ósinn eins og brekku. Ég lagði í ósinn, en straumkastið tók strax af mér ráðin og fyrir Guðs mildi slapp ég lifandi, en ég skammaðist mín mikið fyrir þetta tiltæki. Það er fyrst nú að ég segi frá þessu, sem gerðist fyrir 65 árum.
Fyrir utan Runkhólma er svokallaður Síðutangi, þá Skotbakki. Að Síðutanga og Skotbakka bárust hlutir eða partar úr hinu fræga strandi „James Town“. (Við Einbúa og Skotbakka var ágætur maðkasandur).
Fyrir austan Skotbakka er svo Gamli Kirkjuvogur, sem hét fyrrum Vogur á Rosmhvalanesi, vegna þess, að öll ströndin frá Stafnesi, inn með öllum Ósum að Hunangshellu er á Rosmhvalanesi. Það sýnir bezt breytta landskosti í tímanna rás, að Espólín segir frá því í 2. deild Árbókarinnar, að árið 1467 hafi Björn Þorleifsson, hirðstjóri, selt Eyjólfi Arnfinnssyni nokkrum Voga á Rosmhvalanesi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar segir að 1703 hafi Gamli Kirkjuvogur legið í auðn lengur en 120 ár, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. Af þessum orðum Árna Magnússonar, að bæjarstæðið hafi verið í Kirkjuvogslandi má ætla, að landamerkin milli Stafness og Kirkjuvogs hafi ekki verið um Djúpavog, heldur um Bárðarvör, eða Runkhólmaós, þó kannski heldur, eftir því sem gamalt fólk í Höfnum og fóstri minn, Ketill, töluðu um.
Fyrir innan Gamla Kirkjuvog kemur svo Djúpivogur, þar næst Beinanes, þá Seljavogur, þá Stóra-Selhella, þá Stóru-Selhelluvogur, þá Litla-Selhella, þá Litlu-Selhelluvogur, þá Brunnvogsklettar, þá Steinbogi og svo loks hin fræga varða Hunangshella, sem nú er hálf hrunin og brot af vörðunni eftir.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort.

Hér endar Rosmhvalanes, því að Hunangshella var og er landssvæðavarða. Lína sem hugsaðist dregin frá Hunangshellu í Háaleitsþúfu (var norðaustast á Keflavíkurflugvelli, en er horfin nú), og frá Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík. Allt fyrir norðvestan þessa hnu er Rosmhvalanes. Það er stór hluti Reykjanesskagans.
Hunangshella dregur nafn sitt af sögu, sem prentuð er hjá Jóni Arnasyni, þjóðsagnasafnara, (1. b., bls. 613). Það var skrímsli grimmt, hættulegt og skotharðast allra dýra. Maður einn tók sig til og bar hunang á helluna, því óvætturin var sólgin í það. Maðurinn lá svo í leyni þar hjá. Óvætturinn kom og tók að sleikja hunangið af hellunni. Þá skaut maðurinn skrímslið með vígðum silfurhnöppum. Það hreif. Síðan heitir staðurinn Hunangshella. Hjá Hunangshellu endar Rosmhvalanes, eins og áður er sagt.
Hjá Hunangshellu enda Ósabotnar. Hunangshella er merkur staður. Varðan þar í hellunni er í ólagi. Ég skora á útivistarmenn eða einhver félagasamtök, eða Lionsmenn á Suðurnesjum, að reisa þessa gömlu vörðu við á björtum og blíðum sumardegi. Það er ræktarsemi við gamla tímann og virðing fyrir hinum gömlu landamerkjum Suðurnesjamanna, sem eru milli Rosmhvalaness og Reykjanes skagans. Ennþá eiga Suðumesin gott fólk, hraust og afkastasamt til að gera þetta.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Þegar farið er frá Hunangshellu suður koma næst Þríhólar þá Leirdalur og Leirdalshólmi, þá Stekkir, Stekkjarnes og Stekkjarneshólmar, þá Hellisvik, innan við Hellishæð (hjá Hellisviki beið Oddur V. Gíslason eftir því að Anna Vilhjálmsdóttir kæmi til sín á vökunni 30. des. 1870). Þá kemur Torfdalsvík síðan Torfdalur, þar á tanganum er hin ævaforna sundvarða sveitarinnar. Þá kemur Maðkasandur, Maðksandsklöpp, þá Bótin, Langaklöpp, Svartiklettur, síðan Þvottaklettar, sem eru austan við Kirkjuvogsvör. Nú er þar ekkert skip og engin mannaferð. Kirkjuvogsvör má muna sinn fífil fegri, þegar um og yfir 100 ungra manna réru úr vörinni á hverjum róðrardegi á vertíðum. Upp af Kirkjuvogsvör voru tvö naust, austurnaust, sem voru víð og stór og rúmuðu marga teinæringa, og svo vesturnaust, sem rúmuðu í mesta lagi þrjá teinæringa. Bæði voru þessi naust vel varin fyrir sjógangi, veðrum og vindum. Fyrir vestan og utan Kirkjuvogsvör er Kirkjuskerið, stórt sker og hátt, sem er aðalskjólið fyrir Kirkjuvogsvör og hlífir henni í briminu. Þar utar, en fast við Kirkjusker, er Flatasker, sem hlífir sömuleiðis. Með aðfalli fór strax að koma lá í Kirkjuvogsvör, þegar Flatasker var komið í kaf. Kirkjuvogssund er langt. Sundið er tekið þegar Bælið er um Junkaragerði, en Keilir um Svartaklett. Þegar komið er inn fyrir Flataskersenda og Einbúa og Kiðaberg úti á Stafnesheiði ber saman, þá er vinkilsnúið inn í vörina.
Ingigerður Tómasdóttir, húsfreyja í Kotvogi, d. 1804, sagði, að full sáta af heyi hefði fengist síðast af Kirkjuskerinu og grastónni þar, sem síðast var á kollinum á skerinu. Sömuleiðis hefði í þá tíð varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og heimatúnsins. Nú er þar stórt og breitt svæði. Sýnir þetta hver ósköp landið hefur eyðst á liðnum tímum.
Vestan við Kirkjuvogsvörina eru Þvottavötnin, bergvatnsuppspretta úr lágri klöpp. Þar var ætíð skolaður þvottur og þvegin ull. Þá kemur sker fyrir vestan, sem heitir Fúsi, sem við krakkarnir veiddum við varaseiði. Músasund heitir sundið á milli Kirkjuskersins og lands. í sundinu er smá sker, sem heitir Árarbrjótur, smá tangi á móts við Kotvog. Hola nefnist lendingin fyrir neðan Kotvogsbæinn. Þá kemur Skellisnoppa vestar, sker sem brim skellur mikið á, en í mínu ungdæmi kallað Skellir, hitt nafnið mun eldra. Við Skelli er bundin smá frásögn, er nú skal greina: Árið 1912, seint í maí, var sem oftar háskólaborgari einn gestur í Kotvogi nokkrar nætur. Dýrafræði og grasafræði voru eftirlætisgreinar hans. Hann eyddi dögum sínum seint og snemma í fjörunni.

Kotvogur

Kotvogur.

Dag einn, er var orðið nokkuð hásjávað, sá hann steypireiði mikla koma á mikilli ferð að sunnan og þræða rétt utan við ystu sker. Kom hún rétt af Skelli, vinkilbeygði þar og tók stefnu norður og djúpt út af Stafnestöngum, og svo var ferðin mikil á skepnunni, að hún var brátt horfin úr augsýn norður í Nesdjúpið svokallaða. Þennan dag var hányrðingur, ládeyða og hreinviðri. Nú hafa þessi dýr verið svo ofsótt, að þau þræða ekki við ystu sker Íslands lengur.
Sunnan við Skelli og lengra úti eru Hásteinar, sérstæðir klettar, sem ekki sjást nema um stærstu fjörur. Þar hafa skip oft farist, og árið 1872 varð þar skipsskaði og manntjón frá Kirkjuvogi í tíð Þórunnar Brynjólfsdóttur, er átti skipið og gerði það út (sjá Rauðskinnu, Guðmundur í Réttarhúsum, stórmerk frásögn). Sunnar í fjörunni, Snoppa, stór klöpp ofarlega í fjörunni, með djúpa sprungu eftir endilöngu í áttina til hafs. Fyrir neðan Snoppu er brúðhjónasæti álfanna í klettahrygg þar. Sunnar eru svo Haugsendafjörur þar var þangskurður ágætur og var ég þar oft í þangfjörum á unglingsárum mínum. Þar er Markasker og Haugsendavarðan aðeins sunnar uppi á kampinumHún er sundmerki fyrir Merkines, og þegar hana ber við Bræður, klofinn hól þar efra, þá er farið inn Merkinessund.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Við höldum stöðugt áfram suður með ströndinni. Þá koma næst Merkinesklettar, Skiptivík, Dilkar, hár hóll og annar minni fyrir innan Junkaragerði, þá Junkaragerðisklettar, klakkar norðan við Kalmanstjarnarsund þá Hólmi, Draugar, Stekkjarvikið (sbr. Marínu), Kirkjuhafnarvikið, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, Sandhafnarlending, Kópa, Eyrarvík og Eyarbær, þar sér fyrir bæjarrústum, nálægt sjávarbakkanum og grasi gróið umhverfis. Þar er mjög fallegt. Lendingin beint niður af bænum, örstutt nokkrir metrar. Stutt hefur verið að sækja fisk þaðan, meðan hann var nógur við landið, og hægt hefur verið að kalla heim að bænum, þegar veður voru góð. Eyri eða Hafhareyri, eins og sóknarpresturinn á Hvalsnesi kallaði bæinn, var síðasti byggður bær fyrir sunnan Kalmanstjörn, á Eyrartanganum rétt við norðurendann á Hafhabergi. Bærinn fór í eyði árið 1776.
Til gamans set ég hér húsvitjun sóknarprestsins á Hvalnesi 1773, sem er á þessa leið: Hafnareyri 1773: Ormur Þórarinsson, húsbóndi, 46 ára., Gunnvör Árnadóttir, húsfreyja, 49 ára., Katrín Hjaltadóttir, 20 ára., Magnús Hjaltason, 10 ára., Bartólomeus Jónsson, lausamaður, 61 árs.
Út af Eyraroddanum er röst, Eyrarröst, og stórt sker, Eyrarsker, rétt sunnan við tangann. Ég spurði Bjarna Guðnason, sem var í Kotvogi og formaður í 50 ár, hvar hann hefði fengið verstan sjó á allri formannstíð sinni. Hann svaraði: i ,Það var í Eyrarröstinni, þó var ég þá með teinæring“. Þetta var um Eyrarbæinn, en nú held ég áfram örnefnaröðinni.

Hafnaberg

Hafnaberg.

Næst fyrir sunnan norðurenda Hafnabergs kemur svo skerið Murtungur (Guðmundur Salórnonsson, fræðimaður, bóndi og meðhjálpari Kirkjuvogskirkju um í áraraðir, kallar sker þetta Murling. Þetta getur verið réttara, því að hann var talinn fróður og minnu gur, og eftir hann er afbragðs ritgerð í 3. bindi Rauðskinnu). Þá kemur Klaufln, sprungnir klettar, þá Hafhaberg. Berg þetta er um hálfa viku sjávar á lengd og rúmir 20 faðmar þar sem hæst er, en ógengt. Í berginu er stór geigvænlegur hellir, sem heitir Dimma. Þá kemur Stráksrif (Bjarghóll þar upp af), þá Boðinn, Lendingarmelar, Rekavík, Skjótastaðir (eyðijörð), Stóra-Sandvík, LitlaSandvík, Mölvík, Kistuberg, Pyrslingasteinar, Kinnarberg, þá Önglabrjótanef. Út af þessu nefi er norðurstrengur Reykjanesrasta rinnar, sem talin er sterkari en suðurstrengurinn, þá Karlinn, klettur hrikalegur í sjó fram. Einu sinni í sumarblíðu og logni var ég á háti, er fór milli Karlsins og lands.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Þá er næst Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás, Valahnjúkur (þar sem fyrsti vitinn var), Valahnjúksmöl, Skarfasetur, þar út af þessu nefi er suðurstrengur Reykjanesrastarinnar, og er hann talinn minni en norðurstrengurinn, eins og áður Segir. Rétt fyrir austan Skarfasetur er Blásíðubas.
Þar með endar þessi örnefnakeðja, sem fylgt hefur verið eftir minni og bestu vitund.“ – Lokadagur 11. maí 1984 – Jón Thorarensen.

Heimild:
-Faxi, 6. tbl 01.07.1984, Jón Thorarenssen, Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi, bls. 207-211.
Faxi

Kotvogur

Í bókinni „Hafnir á Reykjanesi“, skrifaða af Jóni Þ. Þór, er saga byggðar og mannlífs í Höfnum rakin í ellefu hundruð ár.

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

„Fornar heimildir eru fáorðar en gagnorðar um upphaf mannvistar í Höfnum. Í Sturlubók Landnámu segir stutt en laggot; Herjólfr hét maðr Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámsmanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfr land milli Vágs ok Reykjaness (Íslensk fornrit I,1 (1968, 132).
Miklu stuttorðari gat þessi frásögn vart verið, en önnur gerð Landnámu, Hauksbók, hermir, að Herjólfur hafi verið „frændi Ingólfs ok fóstbróðir“, og því hafi Ingólfur gefið honum landið.
Um Herjólf Bárðarson, landnámsmanns í Höfnum, er lítið vitað umfram það, sem segir í áðurtilvitnaðri Landnámugrein. Við vitum ekki, hvort hann var kvæntur, er hann kom til Íslands og settist að í Höfnum, ekki heldur hvort hann kom á eigin skipi með eigin föruneyti. Má þó telja hvort tveggja mjög líklegt. Um stöku afkomendur hans vitum við hins vegar öllu meira, og í hópi þeirra var maður, sem frægur er í þjóðarsögunni, og reyndar í gjörvallri sögu siglinga og landkönnunar við norðanvert Atlantshaf.
Sonur Herjólfs hét Bárður, og kemur hann hvergi við sögu, nema þar sem hans er getið sem föður sonar síns. Sonurinn var skírður Herfólfur, í höfuðið á afa sínum í Höfnum, og segir í Grænlendinga sögu, að hann byggi á Drepstokki, en sú jörð var skammt vestan Eyrarbakka. Kona hans hét Þorgerður, og sumarið 985, eða 986, afréðu þau að bregða búi á Drepstokki og héldu til Grænlands með Eiríki rauða. Á Grænlandi reistu þau sér bæ á Herjólfsnesi og bjuggu þar (Íslendingasögur I (1953), 365-366).
HafnirÞau Herjólfur og Þorgerður á Drepstokki áttu son, sem Bjarni hét, og varð hann án alls efa nafnkenndastur allra afkomenda Herjólfs Báraðarsonar landnámssmanss í Höfnum. Hann þótti snemma mannvænlegur og fýsti ungan utan, svo sem títt var um tápmikla unga menn á þeim tíma. Vegnaði honum vel í förum, og leið ekki á löngu, uns hann stýrði eigin skipi á milli landa. Siglingartækni 10. aldar gerði það að verkum, að farmenn komust sjaldan nema aðra leiðina á milli Íslands og Noregs á sumri hverju, og hermir Grænlendinga saga, að Bjarni hafi veriðð “ sinn vetr hvárt, útan lands eða með feðr sínum“ (Íslendingasögur I (1953), 365). Síðasta veturinn, sem hann dvaldist í Noregi, brugðu foreldrar hans búi á Drepstokki og héldu til Grænlands. Er Bjarni kom heim sumarið eftir, spurði hann tíðinda. Af viðbrögðum hans og því, sem á eftir fór, segir í Grænlendinga sögu. Frásögn hans af ferð hans og áhfnar hans til Ameríku, án þess þó að stíga þar á land, varð til þess að landi hans, Leifur Eiríksson, hélt að leita landa í vestri.
HafnirLengra komumst við ekki með sögu afkomenda Herjólfs Bárðarsonar, þeirra sem fæddir eru á Íslandi. Víkur þá sögunni aftur til landnámsins í Höfnum.
Af frásögn Lannámu verður ekki ráðið með neinni vissu, hvenær Herjólfur kom til Íslands. Hann gæti hafa komið með Ingólfi, jafnvel verið skipverji hans, eða að hann gæti hafa komið nokkrum árum síðar og þá væntanlega á eigin skipi með eigin föruneyti. Erfitt er að skera úr um, hvor möguleikinn sé líklegri, en flest bendir til þess, að Herfjólfur hafi numið land fremur snemma á landnámsöld, að öllum líkindum fyrir 900.
Engar nákvæmar lýsingar eru til á landnámi Herjólfs Bárðarsonar. Orðalagið „á milli Vágs og Reykjaness“ tekur ekki af tvímæli, en bendir til þess að hann hafi þegið strandlengjuna norðan frá Ósabotnum, suður og austur [?] að Reykjanestá, að gjöf frá frænda sínum. Vafalítið hefur hann þó helgað sér stærra landsvæði en strandlengjuna. Hversu stórt það var vitum við ekki, en hugsanlegt er að Herjólfur hafi fylgt þeirri aðferð er Haraldur konungur hárfagri lagði fyrir menn að fylgja við helgun lands: „Menn skyldu eld gera, þá er sól væri í austri; þar skyldi gera aðra reyki, svá at hvára sæi frá öðrum, en þeir eldar, er gjörvir váru, þá er sól var í austri, skyldi brenna til nætr; síðan skyldu þeir ganga til þess, er sól væri í vestri, ok gera þar aðra elda“ (Íslensk fornrit I,2 (1968), 337-339).
Landshættir hljóta að hafa ráðið nokkru um umfang og takmörk landnáms Herjólfs og ekkert var eðlilegra en að suður- og austurmörk þess væru við Reykjanestá og Stapafell, norður- og vesturmörk við Ósabotna [?].
HafnirEnga vitnesku er um það að hafa af fornum heimildum, hve margt fólk var í för með Herjólfi er hann settist að í landnámi sínu, og við vitum ekki, hvar hann reisti sér bú. Hafi hann komið til Íslands á eigin skipi, getur sú tilgáta þó trauðla talist ósennileg, að í föruneyti hans hafi verið q.m.k. tíu til tólf manns. Það fólk hefur trúlega fylgt honum suður í Hafnir og þegið af honum land. Má þá hugsa sér, að byggð hafi fyrst risið þar sem mynduðust þrjú hverfi, í Kirkjuvogi við Ósabotna, á Merkinesi og Kalmanstjörn. Á öllum þessum stöðum var búsældarlegt á landnámsöld, útræði bærilegt og hagar fyrir búfé að líkindum góðir. Hvar Herjólfur sjálfur settist að, vitum við hins vegar ekki með vissu, en hugsanlegt er, að hann eða einhverjir förunauta hans hafi reist sér bú nálægt þeim stað, sem nú er Kirkjuvogshverfi í Höfnum.
Haustið 2002 sást við athugun á loftmyndum. sem teknar voru á þessu svæði, „greinilegt skálalaga form skammt austur af kirkjunni í Höfnum“. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, gróf stuttu síðar tvær prufuholur á stað, u.þ.b. 80 metra ANA af Kirkjuvogskirkju og benda fyrstu niðurstöður þeirar rannsóknar til þess, að þarna séu leifar af skála frá landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Fátt verður fullyrt af þessari rannsókn um hina fyrstu byggð í Höfnum og varasamt að draga of víðtækar ályktanir af henni á þessu stigi. Frekari fornleifarannsóknir geta þó trúlega varpað ljósi á byggð á þessum slóðum á landnámsöld.
Hreppar voru stofnaðir hér á landi á þjóðveldisöld og voru hvort tveggja í senn, framfærslu- og stjórnunareiningar. Ekki er fulljóst, hvenær landinu var skipy í hreppa né hvaða reglum var fylgt við skipunina, en flest bendir til þess, að hreppaskiptingin hafi komist á fyrir lögtöku tíundar árið 1097, og víðast hvar virðast landshættir hafa ráðið hreppamörkum. Hið síðara var þó ekki algilt og má ef til vill hafa Hafnahrepp til marks um það.

Hafnir

Hafnir – fornleifauppgröftur.

Engar heimildir hafa varðveist, er segi sérstaklega frá stofnun Hafnahrepps, og hljótum við að hafa fyri satt, að hann hafi orðið til sem sjálfstæð framfærslu- og stjórnunareining er hreppaskipting komst á. Hann hefur þó vafalaust verið meðal minnstu hreppa landsins, og óvíst, að tuttugu þingfararkaupsbændur hafi verið búsettir innan endimarka hans.
Þegar þannig stóð á, þurfti sérstakt leyfi lögréttu til hreppastofnunar (Íslensk fornrit I,2 (1968), 180). Við vitum að sönnu ekkert um fjölda bænda í Höfnum á þjoðveldisöld, en árið 1703 var aðeins getið seex lögbýla í Hafnahreppi, og voru þrjú þeirra í eyði, og höfðu verið lengi (JÁM III, 26-34). Býli geta vissulega hafa verið fleiri í hreppnum fyrr á öldum, en óvíst er, hvort þau voru svo mörg, að hreppurinn hafi uppfyllt áðurnefnt skilyrði Grágásalaga um fjölda þingvararkaupsbænda. Ber þó að hafa í huga, að vel getur hreppurinn hafa verið fjölbyggðari fyrir Reykjaneselda á 13. öld.
Líklegast er, að Hafnahreppur hafi í upphafi orðið til úr landnámi Herjólfs Bárðarsonar og að mörk hans hafi lítið sem ekki breyst í aldnanna rás. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi lýsti hreppamörkum eins og þau voru árið 1934 með þessum orðum: „Hafnahreppur takmarkast af Miðneshrepp að norðan, Njarðvíkurhrepp að austan, en Grindavíkurhrepp að sunnan“ (Örn. 2502).
Þannig hafa hreppamörkin að líkindum verið frá fyrstu tíð, og þótt þau hafi breyst lítilsháttar á seinni tímum, einkum á 20. öld, gefa þau þá dágóða hugmynd um landnám Herjólfs Bárðarsonar í Höfnum og stærð þess.“

Heimild:
-Hafnir á Reykjanesi – Jón Þ. Þór, sga byggðar og mannífs í ellefu hundruð ár. Reykjanesbær 2003.
Hafnir

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Í útgáfu Sögufélagsins um „Gullbringu- og Kjósarsýslu; sýslu- og sóknarlýsingar“ má m.a. lesa um örnefni, atburði o.fl. í sýslunum á árunum 1839-1855.

Útgáfa Sýslu- og sóknalýsinga Gullbringu- og Kjósársýslu markaði upphaf endurútgáfu Sögufélags á Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenska bókmenntafélags sem lengi höfðu verið ófáanlegar. Guðlaugur R. Guðmundsson sagnfræðingur og Svavar Sigmundsson rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast undirbúning útgáfunnar.

Gullbringu- og Kjósarsýsla.Í bókinni eru ítarlegar upplýsingar á sýslunni og flestum sóknum hennar, skrifaðar af staðkunnugum mönnum á fyrstu áratugum nítjándu aldar, áður en nútíminn gekk í garð, og í henni eru birtar myndir af kirkjum og nokkum höfundanna. Í viðauka eru sýnd sóknarmörk og gamlar götur eftir korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844. Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósársýslu eru grundvallarrit um örnefni og lýsingar á fornum leiðum á svæðinu og kjörið rit fyrir þá sem unna sögu og staðfræði á suðvesturhorni landsins.

-Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu – Þórður Jónasson [1852]
-Geir Backmann – Grindavík 1840-’41
-Brandur Guðmundsson – Lýsing á Höfnum
-Sigurður Sívertsen – Útskála- og Kirkjuvogssóknir 1839
-Pétur Jónsson – Kálfatjarnarprestakall 1840
-Árni Helgason – Garðaprestakall 1842
-Stefán Þorvaldsson – Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknu 1855
-Sigurður Sigurðsson – Lýsing á Reynivallasókn 1840

Formáli
„Hefst þá meginsform þessa bindis, en það eru sýslulýsingar og sóknalýsingar þær, sem gerðar voru að tilhlutun Hins íslenska bókmenntafélags. Aðalhvatamaður þessa verks var skáldið Jóns Hallgrímsson, er hugðist þannig að safna efni til ýtarlegrar og nákvæmlegrar Íslandslýsingar, sem hann hafði ætlað sér að semja, en entist ekki aldur til.

Boðsbréf og spurningar frá deild Hins íslenska bókmenntafélags í Kaupmannahöfn til sýslumanna og presta á Íslandi 1839.
Spurningarnar voru:

Í fyrsta lagi:

1. Afstaða og stærð landsins.
2. Landslag.
3. Haf og vötn.
4. Veðráttufar og loftslag.
5. Auðæfi náttúrunnar.
6. Kynferði og eðlisfar þjóðarinnar.

Í öðru lagi:
1. Landsbyggð allt frá landnámstíð.
2. Læknisdæmi.
3. Veraldleg skipan allt frá landnámstíð.

Í þriðja lagi:
A. Uppruni og forlög þjóðarinnar (almennt yfirlit).
B. Þjóðarlýsing.
C. Landsstjórnarsagan.

Þórður Jónason: Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1852

Þórður Jónason

Þórður Jónason.

„Sýslur þessar hétu fyrrum Kjalarnesþing, og eru þær báðar eitt prófastdæmi og sami sýslumaður í þeim báðum; heitir hann héraðdómari í Gullbringusýslu, en sýslumaður í Kjósarsýslu.
Gullbringusýsla er að landslagi frábrugðin öðrum sýslum í landinu. Hún er mestmegnis hraun og melar; þar vantar víða sauðfjár- en alls staðar kúahaga; útheyisslægjur eru engar og utantúns lítið og allvíðast ekkert graslendi. Þar eru engar ár og einungis 3 lækir í allri sýslunni. Atvinnuvegur sýslubúa er því einkum fiskiveiði, og sækja þangað og margir úr öðrum sveitum á vetrarvertíðinni, bæði úr Norðurlandi og úr Árnessýslu. Nafnkenndustu veiðistöðvar eru Vogar, Njarðvíkur (Norðvíkur) og Hafnir.
Gullbringusýsa er íll yfirferðar og vegirnir bæði krókóttir og slitróttir. Bæirnir standa með sjónum og byggðin er hvergi tvésett, og sýslan er þannig öll á lengdina.
Í Kjósarsýslu, sem Elliðaár aðskilja frá Gullbringusýslu, eru landskostir þar á móti góðir, víðast nægar slægjur og mikið graslendi, móskurður góður, torfrista og hagar vetur og sumar og hægt til allra aðdrátta, og má að vísu telja Kjósarsýslu í þessu tilliti með hinum bestu sýslum á landinu.
Innan sýslu eru engir fjallvegir, nema ef telja skyldi Svínaskarð milli Kjósar og Mosfellssveitar, sem mun vera hér um bil 2 mílur bæja á milli.
Bæði Mosfells- og Hellisheiði eru býsna langir fjallvegir og vandrataðir á vetrardag. Eru því vörður reistar og sæluhús byggð á heiðum þessum, eitt á Mosfellsheiði, en 2 á Hellisheiði handa ferðamönnum, og eiga þeor oft náttstað á Hellisheiði í sæluhúsum þessum, þegar þá dagar uppi á leiðinni. Torfærur eru engar á vegum þessum, nema menn villist af réttum vegi, en þá kvað ferðamönnum hætta búin, einkum á Hellisheiði, þegar fara skal niður af heiðinni, því heiðin er mjög brött að austanverðu.

Grindavík – Geir Backmann 1840-’41
Gullbringu- og KjósarsýslaTakmörk sóknarinnar eru að vestanverðu Valahnúkur, sem aðskilur bæði land og reka Hafna og Grindavíkur. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krisi- og Grindavíkur.
Í Grindavíkursókn eru einasta 7 aðalbýli, en hina bæina köllum vér hjáleigur, og eru þær nú á tímum 13 byggðar. Hinn fyrsti og vestasti bær í sökninni er Staður. Stekkjarveg í landnorður frá Stað er annað aðalbýlið Húsatóttir. Hið þriðja býlið er Járngerðarstaðir. Fjóra býlið er Hóp. Hið 5ta býlið eru Þorkötlustaðir. 6ta aðalbýlið er Hraun. Á milli Hrauns og hins 7da býlisins, Ísuskála, alii Ísólfsskála, sem er austasti bærinn í sókninni, er hið minnsta 1 1/4 míla, því nú verður að afra almenningsveg upp svo kallað Hálsa.
Það er vel að merkja við allar jarðir í sókn þessarri, að þær árlega að segja má, ganga af sér bæði til lands og sjávar, sumar af sjó og sandfoki, t.d. Staður, Hraun og Þorkötlustaðir, af sandfoki Húsatóttir, af sjávargangi Járngerðarstaðir, Hóp og Ísuskáli, en við hvertveggi mætti þó með pössun og atorku mikið gjöra.

Geir Backmann

Geir Backmann.

Staður á selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bíst fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þess selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svoköllum Þrengslum. Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhvers staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpst á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. Vanalegt er að reka sel í 8du v(iku) sumars, og aftur úr því 16 eða síðast 17 v(iku) af sumri, nema óþerrir hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum. Ekkert er hér afréttarlandM allt fé ungt og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð.
Hér skulu hvergi finnasdt nokkrar fornmannaleifar, nema ef væru nokkur garðlög úti um hraun, sem ég ímynda mér helst gjörð umkring gamalla manna beitiland. Ekki veit ég að fornleifar hér fundnar og því ekki heldur vera hér í nokkurs manns geymslu.
Ég óska, að línur þessar mættu koma að því gagni, sem til er miðað.“

Lýsing á Höfnum – Brandur Guðmundsson
Gullbringu- og kjósarsýslaByggð þessi er við sjóinn, hvar Kirkjuvogsósar byrja; er sjór fyrir vestan og norðan, en Ósarnir liggja til austurs landnorðurs, eru um hálfa viku sjávar að lengd með skerjum víða. [Í Jarðabók ÁM segir, að Gamli Kirkjuvogur hafi legið í auðn lengur en 120 ár 1703, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. „Heyrt hefi eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla-Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi lagts í eyði, að kirkja hafi staðið þar, eftir að jörðin lagist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan [hefir lagst í eyði um 1660, því tilnefnd Ingigerður sál. vissi aðeins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð í kirkjugarð, og eru þó síðan full 100 ár… – Á sama aukablaði getur Brandur og þess, að hann hafi á „landcommissiþingi á Járngerðarstöðum 1801 séð í bók hjá commissariis Kirkjuvog nefndan fyrir norðan Ósa ár 1516, sem mig minnir og þar í getið eyðijarða Haugsenda hér og Arnargerðis“].
24 geirfuglum alls á skip langmest, en optast 5 til 8, en seinustu 2 vorin hafi hann ekki sést.
Engar vita menn þar fornmenjar í jörðu eða á, en steinkol meina menn vera á Reykjanesi.
Þetta er þá sú upplýsing, er eg get í stuttu máli meðdeilt yður, prestur minn góður, í því áður umtalaða og bið eg yður auðmjúklega að virða, en skyldi þar þurfa nokkru við að bæta, vilda eg að því leyti get sýna viljann, en bið auðmjúklega leiðréttingar á missmíðinni og yfirsjónum.“

Útskálaprestakall – Sigurður B. Sívertsen 1839
Gullbringu- og KjósarsýslaÚtskálaprestakall inniheldur 3 aóknir, nl. Útskála, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir; þær 2 síðari voru lagðar við 1811.
Takmörk milli Útskála- og Kirkjuvogssóknar er Háaleiti, milli Hvalsness- og Kirkjuvogssóknar Ósar þeir, er skerast inn í austur-landnorður, og þaðan upp að Háaleiti. Á millum Útskála- og Hvalsnessóknar eru engin örnefni, sem sóknir skilja.
Í Útskálasókn eru þessi byggðalög: Keflavík, Leiran, Stórihólmur, Gufuskálar (landnámsjörð) og Rafnkelsstaðir.
Fyrir sunnan Skagann kemur Nesið, sem liggur suður með sjónum. Þar var í fyrri daga höfuðból, sem Kirkjuból heitir, sem nú að mestu má heita komið í eyði. Á Kirkjubóli var áður hálfkirkja eða bænahús, sem síðar var af tekið. Eftir máldögum átti Péturskirkja að Kirkjubóli xl hndr. í heimalandi, fjórðung í Geirfuglaskeri og viðreka allan á Skarðaurð. (Á Kirkjubóli var junkherra Ívar Hólmur drepinn af biskupssveinum í Skálholti 1443. Líka Kristján skrifari í hefndir eftir Jón biskup Arason, voru þeir, sem Norðlingar drápu, dysjaðir fyrir norðan túngarð á Hafurbjarnastöðum, hafa bein þeirra í núverandi manna minnum blásið upp úr sandinum.
Flangastaðir er jörð. Hennar er getið í Landnámu, og mælt, að Flangur, sem fyrstu skyldi hafa byggt hana, sé heygður þar í túninu; er grjót umhverfis leiði hans, ef tilhæfi er í.
Á Býjaskerjum var áður kirkja, sem um er geið í Vilchins-máldaga, og kennd er við Ólaf kóng helga; er haldið, að hún hafi staðið á svonefndum Kirkjukletti.
Sunnar, í fullt útsuður, stendur Hvalsnes. Þar er snotur timburkirkja, annexía frá Útskálum. Hvalsneskirkja var fyrst byggð og vígð 1370, með þeim máldaga.
Syðst liggja Bátssandar, gamall kaupstaður, sem fór í stórflóði, sem síðan er kallað Básendaflóðið. Það var árið 1799, nóttina m(illi) 8. og 9. jan.
Sunnar með sjónum liggur Þórshöfn; það er mjó vík, sem þýskir höfðu lagt inn skipum sínum, þá þeir höfðu verslun.
Tveir liggja alfaravegir útúr sókninni, sem nefnast Sandgerðis- og Hvalsnesvegur. Liggja þeir báðir inn í Keflavík; kemur sá fyrri á Garðveg skammt fyrir innan Keflavík, en hinn liggur beint að sunnan og byrjast við Melbergsá. Til er líka gamall vegur, sem aflagður er, frá Stafnesi og suður með sjó, inn fyrir Ósa og suður í Hafnir; það er gamall kaupstaðavegur frá Bátssöndum; er hann grýttur og langur.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Sunnan við Kalmanstjörn er Sandhöfn, eyðijörð, sem af lagðist og fór í eyði vegna sandsfoks, því ekkert sést eftir nema lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið. Sunnar er Eyrin, fyrir innan Hafnarberg. Þar var bær og útræði fyrir rúmum 50 árum síðan.
Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint verið hafi ein eyðijörð, enda er í mæli, sem satt mun vera, að allt Reykjanes hafi fyrr meir byggt verið.
Sunnar eru Valhúkar, sem er bergnös há, þá Valahnúksmöl (við hvörja trjáviðaskipið mikla strandaði um árið, eða réttara sagt þau mörgu og stóru tré bárust að landi).
Eldey er stór klettur í hafinu í vestur frá Reykjanesi. Mest hafa fengist þar á seinni tímum 24 geirfuglar í einu, en í 2 skipti seinast ekki sést.
Af fornleifum veit ég öngvum innan þessara <sókna> merkilegum. Steinn er eða klettur, sem stendur í svo nendu Kistugerði nálægt Rafnkelsstöðum með áklöppuðum rúnastöfum. Ekki hafa menn getað lesið úr þeim, en hafa þó oft verið af teiknaðir. (Líklega er það frá seinni tímum og skammstafað eða bundið mannsnafn). Að þar skammt frá sé heyður Rafnkell sá, sem jörðin er kennd við, eru munnmæli, sem við ekkert hafa að styðjast.)
Á Flangastöðum eða þar í túni nálægt Klöll er grjóthrúga, líkt sem dys. Þar hafa gamlir menn sagt, að heygður væri Flangur sá, sem í landnámstíð mundi fyrstu byggt hafa þá jörð, eða sem hún nefnist eftir. Annað dys eða haug þykjast menn geta séð í túni á Nesjum, sem áður lá til Másbúða, og segir fólk, að þar liggi undir Már sá, sem fyrstur hafi byggt Mársbúðir. Því er líka bætt við munnmæli þessi, að Katla hafi heitið kona hans, skörungur mikill. Annar haugur sé og í túninu, undir hverjum að liggi smali Márs.
Þetta, í flýti saman tekið og uppskrifað, en þó sem sannleikanum næst og nákvæmast sem orðið gat, biður undirskrifaður félagið vel að virða.“

Kálfatjarnarprestakall – Pétur Jónsson 1840
Gullbringu- og KjósarsýslaTakmörk Njarðvíkusóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík ofan við sjó; frá hans efri enda upp í heiðinni að Gömlu-Þúfu á svo kölluðu Háaleiti, af hvörju sjá má umhverfis 3já vegu í sjó.
Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.
Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tevir; innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún á stendur, þar sem hún fékki ekki kirkjrétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn.
Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helsta, sem ég get skýrt frá.“

Garðaprestakall – Árni Helgason 1842
Gullbringu- og Kjósarsýsla„Álftanessveit, sem yfir grípur Garða- og Bessastaðasóknir, hefur að norðanverðu við sig Reykjavíkursókn, að sunnanverðu Kálfatjarnar.
Á næstliðnu sumri þóttist fyrrverandi kaupkm(aður) í Keflavík A. Gunnarssonon hafa fundið brennisteinsnámu í Hraunamannalandi, nálægt Stórhöfðastígsvegi, er enginn vissi af áður. Hann segist hafa sent út með kaupmanni Siemsen nokkuð af þessum fundið, en eg þekki ei dóminn.
Þesir bæir eru í Garðasókn: Syðst Lónakot, þá Óttarstaðir með tveimur hjáleigum, Straumur, Þórbjarnarstaðir með tveimur tómthúsum, Lambhagi. Allir þessir bæir heita einu nafni Hraunabæir. Nú kemur Hvaleyi með 5 hjáleigum; ei hafa þær allar grasnyt. Óseyri með tómthúsi. Ás með tíomthúsi. Ófriðarstaðir, Hamarskot. Sá eiginlegi Havnarfjarðarhöndlunarstaður tekur nú við. Þar var áður jörð tilheyrandi Garðakirkju, sem hét Akurgerði; nú sjást hennar ekki menjar. Þessi jörð var tekin frá Garðaprestakalli fyrir hálfa Rauðkollsstaði vestur í Hnappadalssýslu. Enginn veit nú, hvað mikið land Akurgerði fylgdi, og þingsvitni, sem tekið var nálægt 1790, gat engu orkað, það hefir dankað svona, að kaupmenn, sem eiga Akurgerði, eigna sér ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamrakotslæk, og prestar í Görðum hafa eigi ákært. Á þessu petti eru nú þrjú höndlunaraðsetur, grossera KnutZons, Thomsens og Linnets.
Í Bessastaðasókn eru þessir bæir: Bessastaðir, Lambhús og Breiðabólstaðir.
Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því sokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit eg og, að nú brúkar enginn hér selstöður, og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöðu héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 a 60 ár.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Úr sókninni liggur vegur úr Hafnarfirði upp í Selvog, sem heitir Grindarskraðavegur. Syðst er Ólafsskarðsvegur, svo er Lágaskarð og loks Hellisheiðarvegur. Á þessum vegi eru, þá Hellisheiði er farin, 3 sæluhús; þeir, sem fara Lágaskarð, gefa haft gagn af einu þeirra, og af öðru þeirra þeir, sem fara Ólafsskarð. Hjá Arnarnesi liggur og vegur og til hægri handar, þá héðan er farð, upp úr Kópavogi inn að Helliám, sem kemur þar saman við alfaraveg allra austa, norðan- og vestanmanna, sem ferðast til Reykjavíkur. Við fleta þessa vegi er gjör árlega, brýr lagðar hér og hvar yfir bleytuflög, en vörður brúkast ei nema á fjallvegum og þó ei öllum. Á Hellisheiðar- og Lágaskarðsvegi eru Bolavellir, upp vi fjallið, og Vötnin, nokkru nær byggðinni hérna megin, almennustu áfangastaðirnir. Helliskot er næsti bær á sama vegi hérna megin við fjallið, hinum megin Reykir eða Reykjakot.
Fornleifar eru varla, að megi kalla. Skoðað hef eg klappir þær, sem eru utarlega á Hvaleyrarhöfða, og séð, að þær eru margvíslega útrispaðar (bergið er ekki hart). Mörg nöfn get eg þar lesið, sem voru alþekkt nöfn danskra og þýskra, og eru þessi nöfn líklega skrifuð þar af sj´ómönnum framandi þjóða, helst meðan kaupstaðurinn var þeim megin við fjörðinn, rétt eins og margir hafa grafið nöfn sín inní bergið í Rauðshellir, sem þangað hafa komið; sums staðar er hvað skrifað ofan í annað. Mögulegt er, að þeir, sem betur eru læsir, geti hér fundið rúnir.
Gerði tvö, sem sumir ætla, að séu dómhringir, finnast. Hið annað á Hofstöðum, hitt í Ráðagerðistúni, sem er næsti bær við Garða.

Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknum – Stefán Þorvalddson 1955
Gullbringu- og KjósarsýslaMosfellsprestakall er tvær kirkjusóknir, Mosfells og Gufuness.
Þrír liggja þjóðvegir um sóknirnar; 1. Vegur sá, er liggur norðan yfir Svínaskarð, sem er stuttur fjallvegur milli Kjósar og Kjalarness og Mosfellssveitar. – 2. Sá, er liggur austan yfir Mosfellsheiði og fram í Seljadal, niður hjá bæjunum Þormóðsdal, Miðdal og Reynisvatni og Árbæ, og 3ji vegurinn liggur suðaustan yfir Hellisheiði, fyrir sunna Helliskot og norðan Klapparhlt og Árbæ.
Fornmenjar eru hér fáar sem engar, hvörki rúnir eða myndir, húsatóftir eða dómgringar. En haugur einn er hér í dalnum, á landamærum milli Hraðastaða og mosfells, á sléttu undirlendi við Suðurá, og er haugur sá nefndur Hraðaleiði. Hann er aflangur og snýr í norður og suður og ekki allstór. Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, en hafi fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæs inn þarm er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur.“

Lýsing á Reynivallasókn – Sigurður Sigurðsson 1940
Gullbringu- og Kjósarsýsla„Meðtekið hefi eg á næstl(iðnu) sumri ykkar heiðursverða og góða bréf til mín af 30. apríl f.á., áhrærandi það efbi að svara upp á þær spurningar, sem bréfið hljóðaði upp á. En bæði vasleysi þá í stað og sumarannir hindruðu mig frá því að sýna lit á að koma þessu í verk, síst í lagi nokkuð eftir óskum, sem þurfti, þar fáviska, aldurdómur og ókunnleiki, þar sem maður kemur gamall langt að, bægði mér að geta nákvæmari útmálan gefið en þessa.“

Heimild:
-Gullbringu- og Kjósarsýsla; sýslu og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855, Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson, Sögufélagið 2007.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Kort Björn Gunnlaugssonar.

Hafnir

Bæjarsamfélagið Hafnir á Reykjanesi (Reykjanesskaga) gefur heilstæða mynd af búsetu- og atvinnuháttum íbúanna allt frá landnámi til þessa dags. Fjölmargar fornleifar á svæðinu endurspegla hvorutveggja, auk þess sem hús og önnur nútímamannvirki sýna þróun byggðarinnar á liðinni öld.

Hafnir-2

Nú er meginbyggðin umleikis Kirkjuvog og Kirkjuvogskirkju. Áður náði hún í vestri að Kalmannstjörn (Junkaragerði) og Merkinesi innar (og um tíma enn lengra vestur, að Skjótastöðum og gömlu Hafnabæjunum (Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyri (Eyrarhöfn)).
Í austri, handan Ósa, var Gamli Kirkjuvogur ásamt útstöðvum Hafnabæjanna, bæði við Djúpavog og Seljavog. Uppi í Hafnaheiðinni má enn sjá leifar Kirkjuvogssels, Merkinessels eldra og yngra, auk Möngusels. En þrátt fyrir að langmestu mannvistarleifarnar séu í og við Hafnir hefur sáralítið verið skrifað um mannlífið þar í gegnum aldirnar. Jón Thorarensen reyndi að bæta úr því og má sjá frásagnir hans í Rauðskinnu.

Hafnir-4

Í Höfnum má í dag sjá allnokkur gömul hús, s.s. Kirkjuból, Sjónarhól, Kotvog og Vesturhús. Vestar í byggðinni eru greinilegar tóftir annarra bæja, sem áhugasömu fólki um fyrri tíð er gert nánast ómögulegt að staðsetja með ákveðinni vissu. Ekki er vitað til þess að fornleifaskráning hafi farið fram í Höfnum, en sérstaklega miklilvægt er að það verði gerst sem og að svæðið í heild verði teiknað upp m.t.t. minja og örnefna. Slíkar upplýsingar þarf síðan að gera augljósar öllum þeim er heimsækja Hafnir.
Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni. Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Ekki liggur ljóst fyrir hvort af þessari skráningu hefur orðið eða hvort henni hafi verið lokið. Ef svo er myndi FERLIR fúslega fjárfesta í slíku eintaki því ætlunin er að teikna upp allt svæði svo fljótt sem auðið er.

Hafnir-5

Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í
lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum). Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi.
Hafnir-6Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili.
Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness“, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara
tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.
Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.

Hafnir-7

Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis.
Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu. Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins. Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í lj
ós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins.

Hafnir-10

Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum. Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann. Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil „hús“ austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og
norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skála ns til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.

Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi

Hafnir-11

Í lýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar í Merkinesi um Hafnir (Hafnahrepp) kemur eftirfarandi fram um byggðakjarnan: „Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri.  Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri.  Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.

Hafnir-12

Frá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar.  Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.

Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á.  Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).
Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu.  Verður næsta hús Höfn,  þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á Hafnir-13hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll.
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét  Búðabakki.  Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.
Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Hafnir-15Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.
Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.

Hafnir-15

Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús.  Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast  enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.
Nú eru þrjú hús ótalin á vin
stri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð.  Lítið eitt fjær veginum Nýlenda (246) og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu 

Hafnir-16Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.
Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson.  Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus.  Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún.  Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir voru jafnaðar út.
HafnirÞar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið.  Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.“
Réttin í Höfnum var notuð fram til 1969. Þá gerði þar mikið óveður um veturinn og skemmdi sjórinn hana að hluta. Braut hann niður varnargarða og ýmsar minjar. Þrátt fyrir það má enn sjá móta greinilega fyrir réttinni – norðvestan við byggðakjarnan.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur) Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði.
-Landnámsbærinn Vogur í Höfnum, Byggðasafn Reykjanesbæjar.Ketill

Við leit í og við Hafnir skammt utan Reykjaness kom í ljós áður óþekktur skáli, sem líklegt má telja að geti verið allt frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.
Hafnir - brunnurSkálatóftin er að mestu orðin jarðlæg og því mjög erfitt að koma auga á hana. Skammt frá henni eru leifar af hlöðnum brunni sem og garðar og gerði, sem nú er komið í sjó fram. Ekki alllangt frá er gróinn hóll úti á ysta tanga; að öllum líkindum kuml fornmanns (sjá mynd hér að ofan).
Meira verður fjallað um svæðið á vefsíðunni síðar.

Kirkjuvogskirkja

„Hafnir eru á vestanverðu Reykjanesi, sunnan Miðness. Í bókinni „Landið þitt Ísland“, eftir Þorstein Jósepsson og Steindór Steindórsson segir að Hafnir skiptist í þrjú hverfi, Kirkjuvogshverfi, Merkineshverfi og Kalmans-tjarnarhverfi. 

Kirkjuvogur 1900

Einnig segir í sömu bók að stórbýli sveitarinnar hafi verið þrjú, Kirkjuvogur, Kotvogur og Kalmanstjörn. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru einnig stórbýli á árum áður og mun nafnið Hafnir vera dregið af þeim.
Vitað er að kirkja var í Kirkjuhöfn um 1350 en talið er að hún hafi lagst af nokkru síðar. Síðar var sóknarkirkja Hafnanna að Vogi. Þegar Svarti dauði geisaði 1402 var kirkja í Vogi. Heimildir herma að kirkjan hafi verið flutt að Kirkjuvogi laust fyrir 1575 en frá því ári eru heimildir um að Gísli biskup hafi vísiterað þar. Þegar kirkjan var flutt frá Vogi að Kirkjuvogi voru bein flutt frá Kirkjuhöfn í Kirkjuvogsgarð. Þegar Brynjólfur biskup í Skálholti vísiteraði í Höfnum árið 1642 segir hann að kirkjan í Kirkjuvogi sé að mestu ný, með sex stafgólfum og kapellu inn af. Þá áttu sókn að kirkjunni nokkur stórbýli sem mest hlunnindin höfðu eins og Vogar, Ytri-Njarðvík, Innri-Njarðvík, Narfakot, Merkines, Gálmatjörn, Sandhöfn og Kirkjuhöfn.
Hákon Vilhjálmsson fæddist í Kotvogi árið 1753, sonur Vilhjálms Hákonarsonar og Ingiríðar Tómasdóttur sem ólst upp í Miðbænum í Kirkjuvogi. Hann var hreppstjóri og hafnsögumaður á Básendum. Hann byggði nýja kirkju í Kirkjuvogi árið 1805 fyrir 239 ríkisdali. Í ofsaveðrinu mikla 1799 þegar Bátsendakaupstað  ók af, skemmdist kirkjan í Kotvogi mikið sem líklega hefur orðið til þess að ný kirkja var reist.
Kirkjan í Höfnum var annexía frá Útskálum, áður lá hún til Hvalsnesprestakalls. Prófasturinn á Kjalarnesi skoðaði kirkjuna 24. ágúst árið 1862. Þá er byggingu hennar lokið og tekið fram að hún sé öll máluð að innan. Árið 1866 Iét Vilhjálmur byggja kór og fordyri við kirkjuna.“

Heimild:
-Dagur, 18. desember 1999, bls. 1 og 3.

Kirkjuvogskirkja

Eftirfarandi „Lýsing á Höfnum“ eftir Brand Guðmundsson birtist öðru hefti Blöndu (um er að ræða útdrátt):
„Eptir Brand hreppstjóra Guðmundsson í Kirkjuvogi. -Prentað eptir eiginhandarriti höf. í safni, Bókmentafélagsins 72 fol. í Lbs. Hefur hann sent skýrslu þessa sóknarpresti sínum síra Sigurði B. Sivertsen á Útskálum og samið hana eptir beiðni hans, sem sóknarlýsingu Kirkjuvogssóknar um 1840. En skýrslu þessa mun svo síra Sigurður hafa gefið Magnúsi stúdent Grímssyni, þá er hann ferðaðist um Reykjanesskaga 1847, og reit lýsingu af honum, því að handrit þetta er nú meðal plagga Magnúsar í Bókmentafélagssafninu. Brandur var fæddur á Brekkum á Rangarvöllum í september 1771. Hann flutti síðan suður að Kirkjuvogi. Brandur andaðist í Kirkjuvogi 16. júní 1845, nálega 74 ára gamall. – (H. Þ.)

kirkjuvogskirkja-901Kirkjan í Höfnum er annexía frá Útskálum nú, áður lá hún til Hvalsnessprestakalls; hún er í Kirkjuvogi, er timburhús; það er stór bær, sæmilega húsaður að nokkru leyti; 3 eru ábúendur heima á jörðinni, kallast Austur- Mið- og Vesturbær; sá austasti, sem lengi hefir verið ábúenda eign er bezt húsaður; hinn næstnefndi, sem er Thorkelii barnaskóla stiptunar eign er miklu miður, en sá vestasti í meðallagi.— Kotvogur er bær í sama túni, og 1 utangarðs, byggt fyrir 10 árum liðnum. Byggð þessi er við sjóinn, hvar Kirkjuvogsósar byrja; er sjór fyrir vestan og norðan, en ósarnir liggja til austurs landnorðurs, eru um hálfa viku sjávar að lengd með skerjum víða, sandi líka í botni, marhálmi, skeljum nokkuð og ýmislegu. Selveiði á vorin var í þeim nokkur fyrrum og eptir fardagaleyti af kópum, sem nú er ekkert orðið vegna ósvífinna skota á öllum árstímum; hrognkelsaveiði er í þeim nokkur kringum miðsumarsskeið. Jörðin gengur af sér vegna sandfoks á túnið og sjávar landbrots. Stutta bæjarleið þaðan sunnar er Merkines; þar eru 2 ábúendur.
Kirkjuvogur var áður fyrir norðan Ósa, sem nú er Stafnessland, meina menn fluttan fyrir hér um 300 árum síðan liðnum (í Jarðabók AM. segir, að Gamli Kirkjuvogur hafi legið í auðn lengur en 120 ár 1703, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi) og voru hér þá tvær jarðir: Haugsendar (svo hdr., ef til vill réttara: Haugssandar. Jarðabók AM. 1703 nefnir Haugsendakot, þá fyrir löngu komið í eyði, en hafnarberg-901Árnagerði (eða Arnagerði) hafi farið í auðn þá ekki fyrir löngu, sökum vatnsleysis og átroðnings kvikfénuðar frá Kirkjuvogi) og Arnagerði; sú fyrri lagðist í eyði hér um fyrir 200 árum vegna sandfoks; var á milli Kirkjuvogs og Merkiness; hin, sem er fyrir innan spölkorn mun hafa lagzt í eyði fyrir nálægt 100 árum af ágangi af mönnum og skepnum, eins og á Kirkjuvogstún og líka vegna sandfoks frá sjó og uppbrots þar. Túngarðar, hvar verður, fylgja byggðinni, og kálgarðar eru yrktir og ræktaðir eptir mætti. Hvað Kirkjuvogstún muni hafa af sér gengið má meðal annars af því ráða, að Ingigerður heitins (þ. e. Ingigerður Tómasdóttir (d: 1804) kona Vilhjálms Hákonarsonar hins eldra í Kirkjuvogi (d: 1803, 79 ára) móðir sál. Hákonar (Hákon Vilhjálmsson dó 1821) sagði Gróu minni (2) Gróa Hafliðadóttir kona Brands var mesta yfirsetukona og merkiskona (d: 1855) að kerling gömul, móðir Sesselju í Garðhúsum, er eg man til, hefði sagt eptir annari kerlingu, að full sáta heys hefði í hennar tíð verið slegin á Kirkjuskeri, sem nú fer í kaf í hverjum stórstraumi, og þá hefði varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og búðarbakkans, sem nú er að 30 faðma rúm í millum, en sandur skemmir þó enn meira, því að í þau 50 ár, er eg veit til, hefur blásið af norðurtúninu til vissu kýrfóðuravallarstærð auk skemmda, sem garðafærslur sýna.

gomlu hafnir-uppdrattur-2

Gömlu Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Heyrt hef eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi allar verið 60 hndr. að dýrleika og Kirkjuhöfn þeirra fyrst lagzt í eyði, að kirkja hafi þar staðið, eptir að jörðin lagðist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan (hefur lagzt í eyði um 1660 (sjá síðar)) því nefnd Ingigerður sál. vissi að eins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð þar í kirkjugarð og eru þó síðan full 100 ár. Það er nokkurn veginn víst, að Litla Sandhöfn lagðist seinast í eyði; sagt er mér, að ekkja hafi átt, hún verið 8 hndr., gefin af henni Viðeyjarklaustri og hún með því móti síðar orðið kóngseign (frá b.v. eptir aukablaði með hendi höf. Þar getur hann og þess, að hann hafi á „landcommissiþingi á Járngerðarstöðum 1801 séð í bók hjá commissariis Kirkjuvog nefndan fyrir norðan Ósa ár 1516, sem mig minnir og þar í getið eyðijarða Haugsenda hér og Arnagerðis“ [Þetta bréf ekki kunnugt nú, en ártalið gæti verið skakkt t, d. 1616]).
Bæjarleið sunnar með ströndinni en Merkines er Kalmanstjörn (Kalimanstjörn, hdr.) 20 hndr. jörð með Junkarageri, sem 1/3 partur úr nefndri jörðu, og er skammt bil milli túna. Tún eru þar stórskemmdum undirorpin af sandfoki og sjávarbroti á Gerðið; þó hafa menn þar optast haft í kýr, því melaslægjur eru þar, en tún mikið þverbrestasamt. Spölkorn sunnar er eyðijörðin Kirkjuhöfn („Hefur óbygð legið um 40 ár“ (Jarðab. AM. 1703)). Hún mun hafa lagzt í eyði vegna sandfoks; þar var kirkja áður en í Kirkjuvogi. Á milli þessa og Kalmanstjarnar eru girðingar nokkrar líkast til sem eptirstöðvar af húsagrundvelli, hver í orði er, að þýzkir, þá höndluðu hér við land, er á tali, að hafi átt, en höfnin þá verið Kirkjuhöfn. Þar er gott sund í öllum sunnanáttum, en lending verri. Sunnar er Sandhöfn, eyðijörð, aflögð vegna sandfoks („hefur óbygð legið hér um 50 ár,“ segir í Jarðab. AM. 1703)  því ekkert sést eptir, utan lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið.
kistuberg-901Sunnar er Eyrin innan Hafnabergs. Þar var bær og útræði seinast fyrir rúmum 50 árum; er þetta í vik nokkru (fyrir) sunnan Kalmanstjöra. Skammt sunnar byrjar Hafnabergs nyrðri endi, og er þar fyrnefnd Klauf, klettar með gjá í millum; bergið er um hálfa viku sjávar á lengd, rúmir 20 faðmar þar hæst er, ógengt, en sigið í það og stöku sinnum lent við það að neðan; þar er svartfugl, lítið af súlu, eggvarp og fuglatekja nokkur, sem heyrir til Kalmanstjörn. Fyrir sunnan bergið eru sandar og hraungrýti; kallast það Lendingarmalir (líklega réttara: melar, sbr. skýrslu Þorkels hér a undan) og er þar lent þá verður brims vegna í norðan- og austanátt, þ& menn sökum storma ekki geta dregið inn fyrir bergið. Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint er forn eyðijörð, enda er í tali, að allt Reykjanes hafi fyrrum byggt verið.
Sunnar er Stóra Sandvík og er í mæli, að Kaldá skyldi hafa fallið þar í sjóinn, og liggur þar gjá uppundan og inn til fjalla, sem myndar líka vatnsfarvegs  afarstórs, en það getur líka svo hafa myndazt af eldrennsli, því allt Reykjanes er af eldi einhverntíma gersamlega brunnið (á aukablaði getur höf. nánar um gjá þessa, er hann kallar Haugsvörðugjá, er sé þar stærst gjáa að lengd og breidd, og sumstaðar með hömrum beggja vegna; muni viða vera um 100 faðma breið og sumstaðar miklu meir; sé sagt, að Kaldá, er þar eigi að hafa runnið, hafi hlaupið í jörð í jarðeldum, en vatn sé ofarlega í Sandvík, þar sem Kaldá hafi eitt að renna í sjó fram, en hvort það vatn síist frá sjónum gegnum sandkampinn, segist höf. ekki vita).
Sunnar er Litla-Sandvík, þá klettabelti með litlum grasteigingum og blöðkuhnubbum, þá Kistuberg, lítið berg, nytjalaust; síðan Kinnin, berg nokkurt gróðurlaust, síðan Aunglabrjótur, nef syðst á nesinu það vestur veit, beygist það svo til suður landsuðurs. Stendur þar Karl, klettur mikill í sjó fyrir nesinu um 50—60 faðma hár, er var þó hærri fyr, því í jarðskjálfta féll ofan af honum hetta mikil í þeirra manna minni, er nú lifa; upp undan honum á landi berbergsnös, kallast Kerling, og eru þau brúkuð fyrir mið í Reykjanessröst og víðar m.fl. Sunnar eru: Valahnúkar, bergsnös há, Valahnúkamöl og Skarfasetur syðst; beygist þá nesið til austur landnorðurs, því stór vik skerst þar inn í og má því kallast hálfeyja. Framundan Skarfasetri á sjó eru 2 klettar. Á nesinu eru jarðhitar og hverir, stórir hólar eða lítil fjöll, sandöldur, ægisandur og hraun; sumstaðar sjást grasteigingar, blöðkuhnubbar, lyng, einiangar hér og hvar og grófasta brunahraun.
Frá Kirkjuvogi til syðsta tanga þess mun vera um 2 1/2 míla vegar, en frá  Kalmanstjörn til Grindavíkur 2 mílur og er það þjóðvegur, liggur til landsuðurs. Annar vegur liggur frá Höfnum til kauptúnsins Keflavíkur í norður nær 1 1/2 míla langur.“

Heimild:
-Blanda, 2. bindi 1921-1923, 4.-6. hefti, bls. 51-60.

Hafnir

Eftirfarandi frásögn af húsum og fólki í Höfnum eftir aldarmótin 1900 birtist í Faxa árið 1968:

Hafnir

Í Höfnum.

„Lengst til vinstri sést burst á útihúsi. Önnur burst er yfir bæjardyrum vestan Vesturbæjar, sem kemur þarna næstur í röðinni. Árið 1907 hófu þar búskap Sigríður Bergsteinsdóttir og Ingvar Eiríksson, foreldrar Ólafs Ingvarssonar í Keflavík. Í þessum sama bæ bjuggu þá einnig Vilborg Sveinsdóttir og Jón Snorrason. Þó húvsakynni væru ekki stærri, var samkomulagið hjá fjölskyldunum eins og bezt varð á kosið. Má m. a. marka það á því, að Ólafur lét dóttur sína heita eftir fyrrnefndum húsfreyjum. — En víkjum nú aftur að myndinni. Næstu tvær burstirnar eru á austari Vesturbænum. — Á þessum árum bjuggu þar hjónin Sigríður Björnsdóttir og Ketill Magnússon, foreldrar Magnúsar Ketilssonar bifreiðastjóra í Keflavík, sem lézt fyrir skömmu.
Næsta hús í röðinni lét Olafur heitinn Ketilsson byggja og bjó þar fyrst sjálfur, en síðar var það keypt og endurbyggt af „templurum“ í Höfnum, sem notuðu það til samkomuhalds fyrir góðtemplararegluna í hreppnum.

Kotvogur

Kotvogur.

Næsti bær gekk alltaf undir nafninu Rönkubær. Þar bjó um þessar mundir Guðbjörn Björnsson, með aldraðri móður sinni, sem Rannveig hét. Þaðan mun bærinn hafa fengið Rönkunafnið.
Síðasti burstabærinn á þessari mynd hét Miðbær. Þar bjuggu þá ung hjón, Guðbjörg Þorsteinsdóttir og Jón Olafsson frá Garðbæ í Höfnum.
Þegar hér er komið upptalningunni, færumst við yfir í nútímann. Stóra húsið, sem við blasir, var laust eftir aldamótin í eigu Vilhjálms Ketilssonar. Hús þetta var nefnt Glaumbær og brann það árið 1910 eða 1912. — Kvöldið áður en það brann mun hafa verið haldinn dansleikur í húsinu, í endanum sem snýr að kirkjunni. Í þessu sama húsi bjó Vilhjálmur Hákonarson lengi miklu rausnarbúi og var reyndar þjóðkunnur maður. Hús þetta með tilheyrandi jarðnæði, hét Kirkjuvogur. Var sú jörð ávallt til stórbýla talin.
Næsta bygging er hús Friðriks Gunnlaugssonar, er hann síðar flutti til Keflavíkur, en á það var minnst í löngu viðtali við Friðrik í jólablaði Faxa 1965. Næstur á undan Friðrik bjó í þessu húsi Magnús Guðmundsson, faðir Guðmundar Ingvars Magnússonar, Hafnargötu 70 í Keflavík. Síðar byggði þessi sami Magnús sér íbúðarhús vestan við þessa bæjaröð, lengra til vinstri. Í því húsi býr nú fyrrverandi oddviti Hafnahrepps, Eggert Ólafsson. Turninn á milli húsanna er reykháfur á hlóðareldhúsi, sem tilheyrði fyrrnefndu íbúðarhúsi Friðriks heitins Gunnlaugssonar. Lengst til hægri skartar svo Kirkjuvogskirkja eins og hún er í dag. Engin teljandi breyting mun hafa verið á henni gerð nú á síðari árum.
Upplýsingar þessar hefi ég fengið hjá Ólafi Ingvarssyni, sem eins og fyrr segir, er fæddur og upp alinn þarna í þessu hverfi og því gagnkunnugur allri húsaskipan þar. – H.Th.B.“

Heimild:
-Faxi, 28. árg. 1968, 2. tbl. bls. 17.

Kotvogur

Eftirfarandi sögu um „Eldhnöttinn“ í Höfnum má lesa í Leiftri árið 1915:
„Saga Árna prests Þórarinssonar á Stóra-Hrauni. En samkvæmt bendingu frá honum var leitað umsagnar Ketils bónda Ketilssonar yngra í Kotvogi, er gaf í sumum atriðum fyllri og nánari frásögn, sem bætt var inn í aðalsögnina.
Hafnir-333Sumarið 1886 kom eg að Kotvogi í Höfnum til Ketils dbrm. Ketilssonar, er þar bjó þá. Bað eg hann að segja mér sögu af eldhnetti þeim, sem eg hafði heyrt sjómenn segja frá að hann og fleiri hefðu séð. Var eg austur í Miðfelli í Hreppum í Árnessýslu, þegar eg heyrði söguna fyrst. Ketill varð við þessum tilmælum mínum. Hóf hann þá sögu sína á þessa leið: Eg stundaði refaveiðar á vetrum. Einu sinni var eg að egna fyrir tóur fyrir ofan Kirkjuvogs-túngarðinn. Þetta var árið 1839. Með mér var Jón Halldórsson frá Kirkjuvogi, er druknaði 1852. Hann var í sömu erindagerðum og eg. Þetta var um dagsetursbil. Tungl var í fyllingu og bjart veður. Sá eg þá hvar kom dökkleit hnoða. Líktist hún mest stórum selshaus og valt áfram eftir veginum í áttina til okkar. Eg áleit að þetta hlyti að vera missýning, og hafði þvi engin orð um hana við förunaut minn. Mér þótti þó einkennilegt að sýnin hvarf ekki, en hnötturinn þaut áfram eftir veginum í áttina til okkar. Eg hélt þó áfram þögninni við förunaut minn, til að ganga úr skugga um, hvort hin sama sýn bæri eigi fyrir hann. Við gengum samhliða og hélt eg óhikað áfram, þótt eg sæi að hnötturinn stefndi beint á mig. Alt í einu kipti Jón mér til sín og sagði nokkuð höstugt:
»Ætlar þú að láta þetta helvíti fara á þig?«
»Eg sá það líka, kunningi, svaraði eg.
Hnötturinn hélt svo áfram með sama hraða eftir hinum svonefndu Flötum, er liggja fyrir ofan Kirkjuvogshverfið, svo lengi að sýn eigi hvarf.
Af samtali okkar varð eg þess þá vís, að Jón hafði séð hnöttinn jafn lengi og eg.
Þetta sama kveld var Guðmundur bóndi í Merkinesi á leið úr Grindavík af sáttafundi. En þá voru Hafnir og Grindavík sama sáttaumdæmi, og voru það fram yfir síðustu aldamót. Þegar Guðmundur kom niður fyrir Hauksvörðugjá, en svo heitir gjá, sem er mitt á milli Húsatófta í Grindavík og Kalmannstjarnar, sá hann á veginum fram undan sér eldglæringar eða eldhnött, er fór í sneiðingum eða sitt á hvað eftir veginum, en aldrei beint áfram. Þegar þetta kom á móts við Guðmund stanzar það. Þá ávarpar Guðmundur það og spyr:
»Hvað ertu, eða hver ertu, eða getur þú talað?«
»Já«.
»Hvaðan kemur þú?«
»Frá Merkinesk.
»Hvert ætlar þú að halda?«
»Austur að Skála undir Eyjafjöllum«.
»Hvert erindi er þangað?«
»Brenna þar bæinn«.
»Áttir þú nokkuð að finna mig?«
»Nei!«
»Far þú þá til helvítis«.
Síðan fór hver sína leið, og hnötturinn þaut áfram veginn með miklum hraða. Um fótaferðatíma næsta morgun er eg vakinn og sagt að Guðmundur á Merkinesi sé kominn og vilji finna mig. Lét eg vísa honum inn til mín. Tók hann sér sæti við rúm mitt, og lauk þar erindum sínum. En eigi taka þau til þessa máls. Eftir stundarþögn, að erindi loknu, mælti Guðmundur: »Það bar undarlega sýn fyrir mig í gærkveldi. Eg sá eldhnött koma veltandi hérna neðan úr Höfnunum«. Svo sagði hann mér frá því, sem þegar er fram tekið. Guðmundur á Merkinesi var einn hinn mesti herðimaður og fullhugi, sem eg hefi þekt. Sagði eg honum þá frá því, hvað fyrir okkur félaga hafði borið skömmu fyrr um kveldið. Þótti okkur það bera einkennilega saman. Saga okkar allra breiddist fljótt út, og biðu menn með óþreyju eftir fréttum að austan. Leið svo nokkur tími, að ekkert fréttist, unz vermenn komu undan Eyjafjöllum. Höfðu þeir þær fréttir að flytja, að í vökulok, hið sama kveld og við sáum sýnina, hefði verið barið högg á bæjarhurðina á Skála undir Eyjafjöllum. Var það með þeim undrakrafti að bæjarhurðin fór mélinu smærra, og brotin þeyltust inn í göng.
Einar hét bóndi á Skála. Hann var mikilmenni og ódeigur. Einar mælti, er höggið reið á: »Þetta mun vilja finna mig«. Klæddist hann skjólt, því að hann var nýháttaður. Gekk hann svo út, en sagði áður til heimamanna: »Þið skuluð sofa og ekkert um mig forvitnast.
Eg mun skila mér aftur«. Var því hlýtt. Eigi er þess getið hve rótt menn sváfu um nóttina, en hins er viðgetið að engir veittu Einari eftirför, eða gerðu sig fróðari um það, hvað hann sýslaði þessa nótt. Litlu fyrir dægramót kom Einar bóndi inn. Háttaði hann þegar og sofnaði skjótt. Þá er nokkuð lýsti af degi, sáu heimamenn, að smiðjan hafði brunnið um nóttina. Fundu þeir til þess enga orsök, því að nokkuð var frá því liðið að eldur hafði verið kveyktur þar. Þegar kona Einars vissi um smiðjubrunann, fór hún inn og vakti bónda sinn og sagði honum tíðindin. »Ekki kalla eg þetta mikil tíðindi«, mælti Einar. »Eg held að meira hafi staðið til, en eg vona að þeir komi ekki að tómum kofum hér«. Sofnaði hann svo væran aftur og svaf vel út.
Þeir, Einar á Skála og Guðni Ólafsson á Merkinesi, feldu hugi til sömu stúlku, Kristínar að nafni. Sagt var að báðir þeir bæðu hennar, en svo fóru leikar, að Guðni varð hlutskarpari, og giftist hann Kristínu. Reiddist Einar þessu mjög og var þá talað að hann hefði í heitingum við Guðna, og sagt að hann myndi hefna sín þó seinna yrði.
Rétt eftir að Guðni giftist, varð hann einhvers ónota var, sem hann skildi þó ekki. En þetta, hvað svo sem það var, hafði þau áhrif á konu hans, að hún brjálaðist. Eftir það lifði hún við fásinnu og eymdarskap. En áður var Kristin talin með efnilegri konum á sinni tíð.
Sú saga gekk að Guðna í Merkinesi hefði verið ráðlagt að íinna Jón stúdent á Bæjarskerjum á Miðnesi. Hann var gáfumaður mikill, en sagt var að forneskja væri í eðli hans og háttum. Hafði hann því orð á sér að vita jafnlangt nefi sínu. Talað var að hann hefði lofað Guðna því, að senda Einari þá sendingu, er kæmi fram hefndum og lækkaði rostann í honum.
Sumarið áður en saga eldhnallarins hefst, var það kunnugt að Guðni reið ósjaldan út að Bæjarskerjum til tals við Jón stúdent. Enginn kunningsskapur var þó áðnr þeirra milli, svo vitað yrði. Var því svo alment trúað að Jón á Bæjarskerjum hafi, eftir beiðni Guðna bónda á Merkinesi, sent til Einars bónda á Skála sendingu til þess að vinna honum tjón, og þá helzt með bæjarbruna.
Guðni Ólafsson var fæddur 19. sept. 1798, en deyði 19. júní 1846.
Svo lýkur sögu Ketils.
Ketill dbrm. í Kotvogi var mikill maður vexli, og hinn vænsti að áliti. Hann var trúmaður mikill, vandaður í öllum báttum og þvi manna merkastur að allra dómi, sem þektu. Sjálfur var hann og nokkuð við söguna riðinn. Nær var hann og kominn frétt um þau Merkineshjón. Vermenn, er fréttirnar báru honum frá Skála, voru og snmir básetar hans.
Þetta alt var þess valdandi, að eg lagði fullan trúnað á frásögn Ketils.“

Heimild:
-Leiftur, 1. árg. 1915, 1. tbl. bls. 19-22.

Eldey

Hér á eftir ferð „Lýsing á Höfnum“ eptir Brand hreppstjóra Guðmundsson í Kirkjuvogi og birtist í Blöndu 1923 – prentað eptir eigin handarriti hans, úr safni, Bókmentafélagsins 72 fol. í Lbs. Hefur hann sent skýrslu þessa sóknarpresti sínum §íra Sigurði B. Siverfsen a Útskálum og samið hana eptir beiðni hans, sem sóknarlýsingu Kirkjuvogssóknar um 1840. En skýrslu þessa mun svo síra Sigurður hafa gefið Magnúsi stúdent Grímssyni, þá er hann ferðaðist um Reykjanesskaga 1847, og reit lýsingu af honum, því að handrit þetta er nú meðal plagga Magnúsar í Bókmentafélags-safninu.
Hafnir-41Brandur var fæddur á Brekkum á Rangarvöllum í september 1771, og var faðir hans Guðmundur Brandsson, sonarson Bjarna Halldórssonar á Víkingslsæk, er hin fjölmenna Víkingslækjarætt er frá komin. Hann flutti síðan suður að Kirkjuvogi og drukknaði þar á góuþrælinn 1801, en Brandur sonur hans andaðist í Kirkjuvogi 16. júní 1845, nálega 74 ára gamall. Synir hans voru Vilhjálmur, Hafliði, Guðmundur alþingismaður, er drukknaði 1861, Einar og Björn í Kirkjuvogi faðir Þórðar, er þar bjó síðar, föður Björns verzlunarmanns og Einars kennara í Reykjavík. Síra Sigurður B. Sivertsen lýsir svo Brandi Guðmundssyni í Kirkjuvogi i Suðurnesjaannál sínum (í minni eigu):
Hafnir-42„Hann var merkasti maður í mörgum greinum, mikill gáfumaður, mjög vel greindur og vel að sér, en nokkuð sérlundaður, alvörugefinn og siðavandur, þurr ákomu, en skemmtinn og ræðinn, þegar hann var tekinn tali, mesti hófs- og reglumaður, skrifaði atkvæðavel alla hönd, einhver bezti skipasmiður í sína tíð og fljótur, einkum smíðaði hann stórskip, — alls 40, og 100 smærri á 40 árum — hraustmenni mesta, kappsamur og atorkusamur, vildi ekki hlut sinn láta við hvern sem átti, þegar þóttist á réttu standa; var lengi hreppstjóri í Hafnahreppi og í miklu afhaldi“.
(H. Þ.)

Hafnir-43

„Kirkjan i Höfnum er aunexía frá Útskálum nú, áður lá hún til Hvalsness-prestakalls; hún er í Kirkjuvogi, er timburhús, sem tilheyra 6 málnytukúgildi, gelzt eptir þau hálf leiga, en hálf fellur niður fyrir ábyrgð og viðhald; hún á 1/3 part í heimalandi, reka frá Ósum til Klaufar 5 álna tré og þaðan af stærri annaðhvert ár, samt hálft Geirfuglasker; er byggð fyrir fáum áruin. Jörðin Kirkjuvogur er metin að dýrleika 72 hndr., auk Merkiness, sem er talin 20 hndr., kölluð kirkjujörð, tíundast því ekki, en gelzt landskuld af til Kirkjuvogs ábúenda; það er stór bær, Hafnir-44sæmilega húsaður að nokkru leyti; 3 eru ábúendur heima á jörðinni, kallast Austur- Mið- og Vesturbær; sá austasti, sem lengi hefir verið ábúenda eign er bezt húsaður; hinn næstnefndi, sem er Thorkelii barnaskóla stiptunar eign er miklu miður, en sá vestasti í meðallagi.— Kotvogur er bær í sama túni, 17 hndr. í nefndri jörðu, en 3 hjábýli innan túngarða, og 1 utangarðs, byggt fyrir 10 árum liðnum. Byggð þessi er við sjóinn, hvar Kirkjuvogsósar byrja; er sjór fyrir vestan og norðan, en ósarnir liggja til austurs landnorðurs, eru um hálfa viku sjávar að lengd með skerjum víða, sandi líka í botni, marhálmi, skeljum nokkuð og ýmislegu. Selveiði á vorin var í þeim nokkur fyrrum og eptir fardagaleyti af kópum, sem nú er ekkert orðið vegna ósvífinna skota á öllum árstímum; hrognkelsaveiði er í þeim nokkur kringum miðsumarsskeið. Á jörðinni allHafnir-45ri hafa verið hafðar frá 10 fyr, en nú 11 eða 12 kýr, því jörðin gengur af sér vegna sandfoks á túnið og sjávar landbrots. Sauðfé er þar nokkurt og hestar, en bágt vill veita að fleyta þar fram skepnunum; hagalönd eru mikil að víðáttu, en yfrið snauð að gæðum, mest partinn grjóthólar, hraun með gjám og klettum; alslags lyng vex þar, lítið af einiöngum, ber eru þar stundum á eini, kræki- og bláber og litið af grasteigingum. Stutta bæjarleið þaðan sunnar er Merkines; þar eru 2 ábúendur, tún allsæmilega gott, því þar fýkur enn ekki á sandur, en sjór gengur þar nærri, þó ekki geri mikinn skaða enn; 4 kýr eru þar optast hafðar og lítið af fé og hestum; öll hin sömu eru þar hagalönd og í Kirkjuvogi, en ekkert hjábýli. Kirkjuvogur var áður fyrir norðan Osa, sem nú er Stafnessland, meina menn fluttan fyrir hér um 300 árum síðan liðnum (Í Jarðabók AM. segir, að Gamli Kirkjuvogur hafi legið í auðn lengur en 120 ár 1703, en það bæjarstæði var i Kirkjuvogslandi) og voru hér þá tvær jarðir: Haugsendar (Svo hdr., ef til vill réttara: Haugssandar. Jarðabók AM. 1703 nefnir Haugsendakot, þá fyrir löngu komið í eyði, en Árnagerði (eða Arnagerði) hafi farið í auðn þá ekki fyrir löngu, sökum vatnsleysis og átroðnings kvikfénuðar frá Kirkjuvogi) og Arnagerði. Sú fyrri lagðist í eyði hér um fyrir 200 árum veHafnir-46gna sandfoks; var á milli Kirkjuvogs og Merkiness; hin, sem er fyrir innan spölkorn mun hafa lagzt í eyði fyrir nálægt 100 árum af ágangi af mönnum og skepnum, eins og á Kirkjuvogstún og líka vegna sandfoks frá sjó og uppbrots þar. Túngarðar, hvar verður, fylgja byggðinni, og kálgarðar eru yrktir og ræktaðir eptir mætti. Hvað Kirkjuvogstún muni hafa af sér gengið má meðal annars af því ráða, að Ingigerður heitins (þ. e. Ingigerður Tómasdóttir (f:1804) kona Vilhjálms Hákonarsonar hins eldra i Kirkjuvogi (f 1803, 79 ára)sál. Hákonar (Hákon Vilhjálmsson dó 1821) sagði Gróu minni (Gróa Hafliðadóltir kona Brands var mesta yfirsetukona og merkiskona (f 1855)) að kerling gömul gömul, móðir Sesselju í Garðhúsum, er eg man til, hefði sagt eptir annari kerlingu, að full sáta heys heiði í hennar tíð verið slegin á Kirkjuskeri, sem nú íer í kaf í hverjum stórstraumi, og þá heíði varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og búðarbakkans, sem nú er að 30 faðma rúm í millum, en sandur skemmir þó enn meira, því að í þau Hafnir-4750 ár, er eg veit til, hefur blásið af norðurtúninu til vissu kýrfóðuravallarstærð auk skemmda, sem garðafærslur sýna. Heyrt hef eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi allar verið 60 hndr. að dýrleika og Kirkjuhöfn þeirra fyrst lagzt í eyði, að kirkja hafi þar staðið, eptir að jörðin lagðist í eyði, en of naumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan (hefur lagzt i eyði um 1660 (sjá síðar) því nefnd Ingigerður sál. vissi að eins til, að uppblásin mannabein i hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð þar í kirkjugarð og eru þó síðan full 100 ár. Það er nokkurnveginn víst, að Litla Sandhöfn lagðist seinast i eyði; sagt er mér, að ekkja hafi átt, hún verið 8 hndr., gefin af henni Viðeyjarklaustri og hún með þvi móti síðar orðið kóngseign (frá [b. v. eptir aukablaði með hendi höf. þar getur hann og þess, að hann hafi á „landcommissiþingi á Járngerðarstöðum 1801 séð í bók hjá commissariis Kirkjuvog nefndan fyrir Hafnir-48norðan Ósa ár 1516, sem mig minnir og þar i getið eyðijarða Haugsenda hér og Arnagerðis“ [Þetta bréf er ekki kunnugt nú, en ártalið gæti verið skakkt t.d. 1616).
Bæjarleið sunnar með ströndinni [en MerkinesJ er Kalmanstjörn (Kalimanstjörn, hdr.) 20 hndr. jörð með JunkaragerU, sem Vs partur úr neíndri jörðu, og er skammt bil milli túna. Tún eru þar stórskemmdum undirorpin af sandfoki og sjávarbroti á Gerðið; þó hafa menn þar optast haft i kýr, því nielaslægjur eru þar, en tún mikið þverbrestasamt. Spölkorn sunnar er eyðijörðin Kirkjuhöfn („Hefur óbygð legið um 40 ár“ (Jarðab. AM. 1703).) Hún mun hafa lagzt í eyði vegna sandfoks; þar var kirkja áður en í Kirkjuvogi. Á milli þesssa og Kalmanstjarnar eru girðingar nokkrar líkast til sem eptirstöðvar af húsagrundvelli, hver í orði er, að þýzkir, þá höndluðu hér við land, er á tali, að hafi átt, en höfnin þá verið Kirkjuhöfn. Þar er gott sund í öllum sunnanáttum, en lending verri. Sunnar er Sandhöfn, eyðijörð, aflögð vegna sandfoks („Hefur óbygð legið hér um 50 ár,“ segir í Jarðab. AM. 1703) því ekkert sést eptir, utan lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið. Sunnar er Eyrin innan Hafnir-49Hafnabergs. Þar var bær og útræði seinast fyrir rúmum 50 árum; er þetta í vik nokkru (fyrir) sunnan Kalmanstjörn: Skammt sunnar byrjar Hafnabergs nyrðri endi, og er þar fyrnefnd Klauf, klettar með gjá í millum; bergið er um hálfa viku sjávar á lengd, rúmir 20 faðmar þar hæst er, ógengt, en sigið í það og stöku sinnum lent við það að neðan; þar er svartfugl, lítið af súlu, eggvarp og fuglatekja nokkur, sem heyrir til Kalmanstjörn. Fyrir sunnan bergið eru sandar og hraungrýti; kallast það Lendingarmalir, (líklega réttara: melar, sbr. skýrslu Þorkels hér á undan) og er þar lent þá verður brims vegna í norðan- og austanátt, þá menn sökum storma ekki geta dregið inn fyrir bergið. Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint er forn eyðijörð, enda er í tali, að allt Reykjanes hafi fyrrum byggt verið. Sunnar er Stóra Sandvík og er í mæli, að Kaldá skyldi hafa fallið þar í sjóinn, og liggur þar gjá uppundan og inn til fjalla, sem myndar líka vatnsfarveg afarstóran, eu það getur líka svo hafa myndazt af eldrennsli, því allt Reykjanes er af eldi einhverntíma gersamlega brunnið (á aukablaði getur höf. nánar um gjá þessa, er hann kallar Hafnir-50Haugsvörðugjá, er sé þar stærst gjáa að lengd og breidd, og sumstaðar með hömrum beggja vegna; muni víða vera um 100 faðma breið og sumstaðar miklu meir; sé sagt, að Kaldá, er þar eigi að hafa runnið, hafi hlaupið í jörð í jarðeldum, en vatn sé ofarlega í Sandvík, þar sem Kaldá hafi átt að renna í sjó fram, en hvort það vatn sjáist frá sjónum gegnum sandkampinn, segist höf. ekki vita,).

Sunnar er Litla-Sandvik, þá klettabelti með litlum grasteigingum og blöðkuhnubbum, þá Kistuberg, lítið berg, nytjalaust; síðan Kinnin, berg nokkurt gróðurlaust, síðan Aunglabrjótur, nef syðst á nesinu það vestur veit, beygist það svo til suður landsuðurs. Stendur þar Karl, klettur mikill í sjó fyrir nesinu um 50—60 faðma kár, er var þó hærri fyrir, því í jarðskjálfta féll ofan af honum hetta mikil í þeirra manna minni, er nú lifa; upp undan honum á landi er bergsnös, kallast Kerling, og eru þau brúkuð fyrir mið í Reykjanessröst og víðar m. ff. Sunnar eru: Valahnúkar, bergsnös há, Valahnúkamöl og Skarfasetur syðst; beygist þá nesið til austur landnorðurs, því stór vík skerst þar inn í og má því kallast hálfeyja. Framundan SkHafnir-52arfasetri á sjó eru 2 klettar, sem varast þarf, þá fyrir það er lagt, og boði einn; er þar sem optast iðukast og óhreinn sjór. Á nesinu eru jarðhitar og hverir, stórir hólar eða lítil fjöll, sandöldur, ægisandur og hraun; sumstaðar sjást grasteigingar, blöðkuhnubbar, lyng, einiangar hér og hvar og grófasta brunahraun. Frá Kirkjuvogi til syðsta tauga þess mun vera um 2 1/2 míla vegar, en frá Kalmanstjörn til Grindavíkur 2 mílur og er það þjóðvegur, liggur til landsuðurs. Annar vegur liggur frá Höfnum til kauptúnsins Keflavíkur í norður nær 1 1/2 míla langur.
Fiskafli er þar helzti bjargræðisstofn manna; sjómenn eru þar í betra meðallagi og sjósókn, langræði mikið, en optast með landi suður. Fiskur gengur á öllum árstímum, helzt með stórstraum; menn hafa tekið eptir, að austangöngur með sílhlaupum koma helzt með góu og þeim straumnum, líka stundum síðar; vestangöngur, sem eru sjaldgæfar fyrri, lenda einkum í röst; þorskur, ýsa, keila, þyrslingur, skata, karfi, langa eru þær fiskitegundir, er veiðast á færi og öngla, líka hákarl nokkuð, við andþóf og stundum stjóra.
Hafnir-53— Sundið í Kirkjuvogi er þrautgott, en langt og ógurlegt í brimum, snúningar eru á því lakari og lending háskasöm; eru þar blindsker fyrir sunnan sundið spottakorn. Í Merkinesi er lakara sund, en lending um flóð betri. Bæði liggja sund þessi til austurs í land öl þess við er snúið og haldið í suður. Sundið á Kalmanstjörn liggur í sömu átt, er stutt, þröngt og slæmt í brimum, en beint. Útsker er fyrir innan nyrðri önda bergsins og skammt frá landi, sést á það með hálfföllnum sjó; pað heitir Eyrarsker. Önnur útsker eru ekki með Reykjanesi Hafnamegin. En Eldey er klettur stór í hafinu í vestur frá Reykjanesi um 3 vikur sjávar; það er mestpartinn hengiberg með fáum hillum; að austar má lenda við klöpp í ládeyðu, og er þvert nmur með henni 9 faðma djúp. Skerjahryggur með ósum inn í liggur hálfhring til útnorðurs og vesturs frá nefndri klöpp; tvö sker eru í boga þessum, hann kemur upp með hálfföllnum sjó. Klöppin er um 3 eða 4 ljábrýnur að stærð eða 80 ferskeytta faðma. Klettur þessi, það til lands veit, mun vera að ágizkan vel svo 100 faðma langur, um 40 að norðan, en á sjósíðuna (nefnil. vestan) 80—90 faðma og suðurhornið 15—20 faðmar, hæðin eptir ágizkun 90—100 faðma mest, móberg með blágrýti neðst, öllum mönnum ógengt. Slý er mikið á klöppinni og því hættulegt upp að komast, sem er um 2 faðma hæð um fjöru, og er þá skárst að lenda. Súgur er þar mikill og iðukast. Fugl er mikill á nefndri klöpp og á einni hillu stórri uppundan, sem ekki verður upp á komizt, súla mest upp á eynni. Maður, sem þangað hefur farið nokkur vor, sHafnir-55egist hafa náð þar mest 10 í hlut af svartfugli, 2 og 3 af súlu, — 24 geirfuglum alls á skip langmest, en optast 5 til 8, en seinustu 2 vorin hafi hann ekki sést — og 100 í hlut af eggjum. Lítið er þar af sel, en afarstyggur. Skammt frá Eldey er klettur í útsuður, kallaður Eyjadrangi (mun vera það sem nú kallast Eldeyjardrangur), sem hvergi verður upp á komizt, enda er hann gæðalaus. Geirfuglasker er í vestur í hafinu undan Eldey. Þangað var ferðazt í fyrri tíð til geirfugladráps; en engir eru nú uppi, hjá hverjum menn geti fengið vissar sögur um arðsemi þess eða lögun, lending eða afstöðu. Fyrir nokkrum árum var gerð þangað ferð á þiljuskipi og varð til einskis að kalla. Sagt er, að menn hafi gert þangað ferðir fyrir og eptir slátt á sumri, sem þá lukkaðist, hafi mannshlutur orðið fullt svo mikill sem fullkomins manns sumarkaup úr Norðurlandi. Skrifað finnst, að skip hafi farizt þar (sumarið 1639 fórust með allri áhöfn 2 skip af 4, er til Geirfuglaskers fóru um. Í mæli er, að 12 vikur sjávar séu úr Höfnum í skerið, en 6 til Eldeyjar). Í suður frá skerinu er klettur, sem kallast Skerdrangi, en í vestur frá því eða til útnorðurs hefur brunnið í hafinu fyrir fáum árum.
Í Höfnum er rigninga- og snjóasamt frá austurslandsuðurs og sunnanáttum og stormasamast, líka bitur kuldi; norðanveður eru vægari að tiltölu, útnyrðingar hættusamastir sjófarendum, útsynningar ganga miklir um jólaaðventu og á útmánuðum, skruggur stundum, en ekki orðið skaði af, hrævarelda og ýmsar loptsjónir orðið vart við. Flestar grasategundir munu þar á heiðinni og hraununum, líka nærri sjó. Engin eru þar rennandi vötn og ekki fjöll það heita megi. Trjáreki á Kalmanstjarnar rekaHafnir-56plássi, sem er stórtré opt, allarðsamur til húsabóta, engir skógar. Ekki hefur hval rekið í Höfnum yfir 60 ár; engar vita menn þar fornmenjar í jörðu eða á, en steinkol meina menn vera á Reykjanesi. Sláttur er þar byrjaður i 14. og 15. viku sumars, stendur yfir 2 og stundum 3 vikur. Þang brúkast þar til eldsneytisog að geyma í fisk. Ullarvinna, hampspuni og smíðar tíðkast þar á vetrum. Menn munu þykja þar drungalegir, því plássið er afskekkt og fámennt, en málvitrir og starfsamir. Þeir munu flestir eiga ættir að rekja til sveitamanna austur, að öðruhvoru kynferði.

Athugagrein
Af 60 ára reynslu er aðgætt, að flóð hafi orðið mest um og eptir veturnætur, veður mest um jól fram yfir miðjan vetur af land- og hafsuðri til útsuðurs, en vestan- og norðanáttir hafa verið skæðastar sjófarendum í Höfnum. Klettur er framan Hafhaberg, laus við land, má fara milli hans og þess, stendur optast upp úr um flóð, og þvi ekki sérlega hættulegur. Víða eru boðar með landi, en ekki sérleg rif eða útgrynni. Röstin fyrir Reykjanesi liggur til vesturs frá nesinu til Eldeyjar; hálfa viku sjávar frá því er svo mikið misdýpi, að á skipslengd er 14 og líka 40 faðma djúp, og er það hraunhryggur þverhniptur að uorðan, en flatur suður af. Viku sjávar frá landi verður sandalda um 50 faðma djúp, en botuast ekki þá norður eða suður af ber; sandalda þessi breikkar því meira sem fram [eptir dregur og ætla menn hún nái framt að Eldey. Skammt frá heuni, hér um bil 80 faðma, er 40 faðma djúp landsmegin, en grynnra að vestan.
Opt er straumur svo mikill í röstinni, þó veður sé gott, að ekki gengur á fallið, þótt siglt sé og róið af mesta kappi. Aðfall er þar venjulega meira eu Kirkjuvogurútfall; Stundum ber til, að þar [er ekki skiplægur sjór, þó annarsstaðar sé ládeyða. Vestan- og sunnanáttir eru þar beztar, þá hægar ern, en austanáttir hættulegastar, því að sækja er & einn laudsodda í austur, en haf a allar síður, en straumar opt óviðráðanlegir. Ekki hefur þar skip farizt svo menn viti, en erfitt er að sækja þangað; mörg hefur þaðan máltíð fengizt; það er um 4 vikna sjóarlengd þangað frá Kirkjuvogi. Þetta er þá, sú upplýsing, er eg get í stuttu máli meðdeilt yður, prestur minn góður, í því áður umtalaðaogbið egyður auðmjúklega vel aðvirða, en skyldi þar þurfa nokkru við að bæta, vildi eg að því leyti geta sýnt viljann, en bið auðmjúklega leiðréttingar á missmíðinni og yfirsjónum.

Br[andur] Guðm[unds]son.
Til prestsins herra S. B. Sívertsen á Útskálum.“

Heimild:
-Blanda,2. bindi 1921-1923, bls. 51-60