Tag Archive for: Hafnir

Hafnir

Sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Byggð í Keflavík og Njarðvík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki ljós, nema tekið væri eftir landamerkjavörðum eða skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu þau til kynna.

Keflavík

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok.
Þekktasti kaupmaðurinn á árum áður var H. P. Duus og stendur enn hluti af húsum hans, svokölluð Duushús. Þar er nú mjög góður veitingastaður við smábátahöfnina með bergið andstpænis upplýst, þegar dimma tekur á kvöldin. Mikil útgerð og öflug fiskvinnsla var í Keflavík um áraraðir en nú er þjónusta og iðnaður burðarás atvinnulífs staðarins. Keflavík er nú hluti af sameinuðu sveitarfélagi, Reykjanesbæ.

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Ekki er vitað hvenær byggð hófst í Keflavík en fyrstu vitneskju um að byggð sé þar er að finna í annálum, þar sem segir frá Grími Bergssyni, sem vað þar bráðkvaddur árið 1649, en hann bjó þá í Ytri-Njarðvík. Talið er að verzlun hafi verið í Keflavík frá því um 1500, en árið 1518 er talað um þýzka kaupmenn þar. Hansarkaupmenn settust þar að 1579 og sama ár gaf Danakonungur út fyrsta verzlunarleyfið fyrir staðinn.
Við upphaf einokunarverslunar á Íslandi árið 1602 var kaupmönnum í Kaupmannahöfn afhent Keflavík og mynduðu þeir samlög um verzlunina. Fyrsti togarinn var keyptur til Keflavíkur árið 1944. Hét hann Hafsteinn. Hann var gerður út frá Hafnarfirði, vegna slæmra hafnarskilyrða í Keflavík.

Gamlabúð

„Bryggjuhúsið fékk nýtt hlutverk eftir að nýjir eig. tóku við Duus-eigninni 1920. Þurrkun saltfisks hófst þar (um 1930?) og þá var reikst ketilshús úr steypu sunnan við, hvítt að lit. Húsið var brotið nál. 1969 – 1970. Myndin tekin eftir lagningu Vesturbrautar nálagt 1941. Skífur úr steini á þaki gömlu búðar og bryggjuhúss. Skífur af bryggjuhúsi rafnar af og fleygt niður í fjöruna líkl.1968-1970 þegar ketilhúsið var rifið og þakið járnklætt í fyrsta sinn.“

Fyrsta íshúsið var byggt árið 1897 og fyrsta frystihúsið 1929.

Hröð aukning hefur verið í ferðaþjónustu og eru þar nú hótel í háum gæðaflokki og úrvals veitingastaðir sem og önnur gisting og tjaldsvæði. Keflavík hefur löngum verið nefndur bítlabærinn en þar má segja að sé vagga rokksins og bítlaæðisins hérlendis. Ein fyrsta, og vinsælasta, rokkhljómsveit landsins, Hljómar, var stofnuð í Keflavík og er ávallt kennd við staðinn. Hin árlega Ljósanótt í Reykjanesbæ nýtur sívaxandi vinsælda.
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.

Stjáni blái

Verk Erlings Jónssonar keypt og sett upp í tilefni 40 ára afmælis Keflavíkurkaupstaðar árið 1989.
Það var frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands sem afhjúpaði verkið 1. apríl þetta sama ár. Kvæði Arnar Arnarsonar um Stjána bláa varð höfundi listaverksins tilefni til hugleiðinga, sbr. „austur af sól og suður af mána, sýður á keipum himinlind.”

Í Keflavík má m.a. sjá minnismerki um Stjána blá, eftir Erling Jónsson. Við Vatnsnes er samnefnt hús í eigu Byggðasafnsins. Bjarnfríður Sigurðardóttir gaf húseigina til eflingar safns á svæðinu og þar innan dyra er nú nokkuð hefðbundið byggðasafn með margvíslegum gripum. Gamli skólinn hýsir nú Miðstöð símenntunarr á Suðurnesjum. Við bygginguna er listaverkið Laxnesfjöðurin eftir Erling Jónsson. Í skrúðgarðinum er sérstakur skúlptúr er kallast “Hvorki fugl né fiskur”, eftir Erling Jónsson, þar sem greipt eru nöfn þeirra sem hafa hlotið menningarverðlaun Reykjanesbæjar.

Við Hafnargötuna er minnismerki íslenskra sjómanna eftir Ásmund Seinsson. Beint upp af minnismerkinu er Keflavíkurkirkja, vígð árið 1915. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði hana. Við enda Hafnargötunnar er Grófin og jafnframt elsti hluti Keflavíkur. Hér má sjá nokkur merkileg hús. Fyrst er að telja hús byggt 1971, sem hlotið hefur nafnið Svarta Pakkhúsið. Það er skýrt í höfuðið á enn eldra húsi, sem var á þessum slóðum og minnir á þá tíð þegar pakkhús og bryggjur kaupmannanna í Keflavík einkenndu víkina auk stakkstæða til saltfiskþurrkunnar.
Leifar síðustu bryggjunnar má enn sjá beint framundan, og heitir sú bryggja Miðbryggja. Næst er svokallað Fischerhús, sem reist var árið 1881, sem verslunar- og íbúðarhús Fischers kaupmanns. Á hluta fyrstu hæðar hefur hópur handverksfólks hreiðrað um sig og rekur þar Galerý Björg.

Keflavík

Keflavík – listaverk.

Handan götunnar er lítið hús sem kallast Gamla búð, sem byggð var árið 1871 af Duus kaupmanni. Þar beint á móti er síðan Duushúsalengjan. Bryggjuhúsið var fyrst reist 1877 af sama manni, Bíósalurinn er byggður við og reistur 1890, en sagnir erum að þat hafi verið bíósýningar þegar um aldamót. Síðan er byggt við þessi hús upp úr 1950 þrjár einingar sem fiskverkunarhús. Búið er að gera upp tvær þeirra og eru þetta nú sýningarsalir.
Ofan við Duushúsin eru tóftir gamla Keflavíkurbæjarins. Jörðin Keflavík var konungseign, en var rýr bújörð og búskapur á jörðinni var alltaf smár. Upphaflega mun jörð þessi eða kot hafa verið í eigu Skálholtsstóls. Við siðaskiptin um 1550 verður hún eign konungsins eins og aðrar jarðir biskupsstóls.

Keflavík

Upplýsingaskilti við gamla Keflavíkurbæinn.

Ekki er vitað hvenær búskapur hefst í Keflavík, en hann er örugglega hafinn á 16. öld því árið 1587 greiðir bóndinn landsskuld sína til Bessastaða. Kvaðir á bóndann áttu að vera mannslán til Bessastaðavaldins, en féll niður, vegna bónar kaupmannsins í Keflavík, fyrir vöktun búðanna. Búskapur á jörðinni leggst niður fyrir 1780. Bæjarhúsin voru jöfnuð út rétt fyrir aldamótin 1900.

Í landi jarðarinnar eru eftirtaldar minjar friðlýstar ákvörðun þjóðminjavarðar árið 1987: Hið gamla bæjarstæði jarðarinnar Keflavík, sem afmarkast af Grófinni að norðan, af Duusgötu og lóð Duusgötu 5 að austan, af Vesturbraut að sunnan og lóðunum Vesturbraut 6 og Grófinni 5 að vestan. Ber eigendum að sjá til þess að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.
Fjölmörgu öðru má geta um Keflavík fyrrum, sem síðar verður lýst á vefnum.

Keflavík

Frá Keflavík fyrrum.

Keflavík byggðist upp við Grófina. Upp frá henni liggja gamlar leiðir til nágrannabyggðalaganna vestan og norðan á Nesinu. Ofan við Grófina er Keflavíkurborgin og Rósasel við Rósaselsvötn.
Sorphirðustöð Reykjanesbæjar heitir Kalka eftir kalkaðri vörðu, sem stóð utan í stórum fallegum eldgíg efst á Háaleiti. Þegar Keflavíkurflugvöllur var lagður var gígurinn flattur út, líkt og svo margt annað á þeim tíma.

Njarðvík

Njarðvík

Frá Innri-Njarðvík.

Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976.

Njarðvík

Minnismerki um Thorkelli í Innri-Njarðvík.

Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag. Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki sjáanleg nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu það til kynna. Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu. Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík.
Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar. Sveinbjörn Egilsson rektor bjó í Innri-Njarðvík. Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag.
Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag. Í Njarðvík er byggðasafn staðarins og þar hefur þurrabúðin Stekkjarkot verið endurbyggð.

Bolafótur

Bolafótur í Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsnesi, bjó um tíma á Bolafæti þar sem nú er skipasmíðastöðin. Öllum minjum þar hefur verið spillt. Í Reykjanesbæ er mikil körfuboltaiðkun og lið Njarðvíkinga er talið eitt hið bezta á landinu og keppir nær alltaf um Íslandsmeitaratitilinn, oftast við sveitunga sína frá Keflavík og Grindavík. Ferðaþjónusta er mjög vaxandi og stærsta verzlun á Suðurnesjum er í Njarðvík. Vegalengdin frá Reykjavík er 47 km.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stekkjarkot er tilgátuhús, byggt eftir tilsögn konu, sem bjó þar í kringum 1920. En kotið er að stofninum til frá 19. Öld. Þetta er eitt af hinum fjölmörgu smákotum, sjávarbýlum, sem einkenndu byggðina hér áður fyrr. Kotbúar lifðu aðallega á sjósókn sinni, en flestir stunduðu einhvern búskap samhliða þótt eflaust hafi einnig verið svokallaðar þurrabúðir þar sem eingöngu var lifað af því sem sjórinn gaf.
Fitjarnar eru að ganga í gegnum umbreytingu þar sem stefnt er að gera þær aðlaðandi til útivistar og í framtíðinni mun Naust Íslendings rísa á þessum slóðum. En það er stefna bæjaryfirvalda að þessi staður verði fyrsti og síðasti viðkomustaður ferðamanna sem fara um leifsstöð.

Hafnir

Kotvogur

FERLIRsfélagar á ferð í Höfnum.

Hafnir byggðust upp í kringum mikið útræði. Hefur byggðin nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Sandhöfn og Kirkjuhöfn, sem nú eru í eyði. Var fjölmenn byggð í Höfnum og útræði mikið á stórum bátum allt fram til aldamótanna 1900.
Hafnir, Keflavík og Njarðvík runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Hafnir eru annað landstærsta sveitarfélagið á Reykjanesi en byggð þar er fámenn nú miðað við það sem áður var. Árið 1881 (26. júní) rak timburskip, Jamestown, upp við við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi (sjá nánar). Það var mannlaust og virtist hafa verið lengi á reki, því að reiði og seglbúnaður var horfinn.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir.

Fjölmargir húsbyggjendur á Suðvesturlandi nutu góðs af timburfarmi skipsins (sjá Sandgerði) og akkeri skipsins er nú varðveitt framan við fyrrum sæfiskasafn í Höfnum við Nesveg.
Hafnaberg er suður af Höfnum og er þar skemmtileg og vel vörðuð gönguleið en þar eru nokkrir af beztu stöðum til fuglaskoðunar á landinu. Frá Hafnabergi má einnig oft sjá smáhveli í ætisleit rétt við landsteina.

Kirkjuvogshverfið nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.
Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír.

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur.

Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Christinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja 1960.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 3. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – kort.

Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.

Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey.
Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri“ (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð. Og þótt ekki séu nema 9 km frá Höfnum til Njarðvíkna er veðurfar gjörólíkt.
Kirkjuvogskirkja í Höfnum var vígð 1861. Á túninu fyrir aftan kirkjuna hafa nú fyrir skömmu fundist elstu mannvistarleifar bæjarfélagsins. Það er skáli (íbúðarhús). Við aldursgreiningu kom í ljós að skálinn er ekki yngri en frá árinu 900.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja.

Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Það tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld. Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld.

Kotvogur

Kotvogur.

Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einnig hafa verið mörg og stór, eru bæði hleðslur og rústir.
Mikill útvegur var frá Höfnum. Fjöldi vermanna kom víðs vegar að af landinu á vetrarvertíð, sem hófst snemma árs á hverju ári um aldir. Verstöðvarnar voru fjölmargar á svæðinu öllu, en þar skipti mestu máli nálægðin við hin gjöfulu fiskimið.
Hafnahreppi er að venju skipt í þrjú svæði; Kirkjuvogshverfið, Merkineshverfið og Kalmannstjarnarhverfið. Sú skiptin markast af gömlu lögbýlunum. Þeim fylgdi síðan fjöldi hjáleiga, sem sumar hverjar áttu stutta lífdaga, en aðrar uxu höfuðbýlinu yfir höfuð, eins og t.d. Kotvogur. Það var talið fullvíst að lögbýlin hafi verið fleiri, enda mörg örnefni sem benda til þess að svo hafi verið. En með Reykjaneseldum á 13. öld eyddist byggðin sunnan Kalmannstjarnar.

Heimildir m.a.:
-www.nat.is
-www.leoemm.com
-Sigrún Ásta Jónsdóttir, Byggðasafni Reykjanesbæjar.

Keflavík

Frá Keflavík fyrrum.

Hafnarétt

Ekki er minnst á Hafnarétt í örnefnalýsingum, en hún er þó augljós á loftmyndum frá árinu 1954, auk þess sem minjar hennar sjás enn vel í dag norðvestan við Réttargötu í Höfnum.

Hafnarétt

Hafnarétt.

Byggð hefur lagst þétt að réttinni, en þess hefur verið gætt að forða henni frá eyðileggingu. Sjórinn er þó smám saman að eta landið undan henni.

Hafnarrétt

Hafnarrétt 2021.

Prestastígur

Ólafur Sigurgeirsson skrifaði á mbl.is. árið 1999 stutta grein; „Gengið um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur„.

Ketill Ketilsson

Ketill Ketilsson í Höfnum.

„Gengið verður um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Hafnir voru fyrr á öldum, segir Ólafur Sigurgeirsson, blómlegur útgerðarstaður. FÍ efnir á sunnudaginn, 18. apríl, til gönguferðar um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Þegar leiðin er farin úr Höfnum liggur hún frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru- Sandvík, þaðan hjá Haugum og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar og fylgir gatan þar hraunjaðri Eldvarpahraunsins. Þar verður á vegi okkar nýlegur vegarslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðarans mikla. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá að Húsatóftum í Staðarhverfi. Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir, víða sést hvar umferðin hefir markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefir verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi, þar hafa skreiðarlestir verið á ferð.

Prestastígur

Prestastígur.

Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þar um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á sautjándu og átjándu öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað, sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipsskaða sem urðu þar á fyrri hluta sautjándu aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð, á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur, en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785. Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip, á árunum 1870­1880, og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma, hann byggði steinkirkju þá á Hvalsnesi sem enn stendur, en Ketill átti meðal annars alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík. Landkostum hefur á síðari öldum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar sem snemma fóru í eyði, en Haugsendar voru á milli Kirkjuvogs og Merkiness, voru tún þar mikil, vegleg húsaskipan og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi: Á Haugsendum er húsavist sem höldar lofa. Þar hefur margur glaður gist, og gleymt að sofa. Ég hefi stundum heyrt þessa fornu þjóðleið nefnda Prestastíg en hvergi hefi ég fundið það nafn í þeim bókum sem ég hefi séð. Þó má geta þess að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið þar til Staðarprestsetur var lagt af 1928 og Kirkjuvogskirkja lögð til Grindavíkurprests. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast liggur upp frá Húsatóttum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað.“ Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.“

Heimild:
-Mbl.is, 17. apríl 1999.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Hvalsneskirkja

Jökull Jakobsson gengur með Sr. Jóni Thorarensen um „Hafnir á Suðurnesjum„. Seinni hluti – útvarpaður 28. apríl 1973.

„…Og við göngum yfir túnið og í átt til sjávar að dálítilli húsaþyrpingu sem stendur fremst á sjávarklöppunum. Og hér eru rústirnar að hinu forna Kotvogi. Það er lítið eftir hér nema rústirnar, Kotvoguren allt ber þess vott að hér hafi verið stórbýli, fallegar hleðslur og grónar þekjur. Stærstu húsin, timburhúsin, sem hér voru, eru þó horfi. Einhverju sinni hefur nú verið búsældarlegra hér, séra Jón?“
„Já, það má nú segja. Ég vil byrja með því að tala um elsta Ketil, sem var hér óðalsbóndi í Kotvogi. Hann var fæddur 1793. Hann var giftur Herdísi Steingrímsdóttur frá Álftanesi. Með hann átti hann son, Ketil og Jón. Seinni kona Ketils hét Anna Jónsdóttir og var hann þriðji maður hennar. Fyrsti maður hennar var Hákon Vilhjálmsson, lögréttumaður. Annar maður hennar var Halldór Gunnarsson, hrepsstjóri og síðasti maður hennar var Ketill elsti. Ketill Jónsson var indæll maður, skemmtilegur maður, glaðsinna, útvegsbóndi eins og þeir voru allir. Hann auðgaðist, ekki síst eftir að hann giftist Önnu. Þá fóru þeir að vinna fyrir hann bæði Vilhjálmur Hákonarson, sem þá var stjúpsonur hans, og Ketill sem hann átti með fyrri konu sinni.

Hvalsneskirkja

Þetta voru báðir miklir menn og ágætir formenn. Hann dó 1869. Sonur, elsti Ketill, hét Ketill Ketilsson. Hann var fæddur 1823. Hann dó 1902. Þessi miðketill var ágætur formaður, mikill söngmaður og t.d. Finnur á Kjörseyri og fleiri nafnkunnir menn sögðu hann hefi haft fallegustu karlmannsrödd sem hann hafði heyrt. Þessi Ketill bjó fyrst á Hvalsnesi og byggði þar timburkirkju. Honum líkaði hún ekki og lét rífa hana. Þá byggði hann steinkirkju þá sem stendur þar enn og mun lengi standa. Hún er tákn um höfðingsskap hans og stórhug. Mér er sagt, ég veit það ekki, að hún hafi kosta 3000 ríksidali. Hann byggði hana að mestu leyti sjálfur. Reikninga hef ég hvergi séð um þessa kirkju.
JamestownÞað er sagt eftir Katli Ketilssyni, eftir að hann hafði byggt Hvalsneskirkju, hefði honum orðið allt til fjár. Hann var nær orðinn öreigi við byggingu kirkjunnar, en eftir það hafi honum orð allt til láns og allt til peninga sem hann snerti. Hann varð ákaflega ríkur maður. Kona hans hét Vilborg Eiríksdóttir frá Litlalandi í Ölfusi. Það er til rómatísk saga er hann fór austur til að ná í hana og biðja hennar. Hann kom að Litlalandi í útsinnings rudda og krapahryðjum og það var stúlka úti á engjum sem var að raka ljá. Hún var í skinnstakk. Það var köld tíð. Hann fór til hennar, heilsaði henni og spurði hvað hún héti. Hún sagðist heita Vilborg. Hann spurði hvort faðir hennar væri heima. Hann fór síðan heim á bæinn. Þar tók Eiríkur á Litlalandi á móti honum vel, bauð honum til stofu og veittar velgjörðir. Þar gengu um beina tvær dætur Eiríks, voru þá búnar að búa sig upp á.

Skinnstakkur

Sagan segir að Ketill hafi spurt Eirík hvort hann ætti ekki fleiri dætur. Þá eyddi Eiríkur því. Ketill bar upp bónorð sitt. Þá vildi gamli maðurinn halda eldri dætur sína fram, en Ketill vildi biðja sér Vilborgu. Hann fékk hennar. Vilborg þessi var lítil kona, fíngerð með hvítt hár, elskuleg. Bestu kökupartar sem ég fékk á æfinni fékk ég frá henni. Ketill gaf henni 200 ríksidali í morgungjöf. Það þótti nú dálaglegur skildingur á þeim tíma. Þá fluttist hann að Kotvogi og byggði upp þennan mikla bæ. Þá rak hér skip. Jamestown, hlaðið úrvalstimbri. Það fór frá Bostin og átti að fara til Liverpool, átti að byggja þar járnbræðslu. en það lenti nú hér í Ósunum í stað þess að fara til Liverpool. Úr því byggði Ketill m.a. bæ sinn hér í Kotvogi, úr úrvals rauðavið, kvistalausum.
Þá voru hér 16 hús, allt í allt. Hér var geysilegur fjöldi af vermönnum. Ketill gerði út á árunum 1870-1880 tvo teinæringa og Þangeinn áttærin. Það voru 19 manns á einum teinræðing og 14 manns á áttæringi. Þetta voru 50 sjómenn alls, fyrir utan heimilsfólk. Þau hjónin eignuðust 6 börn, Ketil, sem var elsti sonur þeirra, fæddur 1860. Hann var bóndi hér í Kotvogi. Hann tók við af föður sínum. Hann giftist föðursystir minni, Hildi Jónsdóttir prests í Stórholti Dalasýslu. Þau ólu mig upp. Ég er fóstursonur þeirra.
Hér var róið á vertíð. heyskapur var aldrei mikill, tvær kýr og á annað hundrað fjár – allt byggðist á sjósókn. Róið var allan ársins hring nema kannski á sumrin. Á haustin var skorið þang, áll og blaðka borið upp á tún og látið rigna og rifjað eins og hey og flutt heim. Skornir voru svona 300 hestar á hverju hausti.
Það var náttúrulega á haustin, þegar ekki var róið, allskonar veiðarfæri gerð; línur og svo netin bætt og lóðarásar og netaásar og steinaásar lagaðir.
HallgrímurSvo var lesið, aðallega Vídalínspostula. Svo var Hallgrímur, Passíusálmar, lesnir á föstunni og á kvöldvökum á vetur þegar ekki var róið var alltaf vanur maður látinn lesa Þjóðsögur Jóns Árnasonar, Njálu, Grettissögu og Eyrbyggju. Kristín Gísladóttir hét kona sem las Guðsorð og gerði það snilldarlega, en það voru alltaf karlmenn sem lásu sögur..
Þegar Ketill, fósturfaðir minn, tók við var þetta ósköp líkt.“
„Þetta virðist hafa verið fremur fast skorðað samfélag hér á tiltölulega þröngum bletti. Var engin stéttarmunur hér áberandi…?“
„Hér voru ríkismenn og hér var fátækt fólk, en það var svo einkennilegt að á þessum árum fór þetta ákaflega saman. Þetta var allt rólegt og gott og ég held að bæði fóstri menn og aðrir menn hafi hjálpað oft. Ef einhver gat leyst úr vandkvæðum þá var það gert. Mér fannst fólkið hér í Höfnum ákaflega gott fólk og friðsælt. Ef eitthvað kom upp þá hjaðnaði það yfirleitt niður fljótt.
Hérna kom Símon Dalaskáld. Það rann upp úr honum kveðskapurinn. Hann sagði t.d. við eina vinnukonuna: „Helst vildi ég nú lúra hjá þér í nótt og fá hlýju frá þér. Ég held að ég yrði miklu betra skáld á eftir.“ Það var ekki látið eftir honum. Vinnukonan varð ókvæða við og vildi ekkert með hann hafa.
HvalsnesSvo var Guðmundur [Gvendur] dúllari. Hann kom og dúllaði. Það var ákaflega einkennlega persóna. Hann kvað m.a. dúllaði þetta lag m.a.: „Margt er skrýtið í náttúrunnar ríki, eins og t.d. með spóann – að hann skuli geta lifað eins og manni sýnist hann nú hafa mjóar fætur“.
„Hvað er þetta dúll? Hvað var að dúlla?“.
Minnsmerki um Stjána bláa„Hann stakk fingrinum upp í vinstri hlustina og hristi hann svo, hristi hendina svona: „dú, dú, dú, dúddúddúúú.“ Hann dúllaði og seldi þetta, ég held að það hafi verið fyrir 5 aura fyrir lagið. Hann ferðaðist og hafði mikla ánægju af þessu.
Og svo var það versti förumaðurinn. Það var Guðmundur kíkir. Það var ekki gott með blessaðan karlinn því það fylgdi fötunum hans svo illur yndi. Hann kom hingað oft, sagði að tekið væri svo vel á móti sér, aumingja karlinn.
Ég man eftir að Stjáni blái kom hingað oft, settist hér í baðstofuna og fór að leika við okkur krakkana. Hann tók með tveimur fingrum annað hvort í kinnina eða hnén og þá æpti ég. „Það er ekki gott með meyjarholdin þegar þau eru svona mjúk“, sagði hann þá. Hann var grínisti og barngóður, en ef hann fékk sér í staupinu þá náttúrulega gat hann verið mjög harðskeyttur. Þá hljóp í hann svokallaður grunnstingull og hann var ekki við alþýðuskap. Ef hann þurfti að slást var hann bæði snarhendur, handviss, fljótur, bæði að gefa högg og tögl. Það var ekki fyrir neinn að eiga við hann því hann var bæði karlmannlega liðugur og handviss.“
Hafnir„Við göngum stéttina hér í Kotvogi og yfirgefum rústirnar, göngum hér yfir vel sprottið túnið. Hér erum við komnir upp á aðalgötun aftur, að litlu húsi. Þú kannt nú skil á þessu, séra Jón?“.
„Þetta eru Hólshús. Hér var einn grásbýlisbóndinn áður. Hann hét Gunnlaugur og konan hans hét Fríður.“
„Við höldum áfram spölkorn til suðurs eftir mjóum stígnum hér á grasi grónu túninu og komum að…“
„…Garðhúsum. Þegar ég var að alast upp hér var bóndi hér Magnús Gunnlaugsson og konan hét Guðný Þórðardóttir. Magnús þessi var lítil maður en þrekinn. Hann var ágætur sjómaður og formaður um langa tíð. Merkilegast fannst mér hvað hann var mikill listamaður við sláttinn. Það var hreinasta listaverk að sjá hann slá. Hann sagði að það væri einkamál og tilfinningamál að brýna ljáinn, fara þyrfti að fara með ljáinn eins og lifandi skepnu. Hann gat dansað ágætlega, en hann var eins og flestir menn hér, sívinnandi.“
Kotvogur„Þá erum við komnir á leiðarenda, við enda byggðarinnar. Hér eru fáeinar rústir og hús í kringum okkur og skulum við biðja Jón að segja okkur deili á þeim.“
„Hér rétt fyrir aftan okkur voru Ragnheiðarstaðir. Þar bjó Guðmundur Salómonsson og kona hans Sigurlaug Þórðardóttir. Hann var ákafalega mikið karlmenni og besti maður sem hægt var að fá í skipsrúm, hafði ákaflega mikla krafta, skyldi alla sjávarhætti. Hann var auk þess merkur maður af öðru, hann vart.d. einn besti skinnklæðasaumari í þátíð, þekkti þetta eins og fingurnar á sér. Hann var meðhjálpari í Kirkjuvogskirkju alla tíð meðan hans naut við. Mér er minnistætt hversu vel hann gat lesið bænina, bæði á undan og eftir messu. Stundum var það eftir jól að krakkar komu til hans í kirkjuna þegar hann var að taka til að hann gaf þeim kertastubbana.“
„Þá höfum við lokið göngunni um Hafnir og ekki annað eftir en að þakka fyrir sig og kveðja séra Jón Thorarensen, sem gengið hefur hér með okkur um götu bernsku sinnar.“
Sjá einnig fyrri hlutann.

Heimild:
-ruv.is – Jökull Jakobsson gengur með Sr. Jóni Thorarensen um Hafnir á Suðurnesjum. Seinni hluti frá 28. apríl 1973.

Jón Thorarnesen

Jón Thorarensen.

Hafnir

Jökull Jakobsson gengur með sr. Jóni Thorarensen um „Hafnir á Suðurnesjum„. Fyrri hluti – útvarpaður 28. apríl 1973. Hér að neðan er viðtalið endurritað að hluta.
Sr. Jón Thorarensen var alinn upp í Höfnum hjá frænku sinni Hildi Thorarensen og Katli Ketilssyni, kallaður mið-Ketillinn. Margar sögur skrifaði Jón um lífið í Höfnum. Má þar nefna bækurnar Útnesjamenn og Litla skinnið. Einnig tók Jón saman þjóðsögur bæði af Suðurnesjunum og af landinu öllu í hefti sem kallað hefur verið Rauðskinna, mörg bindi.

Kotvogur„Við erum komnir suður í Hafnir og ætlum okkur að ganga hér götur með séra Jóni Thorarensen. Séra Jón er ekki fæddur hér. Þú sagðir mér aðþú hefði komið hér fimm ára gamall, séra Jón, og það lætur því nærri að liðin eru 65 ár síðan þú komst hingað fyrst, í Hafnir. Mig langar til að spyrja þig áður en við göngum hér götur í Höfnum; hvernig var fyrsti dagurinn þinn hér?“
„Ég kom hér um sumar með föður mínum og ég man það er ég kom að Kotvogi, sem varð æskuheimili mitt,  að puntstráin náðu mér í mitti. Annað man ég óglöggt.“
Hafnirnar hafa mikið breyst þótt puntstráin séu þau sömu. Hafnir voru mikið sjósóknarpláss. Getur þú lýst fyrir okkur þorpsbragnum eins og hann var á þínum uppvaxtarárum.“
Árabátur„Það var mikil útgerð þá, hér, í þessu plássi og feikilegur fjöldi vermanna kom hingað í vertíðarbyrjun. Sjómennrinir voru úr Dalasýslu, Húnavatnssýslu og Skagafirði, auk þess að sunnan; Rangáringar, Árnesingar og jafnvel austan úr Skaftafellssýslu. Sjósóknin var mikil, mörg stórskip gengu, þau voru nú yfirleitt áttæringar á meðan ég man eftir, en áður voru það teinræingar sem höfðu 19 manna skipshöfn og skipt í 22 staði, en eftir að ég man voru það áttæringar. Þeir voru mjög margir. Sjósóknin var árið um kring, sérstaklega frá 2. febrúar (kyndilmessu) til 11. maí. Nú þá fóru sjómennirnir heim og þá byrjuðu sumarróðarnir frá 11. maí til jónsmessu. Það var kallað vorvertíð. Svo var nú sjálft sumarið. Þá var nú róið dálítið, en ekki mikið, alltaf eitthvað.

Hafnir

En aftur um haustið, á Mikjálsmessu. Þann 29. september þá byrjaði haustvertíðin, sem stóð til Þorláksmessu, 23. desember. Þá var yfirleitt róið á fjögurramanna og aðallega sexmannaförum. Þetta var svona yfirleitt árið um kring. Þegar fiskur gekk inn á grunnið var róið meira en venjulega.
Ég var 9 ára þegar ég fór fyrst á sjó svona fyrir alvöru. Það var 18. maí, bjartur vormorgun. Þá fór ég með formanninum í Kotvogi sem var Bjarni Guðnason. Ég dró 17 ýsur. Fyrsti ýsan sem ég dró var Maríufiskurinn minn, sem ég skar í báðar kinnar krossmark og setti á sérstakan stað því þetta var heilagur fiskur. Þegar ég kom í land sagði formaðurinn mér að fara með fiskinn heim í ýsaVesturbæ. Þar var gömul kona í kör sem hét Ingigerður Ketilsdóttir. Ég labbaði með ýsuna formálalaust inn til hennar, alveg inn að rúmi, og sagði henni að ég væri að koma með Maríufiskinn minn. Hún reis upp í rúminu og lagði hendurnar báðar yfir höfuð mér og bað Guð fyrir mér að ég yrði fengsæll og lánsamur sjómaður og yfirleitt á öllum lífsleiðum mínum. Mér þótti þetta mjög hátíðleg stund.“
„Var þetta gamall siður?“
„Siðurinn var sá fyrrum að gefa alltaf kirkjunni fyrsta fiskinn, sem var Maríufiskur. Þegar var komið að því að ég man eftir var alltaf sú regla höfð að gefa fiskinn elstu konunni í sveitinni.“
Vermenn„Ef við kannski byrjum hér á fyrsta húsinu. Það stendur að vísu ekki lengur, sést einungis móta fyrir rústum þess…“.
„Hér bjó, hér austast í þorpinu, Ólafur Ormsson og kona hans hét Guðrún Ólafsdóttir. Bærinn eða parturinn þeirra var kallaður Hjalli. Þetta var hluti úr kirkjujörðinni. Ólafur þessi fluttist austan úr Skaftafells´sylum að mig minnir og hann var hér um nokkurt skeið í Höfnum. Hann var fyrir þeirri miklu reynslu að hann missti konuna s´na snemma þegar inflúensa gekk hér í Höfnunum. Hann fluttist síðan til Keflavíkur. Hann er forfaðir hinna frægu Ormsbræðra í Reykjavík. Ólafur hafði mikið yndi af bókum og bókmenntum og fylgdist vel með öllu. Hann hafði mikla tilfinningu fyrir góðu og hreinu íslensku máli.
Kotvogur 2Skammt frá Ólafi Ormssyni, á býli hér fram á bakkanum, sjávarbakkanum, bjó Magnús Ketilsson, útvegsbóndi. Hann var frá Vesturbæ hér í hverfinu. Faðir hans var Ketill Magnússon og móðir hans var Sigríður Björnsdóttir. Magnús þessi var kvæntur Guðbjörgu Friðriksdóttur frá Reykjavík, sem lifir enn og er búsett í Keflavík. Magnús þessi var snemma mjög duglegur og kappsamur og hann fór snemmma að stnda sjó og var formaður og formennskan fórst honum mjög vel úr hendi. Hann var fyrsti maður hér í hreppi sem fór að nota vélar í bátana, trillubátana. Hann sótti sjóinn mjög vel og var ákaflega heppinn og fylginn sér við allt sem hann gerði. Hann var glöggur maður og skynsamur. Hann var eiginlega af gömlum höfðingjaættum hér í sveitinni. Ingigerður, amma hans, var sú kona sem hann vék að Maríufiskinn, var dóttir Jóns Ketilssonar og faðir hans var elsti Ketillinn í Kotvogi. Magnús Ketilsson bjó síðast í Keflavík.
Þá kemur næsta býli, sem var nálægt Magnúsi Ketilssyni…“
„Það sést nú ekkert af þessum býlum lengur, þau eru öll horfin…“
„Nei, það var Búðarbakki. Það var sömuleiðis þurrabúð. Þetta voru þurrabúðir, nema Ólafur Ormsson var grasbýlisbóndi. Í Búðarbakka bjó Þorsteinn Árnson. Kona hans hét Gíslína Gísladóttir. Þorsteinn Árnason var gríðarstór maður og mikið karlmenni. Kona hans var í meðallagi Kotvogurhá og lagleg kona. Þau áttu mörg börn og ég kom oft að Búðarbakka. Ég var eiginlega alveg hissa hvað þau umbáru okkur þegar við komum með ærslum og látum. Þorsteinn þessi var formaður og ágætur sjómaður. Hann var hagur á tré og járn og mjög laginn við allt sem hann gerði. Hann var mikið karlmenni og sterkur maður. Ég man eftir því einu sinni að hann átti þurrkaðan labra niður á sjávarbakka. Hann hélt að sjórinn myndi fara yfir fiskstakkinn sinn svo hann stökk til og tók hann í fangið í tveimur ferðum og kom honum öllum á land. Hann gerði þetta allt svo léttilega.
Næst fyrir sunnan Búðarbakka, sem stóð í laut hér í inntúninu, var svo hóll fyrir framan eða sunnan. Þar var Staðarhóll. Þar bjó Magnús Pálsson, Kotvogurhreppsstjóri sveitarinnar.
Kona hans hét Kristín Jópsepsdóttir og var ljósmóðir sveitarinnar. Magnús þessi var mikill merkismaður, dugnaðargarpur og ágætur sjósóknari, snilldarlegur sláttumaður með vinnulagni og þrek. Kristín var hin prúðasta og elskulegasta kona. Þau bjuggu þarna lengi. Magnús ver gefinn fyrir söng. Þau hjónin áttu tvær dætur, önnur búsett í Reykjavík og hin í Keflavík. Ég reri hjá Magnúsi eina haustvertíð. Eitt reri há honum sá frægi maður, Stjáni blái.“
„Mannst þú eftir Stána bláa?“

Minnsmerki um Stjána bláa

„Ég man vel eftir honum. Hann var hár og grannur, klæddur í blá nankinsföt. Mér fannst honum alltaf vera hálfkalt því það var sultardropi í nefi hans. Eitt sinn voru þeir félagar að skemmta sér, höfðu náð í víntár í Keflavík og það var einhver maður með smáskeyting við Stjána. Hann hafði engin orð við það heldur tók manninn og stakk þumalfingur í vinstra munnvikið á honum og tók með puttunum fyrir kjálkabarðið og sneri hann niður…“
„Við höldum áfram röltinu um götuna í Höfnum. Nú eru við á móts við kirkjugarðinn (norðan ef ég þekki áttir rétt). Hér sést aðeins móta fyrir dálitum rústum.“
„Hér stóð stórt stórt timburhús sem hét Norðurhús. Hér bjó Friðrik Gunnlaugsson, útvegsbóndi. Foreldrar hans voru hér í Hólshúsum nokkru sunnar hér í sveitinni. Þeir hétu Gunnlaugur og Fríður. Friðrik var stór maður, hár og grannur, mjög myndarlegur maður. Kona hans hét Sigurveig Ketilsdóttir, myndarkona og ágæt í öllum húsfreyjustörfum. Friðrik gerði út áttæring og var mjög lánsamur og fiskisæll.“
Sexæringur„Við röltum í landsuður, segir séra Jón mér, frá kirkjugarðinum. Við komum að litlu og lágreistu býli, grænmáluðu og stendur stutt frá veginum. Það heitir Garðbær. Hér eru hjólbörur á hvolfi og tvær pútur að kroppa hér.“
„Hér bjó á sínum tíma Ólafur Einarsson, útvegsbóndi, og kona hans Gróa. Mér er það minnistætt að það var alltaf vaninn hjá Gróu að hún gaf mér alltaf rauðan kandísmola. Ólafur Einarsson var ágætur formaður. Hann stundaði sjóinn árið um kring og reri venjulega á sexmannafari. Þessi hjón voru ákaflega samtaka í allri lífsbaráttu. Ólafur var fámáll og fáskiptin, en honum féll aldrei verk úr hendi.“
„Við röltum aftur til baka, áleiðis að kirkjunni. Hér staðnæmust við andspænis kirkjudyrunum. Hér sést móta fyrir grasi grónum rústum.“
Kirkjuvogskirkja„Nú erum við komin að Kirkjuvogi, sem er höfuðbólið og aðaljörð sveitarinnar. Hann skiptist í Austurbæ, Miðbæ, vesturbæ og Kotvog. Hann fóðraði, torfan, 20 kýr þegar mest var. Hér hafa verið höfðingar á fyrri tíð og hér er margs að minnast. Nú eru hér grasi grónar rústir og byggingar horfnar. Hér var frægur maður, Hákon Vilhjálmsson, Hann var fæddur 1751, lögréttumaður og lögsagnari sýslumanna. Hann var hér útvegsbóndi, mikilsháttar maður. Hann giftist 1784 Ingveldi Guðnadóttur, sem var sýslumannsdóttir frá Stafnesi. Hákon komst í sögurnar árið 1809. Jörundur hundadagakonungur tók völdin og gerðist hæstráðandi til sjós og lands. Sumarið 1809 fór Jörundur með lífverði sínum suður til Keflavík að gera upptækar eignir danskra kaupmanna. Hákon frétti af þessu og reið til móts við hátignina.
Erindið var að biðja Jörund um Jörundurleyfi að mega eiga Önnu dóttir Jóns Sighvatssonar hins ríka, dannebrogsmanns, í Njarðvík án þess að skilja við eiginkonu sína. Hann veitti honum leyfið en gaf svo stuttu seinna út leyfsibréf til almúgans á Íslandi sem sagði að þótt hann hafi veitt þessum heiðursmanni þetta leyfi myndi hann ekki veita slíkt leyfi aftur því vafamál væri að breyta þeim hjúskaparböndum sem einu sinni væru vígð fyrir ásýnd Guðs. Hákon flutti Önnu sína heim að Kirkjuvogi. Hér var haldin veisla og sögusagnir segja nú að Ingveldur hafi stjórnað veislunni, kona nr. eitt. Þegar þau giftust var Anna 18 ára en Hákon 58 ára. Með Önnu eignaðist Hákon son sem hét Vilhjálmur Christian Hákonarson. Hann tók hér við búi eftir föður sinn, uppgangsmaður. Hann var ákaflega góður formaður. Hákon dío 1821. Anna lifði hann. Hún giftist síðan 1822 Halldóri Gunnarssyni, grepsstjóra í Höfnum. Loks giftist hún í þriðja skiptið Katli Jónssyni í Kotvogi, 1831. Þá var hún orðin eldri en brúðguminn. Allt bendir til þess að hún hafi bæði verið falleg og mikilfengleg kona.
Vilhjálmur var myndarlegur maður í sjón og að sama skapi ákaflega virtu maður. Hann var góður formaður og sjósóknari. Hann reri á stórskipum, teinæringum, á vetrarvertíð. Það þótti fínt hjá merkismönnum að koma ekki nálægt sjó nema á vetrarvertíðum. Hann komst snemma í góðar álnir, erfði m.a. föður sinn.

Kirkjuvogskirkja

Hann fékk orðu frá Danakonungi fyrir að bjarga sjómönnum og aðra frá Napóleoni Frakkakóngi. Með konu sinni eignaðist hann tvær dætur, Steinunni og Önnu. Hann byggði kirkjuna hér í Kirkjuvogi. Hann lagði til hennar sem svaraði 300 kýrverð.
Þegar ég var að alast hér upp bjó hér bróðir fóstra míns í Kotvogi, Vilhjálmur Christen Ketilsson. Hann skipti jörðinni og þá kom hingað maður, Ingibergur Þorkelson, trésmíðameistari úr Reykjavík. Kona hans hét Sigurdís, indælishjón.
Vilhjálmur Christen Ketilsson var idealisti frekar en búmaður. Hann var ljóðelskur og hafði gaman af söng. Hann var mikill húmanisti og mikill skepnuvinur. Seinasta árið sem ég var í barnaskóla kenndi Vilhjálmur mér. Það var í fyrsta skipið sem ég fékk nasasjón af bókmenntum. Hann var ágætur kennari, hann var stærðfræðingur og kenndi bæði dönsku og ensku….“
Sjá einnig seinni hlutann.
(Áhugavert væri að merkja öll gömlu bæjarstæðin í Höfnum og opinbera þannig sögu byggðalagsins öllu áhugasömu fólki.)

Heimild:
-ruv.is 2. jan. 2010 – Jökull Jakobsson gengur með sr. Jóni Thorarensen um Hafnir á Suðurnesjum. Fyrri hluti. Frá 28. apríl 1973.
Hafnir

Hafnir

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði örnefnalýsingu fyrir Hafnahrepp. Hann var fæddur 12/8 1899 í Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu, og flytur að Merkinesi í Höfnum 1934. Heimildarmenn Vilhjálms Hinriks voru Guðmundur sál. Jósefsson, Staðarhóli, hreppstjóri og manna kunnugastur meðfram Ósum; Magnús Gunnlaugsson, Garðhúsum; Þorsteinn Árnason, Kirkjuvogi; allir látnir; og Ólafur Ketilsson, Kalmanstjörn, einnig látinn.

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi.

Hér verður fjallað um ströndina utan við Hafnir frá Eyjatanga að mörkum Merkiness. Auk þess verður fjallað um húsin í höfnum skv. örnefnalýsingu Hinriks Ívarssonar frá árinu 1978.

„Glöggt má sjá elju manna og tilraunir að hefta landbrot sjávarins, því víða má sjá grjóthleðslur fyrir vikum, en en allt hefur komið fyrir ekki.
Þá kemur breið vík, sem takmarkast af löngum sand- og malartanga og heitir hann Eyjartangi. Svo sem 150 metra frá landi liggur eyja frá austri til vesturs með gróðri. Eyju þessa áttu allir grasbýlismenn í Kirkjuvogshverfi. Þar var talsvert æðarvarp, sem var nytjað. (Eftir að minkurinn flæddi yfir, hefur þetta horfið að mestu.) Milli lands og eyjar þessarar liggur áll, sem fær er smærri skipum inn á Ósana um flóð, en sæta verður föllum, því strangur straumur verður þarna með fullu út- eða innfalli. Eyjan ber ekkert sérheiti – nema ef vera kynni Varpey. (Þannig nefnir Jón Víðis hana á mælingakorti af Ósum 1918.) Yzt á Eyjartanga er sundmerki Kirkjuvogssunds, hátt tré með rauðum þríhyrning. Vestan Eyjartanga er nokkuð breitt bogadregið vik, Stóra-Bót. Vestan hennar gengur löng klöpp þvert út í ósinn. Hún heitir Innri-Langaklöpp. Gegnt henni norðan við ósinn er skerjaklasi, sem fer í kaf um flóð. Er það kallað einu nafni Veggir, (líka Eggjar).

Hafnir

Á Hafnavegi 1952.

Þá tekur við mjótt vik, Svartaklettsbót, en vestan hennar er stór, nokkuð há sprungin klöpp, sem er umflotin um flóð. Hún heitir Svartaklöpp sumir Svartiklettur. Lítið vestar gengur löng, lág klöpp til norðvesturs. Hún heitir Ytri-Langaklöpp. Eftir þessari klöpp liggur hafnargarður öflugur með skjólvegg á vestari brún (allt sleipt), en beygir svo í horn til norðausturs. Móti enda þeirrar álmu garðsins er einstakt, kúpulagað sker, sem fer í kaf með hálfföllnu að. Á skeri þessu er stöng með rauðu varúðarmerki. Frá garðinum að skeri þessu munu vera um 100 metrar (nánar síðar). Vestan hafnargarðsins er talsvert sandvik nafnlaust, en afmarkast af löngum klapparana að vestan, sem heitir Þvottaklettar, og er þá komið að Kirkjuvogsvör. Þaðan hafa gengið opin skip til fiskveiða frá aldaöðli, en er nú með öllu lögð niður, eftir að aðstaða batnaði við hafnargerðina.

Örnefni með ströndinni frá Kirkjuvogsvör að hreppsmarki í Valahnjúksmöl á Reykjanesi

Hafnir

Hafnir – loftmynd 1954.

Þvert fyrir Kirkjuvogsvör liggur hátt sker, umflotið í stórstraumsflóði og fer þá í kaf. Það liggur frá norðaustri til suðvesturs og heitir Kirkjusker. Norður úr því gengur annað sker miklu lægra og heitir Flatasker. Suðvestan við Kotvog skagar stór, nokkuð há klöpp, Háaklöpp, og þar norður af Kotvogsklettar. Þá tekur við sjávarkambur, kallaður Garðhúsmöl. Þar, skammt sunnar, skagar rani fram í sjóinn, sem heitir Snoppa, og dálítið sunnar önnur klöpp, heitir hún Trollaraklöpp. Nafngift þessi gerist eftir síðustu aldamót (líklega 1912-14; vantar nákvæma heimild). Einn morgun, er fólk kom á fætur, sá það ljós fyrir neðan túnið í Réttarhúsum, og er að var gáð, stóð þar togari með öllum ljósum, stóð þar á réttum kili um háflóð. Sjór var frekar kyrr, en dimmviðri. Með útfallinu gengu skipsmenn þurrum fótum í land.
Skömmu síðar gerði mikið hafrót, og brotnaði skipið niður, en sumt var rifið. Skip þetta hét Grænland og var þýzkt – fyrsta ferð þess til veiða.

Hafnir

Frá Höfnum – Kotvogur t.v. og Kirkjuvogur t.h.

Þá tekur við lítið malarvik, sem heitir Bás. Næsta örnefni er Haugsendamöl, dálítið breitt malarvik niður undan Haugsendakampi. Svo sem 200 metrum frá ströndinni til suðvesturs er aflangt, nokkuð hátt sker frá austri til vesturs. Það heitir Markasker. Það er landamerki milli Kirkjuvogsjarða og Merkiness.

Merkines

Merkines (Steinunn Marteinsdóttir).

Aðeins suðvestar skagar langur, mjór klapparani til vesturs, ca. 600 m langur, með smáskorum yfir þvert og fer lækkandi allt í sjó fram. Þessi tangi heitir Hlein.
Skömmu eftir síðustu aldamót, 1908, vildi til það hörmulega slys, að togari strandaði í svartabyl að kvöldlagi rétt norðan nefndrar hleinar, en veður var í uppgangi á suðvestan. Um björgun var ekki að ræða, hvorki frá sjó né landi, og fórust þar allir menn. Þegar sá, er þetta ritar, kom fyrst í Hafnir, 1924, sást enn ofan á ketil skipsins um stórstraumsfjöru, og fram á þennan dag ber við, að kolamolar finnast í fjörunni. Sunnan við Hlein er lítið sandvik, Hleinarvik. Dálítið sunnar er vik inn í klappirnar. Það heitir Mönguhola. Munnmæli segja, að einsetukona hafi verið í Merkinesi (samanber síðar Möngusel), sem hélt kindum sínum þar til fjörubeitar.

Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi

Hafnir

Frá Höfnum.

Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri. Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri. Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.

KalmannstjörnFrá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar. Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.
Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á. Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).
Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu. Verður næsta hús Höfn, þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll).
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét Búðabakki. Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.

Hafnir

Kirkjuvogur og Kotvogur 1873.

Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.

Hafnarétt

Hafnarétt.

Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.
Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús. Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Nú eru þrjú hús ótalin á vinstri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð. Lítið eitt fjær veginum Nýlenda og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson. Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus. Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir jafnaðar út.
Þar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið. Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.“

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Hafnir – Merkinesi í Höfnum,17/4 1978, Vilhjálmur Hinrik Ívarsson.

Hafnir

Kirkjuvogskirkja 1970.

Junkaragerði

Gengið var um Junkaragerði í Höfnum sunnan Skiptivíkur, skoðaðar tóftir Sólheima og Traðarhúss, auk Kalmanstjarnar, sem brann ekki alls fyrir löngu. Annars eru Junkaragerðin tvö á Suðurnesjum; annars vegar þessi í Höfnum og hins vegar ofan og vestan við Stórubót í Grindavík. Hér verður á göngunnu m.a. rifjaðar upp sagnir og þjóðsögur úr Junkaragerðinu í Höfnum.

Junkaragerði

Gamla Junkeragerði.

Sagt er að bærinn heiti eftir 12-18 erlendum mönnum sem þar áttu að hafa búið og kallaðir voru junkarar. Voru þeir taldir ölkærir, karlmenni mikil en óeirðarmenn um kvennafar. Vildu landsmenn koma þeim af höndum sér og nótt eina söguðu þeir næstur sundur nefjur (ræðin) á hástokkum báts þeirra. Reru junkarar svo fyrir dag en er líða tók á morgun gerði hvassan vind og hrukku nefjurnar í sundur. En ekki náðist tilætlaður árangur því að junkarar reru við hné sér og björguðu sér þannig í land. Næst leystu menn skautana af árunum, söguðu þeir meir en til miðs og negldu skautana aftur svo að ekki sáust verksummerki. Nokkru síðar reru junkarar, gerði þá andvirði mikið og brotnuðu árarnar hver af annari. Spurðist ekki til þeirra síðan.

Kalmannstjörn

Kalmannstjörn – brunnur.

Sagnir af Galdra-Jóni eru tengdar Junkaragerði í Höfnum. Bærinn var var fyrrum hjáleiga frá Kalmanstjörn og hefur verið búið þar samfleytt í margar aldir. Var það eitt með elstu býlum í Höfnum. Jón Þórðarson í Junkaragerði varð fullra 70 ára, dó líklega 1819. Hann var gáfaður en dulur og harður í horn að taka. Sem unglingur flæktist hann með kaupfari til Noregs og komst alla leið norður til Finnmerkur og dvaldist þar eitt eða tvö ár og var það mál gamalla manna að Jón hefði numið fræði sín hjá Finnum.

Sögurnar af Jóni voru á hvers manns vörum í gamla daga. Með afbrigðum var Jón sagður mikill aflamaður til sjávarins og þótti það ekki einleikið hve drjúg var stundum kösin á skiptivellinum. Þá er hásetar Jóns fóru að gera að afla sínum, var það álit þeirra allra að fiskurinn væri stundum miklu meiri en þeim hafði virst hann vera í skipinu.

Kalmannstjörn

Kalmannstjörn.

Jón var hinn mesti hófsemdarmaður í hvívetna. Neytti hann aldrei víns nema á hátíðum, og aldrei gaf hann hásetum sínum í staupinu eða út í kaffið, sem kallað var; en það var þó algengur siður í Höfnum, að húsbændur gáfu hjúum og hásetum vel í kaffið, er vel fiskaðist eða mikið var að gera í landi, og var þá unnið með brennivínskrafti, sem kallað var.
Eitt sinn svaraði Jón gamli því til er hann var spurður hvaðan hann hafi fengið brennivín það er ölvaði hann. Jón gamli hló við og sagði:
Kalmannstjörn„Keflavíkurkaupmennirnir sjúga blóðið úr Suðurnesjabændunum, en ég sýg brennivínið úr beykikoppum þeirra í staðinn.“
Jón Þórðarson var smiður góður, en mest fékkst hann þó við járnsmíðar. En þó að hann væri alla daga í smiðjunni, þá þurfti hann aldrei að kaupa kol. Sótti hann þau árlega á hestum suður á Reykjanes, en hvernig sem reynt var að njósna um ferðir Jóns, er hann fór í þessar kolaferðir, þá tókst mönnum aldrei að rekja slóð hans þrátt fyrir það, þótt öll leiðin sé ægisandur einn.

Gömlu-Hafnir

Hafnarsandur – Herforingjaráðskort 1903.

Vissu menn aldrei um þessar ferðir Jóns, fyrr en hann var kominn aftur með kolin. Er það óyggjandi sannleikur, að karlinn sótti kolin á Reykjanes, og voru margir menn í Höfnum, er sáu kolin hjá Jóni.

Meðal þeirra var Brandur Guðmundsson í Kirkjuvogi, sem sagði að hann hefði oftar en einu sinni séð kolin hjá Jóni. Sagði Brandur, að þetta hefðu verið falleg steinkol, en aldrei gat hann fremur en aðrir fengið það upp úr Jóni, hvar á Reykjanesi kolin væru að finna. Þó var það eitt sinn, að bóndanum á Kalmanstjörn tóks að gjöra Jón gamla vínhreifan um jólin, og var þá ekki dregið úr hömlu að reyna að veiða karlinn, en þó að karl væri kenndur, varðist hann allra frétta, en sagði þó svo að lokum, að ekki þyrfti að leita langt frá Sýrfelli. Annað hafðist aldrei upp úr Jóni gamla um kolin á Reykjanesi.

Junkaragerði

Sólheimar, Junkaragerði, Traðarhús og Kalmannstjörn fyrir sunnan Hafnir. Séð til norðausturs.

Fyrir austan bæinn Junkaragerði er hæð sú, er nefnist Stóri-Dilkur. Hæð þessi er gróðurlaus á alla vegu, há og glögg frá umhverfinu af sjó að sjá.

Í gamla daga bjó einhverju sinni í Junkaragerði bóndi sá er Eyvindur hét. Hann var vænn yfirlitum, mikill að vexti og burðum og fáskiptinn um hag annarra. Hann var ókvæntur er saga þessi gerðist og stundaði sjó sumar og vetur og græddist fé. Hann var talinn hafa draumkonu, er varaði hann við veðrum og þóttust hjú hans hafa séð hana hverfa stundum frá svefnstofu hans á nóttum. Fór það þá stundum þannig að búsýsla hans og sjósókn varð mjög næturblendin.

Junkaragerði

Junkaragerði – uppdráttur ÓSÁ.

Eitt sinn er Eyvindur leitaði til Dilksins. Sá hann þá bygging er hann gat eigi lýst. Var það líkast mörgum húsum er stóðu í röðum hvert aftur af öðru, og æ hærra, er aftar dró. Það næsta og mesta var opið og bjart þar inni. Þar stóð bláklædd og fögur kona. Var hálsmál hennar, ermar og faldur bryddað rauðum borðum. Hún bauð Eyvind velkominn og leiddi hann inn í stóran sal. Þar voru rósofnir stólar með háum bökum og drekahöfðum til hliða en úr loftinu héngu skálar í löngum festum og loguðu ljós í hring á börmunum. Alls staðar bar skraut fyrir augað en umhverfis ríkti annarlegur blær sem eins og eyddi öllum hávaða.
Álfkona reyndi að freysta hans, en allt kom fyrir ekki. Eyvindur þóttist þá ætla að grípa til hennar, en við það sortnaði honum fyrir augum og áköf suða greip eyru hans en þegar það hvarf, stóð hann utan í Dilkinum og við það hraðaði hann sér sem mest hann mátti heim til bæjar.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða við gömlu þjóðleiðina. Junkaragerði framundan.

Eftir þessa nótt var Eyvindi brugðið. Hann festi eigi hugann við neitt og allt fór úrhendis í búskap hans. Oft lagði hann leiðir sínar til Dilksins, en allt kom það fyrir ekki. Þá var það vetrarkvöld eitt árið eftir að Eyvindur kom heim neðan frá naustum og lagði sig. Jafnskjótt og hann gleymdi sér, dreymdi hann að aldraður maður kæmi að rúmi hans og mælti:
„Illa ferst dóttur minni við þig er hún hefir gert þig afhuga öllu öðru en sér en læsir þó jafnframt fyrir þér bústað sínum. Skaltu nú minnast þess að sjáir þú eitthvað óvenjulegt á himninum í vetur, skalt þú þann sama dag, seint að kvöldi, ganga til Dilksins og mun ég þá greiða þar fyrir þér.“

Junkaragerði

Junkaragerði – Dilkurinn.

Leið svo tíminn fram yfir Kyndilmessu. Þetta kvöld á vökunni brá Eyvindur sér út en kom ekki aftur. Var hans leitað oft og lengi en aldrei fannst hann né kom fram eftir þetta og var það hald manna að hann hefði náð til álfkonunnar í Dilkinum og hún tekið hann í fulla sátt. Nokkrum vikum seinna bar svo við, er komið var út í skemmu Eyvindar að þar var veizlumatur mikill er enginn kannaðist við og var það álitin sending úr brúðkaupi hans til hjúa sinna. En lengi var það svo í Junkaragerði að rifjuð var upp sagan um Eyvind og hvarf hans í bústaði álfanna í Stóra-Dilkinum.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir/Junkaragerdi/
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=231
-http://www.leoemm.com/hafnahreppur.htm

Junkaragerði

Junkaragerði – loftmynd.

Merkines
Gengið var til suðurs upp á Hafnasand frá bátagörðunum austan við Merkines með það fyrir augum að reyna að finna þar gamlar hlaðnar refagildrur.
Merkines

Varða ofan Merkiness.

Eftir u.þ.b. fimm mínútna göngu var komið að hárri vörðu með klofi, líkt og „Stúlkur“ vestan gömlu Hafna. Hún var í línu í vörðu ofan við Merkinesvörina austari. Varðan var greinlega hlaðin upp úr annarri. Fótur hennar, mun stærri og hringlaga, sást enn. Austan hennar var hlaðið byrgi refaskyttu. Það var greinilega hlaðið úr eldra mannvirki, sporöskjulaga gerði. Norðan þess var gamalt gerði eða jafnvel stekkur með leiðigarði. Gæti einnig hafa verið rúningsrétt. Ekki var að sjá að mótaði fyrir öðrum mannvirkjum þarna. Ekki er minnst á þessar mannvistarleifar í örnefnalýsingum. Þær voru rissaðar upp og GPS-punktar teknir.

Merkines

Merkines – gerði.

Gengið var vestur yfir sandinn og kíkt á og utan í alla hóla á leiðinni. Oft sást móta fyrir gömlum föllnum hleðslum, sem bæði gátu hafa verið refagildrur eða vörður. Ljóst er að landið þarna hefur tekið miklum breytingum frá fyrri tíð. Vörðulína á hraunhólum sást liggja til suðurs uppi á sandinum, frá Höfnum áleiðis að Sandfellshæð.
Við landamerki Kalmanstjarnar sáust vörður í línu frá Prestastígnum í átt að Merkinesi. Einungis var um vörðubrot að ræða, sumstaðar veruleg, utan í hraunhólum. Vörðunum var fylgt áleiðis að Merkinesi. Önnur vörðuð leið lá norðan þjóðvegarins til vesturs. Mótaði fyrir henni milli varða og vörðubrota. Sennilega er þar um að ræða götu á milli bæjanna Kalmanstjarnar (Junkaragerðis) og Merkiness. Heil varða var við götuna ofan við gróinn hól á sjávarkambinum (kemur við sögu síðar).

Merkines

Merkines – tóft.

Neðan hans er Skiptivík, en inn í hana rak m.a. skipshöfn af árabát, sem lengi hafði verið í hafvillum á fyrri hluta 20. aldar. Segir af sjóferð þeirri í Rauðskinnu. Var áhöfnin talin af og m.a. verið haldin skyggnilýsingarfundur að Merkinesi sem og minningarathöfn um áhöfnina áður en hana bar þar að landi – sæmilega lifandi. Kokkurinn hafði verið kenndur við brugggerð, sem hafði komið sér að góðum notum í volkinu því hann kunni þess vegna að eima vatn úr sjó og gat þannig haldið lífi í bátsverjum.
Á hólnum ofan við Skiptivík er varða, sem fyrr er nefnd. Við hólinn er t.d. kennd ástarsaga vel metinnar bóndadóttur nokkurrrar og óbreytts vinnumanns, annars vegar í Höfnum og hins vegar að Kalmanstjörn, en þeim var meinað að eigast sökum stéttarmunar. Hittust þau þó jafnan við hólinn og áttu þar með sér góðar stundir.

Merkines

Merkines – varða á hól.

Götunni var fylgt að görðunum vestan við Merkines. Þar var fyrst fyrir gamall vörslugarður, sem grjót hafði verið hirt úr. Lá hann efst við bæjartúnin frá vestri til austurs. Þegar komið var inn á túnið sást brunnur þar undir hól. Þar mun Merkinesbrunnurinn vera. Hann er brotinn niður í klöppina. Gætir þar sjávarfalla líkt og í svo mörgum öðrum brunnum á Reykjanesi.
Tekið var hús á ábúandanum, Bjarna Marteinssyni, en hann ólst upp að Merkinesi ásamt Viljhálmi Vilhjálmssyni, þeim síðar ástsæla sögnvara. Afi Bjarna var Guðmundur Sigvaldason, bóndi á Merkisteini. Þá bjó Vilhjálmur Hinrik í Merkinesi. Bjarni brást vel við og leiðbeindi þátttakendum um heimasvæðið.

Bjarni sagði tvíbýlt hafa verið fyrrum á Merkinesi; annars vegar Merkines (Vesturbær) og hins vegar Merkisteinn (Austurbær). Kotbýlið Bjarg hafi verið ofar, en húsið (timburhús) hafi verið rifið að hluta og grindin ásamt öðru borin út í Hafnir og síðan áfram til Keflavíkur.

Merkines

Merkinesbrunnur.

Túnflötin austan Merkisteins var nefnd Sigla. Sérhver blettur, hóll og lægð hétu eitthvað í þá gömlu daga. Annars hefði landslag túnanna og umhverfisins mest mótast af sandinum, sem fauk ofan af Hafnasandi, en gréri síðan upp. Mikill munur væri á gróðri nú og þá var, á ekki lengri tíma. Til dæmis væri krækiberjalyng nú svo til við bæjardyrnar, en áður þurftu börnin að fara langan veg upp í heiði tl berja. Vel má sjá þess merki umbreytinganna við hina mörgu fallega hlöðnu garða, sem þarna eru. Þar hefur sandurinn fokið að görðunum innanverðum.
Gengið var að sjóbúð vestast í túninu. Bjarni sagði mannhæðaháa garða hafa verið þarna áður fyrr, en sjórinn hefði brotið þá niður að mestu. Þó má enn sjá móta fyrir hluta þeirra. Sjóbúðin stendur enn heilleg og er ágætt minnismerki hins liðna. Bjarni sagði ömmu hans hafa unnið við salfiskverkun í búðinni. Hún hafi látist við þá vinnu er hún var að bera fisk á þurrkvöllinn vestan búðarinnar.

Merkines

Möngutóft.

Þá var gengið að stórfallegum brunni, er getið er í örnefnalýsingum, ofar í túninu. Gengið er ofan í brunninn á þrepum. Hann er u.þ.b. tveggja mannhæða hár og fallega hlaðinn. Bjarni taldi brunninn ævagamlan og hans væri getið í gömlum heimildum. Mundi hann eftir því að byggt var þak yfir brunninn og á því voru á því dyr og skjár. Kristján Eldjárn hafi eitt sinn komið að Merkinesi, m.a. til að kíkja á brunninn. Er hann líkur Írskrabrunni á Snæfellsnesi.

Merkines

Verkunarhús.

Á hól vestan við brunninn er tóft útihúss. Skammt frá henni er álfhóll, sem aldrei mátti hrófla við. Bjarni sagði Hinrik eitt sinn hafa hringt í hann til Reykjavíkur og beðið hann um að koma í hvelli og fjarlægja herfi, sem hann hafði skilið eftir á hólnum, því annars kynni eitthvað slæmt henda. Skömmu síðar gerði mikið flóð svo flæddi í bæinn. Vildi fólk tengja það herfinu á hólnum.

Merkines

Vörin – Bjarni Marteinsson.

Austar er aðalvörin til seinni tíma. Ofan við hana er forn tóft og vestan hennar eru beitninga- og verkunarhúsin (steypt að hluta). Bjarni sagðist einungis muna eftir tóftinni óyfirbyggðri eins og hún er nú. Margar minningar væru hins vegar tengdar verkunarhúsunum. Hinrik hafi m.a. notað þau til bátasmíða og þangað hafi hauslaust lík, sem rak upp í vörina, verið borið eftir fundinn. Jafnan hafi húsin þótt draugaleg, a.m.k. í hugum barnanna á bæjunum. Tóku þau stundum á sig stóran krók eftir að dimma tók til að þurfa ekki að fara nálægt þeim. Bjarni rifjaði upp sögu af því að álagasteinn hafði verið fjarlægður af hól þeim, sem hlaðið byrgi stendur á norðvestan við bæjarhúsin. Fljótlega eftir það hafi orðið hvert mannslátið eftir annað í fjölskyldunni. Var það talið hafa tengst tilfærslu steinsins. Afi hans hafði sagt að mikilvægt væri að viðhalda byrginu, en það væri nú farið að láta verulega á sjá.

Merkines

Merkines.

Við vörina var steyptur varnargarður og hlaðin bryggja, en sjórinn er nú búinn að brjóta hvortveggja niður. Þó má sjá móta fyrir hvorutveggju ef vel er að gáð.
Við gamla garðinn var nýrekinn rekaviðardrumbur. Á honum héngu sérkennilega, en fallegar, skeljar. Bjarni sagðist telja að um svonefnt „helsingjanef“ væri að ræða, en það hafi verið trú manna að helsingjar, sem enginn vissu hvaðan kæmu, ættu þar uppruna sinn (gömul þjóðsaga).

Merkines

Merkines (Steinunn Marteinsdóttir).

Drumburinn væri nýrekinn. Víst er að skeljarnar voru fallegar á að líta – og virtust lifandi er þær voru ausnar sjó. Þær héngu á einhvers konar sogarmi, en út úr þeim komu einhvers konar klær – áhrifaríkt.

Bjarni sagði allar vörður á svæðinu hafa haft einhverja þýðingu, ýmist sem mið eða leiðarvörður. Gæti hann nefnt mörg dæmi þess efnis. M.a. væri sagt frá mörgum þeirra í Rauðskinnu. Austar með ströndinni er Hlein, skerjarani, á landamerkum Merkiness. Ofan við Hlein er Mönguhola, lægð í strandbrúnina (sjá aðra FERLIRslýsingu).

Merkines

Merkines – uppdráttur ÓSÁ.

Göngunni lauk við bátagarðinn. Bjarni sagði bátana hafa verið tekna upp úr vörinni og borna inn fyrir garðinn þar sem þeir voru jafnan hafðir í skjóli um veturinn.
Austar eru tóftir af fjárhúsi, sem enn stóð er Bjarni var að alast þarna upp, fyrrum verbúð, en norðan við garðinn eru matjurtargarðar.
Handan við heimtröðina að vestanverðu, utan í svonefndum Bratt, voru miklir rófugarðar á árum áður. Rófurnar hafi m.a. verið seldar beint til kaupenda í bænum.
Bjarna var þökkuð leiðsögnin. Ákveðið var að FERLIR kæmi fjótlega aftur að Merkinesi með það fyrir augum að rissa upp minjasvæðið, en það mun ekki hafa verið gert áður. Ljóst er að þarna eru margar merkilegar minjar, auk þess sem halda þarf örnefnunum til haga svo sem kostur er.
Frábært veður – stilla og hiti. Gangan tók 3 klst og 3 mín – í rólegheitum.

Merkines

Varða og byrgi refaskyttu ofan Merkiness.

Kotvogur

Gengið var um Ósa, Kirkjuvog og Kotvog, yfir að Merkinesi og Junkaragerði.

Hunangshella

Hunangshella.

Gangan byrjaði á Þrívörðuhæð ofan við Ósa, eða Kirkjuvog en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Gömlu leiðinni til Hafna var fylgt að þorpinu. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397. Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs. Næst veginum er vík sem nefnist Ósabotn. Hún liggur á milli Þjófhellistanga að vestanverðu og Steinboga sem er lítill klettatangi að austanverðu. Spölkorni lengra er Hunangshella, klöpp norðvestan vegarins. Á henni er vörðubrot.

Hafnarvegur

Hafnarvegur.

Gamall niðurgrafinn vegur í Hafnir lá í gegn um skarð sem er í klöppinni – nú grasi gróið. Sjálf Hunangshellan er stærri hluti klapparinnar sjávarmegin, nokkuð löng klöpp sem hallar móti norðvestri. Á háflóði eru 25-30 metrar á milli Hunangshellu og sjávarborðs. Þjóðsagan segir að á þessum stað hafi skrímsli legið fyrir ferðamönnum í myrku skammdeginu og gert þeim ýmsa skráveifu. En þessi meinvættur var svo vör um sig að engin leið reyndist að komast í færi til að vinna á henni – ekki fyrr en einhverjum hugkvæmdist að smyrja hunangi á klöppina. Á meðan dýrið sleikti hunangið skreið maður með byssu að því og komst í skotfæri. Sagt er að hann hafi til öryggis rennt þrísigndum silfurhnappi í hlaup framhlaðningsins en fyrir slíku skoti stenst ekkert, hvorki þessa heims né annars.

Hafnir

Teigur.

Komið var að gamalli heimreið. Á hægri hönd er eins konar steyptur strompur. Það mun vera það eina sem eftir er af mannvirkjum býlis sem hét Teigur og er reyndar ekki strompur heldur gömul undirstaða vindrafstöðvar sem framleiddi rafmagn fyrir loðdýra- og síðar svínabú sem þar var sett á stofn snemma á 6. áratug síðustu aldar. Það var rekið fram á síðari hluta 8. áratugarins og mun hafa verið eitt fyrsta stóra svínabú landsins og sem slíkt merkilegur áfangi í nútímaiðnvæðingu landsins en fóðrið var matarúrgangar frá mötuneytum í herstöðinni á Vellinum (en með honum streymdu hnífapör og annað dót í Hafnir). Bóndinn í Teigi hét Guðmundur Sveinbjörnsson, var frá Teigi í Fljótshlíð, lærður skósmiður og hafði rekið skósmíðastofu í Reykjavík þegar hann setti upp búið í Teigi.

Kotvogur

FERLIRsfélagar á ferð í Höfnum.

Komið var í Kirkjuvogshverfi, sem nú nefnast Hafnir í daglegu tali, en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.

Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír. Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar.

Hafnir

Í Kotvogi.

Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Hafnir

Við Kotvog.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við fyrrum Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Kirkjuvogur

Kirkjuvogshreppur – herforningaráðskort 1903.

Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.
Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.

Merkines

Gengið að Merkinesi.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey. Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri“ (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð.

Merkines

Merkinesburnnur.

Eftir nokkra göngu vestur með ströndinni var komið að Merkinesi. Í Merkinesi bjó síðast (Vilhjálmur) Hinrik Ívarsson ásamt eiginkonu sinni Hólmfríði Oddsdóttur. Hinrik í Merkinesi var fyrrverandi hreppstjóri Hafnahrepps, þekktur sjósóknari, refaskytta, báta- og húsasmiður og hagyrðingur (faðir m.a. Ellýar Vilhjálms söngkonu og Vilhjálms Vilhjálmssonar flugmanns og söngvara en þau eru öll látin). Hlaðinn hringlaga steingarður sem er hægra megin vegarins spölkorn norðan Merkiness nefnist Skipagarður. Þetta var kálgarður en hér áður fyrr voru vertíðarskipin dregin upp og höfð í skjóli við garðinn. Skammt sunnan Merkiness er grasi vaxinn hóll vinstra megin vegarins. Hóllinn nefnist Syðri Grænhóll. Sunnan hans mun ekki hafa fundist stingandi strá, sem heitið gat, fyrr en melgresi fór að taka við sér en því var fyrst sáð til að hefta sandfok utar á skaganum fyrir rúmum 60 árum. Í túninu suðaustan við Merkines er forn brunnur, sem gengið er niður í, líkt og Ískrabrunnur á Snæfellsnesi.

Junkaragerði

Sólheimar, Junkaragerði, Traðarhús og Kalmannstjörn fyrir sunnan Hafnir. Séð til norðausturs.

Spölkorn sunnan Grænhóls sér á þak Junkaragerðis en það er fornt býli og verstöð sem nú er notað sem íbúð. Upphlaðinn túngarður á hægri hönd eru einu minjarnar sem eftir eru af býlinu og verstöðinni Kalmanstjörn (þaðan var Oddur Ólafsson læknir á Reykjalundi og alþingismaður) en íbúðarhúsið var rifið 1990. Á Kalmanstjörn var búið fram á miðjan 8. áratug 20. aldar.
Gamli vegurinn út á Hafnaberg og áfram út á Reykjanes lá á milli Kalmanstjarnar og Junkaragerðis. Í lýsingu skráðri af Hinriki í Merkinesi fyrir Örnefnastofnun segir m.a: ,,Fyrr á öldum, er sagt, að ,,þýzkir“ hafi haft mikinn útveg á opnum skipum í Höfnum. Meðal annarra staða höfðu þeir búðir, þar sem nú heitir Junkaragerði, en svo voru þeir nefndir. Þessir menn voru ribbaldar miklir og ,,óeirðamenn um kvennafar“, þeir voru illa séðir af landsmönnum, sem vildu fyrir alla muni koma þeim af höndum sér.“ Til er þjóðsaga um hvernig Hafnamenn fóru að því að losa sig við Junkarana. Vestan vegarins, neðan við brekku, er Hundadalur. Þar er fiskeldisstöð.

Gömlu hafnir

Gömlu Hafnir.

Á vinstri hönd má sjá nokkrar vörður en við þær liggur Prestastígur – vel vörðuð forn gönguleið úr Höfnum yfir Hafnasand og Eldvörp yfir í Staðarhverfi í Grindavíkurhreppi, um 5-6 tíma gangur.
Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Hann liggur fjær sjó en sá gamli sem reyndar var ekkert annað en slóð og skurður á víxl. Eins og áður sagði tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar, Gömlu Hafnir. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-leoemm.com

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogskirkja.

Ósabotnar

Í Faxa 1984 fjallar Jón Thorarenssen um „Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi„.

„Árbók Ferðafélags Íslands 1984 er helguð Reykjanesskaganum vestan Selvogsgötu og mun þá átt við Selvogsgötu í Hafnarfirði.
ÓsabotnarÁður fyrr höfðu Selvogsbúar mikil verslunarviðskipti í Hafnarfirði og munu hafa komið af Selvogsheiði niður á þessa Hafnarfjarðargötu er þeir fóru í kaupstað og ber hún síðan nafn þeirra.
Öll er Árbók þessi hin vandaðasta að efni og útliti og hin forvitnilegasta fyrir okkur Suðurnesjamenn. Höfundar eru fjórir, þeir séra Gísli Brynjólfsson, vel þekktur hér á Suðurnesjum, hann skrifar um byggðir Suðurnesja. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifar kaflann „Um heiðar og hraun“. Hann er mjög kunnur jarðfræði Skagans hefur lengi stundað þar rannsóknir. Þá skrifa náttúrufræðingarnir Hörður Kristinsson og Arnþór Garðarsson í ritið. Hörður um gróðurskilyrði en Arnþór um björgin og fuglalíf, sem er fjölskrúðugra hér en víðast hvar annarsstaðar á landinu. Ég hvet Suðurnesjabúa til að eignast og lesa þessa ágætu Árbók.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Við sem búum norðanverðu á Skaganum erum flestir kunnugir þeim miklu athöfnum og jarðarbótum sem Hestamannafélagið Máni hefur unnið að. Iðgræn tún hylja nú stór landssvæði, sem áður voru fokmelar vegna hrjúfra handa er þar höfðu um gengið. Svipað má segja um Leiruna þar sem Golfklúbbur Suðurnesja hefur gert stórvirki í fegrun og ræktun lands sem bændur höfðu yfirgefið þar sem aðal afkomuleið Leirubúa, fiskveiðar, var brostin en landkostir rýrir.
Ég vona að séra Gísli Brynjólfsson bregðist ekki illa við þó að ég taki hér upp eftir honum þar sem frásögn hans um Leiru hefst.
Leiran„Miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála liggur við sjávarsíðuna Leiran, sem er eitthvert það besta fiskiver, með því að þar má sækja sjó á báðar hendur“ segir í sóknarlýsingu 1839. En nú mun langt síðan nokkurri fleytu hefur verið róið til fiskjar úr Leirunni enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn nú hina síðari áratugi. En fyrst nokkur orð um byggðaþróun í Leirunni samanborið við næsta nágrennið, Keflavík. Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík.
Árið 1880 voru nákvæmlega jafnmargir íbúar í Keflavík og Leiru eða 154. Nú búa 2 menn í Leirunni en í Keflavík eru íbúar 6747.“
Þessi stutta tilvitnun í Árbókina sýnir okkur glöggt hve sveiflurnar í tilverunni eru hraðar. Það sem var brúnn melur í gær getur verið iðgrænt engi á morgun og sjórinn sem var fullur af lífsbjörg á báðar hendur fyrir fáum árum er sem dauðahaf í dag. Allt er þetta athöfnun okkar mannanna að þakka eða kenna. Hugsum því fyrir morgundeginum.“ – J.T.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726.

„Skúli Magnússon, landfógeti, segir í sýslulýsingu sinni um Básenda: „Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum á milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í véstanstormum, þegar hásjávað er.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Nokkur skip hafa farist þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á þessa höfn um hríð. Höfnin er því eigi örugg, nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum, og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrrnefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 faður í hinu síðarnefnda. Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet, þegar stórstreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi. Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar“.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Nokkru sunnar er Þórshöfn. Þar er hin forna höfn verzlunarskipa á síðari hluta 19. aldar. Samkvæmt lýsingu Skúla fógeta, er leiðin 170 faðmar inn, en breidd 51 faðmur, ef skip rista 6 fet. Þessi höfn var notuð er Hansakaupmenn og Þjóðverjar ráku verzlun hér, en árið 1601 var síðasta verzlunarár brim væri, því að skerjagarður að þeirra þar.

Þórshöfn

Þórshöfn.

Flest gátu 5 skonnortur legið þar í einu, allar bundnar. Þarna í Þórshöfn gerðist sá atburður á árunum 1890-1895, að útvegsbændur á Suðurnesjum komu þar saman til þess að ræða fiskverð. Segja má að hér hafi verið eins konar upphaf íslenzkrar kjarabaráttu sjómanna um fiskverð. Þarna var mættur Ketill dbrm. í Kotvogi með sonum sínum og Salómon Björnsson frá Kirkjuvogi, Einar Sveinbjörnsson í Sandgerði, Jón Sveinbjörnsson frá Húsatóftum, Magnús Bergmann í Fuglavík, og úr Grindavík Sæmundur Jónsson og Tómas Guðmundsson.
Rétt austan við Þórshöfn er Hvalvík og Hvalvíkurhólmi þar ytra. Nokkru austar og innar er komið að hinum gamalkunna og merka stað Bárðarvör (sjá Útnesjamenn), sem áður var stundum kölluð Prestatorfa, þegar Hvalsnessprestar þjónuðu Kirkjuvogssókn, en Hvalsnes var lagt niður sem prestsetur árið 1811.

Einbúi

Einbúi.

Fram til þess tíma var Bárðarvör ferjustaður Hvalsnesspresta yfir Ósana í Kirkjuvogsvör, og þessa leið notaði síra Hallgrímur Pétursson stöðugt á árunum 1644-1651, þegar hann þjónaði Kirkjuvogskirkju frá Hvalsnesi. Eftir það var Bárðarvör kölluð Grímsvör um tíma, en það nafn hvarf fljótt og frá síðustu aldamótum er óhætt að segja, að vörin hafi aldrei verið kölluð annað en Bárðarvör. Bárðarvör er smá vík, er skerst inn norðan við Einbúa, sem er hár hringmyndaður grashóll, og sést víða að, bæði á landi og af sjó, og er því mikið kennimerki sjósóknarmanna.
Fyrir utan Bárðarvör er Hestaklettur (sjá Útnesjamenn), stór og mikil klettaborg. Við austurhorn Hestakletts var ætíð farið, þegar ferjað var yfir Ósa. Á austurhorni Hestakletta sitja ætíð dílaskarfar og blaka vængjum til að þurrka sig.

Vörðuhólmi

Einbúi og Vörðuhólmi.

Nokkuð austur af Hestakletti er Selsker, hættulegt sker. Það er alltaf talið hættulegt að fara nærri því. Þar drukknaði síra Árni Hallvarðsson og sjö manns með honum 31 . marz 1748.
Einbúi er eins konar löng eyja frá norðri til suðurs og umflotin sjó, en á f jörum má víða vaða yfir rásina, sem umlykur hann, en strax með aðfalli er það ekki hægt.

Vörðuhólmi

Varða á Vörðuhólma.

Suðurendinn heitir Vörðuhólmi. Við suðurenda hans fellur sjór með útfallinu frá þessari löngu eyju, en skammt frá er Runkhólmi, svo þrengslin verða mikil með útfirinu í þessum þrönga ósi, og beljandinn ofsalegur, en stórsteinar, strýtumyndaðir, hér og þar í botninum, svo að þetta ér stórhættulegur staður fyrir báta. Einu sinni fór ég niður þennan ós, einn á tveggja manna fari. Ég var að grafa sandmaðk og mig langaði að fara niður beljandann. Ég hef líklega verið 16 ára, sterkur og liðugur þá, og mér fannst ég geta allt. Þar hallaði niður í ósinn eins og brekku. Ég lagði í ósinn, en straumkastið tók strax af mér ráðin og fyrir Guðs mildi slapp ég lifandi, en ég skammaðist mín mikið fyrir þetta tiltæki. Það er fyrst nú að ég segi frá þessu, sem gerðist fyrir 65 árum.
Fyrir utan Runkhólma er svokallaður Síðutangi, þá Skotbakki. Að Síðutanga og Skotbakka bárust hlutir eða partar úr hinu fræga strandi „James Town“. (Við Einbúa og Skotbakka var ágætur maðkasandur).
Fyrir austan Skotbakka er svo Gamli Kirkjuvogur, sem hét fyrrum Vogur á Rosmhvalanesi, vegna þess, að öll ströndin frá Stafnesi, inn með öllum Ósum að Hunangshellu er á Rosmhvalanesi. Það sýnir bezt breytta landskosti í tímanna rás, að Espólín segir frá því í 2. deild Árbókarinnar, að árið 1467 hafi Björn Þorleifsson, hirðstjóri, selt Eyjólfi Arnfinnssyni nokkrum Voga á Rosmhvalanesi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar segir að 1703 hafi Gamli Kirkjuvogur legið í auðn lengur en 120 ár, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. Af þessum orðum Árna Magnússonar, að bæjarstæðið hafi verið í Kirkjuvogslandi má ætla, að landamerkin milli Stafness og Kirkjuvogs hafi ekki verið um Djúpavog, heldur um Bárðarvör, eða Runkhólmaós, þó kannski heldur, eftir því sem gamalt fólk í Höfnum og fóstri minn, Ketill, töluðu um.
Fyrir innan Gamla Kirkjuvog kemur svo Djúpivogur, þar næst Beinanes, þá Seljavogur, þá Stóra-Selhella, þá Stóru-Selhelluvogur, þá Litla-Selhella, þá Litlu-Selhelluvogur, þá Brunnvogsklettar, þá Steinbogi og svo loks hin fræga varða Hunangshella, sem nú er hálf hrunin og brot af vörðunni eftir.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort.

Hér endar Rosmhvalanes, því að Hunangshella var og er landssvæðavarða. Lína sem hugsaðist dregin frá Hunangshellu í Háaleitsþúfu (var norðaustast á Keflavíkurflugvelli, en er horfin nú), og frá Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík. Allt fyrir norðvestan þessa hnu er Rosmhvalanes. Það er stór hluti Reykjanesskagans.

Hunangshella

Hunangshella.

Hunangshella dregur nafn sitt af sögu, sem prentuð er hjá Jóni Arnasyni, þjóðsagnasafnara, (1. b., bls. 613). Það var skrímsli grimmt, hættulegt og skotharðast allra dýra. Maður einn tók sig til og bar hunang á helluna, því óvætturin var sólgin í það. Maðurinn lá svo í leyni þar hjá. Óvætturinn kom og tók að sleikja hunangið af hellunni. Þá skaut maðurinn skrímslið með vígðum silfurhnöppum. Það hreif. Síðan heitir staðurinn Hunangshella. Hjá Hunangshellu endar Rosmhvalanes, eins og áður er sagt.
Hjá Hunangshellu enda Ósabotnar. Hunangshella er merkur staður. Varðan þar í hellunni er í ólagi. Ég skora á útivistarmenn eða einhver félagasamtök, eða Lionsmenn á Suðurnesjum, að reisa þessa gömlu vörðu við á björtum og blíðum sumardegi. Það er ræktarsemi við gamla tímann og virðing fyrir hinum gömlu landamerkjum Suðurnesjamanna, sem eru milli Rosmhvalaness og Reykjanes skagans. Ennþá eiga Suðumesin gott fólk, hraust og afkastasamt til að gera þetta.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Þegar farið er frá Hunangshellu suður koma næst Þríhólar þá Leirdalur og Leirdalshólmi, þá Stekkir, Stekkjarnes og Stekkjarneshólmar, þá Hellisvik, innan við Hellishæð (hjá Hellisviki beið Oddur V. Gíslason eftir því að Anna Vilhjálmsdóttir kæmi til sín á vökunni 30. des. 1870). Þá kemur Torfdalsvík síðan Torfdalur, þar á tanganum er hin ævaforna sundvarða sveitarinnar. Þá kemur Maðkasandur, Maðksandsklöpp, þá Bótin, Langaklöpp, Svartiklettur, síðan Þvottaklettar, sem eru austan við Kirkjuvogsvör. Nú er þar ekkert skip og engin mannaferð.

Hafnir

Hafnir – spil við Kirkjuvogsvör.

Kirkjuvogsvör má muna sinn fífil fegri, þegar um og yfir 100 ungra manna réru úr vörinni á hverjum róðrardegi á vertíðum. Upp af Kirkjuvogsvör voru tvö naust, austurnaust, sem voru víð og stór og rúmuðu marga teinæringa, og svo vesturnaust, sem rúmuðu í mesta lagi þrjá teinæringa. Bæði voru þessi naust vel varin fyrir sjógangi, veðrum og vindum. Fyrir vestan og utan Kirkjuvogsvör er Kirkjuskerið, stórt sker og hátt, sem er aðalskjólið fyrir Kirkjuvogsvör og hlífir henni í briminu. Þar utar, en fast við Kirkjusker, er Flatasker, sem hlífir sömuleiðis. Með aðfalli fór strax að koma lá í Kirkjuvogsvör, þegar Flatasker var komið í kaf. Kirkjuvogssund er langt. Sundið er tekið þegar Bælið er um Junkaragerði, en Keilir um Svartaklett. Þegar komið er inn fyrir Flataskersenda og Einbúa og Kiðaberg úti á Stafnesheiði ber saman, þá er vinkilsnúið inn í vörina.

Hafnir

Við Kotvog.

Ingigerður Tómasdóttir, húsfreyja í Kotvogi, d. 1804, sagði, að full sáta af heyi hefði fengist síðast af Kirkjuskerinu og grastónni þar, sem síðast var á kollinum á skerinu. Sömuleiðis hefði í þá tíð varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og heimatúnsins. Nú er þar stórt og breitt svæði. Sýnir þetta hver ósköp landið hefur eyðst á liðnum tímum.
Vestan við Kirkjuvogsvörina eru Þvottavötnin, bergvatnsuppspretta úr lágri klöpp. Þar var ætíð skolaður þvottur og þvegin ull. Þá kemur sker fyrir vestan, sem heitir Fúsi, sem við krakkarnir veiddum við varaseiði. Músasund heitir sundið á milli Kirkjuskersins og lands. í sundinu er smá sker, sem heitir Árarbrjótur, smá tangi á móts við Kotvog. Hola nefnist lendingin fyrir neðan Kotvogsbæinn. Þá kemur Skellisnoppa vestar, sker sem brim skellur mikið á, en í mínu ungdæmi kallað Skellir, hitt nafnið mun eldra. Við Skelli er bundin smá frásögn, er nú skal greina: Árið 1912, seint í maí, var sem oftar háskólaborgari einn gestur í Kotvogi nokkrar nætur. Dýrafræði og grasafræði voru eftirlætisgreinar hans. Hann eyddi dögum sínum seint og snemma í fjörunni.

Kotvogur

Kotvogur.

Dag einn, er var orðið nokkuð hásjávað, sá hann steypireiði mikla koma á mikilli ferð að sunnan og þræða rétt utan við ystu sker. Kom hún rétt af Skelli, vinkilbeygði þar og tók stefnu norður og djúpt út af Stafnestöngum, og svo var ferðin mikil á skepnunni, að hún var brátt horfin úr augsýn norður í Nesdjúpið svokallaða. Þennan dag var hányrðingur, ládeyða og hreinviðri. Nú hafa þessi dýr verið svo ofsótt, að þau þræða ekki við ystu sker Íslands lengur.

Merkines

Sjávarhús við Merkines.

Sunnan við Skelli og lengra úti eru Hásteinar, sérstæðir klettar, sem ekki sjást nema um stærstu fjörur. Þar hafa skip oft farist, og árið 1872 varð þar skipsskaði og manntjón frá Kirkjuvogi í tíð Þórunnar Brynjólfsdóttur, er átti skipið og gerði það út (sjá Rauðskinnu, Guðmundur í Réttarhúsum, stórmerk frásögn). Sunnar í fjörunni, Snoppa, stór klöpp ofarlega í fjörunni, með djúpa sprungu eftir endilöngu í áttina til hafs. Fyrir neðan Snoppu er brúðhjónasæti álfanna í klettahrygg þar. Sunnar eru svo Haugsendafjörur þar var þangskurður ágætur og var ég þar oft í þangfjörum á unglingsárum mínum. Þar er Markasker og Haugsendavarðan aðeins sunnar uppi á kampinum. Hún er sundmerki fyrir Merkines, og þegar hana ber við Bræður, klofinn hól þar efra, þá er farið inn Merkinessund.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Við höldum stöðugt áfram suður með ströndinni. Þá koma næst Merkinesklettar, Skiptivík, Dilkar, hár hóll og annar minni fyrir innan Junkaragerði, þá Junkaragerðisklettar, klakkar norðan við Kalmanstjarnarsund þá Hólmi, Draugar, Stekkjarvikið (sbr. Marínu), Kirkjuhafnarvikið, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, Sandhafnarlending, Kópa, Eyrarvík og Eyrarbær, þar sér fyrir bæjarrústum, nálægt sjávarbakkanum og grasi gróið umhverfis.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; vörslugarður.

Þar er mjög fallegt. Lendingin beint niður af bænum, örstutt nokkrir metrar. Stutt hefur verið að sækja fisk þaðan, meðan hann var nógur við landið, og hægt hefur verið að kalla heim að bænum, þegar veður voru góð. Eyri eða Hafnareyri, eins og sóknarpresturinn á Hvalsnesi kallaði bæinn, var síðasti byggður bær fyrir sunnan Kalmanstjörn, á Eyrartanganum rétt við norðurendann á Hafnabergi. Bærinn fór í eyði árið 1776.
Til gamans set ég hér húsvitjun sóknarprestsins á Hvalnesi 1773, sem er á þessa leið: Hafnareyri 1773: Ormur Þórarinsson, húsbóndi, 46 ára., Gunnvör Árnadóttir, húsfreyja, 49 ára., Katrín Hjaltadóttir, 20 ára., Magnús Hjaltason, 10 ára., Bartólomeus Jónsson, lausamaður, 61 árs.
Út af Eyraroddanum er röst, Eyrarröst, og stórt sker, Eyrarsker, rétt sunnan við tangann. Ég spurði Bjarna Guðnason, sem var í Kotvogi og formaður í 50 ár, hvar hann hefði fengið verstan sjó á allri formannstíð sinni. Hann svaraði: i ,Það var í Eyrarröstinni, þó var ég þá með teinæring“. Þetta var um Eyrarbæinn, en nú held ég áfram örnefnaröðinni.

Hafnaberg

Hafnaberg.

Næst fyrir sunnan norðurenda Hafnabergs kemur svo skerið Murtungur (Guðmundur Salórnonsson, fræðimaður, bóndi og meðhjálpari Kirkjuvogskirkju um í áraraðir, kallar sker þetta Murling. Þetta getur verið réttara, því að hann var talinn fróður og minnugur, og eftir hann er afbragðs ritgerð í 3. bindi Rauðskinnu).

Hafnarberg

Hafnarberg.

Þá kemur Klaufln, sprungnir klettar, þá Hafhaberg. Berg þetta er um hálfa viku sjávar á lengd og rúmir 20 faðmar þar sem hæst er, en ógengt. Í berginu er stór geigvænlegur hellir, sem heitir Dimma. Þá kemur Stráksrif (Bjarghóll þar upp af), þá Boðinn, Lendingarmelar, Rekavík, Skjótastaðir (eyðijörð), Stóra-Sandvík, Litla-Sandvík, Mölvík, Kistuberg, Þyrslingasteinar, Kinnarberg, þá Önglabrjótanef. Út af þessu nefi er norðurstrengur Reykjanesrasta rinnar, sem talin er sterkari en suðurstrengurinn, þá Karlinn, klettur hrikalegur í sjó fram. Einu sinni í sumarblíðu og logni var ég á háti, er fór milli Karlsins og lands.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Þá er næst Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás, Valahnjúkur (þar sem fyrsti vitinn var), Valahnjúksmöl, Skarfasetur, þar út af þessu nefi er suðurstrengur Reykjanesrastarinnar, og er hann talinn minni en norðurstrengurinn, eins og áður Segir. Rétt fyrir austan Skarfasetur er Blásíðubas.
Þar með endar þessi örnefnakeðja, sem fylgt hefur verið eftir minni og bestu vitund.“ – Lokadagur 11. maí 1984 – Jón Thorarensen.

Heimild:
-Faxi, 6. tbl 01.07.1984, Jón Thorarenssen, Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi, bls. 207-211.
Faxi