Tag Archive for: Hafnir

Ósabotnar

Í Faxa 1984 fjallar Jón Thorarenssen um „Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi„.

„Árbók Ferðafélags Íslands 1984 er helguð Reykjanesskaganum vestan Selvogsgötu og mun þá átt við Selvogsgötu í Hafnarfirði.
ÓsabotnarÁður fyrr höfðu Selvogsbúar mikil verslunarviðskipti í Hafnarfirði og munu hafa komið af Selvogsheiði niður á þessa Hafnarfjarðargötu er þeir fóru í kaupstað og ber hún síðan nafn þeirra.
Öll er Árbók þessi hin vandaðasta að efni og útliti og hin forvitnilegasta fyrir okkur Suðurnesjamenn. Höfundar eru fjórir, þeir séra Gísli Brynjólfsson, vel þekktur hér á Suðurnesjum, hann skrifar um byggðir Suðurnesja. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifar kaflann „Um heiðar og hraun“. Hann er mjög kunnur jarðfræði Skagans hefur lengi stundað þar rannsóknir. Þá skrifa náttúrufræðingarnir Hörður Kristinsson og Arnþór Garðarsson í ritið. Hörður um gróðurskilyrði en Arnþór um björgin og fuglalíf, sem er fjölskrúðugra hér en víðast hvar annarsstaðar á landinu. Ég hvet Suðurnesjabúa til að eignast og lesa þessa ágætu Árbók.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Við sem búum norðanverðu á Skaganum erum flestir kunnugir þeim miklu athöfnum og jarðarbótum sem Hestamannafélagið Máni hefur unnið að. Iðgræn tún hylja nú stór landssvæði, sem áður voru fokmelar vegna hrjúfra handa er þar höfðu um gengið. Svipað má segja um Leiruna þar sem Golfklúbbur Suðurnesja hefur gert stórvirki í fegrun og ræktun lands sem bændur höfðu yfirgefið þar sem aðal afkomuleið Leirubúa, fiskveiðar, var brostin en landkostir rýrir.
Ég vona að séra Gísli Brynjólfsson bregðist ekki illa við þó að ég taki hér upp eftir honum þar sem frásögn hans um Leiru hefst.
Leiran„Miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála liggur við sjávarsíðuna Leiran, sem er eitthvert það besta fiskiver, með því að þar má sækja sjó á báðar hendur“ segir í sóknarlýsingu 1839. En nú mun langt síðan nokkurri fleytu hefur verið róið til fiskjar úr Leirunni enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn nú hina síðari áratugi. En fyrst nokkur orð um byggðaþróun í Leirunni samanborið við næsta nágrennið, Keflavík. Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík.
Árið 1880 voru nákvæmlega jafnmargir íbúar í Keflavík og Leiru eða 154. Nú búa 2 menn í Leirunni en í Keflavík eru íbúar 6747.“
Þessi stutta tilvitnun í Árbókina sýnir okkur glöggt hve sveiflurnar í tilverunni eru hraðar. Það sem var brúnn melur í gær getur verið iðgrænt engi á morgun og sjórinn sem var fullur af lífsbjörg á báðar hendur fyrir fáum árum er sem dauðahaf í dag. Allt er þetta athöfnun okkar mannanna að þakka eða kenna. Hugsum því fyrir morgundeginum.“ – J.T.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726.

„Skúli Magnússon, landfógeti, segir í sýslulýsingu sinni um Básenda: „Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum á milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í véstanstormum, þegar hásjávað er.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Nokkur skip hafa farist þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á þessa höfn um hríð. Höfnin er því eigi örugg, nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum, og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrrnefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 faður í hinu síðarnefnda. Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet, þegar stórstreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi. Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar“.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Nokkru sunnar er Þórshöfn. Þar er hin forna höfn verzlunarskipa á síðari hluta 19. aldar. Samkvæmt lýsingu Skúla fógeta, er leiðin 170 faðmar inn, en breidd 51 faðmur, ef skip rista 6 fet. Þessi höfn var notuð er Hansakaupmenn og Þjóðverjar ráku verzlun hér, en árið 1601 var síðasta verzlunarár brim væri, því að skerjagarður að þeirra þar.

Þórshöfn

Þórshöfn.

Flest gátu 5 skonnortur legið þar í einu, allar bundnar. Þarna í Þórshöfn gerðist sá atburður á árunum 1890-1895, að útvegsbændur á Suðurnesjum komu þar saman til þess að ræða fiskverð. Segja má að hér hafi verið eins konar upphaf íslenzkrar kjarabaráttu sjómanna um fiskverð. Þarna var mættur Ketill dbrm. í Kotvogi með sonum sínum og Salómon Björnsson frá Kirkjuvogi, Einar Sveinbjörnsson í Sandgerði, Jón Sveinbjörnsson frá Húsatóftum, Magnús Bergmann í Fuglavík, og úr Grindavík Sæmundur Jónsson og Tómas Guðmundsson.
Rétt austan við Þórshöfn er Hvalvík og Hvalvíkurhólmi þar ytra. Nokkru austar og innar er komið að hinum gamalkunna og merka stað Bárðarvör (sjá Útnesjamenn), sem áður var stundum kölluð Prestatorfa, þegar Hvalsnessprestar þjónuðu Kirkjuvogssókn, en Hvalsnes var lagt niður sem prestsetur árið 1811.

Einbúi

Einbúi.

Fram til þess tíma var Bárðarvör ferjustaður Hvalsnesspresta yfir Ósana í Kirkjuvogsvör, og þessa leið notaði síra Hallgrímur Pétursson stöðugt á árunum 1644-1651, þegar hann þjónaði Kirkjuvogskirkju frá Hvalsnesi. Eftir það var Bárðarvör kölluð Grímsvör um tíma, en það nafn hvarf fljótt og frá síðustu aldamótum er óhætt að segja, að vörin hafi aldrei verið kölluð annað en Bárðarvör. Bárðarvör er smá vík, er skerst inn norðan við Einbúa, sem er hár hringmyndaður grashóll, og sést víða að, bæði á landi og af sjó, og er því mikið kennimerki sjósóknarmanna.
Fyrir utan Bárðarvör er Hestaklettur (sjá Útnesjamenn), stór og mikil klettaborg. Við austurhorn Hestakletts var ætíð farið, þegar ferjað var yfir Ósa. Á austurhorni Hestakletta sitja ætíð dílaskarfar og blaka vængjum til að þurrka sig.

Vörðuhólmi

Einbúi og Vörðuhólmi.

Nokkuð austur af Hestakletti er Selsker, hættulegt sker. Það er alltaf talið hættulegt að fara nærri því. Þar drukknaði síra Árni Hallvarðsson og sjö manns með honum 31 . marz 1748.
Einbúi er eins konar löng eyja frá norðri til suðurs og umflotin sjó, en á f jörum má víða vaða yfir rásina, sem umlykur hann, en strax með aðfalli er það ekki hægt.

Vörðuhólmi

Varða á Vörðuhólma.

Suðurendinn heitir Vörðuhólmi. Við suðurenda hans fellur sjór með útfallinu frá þessari löngu eyju, en skammt frá er Runkhólmi, svo þrengslin verða mikil með útfirinu í þessum þrönga ósi, og beljandinn ofsalegur, en stórsteinar, strýtumyndaðir, hér og þar í botninum, svo að þetta ér stórhættulegur staður fyrir báta. Einu sinni fór ég niður þennan ós, einn á tveggja manna fari. Ég var að grafa sandmaðk og mig langaði að fara niður beljandann. Ég hef líklega verið 16 ára, sterkur og liðugur þá, og mér fannst ég geta allt. Þar hallaði niður í ósinn eins og brekku. Ég lagði í ósinn, en straumkastið tók strax af mér ráðin og fyrir Guðs mildi slapp ég lifandi, en ég skammaðist mín mikið fyrir þetta tiltæki. Það er fyrst nú að ég segi frá þessu, sem gerðist fyrir 65 árum.
Fyrir utan Runkhólma er svokallaður Síðutangi, þá Skotbakki. Að Síðutanga og Skotbakka bárust hlutir eða partar úr hinu fræga strandi „James Town“. (Við Einbúa og Skotbakka var ágætur maðkasandur).
Fyrir austan Skotbakka er svo Gamli Kirkjuvogur, sem hét fyrrum Vogur á Rosmhvalanesi, vegna þess, að öll ströndin frá Stafnesi, inn með öllum Ósum að Hunangshellu er á Rosmhvalanesi. Það sýnir bezt breytta landskosti í tímanna rás, að Espólín segir frá því í 2. deild Árbókarinnar, að árið 1467 hafi Björn Þorleifsson, hirðstjóri, selt Eyjólfi Arnfinnssyni nokkrum Voga á Rosmhvalanesi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar segir að 1703 hafi Gamli Kirkjuvogur legið í auðn lengur en 120 ár, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. Af þessum orðum Árna Magnússonar, að bæjarstæðið hafi verið í Kirkjuvogslandi má ætla, að landamerkin milli Stafness og Kirkjuvogs hafi ekki verið um Djúpavog, heldur um Bárðarvör, eða Runkhólmaós, þó kannski heldur, eftir því sem gamalt fólk í Höfnum og fóstri minn, Ketill, töluðu um.
Fyrir innan Gamla Kirkjuvog kemur svo Djúpivogur, þar næst Beinanes, þá Seljavogur, þá Stóra-Selhella, þá Stóru-Selhelluvogur, þá Litla-Selhella, þá Litlu-Selhelluvogur, þá Brunnvogsklettar, þá Steinbogi og svo loks hin fræga varða Hunangshella, sem nú er hálf hrunin og brot af vörðunni eftir.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort.

Hér endar Rosmhvalanes, því að Hunangshella var og er landssvæðavarða. Lína sem hugsaðist dregin frá Hunangshellu í Háaleitsþúfu (var norðaustast á Keflavíkurflugvelli, en er horfin nú), og frá Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík. Allt fyrir norðvestan þessa hnu er Rosmhvalanes. Það er stór hluti Reykjanesskagans.

Hunangshella

Hunangshella.

Hunangshella dregur nafn sitt af sögu, sem prentuð er hjá Jóni Arnasyni, þjóðsagnasafnara, (1. b., bls. 613). Það var skrímsli grimmt, hættulegt og skotharðast allra dýra. Maður einn tók sig til og bar hunang á helluna, því óvætturin var sólgin í það. Maðurinn lá svo í leyni þar hjá. Óvætturinn kom og tók að sleikja hunangið af hellunni. Þá skaut maðurinn skrímslið með vígðum silfurhnöppum. Það hreif. Síðan heitir staðurinn Hunangshella. Hjá Hunangshellu endar Rosmhvalanes, eins og áður er sagt.
Hjá Hunangshellu enda Ósabotnar. Hunangshella er merkur staður. Varðan þar í hellunni er í ólagi. Ég skora á útivistarmenn eða einhver félagasamtök, eða Lionsmenn á Suðurnesjum, að reisa þessa gömlu vörðu við á björtum og blíðum sumardegi. Það er ræktarsemi við gamla tímann og virðing fyrir hinum gömlu landamerkjum Suðurnesjamanna, sem eru milli Rosmhvalaness og Reykjanes skagans. Ennþá eiga Suðumesin gott fólk, hraust og afkastasamt til að gera þetta.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Þegar farið er frá Hunangshellu suður koma næst Þríhólar þá Leirdalur og Leirdalshólmi, þá Stekkir, Stekkjarnes og Stekkjarneshólmar, þá Hellisvik, innan við Hellishæð (hjá Hellisviki beið Oddur V. Gíslason eftir því að Anna Vilhjálmsdóttir kæmi til sín á vökunni 30. des. 1870). Þá kemur Torfdalsvík síðan Torfdalur, þar á tanganum er hin ævaforna sundvarða sveitarinnar. Þá kemur Maðkasandur, Maðksandsklöpp, þá Bótin, Langaklöpp, Svartiklettur, síðan Þvottaklettar, sem eru austan við Kirkjuvogsvör. Nú er þar ekkert skip og engin mannaferð.

Hafnir

Hafnir – spil við Kirkjuvogsvör.

Kirkjuvogsvör má muna sinn fífil fegri, þegar um og yfir 100 ungra manna réru úr vörinni á hverjum róðrardegi á vertíðum. Upp af Kirkjuvogsvör voru tvö naust, austurnaust, sem voru víð og stór og rúmuðu marga teinæringa, og svo vesturnaust, sem rúmuðu í mesta lagi þrjá teinæringa. Bæði voru þessi naust vel varin fyrir sjógangi, veðrum og vindum. Fyrir vestan og utan Kirkjuvogsvör er Kirkjuskerið, stórt sker og hátt, sem er aðalskjólið fyrir Kirkjuvogsvör og hlífir henni í briminu. Þar utar, en fast við Kirkjusker, er Flatasker, sem hlífir sömuleiðis. Með aðfalli fór strax að koma lá í Kirkjuvogsvör, þegar Flatasker var komið í kaf. Kirkjuvogssund er langt. Sundið er tekið þegar Bælið er um Junkaragerði, en Keilir um Svartaklett. Þegar komið er inn fyrir Flataskersenda og Einbúa og Kiðaberg úti á Stafnesheiði ber saman, þá er vinkilsnúið inn í vörina.

Hafnir

Við Kotvog.

Ingigerður Tómasdóttir, húsfreyja í Kotvogi, d. 1804, sagði, að full sáta af heyi hefði fengist síðast af Kirkjuskerinu og grastónni þar, sem síðast var á kollinum á skerinu. Sömuleiðis hefði í þá tíð varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og heimatúnsins. Nú er þar stórt og breitt svæði. Sýnir þetta hver ósköp landið hefur eyðst á liðnum tímum.
Vestan við Kirkjuvogsvörina eru Þvottavötnin, bergvatnsuppspretta úr lágri klöpp. Þar var ætíð skolaður þvottur og þvegin ull. Þá kemur sker fyrir vestan, sem heitir Fúsi, sem við krakkarnir veiddum við varaseiði. Músasund heitir sundið á milli Kirkjuskersins og lands. í sundinu er smá sker, sem heitir Árarbrjótur, smá tangi á móts við Kotvog. Hola nefnist lendingin fyrir neðan Kotvogsbæinn. Þá kemur Skellisnoppa vestar, sker sem brim skellur mikið á, en í mínu ungdæmi kallað Skellir, hitt nafnið mun eldra. Við Skelli er bundin smá frásögn, er nú skal greina: Árið 1912, seint í maí, var sem oftar háskólaborgari einn gestur í Kotvogi nokkrar nætur. Dýrafræði og grasafræði voru eftirlætisgreinar hans. Hann eyddi dögum sínum seint og snemma í fjörunni.

Kotvogur

Kotvogur.

Dag einn, er var orðið nokkuð hásjávað, sá hann steypireiði mikla koma á mikilli ferð að sunnan og þræða rétt utan við ystu sker. Kom hún rétt af Skelli, vinkilbeygði þar og tók stefnu norður og djúpt út af Stafnestöngum, og svo var ferðin mikil á skepnunni, að hún var brátt horfin úr augsýn norður í Nesdjúpið svokallaða. Þennan dag var hányrðingur, ládeyða og hreinviðri. Nú hafa þessi dýr verið svo ofsótt, að þau þræða ekki við ystu sker Íslands lengur.

Merkines

Sjávarhús við Merkines.

Sunnan við Skelli og lengra úti eru Hásteinar, sérstæðir klettar, sem ekki sjást nema um stærstu fjörur. Þar hafa skip oft farist, og árið 1872 varð þar skipsskaði og manntjón frá Kirkjuvogi í tíð Þórunnar Brynjólfsdóttur, er átti skipið og gerði það út (sjá Rauðskinnu, Guðmundur í Réttarhúsum, stórmerk frásögn). Sunnar í fjörunni, Snoppa, stór klöpp ofarlega í fjörunni, með djúpa sprungu eftir endilöngu í áttina til hafs. Fyrir neðan Snoppu er brúðhjónasæti álfanna í klettahrygg þar. Sunnar eru svo Haugsendafjörur þar var þangskurður ágætur og var ég þar oft í þangfjörum á unglingsárum mínum. Þar er Markasker og Haugsendavarðan aðeins sunnar uppi á kampinum. Hún er sundmerki fyrir Merkines, og þegar hana ber við Bræður, klofinn hól þar efra, þá er farið inn Merkinessund.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Við höldum stöðugt áfram suður með ströndinni. Þá koma næst Merkinesklettar, Skiptivík, Dilkar, hár hóll og annar minni fyrir innan Junkaragerði, þá Junkaragerðisklettar, klakkar norðan við Kalmanstjarnarsund þá Hólmi, Draugar, Stekkjarvikið (sbr. Marínu), Kirkjuhafnarvikið, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, Sandhafnarlending, Kópa, Eyrarvík og Eyrarbær, þar sér fyrir bæjarrústum, nálægt sjávarbakkanum og grasi gróið umhverfis.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; vörslugarður.

Þar er mjög fallegt. Lendingin beint niður af bænum, örstutt nokkrir metrar. Stutt hefur verið að sækja fisk þaðan, meðan hann var nógur við landið, og hægt hefur verið að kalla heim að bænum, þegar veður voru góð. Eyri eða Hafnareyri, eins og sóknarpresturinn á Hvalsnesi kallaði bæinn, var síðasti byggður bær fyrir sunnan Kalmanstjörn, á Eyrartanganum rétt við norðurendann á Hafnabergi. Bærinn fór í eyði árið 1776.
Til gamans set ég hér húsvitjun sóknarprestsins á Hvalnesi 1773, sem er á þessa leið: Hafnareyri 1773: Ormur Þórarinsson, húsbóndi, 46 ára., Gunnvör Árnadóttir, húsfreyja, 49 ára., Katrín Hjaltadóttir, 20 ára., Magnús Hjaltason, 10 ára., Bartólomeus Jónsson, lausamaður, 61 árs.
Út af Eyraroddanum er röst, Eyrarröst, og stórt sker, Eyrarsker, rétt sunnan við tangann. Ég spurði Bjarna Guðnason, sem var í Kotvogi og formaður í 50 ár, hvar hann hefði fengið verstan sjó á allri formannstíð sinni. Hann svaraði: i ,Það var í Eyrarröstinni, þó var ég þá með teinæring“. Þetta var um Eyrarbæinn, en nú held ég áfram örnefnaröðinni.

Hafnaberg

Hafnaberg.

Næst fyrir sunnan norðurenda Hafnabergs kemur svo skerið Murtungur (Guðmundur Salórnonsson, fræðimaður, bóndi og meðhjálpari Kirkjuvogskirkju um í áraraðir, kallar sker þetta Murling. Þetta getur verið réttara, því að hann var talinn fróður og minnugur, og eftir hann er afbragðs ritgerð í 3. bindi Rauðskinnu).

Hafnarberg

Hafnarberg.

Þá kemur Klaufln, sprungnir klettar, þá Hafhaberg. Berg þetta er um hálfa viku sjávar á lengd og rúmir 20 faðmar þar sem hæst er, en ógengt. Í berginu er stór geigvænlegur hellir, sem heitir Dimma. Þá kemur Stráksrif (Bjarghóll þar upp af), þá Boðinn, Lendingarmelar, Rekavík, Skjótastaðir (eyðijörð), Stóra-Sandvík, Litla-Sandvík, Mölvík, Kistuberg, Þyrslingasteinar, Kinnarberg, þá Önglabrjótanef. Út af þessu nefi er norðurstrengur Reykjanesrasta rinnar, sem talin er sterkari en suðurstrengurinn, þá Karlinn, klettur hrikalegur í sjó fram. Einu sinni í sumarblíðu og logni var ég á háti, er fór milli Karlsins og lands.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Þá er næst Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás, Valahnjúkur (þar sem fyrsti vitinn var), Valahnjúksmöl, Skarfasetur, þar út af þessu nefi er suðurstrengur Reykjanesrastarinnar, og er hann talinn minni en norðurstrengurinn, eins og áður Segir. Rétt fyrir austan Skarfasetur er Blásíðubas.
Þar með endar þessi örnefnakeðja, sem fylgt hefur verið eftir minni og bestu vitund.“ – Lokadagur 11. maí 1984 – Jón Thorarensen.

Heimild:
-Faxi, 6. tbl 01.07.1984, Jón Thorarenssen, Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi, bls. 207-211.
Faxi

Kotvogur

Í bókinni „Hafnir á Reykjanesi„, skrifaða af Jóni Þ. Þór, er saga byggðar og mannlífs í Höfnum rakin í ellefu hundruð ár.

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

„Fornar heimildir eru fáorðar en gagnorðar um upphaf mannvistar í Höfnum. Í Sturlubók Landnámu segir stutt en laggot; Herjólfr hét maðr Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámsmanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfr land milli Vágs ok Reykjaness (Íslensk fornrit I,1 (1968, 132).
Miklu stuttorðari gat þessi frásögn vart verið, en önnur gerð Landnámu, Hauksbók, hermir, að Herjólfur hafi verið „frændi Ingólfs ok fóstbróðir“, og því hafi Ingólfur gefið honum landið.
Um Herjólf Bárðarson, landnámsmanns í Höfnum, er lítið vitað umfram það, sem segir í áðurtilvitnaðri Landnámugrein. Við vitum ekki, hvort hann var kvæntur, er hann kom til Íslands og settist að í Höfnum, ekki heldur hvort hann kom á eigin skipi með eigin föruneyti. Má þó telja hvort tveggja mjög líklegt. Um stöku afkomendur hans vitum við hins vegar öllu meira, og í hópi þeirra var maður, sem frægur er í þjóðarsögunni, og reyndar í gjörvallri sögu siglinga og landkönnunar við norðanvert Atlantshaf.

Hafnir

Hafnir.

Sonur Herjólfs hét Bárður, og kemur hann hvergi við sögu, nema þar sem hans er getið sem föður sonar síns. Sonurinn var skírður Herfólfur, í höfuðið á afa sínum í Höfnum, og segir í Grænlendinga sögu, að hann byggi á Drepstokki, en sú jörð var skammt vestan Eyrarbakka. Kona hans hét Þorgerður, og sumarið 985, eða 986, afréðu þau að bregða búi á Drepstokki og héldu til Grænlands með Eiríki rauða. Á Grænlandi reistu þau sér bæ á Herjólfsnesi og bjuggu þar (Íslendingasögur I (1953), 365-366).
Hafnir
Þau Herjólfur og Þorgerður á Drepstokki áttu son, sem Bjarni hét, og varð hann án alls efa nafnkenndastur allra afkomenda Herjólfs Báraðarsonar landnámssmanss í Höfnum. Hann þótti snemma mannvænlegur og fýsti ungan utan, svo sem títt var um tápmikla unga menn á þeim tíma.

Hafnir

Hafnir – Kirkjuvogur.

Vegnaði honum vel í förum, og leið ekki á löngu, uns hann stýrði eigin skipi á milli landa. Siglingartækni 10. aldar gerði það að verkum, að farmenn komust sjaldan nema aðra leiðina á milli Íslands og Noregs á sumri hverju, og hermir Grænlendinga saga, að Bjarni hafi veriðð “ sinn vetr hvárt, útan lands eða með feðr sínum“ (Íslendingasögur I (1953), 365). Síðasta veturinn, sem hann dvaldist í Noregi, brugðu foreldrar hans búi á Drepstokki og héldu til Grænlands. Er Bjarni kom heim sumarið eftir, spurði hann tíðinda. Af viðbrögðum hans og því, sem á eftir fór, segir í Grænlendinga sögu. Frásögn hans af ferð hans og áhfnar hans til Ameríku, án þess þó að stíga þar á land, varð til þess að landi hans, Leifur Eiríksson, hélt að leita landa í vestri.
Hafnir
Lengra komumst við ekki með sögu afkomenda Herjólfs Bárðarsonar, þeirra sem fæddir eru á Íslandi. Víkur þá sögunni aftur til landnámsins í Höfnum.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Af frásögn Landnámu verður ekki ráðið með neinni vissu, hvenær Herjólfur kom til Íslands. Hann gæti hafa komið með Ingólfi, jafnvel verið skipverji hans, eða að hann gæti hafa komið nokkrum árum síðar og þá væntanlega á eigin skipi með eigin föruneyti. Erfitt er að skera úr um, hvor möguleikinn sé líklegri, en flest bendir til þess, að Herfjólfur hafi numið land fremur snemma á landnámsöld, að öllum líkindum fyrir 900.
Engar nákvæmar lýsingar eru til á landnámi Herjólfs Bárðarsonar. Orðalagið „á milli Vágs og Reykjaness“ tekur ekki af tvímæli, en bendir til þess að hann hafi þegið strandlengjuna norðan frá Ósabotnum, suður og austur [?] að Reykjanestá, að gjöf frá frænda sínum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyrarhöfn; uppdráttur ÓSÁ.

Vafalítið hefur hann þó helgað sér stærra landsvæði en strandlengjuna. Hversu stórt það var vitum við ekki, en hugsanlegt er að Herjólfur hafi fylgt þeirri aðferð er Haraldur konungur hárfagri lagði fyrir menn að fylgja við helgun lands: „Menn skyldu eld gera, þá er sól væri í austri; þar skyldi gera aðra reyki, svá at hvára sæi frá öðrum, en þeir eldar, er gjörvir váru, þá er sól var í austri, skyldi brenna til nætr; síðan skyldu þeir ganga til þess, er sól væri í vestri, ok gera þar aðra elda“ (Íslensk fornrit I,2 (1968), 337-339).
Landshættir hljóta að hafa ráðið nokkru um umfang og takmörk landnáms Herjólfs og ekkert var eðlilegra en að suður- og austurmörk þess væru við Reykjanestá og Stapafell, norður- og vesturmörk við Ósabotna [?].
Hafnir
Enga vitnesku er um það að hafa af fornum heimildum, hve margt fólk var í för með Herjólfi er hann settist að í landnámi sínu, og við vitum ekki, hvar hann reisti sér bú. Hafi hann komið til Íslands á eigin skipi, getur sú tilgáta þó trauðla talist ósennileg, að í föruneyti hans hafi verið a.m.k. tíu til tólf manns. Það fólk hefur trúlega fylgt honum suður í Hafnir og þegið af honum land.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Má þá hugsa sér, að byggð hafi fyrst risið þar sem mynduðust þrjú hverfi, í Kirkjuvogi við Ósabotna, á Merkinesi og Kalmanstjörn. Á öllum þessum stöðum var búsældarlegt á landnámsöld, útræði bærilegt og hagar fyrir búfé að líkindum góðir. Hvar Herjólfur sjálfur settist að, vitum við hins vegar ekki með vissu, en hugsanlegt er, að hann eða einhverjir förunauta hans hafi reist sér bú nálægt þeim stað, sem nú er Kirkjuvogshverfi í Höfnum.
Haustið 2002 sást við athugun á loftmyndum. sem teknar voru á þessu svæði, „greinilegt skálalaga form skammt austur af kirkjunni í Höfnum“. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, gróf stuttu síðar tvær prufuholur á stað, u.þ.b. 80 metra ANA af Kirkjuvogskirkju og benda fyrstu niðurstöður þeirar rannsóknar til þess, að þarna séu leifar af skála frá landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Fátt verður fullyrt af þessari rannsókn um hina fyrstu byggð í Höfnum og varasamt að draga of víðtækar ályktanir af henni á þessu stigi. Frekari fornleifarannsóknir geta þó trúlega varpað ljósi á byggð á þessum slóðum á landnámsöld.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Hreppar voru stofnaðir hér á landi á þjóðveldisöld og voru hvort tveggja í senn, framfærslu- og stjórnunareiningar. Ekki er fulljóst, hvenær landinu var skipy í hreppa né hvaða reglum var fylgt við skipunina, en flest bendir til þess, að hreppaskiptingin hafi komist á fyrir lögtöku tíundar árið 1097, og víðast hvar virðast landshættir hafa ráðið hreppamörkum. Hið síðara var þó ekki algilt og má ef til vill hafa Hafnahrepp til marks um það.

Hafnir

Hafnir – fornleifauppgröftur.

Engar heimildir hafa varðveist, er segi sérstaklega frá stofnun Hafnahrepps, og hljótum við að hafa fyri satt, að hann hafi orðið til sem sjálfstæð framfærslu- og stjórnunareining er hreppaskipting komst á. Hann hefur þó vafalaust verið meðal minnstu hreppa landsins, og óvíst, að tuttugu þingfararkaupsbændur hafi verið búsettir innan endimarka hans.

Hafnir

Hafnir (MWL).

Þegar þannig stóð á, þurfti sérstakt leyfi lögréttu til hreppastofnunar (Íslensk fornrit I,2 (1968), 180). Við vitum að sönnu ekkert um fjölda bænda í Höfnum á þjóðveldisöld, en árið 1703 var aðeins getið seex lögbýla í Hafnahreppi, og voru þrjú þeirra í eyði, og höfðu verið lengi (JÁM III, 26-34). Býli geta vissulega hafa verið fleiri í hreppnum fyrr á öldum, en óvíst er, hvort þau voru svo mörg, að hreppurinn hafi uppfyllt áðurnefnt skilyrði Grágásalaga um fjölda þingvararkaupsbænda. Ber þó að hafa í huga, að vel getur hreppurinn hafa verið fjölbyggðari fyrir Reykjaneselda á 13. öld.

Hafnir

Hafnir.

Líklegast er, að Hafnahreppur hafi í upphafi orðið til úr landnámi Herjólfs Bárðarsonar og að mörk hans hafi lítið sem ekki breyst í aldnanna rás. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi lýsti hreppamörkum eins og þau voru árið 1934 með þessum orðum: „Hafnahreppur takmarkast af Miðneshrepp að norðan, Njarðvíkurhrepp að austan, en Grindavíkurhrepp að sunnan“ (Örn. 2502).
Þannig hafa hreppamörkin að líkindum verið frá fyrstu tíð, og þótt þau hafi breyst lítilsháttar á seinni tímum, einkum á 20. öld, gefa þau þá dágóða hugmynd um landnám Herjólfs Bárðarsonar í Höfnum og stærð þess.“

Heimild:
-Hafnir á Reykjanesi – Jón Þ. Þór, saga byggðar og mannlífs í ellefu hundruð ár. Reykjanesbær 2003.
Hafnir

Stafnes

Í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1903 er að finna grein Brynjúlfs Jónssonar; „Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902„. Fjallar hann þar m.a. um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla Kirkjuvog við Ósa.

Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

er í fornum máldögum oftast kallað »Starues«, og ef það er upprunanafn bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi í fyrri daga verið starengi. En hafi svo verið, þá er líklegast, að það sé uú komið í sjó. Skal eg ekkert um það segja. En sannfróðir eru menn um það, að þar hafa margar hjáleigur lagzt í eyði og þar af sumar af sjógangi.
Nokkrar af eyðihjáleigunum heyrði eg nefndar, og eru þær þessar: Urðabær, Sandhús, Refabær, Hólmabær, Gosa (Gosabær=Gottsvinsbærr), Vallarhús, Lodda (þ. e. Loðvíksstofa). Þar hefir víst verið einna bezt lýsing um aldamótin 1800, því þangað flúði Bátsendakaupmaður er kaupstaðurinn fór af. Nú sjást varla merki til tófta í Loddu, því öskuhaugur hefir seinna verið borinn ofan á þær og gróið upp sem hóll í túninu hjá heimabænum.

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í túninu er ein at þessum hringmynduðu fornbyggingum, sem kallaðar eru »lögréttur«. Þessi er líka kölluð það. Hún er einkennileg og frábrugðin öllum öðrum, er eg hefi séð, að því leyti, að á henni eru 6 dyr eða hlið, sem skifta henni í 6 jafna parta. Mundi svara því að 2 sæti hefði verið undir hverjum parti. Að öðru leyti er ekki hægt að gizka á hvaða tilgang hlið þessi hafa haft. Og því óskiljanlegri eru þau, ef maður vill geta þess til, að hringurinn sé sáðgarður eða fjárrétt. Og ekki lítur þó út fyrir, að það séu skörð. Þau eru hér um bil jafnstór og jafnlangt milli þeirra, eins og þau séu skipulega sett af mönnum. Annað er hér þó ekki, sem bendir á þingstað, hvorki munnmæli né búðatóftir. Þær gætu að vísu verið horfnar. Sumstaðar hefir sandfok sléttað túnið.
Sumstaðar geta kot verið bygð ofan á búðatóftir. Á tveim stöðum, skamt frá »lögréttunni«, var eins og vottaði fyrir tóftum, en mjög var það óglögt, enda var þá þessi hluti túnsins ósleginn. Skal eg ekkert frekara um þetta segja.

Bátsendar

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

heita skamt fyrir austan Stafnes. Þar liggur strandlengjan til austurs inn í Ásabotna. Á Bátsendum var kaupstaður, sem kunnugt er, og stóð á hraunnefi milli tveggja mjórra víka. Var höfnin á eystri víkinni. Var innsigling fremur vandasöm, en höfn trygg er inn var komið, þó svo, að binda varð skipin á 3 vegu, en með því móti gátu 2 skip legið þar undir eins. Sér enn um fjöru, járnbolta þá, sem greiptir cru í klappirnar, til að festa skipin við. Hafa verið höggnar holur í klappirnar fyrir þá og blýi rent utan með þeim. Hraunnefið, sem kaupstaðurinn stóð á, er hæst framantil og var þar bær. Sér þar enn nokkuð af rúst bæjarins á grastorfu lítilli. Þar fyrir ofan er lægð yfir þeim þvert milli víkabotnanna og í þeirri lægð sér leifar af undirstöðum verzlunarhússins. Hefir það verið hér um bil 12 fðm. langt og 6 fðm. breitt. Þó er ekki öldungis víst, að það hafi verið alt eitt hús, svo óslitin er undirstaðan ekki. En útlit er til þess. Af kaupstaðnum sjást nú ekki aðrar leifar en nú hefir verið sagt. En miklar girðingar hafa verið þar fyrir ofan, líklega bæði túngarðar og jurtagarðar. En nú er þar alt blásið.

Básendar

Festarkengir á Básendum.

Kaupstaðurinn eyddist í flóðinu mikla nóttina fyrir 9. jan. 1800. Fólkið komst nauðulega undan, nema ein gömul kona, sem heldur kaus að verða eftir og taka því er guð vildi verða láta, en að reynt yrði að hrökklast með hana heim að Stafnesi. Síðasti kaupmaður á Bátsendum er nefndur I. Hansen, danskur að ætt. Hann flúði til Loðvíksstofu, sem fyr getur. Um vorið fór hann utan og kom eigi aftur til Íslands.
Nafnið »Bátsendar« er óviðkunnanlegt og óefað afbökun. En hvað hefir það þá upprunalega veriðr Naumast getur það hafa verið »Bátsandar« (af: sandur), því að, þó þar sé blásið nú, þá hefir það eigi verið fyrrum, þá er nafnið var gefið. Og enn eru þar meiri klappir en sandar, bæði með sjónum og fyrir ofan, svo ástæðulítið virðist að gefa þar örnefni af söndum. Líklegra virðist mér, að þágufallsmyndin: »á Bátsendum« sé afbökun úr þágufallsmyndinni: að Bátsundum (af: sund). Það nafn hefði getað átt við sjávarsund þar fyrir framan. Og alkunnugt er, að bæjarnöfn og önnur örnefni eru langoftast nefnd í þágufalli hér á landi. Verður það því jafnan, eí þágufallið afbakast, að sú afbökun verður ósjálfrátt fram einnig í öðrum föllum.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

heitir vík ein, löngum spöl fyrir innan Bátsenda.

Hallgrímshellan

„Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þar er þrautalending og óbrigðul höfn í öllum norðlægum áttum. Þó eru þar engin mannvirki að sjá, enginn vottur þess, að þar hafi bygð verið, enda er engin sögn um það. En því get eg Þórshafnar, að mér þykir það líklegt, að sveitarnafnið »Hafnir* sé þannig myndað, að miðað hafi verið við Þórshöfn og Kirkjuhöfn, sem eru andspænis hvor annari út með Hafnavík, sín hvorumegin. Mun þeirri sveit hafa verið tileinkað alt svæðið milli þessara hafna.

Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinnværi í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.

Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

hefir til forna staðið langt inn með Ósum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Inst skiftist hann í smávoga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að KirkjuVógi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.“

Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 39-41.

Ósabotnar

Ósabotnar – götukort.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Í útgáfu Sögufélagsins um „Gullbringu- og Kjósarsýslu; sýslu- og sóknarlýsingar“ má m.a. lesa um örnefni, atburði o.fl. í sýslunum á árunum 1839-1855.

Útgáfa Sýslu- og sóknalýsinga Gullbringu- og Kjósársýslu markaði upphaf endurútgáfu Sögufélags á Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenska bókmenntafélags sem lengi höfðu verið ófáanlegar. Guðlaugur R. Guðmundsson sagnfræðingur og Svavar Sigmundsson rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast undirbúning útgáfunnar.

Gullbringu- og Kjósarsýsla.
Í bókinni eru ítarlegar upplýsingar á sýslunni og flestum sóknum hennar, skrifaðar af staðkunnugum mönnum á fyrstu áratugum nítjándu aldar, áður en nútíminn gekk í garð, og í henni eru birtar myndir af kirkjum og nokkum höfundanna. Í viðauka eru sýnd sóknarmörk og gamlar götur eftir korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844. Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósársýslu eru grundvallarrit um örnefni og lýsingar á fornum leiðum á svæðinu og kjörið rit fyrir þá sem unna sögu og staðfræði á suðvesturhorni landsins.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu – Þórður Jónasson [1852]
-Geir Backmann – Grindavík 1840-’41
-Brandur Guðmundsson – Lýsing á Höfnum
-Sigurður Sívertsen – Útskála- og Kirkjuvogssóknir 1839
-Pétur Jónsson – Kálfatjarnarprestakall 1840
-Árni Helgason – Garðaprestakall 1842
-Stefán Þorvaldsson – Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknu 1855
-Sigurður Sigurðsson – Lýsing á Reynivallasókn 1840

Formáli

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

„Hefst þá meginsform þessa bindis, en það eru sýslulýsingar og sóknalýsingar þær, sem gerðar voru að tilhlutun Hins íslenska bókmenntafélags. Aðalhvatamaður þessa verks var skáldið Jónas Hallgrímsson, er hugðist þannig að safna efni til ýtarlegrar og nákvæmlegrar Íslandslýsingar, sem hann hafði ætlað sér að semja, en entist ekki aldur til.

Boðsbréf og spurningar frá deild Hins íslenska bókmenntafélags í Kaupmannahöfn til sýslumanna og presta á Íslandi 1839.
Spurningarnar voru:

Í fyrsta lagi:

1. Afstaða og stærð landsins.
2. Landslag.
3. Haf og vötn.

Íslandskort

Íslandskort 1824.

4. Veðráttufar og loftslag.
5. Auðæfi náttúrunnar.
6. Kynferði og eðlisfar þjóðarinnar.

Í öðru lagi:
1. Landsbyggð allt frá landnámstíð.
2. Læknisdæmi.
3. Veraldleg skipan allt frá landnámstíð.

Í þriðja lagi:
A. Uppruni og forlög þjóðarinnar (almennt yfirlit).
B. Þjóðarlýsing.
C. Landsstjórnarsagan.

Þórður Jónason: Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1852

Þórður Jónason

Þórður Jónason.

„Sýslur þessar hétu fyrrum Kjalarnesþing, og eru þær báðar eitt prófastdæmi og sami sýslumaður í þeim báðum; heitir hann héraðdómari í Gullbringusýslu, en sýslumaður í Kjósarsýslu.
Gullbringusýsla er að landslagi frábrugðin öðrum sýslum í landinu. Hún er mestmegnis hraun og melar; þar vantar víða sauðfjár- en alls staðar kúahaga; útheyisslægjur eru engar og utantúns lítið og allvíðast ekkert graslendi. Þar eru engar ár og einungis 3 lækir í allri sýslunni. Atvinnuvegur sýslubúa er því einkum fiskiveiði, og sækja þangað og margir úr öðrum sveitum á vetrarvertíðinni, bæði úr Norðurlandi og úr Árnessýslu. Nafnkenndustu veiðistöðvar eru Vogar, Njarðvíkur (Norðvíkur) og Hafnir.
Gullbringusýsa er íll yfirferðar og vegirnir bæði krókóttir og slitróttir. Bæirnir standa með sjónum og byggðin er hvergi tvésett, og sýslan er þannig öll á lengdina.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Í Kjósarsýslu, sem Elliðaár aðskilja frá Gullbringusýslu, eru landskostir þar á móti góðir, víðast nægar slægjur og mikið graslendi, móskurður góður, torfrista og hagar vetur og sumar og hægt til allra aðdrátta, og má að vísu telja Kjósarsýslu í þessu tilliti með hinum bestu sýslum á landinu.
Innan sýslu eru engir fjallvegir, nema ef telja skyldi Svínaskarð milli Kjósar og Mosfellssveitar, sem mun vera hér um bil 2 mílur bæja á milli.
Bæði Mosfells- og Hellisheiði eru býsna langir fjallvegir og vandrataðir á vetrardag. Eru því vörður reistar og sæluhús byggð á heiðum þessum, eitt á Mosfellsheiði, en 2 á Hellisheiði handa ferðamönnum, og eiga þeir oft náttstað á Hellisheiði í sæluhúsum þessum, þegar þá dagar uppi á leiðinni. Torfærur eru engar á vegum þessum, nema menn villist af réttum vegi, en þá kvað ferðamönnum hætta búin, einkum á Hellisheiði, þegar fara skal niður af heiðinni, því heiðin er mjög brött að austanverðu.

Grindavík – Geir Backmann 1840-’41
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk sóknarinnar eru að vestanverðu Valahnúkur, sem aðskilur bæði land og reka Hafna og Grindavíkur. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krisi- og Grindavíkur.

Staður

Staður 1925.

Í Grindavíkursókn eru einasta 7 aðalbýli, en hina bæina köllum vér hjáleigur, og eru þær nú á tímum 13 byggðar. Hinn fyrsti og vestasti bær í sökninni er Staður. Stekkjarveg í landnorður frá Stað er annað aðalbýlið Húsatóttir. Hið þriðja býlið er Járngerðarstaðir. Fjóra býlið er Hóp. Hið 5ta býlið eru Þorkötlustaðir. 6ta aðalbýlið er Hraun. Á milli Hrauns og hins 7da býlisins, Ísuskála, alii Ísólfsskála, sem er austasti bærinn í sókninni, er hið minnsta 1 1/4 míla, því nú verður að afra almenningsveg upp svo kallað Hálsa.

Geir Backmann

Geir Backmann.

Það er vel að merkja við allar jarðir í sókn þessarri, að þær árlega að segja má, ganga af sér bæði til lands og sjávar, sumar af sjó og sandfoki, t.d. Staður, Hraun og Þorkötlustaðir, af sandfoki Húsatóttir, af sjávargangi Járngerðarstaðir, Hóp og Ísuskáli, en við hvertveggi mætti þó með pössun og atorku mikið gjöra.

Staður á selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bíst fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þess selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svoköllum Þrengslum.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhvers staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpst á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. Vanalegt er að reka sel í 8du v(iku) sumars, og aftur úr því 16 eða síðast 17 v(iku) af sumri, nema óþerrir hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum. Ekkert er hér afréttarlandM allt fé ungt og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð.
Hér skulu hvergi finnasdt nokkrar fornmannaleifar, nema ef væru nokkur garðlög úti um hraun, sem ég ímynda mér helst gjörð umkring gamalla manna beitiland. Ekki veit ég að fornleifar hér fundnar og því ekki heldur vera hér í nokkurs manns geymslu.
Ég óska, að línur þessar mættu koma að því gagni, sem til er miðað.“

Lýsing á Höfnum – Brandur Guðmundsson
Gullbringu- og kjósarsýsla
Byggð þessi er við sjóinn, hvar Kirkjuvogsósar byrja; er sjór fyrir vestan og norðan, en Ósarnir liggja til austurs landnorðurs, eru um hálfa viku sjávar að lengd með skerjum víða. [Í Jarðabók ÁM segir, að Gamli Kirkjuvogur hafi legið í auðn lengur en 120 ár 1703, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyrarhöfn; uppdráttur ÓSÁ.

„Heyrt hefi eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla-Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi lagst í eyði, að kirkja hafi staðið þar, eftir að jörðin lagist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan [hefir lagst í eyði um 1660, því tilnefnd Ingigerður sál. vissi aðeins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð í kirkjugarð, og eru þó síðan full 100 ár… – Á sama aukablaði getur Brandur og þess, að hann hafi á „landcommissiþingi á Járngerðarstöðum 1801 séð í bók hjá commissariis Kirkjuvog nefndan fyrir norðan Ósa ár 1516, sem mig minnir og þar í getið eyðijarða Haugsenda hér og Arnargerðis“].

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – kirkjugarður.

24 geirfuglum alls á skip langmest, en optast 5 til 8, en seinustu 2 vorin hafi hann ekki sést.
Engar vita menn þar fornmenjar í jörðu eða á, en steinkol meina menn vera á Reykjanesi.
Þetta er þá sú upplýsing, er eg get í stuttu máli meðdeilt yður, prestur minn góður, í því áður umtalaða og bið eg yður auðmjúklega að virða, en skyldi þurfa nokkru við að bæta, vilda eg að því leyti get sýna viljann, en bið auðmjúklega leiðréttingar á missmíðinni og yfirsjónum.“

Útskálaprestakall – Sigurður B. Sívertsen 1839
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Útskálaprestakall inniheldur 3 aóknir, nl. Útskála, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir; þær 2 síðari voru lagðar við 1811.
Takmörk milli Útskála- og Kirkjuvogssóknar er Háaleiti, milli Hvalsness- og Kirkjuvogssóknar Ósar þeir, er skerast inn í austur-landnorður, og þaðan upp að Háaleiti. Á millum Útskála- og Hvalsnessóknar eru engin örnefni, sem sóknir skilja.
Í Útskálasókn eru þessi byggðalög: Keflavík, Leiran, Stórihólmur, Gufuskálar (landnámsjörð) og Rafnkelsstaðir.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Fyrir sunnan Skagann kemur Nesið, sem liggur suður með sjónum. Þar var í fyrri daga höfuðból, sem Kirkjuból heitir, sem nú að mestu má heita komið í eyði. Á Kirkjubóli var áður hálfkirkja eða bænahús, sem síðar var af tekið. Eftir máldögum átti Péturskirkja að Kirkjubóli xl hndr. í heimalandi, fjórðung í Geirfuglaskeri og viðreka allan á Skarðaurð. (Á Kirkjubóli var junkherra Ívar Hólmur drepinn af biskupssveinum í Skálholti 1443. Líka Kristján skrifari í hefndir eftir Jón biskup Arason, voru þeir, sem Norðlingar drápu, dysjaðir fyrir norðan túngarð á Hafurbjarnastöðum, hafa bein þeirra í núverandi manna minnum blásið upp úr sandinum.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Flangastaðir er jörð. Hennar er getið í Landnámu, og mælt, að Flangur, sem fyrstu skyldi hafa byggt hana, sé heygður þar í túninu; er grjót umhverfis leiði hans, ef tilhæfi er í.
Á Býjaskerjum var áður kirkja, sem um er geið í Vilchins-máldaga, og kennd er við Ólaf kóng helga; er haldið, að hún hafi staðið á svonefndum Kirkjukletti.
Sunnar, í fullt útsuður, stendur Hvalsnes. Þar er snotur timburkirkja, annexía frá Útskálum. Hvalsneskirkja var fyrst byggð og vígð 1370, með þeim máldaga.
Syðst liggja Bátssandar, gamall kaupstaður, sem fór í stórflóði, sem síðan er kallað Básendaflóðið. Það var árið 1799, nóttina m(illi) 8. og 9. jan.

Þórshöfn

Þórshöfn – áletranir á klöpp; flestar frá um og eftir 1880.

Sunnar með sjónum liggur Þórshöfn; það er mjó vík, sem þýskir höfðu lagt inn skipum sínum, þá þeir höfðu verslun.
Tveir liggja alfaravegir útúr sókninni, sem nefnast Sandgerðis- og Hvalsnesvegur. Liggja þeir báðir inn í Keflavík; kemur sá fyrri á Garðveg skammt fyrir innan Keflavík, en hinn liggur beint að sunnan og byrjast við Melbergsá. Til er líka gamall vegur, sem aflagður er, frá Stafnesi og suður með sjó, inn fyrir Ósa og suður í Hafnir; það er gamall kaupstaðavegur frá Bátssöndum; er hann grýttur og langur.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Sunnan við Kalmanstjörn er Sandhöfn, eyðijörð, sem af lagðist og fór í eyði vegna sandsfoks, því ekkert sést eftir nema lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið. Sunnar er Eyrin, fyrir innan Hafnarberg. Þar var bær og útræði fyrir rúmum 50 árum síðan.
Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint verið hafi ein eyðijörð, enda er í mæli, sem satt mun vera, að allt Reykjanes hafi fyrr meir byggt verið.
Sunnar eru Valhúkar, sem er bergnös há, þá Valahnúksmöl (við hvörja trjáviðaskipið mikla strandaði um árið, eða réttara sagt þau mörgu og stóru tré bárust að landi).
Eldey er stór klettur í hafinu í vestur frá Reykjanesi. Mest hafa fengist þar á seinni tímum 24 geirfuglar í einu, en í 2 skipti seinast ekki sést.
Af fornleifum veit ég öngvum innan þessara <sókna> merkilegum. Steinn er eða klettur, sem stendur í svo nendu Kistugerði nálægt Rafnkelsstöðum með áklöppuðum rúnastöfum. Ekki hafa menn getað lesið úr þeim, en hafa þó oft verið af teiknaðir. (Líklega er það frá seinni tímum og skammstafað eða bundið mannsnafn).

Kistugerði

Kistugerði – rúnasteinn.

Að þar skammt frá sé heyður Rafnkell sá, sem jörðin er kennd við, eru munnmæli, sem við ekkert hafa að styðjast.)
Á Flangastöðum eða þar í túni nálægt Klöll er grjóthrúga, líkt sem dys. Þar hafa gamlir menn sagt, að heygður væri Flangur sá, sem í landnámstíð mundi fyrstu byggt hafa þá jörð, eða sem hún nefnist eftir. Annað dys eða haug þykjast menn geta séð í túni á Nesjum, sem áður lá til Másbúða, og segir fólk, að þar liggi undir Már sá, sem fyrstur hafi byggt Mársbúðir. Því er líka bætt við munnmæli þessi, að Katla hafi heitið kona hans, skörungur mikill. Annar haugur sé og í túninu, undir hverjum að liggi smali Márs.
Þetta, í flýti saman tekið og uppskrifað, en þó sem sannleikanum næst og nákvæmast sem orðið gat, biður undirskrifaður félagið vel að virða.“

Kálfatjarnarprestakall – Pétur Jónsson 1840
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk Njarðvíkusóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík ofan við sjó; frá hans efri enda upp í heiðinni að Gömlu-Þúfu á svo kölluðu Háaleiti, af hvörju sjá má umhverfis 3já vegu í sjó.

Stekkjarkot

Brunnur við Stekkjarkot.

Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.
Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tveir; innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún á stendur, þar sem hún fékki ekki kirkjrétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn.
Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helsta, sem ég get skýrt frá.“

Garðaprestakall – Árni Helgason 1842
Gullbringu- og Kjósarsýsla
„Álftanessveit, sem yfir grípur Garða- og Bessastaðasóknir, hefur að norðanverðu við sig Reykjavíkursókn, að sunnanverðu Kálfatjarnar.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur /Jónsbúð – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Á næstliðnu sumri þóttist fyrrverandi kaupm(aður) í Keflavík A. Gunnarsson hafa fundið brennisteinsnámu í Hraunamannalandi, nálægt Stórhöfðastígsvegi, er enginn vissi af áður. Hann segist hafa sent út með kaupmanni Siemsen nokkuð af þessum fundið, en eg þekki ei dóminn.

Þessir bæir eru í Garðasókn: Syðst Lónakot, þá Óttarstaðir með tveimur hjáleigum, Straumur, Þórbjarnarstaðir með tveimur tómthúsum, Lambhagi. Allir þessir bæir heita einu nafni Hraunabæir. Nú kemur Hvaleyi með 5 hjáleigum; ei hafa þær allar grasnyt. Óseyri með tómthúsi. Ás með tíomthúsi. Ófriðarstaðir, Hamarskot. Sá eiginlegi Havnarfjarðarhöndlunarstaður tekur nú við. Þar var áður jörð tilheyrandi Garðakirkju, sem hét Akurgerði; nú sjást hennar ekki menjar. Þessi jörð var tekin frá Garðaprestakalli fyrir hálfa Rauðkollsstaði vestur í Hnappadalssýslu.

Hafnarfjörður

Herforningjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftanes 1903.

Enginn veit nú, hvað mikið land Akurgerði fylgdi, og þingsvitni, sem tekið var nálægt 1790, gat engu orkað, það hefir dankað svona, að kaupmenn, sem eiga Akurgerði, eigna sér ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamrakotslæk, og prestar í Görðum hafa eigi ákært. Á þessu petti eru nú þrjú höndlunaraðsetur, grossera Knutzons, Thomsens og Linnets.
Í Bessastaðasókn eru þessir bæir: Bessastaðir, Lambhús og Breiðabólstaðir.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því sokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit eg og, að nú brúkar enginn hér selstöður, og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöðu héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 a 60 ár.

Úr sókninni liggur vegur úr Hafnarfirði upp í Selvog, sem heitir Grindarskarðavegur. Syðst er Ólafsskarðsvegur, svo er Lágaskarð og loks Hellisheiðarvegur. Á þessum vegi eru, þá Hellisheiði er farin, 3 sæluhús; þeir, sem fara Lágaskarð, gefa haft gagn af einu þeirra, og af öðru þeirra þeir, sem fara Ólafsskarð. Hjá Arnarnesi liggur og vegur og til hægri handar, þá héðan er farð, upp úr Kópavogi inn að Helliám, sem kemur þar saman við alfaraveg allra austa, norðan- og vestanmanna, sem ferðast til Reykjavíkur. Við fleta þessa vegi er gjör árlega, brýr lagðar hér og hvar yfir bleytuflög, en vörður brúkast ei nema á fjallvegum og þó ei öllum. Á Hellisheiðar- og Lágaskarðsvegi eru Bolavellir, upp við fjallið, og Vötnin, nokkru nær byggðinni hérna megin, almennustu áfangastaðirnir. Helliskot er næsti bær á sama vegi hérna megin við fjallið, hinum megin Reykir eða Reykjakot.

Flókaklöpp

Flókaklöpp við Hvaleyri.

Fornleifar eru varla, að megi kalla. Skoðað hef eg klappir þær, sem eru utarlega á Hvaleyrarhöfða, og séð, að þær eru margvíslega útrispaðar (bergið er ekki hart). Mörg nöfn get eg þar lesið, sem voru alþekkt nöfn danskra og þýskra, og eru þessi nöfn líklega skrifuð þar af sjómönnum framandi þjóða, helst meðan kaupstaðurinn var þeim megin við fjörðinn, rétt eins og margir hafa grafið nöfn sín inní bergið í Rauðshellir, sem þangað hafa komið; sums staðar er hvað skrifað ofan í annað. Mögulegt er, að þeir, sem betur eru læsir, geti hér fundið rúnir.
Gerði tvö, sem sumir ætla, að séu dómhringir, finnast. Hið annað á Hofstöðum, hitt í Ráðagerðistúni, sem er næsti bær við Garða.

Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknum – Stefán Þorvalddson 1955
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Mosfellsprestakall er tvær kirkjusóknir, Mosfells og Gufuness.
Þrír liggja þjóðvegir um sóknirnar; 1. Vegur sá, er liggur norðan yfir Svínaskarð, sem er stuttur fjallvegur milli Kjósar og Kjalarness og Mosfellssveitar. – 2. Sá, er liggur austan yfir Mosfellsheiði og fram í Seljadal, niður hjá bæjunum Þormóðsdal, Miðdal og Reynisvatni og Árbæ, og 3ji vegurinn liggur suðaustan yfir Hellisheiði, fyrir sunna Helliskot og norðan Klapparholt og Árbæ.

Hraðaleiði

Hraðaleiði.

Fornmenjar eru hér fáar sem engar, hvörki rúnir eða myndir, húsatóftir eða dómhringar. En haugur einn er hér í dalnum, á landamærum milli Hraðastaða og Mosfells, á sléttu undirlendi við Suðurá, og er haugur sá nefndur Hraðaleiði. Hann er aflangur og snýr í norður og suður og ekki allstór. Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, en hafi fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæ sinn þarm er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur.“

Lýsing á Reynivallasókn – Sigurður Sigurðsson 1940
Gullbringu- og Kjósarsýsla
„Meðtekið hefi eg á næstl(iðnu) sumri ykkar heiðursverða og góða bréf til mín af 30. apríl f.á., áhrærandi það efni að svara upp á þær spurningar, sem bréfið hljóðaði upp á. En bæði varleysi þá í stað og sumarannir hindruðu mig frá því að sýna lit á að koma þessu í verk, síst í lagi nokkuð eftir óskum, sem þurfti, þar fáviska, aldurdómur og ókunnleiki, þar sem maður kemur gamall langt að, bægði mér að geta nákvæmari útmálan gefið en þessa.“

Heimild:
-Gullbringu- og Kjósarsýsla; sýslu og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855, Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson, Sögufélagið 2007.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Kort Björn Gunnlaugssonar.

Hafnir

Norðan við Kirkjuvogskirkju í Höfnum, utan garðs, er upplýsingaskilti um „Hafnir og kirkjur í Höfnum„. Þar má lesa eftirfarandi:

Hafnir„Elstu ritheimildir um byggð í Höfnum er að finna í Landnámu þar sem greint er frá því að Ingólfur Arnarsson hafi gefið Herjólfi Bárðarsyni, frænda sínum og fóstbróður, land á milli Vágs og Reykjaness. Landsvæði sem er líklega nálægt stærð gamla Hafnahrepps. Herjólfur var langafi Bjarna Herjólfssonar, sæfaranda, sem talið er að hafi ásamt áhöfn sinni, fyrstur Evrópumanna, litið meginland Norður-Ameríku augum. Fjölskylda Bjarna á Íslandi hafði flutt að Drepstokki við Eyrarbakka og þaðan til Grænlands og var ástæða ferða Bjarna sú að hann var að heimsækja foreldra sína, en villtist af leið.

HafnirÁvallt hefur verið talið að landnámsbýlið Vogur hafi verið norðan Ósa, þar sem heitir Gamli Kirkjuvogur. Þegar skáli með landnámslagi fannst í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju kom fram sú tilgáta að þar væri að finna landnámsbæinn og fékk hann því nafnið Vogur.

Við fornleifarannsóknir hafa hins vegar vaknað efasemdir um að skálarústin sé bændabýli og hefur sú tilgáta verið sett fram að um sé að ræða rústir útstöðvar eins konar könnunarbúðir líkt og á L’Anse aus Meadows á Nýfundnalandi.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli?

Hafnir eru taldar hafa nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Kirkjuhöfn og Sandhöfn sem stóðu talsvert sunnar en núverandi byggð, en þar var búseta fram á 17. öld. Á síðari tímum hafa Hafnir verið samheiti fyrir 3 hverfi, þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvogshverfi. Byggðin í Höfnum hefur mótast mjög af erfiðum náttúruskilyrðum en þó er líklegt að fyrstu árhundruðin hafi verið búsældarlegra um að litast.

Í kjölfar Reykjaneselda, mikillar eldvirknishrinu á Reykjanesi á 13. öld tók land að eyðast vegna sandfoks.

Hafnir

Hafnir.

Byggðin hefur hopað og nú er, svo komið að byggð er fyrst og fremst í Kirkjuvogshverfinu auk Merkiness. Eftir því sem landgæði rýrnuðu fór vegur sjávarútvegs vaxandi og varð helsti bjargræðiskostur Hafnamanna. Fiskimiðin voru svo gjöful að efnamenn sóttust mjög eftir jörðum í hreppnum og í gegnum aldirnar voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins.

Á 18. öld fór íbúum í þéttbýliskjarnanum í Kirkjuvogshverfi að fjölga og var mikill vöxtur fram á 20. öld. Þá var rekin mikil útgerð stórra áraskipa, bæði frá Kotvogi og Kirkjuvogi. ´

Á 19. öld þótti Kotvogur eitt reisulegasta býli landsins. Blómaskeiðið tók enda er vélbátar fóru að ryðja sér rúms og fjarlægð á mið fór að skipta minna máli og krafa jókst um bætt hafnarskilyrði.

Kirkjur í Höfnum

HafnirKirkja hefur verið í Hafnahreppi að minnsta kosti frá 14. öld, en fyrstu sagnir um kirkju eru frá árinu 1332. Miðaldakirkjan stóð hins vegar norðan Ósa en afar lítið er vitað um sögu hennar. Enn má sjá móta fyrir rústum bæjar- og kirkjustæðis og leifum sem gæti verið kirkjugarður og mögulega kæmi fram ný þekking ef rústir Gamla-Kirkjuvogs yrðu rannsakaðar. Heimildir eru um að mannabein hafi verið flutt þaðan að Kirkjuvogi eftir uppblástur allt fram að aldamótum 1800. Þessarar gömlu jarðar er getið ú Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 en kirkjan hafði verið flutt á núverandi stað árið 1575.

Núverandi kirkja, Kirkjuvogskirkja, var vígð 26. nóvember 1861. Fordyri og kór var bætt við nokkrum árum síðar. Árið 1970 var ákveðið að fara í viðamiklar viðgerðir á kirkjunni en í ljós kom að byggingin var í afar slæmu ástandi. Að tilstuðlan Þórs Magnússonar þjóðminjavarðar voru Hörður Ágústsson og Þorsteinn Gunnarsson fengnir til að stýra verkinu með það að markmiði að færa kirkjuna nær því sem hún var á 19. öld.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Söfnuðurinn var fámennur en með útsjónarsemi tókst að ljúka viðgerðum og endurvígði dr, Sigurbjörn Einarsson biskup kirkjuna 10. desember 1972. Á þessum tíma var húsfriðunarsjóður að taka sín fyrstu skref og sást mjög glögglega hve mikil þörf var á þeim sjóði í þess konar verkefni.

Kirkjuhöfn er bær sem stóð aðeins sunnar en Kalmanstjörn. Nafnið bendir til að þar hafi verið kirkja en heimildir eru fátæklegar. Þegar Árni Magnússon skráði efni í jarðabókina árið 1703, kemur fram að jörðin hafi verið í eyði í um 40 ár. Nokkur ummerki eru um byggð á þeim slóðum sem bærinn mun hafa staðið og talið er að þar hafi einnig verið kirkjugarður en sagnir eru um að bein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarðinn í Kirkjuvogshverfinu.“

Hafnir

Hafnir – skilti.

Hafnir

Bæjarsamfélagið Hafnir á Reykjanesi (Reykjanesskaga) gefur heilstæða mynd af búsetu- og atvinnuháttum íbúanna allt frá landnámi til þessa dags. Fjölmargar fornleifar á svæðinu endurspegla hvorutveggja, auk þess sem hús og önnur nútímamannvirki sýna þróun byggðarinnar á liðinni öld.

Hafnir

Hafnir fyrrum.

Nú er meginbyggðin umleikis Kirkjuvog og Kirkjuvogskirkju. Áður náði hún í vestri að Kalmannstjörn (Junkaragerði) og Merkinesi innar (og um tíma enn lengra vestur, að Skjótastöðum og gömlu Hafnabæjunum (Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyri (Eyrarhöfn)).
Í austri, handan Ósa, var Gamli Kirkjuvogur ásamt útstöðvum Hafnabæjanna, bæði við Djúpavog og Seljavog. Uppi í Hafnaheiðinni má enn sjá leifar Kirkjuvogssels, Merkinessels eldra og yngra, auk Möngusels. En þrátt fyrir að langmestu mannvistarleifarnar séu í og við Hafnir hefur sáralítið verið skrifað um mannlífið þar í gegnum aldirnar. Jón Thorarensen reyndi að bæta úr því og má sjá frásagnir hans í Rauðskinnu.

Hafnir-4

Í Höfnum má í dag sjá allnokkur gömul hús, s.s. Kirkjuból, Sjónarhól, Kotvog og Vesturhús. Vestar í byggðinni eru greinilegar tóftir annarra bæja, sem áhugasömu fólki um fyrri tíð er gert nánast ómögulegt að staðsetja með ákveðinni vissu. Ekki er vitað til þess að fornleifaskráning hafi farið fram í Höfnum, en sérstaklega miklilvægt er að það verði gerst sem og að svæðið í heild verði teiknað upp m.t.t. minja og örnefna. Slíkar upplýsingar þarf síðan að gera augljósar öllum þeim er heimsækja Hafnir.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni. Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Ekki liggur ljóst fyrir hvort af þessari skráningu hefur orðið eða hvort henni hafi verið lokið. Ef svo er myndi FERLIR fúslega fjárfesta í slíku eintaki því ætlunin er að teikna upp allt svæði svo fljótt sem auðið er.

Hafnir-5

Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í
lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum). Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi.
Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili.
Hafnir-6Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness“, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara
tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.
Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.

Hafnir-7

Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis.
Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu. Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins. Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í lj
ós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins.

Hafnir-10

Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum. Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann. Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil „hús“ austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og
norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skála ns til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.

Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi

Hafnir-11

Í lýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar í Merkinesi um Hafnir (Hafnahrepp) kemur eftirfarandi fram um byggðakjarnan: „Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri.  Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri.  Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.

Hafnir-12

Frá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar.  Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.

Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á.  Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).

Hafnir-13

Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu.  Verður næsta hús Höfn,  þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll.
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét  Búðabakki.  Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.
Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Hafnir-15Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.
Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.

Hafnir-15

Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús.  Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast  enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.
Nú eru þrjú hús ótalin á vin
stri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð.  Lítið eitt fjær veginum Nýlenda (246) og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu 

Hafnir-16Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.
Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson.  Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus.  Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún.  Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir voru jafnaðar út.
HafnirÞar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið.  Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.“
Réttin í Höfnum var notuð fram til 1969. Þá gerði þar mikið óveður um veturinn og skemmdi sjórinn hana að hluta. Braut hann niður varnargarða og ýmsar minjar. Þrátt fyrir það má enn sjá móta greinilega fyrir réttinni – norðvestan við byggðakjarnan.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur) Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði.
-Landnámsbærinn Vogur í Höfnum, Byggðasafn Reykjanesbæjar.

Ketill

Í Höfnum.

Kirkjuvogssel

Lagt var af stað í hríðarbyl og snjókomu frá höfuðborgarsvæðinu. Á Vatnsleysuströnd birti til. Þegar komið var að Ósabotnum var komið sólskin.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Gengið var að Kirkjuvogsseli suðaustan Hafnarvegar. Selið er undir hól innan varnarsvæðisins og hefur fengið að vera óhreyft um langan tíma. Tóttir eru á tveimur stöðum í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Neðan þeirra er stekkur og enn neðar og norðar er reglulegur hringur, sem gæti hafa verið kví eða lítil rétt. Selstígurinn sést vel þar sem hann liggur frá selinu í átt að Ósabotnum. Hópurinn gekk frá selinu til norðurs og inn fyrir aðalvarnarsvæðið með leyfi yfirvalda.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Ætlunin var að leita að tóttum Stafnessels, sem þar átti að vera, skv. korti, ofarlega í heiðinni þar sem hallar til vesturs. Mikið landrof hefur átt sér stað á svæðinu, auk þess sem framkvæmt hefur verið alveg að brekkunum. Þó má sjá talsvert gras efst undir brekkunum og einnig er ekki ólíklegt að selið hafi verið þar undir eða ofan við klettana.

Stafnessel

Stafnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Leið er vörðuð að klettunum og eru vörðurnar, sem greinilega eru mjög gamlar, flestar hrundar. Þó er ein stærst og stendur enn nokkuð neðan við brekkurnar. Hún hefur líklega verið sundvarða inn að Ósabotnum því hún ber frá skerjunum í Keili. Þá var gengið niður að Djúpavogi og þaðan til norðvesturs eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni. Skammt ofan við voginn er
200-300 m langur beinn mjög fallegur kafli á leiðinni, sem greinilega hefur verið ruddur og flóraður á kafla. Þegar hópurinn kom að enda kaflans skein sólin á svæðið svo hún sást mjög vel þar sem hún liggur upp holtið. Skv. öðru korti átti Stafnessel að vera þarna skammt sunnar. Það reyndist vera rétt.

Þar suðvesturundir stórum klapparhól kúrði selið – nokkrar tóttir.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – stekkur.

Gengið var niður á Ósaleiðina og henni fylgt að Gamla Kirkjuvogi þar sem tóttirnar af gamla bænum og kirkjugarðurinn voru skoðaðar, auk garðanna og brunnsins. Þar sem greinilega var að verða mjög lágsjávað var ákveðið að halda áfram framhjá Skotbakka og Þórshöfn yfir að Básendum. Þegar þangað var komið var gengt út í öll sker.
Farið var fetið út í stærsta skerið vestan Básendalægis. Þar í klöpp á því norðanverðu er festahringur í keng, nokkuð ryðbrunninn.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í hring þennan var festi hér á öldum áður og í hana voru kaupskipin, er þarna lágu, fest. Klöppin var öll upp úr sjó, sem ekki er algengt þarna. Eftir að hafa dáðst að litbrigðunum (rautt, brún, grænt og gult) umhverfis hringinn var haldið í rólegheitum  suður með skerinu. Þar var að sjá annan keng, en í hann vantaði hringinn. Eftir að hafa áð við Draughól var haldið með steingarðinum, sem umlykur Básenda, að Stafnesi þar sem ferðin endaði.
Í því er hópurinn gekk í hlað á Stafnesi um kl. 12:00 byrjaði að snjóa.
Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Jamestown

Í Ægi árið 1930 er m.a. fjallað um „Reykjanesstrandið mikla“ utan við Valahnúksmöl á Reykjanesi og „Stóra strand“ Jamestown við Hvalvík utan við Ósa, gegnt Höfnum:

„Hr. hreppstjóri Ólafur Ketilsson á Óslandi í Höfnum, hefur sent »Ægi« ágæta grein um skipströnd þar syðra. Með því hér er um langt mál að ræða, en rúm í «Ægi« af skornum skammti, er eigi unnt að birta greinina í einu lagi, en þar eð hún er bæði ítarleg og skemmtileg, verður hún að birtast í pörtum eftir því sem rúm leyfir.

Valahnúksmöl (Reykjanesstrandið mikla).

Valahnúkur

Valahnúkur og Valahnúskmöl.

Á fyrsta tug 19. aldarinnar, rak á land á svo nefndri Valahnúkamöl á Reykjanesi, geysilega stór timburfloti; var flotinn benslaður með sverum járnböndum þversum og langsum. Í flota þessum voru mörg hundruð ferköntuð tré frá 12—18 álna löng, og frá 12—18 þml. á kant.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Flest voru trén úr furu — Pitch-pine, og svo nokkur eikartré. Um stærð flotans má nokkuð marka af því, að 18 al. löng trén stóðu upp á endann, sem bindingur til og frá í flotanum, og svo haganlega var hann byggður, að hvergi var hægt að fela hönd á millum trjánna, en fleiri þúsund smá eikarbútar frá 1—3 al. voru líka í flotanum, kallaðir tylftarstykki, til uppfyllingar í allar holur millum trjánna. Sagt var að floti þessi hefði átt að fara til Englands frá Ameríku, en að skipið hefði farist, sem hafði hann í drætti en sennilega hefur skipið verið komið upp undir Reykjanes er það fórst, því mikið af fataræflum og öðru dóti var á flotanum, sem sýndi að menn höfðu verið á honum, fyrir skemmstu, áður en hann bar að landi.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Uppboð var haldið á öllum trjánum, eftir að búið var að bjarga öllu undan sjó, en um verð á trjánum er mér ekki vel kunnugt, en dýrasta tréð fór á 12 dali (24 kr.) og keypti það Brandur heitinn Guðmundsson langafi Björns Þórðarsonar kaupmanns á Laugavegi 46.
Tugi ára var svo verið að saga niður í borðvið öll þessi tré, sem keypt voru mestmegnis af Vatnsleysustrandar, Rosmhvalaness, Grindavíkur og Hafnahreppsbúum; var allt reitt á hestum, þegar búið var að koma því í borð. Aðeins Hafnahreppsmenn fluttu flest trén heil sjóveg, höfðu stundum 5—6 tré aftan í skipinu í einu; var þá lagt á stað frá Reykjanesi um stórstraumsfjöru, og norðurstraumurinn svo látinn hjálpa til með róðrinum. Síðustu tré Hafnamanna voru sótt 1852, af Gunnari sál. Halldórssyni, föður séra Brynjólfs sál. mágs mín, sem var prestur að Stað í Grindavík.*

Jamestown (stóra strandið).

Vorið 1881, á hvítasunnumorgun rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki, var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinum, að það mundi mannlaust með öllu. Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á »Þórshöfn« skammt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverzlun í Keflavík.

Jamestown

Jamestown – ankeri í Höfnum.

Skipstjórinn hét Petersen; sagði hann okkur strax, sem skipið var strandað, að það væri amerískt timburskip, fullt stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra, sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofandekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefur skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hér við land.

Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist var um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið!

Jamestown

Ólafur Ketilsson við ankeri af Jamestown.

Og aldrei gleymi ég þeirri stund, þegar ég, þá 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inn á þilfari »Jamestown«, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma langa skipsbákn 1 Set ég hér stutta lýsingu á »Jamestown« hinu stærsta skipi, sem strandað hefur við Ísland, síðan landið byggðist.
»Jamestown« var þrímastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man ég ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því.
Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiptur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn þá eftir 50 ár blasir við augum mínum einn óskaplegi geimur, efsta lestin, þegar búið var loks að tæma hana, 60 faðma langa, og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, á af því nokkurn veginn gera sér grein fyrir, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.
Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn Willum aftasta og mið siglutrés, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða réttara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefur að öllum líkindum verið forðabúr skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m. m., og hrannir af spýtnabraki, póleruðu mahoni, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangaðúr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita, og mahoníþiljur voru sums staðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru og minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skipt í svefnherbergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar afborðbúnaði, eða neinu því, sem verðmæti var í.
Af öllu því tröllasmiði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrennt, sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutréð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afarsverumjárngjörðum, annað undirbugtspjótið, sem kallað er, 36 þml. á kant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get ég ekki gert neina ágiskun um, en ég vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hékk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). —

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum

Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hana úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brennt bréf hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mélaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæva af landinu, kom um sumarið til þess að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur ! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokk skipsins.
Eftir að »Jamestown« strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem enn þá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir félagar mikið af verkafólki hér, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun, þótti þá óheyrilega hátt kaup, og allt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskvöldi. Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur i uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þekktust ekki tálsnörur núlímans, bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!

JamestownHvað margir »Loggortu«farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man ég ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum flotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft frá 12—20 plankar á hvern mann, í helmingaskiptum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnanstormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600—800 st. í einu!
Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu. í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt í sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10—20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd 6—11 tom. Kristján sál. Jónsson, hæstaréttardómari, var þá sýslumaður i Gullbringusýslu, og hélt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25—50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú. Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr„ en skipið sjáltt með öllu timbri sem í því var í mið og neðstu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 301,00, en hann bauð í það fyrir föður minn og aðra suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.

Jamestown

Grjót úr ballest Jamestown.

Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og allt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Ég minnist þess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hét Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíulesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Allt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kg. til Englands af kopar. Það eina, sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af suðurnesjabændunum söfnuðu að sér af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hafði verið tekið.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir í Hraunu. Húsið var að mestu byggt úr viðum Jamestown.

Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afar mikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt enn þá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti þessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei séð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.

Jamestown

Ankeri úr Jamestown. Viktor Guðmundsson stendur hjá.

Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var ég oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sagast fram í briminu og hvolft þar úr sér á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hins vegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa i þessi 50 ár.

Ólafur Ketilsson

Ólafur Ketilsson í Höfnum.

Það eina, sem mér er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður Ólafsson, bóndi í Merkinesi náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola. Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fékk af silfri veit ég ekki, því ég sá það aldrei.
Eg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótal margt sé enn þá ósagt, en sökum þess að mér er ekki kunnugt um, að nokkur maður, allt til þessa hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi ég ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi.“
Sjá meira um Reimleika í Valahnúkshelli í tengslum við „Reykjanesstrandið mikla og einnig meira um Jamestown-strandið.

Heimildir:
-Ægir – 11. Tölublað (01.11.1930) – bls. 138-140.
-Ægir – 12. Tölublað (01.12.1930) – bls. 273-275.

Ásláksstaðir


Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd eru að mestu byggðir úr viðum Jamestown.

Bárufleygur

Í bókinni „Sjómannasaga“ eftir Vilhjálm Þ. Gíslason, segir m.a. frá Oddi V. Gíslasyni: „Enginn maður ljet meira til sín taka öryggismál sjómanna á erfuðustu árum þilskipanna en sjera Oddur V. Gíslason að Stað í Grindavík (f. 8. apríl 1836, d. 10. jan. 1911).

Oddur V. Gíslason

Oddur var einkennilega samsettur maður, ákafamaður og brennandi í andanum, síleitandi og reynandi nýjar úrlausnir. Hann var sjómaður og prestur og rithöfundur í senn. Eftir að hann hafði lokið embættisprófi í guðfræði gerðist hann ekki prestur, heldur sjómaður í fimmtán ár og reri kappsamlega, enda var hann karlmenni að burðum. Hann fjekst þá við ýmsar tilraunir til nýrra vinnubragða og vöruvöndunar á sjávarafurðum. Þannig fór hann að gufubræða þorskalýsi suður í Kirkjuvogi, hjá Vilhjálmi Hákonarsyni. Hann varð tengdafaðir Odds. Þau eignuðust fimmtán börn, hann og Anna í Kirkjuvogi. Þorskalýsi sitt sendi Oddur til Boulogne og fjekk verðlaun fyrir. Hann gerði fleiri tilraunir til umbóta á fiskimálum. Hann skrifaði t.d. um nauðsyn þangbrennslu. Hann skrifaði um nýjar veiðiaðferðir og verkunaraðferðir og brýnir fyrir mönnum vöruvöndun. En fyrst og fremst var hann talsmaður aukins öryggis á sjó og slysavarna og brautryðjandi þeirra mála. Hann fór verstöð úr verstöð til þess að tala við sjómenn um þessi mál og hann var þrumandi ræðumaður. Hann gaf af fátækt sinni út blöð og bæklinga um hagsmunamál sjómanna. Hann talaði og skrifaði, hvort sem menn vildu á hann hlýða eða ekki. Sumir yptu öxlum, aðrir reyndu ráð hans og gafst vel. Landssjóður gaf út ágrip sumra erinda hans. Menn gengu í fjelögin, sem hann kom á í verunum, bjargráðanefndirnar, sem hann stofnaði til þess að beita sjer fyrir slysavörnum. Þær áttu að kenna mönnum að hafa góða áttavita, lýsispoka, bárufleyga og kjalfestu. Rit hans voru tvennskonar, fræðirit og hvatningar. Hann skrifaði ritling um „Leiðir og lendingar í fiskiverum Íslands“ (1890). Hann samdi dálitla kenslubók í ensku (1863), einhverja þá fyrstu, sem hjer var samnin, en hann var góður enskumaður og fylgdarmaður enskra ferðamanna. Þá skrifaði hann smáritasafn um „Fiskiveiðamál“, um síld til beitu og fæðu, um lóðir, sem væru landsstoð, en heimska að afnema þær. Þá skrifaði hann um „Líf og lífsvon sjómanna“. Þar talar hann um lýsið sem bjargráð í sjáfarháska, um áttavita og loftþyngdarmæli, skiftispjöld, andþófsstjóra og kjalfestupoka og um formensku og í ofanálag  um saltfiskverkun.

Sjera Oddur

Um þessi mál og önnur áþekk gaf hann einnig út tímarit, „Sæbjörgu“, en hafði ekki bolmagn til að halda því úti nema eitt ár (1892). Hann var trúhneigður maður og komst snemma í kynni við enska kristilega sjómannastarfssemi. Þaðan mun hann hafa fengið einhverjar hugmyndir sínar. Á vegum ensks smáritafjelags gaf hann út ritlingana; „Hjálpræðisorð“. Löngu seinna þegar hann var kominn til Ameríku, fór hann að lækna með yfirlagningu handa. Hann hafði alla tíð áhuga á lækningum og fór að lesa læknisfræði á gamals aldri vestanhafs, og varð þar læknir, skömmu áður en hann dó. Hann hafði farið þangað á hálfgerðum flótta undan vonbrigðum og fátækt, og gerst prestur í Nýja Íslandi 1894. Er hann undi ekki hafti embættisstarfanna þar fremur en heima og gerðist farandpredrikari og læknir.
Sjera Oddur kom ýmsu góðu til leiðar með starfsemi sini hjer heima, enda naut hann ýmislegrar aðstoðar góðra manna, þó að aðrir tækju honum fálega. Í Sæbjörgu stendur á einum stað, að nokkrir menn höfðu „orðið til þess að spilla fyrir viðleitni“ sjera Odds „og tekist það furðanlega. Þessir menn náðu samt ekki stjórn úr hendi hans, sem öllu ræður, og sem leyfði sjera Oddi að komast allra sinna ferða“. Sjera Oddur talaðai og lifði í trausti trúarinnar. Hann var snortinn af enskum trúboðsanda og naut mikils stuðnings í starfi sínu frá enskum skoðanabræðrum. Hjer heima fjekk hann einnig styrk og aðstoð, einkum frá kaupmönnum. Helsti styrktarmaður hans var H. Th. Thomsen og minnist Oddur hans með virðingu og þakklæti. Duus hjálpaði honum einnig og um skeið naut hann ofurlítilla amtsstyrkja. 1890 ljetu ýmsir kaupmenn hann fá þúsund krónur í farareyri um fiskiverin. Skyldi hann einkum hvetja menn til framfara í fiskverkun og gerði hann það ætíð.
Embætti sínu mun sjera Oddur hafa gegnt af alúð, fyrst í Lundi í Borgarfirði, síðan í Grindavík frá 1878 til ’94. Grindavík var þá lítið og fremur fátækt fiskiver. Útvegsbændur voru þar (1892) átján og ýmsir ágætir sjósóknarar. Búðir voru þar fjórtán. Sjera Oddur mældi þær og komst að því, að sú minsta var 411 tengingsfet. Þar voru fjórir menn, eða húsrúmið var 102 tengigsfet á mann. Stærsta búðin var 1620 tengingsfet og voru þar fimm menn og var því meira en þrisvar sinnum rýmra þar en í minstu búðinni. Fjórir útvegsbændur höfðu sjómenn í heimahúsum sínum, tveir í timburhúsum og tveir í baðstofum. Prestsetrið mun þá hafa verið heldur lítið og ljelegt. Sjera Oddur stundaði sjó jafnframt prestskap sínum og var duglegasti formaður, áræðinn og ærðulaus.

Verbúð

Sagan segir, að einlægt sneri hann hiklaust heim úr róðri og tafarlaust ef til hans var leitað um embættisverk. Var þá breidd hvít voð á þekjuna á bænum og sást af sjó, þegar gestur kom og vitjaði prests. Hann þótti snajll ræðumaður, vel orði farinn og heitmál,,, enda ákafamaður að hverju sem hann gekk og einlægur, en kvikur nokkuð.
Líf hans var einkennilegt sambland sjósóknarerfiði og basli og þrá til andlegs lífs, sambland af guðrækni og áróðri. Þegar hann skrifar á móti afnámi lóðanotkunar, biður hann menn að hugsa þetta mál samviskusamlega, „hvort þjer aftakið nú ýsulóðina“, og „biðjið guð að leiðbeina yður, eins og hann gefur veiðina, eins gefur hann líka vitið ef hann er beðinn“. Blað sitt, Sæbjörgu, sem hann kallar bjargráðarblað fyrir sjómenn, lætur hann „leggja upp í Jesúnafni til framsóknar og varnar bjargráðamálum sjómanna á Íslandi“…

Bátur og haf

Sjera Oddur í Grindavík gat talað eins og sjómaður við sjómann. Hannn varð fyrir áhuga og sjerkennilegan persónuleik ímynd nýrra fjelagsmálahreifinga og framfara. Hann hugsaði ekki einungis um stofnun bjargráðanefndanna, en ráðgerði einnig stofnun sjómannafjelaga til að „tryggja líf og atvinnu sjómanna á allan hátt“. Í þeim tilgangi mælti hann með notkun þilskipa og skrofaði um það, að bátarnir væru og litlir. Hann gerði einnig ráð fyrir því að stofna sjómannaráð fyrir alt Ísland. Frumvarp til laga um þetta er birt í Sæbjörgu…

Bárufleygur

Bárufleygur.

Sjera Oddur í Grindavík stóð ekki einn uppi með þessi áhugamál sín. Sumum þeirra hreyfðu aðrir samhliða honum eða jafnvel á undan honum. Tryggvi Gunnarsson hafði skrifað um gildi lýsisins til bjargráða 1882…
Bárufleygur var, eftir lýsingu sjera Odds sjálfs, holbauja, líkust sykurtopp í lögun, og tók 8 til 10 potta af lýsi. Í botninum voru eitt til fjögur smágöt, auk sponsgats. Þessir bárufleygar voru gerðir úr trje, járni eða blikki, Önnur samskonar lýsistæki til að lægja sjó, voru ilir og lábrjótur. Ilinn (borðili og stafnili) var þríhyrndur strigapoki, sem tók 2 til 4 potta af lýsi. Lábrjótur var sveigur, mettaður lýsi, eða tappalausar flöskur, fyltar lýsi. Tækjum þessum kom sjera Oddur á ýms skip og útskýrði notkun þeirra, s.s. það, hvernig bárufleyginn skyldi nota í undanhaldi, mótróðri, flatskellu og beitivindi. en það var gömul reynsla, sem sjera Oddur nefnir, að þegar lifur brákaði á sjó, lægði öldur. Höfðu hvalveiðimenn helst hagnýtt sjer þetta.
Upp úr þeirri hreifingu, sem sjera Oddur vakti, spruttu smásaman með atbeina annarra, ýmsar umbætur í öryggis- og tryggingarmálum. Hún varð einnig vísir að öðru, því að upp fóru að rísa stjettasamtök eða fjelög um hagsmunamál þeirra, sem að útvegi unnu, einkum í bæjunum. Ýmiskonar fjelagslíf þróaðist því meira, sem margmennið óx í bæjunum…“

Heimild:
Vilhjálmur Þ. Gíslason, Sjómannasaga, 1945, bls. 382-388.

Oddur

Hinrik í Merkinesi

Rætt við Hinrik í Merkinesi, 85 ára, um veiðar, sjómennsku, skipasmíðar o. fl.

Merkines

Í Merkinesi.

Hinrík í Merkinesi, er hann nefndur í daglegu tali en heitir fullu nafni Vilhjálmur Hinrík Ívarsson. Vegna þeirra sem ekki eru kunnugir á Suðurnesjum er rétt að taka fram að jörðin Merkines er skammt fyrir utan Hafnir en Hafnir eru vestan Miðnesheiðar. Fyrir utan Merkines eru jarðirnar Kalmarstjörn og Junkaragerði, sögufræg býli, en svo tekur við hraun og sandur og verður að fara allt út á Reykjanes til að finna grænan bala. Úti í hafinu trónar Eldey við sjóndeildarhring – Hinrík skírði dóttur sína Eldey, í höfuðið á eynni, og Elly Vilhjálms var um eitt skeið ein kunnasta söngkona landsins. Vilhjálmur heitinn sonur hans, flugmaður hjá Arnarflugi, var einnig kunnur fyrir söng. Maron sonur hans hlaut útþrána í vöggugjöf og hefur farið um víða veröld og er nú búsettur í Ástralíu en þangað fór hann frá Suður-Ameríku um Bandaríkin. Þá eru tveir synir þeirra hjóna ótaldir, þeir Sigurjón og Þóroddur, sem báðir eru búsettir hér á landi. Þau Hinrík og kona hans, Hólmfríður Oddsdóttir, hafa lengi átt heima í Merkinesi og ég byrja á því að spyrja Hinrík hvort hann hafi kannski alltaf átt þar heima.
„Nei, ég er Eyrbekkingur en fæddur í Grímsnesi þar sem foreldrar mínir voru vinnuhjú hjá Jóni Sigurðssyni á Búrfelli. Faðir minn var jafnframt formaður í Þorlákshöfn. Síðar gerðist hann skipsformaður fyrir Lefolii-verzlun, og var með áttæringinn Vonina frá Þorlákshöfn allt til 1913. Eftir að faðir minn lét af formennsku fyrir Lefolii-verzlun, var hann fenginn til formennsku á teinæring er gera skyldi út frá Herdísarvík. En það var alveg dauðadæmt fyrirtæki frá upphafi því landtaka var þar svo slæm. Ég átti að vera landmaður hjá þeim, en lendingarskilyrðin voru svo vond þarna að þeir urðu að gefast upp á þessari útgerð eftir þrjár vertíðar. Ég gerðist þá vinnumaður hjá Þórarni bónda í Herdísarvík og var þar næstu 3 árin.

Merkines

Í Merkinesi.

Jú, Lefolii-verzlunin hafði mikil umsvif á Eyrarbakka – sveitamenn verzluðu svo mikið þar. En svo fór þetta að breytast fljótlega eftir aldamótin, og verzlunin byrjaði að færast til Reykjavíkur – prísarnir voru víst lægri þar.
En í minni bernsku var mikil stasjón á Bakkanum. Það voru þarna a.m.k. tveir menn sem stunduðu akstur með hestvögnum: þeir Ólafur í Sandprýði og Loftur í Sölkutóft, og alltaf var nóg að gera hjá þeim við aksturinn.
Þórarinn í Herdísarvík átti um 400 fjár og var fénu þar haldið til beitar allan veturinn. Það var alltaf byrjað á að reka upp úr fjörunni á morgnana því féð mátti ekki nærast á eintómum þara. Þarna er gott beitiland víða um hraunið og gott að halda fé til haga. Við misstum tvö lömb eitt árið man ég, þrjú annað og ekkert það þriðja, – þannig að þú sérð að skepnurnar hafa ekki verið illa haldnar. Þarna er mikið og gott fjárland, féð komst hvergi að sjó nema heim við bæinn, því alls staðar annars staðar er berg með sjó. Jú, jú, þetta kostaði óskaplegar göngur þetta kindarag. Tveggja tíma ganga er út í Krísuvík og um einn tími út í Vogsósa.
Ég þurfti að fara í allar Krísuvíkurréttir og eins Gjárréttir fyrir ofan Hafnarfjörð. Þá skellti ég mér bara beinustu leið yfir fjallið. Þarna var ég í 3 ár, þar til ég var 19 ára. Já, maður var léttur á sér hér í gamla daga og lét sér ekki muna um að skreppa bæjarleið.
Svo fór ég til Hafnarfjarðar – var vinnumaður á Jófríðarstöðum hjá Þorvarði Þorvarðssyni, en þar var ég aðeins í eitt ár. Síðan lá leiðin til Reykjavíkur þar sem ég lærði trésmíði hjá Bjarna Símonarsyni húsasmið. Þar kynntist ég konunni minni og giftum við okkur árið 1923. Það var nóg að gera í trésmíðaiðninni – þó tók ég ekki að mér nein meiriháttar verk til að byrja með heldur var í viðgerðum og ýmsu snatti.

Merkines

Tóft í Merkinesi.

Við bjuggum í Reykjavík fyrstu árin og fluttum ekki hingað í Hafnir fyrr en 1933. Ég hafði þó unnið hér töluvert í bátaviðgerðum og byggt hér 4 hús, þannig að við vorum vel kunnug hér áður en við fluttum hingað.
Það mun hafa verið árið 1930 að ég smíðaði fyrsta áttæringinn minn, og var svo með hann héðan í 3 vertíðir – eins frá Kirkjuvogi og tvær héðan frá Merkinesi. Um það leyti dó hann Guðmundur sem bjó hér á Vesturbænum og talaðist svo til milli mín og erfingjanna að ég fengi jörðina keypta.
Mönnum hefur líkað vel þessir bátar sem ég hef smíðað – þetta hafa verið blendingar af árabátum og vélbátum, allir staðið sig vel held ég. Ég lærði aldrei skipasmíðar sérstaklega en á Eyrarbakka voru miklir skipasmiðir eins og t.d. Steinn í Einarshöfn – og ég hafði þetta svona í blóðinu. Ég gerði mér far um að ná laginu hans Hallgríms á Kalastöðum á Stokkseyri – það voru úrvals skip sem hann smíðaði.
Annars hef ég farið mikið eftir því sem maður hefur fundið og séð. Ég tel mig hafa haft töluverða tilfinningu fyrir þessu, enda lagði ég mig fram um að glöggvar mig á eiginleikum báta, bæði í landi og á sjó. Og ég er ennþá að smíða báta þótt það séu bara smá kríli núorðið – það eru margir sem vilja eiga eftirlíkingar af gömlu áraskipunum, og ég hef ekki undan að smíða. Sérðu hvernig þetta módel hérna er lagað við stafninn að framan – það skiptir afar miklu hvernig byrðingurinn er lagaður. Smá reiging á bógnum getur gert gæfumuninn hvernig sjóskip báturinn verður. Sé stafninn með réttu lagi fara þeir mjúkt í ölduna framan og setjast hæfilega á skutinn. Ef rétta lagið hefur ekki náðst fara bátarnir að höggva þegar eitthvað er að sjó, og geta jafnvel verið hættuleg skip, jafnvel hreinir manndrápsbollar. Alls smíðaði ég níu báta og var sá stærsti 7 tonn og svo eru það ein 9 hús sem ég hef byggt hér í Höfnum.“
– Þú varst hreppstjóri hér í Höfnum og stundaðir hér formennsku lengi.

Merkines

Merkinesvör.

„Já, ég var hreppstjóri hér frá því árið 1956, að mig minnir, þar til ég var áttræður. Þá greip ég tækifærið og lét af starfinu. Ég réri hér á hverri einustu vertíð frá 1931 en hætti 1978. Þá var róið út með Stafnesi eða fyrir Reykjanes, allt inn að Háleyjabungu og Staðarbergi. Þetta gat verið einn vökusprettur ef gott verðu hélst marga daga samfleytt og þótti ekki gott nema farnir væru tveir róðrar á sólarhring að sumrinu.
Þetta er fornfræg veiðistöð hér í Höfnum og héðan hafa róið fræknir formenn. Héðan réri Eldeyjar-Hjalti um eitt skeið, en það var löngu fyrir mína tíð. Þá var Eldeyjar-Hjalti svo fátækur að hann átti ekki heilan stakk og vantaði alveg ermina öðru megin. Þeir sögðu að hann hefði fært stakkinn til eftir því sem hann krusaði og haft heilu ermina áveðurs. Þetta var hörku karl en varð víst rembinn með aldrinum – það hefur sjálfsagt verið tíðarandinn öðrum þræði.
Framanaf voru alltaf einhverjir með mér á sjónum en svo réri ég mest einn síðustu árin. Flugvöllurinn breytti öllu hérna, það fóru allir að vinna þar og menn urðu svo kostbærir að maður hætti að fá nokkurn til að róa með sér. Lengi réri ég héðan úr Merkinesvörinni en svo var gerð bryggja í Höfnum og eftir það fór ég að róa þaðan. Það urðu margar ferðirnar hjá mér á hjóli hér á milli – að athuga með bátinn, maður þurfti alltaf að vera að athuga með bátinn. Nú er ég fyrir löngu hættur öllu sjógutli en maður gat þetta hér í gamla daga – þá gerðist maður mótoristi þegar vélarnar komu og kunni þetta allt saman.
Annars er hafsbotninn hérna útifyrir rannsóknarefni útaf fyrir sig. Það hafa orðið alveg hrikalegar breytingar á landinu hér frá landnámi, og sennilegt að mikið land, sem líklega hefur náð allt út að Eldey, hafi sigið í sæ. Í Íslendingasögunum stendur að landnámsmenn hafi siglt vestur með Reykjanesi þar til þeir höfðu opinn Hvalfjörð – og þá séðu að þeir hafa þá verið langt úti. Þá hefur Reykjanesið verið eitt gjósandi krap og mikið gengið á.

Merkines

Heimtröðin.

Það er grunnt hér út með öllu Reykjanesinu töluvert langt út, og er að jafnaði um 12 faðma dýpi. Svo snöggdýpkar, eins og farið sé fram af klettavegg og er þá um 30 faðma dýpi sem helzt langleiðina út í Eldey.
Þegar komið er svo sem þrjá fjórðu af leiðinni í Eldey tekur við hraunkargi í botninum og síðan kemur stallur þar sem dýpið er aðeins sex faðmar, en þar á milli er dýpið aftur um 30 faðmar, þar til kemur að Eldeyjargrunninu. Þarna hefur mikil landspilda sigið í sæ og hafa það verið ólitlar náttúruhamfarir.“
– Nú varst þú grenjaskytta hér í Hafnahreppi um langt skeið.
„Já, frá árinu 1948 stundaði ég grenjaskytterí og síðar minkaveiði. Ég veit um 14 greni hér á svæðinu og vann mest 4 greni á ári. Núna seinni árin höfum við ekki orðið vör við tófu hér í Hafnahreppi. Ég vorkenndi alltaf refnum – en minkinn hef ég hatað og minkurinn er sú eina skepna sem ég hef haft gaman af að drepa. Það verður þó ekki á móti borið því sem hann Þórður Halldórsson frá Dagverðar á hefur sagt, „að þetta meindýr er til okkar komið í gegn um sali hins Háa Alþingis“. Minkurinn er grimmdarskepna – hann drepur til þess eins að drepa og nýtir ekki nærri alltaf það sem hann drepur. Drápsgirndin er alveg ótrúleg í honum, hann eyðir öllu fuglalífi og er sannkallað afkvæmi andskotans. Tófan vinnur hins vegar upp sína veiði og drepur ekki nema sér til matar. Ég komst upp í 63 minka mest um árið en nú verður ekki vart við mink hérna.“
– Hver heldurðu að sé skýringin á því?
„Ég hef tvær teoríur, en hvoruga get ég þó sannað. Sko, núna undanfarin tvö ár hefi ég gaumgæft landsvæðið hér umhverfis, og aldrei séð far eftir mink, hvorki í snjó eða sandi. Svo virðist sem minkurinn sé hér alveg horfinn. Á sama tíma gengur farsótt í minkabúunum þannig að þeir þurftu að farga hverjum einasta mink. Gæti ekki verið að villiminkurinn hafi fengið þessa sömu veiki? Því þetta virðist gilda um landið allt, að menn verða lítið varir við mink. Vinur minn, Þór Jónsson í Fljótum, hefur veitt 90 minka mest um árið en í fyrra náði hann aðeins tveim. Hann hefur víst veitt eina sex í vor þannig að þeim er eitthvað að fjölga aftur.

Merkines

Brunnurinn.

Svo er það önnur teoría sem ég hef. – Hér á árum áður tóku menn það upp að eitra fyrir refnum og þótti öllum þjóðráð. Upp úr því fækkaði refnum mikið og þökkuðu menn það þessum aðgerðum. En ég er alls ekki á því að þessar aðgerðir hafi fækkað refnum. Athugaðu að á þessum tíma gekk hér einmitt mikið hundafár svo að heilu sýslurnar urðu hundlausar. Refurinn er mjög skyldur hundinum og hefur að minni hyggju smitast af sömu veiki og fækkað vegna þess.
Ég eitraði einu sinni fyrir ref hér í Hafnahreppi á 38 stöðum – með fjallahringnum allt frá Sýrfelli til Hvassahrauns. Ég merkti staðina alla en hræin höfðu aðeins verið snert á tveimur, og ég er alls ekki viss um að það hafi verið tófa sem það gerði. Ég var með afar glöggan hund og hann hafði ekki veður af neinu tófuhræi á allri þessari leið. Ég tel því að fækkun refs á þessum tíma hafi stafað af sjúkdómi í refastofninum en ekki af þessum eitrunum.
Það er nú svona með það sem maður er hneigður fyrir – það lifa margar minningar frá þessum veiðum í gegnum árin. Það skiptir öllu á minkaveiðum að hafa góðan hund. Ég var allaf með byssu til taks þegar ég var á ferðinni ef ég rækist á einhvern af þessum andskotum. Bezt reyndist mér haglaskammbyssa sem ég hef lengi átt en hef nú lánað frá mér.
Einu sinni vann ég þó mink byssulaus – var þá að koma inn úr Kirkjuvogi og verð var við mink í malarkambi hér á Hnausendunum. Ég var með góðan hund með mér og finnur hann strax hvar minkurinn er undir. Ég var ekki einu sinni með hníf og gat ekki farið heim eftir byssu því þá hefði minkurinn sloppið á meðan. Þarna er kastmöl og fer ég að róta til nokkrum steinum þar sem hundurinn ólmaðist og sé þá í skottið á minkinum. Ég bregð þá við, gríp í skottið og kasta honum í háaloft, en svo mikil var snerpan í hundinum að hann greip minkinn á fluginu og allt að því klippti hann í tvennt með kjaftinum.“

Merkines

Möngutóft.

Nú berst talið að ótrúlegum veiðisögum og Hinrík segir mér veiðisögu sem hlýtur að teljast ótrúleg.
„Ég var einu sinni í heimsókn hjá honum séra Lárusi Arnórssyni í Miklabæ. Við vorum að tala um veiðar og ég segi sem svo: „Mikið andsk . . . hefur þetta gengið illa hjá honum Gísla að miss svona þennan stóra fisk.“ Þá segir séra Lárus: „Þegar menn eru að segja þessar veiðisögur ýkja þeir að minnsta kosti til helminga.“ Ég varð reiður við og sagðist skyldi segja ótrúlega veiðisögu sem engu að síður væri sönn, og sagði honum þessa sögu:
Sumrin 1922 og 1923 var ég við stangveiði við Kaldárhöfða við Úlfljósavatn. Þar veiddist oft vel, upp í 111 á einum degi. Þar er bezt veiðin snemmsumars og veiðist þá þriggja punda bleikja, en nú var komið fram í ágúst og veiddist bara depla og dauft við veiðina. Einhvern daginn fer ég þó út á ána – það þurfti að sperra sig töluvert á móti straumnum til að komast á góðan veiðistað og leggjast þar við dreka. Nú, þarna set ég í allvænan fisk og verð að sleppa drekanum svo hann slíti ekki fyrir mér. Svo kem ég fisknum alveg að borðstokknum og sé þá að hann er kræktur í gegnum fremri bakuggann. En þegar ég ætla að innbyrða fiskinn sé ég að háfurinn hafði gleymst í landi. Ég reyni þá að ná fisknum með höndunum en hann sleppur frá mér.
Þegar ég kem í land gengur mér auðvitað illa að sannfæra hina um að ég hafi misst þennan stóra fisk. Daginn eftir fer ég svo aftur út – og hvað heldurðu gerist þá. Set ég ekki aftur í vænan fisk á sama stað og í þetta skipti var háfurinn með í bátnum. Mér brá þó heldur betur í brún þegar ég fór að skoða fiskinn – fremri bakugginn var rifinn að endilögnu, og þarna var kominn sami fiskurinn og ég hafði sett í daginn áður.

Merkines.

Garður.

Sr. Lárus gapti alveg þegar ég sagði honum þetta – hann sagði ekki eitt einasta orð og ég veit ekki enn hvort hann hefur trúað mér.“
– Hefurðu ekki lent í ýmsu misjöfnu til sjós?
„Jú, það var nú sitthvað sem kom fyrir. Einu sinni hafði ég næstum álpast fyrir borð . – það er ekki segjandi frá því. . . . Jæja, það vildi nú svona til. Það var stýrishús á bátnum, og þilfar út í lunninguna frá því örðu megin. Þarna sem ég var hagar svo til að snardýpkar og var lygnt fyrir innan en töluverð ólga utar enda allmikill straumur. Ég var að kippa inn á lygnuna og ætlaði að fara að fá mér í nefið, en þá tek ég eftir því að ég hef gleymt bauknum frammí.
Nú get ég ekki á mér setið og ákveð að skjótast fram í bátinn og ná í baukinn. Það var handrið meðfram stýrishúsinu og held ég mér í það en þegar ég ætla að fara niður í pontuna skriplast mér fótur . . . þá kemur kröpp alda á bátinn og skiptir það engum togum að ég missi fótanna og fer í sjóinn. Svo einstaklega vildi þó til að í fallinu næ ég taki á borðstokknum og gat hangið þar. „Er það nú búið lagsi minn,“ sagði ég þá við sjálfan mig – ég fór alveg í sjóinn upp fyrir haus, en þegar báturinn rétti sig af og valt yfir á hina síðuna, gat ég vegið mig upp og komist um borð aftur.“
– En hvað um refaveiðarnar, á þeim hefur sitthvað borið við er það ekki?
„Jú, það er ekki fyrir aðra en vana menn að sjá við tófunni – hún er svo klækjótt og vör um sig. Svo hafa þau svo ólíkt lundarfar þessi dýr, þau eru rétt eins og menn hvað það varðar. Ég hef oft alið yrðlinga hér sumarlangt og þau geta orðið afskaplega gæf þessi dýr, en svo er eins og önnur sé ómögulegt að temja. Ég var einu sinni með högna og læðu eitt sumar. Högninn var alveg forhertur – virkilegt óartarkvikindi, kom aldrei fram í búrið þegar ég gaf honum og byrjaði aldrei að éta fyrr en ég var farinn. Læðan var aftur afskaplega blíð og vinaleg. Einu sinni ól ég yrðling hérna heimavið og tókst að temja hann. Það var maður sem hét Sólmundur og bjó í Sandgerði sem fékk hann hjá mér og átti í tvö ár. Rebbi elti hann um allt eins og hundur og lagðist aldrei í strok. Það er hægt að temja refinn furðanlega, en þeir veriða aldrei allra og það er alltaf grunnt á villidýrseðlið í þeim.
Hver grenjaferð saga útaf fyrir sig.

Merkines

Varða.

Oft hef ég tekið það nærri mér að vinna greni og sárvorkennt þessum greyjum. Maður verður að spila á þessar helgustu tilfinningar, móðurástina, og það er heldur óskemmtilegt. En þau mega ekki vaxa manninum yfir höfuð.
Annars er gaman að tilstandinu við þetta, og má segja að hver grenjaferð sé saga útaf fyrir sig. Einu sinni sem oftar var ég búinn að vinna bæði læðuna og yrðlingana á greni. Rebba skaut ég í munnanum en hann var það innarlega að ég náði honum ekki. Ekki var hann alveg dauður og gat skreiðst innar í grenið með því að krafsa með löppunum. Nú, ég gat lítið aðhafst og sneri heim við svo búið. Þegar ég kem til hreppstjórans til að fá greitt segi ég honum að ég hafi unnið grenið en misst stegginn inn. „Það er nú venja að sýna þá,“ sagði þá hreppstjórinn.
Nú, ég fer aftur af stað nokkrum dögum síðar, og þá eru þau í för með mér Maron sonur minn sem var átta ára og Eldey dóttir mín. Ég hafði með mér stöng, kerti, band og sitthvað fleira sem að gagni gat komið við að ná refnum. Þegar við komum að grenismunnanum sést hvergi til rebba og var þar myrkt innifyrir. Það verður að ráði hjá mér að láta strákinn skríða inn en bind fyrst kaðalinn um lappirnar á honum. Hann skríður svo inn og lýsir fyrir sér með kertinu sem ég hafði fest framaná prikið, en mér er um og ó ef eitthvað líf væri í refnum sem þá gat bitið illa. Nú, ég öskra á strákinn, hvort hann sjái nokkuð refinn. Hann öskrar á móti að þarna sé hann og virðist dauður. Ég öskra á strákinn að taka kertið og setja það fram á prikið og bera að nefninu á rebba – því þá hlaut hann að sýna viðbrögð. Nú stráksi gerir þetta og reynist refurinn steindauður. Nú, ég dreg svo strákinn út úr greninu með kaðlinum og strákurinn refinn. Þannig lauk þeirri viðureign.

Bragi Óskarsson tók viðtalið.

Hinrik í Merkinesi

Hinrik ásamt fjölskyldu.