Bárufleygur

Í bókinni “Sjómannasaga” eftir Vilhjálm Þ. Gíslason, segir m.a. frá Oddi V. Gíslasyni: “Enginn maður ljet meira til sín taka öryggismál sjómanna á erfuðustu árum þilskipanna en sjera Oddur V. Gíslason að Stað í Grindavík (f. 8. apríl 1836, d. 10. jan. 1911).

Oddur V. Gíslason

Oddur var einkennilega samsettur maður, ákafamaður og brennandi í andanum, síleitandi og reynandi nýjar úrlausnir. Hann var sjómaður og prestur og rithöfundur í senn. Eftir að hann hafði lokið embættisprófi í guðfræði gerðist hann ekki prestur, heldur sjómaður í fimmtán ár og reri kappsamlega, enda var hann karlmenni að burðum. Hann fjekst þá við ýmsar tilraunir til nýrra vinnubragða og vöruvöndunar á sjávarafurðum. Þannig fór hann að gufubræða þorskalýsi suður í Kirkjuvogi, hjá Vilhjálmi Hákonarsyni. Hann varð tengdafaðir Odds. Þau eignuðust fimmtán börn, hann og Anna í Kirkjuvogi. Þorskalýsi sitt sendi Oddur til Boulogne og fjekk verðlaun fyrir. Hann gerði fleiri tilraunir til umbóta á fiskimálum. Hann skrifaði t.d. um nauðsyn þangbrennslu. Hann skrifaði um nýjar veiðiaðferðir og verkunaraðferðir og brýnir fyrir mönnum vöruvöndun. En fyrst og fremst var hann talsmaður aukins öryggis á sjó og slysavarna og brautryðjandi þeirra mála. Hann fór verstöð úr verstöð til þess að tala við sjómenn um þessi mál og hann var þrumandi ræðumaður. Hann gaf af fátækt sinni út blöð og bæklinga um hagsmunamál sjómanna. Hann talaði og skrifaði, hvort sem menn vildu á hann hlýða eða ekki. Sumir yptu öxlum, aðrir reyndu ráð hans og gafst vel. Landssjóður gaf út ágrip sumra erinda hans. Menn gengu í fjelögin, sem hann kom á í verunum, bjargráðanefndirnar, sem hann stofnaði til þess að beita sjer fyrir slysavörnum. Þær áttu að kenna mönnum að hafa góða áttavita, lýsispoka, bárufleyga og kjalfestu. Rit hans voru tvennskonar, fræðirit og hvatningar. Hann skrifaði ritling um “Leiðir og lendingar í fiskiverum Íslands” (1890). Hann samdi dálitla kenslubók í ensku (1863), einhverja þá fyrstu, sem hjer var samnin, en hann var góður enskumaður og fylgdarmaður enskra ferðamanna. Þá skrifaði hann smáritasafn um “Fiskiveiðamál”, um síld til beitu og fæðu, um lóðir, sem væru landsstoð, en heimska að afnema þær. Þá skrifaði hann um “Líf og lífsvon sjómanna”. Þar talar hann um lýsið sem bjargráð í sjáfarháska, um áttavita og loftþyngdarmæli, skiftispjöld, andþófsstjóra og kjalfestupoka og um formensku og í ofanálag  um saltfiskverkun.

Sjera Oddur

Um þessi mál og önnur áþekk gaf hann einnig út tímarit, “Sæbjörgu”, en hafði ekki bolmagn til að halda því úti nema eitt ár (1892). Hann var trúhneigður maður og komst snemma í kynni við enska kristilega sjómannastarfssemi. Þaðan mun hann hafa fengið einhverjar hugmyndir sínar. Á vegum ensks smáritafjelags gaf hann út ritlingana; “Hjálpræðisorð”. Löngu seinna þegar hann var kominn til Ameríku, fór hann að lækna með yfirlagningu handa. Hann hafði alla tíð áhuga á lækningum og fór að lesa læknisfræði á gamals aldri vestanhafs, og varð þar læknir, skömmu áður en hann dó. Hann hafði farið þangað á hálfgerðum flótta undan vonbrigðum og fátækt, og gerst prestur í Nýja Íslandi 1894. Er hann undi ekki hafti embættisstarfanna þar fremur en heima og gerðist farandpredrikari og læknir.
Sjera Oddur kom ýmsu góðu til leiðar með starfsemi sini hjer heima, enda naut hann ýmislegrar aðstoðar góðra manna, þó að aðrir tækju honum fálega. Í Sæbjörgu stendur á einum stað, að nokkrir menn höfðu “orðið til þess að spilla fyrir viðleitni” sjera Odds “og tekist það furðanlega. Þessir menn náðu samt ekki stjórn úr hendi hans, sem öllu ræður, og sem leyfði sjera Oddi að komast allra sinna ferða”. Sjera Oddur talaðai og lifði í trausti trúarinnar. Hann var snortinn af enskum trúboðsanda og naut mikils stuðnings í starfi sínu frá enskum skoðanabræðrum. Hjer heima fjekk hann einnig styrk og aðstoð, einkum frá kaupmönnum. Helsti styrktarmaður hans var H. Th. Thomsen og minnist Oddur hans með virðingu og þakklæti. Duus hjálpaði honum einnig og um skeið naut hann ofurlítilla amtsstyrkja. 1890 ljetu ýmsir kaupmenn hann fá þúsund krónur í farareyri um fiskiverin. Skyldi hann einkum hvetja menn til framfara í fiskverkun og gerði hann það ætíð.
Embætti sínu mun sjera Oddur hafa gegnt af alúð, fyrst í Lundi í Borgarfirði, síðan í Grindavík frá 1878 til ’94. Grindavík var þá lítið og fremur fátækt fiskiver. Útvegsbændur voru þar (1892) átján og ýmsir ágætir sjósóknarar. Búðir voru þar fjórtán. Sjera Oddur mældi þær og komst að því, að sú minsta var 411 tengingsfet. Þar voru fjórir menn, eða húsrúmið var 102 tengigsfet á mann. Stærsta búðin var 1620 tengingsfet og voru þar fimm menn og var því meira en þrisvar sinnum rýmra þar en í minstu búðinni. Fjórir útvegsbændur höfðu sjómenn í heimahúsum sínum, tveir í timburhúsum og tveir í baðstofum. Prestsetrið mun þá hafa verið heldur lítið og ljelegt. Sjera Oddur stundaði sjó jafnframt prestskap sínum og var duglegasti formaður, áræðinn og ærðulaus.

Verbúð

Sagan segir, að einlægt sneri hann hiklaust heim úr róðri og tafarlaust ef til hans var leitað um embættisverk. Var þá breidd hvít voð á þekjuna á bænum og sást af sjó, þegar gestur kom og vitjaði prests. Hann þótti snajll ræðumaður, vel orði farinn og heitmál,,, enda ákafamaður að hverju sem hann gekk og einlægur, en kvikur nokkuð.
Líf hans var einkennilegt sambland sjósóknarerfiði og basli og þrá til andlegs lífs, sambland af guðrækni og áróðri. Þegar hann skrifar á móti afnámi lóðanotkunar, biður hann menn að hugsa þetta mál samviskusamlega, “hvort þjer aftakið nú ýsulóðina”, og “biðjið guð að leiðbeina yður, eins og hann gefur veiðina, eins gefur hann líka vitið ef hann er beðinn”. Blað sitt, Sæbjörgu, sem hann kallar bjargráðarblað fyrir sjómenn, lætur hann “leggja upp í Jesúnafni til framsóknar og varnar bjargráðamálum sjómanna á Íslandi”…

Bátur og haf

Sjera Oddur í Grindavík gat talað eins og sjómaður við sjómann. Hannn varð fyrir áhuga og sjerkennilegan persónuleik ímynd nýrra fjelagsmálahreifinga og framfara. Hann hugsaði ekki einungis um stofnun bjargráðanefndanna, en ráðgerði einnig stofnun sjómannafjelaga til að “tryggja líf og atvinnu sjómanna á allan hátt”. Í þeim tilgangi mælti hann með notkun þilskipa og skrofaði um það, að bátarnir væru og litlir. Hann gerði einnig ráð fyrir því að stofna sjómannaráð fyrir alt Ísland. Frumvarp til laga um þetta er birt í Sæbjörgu…

Bárufleygur

Bárufleygur.

Sjera Oddur í Grindavík stóð ekki einn uppi með þessi áhugamál sín. Sumum þeirra hreyfðu aðrir samhliða honum eða jafnvel á undan honum. Tryggvi Gunnarsson hafði skrifað um gildi lýsisins til bjargráða 1882…
Bárufleygur var, eftir lýsingu sjera Odds sjálfs, holbauja, líkust sykurtopp í lögun, og tók 8 til 10 potta af lýsi. Í botninum voru eitt til fjögur smágöt, auk sponsgats. Þessir bárufleygar voru gerðir úr trje, járni eða blikki, Önnur samskonar lýsistæki til að lægja sjó, voru ilir og lábrjótur. Ilinn (borðili og stafnili) var þríhyrndur strigapoki, sem tók 2 til 4 potta af lýsi. Lábrjótur var sveigur, mettaður lýsi, eða tappalausar flöskur, fyltar lýsi. Tækjum þessum kom sjera Oddur á ýms skip og útskýrði notkun þeirra, s.s. það, hvernig bárufleyginn skyldi nota í undanhaldi, mótróðri, flatskellu og beitivindi. en það var gömul reynsla, sem sjera Oddur nefnir, að þegar lifur brákaði á sjó, lægði öldur. Höfðu hvalveiðimenn helst hagnýtt sjer þetta.
Upp úr þeirri hreifingu, sem sjera Oddur vakti, spruttu smásaman með atbeina annarra, ýmsar umbætur í öryggis- og tryggingarmálum. Hún varð einnig vísir að öðru, því að upp fóru að rísa stjettasamtök eða fjelög um hagsmunamál þeirra, sem að útvegi unnu, einkum í bæjunum. Ýmiskonar fjelagslíf þróaðist því meira, sem margmennið óx í bæjunum…”

Heimild:
Vilhjálmur Þ. Gíslason, Sjómannasaga, 1945, bls. 382-388.

Oddur