Færslur

Krýsuvíkurkirkja

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1969 var rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd undir fyrirsögninni “Daglegt brauð, sem drottinn gefur“. Í viðtalinu segir Þórarinn m.a. frá Árna Gíslasyni, sýslumanni í Krýsuvík, og Oddi V. Gíslasyni, presti á Stað í Grindavík:

Þórarinn Einarsson“Að þessu sinni tökum við tali gamlan mann suður með sjó. Hann hefur lengst ævi sinnar sótt deildan verð í greipar Ægis, hið daglega brauð, sem drottinn gefur sjómanninum — brauðið, sem við hinir viljum eignast hlutdeild í og Íslendingar fá vart nægju sína af.
En ekki hefur bátur vaggað honum á bárum allar ævistundir, og þess vegna berst talið að mörgu öðru en sjómennsku og fiskidrætti.
Hann kiprar dálítið augun og hleypir í brýnnar, þar sem hann situr andspænis okkur, líkt og hann hefur oft gert, þegar rýnt var í sortann, allkeikur og hressilegur, þó að mörg séu árin, sem hann á að baki sér. Þórarinn heitir hann, Einarsson, og á heima á Höfða á Vatnsleysuströnd.
— Hvar fæddist þú, Þórarinn?
— Ég fæddist í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík árið 1884. Þetta er hálfníræður maður, sem þið eigið tal við. Faðir minn, Einar Einarsson, bjó í Stóra-Nýjabæ, og þá voru í Krýsuvík fjórtán bæir, þar sem nú er enginn. Sá, sem öllu réði þar á bernskuárum mínum — það var Árni sýslumaður Gíslason.
— Var hann búinn að vera þar lengi?

Þórarinn Einarsson

Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir Höfða ca. 1940.

— Nei, hann kom að austan nokkrum árum áður en ég fæddist. Hann var sýslumaður Skaftfellinga í tæp þrjátíu ár og bjó þá á Kirkjubæjarklaustri. En svo brá hann á nýtt ráð, sextugur maður.
Hann keypti Krýsuvík og Herdísarvík og gerðist sjálfur bóndi í Krýsuvík. Ég man vel eftir Árna. Hann var lítill vexti, rauðbirkinn og með kragaskegg og enskt kaskeiti aftan á hausnum. Það hefur komið í staðinn fyrir sýslumannshúfuna, sem hann lengi var búinn að bera.
— Hann var mikill fjárbóndi, minnir mig, að ég hafi heyrt?
— Það mátti nú segja — hann var um tíma fjárflesti bóndi á öllu landinu. Hann rak tólf hundruð fjár af Klaustrinu, þegar hann fluttist til Krýsuvíkur. En ekki komu nema sex hundruð fullorðnar kindur til skila fyrsta haustið sem hann var í Krýsuvík. Það leitaði austur aftur, féð, vildi komast í átthagana. Ég hef heyrt, að sex kindur kæmust alla leið austur að Klaustri. En leiðin er löng og vatnsföll mörg, og það fórst víst margt eða lenti í villum.

Stóri-Nýibær

Nýibær í Krýsuvík.

— Hvernig líkaði valdsmanninum bóndastaðan?
— Hann var nú ekki neinn venjulegur bóndi. Þeir voru vanir að ráða, sýslumennirnir í þá daga, og Árni var ráðríkur. Hann gat orðið bráðvondur, og þá rauk hann út eða burt frá þeim, sem hann reiddist við. En eftir nokkrar mínútur kom hann aftur, og þá var honum runnin reiðin. Hann var hjúum sínum ákaflega góður húsbóndi og hafði sama fólkið svo árum skipti. Skammaði það aldrei — rauk bara út.
— Lét hann mikið að sér kveða í byggðarlaginu?

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

— Hann vildi láta alla í Krýsuvíkurhverfi sitja og standa eins og honum þóknaðist. Hann átti þetta allt — þetta voru eintómar hjáleigur, sem fylgdu heimajörðinni, höfuðbólinu. Körlunum þótti sem þeir hefðu ekki sama frelsi og áður, enda fór fljótt að fækka í sveitinni eftir að hann kom. Faðir minn hafði verið formaður hjá séra Oddi Gíslasyni á Stað í Grindavík áður en Árni kom, en nú varð hann að gerast formaður hjá honum. Hann skyldaði karlana til þess að róa hjá sér. Já — hann átti þetta allt saman.
— Hafði hann mikinn sjávarútveg?
— Mig minnir, að hann gerði út þrjú skip, og þau lét hann ganga frá Herdísarvík. Þá voru gerð út sex skip þaðan, svo að þar var þó dálítil verstöð. Sex skipshafnir — það var ekki svo lítill hópur.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær.

— Reri faðir þinn víða?
— Það var nú einkum í Grindavík. Í nokkur ár var hann hjá séra Kristjáni Eldjárn, afa forsetans okkar — hann var prestur á Stað í sjö eða átta ár. Það var vinsæll maður og skemmtilegur. Hann var ungur og glaðvær, þegar hann var í Grindavík, og ókvæntur — mig minnir, að hann hefði systur sína hjá sér ráðskonu. Frá Stað fór hann svo að Tjörn í Svarfaðardal, og þar ílentist hann. Séra Oddur tók við af honum, og hjá honum var pabbi formaður nokkrar vertíðir eins og ég sagði ykkur áðan.
— Var séra Oddur ekki formaður sjálfur?

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

— Hann reri tvær vertíðir með pabba, en seinna var hann sjálfur formaður. Hann sótti sjóinn, þó að hann væri prestur, eins og margir Grindavíkurprestar hafa gert. Og hann gerði út skip og báta. Frostaveturinn mikla, 1881, gaddagóuna svokallaða, var séra Oddur á bát með pabba. Eitt sinn sem oftar voru þeir á færum á sundinu fyrir utan Grindavík. Fiskurinn var ör, sílfiskur, en frostið hart og nokkur gjóla. Bátinn ísaði, svo að hann var orðinn allsokkinn. Þá vildi pabbi hætta að draga, en séra Oddur var ekki á því. „Daglegt brauð, sem drottinn gefur, Einar minn“, sagði hann. Frá því vildi hann ekki hlaupast fyrr en í fulla hnefana. Þó varð úr, að þeir hættu, og henti þá séra Oddur fiskinum, sem hann var með á önglinum. En ekki mátti tæpara standa, því að báturinn sökk, þegar þeir komu í vörina.
— Og þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi?

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

— Já, þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi. Og forvígismaður um margt. Hann hafði farið til Englands og átt þangað mörg erindi. Hann vildi læra enska tungu og komast í kynni við ensk kristniboðsfélög, og þar kynntist hann líka slysavörnum og lærði að gufubræða lifur. Með því bætti hann lýsisverkunina. Og svo fór hann að vinna að slysavörnum og ferðaðist í því skyni um landið, talaði við sjómenn, gaf út bæklinga um slysavarnir, meira að segja blað, sem hét Sæbjörg. Til þess naut hann styrks frá Alþingi — mig minnir að hann fengi þrjú hundruð krónur á ári. —

Oddur V. Gíslason

Oddur V. Gíslason.

Já, séra Oddi voru hugleiknir sjómennirnir, enda áttu sóknarbörn hans í Grindavík alla afkomu sína undir sjónum og hann sjálfur sjómaður. Og nógu voru sjóslysin mörg og átakanleg til þess, að eitthvað væri reynt að sporna við þeim.
— Bárufleygur — var það ekki eitt af því, sem Oddur vildi láta menn nota?
— Jú, bárufleyginn fékk hann frá Noregi. Það var belgur eða poki með lýsi eða olíu til þess að lægja úfinn sjó. Hann kostaði átta krónur, ef mér bregzt ekki minni.”

Þórarinn Einarsson fæddist 12. apríl 1884 og dó 7. apríl 1980.
Árni Gíslason, sýslumaður, ljóðskáld og skrifari fæddist 14. september 1820 og dó 26. júní 1898.
Árni kvað þetta t.d. einhvern tíma á búskaparárum sínum í Krýsuvík;

Vorið blíða lífgar lýð,
lengist óðum dagur.
Gyllir fríða Geitahlíð
geislinn sólar fagur.

Oddur Vigfús Gíslason, guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður fæddist 8. apríl 1836 og dó 10. janúar 1911.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 10. tbl. 16.03.1969, Daglegt brauð, sem drottinn gefur, rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd, bls. 228-232.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1880.

Bárufleygur

Í bókinni “Sjómannasaga” eftir Vilhjálm Þ. Gíslason, segir m.a. frá Oddi V. Gíslasyni: “Enginn maður ljet meira til sín taka öryggismál sjómanna á erfuðustu árum þilskipanna en sjera Oddur V. Gíslason að Stað í Grindavík (f. 8. apríl 1836, d. 10. jan. 1911).

Oddur V. Gíslason

Oddur var einkennilega samsettur maður, ákafamaður og brennandi í andanum, síleitandi og reynandi nýjar úrlausnir. Hann var sjómaður og prestur og rithöfundur í senn. Eftir að hann hafði lokið embættisprófi í guðfræði gerðist hann ekki prestur, heldur sjómaður í fimmtán ár og reri kappsamlega, enda var hann karlmenni að burðum. Hann fjekst þá við ýmsar tilraunir til nýrra vinnubragða og vöruvöndunar á sjávarafurðum. Þannig fór hann að gufubræða þorskalýsi suður í Kirkjuvogi, hjá Vilhjálmi Hákonarsyni. Hann varð tengdafaðir Odds. Þau eignuðust fimmtán börn, hann og Anna í Kirkjuvogi. Þorskalýsi sitt sendi Oddur til Boulogne og fjekk verðlaun fyrir. Hann gerði fleiri tilraunir til umbóta á fiskimálum. Hann skrifaði t.d. um nauðsyn þangbrennslu. Hann skrifaði um nýjar veiðiaðferðir og verkunaraðferðir og brýnir fyrir mönnum vöruvöndun. En fyrst og fremst var hann talsmaður aukins öryggis á sjó og slysavarna og brautryðjandi þeirra mála. Hann fór verstöð úr verstöð til þess að tala við sjómenn um þessi mál og hann var þrumandi ræðumaður. Hann gaf af fátækt sinni út blöð og bæklinga um hagsmunamál sjómanna. Hann talaði og skrifaði, hvort sem menn vildu á hann hlýða eða ekki. Sumir yptu öxlum, aðrir reyndu ráð hans og gafst vel. Landssjóður gaf út ágrip sumra erinda hans. Menn gengu í fjelögin, sem hann kom á í verunum, bjargráðanefndirnar, sem hann stofnaði til þess að beita sjer fyrir slysavörnum. Þær áttu að kenna mönnum að hafa góða áttavita, lýsispoka, bárufleyga og kjalfestu. Rit hans voru tvennskonar, fræðirit og hvatningar. Hann skrifaði ritling um “Leiðir og lendingar í fiskiverum Íslands” (1890). Hann samdi dálitla kenslubók í ensku (1863), einhverja þá fyrstu, sem hjer var samnin, en hann var góður enskumaður og fylgdarmaður enskra ferðamanna. Þá skrifaði hann smáritasafn um “Fiskiveiðamál”, um síld til beitu og fæðu, um lóðir, sem væru landsstoð, en heimska að afnema þær. Þá skrifaði hann um “Líf og lífsvon sjómanna”. Þar talar hann um lýsið sem bjargráð í sjáfarháska, um áttavita og loftþyngdarmæli, skiftispjöld, andþófsstjóra og kjalfestupoka og um formensku og í ofanálag  um saltfiskverkun.

Sjera Oddur

Um þessi mál og önnur áþekk gaf hann einnig út tímarit, “Sæbjörgu”, en hafði ekki bolmagn til að halda því úti nema eitt ár (1892). Hann var trúhneigður maður og komst snemma í kynni við enska kristilega sjómannastarfssemi. Þaðan mun hann hafa fengið einhverjar hugmyndir sínar. Á vegum ensks smáritafjelags gaf hann út ritlingana; “Hjálpræðisorð”. Löngu seinna þegar hann var kominn til Ameríku, fór hann að lækna með yfirlagningu handa. Hann hafði alla tíð áhuga á lækningum og fór að lesa læknisfræði á gamals aldri vestanhafs, og varð þar læknir, skömmu áður en hann dó. Hann hafði farið þangað á hálfgerðum flótta undan vonbrigðum og fátækt, og gerst prestur í Nýja Íslandi 1894. Er hann undi ekki hafti embættisstarfanna þar fremur en heima og gerðist farandpredrikari og læknir.
Sjera Oddur kom ýmsu góðu til leiðar með starfsemi sini hjer heima, enda naut hann ýmislegrar aðstoðar góðra manna, þó að aðrir tækju honum fálega. Í Sæbjörgu stendur á einum stað, að nokkrir menn höfðu “orðið til þess að spilla fyrir viðleitni” sjera Odds “og tekist það furðanlega. Þessir menn náðu samt ekki stjórn úr hendi hans, sem öllu ræður, og sem leyfði sjera Oddi að komast allra sinna ferða”. Sjera Oddur talaðai og lifði í trausti trúarinnar. Hann var snortinn af enskum trúboðsanda og naut mikils stuðnings í starfi sínu frá enskum skoðanabræðrum. Hjer heima fjekk hann einnig styrk og aðstoð, einkum frá kaupmönnum. Helsti styrktarmaður hans var H. Th. Thomsen og minnist Oddur hans með virðingu og þakklæti. Duus hjálpaði honum einnig og um skeið naut hann ofurlítilla amtsstyrkja. 1890 ljetu ýmsir kaupmenn hann fá þúsund krónur í farareyri um fiskiverin. Skyldi hann einkum hvetja menn til framfara í fiskverkun og gerði hann það ætíð.
Embætti sínu mun sjera Oddur hafa gegnt af alúð, fyrst í Lundi í Borgarfirði, síðan í Grindavík frá 1878 til ’94. Grindavík var þá lítið og fremur fátækt fiskiver. Útvegsbændur voru þar (1892) átján og ýmsir ágætir sjósóknarar. Búðir voru þar fjórtán. Sjera Oddur mældi þær og komst að því, að sú minsta var 411 tengingsfet. Þar voru fjórir menn, eða húsrúmið var 102 tengigsfet á mann. Stærsta búðin var 1620 tengingsfet og voru þar fimm menn og var því meira en þrisvar sinnum rýmra þar en í minstu búðinni. Fjórir útvegsbændur höfðu sjómenn í heimahúsum sínum, tveir í timburhúsum og tveir í baðstofum. Prestsetrið mun þá hafa verið heldur lítið og ljelegt. Sjera Oddur stundaði sjó jafnframt prestskap sínum og var duglegasti formaður, áræðinn og ærðulaus.

Verbúð

Sagan segir, að einlægt sneri hann hiklaust heim úr róðri og tafarlaust ef til hans var leitað um embættisverk. Var þá breidd hvít voð á þekjuna á bænum og sást af sjó, þegar gestur kom og vitjaði prests. Hann þótti snajll ræðumaður, vel orði farinn og heitmál,,, enda ákafamaður að hverju sem hann gekk og einlægur, en kvikur nokkuð.
Líf hans var einkennilegt sambland sjósóknarerfiði og basli og þrá til andlegs lífs, sambland af guðrækni og áróðri. Þegar hann skrifar á móti afnámi lóðanotkunar, biður hann menn að hugsa þetta mál samviskusamlega, “hvort þjer aftakið nú ýsulóðina”, og “biðjið guð að leiðbeina yður, eins og hann gefur veiðina, eins gefur hann líka vitið ef hann er beðinn”. Blað sitt, Sæbjörgu, sem hann kallar bjargráðarblað fyrir sjómenn, lætur hann “leggja upp í Jesúnafni til framsóknar og varnar bjargráðamálum sjómanna á Íslandi”…

Bátur og haf

Sjera Oddur í Grindavík gat talað eins og sjómaður við sjómann. Hannn varð fyrir áhuga og sjerkennilegan persónuleik ímynd nýrra fjelagsmálahreifinga og framfara. Hann hugsaði ekki einungis um stofnun bjargráðanefndanna, en ráðgerði einnig stofnun sjómannafjelaga til að “tryggja líf og atvinnu sjómanna á allan hátt”. Í þeim tilgangi mælti hann með notkun þilskipa og skrofaði um það, að bátarnir væru og litlir. Hann gerði einnig ráð fyrir því að stofna sjómannaráð fyrir alt Ísland. Frumvarp til laga um þetta er birt í Sæbjörgu…

Bárufleygur

Bárufleygur.

Sjera Oddur í Grindavík stóð ekki einn uppi með þessi áhugamál sín. Sumum þeirra hreyfðu aðrir samhliða honum eða jafnvel á undan honum. Tryggvi Gunnarsson hafði skrifað um gildi lýsisins til bjargráða 1882…
Bárufleygur var, eftir lýsingu sjera Odds sjálfs, holbauja, líkust sykurtopp í lögun, og tók 8 til 10 potta af lýsi. Í botninum voru eitt til fjögur smágöt, auk sponsgats. Þessir bárufleygar voru gerðir úr trje, járni eða blikki, Önnur samskonar lýsistæki til að lægja sjó, voru ilir og lábrjótur. Ilinn (borðili og stafnili) var þríhyrndur strigapoki, sem tók 2 til 4 potta af lýsi. Lábrjótur var sveigur, mettaður lýsi, eða tappalausar flöskur, fyltar lýsi. Tækjum þessum kom sjera Oddur á ýms skip og útskýrði notkun þeirra, s.s. það, hvernig bárufleyginn skyldi nota í undanhaldi, mótróðri, flatskellu og beitivindi. en það var gömul reynsla, sem sjera Oddur nefnir, að þegar lifur brákaði á sjó, lægði öldur. Höfðu hvalveiðimenn helst hagnýtt sjer þetta.
Upp úr þeirri hreifingu, sem sjera Oddur vakti, spruttu smásaman með atbeina annarra, ýmsar umbætur í öryggis- og tryggingarmálum. Hún varð einnig vísir að öðru, því að upp fóru að rísa stjettasamtök eða fjelög um hagsmunamál þeirra, sem að útvegi unnu, einkum í bæjunum. Ýmiskonar fjelagslíf þróaðist því meira, sem margmennið óx í bæjunum…”

Heimild:
Vilhjálmur Þ. Gíslason, Sjómannasaga, 1945, bls. 382-388.

Oddur

Oddur V. Gíslason

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1991 er frásögn um þegar “minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason” var afhjúpaður í Staðarkirkjugarði.

Oddur V. Gíslason

Frá athöfninni.

“Minnisvarði um Odd V. Gíslason var afhjúpaður í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík 22. september 1990. Sr. Oddur var prestur í Grindavík og Höfnum 1879-1894 og var mikill forvígismaður um slysavarnir og fræðslu í þeim efnum.
Minnisvarðinn er gerður af listamanninum Gesti Þorgrímssyni, steyptur í brons og stendur á áletruðum steini. Hann er reistur að frumkvæði sóknarnefndar Grindavíkur og Hafna auk ættingja sr. Odds og Slysavarnarfélags Íslands.
Gunnar TómasonOddur beitti sér fyrir fræðslumálum í Grindavík og var á undan sinni samtíð um nýjungar. Þá stofnaði Oddur bjargráðanefndir um land allt sem voru undanfarar slysavarnadeilda sem voru stofnaðar seinna.
Við athöfnina tóku til máls Svavar Árnason, formaður sóknarnefndar, og herra Ólafur Skúlason biskup yfir Íslandi, sem minntust sr. Odds og starfa hans. Eftir athöfnina í Staðarkirkjugarði bauð bæjarstjórn Grindavíkur til kaffisamsætis í félagsheimilinu Festi. Þar rakti Gunnar Tómasson, varaforseti Slysavarnarfélags Íslands, æviferil Odds. Þar kom m.a. fram að hann fór ekki alltaf troðnar slóðir og var orðinn þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Fræg er sagan af Oddi þegar hann rændi brúði sinni Önnu Vilhjálmsdóttur frá Kirkjuvogi í Höfnum á gamlársdag árið 1870 til að giftast henni.”

Oddur Vigfús Gíslason (8. apríl 1836 – 10. janúar 1911) var íslenskur guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður. Hann barðist lengi vel fyrir því að íslenskir sjómenn lærðu að synda, einnig að sjómenn tækju með sér bárufleyg svokallaðan, sem var holbauja með lýsi í og lak lýsið í sjóinn og lygndi með því bárurnar, og ýmsum öðrum öryggisatriðum fyrir sjómenn. Horft hefur verið til Odds sem frumkvöðuls sjóslysavarna á Íslandi.

Oddur V. Gíslason

Bátur Björgunarsveitar Þorbjörns í Grindavík, Oddur V. Gíslason.

Oddur var prestur, fyrst að Lundi í Borgarfirði frá 1875, svo á Stað í Grindavík var þar frá 1878 til 1894 þegar hann fluttist til Kanada og tók við preststörfum í Nýja Íslandi þangað til hann fluttist til Chicago og fór að læra til læknis á gamalsaldri og útskrifaðist kominn á áttræðisaldur.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Oddur talaði fyrir því að sjómenn tækju upp að sigla á þilskipum í stað róðrarbáta.

Björgunarskip björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík er nefnt eftir Oddi.

Oddur stóði í mikilli útgáfustarfsemi, gaf meðal annars út fyrstu kennslubókina í ensku hér á Ísla

ndi, gaf út fjölmörg rit tileinkuð sjómönnum og árið 1892 gaf hann út rit sem kallaðist Sæbjörg og fjallaði um ýmis mál sem honum þótti geta farið betur á Íslandi. Hann lést 10. Janúar 1911, 74 ára gamall og var jarðsunginn í Brookside cemetery í Winnipeg, Manitoba.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1991, Minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason afhjúpaður, bls. 18.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Oddur_V._G%C3%ADslason

Oddur V. Gíslason