Þórkötlustaðahverfi

Jörðin Þórkötlustaðir er kjarninn í austasta hverfi Grindavíkur. Hin tvö eru Járngerðarstaðahverfi og Staðarhverfi vestast.
ÞórkötlustaðahverfiðJörð þessi er eins og aðrar jarðir Grindavíkinga við sjó. Mikið af landi hennar er eldbrunnið, einkum óskipta landið ofan gróninga. Bæirnir standa austast og syðst í landareigninni við sjóinn. Þótt byggð hafi verið að mestu óslitin á svæðinu frá því á 13. öld hefur mikið breyst, bæði í sinni íbúanna og ekki síst afkomenda þeirra. Sumir töldu þá fyrrnefndu einkennilega í hugsun, en þeir höfðu þá ekki kynnst hinum síðarnefndu.
Fyrir utan Þórkötlustaðanesið, sem er að hálfu í Þórkötlustaðalandi, eru fjölmargar minjar á svæðinu er minna á fyrrum búsetu og búskaparhætti íbúanna um aldir. Á einum stað var t.a.m. komið niður á fornaldarskála er grafið var fyrir hlöðu um aldamótin 1900.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrst skal huga að örnefnunum. Samkv. örnefnaskrá er “austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, bás inn í klettana, og heitir hann Markabás. Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun. Upp af Markabás er hóll milli bæjanna, Markhóll. Er hann upphlaðinn þar á hryggnum, sem nefndur er Leiti. Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Ofar eru tóftir bæjarins Klappar. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi. Sunnan þessara boða og víkin öll er nefnd Þorkötlustaðabót [Loftur Jónsson segir Þórkötlustaðabótina vera fjöruborðið en ekki sjóinn eða víkin], en Þorkötlustaðasund er sunnan boðanna.
Tóftir KlapparTúnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni. Þá er Svalbarði, sem er þar á túni. Vestar er það, sem kallað er Vötnin, en þar kemur ósalt vatn undan sjávarkambinum um fjöru hjá Þorkötlustöðum.

Hér vestur af gengur allmikið nes suður í sjó. Nes þetta heitir Þorkötlustaðanes. Mikill hluti af nesinu er í Þorkötlustaðalandi, en nokkuð í Hópslandi. Merkin eru um 60 metrum vestan við vitann, sem nú stendur. Þar var klöpp með áletrun, en hefur skolast undir brimgrjótið. Nes þetta er allt hrauni þakið. Sumt bendir á, að hraun það sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornl.fél. 1903, 47).

Hópsnesviti

Hópsnesviti (Þórkötlustaðanesviti).

Í nesinu er vitinn, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti. Austur af vitanum er hóll, sem heitir Leiftrunarhóll. Vestur af honum og austur af vitanum eru tveir hólar, sem heita Strýthólar. Milli þeirra og vitans er Tófuflatarhóll. Alllangt norður af vitanum er hár hraunhóll, sem heitir Gjáhóll. Suðaustur af vitanum er Stóra-Látraflöt, en Litla-Látraflöt er austar og liggur að Strýthólum. Þar austar er Leiftrunarhóllinn, og fram af honum er Stekkjarfjara. Við Leiftrunarhól er tangi, sem heitir Nestá. Upp af Stekkjarfjörunni er grasblettur nefndur Stekkjartún. Þá er komið að vík, sem heitir Drift, aðrir segja Dríli. Inn frá henni heita Þorkötlustaðavarir. Sunnan við varirnar upp frá víkinni eru Drílaklettar, háir klettar norður af Nestá, er verða sem sker um flóð.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi.

Vestan við Drift er bryggja, og þar suðvestur af, beint upp af kampinum, er Flæðitjörn. Fyrir norðan varirnar er vík, sem heitir Herdísarvík, og upp af henni við sjó eru klettar, sem heita Kóngar. Þetta eru klettahólar, sem eru austur af Gjáhól, sem fyrr getur. Upp frá hólum þessum heitir hraunspildan Kóngahraun. Rétt norðan Kónga er flöt í hrauninu sem heitir Miðmundaflöt. Austur frá henni er Syðribót og Heimribót. Upp af þeim eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Þá eru Miðmundaklettar, og milli þeirra og túns er Sandfjara. Niður af Brunnflötum var vatnsstæði, sem notað var til að vatna í skepnum.”
Hlaðinn garður í ÞórkötlustaðahverfiÞá hefur fjaran verið gengin. Ofar er óskipt land sex lögbýla, annars vegar Þórkötlustaðabæjanna þriggja og hins vegar Klappar, Buðlunga og Einlands. Sumir segja jarðarpartana hafa verið fjóra, en byggja þar einungis á þeirra hagstæðustu munnmælum. Í raun liggja ekki fyrir skriflegar og staðfestar upplýsingar um hlutdeild einstakra jarða og verður því að leggja þær að jöfnu uns annað kemur í ljós. “Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt. Nær það til fjalls. Það svæði, sem næst tekur við fyrir ofan túnin er nefnt Hópsheiði, jafnt sá hluti þess, sem tilheyrir Þorkötlustöðum og Hópi. Þetta er hraunfláki allstór, sem nær upp á móts við Húsafjall. En í vesturenda hans eru merkin móti Hrauni og í Melhól, sem er þar vestur af. En aftur á móti er niðri í nesinu, á merkjum móti Hópi, svonefnt Markalón.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Rétt vestur af Húsfjalli er smáhraunhóll, sem heitir Grenhóll. Þegar kemur upp fyrir Húsfjall, hækkar landið nokkuð og hraunið [mjókkar mikið], og nú tekur við landssvæði, sem heitir Vatnsheiði. [Harunið tengist síðan Beinvörðuhrauni og Skógfellshrauni og síðan Dalahrauni enn norðar (LJ)]. Dregur hún nafn af vatni, sem var þar vestur undir Sundhnúk [á hátoppi Innstuhæðar og eru þar landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða (LJ], og þornar oft. Þar er lágur rimi, Lyngrimi, sem er vestan undir Vatnsheiði innst. Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima. Þá tekur við sama hraunið og nefnt var hjá Hrauni, og heitir það Dalahraun. Það hraun er frekar mishæðalítið, nema þar rís norðar allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellsvegur. Norðan þess er línan um Skógfellshraun, norður í Litla-Skógfell, sem er mikið lægra en hitt. Þá er komið þar á merki. Þar austar er svo annað lágt fell á merkjum, Kálffell. Þá segjum við, að lokið sé örnefnum í Þorkötlustaðahverfi. Þó er einhvers staðar til um meira land, sem ef til vill kemur síðar í leitirnar.”

Byrgi í StrýthólahrauniLoftur Jónsson gerði athugasemdir við framangreinda lýsingu. Hann taldi örnefnið Svalbarði „ekki rétt“. Þetta örnefni er einnig að finna hjá honum og á þá við hringmyndaða klöpp með lóni í miðju. Einnig kemur fram hjá Lofti að klofi út í Svalbarða skipti reka milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Ofan við nöfnin Drift og Dríli sem eru tvö nöfn á vík hefur Loftur einnig ritað „ekki rétt“. Þessi nöfn er ekki að finna hjá Lofti en hann hefur nafnið Driti um klett í fjöruborðinu.
Loftur telur Sandfjöru ekki vera til sem nafn í landi Þórkötlustaða.
Í setningunni: „Það svæði sem næst tekur við fyrir ofan túnin er nefnt Hópsheiði, jafnt sá hluti þess, sem tilheyrir Þorkötlustöðum og Hópi“ hefur Loftur ritað fyrir ofan orðið Þorkötlustöðum „ekki rétt“. Hann segir að allt það sem kallað er Hópsheiði sé í landi Hóps. Líklega er það ekki rétt að sá hluti Hópsheiðar sem er í Þórkötlustaðalandi heiti svo þar. Í sömu málsgrein, næstu setningu, stendur: „Þetta er hraunfláki allstór, sem nær upp á móts við Húsafjall. En í vesturenda hans eru merkin móti Hrauni og í Melhól, sem er þar vestur af.“ Að sögn Lofts var Melhóll gamall eldgígur í hrauninu austan við Þorbjörn og núverandi Grindarvíkurveg. Þarna hefur hlaðist upp strýra úr hraungjalli en er nú alveg horfin. Hraungjallið var notað í Grindavíkurveginn og vegi og götur í Grindavík og víðar. Örnefnið Melhól er því ekki að finna í örnefnalýsingu Lofts. Þá segir hann að hann telji að Melhóll hafi verið landmark á milli Hóps og Járngerðarstaða.

Sundhnúkur

Sundhnúkur.

Að lokum skrifar Loftur að ekki hafi verið til vatn þar sem segir að það hafi verið vestur undir Sundhnúk og að Vatnsheiði dragi nafn sitt af því. Það er hins vegar rétt hjá Lofti því gott vatnsstæði er í Vatnsheiðnni austur undir Sundhnúk, en vestan Fiskidalsfjalls.
Á miða sem fylgir örnefnaskránni og spurt er um réttan rithátt nokkurra örnefna hefur Loftur strikað undir Buðlunga, Markhól og Miðmundakletta og strikað yfir hina valkostina sem eru Buðlungi, Markahóll og Miðmundaklettur.
Í annarri örnefnalýsingu fyrir Þórkötlustaðaland segir: “Suður úr Reykjanesskaganum gengur allmikið nes. Að vestanverðu við nes þetta er Járngerðarstaðavík en að austan er Hraunsvík. Nes þetta er allt þakið hrauni og sumt bendir til að hraun það sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornlfél. 1903, 47). Að austanverðu heitir nesið Þórkötlustaðanes og er það í landi Þórkötlustaða en að vestan heitir það Hópsnes og er sá hluti í landi Hóps. Í daglegu tali er það eingöngu nefnt Nesið.
Vatnsstæðið á VatnsheiðiÁframhald af landi Þórkötlustaða nær inn á Reykjanesskagann og er fremur mjótt en langt. Mest allt landið er þakið hrauni. Bæirnir standa austast í landareigninni innan við nesið og niður við sjóinn.
Örnefni og kennileiti í landi Þórkötlustaða eru sem hér segir: Vestan við vita sem er í nesinu og heitir Hópsviti er vatnsgjá niður við sjávarkampinn. Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki. Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt, að mestu komin undir kamp. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll, nokkuð stór með grasflöt norður af; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni fyrr á tímum. Niður undan honum austan til var Litla-Látraflöt. Hún er nú komin undir grjót úr kampinum. Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar. Vestri-Strýthóll með tveimur þúfum en Eystri-Strýthóll niður við kampinn. Útfiri er töluvert og heitir fjaran Látur. Selalátur var þar áður fyrr. Hóll var fram undan Tófuflatarhól; Þanghóll, en hann er nú kominn undir kampinn. Hann skipti reka. Fyrir vestan eru Kotalátur. Þar eiga Einland, Buðlunga og Klöpp reka [hér er kveðið á um jafnan hlut jarðanna]. Austan Þanghóls eru Austurbæjarlátur. Austast í Nesinu að framanverðu er smátangi sem heitir Nestá. Norður af Nestá er stór hóll á kampinum; Leiftrunarhóll. Norður af honum er Stekkatún sem nær að Flæðitjörn. Hún er ofan við sjávarkampinn. Niður undan og norðan Leiftrunarhóls er Stekkjarfjara. Látragötur eru slóðar úr vesturenda Stekkatúns fram í Látur. Við enda Stekkjarfjöru er klettur í fjöruborðinu og er sem sker um flóð. Hann heitir Driti.

SkógfellavegurSíðan tekur við Vörin stundum kölluð Nesvör til aðgreiningar frá Buðlunguvör. Vararsker er sunnan við vörina, það fer í kaf á flóði. Tveir boðar eru framundan Vararskeri á Þórkötlustaðasundi; Fjósi á bakborða og utar er Lambhúsi á stjórnborða. Sundvarða við Buðlungu átti að bera í fjós og lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru nöfnin dregin.
Upp af Vörinni og norðan við Flæðitjörn er Sundvörðuhóll, þar stendur sundvarða. Vestan Flæðitjarnar eru hlaðnir grjótgarðar; Hraunsgarðar. Hraunsmenn þurrkuðu þar skreið þegar þeir lentu í Nesvör. Skotti er nokkuð stór pollur ofan kampsins, norðan Vararinnar og þar norður af er hóll, flatur að ofan með hlöðnum grjótgörðum, kallaður Krabbagerði. Fram undan Krabbagerði í flæðarmálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir nefndar Draugur. Þar norður af er vík; Herdísarvík. Upp af henni við norðurenda eru klettahólar sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun, sandorpið hraun, og inn undir miðju Nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð en mjó frá norðri til suðsuðvesturs sem heitir Gjáhólsgjá. Rétt norðan við Kónga er grasflöt fram við kampinn; Miðmundaflöt og þar framan við eru Miðmundaklettar.
Gígur á SundhnúkaröðinniSíðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðribót og síðan Heimribót. Norðaustan við klapparana sem skiptir bótunum eru klappir í flæðarmálinu; Hundaklettar. Upp af Heimribót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norðurenda Gjáhólsgjáar, í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en litið markar fyrir henni nú. Önnur gata er norðar og liggur um Kirkjuhóla og fram hjá Hópi. Norður frá Heimribót er fremsti og vestasti hluti túnsins kallaður Sigla og þar í er Siglulaut.
Austur af Heimribót taka við Vötnin. Þar rennur fram ósalt vatn um fjöru og var þar þveginn og skolaður þvottur áður fyrr. Austur af Vötnunum, á klöppunum, er Stóralón og suður af því Kollóttasker. Upp af Stóralóni er Bakkinn; hár grasivaxinn bakki. Nokkuð austan Stóralóns er Buðlunguvör. [Að sögn Árna Guðmundssonar í Teigi (f:1891) var Buðlunguvör notuð á sumrin fram til 1929. Við hana má sjá för eftir kili bátanna.] Vestan hennar er hringmynduð klöpp með lóni í miðju. Hún heitir Svalbarði. Klofi út í Svalbarða skiptir reka og þangfjöru á milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Fyrir ofan Buðlunguvör er slétt klöpp kölluð Skiptivöllur. Þaravaxin klöpp vestan og utan við vörina er kölluð Þangklöpp. Austan við vörina er Stóraklöpp og þar fram af er Vararsker. Það kemur upp á stórstreymisfjöru. Norðaustan við vörina er túnið í Buðlungu og kallað Buðlungudalur. Í suðvesturhorni þess er sundvarða og átti hún að bera í þríhyrnu á svonefndri Brunnskák þegar róið var inn sundið.

Dalssel í FagradalAustur af Stóruklöpp eru básar; Vestastibás, Þvottabás, Miðbás og Malarbás. Síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt. Vestan Slokatáarinnar er Lágafjara og síðan Vestrimölin og þar ofan kampsins er Klapparmói. Eystrimöl er neðan við kampinn að austan, ofan við Slokatá. Upp af Slokatánni ofan kampsins eru Hrossbeinalágar, nú komnar að mestu undir kampinn. Austan á Slokunum er bás sem heitir Markabás. Hann skiptir löndum og reka á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Upp af honum ofan kamps er hraunhóll með grasþúfu í toppinn. Hann heitir Markhóll.
Randeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna.
Eystraleiti (í daglegu tali nefnt Leiti) er smábunga á milli bæjanna. Vestraleiti er aftur önnur bunga í vestur þar sem skiptast lönd Þórkötlustaða og Hóps. Vestan undir há-Leiti er Kúakrókur, nú tún.

Skógfellavegur

Vegur af Skógfellavegia að Þórkötlustöðum.

Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.
Vatnsheiði eru þrjár gróðurlitlar, samvaxnar hæðir norður af Húsafelli og nær sú fremsta vestur fyrir og fram fyrir það. Þær heita Fremstahæð, Miðhæð og Innstahæð. Nafnið er dregið af vatnskötlum í Innstuhæð og þornar þar ekki nema í mestu þurrkum. Þar eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða.
Í norðvestur frá Innstuhæðinni, í Vatnsheiði, er hæð eða smáhnúkur; Sundhnúkur og er hann á landamerkjum milli Þórkötlustaða og Járngerðarstaða. Þaðan í norður eru hraunhólar úr brunnu hraungjalli. Heita þeir Lyngrimi. Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um. Skógfellshraun tekur við þar fyrir norðan og er það all úfið í hraunbrúninni að sunnan.
Siguður Gíslason hjá ÞórkötlustaðadysUpp úr Skógfellshrauni rís allhátt fell sem heitir Stóra-Skógfell. Litla-Skógfell er þar nokkru norðar en er allmikið lægra og skiptir það löndum á milli Voga og Járngerðarstaða. Stóra-Skógfell skiptir löndum á milli Járngerðarstaða og Þórkötlustaða og eru merkin í næsta hnúk. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi. Mitt á milli Skógfella er svonefndur Hálfnunarhóll (í Járngerðarstaðalandi) og er þar talið hálfnað til Voga frá Þórkötlustöðum. Hraunið á milli Skógfella og Fagradalsfjalls heitir Dalahraun og nær það fram á móts við Kast. Það er lágt og víða sléttar klappir og mosaþembur.

Skógfell

Stóra-Skógfell – Sandhóll nær.

Úr Stóra-Skógfelli liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði. Frá Kálffelli liggja landamerkin í vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði eins og áður segir. Samkv. þessu er Sandhóll sem er vestur af Kasti og Fagridalur sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum. [Hér gleymist að Þórkötlustaðir (sumir segja Járngerðarstaðir) höfðu selstöðu í Dalseli í Fagradal, norðan Nauthólaflata]. Vesturhluti Beinavörðuhrauns nær vestur í land Þórkötlustaða. Slokahraun er á milli túnanna á Hrauni og Þórkötlustöðum.”

Fagridalur

Nauthólar Í Fagridal.

Aðrar heimildir kveða á um að Járngerðarstaðamenn hafi haft selstöðu í Fagradal. Bæði þeir og Hraunsmenn hafa viljað eigna sér svæðið milli Vatnskatla, Kálffells og Litla-Skógfells. Það hafa einnig Vogamenn viljað gera.

Tóftir Dalsels í Fagradal voru skoðaðar árið 2003. Þær eru á sunnanverðum uppþornuðum lækjarbakka norðan við Nauthóla og Nautaflatir. Sjá má móta fyrir húsum og stekk eða kví ofar. Veggir sjást grónir, en ekki er að sjá hleðslur í þeim. Erfitt er að greina nákvæma rýmisskipan.
Óskipt land Þórkötlustaðabúa er allt að því um 300 hektarar skv. framangreindu.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing – Loftur Jónsson, Grindavík 22. nóv. 1976.
-Guðmundur Benediktsson.
-Sigurður Gíslason.
-Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.
-Árni Guðmundsson.
-Guðmundur Jónsson.
-Áslaug Theodórsdóttir.
-Kristborg Þórsdóttir.
-Guðbjörg Eyjólfsdóttir.
-Jón Eyjólfsson.
-Jón Daníelsson.

Við Þórkötlustaðarétt

Við Þórkötlustaðarétt.