Húsatóptir

Gengið var frá Markhól austast í landi Húsatópta vestan Grindavíkur, um Stekkjartún, Vörðunes, Arfadal og Kóngshellu út að Hvirflum. Þá var ofanlandið skoðað, s.s. Nónvörður, Hjálmagjá og Baðstofa, auk hinna gömlu tófta á Húsatóptum.

Húsatóftir

Nónvarða ofan Húsatófta.

Austast í Tóptarlandi eru brunnarnir, s.s. Tóptarbrunnur og Stakibrunnur, en vestast í Járngerðarstaðahverfi eru Gerðabrunnar eða Gerðavallabrunnar. Grindvíkingar kölluðu og kalla ferksvatnstjarnirnar ofan við sjávarkambinn brunna. Sjávarfalla gætir í brunnum þessum sem og í nálægum gjám, s.s. Bjarnagjá, sem er á mörkunum, og Baðstofu.
Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um hið síðastnefnda (fyrri hluti).

Húsatóptir

Húsatóptir -Vindheimar; túnakort.

Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. “Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.” Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld “með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847). Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta.

Húsatóftir

Húsatóftir – byggt 1930.

Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og “enn hætt við meiri skaða”. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: “Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.”
“Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti”, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær. Nýja húsið er stendur neðar, var byggt 1930 af Einar Jónssyni og sonum hans. Það hýsir nú Golfklúbb Grindavíkur.

Húsatóptir

Húsatóptir – sjá má torfbæinn v.m.

“Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í “tóptum” þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú”, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með “binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri”. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, “með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri”. Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við nýja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.

Húsatóftir

Efri-Sundvarða austan Húsatófta.

“Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör”, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Hjáleigan Garðhús var til 1703. Í Sögu Grindavíkur segir að ekki sé ljóst hvar hjáleigan, sem nefnd var Garðhús, stóð.
Stekkjatún er norðan Jónsbásakletta. Í örnefnaskrá segir að Markhóll, gróinn hóll, sé austast á mörkum, en vestan við hann er Hvalvík. Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður. Vestan Jónsbáss er hár malarkambur, kallaður Stekkjatúnskambur. Tóftabrunnar, sjóvatnstjarnir, eru fast vestan við gamla veginn, vestan við Bjarnagjá, vatnsfyllta gjá fast austan við Markhól. Þá er Stekkjartúnsbarð og þá kemur Stekkjatún vestan þess. Ofan við Stekkjatún er Stakibrunnur.

Húsatóftir

Baðstofa.

Þann 14. janúar 1902 sigldi enski togarinn Anlaby í strand við Stekkjartúnskamp og fórst öll áhöfnin.Vestan við Stekkjartúnskamp eru klettabásar, nefndir Sölvabásar. Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni.  Í örnefnaskrá segir að “þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.” Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).
Þvottaklappir eru vestan við Vatnslónsvík, vestan við Vatnslónskletta. Á þeim eru daufar uppsprettur. Þær draga nafn sitt af því, að þegar lágsjávað var, rann þarna mikið vatn niður í fjöruna og var farið þangað með þvott frá Húsatóptum og hann skolaður. Var það kallað “að fara í Vötnin”. Vatnslónsvík er fyrir suðvestan fiskeldið.

Húsatóftir

Húsatóftir – fiskibyrgi.

Tóptarklöpp er stærst klappanna. Hún er um 100 metra norðaustur af steyptri bryggju og er vestasti hluti skerjatangans, austan við grónu klöppina, sem steypta sjóhúsarústin stendur á. Á henni voru fiskhjallar áður fyrr. Guðsteinn Einarsson segir að þar hafði lengi staðið sjávarhús frá Húsatóptum, en þau voru farin af fyrir síðustu aldamót (1900) og þá komin upp á bakkann fyrir ofan. Tóptarvör er vestan Tóptarklappar, vestast í Garðsfjöru. Búðasandur tekur við af henni til vesturs. Vörin er á milli Tóptarklappar og grónu klapparinnar, sem steypta rústin er á.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum.

Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.
Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir “að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn”.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu1840 segir: “Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.” Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.

Verslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

Skipin lágu milli hans og Barlestarskers. Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð). Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn “fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…”, segir í Sögu Grindavíkur. Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og “gamla pakkhús”, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.

Prestastígur

Prestastígur.

Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru Pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. “Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn”, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.
Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum.

Húsatóftir

Húsatóftir – ein Nónvarðan.

Sagan segir að “þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.” Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá. Syðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.

Húsatóptir

Fuglaþúfa ofan við Húsatóptir.

Prestastígur er gömul þjóðleið milli Húsatópta og Hafna. Hrafnagjá er vestur af Grýtugjá undir jaðri Eldborgarhrauns. Yfir gjána er hlaðin brú þar sem hún er um 2 m á dýpt. Hleðslan er úr hraungrýti og mjög heilleg, um 2 m breið og um 4 m löng. Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla.
Líklega er þar að finna svonefndan Hamrabóndahelli, sem mikið er búið að leita að. Troðningur þessi er fær öllum þótt slæmur sé, segir í örnefnaskrá. Gatan liggur í norðvestur upp frá vestanverðu túninu á Húsatóptum. Nú er upphaf götunnar sett við þjóðveginn austan Húsatópta, en golfvöllurinn hefur verið lagður yfir hana næst bænum.
Frá túninu túninu á Húsatóptum að Eldvörpum liggur gatan um mosagróið hraun, mjög úfið á köflum. Norðan Eldvarpa er landið sléttara, grónara og auðveldara yfirferðar. Leiðin er vörðuð svo til alla leiðina og eru flestar vörðurnar miklar og breiðar og vel uppistandandi. Hún er um 12 km.

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Skothóll, allhár og gróinn með fuglaþúfi í toppinn, áberandi í landslaginu. Hann er vestast í Tóptarkrókum. Hóllinn er á mörkum Húsatópta og Staðar. Skothólsgjá liggur eftir endilöngum hólnum (um 1 m djúp). Á Skothól hefur líklega verið legið fyrir tófu.
Útilegumannabyrgi eru í sunnanverðu Sundvörðuhrauni. Um þau er fjallað sérstaklega í annarri FERLIRslýsingu.
Byrgjahólar eru vestan við Tóptartúnið. Eru þar mörg hlaðin byrgi frá þeim tímum er allur fiskur var hertur. Byrgin, sum heilleg, eru ofan við Hjálmagjá. Þau eru yfirleitt kringlótt og hlaðin í topp. Á þeim voru lágar dyr, vafalaust til að stórgripir kæmust ekki inn í þau. Byrgin voru hlaðin úr stórgrýti og blés vel í gegnum þau. Fiskurinn var hengdur upp á slár inni í byrgjunum. Aðeins eitt byrgjanna er enn vel heillegt og uppistandandi að hluta.

Húsatóptir

Fiskbyrgi ofan Húsatópta.

Baðstofa er norðaustur af Tóptartúni, mikil gjá, 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar um 9 faðmar, segir í örnefnaslýsingu. Baðstofa er um 300 m austur af bæjarhólnum. Í gjána var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.

Svo sagði Lárus Pálsson hómapat, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestur hafi fengið að sækja vatn í Baðstofu gegn því, að Húsatóptarbændur fengju að taka söl í landi Staðar. Gjáin er mjög djúp niður á vatnsborðið, en ekki nema um 3 m breið. Mikill gróður er í henni víða. Brú liggur yfir gjána þar sem vatni er dælt úr henni, en vatnið er bæði notað til vökvunar á golfvellinum og í fiskeldinu sunnan vegarins. Gegnumstreymi er á vatninu í gjánni. Skammt ofan gjárinnar er hlaðin refagildra.

Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (.þe.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.

Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið “undir straum”, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa “rekaspýtu í augað”.
Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur
-Fornleifaskráning 2002 – FÍ
-Örnefnalýsing fyrir Húsatóftir

Húsatóptir

Refagildra ofan Húsatópta.