Færslur

Húsatóttir

Gengið var með Jórmundi Kristinssyni, 75 ára, um Húsatóptir og m.a. leitað að fyrrum brugghelli við Tóptirnar, sem munnmælasagnir hafa verið til um.

Húsatóttir

Baðstofa.

Jórmundur bjó hjá foreldum í eystri bænum að Húsatóptum. Hreppsstjórinn bjó þá í vestari bænum uns hann var fluttur niður fyrir bæina, í hús það sem nú hýsir golfskála Grindvíkinga. Jórmundur sagðist ekki muna eftir því hvernig gamli bærinn hafi litið út, en sennilega hafi hann verið úr torfi og grjóti, eins og hús voru fyrrum. Hús það, sem hann bjó í hafi verið á þeim stað, sem núverandi hús er.
Jórmundur sagði vatn hafa jafnan verið sótt í brunninn neðan við nýja húsið á Húsatóptum (golfskálann), en það hafi yfirleitt verið með saltbragði. Þá hafi faðir hans grafið niður í gjá skammt suðaustan við hús þeirra og þá komist níður í ferskt vatn. Op er niður í gjána, sem gengur í gegnum hraunhól. Í dag er þar nokkurt drasl, en sjávarfalla gætir í gjánni. Ferska vatnið flýtur ofan á saltvatninu svo bæði auðvelt og nærtækt hefur verið að nálgast þarna vatn.
Jórmundur sagði að vitað hafi verið að víða hafi verið bruggað í Grindavík og nágrenni fyrrum. M.a. voru einhverjir við þá iðju í Jónshelli (Gaujahelli) þegar jarðskjálfti reið yfir. Lokaðist hellirinn og þeir þar inni. Voru mennirnir orðnir úrkula vonar um að komast út er annar jarðskjálfti opnaði hellinn á ný. Sagnir eru og til um brugghelli við Húsatóptir og samsvarar lýsingin á honum framangreindum brunni í hraunhólnum.
Margar sprungur eru beggja vegna Húsatópta. Stærsta gjáin og jafnframt sú dýpsta, Baðstofa, er austan við túnin. Í henni er mikið ferskt vatn, um 12 °C. Fiskeldisstöðin á Tóptum sækir vatn sitt þangað. Sprungurnar eru í misgengi, sem m.a. nær í gegnum Þorbjörn. Á einum stað austan og ofan við Baðstofu hefur gjáin fyllst af grjóti og sandi svo ganga má í gegnum hana. Er hún nokkurs konar minni útgáfa að Almannagjá á Þingvöllum.

Húsatóttir

Refagildra.

Baðstofa er um 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar um 9 faðmar. Í gjána var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott. Svo sagði Lárus Pálsson hómapat, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestur hafi fengið að sækja vatn í Baðstofu gegn því, að Húsatóptarbændur fengju að taka söl í landi Staðar. Gjáin er mjög djúp niður á vatnsborðið, en ekki nema um 3 m breið. Mikill gróður er í henni víða. Brú liggur yfir gjána þar sem vatni er dælt úr henni, en vatnið er bæði notað til vökvunar á golfvellinum og í fiskeldinu sunnan vegarins, sem fyrr sagði. Gegnumstreymi er á vatninu í gjánni. Skammt ofan gjárinnar er hlaðin refagildra. Hún er fallin saman að hluta, en vel má greina útlínur hennar og byggingarlag. Nú er vitað um 25 slíkar refagildrur á Reykjanesskaganum. Væri í rauninni hægt að gera þær virkar með skömmum fyrirvara ef einhver hyggðist á refaveiðar. Þessar gildrur falla mjög vel inn í landslagið og eiga ókunnugur jafnan erfitt með að greina þær frá því.
Nokkur hlaðin fiskbyrgi eru vestan við Húsatóptir, ofan við megingjárbarminn. Eitt þeirra er enn nokkuð heillegt. Þrjár ástæður munu hafa verið fyrir staðsetningu byrgjanna, þ.e. lofta þurfti vel um fiskinn, þau voru fjarri flugunni og einnig hæfilega langt frá alfaraleið.

Húsatóttir

Fiskibyrgi.

Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (þ.e.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.
Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum. Harðhaus fékk nafn sitt er bóndi á Tóptum reyndi að slétta hann líkt og aðrar skákir, en fékk þá þrálátt mein í annan fótinn. Lét bóndi þá af túnsléttunni í hólnum og varð hann aldrei sleginn. Talið var að huldufólk hefðist við í hólnum.

Húsatóttir

Tóft á Húsatóttum.

Húsatóptir

Gengið var frá Markhól austast í landi Húsatópta vestan Grindavíkur, um Stekkjartún, Vörðunes, Arfadal og Kóngshellu út að Hvirflum. Þá var ofanlandið skoðað, s.s. Nónvörður, Hjálmagjá og Baðstofa, auk hinna gömlu tófta á Húsatóptum.

Húsatóftir

Nónvarða ofan Húsatófta.

Austast í Tóptarlandi eru brunnarnir, s.s. Tóptarbrunnur og Stakibrunnur, en vestast í Járngerðarstaðahverfi eru Gerðabrunnar eða Gerðavallabrunnar. Grindvíkingar kölluðu og kalla ferksvatnstjarnirnar ofan við sjávarkambinn brunna. Sjávarfalla gætir í brunnum þessum sem og í nálægum gjám, s.s. Bjarnagjá, sem er á mörkunum, og Baðstofu.
Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um hið síðastnefnda (fyrri hluti).

Húsatóptir

Húsatóptir -Vindheimar; túnakort.

Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. “Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.” Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld “með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847). Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta.

Húsatóftir

Húsatóftir – byggt 1930.

Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og “enn hætt við meiri skaða”. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: “Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.”
“Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti”, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær. Nýja húsið er stendur neðar, var byggt 1930 af Einar Jónssyni og sonum hans. Það hýsir nú Golfklúbb Grindavíkur.

Húsatóptir

Húsatóptir – sjá má torfbæinn v.m.

“Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í “tóptum” þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú”, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með “binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri”. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, “með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri”. Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við nýja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.

Húsatóftir

Efri-Sundvarða austan Húsatófta.

“Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör”, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Hjáleigan Garðhús var til 1703. Í Sögu Grindavíkur segir að ekki sé ljóst hvar hjáleigan, sem nefnd var Garðhús, stóð.
Stekkjatún er norðan Jónsbásakletta. Í örnefnaskrá segir að Markhóll, gróinn hóll, sé austast á mörkum, en vestan við hann er Hvalvík. Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður. Vestan Jónsbáss er hár malarkambur, kallaður Stekkjatúnskambur. Tóftabrunnar, sjóvatnstjarnir, eru fast vestan við gamla veginn, vestan við Bjarnagjá, vatnsfyllta gjá fast austan við Markhól. Þá er Stekkjartúnsbarð og þá kemur Stekkjatún vestan þess. Ofan við Stekkjatún er Stakibrunnur.

Húsatóftir

Baðstofa.

Þann 14. janúar 1902 sigldi enski togarinn Anlaby í strand við Stekkjartúnskamp og fórst öll áhöfnin.Vestan við Stekkjartúnskamp eru klettabásar, nefndir Sölvabásar. Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni.  Í örnefnaskrá segir að “þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.” Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).
Þvottaklappir eru vestan við Vatnslónsvík, vestan við Vatnslónskletta. Á þeim eru daufar uppsprettur. Þær draga nafn sitt af því, að þegar lágsjávað var, rann þarna mikið vatn niður í fjöruna og var farið þangað með þvott frá Húsatóptum og hann skolaður. Var það kallað “að fara í Vötnin”. Vatnslónsvík er fyrir suðvestan fiskeldið.

Húsatóftir

Húsatóftir – fiskibyrgi.

Tóptarklöpp er stærst klappanna. Hún er um 100 metra norðaustur af steyptri bryggju og er vestasti hluti skerjatangans, austan við grónu klöppina, sem steypta sjóhúsarústin stendur á. Á henni voru fiskhjallar áður fyrr. Guðsteinn Einarsson segir að þar hafði lengi staðið sjávarhús frá Húsatóptum, en þau voru farin af fyrir síðustu aldamót (1900) og þá komin upp á bakkann fyrir ofan. Tóptarvör er vestan Tóptarklappar, vestast í Garðsfjöru. Búðasandur tekur við af henni til vesturs. Vörin er á milli Tóptarklappar og grónu klapparinnar, sem steypta rústin er á.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum.

Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.
Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir “að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn”.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu1840 segir: “Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.” Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.

Verslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

Skipin lágu milli hans og Barlestarskers. Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð). Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn “fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…”, segir í Sögu Grindavíkur. Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og “gamla pakkhús”, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.

Prestastígur

Prestastígur.

Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru Pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. “Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn”, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.
Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum.

Húsatóftir

Húsatóftir – ein Nónvarðan.

Sagan segir að “þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.” Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá. Syðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.

Húsatóptir

Fuglaþúfa ofan við Húsatóptir.

Prestastígur er gömul þjóðleið milli Húsatópta og Hafna. Hrafnagjá er vestur af Grýtugjá undir jaðri Eldborgarhrauns. Yfir gjána er hlaðin brú þar sem hún er um 2 m á dýpt. Hleðslan er úr hraungrýti og mjög heilleg, um 2 m breið og um 4 m löng. Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla.
Líklega er þar að finna svonefndan Hamrabóndahelli, sem mikið er búið að leita að. Troðningur þessi er fær öllum þótt slæmur sé, segir í örnefnaskrá. Gatan liggur í norðvestur upp frá vestanverðu túninu á Húsatóptum. Nú er upphaf götunnar sett við þjóðveginn austan Húsatópta, en golfvöllurinn hefur verið lagður yfir hana næst bænum.
Frá túninu túninu á Húsatóptum að Eldvörpum liggur gatan um mosagróið hraun, mjög úfið á köflum. Norðan Eldvarpa er landið sléttara, grónara og auðveldara yfirferðar. Leiðin er vörðuð svo til alla leiðina og eru flestar vörðurnar miklar og breiðar og vel uppistandandi. Hún er um 12 km.

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Skothóll, allhár og gróinn með fuglaþúfi í toppinn, áberandi í landslaginu. Hann er vestast í Tóptarkrókum. Hóllinn er á mörkum Húsatópta og Staðar. Skothólsgjá liggur eftir endilöngum hólnum (um 1 m djúp). Á Skothól hefur líklega verið legið fyrir tófu.
Útilegumannabyrgi eru í sunnanverðu Sundvörðuhrauni. Um þau er fjallað sérstaklega í annarri FERLIRslýsingu.
Byrgjahólar eru vestan við Tóptartúnið. Eru þar mörg hlaðin byrgi frá þeim tímum er allur fiskur var hertur. Byrgin, sum heilleg, eru ofan við Hjálmagjá. Þau eru yfirleitt kringlótt og hlaðin í topp. Á þeim voru lágar dyr, vafalaust til að stórgripir kæmust ekki inn í þau. Byrgin voru hlaðin úr stórgrýti og blés vel í gegnum þau. Fiskurinn var hengdur upp á slár inni í byrgjunum. Aðeins eitt byrgjanna er enn vel heillegt og uppistandandi að hluta.

Húsatóptir

Fiskbyrgi ofan Húsatópta.

Baðstofa er norðaustur af Tóptartúni, mikil gjá, 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar um 9 faðmar, segir í örnefnaslýsingu. Baðstofa er um 300 m austur af bæjarhólnum. Í gjána var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.

Svo sagði Lárus Pálsson hómapat, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestur hafi fengið að sækja vatn í Baðstofu gegn því, að Húsatóptarbændur fengju að taka söl í landi Staðar. Gjáin er mjög djúp niður á vatnsborðið, en ekki nema um 3 m breið. Mikill gróður er í henni víða. Brú liggur yfir gjána þar sem vatni er dælt úr henni, en vatnið er bæði notað til vökvunar á golfvellinum og í fiskeldinu sunnan vegarins. Gegnumstreymi er á vatninu í gjánni. Skammt ofan gjárinnar er hlaðin refagildra.

Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (.þe.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.

Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið “undir straum”, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa “rekaspýtu í augað”.
Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur
-Fornleifaskráning 2002 – FÍ
-Örnefnalýsing fyrir Húsatóftir

Húsatóptir

Refagildra ofan Húsatópta.

Húsatóttir

FERLIR fann fyrir allnokkru hlaðna refagildru ofan við Húsatóptir við Grindavík. Þegar svæðið var skoðað betur fyrir skemmstu komu í ljós tvær aðrar til viðbótar og líklegt má telja að þar kunni að leynast fleiri slíkar.
Auk refagildranna ofan við Húsatóptir eru fleiri hlaðnar refagildrur við Grindavík, s.s. í Básum ofan við Staðarberg, í Sundvörðuhrauni skammt ofan Húsatófta og við Sandleyni ofan við Hraun.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.

Hinar hlöðnu refagildrur eru leifar gamalla veiðiaðferða, áður en skotvopnið, eitrið og dýrabogar komu til sögunnar – sumir telja hugmyndina hafa komið hingað með landnámsmönnum því slíkar gildrur tíðkuðust þá t.a.m. í Noregi. Skrifaðar heimildir eru um þær frá árunum 1781-1798.
Refagildra er sjaldan getið í örnefnaskrám. Þó má sjá þess merki, s.s. í örnefalýsingu fyrir Tannastaði: “Stekkjarhóll er til landnorðurs frá bænum. Á honum eru tvær fuglaþúfur og var þar áður refagildra undir nyrðri þúfunni. Sunnan undir þúfunni var stekkjað um 1840 og eru glöggar tóftir síðan. En litlu norðar eru mjög gamlar tóftir eða vottur þeirra, sem vel gætu verið frá fornöld.”

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Í fornleifafræðiorðasafni Fornleifafræðistofnunar Íslands segir um gildrur þessar: tófugildra – Gildra til að veiða í refi. [skýr.] Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði. Áður en eitur, dýrabogar og byssur urðu algeng fyrirbæri hafa refagildrur líklega verið eina vopn manna gegn tófunni. [enska] fox trap
Fyrir nokkrum áratugum þótti það í frásögu færandi, og jafnvel einstakt, að til væri hlaðin refagildra er líklegt þótti að gæti verið með sama lagi og slíkar gildrur voru gerðar í Noregi og síðan hér á landi að þeirra fyrirmynd. Var einkum vitnað til slíkra fornminja er til væru á Norðausturlandi, einkum Merrakkasléttu.

Húsatóptir

Refagildra ofan Húsatópta.

Ef Reykjanesið – hið jafnumkunnugulega og ómerkilega til langs tíma – er skoðað gaumgæflega má þar finna ótal slíkar hlaðnar refagildrur, mjög merkilegar. A.m.k. 60 slíkar hafa opinberast ásjónum leitenda s.l. misseri – þær síðustu hér tilgreindar ofan Húsatófta.
Í örnefnalýsingum fyrir Húsatóptir er engin lýsing á refagildrum. Sennilega hafa þær þótt svo sjálfsagðar sem raun ber vitni. Í einni lýsingu er þó talað um Baðstofugreni norðan Baðstofu, auk annarra grenja fjær bænum, s.s. við Sandfell og Rauðhól.
Hinar hlöðnu refagildrur, sem skoðaðar hafa verið, voru jafnan þannig; hlaðið var “grunnlag”; annað hvort í lægð (“láfótan lægðirnar smjó”), á barmi gjár, við bakka eða á annarri líklegri leið rebba (sem jafnan er stundvís sem klukkan). Gildran sjálf var þannig; hlaðinn gangur (ca. 1 m langur, 10 cm breiður og 20 cm hár). Þá var reft yfir með steinum eða hellum svo rebbi gæti ekki lyft af sér okinu þegar á reyndi. Oft var vel hlaðið ofan á og til hliða, enda af nógu grjóti af að taka.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Virkni: Þegar gangur og yfirhleðsla höfðu verið fullkomnuð var tekin fram “fallhellan” ógurlega (ekki ómerkilegri en nafna hennar í frönsku fallöxinni. Tveimur öflugum steinum var komið fyrir sitt hvoru megin framan við opið. Fallhellan var “krossbundin” og þráður lagður í “hæl” innan í gildrunni. Hnútnum var haganlega fyrir komið. Í hinn endann var hnýtt hluti rjúpu eða af örðu agni. Þegar refurinn greip agnið og togaði í það hljóp lykkjan af hælnum. Við það féll fallhellan niður og refurinn var innikróaður. Hann reyndi að fra til baka,e n fallhellan hindraði hann í því. Þá reyndi hann að lyfta okinu af sér, en þunginn kom í veg fyrir að það tækis. Smám saman þvarr rebba kraftur og hann lagðist niður, beið og dó síðan – smám saman – úr hungri. Þá var hann sóttur í gildruna, skottið sniðið af og hræinu hent. Að vísu var skinninu haldið til haga um skeið (dæmi eru um að því sem og skottinu hafi verið jafnað við vermæti “skagfirsks gæðings” fyrrum), en það breyttist smám saman uns lítið varð að öngvu – nema áhuganum.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

“Víða um landið eru örnefni, sem hafa að fyrra lið orðið gildra. Þannig eru fjölmörg Gildruholt, Gildruklettar og Gildrumelar og getur sumsstaðar að líta á þessum stöðum steinhrúgur, sem líkjast stundum föllnum vörðum, en sums staðar sést á þeim nokkur lögun. Þetta eru refagildrurnar, sem tíðast hafa verið hlaðnar á klöpp eða þar sem jarðvegur var svo þéttur, að refirnir gátu ekki grafið sig út úr þeim.
Sennilegt er, að grjótgildrur þessar hafi verið algengasta veiðitækið á refi hérlendis áður en byssur urðu algengar. Dýrabogar hafa þó þekkst lengi, enda er minnst á boga í kvæðinu um Hrafnahrekkinn og notaði veiðimaðurinn hann samhliða gildrunni, en trúlega hafa þeir fyrst orðið algengir á síðustu öld. Erlendis voru stærri veiðidýr, svo sem hreindýr, úlfar og birnir veidd í fallgryfjur, en eiginlegar fallgryfjur eru vart þekktar hérlendis.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Thedór Gunnlaugsson lýsir þó í bók sinni, “Á refaslóðum”, fallgryfjum sem gerðar hafi verið í snjó fyrrum, en ekki getur hann þess, hve veiðnar þær hafi verið, enda hefur hann aðeins heyrt um þessa veiðiaðferð. Heimild er þó um, að í Hornafirði hafi gryfjur verið hlaðnar úr grjóti með lóðréttum veggjum eða jafnvel svolítið inn yfir sig. Dýpt þeirra var nokkur, eða svo mikil að öruggt væri að dýrin gætu ekki stokkið eða klifrað upp úr gryfjunum. Á gryfjubotninum var agninu dreift.
Til eru lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. Í Hrappsey 1780. Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.
Í Lærdómslistafélagsritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson. Hann nefnir grjótgildrurnar en lýsir þeim ekki, þar sem þeim sé lýst í Atla og efast hann jafnvel um gagnsemi þeirra. Víða í 19. aldar ritum eru greinar og leiðbeiningar um refaveiðar og má t.d. nefna grein í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær. Þar segir einni, að dýrabogar séu nú orðnir sjaldséðir, og hafi hina gömlu veiðiaðferðir vafalaust þokað fyrir skotveiðinni á þessum tíma.

Húsatóptir

Húsatóptir – refagildra.

Theodór Gunnlaugsson, hin þekkta refaskytta, segist í fyrrnefndri bók sinni stundum hafa hlaðið grjótgildrur við greni til að veiða yrðlinga í eftir að fullorðnu dýrin höfðu verið unnin og mun hann sennilegast vera síðastur manna til að nota þær hérlendis.
Vafalaust hafa ýmsir orðið til að taka upp notkun grjótgildra eftir hvatningu Björn Halldórssonar í Atla. Atli var prentaður þrívegis og fyrstu prentuninni að minnsta kosti dreift ókeypis og hafa því margir kynnst því riti á 18. og 19. öld. En það lætur að líkum að veiðiaðferðin hefur verið seinleg og gildrurnar ekki alltaf fengsælar og hefur t.d. skotveiði úr skothúsum verið margfalt stórvirkari, enda mjög tíðkuð á síðustu öld að minnsta kosti.
Grjótgildrur eru þekktar á Grænlandi og hefur svo verið talið, að þær væri frá tímum Grænlendinga hinna fornu, en þær hafa einnig verið notaðar þar í seinni tíð af bændum landsins. Er mér næst að ætla, að Grænlendingar hafi lært notkun þeirra af norrænum mönnum ámiðöldum, en dæmi eru um, að þeir hafi tekið upp áhöld og vinnuaðferðir norrænna manna. Sá ég líka gildru á Grænlandi 1977 í grennd við forna rúst í Qordlortoq-dal, og virtist hún helst vera frá byggð norrænna manna, en einnig voru ar í notkun nýjar refagildrur af nokkuð annarri gerð.
Refagildra við HúsatóftirSigurður Breiðfjörð lýsir grænlenskum gildrum í bók sinni frá Grænlandi, sem kom út 1836, en einkennilegt er, að hann virðist ekki þekkja notkun slíkra gildra á Íslandi og hvetur bændur hér til að setja slíkar skollagildrur, eins og hann nefnir þær, í landareignum sínum.
Ég hef ekki gert gangskör að því að kanna útbreiðslu þessara gildra, en viðbúið er að langflestra þeirra sé getið í örnefnaskrám einstakra jarða, sem vaðveittar eru í Örnefnastofnun Þjóðminjasafnsins. Árið 1964 var send út spurningaskrá frá Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins þar sem spurt var aukalega um slíkar refagildrur og hvað menn kynnu að segja um notkun þeirra. Bárust svör allvíða að af landinu og reydust 20 heimildarmenn þekkja gildrur eða leifar þeirra eða þá örnefni, sem ótvírætt benda til að gildrur hafi verið á þaim stöðum, þótt þeirra sæjust stundum engar leifar nú. Eru þessir staðir dreifðir um allt land að kalla má, sumir úti við sjó en aðrir inn til landsins, venjulegast í grennd við bæi eða beitarhús, þar sem menn fóru of um á vetrum…
Á hraungarði vestan við Selatanga eru nokkrar hlaðnar refagildrur og hjá Grindavík er rúst af gildru.
VarðaGreinilegt er af lýsingum þeirra, sem upplýsingar hafa gefið um gildrur þessar, að þær eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Einn heimildarmaður greinir frá slíkri gildru úr tré, aflöngum tréstokki um 3 álnir á lengd og voru lok við báða enda og rann annað fyrir er refurinn var kominn inn í stokkinn, en grjóti var hlaðið umhverfis stokkinn svo að minna bæri á honum utan frá séð.
Gildra á Húsafelli sýnir vel hversu grjótgildrur voru gerðar í meginatriðum. Gildran er hlaðin efst á klettakambi og lítur út til að sjá eins og grjóthrúga. Hefur hún áreiðanlega alla tíð verið mjög áberandi og er svo um aðrar þær gildrur,s em ég hefi séð og hefur greinilega ekki verið reynt að fela þær eða hylja þær jarðvegi. Hefur verið leitast við að hafa gildrurnar þar sem hátt bar svo að þær færu ekki á kaf í snjó og mestu máli skipti, að þær væru þar sem refir fóru um í ætisleit á vetrum, en gildruveiðar munu einkum hafa verið stundaðar að vetrarlagi.

 

Gildran á Húsafelli er þannig gerð, að á klappirnar hefur verið hlaðið stórum steinum, sem sumir eru vel meðalmannstak. Eru þrír steinar í röð hvorum megin og milli þeirra um 30 cm bil, en fyrir enda tveir steinar. Þannig myndast eins konar gangur, um 150 cm langur, sem er opinn í þann enda sem í norður snýr, og þar er munninn, sem lágfótu hefur verið ætlað að fara inn um. Ofan á grjótganginum eru síðan aðrir stórir steinar, sem mynda þak. Síðan hafa allar glufur og op verið þéttuð með minni steinum oggengið svo frá, að sem minnst op væru á gildrunni nema munninn.

Refgildra

Refagildra – ÓSÁ.

Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænlegt hellublað, sem enn lá hjá gildrunni, um 20 cm breitt neðst og um 30 cm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þanngi hangið uppi. Í tittinn var síðan bunið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega heftr tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður. Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mútulega fyrir en gæti ekki snúið sér við. Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.
Gildra af þessari gerð er í raun einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skroðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og kvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu. En í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin og lykkju á hinum enda bandins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast oftast smeygt bak við bandið. Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.”

Heimildir:
-Síðari hlutinn eru af skrifum Þórs Magnússonar, Hrafnahrekkurinn – sitt af hverju um refagildrur – úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1980.
-Fornleifafræðistofnun Íslands – Fornleifafræðiorðasafn.

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.