Gvendarhellir

Lagt var stað frá Eldborgarréttinni. Þegar komið var að henni kom álft í lágflugi og settist hjá þátttakendum. Hún var svo gæf að hægt var að klappa henni á kollinn. Hún kvartaði sáran og var hin spakasta. Fjölfóður maður í hópnum skyldi strax að álftin var að kvarta yfir fyrirhuguðu vegastæði Suðurstrandarvegi. Það er því alveg ljóst að sá sem hefur álft, en ekki bara krummafót, sér til stuðnings í því máli getur ekki annað en verið ánægður.

Gvendarhellir

Gvendarhellir (Arngrímshellir).

Gengið var niður um Litlahraun og skoðuð tóttin, sem þar er, hlaðinn nátthagi og fjárskjól utan í hraunhól. Þaðan var haldið niður að Bergsendum og þrædd gatan neðan við gamla bergið uns vent var á bakborða og strikið tekið á Krýsuvíkurhelli. Hann var skoðaður beggja vegna, en nú er ljóst að hægri hlutinn heldur áfram niður á við. í endanum er op, en gróft hraun allt í kring. Opið liggur þarna niður á við og eitthvert áfram. Ókannað. Í hægri hellinum eru separ í loftum og fallegur, grófur, brúnleitur hraunfoss. Svo virðist sem þar séu síðustu leifar hraunsstraumsins, sem rann um rásina.
Farið var í jarðfallið ofan við hellinn og opnað þar inn úr. Einn skreið inn fyrir og kíkti. Ákveðið var að segja ekkert meira um þennan hluta að svo komnu máli.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Þá var haldið upp um Klofninga og komið við í Arngrímshelli (Gvendarhelli) og hann vandlega skoðaður. Ákveðið var að fara niður um efsta hluta Bálkahellis og síðan áfram niður í neðsta hlutann. Loks var haldið upp fjárskjólshraunið og komið að dysjum Herdísar og Krýsu áður en hringnum var lokað. Við skoðun á dysjunum kom í ljós að dys smalans, sem átti að vera horfin undir skriðu, er þarna skammt frá.
Frábært veður.

Litlahraun

Minjar í Litlahrauni – uppdráttur ÓSÁ.