Hraun

Gengið var af stað fimm dögum fyrir umsnúning, hvort sem um var að ræða stystan dag, lengstu nótt eða umbirtingu nýrrar vefsíðu (www.ferlir.is). Veðrið var frábært þennan laugardagsmorgun. Sólarupprásin gyllti stilltan heiðbláan Grindavíkursjóinn sunnan Hrauns. Lognið var algert. Snær þakti jörð svo varla var auðan blett að sjá.

Vatnsheiði

Einungis gamlir garðar, tóftir og önnur mannanna verk stóðu upp úr – og reyndu að njóta augnabliksins. Kristallarnir er þöktu jörðina glitruðu í sólarljósinu líkt og  óteljandi demantar. Vestar reyndi dimmur kólgubakki að gera sig breiðan.
Ætlunin var að ganga austur með ströndinni, skoða Gamlabrunn og 15. aldar kapellu ofan Hrólfsvíkur. Jafnframt var ætlunin að nota sjónvitin til nýrra uppgötvanna, feta sporið upp Skarðið með Berjageira ofan Hálsgeira milli Húsafells og Fiskidalsfjalls og upp að gígopum Vatnsheiðar þar efra, dyngnanna þrigga ofan Hópsheiðar við Grindavík. Vatnsstæði það sem heiðin dregur nafn sitt af suðvestan undir þeim stærsta. Úr honum liggur greinileg hraunrás í sveiga til suðurs. Nokkur gróin jarðföll eru í rásinni. Eitt þeirra, það næsta Húsafelli, hefur vakið sérstaka forvitni FERLIRs. Ætlunin var að skoða þar niðurí. Einnig að komast niður í K-9, op á neðstu dyngjuhæðinni. Þá var og ætlunin að huga að hlöðnum refagildrum, gamalli leið milli Grindavíkurbæjanna og Ísólfsskála með ofanverðri Hrafnshlíð um Svartakrók og Stórusteina sem og gamalli leið milli Hrauns og Þórkötlustaða.
Vættur Efri-hellir, hinn þjóðsagnakenndi “Tyrkjahellir”, er hluti Vatnsheiðardyngnanna. Krosshlaðin refagildra kúrir í Slokahrauni sem og ýmsar aðrar minjar er geyma þjóðsögulega leyndardóma.
Ætlunin var að taka hús á Sigga (Guðjóni) Gísla á Hrauni (fæddur 1923), en hann var ekki heima. Þegar staðið er við Hraunshúsið eins og það er í dag má vel sjá hvar gamla gatan lá vestur eftir heimatúninu í átt að Hliðinu þar sem vegurinn lá yfir að Þórkötlustaðarhverfi. Enn eldri stígur (Eyrargata) lá til suðvesturs um hlið á hlöðnum garðinum og yfir Slokahraunið, framhjá Hraunkoti og niður í sendna fjöruna við Klöpp og Buðlungu. Enn mótar fyrir henni í hrauninu, norðan margra herðslugarða og -byrgja.
Heimabrunnurinn er neðan kálgarðs, en gamli bæjarhóllinn er skammt suðaustan við núverandi hús. Þegar Siggi og fleiri voru að jafna fyrir viðbyggingu við fjárhúsin kom m.a. upp stoðsteinn, sem nú er norðvestan við íbúðarhúsið (“Litla-Hraun”). Af ummerkjum á steinum að dæma virðist húsið hafa verið allmyndarlegt. Steinninn hefur að öllum líkindum verið undir framgaflinum, en heimildir eru um kirkju á Hrauni á 17. öld.
NíanÍ yfirliti yfir sögu Grindavíkur samkvæmt Landnámu nam Molda-Gnúpur Hrólfsson land í Grindavík og hafa verið að því færð rök að það hafi verið í lok landnámsaldar eða á fjórða tug tíundu aldar. Ekkert er vitað um sögu Grindavíkur næstu þrjár aldirnar. Hrauns er getið í rekaskrá Skálholtsstaðar árið 1270. Skálholtsstaður eignaðist jörðina á 15. öld. Árið 1673 bjó þar Hávarður Ólafsson, sem gerði samning við Brynjólf biskup Sveinsson um að hann fengi að halda hluta kirkjunnar í reka á fjörum og greiddi í staðinn eina vætt fisks. Tilefni þessa samkomulags hefur ugglaust verið það að ekki hafi verið hjá því komist að hýsa jörðina að nýju. Heimildir frá 18. öld benda til að Hraun hafi á þeim tíma verið lök jörð og landskuld af jörðinni var aðeins hálft þriðja hundrað árið 1703. Í upphafi átjándu aldar var heimræði frá jörðinni árið um kring, en lending voveifleg samkvæmt Jarðabókinni 1703. Áttrært skip Skálholtstóls á Hrauni fórst 8. mars 1700, en þrjú skip frá Grindavík fórust með áhöfn þann dag, en það fjórða brotnaði. Skiptapar voru og á Hrauni árin 1632 og 1641. Um miðja 19. öld var heimræði frá Hrauni aflagt vegna erfiðra lendingarskilyrða og var eftir það róið úr Þorkötlustaðanefi.
Vatnsöflun var erfið í Hrauni og sökum áfoks spilltust tún og hagar. Ekki var unnt að hafa nokkra skepnu heima við á sumrum og var farið langar leiðir með hesta á beit í dagslok, enda þótt nota ætti þá næsta dag. Vetrarbeit í fjöru var léleg á vetrum vegna þess hve há fjaran er og lítið útgrynni. Reki var allgóður á fjörum Hrauns og þar var selveiði nokkur. Í Hraunsvík voru góð skötu- og ýsumið. Árið 1703 voru á bænum auk bóndans og konu hans og tveggja barna ungra fjögur vinnuhjú. Á búinu voru 4 kýr, 30 sauðfjár og þrjú hross. Jörðin var þá í eigu Skálholtsstóls skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, þriðja bindi, bls. 9.

Tyrkjahellir

Skóg til kolagerðar brúkaði jörðin 1703 í almenningum sem aðrar jarðir í sveitinni. Tvær hjáleigur voru í landi Hrauns árið 1703. Kirkja var á Hrauni allt frá miðöldum fram yfir 1600, en ekki er ljóst hvenær kirkja komst þar á. Í Fitjaannál 1602 segir frá því, að farist hafi með farmaskipi Skálholtsstaðar utan við Þórkötlustaði 24 manneskjur og voru flestar jarðaðar í bænhúsinu á Hrauni. Kirkjan virðist hafa aflagst um það leyti. Þegar kemur fram á 19. öld er sú breyting á orðin að Hraun er eitt mesta myndarbýlið í Grindavík og þar bjó sama fjölskyldan mestan hluta aldarinnar, sem var óvenjulegt í Grindavík. Um eða rétt eftir 1822 kom á jörðina Jón Jónsson og er hann í öllum heimildum talinn eigandi jarðarinnar. Hann var gildur bóndi. Hann reisti m.a. þrjú stór og reisuleg timburhús á jörðinni. Eru það fyrstu timburhúsin í hreppnum. Í sóknarlýsingu 1840-1841 segir um Hraun: ,,Selstaða lángt frá en sæmilega góð.” Í bókinni Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi (1982) segir að meðal hlunninda að Hrauni árið 1932 séu reki og útræði. Sigurður Gíslason býr nú (2006) á allri jörðinni og er þar annars vegar stundaður sauðfjárbúskapur og hins vegar námavinnsla jarðefna. Jafnframt eru önnur hlunnindi jarðarinnar nytjuð.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Skammt austan við gamla bæjarhólinn, sem nú hýsir fjárhúsin, eru gömu fjárhús, líklega frá því um aldarmótin 1900. Vörslugarður heimatúnanna sést enn vel. Honum var lengi haldið við, enda fékk bóndinn á Hrauni “Dannebrogsorðu” fyrir hleðslu hans og fleiri garða við hraun fyrrum á 18. öld. Í þá tíð vildi Danakóngur hvetja þegna sína, ekki síst á Íslandi, til uppbyggingar og framþróunar á ýmsum sviðum – stundum með góðum árangri. Garðarnir standa að mestu enn – og minningin lifir. Sambærilegir garðar í Járngerðarstaðarhverfi og í Staðarhverfi fóru í ferðalag á fjórða áratug 20 aldar. Grjótinu úr þeim var kastað upp á vörubílspalla, enda lá það vel við – snyrtilega upp raðað og beið þess að menn kæmu og hirtu það. Grjótinu var síðan sturtað undir bryggjurnar, sem þá voru í byggingu og urðu grundvöllur framþróunar byggðarlagsins. Það má því segja að grjótið hafi gengið í endurnýjun lífdaga, enn og aftur með tilhlýðilegum árangri – eða a.m.k. tilgangi.
Skammt austan fjárhústóftanna eru leifar af gamalli refagildru. Enn austar er Gamlibrunnur á Hraunssandi. Hraunssandur virðist lítt áhugaverður, nema þegar krían er þar á varptímanum og sækir með harðræði að forvitnum vegfarendum. Hraunsmenn hafa löngum staðið vörð um kríuvarpið og stuggað eggglöðum frá. Deilur við nágrannana, sem vildu nýta varpið, er flestum löngu gleymdar. Þó lifa enn nokkrar smellnar sögur, sem síðar verða kannski birtar – í bók.
BerjarimiÍ Gamlabrunn sóttu m.a. Þórkötlustaðabúar vatn fyrrum. Vatnið í honum þótti gott. Í dag er einungis lítið op efst á brunninum, en ef höfðinu er stungið niður um það má sjá formlegar hringlaga hleðslur. Dýptin er nú um 80 cm, en talsverður sandur hefur sest í botninn.
Milli brunnsins og kapellunnar ofan við Kapellulág (ofan Hrólfsvíkur) er nokkuð stór þúst, um 60 cm há. Hún er gróin og sker sig nokkuð úr umhverfinu. Strandlínan er nú næstum komin að henni, en ekki er ólíklegt að undir bungunni kunni að leynast mannvistarleifar. Utar gæti fyrrum hafa verið byggingar, en sjórinn nú tekið til sín. Kapellan sem og brunnurinn bendir til nálægðar við meiri byggð fyrrum.
Einhverra hluta vegna var kapellutóftin tekin sem dys sú, sem enn sést ofan Hrauns í byrjun 20. aldar og komst þannig á skráningarspjöld sögunnar.
“Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
VatnsstæðiðHann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.”
Kristján Eldjárn gróf í “dysina” á Hraunssandi 1958. Þar reyndist vera kapella frá 14. eða 15. öld. Hann hafði mikinn áhuga á fyrrnefndum manngerðum hól vestan við Hraun, en gafst ekki tími til frekari rannsókna.
Kapellunni hefur lítt sómi verið sýndur í seinni tíð. Ryðgað járndrasl er umhverfis tóftina, sem var orpin sandi eftir uppgröftinn.
Fiskidalsfjall (202 m.y.s.) er eitt fárra “fjalla” á Reykjanesskaganum, önnur fjöll eru fell. Vestan þess er Húsafell (172 m.y.s.). Milli þeirra er Berjageiri. Haldið var upp með honum. Neðar var ein af fjarskiptastöðvum NATO (Bandaríkjamanna) allt fram á sjöunda áratug 20. aldar. Leifar hennar sjást enn mitt upp í geiranum, grunnar tveggja húsa og fæstur og festingar mastranna á víð og dreif. Nú eru þana sandnámur Hraunsmanna.
VatnsstæðiðEfst í geiranum eru minjar eftir vatnsþró varnarliðsmannanna í loftskeytastöðinni. Borhola hefur verið þar og vatni dælt upp. Síðan hefur það verið sjálfrennandi um lögn niður geirann. Vatnið þótti gott og vildu sumir Þórkötlustaðabúar að fá að nýta holuna eftir að herinn hvarf á braut.
Loftur Jónsson segir m.a. um þetta svæði: “Alla mína vitneskju  um örnefni í Hraunslandi hef ég frá Magnúsi Hafliðasyni, þeim fróma manni.
Berjageiri er næstum þríhyrnd gróðurtorfa utan í hlíðinni á Fiskidalsfjalli, þar sem það snýr að Húsafjalli, og nær aðeins niður í rætur fjallsins. Rýmið á milli fjallanna heitir SKARÐ. Þegar menn ferðuðust þarna um gengu þeir ýmist niður Skarð eða upp Skarð eftir því í hvora átt þeir fóru.
Bandaríkjamenn (Nato-Varnarmáladeild) tóku eignarnámi einhverja hektara lands neðan við Skarð á árunum milli 1950 og 1960.  Þarna á melunum var ekki stíngandi strá og allra síst krækiber, í mesta lagi óx þarna geldingahnappur. Það var sáð þarna grasfræi á milli vélaskemmanna þannig að í dag gætu menn haldið að þarna hefðu þeir tillt niður fæti á gróðurlendi.
Þar sem húsin voru byggð var eiginlega efsti hluti Hraunssands.  Þar sem dæluhúsið stóð þá eru menn komnir í Vatnsheiði.
Á unglingsárum mínum og síðar átti ég mörg spor um þessar slóðir og landið þarna er mér í fersku minni.”
Hraunsmenn hafa verið að reyna að nýta sér efni bakatil í fjöllunum (fellunum). Stórusteinar voru þar, þ.e. stórt grjót er hrunið hafði úr efri brúnum, en þeir voru færðir í nýjan varnargarð í Járngerðarstaðahverfi. Það eru því engir “Stórusteinar” til lengur, en örnefnið lifir með varnargarðinum. Hann mætti því að ósekju heita “Stórusteinagarður”.
Skammt norðar er stórt jarðfall. Um er að ræða hluta af hrauntröðinni úr miðgíg Vatnsheiðardyngjunnar. Þrátt fyrir leit fannst engin leið inn í rás úr jarðfallinu.
Skoðað var hið hrikalega gígop efstu dyngjunnar á Vatnsheiði sem og vatnsstæðið, sem heiðin ber nafn sitt af suðaustan undir því.

Minjar

Ætlunin var að fara niður í K-9. Búið var að forfæra 12 m langan stiga upp að opinu, en þegar til átti að taka reyndist dýptin vera rétt rúmlega það. Það var því ákveðið, af öryggisástæðum, að bíða með niðurför. Samkvæmt upplýsingum afkomanda Hraunsbóndans á þarna niðri að vera um 300 metra löng göng, en Hellarannsóknarfélagsmenn hafa talið þau mun syttri.
K-9 var nefndur svo eftir að jarðýtu, Catepilar 9, var ekið um Vatnsheiðina er jörðin opnaðist skyndilega undir henni á þessum stað. Ýtustjóranum tókst að koma sér og farartækinu á jarðfastan stað, en litlu mátti muna að illa færi. Dýptin er, sem fyrr sagði, um 12 metrar.

K-9

K-9.

Þá var stefnan tekin á “Tyrkjahellinn” eða Efri-helli á hæðarbrúninni vestan Húsafells. Á leiðinni voru tvær vörður. Þær munu vera við gömlu efri leiðina, sem fyrr var minnst á, milli Skála og Járngerðarstaða. Þá var farið ofan við Hrafnshlíð, með hæðunum vestanverðum og síðan af Vatnsheiðinni niður á Hópsheiði þar sem alfararvegur lá heim að bæjum.
KapellanUm Efri-helli er sagt að í hann hafi Grindvíkingar ætlað að fljýja kæmi Tyrkir aftur. Var talið að hellirinn myndi rúma alla Grindvíkinga. Opið, eða öllu heldur opin, eru vandfundin suðvestan Húsafjalls.
Tvö op eru á hellinum. Það vestara er auðveldara umleikis. Þar fyrir innan er rúmgóður hellir. Nú er mold í botni sem er afrakstur moldroks af heiðinni sem og vatnsfærslu niður á við.
Rýmið gefur vel tilefni til að hýsa álitlegan fjölda.
Í aðdraganda jólanna las einn þátttakendanna, Gugga Erlings, jólasögu frá fyrri hluta fyrri aldar (“Stórkostlegastur allra”, Þóra Stefánsdóttir þýddi, birtist í 50. tbl. Vikunnar 18. desember 2001). Efnisinnihaldið var vel við hæfi en þar sagði frá ungu grenitré er vaxið hafði við hliðina á gömlu og óálitlegu lauftré. Litla grenitréð, sem átti framtíðina fyrir sér, vildi ekki að gamla lauftréð, sem hafði gefið öðrum laufin af sér til ýmissa nota, skyggði á það. Niðurstaðan var sú að þrátt fyrir allt – að lokum, fannst fólki mikið til fórnlundar gamla trésins koma. Líf er líf – hvers stofa sem það er.

Gamli brunnur

Gengið var niður af heiðinni inn á Slokahraun, sem rann úr Moshól undir Hagafelli á sínum tíma, í mjórri ræmu niður heiðina og myndaði nesið milli Hrauns og Þórkötlustaðahverfis; Sloka.  Niðurlútur hraunkarl fylgdist vel með mannaferðum. Í hrauninu er krosshlaðin refagildra, sem nú var barin augum. Inngangarnir hafa verið fjórir. Líklega er þarna um að ræða þá tegund af gildrum er trégrindur þjónuðu síðar er yrðlingar voru teknir úr grenjum og refaskyttan reyndi með ámótlegu væli þeirra að laða foreldrana að til hirðingar.
Á heiðinni sem og í hrauninu mátti víða sjá fótspor eftir ref í snjónum.
Eldri refagildra er neðar í Sandleyni. Loks voru skoðaðar gamlar götur vestan heimatúnsgarða hrauns, s.s. Eyrargatan og fyrsti akvegurinn yfir að Þórkötlustöðum.
Dysin sú, sem minnst var á í tengslum við kapelluna á Hraunssandi, er ofan túngarðs. Sigurður Gíslasyni, bóndi á Hrauni, sagði FERLIR á sínum tíma frá þessum á grónum hraunhólnum norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum. Hann sagði aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, sem að framan greinir.
Ekki er þó loku fyrir það skotið að hleðslurnar á hólnum kunni að hafa þjónað þeim tilgangi að vera mið inn í Hraunsvörina, sem er þarna neðan við. Líklega hefur sundvarða verið þar á millum, sem nú er horfin, eða varða á þessum hól hafi tekið mið í eitthvert kennileitið efra, s.s. Þorbjörn.
Frábært veður, sem fyrr sagði. Gangan tók 3 klst og 3 mínútur.

Heimild m.a.:
-http://www.obyggd.stjr.is/svland/04.pdf
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-Öldin okkar – Öldin sautjánda; 1601-1800; 1966.
-Guðsteinn Einarsson – 1960.
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson.
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Frásagnir Brynjúlfs frá Minna-Núpi.
-Rauðskinna.
-Rit Björns Jónssonar frá Skarðsá um Tyrkjaránið.
-Sagnir, munnmæli, frásagnir og leiðbeiningar elstu núlifandi manna í Grindavík.
-“Stórkostlegastur allra”, Þóra Stefánsdóttir þýddi, birtist í 50. tbl. Vikunnar 18.desember 2001.

Vatnsheiðarvatnsstæði