Hraunssel

Farið var yfir Höskuldarvelli, að Sogagíg utan í vestanverðri Trölladyngju og litið á selin og önnur mannvirki þar. Síðan var haldið inn á Selsvellina og staðnæmst við Selsvallaselin eldri sunnan á vestanverðum völlunum.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Eftir að hafa skoðað tóttirnar tvær undir hálsinum uppgötvaðist þriðja tóttin, greinilega sú elsta þeirra, skammt neðar, nær völlunum. Tóttir þessarra eru því a.m.k. 3 talsins. Þá voru Selsvallaselin yngri norðan í vestanverðum völlunum skoðuð, bæði stekkirnir tveir við þrjár tóttir seljanna sem og hlaðinn stekkur norðan við hraunhólana. Hraunhólinn, sem miðselið stendur utan í, er holur að innan, gat er austan í honum og hefur hann greinilega verið notaður sem skjól. Norðvestan við hólinn liggur selsstígur yfir hraunið og áfram að norðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Selsvallaselin voru útgerð frá Grindavíkurbændum.

Hraunssel

Hraunssel – selsstígurinn.

Haldið var að Hraunsseli neðan við Þrengslin. Eftir að hafa skoðað stekkinn í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóttir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tótt, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóttana og stekksins. Sunnan við þennan hlaðna stekk var annar mun eldri. Verður því þetta seinna sel nefnt Hraunssel eldra (332), en þau undir hlíðinni nefnd Hraunssel yngri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells.

Hraunsselið er síðasta selið, sem lengst var brúkað á Reykjanesi, eða allt til ársins 1914. Haldið var norður fyrir Fellið og síðan til vesturs norðan þess, niður með austanverðum Merardalahlíðum og áfram niður með Einihlíðum vestan Sandfells. Þessi leið er mjög auðfarin, melar og móar.

Hraunssel

Í Hraunsseli.

Þegar komið var langleiðina niður að Bratthálsi var vent til norðurs upp Lyngbrekkur og upp að gili, sem aðskilur þær frá Langahrygg. Þar niðri í því og upp með hlíðum Langahryggs liggja leifar flaks amerískrar flugvélar er fórst þar á stríðsárunum. Einn hreyfillinn liggur með öðru dóti í gilinu. Annað, þ.e.a.s. það sem ekki var fjarlægt á sínum tíma, er dreift um hlíðina og upp á hryggnum. Frá Lyngbrekku var haldið niður að gömlu þjóðleiðinni er lá þarna um Drykkjarsteinsdal, austur að Méltunnuklifi og áfram austur. Leiðin er þarna mjög greinileg og óspillt. Loks var haldið vestur með Slögu, niður í Drykkjarsteinsdal, Drykkjarsteininn skoðaður, en skálar hans voru skráþurrar aldrei þessu vant, og ferðin enduð á Ísólfsskálavegi.
Frábært veður.

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.