Kaldrani

Orðið Kaldrani virðist hafa verið til í ýmsum myndum; sem nafnorð, þ.e. bæjarnafn, tröllsnafn og nafn á fjalli eða vík, eða sem lýsingarorð á veðurfyrirbæri eða karllægri hegðan. Hér á eftir er nokkurra þeirra getið.

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

Eina orðmyndina má finna í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903 þar sem Brynjúlfur Jónsson lýsir rannsókn sinni í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902: “Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt hún hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleifarvatn. Og líka er sagt að þar hafi alt fólkið dáið af loðsilungsáti. Örnefnið: Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fðm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma.”
Vissulega má sjá garðleifar á nefndum stað, en þar hefur væntanlega aldrei verið bær undir hraunkatli.
Kleifarvatnið hefur um aldana rás hlaupið fram og aftur um umhverfi sitt. Í manna minnum myndaðist t.d. svonefnt Nýjaland sunnan þess. Það er nú grasi gróin mýrardrög og nýtt af hestamannafélaginu Sörla á sumrum. Áður voru þarna Vesturengjar Krýsuvíkurbæjanna. Ef Kaldrani hefur verið bær í Krýsuvík fyrrum hefur hann verið í Hvömmum. “Kaldranaminjarnar” munu líklega hafa verið útstöð frá honum. Í Hvömmum eru nú “Hnakkageymslur” hestafólks. Það hefur fært verulega út kvíarnar og komið sér upp sumarafdrepum í óþökk sveitarfélagsins. Eitt afdrepið hefur, illu heilli, verið fyrirkomið ofan á merkilegum minjum í hvamminum. Þar gæti mögulega hafa verið bærinn Kaldrani fyrrum, og síðar selstaða frá Stóra-Nýjabæ (Austurbæ). Sellækur liðast um hvamminn, auk þess að þarna hefur fyrrum verið ákjósanlegt bæjarstæði með Hvammahlíðarnar og Austurengjarnar sem ákjósanleg slægjulönd. Nyrst á Austurengjum eru fornar minjar um gerði og önnur mannvirki.

Í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1943 skrifar Ólafur Þorvaldsson um “Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar”. Þar getur hann um “bæinn” Kaldrana:
“Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana. Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafi eyðzt vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilung verða, en hann á óætur að vera, samanber vísu þá, sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafði étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi. Vísuna hef ég lært þannig:
Liggur andvana
lýður á Kaldrana,
utan ein niðurseta,
sem ei vildi eta.
Nú sjást engin merki um býlið á Kaldrana, en staðinn geta menn enn bent á.
Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn fyrir Hellu. Eftir það sléttur sandur, þar til komið er inn á Blesaflöt.”
Hér etur Ólafur upp, gagnrýnislaust, upp þjóðsöguna af Kaldrana og bendir á enn “geti menn bent á” bæinn á þeim stað. Þarna virðist hanna fara villu vega, líkt og svo margir aðrir, sem eftir upp átu.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

Í Degi 1996 má lesa upprifjun úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar um Krýsu og Herdís: “Fleiri sagnir eru til um landnám Krýsuvíkur og hvernig örnefnið er til komið. Hér fer á eftir útgáfa Brynjúlfs Jónssonar: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á landnámstíð, því að fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögu, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það, sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs. Þó hefur það verið sagt.
Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís í Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein, er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefur spúið eldi, því í honum er gígur ekki alllítill og úr honum hefur runnið hraun það, er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust (höfðu í heitingum), og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir híðinni skammt fyrir austan hálsinn.
Neikvætt fiskeldi Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður, þó hvorug hefði vel. Þangað til hafði verið veiði mikil í Kleifarvatni í Krýsuvfkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni. Herdís mælti svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur. Þá lagði Krýsa það á, að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum.
Það skyldi og fylgja, að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn í Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn, svo hann varð að flytja úr stað, og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís. Þá komu sjómenn með skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana, þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi, og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.
Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og Herdísar) eru tveir steinar, sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.”
Dysjar eru vissulega neðst í Kerlingardal við gömlu þjóðleiðina millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, sem og lítil dys smalans í hlíðinni. Staðreyndin er hins vegar sú að í hvert sinn sem fornleifafræðingar grafa í svonefndar sögulegar dysjar og grafir gerist fátt annað en ekkert. Líklega mun sú raunin verða ef framangreindar dysjar yrðu afhjúpaðar – því miður.

Í Griplu 2013 er grein er nefnist; “Er Þat illt, at þú vilt elska tröll Þat” og er þar vísa til sögulegs samhengis jöðrunar ú Hrafnistumannasögum. Þar segir m.a.: “Í Ketils sögu hængs er getið um Kaldrana. Í þessari sögu er ómögulegt að vita, en þó er Kaldrani alltaf kallaður jötunn en vinir hans tröll.”

Í Ægi 1916 er frásaga “Ferðar um Norðurland”: “Austasta víkin í Hafnalandi [á Skaga norðan] er Kaldranavík. Stendur bærinn Hafnir fyrir botni víkurinnar og þó nokkurn kipp frá sjó. Austan megin vikurinnar er bær sá er Kaldrani nefnist og á hann land austan megin víkurinnar og alt að miðjum botni hennar.”

Í Islandske Maaneds-Tidende 1773, Nyheder, segir af bæjartali Reykhóla kirkjusóknar. Þar kemur bæjarnafnið Kaldrani fyrir, nr. 15.
Beretning om ode-Gaarder.
Med mindre man havde tydelige Beviisligheder at grunde fine Tanker paa ikulde man fortære at Landet havde faa meget aftaget i nogle ioo Aar, fom det virkelig har: Til Exempel er dette at udi Stade og Reykhole Kirke-Sogn findes 25 ode-Gaarder nu omftunder fom alle forher have været beboede. Og ere dine efterfølgende;
1 Thorgeyrsdal.
2 bunnarltader.
3 Uppfaler. 4 Aftmarftader.
5 Kaudsdal. 6 Hliidarkot.
7 Hliidarfel, 8 Hraunaftader.
9 Forne Stader.
10 Store Mor.
12 Titlingaftader,
13 Horn.
24 Gotuhuus.
15 Kaldrani.
36 Þembu eller Thembekot.
17 Selianes, 18 Huustopter.
19 Audunarftader 20 Vogbotnskot.
si Stertaftader, 22 Bæarkot.
23 Veller. 24 Voluftader.

Í Breiðfirðingi 1992 er mynd af fjallahring, m.a. af Kaldrana.

KaldraniÍ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1049 er fjallar Hans Kuhn um “Vestfirsk örnefni”.
“Svo sem nöfnin Hreggnasi—Hreggnes og Arnarstapi fann eg og flest önnur nöfn af þessari gerð, sem dreifð eru um stóra hluta lands eða allt landið, Arnarbæli, Brimnes, Kaldbakur og Svalbaroð”—Svalbarði, í nyrzta hrepp Strandasýslu (Árnessveit), en hvergi í öllum hinum hreppum hennar. Helzta undantekningin, sem eg þekki, er Kaldrani. Svo heitir holtahryggur í Arnkötludal í Steingrímsfirði. Stærsti bærinn í Bjarnarfirði heitir Kaldrananes, en hann hét í upphafi Kallaðarnes og seinna Kaldaðarnes.”

Í Iðunni; nýr flokkur, 1918, er birt ljóðið “Konan í Hvannadalabjörgum – íslensk þjóðsaga í ljóðum eftir Guðmund Magnússon”;
Nú vaknar bergið —
það bifast og stynur,
það beljar og dynur
sem hefji tröllin
bamrafargið
og hristi fjöllin. —
Himinkljúfandi
hark og sköll,
gegnumsmjúgandi
gnístran og köll.
»Vaknaðu Víðgrani!
Vaknaðu Kaldrani!
Alsvartur, Öskruður,
Ámur, Rangbeinn!
Rís upp, Þrúðgelmir,
Þrívaldur, Hraunbarði,
Bölþorni, Brokkur,
Blakkur, Dumbur.
Skyndið ykkur, Skellinefja,
Skjaldvör, Gláma, Brana, Fála,
Henginkjaíta, Hrottintanna,
Hágríður, Blágríður!
Gerið sköll og skelli,
skark og hark í felli,
hjá oss er í helli
Hálfdán á Felli,
Hálfdán á Felli«.

Í Póstmannablaðinu 1944 er grein; “Póstmannafélag Íslands 25 ára”:
“Ný skipan – Frá ársbyrjun 1920 varð sú breyting á stjórn póstmálanna, að aðalpóstmeistaraembættið var stofnað og tók Sigurður Briem við því, en Þorleifur Jónsson varð póstmeistari í Reykjavík. Póstmálaskrifstofan varð nú til, með sérstöku starfsliði og sérstökum yfirmanni — póstritara —, er gengi næst aðalpóstmeistara að völdum. Um þetta nýja embætti kepptu tveir gamlir og gegnir póstmenn og varð annar hlutskarpari, eins og venjulegt er. Upp úr þessu myndaðist á Póststofunni einhvers konar kaldrani til skrifstofunnar og var fátt fært til betri vegar, ef önnur leið var tiltæk. Hefur þetta haldist æ síðan, á mismunandi stigum, en mætti nú vera úr sögunni og saknaði þess sennilega enginn.”

Í Skírni 1929 eru “Ritfregnir”:
“Einkennilega eru þau orð samsett, er málfræðingar kalla einu nafni »Bahuvrihi«. Þessar samsetningar voru að upphafi nafnorð, segir höf., en urðu síðar lýsingarorð, eða voru notuð í stað lýsingarorða. Hefir þessum samsettu orðum fjölgað mjög í germönskum málum á síðari tímum og nefnir höfundur fjölda dæma, eins og t. d.: hrokkinskinna, litilhugaður, mjóeygur, Kaldgrani ( = Kaldrani) o. s. frv.”

Í Morgunblaðið 1983 fjallar Hildur Einarsdóttir um “Áhrif veðursfars á fólk”.
“Fyrir rúmri viku var ég stödd i París í stórri verslunarmiðstöð, þar sem áður var gamli matvörumarkaðurlnn í París, les Halles. Þar er myndband á einni hæðinni, sem flytur fréttir hvaðanæva úr heiminum. Ég fór að góna á skerminn og allt í einu var komin þar frétt frá Íslandi. Það voru tíðindin um að sl. júlímánuður heföi veriö sá kaldasti hér á landi frá því árið 1874 og bætt var við, að nú stæði Ísland svo sannarlega undir nafni. — Skyldi nokkurn undra þótt við séum orðin svolítið fúl yfir veðrinu, þegar við rigninguna bætist svo þessi kaldrani.”

Í Fálkanum 1943 er jólahugvekja eftir sjera Jakob Jónsson; “Ljós skal skína fram úr myrkri”.
“Hinn kristni heimur heldur jól. Ljósinu bregður fyrir í myrkrinu. Sjerhver sá, sem enn ú nokkurn veginn óspiltar tilfinningar, finnur á hinni helgu nótt, að ljósið skín í hjarta hans. Og jafnvel þó að kaldrani hversdagslífsins leggisi aflur yfir borg og byggð, er enginn samur maður, sem fundið hefir ljósið skína fram úr myrkrinu. Hann hefir, þótt ekki sje nema stundarkorn lifað í heimi jólanna.”

Niðurstaðan er sú að orðið “kaldrani” í íslenskri málhefð er flóknara en svo að hægt verði að skýrskota það til nákvæmlega eins staðar á Reykjanesskaganum….

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Brynjúlfur Jónsson, bls. 50.
-Dagur, 19.10.1996, Krýsa og Herdís, bls. 5.
-Gripla, 24. árg. 20.12.2013, Er Þat illt, at þú vilt elska tröll Þat – Hið sögulega samhengi jöðrunar ú Hrafnistumannasögum, bls. 193.
-Ægir, 11.-12. tbl. 01.12.1916, Ferð um Norðurland, bls. 137.
-Islandske Maaneds-Tidende, 2. tbl. 01.11.1773, Nyheder, bls. 29.
-Breiðfirðingur, 1. tbl. 01.04.1992, Á tildi Vallahnúks, bls. 171.
-Árbók Hins íslenska Fornleifafélags, 01.01.1943, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 92-93.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1049, Vestfirsk örnefni eftir Hans Kuhn, bls. 17.
-Iðunn; nýr flokkur, 3. tbl. 01.01.1918, Konan í Hvannadalabjörgum, íslensk þjóðsaga í ljóðum eftir Guðmund Magnússon, bls. 170-171.
-Póstmannablaðið, 1. bbl. 01.07.1944, Póstmannafélag Íslands 25 ára, bls. 4.
-Skírnir, 1. tbl. 01.01.1029, Ritfregnir, bls. 240.
-Morgunblaðið 26.08.1983, Áhrif veðursfars á fólk, Hildur Einarsdóttir, bls. 34.
-Fálkinn, 17.12.1943, Ljós skal sklina fram úr myrkri, jólahugleiðing eftir sjera Jakob Jónsson, bls. 1.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.