Skyggnisrétt

Tómas Þorvaldsson, 83. ára gamall, tók á móti FERLIR í Grindavík.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Þegar var haldið að Vergötu í Járngerðarstaðahverfi með það fyrir augum að staðsetja dys Járngerðar, sbr. söguna. Gatan liggur til suðurs gegnt Garðhúsum, sem Einar kaupmaður byggði 1918.
Næsta hús að vestan er Valdabær, síðan Járngerðarstaðir og loks Vesturbær. Gamla sjávargatan lá fyrrum til suðurs frá Járngerðarstöðum, en það var samheitið á torfunni, og yfir þar sem nú er Helgavöllur. Vergatan er yfir gömlu götunni. Þar sem gatan beygir á móts við Garð, á milli Víkur og Hliðs, var Járngerður dysjuð. Í þjóðsögunni segir að dysin hafi verið einn faðmur á breidd og þrír á lengd. Hafi dysin hækkað til austurs. Framhjá henni hafi vermenn gengið til skips. Vergatan hefur verið lögð yfir dysina þarna ú beygjunni, en ef grannt er skoðað má sjá í suðvesturhorn dysjarinnar, sjávarmegin, undan veginum.

Kapella

Kapellan í Kapellulág.

Tómas sagði frá því að Skálholtssúðin hafi farist með 23 mönnum í Hróflsvíkinni (austan við Hraun) árið 1602. Hafi fólkið verið grafið við kapelluna í Kapellulág.
Þá var haldið að Virkinu. Í og við það var Grindavíkurstríðið háð árið 1532. Skærur voru með Englendingum undir forystu Jóhanns Breiða (Joen Breen) annars vegar og Hansamönnum og heimamönnum hins vegar. Enduðu þær með því að hinir síðarnefndu söfnuðu liði (um 180 – 250 manns) eina nóttina ( 10. júní) og réðust að Englendingum í Virkinu (kl. 02:00 að nóttu). Lágu um annar tugur Englendinga í valnum og þar á meðal Jóhann Breiði, sundurhöggvinn. Aðrir reyndu að flýja til skipa sinna. Fjórum enskum skipum tókst að komast frá landi, en eitt strandaði í útsiglingu og fórst þar með allri áhöfn.

Vikri Jóhanns

Tómas við leifar virkis Jóhanns breiða.

Átta Englendingar voru teknir til fanga. Hinir látnu voru dysjaðir austur undir virkisveggnum. Heitir þar nú Engelska lág. Tómas benti á lágina, sem nú er sandorpin, skeifulaga og hefur áður verið nokkurs konar dalur austan við Virkið – á milli þess og Hellanna. Virkið sjálft er nú þarna fremst á kampinum, en sjórinn hefur brotið þarna talsvert af landinu. (Sjá nánar Grindavíkurstríðið undir Fróðleikur).

Tómas sagði frá Skjöldunni, en svo nefndust hús þar sem fátækir fengu að búa vestan við Járngerðastaði. Þar eru nú hlaðin útihús frá bænum.

Grindavík

Skjalda.

Vestan við Skjölduna er graslaut, opin til suðurs. Hún heitir Geldingalaut. Þar voru folöld gelt, stundum mörg á dag. Norðan við Skjölduna er Vatnsstæðið og síðan hraunið. Uppi í því er fallegur gróinn hraunbolli, Einisdalur. Þangað fóru Grindvíkingar oft á góðvirðisdögum og tóku með sér nesti. Austar, norðan Járngerðastaða, er Bóndastekkstúnið. Á því var hlaðin rétt, Bóndastekkstúnsrétt. Hún var síðar notuð sem kartöflugarður. Norðvestan túnsins er gjáin Silfra, sem þjóðsaga er kennd við. Í gjánni á að vera silfursjóður, en þegar menn eru að því komnir að ná honum upp er eins og húsið á Járngerðarstöðum standi í björtum logum.

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

Norðan við Silfru liggur Skipsstígurinn í átt að fjarskiptastöðinni. Við hann er heil varða, en skammt norðan hennar er önnur fallin, á efstu brún áður en komið er að girðingunni. Hún heitir Títublaðavarða. Þaðan má vel sjá hvar stígurinn liðast innan girðingarinnar, að vörðu norðan hennar, skammt frá gatnamótum götu að Hópi. Einnig sést þaðan í Gyltustíg vestast í sunnanverðum Þorbirni.

Hraunstekkir eru austan við Gerðisvallabrunna. Sunnan við þá er hlaðinn stekkur og tótt undir grónum hól. Þar voru lömbin höfð um vorið þegar ærnar voru reknar í sel innan við Þorbjörn (Baðsvallasel).

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðisvöllum.

Haldið var að Gerðisvallabrunnum að vestan. Þar má sjá vörðu á hægri hönd. Hún stendur við gamla þjóðleið út að Húsatóttum. Sést vel móta fyrir gömlu götunni við vörðuna. Beint niður frá henni, á sjávarkampinum er Markhóll, landamerki Húsatótta og Járngerðarstaða. Vestar er Stekkhóll. Gamall stekkur er vestan í hólnum, nú að mestu jarðlægur. Þá er komið að Hrafnagjá. Austan hennar eru garðar hlaðnir í ferkantað gerði. Þar er Junkaragerði. Þýskir og heimamenn áttu í gerðinu með sér marga glettuna fyrr á öldum. Innan þess má sjá gamlar tóttir. Eftir að Englendingar höfðu verið hraktir frá Grindavík sátu Hansamenn nánast einir að verslun við Íslendinga um sjö áratuga skeið, eða þangað til Danir tóku að sauma að þeim og einokuðu verslunina. Líklegt má telja að Hansamenn hafi sest að þarna í búðum Englendinga eftir að þeir voru flæmdir á brott.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli – söguslóðir Grindavíkurstríðsins 1532.

Gerðið sést vel og gaman er að ganga um svæðið með hliðsjón af sögunni. Junkarar bönnuðu t.d. heimamönnum að fara inn fyrir gerðið á meðan þeir voru í róðrum, en þeir læddust nú samt þar inn fyrir og náðu sér í ýmislegt nýtanlegt. Junkarar reyndu að hefna sín á Grindvíkingum, en þeir svöruðu fyrir sig með því að saga í sundur árar, gera gat á báta o.s.frv.

Utar á kampinum er rétt, Skyggnisrétt á Skyggni. Í hana voru trippi rekin á vorin og þau klippt áður en þau voru rekin upp á Selsvelli. Vestar eru Hásteinar. Víkin útaf Skyggni, undan Gerðisvallabrunnum, heitir Stórabót.
Frábært veður.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.