Þótt maðurinn geti farið ferða sinna fótgangandi um vegleysur hafa götur og vegir jafnan leitt hann á milli áfangastaða.

Fornugata

Fornugata.

Fótspor hans og hófar hestsins skrifuðu rúnir sínar í grjót og svörð öldum saman áður en fyrstu lög þjóðveldisins voru af mönnum skráð.  Hjólið kom síðar til Íslands en nokkurs annars Evrópulands. Það var bæði af því, hve hestarnir voru góðir og landið slæmt.  Vagnar héldu ekki innreið sína í íslenskar sveitir fyrr en um aldamótin 1900, og urðu þá fljótt ómissandi á hverjum bæ.  Um svipað leyti hófust einnig reglulegar ferðir póstvagna frá Reykjavík um Suðurland, en víðast annarsstaðar var ekki hægt að koma slíkum ferðum við vegna vegleysis. En með aukinni bílaeign á þriðja áratugnum hurfu svo hestvagnar nær alveg af sjónarsviðinu.

Grindavíkurvegir

Grindavíkurvegir – rit.

Grindavík, bær á sunnanverðum Reykjanesskaga, er dæmi um aðra sambærilega staði hér á landi. Suður af bænum er Atlantshafið, en ofan og allt um kring eru hraun. Allt frá því að fyrsti  norræni landnámsmaðurinn steig á land í Grindavík um 930 hafa vegir, stígar og götur smám saman verið mótuð í hraunin. Göturnar lágu fyrrum sem nú  að og frá öðrum nytjastöðum aðliggjandi byggðalaga, s.s. Krýsuvíkur í austri, Voga og  Hafnarfjarðar í norðri, Njarðvíkna í norðvestri og og Hafna í vestri.

Grindavíkurvegur

Unnið við Grindavíkurveginn 1916.

Í þessari samantekt verður leitað heimilda og skrifa um fornar götur almennt hér á landi, fjallað um vörður, forsögu vegaumbóta og þróun samgöngumála með áherslu á elstu Grindavíkurleiðarnar. Minjunum, þ.e. götunum sjálfum, verður sérstaklega lýst sem og  vörðum, skjólum o.fl., sem þeim tengjast. Göturnar voru hnitsettar og  þær skilgreindar. Umfjöllun er um hugsanlegan aldur þeirra að teknu tilliti til heillegleika, staðsetningar og lögunar sem og vísan til ákvæða gildandi tilskipana, reglna og laga á hverjum tíma. Þá verður getið sagna og minja , sem tengjast umferð um vegina og stöðum í nálægð þeirra.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Af elstu Grindavíkurleiðunum má t.d. nefna Skógfellaveg, Sandakraveg (tvískiptan), Skipsstíg, Árnastíg, Ögmundarstíg  og Prestastíg, auk vega sem annað hvort lítt eða ekkert hefur verið getið, en tekist hefur að rekja, s.s. veg um Lágafell, veg í Ósabotna og gamalla gatna milli Staðarhverfis, Járngerðarstaðahverfis og Þórkötlustaðahverfis í Grindavík. Fjallað verður ítarlega um gerð fyrsta akvegarins frá Hafnarfirði (Reykjavík) til Suðurnesja; Suðurnesjaveginn, og loks um aðdraganda að fyrsta akveginum til hins sögulega fiskiþorps á suðurströnd Reykjanesskagans;  Grindavíkur, ekki síst  í tilefni af því að ein öld er frá því að byrjað var að vinna að undirbúningi  vegarins.

Sjálf framkvæmdin á vettvangi  fór fram á árunum 1914 til 1918. Umfjöllunin um þessa tilteknu vegagerð er bæði tilefni og megintilgangur verksins.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð við gamla Grindavíkurveginn.

Enn í dag má sjá leifar búða vegavinnumannanna á a.m.k. 10-12 stöðum við veginn þrátt fyrir að umhverfi vegstæðisins hafi verulega verið raskað, einkum við gerð núverandi bílvegar, sem að meginhluta leiðarinnar var lagður ofan á gamla vagnveginn.
Loks verður fjallað um aðrar afleiddar vegabætur út frá Grindavík, s.s. að Reykjanesvita og til Krýsuvíkur svo og þróun hins fyrsta akvegar til nútíma með hliðsjón af breyttum kröfum frá einum tíma til annars.
Meðfylgjandi er og fornleifakönnun á  og við vegstæði fyrsta akvegarins þar sem tilgreindir eru a.m.k. 20 minjastaðir, kort, uppdrættir, ljósmyndir, loftmyndir og hnit af minjum á og við götuna sem og heildstætt vörðu- og minjakort yfir nágrenni Grindavíkur – http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Grindavikurvegir_saga_og_minjar/$file/Grindav%C3%ADkurvegir%20saga%20og%20minjar.pdf…

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur fyrrum – uppdráttur ÓSÁ.