Strýthólahraun

Gengið var um Strýthólahraun.
Strýthólahraun er ekki stórt, en geymir fjölda minja frá fyrrum Strýthólahraun - byrgiútgerðarháttum, líkt og Slokahraun skammt austar. Hraunið er suðaustasti hluti Þórkötlustaðanessins austan við Grindavík. Nesið, tangi út úr Hópsheiðinni, er allt hrauni þakið. Vel má sjá hvernig meginhraunstraumurinn hefur runnið undan hallanum til suðurs af heiðinni frá Sundhnúkagígaröðinni og út í sjó. Hraunáin hefur verið þung því hún hefu rutt afurð sinni til beggja átta og náð að mynda Nesið. Auðvelt er að ganga eftir hrauntröðinni miklu frá ofanverðu nesinu áleiðis að vitanum syðst á Nesinu. Heimildir segja að sumt bendi til, að hraun þetta sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornl.fél. 1903, 47), en aldursgreining á því hefur gefið til kynna að það hafi runnið fyrir u.þ.b. 2400 árum (Jón Jónsson). Þetta er sama hraunið og myndaði hraunlendi það, sem Grindavíkur (Járngerðarstaðahverfið) stendur nú á. Hvorki er minnst á minjarnar í Strýthólahrauni í örnefnalýsingum né í fornleifaskráningum.
Byrgi í StýthólahrauniÍ örnefnalýsingum má lesa eftirfarandi um Þórkötlustaðanesið: “Í nesinu er viti, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti. Austur af vitanum er hóll, sem heitir Leiftrunarhóll. Vestur af honum og austur af vitanum eru tveir hólar, sem heita Strýthólar. Milli þeirra og vitans er Tófuflatarhóll. Alllangt norður af vitanum er hár hraunhóll, sem heitir Gjáhóll. Suðaustur af vitanum er Stóra-Látraflöt, en Litla-Látraflöt er austar og liggur að Strýthólum. Þar austar er Leiftrunarhóllinn, og fram af honum er Stekkjarfjara. Við Leiftrunarhól er tangi, sem heitir Nestá. Upp af Stekkjarfjörunni er grasblettur nefndur Stekkjartún. Þá er komið að vík, sem heitir Drift, aðrir segja Dríli. Inn frá henni heita Þorkötlustaðavarir.”
Byrgi í StýthólahrauniÖnnur lýsing segir: “Vestan við vita sem er í nesinu og heitir Hópsviti er vatnsgjá niður við sjávarkampinn. Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki. Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt, að mestu komin undir kamp. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll, nokkuð stór með grasflöt norður af; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni fyrr á tímum. Niður undan honum austan til var Litla-Látraflöt. Hún er nú komin undir grjót úr kampinum.

Strýthóll

Strýthóll-ytri.

Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar. Vestri-Strýthóll með tveimur þúfum en Eystri-Strýthóll niður við kampinn. Útfiri er töluvert og heitir fjaran Látur. Selalátur var þar áður fyrr. Hóll var fram undan Tófuflatarhól; Þanghóll, en hann er nú kominn undir kampinn. Hann skipti reka. Fyrir vestan eru Kotalátur. Þar eiga Einland, Buðlunga og Klöpp reka. Austan Þanghóls eru Austurbæjarlátur). Austast í Nesinu að framanverðu er smátangi sem heitir Nestá.
Byrgi í StýthólahrauniNorður af Nestá er stór hóll á kampinum; Leiftrunarhóll. Norður af honum er Stekkatún sem nær að Flæðitjörn. Hún er ofan við sjávarkampinn. Niður undan og norðan Leiftrunarhóls er Stekkjarfjara. Látragötur eru slóðar úr vesturenda Stekkatúns fram í Látur. Við enda Stekkjarfjöru er klettur í fjöruborðinu og er sem sker um flóð. Hann heitir Driti.” Hér er Dríli nefndur Driti, Þórkötlustaðaviti nefndur Hópsviti þótt hann standi í Þórkötlustaðalandi og Strýthólarnir orðnir tveir. Ætlunin var þó einungis að beina athyglinu að samnefndu hrauni.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – byrgi.

Athyglisvert verður að telja að í hvorugri örnefnalýsingunni eru nefndar minjar í Strýthólahrauni. Þó má sjá þar örnefnið Látragötur, sem verða að teljast til minja. Þær götur má enn rekja frá norðanverðum hraunkantinum og með honum vestanverðum með stefnu á vitann.
Í austanverðu Strýthólahrauni eru minjar fleiri en 40 fiskbyrgja. Byrgin eru eldri en aðrar þær minjar útgerðar á Nesinu, sem sjá má ofan við bryggjuna austan við nefndar Flæðitjarnir, þar sem áður voru Þórkötlustaðavarir, enda vinnsla fiskjarins önnur áður fyrr. Tengdar minjar má þó sjá ofar á Nesinu, gegnt bryggjusvæðinu. Einnig skammt vestan við bryggjuna, en þar eru að öllum líkindum elstu mannvistarleifarnar á svæðinu, nú grónar og virðast náttúrlegar myndanir.
Uppdráttur af byrgjunum í StrýthólahrauniEn hvað um það – fiskbyrgin fjölmörgu í Strýthólahrauni eru með þeim merkustu sinnar tegundar hér á landi. Þau eru ekki óáþekk þeim er sjá má á Selatöngum, við Nótarhól hjá Ísólfsskála og í Slokahrauni. Þessi byrgi eru þó frábrugðin að því leyti að þau eru bæði mörg mun minni og miklu mun fleiri en annars staðar. Þau eru þó hlaðin með svipuðum hætti. Mörg eru heilleg, en önnur fallin að hluta. Elstu menn á svæðinu muna ekki eftir að hafa orðið varir við byrgin, enda hafa þau sennilega ekki verið í notkun um aldir og falla auk þess vel inn í hraunmyndanirnar svo erfitt er að koma auga á þær við fyrstu sýn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Flest byrgin eru á hraunhólum og bera því við himinn. Sum eru hringlaga hlaðin á meðan önnur eru ferningar. Sumsstaðar eru dyr, annars staðar bil. Hæstu byrgin eru um 1 m á hæð og þau stærstu u.þ.b. 60 cm á breidd og 240 á lengd. Staðsetningin virðist augljós; byrgin eru austast úfnu hrauninu þar sem auðvelt hefur verið að ná í byggingarefni, en austar er tiltölulega slétt gróðurlendi, sem sennilega hefur gróið upp vegna fiskflutninganna í byrgin.
Byrgin í Strýthólahrauni eru ekki fiskgeymsluhús líkt og sjá má í Sundvörðuhrauni eða við Eldvörp og telja má líklegt að hafi verið með “Staðarhúsið” svonefnda við Þórkötlustaði. Þrjú slík hús má sjá á Selatöngum, þó ekki nákvæmlega sömu gerðar. Byrgin hafa verið þurrkvinnslustaðir ofan og utan við varirnar.
Byrgin eru í raun “hraunhraukar”, sem snjó hefur gjarnan fyrst leyst af þegar sólin skein á vetrarvertíðum.
Byrgi í StrýthólahrauniRekaviðarár, en gnægð rekaviðs má enn sjá þarna innan við sjávarkampinn, hafa líklega verið lagðar yfir “hraukana” og þannig hafa þurrkmöguleikarnir verið margfaldaðir. Ferskvatn er í tjörn við hraunkantinn þar sem gætir flóðs og fjöru. Að forþurrkun lokinni hefur verið mögulegt að taka fiskinn saman með tiltölulega skjótum hætti og koma honum fyrir í byrgjunum, sem varði hann fyrir regni, uns veður gaf aftur færi á áframhaldandi þurrkun milli róðra.
Byrgin í Strýthólahrauni hafa fengið að vera í friði fyrir forvitnum. Mikil aðsókn hefur hins vegar verið í verminjarnar á Strýthólahraun - minjar Selatöngum, svo mikil að sumar liggja undir skemmdum. Gangan að þeim tekur u.þ.b. 12 mín. um lausasand, en gangan að minjunum í Strýthólahrauni tekur u.þ.b. 2 mín. um grónar hraungötur.
Reykjanesskaginn hefur upp á óteljandi menningarverðmæti að bjóða. FERLIR hefur hins vegar í seinni tíð verið að velta fyrir sér tvennu – að fenginni reynslu: Sveitarstjórnarfólk, kjörið og eiginlega ábyrgt forsvarsfólk íbúanna (eigandanna) virðist áhugalaust um þessi tilteknu verðmæti (með örfáum undantekningum þó) og auk þess virðast afkomendurnir (eigendurnir) ekki minna áhugalausir um hið sama – hin áþreifanlegu og sýnilegu tengsl þeirra við upprunann. Hið fáa, sem sýnir einhvern áhuga, sýnir minjunum (verðmætunum) annað hvort virðingu eða hins algert virðingarleysi. Áhugasama fólkið er því beðið að gæta tillitssemi, láta byrgin óhreyfð og í guðanna bænum; EKKI henda rusli á annars ósnert svæðið!

Strýthólahraun

Fiskibyrgi í Strýthólahrauni.

Hinir ráðnu opinberu aðilar, s.s. Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafnið undir “meðvitaðri” stjórn menntamálaráðuneytisins, virðast algerlega áhugalausir gagnvart þjóðargersemum sem þessum. Hvers ber þá að vænta af öðrum!
Útvegsminjarnar í Strýthólahrauni við Grindavík eru í rauninni einn verðmætasti ósnerti minjastaður sinnar tegundar á landinu – og jafnvel þótt víða væri leitað. Þar eru ekki eiginlegar verbúðarminjar útstöðvar, enda nálægðin við Hraun og Þórkötlustaðabæina of lítil til þess.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Hins vegar mun Skálholtsstóll hafa gert þarna út skip á miðöldum – og jafnvel lengur. Minjar því tengdu gætu leynst í manngerðum grónum hól norðan Strýthólahrauns.
Tækifærið var notað og minjasvæðið rissað upp og myndað.
Frábært veður. Gangan tók 21 mín.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.