Fimmta Minja- og söguskiltið af sex í Grindavík verður afhjúpað við Hópið laugardaginn 11. október n.k. Staðsetningin sem og dagskráin verða auglýst á www.grindavik.is er nær dregur.
Í Manntali 1880 var bæjarstæðan að Hópi nefnd Stóra-Hóp og Litla-Hóp, en í Manntali 1910 nefndist hún Austur-Hóp og Vestur-Hóp. Þar var þríbýli frá 1850 og fram í byrjun 20. aldar. Gamli bærinn mun hafa verið rifinn um 1930. Tröð lá upp með vestanverðum bænum upp að túngarðinum. Önnur tröð lá frá bænum áleiðis niður á Vatnstanga. Fjaran var rétt neðan við bæinn, en gerð var uppfylling á henni eftir miðja 20. öld þar sem nú er vegurinn (Bakkalág).
Í Manntölum frá ýmsum tímum má sjá bæði tengsl og nöfn íbúanna á hinum ýmsu tímum. Frændsemi hefur löngum verið mikil og náin milli íbúa hverfanna í Grindavík. Fremsta tóftin (suðvestanvert) við gamla Hóp er svonefnt Goðhús eða Goðatóft. Hún var friðlýst 1930. Nafnið bendir til þess að tóftin sé mjög gömul. Í túninu við Hóp eru leifar gamalla mannvirkja, s.s. gerðið og Gerðishúsið (Gerðatóft), sem ekki hafa verið rannsökuð, svo og gamlar götur. Enn má og sjá leifar gömlu Hópsbæjanna, Melbæjar, Hópskots, Hópsness og Ness, auk minja verbúðar frá Hópi ofan við Hópsvör, þurrkgarða og ískofa.