Ágætt dæmi um klepragíg er Eldborg undir Geitahlíð, en slíkir gígar verða að öllu jöfnu hærri en gjallgígar. Ekki er alltaf mikill munur á gjall- og klepragíg, en þó má vel sjá munin ef vel er að gáð. Flestir gígarnir í Sundhnúkaröðinni, einkum þeir smærri, virðast vera gjallgígar, en þeir stærstu blandaðir. Frá Stóra-Skógfelli má sjá yfir í Sundhnúk, megingígin austan Hagafells. Handan hans, í suðuröxl Hagafells eru gígar sem og einstaklega falleg hrauntröð. Síðan raða gígarnir sér til norðausturs. Á móts við Stóra-Skógfell virðist hafa orðið víxlverkun á sprungureininni og hún færst til austurs og síðan haldið áfram þaðan til norðausturs. Á norðanverðri sprungureininni hafa orðið til minni gígar, en einkar fallegir. Það er vel þess virði að rölta um svæðið dagsstund og skoða gersemirnar.
Nú var hins vegar ætlunin að skoða eina afurð hraunsins; hellana og skútana. Björn Símonarson hafði lýst einum hellanna á eftirfarandi hátt: “Við rætur Svartsengis er hellir þar sem Sundhnúkahraunið kemur niður mesta brattann og út á flatlendið. Hann er ekki langur en heldur ekki fullkannaður. Opið er frekar djúpt og gólfið rennislétt, eftir um 20 metra endar aðalrásin. Um það bil miðsvæðis í hellinum er gat í mittishæð, um 40 x 40 cm og er þó nokkur rás þar fyrir innan, frekar lág og það er þessi hluti sem er ekki full kannaður.”
Byrjað var að skoða hraunið norðan Svartengisfells (Sýlingafells, en svo nefnist fellið frá sjó séð). Með í för var Björn Steinar Sigurjónsson, en hann ásamt félaga sínum, Guðmundi Árnasyni, skoðuðu svæðið fyrir u.þ.b. 20 árum og fundu þá nokkra hella.
Sundhnúkur er stærsti, eða öllu heldur hæsti, gígurinn í hinni löngu gígaröð. Hraunið hefur runnið niður hlíðina og myndað slétt helluhraun að norðanverðu. Þar neðarlega í hlíðinni er hellir sá, sem Björn Símonar skoðaði á sínum tíma. Einhverjir höfðu tekið sig til og hlaðið umhverfis stórt opið. Niðri var drasl, sem skilið hafði verið eftir. Gólfið er slétt. Lofthæðin er um 3 m breyddin um 7 metrar og lengdin um 20 metrar. Hann lækkar eftir því sem innar dregur. Til vinstri í rásinni er fyrrnefnt op. Það víkkar lítillega skammt innar, en svo er að sjá að það þrengist aftur. Það verður þó ekki ljóst fyrr það hefur verið skoðað að fullu, en það verður ekki gert nema af vel mjóvöxnum manni.
Holrúm virðist vera undir sléttu gólfinu vestast í hellinum. Fróðlegt væri að kíkja þar undir með aðstoð járnkarls.
Næsti hellir var u.þ.b. 25 metrum sunnan við fyrstnefnda hellinn. Hann er þar í jarðfalli. Rásin er tvískipt og um 50 metra löng.
Í þriðja hellinum er rásin um 30 m löng. Tl hliðar í henni er hægt að fara upp í heila hraunbólu.
Fjórði hellirinn er með stórt op. Botninn er sendinn. Til hægri er rás. Úr henni er hægt að komast inn í lágan sal með rauðbrúnu sléttu gólfi.
Fimmti hellirinn býður upp á þrjár leiðir. Til suðurs er löng rás. Botninn er sendinn, en svo er að sjá að fínn sandur, sem fokið hefur upp frá Vatnsheiðinni, hafi náð að safnast í lægðir og þessa hella norðan í Sundhnúknum. Rásin er ókönnuð, en hún er a.m.k. 30 metra löng. Efri rásin er um 15 metra löng. Hún endar eftir að komið er upp úr fallegri og rúmgóðri rás. Í þriðju rásinni, einnig með sendinn botn, er op til vinstri. Liggur hún niður á við, í kjallara. Í honum liggur lág rás áfram inn undir hraunið. Hún er ókönnuð.
Sjötti hellirinn hafði að geyma þröngar rásir, en mjög fallegar. Þær eru ókannaðar.
Svæðið vestan Sundhnúks er þakið rásum og hraunæðum. Í rásunum þeim eru margir hellar og skútar. Einn hellir, sem Björn lýsti, og hann hafi séð fyrir tveimur áratugum, á að vera með fallegum rauðum hraunfossi, auk margra litafbrigða. Opið er lítið og vandfundið, enda fannst hann ekki í þessari ferð. Það á að vera norðvestur af Sundhnúk. Líklegt má telja að fleiri ferðir verði farnar á þetta svæði á næstunni. Nauðsynlegt er að vera í góðum galla og með bæði vettlinga og húfu til hlífðar.