Ísólfsskáli
Eftir að sagt var frá opinberun hellisgýmalds ofan Bjalla við Ísólfsskála, sem að öllum líkindum hefur verið þarna um tugþúsundir ára, þar af síðasta árþúsundið undir fótum manna og dýra, (örskammt inn undir Bjallabrúninni vestan Bólsins vottar reyndar fyrir þröngri rás inn undir móbergsstandinn og er munninn þakin kindabeinum – afurð fyrrum tófuveitinga), barst FERLIR eftirfarandi ábending.

Ísólfsskáli

Áður en kemur að henni er rétt að upplýsa um að þarna hafði tófan um tíma fundið sér skammskjól, stutt frá bústað mannanna, og ekki er ólíklegt að einhver hennar hafi einhvern tímann kíkt alla leið inn í gýmaldið. Úr því verður varla skorið úr þessu því nú er búið að eyðileggja það gersamlega og það án nokkurra undangenginna rannsókna eða í það minnsta einfaldrar skoðunnar, s.s. á mögulegum mann- eða dýrvistarminjum.
En hér kemur ábendingin eftirfylgjandi:
“Mundi eftir því þegar minnt var á hellafund ýtustjórans í MBL og á FERLIRsvefnum að ég átti einhverstaðar frásögn Ísólfs af dreng sem fór inn í helli þarna og var lengi að koma til baka. Svona svipaða sögu og er til um Breiðabáshellinn. Ég leitaði í öllum mínum blöðum, en ég tók upp samtal við Ísólf [á Skála] og hafði þann hátt á að skrifa svo samtalið inn á tölvu í rólegheitum. Loks fann ég viðtalið á spólu og hlustaði á það. Talið barst að hellum og Ísólfur fer að tala um Breiðabáshelli og eyðir drjúgum tíma í það að lýsa honum og talar um að efra gatið sé hátt uppi í Mosaskarði, kringlótt gat o.fl. [hér er sennileg átt við opið á Mosaskarðshelli uppi í miðju Mosaskarði].

Grafan

Þessa lýsingu Ísólfs lagði ég ekki fram þegar byrjað var að leita að Breiðabáshelli, mundi ekkert eftir henni á spólunni. Jæja, í viðtalinu fer hann að tala um að menn þurfi að hafa með sér súrefni og kaðla þegar farið er inn í hella. Ég strögglaði eitthvað varðandi súrefnisnotkun, taldi að nóg súrefni væri í hellum því ég hafði þá nýverið farið inn í Hýðið og Maístjörnuna. Þá fer hann að segja mér frá þessu atviki um strákinn sem var hjá honum og fór inn í hellinn og kom eftir langan tíma út í hálfgerðri andnauð. Hér kemur þetta orðrétt sem hann sagði, sem reyndar er ekki mikið. Ég tel mjög líklegt að þessi maður sé á lífi og ætti að vera tiltölulega auðvelt að finna hann. Vel gæti verið að Erling hefði heyrt þetta, eða jafnvel fleiri, sem voru í miklum tengslum við Ísólf: (Viðtal árið 1992 við Ísólf Guðmundsson á Ísólfsskála, afritað af segulbandi 30. maí 2006).
“Það var strákur sem var hjá mér, hann frændi minn. Það datt gat á klöpp þarna fyrir neðan húsið hjá mér, smá helvítis klöpp, og hann skreið inn í hellinn. Svo verð ég ekkert var við hann og ég fer að kalla í hann og hann ansar ekki. Andskotinn maður. Þá skreið hann þarna inn og ætlaði aldrei að koma út aftur, hann ætlaði aldrei að ná andanum. Hann gerði það ekki aftur.”

Ísólfsskáli

Erling sagðist aðspurður reka minni til að gat hafi verið við Skála. Hann væri þó ekki alveg viss. Ísólfur hafi búið í húsi því er Bergur reisti, s/a við núverandi hús. Þar við var matjurtargarður. Utan við garðinn var lítil hola, sem hægt að komast niður í. Líklega hafi verið fyllt upp í opið. Hann kvaðst myndi ræða við Guðmund Einarsson (Grindavík) eða Val Ármannsson (Keflavík), en þeir tveir frændur Ísólfs voru þeir er þarna voru lengstum.
Eftir að Erling hafði rætt við báða sagðist Guðmundur muna óljóslega eftir gatinu. Það hafi síðan verið fyllt og væri nú hluti af túninu eða jafnvel komið undir vegslóða á því. Hann taldi að þetta hefði verið lítill skúti, sem jafnvel hefði verið hægt að skríða inn í. Líklega hefði strákurinn í framangreindri sögu verið að fela sig fyrir Ísólfi, enda átti hann það til að vera helst til leiðinlegur við vinnumennina, sem hjá honum voru. Guðmundur gæti þó bent nokkurn veginn á staðinn þar sem gatið var, en leyfi landeigendafélagsins þyrfti til ef raska ætti bletti í túninu.
Ekki var talin ástæða til að leita staðfestingar á þessari sögu með kraftmiklum greftri, líkt og gert var í Draugshelli í Litlalandi í Ölfusi, en þar varð gröfturinn þó til að opinbera og staðfesta að hluta til forna þjóðsögu. Kannski væri því og þó, þrátt fyrir annað og í ljósi alls þessa, ástæða til að beita spaða á spönn í Ísólfsskálatúninu – og það fyrr en seinna. Þarna gæti leynst stærri hellir en talið er að óathuguðu máli.
Hellirinn

Hellisopið.