Eftirfarandi mátti lesa í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins undir fyrirsögninni “Þjóðsagan” þann 20. október 1963:
“Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af er eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast fram með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fal sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrinnishólmi er hann var.
Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið á Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar.
Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart, að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.
Ögmundur hét maður. Hann var berserkur, illur viðskiptis og flakkaði um land og gjörði mörgum mönnum óskunda. Hann kom að Krýsuvík og bað dóttur bónda. Bóndi þorði ekki að neita og lofaði honum dóttur sinni ef hann legði veg yfir hraunið. Hann gekk að því og fór til, byrjaði að vestan, en bóndi stóð við hraunbrúnina að austan. Ögmundur hamaðist og hjó rösklega veginn yfir hraunið, en þegar hann kom austur yfir og var búinn, dasaðist hann. Þá hjó bóndi hann banahögg og dysjaði hann þar. Grjóthrúga er þar við götuna sem kallað er leiði Ögmundar, en stendur á kletti. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór björg (hraunstykki), en víða þrepóttur í botninn sem hin gamla staka segir (orkt á seinni tímum):
Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.
Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar sem áður var bærinn Krýsuvík heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.”
Heimild:
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 20. október 1963, bls. 83.
Húshólmi – meintur grafreitur.