Færslur

Húshólmi

Í tímaritið Jökul 1988 skrifa Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson um “Krýsuvíkurelda“. Greinin nefnist “Krýsuvíkureldar I  – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins”.

Ágrip
JökullÍ grein þessari er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins er kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á.
Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag og eru leidd sterk rök að aldri þess og uppruna. Einnig eru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum. Ofangreindar athuganir eru bornar saman við ritheimildir og teljum við okkur geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin er getið um aldursákvörðun forns torfgarðs í Húshólma sem reynist vera eitt af elstu mannvirkjum sem fundist hafa á Íslandi.

Inngangur

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982, 1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakolsaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæði en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulag sem nefnt hefur verið miðaldalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu.
Í þessari grein verður skýrt frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru síðla hausts 1987.

Ögmundarhraun
Krýsuvíkureldar
Ögmundarhraun (mynd 1) er komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gos virknin að mestu en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Eldgos í kerfinu verða að líkindum með svipuðum hætti og gerðist í Kröflueldum, þ.e. í umbrotahrinum sem einkennast af gliðnun lands og kvikuhlaupum, oft jafnhliða eldgosum, en síðan verða hlé á milli.
Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Útbreiðsla hrauna sem þá runnu er sýnd á mynd 1. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur og er ætlun okkar að fjalla nánar um þau í annarri grein um Krýsuvíkurelda sem nú er í smíðum. Jón Jónsson (1982) hefur áður haldið því fram að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Rústir í Ögmundarhrauni
Krýsuvíkureldar
Í Ögmundarhrauni em nokkrir óbrennishólmar, en svo nefnast landskikar umluktir sögulegu hrauni. Stærstur er Húshólmi sem er austast og neðst í hrauninu en nokkru vestar og ofar er Óbrennishólmi.

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík þar sem nú er Húshólmi.

Rústir em í báðum þessum hólmum (mynd 2). Merkastar eru rústirnar í svonefndum Kirkjulágum sem em smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónsson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið mnnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að. Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.
Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. maí 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Olafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.
Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið (mynd 2). Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).
Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum. Í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferð þeirra til Krýsuvíkur er þess getið að þáverandi bóndi þar hafi lagt veg út í hólmann með miklu erfiði (sbr. Sveinbjörn Rafnsson, 1982). Þá gæti gatan hafa komist í núverandi horf. Engin gata er milli Húshólma og Óbrennishólma. Gata liggur úr neðri Kirkjulág og vestur að Selatöngum en í Óbrennishólma liggur gata frá Latfjalli og úr hólmanum niður að sjó. Af loftmyndum að dæma hefur gatan að hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík austan að legið nokkru neðar en sú gata sem nú liggur í Húshólma (mynd 2).

Gjóskulagasnið
Krýsuvíkureldar
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði við jaðra hraunsins og utan þess (myndir 3 og 5). Á þessu svæði eru nokkur lík gjóskulög af þekktum aldri.

Landnámslagið
Krýsuvíkureldar
Þekktasta gjóskulagið á þessu slóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og efri hlutinn dökkur, en á Reykjanesskaga er það oftast hvítgult og slitrótt en þó auðþekkjanlegt. Ekki hefur tekist að finna dökka hlutann á sunnanverðum skaganum eða vestar en í Reykjavík. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Landnámslaginu fylgja yfirleitt litaskipti í jarðvegssniðunum og er jarðvegurinn dökkur undir því, en ljósari ofan þess og fokkenndari. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafi brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).

Aldur landnámslagsins
Krýsuvíkureldar
Um aldur landnámslagsins hefur allmikið verið ritað og hefur Margrét Hallsdóttir (1987) tekið saman yfirlit um það.

Reynt hefur verið að aldurssetja landnámslagið með þremur ólíkum aðferðum. Í fyrsta lagi með geislakolsgreiningum. Í öðru lagi með könnun á afstöðu þess til annarra þekktra gjóskulaga og aldur þess síðan reiknaður út frá jarðvegsþykknun. Í þriðja lagi með tengingu við frávík í sýrustigi í ískjörnum í Grænlandsjökli en frávikin eru rakin til eldgosa.

Landnámslagið

Landnámslagið.

Geislakolsgreiningar eru þeim annmarka háðar að mæliskekkja er sjaldnast minni en 50 ár til eða frá.
Þær aldursgreiningar sem til eru af landnámslaginu benda til síðari hluta níundu aldar (Sigurður Þórarinsson, 1977; Hreinn Haraldsson, 1981; Margrét Hallsdóttir, 1987).
Guðrún Larsen (1982, 1984) hefur sett fram þá tilgátu að sýrustigsfrávik í Grænlandskjörnunum 897-898 gæti orsakast af eldgosi því sem myndaði landnámslagið. Skekkjan er 1-2 ár. Bryndís G. Róbertsdóttir og Haukur Jóhannesson (1986) reiknuðu aldur lagsins út frá afstöðu þess til annarra þekktra öskulaga og fengu ártalið 901-902. Í þessari grein er reiknað með að landnámslagið sé fallið um 900.

Miðaldalagið
Krýsuvíkureldar
Annað nokkuð vel þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Gunnar Ólafsson (1983) hefur kannað útbreiðslu þess og reynt að heimfæra það upp á eldgos sem getið er í rituðum heimildum. Lagið er þykkast yst á Reykjanesskaga þar sem það er um 20 cm og auðvelt er að rekja það inn allan skagann. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðvestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Yngra Stampahraunið er því runnið á sögulegum tíma. Miðaldalagið er dökkt og nokkuð jafngróft og auðgreint frá Kötlulaginu 1485 sem er kolsvart og fínkornótt en það finnst greinilega á norðanverðum skaganum.
Gunnar Ólafsson var í vafa um hvernig heimfæra skyldi gos þetta upp á ritaðar heimildir um eldgos á svæðinu. Hann komst að þeirri niðurstöðu að heimildir bendi til áranna 1226/27 eða 1231 en útreikningar á jarðvegsþykknun milli þekktra gjóskulaga (landnámslags og gjóskulags frá Kötlu sem ýmist er talið fallið um 1485 eða 1500 (Sigurður Þórarinsson, 1967; Guðrún Larsen, 1978), bendi til ársins 1340. Hann endar greinargerð sína á eftirfarandi orðum: “Hér verður ekki gert upp á milli þessara þriggja gosára.”

Aldur miðaldalagsins

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Til að gera sér betur grein fyrir því, hvaða ár miðaldalagið féll, er vert að rýna í heimildimar að nýju. Augljóst er, að goshrina hefur verið í sjó undan Reykjanesi frá 1210 eða 1211 til 1240, og virðist hún hafa náð hámarki á þriðja áratug aldarinnar. Annálar, Biskupasögur og Íslendinga Saga eru nokkuð samhljóða um þessa atburði. Hér á eftir verða heimildirnar prentaðar hráar. Það sem Setbergsannáll segir umfram aðra annála er talinn skáldskapur höfundarins. Stafsetning á Oddaverjaannál er ekki samræmd því Storm (1888) hefir fellt út hluta af textanum ef hann er samhljóða öðrum annálum, einkum Konungsannál og Lögmannsannál.
Tilvitnun úr annálabrotum Gísla Oddssonar er tekin eftir þýðingu Jónasar Rafnar (Gísli Oddsson, 1942) en frumritið er ekki til lengur, heldur aðeins latnesk þýðing (sjá Gísli Oddsson, 1917). Tilvitnanir í Íslendinga Sögu era teknar úr Sturlunga Sögu (1946).
Tilvitnanir í einsakar biskupasögur era teknar úr Biskupa Sögum (1858-1878). Tilvitnanir í aðra annála en annál Flateyjarbókar, annálabrot Gísla Oddssonar og Setbergsannál eru teknar úr Storm (1888). Annáll Flateyjarbókar er í Flateyjarbók (1945).

Eldey

Eldey.

1210:
“Elldur wm Reykianes: Saurli fann Elldeyiar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufðu stadit” (Oddaverjaannáll bls. 478). Sigurður Þórarinsson (1952, 1965) setur þessa heimild ranglega við 1211.
Um 1210?:
“Á vorum dögum hefur það gerst að hafið hefur á þriggja mílna svæði ólgað og soðið eins og í potti, en jörðin opnast og kastað upp úr djúpunum eldlegum gufum og myndað stórt fjall upp úr sjónum” (Noregskróníka á latínu (Munch, 1850), þýðing Sigurðar Þórarinssonar (1965)). Sigurður Þórarinsson (1965) telur að hér sé átt við eldgos undan Reykjanesi 1211 og verður ekki annað séð en hér sé á ferð lýsing á myndun Eldeyjar.
1211:

Eldey

Eldey.

“Elldr kom vpp ór séa. Sörli Kols sonr fann Elldéyiar” (Konungsannáll bls. 123).
“Elldr kom vpp or sia fyrir Reykia nesi. Sörli Kols son fann Elld eyiar” (Skálholtsann áll bls. 182).
“Eldr kom upp ór sjó. Sörli fann Eldeyjar” (Annáll Flateyjarbókarbls. 311).
“En viku fyrir andlát Páls biskups sýndist túngl svá sem roðra væri, ok gaf eigi ljós af sér um miðnætti í heiðviðri, ok bauð þat þá þegar mikla ógn mörgum manni” (Páls biskups saga bls. 145; Páll biskup lést þriðjud. 29. nóv. 1211. Roðra=blóð – innskot höf.).
“..en hér má sjá, hversu margr kviðbjóðr hefir farit fyrir fráfalli þessa hins dýrliga höfðíngja Páls biskups: jörðin skalf öll og pipraði af ótta (harður jarðskjálfti varð þetta ár samkvæmt mörgum annálum og fórust 13-14 menn – innskot höf.); himin ok skýin grétu, svá at mikill hlutr spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá er náliga var komit at hinum efstum lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann ok fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómr stóð yfir sýndist náliga allar höfuðskepnur nokkut hrygðarmark á sér sýna frá hans fráfalli” (Páls biskups saga bls. 145).

Önglabrjótsnef

Gígur ofan Kerlingarbáss. Karlinn fjær.

“Þat fylgir þessum fádæmum, at í sjálfu hafinu, viku sjávar suðr undan landinu, hefur upp komit af eldsganginum stórt fjall, en annat sökk niðr í staðinn, þat er upp kom í fyrstu með sömu grein” (Guðmundar saga Arasonar Hólabiskups bls. 5; Vika sjávar er forn mælieining sem virðist hafa verið breytileg frá um fimm km upp í liðlega átta – innskot höf.).
Sigurður Þórarinsson (1965) rekur einnig nokkrar erlendar heimildir sem eiga við um neðansjávargos á öndverðri 13. öld og telur að minnsta kosti eina þeirra eiga við eldgosið 1211 (Munch, 1850).
1223:
“Elldz vppkuama fyrir Reykianese” (Oddaverjaannáll bls. 479).
“Enn fremur eldgos við Reykjanes” (Annálabrot Gísla Oddssonar, bls. 10). Sigurður Þórarinsson (1965) nefnir ekki þetta eldgos.

Karlsgígurinn

Stampahraunið á Reykjanesi.

1225:
“Sandwetur ai Jslandi” (Oddaverjaannáll bls. 479).
“Sandvetur hinn mikli víðast um Island, svo peningur almúgans hafði litla björg afjörðu og varð oftast hey að gefa” (Setbergsannáll bls. 25).
1226:
“Ellz vpqvama fyr Revkia nesi” (Resensannáll bls. 24).
“Elldz upqvama fyrir Reykjanesi” (Höyersannáll bls. 64).

Stampar

Stampagígaröðin myndaðist um 1230.

“Elldr i séa firir Réykianesi. Myrkr vm miðian dag” (Konungsannáll bls. 127).
“Elldr fyrir Reykia nesi” (Skálholtann áll bls. 186).
“Elldr fyrir Reykia nesi” (Gottskálksannáll bls. 326). “Sandfalls wetur ai Jslandi. Elldr i séa fyrir Réykianesi. Myrkr vm miðian dag” (Oddaverjaannáll bls. 479).
“Elldz vppkuama fyrir Reykianese” (Lögmannsannáll bls. 255).
“Það varð til um sumarið, að mikið myrkur varð um miðdegi” (Setbergsannáll bls. 25).
“Vetur markverður vegna skaðlegs sandfoks; einnig myrkvi á hádegi. Eldgos úr hafi við Reykjanes” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
“Eldr í sjó fyrir Reykjanesi. Myrkr um miðjan dag” (Annáll Flateyjarbókar bls. 315).
“Sumar þetta var illt ok vátviðrasamt. Kom upp eldr ór sjónum fyrir Reykjanesi” (Íslendinga Saga bls. 311).
“Sumar þetta var illt ok vandréðasamt. Kom upp eldr or sjónum fire Reykjanese” (Guðmundar saga Arasonar hin elsta bls. 546).
1226/27:
“Þessi vetr var kallaðr sandvetr ok var fellivetr mikill, ok dó hundrað nauta fyrir Snorra Sturlusyni út í Svignaskarði” (Íslendinga Saga bls. 314-15).
“Sandvetr hinn mikle ok fjárfellir” (Guðmundar saga Arasonar hin elsta bls. 548).

Gjóskusnið

Unnið við að greina gjóskulög í jarðvegssniði.

1227:
“Sandvetr” (Resensannáll bls. 24).
“Sanduetr a Islande” (Lögmannsannáll bls. 256).
“Sand vetr” (Skálholtsannáll bls. 186).
“Sanndvetr” (Konungsannáll bls. 117).
“Sanduetr” (Gottskálksannáll bls. 326).
“Sanndvetr” (Oddaverjaannáll bls. 480).

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

“Sandvetur eins og sá næsti á undan” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
“Sandvetr” (Annáll Flateyjarbókar bls. 315). Beinast liggur við að þessi sandvetur eigi við síðari hluta vetrar 1226/27 og annálagreinar um hann því samstofna frásögn Sturlungu og Guðmundar sögu biskups sem getið er hér næst að framan.
1231:
“Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppi í sjónum fyrir Reykjanesi, ok var grasleysa mikil” (Íslendinga Saga bls. 346).
“Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppe fire Reykjanese ok var grasleysa mikil” (Guðmundar saga Arasonár hin elsta bls. 553-554).
1238:
“Ellz vppqvama i Revkia nesi” (Resensannáll bls. 25).
“Elldz upkuama fyrir Reykianesi” (Höyersannáll bls. 65).
“Elldr firir Réykianesi” (Konungsannáll bls. 130).
“Elldz vppqvama fyrir Reykia nesi. Varþ brestr mikill at Sauða felli ok margir fyrir burþir” (Skálholtsannáll bls. 188).
“Elldr fyrir Reykia nesi” (Gottskálksannáll bls. 327).

Karl

Karlinn við Reykjanes.

“Elldr firir Réykianesi” (Oddaverjaannáll bls. 481).
“Eldgos við Reykjanes-skaga” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
“Eldr uppi fyrir Reykjanesi” (Annáll Flateyjarbókar bls. 317).
1240:
“Sól rávð. Elldr firir Réykianesi” (Konungsannáll bls. 131).
“Sol varð rauð” (Skálholtsann áll bls. 188).
“Sol raud sem blod: Elldur wpi fyrir Reykianesi” (Oddaverjaannáll bls. 481).
“Sól rauð sem blóð. Eldgos aftur við Reykjanes” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls.10).
“Eldr fyrir Reykjanesi” (Annáll Flateyjarbókar bls. 318).

Önglabrjótsnef

Hraun og aska nýlegra hrauna við Önglabrjótsnef á Reykjanesi. Karlinn fjær.

1340:

“Einnig Reykjaneshöfði (Sigurður Þórarinsson (1965) þýðir hér Reykjanesskagi og er svo í Sjávarborgarannál bls. 236 – innskot höf.) eyddist í eldi meira en að hálfu; sjást merki hans ennþá í rúmsjó, gnæfandi drangar, sem af þessu nefnast Eldeyjar, – eða Driftarsteinn, eins og eldri menn vilja kalla þá. Sömuleiðis Geirfuglasker, þar sem allt til þessa sjást fjölmargir brunnir steinar” (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 11). Síðast nefnda frásögnin er einnig í Sjávarborgarannál við árið 1389 (Þorlákur Markússon, 1940-48) og í Árbókum Espólíns við árið 1390 (Jón Espólín, 1821). Þessi frásögn er hluti af reyfarakenndum frásögnum af eldgosum víða um land og hefur á stundum verið talin uppspuni. Þarflegt væri að kanna sannleiksgildi þessara frásagna betur, en ekki eru tök á því hér.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Karlinn fjær.

Höfundur Sjávarborgarannáls (Þorlákur Markússon) hefur ekki þekkt annálabrot Gísla Oddssonar og því haft annálsgreinina annars staðar frá og hún þá líklega ekki verið ársett í frumheimild. Jón Jóhannesson (sjá Þorlákur Markússon, 1940-48) hefir rannsakað Sjávarborgarannál. Í hann var sett efni úr a.m.k. einum annál sem nú er glataður, og telja verður víst að hann hafi haft ofangreinda frásögn úr eldri heimild, sem nú er með öllu ókunn. Hugsanlega hefur það verið sama heimildin og Gísli Oddsson hafði undir höndum en þó er það ekki víst. Espólín hefur frásögnina vafalítið úr Sjávarborgarannál. Það er umhugsunarvert að þessi frásögn finnst ekki í gömlu annálunum þ. á m. annál Flateyjarbókar sem er mjög ýtarlegur um fjórtándu öldina (hefur þó gosið í Öræfajökli 1350 í stað 1362) og þar er getið um Heklugosin 1341 og 1389.
ÖnglabrjóstnefFlestar heimildirnar em úr annálum en þeir éta oft hver upp eftir öðrum. Talið hefur verið að þeim annálum sem við nú þekkjum hafi verið steypt saman úr eldri skrám um 1280 (Jakob Benediktsson, 1976). Íslendingasögu verður að telja samtímaheimild og auðsæ tengsl em milli hennar og sögu Guðmundar góða. Það sést best á klausunum um árin 1226 og 1231, sem em nær samhljóða í báðum heimildum. Saga Páls biskups í Skálholti mun rituð skömmu eftir dauða hans og má því telja hana samtímaheimild.
Við lestur biskupasagnanna verður hverjum manni ljóst að höfundar þeirra hafa haft fyrir sér ritaðar skrár m.a. um náttúmhamfarir auk heimilda um marga aðra atburði sem sést best af því að inn í sögurnar er mjög víða skotið efni í upptalningarstíl sem kemur efni þeirra lítið við. Einnig ber að hafa í huga, að sumar klausurnar um eldgos og jarðskjálfta eru nær samhljóða í annálum og biskupasögunum og liggur þá beinast við að álykta að höfundar biskupasagnanna hafi haft frumgerðir annálanna undir höndum og þeir því nær samtíma heimildir um þá atburði sem hér em til umræðu. Því hefir reyndar einnig verið haldið fram að við endurritun biskupasagnanna hafi efni verið skotið inn í þær úr annálum, en það getur vart átt við Guðmundar sögu og Páls sögu því þær eru að sumu leyti ýtarlegri um þessa atburði en annálarnir.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – rann um 1226.

Í stuttu máli virðist sem tíð gos hafi verið í sjó undan Reykjanesi á árunum 1210 eða 1211 til 1240 en telja verður óvíst um eldgos 1340. Eldgos hafa verið. 1210 og/eða 1211, 1223, 1226, 1231, 1238 og 1240. Einnig gæti hafa gosið 1225 því þá getur Oddaverjaannáll um sandvetur. Sandvetur er veturinn 1226/27 samkvæmt Íslendinga Sögu og Guðmundar sögu góða, en annálar hafa sandvetur 1227. Hér er líklega átt við sama atburðinn.

Nýey

Ný eyja rís úr sjó.

Gjóskufalls er og getið við gosið 1231 og að það hafi verið að sumri til (sandsumar). Líklegt er að gjóska sem fallið hefur 1231 falli saman við gjóskulagið frá 1226 og myndi því ekki sérstakt öskulag. Telja má víst, að gjóskufallið, sem varð 1226 hafi verið mikið því getið er um, að myrkur hafi verið um miðjan dag. Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur kannaði fyrir höfunda hvort um sólmyrkva hafi verið að ræða en enginn almyrkvi á sólu varð 1226. Því kemur vart annað til greina en að myrkvinn hafi verið af völdum gjóskufalls. Allmikið gjóskufall þarf til að svo sterkt sé til orða tekið, að myrkur hafi verið um miðjan dag. Ekkert annað gjóskulag er þekkt sem getur átt við þennan atburð. Við könnun á miðaldalaginu á Reykjanesi kemur í ljós, að það er víða fokið til og vantar sumstaðar alveg, sem bendir til að það eigi frekar við veturinn 1226/27 en sumrin 1226 eða 1231. Þá taka höfundar Biskupasagnanna og Íslendinga Sögu mun sterkar til orða um sandfallsveturinn og afleiðingar hans sem bendir einnig til meira öskufalls þá en 1231.

Óbrennishólmi

Óútskýrð tóft í Óbrennishólma.

Haukur Jóhannesson (1988) hefur mælt þrjú jarðvegssnið í Viðey. Eyjan er utan uppblásturssvæða og því má búast við nokkuð áreiðanlegum niðurstöðum úr útreikningum á aldri miðaldalagsins miðað við jarðvegsþykkt milli þekktra öskulaga. Jarðvegsþykknun er nokkuð jöfn síðustu 1000 árin eða á bilinu 0.04-0.06 cm á ári. í tveimur sniðanna eru þrjú þekkt öskulög, landnámslag, miðaldalag og Kötlulagið frá 1485.

Húshólmi

Húshólmi – garður. Landnámslagið er í garðinum.

Miðað við að landnámslagið sé fallið um árið 900 fást eftirfarandi ártöl fyrir aldur miðaldalagsins: 1170 og 1228 (meðaltal 1199). Út frá þeirri niðurstöðu er nánast útilokað að lagið hafi fallið á fjórtándu öld.
Af ofangreindu má vera ljóst, að yfirgnæfandi líkindi eru til að miðaldalagið hafi fallið 1226, líklega um haustið eða fyrri hluta vetrar, en vitaskuld getur hafa bæst í það 1231. Ekkert annað öskulag hefur fundist á Reykjanesi sem tengst getur þessum eldsumbrotum og gerum við ráð fyrir að það sé að meginhluta fallið síðla árs 1226.

Aldur Ögmundarhrauns – geislakolsaldursgreiningar

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson (munnl. uppl.) tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Kirkjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Þorleifur telur að taka beri þessum aldursgreiningum með varúð þar sem þær geti verið af koluðum rekavið eða mó og því eldri en hraunið. Niðurstöður voru eftirfarandi.
U-2590 980 + 60
U-2591 960 ±170

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Séu aldursgreiningamar miðjaðar (970 ár) og leiðréttar samkvæmt leiðréttingarlínuriti Stuivers og Beckers (1986) fæst að sýnið sé frá því um 1027 e.Kr. (mynd 4). Sé leiðrétt samkvæmt leiðréttingarlínuriti Stuivers og Pearsons (1986) fæst 1030.
Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðurleifum undan hrauninu.
Tvö sýni, U-4355 og U-4356, vom undan Ögmundarhrauni efst í Óbrennishólma, og eitt sýni, U-4005, var tekið undan hrauninu austan í Núpshlíðarhálsi.
Jón telur þó ekki víst, að þar sé sama hraunið en aldurinn, sem fékkst, er mjög áþekkur hinum.
U-4355 905 ±60
U-4356 940 ±55
U-4005 925 ±70
Meðaltal: 923,3 ár. Miðgildi: 922,5 ár.
Þegar beitt er sömu leiðréttingaraðferð (Stuiver og Becker, 1986) og að ofan (miðgildi er 923 ár) þá koma fimm ártöl til greina: 1044, 1096, 1122, 1141 og 1156 (mynd 4). Sé aftur á móti leiðrétt samkvæmt Stuiver og Pearson (1986) fæst 1050, 1095, 1125, 1142 og 1148.

Álfakirkja

Hraun er hægt að aldursgreina.

Ástæðan fyrir því, að svo mörg gildi fást er óregla í 14C magni í andrúmsloftinu á þessum tíma, en leiðréttingarnar byggjast á geislakolsgreiningum á árhringjum í trjám. Aldursgreiningar Þorleifs gefa nokkuð hærri aldur en aldursgreiningar Jóns eins og búast mátti við af fyrirvara þeim sem Þorleifur hafði gert um aldursmun hraunsins og kolaleifanna í eldstæðinu. Aldursgreining Jóns Jónssonar (1982) af Gvendarselshrauni gefur svipaðar niðurstöður en aldursgreiningar af Kapelluhrauni gefa ekki ótvíræða niðurstöðu.

Gjóskulög undir og ofaná hrauninu

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Landnámslagið fannst víðast hvar undir Ögmundarhrauni (mynd 5) þar sem grafið var, en milli þess og hraunsins fannst aftur á móti ekkert gjóskulag. Milli landnámslagsins og hraunsins var víðast 2-4 cm þykkur jarðvegur. Í sniðum sem tekin vom utan hrauns en nærri gígunum (mynd 3) reyndist jarðvegsþykktin vera 3-7 cm milli gjóskulagsins og gjalldreifar frá gígunum. Ofan á sjálfu hrauninu fannst aðeins eitt gjóskulag, miðaldalagið og var jarðvegur 0-4 cm þykkur milli hrauns og gjóskulags. Í sniðum sem tekin voru utan hrauns en nærri gígunum reyndist þykktin vera um 2-4 cm frá miðaldalaginu niður að gjalldreif frá Krýsuvíkureldum.

Rauðablástur

Gjall.

Hlutfallið milli jarðvegsþykktar frá landnámslagi að hrauni/gjalldreif annars vegar og þykktar frá hrauni/gjalli að miðaldalagi hins vegar er afar mismunandi frá einum stað til annars og því ekki einhlítt að brúka það til aldursákvörðunar hraunsins. Hraunið eða gjalldreifin frá gosinu er þó í flestum tilvikum mun nær miðaldalaginu en landnámslaginu.

Sögulegar heimildir
Fátt er sögulegra heimilda um eldgos á Reykjaneskaga á þessum tíma og eru þær allar knappar.

1151:
“Elldr i Trölladyngivm. Hvsrið” (Konungsannáll bls. 115).
“Elldur wppi j Trolla dyngium” (Oddaverjaannáll bls. 474).
“Eldr í Trölladyngjum. Húshríð” (Annáll Flateyjarbókar bls. 301).
1188:
“Ellz vppqvama j Trolla dyngiu” (Skálholtsannáll bls. 180). (Úr Skálholtsannál hefur glatast þ.á.m. fyrir árið 1151 – innskot höf.).

Trölladyngja

Trölladyngja.

Trölladyngja eða Trölladyngjur heitir nyrsti hluti Núpshlíðarháls. í sumum eldri heimildum (Árni Magnússon, 1955) er notað nafnið Dyngjur (og mun þá átt við Grænudyngju og Trölladyngju) og eru þær m.a. eyktarmark frá Kálfatjörn (Pétur Jónsson, 1937-39). Hingað til hefur ekki verið hægt með vissu að heimfæra þessar heimildir upp á eldgos.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Einstöku menn hafa álitið að hér væri átt við Trölladyngju eða Dyngjufjöll í Ódáðahrauni (Ólafur Jónsson, 1945). Þar hefur þó ekki fundist hraun sem tengja má þessum heimildum. Þorvaldur Thoroddsen (1925) telur umrædd gos hafa verið í Trölladyngju á Reykjanesi og það gerði Jónas Hallgrímsson (1934-37) einnig. Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt em inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360 en telur þó síðastnefnda ártalið óvisst.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – gígur Drottningar efst.

Jón Jónsson (1983) getur sér þess til að Brennisteinsfjöll hafi áður fyrri verið nefnd Trölladyngjur en ekki hafa fundist nein gögn önnur en klausa í annálabrotum Gísla Oddssonar (1942) sem styðja þá tilgátu og í raun engin ástæða til þar sem Trölladyngja eða Trölladyngjur hafa ávallt verið þekktar þar sem þær nú eru enda við alfaraveg milli Innnesja annars vegar og Krýsuvíkur og Grindavíkur hins vegar (sbr. Ólafur Þorvaldsson, 1949).
Það er athyglivert, að húsrið (þ.e. landskjálfti svo harður að hús hristast) er nefnt í Konungsannál og annál Flateyjarbókar, í framhaldi af eldgosinu. Vafalítið er samband þar á milli sem þá sýnir að átt er við Trölladyngjur á Reykjanesi en ekki í Ódáðahrauni.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Bæði er að jarðskjálftar geta verið nokkuð harðir á Reykjanesskaga og Trölladyngja og Dyngjufjöll í Ódáðahrauni eru fjarri byggð. Þess má einnig geta að eldvirkni í Dyngjufjöllum mun hafa verið hverfandi lítil á umræddu tímabili (Guðmundur E. Sigvaldason, o. fl. í undirbúningi).
Þegar litið er á ofangreindar niðurstöður hníga ýmis rök að því, að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Gígaröð Krýsuvíkurelda spannar liðlega 25 km og miðhluti hennar liggur skammt austan við Trölladyngju. Eldgosið sem varð 1188 gæti vel hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli gosanna þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna, sbr. reynsluna af Mývatnseldum 1724-1729 og 1749.

Herbert kapelán

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Auk áðurnefndra heimilda um Krýsuvíkurelda er rétt að geta lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Um rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður), sem skrifuð var 1178 – 80 hefur Sigurður Þórarinsson (1952, 1975) fjallað allítarlega. Herbert lýsir ýmsum furðum sem gerst hafa á Íslandi og þar segir m.a. (þýð. Jakobs Benediktssonar, birt í grein Sigurðar Þórarinssonar, 1952): “Á vorum tímum hefur það sézt einhverju sinni, að hann (þ.e. vítiseldur – innskot höf.) gaus upp svo ákaflega, að hann eyðilagði mestan hluta landsins allt í kring. Hann brenndi ekki aðeins borgir og allar byggingar, heldur einnig grös og tré að rótum og jafnvel sjálfa moldina með beinum sínum. Og þótt furðulegt sé frásagnar, bráðnuðu fjöll úr grjóti og jafnvel málmi algjörlega fyrir eldi þessum eins og vax, runnu yfir landið og þöktu það, svo að dalirnir umhverfis fylltust af leðjunni og fjalllendi jafnaðist við jörðu. En bráðnu klettarnir, sem runnu út yfir allan jarðveginn í allar áttir, dreifðust síðan, þegar eldinum slotaði, og þá varð yfirborð jarðar eins og úr marmara og eins og steinlagt stræti, og jörðin, sem áður var byggileg og frjósöm, varð að eyðimörk.

Hraun

Hraunmyndun.

Þegar þessi ofsagrimmi eldur hafði eytt land þetta og allt, sem á því var, með óseðjandi græðgi sinni, jók hann við því enn skelfilegra undri, að hann réðst einnig á hafið við ströndina, og þegar hann kom út á hafsdjúpið, tók hann að brenna og eyða vatninu með fáheyrðum ofsa, allt niður á hyldýpi. Auk þess bar eldurinn með sér í flóði sínu gríðarstór fjöll og hæðir, sem aðrir gráðugir eldslogar höfðu steypt um, svo að þar sem vatnið varð að láta undan síga, kom land í staðinn, og fjöllin bárust út í hafsauga. Og þegar þau höfðu fyllt sjóinn algjörlega á löngu og breiðu svæði og gert hafsdjúpið jafnt sjávarströndu, varð sjórinn að þurru landi, svo að þar sem áður var vatn, varð nú fast land um 12 mílur og er ef til vill enn. Enn fremur eyddist í þessum eldum fræg borg og mannmörg, en þar var ágæt höfn við fjörð, sem eyðilagðist þó, þegar sjórinn þurrkaðist upp.”

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Sigurður Þórarinsson (1975) telur að hér sé á ferðinni ýkt og ruglingsleg lýsing sem annað hvort eigi við hraunrennsli í sjó og þá líklega Ögmundarhraun, eða jökulhlaup og þá líklega Kötluhlaup, nema hvorttveggja sé. Um heimildarmenn Herberts kapelláns fjallar Sigurður einnig og þar kemur nokkuð merkilegt í ljós. Frásögnina hefur Herbert líklegast eftir Eskil erkibiskupi í Lundi, en hann dvaldi í Clairvaux meðan ritið var samið.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Eskil erkibiskup vígði Klæng Þorsteinsson til biskups í Skálholti árið 1152, þ.e. árið eftir að annálar nefna gos í Trölladyngjum sem við teljum meginhrinu Krýsuvíkurelda og næsta víst að eldsumbrotin hafa þá verið ofarlega á baugi í fréttum frá Íslandi. Ljóst er að í riti Herberts er farið nokkuð frjálslega með tölur og stærðir en að öðru leyti á lýsingin ágætlega við Krýsuvíkurelda. Í eldsumbrotunum rann hraun í sjó fram bæði á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaga. Að norðanverðu runnu Kapelluhraun og Hvaleyrarhraun sem fylltu víkina sem var á milli núverandi Straumsvíkur og Hvaleyrarholts en að sunnanverðu Ögmundarhraun.

Sigurður Þórarinsson

Sigurður Þórarinsson.

Sigurður Þórarinsson (1975) taldi að sá hluti frásagnar Herberts sem segir að eldurinn beri með flóði sínu gríðarstór fjöll og hæðir sem berist út í hafsauga, eigi við jakaburð í Kötluhlaupi og má það vera rétt. Jafnlíklegt er að lýsingin eigi við um stórgerða hraunmúga sem ýttust fram með hrauninu. Þessi heimild tekur af allan vafa um að hraun hefur runnið í sjó á Íslandi á tólftu öld og þá fyrir 1180. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapillánsins frekari stoðum undir þá skoðun okkar að Ögmundarhraun hafi brunnið árið 1151. Ólíklegt er að átt sé við eldgosið 1188 því rit Herberts múnks er talið fært í letur 1178-80.

Aldur garðs í Húshólma

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur.

Hliðar hans standa nokkuð vel og eru nær lóðréttar, um 40 cm háar (50-55 cm sé pælunni bætt við) en breidd garðsins er um 150 cm. Pælan, sem stungin hefur verið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún nú um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn. Þess skal getið til glöggvunar að sniðið var gaumgæfilega athugað og landnámsaskan var skoðuð í víðsjá (binocular smásjá) og borin saman við sýni af ösku úr öðrum sniðum. Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900 en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.

Húshólmi

Fjárborgin í Húshólma.

Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.
Eins og áður var bent á virðist sem kirkja hafi verið í notkun í Húshólma eftir að hraunið rann. Sveinbjörn Rafnsson (1982) getur þess að kirkjan í Krýsuvík hafi verið lögð af 1563.

Húshólmi

Kirkjutóftin við Húshólma.

Telja má nær fullvíst að hraunið hafi runnið 1151 og í því gosi hafa bæjarhúsin í hinni fornu Krýsuvík og garðarnir farið undir hraun. Kirkjan hefur því að líkindum verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að Ögmundarhraun rann. Nafnið Hólmastaður bendir til þess að þar hafi verið kirkja eftir að Húshólminn fékk nafn og þá síðar en hraunið rann.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Eftir að hin forna Krýsuvík fylltist af hrauni neyddust ábúendur í Krýsuvík til að gera út frá Selatöngum sem eru vestast í Ögmundarhrauni og eftir jarðeldinn eina mögulega lendingin í landi Krýsuvíkur. Kirkjan í Húshólma er mitt á milli Selatanga og hins yngri Krýsuvíkurbæjar. Það gæti verið ástæðan fyrir því að kirkjan var ekki færð um leið og bærinn. Hún hefur verið miðsvæðis. Búandkarlar þeir sem Eggert og Bjami höfðu tal af í maílok 1755 hafa hugsanlega ruglað saman eldgosinu 1151 og því að kirkjan í Krýsuvík var aflögð 1563.
Það þótti guðleg forsjón að Reykjahlíðarkirkju við Mývatn skyldi ekki taka af í Mývatnseldum. Hlýtur fommönnum ekki hafa þótt það jafnstórt undur að kirkjan ein skyldi standa eftir af húsum í Krýsuvík hinni fornu, er hraunið umlukti hólminn sem hún stóð á?

Sjá einnig um aldur Ögmundarhrauns HÉR.

Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1988, Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, bls. 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

Grinda­vík hlaut kaupstaðarrétt­indi 10. apríl 1974. Saga Grindavíkur sem byggðar er þó mun lengri.
Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um “Þróun byggðar í Grindavík” í sögulegu samhengi. Taka þarf þó skráninguna með hæfilegum fyrirvara.

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

“Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Segja má að Grindavík hafi horfið af kortinu á 13. og 14. öld. Ástæðan var ítrekuð eldgos. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: “Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.” Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Landnám

Hér verður áfram fjallað um landnám Íslands. Taka verður umfjöllunina með öllum þeim fyrirvörum, sem þegar hafa verið gerðir um landnám norrænna manna hér á landi, bæði fyrr og síðar.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Englar og Saxar höfðu hernumið Bretlandseyjar um 600 e.Kr. Samkvæmt Ulsterannálum hefjast ránsferðir víkinga til Bretlandseyja laust fyrir 800 e.Kr. Um 30% þeirra, sem námu land á Íslandi eftir 870, komu frá Bretlandi eða Suðureyjum ef taka á mið af Landnámu. Þórður skeggi, Helgi Bjóla og Örlygur gamli voru t.d. búsettir á Suðureyjum áður en þeir tóku sig upp ásamt “þrælum” og fluttust til Íslands. Helgi magri, sem nam Eyjafjörð, var gauskur, en hann var fæddur og uppaldinn á Bretlandseyjum og átti írska móður. Auður djúpúðga og fylgdarlið hennar kom frá Katanesi í Skotlandi.

Landnám Íslands

Landnám Íslands – Samúel Eggertsson.

Fundur Íslands hefur ekki verið sú tilviljun, sem margir vilja halda. Íbúar á norðvesturjöðrum Bretlands hafa eflaust mjög snemma séð ótvíræðar bendingar á náttúrunni um tilveru mikilla eyja og landa norðar og norðvestur í hafi. Sambúð víkinga og Kelta um nokkurt skeið fyrir landnám virðist einnig varpa ljósi á sumt í landnáms- og siglingasögunni. Víkingar stunduðu ekki eiginlegar úthafssiglingar, en á því vandasama sviði sóttu þeir þekkingu til Kelta.
Löngu á undan manninum námu fuglar hér land. Frá Skotlandi finnur fuglinn auðveldlega Orkneyjar og Hjaltland og einnig Færeyjar, Ísland og Grænland. Flestir farfuglanna koma frá Norður-Írlandi. Þar bjuggu Keltar löngu fyrir landnám Íslands. Vor- og haustferðir farfuglanna hafa varla farið framhjá Keltum.

Fornagata

Fornagata í Selvogi.

Á öldunum fyrir Víkingaöld voru Írar ein mesta lærdómsþjóð Evrópu. Þeir höfðu tekið kristni á 5. öld, en einangrast svo er hinir heiðnu Englar og Saxar lögðu undir sig England í kringum 600 e. Kr. Á 7. og 8. og 9. öld gerðust írskir og skoskir munkar miklir trúboðar og kennarar í Evrópu, bæði í Englandi, Þýskalandi og Frakklandi. Þeir hafa eflaust gert sér einhverjar hugmyndir um landið eða löndin, sem fuglarnir og ungar þeirra áttu endurkomu frá á haustin.

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa/Kelta, á Suðurlandi?

Veigamikil rök hníga að því að Írar hafi stundað landaleitir í norðvestri eftir daga Pýþeasar (þ.e. 300 f. Kr.) og gætu því vel hafa fundið Færeyjar og Ísland snemma á öldum. Skiljanlegt er þó að rústir eftir byggð þeirra eða annarra frumherja finnist hér engar, nema ef vera skyldu manngerðir hellar á Suðurlandi. Í sífelldum skorti á hleðsluefni rifu Íslendingar jafnan niður hverja rúst, sem nærtæk var og notuðu efnið í nýrri hús – aftur og aftur.

Keltar

Keltar – landvættir.

Til er skrifleg íslensk heimild um veru írskra trúmanna hér á landi, eftir að norrænir menn setjast hér að. Þá höfðu forfeður okkar umstaflað búðatóttum Íra og tínt allt, sem þar kann að hafa verið að finna. Ekki er að efa að Írar voru í Færeyjum fyrir norræna byggð þar. Heimildir um fund Íslands ganga einnig miklu lengra til baka. Landnáma hefst á á tilvitunun í Beda prest um eyland eitt, kallað Týli, sem á bókum sé talið 6 dægra signing norður frá Bretlandseyjum og einnig eftir lýsingu á sólargangi gæti vel átt við Ísland.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Rit Beda prests, sem í er vitnað, er samið 703 eða 725. Þetta Týli eð Thulenafn gengur einnig í gegnum rit allt frá tímum Grikkja. Pýþeas siglir frá grísku nýlendunni Massalíu (nú Marseilles) um 300 f. Kr. til Bretlands og þaðan norður í Týli, sem gæti eftir lýsingunni að sumu leyti átt við Ísland.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Hrafna-Flóki tók með sér hrafna til að vísa sér veginn að landi. Með í för með honum var suðureyskur maður. Gæti það hafa verið tilviljun? Og varla fer Ingólfur út í óvissuna í leit að óþekktu landi, einkum ef hafðar eru í huga fyrri hrakningasögur Garðars og Naddoðs á og við landið. Ingólfur er sagður hafa haft með sér “þræla”, sem voru í raun Keltar. Var það vegna þess að þeir þekktu leiðina?
Þeir Ingólfur og Hjörleifur fóru fyrst til Íslands til að kanna nánar búsetumöguleika, sem talsverðar sögur gengu þá þegar af. Þeir létu sér nægja að hafast við í Álftafirði einn vetur. Staðsetningin er athyglisverð. Hann liggur á milli Papeyjar að norðan og Papafjarðar og Papóss að sunnan, eða í miðri papabyggð, að því er virðist.

Hjörleifshöfði

Hellir í Hjörleifshöfða.

Voru þeir svona hittnir, bráðókunnugir, á leiðina yfir úthafið mikla, að geta siglt beint á miðja papabyggðina, eða höfðu þeir ekki öllu heldur með sér Vestmenn eða mann, sem þekkti leiðina og hafði átt vinsamleg samskipti við Papana og talaði mál þeirra. Völdu þeir ekki einmitt þennan stað til þess að geta haft samskipti við þá menn, sem mest vissu um landið? Og hvað gat verið sjálfsagðara fyrir þá en að vingast við Papana, úr því að þeir höfðu í huga að setjast fáliðaðir að í sama landinu og slá eign sinni á nokkurn hluta þess.

Víkingar og Keltar höfðu lifað í friði saman í 1-3 kynslóðir þegar norrænir menn tóku að nema Ísland. Þegar til landnámsins kemur hafa Keltar haldið uppi siglingum hingað í allt að því öld og ef til vill lengur. Hvað er þá sjálfsagðara fyrir nýliðana að færa sér reynslu hinna í nyt, ráða sér vana menn á skip, þegar sigla á með sína nánustu út á úthafið stóra. Ingólfur hefur varla einungis treyst á mjaltakonur og sauðamenn til þeirra verka.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Í reynsluferð þeirra Ingólfs um Álftafjörð ætti þeim félögum að hafa orðið ljóst að friðsamleg viðskipti við margfalt fjölmennari Íra voru þeim sjálfum fyrir bestu, ef þeir ætluðu á annað borð að setjast að í landinu. Hitt er annað mál, að þegar norrænum mönnum fjölgaði í landinu, hafa þeir sjálfsagt þrengt að byggð papanna, sem kusu þá heldur að hverfa á brott eða hætta ferðum hingað. Hliðstætt upphaf og þróun er margþekkt í samskiptum landnema víða um heim. Ekki þarf að fara lengra en til Norður-Ameríku (nærtækt dæmi) þegar hvíti maðurinn ásældist lönd indíána – fyrst vinsamleg viðskipti, en síðan rán og dráp.

Ingólfur Arnarsson

Stytta af Ingólfi Arnarssyni, fyrsta norræna landnámsmanninum, á Arnarhóli í Reykjavík.

Ingólfur valdi þann kost að setjast að vestan við svæði Íranna svo minni hætta væri á árekstrum. Suðausturhorn landsins lá best við landnáminu, en Ingólfur ákvað einnig að sníða hjá landnámi í Vestmannaeyjum, einu raunverulegu höfninni fyrir allri Suðurströndinni, ákjósalegum stað til fisk- og fuglaveiða og búskap fyrir allmarga bændur. Ástæðan gæti verið sú að Írar hafi þegar verið þar fyrir, enda byggðust eyjarnar seint af norrænum mönnum að sögn Landnámu. Írar voru jafnan nefndir Vestmenn og er það ekki ólíklegri ástæða til nafngiftar eyjanna en síðar saga um þræla Ingólfs, sem nefndir eru Vestmenn í landnámu. Þeir gætu hafa verið að flýja á náðir samlanda sinna, sem þar voru fyrir, eftir drápið á Hjörleifi. Á Suðurlandi eru líka víða manngerðir móbergshellar. Margir þeirra eru taldir hafa verið gerðir af Keltum, sbr. hellana á Hellum og í Landssveit.

Landnám

Landnám Íslands.

Ingólfur settist að í Reykjavík. Öll skynsemi mælir með því miðað við þáverandi aðstæður. Sagan um öndvegissúlurnar er jafn ólíkeg og margt annað. Við komu Ingólfs hafa fjörur og firðir verið þaktir rekaviði líkt og nú á Ian Mayen og því ógjörningur að finna tvo drumba þar innan um á allri slíkri leið. Hefur einhver reynt að ganga fjörur Suðvesturlands og líta í allar víkur og vik á þeirri leið? Og það með þeirra tíma skótau á fótum. Hins vegar má ætla að strandir Reykjanesskagans hafi litið örðuvísi út í þá daga og líklegt má telja að víðast hvar hafi verið greiðfærara, en á öðrum stöðum erfiðara yfirferðar, s.s. undir björgunum er nú liggja ofar í landinu. Hraun á sögulegum tíma hafa ummyndað landið og breytt útlínum þess og aðstæðum allnokkuð frá því sem þá var.
Búpeningur landnámsmanna óx með ólíkindum á fyrstu árum landnámsins. Tölulegar staðreyndir draga í efa möguleika á slíkum flutningum hingað til lands með þeirra tíma skipabúnaði.

Landnám

Siglingar forfeðra vorra.

Aðdragandi að norrænu landnámi hér á landi er sagnakennd og sögnin af fyrsta landnámsmanninum virðist vera arfsögn.
Með fullri virðingu fyrir fornleifafræðingum og öðrum er mikilvægt að benda á að þeir verða a.m.k. að gera tvennt til að leiða hið sennilega í ljós; þ.e. a) að gefa sér tíma til að leita og b) halda áfram að leita (grafa dýpra) þegar eitthvað finnst. Hætta er á að fræðingarnir hafi um of viðurkennda lýsingu af landnáminu til hliðsjónar þegar þeir skoða í jörð – og láta þar við setja. Ekki hætta – leitið lengur og grafið dýpra. Þessu fólki til stuðnings (því það þarf ekki bara skilning, heldur og bæði tíma og fjármuni) er því hér með komið á framfæri við löggjafarvaldið að verja nú fjármunum (umfram þá, sem þegar eru veittir úr Kristnitökusjóði) til rannsókna á “venjulegum” minjum, ekki síst á afskiptasta svæði landsins hingað til – Reykjanesinu. Staðreyndin er nefnilega sú að allar minjar eru jafnmerkilegar. Þær, hver og ein, eru handritin, sem skrifuð voru með hinu daglega striti dugandi fólks.

Sjá meira um Landnám – aldur. Einnig Landnám II.

-ÓSÁ tók saman.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Húshólmi

Hér er fjallað svolítið um landnám hér á landi. Taka verður þó skrifin með hæfilegum fyrirvara því sérfræðikunnáttu er ekki nægilega vel fyrir að fara.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Elsta ritaða heimild um sögu Íslands er að öllum líkindum frásögn gríska landkönnuðarins Pýþeasar frá því um 300 fyrir Krist. Þar segir frá eyju í norðri er hann nefndi Thule. Lýsingar hans minna á Ísland. Hann heldur því fram að eyjan hafi þá verið fullbyggð fólki.
Írski menntamaðurinn Dicuil kappkostaði að skrifa um eyjuna Thule í landfræðiriti sínu Liber de Mensura Orbis Tarrae (Bók um mælingu jarðkringlunnar). Í því riti, sem talið er vera skráð um 825 e. Kr. fjallar hann um írska einsetumunka, sem flust hafa búferlum til eyjarinnar Thule þrjátíu árum áður eða undir lok 8. aldra. Rit hans hefur verið ein áreiðanlegasta heimildin um Ísland.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Af skrifum Dicuil má einnig ráða að umræddir einsetumenn, papar, hafi ekki fundið landið fyrstir manna. Þvert á móti virðist sem vitneskjan um tilvist landsins hafi verið löngu þekkt og Írar hafi byrjað að sigla hingað mun fyrr. M.a. segir frá ferðum hins írska Brendans um 600 e.Kr. til Íslands og hvernig hann hitti einsetumanninn Pól (Paul). Hann nefndi eyjuna Ísan upp á gelísku. Einnig eru til heimildir um ferðir Rómverja til norðurhafseyja. Á síðustu öld fundust í fornleifauppgröftum á nokkrum stöðum hér á landi rómverskir peningar frá þeim tíma. Þeir gætu þó hafa borist hingað til lands allnokkru eftir útgáfudag.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Bát Náttfara og ambáttar slitnaði frá skipi á ferð með landinu um miðja 9. öld. Bátinn rak að landi og hefur Náttfari lítið getað gert annað en að setjast hér að.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Elstu íslensku heimildina um veru papa hér á landi er að finna í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, en þá merku bók ritaði hann á árunum 1122-1133 e.Kr. Þar segir svo frá: “Þá voru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla papa, en þeir fóru síðar á braut, af því þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir sig bækur írskar og bjöllur og bagla; af því mátti skilja að þeir voru írskir”. Ari ritaði bók sína 250 árum eftir komu norrænna manna og studdist því einungis við munnmælasögur. Þá var bók hans fyrst og fremst ætluð sem nokkurs konar “jarðarbók” með ekki síst það hlutverk að festa í sessi ráðandi ættir þess tíma með hliðsjón af þáverandi skipulagi Alþingis.
Þótt fáar skýrar fornminjar hafi fundist um veru papa hér á Íslandi þá er óneitanlega gnægð af örnefnum með tilvísunum í einsetumunkanna. Nægir þar að nefna Papey á Austfjörðum, Papýli fyrir austan, Papafjörð í Lóni og talið er að Apavatn hafi upphaflega heitið Papavatn. Í fornum heimildum er þess einnig getið að á Kirkjubæ hafi papar búið áður en Ketill hinn fíflski, landnámsmaður, reisti þar bú. Þeirra er ekki getið eftir að norrænt landnám hófst hér á landi.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Mörgum hefur fundist skrýtið hversu bústofn norrænna landsnámsmanna óx ört skömmu eftir landnám þeirra þrátt fyrir tiltölulega fáar ferðir og fáar skepnur í hverri ferð. Til eru nokkrar tilvitnanir í Íslendingasögur þess efnis, s.s. sagan af Hafur-Birni og einnig landnámsmönnum í Hvalfirði. Talið er að Hjaltland hafi verið byggðar Keltum áður en norrænir menn tóku þær yfir, yfirtóku bústofninn og flæmdu eyjaskeggja á braut. Sama á við um Færeyjar. Ekki er ólíklegt að draga megi sömu ályktun um Ísland, enda stutt á milli eyjanna.
Þrátt fyrir að fornleifafræðingar telji að engar minjar sem fundist hafa hingað til sanni að papar hafi siglt hingað, hafa fundist þrjár litlar bronsbjöllur í heiðnum kumlum sem freistandi er að eigna írskum einsetumunkum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Þá nefnir Ari fróði bagla papanna, en baglar þessir hafa að öllum líkindum verið einfaldir göngustafir förumunka en ekki skreyttir biskupsstafir þótt bagall merki það nú. Loks hafa fundist krossristur í hellum víðs vegar um landið en ómögulegt er að tímaseta þær. Nú er unnið að rannsókn nokkurra þeirra á Rangárvöllum með hliðsjón af svipuðum hellaristum Kelta. Ef papar létu sér ekki nægja einfalda hellisskúta sem híbýli er mjög líklegt að skýli þeirra hafi verið einföld og látlaus. Þess háttar bústaði er því miður mjög erfitt að greina með fornleifarannsóknum. Þá er og líklegt að þeir, sem á eftir komu, hafi nýtt sér híbýli þeirra, sem fyrir voru, auk þess sem mjög líklegt er að sama grjótið hafi verið notað aftur og aftur í hleðslur nýrri eða endurnýjaðra húsa.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Einnig ber á það að líta að lítið sem ekkert hefur verið gert að því að leita skipulega að fornminjum hér á landi, hvað þá fornminjum sem lítil tiltrú er á að hafi verið til staðar. Nógu erfitt er að greina hús frá því á 17. öld, eða fyrir 300 árum, hvað þá látlausa bústaði frá því 1200 árum fyrr.
Ef fyrstu víkingarnir sem hingað komu hafi hitt fyrir kristna og friðsama Íra má telja víst að heiðingjar hafi haldið uppteknum hætti í samskiptum sínum við þá; rænt og ruplað, hneppt í þrældóm líkt og Tyrkir síðar eða hrakið þá af landi brott. Það sætir því ekki furðu að hinn prestlærði Ari hafi reynt að skrifa sem minnst um papana.
Hús, sem hafa verið endurbyggð og enn standa, t.d. í Landssveit, hafa óyggjandi keltneskt toppbyggingalag. Fornar garðhleðslur eru líkar því sem þekktust á Írlandi.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Hringlaga hlaðnar fjárborgir hafa sama handbragð og þekktust á Írlandi. Má þar t.d. nefna fjárborgina í Óbrennishólma í Krýsuvík sem og garðhleðslur, grafreit og skála í Húshólma. Í dag má enn sjá móta fyrir u.þ.b. 70 fjárborgum á Reykjanesi einu, misjafnlega gömlum. Munir, sem fundist hafa í fornum gröfum, s.s. á Hafurbjarnastöðum í Garði, útiloka ekki að þar hafi fólk af keltneskum uppruna verið greftrað.
Fornar þjóðleiðir á hraunleiðum eru furðu mikið niðurgrafnar. Hraun runnu að hluta til yfir þær skömmu eftir norrænt landnám. Fleira mætt nefna. Það ætti því enginn að afskrifa alveg tilvist eldri forfeðra Íslendinga en þeirra er segir af norrænum mönnum í Landnámabók, enda benda blóðrannsóknir m.a. til þess að Íslendingar megi alveg eins rekja ættir sínar til Írlands en til Skandinavíu. Hins vegar er ljóst að fyrsti skráði landnámsmaðurinn hér á landi var norrænn.

-ÓSÁ tók saman.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Árið 2005 gaf Ferðamálafélag Grindavíkur út ritið “Húshólmi – merkilegur staður í umdæmi Grindavíkur“.

Húshólmi

Húshólmi – rit.

Á baksíðu ritsins segir: “Samantekt þessi er unnin af Ómari Smára Ármannssyni fyrir Ferðamálafélag Grindavíkur. Nefndin gaf út samantekt um Selatanga á 30 ára afmæli kaupstaðarins í Grindavík 10. apríl 2004. Hún stefnir að því að gefa út samantektir um fleiri merkilega staði í umdæmi Grindavíkur, s.s. Selöldu, Þórkötlustaðahverfi , Þórkötlustaðanes, Járngerðarstaðahverfi, Staðarhverfi, ströndina, Baðsvelli og Selsvelli svo eitthvað sé nefnt.
Það er von nefndarinnar að efnið, sem hingað til hefur verið dreift og hér er sett fram í samfelldan texta, auk göngulýsinga af svæðinu, myndum og uppdráttum, muni nýtast áhugasömu fólki, bæði til fróðleiks og gagns á vettvangi, en æ fleiri gera sér nú ferð í Húshólma til að skoða minjarnar og fá innsýn í hugsanlegan heim fólksins, sem þar bjó áður en Ögmundarhraun rann og færði byggðina í kaf að mestu. Þá kemur fleira fólk til Grindavíkur í þeim tilgangi að skoða forna staði, kynnast sögu fleirra og njóta fagurs umhverfis.

Húshólmi

Í Húshólma.

Í samantektinni er m.a. reynt að lýsa aðstæðum, staðháttum, minjunum, tengingu við nálægar minjar sem og umhverfið. Í ritinu er uppdráttur af Húshólma og minjunum, sem í honum eru”.

Ritið er nú upselt og ólíklegt er að það verði endurútgefið. Lesendur FERLIRs geta hins vegar skoðað innihaldið á vefsíðunni – sjá Húshólmi – rit.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Gengið var um Húshólma og síðan frá Hólmasundi um Miðreka og yfir að Selatöngum. Í Ögmundarhrauni eru ein merkustu minjasvæði landsins og ætlunin að skoða a.m.k. tvö þeirra.
Auðvelt var að ganga niður mosavaxið Ögmundarhraun því mosinn var frosinn. Þegar komið var niður í Húshólma var stefnan hiklaust tekin að hinum fornu minjum vestan hans. Þar er talið að Krýsuvík hafi verið fyrra sinni.
Forn skáli í ÖgmundarhrauniBúseta í Krýsuvík undir Bæjarfelli, var frá 12. öld þegar talið er að bærinn hafi verið  fluttur frá Húshólma,  til ársins 1942. Krýsuvík var talin höfuðból, enda stærsta jörð á Reykjanesskaga. Jörðin náði að sjó frá Selatöngum austur að sýslumörkum. Byggðin náði hámarki á miðöldum en 1860 var t.a.m. búskapur á 13 býlum. Eftir aldamótin 1900 fór fólki að fækka og kotin fóru í eyði. Það eina sem minnir á höfuðbólið Krýsuvík og hjáleigurnar er Krýsuvíkurkirkja sem stendur austast á bæjarhólnum. Umhverfis hólinn eru tóftir Hnausa, Lækjar, Norðurkots, Snorrakots og Suðurkots.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Ögmundarhraunið, sem umlykur minjarnar við Húshólma, er talið hafa runnið 1151 (-1188). Ljóst er að hraunið hefur ekki myndast í einu lagi hefur smám saman í allnokkrum spýjum með mismunandi bergsamsetningu. Það átti glögglega eftir að koma í ljós þegar gengið var um Miðrekana.
Í Lesbók Mbl 17. sept. 1961 er m.a. fjallað um Ögmundarhraun: “Áður en það var rutt, varð að fara vestur fyrir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomu
nni, þegar fara þurfti til Njarðvíkur eða Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkurm er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa á móti honum; tekur hann því það ráð að lofa honum stúlku þessari, ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verkinu, austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungrjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun. (Úr sóknarlýsingu 1840).”

Verkhús við vestustu sjóbúðina á SelatöngumÍ Lesbók Mbl. 31. jan. 1954 er grein eftir Árna Óla; “Svona var lífið fyrir einum mannsaldri”. Í henni fjallar hann m.a. frásögn Stefáns Filipssonar um Ögmundarhraun: “Ögmundarhraun, lítið fyrir vestan Krýsuvík, runnið vestan úr Almenningi, sem allur er líka hraun, en þó grasi og skógi vaxið – er hann stórt óskipt landspláss hvar Krýsuvík á líka skógarítak. Ögmundarhraun er ekki upp gróið, heldur svart og ljótt útlits; gengur það heilt fram í sjó rjett fyrir austan Selatanga. Austan til við hraun þetta er kallaður Húshólmi. Þar eru stórar húsatóftir niðursokknar og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalega; hefir það verið vel stórt hús; þó sjást tóftirnar allar því hraunið hefir hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað maður veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega, yfir fullan helming, því þar hefir vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2 túngarðshringar; og hjer um bil 20 faðmar milli þeirra. Meina menn að Krýsuvík hafi þar verið áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er vík, sem bærinn gat nafn af tekið, n.l. Hæslvík nú nefnd. Í hrauni þessu, spölkorn hjer frá, er og óbrunninn hólmi og ófært hraun alt um kring bema einn lítill stígur, sem síðar hefir verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennishólmi. Þar er sagt samalinn hafi verið með heimilisfjeð meðan hraunið hljóp fram yfir heila plássið (þar eru og 2 misstórar fjárborga rústir) og að hann hafi ekki getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi.
Hólmasund - Krýsuvíkurbjarg fjærVestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fje undir vind af hverri átt sem hann er. Hellir þessi er langr frá bæjum, er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hjer um bil 100 árum, eð máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson, Hann tíundaði jafnan 50 hundruð. Hann hafði fje sitt við helli þenna, en skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti iena á eins lit, og bætti hann ei fyr að fala hana af sysur sinni, en hún yfirljet honum ána sárnauðgu, Sama veturinn seint gerði áhlaupabyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá alt hans fje fram af Krýsuvíkurbjargi hjer og þar til dauðs og algjörs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergsbrúninni stóð grákoll aleins er hann fjekk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fjenu. Teur hann ána þá og reynir í 3gang að kasta henni fram af breginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir. Og jafnótt og hún losnaði í hvert sinn við hendur hans, brölti hún upp að knjám hans. Loksins gaf hann frá sjer, og skal hafa sagt löngu seinna, að út af þessari á hefði hann eignast 100 fjár.

Í Arngrímshelli

Þetta hef jeg af sögusögn og gef það eit út sem áreiðanlegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og marði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst (Arngrímur þessi var Bjarnason, sonarsonur Arngríms lærða, og hafði lengi verið ráðsmaður í Skálholti. Hinn 9. ágúst 1724 fór hann á báti í sölvufjöru undir Krýsuvíkurbjargi “og með honum kalrmaður einn og kvenmenn tveir. Og er þau voru farin til að taka sölin, sprakk hella mikil fram úr breginu og kom á þau, svo að hún laust Arngrím í höfuðið til bana, og undir henni varð karlmaðurinn er honum fylgdi og önnur konan, en önnur komst lífs undan; tók hellan þó hælinn af öðrum fæti hennar, og skaðaði hana ekkia ð öðru. Var hella þessi 13 faðma löng og 11 faðam breið. Náðust lík allra þeirra þriggja, er ljetust” (Vallaannáll). Öðrum annálunm ber saman um hve margir hafi farist þarna, en Hítardalsannaátt segir: – “Vinnukona hans mjög lömuð komst af og aðrir tveir sem af ofboði hlupu fram í sjó og náðu til skipsins”).

Krýsuvík

Bærinn Lækur í Krýsuvík – Garðhús nær.

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmdunrur Bjarnason, bygði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fje, hélt því við áðurnefndan helli. En þar honum þótti langt að hirða það þar, bygði hann þar annan bæ dásnotran sem hinn, með glæergluggum, sængurhúsi afþiljuðu með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Bygði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak fjeð gegnum göngin út úr og inn íhellinn, hlóð af honum þvervegg, bjó til lambastíu, gaf þeim þar þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum alt um kring. Í stærra parti hellisins gaf hann fullorðna fjenu í innistöðum (sem verið mun hafa alt að 200 eftir ágiskun manna), flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfelt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár að baki…” 

Minjar í Ögmundarhrauni

Húshólmi er merkur minjastaður suður af   Krýsuvíkur Mælifelli, í austurjaðri Ögmundarhrauns, nær sjávarhömrunum. Þar hefur hraunið runnið til hvorrar handar við óbrennishólma sem nefndur er Hólmastaður í gömlum heimildum. Þar er m.a. fornt bæjarstæði, skálatóftir, garðhleðsla og gerði, en í hrauninu vestan Húshólma er Kirkjulág og fleiri minjar. Samkvæmt gamalli munnmælasögu stóð Krýsuvíkurkirkja í Kirkjulág og stóð uppi löngu eftir að hraunflóðið eyddi bænum.  Óbrennishólmi er spölkorn suður af Latstöglum sem ganga vestur úr Latsfjalli. Þetta er gróinn hólmi sem sker sig á sérkennilegan hátt úr grófu apalhrauninu. Þar eru fornar búsetuminjar, tvær fjárborgir og vegghleðslur. Önnur fjárborgin virðist vera mjög forn hringlaga hleðsla, en hin nokkuð yngri.
Áður hefur nokkrum sinnum verið fjallað um minjarnar í og við Húshólma og í Óbrennishólma hér á vefsíðunni, auk þess sem Ferðamálafélag Grindavíkur hefur gefið út bækling þar sem rifjaðar eru upp heimildir og minjar skýrðar heilstætt á svæðinu. Annars er táknrænt að staldra við hjá þessum fornu minjum því við þær er staur frá Fornleifavörslunni – án orða. Um er að ræða friðlýstar fonleifar, en hið litla vesæla skilti við þær er löngu afmáð.
Á MiðrekumEftir að hafa staldrað við ofan við Hólmasund var stefnan tekin vestur með ströndinni. Þessi u.þ.b. 6 km kafli er torfarin.
Í fyrstu er um úfið hraun að fara með stuttum helluhraunspöllum, en síðan tekur við sjóbakað apalhraun, laust í sér og seinfarið. Að vísu opnast u.þ.b. 500 m kafli ofan við sjálfa Miðrekana, neðan við Brúnavörður, en síðan verður aftur með það sama – ófæra hefði einhver óvanur látið hafa eftir sér, en með rólegheitum má ýmist þræða ofanverða ströndina eða fjöruna, einkum síðasta spölinn, áður en komið er í Eystri-Látur. Víða má lesa myndunarsögu bergsins út úr jarðlögum þar sem brimið hefur brotið allt mélinu smærra og hreinsað ofan af heilu bergflekunum. Víða á leiðinni eru einstaklega sérkennilegar myndanir og þótt ekki væri fyrir annað en þær verður svona ferð alveg þess virði. Auk þess er óvænt rekavonin á leiðinni, einkum ofan við Miðreka, góð ábót á ágóðan. Í þessari ferð var t.d. gengið fram á brak af björgunarbát, sem rak þar upp fyrir ári og varð að engu. Björgunarhringurinn var þó enn heill og var honum komið í Saltfisksetrið að ferð lokinni.
Austasta sjóbúðin á SelatöngumSelatangar er gömul verstöð suður af   Núpshlíð og vestan við Ögmundarhraun.Vestan við Selatanga eru Borgir eða Katlahraun, fallegar hraunlægðir með allskonar hraunmyndunum. Frá bílastæðinu er um hálftíma gangur í austur að fjölda verbúðartófta, hlaðinna fiskibyrgja og fiskgarða úr grjóti. Talið er að um 100 manns hafi stundað útræði frá Selatöngum þegar mest var. Vermenn hættu að stunda róður frá Selatöngum um 1884, en ábúendur í Krýsuvík og Ísólfsskála stunduðu útræði frá Selatöngum fram á fyrstu áratugi 20.aldar.  
Eftirfarandi umfjöllun Ólafs Einarssonar um Selatanga, “Útræði á Selatöngum”, birtist í Ferðablaði Lesbókar Mbl 25. nóv. 1989 (Ólafur var frá Garðshúsum í Grindavík): “Ef draga má ályktanir af því, að skoðanir fil. dr. Sveinbjarnar Rafnssonar séu réttar eða nálægt sanni, má áætla að útróðrar frá Selatöngum hafi hafist seint á 15. öld eða nálægt aldamótunum 1600. Má þá slá því föstu að stöðugt útræði hafi verið þaðan um nærfellt þriggja alda skeið. Ekki er nokkur leið að sannreyna með nokkurri nákvæmni hvenær sjóróðrar hafi hafist þaðan. Afur á móti er fullkomin heimild fyrir því, að þeir hafi verið stundaður þaðan allar götur fram til ársins 1884 [reyndar var róið frá Selatöngum frá á byrjun 20. aldar].
Þurkkbyrgi á Selatöngum (t.h.)Í bók Ólafs Þorvaldssonar “Harðsporum” segir: “Útræði mun hafa að mestu lagst niður á Selatöngum á síðari hluta nítjándu aldar og munu síðustu útgerðarmenn þar hafa verið Beinteinn smiður í Arnarfelli og Sveinn ríki á Læk”.
Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd skýrði Lúðvíki Kristjánssyni frá því á sínum tíma, að faðir hans, Einar, hafi verið þar við sjóróðra og að seinasta vertíð hans hafi verið 1884, en að þar með hafi líka sjóróðrar frá Selatöngum lagst niður [róið var þó lengur þaðan, bæði frá Krýsuvíkurbæjum og Ísólfsskála sbr. aðrar frásagnir]. Einar faðir Þórarins fæddist og ólst upp í Nýjabæ í Krýsuvík og koma að sjálfsögðu tengslin við sjóróðrana þaðan.
Rölti maður um það svæði á Selatöngum, sem vitað er að voru höfuðstöðvar þeirra, kemur greinilega í ljós að útræðið hefur verið talsvert. Má sjá það á þeim gróðri sem þar hefur myndast, þar sem annars er svartnættisgróðurleysi. Það er auðvitað slógið úr fiskinum, sem myndað hefur gróðurinn. Mörg fiskbyrgi eru þatrna tiltölulega vel á sig komin, en mannabústaðir gamlir, hrörlegir og niður fallnir. Gætu þeir varla kallast mannabústaðir í dag.
Hér má sjá viðgerð á austasta verkhúsinuHvað sem um þennan stað má segja, þá er það víst að á löngu tímabili var þar dregin nokkur björg í bú þeirra Krýsvíkinga. En aðstæðurnar hafa verið mjög erfiðar og mikið strit samfara veiðiskap og flutningum.
Varla er hægt að skrifa um útræðið frá Selatöngum, sem mun hafa hafist fljótlega eftir að Húshólmasund eyðilagðist með öllu í hamförunum þegar Ögmundarhraun rann, án þess að rifja upp eða lýsa þeim miklu reimleikum sem sagt er að þar hafi átt sér stað.
Draugur sá, sem magir kváðust hafa séð, var nefndur Tanga-Tómas og er hann sagður hafa gert mörgum búðarmönnum ýmsar skráveifur eða smáglettur.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Á Arnarfelli í Krýsuvík bjó þá maður er Beinteinn hét, þrautreyndur í sjóróðrum frá Selatöngum, sem getið er hér að framan. Einu sinni var hann heylítill og flutti sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar, einnig var ætlun hans að huga að reka. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu kveikur hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr til en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssu sína og skaut út úr dyrum. Sótti Tanga-Tómas þá svo fast að honum að hann hélst ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Eftir mikil átök við drauginn og illviðrið komst Beinteinn loks heim til sín um morguninn og var þá mjög þrekaður.
Það kom fyrir á Selatöngum einhverju sinni að unglingspiltur var orðinn mötustuttur. Buðust þá hásetar, á skipum þeim sem þar reru, til að gefa honum mötu til vertíðarloka ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu. Strákur kvað:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Ara, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein, Einara tvo, Ingibjörn, Rafn,
Vilhjálmi Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn
sjálfur Guð annist þá.

Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þar þó enn talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884.”

Vestasta verbúðin á Selatöngum

Þór Magnússon skrifaði um “Þjóðminjar” í Lesbók Mbl þann 27. júní 1976 fjallaði hann um “Verbúðarrústir á Selatöngum”: “Selatangar eru undarlegt ævintýraland og óvíða munu jafnskemmtilegar minjar um útræði hér á landi og einmitt þar, þótt staðurinn hafi verið líttþekktur fyrr en nú á síðustu árum.
Selatangar eru um það bil miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Þarna hefur Ögmundarhraun gengið í sjó fram og myndað tanga og er þar sæmileg lending. Hana hafa menn hagnýtt sér og smám saman myndazt þarna verstöð, sem harla lítið er þó vitað um úr rituðum heimildum. Hins vegar vitna rústirnar um það, sem þarna hefur farið fram. Hér er fjöldinn allur af fiskbyrgjum og nokkrar verbúðir, sem hægt er að greina, og er þetta listilega vel hlaðið úr hraunhellum og stendur allvel, þótt tímans tönn hafi unnið á sumu.
Síðast er talið, að róið hafi verið frá Selataöngum 1884. Fyrir mun hafa komið, að menn lentu á Selatöngum síðar ef lending var ófær annars staðar, en síðasti formaður af Selataöngum mun hafa verið Einar bóndi í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík Einarsson, afi Þorvaldar Þórarinssonar lögfræðings.
Ruddur vegur liggur af þjóðveginum, Ísólfsskálavegi, gegnum hraunið og niður á Selatanga, en hann er illfær litlum bílum [nú er hann að sjálfsögðu greiðfær öllum bílum]. En fjarlægðin er ekki meiri en svo, að þeir, sem röskir eru til gangs fara það á stuttri stundu og er vissulega ástæða til aðhvetja þá, sem áhuga hafa á minjum sem þessum, að kynnast þessum einkennilega minjastað.
Erfitt er nú að sjá, hverju hlutverki hver og ein rúst hefur gegnt, enda eru þær mjög misgamlar og hinar elztu nokkuð ógreinilegar. Þó má yfirleitt greina verbúðirnar af bálkunum, sem sofið hefur verið á, og sumar eru skiptar með vegg. Dagon (Raufarklettur), landamerkjasteinn á SelatöngumUppsátur sést einnig allglöggt, en rústirnar ná yfir talsvert stórt svæði með sjónum.
Vestan við rústirnar er sandfjara og í hraunjarðrinum þar vestan við er hellir, Nótarhellir, sem hægt er að komast í um fjöru. Hann mun draga nafn sitt af því, að Hraunsmenn í Grindavík geymdu þar selanætur sínar.”
Í forverkefnisskýrslunni „Plokkfiskur” – Íslensk strandmenning sem grunnur fyrir ferðaþjónustu í framtíðinni, sem gefin var út af Samgönguráðuneytinu, Siglingastofnun Íslands og Húsafriðunarnefnd ríkisins í júlí 2004, er m.a. fjallað um strandminjasvæðið á Seltaöngum. “Aðrar mjög áhugaverðar strandminjar eru Selatangar, suð-austur af Grindavík. Þetta svæði mun líka hafa verið miðstöð fyrir árstíðabundnar veiðar og hér eru rústir, hellar og aðrar minjar. Talið er að þarna hafi verið verstöðvar af svipaðri stærðargráðu og gömlu verstöðvarnar á Snæfellsnesi; Dritvík og Djúpalónssandur þar sem oft gistu hundruðir vermanna. Okkur skilst að áhugasamur einkaaðili hafi gert svæðið aðgengilegt fyrir almenning og sett upp upplýsingaskilti, gangstíga og gefið út bækling. Bæði Óttarsstaðir og Selatangar eru dæmi um aðgengilega sögustaði á Íslandi sem hafa mikla möguleika í ferðaþjónustu. Það ætti að koma af stað vinnuhópi, með það að markmiði að gera yfirlit yfir slíka staði á landinu öllu, forgangsraða þeim og meta ástand þeirra og möguleika innan ferðaþjónustu.”
Vestasta sjóbúðin á Selatöngum

Ekki var vart við Tanga-Tómas í þessari ferð, eins og svo jafnan áður. Á skilti við Selatanga er texti er segir að þaðan hafi síðast verið róið 1884. Þá eru myndir af tilgátuhúsum á Töngunum. Þar voru þrjár búðir, en ólíklegt verður að telja, af ummerkjum að dæma, að útlit þeirra hafi verið með slíkum hætti.
Dagon er nú varla svipur hjá sjón. Hann sést þó enn neðst í fjörunni á Selatöngum (þríkolla). Á síðustu árum hefur Ægir farið ómjúkum öldum um hann. “Kletturinn” er þó enn ábending um að vestasta sjóbúðin og tilheyrandi mannvirki hafa tilheyrt Ísólfsskála. Líklegt má því telja, ef Beinteinn frá Arnarfelli hefur hafst við í sjóbúð á Selatöngum, að þar hafi hann verið í austustu búðinni, enda heillegust þeirra, sem enn má sjá á Töngunum.
Aflraunasteinarnir á Selatöngum voru nú horfnir undir sand og grjót, enda ströndin búið við mikla ágjöf í hinum hörðu rokum liðins vetrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Lesbók Mbl 17. sept. 1961.
-Lesbók Mbl. 31. jan. 1954.
-Lesbók Mbl 25. nóv. 1989.
-Lesbók Mbl 27. júní 1976.

Á Selatöngum

Á Selatöngum.

 

https://ferlir.is/husholmi-ii/https://ferlir.is/husholmi-i/

 

Húshólmi

Húshólmi er óbrennishólmi inni í Ögmundarhrauni ofan við Hólmasund, skammt austan Selatanga.

Húshólmi - bæklingur

Bæklingur um Híshólma – merkilegan stað í umdæmi Grindavíkur

Í hólmanum og í hrauninu við hann eru mjög fornar rústir; hús og garðar. Svæðið hefur oft á tíðum verið nefnt Gamla Krýsuvík. Nöfnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til þess að þar hafi verið kirkja.Talið er að rústirnar geti verið frá fyrstu tíð landnáms, en elstu skráðar heimildir um minjar í Húshólma eru frá því í byrjun 17. aldar. Litlar rannsóknir hafa verið gerðar á rústunum.
Skiptar skoðanir hafa verið á aldri Ögmundarhrauns, en skv. aldursgreiningum virðist það hafa runnið á 12. öld. Hraunið hefur runnið yfir allnokkra byggð. Í dag má sjá í og við Húshólma leifar þriggja eða fjögurra húsa og á eitt þeirra að hafa verið kirkjan. Garðarnir hafa verið alllangir. Þeir liggja í sveiga við húsarústirnar og inni í hólamnum. Í honum er einnig m.a. forn fjárborg, tóft, nýrri stekkur eða lítil rétt og skjól refaskyttu.
Í Óbrennishólma, sem er skammt norðvestar í Ögmundarhrauni, eru einnig minjar stórrar fjárborgar (virkis?), hústóft og garðar, sem hraunið stöðvaðist við.

Húshólmi

Húshólmastígur.

Aðgengi að Húshólma er ágætt fyrir þá, sem ekki eiga erfitt með gang. Hægt er að aka á vel búnum bílum eftir stíg til suðurs austan við hraunkantinn eða ganga eftir honum frá Ísólfsskálavegi. Venjulega er gengið í hólmann eftir svonefndum Húshólmastíg (1.1 km) frá austurjarðri hraunsins. Gangan í hólmann eftir stígnum tekur u.þ.b. 10 mín. Þá er einnig tiltölulega auðvelt að ganga inn í hann eftir stíg skammt ofan við ströndina að austanverðu eða eftir stíg til suðurs í gegnum hraunið neðan við Krýsuvíkur-Mælifell.

Húshólmi – merkilegur staður í umdæmi Grindavíkur

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Húshólmi er inni í sunnanverðu Ögmundarhrauni ofan við svonefnt Hólmasund við suðurströnd Reykjanesskagans, milli Selatanga og Selöldu. Hólminn hefur löngum verið gróinn, en nú er gróður í honum smám saman að verða eyðingaröflunum að bráð sem og sumar minjarnar, sem í honum eru. Í Húshólma, sem er óbrennishólmi, eru friðlýstar fornleifar. Annar svipaður hólmi er í hrauninu skammt norðvestar. Nefnist hann Óbrennishólmi. Í honum eru einnig fornleifar.

Húshólmi

Gamla sjávarbergið vestan Húshólma.

Í Skrá um friðlýstar fornleifar frá 1990 eru fornleifar þessar ekki færðar með umdæmi Grindavíkur, einhverra hluta vegna, heldur með Hafnarfirði. Þar segir að í Krýsuvík séu; a) leifar Krýsuvíkur hinnar fornu, vestur af Krýsuvíkurbjargi, í Húshólma og Kirkjulágum, og b) fornt garðlag í Óbrennishólma, vestur af Húshólma.

Brynjúlfur

Brynjúlfur Jónsson.

Fornleifavernd ríkisins hefur unnið að því að gera úttekt á öllum friðlýstum minjastöðum á landinu. Flestar þær minjar sem nú eru á friðlýsingaskrá lentu þar í kringum 1930 er Matthías Þórðarson, þáverandi þjóðminjavörður gerði átak í friðlýsingum minja. Margir merkustu minjastaðir landsins urðu þar með alfriðaðir og draga nú til sín fjölda ferðamanna ár hvert. Við val á minjum studdist Matthías ekki síst við hið mikla starf þeirra Brynjólfs Jónssonar, Kristjáns Kålund, Sigurðar Vigfússonar og fleiri manna á sögustöðum Íslendingasagna.

Húshólmi - uppdráttur

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Skiptar skoðanir eru um aldur Ögmundarhrauns en nýjustu niðurstöður benda til þess að það hafi runnið árið 1151. Í Húshólma eru varðveittar húsarústir, og er talið að þar hafi Krýsuvík hin forna staðið.

Húshólmi

Tóftir í Kirkjulág vestan Húshólma.

Í Kirkjulágum, smáhólmum í hrauninu skammt vestan við Húshólma eru húsarústir og er ein þeirra talin vera af kirkju og nafnið dregið af því. Leifar einnar byggingarinnar eru nær horfnar en hraunið sem runnið hefur umhverfis hana stendur eftir og mótar útlínur hennar. Er það nær einstakt í heiminum að fornleifar hafi varðveist með slíkum hætti, mótaðar inn í storknaðan hraunstraum. Í Óbrennishólma vestan við Húshólma eru m.a. rústir fjárborgar. Enginn veit hve mörg býli eða hús lentu þarna undir hrauninu.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Í fyrrnefndri rannsókn kemur fram að öskulög við minjar í Húshólma bendi til þess að þar hafi verið byggð fyrir 900. Staðurinn er í raun einstakur í sinni röð. Telja má að þar megi finna minjar allt frá upphafi Íslandsbyggðar. Upplifunin við að heimsækja Húshólma er slík að sérhver, sem það gerir, gleymir henni ekki svo glatt. Auk kirkjutóftarinnar, skálanna og garðanna má sjá þarna hringlaga gerði á svonefndri Kirkjuflöt.

Húshólmi

Húshólmi og Húshólmastígur.

Þegar gengið er inn í Húshólma eftir Húshólmastíg er komið inn í hólmann, þar er fyrirhleðsla, en í hólmanum eru auk þessa stekkur eða lítil rétt í honum norðanverðum, jarðlægt gerði, greni og hlaðið byrgi refaskyttu, auk tóftar syðst í honum. Austasti garðurinn er hlaðinn að mestu úr torfi. Þó má sjá á kafla neðstu steinröðina er notuð var til að leggja línu garðsins.Vestast rann hraunið að garðinum og kaffærði hann. Annar garður er skammt suðvestar; einnig torfgarður. Þar má sjá hvernig hraunið hefur brennt hluta garðsins og skilið far eftir hann.

Fyrri rannsóknir og umfjöllun

Húshólmi

Húshólmi – skálatóftir.

Nú, í maímánuði árið 2005, liggur ekki alveg ljóst fyrir hvers konar minjar þetta eru, hversu gamlar þær kunna að vera, hver hafi verið tilgangur þeirra eða hvaða fólk kynni að hafa dvalið þar.

Húshólmi

Húshólmi – skilti við austurenda Húshólmastígs.

Minjasvæðið er bæði sérstakt og einstakt vegna þess að það er umlukið hrauni, sem ummerki benda til að hafi runnið yfir stærri byggð og lagt hana í eyði. Eftir standa framangreind ummerki er bíða rannsókna, verndar og að verða gerð aðgengileg áhugasömu fólki um tilurð þeirra og sögu.
Nokkrir hafa ritað um Húshólma, minjarnar þar og aldur Ögmundarhrauns. Má þar t.d. nefna Herbert kapellán í Clairvaux, Ólaf Olavíus, Gísla Oddsson, Svein Pálsson, Jón Vestmann, Jón Espólín, Þorvald Thoroddsen, Jónas Hallgrímsson, Eggert og Bjarna, Brynjúlf Jónsson, Jón Árnason, Ólaf Þorvaldsson, Sigurð Þórarinsson, Þorleif Einarsson, Jón Jónsson, Sveinbjörn Rafnsson, Hauk Jóhannesson og Sigmund Einarsson og Bjarna F. Einarsson. Sá fyrstnefndi, Herbert Kapellán í Clairvaux, virðist byggja frásögn sína á heimildarmanni, en skv. ályktun hans virðist hraun á þessum stað á sunnanverðu Reykjanesi hafa runnið um um miðja 12. öld.

Húshólmi

Húshólmi – minjar.

Gísli biskup segir frá gosi í Trölladyngju árið 1340, Sveinn Pálsson, sem annars lýsir landssvæðinu sem hinni mestu eyðimörk, segir fyrstur manna frá fornum rústum í Húshólma í ferðabók sinni árið 1796, þeim lýsti einnig Jón Vestmann árin 1818. Jón Espólín getur þeirra 1821 í árbókum sínum og Þorvaldur Thoroddsen segir frá þeim í ferðabók sinni 1883.

Húsólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Þorvaldur segir hann hraunið hafa runnið árið 1340. Jónas Hallgrímsson tekur undir það í skrifum sínum árið 1934. Eggert og Bjarni geta um rústirnar í Ferðabók sinni og þó einkum í dagbókum sínum árið 1772. Þeir telja eftir heimildarfólki sínu í Krýsuvík að hraunið hafi runnið um tvö hundruð árum fyrr, eða um 1570. Brynjúlfur ritar um rústirnar árið 1902 og dregur upp helstu minjarnar bæði í Húshólma og í Kirkjulágum. Telur hann þær vera mjög fornar. Jón Árnason birtir þjóðsöguna af Ögmundi og dys hans í Ögmundarhrauni skömmu síðar.

Sigurður Þórarinsson

Sigurður Þórarinsson.

Aðrir, sem ritað hafa og/eða rannsakað Húshólma og Ögmundarhraun á 20. öldinni eru t.d. Ólafur Þorvaldsson árið 1951. Þar segir hann frá Krýsuvík og sögnum af fornum rústum í Húshólma og ályktar um aldur Krýsuvíkurkirkju. Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, gerði athugun á hrauninu 1965 og taldi það geta hafa runnið um 1151. Þorleifur Einarsson, jarðfræðingur, gerði slíkt hið sama 1974, en taldi hraunið vera eldra, eða frá 1027. Jón Jónsson, jarðfræðingur, bætti um betur árið 1978 33 og taldið hraunið geta verið frá því í kringum 1000. Hann leiðrétti það síðar. Sveinbjörn Rafnsson fjallaði um aldur Ögmundarhrauns árið 1982. Taldi hann það geta hafa verið frá 1558 – 1563.

Árið 1988 rituðu Haukur og Sigmundur um Krýsuvíkurelda og aldur Ögmundarhrauns, auk þess sem þeir gerðu öskulagarannsókn í fornum garði í Húshólma. Þeir töldu hraunið vera frá 1151 og garðinn eldri en 900. Drógu þeir þá ályktun af landnámsöskulaginu í pælu garðsins sem og miðaldaröskulaginu utan á honum.

Húshólmi

Húshólmi – merki um friðlýstar fornleifar.

Bjarni Einarsson gerði fornleifaskráningu á svæðinu árið 2003 vegna fyrirhugaðra framkvæmda við svonefndan Suðurstrandarveg. Þar fjallar hann m.a. um rústirnar í Húshólma og getur framgreindra heimilda að nokkru leyti.
Þrjú svæði eru allnokkuð tengd þegar fjalla á um Húshólma og minjarnar þar m.t.t. rannsóknar og verndar, þ.e. hólminn sjálfur, Óbrennishólmi og loks Ögmundarhraunið sjálft. Bæði er það vegna þess að minjar eru í báðum hólmunum er kunna jafnvel að tengjast í aldri og tilvist og vegna þess að hraunið er órjúfanlegur hluti þeirra, m.a. með hliðsjón af aldri og mögulegri ástæðu fyrir eyðingu stærri byggðar en það hlífði. Auk menningarminjanna, sem þær óneitanlega eru, þjóðsagnanna tengdum þeim og fyrirhugaðri vegagerð í gegnum hraunið, þarf einkum að horfa til þeirra náttúruminja, sem Ögmundarhraun hefur að geyma. Þá eru ekki undanskilin hraunsvæðin ofan við Miðreka, suðvestan Óbrennishólma, þar sem m.a. má finna fyrirhlaðinn skúta, sæluhús, undir Lati sunnan við Latstögl.

Selatangar

Selatangar – skilti.

Tvö önnur nálæg svæði eru og allnokkuð tengd þegar fjallað er um möguleika Húshólma til aðgengis þegar horft er til beggja vegna Húshólma strandarinnar. Á báðum svæðunum eru minjarnar eftir búsetu- og atvinnuhætti, þ.e. Selalda annars vegar og Selatangar hins vegar.

Vettvangsskoðun – Húshólmi – 2005

Húshólmi

Gengið um Húshólma.

Farið var í vettvangsferð í Húshólma. Skoðaðar voru bæði minjasvæðin í Húshólma og á nærliggjandi svæðum. Hér verður getið um helstu niðurstöður af athugunum í Húshólma sem og tilvitnaðar heimildir.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.

Nú er ljóst að vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar mun ekki liggja yfir Húshólmann, eins og ein tillagan af þremur kvað á um í upphafi. Átti það m.a. að liggja svo til yfir fjárborgina, sem er ofarlega í hólmanum. Vegir eru mikilvægir nútíðinni, en mikilvægt er að hafa í huga að hinar áþreifanlegu minjar eru verðmæti framtíðarinnar, og því þarf að koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum að sem minnst af þeim fari forgörðum að óathuguðu máli – og þá einungis þegar ekki er um aðra möguleika að ræða þeim til bjargar.
Gengið var niður með austurjarði Ögmundarhrauns og litið á gróið skeifulaga gerði utan í hrauninu. Það gæti verið aðhald fyrir fé er varslað var í Hólmanum um tíma, sbr. stelstöðuminjar, sem þar eru, og/eða verið í tengslum við fjárborgina á Borgarholti þar skammt norðaustar. Það gæti einnig hafa verið notað fyrir hesta. Inn í hrauninu er varða. Við hana eru Mælifellsgrenin svonefndu sem og hlaðin byrgi refaskyttu.

Húshólmi

Húshólmastígur.

Haldið var yfir í hólmann eftir Húshólmastígnum. Á gömlum landakortum má sjá gamla götu liggja að honum frá Krýsuvíkurtorfunni. Um er að ræða góðan stíg, í gegnum hraunhaftið.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Nokkrar sagnir eru til um tilurð hans. Sumir hafa jafnvel ruglast á honum og svonefndum Ögmundarstíg í gegnum Ögmundarhraun vestan við Mælifellið. Þar, við austurjarðar hraunsins, er Ögmundardys og tengist sögunni af Ögmundi og vegagerð hans fyrir bóndann í Krýsuvík (aðrar sögur segja í Njarðvíkum). Aðrar sagnir kveða á um að Húshólmastígurinn sé svo áberandi vegna þess að kirkjan í hólmanum hafi verið nýtt eftir að hraunið kólnaði. Hraunþyrmingin hafi skapað verulega átrúnað á hana. Enn aðrir, þ.e. þeir raunsærri, segja að hún sé svo gróin og aðgengileg vegna selstöðunnar eða fjárhaldsins, sem Hólminn virðist hafa verið nýttur til um tíma. Auk þess er víst að Húshólmi (fjaran ofan við Hólamsundið) var bæði nýttur til reka og auk þess var síðast róið úr honum árið 1917 svo vitað sé.

Húshólmi

Húshólmi – skáli

Þegar komið var niður í Húshólmann er þar fyrir hlaðinn vörslugarður. Nokkru innan hans er, sem fyrr sagði, hleðslur í norðurhluta hólmans þar sem fé hefur haldið til haga; tvískiptur stekkur eða rétt, gróið gerði og forn fjárborg (virki), auk tveggja grenja. Við annað þeirra er hlaðið byrgi.
Gengið var að fjárborginni (virkinu). Vel má greina hringlaga formið sem og steinaröð í jaðri hennar. Borginni stafar hætta af jarðvegseyðingunni, sem nú er að éta hana að utan. Skammt neðar er efsti garðurinn, sem virðist hafa náð inn í hólmann frá vestri til austurs þar sem hann sveigir til suðurs og síðan til vesturs að neðri garðinum, syðst í hólmanum.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Reyndar er garðurinn rofinn á miðkaflanum og að mestu að austanverðu, en hann hefur að hluta verið úr torfi, en þar sem rofið er mest má sjá steinaraðirnar er mótað hafa garðinn. Brynjúlfur teiknar árið 1902 garðinn í sveig til suðurs og suðausturs, líkt og sjá má í dag.
Haldið var að neðri garðinum, sem liggur í boga úr suðri til norðurs og beygir síðan til vesturs inn undir hraunið. Sjá má í enda hans undir hrauninu þar sem það hefur brennt torfið á kafla. Í pælunni af garðinum er fyrrnefnt landnámsöskulag sem og miðaldaöskulagið, sbr. rannsókn þeirra Hauks og Sigmundar árið 1987. Þessi garður er einnig að mestur gerður úr torfi, en þó má vel greina grjót í honum, einkum syðst.

Húshólmi

Húshólmi – meintur grafreitur.

Á Kirkjuflöt er forn grafreitur, að talið er. Í henni er hlaðinn þvergarður frá norðaustri til suðvesturs. Sunnan við garðinn er að því er virðist hringlaga gerði. Hér er um forvitnilegan stað að ræða, ekki síst vegna nafnsins og hugsanlegra tengsla hans við grafsvæði. Ekki er að sjá að minnst hafi verið á gerði þetta í framangreindum lýsingum af minjasvæðinu, en gerðið sést best þegar sólin er lágt á lofti að kvöldlagi.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Gengið var eftir svonefndri Kirkjugötu inn í Kirkjulágir, í gegnum hraunhaft til vesturs, að hinum fornu minjum, kirkjurústinni fyrrnefndu og gamla Krýsuvíkurbænum (segja sumar frásagnir) og tóftunum þar í kring, görðum og hinum fornu skálum, sem virðast vera þrír. Þó er ekki ljóst hvort syðsta tóftin af þeim þremur, er hús, en hún er vestan við meinta kirkjutóft. Um þessar minjar liggja bogadregnir garðar. Greinilegar útlínur miðskálans, sem er allgróinn, virðast sveigðir líkt og gerðist með fornaldaskála. Um er að ræða heilt hús með rými til austurendans. Þá tekur við tóft og hleðslur við enda hans. Ofar og austar eru sérkennilegir hraunkatlar er benda til hringlaga húsa er hraunið hefur runnið að og brennt. Norðvestan þeirra er bátslaga tóft, sem hraunið hefur brennt á alla vegu.

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Brynjúlfur Jónsson minnist ekki á hana í athugunum sínum og hana er ekki að sjá á uppdráttum hans. Í miðju tóftarinnar er tvöföld röð af stoðarholum. Syðri röðin er samfelld og regluleg. Holurnar eru með u.þ.b. 63 cm millibili. Fjórar þeirra eru greinilegar. Dýpsta holan er um 40 cm djúp.
Flóraður stígur liggur frá sunnanverðu minjasvæðinu til suðvesturs í gegnum hraunið, í átt að Brúnavörðunum, yfir hraunhaftið og inn á götu er liggur með brún þess upp í og með Óbrennishólma að sunnanverðu. Talið er að sonur Krýsuvíkur-Gvendar, og menn með honum, hafi rutt og flórað stíginn á þessum kafla á 19. öld.

Húshólmi

Verbúðartóft syðst í Húshólma.

Loks var litið á sjóbúðartóft syðst í Hólmanum (gæti líka hafa verið afdrep fyrir þá er drógu að sér reka) og á rekagötuna niður að Hólmasundi. Útgerð virðist síðast hafa verið í Húshólma árið 1917.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Sjávargata liggur suður úr Húshólma niður að Hólmasundi. Þar hefur verið sæmileg lending, en grjótborin. Beggja vegna eru klettar; Seltangar að austanverðu.
Stígur var genginn út úr hólmanum til austurs. Við hana virðast einnig vera mögulegar fornar minjar í gróðurvin inn í hrauninu ofan við gamla sjávarbergið. Þetta svæði þarf að skoða betur. Vel má sjá í hluta gamla bjargsins þar sem nýja hraunið hefur runnið fram af því og myndað ströndina allt um kring.

Húshólmi

Húshólmi – minjar.

Brynjúlfur Jónsson telur í skrifum sínum 1903 að Krýsuvík hafi til forna staðið niðurundir sjó fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbjargi: „Nafnið Krýsuvík bendir á það. Engum hefir dottið í hug að kenna bæinn við vík, ef hann hefði fyrst verið settur þar sem hann er nú. En þar sem hann stóð fyrst hefir þetta átt við og svo hefir nafnið haldist er hann var fluttur. Hraunflóð það, sem á sínum stað er nefnt Ögmundarhraun, hefir eyðilagt hinn forna bæ. Sjást þess glögg merki. Þá er hraunflóðið er komið ofan fyrir hálsana, breiðir það sig um undirlendið vestur að Ísólfsskála, sem nú er austasti bær í Grindavík. Er þar hvergi auður blettur nema aðeins tveir hólmar austantil í hrauninu. Heitir hinn vestari Óbrennishólmi. Hann er kippkorn frá sjó, austantil niður undir múla þeim í hálsinum, sem Núpshlíð heitir. Eystri hólminn heitir Húshólmi. Hann er niður við sjó skammt fyrir vestan bergið. Er hraunkvíslin fyrir austan hann tiltölulega mjó. En runnið hefir hún fram í sjó fyrir austan hann, og það hefir aðalflóðið einnig gjört fyrir vestan hann, hafa svo runnið saman í fjörunni fyrir framan hann, og sést sjávarkamburinn innanvið hraunið á nokkrum parti neðst í hólmanum.

Húshólmi

Vatnsstæði og gerði neðst í Húshólma.

Að ofanverðu er hólminn hærri. Þar virðist hafa verið hæð, sem hraunið hefir flotið fram á og klofnað um. Svo lækkar hann allt í einu, en breikkar þó um leið austur á við, en að vestan gengur hraunið þar heldur inn í hann. Þar undir hraunjarðrinum kemur forn túngarður, er liggur kringum allstórt svæði, en hverfur aftur í hraunið niðurfrá eigi langt frá vesturenda sjávarkambsins.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Annar garður kemur undan hraunjarðrinum nokkru neðar en hinn og stefnir í suðaustur. Hann beygist suður á við og gengur gegnum hinn fyrri garð skammt fyrir ofan sjávarkambinn. Er þar hlið á hinum fyrra. Svo heldur þessi síðartaldi áfram að sjávarkambinum og hverfur þar. En þar sem gata sé rudd gegnum kambinn, líklega sjávargata; er eigi allbrimsamt og mun hafa verið útræði.

Húshólmi

Húshólmi – garður, sem hverfur undir hraunið.

Fyrir neðan þennan síðartalda garð verður afhallandi brekka ofan að neðri hraunjarðrinum. Liggur þriðji garðurinn þar ofan frá neðra garðinum og neðra hraunjarðrinum og hverfur undir hann. Þannig sér hér á 4 aðskildar girðingar, er allar hverfa að meiru eða minna leyti undir hraun. Engin tóft sést í neinni þessari girðingu, svo að, ef sín girðing hefir tilheyrt hverju býli, þá eru tóftir þeirra býla hrauni byrgðar. Vestur úr útsuður horni hólmans gengur graslág milli tveggja hraunjarða. Er hún eigi breiðari en svo, að eigi má ríða 2 hestum samsíða. Þegar samt er komið vestur í hraunið, kvíslast hún í tvær lágar. Þær heita kirkjulágar. Þar eru rústir. Verður fyrst fyrir tóft, sem snýr frá suðri til vesturs, nál. 4 fðm. löng og 2 fðm. breið. Dyr eru á vesturenda, jafnvíðar og tóftin sjálf. Mun þar hafa verið bil fyrir. Norðanmegin við þessa tóft, tæplega 2 fðm.

Húshólmi

Húshólmi – garður í Kirkjulágum.

Frá henni, er garður, sem beygist austur fyrir hana og hverfur þar undir hraunið, en að vestan endan hann í tóftarvegg. Er sú tóft fyrir fyrir dyrum hinnar, nálægt jafnstór henni og liggur frá norðri til suðurs. Dyr hennar hverfa undir hraunjarðarinn að sunnanverðu. Vestan við hana dýpkar lágin að mun, en þar er ekki víðari en svari tóftarvídd. Sé það tóft, hefir þar líklega verið kjallari, en hleðslan er hrunin. Frá norðausturhorni þvertóftarinnar gengur garður eftir norðurláginni, fyrst beint í norður nál. 12 fðm., svo beint í vestur nær eins langt og hverfur svo í hraunið. Utan með þessum garði er svo sem gangrúm hraunlaust, og er það norðurkvísl Kirkjuláganna. Lítur út fyrir, að hér hafi hraunið sigið að með hægð frá báðum hliðum. Svo sem 40 fðm. Norðar í hrauninu er auður vesturhluti rústar, sem auðsjáanlega er bæjarrúst. Hefir hún verið þrískipt.

Húshólmi

Húshólmi – skálar.

Miðtóftin snýr frá norðri til suðurs og hefir dyr á suðurenda og aðrar á vesturveggnum, inn í vesturtóftina. Inn af miðtóftinni virðist og hús hafa verið, sem er hrauni hulið allt að kalla. Miðtóftin nál. 2 1/2 fðm. löng og 1 1/2 fðm. víð.Vesturtóftin er jafnvíð og hin er löng, nfl. 2 1/2 fðm., en nál. 5 fðm. á lengd. Hún er merkileg að því, að með báðum veggjum, eftir henni endilangri, er 1 al. breið set eða rúmstæði og markar glöggt fyrir veggjunum þar utanvið.  Austasta tóftin er nær öll hrauni hulin. Þó sýnist sem útidyr hafi verið á henni fyrir austan útidyr miðtóftarinnar. Hvergi er hraunlaus blettur kringum þessa rúst, og ekki verður komist að henni nema á hrauni.

Húshólmi

Húshólmastígur.

Nafnið Kirkjulágar bendir á, að hér hafi kirkjustaðurinn Krýsuvík verið. Getur vel verið, að tóftin í syðri láginni, sem fyrst var talin, sé einmitt kirkjutóftin. Hefir heimabærinn þá víst verið þar líka. Rústin uppi í hrauninu er þó ekki eftir smákot. Hygg ég að heimabæir hafi verið tveir, Efribær og Fremribær, og kirkjan hafi verið hjá Fremri-bænum. Eftir afstöðu að dæma, hafa girðingarnar, sem fyrr getur, eigi verið tún þessara bæja, heldur annara afbýla, sem þá eru hulin hrauni. Og hver veit hve mörg býli þar kunna að vera horfin?“
Frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um gömlu Krýsuvík, Húshólma og Ögmundarhraun birtist í „Tillaga til alþýðlegra fornfræða“. Þar segir hann m.a. um Húshólma og Ögmundarhraun: „Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af, að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram á milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess, er að höndum kæmi, og fal sig guði: því hefir þetta skeð í kristni.

Óbrennishólmi

Óbrennishómi – uppdráttur ÓSÁ.

Eldflóðið fór allt í kringum hann, og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrennishólmi, er hann var. Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað, þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað, sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart, að það var óvinnandi, og varð ekki veginum komið á.
Ögmundur hét maður. Hann var berserkur, illur viðskiptis og flakkaði um land og gjörði mörgum mönnum óskunda. Hann kom að Krýsuvík og bað dóttur bónda. Bóndi þorði ekki að neita og lofaði honum dóttur sinni, ef hann legði veg yfir hraunið. Hann gekk að því og fór til, byrjaði að vestan, en bóndi stóð við hraunbrúnina að austan. Ögmundur hamaðist og hjó rösklega veginn yfir hraunið, en þegar hann kom austur yfir og var búinn, dasaðist hann. Þá hjó bóndi hann banahögg og dysjaði hann þar. Grjóthrúga er þar við götuna, sem kallað er leiði Ögmundar, en stendur á kletti. Vegurinn gengnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór björg (hraunstykki), en víða þrepóttur í botninn, sem hin gamla gata segir (ort á seinni tímum):

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar, sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.“

Húshólmi

Húshólmi – skálar.

Aldur minjanna í Húshólma hafa lengi verið á reiki. Hafa menn helst reynt að greina aldur hraunsins, sem færði þær í kaf að mestu og þannig reynt að finna út aldur þeirra. Í frásögnum frá því á 18. öld er hraunið talið vera frá því á 16. öld eða 14. öld. Nýlegri rannsóknir telja það geta hafa runnið í kringum 1000 og enn aðrar kveða á um 1150 eða 1180. Hvað sem öllu líður er ljóst að Ögmundarhraun er ekki einungis eitt samfellt hraun, það er nokkur hraun, sem hafa runnið á mismunandi tímum, en e.t.v. hefur ekki liðið langt á milli goshrina. Vegna takmarkaðra rannsókna er ekki gott að kveða á um hversu langt hafi verið á millum þeirra.
Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson rannsökuðu Húshólmann og Ögmundarhraun síðla hausts 1987. Aldur hraunsins var kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á. Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag, en sterk rök eru leidd að að aldri þess og uppruna. Einnig voru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum, sem þá tíðkuðust. Þessar athuganir voru bornar saman við ritheimildir og töldu þeir félagar sig geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin fjalla þeir um aldursákvörðun hins forna torfgarðs í Húshólma, sem reyndist vera eitt af elstu mannvirkjum er fundist hafa á Íslandi.
Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982,1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakoslaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563. Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæðinu en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur

Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum. Gjóskulög sem nefnt hefur verið miðaldalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu. Í þessari grein verður skýrst frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru: “Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit. Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngjuog Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinunni“.

Húshólmi

Húshólmi – einn garðanna.

Í Ögmundarhrauni er Húshólmi stærstur óbrennishólma, sem þar eru. Hann er austast og neðst í hrauninu. Nokkru vestar er Óbrennishólmi. Rústir eru í báðum þessum hólmum.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Merkastar eru rústirnar í svonefndum Kirkjulágum, sem eru smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónsson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til. Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að. Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir. Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. mars 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Ólafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.

Húshólmi

Hólmasund.

Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum.
Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Húshólmi

Hólmasund.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið. Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.
Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).
Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði í jaðra hraunsins og utan þess. Á þessu svæði eru nokkur gjóskulög af þekktum aldri. Þekktasta gjóskulagið á þessum slóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og erfi hlutinn dökkur. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafa brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).
Annað nokkuð þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Reynt hefur verið að heimfæra það upp á eldgos sem getið er um í rituðum heimildum. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðbestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola í skála.

Til eru fimm geisla-kolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Kirkjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Niðurstaðan var 980+/-60 og 960+/-170. Sýnið ætti því að vera frá því um 1027 e.Kr. Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðurleifum undan hrauninu. Niðurstöður mælinganna voru ártölin 1050, 1095, 1125, 1141 og 1148. Niðurstaðan var og sú að miðaldaöskulagið geti verið frá 1226/27.

Fátt er um sögulegar heimildir um eldgos á Reykjanesskaga á þessum tíma og eru þær allknappar. Frá 1151 er getið um gos í Konungsannál, bs. 115, Oddaverjaannál, bls. 474 og Annál Flateyjarbókar, bls. 301. Árið 1188 segir frá gosi í Trölladyngju í Skálholtsannál, bls. 180. Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt eru inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360, en telur þó síðastnefnda áratalið óvisst.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Þegar gögn eru skoðuð hníga ýmis rök að því að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Eldgosið sem varð 1188 gæti hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli goshrina þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna.

Húshólmi

Húshólmaferð á afmæli Grindavíkur.

Til eru lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Þar lýsir hann hrauni, sem rann í sjó fram á Íslandi á 12. öld og þá fyrir 1188. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapellánsins frekari stoðum undir þá skoðun að Ögmundarhraun hafi runnið 1151. Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur. Pælan, sem stungin hefur verið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn. Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900, en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum. Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.
Samkvæmt framangreindum rannsóknum virðist sá hluti Ögmundarhrauns, sem umlukti rústirnar í Húshólma hafa runnið 1151. Það er því fullljóst að þarna er um mjög fornar minjar að ræða.

Jón JónssonJón Jónsson, jarðfræðingur, gerði merkilega rannsókn á öllum Reykjanesskagnum árið 1978, en þá taldi hann Ögmundarhraun geta hafa runnið um 1005. Ljóst er að um nokkur hraun er að ræða. Ef til vill hafa sum þeirra runnið á svipuðum tíma úr mismunandi gígum, en önnur eru greinilega bæði eldri og yngri.
Sveinbjörn Rafnsson skrifaði um aldur Ögmundarhrauns í afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni, jarðfræðingi. Eftirfarandi er úr greininni: „Á Reykjanesskaga lágu leiðir um ung og úfin hraun og þar kynntust menn meiri óvegum á landi en víðast annars staðar. Fjölförnust slíkra leiða fyrrum hefur væntalega legið um Kapelluhraun sem líklega er nefnt Nýjahraun í Kjalnesingasögu eins og Þorvaldur Thoroddsen hefur getið sér til um. Annað hraun á Reykjanesskaganum úfið og ungt, sem ruddur var vegur um fyrrum var Ögmundarhraun. Dálítið er af sögum og sagnbrigðum um veginn yfir Ögmundarhraun. Elsta skráða sögnin um hraunið er líklega hjá Sveini Pálssyni frá 1796. Þar er sagt frá því að Ögmundur nokkur hafi rutt veg um hraunið og verið myrtur að launum austan við það, þar sem sé dys hans. Sveinn virðist stinga upp á að dysin sé leyfar af tollbúð Ögmundar. Á nítjándu öldinni voru svo skráðar ítarlegri sagnir um Ögmundarhraun.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Jón Vestmann prestur í Selvogi skráir sögu um Ögmund og Ögmundarhraun tvisvar á fyrri hluta 19. aldar. Hjá honum er sagan lík um Ögmund nema þar vinnur hann við vegargerðina til að fá dóttur bónda (á Ísólfsskála 1818 og í Krýsuvík 1840) sér til handa, en bóndi drepur hann sofandi áður en hann fær hennar.
Brynjúlfur frá Minna-Núpi skráði einnig sögu um Ögmund og Ögmundarhraun á síðari hluta 19. aldar. Þar er sagan svipuð hinum fyrri, en þar er Ögmundur kallaður berserkur.
Sagan um Ögmund er auðvitað skyld sögunni um berserkina og Berserkjahraun, sem sagt er frá í Eyrbyggju eins og Þorvaldur Thoroddsen benti á fyrir löngu. Eins og sjá má virðist sagnamyndunin um staðinn ekki ýkja gömul og hafa þróast á 18. og 19. öld.

Allt frá útgáfu ferðabókar Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar hafa lýsingar á byggðaleifum í Ögmundarhrauni verið almennt kunnar. Í ferðabókinni segir: „..at Innbyggerne I og nær ved Kriseviig, viide at fortælle om en forskrækkelig Jordbrand, som… har skikket en Ildström neð til Söekanten, og ödelagt nogle Gaarde paa den Strækning, hvor ÖgmundsHraun nu ligger, og iblandt disse er Kirkestedm kaldet Holmastadur, hvo man endnu seer Stykker af Kirke-Gaarden og Huuse-Toftene“.
Jón Vestmann lýsir einnig byggðaleifum þarna og nefnir Húshólma árið 1818 og segir að ein tóftin, sem snúi eins og kirkja, sé talin gamalt goðahof. Enn lýsir Jón Vestmann byggðaleifunum í Húshólma árið 1840. Fram að tíma Brynjúlfs hafði þess ekki verið getið að byggðaleifar eldri en Ögmundarhraun væru ekki einungis í Húshólma, sem er nærri austurjaðri hraunsins, heldur einnig í Órennishólma, sem er nokkur vestar í hrauninu en Húshólmi. Telur Brynjúlfur það af þessum ummerkjum ekki efamál að kirkjustaðurinn Krýsuvík og bæri „ef til vill eigi allfáir“ hafi farið undir hraunið.Tilgáta Brynjúlfs er sennileg ef hverfisbyggð hefur verið á þessum stað þegar Ögmundarhraun rann, eins og tíðkast á Suðurlandi, frá Kjós og austur í Lón. Í Jarðatali Johnsens eru t.d. taldar 7 hjáleigur í Krýsuvíkurhverfi. Þorvaldur Thoroddesn lýsir einnig byggðaleifunum í ritum sínum og hefir greinilega mælt þær.

Húshólmi

Fornmaður” í Húshólma.

Verbúðir og fiskbyrgi á Selatöngum eru yngri en Ögmundarhraun enda úr því hlaðin. Á þá verstöð er fyrst minnst í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. (sjá rit Ferðamálafélags Grindavíkur um Selatanga). Loks verður að geta þess að Ólafur Þorvaldsson hefur nokkuð lýst staðháttum á þessum slóðum í fróðlegum þáttum um Krýsuvík og mannlíf þar í byrjun þessarar aldar.
Fræðimenn hafa metið aldur Ögmundarhrauns á tvennan hátt. Annars vegar af athugun á sjálfu hrauninu og legu þess, hins vegar af ritheimildum, fyrst og fremst annálum, um gos á þessum slóðum. Af útgáfu ferðabókar Eggerts og Bjarna er ljóst að þeir telja Ögmundarhraun nýlegt hraun, „en nye opkommen sæl Egn“. Að hraunið sé ekki ýkja gamalt er einnig skoðun Jónasar Hallgrímssonar.
Þorvaldur Thoroddsen kveður hins vegar upp úr um það að hraunið sé yngst allra hrauna sem þarna séu. Athugaði Þorvaldur Ögmundarhraun sérstaklega árið 1883 og birti síðar af því kort. Þannig var fræðimönnum ljóst af Húshólmarústunum, allt frá tímum Eggerts og Bjarna, að hraunið var yngra en Íslandsbyggð og eftir könnun Þorvalds varð ljóst að það var með yngstu hraunum á Reykjanesskaganum.

Húshólmi

Gerði í Húshólma.

Íslenskir jarðfræðingar á þessari öld hafa auðvitað ýmsir skoðað Ögmundarhraun en einhver merkasti áfanginn í rannsóknunum á því í seinni tíð hlýtur þó að teljast hið ítarlega jarðfræðikort Jóns Jónssonar, jarðfræðings, af Reykjanesskaga, sem út kom 1978. Jón lýsir upptökum hraunsins, útbreiðslu og samsetningu. Hann telur að það þeki 16 ferkílómetra lands og ætlar að það muni vera um 0.32 rúmkílómetrar. Af korti Jóns má glöggva sig á legu og stærð Óbrennishólma og Húshólma í hrauninu.
Ritheimildir og tilraunir fræðimanna hafa miðað að því að koma við algeru (absolut) tímatali í árum eftir Kristburð. Eins og fyrri daginn ríður útgáfa ferðabókar Eggerts og Bjarna á vaðið. Þar er fjallað um Trölladyngjur, sem minnst sé á í annálum miðalda, en það séu eldfjöll sem gert hafi usla á Suðurlandi. Er á það bent að á Reykjanesskaga sé fjall sem sé kallað Trölladyngja og talið að það nafn hafi ef til vill átt við fleiri fjöll á þessum slóðum. Enn fremur segir frá því að uppteiknanir Gísla biskups Oddssonar séu eina ritið sem geti um gos í Trölladyngju 1340 og er látið að því liggja að þá hafi Ögmundarhraun kannski runnið.
Snemma á nítjándu öld var hafin útgáfa Árbóka Íslands eftir Jón Espólín. Í fyrsta bindi þeirra er annálagrein 61, sem er nær samhljóða annálagreininni í riti Gísla um gos í Trölladyngju, eini verulegi munurinn er ársetning gossins. Espólín telur það 1390, en Gísli og útgáfa ferðabókarinnar um 1340. Eftir útgáfu Jóns Jóhannessonar á Sjávar-borgarannál er ljóst að þar er komin heimild Espólíns um Trölladyngjugosið.

Húshólmi

Húshólmi – skilti.

Með útgáfu ferðabókar Eggerts og Bjarna og útgáfu Árbóka Espólíns var markaður sá bás sem aldursákvarðanir Ögmundarhrauns áttu eftir að velkjast í á 19. öld. Jónas Hallgrímsson stendur ráðþrota frammi fyrir þessum heimildum og veit ekki hvort hann á heldur að telja hraunið runnið 1340 eða 1390. Þorvaldur Thoroddsen virðist heldur ekki kunna lausn á þessum ágreiningi, en tilfærir báðar heimildirnar og telur þær ef til vill eiga við Ögmundarhraun. Þó reynir Þorvaldur að höggva á hnútinn með því að vitna í aðrar ritheimildir en annála. Jón Þorkelsson setti fram tilgátu í sambandi við leshátt í gömlu kvæði um krossinn helga í Kaldaðarnesi frá 16. öld.65 Þessi tilgáta var því miður slæm. Í Kvæðinu stendur þetta vísuorð í 23. vísu: „Út á mitt kom orgnisraun“ (eða oguisraun). Þessu síðasta orði í vísuorðinu vill Jón breyta og lagfæra í Ögmundarhraun. Þessa lagfæringartilgátu Jóns taldi Þorvaldur að mætti nota sem aldursmark við tímasetningu Ögmundarhrauns.

Húshólmi

Húshólmi – skilti.

Ögmundarhraun er ekki upprunnið úr Trölladyngju og þurfa þá tímasetningar gosa í einhverri Trölladyngju ekki að skipta máli hvað varðar aldur þess. Ekki er unnt að reiða sig á neina þeirra ritheimilda sem nefndar hafa verið um aldur hraunsins.
Í dagbók Eggerts og Bjarna, en þeir munu hafa verið í Krýsuvík 1755, eru upplýsingar, sem fólk í Krýsuvík hefur gefið þeim félögum. Hraunið rann samkvæmt lýsingu þess um miðja 16. öld og kirkjustaður varð fyrir barðinu á því. „Om Effter middagen forloed vi Krisevigen með alla, og Reiste moed NV, först over et Nyt hraun, Ögmundarhraun Kaldet, dette Steenfloed Har for omtrent 200. aar siden, brændt og rundet Ned fra fieldene hen til Söen over 2. miile lang vey…!”

Húshólmi

Hraunkarl í Húshólma.

Erfitt er að segja hvers vegna þessari frásögn var sleppt í prentútgáfunni af Ferðabókinni 1772.
Örnefnið Ögmundarhraun finnst ekki í eldri heimild en ofangreindri dagbók þeirra Eggerts og Bjarna frá 1755. Öðru máli gegnir um Húshólma, þar sem örnefnið kemur fyrst fyrir í heimild frá byrjun 17. aldar. Í handritinu AM 66a 8vo, sem er bók með ýmsum gögnum úr embættistíð Odds Einarssonar biskups, er á bl. 55r-56v afhending séra Gísla Bjarnasonar á Krýsuvík til séra Eiríks Stefánssonar árið 1609. Er það úttekt á húsum og búfé og fylgir trjáreikningur, þ.e. upptalning og rekatrjáa á Krýsuvíkurfjörum frá sama ári. Örnefni á rekafjörunum eru greinilega talin frá vestri til austurs. Þar er getið um Selatanga, Húshólma, Bergsenda, Sandskriðu og Keflavík. Húshólmi virðist ekki til í eldri heimild en trjáreikningum frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – Hólmasund.

Þess verður að geta sérstaklega að í þeim lýsingum frá síðari tímum sem til eru, er Húshólmi talinn einn þeirra staða þar sem hvað rekasælast er á Krýsuvíkurrekum. Húshólmi markast af Ögmundarhrauni og verður þessi elsta heimild um hann þá einnig elsta ótvíræða ritheimildin um tilvist hraunsins.
Af kirknaskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá því um 1200 virðist ljóst að þá sé komin prestskyldarkirkja í Krýsuvík. Til eru og heimildir frá 14. öld um Krýsuvík og er ljóst af þeim að þá er staður (beneficium) í Krýsuvík. Staðarprestar í Krýsuvík koma einnig glöggt í ljós í þeim heimildum frá 15. öld, sem nefndar eru í sambandi við rekaítök Viðeyjarklausturs í Krýsuvík.

Húshólmi

Útsýni yfir Krýsvíkurbjarg af sjávarstígnum við vestari Bergsenda.

Heimildir frá 15. öld eru til fleiri. Máldagi Krýsuvíkur, samhljóða framan af fyrsta hluta Krýsuvíkurmáldaga í Vilkinsbók um rekana, er til varðveittur úr tíð Magnúsar Eyjólfssonar Skálholtsbiskups (1477-90). Ennfremur er til varðveitt stutt minnisgrein um það að árið 1496 hafi Stefán Jónsson Skálholtsbiskup látið meta byggingarnar á Krýsuvíkurstað, kirkjuna „og staðinn allan með hjáleiguhúsum innan garða“.
Árið 1525 á séra Guðmundur Steinsson „beneficiator“ í Krýsuvík viðskipti við Viðeyjarklaustur með milligöngu Ögmundar Pálssonar Skálholtsbiskups. Engan bilbug virðist þannig vera að finna á Krýsuvíkurstað á kaþólskum tímum. Ekki virðist vegur Krýsuvíkurstaðar heldur fara minnkandi í tíð Marteins Einarssonar Skálholtsbiskups, en frá honum er til Krýsuvíkurmáldagi 1553-54. Greinilegur lútherskur keimur er af talinu um fánýtar bækur í kirkjunni en þar segir einnig að „kirkja góð“ sé í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – útsýni til norðurs.

Gísli Jónsson varð Skálholtsbiskup eftir Marteini árið 1558 og var þar til dauðadags 1587. Úr biskupstíð Gísla eru varðveittir allmargir máldagar. Þau ártöl, sem þar koma fyrir, eru á tímabilinu 1574-79. Þar er máldagi Krýsuvíkurstaðar með sama miðaldaforminu og áður, rekaskipanin talin, en innanstokksmunir og ornament líkt og í Marteinsmáldaga. Það er í biskupstíð Gísla sem Krýsuvík er lögð niður sem beneficium og alkirkjustaður og var það gert með dómi höfuðsmanns Páls Stígssonar 27. september 1563. Það er því víst að Krýsuvíkurmáldaginn úr biskupstíð Gísla er frá árabilinu 1558-63. Af öllu framansögðu er ljóst að líklega hefur hraunið ekki runnið fyrr en Gísli biskup hafði vísiterað í Krýsuvík, a.m.k. einu sinni. Ögmundarhraun hefur þannig líklega brunnið seint á árabilinu 1558-1563.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Í skrifum sínum um Krýsuvíkurkirkju að fornu og nýju, segir Ólafur Þorvaldsson m.a. eftirfarandi: „Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík í átta til níu aldir. Ég held, að sögu Krýsuvíkurkirkju sé þannig farið, að erfitt sé að rekja hana, í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fáist. Ég held, að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær, og hver hana lét gera.Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar.
Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: „Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.“ Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rökum að „Súgandi“, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en sýslumörkin telja, að kirkjan hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir 1810.

Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka. Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar, fastar og laus ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök.

Krýsuvík

Baðstofa – hverasvæði í Krýsuvík.

Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings. Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup „kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni“.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1900 – Howell.

Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þess byggðarlags varðað, því að með bréfi 27. September. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot „sem þar er hjá“, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn“. Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð ti Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. október 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305). “Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, – en mennirnir viðurkenna hana ekki lengur. – Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami „huldi verndarkraftur“, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma”.

Méltunnuklif

Gamli Krýsuvíkurvegur um Méltunnuklif.

Það má segja, að frá 1563-1929 hafi Krýsuvíkurkirkjusókn verið í útlegð, eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907-1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjugata það.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Árið 1929, þegar kirkjan var lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin“.
Ólafur kemst ekki að niðurstöðu um hvar kirkja í Krýsuvík hafi verið staðsett.. Hann spyr einfaldlega: „Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð“.
Stefán Stefánsson (1878-1944), leiðsögumaður, þekkti mjög vel til í Krýsuvík. Hann skrifaði m.a. eftirfarandi um Húshólma og Ögmundarhraun: „Svo er talið, að Ögmundarhraun hafi runnið (eða brunnið, eins og Snorri goði mundi hafa orðað það) um miðja 14. öld. Um stað þann, sem nú er kallaður Húshólmi, þar sem er miklu eldra hraun undir gróðrinum en Ögmundarhraun er, hefur hraunstraumurinn klofnað. Hefur önnur álman runnið fyrir vestan hólma þennan, en hin fyrir austan hann og báðar beint í sæ út. Rétt austan við vestari hrauntunguna eru bæjarrústir nokkrar, og er auðsætt, að eitthvað af húsunum hefur orðið undir hraunstraumnum. Er og almennt álitið, að þarna hafi bærinn Krýsuvík upphaflega staðið, enda lítt hugsanlegt, að bænum hafi verið valið víkurnafnið, ef hann hefði frá öndverðu verið þar, sem hann nú er, nálega hálfa fimm kílómetra frá sjó, enda ekki um neina vík neins staðar að ræða. Bæjarrústir þessar eru og enn þann dag í dag jafnan nefndar gamla Krýsuvík eða Krýsuvík hin forna. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og álíta sumir, að einmitt þar hafi víkin sjálf verið, sú er bærinn dró nafn sitt af rétt vestan við Húshólmann við Húshólmafjöruna. Kirkjuflöt heitir og rétt hjá rústunum.“

Þörf á ítarlegri rannsóknum

Húshólmi

Kirkjustígur í Húshólma.

Mikilvægur þáttur fornleifaverndar er varðveisla minja, rannsóknir og varðveisla upplýsinga. Mikilvægt er fyrir þjóðina að vernda minjar; hlúa að menningararfi hennar.

Húshólmi

Húshólmi – stoðholur.

Skv. Þjóðminjalögum lætur Fornleifavernd, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar.77 Skv. reglugerð um þjóðminjavörslu annast Fornleifavernd einnig rannsóknir, skráningu og kynningu fornleifa. Mikilvægt er að vettvangsskoða og skrá vandlega allar fornleifar á Húshólmasvæðinu sem og á aðliggjandi svæðum. Þá þarf að gera áætlun um frekari rannsóknir á svæðinu, bæði með hliðsjón af aldri minjanna og hraunsins. Rannsaka þarf garða, tóftir og grafreit með hliðsjón af aldri, tilurð og hugsanlegum menningar- og búsetuminjum.
Rannsóknir, s.s. fornleifaskráning, hafa farið fram í og við Húshólma, samanber m.a. framangreindar athuganir Brynjúlfs, rannsóknir Sigurðar Þórarinssonar, Jóns Jónssonar og Hauks og Sigmundar og nú síðast skráning Bjarna F. Einarssonar vegna fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar.

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

Í fornleifaskráningu Bjarna kemur m.a. fram að fjárborgin í Húshólma er eldri en frá 1226, garðar eru sagðir eldri en 1550 sem og tóftir við hólmann. Suðurstrandarvegur hefur á undanförnum árum fengið talsverða athygli, en nokkrar rannsóknir hafa farið fram á svæði er ætlað hefur verið fyrirhugaðri legu hans, m.a. í gegnum Ögmundarhraun.

Húshólmi

Húshólmi – Hólmasundsstígur fremst.

Um tíma var ein hugmynd að leggja veginn í gegnum ofanverðan Húshólma. Skiptar skoðanir voru um ágæti þess m.t.t. verndunarsjónarmiða minjanna. Bjarni gerði athugasemdir við umsagnir umsagnaraðila v/Suðurstrandarvegar í mars 2001. Í þeim kemur m.a. fram að „getið hefur verið um fyrirhugaða lagningu Suðurstrandarvegar þar sem hann liggur m.a. í gegnum Ögmundarhraun. Aðilar gáfu út umsagnir um legu vegarins, m.a. með tilliti til fornleifa. Í athugasemdum kom m.a. fram: „Fornleifafræðistofan hefur fengið til athugunar umsagnir fjögurra aðila um tillögu að matsáætlun Suðurstrandarvegar. Allar eru ábendingarnar sem fram koma góðar og eru umsagnaraðilar sammála þegar svo ber undir. Þó er einn staður sem umsagnaraðilar eru ekki sammála um, en það er Húshólmi í Ögmundarhrauni í landi Grindavíkur. Þjóðminjasafn, Hafnarfjarðarbær og Landmótun leggja til að hinn fyrirhugaði vegur verði færður upp fyrir hólmann, en Grindavík mælir með því að hann verði lagður í gegnum hann. Rökin með færslunni upp fyrir Húshólma eru þau að um samfellt minjasvæði frá Húshólma, Fitjum og að Selöldu sé að ræða og að færsla vegarins komi betur út vegna tengingar við Ísólfsskálaveg, þ.e.a.s. aðkomu að Krýsuvíkurhverfi að sunnan (Landmótun og Hafnarfjarðarbær).

Húshólmi

Gerði utan í Ögmundarharuni að austanverðu.

Þjóðminjasafnið bendir á að vegurinn muni skera í sundur Húshólma og fjórar fornleifar lenda ofan vegar. Væntanlega er gengið út frá sömu forsendum og Hafnarfjarðarbær og Landmótun gera, þ.e.a.s. að um samfellt minjasvæði sé að ræða, allavega í sjálfum Húshólmanum.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Rök Grindavíkur með því að hafa veginn í gegnum Húshólma eru nokkur: Þau eru; öryggisatriði varðandi hugsanlegan sjávarháska, öryggi gagnvart snjóalögum og skemmti- og fagurfræðilegt gildi vegna ferðamanna. Einnig er bent á að leiðin muni liggja nærri fornminjum og áhugaverðum stöðum sem ekki hafa notið sín eins og verðugt væri hingað til. Þjóðminjasafnið tekur undir þetta sjónarmið en mælir þó gegn legunni. Því ber að álykta að eina röksemdin fyrir færslu vegarins norður fyrir Húshólma sé samfellt minjasvæði.“
Bjarni telur hins vegar að Húshólmi og Selalda eigi fátt annað sameiginlegt en að á þeim séu fornleifar. Hinar fornu rústir í Húshólma séu mun eldri en rústirnar við Selöldu og af allt öðrum toga. Einnig megi benda á að svæðin séu í sitt hvoru sveitarfélaginu og að þau hafi ólíkar skoðanir til umgengis og verndunar minjanna á þeim. Bjarni telur að Húshólminn sjálfur sé merkilegt fyrirbæri, en það sé allt önnur saga.

Húshólmi

Kirkjustígur í Húshólma.

Skráning fornminja er einn þáttur rannsókna. Í Húshólma þarf að skrá allar fornminjar, hvort sem um er að ræða tóftirnar vestan hólmans, garða, fjárborg, rétt/stekk, gerði, refabyrgi, tóft ofan við Hólmasund, gerði vestan í Ögmundarhrauni, stíga og annað er tengst gæti og skapað heilstæða mynd af minjasvæðinu. Færa þarf upplýsingarnar inn á aðgengilega kortagrunna, merkja minjar, gera ráðstafanir til að varðveita þær, gera ráð fyrir reglubundnu eftirliti eða vöktun á svæðinu, koma á góðu samstarfi við framkvæmda- og hagsmunaaðila tengdum svæðinu, þátttöku almennings og áhugafólks, upplýsingamiðlun og fjármagn til þeirra aðgerða og ráðstafana er lagðar verða til.“

Húshólmi

Gengið í Húshólma.

Í grein á vefsíðu Fornleifafræðistofnunar segir Bjarni m.a. að „samband náttúru og menningar hefur verið manneskjunni hugleikið allt frá tímum Forn-grikkja. Menn sáu snemma sambandið á milli menningar og umhverfis og vægi náttúrunnar í örlögum mannsins. Manneskjan hefur lagað sig að ólíkustu aðstæðum. Því nær sem dregur nútímanum þeim mun stórtækari er mótun hennar á umhverfinu. Maðurinn hefur tekið meira úr umhverfinu en hann skilar til þess og til frambúðar getur það aðeins þýtt einn hlut ef ekki verður að gáð: stórslys. Og í þessu sambandi á ég ekki aðeins við hið náttúrulega eins og hráefni ýmisskonar, ég á einnig við leifar eftir gengnar kynslóðir en þær eru jafn mikilvægur hluti af umhverfinu og vatnið, grösin og bergið. Umhverfi samanstendur nefnilega bæði af náttúrulegum og menningarlegum þáttum. Hin mikla og nauðsynlega umræða sem tengist umhverfismálum og virðist fara vaxandi hér á landi, hefur því miður nær einvörðungu snúist um hið fyrrnefnda. Nú er tími til kominn að gefa hinu síðarnefnda gaum. Hinn menningarlegi þáttur umhverfisins er rústir og önnur verksummerki manna, örnefni og ýmsir staðir sem tengjast trú manna, sérstökum atburðum eða verkmenningu þjóðarinnar. Slíkt umhverfi í félagi við hið náttúrulega köllum við menningarlandslag.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæði.

Menningarlandslagið er mikilvægt fyrir sjálfsvitund einstaklinganna. Það eru minningar sem tengjast forfeðrunum, þeim sjálfum og sögunni. Þeir eru hluti af menningarlandslaginu. Þegar fé er ráðstafað er mikilvægt að hafa framangreida þætti í huga. Afleiðingarnar gætu komið fram síðar, þegar of seint verður að bregðast við fyrrum mögulegri varðveislu framangreindra menningarminja. Þegar á heildina er litið er það bæði lífríki einstakra staða og mannvistarleifarnar sem gera þessa þjóð að því sem hún er.

Húshólmi

Húshólmi – greni.

Menningararfurinn er ekki aðeins fólginn í handritunum okkar, tungunni eða því sem söfnin geyma. Hann er að verulegu leyti einnig fólginn í rústunum sem finnast út um allt land. Í þeim er fólgin saga, sem hvergi er geymd annarsstaðar. Þær eru lykillinn að skilningi okkar á gripunum, sem horfið hafa úr sínu eðlilega umhverfi inn á söfnin og sumar rústanna geta einar varpað ljósi á líf alþýðunnar og hlutskipti hennar í lífsbaráttunni. Íslensk þjóð varð þjóð á meðal þjóða í húsum, sem nú eru rústir einar. Rústirnar skipta okkur því nákvæmlega jafn miklu máli og rústir annarra þjóða skipta þær, þó svo að þær séu ekki jafn miklar að vexti og ekki úr jafn varanlegum efnum og rústir margra annarra þjóða. Minnimáttarkennd okkar Íslendinga í þessum efnum er athyglisverð, en hún stafar fyrst og fremst af vankunnáttu okkar um þessi mál og þeirri staðreynd að við höfum ekki skilið þýðingu rústanna fyrir þjóðarímyndina. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, voru þessar rústir hluti af tilverunni og veruleikanum og þess vegna eru þær mikilvægar fyrir þjóðina, sögu hennar og ímynd. Ef hún eyðir þeim, eyðir hún hluta af sjálfri sér.

Húshólmi

Húshólmi – refagildra.

Mikilvægi rústanna nær að auki út fyrir landsteinana og má t.d. benda á þá staðreynd að erlendis hefur plógurinn meira eða minna afmáð híbýli bænda frá víkingaöld. Hér á landi tíðkuðust aðrir búskaparhættir, sem hlífðu þessum tegundum rústa. Þær varpa því ljósi á hlutskipti manneskjunnar í norrænum veruleika. Mikilvægt er að hafa í huga að þótt minjar á nálægum svæðum séu ekki frá sama tíma eða jafnvel minjar innan tiltekins svæðis, geta þær sem heild eftir sem áður verið jafn merkilegar. Þær geta lýst og endusagt búsetu-, atvinnu- og nýtingarsögu svæðisins til lengri tíma. Á Selatöngum er t.d. saga vermennsku og sjósóknar, fiskverkunar, mannlífs og draugagangs í veri.
Í Húshólma eru væntanlega frumbúsetuminjar og nýting svæðisins til fjárhalds og undir Selöldu er m.a. saga seljabúskapar fyrr á öldum og væntanlega búskapar á síðari öldum. Allt getur þetta vel spilað saman og bæði stuðlað að fjölbreyttri nýtingu og áhrifaríkri upplýsingagjöf til handa áhugasömu fólki.”

Hvað á að rannsaka?

Húshólmi

Stekkur í Húshólma.

Minjavernd verður að byggja á vettvangsathugunum en benda má á nokkur atriðið sem vert er að hafa í huga við áætlanagerð, skipulag og varðveislu svæða. Auk vegagerðar og línulagna stafar fornleifum nú helst hætta af skógrækt og aukinni sumarbústaðabyggð auk þess sem nýbyggingar og framkvæmdir á þéttbýliskjörnum. Minjunum í Húshólma og nágrenni stafar þó ekki ógn af síðastnefndu þáttunum.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Í Húshólma hafa minjarnar varðveist svo vel sem raun ber vitni vegna þess að þær hafa verið tiltölulega óaðgengilegar inni í hrauni og jafnvel þótt áhugasamt fólk hafi reynt að finna þær hefur því reynst það erfitt. Sama á við um minjarnar í Óbrennishólma. Aðrar minjar á svæðinu, þ.e. Selatangar að vestanverðu, hafa um allnokkurt skeið verið aðgengilegar fólki, en þrátt fyrir hversu nærtækar þær hafa verið, hefur furðu mörgum reynst erfitt að finna þær. Verminjunum þar hefur helst stafað hætt af ágangi sjávar, enda má sjá mikinn mun á minjunum er standa næst sjónum frá því einungis fyrir nokkrum árum síðan. M.a. hefur sjórinn nýlega brotið niður hluta eins heillega verkshússins af þremur. Eftir standa tvö, en þau gætu einnig hæglega farið forgörðum í einhverjum stórsjónum einn vondan veðurdag. Að austanverðu stafar minjunum undir Selöldu ekki ógn af fólki vegna þess hve fáir vita af tilvist þeirra. Þar eru jarðvegseyðingaröflin hins vegar ógnandi skaðvaldur.

Húshólmi

Húshólmi – skjól við stekk.

Framangreinar minjar eru ekki allar aðgengilegar eða sýnilegar, en full ástæða væri til að koma upplýsingum um þær á framfæri við ferðamenn og almenning og auka þannig útivistargildi svæðisins að hluta eða í heild.

Húshólmi

Húshólmi – selsminjar.

Þegar skipulögð eru útivistarsvæði, þá er sjálfsagt að reyna að nýta þær auðlindir sem fyrir eru og fornleifastaðir geta verið afar spennandi og upplýsandi fyrir skólafólk eða ferðamenn, jafnt innlenda sem útlenda, að skoða. Til þess að það sé hægt þarf ekki annað en að skrá staðinn á vettvangi, merkja hann svo fólk viti hvert að eigi að fara og gera upplýsingar um hlutverk og gildi minjanna aðgengilegt á einn eða annan hátt, t.d. með prentuðum bæklingum eða skiltum á staðnum. Fyrir ferðaþjónustuna, og þá um leið viðkomandi byggðarlag, eru menningarleifar líkt og í Húshólma og nágrenni, mikil verðmæti.

Gildi minjanna í Húshólma
Eins og fram kemur í athugasemdum Bjarna F. Einarssonar er Húshólmi merkilegt fyrirbæri. Sama viðhorf endurspeglast í athugunum Brynjúlfs Jónssonar og annarra, sem skrifað hafa um minjarnar í hólmanum eða rannsakað þær m.t.t. aldurs. Mikilvægt er að vernda minjar og umhverfi Húshólma. Ljóst er að aldur minjanna er hár og telja má fullvíst að Ögmundarhraun, er færði hluta þeirra í kaf og hlífði öðrum, hefur runnið á sögulegum tíma. Það gefur hrauninu ákveðið gildi, auk þess sem einstakt má telja að hægt sé að ganga að minjum við slíkar aðstæður.

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Segja má að minjarnar í Húshólma feli í sér flest það er gjaldgengt er í minjavernd. Þau hafa mikið gildi fyrir land og þjóð, hvort sem um er að ræða ímyndargildi fyrir landssvæðið og fólkið, tengslagildi við sögu og uppruna, vísindalegt gildi vegna takmarkaðra fyrirliggjandi upplýsinga og hugsanlegra möguleika þeirra á að varpa ljósi á fyrrum óljósa hluti með rannsóknum, upplifunargildi fyrir áhugasamt fólk, fagurfræðilegt gildi vegna aðstæðna á svæðinu þar sem eru samspil hrauns er runnið hefur á sögulegum tíma og minja, sem til eru komnar eftir að fólk settist fyrst að hér á landi, upplýsingagildi er felst í að miðla þekkingu sem aflað hefur verið á fræðilegum grundvelli og ekki síst nota- og fjárhagslegt gildi fyrir ferðaþjónustuna hér á landi.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík eftir að hraunið rann 1151.

Fjallað verður nánar um síðastnefnda gildi sérstaklega. Minjar eru áþreifanlegur og efnislegur tengill við fortíðina umfram sem bækur eða frásagnir gera. Þær eru tákn fortíðar, geta gefið upplýsingar um liðna sögu, miðla þekkingu milli kynslóða og eru í raun tengill nútímafólks við forfeður þess.
Í bréfi Kristins Magnússonar, fornleifafræðings, f.h. Þjóðminjasafns Íslands varðandi Suðurstrandarveginn milli Grindavíkur og Þorlákshafnar í framhaldi af vettvangsskoðun í Húshólma er m.a. fjallað um fyrrgreindar athugsemdir Bjarna um Húshólma og skilyrði veglagningar í gegnum hólmann. Í bréfinu segir m.a. að „Þjóðminjasafnið telur að til að hægt sé að fallast á lagningu vegarins gegnum Húshólma þurfi aðgera bílastæði við veginn. Mæla þarf rútsirnar á svæðinu upp og búa til upplýsingaspjöld á bílastæðinu þar sem almenningur getur fræðst um það sem þar er að sjá. Leggja þarfs tíga ums væðið þannig að umferð um það sé stýrt. Búa þarf til umbúnað um rústirnar sjálfar þannig að þeim stafi ekki hætta af umferð gangandi fólks um svæðið en jafnframt þannig að tilfinningin fyrir mikilfengleika rústanna í hrauninu glatist ekki.

Húshólmi

Húshólmi í Ögmundarhrauni.

Til athugunar er að efna til samkeppni um frágang svæðisins. Huga þyrfti að samstarfi við Þjóðminjasafnið,Vegagerðina, Grindavíkurbæ, Náttúruvernd ríkisins og e.t.v. fleiri aðila í þessu sambandi. Samningur milli þessara aðila og framkvæmdaáætlun verður að liggja fyrir áður en hafist verður handa við vegaframkvæmdirnar og framkvæmdir við frágang svæðisins verða að haldast í hendur við vegagerðina og vera lokið áður en almennri umferð verður hleypt áveginn. Tryggja þarf viðhald þeirra mannvirkja sem þarna verða reist í framtíðinni og eftirlit með fornleifunum. Ráða þarf umsjónarmann yfir sumartímann sem hefði með höndum leiðsögn eftirlit á svæðinu. Einungis með þessum skilmálum getur Þjóðminjasafn Íslands fallist á að vegur verði lagður í gegnum Húshólma. Ef ekki er hægt að tryggja varðveislu minjanna á svæðinu með slíkum aðgerðum telur safnið að eina leiðin til að forða þeim frá skemmdum sé að viðhalda erfiðu aðgengi að svæðinu með því að leggja veginn norðan Húshólmans.“

Ráðstafanir til að koma í veg fyrir yfirstandandi eyðingu minja í Húshólma og nágrenni

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

Í dag er helsta ógnin við hluta fornleifanna jarðvegsrof í Húshólma. Þegar hafa langir hlutar torfgarða fokið burt og ljóst er að þeir munu hverfa að mestu í framtíðinni verði ekkert aðgert.

Húshólmi

Uppgræðsla í Húshólma.

Landgræsla ríkisins, sem staðið hefur fyrir uppgræðslu og áburðargjöf í Krýsuvíkurheiði austan við Ögmundarhraun, hefur haft áhuga á að græða upp sárin í Húshólma. Mikilvægt er að minjar í hólmanum beri ekki meiri skaða af en orðið er. Einnig er mikilvægt að huga að Óbrennishólma því þar hefur gróðureyðingin bæði sótt að fjárborginni stóru, tóft skammt austan hennar sem og jarðlægum garði er liggur upp með fjárborginni að vestanverðu. Þá eru minjarnar undir austanverðri Selöldu einnig í mikilli hættu vegna jarðvegseyðingar. Tvær fjárborgir eru nú á rofabörðum, forn tóft stendur á gömlum lækjarfarvegi og veður, vindar og vatn sækja að jarðlægum tóftum skammt austan hennar.
Minjar á Selatöngum eru í hættu vegna ágangs sjávar. Sjórinn hefur t.d. nýlega brotið niður hluta af annars heillegu húsi er stendur hvað næst sjónum. Líklega mun sjórinn smám saman taka til sín flestar minjanna á Selatöngum líkt og hann hefur gert víðast hvar með ströndum Reykjanesskagans í gegnum tíðina.

Húshólmi

Hraunkarl í Húshólma.

Aðgangur að minjunum – tillögur
Mikilvægt er að gefa fólki kost á að skoða minjarnar í Húshólma. Það þarf bæði að gera með ákveðnum takmörkunum, en jafnframt á þann hátt að það auki gildi og áhrif heimsóknarinnar. Í Húshólma eru bæði menningarminjar og náttúruminjar. Hvorutveggja þarf að gera aðgengilegt. Gæta þarf samræmis í þeim sjónarmiðum er lúta að friðun og verndun annars vegar og aðgengi almennings að fornminjum hins vegar. „Það að vekja athygli á stað eða minjum og gefa hvorutveggja gildi er besta varðveisluaðferðin.“

 Vettvangsskoðun – Ögmundarstígur og Ögmundardys – 2005

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Farið var í vettvangsferð um Ögmundarstíg og Ögmundardys skoðuð. Gengið var um Ögmundarstíg undir Krýsuvíkur-Mælifelli og eftir honum yfir Ögmundarhraun milli þess og Latsfjalls.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Staðnæmst var við dys Ögmundar, sem er þarna í austurjarðri hraunsins. Þar er eini hluti hins gamla Ögmundarstígs, sem enn er óbreyttur. Öðrum köflum stígsins í gegnum hraunið hefur verið breytt eftir því sem ökutækin hafa tekið breytingum. Þannig var hann endurruddur að nýju í byrjun fjórða áratugs 20. aldar (1932)84 er hann var gerður ökufær á kostnað Hlínar Johnsens í Krýsuvík. Stígurinn ber þess merki, enda orðinn bæði nokkuð beinn og breiður. Nýi akvegurinn liggur svo til samhliða honum skammt sunnar í hrauninu. Dysin er skírskotun til þjóðsögunnar um Ögmund. Bóndi samþykkti að gefa honum dóttur sína gegn því að Ögmundur ruddi stíg yfir hraunið á tilskyldum tíma. Ögmundur hófst handa að vestanverðu, en þegar hann kom austur yfir hraunið sat bóndi fyrir honum, drap hann þar í lægð og dysjaði. Þar er nú Ögmundardys. Dysin er að mestu eðlilega gerð frá náttúrunnar hendi, en vel má gera sér í hugarlund að hún hafi að hluta til verið hlaðin af mannahöndum.
Vesturhluti Ögmundarhrauns er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi.
Ögmundarstíg var fylgt yfir að Latsfjalli og síðan gengið suður með því að austanverðu, niður Latstöglin. Franskur ferðamaður, sem leið hafði átt gangandi um Krýsuvíkurveg, slóst með í förina, hann átti ekki von á að fá að kynnast svæðinu á þann hátinn.

Vettvangsskoðun – Óbrennishólmi – 2005

Ögmundarstígur

Ögmundardys.

Farið var í vettvangsferð um Óbrennishólma. Gengið var til austurs af Ísólfsskálavegi, áleiðis að sæluhúsinu í Ögmundarhrauni, skammt sunnan við Lat. Hlaðið er fyrir skúta og er dyrahellan þar við dyraopið. Stígur liggur ofan sæluhússins áleiðis í og áfram til suðausturs neðan við Óbrennishólma. Að þessu sinni var götu fylgt inn í hólmann og staðnæmst þar við stóra forna fjárborg á hæð í honum sunnanverðum. Í lægð vestan við borgina mótar fyrir fornu garðlagi frá norðri til suðurs.Austar er tóft, annað hvort af minni fjárborg er hringlaga topphlöðnu húsi. Hár hraunkanturinn er skammt austan hennar. Haldið var upp í hólmann og skoðaðir garðar þeir er hraunið hafði staðnæmst við. Greinilega sést hvar þunnfljótandi hraunið hefur runnið yfir hlaðinn garð. Grjótið í honum er úr grágrýti en ekki hraungrýti, sem er allt umhverfis. Líkast til er þarna um tvö eða fleiri hraun, mismunandi gömul, að ræða. Garðurinn hefur verið hlaðinn á eldra hraun, en yngra hraun runnið að honum. Grjótið í garðinum er svipað og á holtinu hjá stóru fjárborginni og í borginni sjálfri. Ofar í hrauninu er hlaðið hringlaga gerði, líklega nýrra, enda úr hraungrýti. Þá er hlaðið gerði og garður út frá því neðst og syðst í hólmanum. Hann virðist vera nýrri, enda hlaðinn að hraunkantinum, en hraunið ekki yfir honum líkt og efra.
Gengið var austur yfir úfið hraunið áleiðis að Húshólma. Af efstu brún þess er fallegt útsýni yfir hólmann og nærliggjandi hraun. Þaðan sést vel hvernig skipting hraunsins hefur verið, annars vegar þynnfljótandi og hins vegar úfið og seigt. Óbrennishólmi og Húshólmi hafa að öllum líkindum verið hæðir í fyrrum landslaginu og því staðið upp úr þegar hraunin runnu. Í suðri sést vel í Brúnavörður, en við þær liggur stígur frá suðurbrún úfna hraunsins áleiðis í Húshólma. Ljóst er að í Óbrennishólma eru einnig minjar, líkt og í Húshólma, sem ástæða er til að gefa sérstakan gaum m.t.t. varðveislugildis þeirra.

Grindavík – kenning um landnám

Ögmundarstígur

Jón Guðmundsson við Ögmundardys.

Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líklega um 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík. Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Einkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík.
Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða.

Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp. Nafnið bendir til þess þar sem bæ sinn í Álftaveri þar veturinn áður hafði hann nefnt Hof er gæti hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd. Önnur vísbending eru aðstæður þær, sem verið hafa þar á þeim tíma. Ferskt vatn rann undan klöppunum, en það er óvíða að fá á þessu svæði, nema ef vera skyldi í Gerðisvallabrunnum vestan við Járngerðarstaði. Fjörubeit hefur verið góð, auk þess sem skipalagi hefur hvergi verið betra en í Hópinu.
Áður en opnað var inn í Hópið var þar fyrir ós, sem hægt var að komast um á flæði. Grasbleðill hefur og verið þarna við ströndina og tiltölulega greiðfært til fjalla þar sem nýleg hraun voru ofar. Ströndin, bæði að austanverðu og vestanverðu hafa verið allt annars eðlis og legið miklu mun lengra inn í skagann. Há björg hafa einkennt austurströndina, en litlar grónar víkur verið á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkurbjargs. Gróið hefur verið í hlíðum Þorbjarnarfells (elsta fellið á svæðinu) og það því verið vænlegt til selstöðu.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – dys Ögmundar.

Synirnir voru fullvaxta er hér var komið sögu. Gnúpur hefur væntanlega fyrst tekið sér kvonfang og þurft búsílag. Hinn veraldarvani Molda-Gnúpur, sem fengið hafði viðurnefni (virðingarheiti) sitt frá fæðingarstað hans í Moldartúni á Norðmæri í Norðmæri í Noregi, hefur væntanlega viljað tryggja land sitt að austan, þar sem búið var í Hlíð við Hlíðarvatn í Selvogi. Hann hefur því væntanlega fengið syni sínum land þar sem áður var við Krýsuvík, á ystu mörkum þess tíma.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – Baðsvellir nær.

Ofar er Gnúpshlíðarháls og Gnúpshlíðarhorn syðst. Ögmundarhraun rann síðar yfir byggðina um 1151, en hlífði austasta hluta hennar að hluta. Byggðin þar hafði þá náð að þróast í u.þ.b. 211 ár. Líklega hefur Þórir haustmyrkur og hans afkomendur lagt einhverju af sínu fólki til land vestast á landssvæði sínu, til mótvægis við byggð Grindarvíkurbóndans. Þær minjar, sem nú sjást í Húshólma og Óbrennishólma, gætu verið leifar þeirrar byggðar. Byggðin hefur legið vel við sjósókn, fuglar í björgum og greiðfært hefur verið til upplandsins til hrísöflunar eftir hálsunum. Venjan var sú að elsti sonurinn tæki bú eftir föður sinn. Björn hefur því væntanlega verið elstur því ýmislegt bendir til þess að hann hafi tekið við búinu að Hópi eða flust þangað sem nú eru Járngerðarstaðir. Ekki er ósennilegt að í heiðni hafi Björn fengið viðurnefnið Þór, þ.e. elstur og æðstur bræðranna, en með kristninni hafi Hafurs-viðurnefnið orðið ofan á, sbr. draumasögnina um bergbúann og geithafurinn er kom í framhaldi af því til hjarðar Björns. Sagt var að landvættir allir hafi fylgt honum og bræðrum hans til þings og veiða. Fellið Þorbjörn ofan við Grindavík (Hóp) mun heita eftir Hafur-Birni.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Líklegt er að Þórði hafi verið fengið land á austurmörkum hins byggilega hluta landnámsins, þ.e. í Staðahverfi. Þórðarfellið ofan við Staðahverfi gæti bent til þess, en sagt er að fellið hafi verið nefnt eftir honum.
Þá er Þorsteinn einn eftir. Þar sem mest land við sjó, þar sem fiskur, fugl, reki, þang og þari þóttu hlunnindi, var að mestu frátekið þegar lengra var litið, var ekki um annað að ræða en líta nær eftir landkostum. Þá komu annað hvort núverandi Járngerðarstaðir eða Þórkötlustaðir til greina. Rannsókn sem gerð var við byggingu hlöðu við Vesturbæ í Þórkötlustaðahverfi, bentu til þess að þar hafi komið upp tóft landnámsskála:

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Á Þorkötlustöðum í Grindavík var í vor (1902) byggð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni og grafið fyrir henni nál. 3 al. djúpt í jörð. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Kom fram grjótveggur langsetis eftir gröfinni, þeim megin sem inn vissi í húsagarðinn. Neðst stóð framundan þeim vegg svo sem 1/2 al. breitt þrep, tæplega hnéhátt, alveg slétt ofan, og vandað og óhaggað, að byggingamenn létu það standa og höfðu það fyrir undirstöðu undir vegg hlöðunnar. Langs með þessu þrepi, svo sem 2 al. frá því, lá grjótbálkur eftir endilöngu, viðlíka hár og þrepið, eða vart það. Hann var nál. 2. al. breiður og allur lagður flötum hraunhellum ofan. Á þeim öllum var eldslitur.” Þetta virðast hafa verið leifar af fornum eldaskála.“

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Skír skírskotun til sagna, sbr. heiðnar dysjar Járngerðar og Þórkötlu, benda og til fornra bæjarstæða á hvorum staðnum fyrir sig.
Á báðum þessara staða hafa sjósóknarskilyrði verið góð, en þó mun betri fyrrum á Þórkötlustöðum. Bæði hefur þar verið afmarkaðra land frá Hópi og nærtækara að sækja búbjörg í björgin þar austan við. Fiskimiðin leggja og betur við og rekamöguleikar þar hafa verið umtalsverðir. Húsafjall og Fiskidalsfjall ofan við Þórkötlustaði (Hraun), benda einnig til ákjósanlegrar búsetu á því svæði.
Hinar fornu þjóðleiðir, sem sjá má djúpt markaðar í bergið, jafnt frá Hópi, Járngerðarstöðum og Staðahverfi, benda til mikillar umferðar til og að þessum stöðum lengi og alllöngum í gegnum aldirnar. Skógfellahraunið, sem Skógfellastígur ofan við Hóp, liggur um, er einna mest markaður, enda hraunið mun eldra en landnámið. Það skal tekið fram að hér er einungis um að ræða vangaveltur um hugsanlega landnámsbyggð í Grindavík því áþreifanlegar sannanir liggja ekki fyrir – ennþá.

Gata í Húshólma úr norðri

Óbrennishólmi

Fjárborg í Húshólma.

Gata liggur niður í Húshólma úr norðri. Gengið er inn á hana sunnan við Krýsuvíkur-Mælifell. Þar liggur hún niður í gegnum og á sléttri hraunlænu milli úfinna apalhryggja, alveg niður í hólmann.

Húshólmi

Húshólmi – varða.

Tvö stutt höft eru á stígnum þar sem fara þarf í gegnum úfið hraun. Við leiðina eru Mælifellsgrenin, grenjaskyttubyrgi og fornt arnarhreiður. Ögmundarhraun er úfið á köflum, en þó má finna í því mjög aðgengilegar lænur sem þessa, en auðvelt er að fylgja þeim um hraunið. Grámosinn (gamburmosinn) er ráðandi í hrauninu. Sumsstaðar er hann svo þykkur að það getur verið erfiðleikum háð fyrir óvana að ösla hann upp á leggi. Þess vegna koma hinir gömlu stígar í góðar þarfir. Mælifellsgrenin eru á tveimur stöðum; efra og neðra.Við efri grenin er hlaðið byrgi fyir refaskyttuna. Varða er skammt austan við grenin og önnur enn austar. Milli hennar og lítillar vörðu á austustu hraunbrúninni ofan við stórt gróið gerði í hraunkantinum er hálffallin varða. Gróinn stígur liggur frá brúninni yfir að grenjunum. Við neðri grenin eru fleiri byrgi, en minni. Þar er einnig áberandi varða. Grenin eru í nokkuð sléttu helluhrauni.

Arnarhæð

Arnarhreiður á Arnarhæð í Ögmundarhrauni.

Haldið var áfram niður stíginn uns komið var að hinu forna arnarvarpi. Hreiðrið, sem er gróið, stendur á háum ílöngum hraunhól. Frá því hefur verið gott útsýni yfir svo til allt hraunið milli Lats og Borgarhóls. A.m.k. fimm þekkt arnarvörp eru þekkt á Reykjanesi. Líklegt má telja að örninn leiti í þau á ný ef og þegar hann snýr aftur á Reykjanesskagann.

Húshólmi

Gengið í Húshólma.

Þegar komið var niður hraunbrúnirnar ofan við Húshólma virtist stígurinn hverfa framundan, en hann beygir í um 90° til austurs, yfir hraunhaft og inn í lítinn gróinn hólma ofan við Húshólma. Úr hinum liggur gróinn stígur inn í norðvestanverðan hólmann. Tæplega klukkustundar gangur er niður í Húshólma frá Mælifellinu. Mosahraunssvæðið norðvestan við Húshólma var skoðað. Stígur liggur inn í hringlaga slétt mosavaxið svæði, en óvíst er hvort eða til hvers það mun hafa verið notað. Upp frá því liggur gata norður í hraunið, áleiðis að fyrrnefndu götunni í gegnum slétt hraunið ofantil.
Ögmundarhraun er ekki gersneytt dýralífi þótt rollan hafi nú fært sig inn í afmarkað beitarhólf austan þess. Talsvert var af rjúpu í hrauninu og skolli var heldur ekki langt undan.

Lokaorð
Þegar staðið er við minjarnar í Húshólma má vel ímynda sér hvernig umhorfs hefur verið þar áður en hraunið rann. Falleg vík, væntanlega hin forna Krýsuvík, hefur legið þarna inn í landið, langleiðina upp á hinum gömlu sjávarhömrum suðaustan í Núpshlíðarhálsi. Byggðin, sem minjarnar eru frá, hefur staðið ofan við víkina, sennilega nokkuð ofarlega. Hraunið hefur runnið yfir talsverðan hluta byggðarinnar, en þyrmt því sem eftir stendur. Nú standa þær eftir sem áþreifanleg ábending um rannsókn. Þær tala til þess er þarna stendur, ávarpa hann og biðja um að lesin verði úr þeim þau skilaboð sem þær fela í sér. Minjarnar vilja augljóslega segja sögu þeirra tíma, upplýsa um til hvers þær voru notaðar og hugsanlega hvaða fólk bjó þar og dó. Hraunið hefur ekki hlíft þessum minjum til einskis. Minjarnar í Óbrennishólma þarna skammt vestar geta sagt sömu sögu, eða a.m.k. styrkt sögu Húshólmaminjanna. Mikilvægt er að svæðin verði rannsökuð a.m.k. í tvennum tilgangi; annars vegar til að kveða á um nákvæman aldur hraunsins og hins vegar að reyna að opinbera eftir föngum aldur mannvistarleifanna, tegundir þeirra, og hvaða fólk er líklegt er að hafi hafst þar við áður en hraunið rann. Þá er og mikilvægt að gefa áhugasömu fólki kost að berja minjarnar augum og upplifa áhrif þeirra.

Samantekt þessi er unnin af Ómari Smára Ármannssyni fyrir Ferðamálafélag Grindavíkur. Nefndin gaf út samatekt um Selatanga á 30 ára afmæli kaupstaðarins í Grindavík 10. apríl 2004. Hún stefnir að því að gefa út samantektir um feliri merkilega staði í umdæmi Grindavíkur, .s.s Selöldu, Þórkötlustaðahverfi, Þórkötlustaðanes, Járngerðarstaðahverfi, Staðarhverfi, ströndina, Baðsvelli og Selsvelli svo eitthvað sé nefnt. Það er von nefndarinnar að efnið, sem hingað til hefiur verið dreift og hér er sett fram í samfelldan texta, auk göngulýsinga af svæðinu, myndum og uppdráttum, muni nýtast áhugasömu fólki, bæði til fróðleiks og gagns á vettvangi, en æ fleiri fleiri gera sér nú ferð í Húshólma til að skoða minjarnar og fá innsýn í hugsanlegan heim fólksins, sem þar bjóð áður en Ögmundarhraun rann og færði byggðina í kaf að mestu. Þá kemur fleira fólk til Grindavíkur í þeim tilgangi að skoða forna staði, kynnast sögu þeirra og njóta fagurs umhverfis.
Í samantektinni er m.a. reynt að lýsa aðstæðum, staðháttum, minjunum, tengingu við nálægar minjar sem og umhverfið.

Hér má sjá meira um Húshólma – rannsóknir – aðgengi – sýning; file:///D:/Husholmi%20-%20verkefni%20í%20fornleifar%20og%20ferðaþjónusta%20-%20Grindavík.pdf

Ómar Smári Ármannsson tók saman.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

 

Húshólmi

Eftirfarandi mátti lesa í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins undir fyrirsögninni “Þjóðsagan” þann 20. október 1963:

Húshólmi - uppdráttur

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

“Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af er eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast fram með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fal sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrinnishólmi er hann var.

Húshólmi

Húshólmi – yfirlit.

Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið á Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar.
Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart, að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Ögmundur hét maður. Hann var berserkur, illur viðskiptis og flakkaði um land og gjörði mörgum mönnum óskunda. Hann kom að Krýsuvík og bað dóttur bónda. Bóndi þorði ekki að neita og lofaði honum dóttur sinni ef hann legði veg yfir hraunið. Hann gekk að því og fór til, byrjaði að vestan, en bóndi stóð við hraunbrúnina að austan. Ögmundur hamaðist og hjó rösklega veginn yfir hraunið, en þegar hann kom austur yfir og var búinn, dasaðist hann. Þá hjó bóndi hann banahögg og dysjaði hann þar. Grjóthrúga er þar við götuna sem kallað er leiði Ögmundar, en stendur á kletti. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór björg (hraunstykki), en víða þrepóttur  í botninn sem hin gamla staka segir (orkt á seinni tímum):

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.
Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar sem áður var bærinn Krýsuvík heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.”

Heimild:
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 20. október 1963, bls. 83.

Húshólmi

Húshólmi – meintur grafreitur.

Húshólmi

Ætlunin var að berja þetta fágæta og jafnframt dýrmæta svæði auga og skoða hinar merkilegum minjar á því.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Nú er ljóst að vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar mun ekki liggja yfir Hólmann, eins og ein tillagan af þremur kvað á um. Átti það m.a., miðað við fyrri möguleika, að liggja yfir fjárborgina, sem síðar verður nefnd. Vegir eru mikilvægir nútíðinni, en hinar áþreifanlegu minjar eru verðmæti framtíðarinnar.
Með í för var m.a. áhugasamur bæjarstjóri Grindvíkinga, Ólafur Örn Ólafsson, auk fleiri fjölfróðra samsveitunga hans. Farið var niður með austurjarði Ögmundarhrauns og litið á gróið skeifulaga gerði utan í hrauninu. Gæti verið aðhald fyrir fé er varslað var í Hólmanum um tíma, sbr. stelstöðuminjarnar, sem þar eru, og verið í tengslum við fjárborgina á Borgarholti. Það gæti einnig hafa verið notað sem hestagerði vegna rekaflutninga úr Húshólmafjöru við Hólmasund.

Mælifellsgreni

Skjól refaskyttu við Mælifellsgreni.

Ofar og inn í hrauninu er varða. Við hana eru Mælifellsgrenin svonefndu sem og hlaðið byrgi refaskyttu.
Haldið var yfir í Hólmann vestur eftir Húshólmastígnum. Um er að ræða góðan stíg, u.þ.b. 1.2 km, í gegnum hraunhaftið. Nokkrar sagnir eru til um tilurð hans. Sumir hafa jafnvel ruglast á honum og svonefndum Ögmundarstíg í gegnum Ögmundarhraun á móts við og Mælifellið. Þar, við austurjaðar hraunsins, er Ögmundardys og tengist sögunni af Ögmundi og vegagerð hans fyrir bóndann í Krýsuvík (aðrar sögur segja í Njarðvíkum).

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Aðrar sagnir kveða á um að stígurinn sé svo áberandi vegna þess að kirkjan í Hólmanum hafi verið nýtt eftir að hraunið kólnaði. Hraunþyrmingin hafi skapað verulega átrúnað á hana. Enn aðrir, þ.e. þeir raunsærri, segja að hún sé svo gróin og aðgengileg vegna selstöðunnar, sem Hólminn var nýttur til um tíma.
Þegar komið var niður í Hólmann er þar fyrir hlaðinn vörslugarður. Nokkru innan hans er hleðslur í norðurhluta Hólmans þar sem fé hefur haldið til haga; tvískiptur stekkur, gróið gerði og forn fjárborg, auk tveggja grenja. Við annað þeirra er hlaðið byrgi refaskyttu.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið að efsta garðinum, sem nær yfir Hólmann frá vestri til austurs. Reyndar er garðurinn rofinn á miðkaflanum, en hann hefur að mestu verið úr torfi.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Haldið var að neðri garðinum, sem liggur í boga úr suðri til norðurs og beygir síðan til vesturs inn undir hraunið. Sjá má í enda hans undir hrauninu þar sem það hefur brennt torfið á kafla. Í pælunni af garðinum er landnámsöskulagið.
Haldið var inn í hraunið til vesturs af Kirkjuflöt, fornum grafreit, og að hinum fornu minjum, gamla Krýsuvíkurbænum og tóttunum þar í kring, görðum og hinum forna skála. Útlínur skálans eru sveigðir líkt og gerðist með fornaldaskála. Um er að ræða heit hús með rými til endans. Þá tekur við tóft og hleðslur við enda hans. Ofar eru sérkennilegir hraunkatlar er benda til hringlaga húsa er hraunið hefur runnið að og brennt. Norðvestan þeirra er bátslaga tóft, sem hraunið hefur brennt. Í miðju þess er röð af stoðarholum.

Húshólmi

Skálatóft í Ögmundarhrauni við Húshólma.

Komið var við í hinni fornu Krýsvíkurkirkju eða hofi, en minjarnar eru a.m.k. taldar frá því fyrir rennsli Ögmundarhrauns, sem talið er hafa runnið árið 1151 (skömmu áður en Kapelluhraunið rann). Jón Jónsson, jarðfræðingur telu þó að hraunið hafi runnið árið 1005 (C14 945 ± 85 1005). Jafnvel er talið að minjarnar kunni að vera jafngamalt eða eldri en norrænt landnám hér á landi. Hér er um nær órannsakað svæði, en stórmerkilegt frá hendi fornleifafræðinnar.

Þátttakendum var bent var á hinn flóraða Brúnavörðustíg, sem liggur til suðvestur í átt að Brúnavörðum, yfir hraunhaftið og inn á götu er liggur með brún þess upp í og með Óbrennishólma.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

Talið er að sonur Krýsuvíkur-Gvendar, og menn með honum, hafi rutt og flórað stíginn á kafla.
Gengið var frá kirkjutóftinni út á Kirkjulágina, skoðaður hlaðinn þvergarður sem og jarðlægt hringlaga gerði vestast í henni. Loks var litið á sjóbúðartóftina syðst í Hólmanum (gæti líka hafa verið afdrep fyrir þá er drógu að sér reka) og á rekagötuna niður að Hólmasundi.

Loks var sjávargatan gengin út úr hólmanum til austurs.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – sjávargatan; horft frá Bergsenda vestari til austurs.

Við hana eru einnig fornar minjar í gróðurvin inn í hrauninu. Neðar eru Þyrsklingasteinar og sjá má í hluta gamla bjargsins þar sem nýja hraunið hefur runnið fram af og allt um kring. Frá þessum stað er mjög fagurt útsýni austur eftir Krýsuvíkurbjargi.
Veður var frábært – lygnt og sól. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Hægt verður að fá allítarlegar upplýsingar og fróðleik um Húshólma í bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur, sbr. bæklinginn um Selatanga – merkur staður í umdæmi Grindavíkur (2004).

Heimild m.a.:
-J.J. ´81

Húshólmi

Bæklingur Ferðamálafélags Grindavíkur um Húshólma.

Kleifarvatn

“Svo er talið, að Ögmundarhraun hafi runnið (eða brunnið, eins og Snorri goði mundi hafa orðað það) um miðja 14. öld.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Um stað þann, sem nú er kallaður Húshólmi, þar sem er miklu eldra hraun undir gróðrinum en Ögmundarhraun er, hefur hraunstraumurinn klofnað. Hefur önnur álman runnið fyrir vestan hólma þennan, en hin fyrir austan hann og báðar beint í sæ út. Rétt austan við vestari hrauntunguna eru bæjarrústir nokkrar, og er auðsætt, að eitthvað af húsunum hefur orðið undir hraunstraumnum.

Húshólmi

Vísan á Húshólmastíg.

Er og almennt álitið, að þarna hafi bærinn Krýsuvík upphaflega staðið, enda lítt hugsanlegt, að bænum hafi verið valið víkurnafnið, ef hann hefði frá öndverðu verið þar, sem hann nú er, nálega hálfa fimm kílómetra frá sjó, enda ekki um neina vík neins staðar að ræða. Bæjarrústir þessar eru og enn þann dag í dag jafnan nefndar gamla Krýsuvík eða Krýsuvík hin forna. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og álíta sumir, að einmitt þar hafi víkin sjálf verið, sú er bærinn dró nafn sitt af rétt vestan við Húshólmann við Húshólmafjöruna. Kirkjuflöt heitir og rétt hjá rústunum.

Húshólmi

Húshólmi – minjar.

Ráðleggja mætti þeim, sem skoða vildu tóftarbrot þessi og vinna sé það á sem auðveldastan hátt, að fara í bifreið úr Grindavík austur fyrir Ögmundarhraun, (akstur eins og vegurinn er nú), ganga síðan suður með austurjarðri hraunsins, þar til komið er að stíg þeim, sem liggur yfir eystri hraunálmuna út í Húshólmann, þar til komið er að bæjarrústunum. Mun ganga þessi vara eina klukkustund, þótt ekki sé allrösklega farið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.

Víti

Víti.

Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Nýjaland

Nýjaland.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland – tóft.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði.

Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetrarengi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Á korti herforingjaráðsins er nafnið Ketilstígur sett fram með Sveifluhálsi að norðvestan, en það er ekki nákvæmt, því að Ketilsstígur heitir aðeins sá hluti þeirrar leiðar, sem liggur upp á Sveifluháls að Norðanverðu, og er stígur þessi innan í gömlum gíg, sem kallast Ketill.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Austur og suðaustur af Arnarfelli er mýrarfláki, stór nokkuð, sem kallast Bleiksmýri, og var þar mikill áfangastaður á þeim tímum, sem þeir Árnesingar og Rangæingar fóru skreiðarferðir til verstöðvanna á Reykjanesskaga. Mátti einatt sjá marga tugi eða jafnvel nokkur hundruð hesta á Bleiksmýri í einu og fjöldi tjalda, þegar hæst stóðu lestaferðirnar. Mun og mörgum hestinum hafa þótt gott að koma í Bleiksmýri úr hagleysinu og vatnsskortinum á Reykjanesskaganum. Var og ekki óalgengt að menn lægju þar einn og tvo daga til þess að hestar þeirra fengju sem besta fylli sína, áður en lengra var haldið.

Víða í hraununum á Reykjanesskaga, eins og reyndar víðar á landi hér, getur að líta nokkuð djúpa götutroðninga í hraunhellunum eftir margra alda umferð. Má þar um segja: “Enn þá sjást í hellum hófaförin”.”

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Í Ögmundarhrauni mynduðust holur með þröskuldum á milli, og var hver hola um eitt fet í þvermál og hnédjúp hestum, og í rigningatíð stóðu holur þessar fullar af vatni. Fyrir nokkrum áratugum var gerð vegabót nokkur í Ögmundarhrauni, og holur þessar fylltar upp. Í gamalli og alþekktri vísu segir svo:
Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturna
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Fáni

Flaggað við Eiríksvörðu á Arnarfelli.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Þrjá til fjóra kílómetra austur frá bænum í Krýsuvík er Eldborgin, og svipar henni að mörgu leyti til nöfnu sinnar í Hnappadalssýslu – þeirrar, sem Hendersen gerði víðfræga með teikningu sinni. Skarð það, er verður millum Eldborgar og Geitahlíðar, heitir Deildarháls, og liggur alfaravegurinn yfir hann.
Dr. Þorvaldur Thoroddsen taldi gíginn í Eldborg vera 500 fet að ummáli að ofan og 105 á dýpt, en hæð fellsins telur hann 172 fet. Meinaði hann þar eflaust hæð Eldborgarinnar yfir jarðlendinu umhverfis hana, því að á korti herforingjaráðsins er hæð hennar yfir sjávarmáli talin 180 metrar.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Efst í Geitahlíð er og gígur mikill, en hann er eldri en síðasta jökulöld, eins og reyndar hlíðin öll er. Barma gígs þessa ber hærra en aðra hluta Geitahlíðar, er heita Æsubúðir. Niður af Æsubúðum, en sunnan í Geitahlíð, verður hvammur sá, er kallast Hvítskeggshvammur eða Hvítskeifshvammur, og er til prentuð þjóðsaga um þessi örnefni, en eigi er sú sögn allsennileg.
Skammt fyrir austan Deildarháls og hvamm þennan eru Kerlingar (sagan um Krýs og Herdísi), Bálkahellir (lítt eða ekki kannaður), Gvendarhellir (bóndi í Krýsuvíkurhverfinu, Guðmundur að nafni, hýsti fé sitt í þessum helli þá er harðindi gengu, líklega á fyrri hluta 19. aldar), og Kerið á Keflavík (uppi á 6 metra háum hamri ofan við Keflavík er op, Kerið, niður í flæðamál).

Austurengjahver

Austurengjahver.

Leirhverin mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, virðist ekki þurfa að velkja það lengi fyrir sér, að endur fyrir löngu hafi þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist, haustið 1924. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurnegjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.

Arnarfellstjörn

Arnarfellstjörn.

Ekki skal hér rætt um breinnisteininn í Krýsuvík né þann í Brennisteinsfjöllunum, enda eru Brennisteinsfjöllin austan sýslumarkanna og því í Herdísarvíkurlandi.
Þess hefur orðið vart, að sumir menn halda, að örnefnið Víti sé hver, en svo er eigi. Víti er hraunfoss, sem fallið hefur vestur af hálendisbrún þeirri, sem verður norður af Geitahlíð, og er hraunfoss þessi sennilega á svipuðum aldri og Ögmundarhraun. Hann er nú storknaður fyrir löngu og allur gróinn þykkum grámosa.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Eiríksvarða á Arnarfelli er vel þekkt úr þjóðsögum, sem segja, að séra Eríkur Magnússon, hinn fjölkunnugi Vogsósaklerkur, hafi hlaðið hana og mælt svo um, að aldrei skyldu Tyrkir koma í Krýsuvík meðan varðan stæði uppi. Nú er varðan hrunin, næstum í grunn, en Bandaríkjamenn komu í Krýsuvík, þegar seta þeirra í landinu hófst.
Vestan í Geitahlíð og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina sjálfa leggur jafnan á vetrum þykka fönn, langa en ekki breiða. Er fönn þessi sjaldan horfin með öllu fyrr en um Jónsmessu, og dregur hún nafn sitt af því.
Krýsuvík hefu lengi verið talin einhver mesta útigöngujörð fyrir sauðfé á landi hér, einkum þó þeirra jarða, sem ekki hafa fjörubeit, og ekki var það ótítt að sumt féð þar lærði aldrei átið.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.
Mótak er þar sums staðar í mýrunum, en ekki þykir mórinn þar góður til eldsneytis. Er hann allur mjög blandinn hveraleir, svo að af sumum kögglunum leggur brennisteinslyktina, þegar þeim er brennt.
Fremur þykir vera þokusamt í Þrýsuvík og lengi hefu verið við brugðið, hversu myrk þokan geti orðið þar. Er það haft eftir manni nokkrum, að eitt sinn hafi hann verið á ferð um Sveifluháls í svo miklu myrkviðri, að hann hafi séð þokuna sitja í olnbogabótinni á sér. Rigningasamt í meira lagi þykir og vera þar, svo einatt er þurrviðri í næstu byggðarlögum, þótt rigning sé í Krýsuvík.

-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.

Gullbringa

Gullbringa.