Færslur

Brúnavörður

Ætlunin var að berja þetta fágæta og jafnframt dýrmæta svæði auga og skoða hinar merkilegum minjar á því. Nú er ljóst að vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar mun ekki liggja yfir hólmann, eins og ein tillagan af þremur kvað á um.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Með í för var m.a. hinn áhugasami bæjarstjóri Grindvíkinga, Ólafur Örn Ólafsson, auk fleiri fjölfróðra samsveitunga hans. Farið var niður með austurjarði Ögmundarhrauns, litið á gróið gerði utan í hrauninu og síðan haldið yfir í hólmann eftir Húshólmastíg. Skoðaðar voru hleðslur í norðausturhluta hólmans þar sem fé hefur haldið til haga, gróið gerði og forn fjárborg. Þá var gengið að efsta garðinum, sem nær yfir hólmann frá vestri til austurs. Reyndar er garðurinn rofinn á miðkaflanum, en hann hefur að mestur verið úr torfi. Þá var haldið að neðri garðinum, sem liggur í boga úr suðri til norðurs og beygir síðan til vestur inn undir hraunið. Sjá má í enda hans undir hrauninu þar sem það hefur brennt hann á kafla. Haldið var inn í hraunið til vesturs af Kirkjuflöt, fornum grafreit, og að hinum fornu minjum, gamla Krýsuvíkurbænum og tóttunum þar í kring, görðum og hinum forna skála, auk þess sem komið verður við í hinni fornu Krýsvíkurkirkju eða hofi, en minjarnar eru a.m.k. frá því fyrir rennsli Ögmundarhrauns, sem rann 1151. Jafnvel er talið að minjarnar kunni að vera eldri en norrænt landnám hér á landi.

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

Að minnsta kosti er hér um að ræða einar “verðmætustu” fornleifar hér á landi. Í skálanum mátti til dæmis sjá holur eftir miðstoðir (stoðarholur). Bent var á hinn flóraða Brúnavörðustíg og síðan gengið út á Kirkjulágina, skoðaður þvergarður þar sem og jarðlægt gerði vestast í henni. Loks var litið á sjóbúðina syðst í hólmanum, á rekagötuna niður að Hólmasundi og síðan gengin sjávargatan út úr hólmanum til austurs. Við hana eru einnig fornar minjar í gróðurvin inn í hrauninu. Neðar eru Þyrsklingasteinar og sjá má í hluta gamla bjargsins þar sem nýja hraunið hefur runnið fram af og allt um kring.
Frábært veður.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.https://ferlir.is/husholmi-7/

Húshólmi

Gengið var niður með austanverðu Ögmundarhrauni. Talið er að hraunið hafi runnið 1150. Nokkurn veginn miðja vegu að Húshólmastíg er nokkuð stórt bogadregið gerði utan í hraunkantinum. Óvíst er hversu gamalt þetta er, en líklega hefur það verið notað sem hestagerði.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var 1.1 km inn eftir Húshólmastíg. Stígurinn er bæði breiður og vel ruddur. Komið er niður í rana á norðaustanverðum hólmanum. Þegar gengið er niður má sjá h beggja meginn stígsins, líklega til að varna fé uppgöngu. Þegar gengið er niður ranann er komið að hleðslum yfir stíginn og skammt þar frá er stekkur hægra megin við hraunkantinn, nokkuð stór. Vestan við stekkinn má sjá nokkrar tóttir. Þær gætu hafa verið sel frá Krýsuvík, en lega þeirra er í samræmi við legu flestra annarra selja á Reykjanesi, í skjóli fyrir austanáttinni. Neðan við tóttirnar má víða sjá vatnsbolla. Handan við hraunhornið hægra megin er skotbyrgi refaskyttu, andspænis greni í nokkurra metra fjarlægð til austurs. Steinn er ofan við opið. Enn innar, upp í krika að norðanverðu, má sjá móta fyrir mjög gömlu garði – í boga út frá gróinni hrauntotu.

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

Hóll í suðri er gömul fjárborg. Haldið er framhjá henni, niður með hraunkantinum og er þá komið að gömlu garði er liggur upp í hólmann, undan hrauninu. Sjá má slitrur af honum ofar í hólmanum, í beinu framhaldi, ef vel er að gáð. Spölkorn neðar liggur annar stór garður neðanfrá hólmanum og hverfur undir hraunið. Sjá má framhald garðsins fyrir innan hraunkantinn. Sunnan garðsendans liggur stígur til vesturs inn í hraunið. Honum er fylgt spölkorn uns komið er að vörðu. Þar neðan við eru tóttir gamla Krýsuvíkurbæjarins, vel greinilegar. Vestan við þær sjást aðrar tóttir og norðan þeirra er forn bátlaga skáli, sem hraunið hefur runnið upp að allt um kring. Ef farið er ofan í skálina og flötum steinum lyft má sjá hvar miðsperrurnar, sem héldu uppi loftinu, voru. Ganga þarf frá öllu aftur eins og það var.

Husholmi-24

Skálatóft í Húshólma.

Umhverfis má sjá fleiri göt í hrauninu eftir að það rann að öðrum húsum, flestum líklega topphlöðnum, sem bendir til þess að tóttirnar séu mjög gamlar. Sýnatökur í hólmanum staðfesta reyndar að svo sé, eða allt frá um og fyrir 870. Stígur liggur áfram til vesturs að Óbrennishólma. Þar eru a.m.k. tvær fjárborgir, önnur mjög stór, og hlaðinn garður, sem hraunið hefur runnið að og stöðvast. Þá er þar einni langur garður langleiðina upp hólmann, sem enn sést móta fyrir. Óbrennishólma verður líst annars staðar.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Fylgt er stíg til norðurs, að gömlu Krýsuvíkurkirkju. Vestan við hana er greinilegur garður. Liggur hann í boga að kirkjutóttinni og virðist hafa umlukið hana. Innan garðsins virðast vera tóttir af skála. Vestan hans liggur stígur til suðvesturs inn í hraunið, í áttina að brúnavörðum. Þessi stígur var ruddur af sonum Krýsuvíkur-Gvendar, og er mjög fallegur á köflum. Hann nær þó ekki alla leiðina yfir hraunbrúnina, heldur endar skammt norðaustan við hæð þá, sem vörðurnar eru á. Þá er reyndar skammt eftir ofan af hraunbrúninni yfir á sléttan stíg er liggur upp með hraunkantinum að Óbrennishólma og áfram að og fyrir Lat.

Húshólmi

Húshólmi – stígur að Brúnavörðum.

Genginn var kirkjustígurinn aftan við kirkjuna inn í hólmann. Þá var komið í Kirkjulágina, sem mun vera forn grafreitur, sem á eftir að kanna nánar, eins og reyndar svo til allar tóttirnar í Húshólma. Sunnan Kirkjuláginnar liggur enn einn garðurinn undan hraunkantinum að vestanverðum og upp að garðinum, sem lýst var áðan. Sá garður liggur áfram niður hólmann og hverfur undir hraunkantinn syðst í honum.
Syðst í hólmanum er tótt. Hún er hluti sjóbúðar, sem síðast var notuð 1913. Rekagatan, Hólmastígur, liggur niður að sjónum neðan hennar.
Annar stígur liggur suðaustan í Húshólma, svo til alveg niður við ströndina. Hann var genginn til baka. Þá var gengið ofan við Seltanga og komið við á grónu svæði ofan þeirra. Þar sést móta fyrir garði eða görðum undan hrauninu.
Húshólmi

Í Húshólma.https://ferlir.is/husholmi-7/

Grindavík

Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um þróun byggðar í Grindavík í sögulegu samhengi:

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

“Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn. Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909. Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: “Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.” Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Húshólmi

tlunin var að berja þetta fágæta og jafnframt dýrmæta svæði auga og skoða hinar merkilegum minjar á því. Nú er ljóst að vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar mun ekki liggja yfir Hólmann, eins og ein möguleg tillagan af þremur kvað á um. Átti það m.a. að liggja yfir fjárborgina, sem síðar verður nefnd. Vegir eru mikilvægir nútíðinni, en hinar áþreifanlegu minjar eru verðmæti framtíðarinnar

Húshólmi

Gerði við hraunkant Ögmundarhrauns.

Með í för var m.a. áhugasamur bæjarstjóri Grindvíkinga, Ólafur Örn Ólafsson, auk fleiri fjölfróðra samsveitunga hans. Farið var niður með austurjarði Ögmundarhrauns og litið á gróið skeifulaga gerði utan í hrauninu. Gæti verið aðhald fyrir fé er varslað var í Hólmanumum tíma, sbr. stelstöðuminjarnar, sem þar eru, og verið í tengslum við fjárborgina á Borgarholti. Hún gæti einnig hafa verið notuð fyrir hesta við rekaflutninga úr Hólmanum, sbr. tóftina við rekagötuna niðru að Hólamsundi.
Ofar og inn í hrauninu er varða. Við hana eru Mælifellsgrenin svonefndu sem og hlaðið byrgi refaskyttu.

Húshólmi

Húshólmastígur.

Haldið var yfir í Hólmann vestur eftir Húshólmastígnum. Um er að ræða góðan stíg, u.þ.b. 1.2 km, í gegnum hraunhaftið. Nokkrar sagnir eru til um tilurð hans. Sumir hafa jafnvel ruglast á honum og svonefndum Ögmundarstíg í gegnum Ögmundarhraun á móts við og Mælifellið. Þar, við austurjarðar hraunsins, er Ögmundardys og tengist sögunni af Ögmundi og vegagerð hans fyrir bóndann í Krýsuvík (aðrar sögur segja í Njarðvíkum). Aðrar sagnir kveða á um að stígurinn sé svo áberandi vegna þess að kirkjan í Hólmanum hafi verið nýtt eftir að hraunið kólnaði. Hraunþyrmingin hafi skapað verulega átrúnað á hana. Enn aðrir, þ.e. þeir raunsærri, segja að hún sé svo gróin og aðgengileg vegna selstöðunnar, sem Hólminn var nýttur til um aldir.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Þegar komið var niður í Hólmann er þar fyrir hlaðinn vörslugarður. Nokkru innan hans er hleðslur í norðurhluta Hólmans þar sem fé hefur haldið til haga; tvískiptur stekkur, gróið gerði og forn fjárborg, auk tveggja grenja. Við annað þeirra er hlaðið byrgi refaskyttu.
Þá var gengið að efsta garðinum, sem nær yfir Hólmann frá vestri til austurs. Reyndar er garðurinn rofinn á miðkaflanum, en hann hefur að mestur verið úr torfi. Haldið var að neðri garðinum, sem liggur í boga úr suðri til norðurs og beygir síðan til vesturs inn undir hraunið. Sjá má í enda hans undir hrauninu þar sem það hefur brennt torfið á kafla. Í pælunni af garðinum er landnámsöskulagið.

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Haldið var inn í hraunið til vesturs af Kirkjuflöt, fornum grafreit, og að hinum fornu minjum, gamla Krýsuvíkurbænum og tóttunum þar í kring, görðum og hinum forna skála. Útlínur skálans eru sveigðir líkt og gerðist með fornaldaskála. Um er að ræða heit hús með rými til endans. Þá tekur við tóft og hleðslur við enda hans. Ofar eru sérkennilegir hraunkatlar er benda til hringlaga húsa er hraunið hefur runnið að og brennt. Norðvestan þeirra er bátslaga tóft, sem hraunið hefur brennt. Í miðju þess er röð af stoðarholum.
Komið var við í hinni fornu Krýsvíkurkirkju eða hofi, en minjarnar eru a.m.k. taldar frá því fyrir rennsli Ögmundarhrauns, sem talið er hafa runnið árið 1151 (skömmu áður en Kapelluhraunið rann). Jafnvel er talið að minjarnar kunni að vera jafngamalt eða eldri en norrænt landnám hér á landi. Hér er um nær órannsakað svæði að ræða frá hendi fornleifafræðinnar.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

Þátttakendum var bent var á hinn flóraða Brúnavörðustíg, sem liggur til suðvestur í átt að Brúnavörðum, yfir hraunhaftið og inn á götu er liggur með brún þess upp í og með Óbrennishólma. Talið er að sonur Krýsuvíkur-Gvendar, og menn með honum, hafi rutt og flórað stíginn á kafla.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Gengið var frá kirkjutóftinni út á Kirkjulágina, skoðaður hlaðinn þvergarður sem og jarðlægt hringlaga gerði vestast í henni. Loks var litið á sjóbúðartóftina syðst í Hólmanum (gæti líka hafa verið afdrep fyrir þá er drógu að sér reka) og á rekagötuna niður að Hólmasundi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – útsýni af sjávargötunni.

Loks var sjávargatan gengin út úr hólmanum til austurs. Við hana eru einnig fornar minjar í gróðurvin inn í hrauninu. Neðar eru Þyrsklingasteinar og sjá má í hluta gamla bjargsins þar sem nýja hraunið hefur runnið fram af og allt um kring. Frá þessumstað er mjög fagurt útsýni austur eftir Krýsuvíkurbjargi.
Gangan tók u.þ.b. 3 klst.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Brúnavörður

Selatangar eru forn verstöð, sennilegast notuð þegar á miðöldum. Hraunið, Ögmundarhraun, er frá því um 1150, en það ár lagði það gamla Krýsuvíkurbæinn í Húshólma, sem er litlu austar, í eyði og færði garða og mannnvirki í og við Óbrennishólma í kaf. Þó má sjá þar móta fyrir hlöðnum vegg, sem hraunið hefur stöðvast við, fjárskýli, jarðlægu garðlagi og fjárborg (virki?).

Á Selatöngum

Verkhús á Selatöngum.

Frá Selatöngum var róið frá Krýsuvík, Skálholti og Ísólfsskála. Talið að a.m.k. 80 manns hafi hafst þar við í verum. Síðast var verið á Selatöngum um 1880, en róið var þaðan frá Skála og selveiðar voru stundaðar allnokkur ár eftir það. Þá var oft lent þar síðar ef lending var ófær annars staðar meðan róið var á opnum skipum, s.s. frá Þórkötlustöðum, Hrauni og víða. Við Dágon neðst á Töngunum eru landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Um minjarnar og minjasögu Selatanga er m.a. fjallað í nýútkomnu riti Ferðamálafélags Grindavíkur “Merkar minjar í umdæmi Grindavíkur- Seltangar. Auk þess hefur Ferðamálafélagið gefið út ritið “Merkar minjar í umdæmi Grindavíkur – Húshólmi“,

Selatangar

Selatangar – refagildra.

Á og við Selatanga sjást miklar rústir seinni tíma verbúða hlöðnum úr hraungrýti svo og rústir af fiskbyrgjum þar sem hertur fiskur var geymdur. Sjórinn hefur afmáð elstu minjarnar. Á görðunum, sem víða sjást, var einnig hertur fiskur þegar veður gaf. Sums staðar er hlaðið fyrir hraunhella og þeir notaðir sem byrgi. Vestan við Seltanga er sagður hellir sem notaður var til smíða í landlegum. Einnig má sjá hlaðnar refagildrur frá síðustu öld.

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

Á Selatöngum var afturgangan Tanga-Tómas, sjórekinn spánskur sjómaður, svo hatröm að ekki þýddi að skjóta á hana silfurhnöppum sem yfirleitt dugðu helzt á drauga, en frekast dugðu lambaspörð. Auk Tanga-Tómasar eru margir aðrir draugar á ferli á Seltöngum og í nágrenni þeirra, einkum þegar skyggja tekur. Síðast þegar FERLIRsfélagar voru á ferð á Selatöngum birtist þeim einmitt Tanga-Tómas með eftirminnilegum hætti, auk þess sem hann kom einum félaganum að óvörum þegar verið var að skoða refagildrurnar í annarri ferð þangað. Fræg er og sagan af Arnarfellsbónda og átökum hans við drauginn seint á 19. öld.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Á Miðrekum eru líka sagnir um anda, reyndar annarskonar, og greinir mönnum á um eðli hans. Sumir segja að þar hafi þeir rekist á vín-anda, en aðrir heilagan anda. Hvort vínandinn hafi orðið að heilögum anda, eða öfugt, á leiðinni er erfitt að segja til um. Austan Miðreka eru Brúnavörður. Frá þeim liggur stígur yfir hraunið inn í Húshólma.

Selatangar

Sögunarkór í Katlahrauni

Í Húshólma eru fornar minjar búsetu. Landnámsöskulagið frá um 872 er þar í garðpælu, en í hólmanum og í hrauninu vestan hans má m.a. sjá rústir, garða og hleðslur. Sumir vilja halda því fram að þarna hafi búið fólk löngu á undan komu norrænna manna til landsins.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Minjarnar í og við Húshólma hafa ekki verið rannsakað að ráði, en ljóst er að Ögmundarhraunið rann yfir landið um 1150, kaffærði byggðina, færði ströndina utar og lokaði víkum og lónum við ströndina, þ.á.m. gömlu Krýsuvík, en “krys” nefndist áður fyrr vík eða skora. Lágbarið fyrrum grágrýtið ofan við Hólmasundið bendir til þess ströndin hafi þarna fyrrum legið vel við sjó.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Í Húshólma er m.a. forn langur bogadreginn garður, skáli, kirkja, kirkjugarður, hústótt, fjárborg, selstaða (stekkur og hús), sjóbúð (notuð síðast 1913), hlaðin refagildra, rétt o.fl. Það hefur verið öðruvísi um að litast á þessu landssvæði við upphaf byggðar.
Gangan tók 4 klst og 6 mín. Frábært veður.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Óbrennishólmi

Gengið var inn í Ögmundarhraun frá Lat áleiðis í Óbrennishólma. Gata liggur niður með vestanverðum Lat og beygir til austurs sunnan hans. Stígnum var fylgt yfir úfið hraun, en þegar því sleppti lá gata til hægri niður í hraunið.

Sængukonuhellir

Sængukouhellir vestan Óbrennishólma.

Eftir að hafa fylgt henni spölkorn var komið að skúta með fallegri dyralaga hleðslu. Um er að ræða rúmgóðan skúta, sem lengi var notaður sem sæluhús á ferðalögum fólks að og frá Grindavík á leið þess með ströndinni. Loftop er á skútanum og hleðslur umhverfis það. Hurðarhellan er enn til hliðar við dyrnar. Skútinn hefur í heimildum verið nefndur “Sængukonuhellir”.

Óbrennishólmi

Fjárborgin, eða virkið, í Óbrennishólma.

Gengið var áfram austur stíginn að Óbrennishólma. Hann skiptist sumstaðar í tvennt, en ráð er að fylgja ávallt efri stígnum – nær hraunkantinum – því hann er greiðfærari. Annars er stígurinn auðgenginn. Þar sem stígurinn liggur alveg við hraunkantinn má sjá, ef vel er gáð, stíg liggja inn á kantinn. Best er að fylgja honum og er þá komið á gróið svæði eftir að hafa farið yfir stutt hraunhaft. Í stað þess að fylgja hraunkantinum þarna til austurs var gengið upp á tiltölulega slétt mosahraun í norðaustur. Framundan sést úfnara hraun, en upp með því að vestanverðu liggur góð gata upp úr hólmanum til norðurs, í átt að Latsfjalli. Þessari götu var fylgt spölkorn upp fyrir úfna hraunið, en þar kemur stígur inn á götuna úr suðaustri. Gatan heldur áfram upp hraunið, en ákveðið var að fylgja stígnum áleiðis niður í hólmann. Stígurinn er breiður á kafla og greinilega mikið farinn. Hann kemur ofan í hólmann vestan og ofan við hæsta hólinn þar sem stóra fjárborgin (virkið) trjónir upp á. Í stað þess að fara þarna inn í hólmann var gengið til austurs ofan við gróna svæðið í hólmanum.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Komið var að görðunum utan í hraunkantinum úr vestri, en þeir eru í grónum rana norðaustan í hólmanum. Hraunið, sem rann um 1151, hefur runnið þarna að hlöðnum görðum og sjást þeir vel í kantinum. Þessir garðar, að vestanverðu í lænunni, hafa legið í boga upp hæð, en auk þeirra má sjá annan garð liggja niður með lænunni að austanverðu. Hraunkantinum var fylgt áfram til austurs og var þá gengið yfir hraunhaft og inn í gróið svæði ofan þess. Þar sem gengið var inn á svæði sást móta fyrir garði. Á austanverðu svæðinu eru leifar fjárborgar eða topphlaðins húss. FERLIRsfélagar hafa komið þarna tvisvar áður, en ekki fyrr rekið augun í borg þessa.
Veður var frábært – sól og blíða. Gangan tók 1 ½ klst.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir.

Húshólmi

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 1972 er umfjöllun með yfirskriftinni “Hvert munduð þér helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi?” þar sem nokkrir valdir einstaklingar eru spurðir svara:

“Enga íþrótt — ef íþrótt skyldi kalla — er eins auðvelt að iðka og gönguferðir — og þær eru sannarlega ekki síður skemmtilegar að vetri en sumri. Til þeirra þarf engan útbúnað annan en hlý föt og góða skó en hollustan af þeim er ómæld. Læknar hafa um árabil hvatt menn til gönguferða, ekki einungis vegna þess, að þær eru hollar líkamanum í heild, heldur og vinna þær gegn hjartasjúkdómum, sem eru eins og allir vita, einn tíðasti sjúkdómur meðal siðmenntaðra þjóða.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Margir hafa svo sem stundað gönguferðir án þess til þyrfti hvatningarorð lækna en enginn vafi er, að þær hafa orðið almennari á síðari árum eftir að fólk fór almennt að gera sér ljóst hvílíkir vágestir kransæðastífla og aðrir hjartakvillar er. Þannig hafa fjölmargir kynnzt umhverfi sínu á nýjan hátt, séð staði, sem voru þeim áður ókunnir og einnig séð gamalkunna staði nýjum augum.
Til gamans höfðum, við samband við nokkra menn og konur á höfuðborgarsvæðinu og báðum þau að segja okkur í fáum orðum, hvert þau mundu helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi, þegar þau ættu frí frá amstri og erfiði hversdagsins.

Hlíðar Heiðmerkur (Jónas Haralz, bankastjóri)
Jónas HaraldzVið sem búum í Reykjavík og nágrenni höfum þá einstöku aðstöðu að finna fagurt, tilkomumikið og marg breytilegt landslag eftir 10—15 mínútna akstursleið — og jafnvel- enn nœr bústöðum okkar. Þarna getum við verið algerlega út af fyrir okkur — er víða sem sjaldnast sést nokkur maður á vetrardegi. Við hjónin notum okkur þetta oft og eftirlætisstaður okkar er með hlíðunum í Heiðmerkurlandinu.

Á Helgafell eða fjörur (Halldóra Thoroddsen, skrifstofustjóri)
Það er vandi að velja á milli, því að margir skemmtilegir staðir eru í nágrenni Reykjavíkur og óþarfi að aka langt burt úr bænum til að finna fallegar gönguleiðir. Til dæmis er einkar gaman að ganga fyrir sunnan Heiðmörkina og Hafnarfjörð og minnist ég þá sérstaklega skemmtilegrar leiðar, sem Eysteinn Jónsson lýsti fyrir nokkrum áratugum, það er göngu ferð á Helgafell. Ég gekk einu sinni eftir hans fyrirsögn og er viss um að sú leið svíkur engan.
Halldóra Thoroddsen
Skemmtilegast finnst mér þó að ganga með sjó fram og þá er ekki langt að aka suður í Krýsuvík eða Grindavík — nú — svo standa fjörurnar á Stokkseyri og Eyrarbakka alltaf fyrir sínu. Þessum gönguferðum fylgir sá kostur, að maður þarf ekki að kjaga upp eða niður brekkur. Helzt mundi ég þó kjósa á góðviðrissunnudegi að setjastá hestbak og ríða inn með Esjunni og upp að Tröllafossi — það er mátuleg sunnudagsferð fyrir mann og hest.

Kaldársel (Gísli Sigurðsson, varðstjóri)
Ég hef haft þann sið frá þvi fyrir 1930 að ganga um nágrennið og upp úr 1950 fór ég að safna örnefnum hér í kring og hef verið að ganga á þessa staði. Það er því um margt að velja. Úr Reykjavík er til dæmis gott að ganga upp að Elliðavatni og Vatnsendavatni og þar um kring, m.a. i Heiðmörkinni. Svo ég tali nú ekki um að bregða sér í fjöllin í Mosfellssveitinni, þar er indælt að vera og horfa yfir sundin, eyjarnar og nesin.
Gísli SigurðssonÚr Garðahreppi er einfaldast að fara beint inn hjá Vífilsstöðum, inn á hálsana, inn með Vífilsstaðahlíð, inn í Grunnuvötn og inn á Hjalla.
Úr Kópavogi er sjálfsagt að ganga inn úr byggðinni, upp og umhverfis Vatnsenda hæð, inn í Selás, inn fyrir Geitháls, — ég tala nú ekki um að fara inn á Sandskeiðið og þar í kring.
Við Hafnfirðingar eigum ekki langt að fara, getum gengið umhverfis bæinn, um Urðarfosshraunið, Setbergshlíðina inn að Kaldárseli og kringum Helgafell, suður um Ásfjall og þar um kring. Þetta eru svona tveggja til þriggja tíma leiðir, sem er gott að ganga eftir hádegi. Þarna er víða ónumið land, sem er indælt til hvíldar og gönguferða. Mér finnst ekkert taka þeim fram.

Gamla Krýsuvík (Björn Steffensen, endurskoðandi)
Björn SteffesenFerðinni er heitið í Húshólma til þess að skoða tóftir „Gömlu Krýsuvíkur”: Ekið er sem leið liggur suður Reykjanesbraut þar til komið er suður fyrir Hvaleyrarholt að beygt er til vinstri, á Krýsuvíkurveg. Ekið um Kapelluhraun og austur jaðar Almennings, yfir Vatnsskarð að Kleifarvatni. Haldið áfram suður með vatninu; farið fram hjá hverasvæðinu við Ketilstíg og áfram fram hjá Grænavatni. Tæpum 1 kílómetra sunnar eru, til hægri handar, vegamót Grindavíkurvegar. Er ekið eftir honum gegjnum túnið í Krýsuvík og áfram, um 4 kilómetra í vestur, þá er komið að austurjaðri Ögmundarhrauns. Þá er Mælifell á hægri hönd.
Hér hefst gönguferðin og er þá fyrst farið niður með jaðri hraunsins. Auðvelt er að aka jeppa niður með hrauninu, en við förum þetta gangandi.
Þegar gengið hefur verið um 2 kílómetra niður með hraunjaðrinum verða fyrir tvö vörðubrot á hraunbrúninni. Hér liggur stígur upp á hraunið. Er þessum stíg fylgt yfir að hraunrima, sem er sem næst 1/2 kílómetri á breidd og er þá komið í Húshólma.
Húshólmi er gróin spilda, nokkrir tugir hektara að stærð, umlukt apalhrauni, nema við sjó er dálítil fjara.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Haldið er vestur yfir Húshólmann og stefnt dálítið ská hallt í átt til sjávar. Þegar komið er að hraunbrúninni vestan við gróðurspilduna er stefna tekin suður með hrauninu unz fyrir verður gróið túngarðsbrot, sem liggur skáhallt út undan hrauninu. Er þetta brot af túngarði „Gömlu Krýsuvíkur”. Sunnan við túngarðsbrotið er gengið upp á hraunið og verða þá fyrir tóftirnar af húsum „Gömlu Krýsuvíkur”.
Hér gefur á að líta tóftir af bæjarhósum, sem hraun (Ögmundarhraun) hefur runnið allt í kringum og að nokkru yfir. Ég held að hvergi á Íslandi sé hægt að sjá þessu líkt, nema ef vera kynni í Reykjahlíð við Mývatn. Talið er að Ögmundarhraun hafi runnið um miðja 14. öld.
Munnmæli herma að hér hafi Krýsuvík upphaflega verið. Þetta mun að vísu aðeins vera tilgáta til að skýra nafn bœjarins, sem eftir hraunflóðið á að hafa verið fluttur á þann stað, þar sem hann nú er, um 4 kílómetra frá sjó og engin vík í landi jarðarinnar. Krýsuvík er nú í eyði, bæjarhús fallin, en lítil timburkirkja stendur.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Orð fer af því hve nágrenni Reykjavíkur sé hrjóstrugt. Þar á móti kemur að kannski er hvergi á Íslandi jafn fjölbreytt náttúra. Auk þess eru hér á næstu grösum margvíslegar minjar frá liðnum öldum, sem gaman er að kynnast, svo sem seljatóftirnar í hrauntungunni milli Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar, sunnan Kapelluhrauns (Almenningur), festarjárnin digru á Básendum, sjóbúðatóftirnar og fiskbyrgin á Selatöngum, og fallegar fjárborgir á víð og dreif, svo að nokkuð sé nefnt. Er ómaksins vert fyrir þá, sem eiga ráð á bíl og eru rólfærir, að gefa þessu gaum.

Hlíðar Esjunnar (Áki Jakobsson, lögfræðingur)
Áki JakobssonÍ haust sem leið var tíðin rysjótt og fá tækifæri gáfust til þess að fara í gönguferð í þurru veðri.
Sunnudag einn hringdi til mín kunningi minn og spurði hvort ég væri ekki til í að koma í göngutúr. Ég játaði því með þökkum og fór í gönguskó og svo lögðum við af stað. Við ókum upp að Stardal og lögðum bílnum þar en lögðum land undir fót. Gengum við svo til vesturs frá Stardal meðfram undirhlíðum Esjunnar. Síðan sveigðum við til norðurs og stefndum að Móskarðshnúkum. Leiðin lá yfir allvíðlend an mýrarslakka, sem grafinn hefur verið í sundur með skurðum, sem virðist vera orðin árátta, þó að ekki eigi að fullrækta. Á leiðinni yfir mýrina, sem var mjög blaut eftir rigningarnar í sumar, og því ekki beint þægileg til göngu, rákumst við á mink, sem faldi sig i skurði. Þegar hann varð var mannaferða tók hann til fótanna og hafði sýnilega engan áhuga á að kynnast okkur frekar. Við veittum honum nokkra athygli og virtist augljóst, að þarna væri um hlaupagikk að ræða, nýsloppinn út, enda er þarna skammt frá eitt af hinum nýju minkabúum, sem stofnuð voru eftir að minkabannið var afnumið illu heilli. Við vorum ekki í neinum minkaveiðihugleiðingum og kvöddum hann því og héldum leið okkar. Stefndum við nú á vestasta Móskarðshnúkinn. Veður var bjart þessa stundina, þó ekki sól, en líparitið í hnúkunum gerði þetta að sólskinslandslagi og fjallasýnin var heillandi.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Stefndum við nú upp til fjallanna og ekki leið á löngu þar til við komum upp á veginn úr Kjósinni, sem liggur um Svínaskarð. Fylgdum við nú veginum til vesturs, þar til hann sveigir til suðurs við vestasta hnúkinn. Þá fórum við af veginum og stefndum upp á leið, upp á mjög einkennilega klettaborg, sem stendur upp úr skriðunum neðanvert í fjallinu. Nú gerði á okkur skyndilega rigningu og er ekki að orðlengja það, að við urðum holdvotir á nokkrum mínútum. Við létum þetta þó ekki aftra okkur og héldum áfram. Eg er nú ekki orðinn mikill fjallgöngumaður, en upp á klettaborgina komst ég þó. Þá bregður svo við, að það er eins og risahönd sópi burt rigningarskýjunum og við fáum sólskin. Við fengum alveg stórkostlega útsýn, einkum til Esjunnar, en þar blasir við auganu hæsti tindur hennar. Þessi fjallasýn var svo heillandi, að mér fannst við í henni einni fá ríkuleg laun fyrir erfiði okkar. Því hefur ekki einhver af málurum okkar sett þetta stórkostlega „motiv” á léreft, varð mér á að hugsa. Það get ur nú verið að það hafi verið gert, þó að ég hafi ekki séð þá mynd.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Sólskinið stóð ekki lengi. Þung rigningarský lögðust að á ný og aftur var komin hellirigning. Eftir þessa útsýn á hamraborgunum, gerði þetta að sól inni, fannst okkur ekki vera hægt að vænta nýrra ævintýra í þessari ferð og hröðuðum okkur nú niður og vildum komast úr rigningunni sem fyrst. Við fórum niður á veginn úr Kjósinni og fylgdum honum, en komum þá að girðingu, sem liggur meðfram veginum og beinir honum í aðra átt en við þurftum að komast.
Brugðum við nú á það ráð að fara yfir girðingu þessa, til þess að stytta okkur leið. En við höfðum ekki lengi gengið þegar við gengum fram á tvö heljarmikil naut. Við höfðum sem sagt lent í nautagirðingu. Við höfðum engan kjark til þess að fara að kljást við naut. Nautin höfðu ekki orðið vör við okkur, svo við læddumst til baka sömu leið og komum okkur út úr girðingunni. Við fórum svo krókinn af mestu þolinmæði og komum að bílnum aftur eftir röskra fjögurra tíma göngu. Við vor um að vísu holdvotir, en höfðum átt mjög skemmtilegan dag.

Yfir Sveifluháls (Bergþóra Sigurðardóttir, læknir)
Bergþóra SigurðardóttirSveifluháls eða Austurháls nefnist hæðardragið norðan Kleifarvatns og eru hæstu tindar hans tæpir 400 m á hæð. Er hann innan þess svæðis, sem Náttúruverndarnefnd Reykjavíkur og borgarráð leggja til að verði fólkvangur.
Reyndar kæmi sér vel fyrir okkur gönguglöð, að fá til fylgdar einhvern fótfúinn, sem sætti sig við að aka okkur í átt að Djúpavatni og biða okkar síðan í Krýsuvík. Gætum við þá gengið þvert yfir hálsinn, sem er þarna um 2,5 km á breidd. En ekkert er á móti því að ganga í hring og koma niður sömu megin. Við ókum Krýsuvíkurveg í átt að Kleifarvatni, en beygjum til hægri áður en við komum í Vatnsskarð, þar sem heitir Móhálsaleið. Ruðningsvegur liggur yfir hraunið með nyrðri hlíð Sveifluháls í átt að Djúpavatni. Þar er silungsveiði og snoturt veiðihús stendur við vatnið. Yfirgefum við farartækin, þar sem vegurinn sveigir að Djúpavatni.
Sveifluháls er móbergshryggur, sem hlaðizt hefur upp í sprungustefnu (SV—NA) á siðasta jökulskeiði. Hann er því lítið rofinn og landslag tilbreytingaríkt. Aðallitir landsins þarna eru rauðbrúnn litur móbergsins og grámi gamburmosans. Göngum við suður og upp á við yfir urð og grjót. Í maí sjást þarna í mosa og móabörðum bleikar breiður sem minna fákunnandi á lambagras, en þarna skartar vetrarblómið sínum fegursta skrúða. Er upp á hálsinn er komið er fallegt að sjá til norðurs yfir hraunið og Djúpavatn, en handan þess Grænadyngja og Trölladyngja. Í suðaustri sjást gufustrókar frá hverum milli Hatts og Hettu, en það eru hæstu hnúkarnir á hálsinum í suðri.

Grænavatn

Grænavatn.

Á miðjum hálsinum er tjörn, sem Arnarvatn nefnist. Við göngum vestan hennar í sendnu fjöruborðinu, en reiðvegurinn til Krýsuvíkur liggur austan megin. Móbergskambur skýlir okkur á aðra hönd, en handan hans tekur við flatlent mýrlendi og norðaustan þess gnæfir Arnarnípa 340 m á hæð. Er yfir mýrina kemur tekur við holt, en síðan fer að halla undan fæti og við sjáum suður á sjálft Atlantshafið. Lítið fell, Arnarfell, sunnan Krýsuvíkur er fallegt til að sjá. Við sjáum að Grænavatn er réttnefni, en það glitrar eins og smaragður séð frá hálsinum.
Við fikrum okkur svo niður gilið að hverasvæðinu, þar sem hitaveita Hafnarfjarðar hefur um árabil bullað út í loftið.
Þar sem Grænavatn var svona fallegt til að sjá, hyllumst við til að skoða það nánar. Er það rétt sunnan við akveginn. Grænavatn er dýpsti sprengigígur á landinu, 44 m á dýpt og á barmi þess getum við fundið hnyðlinga úr gabbró. Gestastaðavatn, vestan vegarins er einnig í gömlum sprengigíg, en aðeins 2,6 m á dýpt. Enn sunnar eru tvær smátjarnir eru Augu nefnast og myndaðar á sama máta. Liggur veg urinn milli Augnanna og ljúkum við þar göngu okkar.”

Heimild:
-Morgunblaðið-sunnudagsblað 26.11.1972, Hvert munduð þér helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi?, bls. 36-37.

Arnarfell

Arnarfell.

Eldvörp

Vefurinn “VisitReykjanes” gaf út “göngukort“; Reykjanes-HikingMap, sem leiðbeina átti áhugasömu fólki um útivist að dásemdum Reykjanesskagans. Kortið og upplýsingarnar eru sæmilegar til síns brúks:

1. Arnarsetur

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – hrauntjörn.

Fremur stutt gossprunga (2 km) með gjall- og klepragígum. Hraun frá henni (um 20 ferkm) er stórskorið og þar eru hraunhellar og ummerki um mannvistir. Eldgosið er úr seinni hluta rek- og goshrinunnar Reykjaneseldar á árabilinu 1210-1240.

2. Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Stór þyrping móbergsfjalla frá síðari hluta ísaldar. Efst er hraundyngjan Kistufell. Fjöllin eru skorin nokkrum gossprungum með nútíma gígaröðum en þó ekki yngri en landnám. Háhitasvæði er norðan í fjöllunum. Þar var numinn brennisteinn nálægt 1880.

3. Djúpavatn/Spákonuvatn/Arnarvatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Þrjú stöðvötn í móbergshryggjunum Vesturhálsi og Sveifluhálsi, að mestu með grunnvatni. Djúpavatn er við samnefnda ökuleið, að hluta eldgígur. Spákonuvatn við Sogin er sprengigígur, eins og Arnarvatn við göngustíg yfir Sveifluháls.

4. Eldborg við Höskuldarvelli

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Norðvestur af Höskuldarvöllum, sléttu graslendi við rætur Grænudyngju og Trölladyngju, rís stór gjall- og klepragígur, eldri en landnám. Gígurinn er skemmdur eftir efnisnám. Jarðhitagufur stíga upp við gíginn.

5. Eldborg við Geitahlíð

Eldborg

Eldborg undir Geitahlíð.

Forsöguleg gossprunga skerst inn móbergsstapann Geitafell með fimm gígum. Eldborg er þeirra langstærstur og brattastur, úr gjalli en einkum kleprum. Austur úr honum liggur myndarlegur hraunfarvegur, hrauntröð.

6. Eldvörp

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Um 10 km löng gígaröð í skástígum hlutum úr gos- og rekhrinunniReykjaneseldum 1210-1240, ásamt um 20 ferkm hrauni. Jarðhiti er á yfirborði við miðbik raðarinnar og ein rannsóknarborhola. Mannvistarleifar eru hér og var við Eldvörp.

7. Grænadyngja/Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Brött móbergsfjöll vestan við Sog. Ungar gossprungur umlykja þau og háhitasvæði eru þar nálæg. Apalhraun runnu frá gosstöðvum suður til sjávar við Reykjanesbraut, t.d. Afstapahraun.

8. Hafnarberg

Hafnarberg

Hafnarberg.

Há og löng sjávarbjörg, að mestu úr hraunlögum, sunnan við gömlu verstöðina Hafnir. Nokkrar tegundir sjávarfugla verpa í þverhnípinu. Merkt og vinsæl gönguleið liggur þangað frá vegi að Reykjanesi.

9. Háleyjarbunga

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Lítil og flöt hraundyngja með stórum toppgíg, 20-25 m djúpum, eftir flæðigos. Hún er 9.000 ára gömul eða eldri, og úr frumstæðri basalttegund úr möttli sem nefnist pikrít. Grænir ólivínkristallar eru áberandi.

10. Hrafnagjá

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Siggengi á togsprungu, 12 km langt og allt að 30 m hátt. Það er lengsta brotalínan af þeirri gerð á Reykjanesskaga og sést af Reykjanesbraut. Gjáin er hluti dæmigerðs sigdals skammt frá Vogum.

11. Hrólfsvík

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Lítil vík, þekkt sem fundarstaður hraunmola með hnyðlingum, þ.e. grófgerðum djúpbergsmolum úr gabbróinnskoti. Hraunið er af óvissum aldri og uppruna.

12. Hrútagjáardyngja

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Hraundyngja, 6.000-6.500 ára, ásamt 80- 100 ferkm hrauni; alls rúmir 3 rúmkílómetrar. Hún er með stórum toppgíg og skorin djúpum gjám sem kunna að vera merki um ris vegna kvikuinnskota.

13. Hvassahraunskatlar

Hvassahrauns

Hvassahraunskatlar.

Hraundrýli í hrauni úr Hrútagjárdyngju. Þau myndast jafnan við öflugt gasútstreymi nálægt eldgíg en í þessu tilviki um 10 km frá dyngjuhvirflinum.

14. Katlahraun

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Hraun sem rann í sjó fram fyrir um 2.000 árum, hlóðst upp við ströndina vegna fyrirstöðu. Stór, hringlaga hrauntjörn myndaðist en tæmdist eftir að hlutar hennar höfðu storknað. Eftir standa margvíslegar hraunmyndanir.

15. Kerlingarbás

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Leifar þriggja stórra gjóskugíga, 800 til 2.000 ára gamalla. Ofan á þeim liggja hraunlög, það efsta úr Yngri Stampagígum, úr Reykjaneseldum, eins og tvö yngstu gjóskulögin. Berggangar skera gjóskuna.

16. Lambafellsgjá

Lambafellsgjá

Í Lambafellsgjá.

Lambafell myndaðist sennilega á næst síðasta jökulskeiði. Toghreyfingar vegna plötuskriðs hafa klofið fellið. Í norðri opnast 150 m löng og 50 m djúp gjá en aðeins 3-6 m breið, með veggjum úr bólstrabergi. Gjáin er vel fær.

17. Méltunnuklif

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Lágt klettabelti með ólíkum jarðlögum, móbergi (palagónít túffi), gamalli jökulurð, millilögum, hraunlögum og einum roffleti; samtals ágætt yfirlit yfir helstu þætti í myndunarsögu Reykjanesskagans.

18. Rosmhvalanes

Rosmhvalanes

Á Rosmhvalanesi.

Stórt flatlendi með elstu jarðlögum Reykjanesskagans. Yfirborðslögin eru úr dyngjuhraunum, mjög jökulsorfnum. Myndunartíminn er talin vera tvö síðustu hlýskeið ísaldar sem gengu yfir fyrir 120.000 (Eem) til 240.000 árum (Saale).

19. Sandfellshæð

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Ein stærsta hraundyngja Reykjanesskagans. Hraunbreiðan úr henni nær vel yfir 100 ferkm. Toppgígurinn er stór en grunnur. Eldstöðin er um 14.000 ára en þá stóð sjór 30 m lægra en nú.

20. Skálafell

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.


Samsett eldstöð sem hlóðst upp fyrir 3.000 til 8.000 árum í fáeinum eldgosum. Efst er reglulegur gjall- og klepragígur. Misgegngi í grendinni mynda austurjaðar Reykjaneseldstöðvakerfisins og gos- og rekbeltisins á Suðvesturlandi.

21. Sog

Sog

Í Sogum.

Fáein vatnssorfin gil og lágir hryggir suðvestan við Trölladyngju mynda sundursoðið, myndbreytt og litríkt svæði eftir virka háhitahveri. Þar er töluvert um gufuaugu, vatnshveri og leirhveri.

22. Stampar

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Tvær samsíða gossprungur með fjölda gjall- og klepragíga á Reykjanesi, nálægt Reykjanesvirkjun. Eldri gígarnir og hraun eru 1.800 til 2.000 ára en hinir urðu til í Reykjaneseldum, langri gos- og rekhrinu 1210-1240, ásamt 4,6 ferkm hrauni.

23. Sundhnúkaröð

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Gígaröð sem reis á gossprungu fyrir um 2.300 árum. Hraun frá henni rann til sjávar, m.a. þar sem nú er Grindavík. Þar voru ágætar bátalendingar í lóni sem smám saman þróaðist til góðrar hafnar og þéttbýlisins.

24. Sveifluháls

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Einn af lengstu og stærstu móberghryggjum jarðvangsins. Hann geymir góðan þverskurð af ásýndum móbergsmyndunar; lagskipt móberg (túff), þursaberg (breksju) og bólstraberg. Allt ber þetta vitni um átök kviku, jökulíss og vatns.

25. Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígurinn.

Stór og flöt hraundyngja, vel sjáanleg af Reykjanesbraut. Hún liggur langan veg yfir helluhraun hennar. Það er yfir 130 ferkm að flatarmáli og rúmmál gosmyndunarinnar a.m.k. 5,2 rúmkm. Dyngjan er talin um 14.000 ára gömul.

26. Ögmundarhraun

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – dys Ögmundar.

Stór hraunbreiða frá 1151. Hún er syðsti hluti nokkru yngri hrauna úr rek- og goshrinunni Krýsuvíkureldum (1151-1180). Gossprungan nær sundurslitin um 25 km til norðausturs. Ögmundur var sagður berserkur sem lagði veg um hraunið.

27. Brimketill

Brimketill

Brimketill – Oddnýjarlaug.

Lítil náttúrulaug í rofdæld með sjó, án jarðhitavirkni, við ströndina vestan við Grindavík. Þarna á skessan Oddný að hafa setið á góðum stundum.

28. Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa.

Táknræn göngubrú liggur yfir togsprungu sem rekja má til gliðnunar jarðskorpu vegna plötu-(fleka-)reks um Mið-Atlantshafshrygginn. Meðalrekhraðinn er um 2 cm/ár en hreyfingarnar verða í hrinum með mislöngu bili.

29. Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey reis úr sjó í gjóskugosi og er gerð úr lagskiptu móbergi, 77 m há, um 15 km frá landi úti á Reykjaneshrygg sem er hluti Mið-Atlanshafshryggjarins. Aldur hennar er óþekktur. Um 18.000 súlupör halda sig á 0,3 ferkm flötu landi.

30. Gunnuhver

Gunnuhver

Gunnuhver.

Þyrping ólgandi leir- og gufuhvera á Reykjanesi. Þeir breytast með tíma. Þyrpingin varð til að nokkru eftir jarðskjálftahrinu 1967. Heitið vitnar um sögu af illræmdum draug, Gunnu, sem sökkt var með blekkingum ofan í hver.

31. Festarfjall/Hraunsvík

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Móbergsfjall eftir eldgos undir jökli, sennilega á síðasta jökulskeiði ísaldar. Sjávararof hefur afhjúpar háan þverskurð af móbergi, brotabergi og bóstrabergi ásamt aðfærslugangi kviku. Hann er sagður vera silfurfesti tröllskessu.

32. Hópsnes

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Lítið nes við Grindavíkurbæ, myndað við hraunrennsli frá gígaröð kenndri við Sundhnúk. Hraunið á hlut í góðum hafnarskilyrðum við bæinn.

33. Húshólmi

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Óbrinnishólmi (kipuka), land sem Ögundarhraun náði ekki af kaffæra árið 1151. Þar getur að líta rústir býlis og kirkju, auk hlaðinna veggja. Hluti húsanna og mest allt ræktarland hvarf í hraunið.

34. Keilir/Keilisbörn

Keilir

Keilir.

Keilulaga móbergsfjall tengt við lágan hrygg, Keilisbörn. Gosmyndunin kom undan ísaldarjökli á sínum tíma. Keilir er einkennisfjall Reykjanesskagans, vegna lögunar, og það er gamalt mið af sjó.

35. Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Stærsta stöðuvatn Reykjanesskagans, 9,1 ferkm og 97 m djúpt. Það fyllir í dæld milli Brennisteinsfjalla og móbergshryggjarins Sveifluhálss. Smálækir renna í það en aðeins grunnvatn úr því. Sagt er að þar búi svartur
risaormur.

36. Mannvistarleifar við Eldvörp

Eldvörp

Eldvörp – byrgi.

Ýmsar mannvistarleifar er af finna í Eldvarpahrauni; þrjá þjóðstíga milli byggða og þyrpingu kofa úr hraungrýti. Óvíst er um tilgang þeirra en varla unnt að samþykkja sögusagnir um útilegumenn.

37. Ósar

Ósar

Ósar.

Vogur með mörgum skerjum og hólmum við Hafnir. Í þorpinu er uppgrafnar rústir af norrænni eða keltnskri útstöð. Ósar eru verndarsvæði vegna fuglalífs og áhugaverðs sjávarvistkerfis.

38. Pattersonflugvöllur

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Undir gömlum flugvelli er að finna þjappað sjávarset með lítið steingerðum skeljum. Algengasta tegundin er sandmiga (smyslingur), 20.000 –
22.000 ára gamlar leifar vistkerfis frá því skömmu fyrir hámark síðasta jökulskeiðs.

39. Selatangar

Selatangar

Selatangar – sjóbúðir.

Lágir hrauntangar með rústum af verbúðum, að mestu úr hraungrýti. Auk þeirra eru þar fiskibyrgi, bæði til að þurrka fisk og geyma. Verstöðin var notuð frá því á miðöldum allt til 1884.

40. Snorrastaðatjarnir/Háibjalli

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Háibjalli er 10 m hátt siggengi næst Snorrastaðatjörnum. Þarna er gróskumikið og vinsælt útvistarsvæði, og farfuglar hvílast þar á leið sinni.

41. Sogasel

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Rústir af seli (sumarkofa þar sem fólk hafi auga með sauðfé á beit); skammt frá Grænudyngju og Sogum. Selið er sérstætt vegna þess að það var byggt inni í stórum gjallgíg.

42. Svartsengi

Svartsengi

Háhitasvæðið í Svartsengi.

Eitt af helstu háhitasvæðum á Reykjanesskaga. Þar er framleitt rafafl á landsnetið og heitt vatn til byggða á skaganum. Afrennsli frá virkjuninni er notað í Bláa lónið en auðlindagarðurinn er fyrirtaks dæmi um heildræna nýtingu jarðvarma.

43. Valahnúkar/Valabjargargjá/Valahnúksmöl

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Hér mætast þurrlendið og Mið-Atlantshafshryggurinn. Valahnúkur er rofið móbergsfell með bólstrabergi og þursabergi. Valabjargargjá er stórt siggengi og Valahnúksmöl, úr hnullungum, girðir fyrir lítinn sigdal austan við Valahnúk.

44. Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Stakt móbergsfjall norður af Grindavík. Misgengi þvera það og mynda grunnan sigdal. Hluti hans kallast Þjófagjá eftir 15 misyndismönnum sem þar eiga að hafa dvalist.

45. Básendar

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Gríðarmikil fárvirðri, við háflóð, olli versta sjávarflóði í manna minnum á Suðvesturlandi árið 1799. Heitið, Básendaflóð, er komið af lítilli verslunar- og verstöð. Þar breyttist ströndin til mikilla muna og byggðin eyddist að
mestu.

46. Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Stór steinn við þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Í honum eru þrjár holur. Sagnir herma að ein sé fyrir hunda, önnur fyrir menn og sú þriðja handa hestum. Ferðalangar áttu að geta treyst á að komast þarna í drykkjarvatn.

47. Garðskagaviti

Garðskagaviti

Garðskagaviti.

Eldri vitinn er reistur 1897 en hinn var byggður 1944. Áður hafði stóra varða verið hlaðin á skagatánni og 1884 var sett í hana ljósker. Svæðið er mikilvægt fyrir farfugla.

48. Gálgaklettar

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Efst á Þorbjarnarfelli við Grindavík eru háir móbergsklettar með þessu heiti. Þjóðsaga hermir að þar hafi staðbundnir þjófar verið teknir af lífi.

49. Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Vel viðhaldin kirkja og kirkjugarður frá árinu 1887. Kirkjan er byggð úr tilhögnu grágrýtishrauni (basalti) sem fengið var í nágrenninu. Hluti innviða
eru úr rekatimbri. Systurkirjkuna er að finna í Njarðvík.

50. Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Vitinn er elsti viti í fullri notkun á landinu, frá 1908. Lengst af var þar vitavörður og bóndi að störfum og má sjá ummerki eftir búskap víða í nágrenninu. Nú er vitanum að mestu fjarstýrt.

51. Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Leifar af mjög löngum og háum garði síðan á fyrri hluta Þjóðveldisaldar (870-1000). Hann var byggður úr tofi og grjóti til að aðskilja húsdýr, tún og akra. Garðurinn er mjög siginn og hefur víða horfið með öllu.

52. Staðarborg

Staðarborg

Staðarborg.

Hringlaga fjárgeymsla en án þaks. Hún er rúmlega 2 m há, 8 m í þvermál og 35 m að ummáli og vandlega hlaðin úr flötu hraungrýti. Aldurinn er óþekktur en talinn í nokkrum öldum.

53. Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Víðir, flatir grasvellir við rætur móbergshryggja. Þar sjást rústir tveggja smábýla sem minna á forna búskaparhætti á hálendi. Yngri bærinn var yfirgefinn eftir harða jarðskjálfta 1905.

54. Vogur í Höfnum

Hafnir

Skálinn í Höfnum.

Rústir elstu byggðar á Reykjanesskaga. Aldursgreind til 9. aldar. Þarna eru hefðbundinn skáli og smáhýsi. Ef til vill er um að ræða útstöð landkönnuða, svipaða byggingum norrænna manna á Nýfundnalandi.

55. Þórshöfn

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Einn helsti 15. og 16. aldar verslunarstaður Þjóðverja á Íslandi. Á 18. öld tóku skip að nýta höfnina að nýju, en smám saman varð þar fáfarnara eftir því sem höfnin í Sandgerði batnaði.

Heimild:
-https://www.visitreykjanes.is/static/files/pdf/Reykjanes_HikingMap.pdf

Göngukort

Göngukortið.

Jockum Magnús Eggertsson

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 er frásögn Jockum Magnúsar Eggertssonar;  “Einn áfangi á Reykjanesi“. Fjallar hún um ferðir hans um Reykjanesskagann árið 1945.

Jockum Magnús Eggertsson“Við höfðum slegið tjöldum austan Festarfjalls undir hlíðarrana. Fellin fallast þar í arma og geiga í hafsuðrið móti útsænum. Hann er þar einvaldur en gjögrin ögra honum. Þar með slævist hann og slöðrast í skútum og bergvilpum og andar djúpt millum þess er hann flæmist og flaðrar um dranga og kletta sem haldið er rígföstum í krepptum hnefum af stálörmum fjallsins.
Hlíðarraninn er gróinn kjarngresi millum grjót rasta og ofanhraps og þar er græn grundin undir. Forbrekkið lykur hálfhring í klettaskjóli af vestri og norðri. Til austurs er úfið hraun, liggjandi í landáttinni, en til suðurs særinn, óendanlegur. Blómsprungin gróðurlænan, ilmandi og marglit, teygist fast í sjávarkampinn, uppausinn og umturnaðan, með slitringi af sjóreknum sprekum og hrakviði ásamt vargétnum ræfrildum og rusli, skeljabrotum og skrani.
Ásýnd Ægis konungs er aldrei smávægileg. Andgufa hans þryngir loftið. Ærið er borðhald hans þjösnalegt, oft og tíðum, og refjar henta honum eigi er hann ryðst um að mat sínum. Skap hans er ætíð mikið og persóna hans fyllir rúmið, hvort heldur hann vakir, dormar eða dreymir. Víst kann hann að kasta mæði og ganga að borði kurteislega. Heitir það hófstilling. En er hann kveður sér hljóðs við bergþil strandarinnar, þá rymur hann og klappar klettinn. Þar ríkir annar höfðingi fastur í sessi, þolmikill og þybbinn og enginn veifiskati.
Kveðjur þeirra stórvelda eru mikilúðugar og oftast kaldar, en þó fjandskaparlausar, og vekja af dvala vætti og höfuðskepnur. Gætir þar geigvænnar alvöru og hráslagalegrar kampakæti: er kyssast klettur og sjór. Konungur hafs og lands!

Ísólfsskáli
Ísólfsskáli
Bær er þarna einn og úrhreppis. Heitir að Ísólfsskála. Telst til Grindavíkursókna. Bærinn situr í fjallskverkinni undir Slögubarðinu, í beygjugjögur olnbogans, á lágsléttu fyrir ögurbotninum, kvíaður milli fjallsins og hraunstorkunnar.
Hraunflóð mikið hefir ollið yfir allt undirlendið og í sjó fram millum Festarfjalls og Krýsuvíkurbergs. Það heitir Ögmundarhraun og er eyðimörk. Aðeins mjó ræma óbrunnin milli hraunjaðra og fjallsróta. Bærinn Ísólfsskáli húkir þarna undir Festarfjallinu út við hafið. Hann er nú ofar en áður fyrr og aukið við túni, sem teygir sig upp á hjallann yfir bænum. Það hefur kostað ærna aðvinnslu í bogri og eigri einyrkjans. Grjóthrúgur miklar auglýsa erfiðið. Lausa grjót liggur hér víða í hálsum og hlíðum á opnum svæðum, þar sem eigi hafa hraun ollið ofaraurum og myldingi, en gróðurmold góð og víða alldjúpt undir. Er það svo upp til hæstu hnjúka. Ennþá eimir þarna eftir af þykkum, kringumblásnum jarðvegstoddum og tyrfum, til og frá í fellum og fjöllum. Forni jarðarfeldurinn er enn ekki að öllu og fullu eyddur og burtblásinn. Bendir þar til mikils gróðurs og skjólsælla skóga áður á öldum. Þarna í eyðimörkinni búa væn hjón og vinnusæl. Góðfús eru þau og gestrisin. Þau eru við aldur. Börn þeirra uppkomin; flest flogin úr hreiðrinu. Barnabörn aftur komin innundir. Ísólfur heitir einn yngstur sonurinn hjónanna. Hann var heima. Álitlegur sveinn og vel líklegur ríkisarfi. Heitir í höfuðið á bólinu.

Hjónin í eyðimörkinni

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn. Sumarbústaður byggður á tóftunum.

Rústir gamla bæjarins eru rétt á sjávarbakkanum. Sá bær var áður ofarlega í túni. Svona sækir sjórinn á landið.
Hrammur hafsins og höggtennur hafa hér brutt og nagað ströndina, hámað í sig mold og mýkindi, grafið og gramsað í landinu, hóstað og hrækt út úr sér brimsorfnum buðlungum og hrúgað öllu saman í hryggi, er verpa ströndina.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús.

Sá mikildjarfi dögglingur þokast nú þéttskrefa á landið upp í átt til fornu bæjarrústanna. Hann iðjar ekki allsvana. Hann ekur á undan sér hrynhárri upplausnarkempunni, íklæddri byngborinni kyngi. Nú gín hann yfir eina vatnsbóli eyðimerkurinnar, gamla brunninum, og er nú kominn á fremsta hlunn og þegar hafinn handa að hrækja í hann hroðanum.
Hjónin í eyðimörkinni eru, eins og best má vera, brot af íslensku bergi, frumbornir arftakar þess ódrepandi úr þjóðlífinu; uppalin af duttlungum veðurfarsins, hert af óblíðu árstíðanna, viðjuð gróanda vorsins, kynbætt af þúsund þrautum. Þeim hæfði þáttur sérstakur.

Hér er þess varla völ
ÍsólfsskáliNöfn þeirra þarf ekki að nefna. Þau vita sjálf hvað þau heita. Allir þekkja þau, sem eitt sinn kynnast þeim, en ókunnugum mætti segja að þau hétu Agnes og Guðmundur. Hann mun eitthvað hafa fæðst þar austur í fjallgarðinum.
Fólk klekst þetta hvað af öðru, hálfóafvitandi, svo fæðingarstaður hvers og eins verður sjaldan nákvæmlega útreiknaður enda skiptir það minnstu máli. Undirlega landsins er þar aðalatriðið. Vigdísarvellir mun það heitið hafa þar sem foreldrum hans fénaðist drengurinn.
Kotið lá undir Krýsavíkursókn. Nú í auðn komið fyrir áratugum. Svo er og um sóknina alla. Enginn maður er þar uppistandandi. Sá síðasti féll í fyrra (1945), og þó eigi til útafdauða. Einsetumaður. Hafðist við í kirkjuhrófi Krýsavíkur, eina húsi sóknarinnar uppihangandi, í miðjum gamla kirkjugarðinum,
inn á milli leiðanna. Þar voru hans gömlu samherjar og sálufélagar gróðursettir.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Erling Einarsson við steinninn nefnda.

Aftur skal vikið að Ísólfsskála. Ungur fluttist hann þangað, drengurinn. Er hann var 9 ára varð hann fyrir einkennilegu atviki. Hann var að leika sér með öðrum börnum undir klettum í krikanum vestan við túnið. Skúti einn er þar undir bergið, en stuðlaberg slapir yfir. Drengurinn var að bauka þar undir að leik sínum. Losnaði þá og féll á drenginn allstórt brot neðan af einum bergstuðlinum. Kramdist hann þar og klesstist undir og lá sem dauður væri. Börn voru þar önnur, er hlupu heim og sögðu frá. Var þegar farið til af fullorðnum.
Drengurinn var talinn dauður með því blóðlækur mikill rann undan farginu. Var því lyft af og gætt fyllstu varúðar. Sá litli lá þar meðvitundarlaus: höfuðleðrið rifið og flett af hauskúpunni og annar handleggurinn tvíbrotinn. Drengurinn lifnaði við og varð græddur, en vegsummerki ber hann til æviloka.
Bær þessi fór svo í auðn skömmu síðar og ekkert nýttur nokkurt skeið. En þá drengur þessi varð frumvaxta og hafði sér konu festa, keypti hann þetta eyðikot, hefur búið þar síðan, byggt upp og bjargast.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Agnes og Guðmundur með nokkrum börnum þeirra.

Hollvættir staðarins hafa verndað drenginn sem síðar átti eftir að endurbyggja bólið, rækta það og reisa, auka það og uppfylla. Konan mun komin af einhverri ódrepandi ætt, líklega af Vatnsleysuströnd eða Suðurnesjaalmenningum, sem hægt og rólega kljáðist við örlögin og klóraði þeim bak við eyrað. Með fyrirhyggjunni og frumstæðustu amboðum skal það hafast, þó allt annað umhverfist og heimurinn gangi af göflunum. Annars segir ekkert af henni, þessari konu. Engin ógæfa mun að henni komast, svo ágæt er hún. Hún var ekkja með 6 ungbörn er hún ákvað að rugla saman reitunum með núverandi manni sínum og setjast að í eyðikotinu á eyðimörkinni. Hún lét ekki þar við sitja heldur fæddi síðari manni sínum önnur 6 börn. Gerði báðum jafnt undir höfði og sýnir það háttvísi í hegðun. Hún hefur fullkomlega lagt sinn skerf að heill staðarins. Þessi kona er síung þrátt fyrir alla erfiðleika barnauppeldis og búskapar. Um leið og bú hennar blómgaðist og færðist út, óx hún sjálf og þroskaðist. Nótt og nýtan dag hefur hún unnið og annast heimili sitt og haldið þar hlífiskildi. Í skrúðgarðinum hennar hjá hlaðvarpanum voru um 60 jurtategundir og trjáa. Kunni hún ævisögu hverrar plöntu og kvists. Þá stóð hún ekki á gati í ættfræði og kynbætum hundanna, kattanna og kvikfénaðarins.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var ekki komið að tómum kofanum með kartöflurnar, garðjurtirnar og kornakrana, sem rotturnar gengu í eins og þeim væri borgað fyrir það, bitu öxin af stöngunum og báru burt og söfnuðu í kornhlöður handa sjálfum sér. Þetta þurfti sosum að basla fyrir lífinu eins og aðrir, þessi kvikindi.
Heimilið og fjölskyldan: barnabörnin, hænuungarnir, hundarnir, matjurtirnar, kindurnar, kýrnar, eldiviðurinn og taðan, innanhússtörfin, þvottarnir og matreiðslan: Allt í sömu andránni, á einu bretti og í hagsýnum tilgangi. Ekkert mannlegt óviðkomandi, er hagsýni hennar mátti að gagni verða. Vissi margt, en fann sig þó þurfa að vita miklu meira og spurði óspart. Huldufólk umgekkst hún heiðarlega; ættfærði köttinn í átjánda lið, hundinn til heilags anda, en drottni gaf hún dýrðina. Ólukkan forsómaði hún algjörlega. Náttúrubarn. Elskuleg kona.
Ísólfsskáli
Hundurinn auglýsir sál og samvisku hvers heimilis. Þarna standa þeir Tryggur og Móri dinglandi af ánægju meðan við erum að reyra saman baggana og remba á okkur byrðunum. Kötturinn kom líka og vippaði sér upp á garðshornið; setti upp gleraugu, leit á hundana og heiminn og allt sem skaparinn hafði gert og gera látið, reisti kamb og hvarf með úfnu og uppréttu skotti.
„Aumingja strákurinn“, okkar hundur hann var tjóðraður og hafður í bandi til að missa hann ekki út af réttlínunni. Þetta var ungur óvaningur, uppveðraður til skammarstrika.
Svo kveðjum við Ísólfsskála, þennan ágæta bæ, með öllu sem um hann og í honum hrærist.

Jónar og Kristjánar

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Ferðinni var heitið austur í ólgandi hraunið í átt til þeirrar upprunalegu Krýsavíkur, er auðvitað situr við sæinn, og var á sínum tíma stærsta höfuðból á Íslandi, en átti sel og hjáleigur víðsvegar upp í Gullbringunum, meðal annars í dalnum góða og grösuga, þangað sem nafnið Krýsavík var flutt, langt upp í land, eftir að sjálft höfuðbólið fórst í því ægilega hraunflóði, er Ögmundarhraun rann. Það mun hafa verið í byrjun 14. aldar, sennilega um 1340. Gamla Krýsavík var, alllöngu fyrir landnám norrænna manna eða austmanna: þ. e. Dan-þjóðflutninga kvíslarinnar, orðin höfuðstöð sægarpa og siglinga og af austrænum uppruna eins og Dankvíslin, (víkingarnir), aðeins stórum mun lengra komnir í vísindum, menningu og siðgæði. Lærðu mennirnir voru nefndir „papar“, þ.e. feður, og skiptust á tvær deildir: Jóna og Kristjóna = Kristjána. Jónarnir skoðuðu Krist sem mann, er hægt væri að líkjast og urðu óumræðilega vitrir og máttugir.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík í Húshólma – uppdráttur ÓSÁ.

Kristjánar trúðu, aftur á móti, eingöngu á Krist sem guð, hafinn yfir allt mannlegt sem aðeins væri hægt að elska og tilbiðja í auðmýkt og lotningu. Þeir urðu óumræðilega heimskir og ofstækisfullir og liggur ekkert eftir þá af viti. Jónarnir tileinkuðu sér lífsskoðun Jóhannesar frá Antiochia Krýsostómas = gullmunnur. Þeir voru því kallaðir krýsar og af þeim dregur Krýsavík nafn, því þar var höfuðbækistöð krýsostomosa, og búinn að vera það full 200 ár, áður en Ingólfur Arnarson kom hér að landi.
Gamla Krýsavík var, fram yfir miðja elleftu öld, eða þar til Krýsar voru drepnir, eitthvert mesta menntasetur veraldarinnar. Kristjónar hötuðu jóna = krýsa og skoðuðu þá sem heiðingja og andskota, en urðu að vera upp á þá komnir, því þá skorti alla þekkingu og manndáð til að geta bjargast án þeirra. Heiðnum mönnum (Ásatrúar) og krýsum kom, aftur á móti ágætlega saman, svo fremi, að ekki væru við höfð mannblót eða annað ódæði.

Einsetumenn, er hér höfðu aðsetur

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Flestir „papanna” voru fæddir hér á landi.
Ísólfsskáli lá áður fyrr undir gömlu Krýsavík, eins og flestar jarðir í „Landnámi Ingólfs”, en féll undir Skálholtsstól er hann var stofnaður (1056), eins og nær allar jarðir á Reykjanesi og Suðurnesjum, og hélst það allan tímann meðan Skálholtstóll var biskupssetur, en þó tókst Danakóngum að krækja í einhver kotin.
Aðförin að Krýsum var gerð, eins og áður er sagt, haustið 1054, og eignum þeirra skipt millum kirkjunnar og höfðingjanna, og fyrsti stóllinn stofnaður. Urðu þar fyrstu þverbrestirnir í þjóðveldið, en hvalreki fyrir erlenda konungsvaldið. Var hér um stóreignir að ræða því Krýsar áttu meðal annars meginpart innlenda kaupskipaflotans, en höfðingjar þurftu að fá vel borgaðan „herkostnað“ allan og ómak sitt og manntjón við aðförina.
Við ferðalangarnir, erum fjórar mannverur, tvennt af hvoru kyni, og hundurinn sá fimmti. Við verðum að bera allan farangur á sjálfum okkur, tjöld vor og útbúnað allan, vistir og vatn. Það er 15-20 km. leið, er við eigum fyrir höndum að fyrir huguðum áfangastað, meginhlutann yfir úfið apalhraun, gróðurlaust af öðru en grámosa, sprengt og umturnað af algjöru handahófi, ófært hestum og öllum farartækjum nema fótum manns og fuglinum fljúgandi. Og vatnsdropa er hvergi að fá á þeirri leið, er við höfum ákveðið að fara.

Reykjanesláglendið

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Meginhluti Ögmundarhrauns, en í það leggjum við, getur vart hafa runnið fyrr en á árunum 1211- 1340. Í og um Reykjaneshálendi eru skógar sagðir hafa verið mestir á landi hér og landskostir bestir, að fornu fari, áður en allt Reykjanes brann og varð eyðimörk, að Gullbringnadalnum undanteknum, en þangað var nafn fornu Krýsavíkur flutt, eftir eyðinguna, og hefur síðar orðið að Krísuvík sem er lítilsháttar afbökun og latmæli, en þó ekki meira en gengur og gerist um eiginnöfn, meðal allra þjóða.
Ævaforn helluhraun hafa víðast hvar verið á Reykjanesláglendinu og nýrri hraunin runnið yfir þau. Allmargir hólmar og tæjutásur af þessum eldri hraunum hafa undanþegist og liggja eins og hrakspjarir hingað og þangað innan um úfnar rastir og storkinn hrákavelling nýju hraunanna. Vegferð allmikil hefur verið um fornu hellurnar, því markast hafa í þær greinilegar götur og troðningar, eftir aðalumferð, og hverfa þessar aðalgötur undir nýju hraunin sem ófær eru yfirferðar. Má af þessu marka, að mjög hefir verið sótt til Suðurnesja á fyrri öldum.

Traðarfjöll

Gígar norðan Traðarfjalla milli Fremrivalla og Tófubrunna.

Í ísl. annálum er getið 14 mikilla eldgosa á Reykjanesskaga og í Trölladyngjum, efst í fjallgarðinum vestan Gullbringudalsins, en þær dyngjur virðast hafa átt stóra samvisku og nóg á sinni könnu, enda mæður margra hrauna. Ekki er fullvíst að þarna séu meðtalin gos í Eystri Gullbringum, Eldborgum, Brennisteinfjöllum og Heiðinni Há sem öll hafa gosið ákaflega síðan sögur hófust. Hafa þau gos umturnað hálendinu austan Krýsavíkur og hraunfossar steypst ofan af Geitahlíð og austari hamrahlíðinni, allt til Selvogsósa, breiðst þar út yfir láglendið og runnið í sjó fram beggja megin Herdísarvíkur, en það er fornfræg veiðistöð vestast í Selvogi.
Meginrennsli Ögmundarhrauns hefir komið úr þrem sprungum utan undir ystu hlíðunum á Núpshlíðarhálsi, rétt fyrir neðan Vigdísarvelli. Hafa myndast fjöldi smágíga í þessum sprungum, fleiri tugir gíga í hverri sprungu. Eru stærstu gígarnir nyrst í neðstu sprungunni. Heita þar Fremrivellir, en Tófubrunnar neðstu gígarnir. Hinar sprungurnar eru ofar og sunnar. Flestallar gjár og eldsprungur á þessu svæði liggja frá norðaustri til suðvesturs. Er það næsta merkilegt hve ægilegt hraunflóð hefur ollið úr þessum sprungum og síðan breiðst út niður á láglendinu, yfir fornu helluhraunin, bæði til suðurs og vesturs, en til austurs alla leið að Krýsavíkurbergi og á sjó fram á öllu því svæði og vestur að Selatöngum.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Vestari hluti Ögmundarhrauns hefir runnið úr gígum við Selvelli, suður og vestur á við, og í sjó fram milli Festarfjalls og Selatanga. Virðist það hraun vera nokkru eldra en það austara.
Gífurlega er Ögmundarhraun víða úfið og kargað og mismunandi opinmynntar og gapandi gjásprungur óteljandi. Hafa orðið í hrauninu ægilegar gufu og ketilsprengingar, er það dróst saman og kólnaði.
Milli vestur og austurhluta Ögmundarhrauns er nokkurn vegin greiðfær leið, um fornu hraunhellurnar, undan Núpshlíðinni og niður að Selatöngum, en þar var mikil fornfræg veiðistöð og útræði, og er að kalla má, fyrir miðju Ögmundarhrauni. Í Selatöngum eru miklar rústir búða og fiskibyrgja. Útræði var þaðan stundað allt fram á síðari helming 19. aldar. Þar voru eitt sinn, á fyrri öldum, taldir í veri 27 Jónar og eitthvað færri Kristjánar, er sóttu þaðan sjóinn ásamt mörgum öðrum minna algengum mannaheitum.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Nú hefur þaðan í 70 ár ekki verið á sjó farið, en allt bíður síns tíma. Segja mætti mér að sú kæmi tíðin, að hafnarmannvirki yrðu gerð í Selatöngum. Ögmundarhraun á allt eftir að byggjast og verða eitthvert blómlegasta hérað landsins. Öll verðum við þá horfin er nú byggjum landið, en ritsmíð þessi mun ennþá uppi og bera sannleikanum vitni.
Gamla Krýsavík á enn eftir að rísa upp og verða aftur mesta menningarsetur veraldarinnar. Þetta er ekki spádómur heldur lítilsháttar athugun á lögmálum orsaka og afleiðinga. Það er ófrávíkjanleg staðreynd, að allt sem fram á að koma er löngu fyrirfram séð og vitað, planlagt og útreiknað. Þetta virðist næsta ótrúlegt þegar þess er gætt að frelsi mannsandans er ótakmarkað og hann getur allt sem hann vill – ef hann veit að hann getur það.
Allt Ögmundarhraun verður með tímanum molað niður og notað til áburðar. Í því er mikil gnægð jurtanærandi efna, bundin í steininum. Mosafeldurinn mikli, er þekur hraunin á stórum svæðum er einnig mjög dýrmætur. Vatn er undir niðri, ótæmandi, í gjám og sprungum og þyrfti óvíða að bora eftir því. Vatnssvið landsins nægilegt fyrir stórborg og orka jarðhitans takmarkalaus.

Tröll og berserkir

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Þjóðsagnaþrugl er til um það, hvernig nafn Ögmundarhrauns eigi að vera til komið. Á slíkum þjóð sögum er ekkert að græða, allt uppspuni og tilbúningur, þar sem engin tímasetning er við höfð, og allt úr lausu lofti gripið. Þjóðsögur eru marklausar nema þær séu tímasettar og vísað til vegar með raunverulegum atburðum.
Þjóðsagan um vegruðninginn yfir aðal ofanrennslistaum Ögmundarhrauns, vestan við Krýsavíkur Mælifell (Eystra-Mælifell), þar sem beinakerling sem sögð er dys Ögmundar, er undir Fellinu, við veginn, er sama sagan og sögð er í fornsögunum (fyrir 900 árum) um veginn gegnum “Berserkjahraun” á Snæfellsnesi. Það er móðursögnin. Þrjár arfsagnir hafa svo, öldum síðar, sprottið af þessari upprunalegu móðursögn og gróðursettar sín í hverju landshorni.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraunið rutt.

Afsprengi upphaflegu móðursagnarinnar eru eftirtaldar arfsagnir:
-Sögnin um berserkinn Ögmund = Ögmundarhraun undir Gullbringum í Gullbringusýslu.
-Sögnin um berserkinn Rusta = Rustastígur, í Rustahrauni við Dimmuborgir í Mývatnssveit í Suður-Þingeyjarsýslu.
-Sögnin um berserkinn á Ósi = Ósvör við Buðlungavík (Bolungarvík) í Norður Ísafjarðarsýslu. Allt voru þetta berserkir og tröllmenni, er fyrir sitt líkamlega erfiði, að loknum afköstum, höfðu gefin loforð um fríða og efnilega heimasætu; en sviknir og drepnir að verkalaunum.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur í dag.

Þess verður ávallt að gæta um þjóðsögur: hvort þær eru móðursagnir eða afsprengi.
Sagan um „lönguna“ er t.d. sögð í þrem samstofna útgáfum, sín í hverju landshorni; Þegar sóknarmenn vildu „plata“ prest sinn, eða reyna „kunnáttuna“ og láta hann jarða löngu í staðinn fyrir sveitakerlingu. – Það eru 3 „galdraprestar“, sinn á hverjum tíma sem eignaður er sami leikurinn, sama vísan eða vísurnar og sömu tilsvörin: séra Jóni gamla á Þæfusteini undir Jökli, ár 1580; Eiríki presti á Vogsósum í Selvogi, dáinn 1716, 49 ára að aldri; og loks Snorra presti Björnssyni á Stað í Aðalvík; prestur þar á árunum 1741-1757, en síðar á Húsafelli og kenndur við þann stað.
Á slíkum samstofna „guðspjöllum” verða menn alvarlega að vara sig. Þess vegna verður að rekja ætt hverrar þjóðsögu til upprunans, og staðfæra hana, á svipaðan hátt og frumhöfundar Íslendingasagnanna gerðu um sögu hetjur sínar og máttarstólpa viðburðanna. Þeir byrja á því að rekja ættir og tildrög til sannsögulegs uppruna. Þeir staðfæra söguhetjurnar raunvísindalega, byrja á byrjuninni og vita endirinn til síðasta orðs um leið og byrjunina. Verk sín byggja þeir á órjúfandi – sannsögulega – raunverulegum grunni. Með því tókst þeim að skapa sannar og lifandi, rólegar og öfgalausar lýsingar og ódauðleg listaverk. Þeir kunnu svo vel á ekju tungu sinnar, að nærri heggur að þeir skáki nornunum í manntafli örlaganna.
Helgi Guðmundsson, safnari „vestfirskra sagna“, skildi hlutverk sitt best ísl. þjóðsagnaritara. Við fráfall hans urðu íslenskar bókmenntir fyrir óbætanlegu tjóni.

Áfram skal haldið

Krýsuvíkurberg

Gamla Krýsuvíkurbergið austan Húshólma.

Leið okkar liggur undir fellum og fjöllum, hálsum og hæðum til landsuðurs meðfram Núpshlíðinni og austurfyrir Núpinn sem er allhár, og teygir sig fram úr fjallrananum út í hraunið. Þetta er afgömul sjávarströnd, fuglabjörg ævaforn og aflóga, frá þeim tíma er sjórinn stóð miklu hærra en nú, undirlendi var ekkert, og þar sem áður voru firðir eru nú fagrir dalir, eins og t.d. Þórsmörk.
Gaman er að lesa land um leið og maður gengur. Þó efst séu hamrar og hengiflug, og enn ákleyft, hækkar ofanhrapið og úrlausnin aftur neðan frá, eftir því sem upp hleðst, uns orðið er bústið og bringu hvelft undir klettakraganum. Fæðast þá geirar grasgrónir, er teygjast svo sem auðið er upp í álkur og hófst foreldrisins og hanga þar góðteit millum aurskriðna og iðrunarbolla framhleypninnar. En sú framhleypni er þó undirstaða annars meira, þótt særist brjóstið og svívirðist gróðurinn. Þarna í geirunum móti suðri og sól, í skjóli hamra hlíðarinnar fyrir norðannæðingum, finnum við fullþroska jarðarber og er þar allmikið af þeim. Þau voru góð, þó villt væru, stór og ljúffeng og merkilega bráðþroska. Enn var júlímánuður ekki afliðinn.

Latur

Latur í Ögmundarhrauni og Latfjall ofar. Krýsuvíkur-Mælifell á millum.

Leið okkar liggur fram hjá Litla-Lat sem er fjallsrani með hækkandi fellskolli upp að endanum og hömrum framan í að sævarátt, og skagar út í úfna og ólgandi hraunstorkuna.
Við stefnum á Óbrennishólma, en það er allmikill grasgróinn hólmi, umgirtur hrauni á alla vegu. Þarna er aðalniðurrennsli hraunsins frá gígunum við Fremrivelli. Hefur hraunið runnið þar undan brekkuhalla, suður á við, millum EystraMælifells og Núpshlíðarháls. Öll er hraunstorkan úfin þarna og í henni bárur miklar og þversprungur, bognar eftir rennslinu og bramlaðar sitt á hvað. Hallandi hraunbrekkan, úfin, storkin, sprungin og bólgin, er sviplíkust skrið jökli, er sígur og hnígur fram og niður úr þröngum og djúpum dali.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Við köstum byrðum og hvílumst um stund á hæsta hóli Óbrennishólmans, í suðurenda hans, en þar er ævaforn fjárborg sem nú er með öllu jöfnuð við jörðu svo ekki stendur steinn yfir steini. Má þó enn greina hring undirstöðunnar og hefur fjárborg þessi verið allstór eða nálægt 10 metrar að þvermáli; hlaðin úr basalti og grágrýti sem ekki finnst þarna annarstaðar, enda er borgin miklu eldri en hraunið um kring.
Úr Óbrennishólmanum héldum við til suðausturs, í átt til Húshólmans sem var fyrirhugaði áfanga staðurinn, en hittum ekki á bestu leiðina, heldur þá alverstu.
Fórum of nærri sjónum og lentum inn í kolsvart brunahraun, afarúfið, með engum mosagróðri. Byrðarnar voru þungar: 40-50 kg., á þeim er þyngst var. Þegar þarna var komið var hundurinn orðinn svo sárfættur, að bæta varð honum ofan á eina byrðina. Við höfðum þó gert honum skó á alla hans fjóra fætur, en ekkert vildi duga þó sífellt væri verið að reyra og vefja og endurbæta skógerðina. Hann fór margan óþarfa krókinn: „Aumingja strákurinn“, og flengdi af sér skóböslin í eltingaleik við kjóahjón, er hann átti í erjum við, þó enginn yrði árangurinn annar en skóslit og sárir fætur eftir margt vel útilátið vindhögg og mörg misheppnuð frumhlaupin.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóftir.

Steinuppgefin með sprengda skó og rifnar flíkur komum við í áfangastaðinn, Húshólmann. Þar féllum við til jarðar á rennislétta, ilmandi grundina undir úfnum, bröttum hraunjaðrinum skammt frá rústum forna stórbýlisins sem eru þar umluktar og inni bræddar í hrauninu.
Marflöt eins og ormar teigum við angan gróður vinjarinnar, er hvílir þarna innan vébanda eldstorkunnar í hrjósturkufli eyðimerkurinnar. Faðmur móður vorrar, jarðarinnar, er æ reiðubúinn að taka börn sín og hjúfra í friði og farsæld.
Örfá andartök og þreytan er þorrin. Sami töfrailmurinn er hér enn úr grasi og Grelöð Jarlsdóttir hin írska fann, er hún, á fyrstu dögum Íslandsbyggðar, valdi sér bústað eftir angan jarðar og ilman blóma.
Og gamla persneska skáldið Omar Khayyám vissi hvað hann söng, er hann, fyrir meir en 800 árum, kvað um mannsævina og líkti henni við lestargöngu.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Vel var sofið og vært þessa fyrstu nótt í tjaldbúðum vorum í Húshólma, enda aldrei áður tjaldað þarna og sofið svo menn viti til. Miklir voru draumar og mannfróðlegir. Meðal annars þóttist eitt okkar finna allmargar beinagrindur og hirða. Voru þær frá ýmsum tímum og öldum og sín úr hverri áttinni. Þegar farið var að rannsaka kom það upp úr kafinu að beinagrindur þessar voru af draumamanninum sjálfum, frá áður lifuðum og liðnum æviskeiðum. Ein fannst austur í Eyjahafi, nálægt stórri eyju undan Grikklandsströndum; önnur í Atlantshafi í nánd við Hebrides-eyjarnar og tvær, eða fleiri, grófust upp úr kafinu einhvers staðar á voru landi, Íslandi.
Draumamann langaði mjög til að hirða hauskúpurnar og eiga sem minjagripi, því mjög gæti það verið fróðlegt, að eiga vel verkaða hauskúpu af sjálfum sér frá einhverri fyrri jarðvist. En allar hurfu þær draumamanni, að undantekinni einni, er hann vildi ekki fyrir nokkurn mun missa. Og er hann vaknaði hélt hann báðum höndum ríghaldi um hauskúpu þessa og horfði á hana leysast upp og hverfa úr greipum sínum. Dreymanda þótti þetta miður, og það mundi fleirum hafa þótt, svo raunverulegur var draumurinn. Þetta var klukkan 6, að morgni laugardagsins 29. júlí 1944. Fuglar loftsins komnir á kreik og farnir að hefja dagskipan sína. Draumamaður skreið úr svefnpoka sínum og klæddist, skundaði síðan út í glitrandi morgunljómann og fór að rannsaka umhverfið. Hann hafði áður farið hér um sér til angurs og fróðleiks, en rannsóknarefnið er ótæmandi fyrir allflesta sem eitthvað hafa lært að tileinka sér.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólminn er allstór. Aðalhólminn mun nálægt 30 ha. (um 100 dagsl.) að stærð. Uppblásturs gætir þar á nokkrum stöðum. Austan við Hólmann hefur hraunið runnið utan í hliðarhalla og fylgt honum allt í sjó fram. Má vera að þarna hafi verið daldrag sem hafi yfirfyllst af hrauni; öðruvísi verður þetta varla skýrt eða skilið og harla einkennilegt, að hraunið skyldi ekki steypa sér yfir hólmann allan. Millum aðalhólmans og sjávar er mikill og svartur hraunkampur, úfinn og ljótur, en fyrir ofan þennan hraunkraga, þvert yfir graslendi Hólmans, er fornt fjöruborð af brimsorfnu grágrýti.
Vestan megin Hólmans hefur hraunið einnig runnið langt í sjó fram, fyllt alveg víkina og lokað henni. Er glóandi grjótleðjan kom í sjóinn og kólnaði, hlóðst hún upp og stöðvaði framrennslið, svo hraunið hefur sumstaðar runnið til baka aftur.

Rústir í hrauni

Húshólmi

Húshólmi – tóft og garðar í Kirkjulág.

Úti í hrauninu, rétt fyrir vestan aðalhólmann, heitir Kirkjulág. Þar eru rústir mikillar húsaþyrpingar sem hraunið hefur að nokkru leyti runnið yfir, en nokkuð hefir orðið eftir og standa veggir og tóftar brot út undan hraunröndunum.
Kringum eina rústina er garður og hefur hraunið runnið inn í hann, en ekki fyllt hann alveg, svo austurkanturinn og norðurhornið er hraunlaust. Er það sagður hafa verið kirkjugarður, en ekki er víst að svo sé.
Í há norður frá Kirkjulánni, um 100 metrum ofar í hrauninu, eru aðrar rústir miklu heillegri. Þær rústir hafa aldrei verið athugaðar af fræðimönnum. Hefur hraunið hlaðist að þeim á alla vegu en hvergi komist inn fyrir veggina. Hleðslurnar haldast ennþá á pörtum fastar í hraunstorkunni. Sumt af hleðslunum hefur bráðnað, en sumt af steinunum hitnað svo og eldast að þeir bera þess merki. Tóft þessi er um 20 m. á lengd og 8 á breidd og liggur frá austri til til vesturs. Við austurendann hefur verið minna hús áfast en ekki eins breitt og aðalrústin. Í hleðslum húsarústa og garðabrota er mestmegnis grásteinn og margt af honum vatnsnúið eða brim marið, sennilega tekið úr forna fjörukampinum sem verið hefur skammt fyrir sunnan, því víkin hefur náð langt inn að vestanverðu, áður en hún fylltist af hrauni. Bæjarhúsin munu hafa staðið skammt austan við víkurbotninn.

Húshólmi

Húshólmi – forn garður hverfur undir Ögmundarhraun.

Forna fjöruborðið, eða sjávarkampurinn, er mjög merkilegur til fróðleiks. Hans gætir kringum allt land og eins norður á Grímsey sem annarstaðar. Þetta fjöruborð liggur í 4-5 metra hæð yfir núverandi sjávarmál og eigi myndað fyrr en löngu eftir síðustu ísöld. Hlýindatímabil hefur þá staðið yfir, um alllangt skeið, svo jöklar hafa bráðnað á norður hveli, að svo miklum mun að hækkað hefur í höfunum. Hefur þá verið orðið nær jöklalaust á Íslandi. Síðan hefur kólnað aftur og mikil uppgufun bundist. Á aðalhólmanum eru greinilegar fornar garðhleðslur, sá lengsti um 300 metra langur og hverfa báðir endar hans inn undir hraunið.
Margar sagnir eru til á ýmsum tegundum af „galdraletri” um Gömlu Krýsavík og starfhætti krýsa og menningu. Ber öllum þeim lýsingum saman í aðalatriðum. Í tíð Kolskeggs vitra voru þar stórt hundrað manns í heimili og 30 hurðir á járnum. Þar voru miklir akrar og ræktun. Auk korntegunda var þar ræktað lín og hör og einhverskonar korntegund sem Kolskeggur flutti inn frá Vesturheimi og kallað er „hölkn“, og eftir lýsingunni að dæma hlýtur að hafa verið maís. Í Krýsavík var og skipasmíðastöð og mörg hafskip smíðuð. Gjá ein eða klauf gekk upp í landið úr vesturbotni víkurinnar og mátti þar fleyta skipum inn og út um stórstraumsflóð. Mátti hafa þar 1-2 hafskip í vetrarlagi.”

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Einn áfangi á Reykjanesi – Jockum Magnús Eggertsson (1896-1966) fjallar um ferðir hans um Reykjanesskagann árið 1945, bls. 20-28.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík hægra megin, nú fyllt af hrauni. Tóftirnar á víkurbakkanum.

Húshólmi

Fyrir u.þ.b. fimm árum tók Minjastofnun Íslands að sér að útbúa og setja upp minjaskilti í og við Húshólma f.h. Grindavíkurbæjar – á kostnað bæjarins. Húshólmi geymir einar merkustu mannvistarleifar Grindavíkur – sem og Íslands alls.

Húshólmi

Húshólmi – fremra skiltið liggur enn niðri, eftir fimm ára aðkomu.

Sett voru upp fjögur skilti við aðkomuna að Húshólma sunnan Suðurstrandarvegar. Eitt þeirra lýsir minjasvæðinu, tvö segja frá jarðfræði svæðisins og það fjórða frá fuglalífinu.
Við uppganginn að Húshólmastíg við jaðar Ögmundarhrauns að austanverðu var sett upp eitt skilti.
Vestast í Húshólma átti að setja upp tvö skilti. Annað skiltið, er getur minjanna inni í hrauninnu skammt vestar, var sett upp. Hitt, er segir frá görðunum, sem rannsakaðir voru fyrrum og gáfu til kynna að þeir væru eldri en norræna landnámið, sem jafnan hefur verið miðað við varðandi upphaf byggðar hér á landi, fór aldrei upp, heldur var stjakað á staura og komið fyrir í holum við hraunkantinn þar sem gengið að að hinum fornu skálum, er hraunið hlífði ~1151. Þarna hefur skiltið legið óhreyft, jarðlægt, í 5 ár.
Fulltrúar Grindavíkurbæjar virðast ekki hafa hinn minnsta áhuga á að koma síðastnefnda skiltinu sómasamlega fyrir á þessu merkasta minjasvæði bæjarfélagins og Minjastofnun hefur lítið gert til að fullkomna verkið það, er stofnunin tók að sér fyrir fimm árum.

Húshólmi

Húshólmi – jarðlæga skiltið.

Þess má einnig geta, að fjórir steinsteypustöplar, sem burðast var með inn í hólmann í hjólbörum fyrir fimm árum, og áttu að bera leiðbeiningaskilti til handa aðkomandi göngufólki að minjasvæðinu, standa enn einir og yfirgefnir á þeim tveimur stöðum, er þeim var komið fyrir á – hingað til án nokkurs tilgangs.
Segja má, með fullri virðingu fyrir starfsfólki Minjastofnunar og Grindavíkurbæjar, að framkvæmdin, eins og hún stendur núna, fimm árum eftir að hún hófst, er báðum aðilum til lítils sóma.

Fjallandi um skiltin þá tók framangreind stofnun að sér auk þess skiltagerð á Selatöngum. Burtséð frá óvaranleika skiltanna þar, sem hafa nú þegar nánast fokið út í veður og vind, má geta þess að upplýsingarnar á báðum skiltunum er verulega ábótavant.  T.d. eru augljósar vitleysur á báðum stöðunum, sem eru til verulegra vansa áhugasömum þegar á hólminn er komið.

Í FERLIRsferð um miðjan ágúst 2022 var framangreint enn óbreytt.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.