Húshólmi

Gengið var um Ögmundarstíg, sem reyndar Hlínarvegur hefur verið lagður yfir, framhjá Ögmundardys, niður með Latsfjalli og um stíg suðaustur inn í Ögmundarhraun, áleiðis að Óbrennishólma, en þangað var ferðinni heitið. Staldrað var við í Óbrennishólma, kíkt á garðinn, sem hraunið (1151) stöðvaðist við, óskilgreinda tóft og fjárborgina fornu.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Þá var haldið um stíg yfir hraunlænu yfir á annan forgengilegri að Brúnavörðum. Frá þeim var stefnan tekin að Húshólma. Að hluta til er sá stígur flóraður eftir handrbragð sonar Krýsuvíkur-Gvendar o.fl. frá því um miðja 19. öld. Minjarnar í Húshólma; Kirkjulág, Kirkjuflöt og víðar voru skoðaðar og ályktaðaðar. Þá voru hinir fornu garðar í hólmanum skoðaðir. Að endiningu var stígurinn ofan við ströndina fetaður austur fyrir hraunkantinn og þaðan gengið að upphafsstað.
Í þjóðsögunni um Ögmundarstíg, sem Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi tók saman um aldarmótin 1900 segir m.a.:
“Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fól sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á. Það heitir síðan Óbrennishólmi er hann var.

Húshólmi

Fjárborg í Húshólma.

Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn. En nálega var ófært þangað þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.
Ögmundur var berserkur. Er hann sagður hafa lagt veginn yfir hraunið en verið drepinn að verki loknu. Grjóthrúga er þar við götuna sem kallað er leiði Ögmundar. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór hraunstykki en víða þrepóttur í botninn sem hin gamla staka segir:

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.”
Stefnan var tekin á Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni. Ætlunin var að skoða dys Ögmundar og halda síðan um Ögmundarhraun. Gamla gatan sést grópuð í harða hraunhelluna skammt austan hraunkantsins. Þá er Ögmundarstígur hinn forni nú einungis greinilegur á stuttum kafla við austurjaðar hraunsins. Hann liggur þar í vinkilbeygju og er dysin í beygjunni. Miðja vegu á Hlínarvegi má, ef vel er að gáð, sjá hinn gamla stíg grópaða í klöppina. Ofaníburður vegarins hefur fokið á brott og gamli stígurinn komið í ljós á nokkurra metra kafla. Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála, einn þeirra er tók þátt í lagningu Hlínarvegar, sagði reyndar í viðtali við FERLIR að þeir hefðu lagt veginn ofan á Ögmundarstíg og ef yfirborð hans væri fjarlægt mætti vel greina stíginn þar sem hann var víða svo djúpt grópaður í klöppina að gengið hafði verið niður úr henni. Þess vegna hafi framangreind vísa verið kveðin.

Húshólmi

Brúnavörðustígur.

Gengið var frá Ísólfsskálavegi til suðurs austan við Latfjall. Grábrúnn refur fylgdist með göngufólkinu, en hann hafði þó meiri áhuga á fílnum í fjallinu.
Gengið er yfir úfið mosahraun og inn á stíg er liggur áfram til suðausturs austan við Latstöglin. Þar er stutt hraunhaft, sem fara þarf yfir á stíg, og þá blasir Óbrennishólmi við. Gengið var til austurs norðan hólmans, að hinu forna garðlagi, sem þar er og hraunið hafði runnið að árið 1151.
Á hæð í sunnanverðum hólmanum er nokkuð stór fjárborg (8-9 m að innanmáli). Líklegra er þó að þarna hafi verið virki þeirra er fyrst námu land við hina fornu Krýsuvík. Enn sést vel móta fyrir hringnum. Erfitt er að mynda hringinn vegna afstöðu hans á hólnum, auk þess sem hann er orðinn að mestu jarðlægur. Skammt austan hennar, nær hraunkantinum, er önnur minni fjárborg. Einnig gæti þarna hafa verið um topphlaðið hús að ræða að forni fyrirmynd. Sunnan tóttarinnar er rétt eða gerði inni í hraunkraga. Hlaðið er framan við kragann, en þær hleðslur virðast vera nýrri en t.d. fjárborgirnar. Efst í hólmanum norðaustanverðum (fara þarf yfir mosahraun á kafla) er hlaðinn garður, sem hraunið hefur stöðvast við. Vel sést móta fyrir hleðslunum á nokkrum stöðum.
Garðurinn endar í króg skammt neðar. Þar gæti einnig hafa verið fjárbyrgi og að neðsta hleðslan sé hluti þess.
Vestan við stóru fjárborgina liggur gróinn og nokkuð jarðlægur garður undan hraunkantinum, upp með dragi og áfram upp í hólmann. Hér virðist vera um mjög fornan garð að ræða. Hann eyðist nokkru ofar, en þó má enn sjá móta fyrir honum ofan við miðjan hólmann, en þá hefur hann breytt lítillega um stefnu skammt, neðan við eldri hraunkant í miðjum hólmanum. Garðurinn virðist vera með samskonar lagi og garðarnir í Húshólma.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Ögmundarhraun, sem umlykur Óbrennishólma, kom úr gígaröðum austan í Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Það hefur runnið til suðurs á milli Latfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells – allt niður í sjó – og gjörbreytt ströndinni. Hefur hraunið runnið yfir bæ, eða bæi, og önnur mannvirki sem þarna voru. Óbrennishólmi og Húshólmi hafa þá væntanlega staðið hátt í landinu, en hraunið runnið með hlíðum og lægðum. Eldra hraunið inni í Óbrennishólma og Húshólma hefu runnið áður en Ögmundarhraun rann. Virðist það hafa komið úr gígaröð suðaustur af Krýsuvíkur-Mælifelli. Jón Jónsson, jarðfræðingur, sagði einn gíginn þar, einn þann merkilegasta hér á landi, en sá hefur nú að mestu verið eyðilagður vegna efnistöku.
Sagnir eru til um að á þessu svæði hafi verið blómleg byggð áður en Ögmundarhraun rann um 1150. Ströndin hafi verið lík og nú er á Selatöngum, neðan við Húshólma og við Skála. Þar hafi verið góð lending og kjörstaða, bæði til lands og sjávar.
Brynjúlfur lýsir Húshólma í grein er birtist í Árbók hins ísl. fornleifafélags 1903: “Krýsuvík hefir til forna staðið niðurundir sjó fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbjargi. Nafnið Krýsuvík bendir á það. Engum hefir dottið í hug að kenna bæinn við vík, ef hann hefði fyrst verið settur þar sem hann er nú. En þar sem hann stóð fyrst hefir þetta átt við og svo hefir nafnið haldist er hann var fluttur. Hraunflóð það, sem á sínum stað er nefnt Ögmundarhraun, hefir eyðilagt hinn forna bæ. Sjást þess glögg merki. Þá er hraunflóðið er komið ofan fyrir hálsana, breiðir það sig um undirlendið vestur að Ísólfsskála, sem nú er austasti bær í Grindavík. Er þar hvergi auður blettur nema aðeins tveir hólmar austantil í hrauninu. Heitir hinn vestari Óbrennishólmi. Hann er kippkorn frá sjó, austantil niðurundir múla þeim í hálsinum, sem Núpshlíð heitir. Eystri hólminn heitir Húshólmi. Hann er niður við sjó skammt fyrir vestan bergið. Er hraunkvíslin fyrir austan hann tiltölulega mjó. En runnið hefir hún fram í sjó fyrir austan hann, og það hefir aðalflóðið einnig gjört fyrir vestan hann, hafa svo runnið saman í fjörunni fyrir framan hann, og sést sjávarkamburinn innanvið hraunið á nokkrum parti neðst í hólmanum. Að ofanverðu er hólminn hærri. Þar virðist hafa verið hæð, sem hraunið hefir flotið fram á og klofnað um. Svo lækkar hann allt í einu, en breikkar þó um leið austur á við, en að vestan gengur hraunið þar heldur inn í hann. Þar undir hraunjarðrinum kemur forn túngarður, er liggur kringum allstórt svæði, en hverfur aftur í hraunið niðurfrá eigi langt frá vesturenda sjávarkambsins, sem nú var getið.

Óbrennishólmi

Garðar í Óbrennishólma.

Annar garður kemur undan hraunjarðrinum nokkru neðar en hinn og stenfnir í suðaustur. Hann beygist suður á við og gengur gegnum hinn fyrri garð skammt fyrir ofan sjávarkambinn. Er þar hlið á hinum fyrra. Svo heldur þessi síðartaldi áfram að sjávarkambinum og hverfur þar. En þar sem gata sé rudd gegnum kambinn, líklega sjávargata; er eigi allbrimsamt og mun hafa verið útræði.
Fyrir neðan þennan síðartalda garð verður afhallandi brekka ofan að neðri hraunjarðrinum. Liggur þriðji garðurinn þar ofan frá neðra garðinum og neðra hraunjarðrinum og hverfur undir hann. Þannig sér hér á 4 aðskilfar girðingar, er allar hverfa að meiru eða minna leyti undir hraun. Engin tóft sést í neinni þessari girðingu, svo að, ef sín girðing hefir tilheyrt hverju býli, þá eru tóftir þeirra býla hrauni byrgðar. Vestur úr útsuður horni hólmans gengur graslág milli tveggja hraunjarða. Er hún eigi breiðari en svo, að eigi má ríða 2 hestum samsíða. Þegar samt er komið vestur í hraunið, kvíslast hún í tvær lágar. Þær heita kirkjulágar. Þar eru rústir. Verður fyrst fyrir tóft, sem snýr frá sutri til vesturs, nál. 4 fðm. Löng og 2 fðm. Breið. Dyr eru á vesturenda, jafnvíðar og tóftin sjálf. Mun þar hafa verið bil fyrir. Norðanmegin við þessa tóft, tæplega 2 fðm. Frá henni, er garður, sem beygist austur fyrir hana og hverfur þar undir hraunið, en að vestan endan hann í tóftarvegg. Er sú tóft fyrir fyrir dyrum hinnar, nálægt jafnstór henni og liggur frá norðri til suðurs. Dyr hennar hverfa undir hraunjarðarinn að sunnanverðu.

Latfjall

Latfjall – gengið í Óbrennishólma.

Vestan við hana dýpkar lágin að mun, en þar er ekki víðari en svari tóftarvídd. Sé það tóft, hefir þar líklega verið kjallari, en hleðslan er hrunin. Frá norðausturhorni þvertóftarinnar gengur garður eftir norðurláginni, fyrst beint í norður nál. 12 fðm., svo beint í vestur nær eins langt og hverfur svo í hraunið. Utanmeð þessum garði er svo sem gangrúm hraunlaust, og er það norðurkvísl Kirkjuláganna. Lútur út fyrir, að hér hafi hraunið sigið að með hægð frá báðum hliðum. Svo sem 40 fðm. Norðar í hrauninu er auður vesturhluti rústar, sem auðsjáanlega er bæjarrúst. Hefir hún verið þrískipt. Miðtóftin snýr frá norðri til suðurs og hefir dyr á suðurenda og aðrar á vesturveggnum, inn í vesturtóftina. Inn af miðtóftinni virðist og hús hafa verið, sem er hrauni hulið allt að kalla. Miðtóftin nál. 2 ½ fðm. Löng og 1 ½ fðm. víð. Vesturtóftin er jafnvíð og hin er löng, nfl. 2 ½ fðm., en nál. 5 fðm. á lengd. Hún er merkileg að því, aðmeð báðum veggjum, eftir henni endilangri, er 1 al. Breið set eða rúmstæði og markar glöggt fyrir veggjunum þar utanvið. Austasta tóftin er nær öll hrauni hulin. Þó sýnist sem útidyr hafi verið á henni fyrir austan útidyr miðtóftarinnar. Hvergi er hraunlaus blettur kirngum þessa rúst, og ekki verður komist að henni nema á hrauni.
Nafnið Kirkjulágar bendir á, að hér hafi kirkjustaðurinn Krýsuvík verið. Getur vel verið, að tóftin í syðri láginni, sem fyrst var talin, sé einmitt kirkjutóftin. Hefir heimabærinn þá víst verið þar líka. Rústin uppi í hrauninu er þó ekki eftir smákot. Hygg eg að heimabæir hafi verið tveir, Efribær og Fremribær, og kirkjan hafi verið hjá Fermri-bænum. Eftir afstöðu að dæma, hafa girðingarnar, sem fyr getur, eigi verið tún þessara bæja, heldur annara afbýla, sem þá eru hulin hrauni. Og hver veit hve mörg býli þar kunna að vera horfin?”

Húshólmi

Skáli í Húshólma.

Gengið var um stíg niður úr Óbrennishólma og Brúnunum síðan fylgt til suðausturs uns komið var að svonefndum Brúnavörðum. Þær eru tvær, mið af sjó, sennilega á Mælifell. Skammt ofan varðanna liggur handgerður stígur. Talið er að hann hafi verið gerður af syni Krýsuvíkur-Gvendar um miðja 19. öld ásamt nokkrum öðrum frá Krýsuvík. Þeir hafa byjað verkið við Kirkjulágar vestan við Húshólma og farið langleiðina að Brúnum, en þó ekki alla leið. Eitthvað hefur komið í veg fyrir að þeir kláruðu verkið. Stígurinn er fallega flóraður og greinilega vandað til verks. Líklegt má telja að þarna hafi átt að leggja stíg yfir á götuna undir Brúnunum og áfram yfir að Selatöngum, í stað stígs er stjórinn hafði tekið og lá rétt ofan við ströndina austan Húshólma, en hraunið þar er mjög erfitt yfirferðar.
Troðinn slóði liggur frá Brúnavörðum austur í hraunið og ef tekið er mið af vörðum og ummmerkjum má vel feta hann að stígsendanum. Á honum er gatan síðan greið í Húshólma.
Byrjað var á að skoða skálatóftirnar ofan við Kirkjulágar, síðan kirkjutóftina, garðana og mögulegan grafreit. Alls er um að ræða þrjár skálatóftir við Húshólma, auk kirkjutóftarinnar. Rifjuð var upp saga Húshólma jafnframt því sem reynt að gera sér í hugarlund hvernig umhorfs hafi verið þarna um það leiti er fólk settist þar að, við grunna vík – Krýsuvík, en krýsa er einmitt gamalt orð fyrir grunna skoru (í ask) eða vík.
Haldið var út úr hólmanum til austurs eftir strandstíg með útsýni yfir að Krýsuvíkurbjargi. Á leiðinni var rifjuð upp sagan af Tyrkjunum er komu þar að og héldu í átt að Krýsuvíkurkirkju, þar sem þeir mættu Eiríki galdrapresti frá Vogsósum og þar með örlögum sínum.
Í tölum talið var gangan tæpir 12 km. Gengið var í u.þ.b. þrjár klst, en leiðsögn og -lestur um svæðið tók nálægt tveimur klst.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Brynjúlfur Jónsson – Lýsing… (1902).
-Úr Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 – Brynjúlfur Jónsson.

Húshólmi

Vegvísir Húshólma.