Sandakravegur

Sandakravegurinn liggur inn á gatnamót við vesturenda Drykkjarsteinsdals norðvestan Slögu, með brún Litla-Borgarhrauns undir hlíðum Borgarfjalls, um Nátthagakrika til norðvesturs, áfram sunnan Einbúa, með brún Borgarhrauns undir hlíðum Kastsins og Sandhól.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Þar greinist vegurinn, annars vegar til norðvesturs yfir Dalahraun í átt að norðausturhorni Stóra-Skógfells þar sem hann kemur inn á Skógfellaveg, og hins vegar um Fremstadal og Miðdal undir hlíðum Fagradalsfjalls, framhjá Innri-Sandhól, um Innstadal og inn á Nauthólaflatir syðst í Fagradal. Þar liggur vegurinn um uppfokna mela og Aura, niður í Mosadal, um Mosadalsgjá og inn á Skógfellaveginn skammt ofan við Stóru-Aragjá (Brandsgjá). Vegurinn sést reyndar ekki þar sem hann liggur um Nauthólaflatir, Aura og Mosadal, bæði vegna hreyfanleika jarðvegsins að ofanverðu sem og ásókn mosans að neðanverðu.
Skógfellavegurinn er mest áberandi þar sem hann er djúpt markaður í slétta klöpp Skógfellahraunsins. Hraunið er um 3000 ára gamalt. Sandakravegurinn milli Stóra-Skógfells og Sandhóls er markaður á sama hátt í slétta klöpp Dalahrauns. Af ummerkjum að dæma virðist þarna vera um sömu götuna að ræða. Hún gæti því hafa hafa verið nefnd öðru nafni fyrrum og verið meginleiðin á umferð milli Suðurstrandarinnar og Útnesjanna.
Líklega voru Sandakravegurinn og Skógfellavegurinn aðalþjóðleiðirnar til og frá Grindavík og að austan með Suðurströndinni alveg frá fyrstu tíð. Sundhnúkahraunið er um 2400 ára og engin hraun á sögulegum tíma hafa farið yfir göturnar frá því að land var numið í Grindavík.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Arnarseturshraunið hefur ekki náð inn á hana. Þess vegna má alveg eins telja líklegt að Molda-Gnúpur, synir hans og aðrir fjölskyldumeðlimir, hafi fetað þessar götur fyrrum, líkt og allir aðrir, sem á eftir þeim komu. Sama gildir um Sandakraveginn. Sauðskinnsskórnir hafa kannski ekki einir sér séð um mörkunina, en hófar hesta, klaufir kúa og kinda og klær hunda hafa bætt þar um betur. Þarna er því um óraskaðar götur – áþreifanlegar leifar manna og dýra – hvort sem er af núttúrunnar hendi eða mannavöldum, alveg frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.
Allar hinar þjóðleiðirnar til og frá Grindavík; Prestastígurinn, Skipsstígurinn og Árnastígur (nema norðan við Sundvörðuhraunið) eru þaktar að hluta til hraunum frá nútíma, einkum frá 13. öld.

Rauðhóll

Rauðhóll við Litla-Skógfell.

Grunur var um að Rauðhóll austan Stóra-Skógfells kynni að vera nýrri en aðrir gígar á svæðinu, en hann er örugglega eldri en Sundhnúkahraunið. Hóllinn er líklega hluti af Kálfafellshraunsmynduninni og Hálfunarhólshrauni og skv. því meira en 8000 ára gamalt, líkt og Sandhóllinn og Sandhólshraun, en önnur og eldri hraun við Skógfellin erum minna en 11.500 ára gömul.
Hinar fornu götur, Skógfellavegur og Sandakravegur eru því mjög merkilegar fornleifar, sem ástæða er til að varðveita. Reyndar má telja þessar tvær götur meðal merkustu fornleifa landsins.

 

Sandakravegur

Sandakravegur.