Stefnan var tekin á Skógfellaveginn, gamla þjóðleið milli Voga og Grindavíkur. Vegarkaflinn er u.þ.b. 16 km langur, en greiðfær og augljós, enda er hann bæði varðaður alla leiðina og auk þess hefur hann verið stikaður í seinni tíð.
Í bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, er m.a. fjallað um Skógfellaveginn. Þar segir: “Í lægðinni við Stapahornið og ofanvið Reykjanesbrautina [nú ofan gangna undir brautina] sjáum við fyrst móta fyrir Skógfellavegi sem var fyrrum þjóðleið til Grindavíkur. Í heimildum ber leiðin eftirfarandi nöfn: Skógfellavegur, Skógfellsvegur, Vogavegur (það nafn notuðu Grindvíkingar), Sandakravegur, Sandakadalsvegur og Sandhálsavegur. Af Suðurlandi og víða var öldum áður sótt skreið til Suðurnesja og menn fóru þangað í fiskiver. Á þeim tímum var Sandakravegur notaður enda djúpt markaður í klappir en með breyttum atvinnuháttum lagðist hann af.
Háibjalli.
Á kortum og í örnefnaskrám er getið um Sandakraveg eða Sandakradalsveg. Leiðin er sögð kljúfa sig út úr Skógfellsvegi á brún Stóru-Aragjár (sjá hér á eftir), sveigja til suðausturs upp að Fagradal og Fagradalsfjalli að vestanverðu og síðan áfram suður úr milli hrauns og hlíðar. Það hefur engin þjóðleið fundist á þessum slóðum en fyrir neðan Stóra-Skógfell greinist Skógfellaleiðin í tvær og liggur önnur í átt að syðri hluta Fagradalsfjalls, þ.e. Kasti. Þarna er hinn eini sanni Sandakravegur eða í það minnsta hluti hans. Til þess að ákvarða götur sem gamlar þjóðleiðir verða að finnast um þær heimildir svo og að sjást á þeim einhver mannanna verk eins og vörður, útkast eða för á klöppum.
Björn Gunnlaugsson skráði Sandakraveg inn á kort sín árið 1831 og 1844 og þar er vegurinn stikaður frá vesturenda Vogastapa (Innri-Njarðvík) yfir Skógfellahraun að Litla-Skógfelli, þaðan að syðri enda Fagradalsfjalls og síðan áfram suður úr. Lengi vel var talið að vegurinn lægi áfram frá Litla-Skógfelli eða sunnan þess vestur til Seltjarnar og svo þaðan í Njarðvík og hans var leitað á þeim slóðum en fannst ekki. Fyrir fáuum árum fannst loks vestasti hluti Sandakravegar eða sá spotti sem liggur frá Snorrastaðatjörnum og upp undir vegamót Grindavíkurvegar en þar hverfur hann í uppblástur og rask.
Þeir sem fóru um Sandakraveg á leið til Suðurnesja áðu við Snorrastaðatjarnir en ekki Seltjörn og héldu síðan yfir Bjallana og inn á Gamla-Stapaveg nálægt eða við Mörguvörður. Skógfellaleið hefur nú verið stikuð og liggur austan við Litla-Skógfell og Stóra-Skógfell sem er í Grindavíkurlandi. Skógfellaleiðin lagðist af um 1918 þegar bílvegur var lagður til Grindavíkur en enn má rekja sig eftir vörðunum alla leið “upp eftir” eins og hér var og er málvenja að segja. Skógfellaleiðin eins og hún er í dag sést fyrst á landakorti frá árinu 1910.
Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar.
Við upphaf Skógfellavegar við Stapahornið er Lágibjalli eða Litlibjalli og í framhaldi af honum til suðvesturs er Háibjalli. Hann er sá austasti af fimm slíkum sem ganga út úr Vogastapa til suðvesturs. Við Háabjalla er nokkur skógrækt. Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík hóf skógrækt sunnan undir Háabjalla árið 1949 en ári áður höfðu bændur í Vogum gefið félaginu 15 hektara lands undir starfsemina. Upp úr 1960 tók Skógræktarfélag Suðurnesja við ræktuninni og loks var reiturinn afhentur Skógræktarfélagi Íslands. Nú tilheyrir þessi 60 ára trjáreitur Skógræktar og landgræðslufélaginu Skógfelli sem stofnað var af hreppsbúum árið 1998.”
Í lýsingu Skógfellavegar segir: “Skógfellavegur er hluti gömlu þjóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Vogum, Strönd og Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, Litla-Skógfelli og Stóra-Skógfelli sem standa rétt við götuna með nokkru millibili um miðja vegu til Grindavíkur.
Nafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hluti hennar Sandakravegur, þ.e. sá hluti sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra-Skógfelli en þar eru vegamót. Sandakravegur heldur svo áfram í átt að Kasti í Fagradalsfjalli en Skógfellavegur til Grindavíkur. [Við Sundhnúk greinist Skógfellavegur hins vegar í þrjár leiðir; niður að Hrauni, að Þórkötlustöðum og að Járngerðarstöðum.]
Í sóknarlýsingu séra Péturs Jónssonar á Kálfatjörn frá árinu 1840 segir: “Norðan við Stapann liggur vegur upp í heiðina austur, er kallast Sandakravegur. Á þeim vegi mætir ofan Stapans, 3 tjarnir, sem heita Snorrastaðatjarnir.” Séra Geir Bachmann á Stað í Grindavík segir í sinni lýsingu: “Yfir þau [hraunin út frá Grindavík] liggja 4 aðalvegir, þrír þeirra til Keflavíkurkaupstaðar og einn til Hafnanna. Sá norðasti kallast Sandakravegur; liggur hann í norður útnorður út úr þeim eina alfaravegi austanmanna, sem frá Ölfusinu og Selvogi er hingað, skammt fyrir austan og ofan Hraun (bær í Grindavík), fram hjá Fiskidalsfjalli og Skógfellunum, sem öll er að vestanverðu við veginn, og kemur maður af honum ofan á Vogastapa.”
Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.
Á korti frá árinu 1910 er Sandakravegur sagður liggja frá Vogum til Grindavíkur en út úr þeirri leið við Stóru-Aragjá er merkt önnur leið, nafnlaus, og liggur sú til Fagradalsfjalls og áfram. Á nýrri kortum heitir gamla þjóðleiðin til Grindavíkur Skógfellavegur en nafnið Sandakravegur hefur færst yfir á slóðann nafnlausa (sem reyndar finnst ekki) sem fyrr er getið um. Allt um það þá er nafnið Skógfellavegur fullgilt í dag og hefur skapað sér sess í tugi ára meðal Suðurnesjamanna og útivistarfólks. Vegurinn lagðist af um 1920 þegar akvegur var lagður frá Stapanum til Grindavíkur.
Samkvæmt nákvæmum athugunum er engin gömul þjóðleið á svæðinu frá Stóru-Aragjá og að Fagradalsfjalli og því síður leiðarvörður og hefur þessi misskilningur um götu (Sandakraveg) þarna því miður fest rætur. Víst getur þó verið að þarna um hafi menn stytt sér leið yfir sumartímann og þá þeir sem voru á leið austur í sveitir frá Suðurnesjum og öfugt. Þeir sem reyna að greina þjóðleiðir í hraununum frá öðrum götum, t.d. smala- eða kindagötum, þurfa að finna nokkur mannaverk á slóðinni, t.d. hófför í klöppum, úrkast eða nokkrar vörður. Engin mannaverk – líklega ekki þjóðleið.
Skógfellavegur – skilti.
Við hefjum gönguna um Skógfellaveg rétt ofan við Reykjanesbrautuina við austasta hluta Stapans en þar er vegvísir á götuna. Gatan er nokkuð óljós framan af og vörður fáar og ógreinilegar og því var það þarft verk að stika þennan hluta leiðarinnar svo gatan tapaðist ekki alfarið. Við fylgjum stikunum og komum fljótlega að nokkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og um það austarlega liggur gatan en holtið er suðaustur af Snorrastaðatjörnum. Undir Nýjaselsbjalla austan götunnar eru litlar seltóftir undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn sitt af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni en þeir verða okkur ekki til trafala, enda auðeldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirra allra til strandar. Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir hana er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Á þessum slóðum liggur vel mörkuð leiðin nálægt austurjarðri Skógfellahrauns.
Við gerum smá lykkju á leið okkar, förum spölkorn með gjánni og skoðum Pétursborg, sem stendur á barmi Huldugjár. Borgin er gamalt sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar. Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.
Á milli Huldugjár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokuð óljós á kafla en greinileg þar sem hæun liggur yfri Aragjá. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjárbarminum.
Vörður við Brandsgjá (Aragjá).
Þegar líður á gönguna verður gatan greinilegri og næsta gjá sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grjótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar stendur myndarleg varða sem heitir Aragjárvarða. Þarna við vörðuna heitir gjáin Brandsgjá en saga hennar er eftirfarandi: Á jólaföstu árið 1911 var Brandur Guðmundsson (1862-1955) bóndi á Ísólfsskála á leið heim úr Hafnarfirði með tvo hesta og dró sú ferð dilk á eftir sér. Hann lagði á Skógfellaveginn um kl. 17:00 eftir að hafa heimsótt Bensa vins sinn í Vogum og ætlaði síðan inn á Sandakraveg og niður á Ísólfsskála. Veður versnaði þegar leið á kvöldið og lenti Brandur í umbrotafærð suður heiðina. Allt í einu gaf fönn sig undan trússhestinum og hann hrapaði ofan í Stóru-Aragjá. Þarna hafði Brandur leitt Móskjóna utan við klifið og fór að aflífa þurfti hestinn í gjánni, síðan heitir þar Brandsgjá. Brand kól mikið á fótum og varð örkulma. Í kjölfar þessa hörmulega slyss brugðu þau hjónin búi.
Fyrir ofan Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum. Á fyrsta spottanum þarna er gatan mjög djúp því grjóti hefur verið rutt úr henni í miklum mæli en þegar ofar kemur taka við sléttar klappir markaðar djúpum hófförum.
Á hægri hönd eru Krókar, hraunhólar, eða kjarri í dældum, en á vinstri hönd, spöl sunnar, er Nyrðri-Mosadalagjá. Gjáin snýr bergvegg til suðausturs og þess vegan greinum við hana ekki frá götunni. Milli hennar og Syðri-Mosadalagjár (með bergvegg til norðvesturs) er víðáttumikill misgengisdalur þakinn mosa og heitir sá Msoadalur eða Mosadalir.
Við austurrætur Litla-Skógfells þurfum við að klöngrast yfir haft af grónu apalhrauni þar sem gatan liggur en þegar yfir það er komið liðast hún “milli hrauns og hlíðar” um skriðugrjót og grasteyginga. Skógfellin bera ekki nöfnin með réttu í dag því þau eru að mestu gróðurlaus. Fyrir neðan og austan Litla-Skógfell er þó dálítið kjarr, bæði birkihríslur og víðir, og sjálfsagt hefur svæðið allt verið við vaxið endur fyrir löngu. Nú er hafi trjárækt við Litla-Skógfell á vegum skógræktarfélagsins Skógfells í Vogum. Við Litla-Skógfell endar Vatnsleysustarndarhreppur og Grindavíkurhreppur tekur við. [Hér er komið í land Þórkötlustaðabænda.]
Varða við Skógfellaveg.
Frá hlíðum Litla-Skógfells er gaman að horfa á “vörðuskóginn” framundan en á milli Skógfellanna er einkennasnauð hraunbreiða sem auðvelt væri að villast um ef ekki væru vörðurnar. Þarna standa þær þétt saman eins og menn á mósagrónu taflborði og gatan er djúpt mörkuð af þúsundum járnaðra hestahófa.
Þegar komið er langleiðina að Stóra-Skógfelli greinist Sandakravegurinn út úr til suðausturs yfir hraunið og að Sandhól.
“Eins og fyrr segir gengur Sandakravegur út úr Skógfellaleið rétt neðan Stóra-Skógfells og stefnir á Kastið og Syðri-Sandhól en hólinn stendur við rætur þess að vestan.
Leiðin þarna á milli er um 3 km. Sandakravegur virðist hafa lagst af að mestu löngu áður en hætt var að nota Skógfellaleiðina. Brandur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála notaði þó Sandakaraveginn eftir aldamótin 1900 og líklega hefur Ísólfsskálafólkið verið einu vegfarendurnir á þeim tíma enda breytt þjóðlíf með breyttum samgöngum.
Skógfellavegur.
Mikil umferð hefur verið um þessa götu fyrrum því djúp hófför sjást í klöppum og hún hefur verið vörðuð þó vörðurnar séu nú hrundar. Ef til vill hafa þær verið eyðilagðar af mannavöldum til þess að fólk villtist ekki af Skógfellaleið yfri á Sandakraveg. Þarna gæti verið komin skýring á nafnbreytingunni því líklegt er að sú leið sem mest var farin í upphafi, þ.e. Sandakravegurinn, hafi verið aðalleið austanmanna milli Fagradalsfjalls og Stapans. Leiðin sem lá til Grindavíkur hefur frekar verið aukavegur út frá alfaraleið en skipt svo um hlutverk við Sandakraveginn á seinni tímum.
Sandhólar er örnefni vestan Fagradalsfjalls og austanmenn hafa lagt á hraunið við Syðri-Sandhól. Eki er ólíklegt að fleiri örnefni tengd sandi, s.s. Sandakrar, hafi verið á þessum slóðum.”
Til gamans geta göngumenn leikið sér að því að telja vörðurnar frá Litla-Skógfelli að gatnamótunum en þær eru 22. Sandakravegurinn þarna er fallegur, djúpt markaður og skoðunarverður.
Vestan við Stóra-Skógfell er Gíghæð og er stutt ganga frá fellinu í gígana og þá um leið yfir á Grindavíkurveg. Á henni er Arnarsetur, gígur Arnarseturshrauns frá árinu 1226. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska, s.s. Sandhól og Kast. Görnin er handan Kasts.
Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.
Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri gígaröð, Sundhnúksgíginn, sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðalgígurinn og stendir hann norðan við Hagafel. Þegar komið er fram hjá Hagafelli að austanverðu fer að halla undan til Grindavíkur og spölkorn neðar greinist leiðin til “allra átta” um gamalgróin hraun niður til bæja.
Göngferð eftir Skógfellaveginum tekur 5-6 stundir með hvíldum og trúlega er skemmtilegra að ganga hann frá suðri til norðurs því útsýni er á víðáttumeira og spannar lengri tíma ferðarinnar.”
Framangreind lýsing er ágæt, en sem göngulýsingu má bæta hana verulega. Í fyrsta lagi er “betra” að ganga Skógfellaleiðina eins og henni er lýst hér að framan – frá Vogum til Grindavíkur. Tilbreytingalausasti og langdregnasti kaflinn er í raun Vogakaflinn. Leiðin er grjótþakin og liggur í ótal hlykki um móa og gróið Þráinnskjaldarhraunið. Tilbreytingin felst í gjánum, sem hver tekur við af annarri; fyrst Huldugjá (Huldugjárvarðan) með Pétursborg ofanvert, þá Litla-Aragjá (varða) og Stóra-Aragjá (Brandsgjá) (Aragjárvarða). Reyndar eru vörðurnar tvær ofan við Brandsgjá (Stóru-Aragjá). Milli gjánna er hvalbak, ummerki elsta bergsins (um 200.000 ára) á svæðinu er annars má sjá á Stapanum neðra. Á því má sjá jökulrispur ísaldarskeiðsins.
Við vörðu (þar sem gatan beygir til suðurs) má, ef grant er skoðað, sjá gamla götu. Hún er torséð, en þegar komið er að brún Nyrðri-Mosadalagjár svolítið norðar, smá sjá hvar gata hefur legið niður með gjánni og síðan hlykkjast um Mosadal[i] að Syðri-Mosadalagjá. Syðst við gjárvegginn þar er gata upp á gjárbraminn. Þar beygir hún til norðausturs, inn á svonefnda Aura. Þar er varða. Um Aurana hefur leiðin legið inn í Fagradal og áfram suður með vestanverðu Fagradalsfjalli. Þarna getur verið kominn misskilningurinn um Sandakraveginn á þessum slóðum, en að öllum líkindum hefur hér verið um undantekningalegan stytting að ræða hjá kunnugum eins og fram kemur í lýsingu SG. Bæði í Mosadal og ofan við Syðri-Mosadalagjá er leiðin hins vegar ótrúlega greið inn að Nauthólum í Fagradal. Gæti það hafa valdið því að einhver hefur viljað færa álitlegan veginn þangað og ekki vitað betur um raunverulega legu hans inn á milli Skógfellanna.
Þegar Skógfellavegurinn (Sandakravegurinn) er skoðaður milli Skógfellanna má annars vegar sjá vel markaða götu í slétta hraunhelluna og hins vegar engin ummerki eftir slíkt. Ástæðan eru “vörðuskógurinn”. Vörður þessar voru endurhlaðnar af vinnuskólaunglingum fyrir u.þ.b. 10-12 árum síðan.
Svo virðist sem vinnugleði hafi gripið hópinn á stundum. Sumar vörðurnar eru ekki hlaðnar við hina gömlu götu, heldur mun vestar. Síðan hefur fólk fetað leiðina með vörðunum og markað nýja. Hin forna þjóðleið liggur nú á köflum í grámosanum úrleiðis. Þörf væri á að marka gömlu götuna í mosann með það fyrir augum að endurheimta hana þar sem hún er raunverulega mörkuð í hraunhelluna. Um er að ræða dýrmætar minjar, sem helst mega ekki fara forgörðum vegna athyglis- og/eða áhugaleysis hlutaðeigandi yfirvalda.
Á merktum stikum við Skógfellaveginn (Sandakraveginn) er t.d. komið að gatnamótum, annars vegar Skógfellavegar og hins vegar Sandakravegar. Í raun eru gatnamótin nokkru norðar. Það sést vel á hinum grópuðu götum. Af ummerkjum að dæma er ljóst að Sandakravegurinn hefur verið meginleiðin, allt frá Vogum, og áfram áleiðis að Ísólfsskála (Selatöngum). Sunnan gatnamótanna hverfa grópanirnar og því má ætla að sú leið hafi verið áfangi inn á meginleiðina gömlu.
Handan, í austri, er Kastið. Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar 4. maí árið 1943, kl. 16:20. Flugvélin var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl ofan við Keflavík. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Hlutar flugvélarinnar eru á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Flugvélin skall á hlíðinni ca. 1/5 neðan við efstu brún. Þar má sjá leifar, s.s. bráðið ál utan um grjótmola, en hlíðin öll er skriða með litlum steinhnullungum. Þarna neðan við og til hliðanna má sjá ýmsa vélarhluta.
Um borð í vél þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum.
Á slysstað í Kastinu.
Eftirminnilegar ljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.
Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.
Flugvélin hafði verið að koma frá Bretlandi. Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Flugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs. Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.
Andrews – minnismerki.
Í febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., “Hap” Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.
Árið 2001 var haldin minningarathöfn þarna á staðnum. Til stendur að setja þar upp minnismerki um atburðinn.
Undir hlíðum Litla-Skógfells má sjá breiður af brönugrasi. Birkið hefur tekið við sér að nýju eftir sauðfjárfriðun svæðisins svo segja má að lengi lifi í gömlum glæðum.
Skógfellavegur – kort ÓSÁ.
Undir Sundhnúkagígaröðinni sunnan Stóra-Skógfells tekur við Sprengisandur. Dalahraun er austar. Vatnshæðin (-heiðin) er sunnar. Um er að ræða dyngjuhæðir vestan Fiskidalsfjalls og Húsafjalls. Sunnan Sprengisands eru þrenn gatnamót; leið að Hrauni, leið að Þórkötlustöðum og leið að Járngerðarstöðum, hver önnur álitlegri. Þó má segja, án allrar hlutdrægni, að leiðin niður að Þórkötlustöðum er bæði sú greiðasta og fallegasta á leiðinni.
Heiðarvarðan, ein af þremur innsiglingavörðum inn í Hópið blasir við neðanvert. Hún hafði fallið að hluta, en FERLIRsfélagar endurreistu hana fyrir nokkur árum.
Frábært veður.
Heimild m.a.:
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 2007
Skógfella- og Sandakravegur.