Færslur

Skógfellavegur

Skógfellavegur er hluti gamallar þjóðleiðar milli Voga og Grindavíkur og dregur nafn sitt af Litla- og Stóra-Skógfelli sem standa stutt frá veginum. Á leiðinni, nærri Grindavík skiptist vegurinn og liggur annar í austurátt og nefnist Sandakravegur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – vörðukort (ÁH).

Skógfellavegur er auðfundinn. Hann er varðaður með 99 vörðum, misjafnlega vönduðum, og sumstaðar má sjá djúp hófför í hraunklöppum. Það tíðkaðist einnig áður fyrr að grjóti væri kastað úr vegstæði þegar farið var um leiðina. Úrkast má sjá víða á leiðinni. Vegurinn er stikaður og hver stika gps merkt og skráð hjá Neyðarlínunni.
Leiðin einkennist af hraunbreiðum, bæði úfnum og sléttum, mosagrónum og gróðursnauðum. Leiðin er skemmtilega fjölbreytt og gaman að ímynda sér alla ferðalangana sem þar hafa farið um síðustu 900 árin eða svo.
Leiðin er um 16 km. og tekur um 4-6 tíma í göngu.

Sandakravegur liggur nú, líkt og Skógfellavegurinn, að hluta undir nýrunnu hrauni, eða allt að landamerkjum Voga hjá “Stóra steininum við Gömlu götuna”. Sandakravegur lá af Skógfellavegi en vegurinn var aðeins fálega varðaður. Ef marka má djúp för í hraun klöppunum eða veginum má ætla að hann hafi verið fjölfarinn. Vegurinn endaði hjá Ísólfsskála í Grindavík. Var það aðallega heimilisfólkið í Ísólfsskála og gestir þess sem stytti sér leið um Sandakraveg. Hófaför sáust í klöppum og á leiðinni eru gerði fyrir hesta og kindur. Einhverjar vörður voru á svæðinu en þær líklegast skemmdar af mannavöldum til að koma í veg fyrir að fólk villtist á Sandakraveg af Skógafellsleiðinni.

Skógfellavegur – leiðarlýsing frá 2020

Skógfellavegur

Skógfellavegur – hnitsetning.

Gengið var um Skógfellaveg frá Vogum til Grindavíkur. Þessi gamla þjóðleið milli byggðalaganna var einnig nefnd Vogavegur. Skógfellavegur er hluti gömlu þjóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, sem hann liggur framhjá að austanverðu, Litla- og Stóra Skógfelli. Þau eru við götuna um miðja vegu til Grindavíkur. Nafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hluti hennar Sandakravegur. Sumir telja það þann hluta leiðar, sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra- Skógfelli, en þar eru vegamót. Aðrir telja Sandakraveginn hafa legið með Fagradalsfjalli með Görninni og Kastinu um Nauthólaflatir skammt vestan Dalsels og þaðan um sléttar sandflatir niður í Mosa um Grindavíkurgjá og á Skógfellaveginn skammt ofan við Brandsgjá. Þannig er leiðin sýnd á kortum eftir aldamótin 1900.
Gangan inn á Skjógfellaveginn hófst við skilti skammt ofan Reykjanesbrautar, skammt austan við Háabjalla. Bílastæði eru skammt austan við skiltið. Gatan er nokkuð óljós framan af en úr því rætist fljótlega. Leiðin hefur nú verið stikuð að Litla-Skógfelli af áhugagönguhópi á Suðurnesjum.

Skógfellavegur

Skógfellav. – hnitsetning.

Skammt sunnan við Reykjanesbrautina er gengið fram á sprungu sem heitir Hrafnagjá. Þarna við Skógfellaveginn lætur hún lítið yfir sér en þegar austar dregur er hún mjög falleg og tilkomumikil og þar er gjábarmurinn hæstur og snýr á móti suðri. Í gjárveggnum er hrafnslaupyr. Hrafnagjá nær alla leið niður á túnið á Stóru-Vatnsleysu. Þar í er svonefnt Magnúsarsæti með áletrunum. Þegar götunni er fylgt áfram er komið að nokkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og liggur gatan yfir austurhluta þess. Skammt austan götunnar, áður en komið er upp á bjallann, eru litlar seltóftir, Nýjasel, undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni, auðveldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirra allra til norðurs. Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir gjána er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Þarna liggur vel mörkuð leiðin nálægt austurjaðri Skógfellahraunsins.
Áhugavert er að gera smá lykkju á leiðina austur með gjánni og skoða Pétursborg sem stendur á barmi Huldugjár. Fjárborgin stendur nokkurn spöl austan vegarins yfir gjána. Pétursborg er gamalt sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904) en hann er sagður hafa hlaðið borgina.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – varða við Aragjá.

Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.

Á milli Huldugjár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokkuð óljós á kafla en hefur verið stikuð en gatan er skýrari þar sem hún liggur yfir Aragjána. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjábarminum. Þegar líður á verður gatan greinilegri og næsta gjá á leiðinni sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grjótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar er varða sem heitir Aragjárvarða en gjáin þarna við vörðuna heitir Brandsgjá.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – “Stóri (landamerkja)steinninn við Gömlu götuna”.

Eftirfarandi er frásögn um atvik sem henti á þessum stað: Á jólaföstu árið 1911 var Brandur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála (1862-1955) á leið heim úr Hafnarfirði og dró sú ferð dilk á eftir sér. Hann lagði á Skógfellaveginn og ætlaði síðan inn á Sandakraveginn og niður að Ísólfsskála. Veður versnaði er leið á daginn og lenti Brandur í umbrotafærð suður heiðina. Allt í einu gaf fönn sig undan hestinum og þeir hrösuðu ofan í Stóru-Aragjá. Þarna hafði Brandur leitt hestana utan við klifið og svo fór að bæði hrossin þurfti að aflífa á staðnum. Síðan heitir þarna Brandsgjá. Brand kól mikið á fótum og var á Keflavíkurspítala í nokkra mánuði eftir slysið.

Landamerki

Leiðrétt landamerki Voga og Grindavíkur m.v. landamerkjalýsingu.

Þegar komið er upp fyrir Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum. Á fyrsta spottanum þarna er gatan mjög djúp því grjóti hefur verið rutt úr henni í miklum mæli en þegar ofar kemur taka við sléttar klappir markaðar djúpum hófförum.
Á hægri hönd eru Krókar, hraunhólar með kjarri í dældum, en á vinstri hönd, spöl sunnar, er Nyrðri-Mosadalagjá. Gjáin snýr bergvegg til suðausturs og þess vegna er erfitt að greina hana frá götunni. Milli hennar og Syðri-Mosadalagjár (með bergvegg til norðvesturs) er víðáttumikill misgengisdalur, þakinn mosa, og heitir sá Mosdalir eða Mosadalir. Við austurrætur Litla-Skógfells þarf að klöngrast yfir smá haft af grónu apalhrauni þar sem gatan liggur en þegar yfir það er komið liðast hún „milli hrauns og hlíðar” um skriðugrjót og grasteyginga. Skógfellin bera ekki nöfnin með réttu í dag því þau eru að mestu gróðurlaus.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Reykjanesskaga 1831.

Fyrir neðan og austan Litla-Skógfell er þó dálítið kjarr, bæði birkihríslur og víðir, og sjálfsagt hefur svæðið allt verið viði vaxið endur fyrir löngu. Við Litla-Skógfell endar Vatnsleysustrandarhreppur og Grindavíkurhreppur tekur við.
SkógfellavegurFrá hlíðum Litla-Skógfells er gaman að horfa á „vörðuskóginn” framundan en á milli Skógfellanna er einkennasnauð hraunbreiða sem auðvelt væri að villast um ef ekki væru vörðurnar. Þarna standa þær þétt saman eins og menn á mosagrónu taflborði og gatan er djúpt mörkuð af þúsundum járnaðra hesthófa.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – Litla-Skógfell framundan.

Þegar komið er langleiðina að Stóra-Skógfelli greinist Sandakravegurinn út úr til suðausturs yfir hraunið og að Sandhól. Til gamans geta göngumenn leikið sér að því að telja vörðurnar frá Litla-Skógfelli að gatnamótunum en þær eru 22. Sandakravegurinn þarna yfir er fallegur, djúpmarkaður og skoðunarverður.
Vestan við Stóra-Skógfell er Gíghæðin og er stutt ganga frá fellinu yfir í gígana og þaðan yfir á Grindavíkurveginn. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska s.s. Sandhól og Kastið.

Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri gígaröð, Sundhnúksgígum, sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Gatan er slétt og sendin á kafla. Heitir þar Sprengisandur. Þegar komið er framhjá Hagafelli, þar sem í eru Gálgaklettar, að austanverðu fer að halla undan til Grindavíkur og spöl neðar greinst leiðin til „allra átta” um gamalgróið hraun niður til bæja. Í Gálgaklettum eru þeir þjófar sagðir hengdir, sem handamaðir voru á Baðsvöllum, en höfðu hafst við í Þjófgjá í Þorbjarnarfelli og herjað á Grindvíkinga.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Skógfellavegur

Útsýni af Skógfellavegi að Stóra-Skógfelli, Sýlingarfelli og Þorbirni.

Ómar Smári

Sandakravegur liggur nú að hluta undir nýrunnu hrauni austan Sundhnúks. Gosið hófst 18. desember. Vegurinn var gamall þjóðvegur milli Grindavíkur og Voga á Vatnsleysuströnd og mátti greina fornan slóða í hrauninu.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Skógfellavegur er gamall þjóðvegur milli Voga og Grindavíkur. Út frá honum lá Sandakravegur en er hann nú einnig að hluta undir hrauni.

„Í gær var þetta til, nú er þetta horfið,“ segir Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur um minjar sem nú liggja undir nýju hrauni sem runnið hefur úr gossprungunni við Sundhnúkagíga frá því í gærkvöldi. Ómar Smári er Grindvíkingur sem þekkir sögu og umhverfi bæjarins vel, auk þess að vera einn helsti sérfræðingur landsins um minjar og gönguleiðir á Reykjanesi.

Skógfellavegur er gamall þjóðvegur milli Voga og Grindavíkur. Vegurinn er um það bil 16 kílómetra langur. Vörður voru hlaðnar alla leiðina og í seinni tíð var leiðin stikuð. Út frá Skógfellastíg er gönguleiðin Sandakravegur. Sá vegur er nú kominn að stórum hluta undir hraun.

Skógfellavegur

Skógfellavegur við hraunbrúnina að norðanverðu.

Eldgosið „á kórréttum stað“ en kemur upp á „verstu sprungu sem gat gosið á“
Sandakravegur lá af Skógfellavegi en vegurinn var aldrei varðveittur. Ef marka má djúp för í hraun klöppunum eða veginum má ætla að vegurinn hafi verið fjölfarinn. Vegurinn endaði hjá Ísólfsskála í Grindavík. Var það heimilisfólkið í Ísólfsskála sem stytti sér leið um Sandakraveg. Hófaför sáust í klöppum og á leiðinni eru gerði fyrir hesta og kindur. Einhverjar vörður voru á svæðinu en þær líklegast skemmdar af mannavöldum til að koma í veg fyrir að fólk villtist á Sandakraveg af Skógafellsleiðinni. Vegurinn hefur ekki verið merktur formlega inn á nein kort.

Heimild:
-Heimildin, 19. desember 2023, Gömlu þjóðleið horfin undir hraun – Katrín Ásta Sigurjónsdóttir.

Skógfellavegur

Nýja hraunið, Skógfellavegur og Sandakravegur.

Sandakravegur

Gengið var um Skógfellaveg, beygt út af veginum skammt ofan við Stóru-Aragjá (Brandsgjá) og haldið upp Mosadal vestan við Kálffellið, upp fyrir Mosadalsgjá og áfram um sandsléttur norðvestan Nauthóla. Síðan var slóðinni fylgt suður með Fagradalsfjalli allt að Drykkjarsteinsdal. Þaðan var götu fylgt til vesturs yfir hraunið og komið inn á Skógfellaveg skammt norðan við Stóra-Skógfell.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Þegar farið var út af Skógfellaveginum ofan við Brandsgjá og haldið inn á tiltölulega slétt mosahraunið var erfitt að álykta hvar svonefndur Sandakravegur gæti hafa legið þar um.
Í hrauninu ofan við slóðann má sjá örla fyrir gömlum götum, en mosinn er víða búinn að færa þær í kaf. Þegar gengið var niður af brún Grindavíkurgjár var ekki auðvelt að sjá hvar gatan gæti hafa legið um, en þar er þó ekki erfitt að fara um, t.d. með hesta. Mosadalur ber nafn með réttu. Hann er nokkuð sléttur og greiðfær. Þegar komið var að Mosadalsgjá var leitað að hugsanlegri leið upp úr dalnum, en einnig þar var erfitt að greina hana við gjárbarminn. Ofar tekur við gróið hraun. Þar gæti vegurinn hafa legið svo til hvar sem er. Ekki var að sjá vörðubrot á þeirri leið. Enn ofar tekur við slétt sandslétta, alveg upp að Nauthólum. Þetta svæði ofanvert hefur verið vel gróið fyrrum, en mikil landeyðing hefur átt sér stað.

Dalssel

Dalssel.

Dalsselið kúrir þarna á grasbakka innst í Fagradal. Þegar dalnum sleppir er leiðjn nokkuð greiðfær milli Fagradalsfjalls og hraunsins vestan þess. Sums staðar í hrauninu, ofan við hraunbrúnina, mótar fyrir götum.
Vestan við Kastið sést gatan vel í hrauninu og einnig suðvestan við Einbúa. Þar sést hvar kastað hefur verið upp úr götunni á allnokkrum kafla.
Sumir segja, og hafa stutt það með seinni tíma kortum, að Sandakravegur hafi legið af Skógfellavegi rétt ofan við Brandsgjá, um Mosadali og Nauthólaflatir, með Sandholti innri, Sandhól, Kastið og Borgafjall og um Drykkjarsteinsdal. Aðrir segja að vegurinn liggi um Dalahraun, um Beinvörðuhraun norðan Hrafnahlíðar með stefnu í Drykkjarsteinsdal. Reyndar er gata þar yfir hraunið, mest áberandi vestan dalsins. Kemur hún inn á leið, sem sýnir Sandakraveg liggja til norðurs á kortunum.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Á kortum og í örnefnaskrám er, sem fyrr sagði, getið um Sandakraveg eða Sandakradalsveg. Sú leið er sögð í seinni tíð kljúfa sig út úr Skógfellaleiðinni á brún Stóru-Aragjár (Brandsgjár), sveigja til suðausturs áfram suður úr upp að Fagradal og Fagradalsfjalli að vestanverðu yfir í Drykkjarsteinsdal.
Einnig liggur gata frá Drykkjarsteinsdal yfir hraunið að Stóra-Skógfelli og kemur inn á Skógfellaveg skammt norðan við fellið. Hún hefur einnig verið nefnd Sandakravegur. Þar er varða á hraunbrún, auk þess sem reistar hafa verið upp sléttar hellur með götunni á kafla. Í raun hefur greiðasta leiðin með hesta af Skógfellavegi inn að Drykkjarsteinsdal og þar með gömlu þjóðleiðina austur til Krýsuvíkur, verið um Mosadalina, upp úr þeim um sandsléttuna norðvestan Nauthóla og síðan með Fagradalsfjalli áleiðis að Drykkjarsteinsdal. Á þessari leið er kastað duglega upp úr götunni og þar er gerði fyrir hesta eða fé sunnan Einbúa. Ekki sést þó móta fyrir götu upp úr Mosadölum, en hún ætti að sjást enn á brúnunum. Hins vegar er hin leiðin, af Skógfellavegi norðan Stóra-Skógfells, mun styttri og greiðfærari, t.d. fyrir fótgangendur. Þar, sem og á þessum hluta Sandakaravegar, er gatan mörkuð djúpt í klöppina á löngum kafla.
Sandakravegur hefur einnig verið nefndur Sandhalavegur. Skýringin er sennilega sú að hólar voru stundum nefndir “halar” sbr. Hrísahali (Hríshólar) ofan við Garð. Sandhólar eru við Sandakraveg og gætu þeir hafa verið nefndir “Sandhali”.
Hvað sem öllu líður er ljóst að báðar þessar leiðir hafa verið farnar fyrrum, en hver nöfnin á þeim hefur verið, verður væntanlega seint vitað með vissu.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Vegavinnubúðir

Á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar frá 1831 er Sandakravegur sýndur milli Voga-Stapa og Slögu ofan við Ísólfsskála.
Kort Björns frá 1831Skv. uppdrættinum ætti vegurinn að hafa legið yfir norðanvert Arnarseturshraun að Litla-Skógfelli. Ætlunin var að skoða hraunssvæðið norðvestan Litla-Skógfells og rekja Sandakraveginn, sem markaður er í slétta hraunhelluna, frá Skógfellinu að Sandhól og til baka niður frá norðanverðu Litla-Skógfelli að Snorrastaðatjörnum (Vatnsgjám) austan Háabjalla. Gatan hafði áður verið rakin niður (suður) frá Voga-Stapa (skammt austan fyrsta akvegarins til Grindavíkur 1913-1918), um Selbrekkur (Sólbrekkur) og áfram undir aðliggjandi vestlægum grónum brúnum Háabjalla. Þar beygir gatan til austurs að Snorrastaðatjörnum. Spurningin var, sem eftir stóð, ef tekið er mið af uppdrættinum fyrrnefnda, hvort leið hafi legið yfir Arnarseturshraunið norðanvert eður ei.
Þegar Björn Gunnlaugsson hóf landmælingar sínar á Íslandi var ákveðið að fjárveiting hans yrði aðeins til eins árs og bundin því skilyrði að hann byrjaði á Gullbringu- og Kjósarsýslu. Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar. Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á það og ákveðið var að styrkja Björn áfram. Við áframhald verksins þurfti Björn að fá kortið af Gullbringu- og Kjósarsýslu aftur vegna tengingar þess við síðari kort. Í stað þess að fá sent frumkortið fékk hann hins vegar í hendur handdregnar eftirmyndir þess. Ekki er vitað til annars en að kortin séu nákvæm eftirgerð af korti Björns, en frumgerðin er enn í Kaupmannahöfn. Ef litið er nánar á þau sést vel hvernig Björn hefur lagt sig fram um draga upp sem flest fjöll inn til landsins en þau höfðu strandmælingamenn alveg skilið eftir. [Taka verður þó mið af nákvæmari staðsetningum síðari tíma og munar stundum töluverðu].
Gata að vegavinnubúðunumBjörn hafði lokið háskólaprófi í stærðfræði við mjög góðan orðstír og unnið um skeið að landmælingum erlendis. Hann var kennari við latínuskólann á Bessastöðum. Árið 1829 ritaði Björn stiftsyfirvöldum og mæltist til að Danir létu Íslendingum eftir landmælingaáhöld þau er notuð voru við strandmælingarnar. Í bréfinu segist hann oft vera beðinn um að mæla ýmislegt og þægilegt væri að hafa áhöldin við höndina. Þessari ósk Björns var ekki sinnt. Hið íslenska bókmenntafélag skarst þá í leikinn og ákvað eftir nokkuð hik árið 1831 að verja ákveðinni upphæð til mælinga á landinu öllu. Stiftamtmaður var beðinn um að hlutast til um það að mælingatækin og eftirmyndir strandkortanna yrðu látin af hendi og varð hann við því. Birni Gunnlaugssyni var falið verkið en fjárveitingin var aðeins til eins árs til að byrja með og bundin því skilyrði að mælingin hæfist í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um áframhald verksins skyldi svo fara eftir árangri fyrsta sumarsins.

Gerði við vegavinnubúðirnar

Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar til þess að hægt yrði að gera myndamót af því. Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á kortið og ákveðið var að halda mælingunum áfram. Björn vann að verkinu árin 1831-1843 að sumrinu 1836 undanskildu. Hann mun hafa ferðast rúma 700 daga á mælingaleiðangrum sínum. Árið 1836 rættist úr fjárhagsáhyggjum þeirra er stóðu að mælingunum er rentukammerið ákvað að veita Birni árlegan styrk.
Í upphafi hafði áætlunin verið sú að mæla hverja sýslu fyrir sig og búa til sérkort af þeim en vegna mikils kostnaðar var hætt við það og ákveðið að búa til heildarkort af Myndanir í Arnarseturshraunilandinu á fjórum blöðum. Forstöðumanni landmælingadeildar herforingjaráðsins, Olaf Nikolas Olsen, var falið að sjá um útgáfu kortsins í Danmörku. Í hans hlut kom að taka við svæðakortum frá Birni, tengja þau saman og minnka þau síðan í rétta stærð. Vegna minnkunarinnar varð að fella niður fjölda örnefna sem Björn hafði tekið til, velja úr þeim og bæta inn nýjum nöfnum ef ástæða þótti til. Á kortinu stendur að það sé gefið út 1844 en það varð líklega ekki tilbúið fyrr en fjórum árum síðar. Kortið er gert í keiluofanvarpi, mælikvarðinn er 1:480.000 og lengdarbaugar miðaðir við Kaupmannahöfn. Nafnið stendur á suðausturkortinu en á titilblaði sem fylgir er það nokkuð stytt. Þar eru einnig skýringar á merkjum, stutt greinargerð um útgáfuna og frönsk þýðing.
Þegar Olsen fór að sjá fyrir endan á vinnunni við fjögurra blaða kortið byrjaði hann á öðru og handhægara Íslandskorti í helmingi minni mælikvarða. Kortið kom sennilega ekki út fyrr en 1850 þó á því standi útgáfuárið 1849. Mælikvarði er 1:960.000 og ofanvarp hið sama og á stærra kortinu. Uppdrátturinn er aðeins minnkuð eftirmynd Í Arnarseturshraunistærra kortsins með færri nöfnum. Þó að sami maður hafi séð um eirstunguna á báðum kortunum er hinn minni lakar gerður. Þar veldur mestu um að Olsen hefur leitast við að taka upp það marga landslagsþætti frumgerðarinnar að öllu hættir til að renna saman. Nöfn eru líka oft með það smáu letri að erfitt er að lesa þau. En kortið kostaði hins vegar aðeins þriðjung af verði stóra kortsins. Útgáfa kortanna var mjög dýr, kostnaðurinn mun hafa numið tífaldri þeirri upphæð sem Bókmenntafélagið greiddi Birni Gunnlaugssyni í beinan ferðakostnað á tólf árum.
Mæling og kortagerð Björns Gunnlaugssonar var mikið vísindalegt afrek. Í fyrsta skipti var fenginn sæmilegur uppdráttur af landinu öllu. Þó að eldri heildaruppdrættir, byggðir að nokkru leyti á mælingum, væru til voru þeir oft fjarska handahófskenndir og ónákvæmir. Björn studdist við strandkortin eins langt og þau náðu. Hann fór um allar byggðir landsins í mælingaleiðangrum sínum en ferðaðist hins vegar lítið um óbyggðir. Um sum svæði varð hann að treysta frásögnum kunnugra. Miðhálendið hefur mætt afgangi en útlit þess er þó mikil framför frá fyrri kortum.
SandakravegurKortið var hið fyrsta sem menn gátu notað til þess að gera sér sæmilega grein fyrir staðsetningu byggða og útbreiðslu jökla, hrauna og fjallþyrpinga. Meiri háttar fljót voru rakin til upptaka og stöðuvötn mörkuð af meira raunsæi en áður.

Flóraður stígur um Stóru-Aragjá

Kort Björns Gunnlaugssonar er ekki laust við villur en við öðru var ekki að búast miðað við að hann fór ekki um allt landið og vann verkið einn og aðstoðarlítið með frumstæðum tækjum. Við bágar aðstæður lagði Björn undirstöðu sem aðrir byggðu á uns skipulegar mælingar hófust upp úr aldamótum og þá í miklu stærra sniði.
Með framangreint að leiðarljósi var byrjað að leita að mögulegum götum þvert í gegnum norðanvert Arnarseturshraun. Greiðfærasta svæðið var hins vegar sunnan við eðlilega leið millum Voga-Stapa og Litla-Skógfells.
Þegar komið var yfir að Litla-Skógfelli var þegar haldið inn á Sandakraveginn. Millum Skógfellanna er gatan djúpt mörkuð í slétta hraunhelluna.

Byrgi refaskyttu

Sandakravegur er vel markaður í hraunhelluna áleiðis að Litla-Skógfelli. Þá hverfur hún skyndilega í mosann. Vörðurnar, sem nú eru, virðast hafa komið til seinna. Vegurinn virðist hafa legið beint að miðju fellinu, enda þar verið hinn ákjósanlegasti áningarstaður. Síðan hefur hann legið með fellinu til austurs og inn á núverandi Skógfellastíg. Þegar staðið er uppi á Litla-Skógfelli og horft yfir undirlendið til norðurs mátti glögglega sjá hvar “eðlilegasta” leiðin hefur legið; annars vegar eftir Skógfellastígnum og hins vegar niður með austanverðum hraunkanti Arnarseturshrauns áleiðis að Snorrastaðatjörnum. Líklega hefur sú leið fremur verið valin af kunnugum. Um er að ræða bæði gróna og slétta leið, ýmist með hraunkanti og/eða gjám. Þessi leið er svolítið styttri en t.a.m. núverandi Skógfellastígur, sem liggur niður í Voga. Sandakravegurinn lá hins vegar ekki niður í Voga, heldur var leið milli Njarðvíkna og Skála. Leiðirnar koma þó aftur saman á öðrum stað, þ.e. skammt austan Snorrastaðatjarna. Þar liggur gata sú, sem fylgt hafði verið niður með hraunkantinum og niður um gjár, inn á Skógfellaveginn og fylgir honum síðan á u.þ.b. 100 metra kafla. Þá eru aftur gatnamót þar sem Sandakravegurinn af Skógfellavegi áleiðis niður að miðjum Snorrastaðatjörnum að austanverðu.
Varða við SandakraveginnÞegar “Skógfellastíg” var fylgt yfir hraunhaft norðan Litla-Skógfells var komið að stórri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá af stígnum niður með gróinni hraunbrúninni. Auðvelt var að rekja götuna niður sléttu og um gjár. Á brún Stóru-Aragjá (Brandsgjá) var t.a.m. varða. Við hana var gatan flóruð, þrep fyrir þrep, niður gjána. Þaðan lá hún glögglega niður að austanverðum Snorrastaðatjörnum. Niður Litlu-Aragjá var gengið um gróið haft og götunni síðan fylgt áfram áleiðis að tjörnunum. Þegar komið var að austustu tjörninni virtist gatan hafa legið yfir hana (nú var reyndar óvenjumikið vatn í tjörnunum). Handan hennar sást gatan vel. Vestan veið núverandi skátaskála er vestasta tjörnin hvar mjóst. Þar er og grynnst. Gatan liggur að þeim  stað og sást síðan vel handan hans. Þaðan lá gatan að vestanverðum undirlátum Háabjalla, áleiðis að norðanverði Seltjörn og síðan upp heiðina að Voga-Stapa.
Gengnir voru 12 km og margt gaumgæft. Ljóst er að á leiðinni milli Litla-Skógfells og Snorrastaðatjarna eru nokkrar mosagrónar vörður er vísa leiðina. Svo var að sjá að ferðalangar hafi ekki lagt í Arnarseturshraunið með öllum þeim varnöglum er það hafði upp á að bjóða. Þeir virtust hafa farið öruggu leiðina, með gróningum og hraunköntum, þvert á Snorrastaðatjarnir – þar sem þær eru grynnstar. Leiðin í heild hefur verið nokkuð greiðfær og nánast hindrunarlaus. Á leiðinni að tjörnunum var gengið fram á tvö hlaðin byrgi refaskyttna nálægt grenjum.
Af framangreindu má sjá að uppdregin leið Björns Gunnlaugssonar af Sandakravegi millum Slögu og Voga-stapa, hefur verið nokkuð nærri lagi. Ljóst er að á þeim “scala”, sem umræddur uppdráttur er, hefur verið erfitt að teikna leiðina með mikilli nákvæmni, en þegar hún er skoðuð “í heildina litið” má telja nokkuð víst að leiðin hafi legið um Snorrastaðatjarnir.
Frábært veður. Gangan tók 4. klst og 44 mín.
Heimildir m.a.:
-http://kort.bok.hi.is/kort.php?a=g&cat=8

Snorrastaðatjarnir (Vatnsgjár)

Litla-Skógfell

Stefnan var tekin á Skógfellaveginn, gamla þjóðleið milli Voga og Grindavíkur. Vegarkaflinn er u.þ.b. 16 km langur, en greiðfær og augljós, enda er hann bæði varðaður alla leiðina og auk þess hefur hann verið stikaður í seinni tíð.
Í bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, er m.a. fjallað um Skógfellaveginn. VarðaÞar segir: “Í lægðinni við Stapahornið og ofanvið Reykjanesbrautina [nú ofan gangna undir brautina] sjáum við fyrst móta fyrir Skógfellavegi sem var fyrrum þjóðleið til Grindavíkur. Í heimildum ber leiðin eftirfarandi nöfn: Skógfellavegur, Skógfellsvegur, Vogavegur (það nafn notuðu Grindvíkingar), Sandakravegur, Sandakadalsvegur og Sandhálsavegur. Af Suðurlandi og víða var öldum áður sótt skreið til Suðurnesja og menn fóru þangað í fiskiver. Á þeim tímum var Sandakravegur notaður enda djúpt markaður í klappir en með breyttum atvinnuháttum lagðist hann af.

Háibjalli

Háibjalli.

Á kortum og í örnefnaskrám er getið um Sandakraveg eða Sandakradalsveg. Leiðin er sögð kljúfa sig út úr Skógfellsvegi á brún Stóru-Aragjár (sjá hér á eftir), sveigja til suðausturs upp að Fagradal og Fagradalsfjalli að vestanverðu og síðan áfram suður úr milli hrauns og hlíðar. Það hefur engin þjóðleið fundist á þessum slóðum en fyrir neðan Stóra-Skógfell greinist Skógfellaleiðin í tvær og liggur önnur í átt að syðri hluta Fagradalsfjalls, þ.e. Kasti. Þarna er hinn eini sanni Sandakravegur eða í það minnsta hluti hans. Til þess að ákvarða götur sem gamlar þjóðleiðir verða að finnast um þær heimildir svo og að sjást á þeim einhver mannanna verk eins og vörður, útkast eða för á klöppum.

Skófellavegur

Björn Gunnlaugsson skráði Sandakraveg inn á kort sín árið 1831 og 1844 og þar er vegurinn stikaður frá vesturenda Vogastapa (Innri-Njarðvík) yfir Skógfellahraun að Litla-Skógfelli, þaðan að syðri enda Fagradalsfjalls og síðan áfram suður úr. Lengi vel var talið að vegurinn lægi áfram frá Litla-Skógfelli eða sunnan þess vestur til Seltjarnar og svo þaðan í Njarðvík og hans var leitað á þeim slóðum en fannst ekki. Fyrir fáuum árum fannst loks vestasti hluti Sandakravegar eða sá spotti sem liggur frá Snorrastaðatjörnum og upp undir vegamót Grindavíkurvegar en þar hverfur hann í uppblástur og rask.
Þeir sem fóru um Sandakraveg á leið til Suðurnesja áðu við Snorrastaðatjarnir en ekki Seltjörn og héldu síðan yfir Bjallana og inn á Gamla-Stapaveg nálægt eða við Mörguvörður. Skógfellaleið hefur nú verið stikuð og liggur austan við Litla-Skógfell og Stóra-Skógfell sem er í Grindavíkurlandi. Skógfellaleiðin lagðist af um 1918 þegar bílvegur var lagður til Grindavíkur en enn má rekja sig eftir vörðunum alla leið “upp eftir” eins og hér var og er málvenja að segja. Skógfellaleiðin eins og hún er í dag sést fyrst á landakorti frá árinu 1910.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar.

Við upphaf Skógfellavegar við Stapahornið er Lágibjalli eða Litlibjalli og í framhaldi af honum til suðvesturs er Háibjalli. Hann er sá austasti af fimm slíkum sem ganga út úr Vogastapa til suðvesturs. Við Háabjalla er nokkur skógrækt. Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík hóf skógrækt sunnan undir Háabjalla árið 1949 en ári áður höfðu bændur í Vogum gefið félaginu 15 hektara lands undir starfsemina. Upp úr 1960 tók Skógræktarfélag Suðurnesja við ræktuninni og loks var reiturinn afhentur Skógræktarfélagi Íslands. Nú tilheyrir þessi 60 ára trjáreitur Skógræktar og landgræðslufélaginu Skógfelli sem stofnað var af hreppsbúum árið 1998.”
Í lýsingu Skógfellavegar segir: “Skógfellavegur er hluti gömlu þjóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Vogum, Strönd og Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, Litla-Skógfelli og Stóra-Skógfelli sem standa rétt við götuna með nokkru millibili um miðja vegu til Grindavíkur.
SkógfellavegurNafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hluti hennar Sandakravegur, þ.e. sá hluti sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra-Skógfelli en þar eru vegamót. Sandakravegur heldur svo áfram í átt að Kasti í Fagradalsfjalli en Skógfellavegur til Grindavíkur. [Við Sundhnúk greinist Skógfellavegur hins vegar í þrjár leiðir; niður að Hrauni, að Þórkötlustöðum og að Járngerðarstöðum.]
Í sóknarlýsingu séra Péturs Jónssonar á Kálfatjörn frá árinu 1840 segir: “Norðan við Stapann liggur vegur upp í heiðina austur, er kallast Sandakravegur. Á þeim vegi mætir ofan Stapans, 3 tjarnir, sem heita Snorrastaðatjarnir.” Séra Geir Bachmann á Stað í Grindavík segir í sinni lýsingu: “Yfir þau [hraunin út frá Grindavík] liggja 4 aðalvegir, þrír þeirra til Keflavíkurkaupstaðar og einn til Hafnanna. Sá norðasti kallast Sandakravegur; liggur hann í norður útnorður út úr þeim eina alfaravegi austanmanna, sem frá Ölfusinu og Selvogi er hingað, skammt fyrir austan og ofan Hraun (bær í Grindavík), fram hjá Fiskidalsfjalli og Skógfellunum, sem öll er að vestanverðu við veginn, og kemur maður af honum ofan á Vogastapa.”

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Á korti frá árinu 1910 er Sandakravegur sagður liggja frá Vogum til Grindavíkur en út úr þeirri leið við Stóru-Aragjá er merkt önnur leið, nafnlaus, og liggur sú til Fagradalsfjalls og áfram. Á nýrri kortum heitir gamla þjóðleiðin til Grindavíkur Skógfellavegur en nafnið Sandakravegur hefur færst yfir á slóðann nafnlausa (sem reyndar finnst ekki) sem fyrr er getið um. Allt um það þá er nafnið Skógfellavegur fullgilt í dag og hefur skapað sér sess í tugi ára meðal Suðurnesjamanna og útivistarfólks. Vegurinn lagðist af um 1920 þegar akvegur var lagður frá Stapanum til Grindavíkur.
VarðaSamkvæmt nákvæmum athugunum er engin gömul þjóðleið á svæðinu frá Stóru-Aragjá og að Fagradalsfjalli og því síður leiðarvörður og hefur þessi misskilningur um götu (Sandakraveg) þarna því miður fest rætur. Víst getur þó verið að þarna um hafi menn stytt sér leið yfir sumartímann og þá þeir sem voru á leið austur í sveitir frá Suðurnesjum og öfugt. Þeir sem reyna að greina þjóðleiðir í hraununum frá öðrum götum, t.d. smala- eða kindagötum, þurfa að finna nokkur mannaverk á slóðinni, t.d. hófför í klöppum, úrkast eða nokkrar vörður. Engin mannaverk – líklega ekki þjóðleið.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – skilti.

Við hefjum gönguna um Skógfellaveg rétt ofan við Reykjanesbrautuina við austasta hluta Stapans en þar er vegvísir á götuna. Gatan er nokkuð óljós framan af og vörður fáar og ógreinilegar og því var það þarft verk að stika þennan hluta leiðarinnar svo gatan tapaðist ekki alfarið. Við fylgjum stikunum og komum fljótlega að nokkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og um það austarlega liggur gatan en holtið er suðaustur af Snorrastaðatjörnum. Undir Nýjaselsbjalla austan götunnar eru litlar seltóftir undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn sitt af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni en þeir verða okkur ekki til trafala, enda auðeldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirra allra til strandar. Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir hana er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Á þessum slóðum liggur vel mörkuð leiðin nálægt austurjarðri Skógfellahrauns.
SandakravegurinnVið gerum smá lykkju á leið okkar, förum spölkorn með gjánni og skoðum Pétursborg, sem stendur á barmi Huldugjár. Borgin er gamalt sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar. Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.
Á milli Huldugjár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokuð óljós á kafla en greinileg þar sem hæun liggur yfri Aragjá. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjárbarminum.

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá (Aragjá).

Þegar líður á gönguna verður gatan greinilegri og næsta gjá sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grjótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar stendur myndarleg varða sem heitir Aragjárvarða. Þarna við vörðuna heitir gjáin Brandsgjá en saga hennar er eftirfarandi: Á jólaföstu árið 1911 var Brandur Guðmundsson (1862-1955) bóndi á Ísólfsskála á leið heim úr Hafnarfirði með tvo hesta og dró sú ferð dilk á eftir sér. Hann lagði á Skógfellaveginn um kl. 17:00 eftir að hafa heimsótt Bensa vins sinn í Vogum og ætlaði síðan inn á Sandakraveg og niður á Ísólfsskála. Veður versnaði þegar leið á kvöldið og lenti Brandur í umbrotafærð suður heiðina. Allt í einu gaf fönn sig undan trússhestinum og hann hrapaði ofan í Stóru-Aragjá. Þarna hafði Brandur leitt Móskjóna utan við klifið og fór að aflífa þurfti hestinn í gjánni, síðan heitir þar Brandsgjá. Brand kól mikið á fótum og varð örkulma. Í kjölfar þessa hörmulega slyss brugðu þau hjónin búi.
BrandsgjáFyrir ofan Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum. Á fyrsta spottanum þarna er gatan mjög djúp því grjóti hefur verið rutt úr henni í miklum mæli en þegar ofar kemur taka við sléttar klappir markaðar djúpum hófförum.
Á hægri hönd eru Krókar, hraunhólar, eða kjarri í dældum, en á vinstri hönd, spöl sunnar, er Nyrðri-Mosadalagjá. Gjáin snýr bergvegg til suðausturs og þess vegan greinum við hana ekki frá götunni. Milli hennar og Syðri-Mosadalagjár (með bergvegg til norðvesturs) er víðáttumikill misgengisdalur þakinn mosa og heitir sá Msoadalur eða Mosadalir.
Við austurrætur Litla-Skógfells þurfum við að klöngrast yfir haft af grónu apalhrauni þar sem gatan liggur en þegar yfir það er komið liðast hún “milli hrauns og hlíðar” um skriðugrjót og grasteyginga.  Skógfellin bera ekki nöfnin með réttu í dag því þau eru að mestu gróðurlaus. Fyrir neðan og austan Litla-Skógfell er þó dálítið kjarr, bæði birkihríslur og víðir, og sjálfsagt hefur svæðið allt verið við vaxið endur fyrir löngu. Nú er hafi trjárækt við Litla-Skógfell á vegum skógræktarfélagsins Skógfells í Vogum. Við Litla-Skógfell endar Vatnsleysustarndarhreppur og Grindavíkurhreppur tekur við. [Hér er komið í land Þórkötlustaðabænda.]

Skógfellastígur

Varða við Skógfellaveg.

Frá hlíðum Litla-Skógfells er gaman að horfa á “vörðuskóginn” framundan en á milli Skógfellanna er einkennasnauð hraunbreiða sem auðvelt væri að villast um ef ekki væru vörðurnar. Þarna standa þær þétt saman eins og menn á mósagrónu taflborði og gatan er djúpt mörkuð af þúsundum járnaðra hestahófa.
Þegar komið er langleiðina að Stóra-Skógfelli greinist Sandakravegurinn út úr til suðausturs yfir hraunið og að Sandhól.
“Eins og fyrr segir gengur Sandakravegur út úr Skógfellaleið rétt neðan Stóra-Skógfells og stefnir á Kastið og Syðri-Sandhól en hólinn stendur við rætur þess að vestan.
BirkigróningarLeiðin þarna á milli er um 3 km. Sandakravegur virðist hafa lagst af að mestu löngu áður en hætt var að nota Skógfellaleiðina. Brandur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála notaði þó Sandakaraveginn eftir aldamótin 1900 og líklega hefur Ísólfsskálafólkið verið einu vegfarendurnir á þeim tíma enda breytt þjóðlíf með breyttum samgöngum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Mikil umferð hefur verið um þessa götu fyrrum því djúp hófför sjást í klöppum og hún hefur verið vörðuð þó vörðurnar séu nú hrundar. Ef til vill hafa þær verið eyðilagðar af mannavöldum til þess að fólk villtist ekki af Skógfellaleið yfri á Sandakraveg. Þarna gæti verið komin skýring á nafnbreytingunni því líklegt er að sú leið sem mest var farin í upphafi, þ.e. Sandakravegurinn, hafi verið aðalleið austanmanna milli Fagradalsfjalls og Stapans. Leiðin sem lá til Grindavíkur hefur frekar verið aukavegur út frá alfaraleið en skipt svo um hlutverk við Sandakraveginn á seinni tímum.

Varða

Sandhólar er örnefni vestan Fagradalsfjalls og austanmenn hafa lagt á hraunið við Syðri-Sandhól. Eki er ólíklegt að fleiri örnefni tengd sandi, s.s. Sandakrar, hafi verið á þessum slóðum.”
Til gamans geta göngumenn leikið sér að því að telja vörðurnar frá Litla-Skógfelli að gatnamótunum en þær eru 22. Sandakravegurinn þarna er fallegur, djúpt markaður og skoðunarverður.
Vestan við Stóra-Skógfell er Gíghæð og er stutt ganga frá fellinu í gígana og þá um leið yfir á Grindavíkurveg. Á henni er Arnarsetur, gígur Arnarseturshrauns frá árinu 1226. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska, s.s. Sandhól og Kast. Görnin er handan Kasts.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri gígaröð, Sundhnúksgíginn, sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðalgígurinn og stendir hann norðan við Hagafel. Þegar komið er fram hjá Hagafelli að austanverðu fer að halla undan til Grindavíkur og spölkorn neðar greinist leiðin til “allra átta” um gamalgróin hraun niður til bæja.
Göngferð eftir Skógfellaveginum tekur 5-6 stundir með hvíldum og trúlega er skemmtilegra að ganga hann frá suðri til norðurs því útsýni er á víðáttumeira og spannar lengri tíma ferðarinnar.”
JökulsorfnarFramangreind lýsing er ágæt, en sem göngulýsingu má bæta hana verulega. Í fyrsta lagi er “betra” að ganga Skógfellaleiðina eins og henni er lýst hér að framan – frá Vogum til Grindavíkur. Tilbreytingalausasti og langdregnasti kaflinn er í raun Vogakaflinn. Leiðin er grjótþakin og liggur í ótal hlykki um móa og gróið Þráinnskjaldarhraunið. Tilbreytingin felst í gjánum, sem hver tekur við af annarri; fyrst Huldugjá (Huldugjárvarðan) með Pétursborg ofanvert, þá Litla-Aragjá (varða) og Stóra-Aragjá (Brandsgjá) (Aragjárvarða). Reyndar eru vörðurnar tvær ofan við Brandsgjá (Stóru-Aragjá). Milli gjánna er hvalbak, ummerki elsta bergsins (um 200.000 ára) á svæðinu er annars má sjá á Stapanum neðra. Á því má sjá jökulrispur ísaldarskeiðsins.
GullkollurVið vörðu (þar sem gatan beygir til suðurs) má, ef grant er skoðað, sjá gamla götu. Hún er torséð, en þegar komið er að brún Nyrðri-Mosadalagjár svolítið norðar, smá sjá hvar gata hefur legið niður með gjánni og síðan hlykkjast um Mosadal[i] að Syðri-Mosadalagjá. Syðst við gjárvegginn þar er gata upp á gjárbraminn. Þar beygir hún til norðausturs, inn á svonefnda Aura. Þar er varða. Um Aurana hefur leiðin legið inn í Fagradal og áfram suður með vestanverðu Fagradalsfjalli. Þarna getur verið kominn misskilningurinn um Sandakraveginn á þessum slóðum, en að öllum líkindum hefur hér verið um undantekningalegan stytting að ræða hjá kunnugum eins og fram kemur í lýsingu SG. Bæði í Mosadal og ofan við Syðri-Mosadalagjá er leiðin hins vegar ótrúlega greið inn að Nauthólum í Fagradal. Gæti það hafa valdið því að einhver hefur viljað færa álitlegan veginn þangað og ekki vitað betur um raunverulega legu hans inn á milli Skógfellanna.
Þegar Skógfellavegurinn (Sandakravegurinn) er skoðaður milli Skógfellanna má annars vegar sjá vel markaða götu í slétta hraunhelluna og hins vegar engin ummerki eftir slíkt. Ástæðan eru “vörðuskógurinn”. Vörður þessar voru endurhlaðnar af vinnuskólaunglingum fyrir u.þ.b. 10-12 árum síðan. 

Skógfellavegurinn

Svo virðist sem vinnugleði hafi gripið hópinn á stundum. Sumar vörðurnar eru ekki hlaðnar við hina gömlu götu, heldur mun vestar. Síðan hefur fólk fetað leiðina með vörðunum og markað nýja. Hin forna þjóðleið liggur nú á köflum í grámosanum úrleiðis. Þörf væri á að marka gömlu götuna í mosann með það fyrir augum að endurheimta hana þar sem hún er raunverulega mörkuð í hraunhelluna. Um er að ræða dýrmætar minjar, sem helst mega ekki fara forgörðum vegna athyglis- og/eða áhugaleysis hlutaðeigandi yfirvalda.
Á merktum stikum við Skógfellaveginn (Sandakraveginn) er t.d. komið að gatnamótum, annars vegar Skógfellavegar og hins vegar Sandakravegar. Í raun eru gatnamótin nokkru norðar. Það sést vel á hinum grópuðu götum. Af ummerkjum að dæma er ljóst að Sandakravegurinn hefur verið meginleiðin, allt frá Vogum, og áfram áleiðis að Ísólfsskála (Selatöngum). Sunnan gatnamótanna hverfa grópanirnar og því má ætla að sú leið hafi verið áfangi inn á meginleiðina gömlu.
SkógfellavegurHandan, í austri, er Kastið. Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar 4. maí árið 1943, kl. 16:20. Flugvélin var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl ofan við Keflavík. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Hlutar flugvélarinnar eru á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Flugvélin skall á hlíðinni ca. 1/5 neðan við efstu brún. Þar má sjá leifar, s.s. bráðið ál utan um grjótmola, en hlíðin öll er skriða með litlum steinhnullungum. Þarna neðan við og til hliðanna má sjá ýmsa vélarhluta.

Um borð í vél þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum.

Kastið

Á slysstað í Kastinu.

Eftirminnilegar ljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.
Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.

Slysavettvangur

Flugvélin hafði verið að koma frá Bretlandi. Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Flugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs. Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.

Andrews

Andrews – minnismerki.

Í febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., “Hap” Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.
Árið 2001 var haldin minningarathöfn þarna á staðnum. Til stendur að setja þar upp minnismerki um atburðinn.

Undir hlíðum Litla-Skógfells má sjá breiður af brönugrasi. Birkið hefur tekið við sér að nýju eftir sauðfjárfriðun svæðisins svo segja má að lengi lifi í gömlum glæðum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – kort ÓSÁ.

Undir Sundhnúkagígaröðinni sunnan Stóra-Skógfells tekur við Sprengisandur. Dalahraun er austar. Vatnshæðin (-heiðin) er sunnar. Um er að ræða dyngjuhæðir vestan Fiskidalsfjalls og Húsafjalls. Sunnan Sprengisands eru þrenn gatnamót; leið að Hrauni, leið að Þórkötlustöðum og leið að Járngerðarstöðum, hver önnur álitlegri. Þó má segja, án allrar hlutdrægni, að leiðin niður að Þórkötlustöðum er bæði sú greiðasta og fallegasta á leiðinni.

Heiðarvarðan, ein af þremur innsiglingavörðum inn í Hópið blasir við neðanvert. Hún hafði fallið að hluta, en FERLIRsfélagar endurreistu hana fyrir nokkur árum.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 2007

Skógfellavegur

Skógfella- og Sandakravegur.

Sandakaravegur
Sesselja Guðmundsdóttir þekkir vel til örnefna og minja í Vatnsleysustrandarhreppslandi – sem og víðar. Um Sandakraveg sagði hún m.a. þetta árið 2006:
Varða “Í upphafi heyrði ég Einar Egils hjá Útivist tala um Sandakraveginn fyrir tugum ára. Ég sá hann fyrst fyrir ca. 15 árum, en fann ekki nyrsta hluta hans fyrr en fyrir ca. 4 árum. Það sem ruglaði flesta í upphafi var að kort sögðu hann á röngum stað, t.d. kort frá 1910 og með því byrjaði villan. Ásgeir Sæmundsson (1915-1992) frá Minni-Vogum talar um þennan veg á segulbandsupptöku (segir hann mjög klappaðan), sem ég á, og Ísólfur á Skála líka. Greinin hans Gísla pól í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1972 nefnir þennan veg og kort Björns Gunnlaugssonar setja hann inn á réttan stað og sóknarlýsingar frá 1840. Þær lýsa honum nokkuð vel. Lárus á Brunnastöðum sem og gamlir malar sunnar í hreppnum könnuðust aldrei við veg frá Stóru-Aragjá og upp að Nauthólaflötum (líkt og kortiðf frá 1910 gaf til kynna).

Á bls. 46, 47, 54, 57, 128-132 í bókinni minni (Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 1995 (endurútg. 2007)) er fjallað um Sandakraveginn. Á bls. 47 segir: ”Björn Gunnlaugsson skráði Sandakraveg inn á kort sín árið 1831 og 1844 og þar er vegurinn strikaður frá vesturenda Vogastapa yfr Skógfellahraunið að Litla-Skógfelli, þaðan að syðri enda Fagradalsfjalls Sandakravegurog síðan áfram suður úr.”

Einar Egils lét okkur leita nokkuð vestur yfir Skógfellahraunið sunnan Litla-Skógfells, en við fundum ekkert. Við leituðum aldrei út frá Snorrastaðatjörnum því hann taldi víst að þeir hefðu komið að Seltjörn. Nú er þetta allt orðið ljóst og vantar bara bútinn yfir tjarnirnar, eins og áður hefur verið getið.

Gunnar Ben., tannlæknir í Garðabæ, þrjóskaðist lengi við að halda að vegurinn lægi um Mosadalinn að Nauthólaflötum, en enginn merki sjást um veg þar. Það verður að hafa sönnun um mannaverk á þjóðleiðum, ekki nóg að hafa óljósan troðning. Sandakravegurinn er mjög djúpur, unnin og gamall yfir Bjallana en þegar kemur að Grindavíkurvegamótum er hann horfinn í uppblástur. Það rétta er að kalla veginn allan frá Drykkjarsteini og að Mörguvörðum Sandakraleið sem og hann hét samkv. gömlum heimildum. Það er líka nauðsynlegt að lesa heimildir og styðjast ekki eingöngu við nýjustu tækni, t.d. loftmyndir.” (Skógfellavegur/-gata hefur kafli leiðarinnar og verið nefndur, jafnvel Vogavegur af Grindvíkingum, þ.e. sá hluti er lá millum Voga og Grindavíkur.

uppréttarRétt er að geta þess að frá Mörguvörðum ofan við Stapann liggur gömul gata svo til beint niður móana að Selbrekkum (Sólbrekkum), á ská niður þær og að Seltjörn (Selvatni). Gatan hefur eflaust haldið áfram til Grindavíkur, en nýi vegurinn liggur ofan á henni. Einungis vantar kaflann frá þessari götu og upp að Litla-Skógfelli til að tengja þessar leiðir saman.

Á Njarðvíkurheiðinni er stór vörðufótur. Þarna mun fyrrum hafa staðið myndarleg varða, að öllum líkindum landamerkjavarða af stærðinni að dæma, sem og skv. heimildum. Ólafur frá Knarrarnesi man eftir vörðunni þarna. Enda passar staðsetning hennar við “sjónhendingu” úr Brúnavörðu ofan Stapabrúnar og Arnarkletts ofan við Snorrastaðatjarnir. Grjótið í vörðunni var tekið á fyrri hluta 20. aldar og sett undir bryggjuna í Vogum. Það að Vogamenn hafi tekið grjótið bendir til þess að efnið hafi verið í þeirra landi, a.m.k. helmingurinn. Ef þetta reynist rétt er núverandi “Hollywood”-stafaskilti Reykjanesbæjar innan landamerkja Voga. En þetta var nú bara svolítill útidúr.

Á skömmum tíma, ekki síst vegna áhuga og þrautseigju einstaklinga langt utan launaðra opinberra minjastofnana eða svæðisbundinna ferðamálasamtaka (sem standa ættu efninu nær), hefur tekist að staðsetja Sandakraveginn nokkuð nákvæmlega, enda gatan enn vel merkjanleg í landslaginu.

Sandakravegur

Genginn Sandakravegur.

 

Sandakravegur

Sandakravegurinn liggur inn á gatnamót við vesturenda Drykkjarsteinsdals norðvestan Slögu, með brún Litla-Borgarhrauns undir hlíðum Borgarfjalls, um Nátthagakrika til norðvesturs, áfram sunnan Einbúa, með brún Borgarhrauns undir hlíðum Kastsins og Sandhól.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Þar greinist vegurinn, annars vegar til norðvesturs yfir Dalahraun í átt að norðausturhorni Stóra-Skógfells þar sem hann kemur inn á Skógfellaveg, og hins vegar um Fremstadal og Miðdal undir hlíðum Fagradalsfjalls, framhjá Innri-Sandhól, um Innstadal og inn á Nauthólaflatir syðst í Fagradal. Þar liggur vegurinn um uppfokna mela og Aura, niður í Mosadal, um Mosadalsgjá og inn á Skógfellaveginn skammt ofan við Stóru-Aragjá (Brandsgjá). Vegurinn sést reyndar ekki þar sem hann liggur um Nauthólaflatir, Aura og Mosadal, bæði vegna hreyfanleika jarðvegsins að ofanverðu sem og ásókn mosans að neðanverðu.
Skógfellavegurinn er mest áberandi þar sem hann er djúpt markaður í slétta klöpp Skógfellahraunsins. Hraunið er um 3000 ára gamalt. Sandakravegurinn milli Stóra-Skógfells og Sandhóls er markaður á sama hátt í slétta klöpp Dalahrauns. Af ummerkjum að dæma virðist þarna vera um sömu götuna að ræða. Hún gæti því hafa hafa verið nefnd öðru nafni fyrrum og verið meginleiðin á umferð milli Suðurstrandarinnar og Útnesjanna.
Líklega voru Sandakravegurinn og Skógfellavegurinn aðalþjóðleiðirnar til og frá Grindavík og að austan með Suðurströndinni alveg frá fyrstu tíð. Sundhnúkahraunið er um 2400 ára og engin hraun á sögulegum tíma hafa farið yfir göturnar frá því að land var numið í Grindavík.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Arnarseturshraunið hefur ekki náð inn á hana. Þess vegna má alveg eins telja líklegt að Molda-Gnúpur, synir hans og aðrir fjölskyldumeðlimir, hafi fetað þessar götur fyrrum, líkt og allir aðrir, sem á eftir þeim komu. Sama gildir um Sandakraveginn. Sauðskinnsskórnir hafa kannski ekki einir sér séð um mörkunina, en hófar hesta, klaufir kúa og kinda og klær hunda hafa bætt þar um betur. Þarna er því um óraskaðar götur – áþreifanlegar leifar manna og dýra – hvort sem er af núttúrunnar hendi eða mannavöldum, alveg frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.
Allar hinar þjóðleiðirnar til og frá Grindavík; Prestastígurinn, Skipsstígurinn og Árnastígur (nema norðan við Sundvörðuhraunið) eru þaktar að hluta til hraunum frá nútíma, einkum frá 13. öld.

Rauðhóll

Rauðhóll við Litla-Skógfell.

Grunur var um að Rauðhóll austan Stóra-Skógfells kynni að vera nýrri en aðrir gígar á svæðinu, en hann er örugglega eldri en Sundhnúkahraunið. Hóllinn er líklega hluti af Kálfafellshraunsmynduninni og Hálfunarhólshrauni og skv. því meira en 8000 ára gamalt, líkt og Sandhóllinn og Sandhólshraun, en önnur og eldri hraun við Skógfellin erum minna en 11.500 ára gömul.
Hinar fornu götur, Skógfellavegur og Sandakravegur eru því mjög merkilegar fornleifar, sem ástæða er til að varðveita. Reyndar má telja þessar tvær götur meðal merkustu fornleifa landsins.

 

Sandakravegur

Sandakravegur.

 

Sandakravegur

Í Mána 1879-1880 er m.a. fjallað “Um fjallvegi, vörður og sæluhús“:
“Þegar lengra er haldið áfram Sandakravegur - kort 1908yfir Suðurlandið, má telja Reykjanesfjallgarðinn; yfir hann liggja 7 alfaravegir, Nyrðstur er Kaldadalsvegur milli Þingvallasveitar og Kalmannstungu, þá Mosfellsheiði milli Kárastaða í Þingvallasveit og Mýdals í Mosfellssveit; þá Dyravegur suður um Henglafjöll milli Grímsness og Mosfellssveitar, þá Hellisheiði frá Reykjum í Ölvesi að Lækjarbotni í Mosfellssveit, þá Lágaskarð frá Hrauni í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Ólafsskarð frá Breiðabólstað í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Grindaskörð milli Ölvess og Selvogs að austan og Kaldársels að sunnan, þá Sandakravegur milli Krýsarvíkur og Kvíguvoga. Allir eru vegir þessir yfir Reykjanesfjallgarð mjög farnir á vetur.”
Í Morgunbalðinu 2006 er getið um Sandakraveg sbr.: “Nefndur Sandakravegur er forn þjóðleið vermanna af Suðurnesi. Þeir komu um Krýsuvíkurveg á leið til Voga eða norður á Nes. Leiðin liggur frá Slögu norður með Borgarfjalli um Nátthagakrika að Kasti sem er suðvesturhluti Fagradalsfjalls, yfir og inn á Skógfellaveg og eftir honum norður til Voga á Vatnsleysuströnd.”
Í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000 má sjá eftirfarandi umfjöllun um Skógfellaveginn: “Á Suðvesturlandi eru margar áhugaverðar gamlar þjóðleiðir og hafa nokkrar þeirra öðlast fastan sess í huga útivistarfólks sem skemmtigönguleiðir svo sem Leggjabrjótur milli Þingvalla og Hvalfjarðar, Selvogsgata milli Hafnarfjarðar og Selvogs og Síldarmannagötur er nýlega voru varðaðar.
Á Reykjanesskaga eru þjóðleiðir sem ekki eru eins nafnkunnar og áðurnefndar leiðir, en munu þó örugglega draga til sín göngufólk í vaxandi mæli.
Sandakravgeur-502Nokkrar þeirra liggja til Grindavíkur og skal hér kynnt ein þeirra, en það er Skógfellavegur, gömul leið úr Vogum sem jafnframt er framhald þjóðleiðarinnar frá Hafnarfirði er nefnist Almenningsvegur. Skógfellavegurinn er kenndur við tvö fell sem eru við leiðina og heita Litla- og Stóra-Skógfell er bendir til að svæðið hafi verið skógi vaxið fyrrum, en í nágrenni Litla-Skógfells er þó kjarrgróður með birkihríslum og víði. Grindvíkingar hafa líklega notað Skógfellaveginn sem alfaraleið um stuttan tíma, en hann lagðist af um 1920 þegar akvegur var lagður milli Vogastapa og Grindavíkur. Af leiðinni liggur Sandakravegur neðan Stóra-Skógfells að Fagradalsfjalli og síðan austur á bóginn, en nafnið hefur upprunalega verið notað um alla leiðina frá Stapa.
Landið sýnist ekki svipmikið á þessum slóðum, en þó leynist þarna margt og ekki síst þegar lengra dregur. Snorrastaðatjarnir eru suðvestan og vestan við leiðina og grilltum við aðeins í þær og einnig skátaskála sem reistur var nærri tjörnunum fyrir nokkrum árum.
Sandakravegur-503Ofan við tjarnirnar er Háibjalli, en hann og næsta umhverfi er á náttúruminjaskrá og þar er nokkur skógrækt, en allt þetta blasti betur við ofan af Litla-Skógfelli sem gengið var á síðar.
Fyrsta spölinn mótar af og til fyrir gömlum götum, en vörður eru fáar og strjálar, en það átti eftir að breytast þegar lengra kom, en það sem sem einkennir leiðina eru gjár. Gjárnar eru ekki farartálmi og auðvelt að ljomast um þær, en sú fyrsta sem varð á vegi okkar nefnist Huldugjá, en austur með henni blasti við okkur fjárborg sem heitir Pétursborg, en ekki var hún skoðuð nánar í þetta sinn. Skammt var að Litlu-Aragjá og gerðum við þar stuttan stans við stóra vörðu á gjárbarmi, en kaffistopp höfðum við hjá næstu gjá, Stóru-Aragjá sem á þessum slóðum nefnist Brandsgjá. Hún heitir eftir Brandi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála er var þarna á ferð á jólaföstu árið 1911, en lenti í ófærð og missti hestana ofan í gjána og þurfti að aflífa þá á staðnum. Brand kól á fótum og var á Keflavíkurspítala einhverja mánuði eftir slysið. Við litum ofan í gjárnar þarna og víðar og reyndust þær mjög djúpar þó vel sæi til botns svo ekki er að undra þó illa geti farið ef lent er utan leiðar að vetrarlagi og snjór gefur sig yfir gjánum.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Eftir góða áningu við Stóru-Aragjá var haldið vel áfram, enda auðveld og vel vörðuð leið eftir helluhrauni, en þar og víðar eru hófaför vel mörkuð í klöppina. Litla-Skógfell er ekki hátt, aðeins 85 m.y.s. en það freistaði uppgöngu og hélt allur hópurinn upp norðvesturhornið og niður af því sunnanmegin. Af fellinu blasir við mestur hluti leiðarinnar, utan þess sem Stóra-Skógfell skyggir á í suðri, en á milli fellanna er þétt röð varða. Stóra-Skógfell er um 100 m hærra en Litla-Skógfellið, en þó freistaði það ekki til uppgöngu í þetta sinn.

Sandakravegur

Á Sandakravegi.

Við Sundhnúkagígaröðin sem mun vera um 8 km löng en frá henni rann hraunið hjá Grindavík fyrir um 2000 árum. Athygli okkar vakti sérkennileg hraunpípa utan í einum gígnum og vantaði lítið upp á að skríða mætti þar í gegn, en ekki hefði það farið vel með fatnað. A þessum slóðum var okkar göngu um Skógfellaveg lokið þar sem áætlaður lokaáfangi góngunnar var Bláa lónið. Leið okkar lá inn á stikaða leið er tilheyrir Reykjaveginum, um Svartsengi norðan Svartsengisfells. Þar við gamlan steyptan pall, líklega undirstöðu danspalls, rifjuðu nokkrir úr hópnum upp minningar frá útisamkomum er þar voru haldnar um skeið á vegum Grindvíkinga..
Eftir tæpra 6 klukkustunda göngu vorum við loks komin að Bláa lóninu nýja sem fellur ótrúlega vel inn í hraunið, en bað í því var kærkomin endapunktur á góðri gönguferð.”

Heimild:
-Máni, 1. árg. 1879-1880, 5.-5. tbl. bls. 34.
-Morgunblaðið, 28. mars 2006, bls. 19.
-Lesbók Morgunblaðsins, Kristján M. Baldursson, 16. sept. 2000, bls. 19.

Sandakravegur

Skógfella- og Sandakravegur.

Lyngfell

 Ætlunin var að ganga eftir hluta af svonefndum Sandakravegi, þ.e. frá Kasti, yfir Dalahraun og áleiðis að Skógfellavegi, sem liggur þar millum Stóra- og Litla Skógfells á leiðinni frá Grindavík í Voga.
Sandakravegur var forn þjóðleið vermanna sem komu af Suðurlandi um Krýsuvíkurveg á leið í Voga eða norður á nes. Beinvarðan? - Kast framundanLeiðin lá frá Slögu norður með Borgarfjalli, með brún Litla-Borgarhrauns undir hlíðum Borgarfjalls, um Nátthagakrika sunnan Einbúa og að Kasti, sem er suðvestasti hluti Fagradalsfjalls. Þaðan lá gatan yfir hraunið inn á Skógfellaveg og síðan norður í Voga. Að þessu sinni var gengið frá Móklettum norðan við Lyngfell og Festisfjall, yfir Beinvörðuhraun, framhjá Beinvörðunni að Kasti. Nú voru þátttakendur vel varðir allra veðra Cintamani-fatnaði, en eins og ljóst má vera urðu ferðalangar fyrrum úti á þessum leiðum eða bara dóu, eins og gengur. Til er frásögn erlends ferðamanns á leið til Krýsuvíkur. Kom hann að látinni konu, sem legið hafði lengi óhreyfð við þjóðleiðina. Hvers vegna ættu ferðalangar að taka með sér löngu látið fólk, sem það þekkti ekkert. Einfaldara var að hylja það með grjóti, en sjá má slíkar grjóthrúgur á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum, s.s. við Sandakraveginn, Fógetastíginn í Gálgahrauni, Garðsstíginn, Sandgerðisgötuna og Undirhlíðaleiðina, svo einhverjar séu nefndar. Við Garðagötuna er t.a.m. Mæðgnadysin og við kirkjugötuna frá Hraunsholti að Görðum er Völvuleiði. Að vísu var erfiðara að greina kennimerki við aðstæður, sem nú voru til staðar, en jafnan að vorlagi er grónar dysjar verða fyrr grænni en aðrar náttúrulegar “þúfur” við alfaraleiðirnar. Hrossadysjarnar í Slysadal á Dalaleiðinni eru þó jafnan ágætt dæmi þessa allt árið um kring. Þá má og telja líklegt að dysjarnar í Kerlingardal austan við Deildarháls milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur eigi sér slíkt upphaf.
SandhóllSandakravegur er enn í dag djúpt markaður í harða hraunhelluna eftir hófa, klaufir og fætur liðinna kynslóða um aldir. Nú átti að feta í fótspor þessara forfeðra og -mæðra, ganga þetta spölkorn eftir veginum frá Sandhól við Kast yfir á Skógfellaveginn milli Stóra- og Litla-Skógfells. Síðan var ætlunin að kanna hvort önnur leið, jafngreiðfær, gæti legið af Sandakraveginum austan við Skeifu með stefnu til suðurs, stystu leið að gatnamótum Sandakravegar og Kýsuvíkurvegar við Slögu eð Litla-háls.
Nú er búið að stika Sandakraveginn. Þegar byrjað var við stiku nr. 70 komu fljótlega í ljós nokkrar afvegaleiðanir. Í fyrsta lagi var stikum nr. 71 og 72 ofaukið. Eftir að komið var í skarð á hraunbrúninni lágu tvær stikur til vinstri, en af vörðunum að dæma áttu þær að liggja samhliða þeim beint áfram og síðan til vinstri. Þessar stikur voru augljós villa og voru því lagfærðar. Þá voru stikur látnar í framhaldinu fylgja seinni tíma mosaslóð, en vörðubrot í svo til beina stefnu á myndarlega vörðu á hraunhól gátu fyrrum legu vegarins til kynna.
Þegar gangan hófst við, eða réttara sagt skammt norðan við Sandhól, komu í ljós tvær sandbrunabungur (Sandhólinn hærri) er gengið höfðu út undan Kasti. Þegar hraunið rann að Fagradalsfjalli, og þar með Kasti, hefur það nánast náð að umlykja hólana. Sandhóllinn hefur fengið nafn, bæði vegna þess hversu áberandi kennileiti hann er þarna í hrauninu og auk þess hefur hann verið þörf “vegstika” á leið um veginn.
Skjól við SandakravegSkammt norðvestar er farið um fyrrnefnt skarð. Skammt sunnan þess er skjól í vegg hrauntraðar. Opið snýr til vesturs, en í austurenda þess hefur verið fyrirhleðsla, nú að hluta til fallin. Þarna hefur verið bæði hið ágætasta skjól fyrir tvo menn og útsýni yfir veginn framundan, tilvaldið til að staldra við í og bíða eftir þeim, sem hægara fóru.
Þá tóku við tiltölulega slétt mosahraun. Vörður og vörðubrot gefa veginn glögglega til kynna. Á lágum hraunhól er varða. Frá henni má bæði sjó vörðu neðan við hraunbrúnina í suðaustri og aðra á hraunbrún í norðvestri. Þegar komið er udnir síðanefndu hraunbrúnina sást, áður en varðan kemur í ljós, tvær ílangar þunnar hraunhellur, sem reistar hafa verið upp á endann, og púkkað með. Ofar liggur vegurinn um skarð og síðan um mosahraun áður en komið er inn í stóran helluhraunsdal. Frá fyrstu skrefum þar til þess síðasta er Sandakravegurinn klappaður í hraunhelluna. Norðvestan hennar er varða á hraunbrún, en frá henni hallar vegurinn áleiðis niður að Skógfellavegi. Hann hvarfur að vísu á stuttum köflum undir mosa, en auðvelt er að finna hann aftur ef hallað er að Litla-Skógfelli. Þar sem vegirnir mætast liggja þeir samhliða á kafla uns þeir falla saman í einn veg.
Sandakravegurinn hefur verið fjölfarinn um langan tíma, ummerkin sýna það. Einungis austasti kaflinn er minna markaður, líkt og Skógfellavegurinn er sunnan við gatnamótin.
Varða við SandakravegSkógfellahraunið er um 3000 ára gamalt. Sandakravegurinn milli Stóra-Skógfells og langleiðina að Sandhól er markaður á sama hátt í slétta klöpp Dalahrauns. Af ummerkjum að dæma virðist þarna vera um sömu götuna að ræða. Hún gæti því hafa hafa verið nefnd öðru nafni fyrrum og verið aðalþjóðleiðin á umferð milli Suðurstrandarinnar og Útnesjanna. Skýringar á því að syðsti hluti Skógfellavegar er ógreinilegri gæti verið sú að tíð og langvarandi eldsumbrot á því svæði hafi lagt af ferðir þangað, yfirborð svæðisins er apal- og brunahraun auk þess sem ösku- og gjóskulög gætu hafa lagst yfir eldri eldri leið, sem þar var.
Hinar fornu götur, Skógfellavegur og Sandakravegur eru því mjög merkilegar fornleifar, sem ástæða er til að varðveita. Reyndar má telja þessar tvær götur meðal merkustu fornleifa landsins.
Sesselja Guðmundsdóttir þekkir vel til örnefna og minja í Vatnsleysustrandarhreppslandi sem og víðar. Um Sandakraveg sagði hún m.a. þetta: “Í upphafi heyrði ég Einar Egils hjá Útivist tala um Sandakraveginn fyrir tugum ára. Ég sá hann fyrst fyrir ca. 15 árum, en fann ekki nyrsta hluta hans fyrr en fyrir ca. 4 árum. Það sem ruglaði flesta í upphafi var að kort sögðu hann á röngum stað, t.d. kort frá 1910 og með því byrjar villan. Ásgeir Sæmundsson (1915-1992) frá Minni-Vogum talar um þennan veg á segulbandsupptöku (segir hann mjög klappaðan), sem ég á, og Ísólfur á Skála líka.
Greinin hans Gísla pól í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1972 nefnir þennan veg og kort Hraunhellurnar við SandakravegBjörns Gunnlaugssonar setja hann inn á réttan stað og sóknarlýsingar frá 1840. Þær lýsa honum nokkuð vel. Lárus á Brunnastöðum sem og gamlir malar sunnar í hreppnum könnuðust aldrei við veg frá Stóru-Aragjá og upp að Nauthólaflötum.”
Vitneskja um “fornar” eða “gamlar” götur á Reykjanesskaganum eru tiltölulega nýjar. Þeirra er ekki getið í fornum heimildum, enda hafa að öllum líkindum þótt svo sjálfsagðar að ekki tæki að fjalla um þær sérstaklega. Fyrstu “ferðamennirnir” hér á landi fóru flestir alfaraleiðirnar milli áhugaverðra náttúrustaða. Einn þeirra staða var t.a.m. hverasvæðið í Krýsuvík. Að öðru leyti þótti Reykjanesskaginn líkastur auðn, líkt og Sveinn Pálsson lýsti í ferðabók sinni seint á 19. öld; “hér er ekkert merkilegt að sjá…”, auk þess sem hann sagði Gullbringusýslu “ljóta á að líta”.
Þrátt fyrir heimildarleysið hafa landsmenn ferðast af nauðsyn milli tiltekinna staða með ströndinni og stranda á millum um aldir – eða allt frá landnámi á 9. öld, eða jafnvel lengur. Þegar meiri festa komst á samfélagsmyndina og tilteknir staðir urðu ráðandi forðabúr svæðisins og aðrir ákveðnir stjórnsýslustaðir komust á fastar og hefðbundnar ferðir starfsfólks að og frá þeim, sem og fólks er sótti þangað varning, stundum í löngum lestum, s.s. að Seltöngum og í aðrar verstöðvar og verslunarstaði.

Varða við Sandakraveg

Yfirleitt var reynt að velja greiðfærustu leiðirnar á milli staða, jafnvel þótt lengri væru en þær beinustu. Reynt var að krækja framhjá úfnum og torfærum hraunum, sléttlendi frekar valið fyrir fótgangandi tvífætlinga og gróðurræmur fyrir fjórfætlinga. Vel var gætt að því að “halda hæð” svo ekki væri verið að fara að óþörfu upp og niður hæðirog lægðir. Slíkt krafðist orku, en mikilvægt var að lá fyrirliggjandi orkuöflun nýtast sem best í ferðinni hverju sinni. Hver fylgdi öðrum. Smám saman mynduðust mjóar götur í harða hraunhelluna þar sem umferðin var mest og samfeldust. Hafa ber í huga að ný hraun voru að renna um Skagann fram á ofanverða 12. öld og hiti hefur verið í þeim allt fram á framverða 13. öld. Helluhraunið milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur er gott dæmi um breytta þjóðleið vegna eldgosa á nútíma. Einnig Ögmundarhraun, Afstapahraun og Nýjahraun (Kapelluhraun), auk hraunanna ofan við Grindavík (Sundhnúkahraun, Illahraun og Afstapahraun sem og Eldvarpahraunin síðustu).
Eftir að þær mörgu “gömlu” götur á Reykjanesskaganum hafa verið skoðaðar hefur vaknað grunur um að hlutar sumra þeirra séu hluti af mun eldri, almennari og lengri leiðum – gleymdum götum, sem legið hafa frá Innnesjum út á sunnanverð Útnesin. Þar hefur t.a.m. Krýsuvíkurleiðir, sem á seinni aldarmisserum hafa verið skráðar sérstaklega vegna tengsla, vitneskju eða áhuga manna á þeim, einungis verið hliðarstígar af almennari leiðum sem og margar aðrar götur, þ.á.m. Þórustaðastígurinn, Breiðagerðisstígurinn, Hrauntungustígurinn, Skógargatan o.fl.. Líklegt er, miðað við ummerki, að Krýsuvíkurleið með Suðurströndinni hafi verið ein aðalleiðanna frá og til sveitanna Sunnanlands.

Varða við Sandakraveg

Svo hefur einnig verið um Sandakraveg, hluta Skógfellastígs, götu um Brúnir sunnan Keilis, götur með Hálsunum, götu að og frá Selsvöllum svo og götu um Lambafell og Mosa sem annar hluti að vestanverðri Alfaraleiðinni til Reykjavíkur, heimkynna allsherjagoðans, og síðan Álftaness, aðseturs yfirvaldsins. Þessar götur eru hvað mest klappaðar í hraunhelluna. Sumar sjást nú einungis að hluta eða á köflum og líklegt má telja að elstu göturnar liggi utan þeirra leiða er síðar voru farnar með fé eða til almennra ferðalaga milli svæða.
Þegar haldið var til suðurs um Dalahraunið virtust nokkrar leiðir greiðfærar, a.m.k. langleiðina, en þegar komið var að úfinni hraunbrúninni að austanverðu varð þar torfæri. Ekki er útilokað að þarna kunni að leynast leið upp yfir brúnina því telja verður líklegt að þeir, sem þekktu vel til staðhátta og fóru oft þarna á millum, hafi gjarnan valið stystu leiðina til að spara tíma. Eftir þessa ferð er þó ljóst að stysta leiðin er ekki alltaf sú orkusparnaðasta og að þeir, sem um götunar fóru, reyndu jafnan að gæta samræmis og meta hvort væri þarfsamara.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst. og 4 mín.

Uppréttar hraunhellur við Sandakraveg - Stóra Skgógfell framundan

Borgarhraunsrétt

Á nýlegri landakortum er Sandakravegur sýndur liggja frá Drykkjarsteinsdal í austri, með vestanverðu Fagradalsfjalli til norðurs og síðan niður á Skógfellastíg úr Fagradal um Aura. Veginum var fylgt norður með Borgarfjalli, um Nátthagakrika, framhjá Einbúa og að Kastinu með viðkomu í Selskál, Borgarhraunsréttinni og Borgarhraunsborg.

Sandakravegur

Gengið um Sandakraveg.

Þegar gengið var af gömlu þjóðleiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur vestast í Drykkjarsteinsdal má sjá djúpa gróna holu innan við hraunkantinn. Þarna gæti hafa verið vatnsstæði eða brunnur. Erfitt er að greina götuna að ráði fyrr en komið er inn fyrir Borgarfjallið, en þegar komið er í Nátthagakrika fer að móta vel fyrir henni. Sunnan við Einbúa er gatan mjög skýr. Kastað hefur verið upp úr henni á kafla, auk þess sem hlaðin gerði eru á tveimur stöðum við götuna.

Haldið var inn í Selskálina og hún skoðuð.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Ekki var að merkja nein mannvirki í skálinni, enda hefur orðið þarna mikil jarðvegseyðing. Þó er á einum stað vel grasi gróið svæði, en ekki var gott að merkja á bakka, sem þar, hvort hann væri náttúrulegur eða gæti verið hluti af einhverju mannvirki.
Gengið var til suðvesturs með vesturbrún hraunkants. Utan í honum eru grasi grónar brekkur og bollar. Hlaðinn stekkur er þar utan í bakkanum, en við leit fundust ekki önnur sýnileg mannvirki. Þó er líklegt að þau kunni að leynast þarna ef vel væri að gáð.
Stefnan var tekin til suðurs inn á hraunið, að Borgarhraunsréttinni, sem kúrir þar heilleg undir suðurjaðri hraunsins. Sumur hafa viljað nefna réttina eftir Ísólfsskála þar sem hún er í hans landi, en Skálamenn þekkja ekki slíka nafngift.

Borgarhraunsborg

Í Borgarhraunsborg.

Gengið var áfram til suðurs, að Borgarhraunsborg. Um er að ræða stóra fjárborg á grónum hraunhól. Hún er í rauninni í Litla-Borgarhrauni, skammt frá mynni Drykkjarsteinsdal.
Nafnið Selskál bendir til selstöðu og þá væntanlega frá Ísólfsskála. Stekkurinn í hraunkantinum gæti hafa verið hluti af henni. Nátthagakriki er enn ein vísbendingin og einnig Nátthagi skammt austar í Fagradalsfjalli.
Hugsanlega gæti gatan þar sem hún sést svo vel í krikanum og undir Einbúa einnig hafa verið hluti af selsstígnum. En hvað sem öllum vangaveltum líður fæst sennilega seint úr því skorið. Þetta svæði er hins vegar hið ákjósanlegasta göngu- og útivistarsvæði og margt að skoða.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Viðeyjarborg

Í Borgarhraunsborg.