Ætlunin var að berja þetta fágæta og jafnframt dýrmæta svæði auga og skoða hinar merkilegum minjar á því.
Nú er ljóst að vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar mun ekki liggja yfir Hólmann, eins og ein tillagan af þremur kvað á um. Átti það m.a., miðað við fyrri möguleika, að liggja yfir fjárborgina, sem síðar verður nefnd. Vegir eru mikilvægir nútíðinni, en hinar áþreifanlegu minjar eru verðmæti framtíðarinnar.
Með í för var m.a. áhugasamur bæjarstjóri Grindvíkinga, Ólafur Örn Ólafsson, auk fleiri fjölfróðra samsveitunga hans. Farið var niður með austurjarði Ögmundarhrauns og litið á gróið skeifulaga gerði utan í hrauninu. Gæti verið aðhald fyrir fé er varslað var í Hólmanum um tíma, sbr. stelstöðuminjarnar, sem þar eru, og verið í tengslum við fjárborgina á Borgarholti. Það gæti einnig hafa verið notað sem hestagerði vegna rekaflutninga úr Húshólmafjöru við Hólmasund.
Ofar og inn í hrauninu er varða. Við hana eru Mælifellsgrenin svonefndu sem og hlaðið byrgi refaskyttu.
Haldið var yfir í Hólmann vestur eftir Húshólmastígnum. Um er að ræða góðan stíg, u.þ.b. 1.2 km, í gegnum hraunhaftið. Nokkrar sagnir eru til um tilurð hans. Sumir hafa jafnvel ruglast á honum og svonefndum Ögmundarstíg í gegnum Ögmundarhraun á móts við og Mælifellið. Þar, við austurjaðar hraunsins, er Ögmundardys og tengist sögunni af Ögmundi og vegagerð hans fyrir bóndann í Krýsuvík (aðrar sögur segja í Njarðvíkum).
Aðrar sagnir kveða á um að stígurinn sé svo áberandi vegna þess að kirkjan í Hólmanum hafi verið nýtt eftir að hraunið kólnaði. Hraunþyrmingin hafi skapað verulega átrúnað á hana. Enn aðrir, þ.e. þeir raunsærri, segja að hún sé svo gróin og aðgengileg vegna selstöðunnar, sem Hólminn var nýttur til um tíma.
Þegar komið var niður í Hólmann er þar fyrir hlaðinn vörslugarður. Nokkru innan hans er hleðslur í norðurhluta Hólmans þar sem fé hefur haldið til haga; tvískiptur stekkur, gróið gerði og forn fjárborg, auk tveggja grenja. Við annað þeirra er hlaðið byrgi refaskyttu.
Þá var gengið að efsta garðinum, sem nær yfir Hólmann frá vestri til austurs. Reyndar er garðurinn rofinn á miðkaflanum, en hann hefur að mestu verið úr torfi.
Haldið var að neðri garðinum, sem liggur í boga úr suðri til norðurs og beygir síðan til vesturs inn undir hraunið. Sjá má í enda hans undir hrauninu þar sem það hefur brennt torfið á kafla. Í pælunni af garðinum er landnámsöskulagið.
Haldið var inn í hraunið til vesturs af Kirkjuflöt, fornum grafreit, og að hinum fornu minjum, gamla Krýsuvíkurbænum og tóttunum þar í kring, görðum og hinum forna skála. Útlínur skálans eru sveigðir líkt og gerðist með fornaldaskála. Um er að ræða heit hús með rými til endans. Þá tekur við tóft og hleðslur við enda hans. Ofar eru sérkennilegir hraunkatlar er benda til hringlaga húsa er hraunið hefur runnið að og brennt. Norðvestan þeirra er bátslaga tóft, sem hraunið hefur brennt. Í miðju þess er röð af stoðarholum.
Komið var við í hinni fornu Krýsvíkurkirkju eða hofi, en minjarnar eru a.m.k. taldar frá því fyrir rennsli Ögmundarhrauns, sem talið er hafa runnið árið 1151 (skömmu áður en Kapelluhraunið rann). Jón Jónsson, jarðfræðingur telu þó að hraunið hafi runnið árið 1005 (C14 945 ± 85 1005). Jafnvel er talið að minjarnar kunni að vera jafngamalt eða eldri en norrænt landnám hér á landi. Hér er um nær órannsakað svæði, en stórmerkilegt frá hendi fornleifafræðinnar.
Þátttakendum var bent var á hinn flóraða Brúnavörðustíg, sem liggur til suðvestur í átt að Brúnavörðum, yfir hraunhaftið og inn á götu er liggur með brún þess upp í og með Óbrennishólma.
Talið er að sonur Krýsuvíkur-Gvendar, og menn með honum, hafi rutt og flórað stíginn á kafla.
Gengið var frá kirkjutóftinni út á Kirkjulágina, skoðaður hlaðinn þvergarður sem og jarðlægt hringlaga gerði vestast í henni. Loks var litið á sjóbúðartóftina syðst í Hólmanum (gæti líka hafa verið afdrep fyrir þá er drógu að sér reka) og á rekagötuna niður að Hólmasundi.
Loks var sjávargatan gengin út úr hólmanum til austurs.
Við hana eru einnig fornar minjar í gróðurvin inn í hrauninu. Neðar eru Þyrsklingasteinar og sjá má í hluta gamla bjargsins þar sem nýja hraunið hefur runnið fram af og allt um kring. Frá þessum stað er mjög fagurt útsýni austur eftir Krýsuvíkurbjargi.
Veður var frábært – lygnt og sól. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Hægt verður að fá allítarlegar upplýsingar og fróðleik um Húshólma í bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur, sbr. bæklinginn um Selatanga – merkur staður í umdæmi Grindavíkur (2004).
Heimild m.a.:
-J.J. ´81