Háleyjar

Reynt var enn á ný við “Íslandsklukkuna” í Háleyjahlein undir Háleyjabungu. Háleyjarnar höfðu fyrr sýnt sig bera nafn með rentu. Þegar einn félaganna hafði fetað sig út á eina þeirra í nokkurri stillu tók sig allt í einu upp reið holskefla og skellti sér yfir klettana. Náði hann að beygja sig niður og halda sér uns álagið slotaði, enda maðurinn vanur Skálastrandastórsjóum og með eðlislæg viðbrögð í blóðinu. Þá var hann með FERLIRshúfuna á kollinum, en án hennar hefði getað farið illa.

Háleyjar

Háleyjahlein.

Stórstraumsfjaran dugði þó ekki til að þessu sinni. Ægir vildi ekki sleppa klukkunni. Lét hann bæði himinháar öldur af suðvestan og lúmsklæðandi undiröldu verja hana töku. Braut á skerjum og eyjum, hvítfyssandi særokið fyllti loftið og hellt var úr lárréttum regnhretum þess á milli. Sólin gægðist þó í gegnum sortann að baki liði sínu og var ekki laust við að hún glotti út í annað í öllum látunum, ekki ólíkt og Óli Jó. fyrrum.
Minkur, sem hafði verið að synda í rótinu, neitaði að færa sig. Hann náði að klóra sig upp á stein skammt undan landi og var þaðan vitni að leitinni á milli þess sem Ægir færði hann í kaf. Utar í Háleyjabungu mátti sjá andlit á þurs í berginu. Það var augsýnilega staðið vörð um klukkuna.

Háleyjar

Varða ofan Háleyja.

Einn FERLIRsfélaganna, húfulaus, ætlaði að sýnast djarfari en aðrir, kraflaði sig niður að sjóröndinni, en sleipt þangið slengdi honum um koll. Varð hann aumur allan hringinn eftir, en óstórbrotinn þó.
Helgi Gamalíasson hafði séð þessa klukku af og til síðan hann var smápatti – síðast fyrir 9 árum er hann var þarna á minkaveiðum í fjörunni sem svo oft áður.

Um tíu metra kafli við ströndina kom til greina svo auðvelt ætti að vera að finna hana – þegar færi gefst. Enda á op klukkunnar að vera hátt í 60 cm í þvermál og hæðin eftir því. Klukkan lá, að sögn, á hliðinni síðast þegar hún sást og sneri opið þá mót vestri. Hún á að vera í kvos á milli stórra steina á alla vegu.

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

Enginn veit hvaða klukka þetta er eða hvaðan hún er kominn. Úr því verður ekki skorið fyrr en tekist hefur að koma henni á þurrt. Talið er líklegt að Skálholtssbiskup hafi gert út frá Háleyjabungu um tíma, a.m.k. látið sveina sína liggja þar við, með von um reka. Hvort þeir hafi reynt að “egna” fyrir skip með ljósum í myrkri og vondum veðrum skal ósagt látið.
FERLIR varð frá að hverfa að þessu sinni, en er þó þrátt fyrir það skrefi nær takmarkinu. “Farin ferð skilar sínu, en ófarin engu”, segir jú máltækið. Og svo tekur það alltaf svolítinn tíma að sefa náttúruöflin.
Frábært veður – a.m.k. voru litbrigðin eftirminnileg.

Háleyjabunga

Háleyjabunga – gígur.