Gíslhellir

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: “Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. (Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: “Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Selvatn”). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum”.

Gíslhellir

Í Gíslhelli.

Næsta verkefni á þessu svæði var að leita svæðið er hefur örnefnið Lágar, þ.e. sunnan við Rauðamelinn og austan við Vörðugjá og Skipsstíg – í háaustur af Stapafelli. Um var að ræða svæði sunnan við svæði, sem leitað hafði verið áður í fyrri FERLIRsferð.
Áður en leit hófst hafði maður, jarðfræðingur, samband og sagðist sennilega hafa séð hellir þann, sem leitað væri að á þessu svæði. Hann hefði verið á gangi um hraunið í leit að jarðfræðifyrirbærum er hann rakst á fallega fyrirhleðslu fyrir opi á leitarsvæðinu (Gíslhellislágar) og innan við var gólfið flórað. Ákveðið var að fá manninn á svæðið.

Gíslhellir er fundinn. Maðurinn, doktor Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, sem hafði séð hellinn er hann gekk fram á hann af tilviljun á sínum tíma, fylgdi FERLIR á vettvang. Án hans hefði verið nær ómögulegt að hafa upp á hellinum þrátt fyrir örnefnalýsingu frá Njarðvíkum.
Gengið var um Gíslhellislágar og síðan strikið tekið á tiltekið hraun, en þau eru nokkur þarna frá ólíkum tímum. Kristján gaf sér góðan tíma til að fræða þátttakendur um þau sem og jarðlögin á leiðinni. T.a.m. var tekin hola til að skoða öskulögin. Sást þá vel Reykjanesöskulagið frá 1226 (svart) og síðan R-3, um 2200 ára gamalt (árið sem Karlinn út við Reykjanes fæddist í) og landnámslagið þar á milli.

Gíslhellir

Fyrirhleðsla Gíslhellis.

Hellirinn sjálfur er vandfundinn. Hann mun líkast til hafa verið þekktur áningarstaður eða skjól vegfarenda um Skipsstíginn á sínum tíma, en er stígurinn lagðist af að mestu, hefur skjólið fallið í gleymsku – enda ekki fast við stíginn og alls ekki auðfundið, eins og áður sagði.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða “Tyrkjabyrgin” í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.
Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.
Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir. Hugsanlegt er að í honum hafi einhverjum verið haldið í gíslingu um tíma og nafnið hlotist af því. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins. Til er t.a.m. saga af ræningjum er héldu til í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli. Þá eru uppi hugmyndir um að Gíslhellir gæti hafa verið notaður í tengslum við gerð Grindavíkurvegarins 1914-1918.

Gíslhellir

Op Gíslhellis.

A.m.k. gætu hleðslurnar bent til þess. Ekki ólíklegt að þarna gæti hafa verið eldhúsaðstaða vegavinnumanna. Þá gæti þarna hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell. Gæti líka hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
Til öryggis var nágrennið (og rúmlega það) gengið og kannað hvort þarna kynnu að leynast fleiri mannvirki. Svo reyndist ekki vera. Einungis beinaleifar í skjólum og hraunskjólum. Spurn hefur borist af fallegri hleðslu fyrir munna þarna allnokkru sunnar, sem á eftir að kanna nánar. Hún gæti einnig hafa tengst gerð Grindavíkurvegarins, en minjar eftir þá vegagerð er á a.m.k. 12 stöðum við veginn, frá Stapa að Hrossabrekkum.
Fróðlegt væri nú að fá sögn eða sagnir af Gíslhelli, ef þær eru þá til. Mosinn í og við hellinn var óhreyfður og ekkert spor í botninum, sem bendir til þess að í hann hafi ekki komið maður í langan tíma.
Frábært veður.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.