Arnarseturshellir

Leitað var að Hnapp í Arnarseturshrauni. Skv. lýsingu Björns Hróarssonar er hann hafði eftir nafna sínum Símonarsyni átti að leita hans í stefnu frá Hestshelli að Arnarseturshelli, nokkurn veginn miðja vegu, en þó heldur nær hinum síðarnefnda. Þar átti að vera yfirborðsrásakerfi og þar fyrir ofan hóll með lítilli vörðu. Við vörðuna eitt mjög lítið gasútstreymisop – þröngt og bratt, skrið og síðan niður í salinn.

Hnappur

Hnappur – opið.

Þessi lýsing gekk eftir. Nokkrar vörður eru þarna við smáskúta, en á nefndum stað fannst þröngt gat á hraunhæð, utan í annarri hærri. Ekki er auðvelt að koma auga á opið og því auðvelt að ganga þar framhjá. Opið er um 500 metra frá Hesthelli. Ekki er fyrir aðra en granna að renna sér og smeygja sér síðan niður um gatið. Ráðlegt er að skilja nestið eftir uppi, en borða það ekki niðri í hellinum því gera þarfr áð fyrir að þurfa að komast út aftur. Þá er komið í fallegan rauðleitan geymi. Þarna er breið efri rás, en hún virðist enda fljótlega. Rásin liggur inn til norðvesturs, þurr og þarf að ganga þar hálfboginn. Þá þrengist hún og þarf að skríða nokkurn spöl áfram þangað til hún víttkar aftur. Rás til hægri lokast og svo virðist sem vinstri rásin lokist líka, en þegar komið er í enda hennar sér niður um op. Þar fyrir neðan er rúmgóður salur með nokkrum rásum. Rásir þessar liggja svo til allra átta, misjafnlega langar og greiðfærar. Hægt er að komast upp úr a.m.k. tveimur þeirra um op á hraunhellunni.

Hnappur

Í Hnappnum.

Hnappur er með fallegri hellum og alveg heill, en lítið er um myndanir í honum. Þó eru þær til fremst í honum þar sem komið er niður. Um 30 metrar eru að niðurgangnum, en í heildina gæti hellirinn þess vegna verið hátt í hundrað metra langur. Þegar komið er niður í háan og rúmgóðan salinn liggja rásir út frá honum í ýmsar áttir er áhugavert væri að kanna nánar.
Þorvaldur Örn, kennari í Vogum, upplýsti síðar, að hann hefði farið í þennan helli ásamt félaga sínum Geirdal, sennilega fyrstir manna. Hefðu þeir nefnt hellinn Geirdal og afhenti hann góðan uppdrátt af hellinum því til staðfestingar.

Arnarsetur

Í Flat.

Eftir þessa skoðun var hraunið gengið til norðurs uns komið var að opnum skúta í hraunbólu. Á honum er varða. Rásir liggja til hægri og vinstri, en þar virðist vera um yfirborðsrásir að ræða. Norðan við skútann er áberandi gata í gegnum hraunið. Hún virðist koma frá Seltjörn og í boga í gegnum Arnarseturshraun. Götunni var fylgt langleiðina yfir að Skógfellastíg. Þarna virðist vera um að ræða götu frá Njarðvíkum yfir á stíginn. Hún er lítt áberandi næst Grindavíkurveginum, en þegar komið er u.þ.b. 300 metra austur fyrir hann er gatan mjög greinileg og er þannig áfram í gegnum hraunið.

Hestshellir

Hestshellir.

Á leiðinni til baka var komið að rás norðaustan við Hesthelli. Við opið er varða. Rásin er fremur lág, en liggur til vesturs undir hraunið. Eftir u.þ.b. 20 metra beygir hún til norðurs og lækkar. Síðan beygir hún til norðvesturs og heldur áfram. Skríða þarf hana á þeim kafla. Skoðaðir voru um 50 metrar af henni, eða þangað til skríða þurfti á maganum. Rásinni var gefið vinnuheitið Flatur.
Veður og dagsbirta skipta ekki máli í hellaferðum og verða því ekki tíunduð hér. Gangan tók 2 klst og 3 mín.Uppdrátturinn af svæðinu hefur verið uppfærður.

Arnarsetur

Í Arnarseturshellum.