Færslur

Skipsstígur

Genginn var Skipsstígur, hin gamla þjóðleið milli Grindavíkur og Njarðvíkur.
Ætlunin var og að skoða svæði austan stígsins á kafla. Grunur var um minjar, einkum undir gjávegg nokkru vestan Seltjarnar og sunnan gatnamóta

Grindavík

Grindavíkurleiðir fyrrum.

Árnastígs. Í leiðinni var kíkt á Gíslhelli (óvíst hvaða tilgangi hleðslurnar við hellinn tengdust, en sumir hafa getið sér til skjól fyrir útilegumenn er réðust að vegfarendum á þessum slóðum, felustað fyrir “Tyrkjunum” eða jafnvel samkomustað þeirra er réðust á Englendinga ofan við Stórubót 1532, vegavinnumannabúðir eða jafnvel skjól eða sæluhús miðja vegu milli byggðalaganna), Dýrfinnuhelli (tengist “Tyrkjaráninu” 1627) og “atvinnubótakaflann” undir Lágafelli (frá fyrstu árum 20. aldar). Fleiri merkir staðir voru skoðaðir á á leiðinni. Um var (og er) að ræða um 17.1 km langa greiðfæra göngu og troðna slóð.
Gengið var mót sólu, sem þá var austan við Grindavík og vestan við mána. Gangan endaði við Títublaðavörðu ofan Járngerðarstaða.

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

Þjóðsagan segir að nafnið Skipsstígur hafi orðið til vegna þess að Junkarar hafi farið stíginn með báta sína milli (Hafna) Njarðvíkur og Grindavíkur, en eins og mörgum er kunngt þá er Junkaragerði ofan við Stórubót í Grindavík. Fór það eftir veðri hverju sinni hvaðan þeir réru. Aðrir hafa nefnt að stígurinn dragi nafn sitt af ferðum manna, sem fóru hann milli heimilis og skips á tímum árabátaútgerðarinnar.
Tveir hólar eru áberandi í vestanverðri Njarðvíkurheiði. Sá syðri er Vogshóll og sá nyrðri Sjónarhóll. Skipsstígurinn lá vestan þeirra og svo til fast við Sjónarhól, sem er betur gróinn. Enn má sjá móta fyrir götunni á kafla í móanum.

Sléttan

Flugvöllurinn Sléttan við Seltjörn.

Tekið var hús á Fysklúbbnum Sléttunni vestan Seltjarnar. Fjórar vélar voru þar til staðar. Aðstaðan er sæmileg á þessari “mestu samfelldu sléttu” Reykjanesskagans. Að öðru leyti er áberandi sjónmengun frá loftlínum Hitaveitu Suðurnesja á þessum hluta göngusvæðisins; stígar þvers og kurs um falleg hraunsvæði og loftlínustaurar skyggja á annars fallegt umhverfið.
Í Njarðvíkurheiði eru merkileg setlög er benda til mun hærri sjávarstöðu fyrrum, eða að land hafi legið þar mun lægra en nú þekkist. Þessi setlög eru nú að stórum hluta komin undir forvera Keflavíkurflugvallar, svonefndan Pattersonflugvöll (heitinn eftir bandarískum hershöfðingja sem fórst í flugslysi á Fagradalsfjalli), enda hefur þarna verið kjörið flugvallarstæði á sléttum mel. Mestallt svæðið sem setlögin finnast á er innan girðingar hjá varnarliðinu. Hún liggur að vísu niðri á kafla.
GatnamótAustur af N-S flugbrautinni hefur verið og er enn mikið efnisnám, þannig að mestöllu lausu efni hefur verið flett ofan af nokkrum hekturum lands. Botninn í þessum efnisnámum er úr hörðnuðu, fínsöndugu og siltkenndu set. Setið er nokkuð lagskipt og efsti hlutinn sandsteinskenndur. Í því sést hér og þar urmull skelja og skeljaför. Grágrýti stendur víða upp úr, en á því hvílir setið. Jökulrákir á grágrýtinu stefna úr suðsuðaustri. Bæði utan girðingar vestanmegin og í austurjaðri efnisnámsins sést að ofan á harða setinu er rúmlega eins metra þykkt lag af lausri fínmöl og sandi með láréttri lagskiptingu, en ekki hafa fundist skeljar í því. Yfirborð lausu setlaganna hefur að mestu verið rennislétt, fyrir utan dreif stórra steina, en nú hefur því mestöllu verið raskað. Talið er að malar- og sandlagið sé strandhjalli en steinadreifin muni hafa bráðnað úr jöklum við enn hærri sjávarstöðu.
Hlaðin rúst er vinstra megin (austan) Skipsstígs skammt sunnan við gatnamót Árnastígs. Skammt frá henni er hlaðið skotbyrgi. Telja má víst að hvorutveggja hafi tengst refaveiðum fyrrum.

Skipsstígur

Skipsstígur – Rauðamelur framundan.

Rauðimelur er 3 km langur sjávar- og malargrandi norðaustur af Stapafelli og norðvestur frá jarðhitasvæðinu í Svartsengi.  Efnistaka hefur opnað innviði malarrifsins. Þar má meðal annars lesa breytingar í jarðsögu landsins frá jökulskeiði ísaldar. Þarna má sjá sjaldgæfar plöntutengundir og jafnvel tegundir í útrýmingarhættu. Um er að ræða fágætar náttúruminjar. Svæðið er óvenju tegundaríkt og viðkvæmt fyrir röskun, sem reyndar hefur orðið þarna allveruleg þrátt fyrir sérstök verndunarákvæði, sbr. 37. og 39. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Rauðamelur

Rauðamelur.

Rauðamelur varð til í núverandi mynd þegar jöklar og sjór hopuðu af landi í lok síðasta jökulskeiðs ísaldar. Hann er fágætur vitnisburður um miklar stærðarbreytingar á jöklum og á afstöðu lands og sjávar. Berggerð Í Rauðamel eru m.a. jarðlög frá síðasta jökulskeiði, mynduð á hlýindakafla fyrir um 35.000 árum. Ummerki um þennan hlýja kafla hafa jöklar víðast var rofið burtu. Nútímahraun (yngri en 12.500 ára) hafa runnið upp að melnum. Þau eru úr Sandfellshæð (4 km³).

Skipsstígur

Skipsstígur.

Skammt norðar eru Lágar. Ofan þeirra er Gíslhellir. Í örnefnalýsingu Sæmundar Tómassonar fyrir Járngerðarstaði er m.a. fjallað um Gíslhellalág. “Gíslahellulág hefur vafalaust orðið til hjá vegalagningarmönnum á árunum 1915 til 1918, þegar sá vegur var lagður til Grindavíkur, sem nú er. Eg gæti trúað því, að fleiri nöfn hafi orðið til hjá vegagerðarmönnum á þessari leið á þeim dögum.” Ýmsar tilgátur hafa verið um tilvist og notkun skjólsins í Gíslhelli. Nefnd hafa verið tengsl við Grindavíkurstríðið í júní 1532, Tyrkjaránið 1627, útilegumenn o.fl. Skýringin um vegavinnumennina 1915-1918 er ósennileg því um langan veg er að fara á milli hellisins og vegarins.

Skipsstígur

Skipsstígur – Gíslhellir.

Ef þetta skjól er tengt vegavinnumönnum hefur það verið tengt þeir er unnu að umbótum á Skipsstígnum skömmu eftir aldarmótin 1900. Handverk þeirra má m.a. sjá á stígnum þar sem hann liggur upp úr Lágunum. Gíslhellir er nefndur í örnafnaskrá fyrir Njarðvík, en ekki fyrir Járngerðarstaði.
Við mælingu má sjá að Gíslhellir er við Skipsstíg miðja vegu milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Alls ekki ólíklegt er að hann hafi verið notaður sem skjól/áfanga- eða sæluhús á þeirri leið í gegnum tíðina, en síðan gleymst eftir að umferð um hann lagðist af þegar nýi vegurinn opnaðist 1918.
Vörðugjá dregur nafn sitt af myndarlegri vöru á gjárbarminum. Hún sést vel, hvort sem komið er að sunnan eða norðan.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Haldið var áfram til suðurs. Nú taka við langar hraunsléttur. Latur á vinstri hönd. Hann er í rauninni tveir gígar og utan í þeim hefur verið jarðhitavirkni til skamms tíma.
Þegar gengið er framhjá Illahrauni (á vinstri hönd) má vel sjá gíga þess í hrauninu. Haldið var niður Skipsstígshraun með Bræðrahraun og Blettahraun á hægri hönd.
Þegar Skipsstígur er genginn til Grindavíkur er Þorbjarnarfell (231 m.y.s.) áberandi. “Þorbjörn ku upphaflega, skv. munnmælum, hafa heitið Þorbjarnarfell, en nú virðist það nafn alveg glatað.” Gamlir Grindvíkingar, trúir sögunni af Molda-Gnúpi, telja fellið hafa upphaflega heitið “Hafur-Bjarnafell”, en það nafn hafi síðar glatast.

Þorbjörn

Þorbjörn. Hér sést misgengið vel um miðju fellsins.

Misgengi er liggur þvert í gegnum fellið frá SV til NA sést mjög vel. Efst við vestanverðan bergvegginn sést í Þjófagjá þar sem þjófarnir (skv. þjóðsögunni) höfðust við og herjuðu á bændur og búalið. Vestan í fellinu má sjá andlit Þorbjörns. Í örnefnaskráningu fyrir Járngerðarstaði eftir Ara Gíslason segir m.a. um Þorbjarnarfellið: “Klifhólar eru útrennsli úr Þorbirni [að suðaustanverðu] en sunnan í Þorbirni er fyrst Eystri-Klifhóll. Ofar í Klifinu er Fiskitorfa. Neðar og vestar er Vestri-Klifhóll og þar ofar er Krókatorfa. Vestan við Klifhól, utan í fjallinu vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr. Vegghamrar er lágur hraunhamraveggur suðaustan í Lágafelli og tengir það við Þorbjörn.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn). Klifhólarnir er sunnan við austanvert fellið og hraunið framhendis nefnist Klifhólahraun.

Vesturhlið Þorbjarnar er brattar skriður sem heita Skjónabrekkur.
Milli Klifhólanna er Klifhólatorfa niður af Krókatorfu sem nú er aðeins snepill.” Á Þorbjarnarfelli var kampur frá hernum á stríðsárunum (II) og má enn sjá leifar hans í gígskál fellsins
Í örnefnalýsingu fyrir Járngerðarstaði segir m.a. um Dýrfinnuhelli: “Milli Heimastaklifs og Tæphellu er Dýrfinnuhellir. Hann er að mestu ofan jarðar, hvolfþak, nokkrir ferfaðmar að stærð, og opinn að nokkru leyti á móti norðri. Hann var þarna alveg við gamla veginn til Keflavíkur.” Heimastaklif er milli Lágafells og Tæphellu.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegurinn norðan Lágafells.

Á þessum kafla má best greina vegaumbæturnar, sem gerðar voru á Skipsstíg, þótt víða megi sjá merki þeirra á leiðinni.  Gatan er jafnbreið á alllöngum kafla og hefur verið borið í hana, en ofaníburðurinn, þ.e. fínasti hluti hans, er fyrir löngu fokinn út í veður og vind. Eftir stendur formið.
Skipsstígurinn liggur vestan þess. Augljóst er að gera hefur átt stíginn vagnfæran. Líklegt má telja að þarna hafi verið um atvinnubótavinnu að ræða skömmu eftir aldamótin 1900, sem síðan hafi ekki enst lengur en raun ber vitni. Þessi hluti stígsins er einstaklega fallegur og full ástæða til að varðveita hann, enda má ætla að hann teljist nú til fornleifa skv. gildandi þjóðminjalögum.

Skipsstígur

Skipsstígur innan svæðis loftskeytastöðvarinnar sunnan Lágafells.

Lágafell er suðvestan við Þorbjarnarfell. Fellið er dyngja, ein af þeim smærri á Reykjanesskaganum. Lágafellsheiði nefnist heiðin umhverfis Lágafell, einkum sunnan þess. Í henni er t.d. fjarskiptastöð varnarliðsins o.fl. Nokkrar jarðfallnar vörður eru við stíginn undir Lágafelli. Suðvestan við Lágafell greinist Skipsstígurinn í tvennt; annars vegar heldur hann beint áfram til suðausturs, að Hópi, og hins vegar til suðurs, að Járngerðarstöðum. Báðir stígarnir eru klipptir í sundur af girðingu er umlykur varnarsvæðið að norðanverðu. Sjá má þá liðast þar um móana og vörðubrot við þá.
Hópsanginn kemur undan girðingunni að austanverðu. Vörðubrot er við hann innan girðingar og síðan liðast hann áfram um móana áleiðis í Kúadal.
SkipsstígurGengið var suður fyrir girðinguna, að Títublaðavörðu. Þar sést Skipsstígurinn liðast um slétt hraun og vörðubrot innan við. Títublaðavarðan er utan girðingar. Þaðan liðast stígurinn að Reykjanesvegi, undir hann og áfram áleiðis að Járngerðarstöðu. Vörðubrot er við stíginn sunnan vegarins.
Tómas Þorvaldsson lýsti eitt sinn upphafi Skipsstígs fyrir FERLIR. Þá var gengið upp frá Járngerðarstöðum og upp að girðingunni er umlykur “varnasvæðið” í Lágafellsheiðinni ofan Grindavíkur. Þegar staðnæmst var skammt frá girðingunni benti “Toddi” á hálffallna vörðu. Sagði hann hana hafa jafnan verið nefnd Títublaðavarða. Sú álög hafi verið á vörðunni að henni skyldi jafnan haldið við og endurhlaðin eftir því sem þurfa þykir. Meðan það er gert er mun Grindavík hólpin. Sagan er svipuð hér í Járngerðarstaðahverfi og með “Tyrkjavörðuna”, öðru nafni Gíslavarða, utan 
við Staðarhverfi.

Skipsstígur

Skipsstígur – varða.

Títublaðavarðan er vel gróin að neðanverðu. Annars eru vörðurnar við Skipsstíg allflestar sömu megin; vinstra megin er gengið er til suðurs.
Í matsskýrslu Hitaveitur Suðurnesja vegna línulagninga á svæðinu segir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur m.a. um hinar fornu þjóðleiðir: “Fornleiðirnar fjórar Skipsstígur, Prestastígur, Árnastígur og ónefnd leið, eru taldar hafa talsvert minjagildi í heild sinni, en einstakar vörður á leiðunum eru taldar hafa lítið minjagildi. Fornleiðirnar og er þá átt við göturnar sjálfar en ekki vörðurnar, eru taldar vera í mikilli hættu vegna mannvirkjagerðarinnar. Hættan felst einkum í slóðagerð sem fylgir línubyggingunni. Aðrir fornleifastaðir eru taldir í lítilli hættu og er það vegna námuvinnslu í Stapafelli hvað varðar tvo þeirra og ein varða sem hefur ekkert minjagildi er í lítilli hættu vegnalínulagnarinnar.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Skipsstígur er talinn hafa að geyma fornleifar sem eru eldri en frá 1550. Aldur götunnar er dreginn af því að hún hefur markað djúpa rás í hraunhelluna á köflum, en slíkt gerist ekki nema eftir mjög langa notkunn. Sambærilega rás var ekki að finna á öðrum fornleiðum sem kannaðar voru.” Af þessu má sjá að viðkomandi hefur ekki skoðað hinar leiðirnar mjög vel því í þeim má einmitt víða sjá djúp för í klappirnar, auk þess sem sumar vörðurnar eru greinilega mjög fornar. Bjarni minnist t.a.m. ekki á Gíslhelli í skýrslu sinni.
Hægt væri að fara mörgum orðum um flóru svæðisins umhverfis Skipsstíg, en fróðlegt er að lesa matsskýrslur sérfræðinga, sem allar eru á einn veg: “Fjölbreytt flóra er á svæðinu, en því hefur þegar verið raskað verulega með stígagerð og öðrum framkvæmdum”. Litið hefur v
erið á framangreint sem réttlætingu fyrir frekari framkvæmdum á svæðinu. Sem sagt – eyðileggja bara nógu mikið því það réttlætir frekari skemmdir. Þetta geta nú varla talist frambærileg rök frá sæmilega upplýstu fólki.

Varða

Þegar örnefnalýsingar fyrir Járngerðarstaði eru skoðaðar má sjá lýsingu á syðsta hluta Skipsstígsins þar sem hann liggur um Lágafellsheiðina niður að bæ. Ef tekið er það sem eftir var af leiðinni og haldið til heiðarinnar má sjá að “skammt fyrir ofan þorpið er gjáin Silfra. Er sagt að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum. Fast við Vatnsstæðið er varða við veginn til Keflavíkur og heitir hún Títublaðavarða. Upp af Silfru voru Eldvörpin [ekki þau sem eru allnokkru vestar] en þau eru nú horfin því herinn sléttaði þau út. Vestur af þeim er Eldborg. Þar upp af er graslendi sem nefnt er Lágafellsheiði. Um hana lá vegurinn til Keflavíkur.

Helghóll

Helghóll við Skipsstíg innan varnarsvæðisins.

Þar vestur af er Bjarnafangi eða Bjarnafles. Þetta er klöpp rétt vestur eða norðvestur af Eldborg. Hjá henni er Litliblettur. Þá er Stóriblettur og Langhóll vestur af Eldvörpum. Norður af Eldvörpum er grashóll sem heitir Helghóll og kringum hann eru grasivaxnar lágar, Helghólslág eða Helghólslautir. Hóllinn sjálfur er toppmyndaður, þar var sagt að hefði verið huldufólkskirkja. Hún er nú innan varnargirðingarinnar. Upp af Helghól er Lágafell. Kúadalur er í hrauninu [Garðhúsahrauni] þar sem vegurinn liggur. Eldvarpahraun tekur við vestan við Kúadal. Lágafellsheiði heitir einkum austur af gamla Keflavíkurveginum en þegar komið er upp fyrir Lágafell heitir vegurinn Skipsstígur sem áður er nefnt.”

Skipsstígur

Skipsstígur; úr götu í veg.

Skipsstígurinn endurspeglar brú margbreytileikans, annars vegar vegagerð hinnar eðilslægu og skynsamlegu þörf fortíðar og hins vegar tilraun nútímans (1900) til að bregðast við breyttum þörfum samtímans. Hann hefur því ekki einungis gildi sem fornleif (100 ára reglan) heldur og sem áþreifanlegur vottur þróunar í vegagerð hér á landi frá einum tíma til annars – einkum nútímans.
Gangan tók 5 klst og 05 mín.
Frábært veður – logn og sól.

Heimildir m.a.:
-Helgi Torfason og Ingvar Atli Sigurðsson – 2002.
-Járngerðarstaðir – örnefnaskrá (Örnefnastofnun Íslands).
-Njarðvík – örnefnaskrá (Örnefnastofnun Íslands).
-Fornleifaskráning á Reykjanesi – BFE – 2002.
-Sýslulýsingar 1744-1749 – Reykjavík 1957.
-Saga Grindavíkur.

Grindavík

Grindavík – þjóðleiðir á vestanverðum Reykjanesskaga.

Árnastígur

Genginn var Árnastígur og síðan nyrðri hluti Skipsstígs frá Húsatóftum til Njarðvíkur – 18 km leið. Þar af er Árnastígurinn 12 km að mótum stíganna austan Stapafells. Gangan var með Strandgönguhópnum og liður í leiðsögunámi svæðaleiðsögumanna Reykjaness.

Árnastígur

Árnastígur.

Í Örnefnaskrám Grindavíkur er gefin eftirfarandi skýring á örnefninu Árnastígur: “Rétt fyrir suðaustan Klifgjá er vegurinn ruddur og greiðfær. Heitir sá spölur Árnastígur. Árni nokkur, sem fyrrum bjó í Kvíadal, litlu koti í Staðartúni, mun hafa rutt þennan stíg.” Skipsstígur er gamla þjóðleiðin milli Njarðvíkur og Grindavíkur (Járngerðarstaðahverfis).
Sólin var ofar skýjum og vætan yfirliggjandi til að byrja með. Á landamerkjum Grindavíkur og Hafna urðu umskipti og sólin varð ráðandi undir niðri.
Gengið var frá upphafsstað við Húsatóftir upp að fyrstu sýnilegu vörðunni við Árnastíginn skammt ofan við golfvöll Grindvíkinga. Eftir það var stígurinn fetaður með vörðurnar á hægri hönd, að einni undantekinni (þ.e. varða við Skipsstíginn skammt ofan gatnamóta Árnastígs nyrst við Rauðamelinn). Með í för voru fræðarar leiðsögumannanema, Ægir og Þorvaldur. Alla leiðina miðluðu þeir af reynslu sinni og þekkingu svo flestir stóðu margfróðari eftir.
Í fyrstu hefur Árnastígurinn verið ruddur slóði, en víða í beygjum má sjá upphafleg einkenni hans.

Árnastígur

Árnastígur – varða.


Skammt sunnan við Sundvörðuhraun m.a. m.a. sjá hlaðið undir stíginn á einum stað þar sem hann liggur á milli jarðfalla. Þegar komið er suðaustan við Sundvörðuhraun liggur frá honum annar stígur (varða við gatnamótin). Sá stígur liggur framhjá svonefndum “Tyrkjabyrgjum” í krika sunnan undir Sundvörðuhrauni og áfram inn í Eldvörp. Þar eru hleðslur (garðar), auk svonefnds “Útilegumannahellis” eða “Brauðhellis”. Í honum sjást hleðslur.

Árnastígur

Árnastígur.

Austan Sundvörðuhraun, á hellunni sem er yfirborð Eldvarparhrauns, er stígurinn allsléttur og norðaustan við hraunkantinn sést vel hversu markaður hann er í klöppina eftir hófa, klaufir og fætur liðinna alda. Áður en stógurinn beygir til norðurs má sjá gatnamóti í beygjunni. Úr henni liggur stígur til suðurs niður í Járngerðarstaðahverfis (sem loftskeytastöðin hefur reyndar girt af), að Títublaðavörðu.
Áð var áður en komið var yfir Elvarparhraunið. Þar mátti m.a. sjá “landnemaplöntur”, sem óvíða er að sjá annars staðar en á heitari svæðum. Í áningunni sannaði Vogafólkið enn og aftur að fáir kunna sig betur á ferðalögum. Þeir drukku t.a.m. úr postulíni á meðan aðrir sötruðu ú plastílátum. Áfram liggur stígurinn í gegnum Eldvörpin og inn á Sandfellshæðarhraunið, með jaðri Eldvarparhrauns austan Lágafells og síðan áfram milli þess og Rauðhóls (Gígs), niður misgengi (Klifgjá) vestan Þórðarfells og áfram norður með því austanverðu. Í misgengisberginu, sem þarna er allhátt, er hrafnslaupur, augsýnilegur.

Árnastígur

Árnastígur.

Við Þórðarfellið er sagt að Hafnfirðingar, Njarðvíkingar, Þjóðverjar og Bessastaðavaldið hafi safnast saman hinn örlagaríka júnídag árið 1532 áður en sótt var að Englendingum ofan við Stóru-Bót vestan við Járngerðarstaðahverfið í Grindavík (sumir segja Greindarvík) þar sem 18 enskir voru vegnir og aðrir heftir til skamms tíma. Mun það hafa verið upphafið að lok “ensku aldarinnar” hér á landi (sjá Grindavíkurstríði I, II, III og IV. undir fróðleikur (Skrár).
Í brekkunni, við stíginn, er ferningslaga hleðsla. Þegar komið er norðvestur fyrir Þórðarfellið vilja flestir halda áfram eftir slóða, sem þar er, en Árnastígurinn liggur þar til norðurs við vörðu og liðast síðan djúpt í móanum í hlykkjum áleiðis að Stapafelli. Áður en komið er að Stapafelli endar stígurinn við vörðubrot, enda bíð að raska svæðinu framundan verulega.
sjávargrjótGenginn var slóði norðaustur með Stapafellinu, austur fyrir Hrafnagjá og síðan í námunum norður fyrir það. Þar er einstaklega fallegar bólstrabergsmyndun. Að sögn Ægis er þar einnig “stærsti bólstur í heimi” og hafði það eftir Sigurði heitnum Þórarinssyni, jarðfræðingi. Ekki verður dregið í efa að hann sé stór. Ægir kynnti myndun bólstarbergsins sem og annarra bergmyndana í fjallinu, s.s. móbergs og gosbergs sem og leik jökuls og sjávar við þau eftir myndun, sbr. Rauðamel og myndun hans sem tímabundins skers.
Haldið var áfram norðaustur eftir Árnastíg undir Stapafellsgjá, þar sem stígurinn er allgreinilegur. Vörðubrot eru víða til hliðar við stíginn. Reynt var að gera vörðurnar greinilegri, en þarna hafr að taka til hendinni og reisa vörðubrotin umm úr sverðinum við tækifæri. Ekki fer á milli mála að sá hluti Árnastígsins, þar sem hann hefur ekki verið yfirkeyrður með jarðvinnuvélum, hefur lítt verið genginn í seinni tíð. Mosinn og gróðurinn bera þess glögg merki.
VarðaÞegar komið er að gatnamótum Skipsstígs er stólpi er sýnir með óyggjandi hætti hvar þau eru, en fyrir ókunnuga er erfitt að sjá hvor stígurinn er hvað. Við gatnamótin eru gömul vörðubrot, en nýlegri vörður hafa verið reistar í nánd.
Haldið var áfram norður eftir Skipsstíg. Fallegar, háar og heillegar vörður móta þá leið, flestar “karlskyns”. Á kafla má sjá stíginn vel mótaðan í bergið. Þegar komið var að varnargirðingunni var haldið hiklaust áfram í gegnum hana, yfir varnasvæðið og út hinum megin.

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Krókur um hana til austurs hefði kostað u.þ.b. 45 mín. óþarfa göngu til viðbótar, en Skipsstígurinn liggur í gegnum varnargirðinguna á sama stað og hitaveitulögnin. Yfir svæðið er ekki nema u.þ.b. 300 metra gangur. Þetta þarf að bæta, enda notkun svæðisins aflögð að mestu eða að öllu leyti. Ef athygli hins ágæta utanríkisráðherra, sem reyndar hefur gengið með FERLIR, væri vakin á þessu, myndi hann án efa bæta um betur.
Þaðan var strikið tekið eftir hitaveitlínuveginum að Fitjum. Þar er upphafsskilti er segir að þar sé upphaf Skipsstígs (18 km). Reyndar er upphaf Skipsstígs mun austar þar sem hann liðast um móana í átt að Sjónarhól og síðan áfram í átt að vörðunum sunnan varnargirðingarinnar. Stígurinn er þó víða horfinn á því svæði vegna landrofs.
Gangan tók 6 klst. Góð ganga með góðu fólki í góðu og sagnaríku umhverfi.

Árnastígur

Árnastígur – gulur.

 

Dýrfinnuhellir

Gengið var um Grindavík og m.a. hugað að Grindavíkurhelli og Dýrfinnuhelli við Skipsstíg í Skipsstígshrauni. Áhugasömum Grindvíkingum var boðin þátttaka. Upphafsstaður var í Kúadal suðvestan við Hesthúsabrekku.

Kúadalur

Kúadalur í Grindavík.

Við Kúadal er varða við gömlu leiðina frá Þórkötlustaðahverfi inn á Skipsstíg, hina gömlu þjóðleið milli Járngerðarstaða og Njarðvíkur. Frá henni var haldið yfir að Stamphólsgjá. Austan við gjána eru tvær aðrar vörður á sömu leið. Stamphólsgjá lá svo að segja í gegnum núverandi Járngerðarstaðahverfi, frá NA til SV. Hún var síðan fyllt upp eftir því sem byggðin óx. Nú sést gjáin einungs óskert á stuttum kafla efst í landinu norðan og ofan við byggðina, vestan íþróttasvæðisins. Á einum stað í gjánni er hægt að komast niður í hana. Því miður er niðurfallið fullt af rusli svo niðurgangurinn er lítt fýsilegur. Hægt er að komast inn undir hraunið í báðar áttir. Þrengsli eru í syðri hlutanum, en með lagni er hægt að feta sig áfram allnokkurn spöl. Einungis 30 metrar voru farnir að þessu sinni.

Grindavíkurhellir

Grindavíkurhellir.

Í 19. aldar ferðalýsingu er getið um Grindavíkurhelli. Hellinum er ekki lýst nánar en að hann sé alllangur. Slík lýsing gæti vel átt við svonefndan Gauahelli, sem áður var nefndur Jónshellir. Opið á honum er norðvestan við Stamphólsgjá. Fara þarf niður í gjána um op á hraunbólu. Í því er að sjá sem bólan sé þak á nýrra hrauni, rauðlituðu, en undir er eldra grágrýti.
Slæmt er að sjá hveru innopið hefur dregið að sér mikið af alls kyns drasli. Þegar inn er komið er hellirinn vel rúmgóður. Svo er að sjá sem gólfið hafi verið þakið viðarfjölum, sem nú eru farnar að fúna. Innar er stigi svo til lóðrétt niður í jörðina um sprungu í eldra hrauni.
Þegar niður er komið er fyrir rúmgóður hellir og hægt að fara suðvestur eftir gjánni. Áður fyrr var mögulegt að fara alllangt til suðvesturs og koma upp þar sem nú er félagsheimilið Festi. Opinu þeim megin var lokað þegar félagsheimilið var byggt.

Grindavíkurhellir

Grindavíkurhellir í dag – opið þakið rusli.

Fólk var jafnan varað við að fara um hellinn því hann er víða þröngur, auk þess sem dæmi eru um að menn hafi lokast inni í honum um tíma eftir jarðskjálfta. Segir sagan að tveir menn hafi verið í hellinum þegar jarðskjálfti reið yfir. Grunur lá á að hellirinn hafi þá verið notaður til brugggerðar um tíma líkt og Hesthellir í Arnarseturshrauni. Lokuðust mennirnir inni, en opnaðist aftur þegar annar jarðskjálfti fylgdi í kjölfarið. Töldu þeir sig heppna að komast út aftur. Sprungunni var ekki fylgt á leiðarenda að þessu sinni, einungis látið nægja að skoða innviðina næst opinu.

Þá var tekið hús á Tómasi Þorvaldssyni og hann spurður um staðsetningu Dýrfinnuhellis. Tómas tók vel á móti viðkomandi, rifjaði upp ferð sína um Skipsstíginn og lýsti opinu, hvorum megin við stíginn það væri og hversu langt frá honum.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Þá var gengið yfir á Skipsstíg vestan Lágafells og honum fylgt áleiðis til norðurs. Stígurinn hefur verið endurgerður á kafla. Líklega hefur sú framkvæmd átt að þjóna vögnum eða bifreiðum. Þar sem kvöldsólin skein á stíginn og heillegar vörðurnar sást hvar hann liðaðist jafnbreiður í gegnum hraunið, vandlega gerður af mannanna höndum. Lítið sem ekkert er vitað um þessar úrbætur á Skipsstíg, sem lengst af var stysta leiðin milli Suðurnesjabyggðalaganna beggja vegna Reykjanesskagans. Það breyttist hins vegar með tilkomu Grindavíkurvegarins um Selháls og í gegnum Arnarseturshraun að Seltjörn og áfram upp á Keflavíkurveginn á Stapa á árunum 1913-1918. Skipsstígur er mjög fallegur á þessari leið þar sem hann liðast í gegnum hraunið.

Skipsstígur

Varða við Skipsstíg.

Norðan og vestan við Lágafellið er Dýrfinnuhellir. Segir Tómas Þorvaldsson frá því í einni bóka sinna að sögn hafi verið um að samnefnd kona hafi flúið þangað með börn sín eftir að “Tyrkirnir” komu að Grindavík og fóru ránshendi um byggðalagið. Á hún að hafa hafst við í hellinum um tíma. Þá er ekki ólíklegt að vegavinnumennirnir á Skipsstíg hafi nýtt hellinn sem skjól. Gegnumgeng braggalaga hraunbóla er þarna skammt norðar, vinstra megin við stíginn. Hleðsla er við annan endann. Ekki er ólíklegt að ferðalangar og vegagerðamenn hafi einnig nýtt sér það sem skjól um tíma.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Dýrfinnuhellir, skv. lýsingunni er stutt frá stígnum. Nokkrir hellar eða skútar eru einnig við hann eigi langt frá. Einn er vel manngengur og liðast undir hraunið. Dýrfinnuhellir er hins vegar rúmgóður, en ekki mjög hár til lofts. Hann hefur hins vegar veitt ágætt skjól þeim, sem í honum dvöldu. Þykkt lag af sandi er í gólfinu. Skammt frá honum er annar hellir, ekki síður ákjósanlegt skjól. Innhellar hans eru víða lágir. Sandur er í botninum.

Handan við stíginn, skammt frá er hins vegar mjög fallegur hellir, eða m.ö.o. stór hraunbóla. Botninn er alveg sléttur og hlaðið hefur verið upp í kantana. Opið er fremur lítið og að mestu þakið mosa. Mjög góður felustaður. Niðurstigið hefur verið lagað til. Þarna er mjög gott skjól fyrir marga menn.

Skipsstígur

Hellir við Skipsstíg.

Ef lýsingin hefði ekki verið svo nákvæm af staðsetningu Dýrfinnuhellis væri raunhæft að ætla að þarna hafi fólk getað hafst við um tíma og það með góðu móti. Hellir þessi verður skoðaður betur á næstunni.
Í göngunni villtist einn þátttakenda frá hópnum. En eins og jafnan er kynnt er ekki beðið eftir eða leitað að “eftirlegukindum”. Og þar sem þessi þátttakandi hafði ekki göngustað eða önnur verðmæti meðferðis var hann skilinn eftir. Vonandi ratar hann til byggða þá og þegar húmar að kveldi.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Í bakaleiðinni léku kvöldsólargeislarnir við Þorbjarnarfellið. Við það sást Gyltustígurinn upp vestanvert fellið mjög vel.
Hraunið er þarna víða mjög úfið, en inni á milli eru tiltölulega slétt apalhraun. Hraunkanturinn er u.þ.b. 6 metra hár og sést vel hvernig hann hefur stöðvast á graslendinu norðan Lágafells. Reykjavegurinn svonefndi liðast vestur með sunnanverðum hraunkantinum. Miðsvæðis sunnan við hann er sæluhús fyrir langþreytta ferðalanga.
Frábært veður.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Skipsstígur

Genginn var Árnastígur og Skipsstígur frá Húsatóftum til Njarðvíkur – 18 km leið. Þar af er Árnastígurinn 12 km. Gangan var með Strandgönguhópnum og liður í leiðsögunámi svæðaleiðsögumanna Reykjanesi.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Örnefnaskrám Grindavíkur er gefin eftirfarandi skýring á örnefninu Árnastígur, sem er gamla þjóðleiðin af Skipsstíg til Húsatófta: “Rétt fyrir suðaustan Klifgjá er vegurinn ruddur og greiðfær. Heitir sá spölur Árnastígur. Árni nokkur, sem fyrrum bjó í Kvíadal, litlu koti í Staðartúni, mun hafa rutt þennan stíg.” Skipsstígur er gamla þjóðleiðin milli Njarðvíkur og Grindavíkur (Járngerðarstaðahverfis).
Sólin var ofar skýjum og vætan undir til að byrja með. Á landamerkjum Grindavíkur og Hafna urðu vistaskipti og sólin varð ráðandi undir niðri.
Gengið var frá upphafsstað við Húsatóftir upp að fyrstu sýnilegu vörðunni við Árnastíginn skammt ofan við golfvöll Grindvíkinga. Eftir það var stígurinn fetaður með vörðurnar á hægri hönd, að einni undantekinni (þ.e. varða við Skipsstíginn skammt ofan gatnamóta Árnastígs nyrst við Rauðamelinn). Með í för voru fræðarar leiðsögumannanema, Ægir og Þorvaldur. Alla leiðina miðluðu þeir af reynslu sinni og þekkingu svo margir stóðu margfróðari eftir.

Árnastígur

Nefvarða við Árnastíg.

Nú hefur Árnastígurinn að hluta verið ruddur í slóða, en víða í beygjum má sjá upphafleg einkenni hans. Skammt sunnan við Sundvörðuhraun m.a. m.a. sjá hlaðið undir stíginn á einums tað þar sem hann liggur á milli jarðfalla. Þegar komið er suðaustan við Sundvörðuhraun liggur frá honum annar stígur (varða við gatnamótin). Sá stígur liggur framhjá svonefndum “Tyrkjabyrgjum” í krika sunnan undir Sundvörðuhrauni og áfram inn í Eldvörp. Þar eru hleðslur (garðar), auk svonefnds “Útilegumannahellis” eða “Brauðhellis”. Í honum sjást hleðslur.

Skipsstígur

Gengið um Skipsstíg.

Austan Sundvörðuhraun, á hellunni er yfirborð Eldvarparhrauns, er stígurinn allsléttur og norðaustan við hraunkantinn sést vel hversu markaður hann er í klöppina eftir hófa, klaufir og fætur liðinna alda. Áður en stógurinn beygir til norðurs má sjá gatnamóti í beygjunni. Úr henni liggur stígur til suðurs niður í Járngerðarstaðahverfis (sem loftskeytastöðin hefur reyndar girt af), að Títublaðavörðu.
Áð var áður en komið var yfir Elvarparhraunið. Þar mátti m.a. sjá “landnemaplöntur”, sem óvíða er að sjá annars staðar en á heitari svæðum. Í áningunni sannaði Vogafólkið enn og aftur að fáir kunna sig betur á ferðalögum. Þeir drukku t.a.m. úr postulíni á meðan aðrir sötruðu ú plastílátum.

Árnastígur

Varða við Árnastíg.

Áfram liggur stígurinn í gegnum Eldvörpin og inn á Sandfellshæðarhraunið, með jaðri Eldvarparhrauns austan Lágafells og síðan áfram milli þess og Rauðhóls (Gígs), niður misgengi (Klifgjá) vestan Þórðarfells og áfram norður með því austanverðu. Í misgengisberginu, sem þarna er allhátt, er hrafnslaupur, augsýnilegur.
Við Þórðarfellið er sagt að Hafnfirðingar, Njarðvíkingar, Þjóðverjar og Bessastaðavaldið hafi safnast saman hinn örlagaríka júnídag árið 1532 áður en sótt var að Englendingum ofan við Stóru-Bót vestan við Járngerðarstaðahverfið í Grindavík (sumir segja Greindarvík) þar sem 18 enskir voru vegnir og aðrir heftir til skamms tíma. Mun það hafa verið upphafið að lok “ensku aldarinnar” hér á landi (sjá Grindavíkurstríði I, II, III og IV. undir fróðleikur (Skrár).

Árnastígur

Árnastígur.

Í brekkunni, við stíginn, er ferningslaga hleðsla. Þegar komið er norðvestur fyrir Þórðarfellið vilja flestir halda áfram eftir slóða, sem þar er, en liggur þar til norðurs við vörðu og liðast síðan djúpt í móanum í hlykkjum áleiðis að Stapafelli. Áður en komið er að Stapafelli endar stígurinn við vörðubrot, enda bíð að raska svæðinu framundan verulega.
Genginn var slóði norðaustur með Stapafellinu, austur fyrir Hrafnagjá og síðan í námunum norður fyrir það. Þar er einstaklega fallegar bólstrabergsmyndun. Að sögn Ægis er þar einnig “stærsti bólstur í heimi” og hafði það eftir Sigurði heitnum Þórarinssyni, jarðfræðingi. Ekki verður dregið í efa að hann sé stór. Ægir kynnti myndun bólstarbergsins sem og annarra bergmyndana í fjallinu, s.s. móbergs og gosbergs sem og leik jökuls og sjávar við þau eftir myndun, sbr. Rauðamel og myndun hans sem tímabundins skers.
Haldið var áfram norðaustur eftir Árnastíg undir Stapafellsgjá, þar sem stígurinn er allgreinilegur. Vörðubrot eru víða til hliðar við stíginn. Reynt var að gera vörðurnar greinilegri, en þarna hafr að taka til hendinni og reisa vörðubrotin umm úr sverðinum við tækifæri. Ekki fer á milli mála að sá hluti Árnastígsins, þar sem hann hefur ekki verið yfirkeyrður með jarðvinnuvélum, hefur lítt verið genginn í seinni tíð. Mosinn og gróðurinn bera þess glögg merki.

Árnastígur

Árnastígur.

Þegar komið er að gatnamótum Skipsstígs er stólpi er sýnir með óyggjandi hætti hvar þau eru, en fyrir ókunnuga er erfitt að sjá hvor stígurinn er hvað. Við gatnamótin eru gömul vörðubrot, en nýlegri vörður hafa verið reistar í nánd.
Haldið var áfram norður eftir Skipsstíg. Fallegar, háar og heillegar vörður móta þá leið, flestar “karlskyns”. Á kafla má sjá stíginn vel mótaðan í bergið. Þegar komið var að varnargirðingunni var haldið hiklaust áfram í gegnum hana, yfir varnasvæðið og út hinum megin. Krókur um hana til austurs hefði kostað u.þ.b. 45 mín. óþarfa göngu til viðbótar, en Skipsstígurinn liggur í gegnum varnargirðinguna á sama stað og hitaveitulögnin. Yfir svæðið er ekki nema u.þ.b. 300 metra gangur. Þetta þarf að bæta, enda notkun svæðisins aflögð að mestu eða jafn öllu leyti. Ef athygli hins ágæta utanríkisráðherra, sem reyndar hefur gengið með FERLIR, væri vakin á þessu myndi hann án efa bæta um betur. Þaðan var strikið tekið eftir hitaveitlínuveginum að Fitjum. Þar er enn eitt upphafsskiltið er segir að þar sé upphaf Skipsstígs (18 km). Reyndar er upphaf Skipsstígs mun austar þar sem hann liðast um móana í átt að Sjónarhól og síðan áfram í átt að vörðunum sunnan varnargirðingarinnar (Títublaðavörðu). Stígurinn er þó víða horfinn á því svæði vegna landrofs.
Gangan tók 6 klst. Góð ganga með góðu fólki í góðu og sagnaríku umhverfi.

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Skipsstígur er gömul þjóðleið milli Grindavíkur (Járngerðarstaða) og Njarðvíkur.
Í dag má sjá götuna Vegavinnuskjolmilli Sjónahóls ofan við Njarðvík að Nesvegi ofan Járngerðarstaða. Gatan er vörðuð alla leiðina og er Títublaðavarðan sú syðsta. Sagan segir að nafnið sé til komið annað hvort vegna þess að áhafnir hafi borið skip sín (árabáta) á milli byggðalaganna eftir því sem viðraðist eða að fiskimenn hafi gengið þessa götu milli staðanna til og frá skipi (veri).
Þegar nýi Grindavíkurinn (akvegurinn) hafði verið lagður 1918 lagðist umferð um Skipsstíg niður. Á a.m.k. tveimur stöðum má sjá kafla þar reynt hefur verið að laga gömu götuna og gera hana vagnfæra.
Báðir staðirnir heita lágar, þ.e. Lágafallslágar sunnan Heimastaklifs og Gísllágar sunnnan Vörðugjár. Þar hefur gatan verið unnin; hlaðið í kantana og fyllt á milli með möl og grús. Kaflinn í Lágafellslágum er heldur lengri. Báðir staðirnir hafa það sammerkt að við þá eru skjól, sem vegavinnumenn hafa hafst í.
GislhellirÍ Gíslhelli er mikil vegghleðsla í hraunrás og í syðra er aflangt hraunhveli, opið í báða enda. Svo virðist sem vegkaflarnir hafi verið valdir með hliðsjón af skjólum þessum. Þarna hafa vegavinnumen getað leitað afdreps í vondum veðrum, rigningu og sudda.
Talið er líklegt að vegaframkvæmdir þessar hafi verið þáttur í tímabundinni atvinnubótavinnu í kringum aldamótin 1900. Annað hvort hefur einungis lítilli fjárhæð verið varið til verksins af hálfu hreppsins eða það lagst af vegna þess að þátttakendur hafa fengið atvinnu við annað. Auk þess gerði tilkoma bílsins um þessar mundir það að verkum að gerð vagnvega varð óþörf því sjálfrennireiðin gerði kröfu til annars konar vegagerðar.

Gíslhellir

Við Gíslhelli við Skipsstíg.

 

 

Gíslhellir

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: “Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. (Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: “Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Selvatn”). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum”.

Gíslhellir

Í Gíslhelli.

Næsta verkefni á þessu svæði var að leita svæðið er hefur örnefnið Lágar, þ.e. sunnan við Rauðamelinn og austan við Vörðugjá og Skipsstíg – í háaustur af Stapafelli. Um var að ræða svæði sunnan við svæði, sem leitað hafði verið áður í fyrri FERLIRsferð.
Áður en leit hófst hafði maður, jarðfræðingur, samband og sagðist sennilega hafa séð hellir þann, sem leitað væri að á þessu svæði. Hann hefði verið á gangi um hraunið í leit að jarðfræðifyrirbærum er hann rakst á fallega fyrirhleðslu fyrir opi á leitarsvæðinu (Gíslhellislágar) og innan við var gólfið flórað. Ákveðið var að fá manninn á svæðið.

Gíslhellir er fundinn. Maðurinn, doktor Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, sem hafði séð hellinn er hann gekk fram á hann af tilviljun á sínum tíma, fylgdi FERLIR á vettvang. Án hans hefði verið nær ómögulegt að hafa upp á hellinum þrátt fyrir örnefnalýsingu frá Njarðvíkum.
Gengið var um Gíslhellislágar og síðan strikið tekið á tiltekið hraun, en þau eru nokkur þarna frá ólíkum tímum. Kristján gaf sér góðan tíma til að fræða þátttakendur um þau sem og jarðlögin á leiðinni. T.a.m. var tekin hola til að skoða öskulögin. Sást þá vel Reykjanesöskulagið frá 1226 (svart) og síðan R-3, um 2200 ára gamalt (árið sem Karlinn út við Reykjanes fæddist í) og landnámslagið þar á milli.

Gíslhellir

Fyrirhleðsla Gíslhellis.

Hellirinn sjálfur er vandfundinn. Hann mun líkast til hafa verið þekktur áningarstaður eða skjól vegfarenda um Skipsstíginn á sínum tíma, en er stígurinn lagðist af að mestu, hefur skjólið fallið í gleymsku – enda ekki fast við stíginn og alls ekki auðfundið, eins og áður sagði.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða “Tyrkjabyrgin” í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.
Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.
Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir. Hugsanlegt er að í honum hafi einhverjum verið haldið í gíslingu um tíma og nafnið hlotist af því. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins. Til er t.a.m. saga af ræningjum er héldu til í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli. Þá eru uppi hugmyndir um að Gíslhellir gæti hafa verið notaður í tengslum við gerð Grindavíkurvegarins 1914-1918.

Gíslhellir

Op Gíslhellis.

A.m.k. gætu hleðslurnar bent til þess. Ekki ólíklegt að þarna gæti hafa verið eldhúsaðstaða vegavinnumanna. Þá gæti þarna hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell. Gæti líka hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
Til öryggis var nágrennið (og rúmlega það) gengið og kannað hvort þarna kynnu að leynast fleiri mannvirki. Svo reyndist ekki vera. Einungis beinaleifar í skjólum og hraunskjólum. Spurn hefur borist af fallegri hleðslu fyrir munna þarna allnokkru sunnar, sem á eftir að kanna nánar. Hún gæti einnig hafa tengst gerð Grindavíkurvegarins, en minjar eftir þá vegagerð er á a.m.k. 12 stöðum við veginn, frá Stapa að Hrossabrekkum.
Fróðlegt væri nú að fá sögn eða sagnir af Gíslhelli, ef þær eru þá til. Mosinn í og við hellinn var óhreyfður og ekkert spor í botninum, sem bendir til þess að í hann hafi ekki komið maður í langan tíma.
Frábært veður.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Skipsstígur

Gengið var suður Skipsstíg frá hitaveituveginum út að Eldvörpum, litið á flóraða uppgerða kaflann norðan Lágafells (sennilega atvinnubótavinna og undanfari Grindarvíkuvegarins um Gíghæð, sem lagður var á árunum 1914-1918) og komið við í Dýrfinnuhelli. Segir sagan að þangað hafi samnefnd kona flúið með börn sín eftir komu Tyrkjans 1627 og hafst þar við um tíma (TÞ).

Skipsstígur

Vagnvegshluti Skipsstígs.

Þaðan var beygt inn á Baðsvelli og skoðuð Baðsvallaselin í hraunkantinum og norðan skógræktarinnar á miðjum völlunum, sem og í skóginum. Því miður hafði verið plantað í sumar tóftirnar og eru þær nú að hverfa í skógarbotninn.
Síðan var lagt á brattan og gengið upp um norðanvert Þorbjarnarfell. Þar uppi eru stríðsminjar í syðri dyngjunni. Gengið var áfram upp með henni, í Þjófagjá og síðan haldið niður einstigið, sem þar er. Þegar komið var í Þjófahelli í gjánni fannst bæði hákarl og gamalt Brennivín á kút. Eftir að því hafði verið gerð góð skil var haldið niður með Lágafelli. Útsýni af Þorbjarnarfelli frá gjánni er stórkostlegt í slíku veðri, sem þarna var. Baðsvallaselstígunum var fylgt að Skipsstíg.

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

Frá þeim hluta Skipsstígs var gengið áfram yfir að þeim hluta sem liggur fram hjá Títublaðavörðu að Járngerðarstöðum. Þau álög hvíla á vörðunni að henni verði að halda við, annars muni Grindavík illa farnast….

Stígnum var síðan fylgt áleiðis að Járngerðarstöðum, en staðnæmst var við Silfru. Frá Silfru var síðan gengið að næsta húsi í Grindavík og þar þegnar veitingar; páskaöl, brauð og annað meðlæti.
Veður var frábært – lygna og sól.
Gangan tók u.þ.b. 2 og ½ klst.

Baðsvellir

Minjar á Baðsvöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Skipsstígur

Fræðingar fetuðu sig hægt og rólega að Gíslhelli, brögðuðu á jarðveginum, lyktuðu af berginu og mátu sólstöðuna. Þegjandi skoðuðu þeir hellinn og nágrenni, mældu, skráðu hjá sér, litu hver á annan, kinkuðu kolli og röltu síðan sólbakaða bakaleiðina í hægðum sínum. Skyldi hellirinn hafa geta hýst a.m.k. 160 menn samtímis? Hvernig geta útilegumenn hafa hafst við svo nálægt götu að ekki vitnaðist? Gæti miðhlutinn hafa verið reftur, en þakið fallið niður? Hvað segir undirlægt hrossataðið um notkun? Niðurstöðu er að vænta fljótlega.

Gíslhellir

Í Gíslhelli.

Ýmsar tillögur og getgátur hafa komið fram um Gíslhelli. Hér eru nokkrar þeirra:
a. Gæti hugsanlega hafa tengst einhverjum atburði svæðisins. Til er t.a.m. sögn af ræningjum í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.
b. Gæti hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli (hellirinn athvarf smala og Lágirnar nátthagi).
c. Gæti hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
d. Gæti hafa verið hluti af búðum vegavinnumanna er byggðu Grindarvíkurveginn á árunum 1914-1918. Hlóðu mikið á mörgum stöðum. Voru m.a. í Innra-Njarðvíkurseli um tíma.
e. Gæti hafa verið skjól fyrir Tyrkjunum 1627.
f. Gæti hafa verið skjól eða tímabundinn felustaður, t.d. útilegumanna, er herjuðu á vegfarendur um tíma, líkt og við Selsvelli.
g. Gæti hafa verið samkomustaður þeirra er tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu 1532 (söfnuðust saman við Þórðarfell).
h. Gæti hafa verið athvarf refaskyttna.
i. Gæti hafa verið áningarstaður á milli Grindavíkur og Njarðvíkur (vantar þá auðkennið).
j. Gæti hafa verið til fleiri en einna nota í gegnum tíðina.

Fleiri ágætar hugmyndir hafa komið fram. Eitt er þó víst og skiptir mestu; staðurinn er fallegur og allar minjar skipta jafn miklu máli – án tillits til aldurs eða notagildis – hver svo sem niðurstaðan kemur til með að verða.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Skipsstígur

Haft var samband við Varnarmálastofnun og leitað eftir heimild til að fá að skoða svæðið innan afgirtrar loftskeytastöðvarinnar undir Lágafelli ofan (norðan) Grindavíkur með það fyrir augum að leita og skoða Skipsstíg, hluta hinnar fornu þjóðleiðar milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Vegna starfseminnar hefur svæðið ekki verið aðgengilegt síðustu áratugina. Bent var á Kögun [nú Advania], sem rekur loftskeytastöðina. Þar var leyfi góðfúslega veitt til könnunarleiðangurs um svæðið.

Títublaðavarða

Loftskeytastöðin var eign og undir stjórn bandaríska flotans, en eftir að Varnarmálastofnun Íslands tók til starfa árið 2008 varð eitt af meginhlutverkum hennar að sinna eftirliti með lofthelgi og flugumsjónarsvæði Íslands. Það gerir Varnarmálastofnun með rekstri ratsjárstöðvanna fjögurra í kringum landið sem Bandaríkin ráku áður, en íslenskir sérfræðingar hafa nú tekið við. Samhliða því hefur íslenska lofteftirlitskerfið nú verið tengt inn í ratsjárkerfi Evrópuhluta NATO. Þannig hefur Ísland færst nær meginlandi Evrópu í öryggismálum og er stefnt að því að Evrópukerfi NATO muni einnig tengjast loftvarnarkerfi Bandaríkjanna og Kanada.
Skipsstígur innan girðingarKögun hf. gerði samning um rekstur fjarskiptastöðvar Bandaríska flotans í Grindavík árið 2006. Fjarskiptastöð bandarískra flotans í Grindavík hefur verið rekin af flotanum frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og verið mönnuð bandarískum hermönnum að langmestum hluta. Það varð hinsvegar ljóst fyrr í sumar að þessi stöð yrði rekin áfram hér á landi og var því reksturinn boðinn út. Fjarskiptastöðin í Grindavík er hluti af víðfeðmu neti samskonar stöðva sem saman mynda fjarskiptanet flotans og annast m.a. lágtíðnisamskipti við skip og kafbáta á hafi úti – allt suður til Azoreyja.
Kögun hf. hefur annast rekstur og viðhald íslenska loftvarnarkerfisins allt frá árinu 1997 þegar kerfið var formlega tekið í notkun. Fyrir þann tíma höfðu starfsmenn Kögunar unnið í Bandaríkjunum og á Íslandi við þróun og smíði kerfisins allt frá árinu 1989.
Loftskeytasvæðið er afgirt með hárri girðingu og vel fylgst með að óviðkomandi villist ekki inn fyrir hana.  Viðvörunarmerki eru á girðingunni þessa efnis. Svæðið er ekki girt af að ástæðulausu því hættulegt er fyrir ókunnuga að fara um það vegna rafmagnsstrauma nálægt fjarskiptamöstrunum. Strangar umgengisreglur gilda því þarna.
Þegar götur voru raktar innan girðingarinnar var byrjað að sunnanverðu, við Títublaðavörðuna. VarðaÞar sést gatan glögglega. Varða er við hana áður en gatan fer inn á raskað svæði (mastur). Gatan sést við strýtulagaðan hraunhól suðvestast í Eldvörpum, en svo heita gígaþyrping á suðausturhorni svæðisins. Vestan hennar liggur svo til bein gata áleiðis upp heiðina, samhliða gömlu hlykkjóttu götunni. Þarna er um að ræða hestvagnagatan, sem sést svo glögglega vestan í Lágafellinu, áfram um Lágar og upp í Blettahraunið, þar sem hætt hefur verið við endurbæturnar á gamla Skipsstígnum.

Skipsstígur

Varða er við götuna suðvestan húsa loftskeytastöðvarinnar. Þá hverfur gatan vegna fyrrum framkvæmda, en kemur síðan í ljós að nýju skammt norðar. Þar er varða á grónum strýtumynduðum hraunhól, Helghól. Sú trú var manna fyrrum að þar væri álfakirkja. Helghólslág eða Helghólslautir, grasi grónar, eru umhverfis hólinn. Frá honum liggur gatan upp með aflöngum berangurslegum hraunhól að austanverðu og beygir síðan til vinstri upp gróninga áleiðis að vörðu innst á honum (handan girðingarinnar). Hestvagnagatan liggur að sömu vörðu, en vestan í aflanga hraunhólnum (í beina línu). Þarna eru og gatnamót því önnur gata liggur frá vörðunni til suðausturs. Gatan sést skammt austar, hverfur síðan vegna framkvæmda (mastur), en kemur síðan aftur í ljós þar sem hún her yfir óraskað hæðardrag. Þar er varða. Frá henni liðast gatan niður hæðardragið að handan, hverfur í rask, en kemur síðan aftur í ljós á órsökuðu svæði (móa) austast á svæðinu. Þar eru tvö vörðubrot með stuttu millibili. Þarna fer gatan síðan undir girðinguna og er allgreinileg þar sem hún liðast áleiðis upp á hraunhaft á leið hennar í Kúadal (við innkomuna á þjóðveginum til Grindavíkur).
Sjá má legu gatnanna innan loftskeytastöðvarinnar á loftmyndinni hér að neðan.
Starfsmönnum loftskeytastöðvarinnar er þökkuð jákvæð viðbrögð og góða aðstoð við verkefnið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Götur innan loftskeytastöðvarinnar ofan Grindavík

Skipsstígur

Um var að ræða í gönguröð um hluta gamalla þjóðleiða á Suðurnesjum undir heitinu “Af stað” til tengingar loftmyndagönguleiðarkorti Ferðamálasamtaka Suðurnesja er þau gáfu út fyrir trekvart misserum síðan.

Bláa lónið

Bláa lónið – upphaf göngu.

Markmiðið er bæði að hvetja fólk til að nýta sér hina skemmtilegu og fornumbúnu þjóðleiðir á Suðurnesjum til útivistar, fróðleiks og hollrar hreyfingar og um leið rifja upp þær aðstæður er forfeður þeirra buggu við fyrrum – áður en sjálfrennireiðaakvegir og síðar mótorbílaakbrautir tóku við af hinum gömlu þarfaleiðum fótgangandi fólks og skepna á millum bæja, sveita og héraða.
Að þessu sinni var gengið frá Bláa lóninu í boði Grindavíkurbæjar. Ætlunin var að ganga inn á Skipsstíg, fylgja honum til suðurs að Dýrfinnuhelli, síðan Reykjaveginum til vesturs að Árnastíg, skoða hvar B17 (Fljúgandi virkið) nauðlenti árið í apríl 1943, ganga síðan Árnastíg áleiðis að Húsatóftum og skoða m.a. í leiðinni fornar hlaðnar refagildrur og þjóðsögukennda staði.

Bláa lónið

Gengið frá Bláa lóninu.

Til að þurfa ekki að fylgja hinnum nútímalega og afsaltlagða nútímaþjóðvegi milli Bláa lónsins og Grindavíkur í suðri, var ákveðið að ganga um slétt moasahraun samnefnt hinum Illa og um það inn á Skipsstíg sunnan Lats (einn af gígum eldri hluta Eldvarpanna). Þessi hluti er vel greiðfær. Framundan sást vörðuröðin á Skipsstíg þar sem hann liggur millum Njarðvíkna og Grindavíkur. Sólin skein að sunnanverðu, en að norðanverðu virtist dumbungur yfrum.

Skipsstígur

Gengið að Skipsstíg.

Þegar komið var inn á Skipsstíg var augljós og áþreifanlegu meðvindur til Grindavíkur. Hin gamla gata sást vel þar sem hún var mörkuð ofan í hraunhelluna vestan Skipsstígshrauns (Illahrauns) þar sem hún liðaðist vörðumprýdd, fullreistar eða hálffallnar um Bræðrahraun og síðan áfram sem slík með Blettahrauni. Á stöku stað sáust vel mannanna verk á hlöðnum köntum eða brúm stígsins, en þegar nær dró Lágafelli kom atvinnubótavegarkaflinn frá því skömmu eftir aldarmótin 1900 smám saman í ljós. Segja má með sanni að þarna er einn fallegasti kafli vegagerðar frá þessum tíma og sá hluti sem einna helst þarf að varðveita.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Við þennan hluta Reykjavegar má t.d. sjá hraunæðar sem burnirótin hefur náð að nýta sér sem skjól, líkt og tófugrasið.
Þegar komið var að Dýrfinnuhelli var saga hans rifjuð upp. Segir sagan að samnefnd kona hafi dvalið með börn sín eftir að hafa flúið undan Tyrkjunum er herjuðu á Grindavík að morgni 20. júní 1627 Tyrkjasagan. Dvaldi hún þarna um skamman tíma, uns talið var óhætt að halda áný til fyrri híbýla í Grindavík. Opið snýr mót norðri, en botn hellisins er nú sandumorpinn. Í Nágrenninu eru einnig margir ákjósanlegir felustaðir.

Skipsstígur

Gengið um Skipsstíg.

Þá var gengið spölkorn til baka og vent til vesturs inn á Reykjaveginn. Í fljótu bragði virðist Reykjanesskaginn hrjóstugur og illur yfirferðar og því ekki vel fallinn til gönguferða. Við nánari skoðun kemur annað í ljós. Hann hefur upp á flest að bjóða sem göngufólk leitar að. Hraunið og auðnin hefur aðdráttarafl ekki síður en gróskumikið gróðurlendi þótt á annan hátt sé. Víða leynast fallegar gróðurvinjar og mosinn í hraununum er sérkennilegur. Þar eru líka einstök náttúrufyrirbrigði eins og hraunsprungur og misgengi, eldgígar, hrauntraðir, jarðhitasvæði, hellar og fuglabjörg. Þótt fjölbreytt mannlíf hafi aldrei verið á þeim slóðum sem Reykjavegurinn liggur um eru samt til sögur og minjar um mannlíf á þeirri leið. Gamlar götur líkar Árnastíg liggja víða um Reykjanesskagann og skera eða tengjast Reykjaveginum á mörgum stöðum.

Blá lónið

Helluhraun.

Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlantshafshryggnum mikla sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 13. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir tólf til fimmtán þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Reykjavegur

Reykjavegur – Þorbjarnarfell fjær.

Reykjavegurinn sem liggur um endilangan Reykjanesskagann var stikaður sumarið 1996. Hann liggur frá Reykjanesi að Nesjavöllum og er um 130 km langur eða meira en tvöföld vegalengd Laugavegarins margfræga á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Víða hafa myndast gönguslóðar á leiðinni, sérstaklega þar sem hún liggur um mosavaxin hraun. Á öðrum stöðum liggur leiðin um gamlar götur sem öðlast hafa nýjan tilgang. Einn helsti kostur Reykjavegarins auk þess að vera mjög skemmtileg gönguleið, er hvað hann er nálægt byggð og aðkoma að honum þægileg á mörgum stöðum án þess að fólk verði vart við skarkala þéttbýlisins. Hann liggur um óbyggð svæði og fullnægir því vel þörfum fólks sem vill vera í náinni snertingu við náttúruna og hvíla líkama og sál frá hraða hversdagsins.

Bláa lónið

Gengið um Skipsstíg.

Skömmu áður en komið var inn á aðra forna þjóðleið milli Húsatópta og Njarvíkna var beygt inn á að því er vitist gamall stígur. Um var hins vegar að ræða far eftir snertingu B17 flugvélar er nauðlenti þarna árið 1943. Sjá má á jörðinni brak úr vélinni þar sem neðsti hluti hennar, byssuturninn, varð hrauninu smám saman að bráð.

Skammt norðar má sjá kringlumótt í hrauninu, sem endar skammt norðar. Þar má einnig sjá nokkurt brak. Það er tilkomið vegna aðgerða til að bjarga leifum af flugvélinni (Fljúgandi virkinu) sem varð eldsneytislaus þarna og lenti á hrauninu.

Eldvörp

B-17 vélin í Eldvarpahrauni 1943.

Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal “er brakið brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943. Mannbjörg varð meðal fimma manna áhafnarinnar, sem verður að teljast gleðilegt af annars fjölþættari flugvélaslysasögu svæðisins, en a.m.k. fimm aðrar flugvélar Bandaríkjamanna fóru niður á sviðuðum slóðum á svipuðum tíma. En má sjá leifar þeirra.

Bláa lónið

Áning.

Götu þeirri er herbílar fluttu sundurskorna flugvélina var fylgt inn á Árnastíg. Sá stígur er ágætt dæmi um aðra forna þjóðleið milli Njarvíkna og Húsatófta, þriðja hverfis Grindavíkur. Skipsstígur lá niður að Járngerðarstöðum, en það þriðja, senn hefur ónefnt verið, Þórkötlustaðahverfið, fékk afleggjara af Skipsstíg.
Þar sem Árnastígur beygir til norðurs inn á hraunhelluna að Eldvörpum eru nokkrir hraunhólar, Vegamótahólar. Þar greinist leiðin, annars vegar að Húsatóptum um Árnastíg og hins vegar að Járngerðarstöðum um Járngerðarstaðastíg. Mosinn er horfinn af þessu svæði, en hann brann um ´56 þegar brottflognir Bandaríkjamenn voru þarna við heræfingar. Eftir svo langan tíma hefur hann enn ekki náð sér á strik sem skyldi, enda tekur mosann u.þ.b. öld að ná jafnvægi þar sem honum hefur verið raskað.

Sundvarða í Sundvörðuhrauni

Sundvarðan í Sundvörðuhrauni.

Skammt neðan við austanvert Sundvörðuhraun, þar sem er Sundvarðan, klettastandur upp úr hrauninu, fyrrum mið Grindvíkinga. Á hábrúninni eru þrjár vörður; afstaða þeirra vísa veginn á gatnamót, sem þarna eru skammt frá, annars egar áfram um Ánarstíg og hins vegar um Brauðstíg, að Eldvörpum og framfjá svonefndum “Tyrkjabyrgjum”. Þau eru í hraunkrika sunnan undir Sundvörðuhrauni. Þetta eru 10 tóftir, auk hlaðinnar refagildru, en tvær tóftanna eru uppi á hraunbrúninni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstór en stærsta rústin er um það bil 4 x 1,5 m á stærð. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.

Brauðstígur

Gengið um Brauðstíg í Eldvörpum.

Þegar komið var að gatnamótum ofan við sauðfjárvarnargirðingu þótti ástæða til að staldra við. Þvergatan til vinstri nefndist Brauðstígur. Hann fór fólk frá Húsatóftum uppí Eldvörp til að baka brauð við hverahitann.
Skriðdrekaslóði liggur víða ofan á hinni gömlu þjóðleið Árnastígs. Síðan hefur honum verið haldið við með akstri annarra ökutækja. Þó má sumsstaðar sjá gömlu götuna til hliðar við slóðann. Á a.m.k. tveimur stöðum eru hlaðnar brýr á henni.

Árnastígur liggur yfir mjóa apalhrauntungu úr Sundvörðuhrauni og inn á slétt helluhraun Eldvarpahrauns.Fallegar hraunæðar, hraunreipi, katlar og önnur fyrirbæri varða leiðina upp fyrir suðaustanverð Sundvörðuhraunið. Sundvörðuna, hár hraunstöpull í austanverðu hrauninu, var mið sjómanna fyrrum, en vestan við Stekkjartúnskamp við Arfadalsvík eru klettabásar, nefndir Sölvabásar.

Skipsstígur

Við Árnastíg. Þorbjarnarfell fjær.

Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni. Í örnefnaskrá segir að “þegar þær bar í háan hraunstand [Sundvörðuna í Sundvöðruhrauni] í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.” Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Síðasta varðan (nú sýnileg) á Árnastíg er skammt ofan við golfvöllinn. Hægra megin við hana liðast gamla gatan um móann áleiðis að lágri hraunbrekku á vinstri hönd. Lengra til hægri eru þrjár hlaðnar refagildrur. Búið er að rjúfa þakið á einni þeirra, en hinar tvær hafa fengið að halda sér eins og þær voru upphaflega byggðar.
Í stað þess að troða á væntumþykjanlegum grasflötum og grínum golfarana var ákveðið að fylgja striðdrekaslóðanum til austurs og nálgast gamlar hlaðnar refagildrur úr þeirri áttinni. Um er að ræða þrjár slíkar á tiltölulega litu svæði ofan Húsatófta. Vel má enn sjá lögun þeirra og notkunarforn,þrátt fyrir að þær sems líkar hafi ekki verið brúkaðar lengi.

Árnastígur

Árnastígur.

Gengið var að Húsatóptum (-tóftum, -tóttum) um Baðstofu (vatnsforðabúaðargjá Staðhverfinga og Hústóftinga). Hlélaust hefði gangan tekið u.þ.b. 2 klst, en með því að staldra við og skoða það er markverðast getur talist, s.s. jarðfræðifyrirbæri, jurtir, þjóðsögukennda staði og sjáanlegar minjar,tók ferðin tekið nálægt 4 klst.

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður, sem hverfið dregur nafn sitt af. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. “Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.” Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld “með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847).

Húsatóftir

Baðstofa.

Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta.
Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og “enn hætt við meiri skaða”. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: “Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.”

Túnakort

Húsatóftir – túnakort 1918.

“Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti”, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær.
“Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í “tóptum” þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú”, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903.

Húsatóptir

Húsatóptir – sjá má torfbæinn v.m.

Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með “binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri”. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, “með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri”.

Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við núja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

“Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör”, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.
Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.

Staður

Kengur í Bindiskeri.

Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir “að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn”.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu 1840 segir: “Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.” Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.
Verslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á. Skipin lágu milli hans og Barlestarskers. Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð).

Staður

Staður og Húsatóftir í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum á 17. öld.

Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn “fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…”, segir í Sögu Grindavíkur.
Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Kaupsigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og “gamla pakkhús”, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.
Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. “Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn”, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.

Húsatóftir

Nónvörður.

Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum.
Sagan segir að “þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.” Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá.

Árnastígur

Gengið um Árnastíg norðanverðan.

Syðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg (Skipsstíg) á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.
Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (þ.e.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.
Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið “undir straum”, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa “rekaspýtu í augað”.

Árnastígur

Upphaf Árnastígs við Húsatóftir.

Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Baðstofa er djúp gjá ofan Tófta þar sem Staðhverfingar fengu í velþóknun heimamanna að sækja sér ferskst vatn um langa tíð. Það er nú helst notað til handa sandverfu- og silungsrækt og fyrrum laxeldisstöð neðan og austan Tófta.
Þegar komið var að golfvellinum á Húsatóptum mátti sjá Þorbjarnarfellið (243 m.y.s.) í norðaustri, en það var ágætt kennileiti alla gönguna.
Frábært veður.

Árnastígur

Varða við Árnastíg.