Skipsstígur

Fræðingar fetuðu sig hægt og rólega að Gíslhelli, brögðuðu á jarðveginum, lyktuðu af berginu og mátu sólstöðuna. Þegjandi skoðuðu þeir hellinn og nágrenni, mældu, skráðu hjá sér, litu hver á annan, kinkuðu kolli og röltu síðan sólbakaða bakaleiðina í hægðum sínum. Skyldi hellirinn hafa geta hýst a.m.k. 160 menn samtímis? Hvernig geta útilegumenn hafa hafst við svo nálægt götu að ekki vitnaðist? Gæti miðhlutinn hafa verið reftur, en þakið fallið niður? Hvað segir undirlægt hrossataðið um notkun? Niðurstöðu er að vænta fljótlega.

Gíslhellir

Í Gíslhelli.

Ýmsar tillögur og getgátur hafa komið fram um Gíslhelli. Hér eru nokkrar þeirra:
a. Gæti hugsanlega hafa tengst einhverjum atburði svæðisins. Til er t.a.m. sögn af ræningjum í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.
b. Gæti hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli (hellirinn athvarf smala og Lágirnar nátthagi).
c. Gæti hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
d. Gæti hafa verið hluti af búðum vegavinnumanna er byggðu Grindarvíkurveginn á árunum 1914-1918. Hlóðu mikið á mörgum stöðum. Voru m.a. í Innra-Njarðvíkurseli um tíma.
e. Gæti hafa verið skjól fyrir Tyrkjunum 1627.
f. Gæti hafa verið skjól eða tímabundinn felustaður, t.d. útilegumanna, er herjuðu á vegfarendur um tíma, líkt og við Selsvelli.
g. Gæti hafa verið samkomustaður þeirra er tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu 1532 (söfnuðust saman við Þórðarfell).
h. Gæti hafa verið athvarf refaskyttna.
i. Gæti hafa verið áningarstaður á milli Grindavíkur og Njarðvíkur (vantar þá auðkennið).
j. Gæti hafa verið til fleiri en einna nota í gegnum tíðina.

Fleiri ágætar hugmyndir hafa komið fram. Eitt er þó víst og skiptir mestu; staðurinn er fallegur og allar minjar skipta jafn miklu máli – án tillits til aldurs eða notagildis – hver svo sem niðurstaðan kemur til með að verða.

Gíslhellir

Gíslhellir.