Færslur

Brimketill

Gengið var að Brimkatli austan við Mölvík. Brimið lék við ketilinn sem og hamraða ströndina. Ægir skellti sér af og til upp í skálina og lék sér þar um stund eða þangað til hann renndi sér úr henni aftur.

Brimketill

Brimketill vestast á Staðarbergi.

Haldið var út með ströndinni til vesturs. Um er að ræða þægilega sandfjöru með smá klappalabbi neðan við misheppnuðu laxeldisstöðina ofan Mölvíkur. Stór steyptur stokkur gengur þar niður í fjöruna, kjörinn myndatökustaður yfir víkina. Ofan við kambinn er fúlatjörn þar sem fuglar undur hag sínum vel. Krían, sandlóan, spóinn og fleiri fuglar gleymdu sér þar í sátt og samlyndi.
Uppi á nefinu milli Mölvíkur og Sandvíkur er stórbrotið útsýni yfir að Háleyjabungu, Krossavíkurbjargi og Hrafnkelsstaðabergi til vesturs og yfir Mölvík og Staðarberg til austurs. Utan við heitir Víkur.

Háleyjar

Tóft undir Háleyjarbungu.

Sandfjörur er með Sandvík, en auk reka er þar að finna mikinn fjölda plantna er setja sérstakan svip á umhverfið. Annars vegar er dökkur sandurinn og hins vegar litskrúðugar plöntur inni á milli steina og sandaldna.
Undir Háleyjabungu er forn tóft. Einhvers staðar segir að tóftin hafi verið útver, nýtt frá Skálholti, líklega sem rekavinnsla eða jafnvel lending undir bungunni. Nýlega hefur verið grafinn þverskurður í tóftina, líklega til að grennslast fyrir um aldur hennar. Neðan hennar er vik inn í ströndina, varin af hraunrana sjávarmegin, Háleyjahlein. Þarna rak m.a. lík óþekkta sjómannsins, sem nú hvílir í Fossvogskirkjugarði.

Háleyjar

Varða á Háleyjabungu.

Á gígbarmi Háleyjabungu er gömul varða, nú orðin gróin. Skammt norðan hennar er önnur nýrri. Gígurinn sjálfur er hin fallegasta náttúrusmíð. Ef hann yrði gerður aðgengilegur hefði hann síður minna aðdráttarafl fyrir ferðamenn en t.d. Kerið í Grímsnesi. Háleyjabunga er í umdæmi Grindavíkur svo það hermir upp á þarlenda að gera hann sýnilegan áhugasömum og forvitnum vegfarendum á leið um svæðið.
Af Háleyjabungu er ágætt útsýni yfir að Sýrfelli og Hreiðrinu (Stampi) í norðri, Skálafelli í vestri og Grindavíkurfjöllunum í austri. Klofningahraun er áberandi þar á milli.

Brimketill

Brimketill.

Með alla þessa síbreytilega náttúrufegurð þar sem lýsing og lyndisveður spila sjálfgefna möguleika ætti varla að verða erfitt fyrir ráðendur að nýta sér þá ótrúlega ódýru framkvæmdir er gera myndu svæðið aðgengilegra fyrir ferðalöngum. Annars væri vel þess virði að fara yfir þetta svæði með það fyrir augum að opna það túrhestum á leið um Reykjanesið. Vegagerð þarna er ótrúlega auðveld og kostnaðarlítil.
Á þessari leið eru a.m.k. þrír staðir sem ferðamenn hefðu sérstakan áhuga á að skoða og væru tilvaldir til að staðnæmast við á ferð um Reykjanesið. Tiltölulega auðvelt væri að gera sæmilegan slóða upp að brún Háleyjabungu og upp á nefið milli Mölvíkur og Sandvíkur. Slóði liggur nú þegar að Brimkatlinum.
Veður var frábært – hiti og stilla. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Brimketill

Brimketill.

 

Háleyjar

Reynt var enn á ný við “Íslandsklukkuna” í Háleyjahlein undir Háleyjabungu. Háleyjarnar höfðu fyrr sýnt sig bera nafn með rentu. Þegar einn félaganna hafði fetað sig út á eina þeirra í nokkurri stillu tók sig allt í einu upp reið holskefla og skellti sér yfir klettana. Náði hann að beygja sig niður og halda sér uns álagið slotaði, enda maðurinn vanur Skálastrandastórsjóum og með eðlislæg viðbrögð í blóðinu. Þá var hann með FERLIRshúfuna á kollinum, en án hennar hefði getað farið illa.

Háleyjar

Háleyjahlein.

Stórstraumsfjaran dugði þó ekki til að þessu sinni. Ægir vildi ekki sleppa klukkunni. Lét hann bæði himinháar öldur af suðvestan og lúmsklæðandi undiröldu verja hana töku. Braut á skerjum og eyjum, hvítfyssandi særokið fyllti loftið og hellt var úr lárréttum regnhretum þess á milli. Sólin gægðist þó í gegnum sortann að baki liði sínu og var ekki laust við að hún glotti út í annað í öllum látunum, ekki ólíkt og Óli Jó. fyrrum.
Minkur, sem hafði verið að synda í rótinu, neitaði að færa sig. Hann náði að klóra sig upp á stein skammt undan landi og var þaðan vitni að leitinni á milli þess sem Ægir færði hann í kaf. Utar í Háleyjabungu mátti sjá andlit á þurs í berginu. Það var augsýnilega staðið vörð um klukkuna.

Háleyjar

Varða ofan Háleyja.

Einn FERLIRsfélaganna, húfulaus, ætlaði að sýnast djarfari en aðrir, kraflaði sig niður að sjóröndinni, en sleipt þangið slengdi honum um koll. Varð hann aumur allan hringinn eftir, en óstórbrotinn þó.
Helgi Gamalíasson hafði séð þessa klukku af og til síðan hann var smápatti – síðast fyrir 9 árum er hann var þarna á minkaveiðum í fjörunni sem svo oft áður.

Um tíu metra kafli við ströndina kom til greina svo auðvelt ætti að vera að finna hana – þegar færi gefst. Enda á op klukkunnar að vera hátt í 60 cm í þvermál og hæðin eftir því. Klukkan lá, að sögn, á hliðinni síðast þegar hún sást og sneri opið þá mót vestri. Hún á að vera í kvos á milli stórra steina á alla vegu.

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

Enginn veit hvaða klukka þetta er eða hvaðan hún er kominn. Úr því verður ekki skorið fyrr en tekist hefur að koma henni á þurrt. Talið er líklegt að Skálholtssbiskup hafi gert út frá Háleyjabungu um tíma, a.m.k. látið sveina sína liggja þar við, með von um reka. Hvort þeir hafi reynt að “egna” fyrir skip með ljósum í myrkri og vondum veðrum skal ósagt látið.
FERLIR varð frá að hverfa að þessu sinni, en er þó þrátt fyrir það skrefi nær takmarkinu. “Farin ferð skilar sínu, en ófarin engu”, segir jú máltækið. Og svo tekur það alltaf svolítinn tíma að sefa náttúruöflin.
Frábært veður – a.m.k. voru litbrigðin eftirminnileg.

Háleyjabunga

Háleyjabunga – gígur.

Háleyjar

Gerð var þriðja tilraunin til að ná “Íslandsklukku” þeirri er Helgi Gamalíasson frá Stað hafði sagst hafa séð í fjörunni neðan við Háleyjabungu fyrir alllöngu síðan er hann var þar við minkaveiðar. Helgi vissi sjálfur til þess að gripurinn hafi verið þarna í fjörunni í tugi ára.

Háleyjar

Háleyjar – spilakoppur.

Nú voru þátttakendur orðnir betur undirbúnir en áður, höfðu reynslu af svæðinu, voru vel gallaðir og tilbúnir að bjóða náttúruöflunum byrginn, en í fyrri tilraunum höfðu þau látið öllum illum látum á meðan á leitum stóð.
Þrátt fyrir stilltan sjó með ströndinni brimaði talsvert neðan við Bunguna. Sjór gekk þó ekki yfir hleinina. Á meðan aðrir leituðu af sér allan grun beggja vegna sjávarmarka fór einn þátttakenda út á Háleyjahleinina svona til að draga athygli aflanna að sér, ef á þyrfti að halda. Enda kom það síðar á daginn að honum tókst það með ágætum.

Háleyjar

Háleyjahlein – brimið.

Leitað var í klofstígvélum eins langt frá landi og mögulegt var og skoðað var undir hvern stein ofan sjávarmarka. Eftir allnokkra leit fram og til baka, án þess að nokkrum kæmi til hugar að gefast upp, var eins og kippt hefði verið í einn þátttakandann í fjörunni. Hann féll við og viti menn; þarna var “klukkan” skorðuð á milli stórra steina. Gengið hafði verið nokkrum sinnum framhjá henni, án þess að hún gæfi kost á sýnileika.
Skyndilega gekk sjórinn yfir hleinina með miklum látum. Það var sem Ægir hafi verið vakinn og hann risið upp til að fylgjast með hvað væri nú um að vera. Ofurhuginn hvarf í holskefluna, en barðist við Ægi og ekki síst fyrir því að halda sér við hleinina. Hefði sjórinn náð að skola honum yfir hana og yfir í víkina milli hennar og lands hefði mátt spyrja að leikslokum.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Útsogið úr víkinni var mikið og ofurhuginn hefði sennilega skolast á haf út án þess að geta haft nokkuð um það ráðið. Önnur holskefla gekk ufir hleinina, en maðurinn gat þokað sér nær landi með því að halda sér föstum í FERLIRshúfuderið með annarri hendi og þreifa sig áfram með hinni.

Á meðan var grafið hratt frá gripnum með járnkarli og hann losaður. Einn FERLIRsfélaganna, tók hann síðan í fangið og bar áleiðis á land. Í þá mund komst ofurhuginn heill og höldnu til lands, blautur og hrakinn. Ef hann hefði ekki haft húfuna er ekki að vita hvert hann hefði farið eða endað.

Saltfiskssetur Íslands

Saltfiskssetur Íslands.

“Klukkunni” var komið fyrir utan við aðaldyr Saltfiskseturs Íslands í Grindavík, eins og um var talað. Að því búnu var þátttakendum boðið í kaffi þar innan dyra.
Sú sögn er um Háleyjahlein að þar hafi brak úr þilfarsbát (Helga) frá Vestmannaeyjum rekið á land eftir að eldur kom upp í honum utan við ströndina. Ekki er ólíklegt að gripurinn gæti hafa verið úr þeim bát.
Þeir, sem eiga leið um Saltfisksetrið, geta barið klukkulaga ryðgaðan gripinn augum, þar sem hann stendur á stéttinni við aðaldyrnar að safninu.

Háleyjabunga

Háleyjabunga – gígur.